Print

Mál nr. 175/2017

Arion banki hf. (Karl Óttar Pétursson lögmaður)
gegn
Jóni Viðari Þorsteinssyni (Árni Pálsson lögmaður)
Lykilorð
  • Fasteign
  • Jörð
  • Veðsetning
  • Ógilding samnings
Reifun

J höfðaði mál á hendur bankanum A hf. og krafðist þess að veðleyfi, sem hann hafði veitt í 50% eignarhlut sínum í jörð, til tryggingar veðskuldabréfi útgefnu af syni sínum S sem átti hinn helming jarðarinnar, yrði ógilt með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Byggði J á því að samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001 hafi borið að meta greiðslugetu S og kynna J niðurstöðu þess mats áður en hann veitti veðleyfið. A hf. hélt því fram að ekki hefði verið skylt að framkvæma greiðslumat þar sem lánið hefði verið veitt vegna atvinnurekstrar. Héraðsdómur féllst á málatilbúnað J og ógilti veðleyfið. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur hvernig jörðin, ásamt annarri jörð, hafði komist í eigu J og S en hið umþrætta lán hafði S tekið til að greiða upp eldri skuldir sem hann hafði stofnað til vegna kaupa á eignarhlut sínum í jörðunum. Þá rakti rétturinn hvernig jarðirnar hefðu verið nýttar, en S hafði leigt J sinn hluta af jörðunum og starfað hjá honum sem launþegi. Taldi Hæstiréttur að ráða mætti af skattskilum S að hann hefði sjálfur litið svo á að hann hefði á hendi atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar og yrði því að leggja til grundvallar að hann hefði leitað eftir láninu í tengslum við atvinnurekstur. Hefði því ekki borið að fylgja ákvæðum samkomulagsins frá 2001 við lánveitinguna. Við mat á því að öðru leyti hvort beita ætti 36. gr. laga nr. 7/1936 í málinu taldi Hæstiréttur að líta yrði til þess að S hefði tekið lánið til að greiða upp eldra lán sem einnig hefði verið með veði í eignarhlut J í jörðinni og að leggja yrði til grundvallar að J hefði haft hag af kaupum S á eignarhluta í jörðunum. Þá yrði að líta til þess að S hefði aflað stærsta hluta tekna sinna annars vegar með vinnulaunum frá J og hins vegar með leigutekjum af jörðunum og að J hafi hlotið að vera kunnugt um að þær tekjur hefðu ekki dugað fyrir mánaðarlegum greiðslum af láninu. Að lokum yrði að líta til þess að þótt vanhöld hefðu orðið á því að A hf. hefði gætt tilkynningarskyldu sinnar eftir lögum nr. 32/2009 yrði ekki annað ráðið en að hún hafi verið virt frá því að skuldin var síðast sett í skil og þar til eftirstöðvar hennar voru gjaldfelldar. Að virtum þessum atriðum í heild taldi Hæstiréttur að ekki væru efni til að verða við dómkröfu J og var A hf. því sýknaður.

                                                   Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. mars 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu liggur fyrir að móðir stefnda, Steingerður Jósavinsdóttir, fékk leyfi 22. maí 1991 til að sitja í óskiptu búi eftir andlát föður hans, en helsta eign búsins mun þá hafa verið jörðin Brakandi, sem nú er í Hörgárbyggð, ásamt hluta af jörðinni Bláteigi í sama sveitarfélagi. Munu þessar jarðeignir hafa verið nýttar saman til búrekstrar, sem stefndi hafi haft á hendi með föður sínum frá árinu 1973 en tekið svo einn yfir 1980. Steingerður gaf út afsal til stefnda 2. desember 2005 fyrir helmingi jarðarinnar Brakanda og helmingi eignarhluta síns í Bláteigi, sem ekki var nánar tilgreindur, ásamt sama hlutfalli í húsum, ræktun og hlunnindum á jörðunum. Afsalinu var þinglýst 5. sama mánaðar, en stefndi mun ekki hafa innt af hendi endurgjald fyrir þessar eignir í tengslum við þá ráðstöfun. Þá undirrituðu Steingerður og sonur stefnda, Sigurður Elvar Viðarsson, skjal 17. ágúst 2006, sem var í einu lagi kaupsamningur og afsal, og var því þinglýst degi síðar. Þar keypti Sigurður helmingshlut Steingerðar í Brakanda og fjórðungshlut í Bláteigi ásamt sama hlutfalli í húsum, ræktun og hlunnindum, en einnig fylgdi í kaupunum íbúðarhús í landi Brakanda, sem sagt var að stæði á lóð með sérstöku landnúmeri. Kaupverð þessara eigna var 20.280.000 krónur og skyldi það greitt að fullu við undirritun skjalsins. Þar var einnig tekið fram að veðskuldir, sem hvíldu á eignunum, væru seljanda óviðkomandi, en fimm af þessum skuldum við nafngreinda lánardrottna væru „á ábyrgð“ stefnda, sem ætti „hinn helming jarðarinnar“, og ein þeirra, við Sparisjóð Norðlendinga, væri „á ábyrgð kaupanda.“ Í framhaldi af þessu tók stefndi framangreindar eignir Sigurðar að frátöldu íbúðarhúsi á leigu með samningi 30. júní 2007, sem gilti frá 1. janúar sama ár, fyrir 100.000 krónur á mánuði, en sú fjárhæð skyldi breytast eftir vísitölu neysluverðs. Fyrir liggur í málinu að frá síðastnefndum degi hefur Sigurður verið skráður hjá ríkisskattstjóra sem einstaklingur í atvinnurekstri í greininni „sauðfjár- og geitarækt“, en samkvæmt framburði stefnda og Sigurðar fyrir dómi hefur hann frá því um þær mundir starfað sem launþegi hjá stefnda við búrekstur.

Áfrýjandi hefur lagt fram í Hæstarétti veðskuldabréf að fjárhæð 3.870.000 krónur, sem Sigurður gaf út til Sparisjóðs Norðlendinga 10. mars 2005, en skuld þessa, sem bundin var vísitölu neysluverðs og bar 5,5% ársvexti, átti að endurgreiða á fimmtán árum með jöfnum mánaðarlegum afborgunum. Skuldabréfið var síðan áritað um að greiðsluskilmálum hafi verið breytt 10. september 2007 og 12. mars 2008. Einnig hefur áfrýjandi lagt fram tryggingarbréf, sem Sigurður gaf út til sama sparisjóðs 22. ágúst 2006, fyrir skuldum að fjárhæð allt að 26.000.000 krónur, sem bundin væri vísitölu neysluverðs. Fyrir skuldbindingum samkvæmt báðum þessum bréfum, sem var þinglýst 15. mars 2005 og 23. ágúst 2006, var jörðin Brakandi sett að veði að baki fimm eldri veðskuldum, en í fyrirsögn tryggingarbréfsins var tekið fram að það væri „tryggt með rekstrarveði í fasteign og rekstrartækjum“. Steingerður ritaði sem þinglýstur eigandi jarðarinnar undir yfirlýsingu á skuldabréfinu um samþykki sitt fyrir veðsetningu samkvæmt því, en stefndi gerði það sama að því er tryggingarbréfið varðar. Í skýrslu fyrir dómi kvaðst Sigurður hafa staðið að þessu til að afla fjár til kaupa á fyrrnefndum eignum og hafi stefndi verið með í ráðum um það.

Tvö systkin stefnda höfðuðu mál á hendur honum 28. nóvember 2006 og kröfðust þess á grundvelli 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 að rift yrði gjöf, sem hann hafi fengið úr hendi Steingerðar með fyrrnefndu afsali 2. desember 2005. Héraðsdómur tók þá kröfu til greina með dómi 25. október 2007, sem stefndi áfrýjaði 15. janúar 2008 og staðfestur var með dómi Hæstaréttar 9. október sama ár í máli nr. 23/2008. Undir rekstri þess máls lést Steingerður 31. október 2007 og var dánarbú hennar síðan tekið til opinberra skipta 23. maí 2008, en þannig virðist hafa verið litið svo á að fullnægt væri skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 15. gr. erfðalaga fyrir höfðun málsins.

Eftir að héraðsdóminum frá 25. október 2007 var áfrýjað til Hæstaréttar gaf Sigurður út skuldabréf 10. apríl 2008 til Kaupþings banka hf. fyrir „jafnvirði“ 30.000.000 króna í þremur erlendum gjaldmiðlum í tilteknum hlutföllum, en skuld þessi, sem bera átti 7,48% ársvexti, skyldi greidd á 30 árum með jöfnum mánaðarlegum afborgunum. Til tryggingar skuldinni var jörðin Brakandi sett að veði, en þó án fyrrnefnds íbúðarhúss í eigu Sigurðar, og áritaði stefndi skuldabréfið um samþykki sitt fyrir þeirri veðsetningu. Í fyrirsögn skuldabréfsins var vísað til þess að í því væri kveðið á um „veð í bújörð með rekstrartækjum“, en því til samræmis sagði meðal annars í bréfinu: „Jörðin er veðsett með öllum gögnum og gæðum, - húsum, mannvirkjum, landréttindum, hlunnindum, greiðslumarki (framleiðslurétti) og öllum öðrum réttindum, hverju nafni sem nefnast, - sem þessum eignum fylgja og fylgja ber. Bújörðin er veðsett ásamt öllum þeim rekstrartækjum skuldara/veðsala sem notuð eru við atvinnurekstur í landbúnaði. Með rekstrartækjum er átt við áhöld, vélar og tæki önnur en skráningarskyld ökutæki, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 75/1997. Veðsala er óheimilt að skilja greiðslumark bújarðar frá jörðinni, nema að fengnu og þinglýstu samþykki veðhafa.“ Þá er þess að geta að í skuldabréfinu sagði einnig: „Skriflegar upplýsingar um lán þetta, sem skylt er að veita skv. l. nr. 121/1994 um neytendalán, fylgja skuldabréfi þessu og hafa verið kynntar skuldara.“ Í málinu hafa ekki verið lögð fram gögn um aðdraganda þessarar lántöku. Á hinn bóginn liggur fyrir yfirlit frá Kaupþingi banka hf. um heildarlántökukostnað ásamt greiðsluáætlun og var það dagsett sama dag og skuldabréfið. Í yfirlitinu var tekið fram að um „neytendalán“ væri að ræða, en skjal þetta, sem stefndi lagði fram í málinu, undirritaði Sigurður ásamt starfsmanni bankans. Þar kom meðal annars fram að samanlögð fjárhæð afborgunar og vaxta á fyrsta gjalddaga 15. maí 2008 yrði 302.100 krónur, en greiðslur færu lækkandi á hverjum gjalddaga til þess síðasta, 15. apríl 2038, þegar afborgun og vextir yrðu samtals 84.453 krónur. Óumdeilt er að skriflegt mat á greiðslugetu Sigurðar var ekki gert í tengslum við útgáfu skuldabréfsins, sem nú tilheyrir áfrýjanda á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 22. október 2008. Af framburði Sigurðar fyrir héraðsdómi verður ráðið að lán þetta hafi verið tekið til að greiða upp skuldir, sem hann stofnaði til samkvæmt áðursögðu við Sparisjóð Norðlendinga í tengslum við kaup sín af Steingerði. Ástæðuna fyrir þessari nýju lántöku kvað hann hafa verið þá að lánin frá sparisjóðnum hafi verið orðin óhagstæð og Kaupþing banki hf. boðið betur, en ítrekað aðspurður sagðist hann ekki hafa ráðfært sig við stefnda um þetta.

Eftir gögnum málsins lauk opinberum skiptum á dánarbúi Steingerðar 15. desember 2010. Fékk stefndi þar að arfi helmingshlut dánarbúsins í jörðinni Brakanda og fjórðungshlut í Bláteigi með öllum gögnum og gæðum.

Að því er varðar skuldina, sem Sigurður stofnaði til við Kaupþing banka hf. með skuldabréfinu frá 10. apríl 2008, er þess að geta að skilmálum um endurgreiðslu hennar var breytt með samningum Sigurðar við áfrýjanda 23. febrúar og 31. mars 2009, sem áritaðir voru af skiptastjóra í dánarbúi Steingerðar um samþykki þinglýsts eiganda hluta af jörðinni Brakanda. Af gögnum málsins er ekki ljóst hvort skuldabréfið hafi framan af eftir þetta verið í skilum. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda var krafa samkvæmt bréfinu reiknuð út á nýjan leik án athugasemda af hendi Sigurðar 14. nóvember 2011 og 21. febrúar 2013 vegna ólögmætra ákvæða þess um gengistryggingu og hafi skuldin talist vera í innlendum gjaldmiðli upp frá fyrrnefnda deginum þegar hún hafi lækkað vegna umreiknings úr 60.133.572 krónum í 39.311.606 krónur. Fyrir liggur að áfrýjandi tilkynnti stefnda sem ábyrgðarmanni í fyrsta sinn um vanskil afborgunar og vaxta af skuldabréfinu á gjalddaga 15. nóvember 2012, en af svonefndri áramótatilkynningu, sem áfrýjandi sendi honum síðan 5. febrúar 2013 um vanskil í árslok 2012, verður þó ráðið að þau hafi staðið í lengri tíma. Samkvæmt sams konar tilkynningum frá áfrýjanda til stefnda, sem vörðuðu stöðu skuldarinnar í lok áranna 2013 og 2014, virðist sem vanskilin hafi aukist enn á fyrrnefnda árinu, en minnkað á hinn bóginn á því síðarnefnda. Í málatilbúnaði áfrýjanda er staðhæft að skuld Sigurðar hafi verið komið í skil á árinu 2011 og aftur 2014, en hvorki hafi dráttarvextir né kostnaður bæst við höfuðstól hennar í tengslum við það.

Stefndi ritaði bréf til áfrýjanda 15. maí 2013, þar sem vísað var til þess að samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem fjármálafyrirtæki, Neytendasamtökin og stjórnvöld gerðu 1. nóvember 2001, hefði Kaupþingi banka hf. verið skylt að meta greiðslugetu Sigurðar í tengslum við lánveitingu með skuldabréfinu 10. apríl 2008, svo og að kynna stefnda niðurstöðu slíks mats áður en hann veitti veð fyrir kröfu samkvæmt skuldabréfinu í helmingshlut sínum í jörðinni Brakanda. Með því að þessu hafi ekki verið sinnt krafðist stefndi þess að áfrýjandi leysti þennan eignarhlut í jörðinni úr veðböndum. Áfrýjandi hafnaði þessari kröfu 28. nóvember 2013, en stefndi ítrekaði hana 27. desember 2013 og 10. júlí 2014 og hafnaði áfrýjandi henni öðru sinni 2. október 2014.

Áfrýjandi beindi til sýslumanns beiðni 5. maí 2015 um nauðungarsölu á jörðinni Brakanda á grundvelli heimildar í veðskuldabréfinu frá 10. apríl 2008. Í beiðninni kom meðal annars fram að krafa áfrýjanda samkvæmt bréfinu hafi verið í vanskilum frá 15. október 2014, hún hafi verið gjaldfelld og næmi samtals 47.202.161 krónu með vöxtum og kostnaði. Með bréfi til sýslumanns 17. júlí 2015 mótmælti stefndi því að nauðungarsala næði fram að ganga, en samkvæmt málatilbúnaði hans var þeim mótmælum hafnað. Virðist allt að einu ekki hafa orðið af frekari aðgerðum við nauðungarsöluna. Í kjölfarið höfðaði stefndi mál þetta á hendur áfrýjanda 12. janúar 2016 með kröfu um að ógilt yrði leyfið, sem hann veitti Sigurði 10. apríl 2008 til að setja helmingshlut stefnda í jörðinni Brakanda að veði til tryggingar kröfu samkvæmt skuldabréfinu. Krafa þessi var tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi.

II

Í málinu hafa verið lögð fram skattframtöl Sigurðar Elvars Viðarssonar árin 2009, 2010 og 2011, en í hverju tilviki fyrir sig er um að ræða einstaklingsframtal ásamt landbúnaðarskýrslu og öðrum fylgiskjölum, sem vörðuðu atvinnurekstur hans á næstliðnu ári. Í einstaklingsframtali Sigurðar 2009 kom meðal annars fram að hann hafi á árinu 2008 fengið í launatekjur frá stefnda 1.560.000 krónur, en aðrar tekjur hans numið 12.000 krónum auk fjármagnstekna að fjárhæð 10.753 krónur. Í lok árs 2008 hafi hann átt fasteign, sem var tilgreind með heitinu „Brakandi lóð“ og að fasteignamatsverði 7.721.000 krónur, en þar hefur eftir fyrirliggjandi gögnum verið átt við íbúðarhúsið, sem hann keypti samkvæmt áðursögðu af Steingerði Jósavinsdóttur á árinu 2006 ásamt sérstakri lóð úr landi Brakanda. Aðrar eignir hans voru þrjár bifreiðir að samanlögðu andvirði 407.442 krónur auk bankainnstæðna að fjárhæð alls 21.067 krónur. Í framtalslið um skuldir og vaxtagjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota var greint frá skuld við Kaupþing banka hf., sem stofnað hafi verið til í apríl 2008, heildarfjárhæð eftirstöðva hennar væri 48.986.254 krónur og vaxtagjöld á árinu 2008 alls 2.308.525 krónur, en aðeins 20% af skuld þessari og vöxtum voru þó talin snúa að íbúðarhúsnæðinu og hafi þannig eftirstöðvar þess hluta skuldarinnar í árslok 2008 numið 9.797.251 krónu og vaxtagjöld af honum 461.705 krónum. Í framtalsgögnum 2009 varðandi atvinnurekstur Sigurðar 2008 var á hinn bóginn gerð grein fyrir eignarhlut hans í Brakanda og Bláteigi, annars vegar að andvirði samtals 13.330.374 krónur vegna ræktunar og útihúsa þegar tillit hafi verið tekið til fyrningar á árinu og hins vegar að fasteignamatsverði 10.586.250 krónur vegna lands og hlunninda, auk bústofns að matsverði alls 370.600 krónur, en til hans var talinn tiltekinn fjöldi hrossa og sauðfjár. Skuldir vegna atvinnurekstrarins hafi annars vegar verið við ótilgreinda lánastofnun, 39.189.003 krónur í árslok 2008 og vextir af henni numið 1.846.820 krónum á því ári, og hins vegar 17.570 krónur vegna ógreidds virðisaukaskatts. Þessi skuld við lánastofnun hefur bersýnilega verið þau 80% af heildarskuld Sigurðar við áfrýjanda í loks árs 2008, sem ekki voru tekin upp í einstaklingsframtal hans, og vaxtagjöldin, sem færð voru á þennan hátt undir atvinnurekstur hans, að sama skapi sá hluti af vöxtunum af heildarskuldinni við áfrýjanda, sem ekki var talinn í einstaklingsframtalinu. Þá kom fram að tekjur af atvinnurekstrinum á árinu 2008 hafi verið 201.905 krónur vegna söluverðs sauðfjárafurða auk 1.320.000 króna, sem væru „leiga fyrir bújörð“. Í framtalsgögnum Sigurðar 2010 og 2011 var á hliðstæðan hátt gerður greinarmunur á tekjum, gjöldum, eignum og skuldum annars vegar í einstaklingsframtali og hins vegar í framtali vegna atvinnurekstrar. Eignir og skuldir þau ár voru svo að segja þær sömu og í framtali 2009 að teknu tilliti til breyttra fjárhæða, tekjur voru einnig af sama uppruna og fjárhæð þeirra áþekk, en ekki er ástæða til að gera hér nánari grein fyrir þessum atriðum í framtölum 2010 og 2011.

Af framangreindu er ljóst að Sigurður hefur að minnsta kosti allt frá árinu 2008 í skiptum sínum við skattyfirvöld sjálfur litið svo á að hann hefði á hendi atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar, svo og að eignarhlutur hans í jörðunum Brakanda og Bláteigi að frátöldu íbúðarhúsi á sérgreindri lóð heyrði til þeirrar starfsemi ásamt 80% af skuld hans við áfrýjanda. Er engin ástæða til að ætla að þessi afstaða Sigurðar hafi verið bundin við skattskil hans. Í málinu liggur ekki fyrir hvaða upplýsingar Sigurður kunni að hafa veitt Kaupþingi banka hf. um fjármál sín eða stöðu að öðru leyti í tengslum við umsókn um lánið, sem veitt var með skuldabréfinu 10. apríl 2008, en að virtu framangreindu ásamt fyrrnefndum ákvæðum bréfsins um veðsetningu jarðarinnar Brakanda með rekstrartækjum verður að leggja til grundvallar að Sigurður hafi leitað eftir láninu í tengslum við atvinnurekstur, þótt hluti lánsins hafi í skattskilum talist snúa að kaupum á íbúðarhúsi. Er ekki unnt að líta svo á að skírskotun í skuldabréfinu til laga nr. 121/1994 eða ummæli um neytendalán í áðurnefndu yfirliti, sem Kaupþing banki hf. gerði 10. apríl 2008 í tengslum við lánveitinguna, geti fengið þessu breytt.

Í áðurnefndu samkomulagi fjármálafyrirtækja, Neytendasamtakanna og stjórnvalda frá 1. nóvember 2001, sem lagt hefur verið fram í Hæstarétti og stefndi hefur öðru fremur vísað til í röksemdum fyrir kröfu sinni, kemur meðal annars fram að ákvæði þess varði ábyrgð „á skuldum einstaklinga“, þar á meðal þegar „einstaklingur hefur gefið út leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings.“ Ekki er þar skilgreint hvað átt sé við með hugtakinu einstaklingur. Að því verður á hinn bóginn að gæta að í a. lið 4. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 var mælt svo fyrir að neytandi væri einstaklingur, sem ætti lánsviðskipti sem þau lög næðu til, enda væru viðskiptin ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu. Ekki eru efni til annars en að líta svo á að byggt hafi verið á þessari skilgreiningu í ákvæðum samkomulagsins, en af þessu leiðir að því hefur ekki verið ætlað að taka til tilvika, þar sem maður tæki lán vegna atvinnurekstrar síns eða maður í atvinnurekstri gengist í ábyrgð fyrir annan. Verður af þessum sökum ekki fallist á með stefnda að Kaupþingi banka hf. hafi við undirbúning lánveitingar með skuldabréfinu 10. apríl 2008 borið að fylgja ákvæðum samkomulagsins með því meðal annars að gera skriflegt mat á greiðslugetu Sigurðar og kynna það síðan stefnda sem fyrirhuguðum veðsala.

Þegar tekin er að öðru leyti afstaða til málsástæðna stefnda fyrir kröfu sinni, sem eingöngu eru reistar á 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, verður að beita heildstæðu mati á fyrirliggjandi atvikum með tilliti til þeirra atriða, sem um ræðir í 2. mgr. sömu lagagreinar, og meginreglna fjármunaréttar um skuldbindingargildi samninga, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 4. júní 2009 í máli nr. 150/2008. Í því mati verður öðru fremur að skipta máli í fyrsta lagi að samkvæmt framburði Sigurðar fyrir dómi tók hann lánið með skuldabréfinu 10. apríl 2008 til að greiða upp eldri lán frá Sparisjóði Norðlendinga, sem einnig voru tryggð með veði í eignarhlut stefnda í jörðinni Brakanda, og hafi Sigurður talið lánskjör samkvæmt skuldabréfinu sér hagstæðari en þau, sem giltu um eldri lánin. Veðréttindin, sem stefndi heimilaði Sigurði síðastgreindan dag að leggja á sinn hluta af jörðinni, leiddu þannig ekki til nýrrar byrði á herðar stefnda, heldur var ef eitthvað er dregið úr henni, en ekkert er fram komið um hvort Sparisjóður Norðlendinga hafi á sínum tíma gert skriflegt mat um greiðslugetu Sigurðar og kynnt það stefnda áður en hann veitti veðréttindi í eign sinni fyrir skuldum Sigurðar með tryggingarbréfinu 22. ágúst 2006. Um þetta er þess að geta að málsástæða áfrýjanda, sem að þessu snýr, kom ekki of seint fram í héraði, svo sem stefndi hefur haldið fram, enda gafst fyrst tilefni til hennar við skýrslutökur fyrir dómi og var henni sýnilega borið við í munnlegum málflutningi. Í öðru lagi verður að leggja til grundvallar að stefndi hafi haft hag af því að Sigurður keypti 17. ágúst 2006 eignarhlut í Brakanda og Bláteigi, sem stefndi virðist allar götur síðan hafa haft á leigu til afnota við búrekstur sinn, en samkvæmt framburði Sigurðar fyrir dómi var það jafnframt ætlun hans að kaupa á síðari stigum hlut stefnda í jörðunum og halda þar áfram búrekstri. Hann bar það einnig að kaup sín hafi komið til sökum þess að uppi hafi verið „vandamál innan fjölskyldunnar“ og hafi stefndi verið með í ráðum um kaupin og lántöku vegna þeirra. Í þriðja lagi verður að líta til þess að fyrir liggur í málinu að Sigurður hafi frá árinu 2008 aflað stærsta hluta tekna sinna frá stefnda, annars vegar með vinnulaunum og hins vegar leigu á eignarhlut sínum í jörðunum. Að virtu því, sem áður er fram komið, verður að miða við að alla tíð hafi farið víðs fjarri að tekjur þessar óskertar dygðu fyrir mánaðarlegum greiðslum af skuldabréfinu frá 10. apríl 2008. Er fjarstæða að stefnda hafi ekki mátt vera þetta kunnugt og getur því ekki staðist að skriflegt mat á greiðslugetu Sigurðar hefði haft áhrif á ákvörðun hans um að leyfa Sigurði að veðsetja eignarhlut sinn í Brakanda. Til þess verður loks í fjórða lagi að líta að þó svo að í málatilbúnaði áfrýjanda felist viðurkenning á því að vanhöld hafi orðið á því að hann hafi gætt gagnvart stefnda tilkynningarskyldu eftir 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn vegna vanskila á greiðslu afborgana og vaxta af skuldabréfinu verður ekki annað séð af áðurnefndri beiðni áfrýjanda um nauðungarsölu á jörðinni Brakanda en að skuldin hafi talist vera í skilum fram til gjalddaga 15. október 2014 og var tilkynningarskylda ekki vanrækt eftir þann tíma þar til eftirstöðvar skuldarinnar voru gjaldfelldar. Að virtum þessum atriðum í heild eru ekki efni til að verða við dómkröfu stefnda og verður áfrýjandi því sýknaður af henni.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Arion banki hf., er sýkn af kröfu stefnda, Jóns Viðars Þorsteinssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. desember 2016

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð miðvikudaginn 2. nóvember, er höfðað 12. janúar 2016 af Jóni Viðari Þorsteinssyni, Brakanda, Hörgársveit, á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að ógilt verði veðleyfi er hann hafi hinn 10. apríl 2008 veitt í 50% eignarhluta sínum í jörðinni Brakanda landnr. 152389, fnr. 215-7263 og 215-7275, til tryggingar veðskuldabréfi útgefnu af Sigurði Elvari Viðarssyni, kt. 031275-4909 hinn 10. apríl 2008, upphaflega að fjárhæð 30 milljónir króna gengistryggt, móttekið til þinglýsingar 11. apríl 2008 og innfært í fasteignabók 14. apríl 2008 með þinglýsinganúmeri 2008/1652.

Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda.

Hvor aðili krefst málskostnaðar úr hendi hins.

Málavextir

Stefnandi er bóndi á jörðinni Brakanda í Hörgársveit og hefur verið frá árinu 1973, þá fyrst með föður sínum en einn frá árinu 1980.

Með afsali, dags. 2. desember 2005, afsalaði móðir stefnanda, Steingerður Jósavinsdóttir, 50% eignarhlut í jörðinni Brakanda, 50% eignarhlut í öllum útihúsum, ræktun, hlunnindum og öðrum gögnum og gæðum sem fylgja skyldu jörðinni, til stefnanda. Með sama afsali afsalaði hún 50% eignarhlut í jörðinni Bláteigi í sömu sveit, ásamt samsvarandi hlut í ræktun, hlunnindum og öðrum gögnum og gæðum, til stefnanda.

Tvö systkini stefnanda höfðuðu mál til riftunar afsalinu og lauk því með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 23/2008 þar sem afsalinu var rift.

Með kaupsamningi og afsali, dags. 17. ágúst 2005 og mótt. til þinglýsingar degi síðar, seldi Steingerður Jósavinsdóttir syni stefnanda, Sigurði Elvari Viðarssyni, 50% eignarhlut í Brakanda ásamt 50% eignarhlut í öllum útihúsum, ræktun, hlunnindum og öðrum gögnum og gæðum sem fylgja skyldu jörðinni, og 25% hlut í jörðinni Bláteigi ásamt samsvarandi hlut í ræktun, hlunnindum og öðrum gögnum og gæðum. Jafnframt afsalaði Steingerður til Sigurðar Elvars íbúðarhúsi sínu í Brakanda, en húsið stæði á sérlóð með nánar greindu landnúmeri. Kaupverð hins selda skyldi alls vera 20.280.000 krónur og greiðast að fullu við undirskrift.

Með samningi. dags. 30. júní 2007, leigði Sigurður Elvar Viðarsson stefnanda eignarhluti þá sem greindir voru í afsali Steingerðar til Sigurðar Elvars, að íbúðarhúsi undanskildu. Leigugjald skyldi í upphafi vera 100.000 krónur á mánuði en endurskoðast árlega og taka breytingum samkvæmt breytingum neyzluvísitölu.

Steingerður Jósavinsdóttir lézt hinn 31. október 2007. Dánarbú hennar var tekið til opinberra skipta og lauk þeim með úthlutunargerð 15. desember 2010. Samkvæmt skiptayfirlýsingu, undirritaðri af Ingvari Þóroddssyni hdl. skiptastjóra 23. desember 2010 og innfærðri í þinglýsingabók 27. desember 2010, var stefnanda lagður út 50% eignarhluti dánarbúsins í jörðinni Brakanda með öllum gögnum og gæðum, og 25% eignarhluti dánarbúsins í jörðinni Bláteigi með öllum gögnum og gæðum.

Búgarður, ráðgjafaþjónusta á Norðurlandi vann verðmat þeirra eigna er Steingerður seldi Sigurði Elvari. Niðurstaða matsins er sú að heildarverðmæti eignanna sé 29.500.000 krónur en þar af sé verðmæti íbúðarhúss 5.500.000 krónur.

Samkvæmt ódagsettri útprentun úr firmaskrá sem liggur fyrir í málinu en sögð er síðast uppfærð 15. febrúar 2016 er Sigurður Elvar Viðarsson skráður sem sauðfjár- og geitnaræktandi með nánar tilgreindu virðisaukaskattsnúmeri. Samkvæmt gögnum frá ríkisskattstjóra sem liggja fyrir í málinu er Sigurður Elvar skráður sem einstaklingur í atvinnurekstri með nánar tilgreint virðisaukaskattsnúmer sem verið hafi opið frá 1. janúar 2007. Sinnir hann samkvæmt skráningunni sauðfjár- og geitnarækt.

Hinn 10. apríl 2008 gaf Sigurður Elvar Viðarsson út skuldabréf til Kaupþings banka hf., þar sem hann viðurkenndi að skulda bankanum jafnvirði 30 milljóna króna þann dag, í myntunum og hlutföllunum EUR 20%, CHF 40% og JPY 40%. Til tryggingar skuldinni var sett á 4. veðrétti jörðin Brakandi með öllum gögnum og gæðum og öllum réttindum hverju nafni sem nefndust. Undir skuldabréfið ritaði stefnandi sem veðsali. Var lánið til þrjátíu ára með nánar greindum vöxtum. Ágreiningslaust er að ekki var framkvæmt svonefnt greiðslumat á skuldaranum Sigurði Elvari vegna útgáfu skuldabréfsins. Af hálfu stefnda er á því byggt að engin skylda hafi verið til að gera svo.

Samhliða útgáfu skuldabréfsins rituðu Sigurður Elvar og fulltrúi Kaupþings banka hf. undir skjal sem ber merki þess banka og fyrirsögnina „Reiknivél – Neytendalán“. Eru þar birtar ýmsar upplýsingar um lánið, svo sem um árlega hlutfallstölu kostnaðar, andvirði skuldabréfsins og heildarlántökukostnað. Yfir töflu um einstakar væntanlegar afborganir stendur meðal annars: „Neytendalán – greiðsluáætlun“ og er orðið „Neytendalán“ feitletrað.

Stefndi sendi stefnanda svonefndar áramótatilkynningar til ábyrgðarmanns / veðsala, dags. 5. febrúar 2013, 19. febrúar 2014 og 20. apríl 2015 og greindi hver og ein tilkynning ábyrgðarfjárhæð og vanskil um þau áramót er síðast höfðu verið. Þá liggja fyrir í málinu tilkynningar stefnanda til stefnda um vanskil skuldabréfsins, dags. 28. nóvember 2012, 28. desember 2012, 27. október 2014, 19. nóvember 2014, 25. nóvember 2014, 12. desember 2014, 25. desember 2014, 29. desember 2014 og 26. janúar 2015.

Hinn 15. maí 2013 ritaði lögmaður stefnanda stefnda og tjáði honum það álit stefnda að brotið hefði verið gegn samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, með því að stefnanda hefði ekki verið kynnt greiðslumat. Krafðist hann þess að veðinu yrði aflétt. Stefndi hafnaði erindinu með tölvubréfi 28. nóvember 2013. Stefnandi ítrekaði erindið með bréfi 27. desember 2013 og aftur 10. júlí 2014. Þá liggja í málinu útprentuð tölvusamskipti aðila frá ágúst 2014 og fram í október 2014, þar sem aðilar færa fram rök fyrir sjónarmiðum sínum. Stefndi hafnar óskum stefnanda með tölvubréfi 2. október 2014.

Stefndi hefur tekið við réttindum Kaupþings banka hf. samkvæmt veðskuldabréfinu.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi hafi tekið á sig ákveðnar skyldur samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Sigurður Elvar Viðarsson hafi tekið lán hjá stefnda vegna kaupa á eignarhlut ömmu sinnar í Brakanda. Hann hafi hvorki haft reynslu né þekkingu á þessu sviði. Eins og fram komi í skjali er Sigurður Elvar hafi ritað undir samhliða veðskuldabréfi og sé útreikningur á greiðslubyrði lánsins og lántökukostnaði hafi stefndi litið svo á að um neytendalán væri að ræða. Í l-lið 1. mgr. 5. gr. núgildandi laga nr. 33/2013 um neytendalán komi fram skilgreining á því hver teljist neytandi samkvæmt lögunum. Það sé einstaklingur sem eigi lánsviðskipti sem ekki séu gerð í atvinnuskyni af hans hálfu. Skilgreining þessi sé óbreytt frá eldri lögum, sbr. lög nr. 121/1994. Liggi því fyrir að stefndi hafi litið svo á, þegar hann veitti lánið að Sigurður Elvar hafi verið neytandi í merkingu framangreindra laga. Sé það í samræmi við það sem fram komi í skattframtölum sem lögð hafa verið fram í málinu. Rétt sé þó að geta þess að Sigurður Elvar hafi átt nokkrar kindur, en ekki framleiðslurétt, þegar hann hafi keypt hlut sinn í Brakanda og sé svo enn. Búskapur hans hafi því verið meira til gamans svo sem sjá megi af skattframtölum hans. Hann hafi unnið sem launamaður við bú stefnanda og hafi gert óslitið frá því hann hafi tekið lánið. Stefnandi kveðst telja að ekki geti leikið vafi á því að Sigurður Elvar hafi tekið lánið sem neytandi en ekki til að leggja í atvinnurekstur. Áður en hann hafi keypt eignarhlut sinn hafi hann átt kindur og engin breyting hafi orðið á högum hans við lántökuna.

Stefnandi segir að í 1. mgr. 2. gr. samkomulagsins sé gildissvið þess afmarkað. Þar segi í lokamálslið að samkomulagið taki til þess þegar einstaklingur veiti veðleyfi í fasteign sinni til tryggingar skuldum annars einstaklings. Hljóti að liggja alveg ljóst fyrir að stefnandi hafi veitt syni sínum veðleyfi sem einstaklingur í þessari merkingu. Stefnandi kveðst telja að borið hafi að fara að þeim reglum sem kveðið sé á um í samkomulaginu áður en lánið hafi verið afgreitt til Sigurðar Elvars og stefnandi verið fenginn til að veita veðleyfi.

Stefnandi segir að samkvæmt 1. og 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins hafi borið að meta greiðslugetu Sigurðar Elvars áður en lánið hafi verið veitt. Framlögð skjöl staðfesti að ekkert greiðslumat hafi verið framkvæmt. Ítrekað hafi verið óskað eftir að fá að sjá greiðslumat vegna lántökunnar en stefndi hafi ekki orðið við því svo miðað verði við að greiðslumat hafi ekki verið framkvæmt. Með þessu hafi stefndi ótvírætt brotið gegn þeim skyldum sem hann hafi tekið á sig samkvæmt samkomulaginu. Af því leiði að stefndi hafi einnig brotið gegn 4. gr. samkomulagsins, sem mæli fyrir um upplýsingagjöf til stefnanda áður en hann veiti veðleyfi.

Stefnandi segir að með nokkrum ólíkindum sé hvernig staðið hafi verið að lánveitingunni til Sigurðar Elvars. Virðist sem forveri stefnda hafi ekkert kynnt sér hvort Sigurður Elvar hafi átt möguleika á að standa við skuldbindinguna sem hann hafi tekið á sig með lántökunni. Í því sambandi sé rétt að líta til þess að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 beri fjármálafyrirtæki að starfa í samræmi við heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Í því sambandi megi benda á að væntanlega hafi samkomulagið að geyma reglur um heilbrigða viðskiptahætti á fjármálamarkaði. Einnig megi benda á að fyrir gerð samkomulagsins frá 2001 hafi í gildi verið efnislega hliðstætt samkomulag frá árinu 1998. Stefnandi segir að svo virðist sem stefnandi hafi ekki kynnt sér greiðslugetu Sigurðar Elvars áður en lánið hafi verið veitt og stefnandi veitt veðleyfi í eignarhlut sínum í Brakanda. Hljóti það að vera í andstöðu við þau sjónarmið sem byggt sé á í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 að gera ekki greiðslumat áður en stefnandi hafi veitt veðleyfi.

Stefnandi segir að í 1. gr. samkomulagsins komi fram að markmiðið með því sé að draga úr vægi ábyrgðar einstaklinga og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántakenda og eigin tryggingar þeirra. Þau vinnubrögð sem forveri stefnda hafi viðhaft við lánveitinguna stangist algerlega á við þessi markmið. Greiðslugeta Sigurðar Elvars hafi ekki verið metin og því hafi forveri stefnda ekki haft neina hugmynd um hvort Sigurður Elvar gæti greitt af láninu. Hann hafi gert kröfu um að fá veð í eignarhlut stefnanda í jörðinni Brakanda en ekki látið sér nægja að fá veð í eignarhluta Sigurðar Elvars. Stefnandi hafi enga möguleika haft á að taka afstöðu til þess hvort hann ætti að veita veðleyfi eða ekki á grundvelli upplýsinga sem borið hafi að kynna honum áður en hann veitti veðleyfið. Þessi vinnubrögð forvera stefnda séu skýrt brot á reglum samkomulagsins og gangi þvert á yfirlýst markmið þess.

Stefnandi segist telja að þegar lán Sigurðar Elvars hafi verið endurreiknað og breytt í lán í íslenzkum krónum árið 2012 hafi borið að kynna stefnanda það sérstaklega, sbr. ákvæði til bráðabirgða nr. XI með lögum nr. 38/2001 sbr. lög nr. 151/2010. Ekki verði heldur litið fram hjá því að lánið sem um ræði hafi án nokkurs vafa verið ólögmætt. Lánsfjárhæðin hafi verið tilgreind í íslenzkum krónum og vægi erlendrar myntar við gengistryggingu þess eingöngu tilgreind í ákveðnum hlutföllum. Skjalið sjálft beri þá yfirskrift að um sé að ræða gengistryggt lán. Allt að einu virðist lánið ekki hafa verið endurreiknað fyrr en á árinu 2012. Skilmálum lánsins hafi verið breytt án þess að nokkur tilraun hafi verið gerð til að kynna það fyrir stefnanda.

Stefnandi segir að krafa sín um ógildingu á veðleyfinu sé byggð á 36. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt ákvæðinu megi víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, sé talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Í mati á því hvort samningur teljist ósanngjarn eða andstæður góðri viðskiptavenju skuli líta til efni samningsins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komi til. Við mat á efni samningsins verði, að mati stefnanda, að líta til þess að ekkert greiðslumat hafi verið gert. Stefnandi hafi því ekki átt möguleika á að leggja sjálfstætt mat á hvort Sigurður Elvar gæti staðið við skuldbindingar sínar. Stefnandi hafi treyst banka sínum í þessu efni, en stefnandi hafi verið búinn að vera mjög lengi í viðskiptum við forvera stefnda. Stefnandi segir að sé litið til stöðu aðila við samningsgerðina og atvika við hana sé ljóst að forveri stefnda hafi verið stórt fjármálafyrirtæki sem gera megi ríka kröfu til um vönduð vinnubrögð og mikla sérfræði-þekkingu samkvæmt almennum reglum, auk þess sem vísa megi til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2012. Stefnandi hafi enga reynslu eða þekkingu á þessu sviði og hafi ekki heldur haft bein afskipti af lántökunni. Sé því ljóst að staða aðila við samningsgerðina hafi alls ekki verið jöfn og í því efni hallað verulega á stefnanda. Stefndi hafi ekki farið að þeim reglum sem hann hafi tekið á sig samkvæmt samkomulaginu sem beinlínis hafi verið sett til að jafna aðstöðumun aðila í tilvikum eins og þessum.

Þá segir stefnandi að líta beri til atvika er síðar hafi komið til. Stefnandi kveðst telja rétt að benda á að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. samkomulagsins beri að tilkynna ábyrgðarmanni um vanskil innan 30 daga frá því að þau verði. Það hafi ekki verið gert í þessu tilviki. Í 7. gr. laga nr. 32/2009 sé ákvæði um tilkynningaskyldu lánveitanda til ábyrgðarmanns. Þar segi m.a. í a-lið 1. mgr. að tilkynna beri um vanefndir. Í 2. mgr. 7. gr. segir að sé vanræksla lánveitanda veruleg skuli ábyrgð falla niður. Stefnandi hafi fyrst fengið tilkynningu um vanskil á láninu í febrúar 2013. Eftir því sem stefnandi komist næst hafi Sigurður Elvar ekki greitt af láninu síðan skömmu eftir bankahrun. Segir stefnandi að svo virðist sem búið hafi verið að skilmálabreyta láninu án þess að samband hafi verið haft við sig. Eigi það að leiða til þess að veðleyfið, sem stefnandi hafi veitt í apríl 2008, verði metið ógilt. Hljóti að verða að líta svo á að vanræksla stefnda á tilkynningaskyldu sinni sé svo veruleg að veðleyfin falli niður. Stefnandi segir að sanngirnismat fari fram á grunni 36. gr. laga nr. 7/1936 og byggi á mati á þeim efnisatriðum sem hér hafa verið rakin. Stefnandi kveðst telja að það mat hljóti að leiða til þess að rétt sé að fallast á kröfu hans um að eignarhluti hans í jörðinni Brakanda, verði leystur úr veðböndum. Til þess sé að líta að ella sitji stefnandi uppi með eignarhlut sinn veðsettan fyrir láni sem hann hafi ekki notið neins af og því ætti þegar af þeirri ástæðu að vera rétt að fallast á kröfu hans. Fjárhagslegt áfall stefnanda af því að eignarhlutur hans í jörðinni sé til tryggingar láni Sigurðar Elvars eins og það standi í dag, sé svo mikið að eign hans í jörðinni hverfi í raun til stefnda. Þó að krafa stefnanda verði tekin til greina, hafi það ekki í för með sér að veðréttindi stefnda falli niður að fullu. Hann haldi veðréttindum sínum í helmingi jarðarinnar. Þannig verði staða stefnda í samræmi við markmiðin sem að hafi verið stefnt í samkomulaginu. Stefnandi kveðst einnig benda á að stefndi hafi haft í hendi sér að fara að þeim reglum sem gilt hafi þegar lánið hafi verið veitt. Hann hafi ekki sinnt þeim og því hljóti eðlilegt að vera að hann beri hallann af því.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi segir ágreining um mál þessa tvíþættan. Annars vegar sé hann um það hvort samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga eigi við í málinu og þá hvort reglur samkomulagsins hafi verið brotnar. Hins vegar sé ágreiningur aðila um það hvaða áhrif slík brot hafi á umþrætta veðsetningu.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að engir gallar hafi verið við veitingu umrætts veðskuldabréfs og veðsetningu eignarinnar Brakanda. Stefndi hafi ekki brotið gegn ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgðar á skuldum einstaklinga enda hafi það ekki átt við um umrædda lánveitingu og veðsetningu eignarinnar. Ákvæði samkomulagsins taki einungis til þeirra tilvika þegar einstaklingur hafi gefið leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings. Gildissvið samkomulagsins, sem sé tæmandi talið, taki ekki til þeirra tilvika þegar einstaklingur hafi veðsett eign sína vegna atvinnurekstrar þriðja aðila eða þegar rekstraraðili hafi veðsett eign sína til tryggingar skuldum einstaklings, sbr. 1. mgr. 2. gr. samkomulagsins. Með hliðsjón af þessu kveðst stefndi benda á að stefnandi hafi verið í búrekstri á jörðinni Brakanda frá árinu 1973 og hafi formlega stofnað til einstaklingsrekstrar þar árið 1990. Samkomulagið sem stefnandi vísi til í stefnu eigi því ekki við í þeim lánaviðskiptum sem farið hafi fram milli stefnanda, stefnda og Sigurðar Elvars Viðarssonar þar sem stefnandi teljist ekki vera neytandi í skilningi laga nr. 121/1994, þar sem hann sé í einstaklingsrekstri. Af þeim sökum nái samkomulagið frá 2001 ekki undir lánaviðskiptin og stefnda hafi því verið alls óskylt að framkvæma mat á greiðslugetu Sigurðar Elvars áður en stefnandi hafi veitt veð í eignarhluta sínum í jörðinni Brakanda. Því fái stefndi ekki séð að tilefni sé til þess að fallast á ógildingakröfu stefnanda sbr. 36. gr. samningalaga enda hafi ekki verið stofnað til veðsetningarinnar með óeðlilegum hætti.

Stefndi segir að í stefnu sé því haldið fram að Sigurður Elvar hafi verið neytandi þegar umrætt lán hafi verið tekið þar sem lánaviðskiptin hafi ekki verið gerð í atvinnuskyni af hans hálfu, sbr. l-lið, 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/2013. Af þeim sökum telji stefnandi að samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga og neytendalög nr. 121/1994 eigi við í þessu máli. Þetta sé síðan rökstutt með þeim hætti að Sigurður Elvar hafi átt nokkurar kindur þegar hann hafi keypt hlut sinn í Brakanda og að búskapur hans hafi verið „til gamans“. Teljist hann því ekki hafa verið í atvinnurekstri. Vísi stefnandi í skattframtal Sigurðar Elvars til frekari stuðnings þessum málatilbúnaði. Stefndi kveðst hafna þessari málsástæðu en byggja á því að Sigurður Elvar teljist ekki neytandi í skilningi laga nr. 121/1994 þar sem hann sé í einstaklingsrekstri. Atvinnurekstur sé skilgreindur sem sjálfstæð starfsemi í þeim tilgangi að hagnast og sé þá ekki gerður munur á því hvort atvinnureksturinn sé stundaður af mönnum, lögaðilum eða hvort hann sé til gamans. Við mat á því hvort að um atvinnurekstur einstaklings sé að ræða, sé nærtækast að skoða hvort fyrirtæki hafi verið skráð í firmaskrá samkvæmt lögum frá 42/1903. Í gögnum málsins megi sjá að Sigurður Elvar sé með skráð fyrirtæki á eigin nafni sem stundi sauðfjár- og geitnarækt. Þá megi sjá af gögnum að fyrirtækið Sigurður Elvar Viðarsson sé með opið virðisaukaskattsnúmer frá 1. janúar 2007 sem sé sami tími og er Sigurður Elvar hafi hafið rekstur á jörðinni og leigi út jörðina til stefnanda. Þar sem Sigurður teljist vera í atvinnurekstri og lántaka sé hluti af atvinnurekstri hans geti stefndi ekki séð að tilefni sé til þess að fallast á ógildingakröfu stefnanda sbr. 36. gr. samningalaga.

Í samhengi við framanritað kveðst stefndi benda á að umrætt lán hafi verið tekið til að fjármagna kaup Sigurðar Elvars á jörðinni Brakanda og íbúðarhúsnæði því sem sé á jörðinni. Á Íslandi hafi verið farin sú leið frá árinu 1993, þegar tilskipun 87/102/EBE um neytendalán hafi verið innleidd í íslenzkan rétt með lögum nr. 30/1993 um neytendalán, að notast við hugtakið í atvinnuskyni til að skilgreina hugtakið neytandi. Við túlkun á því hvað teljist vera í atvinnuskyni beri að líta til þess hvort viðkomandi lán tengist atvinnustarfsemi viðskiptum eða sérgrein neytanda. Samkvæmt kaupsamningi og afsali frá 17. ágúst 2008 hafi Sigurður Elvar Viðarsson keypt 50% hlut í jörðinni Brakanda ásamt öllum útihúsum, ræktun, hlunnindum og öðrum þeim gögnum og gæðum sem jörðinni fylgi og fylgja beri. Ennfremur hafi Sigurður Elvar keypt fjórðungshlut í jörðinni Bláteigi og íbúðarhúsnæði á Brakanda sem standi á sér lóð. Kaupverð hins selda hafi verið 20.280.000 krónur. Við söluna hafi verið framkvæmt verðmat á jörðinni og íbúðarhúsnæðinu. Þar hafi jörðin, fjós, geymslur o.s.frv. verið metin á 29,5 milljónir króna og íbúðarhúsnæðið á 5,5 milljónir króna, samtals 35 milljónir króna. Miðað við verðmætið hafi íbúðarhúsnæðið verið 15,7% heildarmatsins en 84,3% matsins hafi verið tengt rekstri á bújörð. Megi því ætla að lánið sem Sigurður Elvar hafi upprunalega tekið hjá Sparisjóði Norðurlands, en svo endurfjármagnað hjá stefnda, hafi verið í sömu hlutföllum, 15,7% sem lán við kaup á íbúðarhúsnæði fyrir einstakling en 84,3% sem lán í atvinnuskyni við kaup á jörðinni.

Stefndi segir að þegar um sé að ræða lánasamninga sem gerir séu í tvíþættum tilgangi sem tengist að hluta atvinnustarfsemi eða sérgrein einstaklings en að hluta til húsnæði einstaklingsins verði að túlka lánasamninginn á þann veg sem að ráðandi þáttur samningsins nái til. Í því tilviki sem að hér um ræði sé meiri hluti lánsins notaður við kaup á jörð sem notuð sé í einstaklingsfyrirtæki Sigurðar Elvars og teljist lánið því tekið í atvinnustarfsemi. Sé þetta í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins 2014/17/ESB og dóm Evrópudómstólsins nr. c361/89 og c464/01. Þá kveðst stefndi hafna því alfarið að tilvísun stefnanda til laga nr. 121/1994 um neytendalán styðji kröfu hans í málinu enda leiði brot gegn þeim lögum til skaðabótaskyldu en ekki til ógildingar á veðsetningu.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína í öðru lagi á því, að ef talið verði allt að einu að samkomulagið um notkun ábyrgða eigi við geti það eitt og sér, að ekki hafi verið gætt að öllu leyti að ákvæðum þess, ekki leitt til ógildingar á veðsetningu eignarhluta stefnanda heldur verði að fara fram heilstætt mat á öllum atvikum. Óumdeilt sé að forveri stefnda hafi ekki framkvæmt greiðslumat við útgáfu veðskuldabréfsins en hann hafi staðið í þeirri trú að lánið væri veitt vegna atvinnurekstrar. Stefndi kveðst byggja á því að þótt brotið sé gegn ákvæðum samkomulagsins leiði það ekki sjálfkrafa til ógildingar veðsetningarinnar heldur verði að fara fram heildarmat á aðstæðum aðila fyrir, eftir og við undirritun stefnanda á veðskuldabréfið. Leiði slíkt mat til þess að sýkna beri stefnda af ógildingarkröfu stefnanda. Stefnandi hafi verið með leigusamning við Sigurð Elvar um leigu á 50% eignarhluta Sigurðar Elvars í jörðinni Brakanda ásamt 50% eignarhluta í öllum útihúsum og ræktun. Þannig hafi stefnandi haft beinan hag af því að Sigurður Elvar fengi endurfjármögnun hjá forvera stefnda til að halda áfram búrekstri á jörðinni. Stefnandi og lántakinn séu feðgar. Stefnandi kveðst byggja á því að stefnandi hafi þekkt fjárhagsstöðu sonar síns sem hafi fengið leigugreiðslur frá stefnanda vegna jarðarinnar og sem einnig hafi verið á launaskrá hjá stefnanda á þeim tíma sem hið umþrætta veðskuldabréf hafi verið gefið út. Hafi stefnandi því átt greiðan aðgang að upplýsingum um lántakandann og hafi hann ekki sýnt þá fyrirhyggju að óska eftir þessum upplýsingum frá syni sínum beri hann hallann af því.

Stefndi segir að skiptastjóri dánarbús móður stefnanda hafi samþykkt veðsetningu með undirskrift sinni á tveimur skilmálabreytingum árið 2009. Þá hafi stefnandi samþykkt veðsetninguna athugasemdalaust þegar hann hafi verið skráður þinglýstur eigandi jarðarinnar í lok árs 2010. Stefndi kveðst byggja á því að horfa þurfi á alla fyrrgreinda þætti til að mat sé lagt á heildarmyndina að baki umþrættri veðsetningu. Þá kveðst stefndi byggja á að tilgangur samkomulags um notkun ábyrgða, sem vísað sé til í stefnu, sé að tryggja að ábyrgðarmenn og veðsalar þekki fjárhagsstöðu og greiðslugetu lántakenda við lántöku og að þeim sé ljóst í hverju ábyrgð þeirra sé fólgin. Stefndi kveðst byggja á því að stefnandi hafi þekkt greiðslugetu Sigurðar Elvars og að greiðslumat við útgáfu umþrætts veðskuldabréfs hafi engu breytt um vilja stefnanda til að heimila veðsetningu eignarhluta síns fyrir skuldum sonar síns.

Þá kveðst stefndi byggja á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til að láta reyna á lögmæti veðsetningarinnar með því að hafa ekki gert athugasemdir til stefnda um veðsetningu tímanlega. Kveðst stefndi hér vísa til þess að stefnandi hafi fengið helmingshlut í jörðinni Brakanda framseldan sér með afsali dagsettu 28. desember 2010 en þá þegar hafi stefnandi haft ástæðu til að gera athugasemdir við stefnda sbr. reglur kröfuréttar um tómlæti og tómlætisáhrif.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína í þriðja lagi á því að ákvæði 36. gr. samningalaga, sem stefnandi byggi á, sé ekki uppbyggt í málinu enda hafi stefnandi með engu móti sýnt fram á að skilyrði þeirra ákvæða, sem leiði eigi til ógildingar samningsákvæða, séu uppfyllt. Stefndi kveðst telja fjarri lagi, þegar horft sé til atvika að baki samningsgerðinni, að óheiðarlegt sé eða bersýnilega ósanngjarnt af sinni hálfu að byggja á skuldabréfinu við veðsetninguna. Við mat á þessum reglum verði að hafa í huga á meginreglu samninga- og kröfuréttar að samningar skuli halda. Þá kveðst stefndi árétta að sönnunarbyrði hvíli á stefnanda um að skilyrði ógildingareglna samningaréttarins séu uppfyllt í máli þessu. Stefndi segir að 36. gr. samningalaga snúist um heildarmat á aðstæðum öllum og ef horft sé til atvika málsins sé ljóst að með engu móti megi halda því fram að það væri ósanngjarnt að stefnandi yrði skuldbundinn af samþykki sínu fyrir veðsetningu eignarinnar.

Stefndi kveðst hafna því að viðskiptahættir sínir hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sé slík málsstæða með öllu órökstudd af hálfu stefnanda. Stefndi kveðst taka það fram að greiðslumat eða upplýsingagjöf séu ekki formskilyrði fyrir því að gildandi samningur stofnist milli ábyrgðarmanns og fjármálafyrirtækis. Teljist því hvorki ósanngjarnt eða brot á góðri viðskiptavenju að byggja á hinu umþrætta skuldabréfi. Þá geti 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki ekki haft þau áhrif að löggerningur aðila sé ógildur.

Stefndi segir að svo virðist sem stefnandi byggi á því að þar sem að fram komi með almennum hætti í útreikningi á greiðslubyrði lánsins að um neytendalán hafi verið að ræða eigi samkomulagið um notkun ábyrgða að gilda um ábyrgð stefnanda. Breyti það engu þó samkomulagið nái ekki til ábyrgðarskuldbindingar hans samkvæmt efni sínu. Allt frá því að umsókn Sigurðar Elvars hafi komið til forvera stefnda og þar til lánið hafi verið veitt, hafi samskipti aðila verið á þann veg að lánið væri veitt vegna atvinnurekstrar lántakanda. Á útreikningi um greiðslubyrði lánsins sé talað um „neytendalán“ og sýni það eingöngu fram á að starfsmaður bankans hafi fyrir mistök notað rangt skjal við útreikninginn. Taka verði mið af því fyrir hverju lánið hafi verið veitt en ekki heiti þess. Að öðru leyti en þessu eina skjali hafi hvorki lántaki né veðsali fengið gögn afhent sem borið hafi merki þess að lánið væri neytendalán og hafi stefnandi ekki getað verið dulinn þess að lánið væri vegna atvinnurekstrar.

Stefndi segir að stefnandi haldi fram í stefnu að stefndi hafi ekki uppfyllt lagaskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn. Stefndi kveðst fallast á að áramótatilkynning um stöðu lánsins hafi fyrst verið send stefnanda í febrúar 2013, og að fyrsta vanskilatilkynning hafi verið send stefnanda í nóvember 2012. Á hinn bóginn sé rétt að taka fram að lánið hafi verið í skilum fram í ágúst 2009, en á þeim tíma hafi dánarbú móður stefnanda verið veðsali eða allt til 15. desember 2010 þegar skiptum dánarbúsins hafi lokið. Stefndi kveðst hafa fullnægt skyldum sínum samkvæmt 7. gr. ábyrgðarmannalaga.

Stefndi segir að í stefnu komi fram að skilmálum lánsins hafi verið breytt án þess að stefndi hafi haft samband við stefnanda og af þeim sökum sé veðleyfið ógilt. Á hinn bóginn vísi stefnandi sjálfur í dóm Hæstaréttar í máli 23/2008 þar sem afsali stefnanda á jörðinni hafi verið rift og dánarbú móður hans aftur verið gert að afsalshafa hinn 16. október 2008. Umræddar skilmálabreytingar hafi verið undirritaðar af skiptastjóra dánarbúsins og séu því gildar.

Stefndi kveðst byggja á því að 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn sé til þess hugsuð að lánveitandi tilkynni ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem áhrif geti haft á forsendur ábyrgðarinnar, ábyrgðarmanninum í óhag. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segi að forsendur þær, sem þar sé vísað til, séu til dæmis þær þegar lántaki stefni í vanskil með viðhlítandi innheimtuaðgerðum. Hafi þá ábyrgðarmenn kost á að grípa inn í og greiða gjaldfallna afborgun eins og hún standi á gjalddaga áður en til frekari innheimtuaðgerða komi. Forsenda þess að lánveitandi geti innheimt dráttarvexti og annan vanskilakostnað séu að hann hafi tilkynnt ábyrgðarmanni með hæfilegum fyrirvara um vanefndir lántaka. Hér í þessu máli hafi bankinn ekki gripið til neinnar löginnheimtuaðgerðar og geti stefndi því ekki tekið undir að um verulega vanrækslu tilkynningaskyldu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn sé að ræða. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á neitt tjón vegna meints brots á eftirfarandi tilkynningaskyldu þar sem engar tilraunir hafi verið gerðar til að ganga að veðinu fyrr en 5. maí 2015. Með sömu rökum kveðst stefndi telja að ákvæði 1. mgr. 5. gr. samkomulagsins komi ekki til álita við úrlausn málsins. Þá sé rétt að taka fram að lánið hafi farið í skil við endurútreikninga á láninu á árinu 2011 og aftur á árinu 2014 og hvorki hafi innheimtukostnaður eða dráttarvextir verið lagðir þar á. Megi hér benda á dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 116/2010 þar sem skýrt sé kveðið á um að slíkt leiði ekki til brottfalls ábyrgðar. Stefnanda hafi verið sent yfirlit um stöðu lánsins miðað við árslok 2012, 2013 og 2014.

Þá kveðst stefndi hafna því að sú lagaskylda, sem stefnandi telji hvíla á stefnda samkvæmt bráðabirgðaákvæði XI í lögum nr. 38/2001 eigi að leiða til ógildingar veðsins eins og stefnandi haldi fram. Sérstaklega hafni stefndi þessu í ljósi þess að eftirstöðvar lánsins hafi lækkað við fyrri endurútreikning þess.

Stefndi kveðst allt að einu byggja á því jafnvel þótt talið verði að atvik málsins séu með þeim hætti að stefndi verði talinn hafa brotið gegn 7. gr. framangreindra laga, leiði það ekki til ógildingar veðsins. Verði rök stefnda ekki tekin til greina, verði að telja að ekki sé um svo verulega vanrækslu á tilkynningaskyldu að ræða að heimilað geti niðurfellingu veðsins. Megi í því sambandi vísa til almennra reglna kröfuréttar og meginreglna samningaréttar um skuldbindingagildi loforða og skyldu að efna löggerninga en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Stefndi segir stefnanda halda því fram að veðsetningin sé ógild á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki fengið tilkynningu um að skilmálum lánsins hafi verið breytt í endurútreikningi árið 2011. Við endurútreikning lánsins í nóvember 2011 hafi lánið lækkað úr 60.133.572 krónum í 39.311.606 krónur. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir  tjóni af þessum sökum.

Stefndi kveðst vísa til almennra reglna kröfuréttar um efndir skuldbindinga og að löggerninga skuli halda. Einnig vísi hann til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá vísi hann til ákvæða laga nr. 121/1994 um neytendalán, laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Vegna kröfu stefnda um málskostnað sé vísað til ákvæða laga um meðferð einkamála einkum 129. og 130. gr.

Niðurstaða

Stefnandi og sonur hans, Sigurður Elvar Viðarsson, gáfu skýrslu fyrir dómi.

Við munnlegan málflutning vakti stefndi athygli á að margnefnt samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga hefði ekki verið lagt fram í málinu. Taldi stefndi að það ætti að valda því að ekki yrði byggt á samkomulaginu í málinu. Á hinn bóginn kom fram af hálfu stefnda að hann vefengdi hvorki tilvist samkomulagsins né að greinar þess væru þannig hljóðandi sem stefnandi byggir á í málinu. Í greinargerð sinni tekur stefndi til varna gegn málsástæðum sem stefnandi byggir á samkomulaginu og hvorugur aðili virðist í vafa um hvernig samkomulagið hljóði. Til einstakra ákvæða þess hefur ítrekað verið vísað í dómum Hæstaréttar Íslands og verður að ætla efni þeirra alþekkt í réttarframkvæmd. Vörnum stefnda og efnismeðferð þykir í engu hafa orðið áfátt þótt samkomulagið hafi ekki verið lagt sérstaklega fram í málinu og verður horft til þess eftir atvikum. Í málinu vefengir stefndi ekki að Kaupþing banki hf. hafi verið bundinn af ákvæðum samkomulagsins.

Á fjármálafyrirtækjum hvílir samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 skylda til þess að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.

Til stuðnings kröfu sinni um ógildingu vísar stefnandi til 36. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt þeirri grein má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því hvort skilyrði séu til þess að víkja samningi til hliðar skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar komu til.

Ágreiningslaust er í málinu að ekki var gert svonefnt greiðslumat á skuldaranum Sigurði Elvari Viðarssyni þegar hann gaf út skuldabréf það sem mál þetta snýst um. Stefndi segir að forvera sínum hafi ekki verið skylt, samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, að framkvæma slíkt mat, þar sem lánið hafi verið veitt vegna atvinnurekstrar en ekki sem neytendalán.

Að mati dómsins er óhjákvæmilegt að horfa til þess að í þeirri greiðsluáætlun sem lántakinn Sigurður Elvar og fulltrúi bankans undirrituðu samhliða lánveitingunni var skýrlega tekið fram að um neytendalán væri að ræða. Skjalið ber merki bankans og þykir óhætt að miða við að það hafi verið útbúið af honum. Stóð bankanum töluvert nær en Sigurði Elvari að gæta þess að lánið væri réttilega skilgreint á skjalinu og stefndi, sem leiðir rétt sinn frá bankanum, verður að bera hallann af því, sé láninu þar ranglega lýst. Þau atriði sem stefndi byggir á í málinu að sýni fram á að lánið hafi, þrátt fyrir þetta, ekki verið neytendalán heldur lán til atvinnurekstrar þykja ekki sýna svo óyggjandi sé að ranghermt sé í margnefndu skjali. Sigurður Elvar hefur verið launþegi en ekki atvinnurekandi svo máli skipti á jörðinni, þótt hann muni halda þar nokkrar kindur og geitur án framleiðsluréttar, og leigi föður sínum nú eignarhlut sinn í jörðinni. Þegar á allt er horft þykir stefndi verða að una við þá skilgreiningu sem Kaupþing banki hf. gerði á láninu með þeirri greiðsluáætlun sem fulltrúi bankans og lántakinn rituðu undir samhliða lántökunni.

Samkvæmt framansögðu verður miðað við að Kaupþingi banka hf. hafi verið skylt, samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, að láta vinna greiðslumat á skuldaranum Sigurði Elvari og gefa stefnanda kost á að kynna sér það, áður en hann lagði eign sína að veði.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi haft hag af lánveitingunni til Sigurðar Elvars þar sem hann leigi af honum eignarhluta hans. Að mati dómsins hefur ekkert verið sannað í málinu um það hvort stefnandi hefði kosið að leggja eign sína að veði til tryggingar skuldum Sigurðar Elvars ef stefndi hefði uppfyllt þá skyldu sína að meta greiðslugetu Sigurðar Elvars og leggja það mat fyrir stefnanda. Verður stefndi að bera halla af þeirri óvissu sem þar er á. Verður stefndi einnig að bera hallann af óvissunni sem er um það, hver sá ávinningur er, sem stefnandi kann að hafa haft af því að Sigurði Elvari hafi verið veitt lánið, í samanburðinum af áhættunni sem stefnandi tók með því að leggja eign sína að veði fyrir skuldinni.

Fallast má á að stefnandi hafi, í ljósi tengsla þeirra Sigurðar Elvars, mátt gera sér nokkra grein fyrir stöðu hans. Á það verður hins vegar að líta að aðstaðan er æði ólík þar sem annars vegar er mjög stórt fjármálafyrirtæki, sem veitir lán, tengt þremur erlendum gjaldmiðlum, en hins vegar eru lántakinn og ábyrgðarmaðurinn, feðgar sem hvorugur er sérstaklega kunnugur viðskiptum eins og þessum. Verður að telja stefnanda afsakanlegt að ganga út frá að sérfróður lánveitandinn hefði farið yfir stöðu Sigurðar Elvars og metið hana þannig að hann gæti staðið í skilum.

Ekki þykir skipta máli að skiptastjóri dánarbús móður stefnanda hafi samþykkt skilmálabreytingar sem gerðar voru á láninu. Verður ekki með sanngirni ætlazt til þess að hann, að viðlögðum mótbárumissi dánarbúsins eða þeirra sem leiða rétt sinn frá því, grennslist við þær aðstæður fyrir um öll atvik þegar lánið var tekið.

Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi glatað rétti sínum fyrir tómlæti. Stefndi viðurkennir að vanskil Sigurðar Elvars hafi byrjað að loknum ágúst 2009 en stefnanda fyrst verið kunngjört um vanskil í nóvember 2012 og fyrsta áramótatilkynning hafi verið send í febrúar 2013. Þegar á þetta er horft og þær tilraunir sem stefnandi gerði til að fá stefnda til að aflétta veðinu og raktar voru fyrr í dóminum þykir stefnandi ekki hafa glatað rétti sínum með tómlæti.

Þegar á allt framanritað er horft þykir dóminum sem ósanngjarnt sé af stefnda að bera fyrir sig samþykki stefnanda fyrir veðsetningunni og verður veðleyfið fellt úr gildi með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda 1.350.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun hans var litið til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefnanda fór Árni Pálsson hrl. með málið en Ragnhildur Sophusdóttir hdl. af hálfu stefnda.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Veðleyfi það, er stefnandi, Jón Viðar Þorsteinsson, veitti hinn 10. apríl 2008 í 50% eignarhluta sínum í jörðinni Brakanda landnr. 152389, fnr. 215-7263 og 215-7275, til tryggingar veðskuldabréfi útgefnu sama dag af Sigurði Elvari Viðarssyni, upphaflega að fjárhæð 30 milljónir króna gengistryggt, mótteknu til þinglýsingar 11. apríl 2008 og innfærðu í fasteignabók 14. apríl 2008 með þinglýsinganúmeri 2008/1652, er ógilt.

Stefndi, Arion banki hf., greiði stefnanda 1.350.000 krónur í málskostnað.