Print

Mál nr. 819/2017

A (Dóris Ósk Guðjónsdóttir lögmaður)
gegn
Fjölskyldusviði Garðabæjar (Andri Andrason lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögræði
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í eitt ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. janúar 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2017, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild var í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu um sjálfræðissviptingu, en til vara að henni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar til handa verjanda sínum fyrir flutning málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og málflutningsþóknunar handa lögmanni sínum fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að svipta sóknaraðila sjálfræði í eitt ár, svo og um þóknun verjanda hans. Ekki voru á hinn bóginn efni til að kveða á um greiðslu þóknunar til lögmanns varnaraðila úr ríkissjóði, enda verður hvorki ráðið af gögnum málsins að gerð hafi verið krafa þessa efnis né voru skilyrði til slíkrar ákvörðunar samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga, enda verður ekki séð að lögmaðurinn hafi verið skipaður til að gegna hlutverki talsmanns varnaraðila. Er því ákvæði hins kærða úrskurðar um þetta atriði fellt úr gildi og verður jafnframt af sömu ástæðu hafnað kröfu varnaraðila varðandi þóknun fyrir flutning málsins fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Staðfest eru ákvæði hins kærða úrskurðar um sjálfræðissviptingu sóknaraðila, A, og greiðslu þóknunar skipaðs verjanda hans úr ríkissjóði.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Dórisar Óskar Guðjónsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                        

 

                                                             

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2017

Með beiðni, dagsettri 14. desember, sem barst Héraðsdómi Reykjaness sama dag, hefur sóknaraðili, Garðabær, fjölskyldusvið, kt. 570169-6109, Garðatorgi 7, Garðabæ, krafist þess að varnaraðili A, kt. [...], [...], Garðabæ, verði sviptur sjálfræði tímabundið í eitt ár. 

Um aðild vísa sóknaraðila til d. lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Er þess krafist að varnaraðili verði sviptur tímabundið sjálfræði í eitt ár með vísan til a. og b. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Til grundvallar kröfunni liggi fyrir læknisvottorð B sérfræðings í geðlækningum.

Með beiðni um nauðungarvistun sóknaraðila fylgdi læknisvottorð B, sérfræðings í geðlækningum, ódagsett. Þar segir að varnaraðili sé [...] ára einhleypur og barnlaus karlmaður sem búið hafi heima hjá ömmu sinni að [...] í Garðabæ undanfarin misseri. Hann hafi, þrátt fyrir ungan aldur, langa sögu um mikil og erfið geðræn veikindi. Hann hafi verið mjög kvíðinn sem barn og hafi verið lagður í einelti. Hann hafi verið í viðtölum hjá sálfræðingi og hafi verið greindur með þráhyggjuáráttu og ýmis konar fælnikvíðaraskanir. Hann hafi um tíma verið grunaður um að vera á einhverfurófi og verið metinn fyrir nokkrum árum af C sálfræðingi og sérfræðingi í einhverfu en hafi þá ekki verið talinn einhverfur. Varnaraðili hafi ungur farið að neyta áfengis og fíkniefna og verið um tíma í blandaðri neyslu ýmissa fíkniefna. Undanfarin misseri hafi hann neytt mikils áfengis og hafi það gengið mjög nærri heilsu hans. Hann hafi, á undanförnum mánuðum, fengið endurtekið stór krampaflog sem talin hafa verið afleiðingar áfengisdrykkju. Haustið 2017 hafi hann verið lagður inn á lyflækningadeild LSH í kjölfar flogs sem hafi orsakað samfallsbrot á hrygg en hann sé kominn með beinþynningu vegna mikillar vannæringar og áfengisneyslu. Einnig hafi hann verið með lifrarbólgu vegna áfengisneyslu. Ljóst sé að lífi hans sé mjög ógnað, haldi hann áfram svo mikilli áfengisneyslu. Í mars 2017 hafi hann verið nauðungarvistaður í 21 dag á geðdeild 32C á Landspítala. Hafði hann þá verið í milli drykkju og hafi verið farinn að sýna undarlega hegðun og hafi vaknað grunur um að hann gæti verið í mikilli drykkju og var farinn að sýna undarlega hegðun og vaknaði grunur um að hann gæti verið í einhvers konar geðrofi. Mikil þráhyggja tengd kynlífi, mikil sýklahræðsla og talaði um að hann fyndi stöðugt vonda lykt heima hjá sér. Einnig sérkennileg hegðun þar sem hann afklæddi sig fyrir framan ömmu sína og fjölskyldu. Í innlögninni komu ekki fram klár geðrofseinkenni en mikið um sérkennilegar og óraunhæfar pælingar og þráhyggja. Ekki þóttu forsendur fyrir framlengingu nauðungarvistunar og var hann útskrifaður í göngudeildareftirliti hjá B geðlækni. Mætti reglulega en fór fljótt að neyta áfengis. Átti hann það til að mæta drukkinn í viðtöl og var alltaf mjög mótfallinn því að fara í áfengismeðferð. B kom honum í hvíldarinnlögn á Heilsustofnunina í Hveragerði þar sem hann dvaldi í aðeins rúma viku en þá útskrifaði hann sig sjálfur og fór fljótlega aftur að drekka áfengi.

Í nóvember 2017 fór hann til [...]og fór móðir hans á eftir honum. Hann var í mikilli drykkju þar og fékk hann stóran krampa á hóteli í [...] á leiðinni til [...]. Mikil áhættuhegðun á [...] þar sem hann dó áfengisdauða á götum úti og var m.a. rændur. Móðir hans bjargaði honum ítrekað úr hættu. Náði fyrst að koma honum til [...]r þar sem hann var lagður inn á geðdeild í fráhvörfum í kjölfar þess að hann fékk krampa. Lá hann inni á sjúkrahúsi þar mjög máttfarinn. Mjög innsæislítill í þá hættu sem hann er í og stjórnlausri neyslu. Féllst þó að lokum á að koma heim til Íslands og fylgdi móður sinni heim þann 9. desember sl.

Þá segir í vottorðinu að af öllu ofansögðu sé ljóst að A eigi við mjög alvarleg andleg og líkamleg veikindi að stríða. Stjórnlaus drykkja þessa unga manns hafi þegar orsakað alvarlega líkamlega kvilla svo sem vannæringu, beinþynningu með hryggbroti, lifrarbólgu og endurtekin alvarleg og hættuleg krampaflog. Einnig sé ljóst að hann eigi við mikil geðræn veikindi að stríða, ekki einungis áfengisfíkn, heldur einnig mikla þráhyggju sem þróast hefur í átt að mikilli tortryggni og sé mjög óraunsær og innsæislaus á vanda sinn. Það sé alveg ljóst að A sé alls ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum þar með talið fjármálum vegna alvarlegt geðsjúkdóms. Það sé því mat undirritaðs geðlæknis að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að A verði sjálfræðissviptur til eins árs svo hægt sé að koma í veg fyrir að hann yfirgefi landið eins og hann hafi gert nýlega og hægt sé að grípa inn í með nauðsynlegum innlögnum á sjúkrahús vegna hans fjölþættu og alvarlegu geðrænu og líkamlegu veikindi.

Sóknaraðili kveður varnaraðila vera einhleypan og barnlausan. Móðir varnaraðila, D, sé kunnugt um kröfuna.

B geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti áðurgreint vottorð sitt, sem hann kvaðst hafa ritað 13. desember sl. Kvað hann nauðsyn á því að sjálfræðissvipta varnaraðila til að hægt væri að veita honum þá aðstoð sem honum sé nauðsynleg til að ná bata og koma honum út úr þeim vítahring sem varnaraðili sé í. Hann sé algjörlega innsæislaus í veikindi sín og þjáist nú þegar af ýmsum sjúkdómum sem sé bein afleiðing af neyslu hans. Auk þess sé hann í lífshættu en hann væri ekki á lífi í dag ef móðir hans hefði ekki farið á eftir honum til Evrópu nýlega og komið honum þar undir læknishendur. Taldi B nauðsyn á að sjálfræðissvipta varnaraðila til að koma í veg fyrir að hann færi erlendis og sér að voða þar auk þess sem nauðsyn væri til að grípa inn í ástand hans með stuttum fyrirvara m.a. vegna krampa- og flogakasta sem varnaraðili fengi sökum áfengisneyslu. Þá sé varnaraðili einnig með alvarleg geðrofseinkenni.

Skipaður verjandi varnaraðila fór á heimili hans og hitti hann þar fyrir. Kvað verjandinn varnaraðila hafa verið undir áhrifum áfengis og hafi harðneitað að mæta fyrir dóminn. Hafi varnaraðili lýst yfir afstöðu sinni og mótmæli kröfunni en hann teldi sig fullfæran um að sjá um sín mál sjálfur. Til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími.

Telur dómurinn, með vísan til vottorðs B læknis og síðari málsliðar 4. mgr. 11. gr. lögræðislaga nr.71/1997 ekki þörf á því að varnaraðili komi fyrir dóminn né að dómari hitti varnaraðila.

Í ljósi framlagðra gagna, skýrslu B læknis fyrir dóminum og þess sem að framan hefur verið rakið má ljóst vera að  varnaraðili er ekki fær um, vegna ofdrykkju eða ofnotkunar ávanaefna, að ráða persónulegum högum sínum eða fé. Þá hafa önnur og vægari úrræði ekki nýst varnaraðila. Telur dómurinn að sýnt hafi verið fram á að fullnægt sé skilyrðum a. og b. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að svipta varnaraðila sjálfræði í eitt ár.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknun talsmanns sóknaraðila Andra Andrasonar hdl. og skipaðs verjanda varnaraðila, Dórisar Óskar Guðjónsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 160.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í eitt ár frá uppkvaðningu úrskurðar þessa að telja.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila Andra Andrasonar hdl. og verjanda varnaraðila, Dórisar Óskar Guðjónsdóttur hdl., 160.000 krónur, hvoru til handa að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.