Print

Mál nr. 49/2019

A (Oddgeir Einarsson lögmaður)
gegn
B (Edda Björk Andradóttir lögmaður)
Lykilorð
 • Börn
 • Barnavernd
 • Forsjársvipting
 • Meðdómsmaður
 • Lögskýring
 • Ómerking dóms Landsréttar
 • Gjafsókn
Reifun

Í málinu höfðu bæði héraðsdómur og Landsréttur fallist á kröfu B um að A yrði sviptur forsjá tveggja barna sinna á grundvelli a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fyrir Hæstarétti var einungis deilt um hvort ómerkja bæri dóm Landsréttar. Byggði A á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hefði verið ábótavant þar sem sérfróður meðdómsmaður hefði ekki verið kvaddur til setu í dóminum svo sem lögskylt væri samkvæmt 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur tilgreind ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þær breytingar sem á þeim höfðu verið gerðar með lögum nr. 49/2016 og hlutaðeigandi ákvæði barnaverndarlaga og þær breytingar sem á þeim höfðu verið gerðar með lögum nr. 80/2011. Var talið að við meðferð forsjársviptingarmála, sem rekin væru fyrir héraðsdómi samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga, bæri dómara samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna að kveðja til sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn, nema við ættu undantekningar þær sem greindi í ákvæðinu. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að lög um dómstólaskipan landsins gerðu ráð fyrir því að sérfróður meðdómsmaður eða eftir atvikum meðdómsmenn gætu tekið sæti í Landsrétti við meðferð máls þar fyrir dómi þegar þess væri þörf. Með því að engin undantekning væri gerð í lögum frá þeirri skipan mála þegar forsjársviptingarmál væri rekið fyrir Landsrétti gilti meginreglan einnig við rekstur slíks máls þar fyrir dómi, nema við ættu þær undantekningar sem greindi í ákvæðinu. Var því til samræmis við meginreglu 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga talið að borið hefði að kveðja til sérfróðan meðdómsmann við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Þar sem það hafði ekki verið gert hefði skipan Landsréttar við meðferð málsins ekki verið í samræmi við áskilnað laga og var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. október 2019. Hann krefst ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

I

Í efnisþætti máls þessa er um það deilt hvort fullnægt sé skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til þess að svipta áfrýjanda forsjá tveggja barna sinna. Við meðferð málsins í héraði skipuðu dóm tveir embættisdómarar og sálfræðingur. Í héraði var fallist á kröfu stefnda um að áfrýjandi yrði sviptur forsjánni. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með skírskotun til forsendna hans. Dóm Landsréttar skipuðu þrír embættisdómarar. Áfrýjandi sótti um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar og rökstuddi beiðni sína meðal annars með því að meðferð málsins fyrir Landsrétti hefði verið ábótavant þar sem sérfróður meðdómsmaður hefði ekki verið kvaddur til setu í dóminum svo sem lögskylt væri samkvæmt 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga. Svipting forsjár barna sinna sé eitt mest íþyngjandi úrræði sem foreldri geti orðið fyrir og því brýnt að skipan dóms sem taki slíka ákvörðun sé í samræmi við lög. Megin röksemd stefnda í málinu er á hinn bóginn sú að Landsrétti sé einungis heimilt en ekki skylt að kveðja meðdómsmann til setu í dóminum og þegar af þeirri ástæðu séu ekki efni til ómerkingar og heimvísunar dóms Landsréttar. Áfrýjanda var 28. október 2019 veitt leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar á þeim grunni að úrlausn um það hvort réttilega hefði verið staðið að skipan dóms Landsréttar í málinu með tilliti til 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga myndi hafa fordæmisgildi og því skyldi málið flutt fyrir Hæstarétti um formhlið þess.

II

Mál þetta lýtur eins og fyrr greinir í efnisþætti þess að kröfu stefnda um að áfrýjandi verði á grundvelli a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sviptur forsjá barna sinna, C, sem fædd er árið 2003, og D, sem fæddur er árið 2006. Samkvæmt hinum tilvitnuðu ákvæðum er barnaverndarnefnd heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annað eða bæði, verði svipt forsjá ef hún telur að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska og fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega óhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana eða greindarskorts, eða breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.

Samkvæmt gögnum málsins hófust afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum barna áfrýjanda í lok árs 2015. Í mars 2016 höfðu þeim borist fjórar tilkynningar um fátækt fjölskyldunnar, áfengisneyslu og vanrækslu föður gagnvart börnunum. Voru þau send í fósturvistun í kjölfar þessa í mars 2016 fram í apríl sama ár á meðan áfrýjandi leitaði sér meðferðar við áfengissýki. Eftir það hafa börnin ítrekað verið vistuð utan heimilis í lengri eða skemmri tíma og mun núverandi vistun þeirra vera sú sjöunda en í henni hafa þau dvalið frá 19. nóvember 2018. Málefni barnanna hafa heyrt undir þrjár barnaverndarnefndir frá þeim tíma er afskipti yfirvalda hófust.

Á fundi stefnda 5. febrúar 2019 var ákveðið að gera kröfu um forsjársviptingu þá sem mál þetta lýtur að. Í framhaldinu höfðaði stefndi málið 18. mars 2019. Undir rekstri þess í héraði lagði héraðsdómur fyrir stefnda að afla matsgerðar um forsjárhæfni áfrýjanda með heimild í 2. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga og var nafngreindur sálfræðingur kvaddur til þess verks. Í matsgerð sálfræðingsins 3. júní 2019 kom fram að forsjárhæfni áfrýjanda væri verulega ábótavant, hann hefði vanrækt alvarlega daglega umönnun og uppeldi barnanna með hliðsjón af aldri þeirra og þroska og ekki væri líklegt að breyting yrði þar á. Með vísan til matsins, framburðar vitna og gagna málsins taldi héraðsdómur í ljós leitt að skilyrðum fyrir forsjársviptingu samkvæmt a. og d. liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga væri fullnægt. Héraðsdómur var kveðinn upp 12. júlí 2019. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar sem með dómi 27. september 2019 staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með skírskotun til forsendna hans.

III

Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og ákvæðið var upphaflega, sagði að ef deilt væri um staðreyndir sem bornar væru fram sem málsástæður og dómari teldi þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr gæti hann kvatt til tvo meðdómsmenn sem hefðu slíka sérkunnáttu.

Framangreindu ákvæði var breytt með 1. gr. laga nr. 49/2016 sem tóku gildi 1. janúar 2018. Þar segir nú að dómari geti, ef deilt sé um staðreyndir sem bornar séu fram sem málsástæður og hann telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, kvatt til einn meðdómsmann sem hafi slíka kunnáttu. Þó sé dómara heimilt að kveðja til tvo meðdómsmenn ef hann telur þurfa sérkunnáttu í dómi á fleiri en einu sviði. Í lögskýringargögnum kom fram að rökin fyrir þessari breytingu væru einkum þau að hún myndi vega upp á móti auknum kostnaði af sérfróðum meðdómsmönnum á millidómstigi. Þá væru meðdómsmenn oft valdir úr tiltölulega þröngum hópi og með breytingunni væri dregið úr hættu á að hæfir sérfræðingar á viðkomandi sviði yrðu ekki lengur tiltækir þegar kæmi að kvaðningu meðdómsmanna á millidómstigi. Með breytingunni væri jafnframt dregið úr líkum á því að sérfróðir meðdómsmenn gætu myndað meirihluta gegn embættisdómara í atkvæðagreiðslu um lögfræðileg atriði en almennt yrði að telja það óæskilegt.

Með 2. gr. laga nr. 49/2016 var nýrri grein, 2. gr. a., bætt í lög nr. 91/1991. Í 1. málslið 1. mgr. kemur fram að hafi sérfróður meðdómsmaður tekið þátt í meðferð máls fyrir héraðsdómi sem fengið hefur efnislega úrlausn þar, enn sé deilt um staðreyndir sem bornar séu fram sem málsástæður fyrir Landsrétti og forseti telji þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, geti hann að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu dómsformanns í málinu kvatt til einn meðdómsmann sem hafi slíka sérkunnáttu og skipi hann þá dóm í máli með tveimur dómurum við Landsrétt.

IV

1

Í X. kafla barnaverndarlaga er fjallað um meðferð mála samkvæmt 29. gr. og 2. mgr. 34. gr. laganna fyrir dómi en í 29. gr. er eins og fyrr greinir fjallað um forsjársviptingu. Í 53. gr. laganna kemur fram að um meðferð mála fyrir dómi samkvæmt ákvæðum X. kafla þeirra gildi ákvæði laga um meðferð einkamála, með þeim frávikum sem í barnaverndarlögum greini. Í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga kemur fram að í málum samkvæmt X. kafla laganna skuli kveðja til setu í dómi sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn nema útivist verði af hálfu aðila eða máli vísað frá dómi vegna augljósra annmarka. Um fjölda þeirra og kvaðningu fari að öðru leyti eftir 2. gr. og 2. gr. a. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sagði upphaflega: „Í málum samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal að jafnaði kveðja til sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi. Um sérfróða meðdómsmenn gilda að öðru leyti ákvæði laga um meðferð einkamála.“ Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að þeim lögum var þess meðal annars getið að hugmyndir um að fela dómstólum meira hlutverk í barnaverndarmálum en verið hefði væru ekki nýjar af nálinni. Þeim hefði þó verið hafnað við setningu barnaverndarlaga nr. 58/1992 og megin röksemdin fyrir því verið sú að með dómstólaleiðinni væri erfitt að tryggja nægilega sérþekkingu sem nauðsynleg væri talin í barnaverndarmálum. Þetta sjónarmið ætti ekki við rök að styðjast. Mál sem væru borin undir dómstóla væru margvísleg og kæmu iðulega inn á svið þar sem sérþekkingar kynni að vera þörf. Við því væri hægt að bregðast með ýmsum hætti, svo sem með kvaðningu sérfróðra meðdómsmanna og eða matsmanna. Þá væri í barnaverndarmálum hægt að mæla fyrir um sérreglur um meðferð slíkra mála sem ættu að tryggja að sérþekkingar, að því marki sem hún teldist nauðsynleg, væri aflað áður en ákvörðun væri tekin.Væri þeirri skoðun hafnað að sérstaða þessara mála væri slík að ekki væri hægt að fela dómstólum meðferð þeirra vegna skorts á sérþekkingu.

Þá var þess getið í athugasemdum með framangreindu frumvarpi að eftir ítarlegar umræður um mismunandi leiðir sem til greina hefðu komið varðandi úrskurðarvald í barnaverndarmálum hefði niðurstaðan orðið sú að heppilegast væri að úrskurðarvald í stærri málum færi beint til dómstóla en barnaverndarnefndir færu áfram með úrskurðarvald í vissum málum sem vörðuðu þvingunarráðstafanir sem telja mætti að vörðuðu minni hagsmuni. Meðal fjölmargra nýmæla í frumvarpinu væru reglur um málsmeðferð fyrir dómi, sbr. ákvæði X. og XI. kafla frumvarpsins. Þau ákvæði væru að öllu leyti nýmæli enda hefði ekki fyrr í íslenskum lögum sérstaklega verið gert ráð fyrir því að barnaverndarmál væru rekin fyrir dómi. Gerður væri greinarmunur á málum samkvæmt 2. mgr. 34. gr. og 29. gr. annars vegar og málum samkvæmt 27. og 28. gr. hins vegar. Mál þessi væru ólík að eðli, meðal annars að því leyti að mál samkvæmt 27. og 28. gr. væru ekki höfðuð með stefnu heldur væri máli beint til héraðsdómara. Af þessum sökum væri ákvæðum um málsmeðferð fyrir dómi skipt niður á tvo kafla og sérstök athygli vakin á 1. mgr. 54. gr. um sérfróða meðdómsmenn. Væri í því sambandi vert að benda á að í frumvarpinu væru ákvæði þar sem beinlínis segði að sérfróða meðdómsmenn skyldi að jafnaði kveðja til setu í dómi vegna mála samkvæmt 29. gr., sbr. nánar ákvæði 54. gr. frumvarpsins.

Í athugasemdum við 54. gr. frumvarpsins sagði að í 1. mgr. væri lagt til að lögfest yrði sú regla að sérfróðir meðdómsmenn skyldu að jafnaði kallaðir til setu í dómi. Þá sagði: „Tæplega er ástæða til að sérfróðir meðdómsmenn séu ávallt kallaðir til, t.d. þar sem útivist verður af hálfu aðila, máli er vísað frá vegna augljósra annmarka á því eða þar sem máli er lokið með sátt. Í öðrum tilvikum þar sem mál kemur til frekari meðferðar er miðað við að sérfróðir meðdómsmenn séu kallaðir til. Um meðdómsmenn gilda að öðru leyti ákvæði laga um meðferð einkamála. Í almennum athugasemdum við frumvarp þetta, sbr. kafla um meðferð barnaverndarmála fyrir dómi, kemur fram að færð hafi verið þau rök gegn því að fela dómstólum meðferð barnaverndarmála að erfitt sé að tryggja nægilega sérþekkingu hjá hinum almennu dómstólum. Nefndin telur að mál skv. X. kafla séu þannig vaxin efnislega að almennt verði að gera ráð fyrir að sérþekkingar sé þörf. Því er einfaldlega lagt til að lögfest verði ákvæði sem gerir ráð fyrir að sérfróðir meðdómsmenn skuli að jafnaði kvaddir til setu í dómi í málum af því tagi. Með þessum hætti ætti að vera unnt að tryggja nægilega sérþekkingu þar sem hennar er þörf.“

2

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga var breytt með 27. gr. laga nr. 80/2011 og eftir þá breytingu sagði í ákvæðinu: „Í málum samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal kveðja til sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi nema útivist verði af hálfu aðila eða máli vísað frá vegna augljósra annmarka.“ Í lögskýringargögnum kom fram að rétt þætti „að kveða skýrara að orði um skyldu til að kveðja sérfróða meðdómsmenn í barnaverndarmálum. Við setningu núgildandi laga var gengið út frá því að barnaverndarmál væru þannig vaxin efnislega að almennt bæri að gera ráð fyrir að sérþekkingar væri þörf. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laganna var gengið út frá því að sérfróðir meðdómsmenn yrðu kallaðir til nema í undantekningartilvikum sem voru nefnd sérstaklega. Í dómi Hæstaréttar frá 7. febrúar 2008 í máli nr. 382/2007 kemur fram að það sé háð mati héraðsdómara hvort kveðja skuli til sérfróða meðdómendur skv. 54. gr. laganna en í málinu hafði héraðsdómari einn lagt efnisdóm á mál og sýknað stefndu af kröfu um sviptingu forsjár. Ekki þykir rétt að kvika frá því að þörf sé sérþekkingar til að kveða upp efnisdóm í barnaverndarmáli. Því þykir rétt að taka af öll tvímæli og gera það skylt að kveðja til sérfróða meðdómsmenn nema við þær sérstöku aðstæður sem er lýst í ákvæðinu.“

 

3

Hæstiréttur kvað 27. febrúar 2019 upp dóm í máli nr. 26/2018. Þar var deilt um það hvort skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga fyrir forsjársviptingu væri fullnægt. Við meðferð málsins í héraði höfðu tveir sérfróðir meðdómsmenn verið kvaddir til setu í dómi 20. apríl 2018, en lög nr. 49/2016 tóku eins og áður segir gildi 1. janúar sama ár, og giltu því breytt ákvæði laganna um þá skipan. Dómur Landsréttar í málinu var kveðinn upp 21. september 2018 og skipuðu dóm þar tveir embættisdómarar og einn sálfræðingur.

Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga, sbr. 27. gr. laga nr. 80/2011, leiddi af sér skyldu héraðsdómara til að kveðja til tvo sérfróða meðdómsmenn í málum sem vörðuðu sviptingu forsjár barns og hafi það ekki verið háð mati hans. Að þessu síðastgreinda leyti hefði ákvæðið að geyma sérreglu. Til þess yrði að líta að við setningu laga nr. 80/2011 hefði aðalregla laga nr. 91/1991 verið sú að þegar þörf væri á sérkunnáttu í héraðsdómi yrðu kvaddir til tveir menn sem hana hefðu til að taka sæti í dómi. Af þessum sökum hefði á þeim tíma verið sjálfgefið að orðalagi 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga yrði hagað á þann hátt að rætt væri í fleirtölu um að kvaddir yrðu til sérfróðir meðdómsmenn. Eftir að áðurnefndri aðalreglu laga nr. 91/1991 hefði verið breytt með 1. gr. laga nr. 49/2016 í það horf, að einn sérfróður meðdómsmaður sæti í dómi í héraði þegar sérþekkingar væri þörf ásamt tveimur embættisdómurum, samrýmdist orðalag 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga á hinn bóginn ekki lengur almennum reglum um meðferð einkamála fyrir dómi. Ekki yrðu séð haldbær rök fyrir því að mál af þessum toga ættu að njóta að þessu leyti sérstöðu í samanburði við önnur mál. Yrði að þessu gættu að líta svo á að óhögguð stæði sú sérregla í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga að héraðsdómara bæri ávallt að kveðja sérfróðan meðdómsmann til setu í dómi við rekstur máls um sviptingu forsjár barns, en með 1. gr. laga nr. 49/2016 hefði í raun fallið brott sá almenni þáttur fyrrnefndu lagagreinarinnar að sérfróðu meðdómsmennirnir skyldu vera tveir. Samkvæmt þessu hefði sú ákvörðun héraðsdómara að kveðja til tvo sálfræðinga til að skipa dóm í málinu með sér verið í andstöðu við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Var því talið óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

4

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga var breytt með 39. gr. laga nr. 76/2019. Eftir þá breytingu segir í ákvæðinu: „Í málum samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal kveðja til setu í dómi sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn nema útivist verði af hálfu aðila eða máli vísað frá vegna augljósra annmarka. Um fjölda þeirra og kvaðningu fer að öðru leyti eftir 2. gr. og 2. gr. a. laga um meðferð einkamála.“ Í almennum athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 76/2019 kom fram að með þeim breytingum sem lagðar væru til í frumvarpinu væri fyrst og fremst stefnt að því að skýra, samræma og einfalda lagaákvæði sem fjalli um málsmeðferð fyrir dómstólum. Hvað sérfróða meðdómsmenn og barnaverndarmál varðaði væri lagt til að skylt yrði að kveðja til meðdómsmann eða meðdómsmenn í málum sem rekin væru samkvæmt 54. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um fjölda þeirra og kvaðningu færi aftur á móti eftir almennum reglum um meðferð einkamála.

Um 39. gr. fyrrgreinds frumvarps sagði svo í skýringum við þá grein: „Þegar gerðar voru þær breytingar á 2. gr. laga um meðferð einkamála með 1. gr. laga nr. 49/2016 að meginreglan yrði sú að heimilt væri að kveðja einn sérfróðan meðdómsmann til setu í dómi í héraði í stað tveggja áður, var ekki hugað sérstaklega að því að taka til endurskoðunar sérregluna um sérfróða meðdómsmenn í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga eins og henni var breytt með 27. gr. laga nr. 80/2011. Það sem greindi ákvæðið um meðdómsmenn í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga frá almennu heimildinni í 2. gr. laga um meðferð einkamála, eins og það var fyrir gildistöku laga nr. 49/2016, var að í fyrrnefnda ákvæðinu var kveðið á um skyldu til að kveðja til sérfróða meðdómsmenn en það síðara var orðað sem heimildarákvæði. Í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga er aðeins talað um meðdómsmenn en ekki mælt fyrir um fjölda þeirra enda óþarft þar sem gert var ráð fyrir því í almenna ákvæðinu í 2. gr. laga um meðferð einkamála að meðdómsmenn væru tveir.“

Áfram sagði í skýringum við 39. gr. frumvarpsins: „Nokkur réttaróvissa hefur af framangreindum ástæðum skapast um fjölda meðdómsmanna í barnaverndarmálum eftir að almenna reglan í 2. gr. laga um meðferð einkamála varð sú að kveðja skyldi til setu í dómi í héraði einn sérfróðan meðdómsmann. Með breytingunni er ætlunin að greiða úr þessari réttaróvissu. Svo virðist sem tilefni þess að ákvæði 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga var breytt með 27. gr. laga nr. 80/2011 hafi fyrst og fremst verið að tryggja að sérþekkingar nyti við í dómi í málum í þessum málaflokki en ekki endilega að tryggja að þeir yrðu fleiri en einn. Til marks um þetta segir í skýringum við 27. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 80/2011 að ekki þætti rétt að hvika frá því að þörf væri sérfræðiþekkingar til að kveða upp efnisdóm í barnaverndarmáli, sbr. 139. löggjafarþing 2010-2011 (56. mál, þskj. 57). Til skýringar er rétt að taka fram að 27. gr. téðs frumvarps varð að 26. gr. laga nr. 80/2011 í meðförum Alþingis. Orðalagið „sérfróða meðdómsmenn“ virðist þannig til komið af þeirri ástæðu einni að almenna reglan í 2. gr. laga um meðferð einkamála gerði þá ráð fyrir tveimur meðdómsmönnum. Að frágenginni skyldu til þess að kveðja til meðdómsmann í málum samkvæmt 29. gr. og 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga þykja ekki sérstök rök fyrir að hafa aðra tilhögun á fjölda og kvaðningu sérfróðra meðdómsmanna í slíkum málum en öðrum málum þar sem bornar eru fram málsástæður sem dómari telur sérkunnáttu þörf til að leysa úr í dómi.“

V

Eins og áður er rakið var við setningu barnaverndarlaga nr. 80/2002 lögfest það nýmæli í íslenskum rétti að fela dómstólum úrskurðarvald í stærri barnaverndarmálum og þar á meðal í málum um forsjársviptingu samkvæmt 29. gr. laganna. Til samræmis við það kom fram í 1. mgr. 29. gr. að barnaverndarnefnd væri heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skyldu sviptir forsjá að fullnægðum þeim skilyrðum sem nánar greindi í ákvæðinu. Um málsmeðferð fyrir dómi var fjallað í X. kafla laganna og þar sagði í 1. mgr. 54. gr., eins og ákvæðið var í upphafi, að í málum samkvæmt X. kafla skyldi að jafnaði kveðja sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi og skyldu að öðru leyti gilda um þá ákvæði laga um meðferð einkamála. Af orðalagi ákvæðisins leiddi að kvaðning sérfróðra meðdómsmanna til setu í dómi í þessari tegund mála skyldi vera meginregla og var tilgangur þess fyrirkomulags að tryggja að nægileg sérþekking væri til staðar við meðferð barnaverndarmála fyrir dómi.

Framangreind meginregla var ekki forstakslaus, sbr. orðalagið „að jafnaði“ í 1. mgr. 54. gr. laganna. Í lögskýringargögnum var eins og áður greinir tekið fram að ekki væri í öllum tilvikum þörf sérfróðra meðdómsmanna, til dæmis þar sem útivist yrði af hálfu aðila, máli væri vísað frá vegna augljósra annmarka á því eða þar sem máli væri lokið með sátt. Með breytingu þeirri á 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga, sem gerð var með 27. gr. laga nr. 80/2011, var áðurgreind meginregla áréttuð af löggjafans hálfu og svo komist að orði í lögskýringargögnum að ekki þætti rétt að hvika frá því að þörf væri sérþekkingar til að kveða upp efnisdóm í barnaverndarmáli. Þætti því rétt að taka af öll tvímæli og gera það skylt að kveðja til sérfróða meðdómsmenn, nema við þær sérstöku aðstæður sem lýst væri í ákvæðinu, en þær væru þegar útivist yrði eða máli vísað frá vegna augljósra annmarka. Eins og áður getur komst Hæstiréttur í dómi sínum 27. febrúar 2019 í máli nr. 26/2018 að þeirri niðurstöðu að 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga, sbr. 27. gr. laga nr. 80/2011, leiddi af sér skyldu héraðsdómara til að kveðja til tvo sérfróða meðdómsmenn í málum sem vörðuðu sviptingu forsjár barns og væri það ekki háð mati hans. Að þessu leyti hefði ákvæðið að geyma sérreglu.

Fram til 1. janúar 2018 var aðalregla laga nr. 91/1991 sú að ef deilt var um staðreyndir sem bornar voru fram sem málsástæður og dómari taldi þörf sérkunnáttu í dómi til að leysa úr gat hann kvatt til tvo meðdómsmenn sem hefðu slíka kunnáttu. Eins og getur í téðum dómi Hæstaréttar 27. febrúar 2019 var sjálfgefið að orðalagi 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga yrði hagað á þann hátt að rætt væri í fleirtölu um að kvaddir yrðu til sérfróðir meðdómsmenn. Jafnframt var þess getið í dóminum að með 1. gr. laga nr. 49/2016 hefði í raun fallið brott sá almenni þáttur 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga að sérfróðir meðdómsmenn skyldu vera tveir. Var og af löggjafans hálfu tekið af skarið um þetta með þeirri breytingu á 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga sem gerð var með 39. gr. laga nr. 76/2019 og gildi tók 25. júní 2019. Af framangreindu leiðir að við meðferð forsjársviptingarmála, sem rekin eru fyrir héraðsdómi samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga, ber dómara samkvæmt sérreglu 1. mgr. 54. gr. laganna að kveðja til sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn, nema við eigi undantekningar þær sem greinir í ákvæðinu. Fer þá um fjölda þeirra og kvaðningu að öðru leyti eftir 2. gr. eða 2. gr. a. laga nr. 91/1991.

Með lögum nr. 50/2016 um dómstóla sem gildi tóku 1. janúar 2018, að undanskildum bráðabirgðaákvæðum I, II, IV, V, VI, VII og VIII, var sú breyting gerð á dómstólaskipan landsins að dómstigum var fjölgað í þrjú með stofnun Landsréttar sem áfrýjunardómstóls. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna taka þrír dómarar við Landsrétt þátt í meðferð máls fyrir dómi með þeim undantekningum sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 40. gr. laganna kemur fram, að þegar þörf er á sérfróðum meðdómsmanni til setu í dómi við meðferð máls skulu héraðsdómari, forseti Landsréttar eða eftir atvikum dómsformaður, sem falin hefur verið meðferð máls, kveðja til setu einhvern eða einhverja þeirra kunnáttumanna sem dómstólasýslan hefur tilnefnt samkvæmt 39. gr. laganna, að því tilskildu að hann eða þeir hafi þá sérkunnáttu sem þörf er á til úrlausnar málsins. Samkvæmt þessu gera lög um dómstólaskipan landsins ráð fyrir því að sérfróður meðdómsmaður eða eftir atvikum meðdómsmenn geti tekið sæti í Landsrétti við meðferð máls þar fyrir dómi þegar þess er þörf. Eins og áður getur hefur löggjafinn metið það svo að við meðferð forsjársviptingarmáls fyrir dómi sé það meginregla að kveðja skuli til sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn, sbr. 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga. Með því að engin undantekning er í lögum gerð frá þeirri skipan mála þegar forsjársviptingarmál er rekið fyrir Landsrétti gildir meginreglan einnig við rekstur slíks máls þar fyrir dómi, nema við eigi þau undantekningartilvik sem greinir í ákvæðinu. Svo hagar ekki til í máli þessu. Bar því til samræmis við meginreglu 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga að kveðja til sérfróðan meðdómsmann við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Þar sem það var ekki gert var skipan Landsréttar við meðferð málsins ekki í samræmi við áskilnað laga. Ber því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.

 

 

Dómur Landsréttar 27. september 2019.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Eiríkur Jónsson og Ragnheiður Harðardóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 24. júlí 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Vestfjarða 12. júlí 2019 í málinu nr. E-23/2019.

 1. Áfrýjandi krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Landsrétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

 2. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.

Niðurstaða

 1. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

 2. Málskostnaður verður ekki dæmdur. Um gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Oddgeirs Einarssonar, 800.000 krónur.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 12. júlí 2019.

             Mál þetta, sem höfðað var 18. mars sl. með með áritun lögmanns stefnda um birtingu réttarstefnu, sem útgefin var sama dag, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 24. júní sl. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum 53. gr. b í barnaverndarlögum nr. 80/2002, sbr. XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi barnaverndarnefnd B, kt. [...], [...].

Stefndi er A, kt. [...], með lögheimili að [...], [...].

Stefnandi krefst þess að stefndi verði sviptur forsjá barna sinna, C, kt. [...], og D, kt. [...], sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

I

Mál þetta snýr að börnunum C, sem er 16 ára gömul, og bróður hennar, D, sem er á þrettánda ári. Þegar C fæddist var faðir hennar í fangelsi. C var á þriðja ári þegar stefndi lauk afplánun og skömmu síðar fæddist D. Fjölskyldan bjó fyrstu árin á [...] en flutti til [...] þegar börnin voru um [...] ára. Þar bjuggu börnin í um eitt ár, en faðir þeirra fór fljótlega til [...] og móðir þeirra á eftir honum. Voru börnin þá í umsjá vinafólks í [...] þar til þau fóru til [...]. Þar bjuggu börnin þar til foreldrar þeirra skildu 2015. Eftir skilnaðinn hefur stefndi farið einn með forsjá barnanna en móðir þeirra býr í [...]. Stefndi flutti með börnin til Íslands í lok [...] 2015. Bjuggu þau fyrst í [...]og síðan á [...] en sumarið 2018 fluttu þau í [...].

Afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum barnanna hófust í lok árs 2015. Í mars 2016 höfðu barnaverndaryfirvöldum borist fjórar tilkynningar um fátækt fjölskyldunnar, áfengisneyslu og vanrækslu föður gagnvart börnunum. Voru börnin fyrst send í fósturvistun í kjölfar þessa í mars 2016 fram í apríl sama ár, meðan stefndi leitaði sér meðferðar við áfengissýki. Síðan hafa börnin ítrekað verið vistuð utan heimilis í lengri og skemmri tíma og er núverandi vistun þeirra sú sjöunda frá þeim tíma. Í þeirri vist hafa þau dvalið frá [...] 2018. Mál barnanna hafa heyrt undir þrjár barnaverndarnefndir á þessum tíma.

Eftir að barnaverndarmál stefnda fluttist til stefnanda sumarið 2018 var fyrst gert samkomulag við hann um meðferð máls í september það ár, sem skyldi gilda fram á árið 2019, en þá höfðu börnin verið hjá föður sínum frá því í lok júní 2018. Stefndi greindi stefnanda frá því 4. október 2018 að hann hygðist fara til [...] og dvelja þar frá 13. til 21. október. Kvað hann móðurbróður barnanna mundu dvelja hjá þeim á meðan og þau færu í mat til ömmu sinnar. Mánudaginn 22. október barst stefnanda tölvupóstur frá Grunnskólanum [...], þess efnis að stefndi hefði tilkynnt að börnin kæmu ekki í skólann fyrr en 5. nóvember, þar sem þau væru í [...]. Ekki hafði verið óskað eftir leyfi frá skólanum vegna þessa. Fjórum dögum síðar barst barnaverndarnefnd tilkynning undir nafnleynd um að börnin hefðu dvalist í Reykjavík og áhyggjur væru hafðar af því að stefndi hefði aðeins keypt flug fyrir þau utan en ekki heim aftur. Þann 29. október mætti D í skólann en ekki systir hans, sem þó reyndist vera komin aftur heim til [...]. Höfðu börnin farið til Reykjavíkur með ættingja sínum og átt að gista hjá kunningja fjölskyldunnar. Það gekk hins vegar ekki eftir og höfðu þau þá fengið að dvelja hjá kærasta C þessa viku, þar til þau fengu far aftur heim. Ekki náðist samband við stefnanda í tengslum við þetta.

Stefndi var fluttur á sjúkrahús [...] 2018 vegna hjartaverks og var þá ölvaður. Stefndi var á sjúkrahúsi til 16. sama mánaðar, er hann útskrifaði sig sjálfur gegn læknisráði. Á meðan höfðu börnin verið í umsjón móðurömmu sinnar. Laugardaginn [...] skar stefndi sig á púls á heimili sínu að börnunum viðstöddum. Var hann undir áhrifum áfengis er það gerðist. Samkvæmt skýrslu lögreglu sem kom á staðinn var mikill skortur á hreinlæti á heimilinu er að var komið og vart verjandi að bjóða börnum upp á að búa þar. Var börnunum enn komið fyrir hjá móðurfjölskyldu þeirra er þarna var komið sögu. Mánudaginn [...] voru börnin komin aftur til síns heima, til föður síns sem hafði útskrifað sig sjálfur af sjúkrahúsi. Þá mættu börnin ekki til skóla.

Stefndi gekkst undir áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga 20. nóvember 2018.  Þar samþykkti hann tímabundna vistun barnanna á fósturheimili í tvo mánuði, meðan hann lyki læknismeðferðum, sem læknar hefðu mælt fyrir um, og færi í áfengismeðferð eða ynni markvisst að því að halda sig alveg frá áfengisneyslu. Fljótlega eftir það fór stefndi til [...] þar sem hann dvelur enn með unnustu sinni.

Stefnandi var í samskiptum við stefnda með tölvupósti í upphafi árs 2019 um framhald málsins og símafundur var haldinn með stefnda um mál hans 5. febrúar 2019. Samkvæmt fundargerð þess fundar kvaðst stefndi þá eiga pláss á Vogi 17. febrúar í 10 daga meðferð og kvaðst vilja aðstoð og að börnin yrðu vistuð í eitt ár til að hann hefði tíma til að koma sér upp húsnæði og stöðugleika. Á fundi nefndarinnar síðar sama dag var tekin ákvörðun um að gera kröfu um þá forsjársviptingu sem mál þetta lýtur að.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína um forsjársviptingu á því að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fullvíst sé, með hliðsjón af gögnum málsins og forsögu þess, að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna sé hætta búin fari stefndi með forsjá þeirra, auk þess sem daglegri umönnun þeirra sé alvarlega ábótavant.

Stefnandi telur stuðningsaðgerðir á grundvelli barnaverndarlaga ekki duga til að tryggja öryggi barnanna og fullnægjandi uppeldisskilyrði til frambúðar á heimili stefnda. Þrátt fyrir yfirlýsingar stefnda um vilja til samstarfs virðist hann hvorki hafa úthald né getu til að framfylgja forsjárskyldum sínum. Í því samhengi skipti aldur barnanna ekki máli, þau þarfnist eftir sem áður umhyggju, öryggis og hlýju. Ítrekaðar tilraunir og afskipti barnaverndaryfirvalda til þess að reyna að aðstoða stefnda hafi ekki gagnast. Telur stefnandi gögn málsins sýna svo ekki verði um villst að daglegri umönnun, uppeldi og andlegri heilsu barnanna sé hætta búin sökum þess að stefndi sé augljóslega vanhæfur til að fara með forsjá þeirra vegna veikinda sinna og áfengissýki.

Þá bendir stefnandi á að mál barnanna hafi verið til meðferðar hjá öðrum barnaverndarnefndum frá árinu 2015, eins og gögn málsins beri með sér, ítrekaðrar tilkynningar um áfengisneyslu og vanrækslu stefnda gagnvart börnunum.

Stefnandi telur stuðningsaðgerðir í því skyni að bæta forsjárhæfni stefnda fullreyndar. Leitast hafi verið við að eiga góða samvinnu við stefnda og beita eins vægum úrræðum og unnt hafi verið hverju sinni. Mikill og margvíslegur stuðningur fagaðila í fleiri ár hafi litlum sem engum árangri skilað, stefndi nái ekki, þrátt fyrir það, að tryggja börnunum viðunandi umhverfi og líðan. Daglegri umönnun barnanna sé verulega ábótavant og heilsu þeirra og þroska hætta búin vegna alvarlegs fíknivanda stefnda og heilsuleysis.

Telur stefnandi að hafa verði hagsmuni barnanna að leiðarljósi og virða rétt þeirra til þroskavænlegra aðstæðna. Það sé mat stefnanda að það þjóni hagsmunum þeirra best að búa við stöðugleika og öryggi, sbr. 3. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Mikil og óforsvaraleg áhætta felist í því að láta stefnda fara með forsjá barna sinna. Þá telur stefnandi önnur og vægari úrræði en forsjársviptingu ekki tæk, þar sem brýna nauðsyn beri til að skapa börnunum öryggi og stöðugleika til frambúðar og þá umönnun sem þau eigi rétt á lögum samkvæmt. Stuðningsúrræði sem stefnandi hafi yfir að ráða nægi ekki í því sambandi. Þá hafi vægustu ráðstöfunum alltaf verið beitt til að ná fram markmiðum stefnanda og krafa stefnanda nú sé sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Meðalhófs hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki gripið til viðarhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi verið til.

Þá vísar stefnandi til frumréttinda barna og almennrar skyldu foreldra sem lögfest er í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á skuli líta til þeirrar grundvallarreglu íslensks barnaréttar að hagsmunir barnsins, það sem því sé fyrir bestu, skuli vega þyngst á vogarskálunum. Þá sé hinu opinbera skylt að veita börnum vernd. Um þetta vísar stefnandi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlaga og ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Einnig til 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að meintir annmarkar á forsjáhæfni hans séu ekki í samræmi við þau gögn sem liggi þeim til grundvallar. Þá sé að finna gögn í málinu þar sem fullyrt sé um atvik máls undir nafnleynd. Þær fullyrðingar geti ekki talist sannaðar þótt opinber aðili hafi skráð þær niður. Fráleitt sé að slaka á almennum sönnunarkröfum sem endranær gildi í einkamálum í máli sem þessu. Staðhæfingar stefnanda í þessu efni séu því að mestu leyti ósannaðar.

Hvað varðar málsmeðferð og vinnubrögð barnaverndaryfirvalda byggir stefndi á því að brotið hafi verið gróflega á friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu sinnar með aðgerðum barnaverndaryfirvalda á [...] sem hafi verið í andstöðu við barnaverndarlög, stjórnsýslulög og jafnvel hegningarlög. 

Stefndi kveður ástæður þess að börn hans hafi verið í viku í Reykjavík meðan hann var í [...] eiga sér skýringar sem ekki sé að rekja til sín og sömuleiðis fjarvist dóttur hans úr skóla. Telur stefndi vinnubrögð barnaverndaryfirvalda stefnanda til þess að komast inn á heimili sitt, þ.e. í fylgd sonar stefnda, óforsvaranleg og ólögmæt. Þá telur stefndi þeim staðreyndum ekki gerð skil í málinu að hann hafi óskað eftir að börnin yrðu ekki vistuð hjá systur hans vegna þeirra aðstæðna sem þar séu.

Stefndi byggir á því að sterk tengsl séu milli sín og barnanna, eins og gögn málsins beri með sér, og skýr vilji og afstaða barnanna muni koma fram undir rekstri málsins.

Stefndi byggir á því að skilyrðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé ekki fullnægt. Til þess að unnt sé að svipta stefnda forsjá á grundvelli a- eða d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga þurfi hann augljóslega að vera vanhæfur til að fara með forsjá og „fullvíst“ að líkamlegri eða andlegri heilsu barnsins eða þroska sé hætta búin í umsjá hans. Sönnunarbyrði fyrir því að svo sé hvíli á stefnanda sem ekki hafi axlað hana nægilega. 

Þá byggir stefndi á því að málið sé ekki nægilega upplýst, sbr. skyldur stefnanda í því efni samkvæmt 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, 1. mgr. 56. gr. s.l. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun í máli hans hafi verið tekin áður en málið var nægilega upplýst og slíkt brot á rannsóknarreglu eigi að leiða til ógildingar þeirrar stjórnvaldsákvörðunar.

Þá byggir stefndi og á því að meðalhófs hafi ekki verið gætt í málinu, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga. Skylt hefði verið að beita vægara úrræði en forsjársviptingu í málinu. Ýmis úrræði og stuðning hefði mátt og megi enn veita stefnda til að styrkja forsjárhæfni hans. Þá sé auk þess unnt að fara þá leið að vista drenginn utan heimilis í allt að 12 mánuði á grundvelli 28. gr. barnaverndarlaga í stað þess að svipta stefnda forsjá. Brot á meðalhófsreglu leiði til þess að ógilda beri ákvörðunina. 

Þá telur stefndi málsmeðferð stefnanda fara gegn 6. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mál hans hafi ekki fengið sömu meðferð og annarra í sambærilegri stöðu.

IV

Skýrslur fyrir dómi

Stefndi kom fyrir dóminn og kvaðst hafa flutt einn með börnin til [...] árið 2015 þar sem hann hefði fengið vinnu á vöktum. Það hefði haft í för með sér vandkvæði sem leiddu til afskipta barnaverndaryfirvalda. Kvaðst hann ekki sammála öllu sem barnaverndaryfirvöld fyrir [...] héldu fram. Því hefði verið haldið fram að hann hefði verið að drekka en hann hefði aðeins drukkið eins og „eina rútu af bjór“ um helgi sem væri ekki mikið. Þá kvaðst stefndi ekki hafa drukkið áfengi síðan hann fór til [...].

Um aðdraganda þessa máls sagði stefndi að hann hefði fengið tölvupóst frá barnaverndarnefnd þar sem honum hefði verið stillt upp við vegg. Hann hefði þá greint frá því að hann hefði ekki efni á lögfræðingi. Hann hefði óskað eftir því að börnin yrðu send í ársfóstur til þess að hann gæti gert eitthvað í málunum, aflað fjár og náð heilsu. Stefndi upplýsti að hann hefði flutt til [...] í nóvember sl. þar sem hann byggi nú með konu. Þau búi í lítilli þriggja herbergja en rúmgóðri íbúð ásamt tveimur sonum konunnar. Stefndi kvaðst vera miklu betri til heilsunnar nú en áður. Um tengsl sín við börnin kvað hann þau ágæt. Stefndi kvað dóttur sína vilja halda áfram í námi og vera með kærasta sínum og hann vildi ekki standa í vegi fyrir því. Hvað D varðaði teldi hann betra að drengurinn væri hjá sér. Hann ætti nú konu og það væri betra að hugsa um börn með henni. Stefndi kvaðst telja að börnunum myndi líða betur hjá sér en í fóstri, þar skipti öllu máli að hann væri faðir þeirra. Aðspurður um það hvers vegna mál þetta væri tilkomið kvaðst stefndi ekki vita það. Stefndi taldi sig þó hafa brugðist börnum sínum þegar hann var að drekka. Stefndi kvaðst hafa verið samvinnuþýður gagnvart barnaverndaryfirvöldum.

Aðspurður um framtíðaráform sín kvaðst stefndi sjá framtíðina fyrir sér hér á landi með fjölskyldu sinni, konu sinni og hennar börnum, þótt óvíst væri hvenær það yrði. Til þess þyrfti hann peninga sem hann ætti ekki á [...], hann fengi ekki íbúð á vegum bæjarins og hann væri öryrki. Stefndi taldi drenginn ráða við að flytja til [...], enda væri hann góður í ensku. Stefndi kvaðst ekki vera í vinnu þar sem hann væri veikur. Hann hefði ekki farið í meðferð á síðastliðnu ári en sækti AA-fundi.

E, varaformaður barnaverndarnefndar B, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Vitnið upplýsti að rætt hefði verið við stefnda í síma í tengslum við ákvörðun í máli hans. Talin hefði verið þörf á að stöðva óvissu í lífi barnanna. Stefndi hefði beðið um vistun þeirra í ár meðan hann tæki á sínum málum. Hann hefði m.a. ætlað að fara í meðferð. Hún taldi það hafa verið mat nefndarinnar að útilokað væri að beita vægari úrræðum að teknu tilliti til forsögu málsins og hagsmuna barnanna.

F, deildarstjóri barnaverndar B, kom fyrir dóminn. Vitnið greindi frá því að mál stefnda hefði flust til nefndarinnar í júlí 2018. Fyrsta tilkynning um áfengisneyslu stefnda hefði borist nefndinni um miðjan september 2018. Hann hefði þá verið heimsóttur og gerð áætlun um meðferð máls sem skyldi gilda í fimm mánuði. Áætlunin hefði falist í tilsjón, sálfræðiviðtölum fyrir C, áskilnaði um edrúmennsku stefnda og ýmsu öðru hefðbundnu. Þá hefði stefndi átt að funda vikulega með vitninu. Hann hefði komið þrisvar sinnum og svo greint frá því að hann væri að fara til [...] í tvær vikur. Ferðin hefði í upphafi sýnst ágætlega undirbúin af hálfu stefnda en annað hefði komið á daginn. Nefndin hefði haft spurnir af því að börnin væru farin til föður síns í [...] en þau hefðu svo reynst vera í Reykjavík í viku, eða þar til þau fengu far [...]. Stefndi hefði svo komið í viðtal hjá sér 5. nóvember og greint sér frá því að hann ætti unnustu í [...].

Vitnið greindi frá tilkynningu [...] 2018 er stefndi fór á sjúkrahús vegna hjartaverks og var þá undir áhrifum áfengis. Viku síðar hefði hann skorið sig á púls heima hjá sér. Hefðu börnin þá verið tekin af heimilinu. Mikil óreiða hefði verið á heimilinu og þau haldið til í stofunni. Stefndi hefði þá samþykkt vistun barnanna í tvo mánuði. Börnin hefðu þá verið vistuð á heimili þar sem þau höfðu áður verið í fóstri, að þeirra ósk. Gerð hefði verið önnur áætlun um meðferð máls með stefnda og í kjölfar þess hefði hann farið aftur til [...] þar sem hann væri enn. Vitnið kvað erfitt hafa verið að ná sambandi við stefnda. Það hefði ekki tekist fyrr en starfsmaður barnaverndarnefndar setti sig í samband við hann gegnum persónulegan aðgang sinn á samskiptamiðlinum Messenger. Vitnið kvaðst hafa farið [...] til barnanna og rætt við þau og þau hefðu ekki viljað að sér yrði skipaður talsmaður. Þeim hefði engu að síður verið skipaður talsmaður í febrúar, eftir að ákvörðun var tekin í málinu.

Vitnið kvað nefndina hafa horft á mál stefnda í heild sinni. Það hafi verið mat nefndarinnar að öll vægari úrræði hefðu verið fullreynd. Barnaverndaryfirvöld hefðu verið með mál stefnda til meðferðar frá árinu 2016 án þess að það skilaði árangri. Þá hefði það verið mat nefndarinnar að ósk stefnda um fóstur barnanna í 12 mánuði meðan hann ynni í sínum málum hefði í raun falið í sér það sama og hafði verið gert í málum barnanna árið áður og það væri fullreynt. Vitnið áréttaði að stefndi hefði ekki mætt í meðferð á Vogi í janúar eins og hann hefði þó greint nefndinni frá að stæði til í tengslum við þessa tillögu hans. Vitnið kvað stefnda ekki hafa haft samband við nefndina að fyrra bragði eftir ákvörðunina, ekki leitast eftir umgengi og ekki verið í sambandi við fósturforeldrana, en hins vegar hefði hann verið í sambandi við börnin.

Aðspurt um það hvers vegna ekki hefði verið unnið forsjárhæfnismat áður en ákvörðun var tekin í málinu, svaraði vitnið því til að atvik hefðu gerst hratt og tími ekki gefist til þess og stefndi flutt til [...] Til hefði staðið að vinna slíkt mat meðan stefndi bjó fyrir [...], en hann hefði flutt milli umdæma. Aðspurt um það hvort stefnda hefði verið bent á rétt sinn til fjárhagsaðstoðar vegna málsins kvað hún það koma fram í fundarboði sem stefnda hefði verið sent, bréfleiðis og með tölvupósti.

G sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína um forsjárhæfni stefnda, sem unnin var undir rekstri málsins. Hún gerði grein fyrir því hvernig að vinnu matsins var staðið og að niðurstaða slíks mats byggðist jafnan á mati á því hvernig foreldri myndi ganga að mæta grundvallarþörfum barna almennt og eftir atvikum á skilgreindum sérstökum þörfum einstakra barna. Í ljósi þess hvernig lífi þessara barna hefði verið háttað, m.a. þess að þau hefðu fyrst búið á Íslandi, þá í [...], [...] og svo aftur á mörgum stöðum á Íslandi og gengið í marga skóla og þurft að aðlagast miklum breytingum, hefði verið litið svo á að þörf barnanna fyrir staðfestu og ró í lífinu mætti jafna við sérstakar þarfir. Þau hefðu þörf fyrir að festa rætur. Það kæmi enda fram í því að börnin hefðu tekið miklum framförum upp á síðkastið. Um tengsl barnanna við föður sinn áréttaði vitnið að í góðum tengslum barns og foreldris fælist það að foreldrið væri til staðar fyrir barnið, sú væri ekki raunin í þessu tilviki. Þá sýndi sagan að stefndi væri ekki fær um það til lengri tíma að vera til staðar fyrir börn sín, sakir veikinda og áfengisneyslu. Þá hefði stefndi lítinn skilning á þroska barna sinna. Hann hefði lagt mikið á þau en lítt verið til staðar fyrir þau. Taldi matsmaðurinn mikið vanta upp á hæfni stefnda til að sinna börnum sínum. Þá kvað matsmaðurinn það hafa í sér fólgna mikla óvissu fyrir D ef hann færi til föður síns í [...], í enn eitt landið og til einstaklinga sem hann hefur ekki hitt. Mjög margt gæti farið úrskeiðis við þær aðstæður. Allt raunsæi vantaði í mat stefnda á þessu sem fegraði mjög myndina fyrir drengnum. Stefndi hefði ekki innsæi í þarfir barna og léti sínar eigin þarfir ganga framar öðru. Þarfir barnanna sætu á hakanum. Taldi matsmaðurinn að vægari úrræði en forsjársvipting stefnda, ráðgjöf eða stuðningur myndu ekki duga til. 

H, fósturmóðir barnanna, upplýsti að börnin hefðu verið í  fóstri hjá sér fyrst frá 20. janúar 2018 til 1. júlí 2018 og svo aftur frá 20. nóvember sl. Vitnið kvað börnin hafa verið lokuð og buguð þegar þau komu í seinna sinnið. Þau hefðu farið aftur í sama skóla og áður. Vitnið kvað algeran viðsnúning hafa orðið á líðan barnanna. Þau sýndu bættan árangur í námi, þau væru nú glöð og liði vel. C væri komin með skólavist í framhaldsskóla á [...] og væri í vinnu í sumar. D væri meira úti og léki sér. Vitnið kvað D rokka mjög í afstöðu sinni til þess hvar hann vildi vera, eftir aðstæðum. Vitnið kvað börnin vera mjög náin hvort öðru og taldi að aðskilnaður þeirra gæti reynst D erfiður. Aðspurt upplýsti vitnið að enginn ættingi barnanna hefði haft samband við fósturforeldrana. Einhver samskipti væru milli barnanna og ömmu þeirra [...].

I, móðir kærasta C, gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Vitnið upplýsti að D hefði verið hjá sér um tíma áður en börnin fóru í fóstur hjá föðursystur sinni á liðnu sumri. Hann hefði átt erfitt.

J sálfræðingur, talsmaður barnanna, gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann staðfesti að hafa rætt við börnin og þær skýrslur sem frá honum stafa í málinu.

K, móðir stefnda, gaf símaskýrslu í málinu, en vitnið er búsett í [...]. Vitnið kvað börnin hafa verið hjá sér á hverju ári þegar þau voru lítil og búið hjá sér á tímabili. Kvaðst vitnið hafa viljað fá börnin til sín og kvaðst vera í sambandi við þau.

V

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gerir í máli þessu kröfu um að stefndi, A, verði sviptur forsjá barna sinna, C og D, á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Stefndi krefst sýknu á þeim grundvelli að ekki sé fullnægt skilyrðum nefndra lagaákvæða til að svipta hann forsjá. Byggir stefndi á því að málið hafi ekki verið nægilega upplýst áður en ákvörðun var tekin, sbr. 1. mgr. 41. gr. og 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né hafi verið gætt meðalhófs við meðferð þess, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur stefndi að málsmeðferð stefnanda hafi farið gegn 6. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, en mál hans hafi ekki fengið sömu meðferð og annarra í sambærilegri stöðu.  

Þegar stefnandi tók ákvörðun um að mál þetta skyldi höfðað á fundi 5. febrúar sl. lá fyrir greinargerð F, deildarstjóra barnaverndar, sem hún hafði tekið saman vegna málsins og dagsett er 10. janúar 2019. Þar er rakin forsaga málsins og ítrekuð vistun barnanna utan heimilis á vegum barnaverndar. Gerð er grein fyrir afskiptum barnaverndarnefndar B sérstaklega og aðdraganda þess að börnin voru tekin af heimilinu í lok nóvember 2018. Þá kemur fram að stefndi hafi ekki haft samband við barnaverndarnefnd eftir að hann fór af landi brott og ekki upplýst um það hvar næðist í hann.

Til stóð að taka mál barnanna fyrir á fundi 18. janúar sl., þar sem samningur um tímabundna vistun barnanna var þá að renna út. Stefndi var þá í [...]. Það reyndist erfiðleikum bundið að ná sambandi við stefnda, en engu að síður tókst að boða hann til fundar nefndarinnar og senda honum fyrrnefnda greinargerð. Að ósk stefnda var fundinum frestað til 5. febrúar 2019. Stefndi mætti ekki til fundarins en gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum að símleiðis. Í fundargerð kemur fram að stefndi hafi óskað eftir að börnin yrðu í fóstri í eitt ár svo að hann hefði tíma til að koma sér upp húsnæði og stöðugleika.

Ákvörðun stefnanda, sem tekin var 5. febrúar sl., var rökstudd með eftirfarandi hætti: „Ítrekað hefur verið farið í gegnum úrræði 24. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 án árangurs. Þvert á móti hefur staða barnanna heldur versnað. Af þeim sökum þarf að bregðast hratt við og gera ráðstafanir sem tryggja börnunum festu, reglu og nauðsynlegan ramma. Eins og málið lýtur út í dag er talið fullreynt að vista börnin tímabundið meðan faðir þeirra leitar sér enn einnar meðferðarinnar við krónískri áfengissýki og líkamlegra veikinda sem af henni hefur hlotist. Sést það best af því að á þeim 36 mánuðum sem börnin og faðir þeirra hafa dvalist á landinu hafa börnin verið vistuð sjö sinnum í samanlagt 20 mánuði, lengst í 12 mánuði samfellt, á meðan að faðir þeirra hefur leitað aðstoðar með litlum árangri. Því miður er því sú staða komin upp að telja má að vægari úrræði teljist fullreynd, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og ekki hægt að leggja það á börnin að flytja þau enn einu sinni á milli staða. Mat teymis barnaverndar er að ekki sé lengur boðlegt fyrir börn að búa við slíkt óöryggi  að flytja á milli staða, á milli fósturheimila á heimili föður eða hvert þangað sem faðir hyggst flytjast næst.  Faðir þeirra hefur dvalist í [...] frá því í lok nóvember með unnustu sinni og hennar tveimur börnum. Mjög miklar líkur eru taldar á að hann muni taka börnin með sér þangað ef börnin fara úr fósturvistinni, með tilheyrandi raski, álagi og óvissu. Þau hafa bæði verið mjög skýr með það að þau kæri sig ekki um að flytja til [...], þar sem þau þekkja engan og tala ekki tungumálið. Einnig eru þungar áhyggjur af því að faðir sé ekki og muni ekki geta haldið sér edrú og börnin muni á ný búa við áframhaldandi vanrækslu, óvissu og álag tengt því.“

Í þinghaldi í málinu 28. mars sl. lagði dómurinn fyrir stefnanda að afla matsgerðar um forsjárhæfni stefnda með heimild í 2. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í þinghaldi 9. apríl var G sálfræðingur dómkvödd til þess verks. Matsgerðin er dagsett 3. júní 2019, þar segir m.a. að forsjárhæfni sé metin út frá almennum og sértækum uppeldisþörfum viðkomandi barna. Almennar þarfir sem öll börn hafi snúist um atriði eins og náin og ástrík tengsl við foreldra, vernd og öryggi, líkamlega umönnun og atlæti, örvun, hvatningu og stuðning. Einnig þurfi að taka tillit til sértækra þarfa viðkomandi barna sem upplýsingar kunna að liggja fyrir um. Við forsjármat sé haft í huga að ekki sé leitað að fullkomnum foreldrum, þannig að ýtrustu kröfur og strangasta mat eigi ekki við.

Um mat á niðurstöðum persónuleikaprófa sem matsmaður framkvæmdi á stefnda segir að þær gefi fyrst og fremst til kynna takmarkað innsæi stefnda í alvarleika aðstæðna sinna og barnanna. Saga þeirra lýsi einnig skorti á innsæi stefnda í þarfir þeirra, að hann annist ekki um þau á viðeigandi hátt og skorti ábyrgðarkennd til að mæta þörfum þeirra og búa þeim boðlegar aðstæður. Sömuleiðis að hann taki duttlungakenndar ákvarðanir út frá sínum þörfum en ekki barnanna. 

Í matsgerðinni greinir matsmaður frá því að í samtali sínu við stefnda hafi verið skýrt að hann axli ekki ábyrgð á aðstæðum sínum heldur kenni öðrum um. Í sögu hans megi sjá ýmis einkenni jaðarpersónuleikaröskunar, svo sem hvatvísi, sem viðkomandi bíður oft skaða af, óljósa eða óstöðuga sjálfsmynd, sjálfsvígshótanir eða sjálfsmeiðingar og stormasöm sambönd við annað fólk.

Telur matsmaður fullvíst að miklir brestir hljóti að vera í tengslum milli stefnda og barnanna. Aftur og aftur hafi þau ekki getað reitt sig á að hann væri til staðar fyrir þau heldur hafi þurft að koma þeim til vandalausra vegna áfengisneyslu hans og heilsubrests sem af henni hafi leitt. Auk þess sé ljóst að tengsl við börnin og það að annast um þau sé ekki forgangsmál í lífi stefnda um þessar mundir. Það sjáist til dæmis af því að hann hafi farið úr landi síðastliðið haust og þegar ljóst hafi verið að hann kæmi ekki til baka hafi börnin verið vistuð áfram. Þá hafi stefndi ekki nýtt sér að fá börnin í umgengni, eins og gert hafi verið ráð fyrir þegar þau hafi fyrst verið vistuð hjá núverandi fósturforeldrum. Hann hefði þá borið því við að hann þyrfti að vinna mikið en börnin haldi því fram að hann hafi þá farið utan til að hitta konu sem hann hafði kynnst á netinu.

Matsmaður telur að vegna óstöðugleika og margvíslegra erfiðleika í uppvexti barnanna hafi þau sérstakar þarfir fyrir stöðugleika og einnig almennt góðar uppeldisaðstæður til þess að þau nái sem best að þroskast sem sjálfstæðir einstaklingar sem eru færir um að lífa góðu lífi. Lýsingar á D og því hvað hann hafi verið háður systur sinni þegar hann kom í núverandi fóstur sýni ofurviðkvæman dreng með mikinn kvíða. Sagan sýni hins vegar að stefndi sé ófær um að skapa börnum sínum umhverfi sem fullnægir almennum þörfum barna fyrir vernd og öryggi. Lífsstíll sá sem hann hafi boðið börnum sínum síðustu ár hafi einkennst af hinu gagnstæða, skorti á staðfestu og stöðugleika, miklum óróleika, óvissu og ófyrirsjáanlegri framtíð. Þá telur matsmaður að stefndi sé illa fær um að annast um líkamlega umönnun og atlæti barna sinna svo vel sé yfir lengri tíma. Endurteknar lýsingar á óviðunandi ástandi heimilisins og barnanna þegar stefndi hafi verið að drekka liggi fyrir. Þá hafi börnin að sögn fósturforeldra skort leiðsögn og kennslu í almennum atriðum. Hjá tannlækni hafi komið í ljós að hvorugt þeirra kunni að bursta í sér tennurnar og lítið eftirlit hefði verið haft með tannhirðu þeirra. Þá er það mat matsmanns að stefndi hafi lítinn skilning á þroskastigi barna sinna og í staðinn fyrir að veita þeim góð tækifæri til að spreyta sig og hjálpa þeim og styðja hafi hann lagt á þau ómanneskjulegt álag með óstöðugum lífsstíl og sífelldum flutningum. Í stað þess að reyna að búa börnum sínum mannsæmandi aðstæður á Íslandi láti hann eigin hvatir stjórna ferðinni og taki ekki tillit til þarfa barnanna. Þá telur matsmaður að stefndi hafi lítt sinnt þeim þætti foreldrahlutverksins sem felst í fyrirmynd og siðun. Börnin hafi þurft að horfa upp á drykkju hans og afleiðingar hennar. Þar hafi hann verið þeim afleit fyrirmynd. Þá hafi hann skömmu eftir komuna til landsins lagt á dóttur sína, þá 12 ára gamla, að annast um bróður sinn. Slíkt fyrirkomulag sé almennt kallað vanræksla gagnvart börnum og ekki þroskavænlegar aðstæður.

Niðurstaða matsmanns um forsjárhæfni stefnda er afdráttarlaus en hann telur að „hæfni A til að fara með forsjá barnanna C og D sé verulega ábótavant og að hann hafi vanrækt alvarlega daglega umönnun og uppeldi þeirra með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Ekki virðist líklegt að breyting sé að verða þar á.“

G sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Lýsti hún því mati sínu að vægari úrræði en forsjársvipting stefnda, eins og ráðgjöf og stuðningur, myndu ekki duga til. Mikið vantaði upp á hæfni stefnda til að sinna börnum sínum og taldi matsmaður það hafa í sér mikla óvissu fyrir drenginn ef hann færi til föður síns í [...], í enn eitt landið og til einstaklinga sem hann hafi ekki hitt. Mjög margt gæti farið úrskeiðis og allt raunsæi vantaði í mat stefnda á þessu, sem fegraði mjög myndina fyrir drengnum. Stefndi hefði ekki innsæi í þarfir barna sinna og léti sínar eigin þarfir ganga framar öðru, þarfir barnanna sætu á hakanum.

Við gerð forsjárhæfnismats fór matsmaður ekki sjálfur á fund barnanna til að kynna sér afstöðu þeirra, en studdist við skýrslur talsmanns, sem þeim var skipaður í febrúar sl. eftir að ákvörðun var tekin í málinu. Í ljósi þess og með vísan til 2. mgr. 63. gr. a í barnaverndarlögum nr. 80/2002 ákvað dómurinn að hitta börnin fyrir aðalmeðferð málsins. Rætt var einslega við hvort þeirra um sig. Á þeim fundum kom í sjálfu sér  ekkert fram sem ekki verður ráðið af öðrum gögnum málsins og skýrslum sem teknar voru fyrir dómi.

Við aðalmeðferð málsins báru bæði varaformaður stefnanda og deildarstjóri barnaverndar á B, sem hafa haft með mál stefnda að gera, að nefndin hefði talið vægari úrræði í málinu fullreynd. Vitnið F kvað nefndina hafa horft á mál stefnda í heild sinni við það mat. Þá hefði það verið mat nefndarinnar að ósk stefnda um tímabundið fóstur barnanna í 12 mánuði myndi ekki skila árangri, það væri fullreynt. Í því samhengi áréttaði vitnið að stefndi hefði greint nefndinni frá því að hann ætti pláss á Vogi í janúar 2019, en hefði ekki mætt í þá meðferð. Þá hefði hann ekki leitast eftir umgengni við börnin né haft samband við fósturforeldrana. Aðspurt um hvers vegna ekki hefði verið unnið forsjárhæfnismat áður en ákvörðun var tekin í málinu svaraði vitnið því til að atvik hefðu gerst hratt og ekki gefist tími til þess. Þá hefði stefndi farið úr landi.

Til viðbótar því sem liggur fyrir samkvæmt framansögðu um aðstæður stefnda og barna hans fram að því að sú ákvörðun var tekin sem hér er til meðferðar eru greinargerðir og gögn barnaverndarnefnda [...] og [...] ásamt fylgiskjölum, afritum dagbóka lögreglu í umdæmi lögreglustjórans [...] er varða atvik 11. og 17. nóvember 2018, og eldri gögn sem stafa frá lögreglu í öðrum umdæmum sem og gögn frá heilbrigðisstofnunum er varða stefnda.

Sem fyrr segir var börnunum skipaður talsmaður 11. febrúar sl., eftir að ákvörðun var tekin í málinu. Í málinu liggja fyrir skýrslur hans, en talsmaðurinn ræddi í tvígang við börnin, fyrst 18. febrúar sl. og síðar 9. maí sl. Í fyrra viðtali talsmanns við drenginn kom fram sá vilji drengsins að búa hjá föður sínum með því skilyrði að það yrði á [...]og faðir hans drykki ekki. Hann var þó einnig spenntur fyrir því að búa hjá móður kærasta systur sinnar og hennar manni. Fann hann ekkert að dvölinni á núverandi fósturheimili. Systir hans á hinn bóginn kvaðst vilja búa áfram á fósturheimilinu og fara í framhaldsskóla. Hún vildi ekki búa hjá föður sínum þegar hann væri að drekka og hún taldi sig ekki geta treyst því að svo yrði. Þá greindi hún frá því að faðir hennar hefði ásakað hana um að vera völd að því að þau systkin hefðu verið tekin frá honum. Hann ætti það til að kenna henni um eitt og annað sem hann bæri sjálfur frekar ábyrgð á.

Síðara viðtal talsmanns við börnin fór fram í tengslum við umgengni stefnda við börnin dagana 6.-8. maí sl., er stefndi kom til landsins til að undirgangast forsjárhæfnismat. Greindi drengurinn þá frá því að hann hefði átt ánægjulegar stundir með föður sínum og kvaðst nú reiðubúinn að flytja til [...]um hríð enda hefði faðir hans sagt honum að þar væru flottari „parkar“ fyrir hlaupahjól en á [...] sem hann væri spenntur fyrir að prófa. Þá yrði dvölin í [...] ekki löng þar sem pabbi hans ætlaði að flytja til Íslands bráðlega. Á hinn bóginn var afstaða stúkunnar óbreytt frá fyrra viðtali.

Eins og rakið hefur verið tók stefnandi þá ákvörðun sem hér er til meðferðar á fundi 5. febrúar 2019. Er ákvörðunin grundvölluð á a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Áður höfðu börn stefnda verið vistuð tímabundið í tvo mánuði með samþykki föður 19. nóvember 2018, á grundvelli 25. gr. barnaverndarlaga, og þá var jafnframt gerð áætlun um meðferð máls, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga. Nefnd ráðstöfun barnanna var gerð í kjölfar alvarlegra atvika og heilsubrests stefnda. Áður en að þessu kom höfðu málefni fjölskyldunnar verið til meðferðar hjá barnaverndarnefndum frá því í lok árs 2015, fyrst á [...], þá í [...] og loks hjá stefnanda frá því að stefndi flutti í umdæmi stefnanda sumarið 2016. Fljótlega eftir að börnin voru vistuð í nóvember 2018 fór stefndi til [...] og hefur verið þar síðan, utan þess að hann kom til landsins til að undirgangast forsjárhæfnismat í byrjun maí sl. Að sögn stefnda býr hann þar með konu og tveimur börnum hennar í rúmgóðri þriggja herbergja íbúð.

Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga skal því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða aðrar slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án árangurs. Þá er í 1. mgr. 41. gr. laganna kveðið á um skyldu barnaverndarnefndar til að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. og 1. mgr. 56. gr. s.l.

Eins og rakið hefur verið og gögn málsins bera með sér höfðu barnaverndaryfirvöld í þremur sveitarfélögum á landinu margsinnis haft afskipti af málefnum stefnda og barna hans allt frá því að þau fluttust til landsins í árslok 2015. Aðstæður barnanna höfðu ítrekað verið skoðaðar og metnar óviðunandi. Gerðir voru samningar um meðferð máls fjölskyldunnar og börnin ítrekað vistuð utan heimilis, með samþykki föður. Í janúar sl. höfðu börnin, frá því að þau komu til landsins, verið lengur í fóstri á vegum barnaverndaryfirvalda en í umsjón föður, með hans samþykki. Þá liggur og fyrir að stefndi hvarf af landi brott þegar eftir að samningur var gerður við hann um tveggja mánaða vistun barna hans í lok [...] 2018, þ.e. stuttu eftir að hann skar sig á púls í viðurvist barna sinna. Á gildistíma þess samnings hafði stefndi ekkert frumkvæði að samskiptum við barnaverndaryfirvöld, og illmögulegt reyndist að ná sambandi við stefnda til samráðs um framhald mála barna hans. Þá liggur ekki annað fyrir um hvað stefndi rækti af skyldum þeim sem hann tókst á herðar með samkomulaginu við stefnanda 20. nóvember 2018, annað en það að stefndi fór ekki í áfengismeðferð eins og hann hafði þó lofað. Þá sá stefndi sér ekki fært að mæta til fundar um málefni barna sinna í febrúar þrátt fyrir að honum mætti vera ljóst að samningurinn um vistun þeirra væri útrunninn, en haft var samband við hann símleiðis. Stóð vilji stefnda þá til þess að börn hans yrðu áfram vistuð í 12 mánuði, þannig að hann hefði tök á að koma sér upp húsnæði og stöðugleika.

Enda þótt fallast megi á það með stefnda að málsmeðferð stefnanda á stjórnsýslustigi hafi ekki með öllu verið hnökralaus, þá verður ekki fram hjá því litið að stefndi var lítt eða ekki til samvinnu í málinu og sakir þess að hann dvaldi erlendis var stefnanda  erfiðara um vik að afla gagna, t.d. forsjárhæfnismats, áður en málið var höfðað. Úr því hefur verið bætt undir rekstri málsins. Þá lágu fyrir ítarleg gögn frá öðrum barnaverndarnefndum um málefni fjölskyldunnar allt aftur til ársins 2015, þar sem þess hafði ítrekað verið freistað að grípa inn í málefni stefnda og liðsinna með úrræðum sem barnaverndarnefndum eru tæk, án árangurs.

Í ljósi forsögu málsins og þess sérstaklega að stefndi var þá ekki aðeins staddur erlendis heldur hafði ekki hug á að koma til landsins í bráð verður heldur ekki á það fallist með stefnda að stefnanda hefði verið unnt að grípa til vægari úrræða í málinu en raun ber vitni. Í því samhengi ber til þess að líta að börn stefnda eru nú að verða stálpuð og því afar mikilvægt að þau fái notið verndar og umönnunar í samræmi við aldur sinn og þroska og búa við viðunandi uppeldisaðstæður þar sem velfarnaðar þeirra er gætt í hvívetna þann tíma sem eftir er af bernsku þeirra, sbr. 1. gr. barnaverndarlaga. Að mati dómsins er afar brýnt að þeim verði tryggð sú festa og öryggi sem börnum er nauðsynleg og mælt er fyrir um í lögum er varða börn og barnavernd. Á það hefur verulega skort fram til þessa og brýnt að lát verði á þeirri óvissu sem börnin hafa búið við um framtíðarhagi sína og heimili.

Við munnlegan málflutning málsins reifaði lögmaður stefnda það sjónarmið að ekki hefði verið gætt að ákvæðum 29. og 30. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, en umrædd ákvæði varða skipun talsmanns barna og hæfi þess talsmanns. Enda þótt fallast megi á það með stefnda að misbrestur hafi verið á því að þessum ákvæðum hafi verið fylgt við stjórnsýslumeðferð málsins þá getur það eitt og sér ekki haft þýðingu við úrlausn þessa dómsmáls, enda ákvað dómurinn eins og áður segir að hitta börnin fyrir aðalmeðferð málsins. Var þá rætt einslega við hvort þeirra um sig þannig að afstaða þeirra lægi fyrir.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið, fyrirliggjandi matsgerðar dómkvadds matsmanns og vitnisburðar hans fyrir dómi, gagna málsins og framburðar vitna verður að telja í ljós leitt að skilyrðum fyrir forsjársviptingu samkvæmt a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sé fullnægt, og að önnur og vægari úrræði komi ekki að haldi. Er því niðurstaða dómsins sú að hagsmunir og þarfir barna stefnda krefjist þess að stefndi verði sviptur forsjá þeirra.

Samkvæmt framansögðu ber að taka kröfu stefnanda til greina.

Stefndi hefur lagt fram gjafsóknarleyfi vegna reksturs þessa máls fyrir héraðsdómi, útgefið 11. apríl sl., sbr. heimild í 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga.

Rétt er að málskostnaður milli aðila falli niður en af hálfu stefnanda var ekki gerð krafa um málskostnað. Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, sem er þóknun lögmanns hans, Oddgeirs Einarssonar, samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti 1.944.690 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dóm þennan kveða upp Bergþóra Ingólfsdóttir, dómstjóri og dómsformaður, Arnaldur Hjartarson héraðsdómari og Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur.

Dómsorð:

Stefndi, A, er sviptur forsjá barna sinna, C og D.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Oddgeirs Einarssonar, 1.944.690 krónur.