Print

Mál nr. 372/2017

Jónína Björk Þorvaldsdóttir (Hlynur Jónsson hrl., Áslaug Árnadóttir hrl. 4. prófmál)
gegn
Lánasjóði íslenskra námsmanna (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)
Lykilorð
  • Skuldabréf
  • Fyrning
  • Gjafsókn
Reifun

L krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður málskotsnefndar L þar sem ákvörðun stjórnar L var felld úr gildi og skuld J vegna námslána samkvæmt tveimur skuldabréfum felld niður. Vanskil urðu á endurgreiðslu J á námsláni frá og með gjalddaga í mars 2009, en J gaf út sérstakt vanskilaskuldabréf í mars 2015. Deildu aðilar einkum um fyrningarfrest skuldarinnar og við hvaða tímamark skyldi miða í því sambandi. Fallist var á með J að bæði skuldabréfin hefðu orðið gjaldkræf tveimur árum eftir ákvörðuð námslok, sem var sama tímamark fyrir bæði skuldabréfin. Á hinn bóginn var fallist á það með L að honum hefði verið rétt að ráðstafa greiðslum J samkvæmt 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna fyrst inn á eldra lánið. Það væri meginregla kröfuréttar að þegar kröfuhafi ætti margar kröfur á hendur sama skuldara ætti skuldarinn val um inn á hvaða skuld hann ráðstafaði greiðslu hverju sinni. Léti skuldari engin fyrirmæli fylgja greiðslu sinni bæri að miða við að hann eftirléti kröfuhafa frjálst val um inn á hvaða skuld greiðslunni skyldi ráðstafað. Með því að greiða athugasemdalaust greiðsluseðla sem L sendi hefði J samþykkt í verki fyrirkomulag innheimtunnar. Á meðan J greiddi inn á námslán sitt í samræmi við fyrirmæli 8. gr. laga nr. 21/1992 hefði hvorugt skuldabréfanna verið í vanskilum. Þá var vísað til þess að krafa L væri samkvæmt skuldabréfi sem samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrndist á 10 árum. Ekki var fallist á með J að rök stæðu til þess að fyrirmæli í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 um aðfararheimild yrðu lögð að jöfnu við ákvæði áðurgildandi laga um lögtaksrétt þannig að 4 ára fyrningarfrestur 3. töluliðar 3. gr. laga nr. 14/1905 yrði talinn gilda um kröfuna. Þótti ljóst að kröfur L samkvæmt báðum skuldabréfunum væru ófyrndar. Í því ljósi hefðu ekki verið efni til þess að víkja til hliðar loforði J um greiðslu samkvæmt vanskilaskuldabréfinu á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga svo sem gert hafði verið í úrskurði málskotsnefndar L. Með vísan til alls framangreinds var úrskurður málskotsnefndar L því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. júní 2017. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Felldur er úr gildi úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna 25. janúar 2017 í máli nr. L-13/2016.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jónínu Bjarkar Þorvaldsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 750.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 24. maí 2017

Mál þetta, sem tekið var til dóms 26. apríl 2017, er höfðað 9. mars 2017.

Stefnandi er Lánasjóður íslenskra námsmanna, kt. [...], Borgartúni 21, Reykjavík.

Stefnda er Jónína Björk Þorvaldsdóttir, kt. [...], Sunnuflöt 38, Garðabæ.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að felldur verði úr gildi úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 25. janúar 2017 í máli nr. L-13/2016 þar sem ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 14. mars 2016 var felld úr gildi og námslánaskuld stefndu, Jónínu Bjarkar Þorvaldsdóttur, samkvæmt námslánaskuldabréfum nr. R-007655 og R-024321 felld niður. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins.

Stefnda krefst þess að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða henni málskostnað að mati dómsins.

Að ákvörðun dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2017 sætir mál þetta flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I

Stefnda sótti fyrst um námslán hjá stefnanda fyrir námsárið 1993-1994 vegna náms síns í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Stefnda ritaði undir skuldabréf samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 210/1993, sbr. 16. gr. laga nr. 21/1992, sbr. einnig 3. mgr. 6. gr. sömu laga. Í samræmi við fyrirmæli 15. gr. reglugerðar nr. 21/1993 var sérstök fjárhæð ekki tilgreind á skuldabréfinu, heldur skyldi hún færð á skuldabréfið eftir uppreikning láns til einnar vísitölu (lánskjaravísitölu) eftir námslok. Á skuldabréfið ritaði Aðalheiður Kjartansdóttir undir loforð um sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 320.000 krónum, sem skyldi hækka miðað við grunnvísitölu (lánskjaravísitölu) í janúar 1994. Skuldabréfið fékk lánsnúmerið R-007655 í málaskrá og innheimtukerfi stefnanda.

Stefnda sótti um framhaldslán fyrir námsárin 1994-1995, 1995-1996 og 1996-1997 vegna sama náms. Í því skyni að uppfylla skilyrði fyrir frekari útborgun námslána lagði stefnda fram viðbótarsjálfskuldarábyrgð Aðalheiðar Kjartansdóttur frá 8. júní 1995 fyrir fjárhæð allt að 900.000 krónum miðað við grunnvísitölu (lánskjaravísitölu) í júní 1995. Stefnda lauk námi í Háskóla Íslands í maí 1997 og átti að hefja endurgreiðslu námsláns tveimur árum síðar eða í mars 1999, sbr. ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 210/1993 og ákvæði úthlutunarreglna 1993-1994, grein 7.2.1.

Stefnandi bendir á að samkvæmt 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993 skyldu lán sem veitt voru samkvæmt reglugerðinni greiðast í þeirri innheimturöð að síðari lán skyldu víkja í innheimtu fyrir eldri skuldabréfum vegna fyrri námsferla. Þar sem námslánaskuldabréf R-007655 hafi verið gefið út og veitt lán greidd stefndu í gildistíð reglugerðar nr. 210/1993 gildi efnisreglur þeirrar reglugerðar um skuldabréfið, auk laga nr. 21/1992 og þeirra úthlutunarreglna stefnanda sem gilt hafi á hverjum tíma um lánveitinguna.

Stefnda sótti á ný um námslán hjá stefnanda fyrir námsárið 1998-1999 vegna MBA-náms hennar í viðskiptafræði í Bandaríkjunum. Stefnda sótti um hámarkslán samkvæmt reglum stefnanda og í umboði stefndu gaf Þórhildur Sigurðardóttir út skuldabréf samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 602/1997 hinn 29. nóvember 1998. Aðalheiður Kjartansdóttir gekkst aftur í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfinu allt að fjárhæð allt að 2.400.000 krónum miðað við vísitölu neysluverðs í nóvember 1998. Síðara lánið er auðkennt með númerinu R-024321. Aðalheiður Kjartansdóttir gekkst tvívegis aftur í sjálfskuldarábyrgð fyrir námsláni stefndu. Fyrst 7. október 1999 fyrir láni að fjárhæð allt að 1.000.000 króna miðað við vísitölu neysluverðs í október 1999 og síðar 19. janúar 2000 fyrir láni að fjárhæð allt að 1.000.000 króna miðað við vísitölu neysluverðs í janúar 2000.

Stefnda kveðst vekja athygli á því að hinn 10. júní 1994 hafi Súsanna Þorvaldsdóttir, að kröfu stefnanda, gengist í sjálfskuldarábyrgð á greiðslu fyrra lánsins nr. R-007655 til viðbótar við ábyrgð Aðalheiðar Kjartansdóttur. Ekki sé því rétt hjá stefnanda að einn og sami ábyrgðarmaðurinn hafi verið á báðum lánum stefndu.

Námslok vegna síðara náms stefndu í Bandaríkjunum voru ákvörðuð 14. desember 1999, sbr. grein 2.5.1 í úthlutunarreglum stefnanda námsárið 1998-1999. Námslok vegna fyrra náms stefndu við Háskóla Íslands voru einnig ákvörðuð frá sama tíma og kveður stefnandi að það hafi verið ívilnandi ákvörðun í þágu stefndu þar sem vextir reiknist frá „ákvörðuðum“ námslokum, sbr. grein 7.1.2 í úthlutunarreglum 1993-1994.

Stefnda var krafin um endurgreiðslu námsláns nr. R-007655 hinn 1 mars 2002 og námslán stefndu nr. R-024321 látið víkja í innheimtu fyrir hinu eldra láni, allt þar til afborgun af eldra láni næði ekki fullri afborgun samkvæmt 8. gr. laga nr. 21/1992, sbr. einnig 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993. Stefnda gerði engar athugasemdir við fyrirkomulag innheimtunnar og greiddi án fyrirvara, eða sérstakra óska um að greiðslum hennar yrði ráðstafað með öðrum hætti, af námsláni sínu árlega til og með ársins 2008.

Hinn 12. mars 2007 lést Aðalheiður Kjartansdóttir, ábyrgðarmaður beggja námslána stefndu, og fengu erfingjar hennar, stefnda og Súsanna Þorvaldsdóttir, hinn 15. mars 2007 leyfi samkvæmt 24. gr. laga nr. 20/1991 til að kanna eigna- og skuldastöðu dánarbúsins. Hinn 20. mars 2007 var þeim veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúi Aðalheiðar og luku þær einkaskiptum dánarbúsins með útgreiðslu arfs hinn 4. september 2007. Með umsókn sinni um leyfi til einkaskipta tóku stefnda og Súsanna Þorvaldsdóttir á sig sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum hinnar látnu.

Námslán stefndu nr. R-007655 féll í vanskil 1. mars 2009 og var sá gjalddagi sendur í innheimtu til lögmanns 13. júlí 2009. Í samræmi við fyrirmæli úthlutunarreglna stefnanda voru síðar myndaðir gjalddagar sendir beint til lögmanna sjóðsins og stefndu boðið að greiða gjalddaga 1. mars 2010 án kostnaðar yrðu eldri vanskil greidd samhliða. Sama gilti um gjalddaga sem myndaður var 1. september 2010 og var stefndu einnig boðið að gera gjalddagann upp án kostnaðar ef eldri vanskil yrðu uppgerð.

Síðla árs 2010 flutti stefnda lögheimili sitt til Bandaríkjanna án þess að gefa upplýsingar um heimilisfesti þar í landi. Gjalddagar 1. mars 2011 og 1. mars 2012 lentu í vanskilum og voru sendir beint til lögmanns en stefnandi kveður engar upplýsingar hafa þá legið fyrir um heimilisfang stefndu í Bandaríkjunum. Í júní 2012 hafi stefnandi fundið heimilisfang hjá stefndu og í kjölfarið hafi henni verið send innheimtubréf vegna gjalddaga í vanskilum. Hinn 31. ágúst 2012 hafi stefndu verið send tilkynning á heimilisfang sitt í Bandaríkjunum um gjaldfellingu námsláns R-007655. Bréf þessi hafi ekki komið endursend að utan og kveður stefnandi að sér hafi verið rétt að ætla að þau hafi komist til skila. Hinn 7. febrúar 2013 hafi stefndu verið send ný tilkynning um gjaldfellingu og hafi stefna verið gefin út á hendur henni 21. febrúar 2013. Birting stefnunnar hafi ekki tekist og hafi málið því ekki verið þingfest.

Stefnda kveðst árétta að 19 mánuðir hafi liðið frá því að skuldabréf R-007655 féll í vanskil 1. mars 2009 og þar til hún flutti lögheimili sitt til Bandaríkjanna hinn 19. október 2010. Á þeim tíma hafi stefnandi ekki fylgt eftir innheimtu skuldabréfsins gagnvart stefndu. Á þeim tíma er hún bjó í Bandaríkjunum hafi stefnandi engan reka gert að því að afla upplýsinga um lögheimili stefndu, t.d. hjá skráðum umboðsmanni hennar hjá Þjóðskrá. Stefnandi hafi haft nægt tækifæri til þess að fylgja innheimtu skuldabréfsins eftir gagnvart stefndu og geti ekki borið fyrir sig vandkvæði við stefnubirtingu til skýringar á þeim drætti sem orðið hafi á því að hann fylgdi hagsmunum sínum eftir. Þá sé ekki fallist á það með stefnanda að honum hafi verið rétt að ætla að bréfasendingar hans til Bandaríkjanna hefðu komist til skila. Stefnda kveðst hafa flust nokkrum sinnum á þessu tímabili í Bandaríkjunum.

Stefnandi kveðst síðar hafa orðið þess áskynja að stefnda væri flutt heim til Íslands og í kjölfarið hafi stefnandi höfðað mál á hendur stefndu og ábyrgðarmanni lánsins, Súsönnu Þorvaldsdóttur, til greiðslu skuldar samkvæmt námsláni nr. R-007655 með birtingu stefnu 19. febrúar 2015 fyrir báðum stefndu. Í stefnukröfu var ekki gerð krafa um greiðslu afborgana á gjalddögum vegna greiðsluáranna 2009 og 2010, heldur krafist greiðslu afborgana á gjalddögum 1. mars og 1. september 2011, 1. mars og 1. september 2012 ásamt gjaldfelldum eftirstöðvum námslánaskuldarinnar miðað við 6. febrúar 2013.

Í kjölfar þingfestingar málsins óskaði stefnda eftir því að fá að greiða upp vanskil með skuldabréfi og koma námsláni sínu í skil. Var á það fallist og í því skyni að greiða fyrir stefndu voru eldri gjalddagar sem byggðust á áætlunum endurreiknaðir. Gerði stefnda svo upp vanskil námslánsins með skuldabréfi hinn 13. apríl 2015 og voru allir endurreiknaðir gjalddagar í vanskilum innifaldir í því uppgjöri, einnig gjalddagar ársins 2009 og 2010. Skuldabréfið var að fjárhæð 1.173.786 krónur.

Stefnda gerði athugasemdir við frágang hins nýja skuldabréfs með bréfi til stefnanda, dagsettu 2. nóvember 2015, og taldi stefnda að krafa á hendur sér hefði verið fyrnd með vísan til fordæmis í dómi Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010. Bréfi stefndu var svarað með tölvupósti deildarstjóra máladeildar stefnanda þann 18. nóvember 2015 þar sem fram kom að krafa stefnanda vegna R-lána fyrndist á 10 árum samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905. Vísað var sérstaklega til þess í bréfi stefnanda að lán samkvæmt lögum nr. 21/1992 væru ekki lögtakskræf. Þá kom fram í bréfi stefnanda að lánþegar greiddu hverju sinni einungis af einu námsláni í einu og byrjað væri að greiða af eldri lánum. Yngra lán R-024321 væri ekki í vanskilum þar sem greiðslur af því væru ekki hafnar.

Stefnda krafðist nánari skýringa á afstöðu stefnanda til fyrningar á kröfu stefnanda í bréfi til stjórnar stefnanda, dagsettu 18. janúar 2016, og tók stjórn stefnanda bréf stefndu fyrir á fundi 14. mars 2016. Í bréfi framkvæmdastjóra stefnanda, dagsettu 17. mars 2013, var kynnt sú afstaða stjórnar að einstaka afborganir fyrndust á fjórum árum og var stefndu boðin lækkun á vanskilaskuldabréfi sínu um fjárhæð sem svaraði til afborgana 1. mars 2009 og 1. mars 2010. Stefnda hafði í framhaldi af móttöku bréfsins samband við lögmenn stefnanda og gekk frá skilmálabreytingu í samræmi við ákvörðun stjórnar hinn 29. apríl 2016. Stjórn stefnanda taldi á þessum tíma óvissu um fyrningarfrest skuldabréfalána stefnanda samkvæmt lögum nr. 21/1992, en á meðan beðið var dómafordæmis Hæstaréttar naut stefnda vafans. Hinn 27. október 2016 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 119/2016 þar sem fram kom að skuldabréf samkvæmt lögum nr. 21/1992, útgefin fyrir 1. janúar 2008, fyrndust á 10 árum samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1095.

Hinn 10. júní 2016 kærði stefnda ákvörðun stjórnar stefnanda frá 18. janúar 2016 til málskotsnefndar stefnanda og krafðist þess að kröfur stefnanda samkvæmt námslánaskuldabréfum nr. R-007655 og R-024321 yrðu látnar niður falla. Kærumálið fékk málsnúmerið L-13/2016. Málskotsnefnd kvað upp úrskurð í málinu 25. janúar 2017 og var ákvörðun stjórnar stefnanda í máli stefndu frá 14. mars 2016 felld úr gildi og báðar námslánaskuldir stefndu taldar fallnar niður fyrir fyrningu. Úrskurðurinn var birtur stefnanda í lok dags 27. janúar 2017.

Stefnandi kveðst telja niðurstöðu úrskurðar málskotsnefndar ekki standast og kveðst knúinn til að höfða mál til ógildingar á úrskurði málskotsnefndar í máli L-13/2016. Með bréfi til málskotsnefndar frá 1. febrúar 2017 krafðist stefnandi frestunar réttaráhrifa úrskurðar nefndarinnar í máli L-13/2016 með heimild í fyrri málslið 3. mgr. 5. gr. a laga nr. 21/1992. Málskotsnefnd úrskurðaði hinn 16. febrúar 2017 um frestun réttaráhrifa úrskurðar í máli nr. L-13/2016 þar til niðurstaða dómsóla í málinu lægi fyrir. Frestunin var bundin því skilyrði að stefnandi bæri málið undir dómstóla innan 30 daga frá þeim degi og óskaði flýtimeðferðar málsins, en ella félli ákvörðun málskotsnefndar um frestun réttaráhrifa úr gildi, sbr. síðari málslið 3. mgr. 5. gr. a laga nr. 21/1992.

II

Stefnandi kveðst byggja á því að niðurstaða úrskurðar málskotsnefndar í máli L-13/2016 sé röng, þ.e. forsendur málskotsnefndar fyrir niðurstöðu nefndarinnar standist ekki og úrskurð nefndarinnar beri því að fella úr gildi. Fyrir þessum málatilbúnaði kveðst stefnandi færa eftirfarandi rök:

Stefnandi kveðst í fyrsta lagi byggja á því að kröfur sjóðsins á hendur stefndu samkvæmt námslánaskuldabréfum nr. R-007655 og R-024321, en þau lán hafi verið veitt samkvæmt lögum nr. 21/1992, fyrnist á 10 árum samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905, en til eldri kröfunnar hafi verið stofnað 1. janúar 1994 og síðari kröfunnar 29. nóvember 1998. Kröfur stefnanda hafi því verið ófyrndar þegar stefnda greiddi upp vanskil námsláns R-007655 með skuldabréfi 13. apríl 2015.

Auk þess að geyma sérstaka reglu um fyrningarfrest skuldabréfa, dóma og opinberra sáttagerða í 1. mgr. hafi í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 verið sett meginregla um að fyrningarfrestur krafna skyldi vera 10 ár og að frávik í 2. og 3. gr. laganna teldust til undantekninga frá meginreglunni. Á því sé byggt að skýra beri ákvæði sem feli í sér frávik frá meginreglu með þröngri lögskýringu. Í 3. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 segi að kröfur sem lögtaksrétt hafa fyrnist á fjórum árum. Í greinargerð með 3. gr. laga nr. 14/1905 segi um þetta ákvæði: „Samkvæmt 3. tölulið fyrnast á fjórum árum allar kröfur, er lögtaksrjett hafa. Þessar kröfur eru allar þess eðlis, að þær eiga að greiðast fljótlega, því er eðlilegt að láta þær fyrnast á stuttum tíma.“ Þessi skýring styðji þrönga lögskýringu ákvæðisins sem takmarkist við þau fyrirmæli laga sem kveði skýrt á um lögtaksrétt. Þegar fyrningarlög nr. 14/1905 voru sett hafi lögtaksrétturinn sjálfur fyrnst á einu ári frá gjalddaga, sbr. 2. gr. laga nr. 29/1885.

Í lögum nr. 21/1992 sé ekki mælt fyrir um að kröfur stefnanda vegna námslána hafi lögtaksrétt og sé niðurstaða málskotsnefndar þegar af þeirri ástæðu röng. Sú rýmkandi lögskýring sem málskotsnefnd beiti standist ekki og sé í bága við lögskýringaregluna um að undantekningartilvik verði skýrð þröngri lögskýringu. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 119/2016 frá 27. október 2016 hafi Hæstiréttur dæmt að kröfur stefnanda vegna skuldabréfs samkvæmt lögum nr. 21/1992 fyrnist á 10 árum samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905. Samkvæmt núgildandi fyrningarlögum falli lán samkvæmt lögum nr. 21/1992 undir 5. gr. laganna og í greinargerð með frumvarpi til nýrra fyrningarlaga komi skýrt fram að eðli síns vegna ættu peningalán að hafa langan fyrningarfrest.

Loks kveðst stefnandi byggja á því að í skuldabréfum stefndu sé kveðið á um að kröfurnar séu aðfararhæfar án undangengins dóms eða sáttar samkvæmt lögum nr. 21/1992, og 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Sama gildi um eftirstöðvar skuldar sem hafi verið gjaldfelldar. Ekki verði af þessum texta ráðið að nokkru sinni hafi verið litið svo á að kröfur samkvæmt skuldabréfinu séu lögtakskræfar. Dómur Hæstaréttar frá 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010 hafi ekki fordæmisgildi í máli þessu þar sem í lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki sem verið hafi til umfjöllunar í því máli hafi sérstaklega verið mælt fyrir um lögtaksrétt fyrir kröfum stefnanda.

Stefnandi kveðst í öðru lagi byggja á því að honum hafi verið skylt að ráðstafa greiðslum stefndu inn á eldra námslánaskuldabréfið þar sem það hafi verið gefið út í gildistíð 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993 sem mælt hafi fyrir um að greiðslur yngri námslánaskulda skyldu víkja fyrir eldri lánum, þar til þær eldri væru að fullu greiddar. Námslán nr. R-007655 hafi þar af leiðandi haft lögbundinn forgang í innheimtu gagnvart námsláni nr. R-024321 og hafi engu breytt þótt seinna lánið hafi verið gefið út í gildistíð reglugerðar nr. 602/1997.

Stefnandi kveðst einnig byggja á því að taka hefði þurft fram í reglugerð nr. 602/1997 ef ætlunin hefði verið að breyta framkvæmd innheimtu tveggja eða fleiri námslána í sama lánaflokki sem hafi verið óbreytt frá framkvæmd innheimtu lána samkvæmt lögum nr. 57/1976. Svo hafi ekki verið gert heldur hafi nýja reglugerðin einungis geymt 12 greinar á móti 39 reglugerðarákvæðum þeirrar eldri. Reglugerð nr. 602/1997 hafi verið sett í tengslum við setningu breytingarlaga nr. 67/1997, sem lögleitt hafi afturvirka lækkun greiðslubyrði lána samkvæmt lögum nr. 21/1992 úr 5-7% niður í 4,75% af tekjuskattstofni. Ekki verði séð af lögskýringagögnum með þeim breytingarlögum að vilji hafi staðið til þess að breyta innheimturöð skuldabréfa stefnanda í sama lánaflokki. Ákvæði 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993 hafi girt fyrir að afborganir námslána yrðu þyngri en sem svaraði greiðslu af einu námsláni. Því verði samt sem áður ekki haldið fram að með brottfalli ákvæðisins hafi stefnanda verið heimilað að innheimta tvö eða fleiri lán samtímis og þannig margfalda greiðslubyrði lántaka.

Þá byggir stefnandi á því að af meginreglum kröfuréttar leiði að stefnanda hafi, eins og á stóð, verið rétt að ráðstafa greiðslum stefndu fyrst inn á lán nr. R-007655 og láta lögbundnar afborganir sem takmarkast við afborgun af einu námsláni hverju sinni renna inn á elstu skuldina. Það sé almennt viðurkennd meginregla kröfuréttar að eigi kröfuhafi margar kröfur á hendur sama skuldunaut eigi skuldarinn val um inn á hvaða skuld hann ráðstafi greiðslu hverju sinni. Frá því geti verið undantekningar eins og til dæmis hafi verið að finna í 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993. Láti skuldari engin fyrirmæli fylgja greiðslu sinni eftirláti hann kröfuhafa frjálst val um inn á hvaða skuld greiðslunni skuli ráðstafað.

Á því sé byggt að stefnda hafi, með því að greiða athugasemdalaust greiðsluseðla sem stefnandi hafi sent henni vegna láns nr. R-007655, samþykkt í verki fyrirkomulag innheimtunnar sem stefnandi hafði valið og var skylt að viðhafa. Ef stefnda vildi gera athugasemdir við framkvæmd innheimtunnar hafi henni borið að gera það án tafar og mótmæla því hvernig stefnandi ráðstafaði innborgunum hennar. Af meginreglu kröfuréttar um ráðstöfun greiðslu leiði að stefnda hafi verið bundin af tilkynningu stefnanda um hvernig hann hygðist ráðstafa greiðslu með því að krefja hana um afborgun af láni R-007655. Með hliðsjón af framlögðum greiðsluseðli vegna lánsins hafi stefnda ekki getað verið í nokkrum vafa um að hún væri að greiða af láni nr. R-007655.

Stefnandi bendir á að þær meginreglur kröfuréttar sem vísað sé til hafi verið teknar upp í Unidroit-reglurnar frá 2010, sbr. grein 6.1.12, og samevrópskar kröfuréttarreglur DCFR, grein III.-2.110. Í þessum reglum sé, auk meginreglunnar um fyrsta valrétt skuldara og eftirfarandi ákvörðunarrétt kröfuhafa, að finna forgangsröðun um hvernig ráðstafa skuli greiðslu skuldara ef skuldari nýtir ekki valrétt sinn og kröfuhafi nýtir ekki ákvörðunarrétt sinn. Bendir stefnandi á að norskir og danskir fræðimenn sjái ekki ástæðu til að víkja frá þessum reglum í norskum og dönskum rétti.

Stefnandi bendir á að í dómi Hæstaréttar frá 14. nóvember 1996 í máli nr. 286/1995 hafi Hæstiréttur komist svo að orði í rökstuðningi fyrir niðurstöðu sinni: „Samkvæmt meginreglu kröfuréttar var stefnda rétt að láta greiðslur áfrýjanda ganga inn á elstu kröfur sínar.“ Kveðst stefnandi byggja á því að ekki sé ástæða til annars við úrlausn máls þessa en að líta til sömu meginreglna kröfuréttar og byggt sé á í norrænum og alþjóðlegum kröfurétti.

Á því sé byggt að samkvæmt meginreglu kröfuréttar um ráðstöfun greiðslu hafi þriðji maður eins og ábyrgðarmaður ekki aðkomu að því inn á hvaða kröfu skuldari eða kröfuhafi ráðstafi greiðslu. Ekki sé skylt að líta til hagsmuna ábyrgðarmanns í því sambandi.

Á því sé byggt að sú niðurstaða málskotsnefndar að stefnanda hafi borið að ráðstafa árlegri greiðslu skuldara hlutfallslega inn á yngra og eldra námslán fari gegn skýrum fyrirmælum 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993 sem gildi um eldra lánið og einnig gegn meginreglum kröfuréttar um ráðstöfun greiðslu.

Verði ekki fallist á að fyrirmæli 23. gr. laga nr. 210/1993 leiði til þess að stefnanda hafi verið skylt að innheimta eldra lán samkvæmt lögum nr. 21/1992 sé fyrst á því byggt að um stjórnsýsluframkvæmd sé að ræða sem hafi verið við lýði frá árinu 1976 og hafi ýmist stuðst við úthlutunarreglur eða reglugerðarákvæði, allt fram til nóvember 1997. Frá þeim tíma hafi innheimtan stuðst við venjuhelgaða framkvæmd sem hafi ekki verið stefndu til tjóns. Þannig hafi það engu breytt fyrir stefndu hvort námslánið hún greiddi fyrst. Þá sé á það bent, vegna ummæla um hag ábyrgðarmanns í úrskurði málskotsnefndar, að sami ábyrgðarmaður hafi verið á báðum námslánum stefndu.

Stefnanda sé ekki heimilt að innheimta hærri fjárhæð en sem svari til 4,75% árstekna stefndu og svari sú fjárhæð til afborgunar af einu skuldabréfi. Sé þeirri greiðslu ráðstafað allri inn á eldri námslánaskuld, eins og framkvæmd stefnanda hafi verið frá gildistöku laga nr. 57/1976, sé yngra námslán á bið ekki gjaldkræft og upphafstími fyrningar ekki runninn upp. Á því sé byggt að sú breyting sem gerð hafi verið á 18. gr. laga nr. 21/1992 með lögum nr. 140/2004, þar sem áréttað hafi verið og kveðið á um forgang lána sem veitt voru fyrir árslok 2004 samkvæmt lögum nr. 21/1992 gagnvart lánum sem veitti yrðu síðar samkvæmt sömu lögum, byggist á meginreglunni um að einungis skuli greitt af einu námsláni í einu.

Á því sé byggt að upphafstími fyrningarfrests, þegar um fyrirfram ákveðna gjalddaga sé að ræða, teljist ávallt frá fyrirfram ákveðnum gjalddögum, nema kröfuhafi láti í ljós vilja til að hagnýta sér rétt sem hann kann að öðlast til að krefjast efnda fyrr vegna vanefnda skuldara. Geri hann það reiknist fyrningarfrestur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 frá þeim degi er kröfuhafi láti vilja sinn í ljós hvað varði þá fjárhæð sem sé gjaldfelld, nema kröfuhafi miði gjaldfellingu við fyrra tímamark, en það geri stefnandi aldrei.

Stefnandi kveðst vísa til dóms Hæstaréttar frá 24. september 2015 í máli nr. 15/2015 þar sem upphafstími fyrningar kröfu var talinn hafa byrjað þegar kröfuhafi lýsti yfir vilja sínum til að beita rétti sínum til gjaldfellingar.

Á því sé byggt að engu breyti hvort ákvæði um gjaldfellingarheimild „clausula cassatoria“ sé orðað svo að krafa falli sjálfkrafa í gjalddaga við veruleg vanskil eða hvort kröfuhafa sé heimilt án viðvörunar að gjaldfella kröfu við slíkar aðstæður. Krafan sé í báðum tilvikum gjaldkræf í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 og undir afstöðu kröfuhafa komið hvort hann beiti rétti sínum til að heimta eftirstöðvar kröfu áður en hún fellur í fyrirfram ákveðinn gjalddaga. Upphafstími fyrningarfrests vegna gjaldfelldra eftirstöðva samkvæmt skuldabréfi nr. R-007655 sé þegar stefndu var send tilkynning um gjaldfellingu eftirstöðva lánsins með bréfi 6. febrúar 2013.

Verði talið skipta máli fyrir úrlausn málsins hvort krafa falli sjálfkrafa í gjalddaga við veruleg vanskil eða hvort kröfuhafa sé heimil gjaldfelling „einhliða, fyrirvaralaust og án viðvörunar þegar vanskil höfðu varað í 14 daga eða lengur“ kveðst stefnandi byggja á því að námslánaskuldabréf nr. R-007655 og R-024321 kveði á um heimild til gjaldfellingar. Stefnandi þurfi því að láta í ljós vilja til að beita rétti sínum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 24. september 2015 í máli nr. 15/2015.

Í skilmálum skuldabréfsins sé kveðið á um eftirfarandi:

„Endurgreiðslur eru aðfararhæfar án undangengins dóms og sáttar sbr. lög nr. 21/1992, og 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. um aðför nr. 90/1989. Sama gildir um eftirstöðvar skuldar sem hafa verið gjaldfelldar.“ Gjaldfellingarheimildin hljóði svo: „Standi lántakandi ekki í skilum með greiðslu afborgana er lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar.“

Í framangreindum skilmálum skuldabréfsins sé orðalag með þeim hætti að gert hafi verið ráð fyrir aðkomu kröfuhafa að gjaldfellingu láns og kveðst stefnandi vísa í því sambandi til orðalagsins „sem hafa verið gjaldfelldar“ og „er lánið gjaldfellt“.

Stefnandi kveðst vísa til þess að í úthlutunarreglum stefnanda, sem stjórn LÍN setji árlega og eru staðfestar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðnum, hafi allt frá árinu 1989 verið sérstakt ákvæði um afleiðingar vanskila þar sem sjóðnum er heimiluð gjaldfelling láns hafi lögfræðiinnheimta lánsins ekki skilað árangri.

Í dómi Hæstaréttar frá 5. nóvember 2015 í máli nr. 229/2015 segi um úthlutunarreglur stefnanda: „Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laganna setur sjóðstjórn reglur um þau atriði er greinir í lögunum og reglugerð samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar ... Af þessu leiðir að það stendur ekki í valdi stjórnar að víkja í framkvæmd frá þeim reglum um úthlutun og innheimtu námslána sem ráðherra hefur samþykkt og birtar hafa verið í stjórnartíðindum.“

Stefnandi kveðst telja að þegar skilmálar skuldabréfs nr. R-007655 séu lesnir með tilliti til ákvæða úthlutunarreglna stefnanda um vanskil sé dómur Hæstaréttar frá 24. september 2015 í máli nr. 15/2015 nærtækara fordæmi fyrir mál þetta en dómur Hæstaréttar frá 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010. Meginreglur kröfuréttar byggist á þeirri forsendu að það sé skuldara ekki til hagsbóta að kröfuhafi beiti ýtrasta rétti sínum gagnvart honum til að heimta kröfu sína fyrir umsamda gjalddaga. Sömu meginreglur feli einnig í sér að kröfuhafa verði ekki refsað fyrir að hafa ekki gengið svo hart fram í innheimtunni sem honum hafi verið heimilt. Á því sé byggt, þótt dómaframkvæmd sé að einhverju leyti misvísandi, að upphafstími fyrningar gjaldfelldra eftirstöðva kröfu stefnanda hafi verið þegar stefnandi lét afdráttarlaust í ljós vilja sinn til þess að hagnýta sér rétt til að krefjast efnda fyrir umsamda gjalddaga.  Því sé hafnað sem tækri lögskýringarleið að önnur regla skuli gilda um kröfur stefnanda en t.d. þau kröfuréttindi sem dæmt hafi verið um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 15/2015.

Standi úrskurður málskotsnefndar óhaggaður kveðst stefnandi telja að hann hafi fordæmisgildi gagnvart öllum námslánum samkvæmt lögum nr. 21/1992 sem bíði innheimtu vegna forgangs eldra láns úr sama lánaflokki. Niðurstaða málskotsnefndar þess efnis að biðlán gjaldfalli við fyrstu vanskil forgangsláns leiði til alvarlegs fjárhagsvanda þúsunda skuldara að námslánum og ábyrgðarmanna þeirra. Þeir muni eftirleiðis þurfa að greiða tvö eða fleiri gjaldfallin námslán á sama tíma, en stefnandi hafi aldrei farið fram af slíkri hörku í innheimtu námslána.

Í framlögðum efnahagsreikningi stefnanda komi fram að nafnverð námslána sem veitt voru á tímabilinu 1992-2005 nemi 24.253.661.000 krónum og frá 2005 nemi þau 171.557.496.000 krónum, sem geri samtals 195.811.157.000 krónur. Það varði stefnanda miklu hvort allt þetta stóra lánasafn fyrnist á 10 árum, sbr. dóm Hæstaréttar 27. október 2016 í máli nr. 119/2016, eða á fjórum árum, sbr. niðurstöðu málskotsnefndar. Á því sé byggt að málskotsnefnd hafi borið að hlíta fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í fyrrgreindu máli og byggja úrlausn í máli L-13/2016 á því að krafa stefnanda fyrnist á 10 árum samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905. Ekki sé á valdi stjórnsýslunefndar að líta fram hjá fordæmi Hæstaréttar eins og gert hafi verið.

Í ársskýrslu stefnanda fyrir árið 2015 sé sérstakur kafli um lán í vanskilum þar sem fram komi að 527 lánþegar hafi verið með lán í vanskilum í meira en þrjú ár og nemi fjárhæð vanskilanna 628.800.000 krónum. Að auki hafi verið í húfi lán að fjárhæð 2.039.600.000 krónur. Standi niðurstaða málskotsnefndar óhögguð sé hætt við að stór hluti þessara lána sé fyrndur.

Málskotsnefnd hafi í úrskurði sínum komist að þeirri niðurstöðu að biðlán nr. R-024321 hafi orðið gjaldkræft tveimur árum eftir námslok, sem hafi verið á árinu 2002, en fyrningarfrestur hafi þó ekki byrjað að líða fyrr en árið 2009 þótt aldrei hafi verið greitt inn á biðlánið. Stefnandi kveðst telja þessa rökleiðslu ekki standast þar sem af niðurstöðu málskotsnefndar leiði að biðlán nr. R-024321 hafi fyrnst árið 2006 þegar fjögur ár hafi verið liðin frá því að það var gjaldkræft. Stefnandi geti ekki breytt ráðstöfun á greiðslu inn á virkt lán með afturvirkum hætti, jafnvel áratugi aftur í tímann, í því skyni að varna fyrningu gjaldkræfrar kröfu. Standi úrskurður málskotsnefndar óhaggaður séu öll biðlán sem veitt hafi verið samkvæmt lögum nr. 21/1992 fram til 1. janúar 2008 löngu fyrnd. Námslán veitt eftir 1. janúar 2008 fyrnist á 10 árum samkvæmt 5. gr. laga nr. 150/2007 og geti biðlán tekin eftir þann dag fyrst byrjað að fyrnast á árinu 2018.

Málskotsnefnd telji í úrskurði sínum að biðlán sem veitt hafi verið í gildistíð reglugerðar nr. 210/1993 séu undanskilin réttaráhrifum úrskurðar síns, en lán veitt eftir gildistöku reglugerðar nr. 602/1997 og síðar reglugerðar nr. 478/2011 falli þar undir. Það sé langstærstur hluti biðlána sjóðsins þar sem flestir lántakar hafi verið að taka sín fyrstu lán samkvæmt lögum nr. 21/1992 í gildistíð reglugerðar nr. 210/1993.

Fram komi í gögnum málsins að 2.696 greiðendur séu með tvö eða fleiri R-lán (eitt eða fleiri biðlán) og að fjárhæð þessara lána sé samtals 7.827.101.209 krónur. Þessi lán fyrnist öll eftir lögum nr. 14/1905 og hafi úrskurður málskotsnefndar fullt fordæmisgildi gagnvart þeim lánum sem bíði innheimtu. Þá komi fram í gögnum málsins að alls séu 23.908 greiðendur með tvö eða fleiri G-lán og sé fjárhæð þeirra lána samtals 67.630.765.147 krónur. Einungis G-lán sem veitt hafi verið á árabilinu 2005-2007 fyrnist eftir lögum nr. 14/1905 þannig að fordæmisgildi úrskurðar málskotsnefndar um fjögurra ára fyrningu lúti einungis að þeim lánum. Hins vegar hafi úrskurður málskostnefndar um hvenær biðlán verða gjaldkræf fordæmisgildi fyrir þessi lán og þar með upphafstíma fyrningarfrests.

Stefnandi kveðst telja niðurstöðu málskotsnefndar um að honum hafi verið skylt að ráðstafa greiðslu af láni R-007655 hlutfallslega inn á annað yngra námslán stefndu ekki standast. Í fyrsta lagi vegna meginreglna kröfuréttar um ráðstöfunarrétt skuldara og eftirfarandi ákvörðunarrétt kröfuhafa og í öðru lagi vegna þess að af meginreglum kröfuréttar leiði að hlutfallsleg skipting greiðslu inn á fleiri en eina skuld sama skuldara sé talin síðasti valkostur á ráðstöfun greiðslu.

Þá kveðst stefnandi telja að ekki verði litið framhjá því að skýra verði ákvæði skuldabréfa sjóðsins með hliðsjón af fyrirmælum laga, gildandi reglugerða og síðast en ekki síst árlegra úthlutunarreglna sjóðsins sem bindi hendur jafnt stjórnar stefnanda sem lántaka. Mat málskotsnefndar á því að fyrirmæli úthlutunarreglna séu sett lántaka til hagsbóta breyti ekki því að stjórn sjóðsins sé bundin af því að haga innheimtunni í samræmi við fyrirmæli úthlutunarreglnanna. 

Í hinum kærða úrskurði segi að skuldabréf sjóðsins skv. lögum nr. 21/1992 hafi að geyma sambærileg ákvæði og skuldabréf sjóðsins skv. lögum nr. 72/1982. Það sé rangt og sé því mótmælt, en skuldabréf samkvæmt lögum nr. 72/1982 hefðu haft að geyma svohljóðandi skilmála um lögtaksrétt: „Endurgreiðslur eru lögtakskræfar ef um vanskil er að ræða. Sama máli gegnir um eftirstöðvar námslána sem felld eru í gjalddaga.“ Í skuldabréfum stefndu R-007655 og R-024321 sé einfaldlega ekki mælt fyrir um lögtaksrétt. Lögtak hafi verið aflagt sem réttarfarsúrræði þegar stefnda tók námslán sín og eðlilega ekki mælt fyrir um lögtaksrétt í skuldabréfum stefndu.

Um heimild til að krefjast ógildingar á úrskurði málskotsnefndarinnar frá 25. janúar 2017 kveðst stefnandi vísa til 3. mgr. 5. gr. a í lögum nr. 21/1992. Einnig vísar stefnandi til almennra reglna stjórnsýsluréttar og eðlis kröfuréttinda sinna sem njóti sem slík verndar samkvæmt 72. stjórnarskrárinnar.

Hvað varðar lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1992, aðallega 1. gr., 5. gr. a, 6. gr., 7. gr., 8. gr., 11. gr., 16. gr. og 18. gr., auk ákvæðis til bráðabirgða, sbr. lög nr. 140/2004. Einnig vísar stefnandi til reglugerða nr. 210/1993, 602/1997 og 478/2011 og til úthlutunarreglna stjórnar stefnanda sem staðfestar hafi verið af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Þá vísar stefnandi til 4. gr. og 5 gr. laga nr. 14/1095 um fyrningu kröfuréttinda og til meginreglu kröfuréttar um upphafstíma fyrningar vegna „clausula cassatoria“ skilmála. Þá vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og hvernig skipta skuli greiðslum skuldara inn á fleiri en eina kröfu á hendi sama lánardrottins.

III

Stefnda kveðst byggja á því að 3. töluliður 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda gildi um kröfur stefnanda á hendur stefndu. Um sé að ræða aðstæður sem séu efnislega sambærilegar að öllu leyti við þær aðstæður sem fyrir hendi hafi verið í dómi Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010. Í báðum tilvikum hafi bein aðfararheimild verið til staðar, þótt sá munur sé á að í öðru tilvikinu hafi verið um lögtaksrétt að ræða. Heimildir og úrræði stefnanda til fullnustu séu því jafn ríkar í báðum tilvikum. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóðinn hafi stefnanda verið veitt bein aðfararheimild ef um vanskil var að ræða. Sama gildi um eftirstöðvar skuldar sem felldar séu í gjalddaga samkvæmt 11. gr. Skuldabréf stefnanda hafi að geyma sambærileg ákvæði. Í 10. tölulið 1. mgr. aðfararlaga nr. 90/1989 sé mælt fyrir um heimild til aðfarar fyrir kröfum, sem ekki falli undir ákvæði 1.-9. töluliðar málsgreinarinnar, ef kveðið er á um lögtaksrétt fyrir þeim í öðrum lögum. Þrátt fyrir að í 3. mgr. 9. gr. laga um stefnanda sé ekki minnst á lögtaksrétt séu engin rök til annars en að leggja fyrirmæli ákvæðisins um aðfararheimild að jöfnu við ákvæði um lögtaksrétt.

Stefnda bendir á að fullnustuheimildir stefnanda séu jafn ríkar í báðum tilvikum og engin ástæða sé til að lengja fyrningarfrestinn í 10 ár, líkt og stefnandi byggi á. Öll rök standi til þess að sami fyrningarfrestur gildi, hvort heldur er á grundvelli orðskýringar á 3. og 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905 eða með lögjöfnun. Stefnda kveðst í þessu sambandi einnig vísa til jafnræðisreglunnar. Engar ráðagerðir hafi verið um lengingu fyrningarfrests námslána úr fjórum árum í 10 þegar breytingar hafi verið gerðar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna eða skuldabréfum sjóðsins gagnvart sjóðfélögum. Ef sú hefði verið ætlun löggjafans hefði það verið tekið fram með skýrum hætti í lögunum eða í það minnsta í greinargerð. Í þessu sambandi sé einnig vísað til dóms Hæstaréttar 3. maí 2012 í máli nr. 622/2011 varðandi skýringu á ákvæðum laga um stefnanda.

Stefnda kveðst því hafna þeim skilningi stefnanda að fyrningarfresturinn hafi verið lengdur úr fjórum árum, eins og gilt hafi í fyrri framkvæmd, sbr. dóma Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010, í 10 ár. Engin skynsamleg ástæða hafi staðið til svo íþyngjandi breytingar á fyrningarreglum gagnvart námsmönnum eða ábyrgðarmönnum námslána.

Þá kveðst stefnda hafna því að 3. töluliður 3. gr. laga nr. 14/1905 feli í sér frávik frá meginreglu sem beri að skýra með þröngri lögskýringu. Ákvæðið feli einfaldlega í sér almenna reglu sem gildi um kröfur sem njóti sérstakra fullnustuheimilda umfram aðrar kröfur. Eðlilegt sé að slíkar kröfur hafi styttri fyrningartíma, enda fullnustuúrræði kröfuhafa ríkara en almennt gerist. Til kasta 2. töluliðar 4. gr. laganna komi ekki nema um sé að ræða kröfur sem ekki sé settur sérstakur fyrningarfrestur samkvæmt 2. eða 3. gr. Ákvæði 4. gr. sé því ekki almenn regla sem 3. gr. víki sérstaklega frá, heldur regla sem komi til framkvæmdar þegar ekki hefur verið mælt fyrir um sérstakan fyrningarfrest samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Lögskýring málskotsnefndar feli ekki í sér rýmkandi lögskýringu, heldur eðlilega orðskýringu í samræmi við efni ákvæðisins.

Stefnda fái ekki séð að dómur Hæstaréttar 27. október 2016 í máli nr. 119/2016, sem stefnandi vísi til, hafi þýðingu hér. Í málinu hafi verið deilt um hvort breytingar á löggjöf í tengslum við flýtifyrningu á grundvelli greiðsluaðlögunar hefðu haft þau áhrif að fyrning yrði ekki rofin með fyrirvaralausri greiðslu skuldara, líkt og almennt tíðkist. Hæstiréttur hafi slegið því föstu að fyrning yrði eftir sem áður rofin með þeim hætti. Í málinu hafi ekki verið til úrlausnar hvort fjögurra eða 10 ára fyrningarfrestur ætti við og hafi dómurinn því ekki fordæmisgildi hvað það varði. Þá hafi tilvísun til greinargerðar vegna nýrra fyrningarlaga ekki þýðingu í málinu.

Stefnda kveðst byggja á því að lán hennar hjá stefnanda hafi fallið í gjalddaga við greiðslufall 1. mars 2009. Dómur Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010 hafi fullt fordæmisgildi í málinu. Kröfur stefnanda hafi því fyrnst þann 1. mars 2013.

Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar hafi reynt á túlkun gjaldfellingarákvæðis skuldabréfa sem stefnandi hafi gefið út á árunum 1987 til 1991 á grundvelli laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Í skuldabréfunum hafi verið svofellt ákvæði: „Standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma er lánið allt gjaldfallið án uppsagnar.“ Hafi Hæstiréttur talið þetta orðalag fortakslaust um að lán teldist gjaldfallið án uppsagnar væri ekki staðið í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma.

Orðalag það sem um sé deilt í máli þessu, þ.e. „... er lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar“, feli að mati stefndu efnislega í sér hið sama og orðalag það sem Hæstiréttur hafi talið afdráttarlaust um gjaldfellingu. Orðalagið „án uppsagnar“ styrki þennan skilning enn frekar, þar sem það feli í sér að ekki hafi þurft sérstaka tilkynningu af hálfu stefnanda til gjaldfellingar.

Stefnda kveðst hafna þeim málatilbúnaði stefnanda að úthlutunarreglur sjóðsins feli í sér viðbótarskilmála við skuldabréfin sem breyti merkingu bréfanna. Réttarsamband aðila markist af skuldabréfinu og skilmálum þess. Ákvæði skuldabréfsins séu skýr varðandi gjaldfellingu við vanskil og beri að leggja þau til grundvallar við ákvörðun upphafstíma fyrningarfrests.

Hvergi í skilmálum skuldabréfsins sé vísað til þess að efni úthlutunarreglna sjóðsins eigi að vera til fyllingar gjaldfellingarákvæðum bréfsins. Orðalag bréfsins sé afdráttarlaust og segi þar berum orðum: „... er lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar.“ Samkvæmt orðanna hljóðan verði að skilja orðalagið á þann veg að átt sé við að ekki þurfi sérstaka tilkynningu, viðvörun eða annan atbeina við gjaldfellingu, heldur gjaldfalli lánið við vanskil.

Í tilefni af vangaveltum stefnanda um orðanna hljóðan kveðst stefnda einnig benda á að í dómi Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010 hafi verið dæmt um skuldabréf sem m.a. innihéldu orðalagið: „Sama máli gegnir um eftirstöðvar námslána sem felld eru í gjalddaga ... Standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma er lánið allt gjaldfallið án uppsagnar.“ Þrátt fyrir að í bréfunum sé bæði vísað til orðanna „felld eru“ og „allt gjaldfallið“, þá líti Hæstiréttur engu að síður svo á að gjaldfellingarheimildin hafi verið skilyrðislaus. Þessi notkun á sambærilegu orðalagi í eldri bréfunum og þeim yngri bendi einnig til þess að ekki hafi staðið til að gera grundvallarbreytingar á gjaldfellingarákvæðum sjóðsins með útgáfu nýju skuldabréfanna eins og stefnandi haldi nú fram. Því til stuðnings kveðst stefndi benda á varnir sjóðsins í tilvitnuðu Hæstaréttarmáli, en af þeim megi ráða að viðhorf sjóðsins til gjaldfellingar á grundvelli bréfanna hafi verið hið sama í tíð eldri bréfanna. Af þeim sökum kveðst kærandi hafna þeim málatilbúnaði að ætlunin hafi verið að gera gagngerar breytingar á gjaldfellingarákvæðunum með útgáfu nýju bréfanna. Stefnandi haldi því fram sjálfur að framkvæmdin hafi verið óbreytt í áratugi.

Sú staðhæfing stefnanda að breytt orðalag gjaldfellingarákvæðis skuldabréfanna hafi tekið mið af nýjum úthlutunarreglum sjóðsins um heimild sjóðsins til að gjaldfella lán eftir að gjalddagar í vanskilum hefðu verið sendir lögfræðingum til innheimtu samræmist ekki orðanna hljóðan í bréfunum. Hafi þetta verið ætlunin hefði orðalagið einfaldlega verið það sama og í úthlutunarreglunum. Þessi staðhæfing sjóðsins sé einfaldlega órökrétt og í andstöðu við orðanna hljóðan.

Þessu til viðbótar kveðst stefnda benda á að samræmisskýring á texta skuldabréfa hennar renni enn frekari stoðum undir skilning stefndu. Í bréfunum sé að finna samtals þrjú ákvæði um gjaldfellingu. Í tveimur ákvæðanna sé augljóslega um gjaldfellingarheimildir að ræða, en þau orðast svo „... LÍN áskilur sér rétt til að gjaldfella ... ef í ljós kemur að upplýsingar ... hafi verið ófullnægjandi eða villandi“ og „... getur LÍN krafist þess að lántakandi fái nýjan ábyrgðarmann ... Verði lántakandi ekki við því getur LÍN ... gjaldfellt lánið.“ Þessi ákvæði séu bæði frábrugðin ákvæði því sem fjalli um gjaldfellingu við vanskil, en þar segi: „... er lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar.“ Ómögulegt sé að skýra síðastnefnda ákvæðið á þann veg að það feli í raun einungis í sér heimild líkt og fyrrnefndu ákvæðin. Bæði sé það í ósamræmi við fyrrnefndu ákvæðin og almennan málskilning. Eins og áður segi mæli ákvæðið ekki fyrir um að lánið verði gjaldfellt við vanskil, heldur að lánið sé gjaldfellt við þær aðstæður.

Stefnda bendir á að Hæstiréttur hafi þegar hafnað því í fyrrnefndum dómi 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010 að stefnandi geti skírskotað til lagaákvæða til stuðnings því að sjóðurinn geti frestað gjaldfellingu (sé ekki bundinn af skilmálum skuldabréfsins, heldur séu úthlutunarreglur einnig til fyllingar þeim), sbr. skírskotun sjóðsins til 1. málsliðar 11. gr. laga nr. 72/1982 sem veitt hafi stjórn sjóðsins heimild til gjaldfellingar við veruleg vanskil. Þetta ákvæði hafi ekki verið skilið svo að með því væri sjóðurinn bundinn með þeim hætti að hann gæti ekki sett sterkari gjaldfellingarákvæði í skuldabréf sín. Þvert á móti hafi gjaldfellingarákvæði skuldabréfanna verið lögð til grundvallar. Hið sama gildi að sjálfsögðu um úthlutunarreglurnar sem sjóðurinn hafi gripið til máli sínu til stuðnings. Þær geti ekki gengið framar afdráttarlausum ákvæðum skuldabréfanna. Stefnda kveðst benda á að samkvæmt stefnanda hafi ákvæði um gjaldfellingarheimild vegna vanskila í kjölfar árangurslausrar lögfræðiinnheimtu verið í úthlutunarreglunum allt frá árinu 1989, en lán sem dæmt hafi verið um í dómi Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010 hafi m.a. verið tekin eftir það.

Varðandi lögskýringarsjónarmið kveðst stefnda benda á að skilmálar skuldabréfanna séu samdir einhliða af stefnanda og beri því að skýra óskýrleika þeirra lánþega í hag. Hið sama gildi um stöðu aðila, en stefnandi sé opinber lánasjóður stofnaður á grundvelli laga og á ábyrgð íslenska ríkisins, sbr. dóm Hæstaréttar 3. maí 2012 í máli nr. 622/2011. Stefnandi hafi einnig sérþekkingu sem lánveitandi. Stefnanda, sem lánveitanda sem samið hefur einhliða skilmála skuldabréfanna, beri að sjá til þess að ekki sé ósamræmi á milli skilmála skuldabréfsins og annarra reglna sem stefnandi telji að eigi að gilda um lán stefndu. Stefnandi geti ekki vísað til slíkra reglna, sem gangi framar ákvæðum skuldabréfanna, enda séu þær augljóslega settar lánþegum til hagsbóta en ekki stefnanda.

Röksemdum stefnanda sem byggist á tilvísun til rits Ólafs Lárussonar, þ.e. „Hafi krafan hins vegar fallið í gjalddaga fyrr en ákveðið var, vegna vanefnda skuldarans, myndi allt að einu rétt að telja fyrningarfrestinn frá þeim gjalddaga, sem upphaflega var ákveðinn“, hafi þegar verið hafnað með dómi Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010, enda hafi þar verið um að ræða að lán, sem féll í gjalddaga vegna vanskila fyrr en upphaflega var ákveðið. Orðalag gjaldfellingarákvæðis skuldabréfs kæranda ráði úrslitum, en það sé afdráttarlaust um að vanskil leiði til gjaldfellingar, en ekki einungis heimildar til gjaldfellingar ef og þegar sjóðnum sýnist svo. Fram hjá þessu orðalagi komist sjóðurinn einfaldlega ekki. Tilvísun til greinargerðar með lögum nr. 150/2007 hafi því heldur ekki þýðingu.

Um þau sjónarmið stefnanda að engu breyti hvort gjaldfellingarheimild sé með þeim hætti að krafa falli sjálfkrafa í gjalddaga við vanskil, eða hvort kröfuhafa sé heimilt án viðvörunar að gjaldfella við slíkar aðstæður, hafi þegar verið dæmt í tilvitnuðu máli, þar sem þessum sjónarmiðum hafi verið hafnað.

Jafnvel þótt fallist yrði á þann málatilbúnað stefnanda að skilja beri orðalag skuldabréfsins á þann veg að gjaldfella yrði bréfið í kjölfar vanskila, þá verði hið afdráttarlausa orðalag ekki með nokkru móti skýrt á þann hátt að í því felist að sjóðurinn geti frestað gjaldfellingu árum saman. Gera verði þá kröfu að hin mannlega aðkoma eigi sér stað innan einhverra eðlilegra tímamarka og sjóðurinn sinni innheimtu krafna sinna með virkum hætti.

Stefnanda hafi verið í lófa lagið að framfylgja innheimtunni með forsvaranlegum og vandkvæðalausum hætti gagnvart stefndu. Stefnandi hafi haft 18 mánuði til að fylgja innheimtu skuldabréfsins eftir gagnvart stefndu á lögheimili hennar hérlendis eftir að bréfið fór í vanskil. Það hafi hins vegar ekki verið gert. Mótbárur sjóðsins um að honum hafi ekki verið unnt að fylgja innheimtunni eftir vegna skorts á upplýsingum um heimilisfang stefndu fái því ekki staðist. Eftir 19. október 2010 hafi sjóðurinn getað leitað upplýsinga um heimilisfang stefndu í Bandaríkjunum hjá skráðum umboðsmanni stefndu á Íslandi hjá Þjóðskrá, en það hafi ekki verið gert. Ekki hafi heldur verið gripið til þess að birta stefnu í Lögbirtingablaði í samræmi við 89. gr. laga nr. 91/1991. Stefnda hafi skráð lögheimili sitt aftur á Íslandi 15. nóvember 2013, en sjóðurinn virðist ekki hafa kynnt sér það fyrr en árið 2015 og loks birt stefnu í febrúar 2015, næstum sex árum eftir að lánið féll í vanskil.

Stefnandi byggi á því að lán stefndu nr. R-024321 hafi aldrei orðið gjaldkræft þar sem innheimta þess skyldi víkja fyrir innheimtu láns nr. R-007655.

Stefnda bendir á að fyrir liggi að námslok vegna beggja lánanna hafi verið ákvörðuð eftir lok námsársins 1999. Endurgreiðsla stefndu á námslánaskuldinni hafi því hafist tveimur árum síðar, þ.e. 1. mars 2002, í samræmi við 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992, sem og í samræmi við ákvæði 6. mgr. skuldabréfanna. Að mati stefndu liggi því fyrir að skuldabréfin hafi fallið í gjalddaga samtímis tveimur árum eftir ákvörðuð námslok hennar og hafi því fyrnst á sama tíma.

Ekkert í lögum, reglugerð, úthlutunarreglum eða meginreglum kröfuréttar breyti þessum skýru fyrirmælum.

Stefnda kveðst benda á að málskotsnefnd rökstyðji með ítarlegum hætti í forsendum sínum þróun löggjafar sem kveðið hafi á um endurgreiðslur af námslánum þegar um hafi verið að ræða námsskuldir samkvæmt fleiri en einum lánaflokki. Kveðst stefnda vísa til ítarlegs rökstuðnings nefndarinnar. Eins og ráðið verði af honum hafi reglur um forgangsröðun lána átt við um lán samkvæmt mismunandi lánaflokkum, en ekki um lán í sama lánaflokki. Reglurnar eigi því ekki við um lán stefndu. Hinu sama gegni um ákvæði úthlutunarreglna stefnanda sem gildi um lán stefndu.

Hvað varði vangaveltur stefnanda um margfalda greiðslubyrði lánþega í kjölfar brottfalls 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993 með reglugerð nr. 602/1997, þá hafi verið tryggt með ákvæðum 2. og 3. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 að greiðslubyrði árlegrar endurgreiðslu námslána færi ekki fram úr ákveðnu hlutfalli útsvarstekna, þ.e. 4,75%, þegar um sé að ræða R-lán. Í 8. og 9. gr. laganna sé mælt fyrir um endurgreiðslu lána sem veitt hafi verið samkvæmt lögunum og sé þar miðað við að afborganir gangi til greiðslu heildarskuldarinnar. Eins og áður segi hefjist endurgreiðslur, bæði samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna og samkvæmt 6. mgr. skuldabréfanna, tveimur árum eftir námslok. Stefnandi hafi ekki fært neina viðhlítandi stoð fyrir því að stjórn hans sé heimilt að fresta innheimtu skuldabréfs R-024321 þar til fyrra skuldabréf stefndu hafi verið að fullu greitt, og að síðara bréfið sé ógjaldkræft á meðan. Þessi skilningur fái hvorki stoð í lögum um stefnanda, reglugerð né í úthlutunarreglum um sjóðinn. Einu frestunarheimildir stefnanda lúti að frestun námsloka við tilteknar aðstæður, en þær eigi ekki við í þessu máli.

Sá skilningur stefnanda að honum sé frjálst, eða jafnvel skylt, að fresta innheimtu síðara láns á meðan fyrra lán er innheimt að fullu, fái heldur ekki samrýmst hagsmunum ábyrgðarmanna á lánunum. Ábyrgðarmenn eigi að geta treyst því að endurgreiðslur hefjist tveimur árum eftir námslok, líkt og skýrt komi fram í skuldabréfunum sjálfum. Stæðist skilningur stefnanda hefði það í för með sér að stefnandi gæti haldið að sér höndum með innheimtu síðara láns í áratugi á meðan fyrra lán væri greitt að fullu. Allan þann tíma myndi lánið safna vöxtum og verðbótum. Slík framkvæmd samræmist á engan hátt þeirri ábyrgð sem ábyrgðarmenn vegna lána sjóðsins gangist undir samkvæmt skýrum fyrirmælum 6. mgr. bréfanna. Vegna fullyrðinga í stefnu um að sami ábyrgðarmaður hafi verið á lánum stefndu kveðst stefnda vekja athygli á því að í gögnum málsins komi fram að systir stefndu hafi gengist í viðbótarábyrgð vegna fyrra láns hennar. Ábyrgðarmaður vegna seinna lánsins, sem hafi verið móðir stefndu, hafi því haft hagsmuni af því að bæði skuldabréfin yrðu innheimt samtímis í samræmi við ákvæði þeirra, í stað þess að skuldin sem hún var ein í ábyrgð fyrir yrði fryst um áratugaskeið. Jafnvel þótt einn og sami ábyrgðarmaður hefði verið á báðum lánunum eigi framkvæmd innheimtunnar að vera sú sama af hálfu stefnanda.

Stefnandi verði, sem sérhæfður lánveitandi sem samið hefur einhliða skilmála skuldabréfanna, að bera hallann af því að hafa ekki tiltekið sérstaklega í skuldabréfunum að hann áskildi sér heimild til að fresta alfarið innheimtu seinna lánsins þar til hið fyrra væri greitt upp, þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. skuldabréfsins. Stefnanda beri að sjá til þess að ekki sé ósamræmi á milli ákvæða skuldabréfanna og þeirra reglna sem stefnandi telji að eigi að gilda um lán stefndu.

Almennar reglur kröfuréttar um ráðstöfun greiðslna, sem stefnandi hafi vísað til, geti heldur ekki haft þá þýðingu að ef stefnandi á kröfu á skuldara samkvæmt fleiri en einu skuldabréfi beri ávallt að ráðstafa endurgreiðslum inn á það lán sem elst er, og að gjalddagar yngra láns frestist á meðan, jafnvel í áratugi. Valkvæð ráðstöfun greiðslu inn á tiltekið lán hafi ekki þá þýðingu að gjalddagi vegna annarra lána frestist á meðan.

Þá kveðst stefnda benda á, í tilefni af þeim málatilbúnaði stefnanda að hún hafi samþykkt í verki fyrirkomulag innheimtunnar, að stefnda hafi mátt treysta því að stefnandi sem sérhæfður lánveitandi myndi haga innheimtu sinni í samræmi við fyrirmæli laga og ákvæði skuldabréfanna. Það hvernig stefnandi hafi kosið að ráðstafa greiðslum stefndu hafi ekki verið á hennar ábyrgð. Þá hafi stefnda heldur enga heimild haft til þess að breyta skilmálum innheimtunnar án þess að ábyrgðarmenn féllust einnig á þá breytingu. Þessi málatilbúnaður stefnanda sé því haldlaus.

Sú niðurstaða málskotsnefndar, að þegar endurgreiðsla stefndu hófst tveimur árum eftir námslok hafi borið að ráðstafa greiðslum hennar inn á heildarnámslánsskuldina og lækka skuldabréfin að tiltölu eftir því sem greiðslan hrökk til, sé rökrétt og fyllilega í samræmi við ákvæði skuldabréfanna, 4. mgr. 7. gr. laganna, sem og hagsmuni ábyrgðarmanna.

Loks kveðst stefnda hafna því að stefnandi geti klætt framgöngu sína í búning venjuhelgaðrar stjórnsýsluframkvæmdar. Fyrirmæli í lögum og reglugerðum og breytingar á þeim sýni svo ekki verði um villst að löggjafinn hafi talið þörf á settum reglum um framkvæmd innheimtu lána stefnanda. Það að tiltekin framkvæmd hafi varað í ákveðinn tíma hafi ekki þá þýðingu að breytingar á reglugerðum verði þýðingarlausar né heldur að afnema verði fyrri framkvæmd með beinum fyrirmælum þar að lútandi. Ákvæði skuldabréfanna sjálfra innihaldi enga tilvísun í hina meintu stjórnsýsluframkvæmd. Þegar hafi verið bent á hagsmuni ábyrgðarmanna af því að skuldabréfin séu innheimt í samræmi við fyrirmæli þeirra sjálfra.

Sjónarmiðum þeim sem stefnandi reifi í umfjöllun sinni um fordæmisgildi úrskurðar málskotsnefndar hafi þegar verið svarað hér að framan að mestu leyti og kveðst stefnda vísa til þeirrar umfjöllunar. Stefnda telji þó rétt að víkja stuttlega að eftirfarandi atriðum í umfjölluninni:

Stefnandi nefni að sú niðurstaða að „biðlán“ gjaldfalli við fyrstu vanskil „forgangsláns“ leiði til alvarlegs fjárhagsvanda þúsunda skuldara og ábyrgðarmanna þeirra. Stefnda kveðst benda á að í úrskurði málskotsnefndar felist ekki að um biðlán og forgangslán sé að ræða, heldur lán sem beri að innheimta jafnhliða. Í öðru lagi kveðst stefnda benda á að sé fjárhag lánþega þannig komið að „forgangslán“ gjaldfalli séu allar líkur á að „biðlán“ myndi fara í vanskil í framhaldinu. Í þriðja lagi eigi röksemdir stefnanda gegn gjaldfellingu við um gjaldfellingarheimildir endranær, og ættu þá jafnvel að verða stefnanda tilefni til þess að endurskoða gjaldfellingarheimildir sínar og draga úr þeim. Í fjórða lagi kveðst stefnda benda á þá augljósu staðreynd að stefnanda sé í sjálfsvald sett að koma til móts við námsmenn í fjárhagsörðugleikum og ábyrgðarmenn þeirra með því að semja um að lánum þeirra verði komið í skil, eftir atvikum með útgáfu nýrra skuldabréfa sem taki mið af fjárhagsstöðu lánþega.

Í máli sínu fjalli stefnandi um þá niðurstöðu málskotsnefndar á bls. 11 í úrskurði nefndarinnar um að lán R-024321 hafi orðið gjaldkræft á árinu 2002, en upphafstími fyrningar hafi þó ekki byrjað að líða fyrr en árið 2009, þrátt fyrir að engum greiðslum hafi verið ráðstafað inn á lánið á þessum tíma. Kveðst stefnda telja niðurstöðuna fyllilega rökrétta og í samræmi við þá niðurstöðu nefndarinnar að bæði lánin hafi orðið gjaldkræf tveimur árum eftir námslok og að stefnanda hafi verið rétt að ráðstafa greiðslum inn á þau að tiltölu. Misskilningur stefnanda felist í því að ráðstöfun greiðslunnar af hálfu stefnanda inn á annað lánið feli ekki í sér að hitt lánið lendi þar með í vanskilum, þar sem réttar greiðslur hafi borist frá stefndu allt fram til ársins 2009. Stefnda hafi greitt lögmælta fjárhæð til stefnanda, sem aftur hafi kosið að ráðstafa greiðslunni inn á annað lánið. Það feli ekki í sér að þar með hafi hitt lánið lent í vanskilum, enda hafði stefnda innt rétta greiðslufjárhæð af hendi til stefnanda. Af þeirri ástæðu sé það rangt hjá stefnanda að öll „biðlán“ sem veitt hafi verið fram til 1. janúar 2008 séu löngu fyrnd. Vanskil þeirra geti ekki orðið fyrr en lánþegar vanefna greiðslur sínar gagnvart sjóðnum eins og þær takmarkist af 8. og 9. gr. laga nr. 21/1992. Ráðstöfun stefnanda inn á „forgangslán“ leiði ekki sjálfkrafa til þess að „biðlán“ teljist í vanskilum þar sem lánþegar hafi innt af hendi réttar greiðslur til sjóðsins.

Til viðbótar við þær röksemdir sem fram komi í úrskurði málskotsnefndar fyrir því að víkja beri til hliðar loforði kæranda um greiðslu samkvæmt vanskilaskuldabréfi útgefnu í mars 2015 á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 kveðst stefnda vekja athygli á því að stefnandi viðurkenni í stefnu að hann hafi talið vafa leika á því hvort fjögurra eða 10 ára fyrningarfrestur gilti um lán stefndu samkvæmt áðurgreindum skuldabréfum. Þetta styrki enn frekar þá niðurstöðu að stefnandi hafi mátt vita að námsskuld stefndu hafi verið fyrnd og að honum hafi því borið að vekja athygli stefndu á þessari stöðu þegar hann samdi um útgáfu vanskilaskuldabréfsins við hana.

Til stuðnings sýknukröfu sinni kveðst stefnda einkum vísa til laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, 36. gr. laga nr. 6/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins og sjónarmiða kröfuréttar um tillit til hagsmuna ábyrgðarmanna. Krafa um málskostnað styðjist við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Stefnandi hefur höfðað mál þetta á hendur stefndu til ógildingar á úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 25. janúar 2017 í máli nr. L-13/2016 þar sem ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 14. mars 2016 var felld úr gildi og námslánaskuld stefndu samkvæmt skuldabréfum nr. R-007655 og R-024321 felld niður.

Í málinu er ekki ágreiningur um tilurð fjárskuldbindingar stefndu eða fjárhæðir, heldur byggjast varnir stefndu aðallega á því að námslán hennar samkvæmt báðum framangreindum skuldabréfum séu fyrnd og því beri að fella kröfu stefnanda samkvæmt skuldabréfunum niður. Einnig byggir stefnda á því að þar sem námslán hennar hafi verið fyrnt þegar hún gaf út vanskilaskuldabréf vegna fyrra lánsins í mars 2015 hafi borið að víkja loforði hennar um greiðslu samkvæmt því skuldabréfi til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda samninga eins og gert hafi verið með úrskurði málskotsnefndar stefnanda.

Í málinu er einkum deilt um fyrningarfrest námslánaskuldar stefndu og við hvaða tímamark miða skuli upphaf hans. Þá er deilt um túlkun á gjaldfellingarákvæðum skuldabréfanna.

Til námslána þeirra sem mál þetta lýtur að var stofnað annars vegar á árunum 1993-1997 vegna náms stefndu í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og hins vegar á árunum 1998-1999 vegna MBA-náms stefndu í Bandaríkjunum. Vegna fyrra lánsins gaf stefnda út skuldabréf 1. janúar 1994 og í samræmi við þær reglur sem giltu um stefnanda var fjárhæðin ekki færð inn á skuldabréfið fyrr en eftir uppreikning lánsins til einnar vísitölu eftir námslok. Fyrra skuldabréfið er númer R-007655 og er að fjárhæð 1.245.591 króna með grunnvísitöluna 3817. Umboðsmaður stefndu gaf út síðara skuldabréfið 29. nóvember 1998, sem auðkennt var með númerinu R-024321 og í samræmi við áðurgreindar reglur var lánið reiknað upp til einnar vísitölu við lok framhaldsnáms stefndu í Bandaríkjunum og fjárhæðin 3.163.721 króna færð inn á skuldabréfið með grunnvísitöluna 193,3.

Í samræmi við þágildandi úthlutunarreglur stefnanda voru námslok vegna bæði fyrra náms stefndu við Háskóla Íslands og framhaldsnáms hennar í Bandaríkjunum ákvörðuð 14. desember 1999. Í áðurgreindum skuldabréfum, sem eru eins að efni og innihaldi, var kveðið á um að endurgreiðsla þeirra skyldi hefjast tveimur árum eftir námslok. Í samræmi við framangreint hófust endurgreiðslur stefndu 1. mars 2002, sem samkvæmt 8. gr. laga nr. 21/1992 um stefnanda, sbr. lög nr. 67/1997, gátu ekki numið hærri fjárhæð á ári en 4,75% af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári. Að ákvörðun stefnanda runnu endurgreiðslur stefndu inn á eldra lánið nr. R-007655, en námslán stefndu nr. R-024321 var látið víkja í innheimtu fyrir hinu eldra láni.

Vísar stefnandi í þessu sambandi til 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993 þar sem fjallað var um þau tilvik er námsmaður hefur lánshæft nám að nýju eftir að fyrra námi telst lokið. Skyldi námsmanni þá reiknast önnur heildarskuld vegna síðara námsins og um greiðslur af henni skyldi fara eins og um sjálfstætt lán væri að ræða, en þó þannig að heildargreiðslur á hverju ári skyldu aldrei vera meiri en sem næmi ákveðnum hundraðshluta af útsvarsstofni næsta árs á undan endurgreiðsluári. Skyldi greiðsla af síðari skuld þá víkja fyrir greiðslu af fyrri skuld þar til hún væri að fullu greidd.

Reglugerð nr. 210/1993 var felld úr gildi með reglugerð nr. 602/1997 hinn 20. október 1997. Síðarnefnda reglugerðin hafði ekki að geyma sérstök fyrirmæli um hvernig með skyldi fara þegar námsmaður byrjaði nám aftur eftir lok fyrra náms. Eins og fram hefur komið var framkvæmd stefnanda þó óbreytt frá því sem mælt var fyrir um í reglugerð nr. 210/1993 og áður hefur verið gerð grein fyrir, þ.e. greiðslur af síðari skuld viku fyrir greiðslum af eldri námslánaskuldum lántaka.

Námslán stefndu tilheyra sama flokki lána, þ.e. um er að ræða svokölluð R-lán, sem veitt voru á árabilinu 1992-2004. Samkvæmt orðanna hljóðan tekur 18. gr. laga nr. 21/1992 aðeins til þeirra tilvika er lánþegi samkvæmt lögum nr. 21/1992 er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt eldri lögum um sjóðinn. Reglu 18. gr. laganna verður því ekki beitt um tilhögun endurgreiðslu námslána í þeim tilvikum er skuldari hefur gefið út fleiri en eitt skuldabréf innan sama lánaflokks, eins og í tilviki stefndu.

Í 7., 8. og 9. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er mælt fyrir um endurgreiðslu lána sem veitt voru samkvæmt lögunum. Í 3. mgr. 7. gr. segir að lánstími námsláns sé ótilgreindur, en greitt skuli af námsláni í samræmi við fyrirmæli 8. gr. laganna þar til skuldin er að fullu greidd. Í 4. mgr. 7. gr. segir að endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok, en sjóðsstjórn skilgreini hvað telja beri námslok. Í 8. gr. er síðan kveðið á um að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, þ.e. annars vegar sé föst greiðsla og hins vegar viðbótargreiðsla sem háð sé tekjum síðasta árs. Þá er í 9. gr. kveðið á um að hverri endurgreiðslu skuli skipt í höfuðstól, verðbætur og vexti. Með vísan til framangreinds og með hliðsjón af ákvæðum 18. gr. laganna verður að fallast á það með stefndu að í framangreindum lagaákvæðum sé miðað við að endurgreiðslur gangi til greiðslu heildarskuldar innan sama lánaflokks. Samkvæmt framangreindu og ákvæðum skuldabréfanna sjálfra verður að telja að bæði skuldabréfin, þ.e. lán nr. R-007655 og R-024321, hafi orðið gjaldkræf tveimur árum eftir ákvörðuð námslok eða 1. mars 2002, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010.

Á það er hins vegar fallist með stefnanda að samkvæmt meginreglu kröfuréttar hafi honum eins og á stóð verið rétt að ráðstafa greiðslum stefndu samkvæmt 8. gr. laganna fyrst inn á eldra lánið nr. R-007655. Ekkert er fram komið um það að stefnda hafi gert athugasemdir við það fyrirkomulag, en á framlögðum greiðsluseðli stefnanda vegna afborgunar stefndu 1. mars 2006 kemur skýrt fram að um var að ræða afborgun vegna eldra skuldabréfsins nr. R-007655, sem gefið var út 5. janúar 1994. Það er almennt viðurkennd meginregla kröfuréttar að þegar kröfuhafi á margar kröfur á hendur sama skuldara eigi skuldarinn val um inn á hvaða skuld hann ráðstafar greiðslu hverju sinni. Láti skuldarinn engin fyrirmæli fylgja greiðslu sinni beri að miða við að hann eftirláti kröfuhafa frjálst val um inn á hvaða skuld greiðslunni skuli ráðstafað. Með því að stefnda greiddi athugasemdalaust greiðsluseðla sem stefnandi sendi henni vegna láns nr. R-007655 verður að fallast á að hún hafi samþykkt í verki fyrirkomulag innheimtunnar sem stefnandi hafði valið, enda verður að telja að engu máli hafi skipt fyrir hagsmuni stefndu inn á hvort skuldabréfið greiðslur hennar gengu eða hvort þær gengu að tiltölu inn á bæði skuldabréfin. Samkvæmt áðurgreindri meginreglu var stefnanda ekki skylt að líta til hagsmuna ábyrgðarmanns í þessum efnum. Líta ber svo á að á meðan stefnda greiddi inn á námslán sitt í samræmi við fyrirmæli 8. gr. laga nr. 21/1992 hafi hvorugt skuldabréfanna verið í vanskilum.

Fram hefur komið að vanskil urðu á endurgreiðslum stefndu af námsláni sínu frá og með gjalddaga 1. mars 2009 og hafa engar greiðslur af skuldinni verið inntar af hendi síðan. Í skuldabréfunum er kveðið á um að standi lántakandi ekki í skilum með greiðslu afborgana „er lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar.“ Í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 er hins vegar kveðið á um að verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námsláns skuli stjórn sjóðsins heimilt að fella allt lánið í gjalddaga.

Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda gilda eldri fyrningarlög um kröfu stefnanda á hendur stefnda, þ.e. lög nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Krafa stefnanda er samkvæmt skuldabréfi, og samkvæmt skýrum fyrirmælum 1. töluliðar 4. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast slíkar kröfur á 10 árum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 27. október 2016 í máli nr. 119/2016.

Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 og í áðurgreindum skuldabréfum er kveðið á um að endurgreiðslur séu aðfararhæfar án undangengins dóms eða sáttar, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Sama gildi um eftirstöðvar skulda sem hafi verið gjaldfelldar. Hvorki í lögum nr. 21/1992 né í skuldabréfunum sjálfum er kveðið á um að kröfunum fylgi lögtaksréttur eins og raunin var með lán, sem gefin voru út í gildistíð laga nr. 72/1982, sbr. 3. mgr. 9. gr. þeirra laga. Engin rök þykja standa til þess að leggja beri að jöfnu fyrirmæli 3. mgr. 9. gr. núgildandi laga um aðfararheimild við ákvæði áðurgildandi laga um lögtaksrétt með þeim áhrifum að fyrningarfrestur 3. töluliðar 3. gr. laga nr. 14/1905 gildi um kröfu stefnanda eins og stefnda heldur fram.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 telst fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Eins og áður greinir urðu vanskil á endurgreiðslum stefndu af námsláni hennar frá og með gjalddaga 1. mars 2009, en frá því tímamarki voru liðin átta ár þegar mál þetta var höfðað. Þykir ljóst að kröfur stefnanda samkvæmt báðum skuldabréfunum eru ófyrndar hvort heldur skýra ber gjaldfellingarákvæði skuldabréfanna á þann veg að allar eftirstöðvar skuldar stefndu hafi fallið sjálfkrafa í gjalddaga við vanskil 1. mars 2009 eða að áðurgreind ákvæði skuldabréfanna veiti aðeins heimild til gjaldfellingar eftirstöðva lánsins við vanskil.

Stefnandi höfðaði mál á hendur stefndu og ábyrgðarmanni vegna láns nr. R-007566 með birtingu stefnu 19. febrúar 2015 og í kjölfar þingfestingar málsins óskaði stefnda eftir því að fá að greiða upp vanskilin með útgáfu sérstaks vanskilaskuldabréfs og koma þar með námsláni sínu í skil. Gerði stefnda upp vanskil námslánsins með útgáfu skuldabréfs hinn 14. apríl 2015. Í ljósi þess að kröfur stefnanda voru samkvæmt framangreindu ófyrndar voru engin efni til þess að víkja til hliðar loforði stefndu um greiðslu samkvæmt áðurgreindu vanskilaskuldabréfi á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga eins og kveðið er á um í úrskurði málskotsnefndar stefnanda.

Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða málsins sú að fallast ber á dómkröfur stefnanda í málinu. Er úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 25. janúar 2017 í máli nr. L-13/2016 því felldur úr gildi, sbr. heimild í 5. gr. a laga nr. 21/1992, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Með hliðsjón af málsúrslitum og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Felldur er úr gildi úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 25. janúar 2017 í máli nr. L-13/2016 þar sem ákvörðun stjórnar stefnanda, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, frá 14. mars 2016 var felld úr gildi og námslánaskuld stefndu, Jónínu Bjarkar Þorvaldsdóttur, samkvæmt námslánaskuldabréfum nr. R-007655 og R-024321 felld niður.

Stefnda greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.