Print

Mál nr. 89/2017

S. Á. Firma ehf. og Sigurður Freyr Árnason (Sigmundur Hannesson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)
Lykilorð
  • Skuldamál
  • Fyrning
  • Tómlæti
  • Yfirdráttarheimild
  • Sjálfskuldarábyrgð
Reifun

Bankinn L hf. höfðaði mál á hendur S ehf., S og M til heimtu skuldar sem til var komin vegna yfirdráttar á reikningi S ehf. Höfðu S og M tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldarinnar, en ábyrgð M var takmörkuð við hluta hennar. Byggði S ehf. meðal annars á því að L hf. hafi verið óheimilt að krefjast vaxta og dráttarvaxta þar sem ekki hefði verið gerður skriflegur samningur um yfirdráttarheimildina og þá væri hluti dráttarvaxta vegna skuldarinnar fyrndir. Af hálfu S var því meðal annars haldið fram að sjálfskuldarábyrgð hans væri niður fallin vegna fyrningar. Ekki var tekið til varna af hálfu M. Héraðsdómur féllst ekki á röksemdir S ehf. og S og tók kröfu L hf. til greina. Að héraðsdómi gengnum stóð M skil á greiðslu til L hf. samkvæmt dómnum hvað hana varðaði og stóðu einungis S ehf. og S að áfrýjun málsins til Hæstaréttar. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna hans, en að gættri innborgun M.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Ingimundur Einarsson héraðsdómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. febrúar 2017. Áfrýjandi S.Á. Firma ehf. krefst þess að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi Sigurður Freyr krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms, að teknu tilliti til innborgunar 11. janúar 2017 að fjárhæð 6.813.288 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með hinum áfrýjaða dómi voru áfrýjendur dæmdir óskipt til greiðslu kröfu stefnda að fjárhæð 8.667.092 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Þar af var Marinella R. Haraldsdóttir dæmd til að greiða stefnda 5.200.000 krónur óskipt með áfrýjendum auk dráttarvaxta og málskostnaðar á grundvelli yfirlýsingar hennar um sjálfskuldarábyrgð. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð gögn um að sú fyrstnefnda hafi greitt 6.813.288 krónur inn á kröfu stefnda 11. janúar 2017. Að því gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, S.Á. Firma ehf. og Sigurður Freyr Árnason, greiði óskipt stefnda, Landsbankanum hf., 8.667.092 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. maí 2015 til greiðsludags, allt að frádregnum 6.813.288 krónum sem greiddar voru inn á kröfuna 11. janúar 2017.

Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað.

Áfrýjendur greiði óskipt stefnda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. nóvember 2016.

I.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 18. október sl., er höfðað með birtingu stefnu 30. júní og 9. júlí 2015.

                Stefnandi er Landsbankinn hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík.

                Stefndu eru S. Á. Firma ehf., kt. [...], Cuxhavengötu 1, Hafnarfirði, Sigurður Freyr Árnason, kt. [...], Sæbólsbraut 41, Kópavogi, og Marinella R. Haraldsdóttir, kt. [...], Hlíðarási 28, Hafnarfirði.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu S. Á. Firma ehf. og Sigurður Freyr Árnason verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 8.667.092 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. maí 2015 til greiðsludags, þar af 5.200.000 krónur in soldidum með stefndu Marinellu R. Haraldsdóttur með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 21. maí 2015 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

                Dómkröfur stefnda S. Á. Firma ehf. eru þær aðallega að stefnukröfur verði lækkaðar verulega að mati réttarins og að hvor aðila um sig verði látinn bera sinn kostnað af málinu.

                Dómkröfur stefnda Sigurðar Freys Árnasonar eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati réttarins. Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega að mati réttarins og að hvor aðili um sig verði látinn bera sinn kostnað af málinu.

                Þingsókn af hálfu stefndu Marinellu R. Haraldsdóttur féll niður á reglulegu dómþingi 2. mars 2016 án þess að greinargerð hefði verið lögð fram af hennar hálfu.

II.

                Málsatvik eru þau að hinn 26. janúar 2005 stofnaði stefndi S. Á. Firma ehf., þá Tása ehf., reikning nr. 26317 við útibú Landsbanka Íslands hf. Yfirdráttarheimild á reikningnum rann út án þess að uppsöfnuð skuld á reikningnum væri greidd og í kjölfarið var reikningnum lokað eða 9. mars 2015. Uppsöfnuð skuld á reikningnum nam þá 8.667.092 krónum eða stefnufjárhæð málsins. Með undirritun sjálfskuldarábyrgðar nr. 0130-63-26317 hinn 17. október 2005 tókust stefndu Sigurður Freyr Árnason og Marinella R. Haraldsdóttir á hendur sjálfskuldarábyrgð in solidum á skuld þessari gagnvart stefnanda fyrir allt að 5.200.000 krónum, auk vaxta og kostnaðar við innheimtu skuldarinnar. Auk fyrrgreindrar ábyrgðar tókst stefndi Sigurður Freyr Árnason með undirritun sjálfskuldarábyrgðar nr. 0130-63-303269 hinn 14. maí 2013 á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuld þessari gagnvart stefnanda fyrir allt að 3.500.000 krónum, auk vaxta og kostnaðar við innheimtu skuldarinnar. Samkvæmt gögnum málsins voru stefndu send innheimtubréf 21. apríl 2015.

Hvað aðild stefnanda Landsbankans hf. varðar segir í stefnu að Fjármálaeftirlitið hafi tekið þá ákvörðun 9. október 2008 með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands, kt. 540291-2259, til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280, nú Landsbankans hf.

Stefndu S. Á. Firma ehf. og Sigurður Freyr Árnason kveða ekki um það deilt að hið stefnda félag hafi stofnað til fjárhagslegra skuldbindinga við útibú Landsbanka Íslands hf. hinn 26. janúar 2005 með yfirdráttarheimild á tékkareikningi þeim sem mál þetta lúti að. Um það sé hins vegar deilt hvort hinu stefnda félagi hafi borið að greiða yfirdráttarvexti, dráttarvexti eða annars konar vexti af skuldinni og hver vaxtakjörin hafi verið.

III.

                Stefnandi kveður skuldina ekki hafa fengist greidda þrátt fyrr innheimtutilraunir og því hafi verið nauðsynlegt að höfða mál til innheimtu hennar.

                Við munnlegan málflutning mótmælti stefnandi málsástæðum stefndu. Benti stefnandi á að stefndi S.Á. Firma ehf. hafi notað umræddan tékkareikning samfellt í rúm níu ár, fyrst hjá forvera stefnanda og síðar hjá stefnanda, án þess að hafa nokkru sinni gert athugasemdir við skuldfærslu vaxta á reikninginn vegna yfirdráttarskuldarinnar. Sundurliðuð reikningsyfirlit vegna tékkareikningsins hafi verið send félaginu í pósti, auk þess sem þau hafi verið aðgengileg í netbanka. Benti stefnandi á að hið stefnda félag væri bókhaldsskyldur aðili og því væri ótrúverðugt að fyrirsvarsmaður félagsins hafi ekki fengið yfirlitin í hendur fyrr en við framlagningu þeirra í málinu. Þá mótmælti stefnandi málsástæðum stefndu um fyrningu og tómlæti og vísaði á bug málsástæðum á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga.

                Stefnandi kveðst byggja mál sitt á meginreglum kröfu- og samningaréttar um skyldu til að efna fjárskuldbindingar. Kröfur um dráttarvexti kveðst stefnandi styðja við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. og 33. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

                Stefndu S. Á. Firma ehf. og Sigurður Freyr Árnason benda á að af framlögðum yfirlitum vegna reiknings á tímabilinu 31. desember 2013 til 27. febrúar 2015 megi ráða að mánaðarlega hafi verið gjaldfærðir vextir af skuldinni, eins og hún hafi staðið í á hverjum tíma, og þannig hafi höfuðstóll/stefnufjárhæð málsins myndast.

Af yfirlitum þessum verði ráðið að á árinu 2014 hafi innborganir á reikninginn numið 26.523.932 krónum, vextir hafi numið 1.016.034 krónum og úttektir hafi numið samtals u.þ.b. 25.876.175 krónum. Þá hafi staðan á reikningnum 31. desember 2013 numið 8.288.368 krónum í mínus. Í gögnum málsins sé ekki að finna sundurliðun þessarar fjárhæðar, þ.e. hversu miklar úttektir hafi verið af reikningnum frá stofnun hans í upphafi árs 2005 til ársloka 2013, hvaða innborganir hafi verið á reikninginn á sama tímabili og hversu stór hluti stefnufjárhæðarinnar séu vextir.

Þar sem ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um skilmála og vaxtakjör hvað tékkareikninginn varðar, hafi verið nauðsynlegt að stefnandi gerði skýra grein fyrir sundurliðun stefnukröfu sinnar í höfuðstól, vexti og eftir atvikum kostnað.

Á því sé byggt af hálfu stefndu að annmarkar á málatilbúnaði stefnanda séu það miklir að ekki verði bætt úr undir rekstri málsins. Af hálfu stefndu sé ekki gerð krafa um frávísun málsins, heldur sé það lagt í vald dómsins að vísa málinu frá dómi ex officio, þ.e. án kröfu, ef skilyrði þykja standa til þess.

Í greinargerð stefndu segir að verði það niðurstaðan að skuldbinding sú sem mál þetta lúti að sé peningalán sem fyrnist á 10 árum, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sé á því byggt af hálfu stefndu að vextir af yfirdráttarskuldinni fyrnist á fjórum árum, sbr. 2. tölulið 3. gr. laganna. Vextir, sem séu eldri en fjögurra ára á þingfestingardegi eða birtingardegi stefnu, séu því fyrndir, en eins og málatilbúnaði stefnanda sé háttað sé útilokað fyrir stefndu að átta sig á því hversu stór hluti vaxtanna sé fyrndur.

Ekki sé um það deilt að þegar hið stefnda félag hafi fengið fyrirgreiðslu hjá stefnanda Landsbankanum hf. í formi yfirdráttarheimildar á umræddum tékkareikningi hafi ekki verið gerður skriflegur samningur á milli aðila þar að lútandi og ekkert hafi verið rætt um vexti og/eða vaxtakjör.

Í greinargerð stefndu er tekið fram að stefnda Sigurð Frey reki ekki minni til þess að hafa fengið send yfirlit yfir færslur á reikningnum. Framlögð reikningsyfirlit hafi stefndi Sigurður fyrst séð eftir að mál þetta var þingfest.

Verði á það fallist að stefnandi eigi lögvarða kröfu til vaxta af yfirdráttarskuldinni sé á því byggt af hálfu stefndu að það geti aldrei orðið hærri vextir en almennir vextir óverðtryggðra útlána, sbr. 4. gr. laga um nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Því sé alfarið hafnað að stefnandi geti krafið stefnda um yfirdráttarvexti/dráttarvexti með þeim hætti sem gert sé í stefnu, m.a. með hliðsjón af því að í upphafi hafi hvorki verið samið um vexti né vaxtakjör.

Stefndu kveðast jafnframt byggja á því að við útreikning vaxta sé stefnanda hvorki heimilt að bæta vöxtum mánaðarlega við höfuðstól né að bæta vöxtum við höfuðstól á tólf mánaða fresti, þar sem í upphafi hafi hvorki verið samið um vexti né vaxtakjör.

Á því sé byggt af hálfu stefndu að dráttarvexti beri fyrst að reikna frá uppkvaðningu dóms í máli þessu, en að öðrum kosti frá þeim tíma er mál þetta var þingfest.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að samningur hafi komist á milli aðila byggja stefndu á því, m.a. með hliðsjón af því sem áður hefur verið rakið, að lækka beri kröfur stefnanda verulega og víkja kröfum stefnanda til hliðar í heild eða að hluta, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.

Verði ekki fallist á sjónarmið stefndu um fyrningu vaxta kveðast stefndu byggja á því að kröfur stefnanda um vexti hafi að hluta fallið niður vegna tómlætis. Ekki verði ráðið af gögnum málsins að stefnandi hafi gert tilraun til þess að innheimta yfirdráttarskuldina hjá hinu stefnda félagi fyrr en með útgáfu stefnu í málinu.

Á því sé byggt af hálfu stefnda Sigurðar Freys að sjálfskuldarábyrgð hans, samkvæmt skjali útgefnu 17. október 2005, sé fallin niður fyrir fyrningu, sbr. 4. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Þá sé á því byggt af hálfu stefnda Sigurðar Freys að sjálfskuldarábyrgð hans, samkvæmt skjali útgefnu 14. maí 2013, takmarkist við gilda og raunverulega skuld á veltureikningi hins stefnda félags, nr. 0130-26-026317. Á þessu stigi máls liggi ekki ljóst fyrir hver sú skuld sé. Hvað sem öðru líði takmarkast ábyrgð stefnda Sigurðar Freys við 3.500.000 krónur að hámarki.

Loks krefjast stefndu þess, m.a. með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið, að málskostnaður verði látinn falla niður þannig að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Hvað varðar lagarök vísa stefndu til meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi loforða. Þá er m.a. vísað til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Einnig er vísað til ákvæða fyrningarlaga nr. 14/1905, einkum 3. gr., svo og til ólögfestra reglna um tómlæti. Hvað varðar vexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Um réttarfar og málskostnað er m.a. vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þ. á m. 1. töluliðar 100. gr. og 129.-130. gr. laganna.

V.

Í stefnu kemur fram að krafan sé vegna yfirdráttarskuldar á tilgreindum tékkareikningi sem stefndi S.Á. Firma ehf. hafi stofnað hjá Landsbanka Íslands á árinu 2005. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., hafi tilteknum eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. verið ráðstafað til stefnanda, sem þá hét Nýi Landsbanki Íslands hf. Í stefnunni kemur fram að reikningnum hafi verið lokað 9. mars 2015 og nemi uppsöfnuð skuld á reikningnum stefnufjárhæð málsins. Stefnandi hefur lagt fram í málinu, auk stefnu og skrár um framlögð skjöl, útprentun úr viðskiptamannaskrá, sjálfskuldarábyrgðir, innheimtuviðvörun, innheimtubréf, reikningsyfirlit, útprentun úr hlutafélagaskrá og ljósrit af áðurgreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að hinu stefnda félagi hafi ekki getað dulist hver krafan var, hvernig hún var til komin og hvernig sóknaraðili hugðist rökstyðja hana. Þykja engir þeir annmarkar vera á málatilbúnaði stefnanda sem leiða eigi til frávísunar málsins ex officio, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 3. mars 2008 í máli nr. 57/2003, 17. apríl 2008 í máli nr. 169/2008, 20. apríl 2010 í málum nr. 186/2010 og 187/2010 og 11. október 2016 í máli nr. 657/2016.

Óumdeilt er að hið stefnda félag stofnaði 26. janúar 2005 tékkareikning nr. 26317 við tiltekið útibú Landsbanka Íslands hf., en réttindi og skyldur þess banka í tengslum við reikning þennan færðust til stefnanda á grundvelli áðurgreindrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Engin gögn hafa verið lögð fram um stofnun reikningsins eða heimild hins stefnda félags til yfirdráttar á reikningnum. Þá liggja heldur ekki fyrir í málinu eldri gögn um notkun reikningsins en frá lokum desember 2013, en samkvæmt yfirliti vegna hans frá janúar 2014 hafði frá 20. nóvember 2013 verið heimild til yfirdráttar á honum að fjárhæð 8.400.000 krónur sem gilti til 15. nóvember 2014. Liggja fyrir í málinu reikningsyfirlit sem ná til tímabilsins upp frá þessu allt þar til hið stefnda félag virðist hafa hætt notkun reikningsins í nóvember 2014. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að yfirdráttarheimildin hafi fallið niður 17. nóvember 2014 og að á framangreindum gildistíma hennar hafi hún ekki tekið breytingum, hvorki til hækkunar né lækkunar.

Samkvæmt yfirlitunum sem að framan var getið nýtti hið stefnda félag að einhverju leyti eða öllu heimild til yfirdráttar á reikningi sínum. Vegna þessa voru mánaðarlega færðir til skuldar á reikninginn vextir af yfirdráttarskuldinni.

Af áðurgreindum reikningsyfirlitum má ráða að hið stefnda félag hafi ekki notað reikninginn eftir 11. nóvember 2014, en þá nam yfirdráttarskuldin 8.399.594 krónum. Eftir það voru einungis færð til gjalda á reikninginn þjónustugjöld og ýmiss konar viðvörunar-, ítrekunar- og innheimtugjöld. Þá voru skuldfærðir vextir í lok nóvember og desember 2014 og í lok janúar og febrúar 2015. Loks var í desember 2014 millifærð innborgun að fjárhæð 41.586 krónur frá sýslumanni. Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda var reikningnum lokað 9. mars 2015 og hafi skuld á honum þá numið 8.667.092 krónum. Í framhaldi af því höfðaði stefnandi mál þetta með birtingu stefnu 30. júní og 9. júlí 2015 til heimtu þeirrar fjárhæðar ásamt dráttarvöxtum frá 21. maí sama ár auk málskostnaðar.

Krafa stefnda S.Á. Firma ehf. um lækkun á þessari kröfu er í fyrsta lagi byggð á því að vextir af yfirdráttarskuldinni, sem séu eldri en fjögurra ára þegar málið var höfðað, séu fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Af framlögðum reikningsyfirlitum má sjá að hið stefnda félag notaði reikninginn samfellt frá 2. janúar 2014 þar til yfirdráttarheimildin féll úr gildi í nóvember sama ár, en á þessum tíma greiddi hið stefnda félag háar fjárhæðir inn á reikninginn. Mál þetta var höfðað á hendur stefnda S.Á. Firma ehf. í júlí 2015. Með hliðsjón af framangreindu er áðurgreindri málsástæðu stefnda hafnað, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 14. mars 2013 í máli nr. 605/2012 og 19. mars 2015 í máli nr. 533/2014.

Þá byggir stefnda S.Á. Firma ehf. kröfu sína um lækkun á stefnukröfum á því að þar sem í upphafi hafi ekki verið gerður skriflegur samningur um yfirdráttarheimildina og vaxtakjör yfirdráttarlánsins geti stefnandi ekki krafið hið stefnda félag um yfirdráttarvexti og dráttarvexti með þeim hætti sem gert sé í stefnu. Verði talið að stefnandi eigi lögvarða kröfu til vaxta af yfirdráttarskuldinni geti vextir aldrei orðið hærri en vextir óverðtryggðra útlána, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Eins og fyrr segir liggja ekki fyrir í málinu gögn um stofnun tékkareiknings hins stefnda félags hjá Landsbanka Íslands hf. í janúar 2005 eða umsókn félagsins um þau viðskipti. Í málinu hafa hins vegar verið lögð fram reikningsyfirlit vegna tékkareikningsins frá 31. desember 2013 til 27. febrúar 2015. Í þeim getur að líta nákvæmar og sundurliðaðar upplýsingar um innborganir og úttektir, þ. á m. vegna þjónustugjalda og vaxtakostnaðar af áðurgreindum reikningi félagsins. Yfirlitin eru öll stíluð á hið stefnda félag og bera með sér að hafa verið send félaginu. Neðst á öllum yfirlitunum er að finna eftirfarandi upplýsingar: „Athugasemdir óskast gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, annars telst reikningurinn réttur. Upplýsingar eru gefnar í síma 410 4000. Vaxtamánuður er 21.-20. næsta mánaðar.“ Samkvæmt framlögðum reikningsyfirlitum hefur hið stefnda félag a.m.k. frá því í janúar 2014 greitt þann kostnað og vexti sem til féllu vegna yfirdráttarskuldarinnar og verður ekki séð af gögnum málsins að félagið hafi nokkru sinni gert athugasemd vegna þessara útgjalda fyrr en í greinargerð sinni í máli þessu. Í ljósi þess að hið stefnda félag er bókhaldsskyldur aðili þykir ótrúverðugt að yfirlit vegna færslna á reikninginn hafi ekki borið fyrir augu fyrirsvarsmanns þess áður en mál þetta var höfðað. Að framangreindu virtu telst hafa komist á samningur milli aðila um lánsviðskiptin, þ. á m. um að leggja vexti við höfuðstól mánaðarlega.

Ekki verður séð að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í málinu. Þá er málsástæðum hins stefnda félags um tómlæti hafnað, enda hófst innheimta kröfunnar skömmu eftir að hún féll í gjalddaga.

Með hliðsjón af framangreindu eru dómkröfur stefnanda á hendur stefnda S.Á. Firma ehf. teknar til greina að öllu leyti.

Á því er byggt af hálfu stefnda Sigurðar Freys að sjálfskuldarábyrgð hans samkvæmt skjali, útgefnu 17. október 2005, sé fallin niður vegna fyrningar, sbr. 4. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt þeim lögum falla skuldir eða aðrar kröfur úr gildi fyrir fyrningu. Ábyrgð sú, sem stefndi tók á sig með loforði sínu, var skuldbinding hans um að greiða yfirdráttarskuld hins stefnda félags yrði hún ekki greidd af hálfu félagsins. Skuldbindingin sjálf er hvorki skuld né önnur krafa og fyrnist því ekki samkvæmt lögum þessu, sbr. dóm Hæstaréttar 12. mars 1998 í máli nr. 218/1997. Eins og áður greinir féll yfirdráttarskuldin í gjalddaga er áðurgreindum tékkareikningi hins stefnda félags var lokað 9. mars 2015. Hófst þá fyrningarfrestur kröfu samkvæmt ábyrgðarskuldbindingu stefnda og var hún því ófyrnd þegar stefna var birt í byrjun júlí sama ár.

Í sjálfskuldarábyrgð, sem stefndi Sigurður Freyr gaf út 14. maí 2013 til tryggingar efndum á skuldbindingum hins stefnda félags vegna yfirdráttar á veltureikningi nr. 0130-26-26317, er kveðið á um í 1. tölulið skjalsins að eldri ábyrgðaryfirlýsingar sjálfskuldaraðila vegna yfirdráttarheimilda á ofangreindum veltureikningi haldi gildi sínu og nemi heildarábyrgðarskuldbinding samanlagðri fjárhæð slíkra yfirlýsinga.

Með vísan til framangreinds ber að hafna málsástæðu stefnda Sigurðar Freys um að ábyrgð hans takmarkist við yfirlýsingu hans frá 14. maí 2013.

Með hliðsjón af framangreindu eru dómkröfur stefnanda á hendur stefnda Sigurði Frey teknar til greina að öllu leyti.

Með því að þingsókn af hálfu stefndu Marinellu R. Haraldsdóttur féll niður 2. mars sl. ber að dæma málið á hendur henni eftir 2. mgr., sbr. 1. mgr., 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þar sem gerðar kröfur stefnanda eru í samræmi við framlögð gögn og málatilbúnað hans eru dómkröfur stefnanda á hendur stefndu teknar til greina að öllu leyti.

                Með hliðsjón af málsúrslitum er stefndu gert að greiða stefnanda 600.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Stefndu S.Á. Firma ehf. og Sigurður Freyr Árnason greiði in solidum stefnanda, Landsbankanum hf., 8.667.092 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. maí 2015 til greiðsludags, en þar af greiði stefnda Marinella R. Haraldsdóttir stefnanda 5.200.000 krónur in solidum með stefndu S.Á. Firma ehf. og Sigurði Frey Árnasyni með dráttarvöxtum af 5.200.000 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. maí 2015 til greiðsludags.

                Stefndu greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.