Print

Mál nr. 99/2017

Ákæruvaldið (Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari)
gegn
X (Gunnar Egill Egilsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti
Reifun

Kæra X til Hæstaréttar uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. febrúar 2017, þar sem sóknaraðila var heimilað að leggja fram nánar tilgreind skjöl í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila og þrotabúi tilgreinds einkahlutafélags. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að málinu verði vísað frá Hæstarétti.

Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 10. febrúar 2017 var bókað eftir verjanda varnaraðila að varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Ekki var bókað í þingbók í hvaða skyni kært væri eins og áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka var ekki bætt með skriflegri kæru til héraðsdóms innan kærufrests svo sem unnt hefði verið eftir sömu lagagrein. Breytir þar engu þótt varnaraðili hafi skilað greinargerð til Hæstaréttar með röksemdum fyrir kröfunni. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. febrúar 2017.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag, höfðaði sérstakur saksóknari, nú héraðssaksóknari, með ákæru 23. desember 2015 á hendur ákærða, X, kt. [...],[...], og Y ehf., kt. [...], nú þrotabú, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar sl. í máli nr. [...], fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um gjaldeyrismál og til upptöku samkvæmt VII. kafla A. almennra hegningarlaga svo sem nánar er lýst í ákæru. Krefst ákæruvaldið þess í málinu að ákærði X verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá krefst ákæruvaldið upptöku á haldlögðum fjármunum. Í ákæruskjali eru enn fremur teknar upp bótakröfur kröfuhafa, A og B, sem krefjast, auk skaðabóta, málskostnaðar og að ákveðið verði með dómi að upptækir fjármunir verði nýttir til greiðslu á skaðabótakröfum þeirra.

Í þessum þætti málsins krefst ákæruvaldið þess að dómari heimili ákæruvaldinu með úrskurði að leggja fram í málinu skjöl sem ákæruvaldið hefur afhent dómara og merkt nr. 33 til 51. Af hálfu ákærða er framlagningu allra skjalanna mótmælt.

Þrotabú Y ehf. hefur ekki látið þennan þátt málsins til sín taka.

I

Fyrirhugað var að aðalmeðferð í máli þessu hæfist í gær, 9. febrúar 2017. Með tölvuskeyti 7. þessa mánaðar boðaði sækjandi frekari framlagningu skriflegra gagna af hálfu ákæruvalds við upphaf aðalmeðferðar málsins. Fylgdi afrit þeirra skjala í viðhengi með tölvuskeyti sækjanda. Í síðasta þinghaldi í málinu, hinn 5. október 2016, hefði engin gagnaframlagning verið boðuð við upphaf aðalmeðferðar­ af hálfu ákæruvalds, gagnstætt því sem gert hafði verið af hálfu ákærða.

Verjandi ákærða mótmælti boðaðri gagnaframlagningu ákæruvalds samdægurs með tölvuskeyti og vísaði í því sambandi til þess að ekki væri með réttu hægt að ætla ákærða og verjanda hans svo skamman tíma til þess að kynna sér efni skjalanna og eftir atvikum bregðast við henni með gagnaframlagningu af hálfu ákærða. Óskaði verjandi af þeim sökum eftir því að aðalmeðferð málsins yrði frestað. Í ljósi framangreinds ákvað dómari að verða við þeirri beiðni verjanda. Ákvað dómari jafnframt að þinghald yrði í málinu í dag þar sem málsaðilum gæfist kostur á að leggja fram gögn og eftir atvikum bera fram mótmæli við gagnaframlagningu gagnaðila.

II

Fyrr í þinghaldi þessu óskaði ákæruvaldið eftir því að leggja fram eftirtalin dómskjöl, sem eru þau hin sömu og fylgdu tölvuskeyti hans 7. febrúar sl.:

Nr. 33,    upplýsingar af heimasíðu bandarísku skattstofunnar IRS um skattaauðkenni fyrir vinnuveitendur (e. employer identification numer – EIN). Sótt 26.1.2017. (3 bls.)

Nr. 34, niðurstöður leitar með leitarvélinni Google að leitarorðunum „[...]“, sótt 4.2.2017.

Nr. 35,    niðurstöður leitar með leitarvélinni Google að leitarorðunum „[...]“. Sótt 26.1.2017.

Nr. 35,    niðurstöður leitar með leitarvélinni Google að leitarorðunum „[...]“. Sótt 26.1.2017.

Nr. 36,    gögn útprentuð af opnu vefsvæði bresku fyrirtækjaskrárinnar, [...], um félagið „[...]“. Sótt 4.2.2017. (12 bls.)

Nr. 37, gögn um bresku fyrirtækjaþjónustuna [...], útprentuð af heimasíðu sama félags. Sótt 4.2.2017. (4 bls.)

Nr. 38,    niðurstöður leitar á leitarsíðunni Google að leitarorðinu „[...]“. Sótt: 6.2.2017.

Nr. 39,    útprentanir af heimasiðunni [...]., forsíða og allar undirsíður. Sótt: 6.2.2017. (10 bls.).

Nr. 40,    útprentun af vefsíðunni [...] með upplýsingum um heimasíðuna „[...]“. Sótt 6.2.2017. (3 bls.)

Nr. 41,    svör [...] hf. við óskum embættis sérstaks saksóknara á rannsóknarstigi málsins um yfirlit bankareikninga [...], kt. 530809-0210. (4 bls.)

Nr. 42,    bókhald Y til og með 30.11.2012 (bls. 188-205 í málsgögnum paraðar saman við bls. 206-223 í málsgögnum). (18 bls.)

Nr. 43,    frétt af vefsíðunni www.visir.is, dags. [...]. „[...]“. Sótt 7.2.2017. (2 bls.)

Nr.44,     frétt af vefsíðunni www.visir.is, dags. [...]. „[...]“. Sótt 7.2.2017. (2 bls.)

Nr. 45,    frétt af vefsíðunni www.ruv.is, dags. [...]. „[...]“. (2 afritaðir skjágluggar úr vafra.). Sótt 7.2.2017.

Nr. 46,    upplýsingar af vefsíðunni [...]um söfnunina „[...]“ ásamt nýjustu athugasemdum úr athugasemdakerfi styrkjenda á vefsvæði söfnunarinnar. (4 afritaðir skjágluggar úr vafra). Sótt 7.2.2017. (2 bls.)

Nr. 47,    upplýsingar af vefsíðunni [...]um söfnunina „[...]“ ásamt nýjustu athugasemdum úr athugasemdakerfi styrkjenda á vefsvæði söfnunarinnar. (4 afritaðir skjágluggar úr vafra). Sótt 7.2.2017. (2 bls.)

Nr. 48,    upplýsingar af vefsíðunni [...]um söfnunina „[...]“ ásamt nýjustu athugasemdum úr athugasemdakerfi styrkjenda á vefsvæði söfnunarinnar. (4 afritaðir skjágluggar úr vafra). Sótt 7.2.2017. (2 bls.).

Nr. 49,    upplýsingar af vefsíðunni [...]um söfnunina „[...]“ ásamt nýjustu athugasemdum úr athugasemdakerfi styrkjenda á vefsvæði söfnunarinnar. (4 afritaðir skjágluggar úr vafra). Sótt 7.2.2017. (2 bls.)

Nr. 50,    afrit af skýrslu ákærða, dags. 18. mars 2016, hjá skiptastjóra þb. Y ehf.

Nr. 51,    skrá skiptastjóra þb. Y ehf. um lýstar kröfur í þrotabúið, lögð fram á skiptafundi 18. apríl 2016.

Verjandi ákærða mótmælti framlagningu allra skjalanna. Gaf dómari sækjanda og verjanda í kjölfarið kost á að tjá sig um uppkominn ágreining. Krafðist verjandi ákærða úrskurðar um ágreininginn og var málið því tekið til úrskurðar um kröfu ákæruvalds um framlagningu skjalanna.

III

Ákæruvaldið krefst þess að því verði heimilað að leggja fram í málinu skjöl sem það hefur afhent dómara til framlagningar og merkt nr. 33 til 51. Skjöl þessi segir ákæruvaldið að hluta til vera svör við málatilbúnaði ákærða í greinargerð. Einnig sé um að ræða skjöl sem bæði geti haft þýðingu sem óbein sönnunargögn um sekt ákærða, sbr. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og við ákvörðun refsingar ákærða, komi til þess að hann verði sakfelldur.

Ákæruvaldið vísar almennt til þess að samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 leggi aðilar fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilji að tekið verði tillit til við úrlausn máls. Leggi ákærandi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hafi verið við rannsókn og sönnunargildi hafa að hans mati, sbr. 2. mgr. 134. gr.

Reglur 134. gr. laga nr. 88/2008 segir ákæruvaldið vera meginreglur um framlagningu skjala í sakamálum. Ákæruvaldið sé því í fullum rétti til þess að leggja fram öll hin umdeildu skjöl. Fráleitt sé að hin þrönga undantekning sem fram komi í 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 girði fyrir framlagningu skjalanna. Vísar ákæruvaldið sérstaklega til þess í því sambandi að af hálfu ákærða hafi í engu verið færð rök fyrir því að umrædd skjöl séu bersýnilega tilgangslaus til sönnunar í málinu heldur hafi ákærði látið við það sitja að mótmæla framlagningu skjalanna í heild og með almennri tilvísun til þess að þau séu bersýnilega tilgangslaus til sönnunar í málinu.

IV

Af hálfu ákærða er framlagningu allra hinna umdeildu skjala mótmælt. Vísar ákærði til þess að hann hafi nær engan tíma haft til þess að kynna sér efni skjalanna. Mótmælir ákærði framlagningunni á þeim grunni að skjölin séu bersýnilega tilgangslaus til sönnunar í málinu. Segir hann furðu sæta að skjölin komi fram nú í ljósi hins langa tíma sem rannsókn málsins hafi tekið og þess að greinargerð ákærða hafi legið fyrir síðan í maí 2016.

V

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála leggja aðilar fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið verði tillit til við úrlausn máls. Leggur ákærandi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn og sönnunargildi hafa að hans mati, sbr. 2. mgr. 134. gr.

Svo sem fyrr var rakið er af hálfu ákærða framlagningu allra hinna umdeildu skjala mótmælt með vísan til þess að bersýnilegt sé að gögnin séu tilgangslaus til sönnunar í málinu. Hefur ákærði kosið að mótmæla framlagningu skjalanna með almennum hætti án þess fjalla um efni hvers og eins þeirra fyrir sig.

Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag hvílir samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 á ákæruvaldinu. Samkvæmt 109. gr. laganna metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.
Dómari metur enn fremur ef þörf krefur hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það.

Ákvæði 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 hefur að geyma undantekningu frá meginreglu 134. gr. laganna um framlagningu skjala og annarra sýnilegra sönnunargagna. Að mati dómsins hefur ákærði engin haldbær rök fært fram því til stuðnings að tilvitnað ákvæði 3. mgr. 110. gr. eigi við um nokkurt þeirra skjala sem ákæruvaldið hefur krafist að því verði heimilað að leggja fram. Þá verður því ekki slegið föstu nú, svo sem mál þetta liggur fyrir dómnum, að skjölin séu bersýnilega tilgangslaus til sönnunar í málinu. Er því fallist á kröfu ákæruvalds og framlagning allra skjalanna heimiluð.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákæruvaldinu er heimilt að leggja fram sem dómskjöl nr. 33 til 51 framangreind dómskjöl þannig merkt af ákæruvaldinu.