Print

Mál nr. 697/2017

A (Ómar R. Valdimarsson hdl.)
gegn
Velferðarsviði Kópavogs (Ása A. Kristjánsdóttir hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarvistun
Reifun
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. nóvember 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 23. október sama ár um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Ómars R. Valdimarssonar héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                                           

               

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. nóvember 2017.

Með beiðni, dagsettri 23. október 2017, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 25. sama mánaðar, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 23. október 2017 um að samþykkja nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Við meðferð málsins var sú varakrafa sett fram af hálfu sóknaraðila að nauðungarvistuninni yrði markaður skemmri tími en 21 dagur.

Varnaraðili er Kópavogsbær, velferðarsvið, 700169-3759, Fannborg 4, Kópavogi, sem krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 23. október sl. um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest.

Í beiðni sóknaraðila segir að hún sé byggð á 1. mgr. 30. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Einnig að sóknaraðili telji að skilyrði 3. mgr. 19. gr. séu ekki fyrir hendi og því beri að fella áðurgreinda ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu úr gildi.

Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili þess með beiðni, dagsettri 23. október 2017, að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu heimilaði nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi með heimild í 19. gr., sbr. 20. og 21. gr., lögræðislaga nr. 71/1997. Í beiðninni segir að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, maníu án geðrofseinkenna. Hún hafi ekkert sjúkdómsinnsæi og fullreynt sé að meðhöndla veikindi hennar á göngudeild. Sé nú svo komið að óhjákvæmilegt sé að nauðungarvista varnaraðila á sjúkrahúsi svo hún megi fá viðeigandi og nauðsynlega meðferð.

Með beiðni um nauðungarvistun sóknaraðila fylgdi vottorð B geðlæknis á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, en þar segir að sóknaraðili sé [...] ára, búi í eigin íbúð og eigi þrjú uppkomin börn. Samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum hafi hún átt við geðsveiflur að etja mjög lengi, en hafi lítið leitað sér hjálpar og hafi ekki verið á lyfjum. Hún hafi t.d. keypt sér hús í [...] í örlyndisástandi skömmu fyrir hrun og fjármagnað kaupin með gengistryggðu láni. Þá er haft eftir aðstandendum að sóknaraðili hafi þó aðallega verið þunglynd. Hún hafi fengið þunglyndislyf í haust, sem ýtt hafi undir örlyndi og hafi hún verið í örlyndisástandi í rúman mánuð. Á sama tíma hafi hún neytt talsverðs áfengis, sem virtist fylgja örlyndisástandinu. Sóknaraðili hafi einnig verið mikið á ferðinni, eytt miklum peningum og t.d. ætlað að kaupa sér bifreið á átta milljónir króna. Starfsmenn bílaumboðsins hafi þó talið hana á að kaupa ódýrari bifreið, en ekki hafi verið gengið frá kaupunum. Þá hafi aðstandendur nefnt það að sóknaraðili borði yfirleitt í [...], þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara, en forstöðukonan þar hafi hringt í dóttur varnaraðila og tjáð henni að framkoma sóknaraðila væri með þeim hætti að hún treysti sér ekki til þess að taka á móti henni vegna ástands hennar, sem nánari grein er gerð fyrir í læknisvottorðinu. Í vottorðinu segir ennfremur að á meðan á þessu örlyndi sóknaraðila hefur staðið hafi hún lagst inn á geðdeild, en útskrifað sig gegn læknisráði. Þá hafi sóknaraðili leitað bæði á hjartagátt vegna mikils bjúgs á fótum og á göngudeild geðsviðs, en ekki farið eftir ráðum lækna og ekki mætt í síðasta viðtal við geðlækni á geðdeild. Fullreynt sé því að meðhöndla varnaraðila á göngudeild.

Um skoðun á sóknaraðila segir að hún sé áttuð á stað og stund og eigin persónu. Hún sé óhirt, þvagblaut og hafi ekki viljað þrífa sig fyrir viðtalið. Hún tjái sig greiðlega, haldi þræði, en fari um víðan völl í frásögn. Ekki séu merki um geðrofseinkenni, en sjúkdómsinnsæi sé mjög lítið. Hún viðurkenni að vera aðeins ör, en telji sig ekki þurfa neins konar aðstoð vegna þess. Hún vilji fara heim og sé því alfarið mótfallin að vera á geðdeild. Í niðurstöðu vottorðsins segir að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, þ.e. maníu án geðrofseinkenna. Enn fremur að óhjákvæmilegt sé að nauðungarvista sóknaraðila á sjúkrahúsi til að varna því að andleg og líkamleg veikindi hennar versni og til verndar lífi hennar og heilsu.

C geðlæknir gaf skýrslu í gegnum síma fyrir dóminum, en hún annaðist meðferð varnaraðila frá 23. október til 30. október sl. Hún sagði að sóknaraðili hefði verið ör á deildinni og ekki viljað þiggja þá meðferð sem henni hefði verið ráðlögð. Sjúkdómur sóknaraðila hefði ekki verið greindur, en sterkur grunur væri um að sóknaraðili væri haldin geðhvarfasýki. Ekki væri hægt að staðfesta að sóknaraðili væri haldinn þeim sjúkdómi, en hins vegar hefði sóknaraðili sýnt einkenni þess sjúkdóms. Ástand sóknaraðila með þeim hætti að jafna mætti til alvarlegs geðsjúkdóms. Með hliðsjón af sögu sóknaraðila og einkennum væru talsverðar líkur á því að sóknaraðili væri haldin geðhvarfasýki og þar með alvarlegum geðsjúkdómi. Hún sagði að reynt hefði verið að veita sóknaraðila aðstoð utan sjúkrahússins, en án árangurs. Sóknaraðili hefði ekki fylgt ráðleggingum lækna og stefnt lífi sínu og heilsu í hættu. Læknirinn sagði að ekki hefði hefði reynst unnt að útiloka aðrar ástæður örlyndisástands sóknaraðila, svo sem skjaldkirtilssjúkdóm eða krabbamein í höfði, þar sem sóknaraðili hefði ekki viljað gangast undir sneiðmynd af höfði eða aðrar rannsóknir. Hún sagði að óhjákvæmilegt hefði verið að nauðungarvista sóknaraðila á sjúkrahúsinu.

Þá gaf símaskýrslu fyrir dóminum D, núverandi meðferðarlæknir sóknaraðila. Hann kvaðst hafa annast meðferð sóknaraðila frá 30. október sl. og sagði að sóknaraðili væri ótvírætt í örlyndisástandi. Þá sagði hann að illa hefði gengið að fá sóknaraðila til samvinnu um meðferð og að sóknaraðili hefði ekkert innsæi í sjúkdóm sinn. Hann kvað verulegar líkur á því að sóknaraðili væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, enda væri hún með alvarleg geðræn einkenni.

Í ljósi framlagðra gagna og þess sem að framan hefur verið rakið telur dómurinn að sýnt hafi verið fram á að fullnægt hafi verið skilyrðum 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og að óhjákvæmilegt hafi verið að nauðungarvista sóknaraðila á sjúkrahúsi svo að greina megi sjúkdóm sóknaraðila og veita henni viðeigandi meðferð. Ber því að staðfesta ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar um frá 23. október 2016.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ómars R. Valdimarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 148.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 23. október 2017 um að sóknaraðili, A, kt. [...], skuli vistuð á sjúkrahúsi.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ómars R. Valdimarssonar hdl., 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.