Print

Mál nr. 780/2016

Jóna Magnúsdóttir (Jón Magnússon hrl.)
gegn
Íslandsbanka hf (Stefán A. Svensson hrl.)
Lykilorð
  • Skuldabréf
  • Veð
  • Veðleyfi
Reifun
J höfðaði mál á hendur Í hf. og krafðist þess að ógilt yrði samþykki hennar fyrir því að veita Í hf. veð í fasteign og Í hf. gert að að aflýsa af eigninni nánar tilgreindu veðskuldabréfi. Deildu aðilar um hvort J hefði verið annar af tveimur útgefendum veðskuldabréfsins eða aðeins samþykkt að setja faseign sína að veði til tryggingar fyrir skuld samkvæmt bréfinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að J hefði ásamt eiginmanni sínum ritað undir umsókn um lán hjá Í hf. bæði sem umsækjandi og veðsali, en hún var ein eigandi hins veðsetta. Skuldabréf var svo gefið út sama dag og hjónin þar tilgreind í meginmáli sem útgefendur þess. Þá hafði J ritað undir þrjár skilmálabreytingar þar sem hún var sögð greiðandi, auk þess sem hún hafði undirritað tvær sem greiðandi og þinglýstur eigandi. Var því talið að J hefði gengist undir gagnvart L hf., sem annar að tveimur aðalskuldurum, að greiða það lán sem var tilefni þess að veðskuldabréfið var gefið út. Gæti því ekki reynt á málsástæður J sem lytu að ógildi veðsetningar vegna tryggingar sem sett væri fyrir skuld annars manns. Var Í hf. því sýknaður af kröfu J.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 30. september 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. nóvember 2016 og áfrýjaði hún öðru sinni 23. sama mánaðar. Hún krefst þess að ógilt verði samþykki hennar fyrir því að veita stefnda veð í fasteigninni Hegranesi 5 í Garðabæ og stefnda gert að aflýsa af eigninni veðskuldabréfi 29. október 2008. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi deila aðilar um hvort áfrýjandi hafi verið annar af tveimur útgefendum veðskuldabréfsins, sem krafa hennar lýtur að, eða hvort hún hafi aðeins samþykkt að setja fasteign sína að veði til tryggingar fyrir skuld samkvæmt bréfinu. Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að hún hafi eingöngu verið veðþoli og því hafi borið að haga veðsetningunni í samræmi við samkomulag milli fjármálafyrirtækja, Neytendasamtakanna og stjórnvalda frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Þar sem það hafi ekki verið gert beri að víkja skuldbindingu hennar til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi sótti áfrýjandi með eiginmanni sínum um lán hjá stefnda 29. október 2008. Ritaði áfrýjandi undir umsóknina bæði sem umsækjandi og veðsali, en hún var ein eigandi hins veðsetta. Skuldabréfið var síðan gefið út sama dag og þar eru hjónin tilgreind í meginmáli sem útgefendur bréfsins. Þá ritaði áfrýjandi undir skilmálabreytingar 27. júlí 2009, 3. maí 2010 og 6. apríl 2011. Í meginmáli þeirra var hún sögð greiðandi, auk þess sem hún undirritaði síðari tvær sem greiðandi og þinglýstur eigandi. Að öllu þessu virtu verður talið að áfrýjandi hafi gengist undir gagnvart stefnda, sem annar af tveimur aðalskuldurum, að greiða það lán sem var tilefni þess að veðskuldabréfið var gefið út. Gildir þá einu þótt áfrýjandi hafi ekki áritað bréfið í samræmi við þetta heldur aðeins ritað nafn sitt í reit undir tilgreiningunni „Samþykki þinglýsts eiganda (veðsala)“. Samkvæmt þessu verður fallist á það með héraðsdómi að ekki geti reynt á málsástæður áfrýjanda sem lúta að ógildi veðsetningar vegna tryggingar sem sett er fyrir skuld annars manns. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2016

                Mál þetta, sem var dómtekið 8. júní sl., er höfðað af Jónu Magnúsdóttur, Hegranesi 5 í Garðabæ á hendur hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2 í Reykjavík,  með stefnu birtri 6. maí 2015.

                Stefnandi krefst þess að samþykki hennar fyrir veðsetningu fasteignarinnar að Hegranesi 5 í Garðabæ, vegna veðskuldabréfs til nr. 510-74-983356 verði ógilt með dómi og að stefnda verði gert að aflýsa því af eigninni. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að aðeins þau veðréttindi, sem voru umfram 2.500.000 kr. við lánveitingu þann 29. okt. 2008, verði afmáð af eigninni. Auk þessa krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

                Málsatvik

                Umdeilt veðskuldabréf, sem stefnandi krefst að verði aflýst af Hegranesi 5 í Garðabæ, er gefið út þann 29. október 2008. Í umsókn um lánið, sem er undirrituð sama dag, eru umsækjendur sagðir vera Rúnar Þröstur Grímsson, eiginmaður stefnanda og hann nefndur „umsækjandi 1/greiðandi“ og stefnandi nefnd „umsækjandi2“ og neðar í umsókninni er nafn hennar fyrir neðan fyrirsögnina „ábyrgðarmenn/veðsalar/umsækjandi2“. Umsóknin er undirrituð af stefnanda bæði sem ábyrgðarmanns/veðasala og útgefanda2.

                Í meginmáli veðskuldabréfsins segir að Rúnar Þröstur og stefnandi séu útgefendur bréfsins sem gefið var út til Nýja Glitnis banka, sem síðar breytti heiti sínu í Íslandsbanka. Samkvæmt bréfinu viðurkennir „undirritaður skuldari“ að skulda bankanum 27.000.000 króna. Lánið skyldi endurgreiða með mánaðarlegum afborgunum á 40 árum. Lánið var verðtryggt og bar 6,5% fasta vexti. Til tryggingar greiðslu var ofangreind fasteign, Hegranes 5, sett að veði og undirritaði stefnandi, sem þinglýstur eigandi eignarinnar, samþykki fyrir þeirri veðsetningu með undirskrift á bréfið sjálft. Rúnar Þröstur undirritar hins vegar veðskuldabréfið á tveimur stöðum sem útgefandi þess. Skilmálum veðskuldabréfsins var breytt þrisvar sinnum, þann 27. júlí 2009, 3. maí 2010 og 6. apríl 2011. Í rituðum texta skilmálabreytinganna eru stefnandi og Rúnar sögð greiðendur skuldabréfsins. Stefnandi undirritar síðari tvær skilmálabreytingarnar sem greiðandi og þinglýstur eigandi veðsettrar eignar en stöðu hennar er ekki getið við undirritun hennar á fyrstu skilmálabreytinguna.

                Í umsókninni kemur fram að ráðstafa eigi andvirði veðskuldabréfsins til greiðslu eldri skulda og ekki er um það deilt að þannig var því varið. Í fyrsta lagi var greitt upp skuldabréf, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 króna, sem gefið var út af Rúnari Þresti til Glitnis hf., forvera stefnda, þann 27. desember 2005. Þá var einnig greiddur víxill að fjárhæð 2.500.000 króna, gefinn út 18. júlí 2008, útgefandi er Rúnari Þröstur en stefnandi er greiðandi. Víxillinn var seldur forvera stefnda og var með gjalddaga 18. október s.á. Loks var um 3,5 milljón króna yfirdráttarskuld á reikningi Rúnars Þrastar greidd með andviðri bréfsins. Eftir útgáfu veðskuldabréfsins var tryggingarbréfi til forvera stefnda, með allsherjarveði í fasteign stefnanda, vegna fjárskuldbindinga Rúnars Þrastar, allt að 22 milljónum króna, aflýst af eign stefnanda. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 tók stefndi, sem þá hét Nýi Glitnir hf., yfir allar eignir og tryggingaréttindi Glitnis hf.

                Með skriflegri yfirlýsingu Lilju Pálsdóttur útibússtjóra hjá stefnda, er staðfest að greiðslugeta Rúnars Þrastar og stefnanda hafi ekki verið metin þegar þeim var veitt veðlánið í október 2008. Segir í yfirlýsingu hennar að bankinn hafi ekki talið þörf á því þar sem þau hafi verið talin traustir greiðendur og ekki hafi verið um persónulega ábyrgð þriðja aðila.

                Rúnar Þröstur og stefnandi gerðu kaupmála þann 16. júlí 1990. Með kaupmálanum var fasteign og bifreið, sem þá var í eigu stefnanda gert að hennar séreign sem og þær eignir sem keyptar yrðu í stað þeirra eigna sem tilgreindar eru í kaupmálanum.

                Í máli þessu byggir stefnandi á því að hún hafi ekki verið útgefandi umdeilds veðskuldabréf heldur einungis veitt veðtryggingu fyrir því. Stefndi hafi ekki farið að lögum og ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga þegar samþykkis hennar var aflað og því sé samþykki hennar ógildanlegt. Stefndi hefur ekki fallist á kröfu stefnandi um að veðábyrgð hennar verði felld niður.

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að hún hafi ekki gefið verið útgefandi veðskuldabréfs nr. 510-74-983356, sem gefið var út 29. október 2009. Undirritun hennar á bréfið hafi einvörðungu lotið að samþykki fyrir veðsetningu fasteignar hennar en ekki falið í sér loforð um endurgreiðslu lánsins. Það hafi verið augljós mistök af hálfu stefnda að setja nafn hennar sem útgefanda í meginmál bréfsins. Fyrir liggi að stefnandi áritaði veðskuldabréfið um samþykki þinglýsts eiganda (veðsala/lánsveð) og eiginmaður hennar, Rúnar Þröstur hafi verið útgefandi bréfsins. Skuldabréfið sjálft ber ekki með sér yfirlýsingu stefnanda um skuldbindingu um greiðslu peninga. Þar af leiðandi geti hún ekki verið útgefandi bréfsins, vegna reglna sem gilda um form skuldabréfa, þrátt fyrir tilvísun í fyrirsögn bréfsins.

                Þá liggi einnig fyrir að stefnandi hafi í engu notið góðs af þeim fjármunum sem fengust fyrir útgáfu skuldabréfsins þar sem þeim hafi öllum verið varið til að greiða upp eldri skuldir hans, m.a. skuldabréf gefið út af honum árið 2005, sem hafi verið án veðtryggingar og á sínum tíma tekið til að fjármagna viðskipti hans. Öllum samningsaðilum hafi verið þetta ljóst. Með hliðsjón af tekjum stefnanda, sem hafi verið innan við ein og hálf milljón á ári á árunum 2008 og 2009, hafi legið í augum uppi að hún gæti ekki greitt afborganir skuldabréfsins. Tilefni þess að stefnandi ritaði nafn sitt á veðskuldabréfið hafi einvörðungu verið það að bregðast við kröfu forvera stefnda um að afla frekari trygginga fyrir skuldbindingum eiginmanns hennar.

                Stefnandi byggir jafnframt á því að efni skilmálabreytinga sem gerðar voru eftir að upphaflega veðskuldabréfið var gefið út, geti ekki breytt réttarstöðu hennar gagnvart stefnda. Í þeim sé að finna sömu mistök við skjalagerð og gerð voru við útgáfu veðskuldabréfsins. Stefndi geti ekki byggt rétt sinn á þeim. Hafi staðið til að leggja frekari íþyngjandi skuldbindingar á stefnanda með breytinum á skilmálum upphaflega skuldabréfsins, hefði orðið að gera það með skýrum og ótvíræðum hætti og gagna úr skugga um það að stefnanda væri það ljóst. Það hafi ekki verið gert og geti stefndi því ekki byggt á því að skilmálabreytingarnar veiti honum betri rétt en hann upphaflega átti gagnvart stefnanda. Skilmálabreytingar geti því ekki haft nein efnisleg áhrif á stöðu stefnanda sem ábyrgðarmanns á veðskuldabréfinu.

                Við túlkun á efni þeirra skjala sem um er deilt beri að líta til mikils aðstöðumunar aðila og þess að öll skjölin voru samin einhliða af stefnda eða forvera hans og tilgangs lánveitingarinnar, sem hafi verið að greiða upp skuldir eiginmanns stefnanda en ekki hennar sjálfrar. Einnig sé rétt og eðlilegt er að beita viðurkenndum túlkunarreglum samningaréttarins til að gera grein fyrir því hvaða skilning beri að leggja í löggerninginn og réttaráhrif hans. Þó verður við þá túlkun á efni þess að líta til eðlis skuldabréfa sem viðskiptabréfs um að bréfið skuli bera á skýran hátt með sér hvert efni þess er. Af framangreindu leiði að allan vafa beri að skýra stefnanda í hag. Ennfremur vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 7/1936 og telur að með vísan til efni þeirrar greinar, þar sem kveðið er á um að löggerningu sé óskuldbindandi ef hann vegna misritunar eða mistaka er annars efnis en til var ætlast, séu undirritanir hennar, sem veita vísbendingu um að hún hafi tekist á hendur aðrar skuldbindingar en þær að veita heimild til veðsetningar fasteignar sinnar, óskuldbindandi.

                Af öllu framanröktu leiði að mati stefnanda að líta beri svo á að hún hafi veitt samþykki fyrir veðsetningu fasteignar sinnar vegna fjárskuldbindinga þriðja manns. Stefnandi byggir á því að forveri stefnda hafi ekki staðið með lögmætum hætti að því að afla samþykkisins og því beri að ógilda það og aflýsa umdeildri veðsetningu. Til stuðnings þessari málsástæðu vísar stefnandi til Samkomulag un notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem stefndi og forveri hans hafi verið skylt að virða auk þess í viðskiptunum hafi ekki verið gætt eðlilega og heilbrigða viðskiptahátt. Framangreint samkomulag, sem tók gildi 1. nóvember 2001, er gert m.a. af hálfu samtaka banka og verðbréfafyrirtækja fyrir hönd aðila þeirra samtaka en stefndi og forverar hans hafi verið þar á meðal. Þau ákvæði samkomulagsins sem stefnandi byggir á að stefndi og forveri hans hafi brotið, fela í sér skyldu til að veita fullnægjandi upplýsingar í aðdraganda samningsgerðar aðila, m.a. með því að afhenda stefnanda upplýsingabækling um skyldur sem felast í veðábyrgð hennar, leggja mat á greiðslugetu lántakanda eða afla heimildar stefnanda til að láta það ógert. Vísar stefnandi til 2., 3. og 4. gr. samkomulagsins í þessu efni. Stefndi hafi brotið gegn megintilgangi samkomulagsins, sem sé að miða lánveitingar sína við greiðslugetu lántakanda og veita ábyrgðarmönnum tiltekna vernd, með því að láta hjá líða að kanna greiðslugetu skuldar. Hafi þetta jafnframt verið í andstöðu við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti sem m.a. er kveðið á um í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Af þessum vinnubrögðum hafi leitt að stefnanda var gert ómögulegt að taka nægjanlega upplýsta afstöðu til veitingar lánsveðs og meta áhættuna af samþykki sínu. Stefnandi byggir á því að á grundvelli framangreinds beri að ógilda samþykki hennar fyrir veðsetningu fasteignar sinnar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda leiði skoðun á hverju því atriði sem tiltekið er í ákvæðinu sem skilyrði fyrir því að ógilda megi löggerning, til þess að ósanngjarnt sé af hálfu stefnda að bera samþykki hennar fyrir sig.

                Um efni samningsins er það að segja að hið umþrætta skuldabréf fól í sér uppgjör á vanskilum og endurfjármögnun á eldra skuldabréfi lántaka. Það var því aldrei ætlunin að greiða út fjármuni vegna útgáfu þess, og hvað þá til stefnanda. Stefnandi hafði því enga hagsmuni af því að gerast útgefandi og meðskuldari að láninu. Þá liggur fyrir að eldra bréfið sem var gert upp með hinu umþrætta bréfi naut ekki veðtryggingar. Í stefnu er nánar gerð grein fyrir því með hvaða hætti stefnandi rökstyður þá staðhæfingu að skilyrði 36. gr. fyrir ógildingu skuldbindingar hennar séu fyrir hendi. Er m.a. vísað til þess að sem að framan greinir að fjármunum hafi verið varið til að greiða lán eiginmanns hennar en ekki komið henni til góða, hún hafi haft alls ófullnægjandi upplýsingar um eðli þeirrar ábyrgðar sem hún tókst á hendur og um fjárhagsstöðu skuldar, aðstöðumunur aðila sé augljós auk þess sem fljótt hafi komið í ljós að skuldari var ófær um að standa við skuldbindingar sínar.

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi sé útgefandi veðskuldabréfsins sem gefið var út í október 2008 og beinn lántaki umdeildrar lánveitingar. Stefnandi hafi með undirritun sinni á skuldabréfið viðurkennt að skulda stefnda lánsfjárhæðina og skuldbinding hennar sé óskipt (in solidum) með Rúnari Þresti, sem einnig er útgefandi skuldabréfsins. Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi hafi með undirritun sinni á skuldabréfið gefið gilt samþykki fyrir veðsetningu fasteignar sinnar. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.

                Stefndi andmælir staðhæfingu stefnanda þess efnis að hún hafi einungis undirritað umdeilt veðskuldabréf sem þinglýstur eigandi lánsveðs. Um sameiginlega lántöku stefnanda og maka hennar hafi verið að ræða, öll skjöl vegna lánsins beri það sýnilega með sér. Efni skuldabréfsins beri að öllu leyti með sér að stefnandi hafi verið aðalskuldari þess og útgefandi, þótt stefnandi hafi undirritað bréfið í rangan reit. Stefnandi sótti um lánið ásamt maka sínum, svo sem lánsumsókn beri með sér og undirritaði lánsumsóknina sem umsækjandi. Lánsumsóknin sé skýr um það að stefnandi er umsækjandi lánsins en ekki einungis veðsali. Í lánsumsókninni komi jafnframt fram að lánsfjárhæðinni skuli m.a. varið til þess að greiða víxilskuld á nafni stefnanda. Veðskuldabréfið hefi verið útbúið í samræmi við lánsumsóknina, efni þess sé skýrt um það að stefnandi og maki hennar eru bæði útgefendur skuldabréfsins. Með undirritun á skuldabréfið viðurkennir stefnandi að skulda stefnda ákveðna peningagreiðslu. Framangreind gögn séu skýr og stefnandi hafi verið ljóst, eða að minnsta kosti mátt vera ljóst, að skuldabréfið var bæði gefið út af Rúnari Þresti og henni sjálfri, enda hreyfði stefnandi engum mótmælum við tilgreiningu útgefanda á skuldabréfinu. Fær staðhæfing þessi jafnframt stoð í því að stefnandi hafi undirritað þrjár skilmálabreytingar eftir útgáfu skuldabréfsins sem útgefandi eða greiðandi þess. Efni skuldbindingarinnar sjálfrar vegi þyngra við mat á innihaldi hennar, en staðsetning undirritunar. Þar sem fram komi skýrlega í skuldabréfinu að útgefandi viðurkenni með undirritun sinni að skulda stefnda þá fjárhæð sem þar er tilgreind byggir stefndi á því að með undirritun sinni hafi stefnandi tekist á hendur þá skuldbindingu sem skuldabréfið tilgreindi þrátt fyrir staðsetningu undirritunarinnar. Allt að einu feli undirritanir stefnanda á síðari síðari skilmálabreytingar í sér eftirfarandi samþykki hennar á skuldbindingu samkvæmt skuldabréfinu, verði undirritun stefnanda á skuldabréfið sjálft ekki talin nægilega skýr um það efni.

                Þá megi af sameiginlegum skattframtölum stefnanda og maka hennar ráða að þau hafa gert grein fyrir vaxtagjöldum af skuldinni eins og um lántöku til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

                Stefndi mótmælir því að um mistök hans hafi ráðið því að stefnandi hafi verið tilgreindur útgefandi skuldabréfsins. Skuldabréfið sé í því efni í samræmi við lánsumsókn hennar sjálfrar og maka hennar sem þau bæði hafi undirritað auk þess sem hún hafi undirritað samþykki sitt sem ábyrgðarmaður/veðsali. Sótti stefnandi þannig gagngert um lánið ásamt Rúnari Þresti og er því ljóst að tilætlan aðila var að stefnandi yrði lántaki og var stefnandi því útgefandi skuldabréfsins því til samræmis. Var því í engu um mistök að ræða heldur stóð það sérstaklega til frá upphafi að stefnandi yrði útgefandi skuldabréfsins. Þá sé sú staðhæfing röng og ósönnuð að láninu hafi ekki verið ráðstafað í þágu stefnanda enda hafi hluta lánsfjárhæðarinnar verið ráðstafað til greiðslu víxilskuldar á nafni stefnanda. Jafnvel þótt fjármunum hefði ekki verið varið í hennar þágu, geti slíkt ekki geta leitt til ógildingar skuldabréfsins með þeim hætti sem stefnandi byggir á. Við túlkun umdeildrar skuldaviðurkenningar beri að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljast gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.

                Jafnvel þó fallist verði á það með stefnanda, þrátt fyrir ofangreint, að undirritun stefnanda hafi eingöngu falist samþykki fyrr veðsetningu fasteignar hennar, byggir stefndi á því að um gilda veðsetningu sé að ræða. Við lánveitinguna hafi verið gætt allra ákvæða Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Í 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins sé hjónum heimilt að undanskilja fjármálafyrirtæki skyldu sinni til að leggja mat á greiðslugetu skuldara. Samhliða undirritun á veðskuldabréfið ritaði stefnandi undir lánsumsóknina. Í lánsumsókninni sé vísað til skyldu stefnda skv. 3. gr. framangreindu samkomulagi að meta greiðslugetu skuldara og jafnframt lýst þeim undanþágureglum sem gildi um hjón. Þá segir í umsókninni að „undirritaðir hafi kynnt sér upplýsingabækling bankans um sjálfskuldarábyrgðir.“ Með því að skrifa undir framangreinda yfirlýsingu hafi stefnandi staðfest sérstaklega að hafa kynnt sér upplýsingabækling um sjálfskuldarábyrgðir. Henni hafi því verið eða mátt vera ljós réttindi sín sem veðsala samkvæmt samkomulaginu og þar með talið rétt sinn til þess að óska eftir greiðslumati eða undanskilja stefnda frá gerð greiðslumats. Vandséð er með hvaða öðrum hætti sé hægt að sýna fram á að réttilega hafi verið staðið að málum en með því að fara fram á skriflega staðfestingu stefnanda sjálfrar á þeim tíma sem hún samþykkti veðsetninguna, sbr. 2. mgr. 4. gr. samkomulagsins þar sem segi: „Með undirritun lánsumsóknar eða annarra gagna sem fyllt eru út í tengslum við afgreiðsluna staðfestir ábyrgðarmaður að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um ábyrgðir.“ Þá beri að líta til þess að sérstaklega komi fram fyrir ofan undirritun stefnanda á lánsumsóknina hver séu helstu réttindi ábyrgðarmanna og veðsala samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, þar með talið hvernig hjónum og fólki í óvígðri sambúð sé heimilt að leysa fjármálafyrirtæki undan skyldu til greiðslumats. Auk þess byggir stefndi á því að stefnandi hafi með undirritun lánsumsóknar samhliða undirritun veðskuldabréfsins undanþegið stefnda skyldu til að meta greiðslugetu maka hennar, jafnvel þótt hún hafi hvorki hakað í viðeigandi reiti fyrir yfirlýsingu um að slík undanþága sé veitt eða að greiðslumat hafi farið fram og verið kynnt veðsala. 

                Jafnvel þótt ekki yrði fallist á það með stefnda að hann hafi borið sig að í viðskiptum aðila í samræmi við skyldur sínar samkvæmt margnefndu samkomulagi um notkun ábyrgðarskuldbindinga, byggir stefndi á því að allt að einu beri að taka sýknukröfu hans til greina þar sem skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 séu ekki fyrir hendi. Vísar stefndi í því efni til þess að ekki hafi verið um nýja veðsetningu að ræða heldur hafi veðskuldabréfið leyst af hólmi allsherjarveð fyrir skuldbindingum maka stefnanda upp að 22 milljónum króna en því veðbréfi hafi verið aflýst í kjölfar útgáfu veðskuldabréfsins. Auk þess hafi, svo sem áður er getið, hluta af andvirði skuldabréfsins verið ráðstafað til að greiða upp víxilskuld stefnanda sjálfrar.

                Varakrafa stefnda byggir á því að minnsta kosti beri að fallast á gildi veðsetningar stefnanda vegna fjárhæðar sem nemur fjárhæð víxilskuldar hennar sjálfrar en fyrir liggi að andvirði veðskuldabréfsins var m.a. ráðstafað til að greiða þá skuld. Geti undir engum kringumstæðum talist ósanngjarnt að bera fyrir sig veðábyrgð hennar vegna þess hluta af fjárhæð skuldabréfsins.

                Forsendur og niðurstaða

                Í máli þessu krefst stefnandi þess að ógilt verði leyfi hennar til veðsetningar fasteignar sinnar vegna skuldabréf sem gefið var út þann 29. október 2008 að fjárhæð 27.000.000 krónur.

                Til að leysa úr ágreiningi aðila um innihald og eðli þeirrar skuldbindingar sem stefnandi tókst á hendur með undirritun sinni á framangreint veðskuldabréf verður að mati dómsins fyrst og fremst að byggja á efni skuldabréfsins sjálfs en jafnframt til efnis annarra skjala sem stefnandi undirritaði við undirbúning þeirra lánaviðskipta.

                Svo sem rakið er að framan eru útgefendur veðskuldabréfsins sagðir tveir, stefnandi og maki hennar, Rúnar Þröstur Grímsson. Það er í samræmi við lánsumsókn sem þau undirrita sama dag. Í lánsumsókninni eru þau bæði tilgreind sem umsækjendur láns og stefnandi undirritar umsóknina á tveimur stöðum, annars vegar sem umsækjandi og hins vegar sem ábyrgðarmaður/veðsali. Að mati dómsins getur það eitt, að stefnandi undirritaði veðskuldabréfið á röngum stað, ekki leitt til þess að efni skuldbindingarinnar sem útgefendur takast á hendur og lýst er í bréfinu, verði gildislaus hvaða hana varðar. Þá fá staðhæfingar hennar um að mistök við skjalagerð hafi leitt til þess að hún var sögð útgefandi skuldabréfsins, ekki stoð í gögnum málsins. Vísast í því efni til þess sem að framan er getið um umsókn stefnanda um lán auk þess sem af umsókninni sjálfri má ráða að ráðstafa átti fjármunum sem fengust með útgáfu skuldabréfsins til að greiða víxilskuld hennar og fjárskuldbindingar maka hennar, sem tryggðar voru með veði í fasteign hennar. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hún hafi gert athugasemdir við gögn frá stefnda eða forvera hans, sem gerð voru eftir að skuldabréfið var gefið út, þar sem ítrekað kemur fram að hún sé greiðandi og/eða útgefandi skuldabréfsins. Stefnandi ritaði þrisvar undir skilmálabreytingar á láninu þar sem fram kemur að hún sé skuldari samkvæmt skuldabréfinu. Þótt ekki sé fallist á það með stefnda að í undirritun hennar á framangreindar skilmálabreytingar felist eftirfarandi samþykki fyrir ábyrgð á greiðslu skuldar samkvæmt upphaflega lánaskjalinu, verður að telja að efni þessara skjala hafi gefið stefnanda fullt tilefni til athugasemda, teldi hún að mistök eða misritun hafi valdið því að hún hafi verið tilgreind sem skuldari. Með vísan til framangreinds er ekki fallist á það með stefnanda að skuldbinding hennar samkvæmt veðskuldabréfinu hafi takmarkast við það að veita leyfi til veðsetningar fasteignar hennar heldur hafi hún samkvæmt efni skuldabréfsins tekist á hendur skyldur til að endurgreiða lánið í samræmi við nánar greinda skilmála í bréfinu sjálfu.

                Þegar af þessari ástæðu er ekki tilefni til að fjalla um þær málsástæður stefnanda sem lúta að ógildingu á veðsetningu eignar þriðja aðila vegna fjárskuldbindinga einstaklinga. Að ofangreindri niðurstöðu fenginni geta þær málsástæður ekki verið grundvöllur ógildingar á veðsetningar eignar stefnanda. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

                Rétt er að málskostnaður falli niður, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu 15. júní 2015 Allur málskostnaður hennar, þar með talin málsvarlaun, Lúðvíks Bergvinssonar héraðsdómslögmanns, sem er hæfilegur 550.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp þennan dóm.

Dómsorð:

                Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Jónu Magnúsdóttur. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Lúðvíks Bergvinssonar héraðsdómslögmanns, 550.000 krónur.