Print

Mál nr. 33/2019

Kristján Ari Arason (Grétar Dór Sigurðsson lögmaður)
gegn
Lánasjóði íslenskra námsmanna (Kristján Þorbergsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Landsrétti
Reifun

Aðilar deildu um gildi sjálfskuldarábyrgða sem K hafði undirgengist með áritun á tvö skuldabréf vegna skulda J við L. Hafði bú J verið tekið til gjaldþrotaskipta og K greitt skuldina með fyrirvara um rétt til endurkröfu. Eftir að J lést lýsti K kröfu í dánarbú hans en við meðferð málsins fyrir Landsrétti var upplýst að krafan hefði verið samþykkt á skiptafundi. Þá lá fyrir í málinu að millifærð hefði verið nánar tilgreind fjárhæð á geymslureikning vegna hennar. Talið var að þar sem fyrir lægi að krafa K fengist að fullu greidd af eignum dánarbúsins hefði K ekki lengur lögvarða hagsmuni af því fá dóm um kröfur sínar. Var málinu því vísað frá Landsrétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2019, en kærumálsgögn bárust réttinum 5. júlí sama ár. Kærður er dómur Landsréttar 14. júní 2019, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Er kæra var sett fram var hún heimil með lögjöfnun frá a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 30. október 2018 í máli nr. 22/2018. Kæruheimild er nú að finna í sama lagaákvæði, eins og því var breytt með a. lið 9. gr. laga nr. 76/2019 um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og fleiri lögum (málsmeðferðarreglur o.fl.), sem öðluðust gildi 4. júlí 2019.

Varnaraðili gerir ekki kröfu um málskostnað í héraði, en bendir á að vart geti verið rökrænt, svo sem gert sé í hinum kærða dómi, að kveða upp úr um málskostnað í héraði eftir að sökinni hefur verið vísað frá Landsrétti. Með því að varnaraðili hefur ekki kært dóm Landsréttar fyrir sitt leyti getur úrlausn hans um málskostnað í héraði þegar af þeirri ástæðu ekki komið til umfjöllunar hér fyrir dómi.

Eins og greinir í hinum kærða dómi var krafa sóknaraðila í dánarbú Jóhanns Vilhjálms Ólasonar, aðalskuldara hinnar umdeildu kröfu, sem sóknaraðili hafði greitt varnaraðila vegna sjálfskuldarábyrgðar hins fyrrnefnda, samþykkt á skiptafundi 28. júlí 2017. Þá liggur fyrir í málinu að lögmanni sóknaraðila var með tölvubréfi 29. maí 2019 tilkynnt að millifærð hefði verið 1.211.471 króna inn á geymslureikning vegna kröfunnar. Að þessu gættu verður hinn kærði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir úrslitum málsins verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði dómur skal vera óraskaður.

Sóknaraðili, Kristján Ari Arason, greiði varnaraðila, Lánasjóði íslenskra námsmanna, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Dómur Landsréttar 14. júní 2019.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Kristbjörg Stephensen og Oddný Mjöll Arnardóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 4. september 2018 að fengnu áfrýjunarleyfi. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2018 í málinu nr. E-1504/2017.

2. Áfrýjandi krefst þess að hann verði sýknaður af þeirri kröfu stefnda að úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, frá 15. mars 2017 í máli nr. L-15/2016, verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða áfrýjanda 919.240 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. apríl 2016 til greiðsludags en til vara að stefnda verði gert að greiða áfrýjanda 919.240 krónur auk vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001, frá 5. apríl 2016 til 23. júní 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júní 2016 og til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

4. Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi gekkst áfrýjandi á árunum 1983 og 1984 í sjálfskuldarábyrgð vegna skulda Jóhanns V. Ólasonar við stefnda samkvæmt tveimur skuldabréfum. Bú Jóhanns var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Norðurlands eystra 8. ágúst 2014 og hófust innheimtuaðgerðir stefnda gagnvart áfrýjanda snemma árs 2016, sem lyktaði með því að áfrýjandi greiddi 919.240 krónur til stefnda með fyrirvara um endurkröfu kæmust málskotsnefnd stefnda eða dómstólar að því að krafa stefnda væri óréttmæt. Jóhann lést 16. febrúar 2017. Lýsti áfrýjandi kröfu í dánarbúið 15. júní sama ár og var krafa hans samþykkt á skiptafundi 28. júlí sama ár.

5. Við upphaf aðalmeðferðar fyrir Landsrétti upplýsti lögmaður áfrýjanda um að fyrir lægi að krafa áfrýjanda í dánarbúið myndi fást greidd að fullu af eignum þess. Með því að nú liggur fyrir að krafa áfrýjanda í dánarbúið mun fást að fullu greidd samkvæmt framansögðu hefur áfrýjandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um kröfur sínar í máli þessu. Verður málinu því vísað frá Landsrétti án kröfu.

6. Með hliðsjón af atvikum öllum verður málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Landsrétti.

Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2018

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 26. apríl 2017 og gagnstefnu birtri 6. júní 2017 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 30. apríl sl.

Aðalstefnandi er Lánasjóður íslenskra námsmanna, Borgartúni 21 í Reykjavík.

Gagnstefnandi er Kristján Ari Arason, Flókagötu 57 í Reykjavík

Í aðalsök gerir aðalstefnandi þá dómkröfu að úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, uppkveðinn 15. mars 2017 í máli nr. L-15/2016, verði felldur úr gildi með dómi. Í gagnsök krefst aðalstefnandi aðallega sýknu, til vara að kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar, en til þrautavara er krafist sýknu að svo stöddu. Jafnframt er gerð krafa um málskostnað, bæði vegna aðalsakar og gagnsakar.

Gagnstefnandi krefst sýknu af kröfu stefnanda í aðalsök. Í gagnsök krefst hann þess að aðalstefnandi verði dæmdur til að endurgreiða 919.240 kr. sem gagnstefnandi greiddi þann 5. apríl 2016, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. apríl 2016, en til vara er krafist greiðslu sömu fjárhæðar auk vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr., laga nr. 38/2001 frá 5. apríl 2016 til 23. júní 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júní 2016 til greiðsludags. Gagnstefnandi krefst einnig málskostnaðar.

I.

Mál þetta á rót að rekja til þess að gagnstefnandi gekkst á árunum 1983 og 1984 í sjálfskuldarábyrgð á skuldum Jóhanns V. Ólasonar við aðalstefnanda samkvæmt tveimur skuldabréfum. Hið fyrra, sem fékk auðkennið T-3236, var útgefið 3. mars 1983, upphaflega 29.700,- kr. auk verðtryggingar. Seinna bréfið, T-14730, upphaflega 53.070,- kr. auk verðtryggingar var gefið út 23. febrúar 1984. T-lán þessi munu hafa fengið sameiginlegt reikningsskilanúmer hjá aðalstefnanda, S-880701. Óumdeilt er að nefndur Jóhann tók fleiri lán hjá aðalstefnanda, bæði fyrir gildistöku laga nr. 72/1982, eða svonefnd V-lán, en einnig í tíð núgildandi laga, svonefnd R-lán.

Gögn málsins bera með sér að Jóhann hafði lokið endurgreiðslu R-lánanna og hafið niðurgreiðslu T-lánanna þegar erfiðleikar tóku að steðja að í lífi hans, heilsubrestur og atvinnumissir. Af þessum sökum mun Jóhann hafa beiðst gjaldþrotaskipta á búi sínu og var búið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 8. ágúst 2014. Gjaldþrotaskiptum á búi hans lauk 27. október 2014.

      Innheimtuaðgerðir aðalstefnanda gagnvart gagnstefnanda sem ábyrgðarmanni hófust snemma árs 2016. Gagnstefnandi sendi aðalstefnanda kröfu um niðurfellingu ábyrgðar þann 22. janúar 2016, bréf 30. mars 2016 og loks kröfu um endurgreiðslu 23. maí 2016. Þessum sjónarmiðum og kröfum var hafnað af hálfu aðalstefnanda með vísan til fyrirmæla 18. gr. laga nr. 21/1992. Þann 5. apríl 2016 greiddi gagnstefnandi umkrafða fjárhæð, 919.240 kr., með fyrirvara um endurkröfu kæmist málskotsnefnd aðalstefnanda eða dómstólar að því að krafa stefnanda væri óréttmæt. Þá beindi stefndi þeim kröfum til stjórnar aðalstefnanda að ábyrgð hans yrði felld niður. Með ákvörðunum 10. maí og 23. júní 2016 hafnaði stjórnin þeirri málaleitan.

Þann 11. júlí 2016 kærði gagnstefnandi ákvarðanir stjórnar aðalstefnanda til málskotsnefndar aðalstefnanda. Með úrskurði 15. mars 2017 féllst nefndin á kröfur gagnstefnanda og felldi nefndar ákvarðanir stjórnar aðalstefnanda úr gildi. Í máli þessu krefst aðalstefnandi ógildingar á þessum úrskurði.

Aðalskuldari kröfunnar sem hér um ræðir, Jóhann V. Ólason, lést 16. febrúar 2017. Gagnstefnandi lýsti kröfu í dánarbúið 15. júní sama ár. Krafan var samþykkt á skiptafundi 28. júlí 2017 og upplýsti skiptastjóri á fundinum að dánarbúið ætti peningaeign að fjárhæð 11.246.393 kr. Við munnlegan málflutning kom fram að báðir málsaðilar telja líkur á að krafa gagnstefnanda fáist greidd úr dánarbúinu að hluta til eða að öllu leyti. Með bréfi til skiptastjóra dánarbúsins 9. apríl sl. lýsti lögmaður gagnstefnanda því yfir að ef niðurstaða dómstóla yrði á þá leið að ábyrgð gagnstefnanda teldist ógild og aðalstefnandi endurgreiddi að fullu kröfu hans myndi gagnstefnandi falla frá kröfulýsingu sinni í dánarbúið.

II.

Aðalstefnandi telur að fyrirmæli 18. gr. gildandi laga um sjóðinn séu skýr og ótvíræð um innheimturöð. Greiðslur af eldri námsskuldum skuli frestast þar til R-lán séu að fullu greidd. Aðalstefnandi hafi fylgt þessum beinu og ótvíræðu fyrirmælum laganna. Hlutverk málskotsnefndar sé að sannreyna hvort aðalstefnandi hafi gengið svo fram sem lögin bjóða. Þannig sé því hlutverki lýst í þeim ákvæðum laganna sem kveði á um starfrækslu hennar, sbr. ákvæði 5. gr. a. í lögum nr. 21/1992, en aðalstefnandi telur að niðurstaða nefndarinnar sé ekki í samræmi við það.

Máli sínu til stuðnings vísar aðalstefnandi til þess að sjóðurinn sé starfræktur í sérstökum tilgangi sem lýst er í þeim lögum frá Alþingi sem um hann hafa gilt og gildi enn. Þar sé jafnframt kveðið á um þá lánastarfsemi sem honum sé ætlað að stunda svo tilgangsmarkmiðum hans verði náð. Þá er þar mælt fyrir um töku trygginga fyrir endurgreiðslu útlána hans með það að markmiði að viðhalda í nokkrum mæli ráðstöfunarfé til áframhaldandi starfsemi.

Lagaákvæðin séu hluti þeirra láns- og ábyrgðarskilmála sem skuldari og ábyrgðarmaður undirgangist, enda skýrlega til þeirra vísað í þeim tveimur skuldabréfum,sem mál þetta varðar. Lögin gildi því um samningssambandið og séu hluti þess, bæði hvað skuldara og ábyrgðarmann áhræri. Af því leiði að reglum fjármunaréttarins verði ekki beitt fyrirvaralaust, eins og um almennt kröfuréttarsamband væri að ræða.

Í skuldabréfunum sé vísað til II. kafla laga nr. 72/1982. Þau lög hafi að sönnu verið leyst af hólmi með lögum nr. 21/1992, en ákvæðum þeirra fyrrnefndu allt að einu veitt áframhaldandi gildi með þeim fyrirmælum 18. gr. síðarnefndu laganna að endurgreiðsla lána sem veitt voru samkvæmt lögum nr. 72/1982 skuli frestast fram yfir endurgreiðslu lána samkvæmt yngri lögunum. Fyrirmælum eldri laganna um að endurgreiðsla skyldi hefjast þremur árum eftir námslok hafi þannig verið breytt með yngri lögum. Settum lögum frá Alþingi verði því aðeins vikið til hliðar að þau verði talin brjóta gegn stjórnarskrá, en með lögunum var samningssambandi bæði skuldara og ábyrgðarmanns við kröfuhafa breytt. Stefnandi, jafnt sem stefndi og aðrir þegnar, sé bundinn af settum lögum birtum með stjórnskipulega réttum hætti. 

Þannig sé það ranghermt í úrskurði þeim sem krafist er að ógiltur verði að aðalstefnandi hafi veitt skuldara gjaldfrest sem ábyrgðarmaður sé óbundinn af. Það hafi verið Alþingi sem með settum lögum hafi breytt samningsskilmálum sem bæði skuldari og ábyrgðarmaður höfðu undirgengist. Þótt aðalstefnandi sem framkvæmdarvaldshafi framfylgi ákvörðunum löggjafarvaldsins svo sem honum beri skylda til, þá verði ákvarðanir löggjafarvaldsins ekki eignaðar stefnanda, en þannig hermi úrskurðarnefndin ákvarðanir teknar með settum lögum frá Alþingi upp á hann. Engu breyti í því efni að framkvæmdarvaldshafinn sé jafnframt kröfuhafi.

Af viðteknum viðhorfum um rétthæð réttarheimilda leiði að ólögfestar meginreglur kröfuréttarins verði að víkja fyrir settum lögum frá Alþingi. Ein slíkra meginreglna, sú að lánveitandi geti ekki einhliða breytt skilmálum ábyrgðarsamnings ábyrgðarmanni í óhag, sé tekin upp í 2. mgr. 6. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Þau ákvæði fái af framanröktum ástæðum ekki raskað þeirri skipan sem mælt sé fyrir um í 18. gr. laga nr. 21/1992. Sú innheimturöð sem þar er mælt fyrir um, löngu fyrir gildistöku laganna um ábyrgðarmenn, sé ákvörðun Alþingis, gerð með settum lögum, en innheimturöðin sé ekki ákvörðun stefnanda sem lánveitanda um gjaldfrest til handa skuldara, ábyrgðarmanni til tjóns. Á því ranghermi byggi úrskurðarnefndin niðurstöðu sína.

Aðalstefnandi vísar til þess að gagnstefnandi hafi í reynd og í verki viðurkennt og samþykkt fyrir sitt leyti þá breytingu á skilmálum ábyrgðarsamnings hans við stefnanda sem leiddi af ákvæðum 18. gr. laga nr. 21/1992. Þann 21. október 2013 hafi gagnstefnandi ritað, sem ábyrgðarmaður aðalskuldara, sérstakt umsóknarbréf til aðalstefnanda þar sem hann fór þess á leit að aðalstefnandi veitti undanþágu frá tekjutengdri afborgun ársins 2013 vegna verulegra fjárhagsörðugleika. Viðurkenning þessi á ábyrgðarskuldinni svo sem hún stóð þá sé afdráttarlaus. Undanfarinn hafi verið sá að allt frá árinu 2005 hafi aðalstefnandi árlega mátt senda gagnstefnanda innheimtuviðvörun vegna árlegra vanskila aðalskuldara við aðalstefnanda. Þá hafi aðalstefnandi árlega sent gagnstefnanda tilkynningu um ábyrgðarskuld hans, svo sem mælt er fyrir um í lögum um ábyrgðarmenn, fyrst vegna ársins 2011.         

Í gagnsök byggir aðalstefnandi varnir sínar á því að samkvæmt ákvæðum 93. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 teljist mál höfðað þegar stefna er birt. Stefna í aðalsök í máli þessu var birt þann 26. apríl 2017, eða sama dag og dómstjóri synjaði umsókn um flýtimeðferð, sem er innan 30 daga frá því að málskotsnefndin féllst á skilorðsbundna frestun réttaráhrifa úrskurðar síns. Skýrlega sé í þeim fyrirmælum sem að þessu lúta vísað til stefnubirtingar en ekki tímamarks þingfestingar, þar sem segi að frestun réttaráhrifa falli úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frestsins.

Aðalstefnandi byggir á því að ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 geymi réttilega birt og sett lög, sem skuldbindi alla þegna og þurfi ekki frekari tilkynninga við. Fyrirmæli 18. gr. eru skýr og ótvíræð um innheimturöðina og í samræmi við þau fyrirmæli, sem jafnframt séu hluti af samningssambandi aðila, hafi gagnstefndi innheimt yngsta lánið fyrst. Gagnstefnandi lýsi sig í gagnstefnu sáttan við að innheimta þeirra lána sem hann gekkst í ábyrgð fyrir skyldi frestast fram yfir innheimtu lána frá eldra fyrirkomulagi, þ.e. að svonefnd V-lán skyldu greidd upp á undan þeim skuldum sem hann var í ábyrgð fyrir, en til þess verði þá að líta að sú skipan er boðin með sama formlega hætti og viðhafður var við lögfestingu 18. gr. laga nr. 21/1992.

Aðalstefnandi byggir á því að breyting Alþingis á þeim lögum sem það hefur sett um tiltekið réttarsamband, og gert að hluta þess, geti ekki valdið því að forsendur fyrir réttarsambandinu bresti. Þetta leiði af því hvaða skuldbindingargildi settum lögum frá Alþingi sé ætlað að hafa samkvæmt réttarskipaninni. Þaðan af síður geti slíkar lagabreytingar orðið efni til þess að dómstólar breyti þeirri skipan sem Alþingi hafi ákveðið með því að vísa til ákvæða 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Dómstólum séu ekki búnar heimildir til að lýsa fyrirmæli frá Alþingi ósanngjörn eða andstæð góðri viðskiptavenju. Hins vegar eigi dómstólar úrlausnarvald um það hvort sett lög frá Alþingi séu andstæð ákvæðum stjórnarskrárinnar. Sú aðstaða ein leyfi að fyrirmælum settra laga sé ekki fylgt. Aðalstefnandi mótmælir því að ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 gangi gegn ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Aðalstefnandi mótmælir því að lán hafi verið sameinuð með óheimilum hætti. Vísar aðalstefnandi í því sambandi til þess að í 2. ml. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982 sé boðið að eftir námslok skuli námsmanni tilkynnt upphæð heildarskuldar og það vísitölustig sem samsvari raungildi hennar. Þegar um fleiri en einn ábyrgðarmann sé að ræða á mismunandi lánshlutum skiptist ábyrgðin hlutfallslega milli þeirra. Ef skuldabréfin sem gefin voru út í því fyrirkomulagi sem gilti samkvæmt lögunum frá 1982 væru innheimt samkvæmt hljóðan hvers bréfs um sig yrði greiðslubyrði lántaka margföld miðað við það sem til er ætlast, en af fyrirmælum 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982 leiði að einungis hámarksafborgun skv. 2. og 3. mgr. 8. gr. laganna sé innheimt af heildarskuldinni en hún sé ekki innheimt af hverju útgefnu skuldabréfi. Við niðurgreiðslu skuldara lækki þannig ábyrgðarskuld hvers ábyrgðarmanns hlutfallslega. Fyrirkomulagið sé í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982 og þau séu bindandi hluti lánskjara og lánsskilmála. Þau raski ekki jafnræði ábyrgðarmanna og útheimti ekki að sérstaks samþykkis sé aflað.

Vegna þeirra sjónarmiða sem gagnstefnandi setur fram um fyrningu vísar gagnstefndi til þess að gjaldfellingarákvæði skuldabréfa þeirra sem málið varðar og gjaldfellingarákvæði laganna um Lánasjóð íslenskra námsmanna séu heimildarákvæði. Þau verði að skilja þannig að þau kveði á um heimildir kröfuhafa til handa um beitingu þess vanefndarúrræðis sem gjaldfelling ógjaldfallinna eftirstöðva er, þegar skuldari vanefnir. Af eðli máls leiði að heimildin útheimti, til þess að talið verði að kröfuhafi hafi beitt henni, sérstakan atbeina kröfuhafa, þ.e. sérstaka viljayfirlýsingu af hans hálfu um gjaldfellingu þess hluta sem samkvæmt skilmálum teljist til ógjaldfallinna eftirstöðva kröfunnar. Af þessu leiði að skuldari geti ekki ákveðið upp á sitt eindæmi að krafan á hendur sér skuli teljast gjaldfelld, ef ákvörðun þar um hefur ekki fengið tilskilinn atbeina kröfuhafa.

Aðalstefnandi mótmælir því að kröfuhafa sé óheimilt að leyfa að lánum sé komið í skil. Gagnstefnandi hafi viðurkennt ábyrgðarskuld sína í skriflegu erindi til gagnstefnda 21. október 2013 og við uppgjör 6. apríl 2016 hafi ekki verið liðin fjögur ár frá þeim degi.

Þá er mótmælt þeim málsástæðum gagnstefnanda sem lúta að því að aðalstefnandi hafi brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga og almennum meginreglum stjórnsýsluréttarins.

Aðalstefnandi vísar til þess að gagnstefnandi hafi lýst sömu fjárkröfu og hann hefur uppi í gagnsökinni í dánarbú Jóhanns V. Ólasonar. Skiptastjóri hafi samþykkt kröfuna og telur aðalstefnandi að eignastaðan í búinu sé með þeim hætti að líklegt sé að krafan greiðist af eignum bús, a.m.k að nokkru leyti. Vara- og þrautavarakrafa gagnstefnda vísi til þessarar stöðu, því fari svo að ekki verði fallist á sýknukröfu gagnstefnda yrði um ólögmæta auðgun að ræða hjá gagnstefnanda ef fallist yrði á aðal- eða varakröfur hans, áður en upplýstist um afdrif kröfunnar á vettvangi dánarbúsins.

Aðalstefnandi bendir á það að kröfur málsaðila í aðal- og gagnsök byggi á ólíkum grunni og vafi verði að teljast leika á því hvort þær teljist samrættar. Teljist þær ekki vera af sömu rót runnar hljóti það að varða frávísun gagnsakar.

III.

Gagnstefnandi byggir sýknukröfu í aðalsök og kröfur sínar í gagnsök á því að skilyrði frestunar séu ekki uppfyllt. Í ákvæðum 3. mgr. 5. gr. a í lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna sé kveðið á um það með hvaða hætti aðalstefnandi hafi tök á að óska ógildingar á úrskurðum málskotsnefndar sjóðsins. Þar segi að málskotsnefnd geti, að kröfu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, frestað réttaráhrifum úrskurðar síns telji hún að hann muni hafa í för með sér veruleg fjárhagsleg áhrif á sjóðinn. Fram komi að krafa þess efnis skuli gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar nefndarinnar og að frestun skuli „að auki vera bundin því skilyrði að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestun og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frestsins.“

Hafa beri í huga að í þeim tilfellum sé aðalstefnandi, sem er lægra sett stjórnvald, að óska ógildingar á úrskurði málskotsnefndar, sem er sérstaklega sett upp sem úrræði fyrir skuldara og ábyrgðarmenn námslána. Ljóst sé því að heimild aðalstefnanda til að óska slíkrar ógildingar verði að koma skýrt fram í lögum og gera verði ríkar kröfur til þess að þau skilyrði sem lögin kveða á um séu uppfyllt.

Í þessu máli hafi aðalstefnandi óskað eftir frestun réttaráhrifa þann 23. mars 2017 og fékk slíka frestun með ákvörðun málskotsnefndar þann 29. mars sama ár.

Málið hafi svo verið þingfest þann 9. maí 2017 en þá hafi 40 dagar verið liðnir frá fyrrnefndri ákvörðun um frestun réttaráhrifa. Áskilnaður ákvæðisins um að „bera mál undir dómstóla“ geti ekki talist uppfylltur með því einu að stefna hafi verið birt fyrir stefnda, heldur kveði ákvæðið beinlínis á um að mál skuli hafa verið borin undir dómstóla þannig að málið sé komið til meðferðar hjá dómstól innan þessa frests.

Þar sem stefnandi hafi ekki uppfyllt þessi skilyrði hafi réttaráhrif úrskurðarins ekki frestast. Úrskurðurinn sé því í gildi og ætti dómstóllinn því þá þegar að sýkna stefnda. 

Gagnstefnandi byggir einnig á því að ábyrgðarskilmálum hafi verið breytt afturvirkt með íþyngjandi hætti. Með því að breyta greiðsluröð lána hjá lánþega hafi aðalstefnandi breytt ábyrgð gagnstefnanda með afturvirkum og íþyngjandi hætti og því beri að fella hana niður.

Gagnstefnandi vísar til þess að í skilmálum skuldabréfanna sem um ræði í máli þessu komi fram að greiðslur af bréfunum muni hefjast þremur árum eftir námslok. Gagnstefnandi segir þetta vera í samræmi við ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, sem voru í gildi þá. Lántaki hafi lokið námi tímabundið árið 1989 en innritað sig svo aftur í nám og lokið því endanlega árið 1998.

Í millitíðinni, þ.e. frá því að stefndi gekkst í umræddar ábyrgðir og þar til námi lántaka lauk endanlega, hafi verið sett lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992. Þegar lögin voru sett árið 1992 hafi orðalagið verið á þann veg að „ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin eru samkvæmt þessum lögum.“ Endanlegt orðalag ákvæðisins hafi komið með breytingu menntamálanefndar þingsins undir meðferð málsins á þingi. Með lögum nr. 140/2004 hafi ákvæðinu svo verið breytt á ný, þannig að við bættist 2. mgr. 18. gr. þar sem fram kom að ef „lánþegi skuldi námslán sem var úthlutað á árunum 1992–2004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt.“

Umrædd regla hafi í raun falið í sér að námslán, sem lántaki tók síðar, hafi verið færð framar í greiðsluröðinni þannig að skuldari þeirra lána greiddi af þeim fyrst. Í því máli sem hér um ræðir hafi lántaki greitt upp þau lán, þ.e. R-lánin, á fimm ára tímabili, þ.e. frá 1998–2003. Á meðan hafi þau lán sem stefndi var í ábyrgð fyrir hækkað með hækkandi vísitölu. Þessi breyting hafi komið til eftir að gagnstefnandi hafði skrifað undir skuldabréfin og hafi því aldrei verið borin undir gagnstefnanda til samþykktar. Þegar gagnstefnandi hafi skrifað undir sem ábyrgðarmaður hafi lántaki þegar verið búinn að taka svonefnd V-lán og fyrir legið að þau hefðu forgang umfram T-lánin. Sé það í samræmi við eðlilega greiðsluröð, þ.e. elsta lánið greitt fyrst, svo það næstelsta og svo koll af kolli. Gagnstefnandi hafi mátt vænta þess að einmitt þetta fyrirkomulag yrði viðhaft til framtíðar, færi svo að lántaki tæki önnur lán síðar meir. Um sé að ræða mikilvæga forsendu fyrir ábyrgð gagnstefnanda.  

Þessu hafi hins vegar verið breytt með 18. gr. laga nr. 21/1992 og greiðsluröðinni þannig breytt án þess að leitað væri samþykkis gagnstefnanda og raunar án þess að honum væri á neinn hátt tilkynnt um breytinguna. Í tilfelli lántaka hafi þessi ákvörðun einmitt haft þau áhrif að gagnstefnandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni enda hafi lántaka tekist að greiða upp bæði R-lánið og svo V-lánið á árunum 1998–2004 en ekkert tekist að greiða af T-lánunum, sem voru í vanskilum allt frá byrjun, sbr. dskj. nr. 27–31. Ábyrgðin hafi því verið innheimt af gagnstefnanda, gagnstætt því sem hafi t.d. verið um þá sem voru ábyrgðarmenn að R-lánunum og V-lánunum. Ljóst sé því að gagnstefnandi hafi orðið fyrir beinu tjóni sökum þess að greiðsluröð bréfanna hafi verið breytt einhliða.

Umrædd breyting fari gegn ákvæðum 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, en þar segi að lánveitandi geti ekki einhliða breytt skilmálum ábyrgðarsamnings, þ.m.t. lánssamnings, ábyrgðarmanni í óhag. Líkt og fram komi í 12. gr. laganna á 2. mgr. 6. gr. við um ábyrgðir sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laganna.

Í sjálfskuldarábyrgð felist að ábyrgðarmaður eigi endurkröfu á hendur skuldara sé gengið á ábyrgð hans. Þessi endurkröfuréttur ábyrgðarmanns njóti, rétt eins og önnur kröfuréttindi, verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið sé á um vernd eignarréttarins. Lagaákvæði verði að standast ákvæði stjórnarskrár en séu ella að vettugi virðandi. Því sé ljóst að 18. gr. laga nr. 21/1992 gangi gegn ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar að þessu leyti, enda ljóst að með þessu hafi kröfuréttindi gagnstefnanda verið skert verulega.

Gagnstefnandi byggir á því að þar sem hin afturvirka breyting hafi ekki verið borin undir hann hafi hún ekkert gildi gagnvart honum. Mótmælir gagnstefnandi því sérstaklega að undirritun hans á eyðublað um umsókn um undanþágu vegna tekjutengdrar afborgunar fyrir árið 2013, sbr. dskj. nr. 24, feli í sér samþykki. Umrætt umsóknareyðublað sé samkvæmt efni sínu beiðni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun af láni sem gagnstefnandi hafi hlutast til um fyrir hönd lántaka á sínum tíma, enda hafi lántaki á þeim tíma verið orðinn öryrki og glímt við mikil veikindi. Á eyðublaðinu sé einfaldlega óskað eftir því að fá undanþágu frá afborgun ársins en hvergi sé tekið fram að gagnstefnandi samþykki breytta greiðsluröð skuldabréfa lántaka. Aðalstefnanda hefði verið í lófa lagið að orða slíkt samþykki gagnstefnanda með skýrum hætti ef hann hefði talið tilefni til að gagnstefnandi skrifaði undir slíkt samþykki.

Með því að setja fram þessa málsástæðu, þ.e. að gagnstefnandi hafi í verki samþykkt breytta greiðsluröð, viðurkenni aðalstefnandi hins vegar einmitt að ábyrgðarmenn hafi þurft að samþykkja breytingar á greiðsluröð skuldabréfa vegna námslána. Um sé að ræða bindandi yfirlýsingu í skilningi 45. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og með henni hafi aðalstefnandi ráðstafað sakarefni málsins. Umrætt umsóknareyðublað geti með engum hætti talist vera samþykki. Ljóst sé að aðalstefnandi hafi ekki með öðrum hætti aflað samþykkis stefnda og því skorti slíkt samþykki, sem aðalstefnandi byggi sjálfur á að þurfi að vera fyrir hendi.

Gagnstefnandi telur að umrædd breyting á greiðsluröð skuldabréfanna fái ekki staðist ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og að fella beri ábyrgð gagnstefnanda niður af þeim sökum. Í 1. mgr. 36. gr. laganna komi fram að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Í 2. mgr. 36. gr. sömu laga segi að við mat skv. 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Umrædd breyting á greiðsluröð skuldabréfanna sé dæmi um atvik sem kemur til síðar, var mjög ósanngjarnt í garð gagnstefnanda og nokkuð sem hann hafði engin áhrif á og geri það að verkum að víkja beri ábyrgð gagnstefnanda til hliðar í heild sinni.

Gagnstefnandi byggir einnig á því að með þessari afturvirku breytingu hafi forsendur hans fyrir því að skrifa undir ábyrgðina brostið og eigi ábyrgð hans að falla niður af þeim sökum. Gagnstefnandi telji að það færi alfarið gegn meginreglum kröfuréttarins ef stefnanda teldist heimilt að breyta greiðsluröðinni með þessum hætti, þá væri verið að setja fordæmi sem væri afar íþyngjandi fyrir ábyrgðarmenn almennt. Samkvæmt því gætu kröfuhafar almennt haft það í hendi sér hvernig greiðslum af lánum yrði háttað, óháð hagsmunum ábyrgðarmanns. Sú niðurstaða sé ekki tæk enda skerði hún hagsmuni ábyrgðarmanna og valdi þeim tjóni.

Gagnstefnandi hafi gengist í ábyrgð fyrir tvö lán, annars vegar T-3236 og hins vegar T-14730. Þau lán hafi ekki verið innheimt með sjálfstæðum hætti heldur hafi aðalstefnandi ákveðið að setja þessi tvö lán, auk annarra T-lána lántaka, undir sérstakt númer, S-880701, og innheimt lánin með þeim hætti. Um þetta hafi gagnstefnandi ekki verið upplýstur og samþykkis hans ekki verið leitað fyrir þessari ráðstöfun. Ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um það hvernig að þessu var staðið og sé skorað á aðalstefnanda að leggja fram þær upplýsingar, ásamt upplýsingum um það hvernig greiðslum inn á umrætt S-lán hafi verið ráðstafað. Hafi þeim verið ráðstafað hlutfallslega inn á lánin sé sú ráðstöfun skaðleg hagsmunum gagnstefnanda, enda hafi þau lán sem hann var í ábyrgð fyrir þá verið sett í pott með öðrum lánum sem tekin hafi verið á öðrum tíma og verið gagnstefnanda óviðkomandi. Í þessu felist að aðalstefnandi hafi ráðstafað greiðsluröð T-bréfanna án samþykkis gagnstefnanda og raskað þar með hagsmunum hans.

Gagnstefnandi byggir einnig á því að ábyrgð hans fyrir skuldabréfunum tveimur hafi fallið niður vegna fyrningar. Annars vegar byggir gagnstefnandi á því að sjálf skuldin samkvæmt skuldabréfunum tveimur hafi verið fallin niður og hins vegar að ábyrgðirnar sjálfar hafi verið fallnar niður.

Gagnstefnandi heldur því fram að kröfur aðalstefnanda samkvæmt skuldabréfunum tveimur á hendur lántaka hafi verið fyrndar. Kröfurnar hafi stofnast á árunum 1983 og 1984 en þá hafi verið í gildi lög nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í 3. tl. 3. gr. þeirra laga hafi verið kveðið á um að kröfur sem hefðu lögtaksrétt fyrndust á fjórum árum, og eigi það við um kröfur aðalstefnanda samkvæmt skuldabréfunum, sbr. ákvæði skilmálanna um að lögtaksréttur sé fyrir kröfunni. Í skilmálunum komi einnig fram að „standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma er lánið allt gjaldfallið án uppsagnar“. Í því felist að frá og með því að greiðslur af bréfinu fóru í vanskil árið 2005, sbr. dskj. nr. 26, hafi fyrningarfrestur skuldarinnar tekið að líða. Ekki hafi þurft að koma til sérstakra aðgerða af þessum sökum, miðað við skýrt orðalag skuldabréfsins.

Fyrningarfrestur kröfunnar hafi ekki verið rofinn með greiðslu af hálfu skuldara eða á annan hátt og skuldin því verið fyrnd árið 2009. Af því leiði að aðalstefnanda hafi verið óheimilt að ganga að ábyrgð gagnstefnanda, enda verði ábyrgðarmaður ekki skuldbundinn af ábyrgðarsamningi hafi lántaki aldrei orðið skuldbundinn til að inna greiðslu af hendi samkvæmt samningi við lánveitanda, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. 

Verði ekki á þetta fallist byggir gagnstefnandi á því til vara varðandi fyrningu að sá hluti kröfunnar sem hafði verið innheimtur gagnvart lántaka sé fyrndur og þar með ábyrgð gagnstefnanda. Aðalstefnandi hafi ekki orðið við beiðni gagnstefnanda um að veita upplýsingar um greiðslur lántaka. Nánar tiltekið sé um eftirtaldar greiðslur að ræða:

Dagsetning

Upphæð

1.9.2005

52.175

1.9.2006

74.536

1.9.2007

206.656

1.9.2009

58.956

1.9.2010

59.600

Samtals

451.923 krónur

Á því er byggt að þessi fjárhæð sé fyrnd enda hafi í öllum tilfellum liðið meira en fjögur ár frá því að greiðslan féll í gjalddaga án þess að greitt hefði verið inn á kröfuna. Um skuldabréfið gildi fjögurra ára fyrningarfrestur, sbr. ákvæði 3. mgr. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905, sem voru í gildi þegar til skuldanna var stofnað.

Gagnstefnandi byggir einnig á því að krafa aðalstefnanda gegn sér vegna ábyrgðarinnar sé fyrnd. Kröfur aðalstefnanda gegn lántaka hafi stofnast 1983 og 1984 en þá hafi, sem fyrr segir, verið í gildi lög nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 4. tl. 3. gr. laganna hafi ábyrgðir fyrnst á fjórum árum frá og með því að skuldin, sem ábyrgð var veitt fyrir, fór í vanskil. Hafi það verið óháð fyrningartíma aðalskuldar, sem raunar hafi einnig fyrnst á fjórum árum.

Í skuldabréfunum segi að endurgreiðslur hefjist „þremur árum eftir námslok“. Endanleg námslok lántaka hafi verið árið 1998. Miðað við skilmála skuldabréfanna hafi greiðslur af lánunum átt að hefjast árið 2001. Ekkert hafi verið greitt af lánunum á þeim tíma, enda hafi greiðsluröð skuldabréfanna verið breytt. Vanskil hafi verið á greiðslum allt frá árinu 2001 og ábyrgðir gagnstefnanda því verið fyrndar árið 2005. Sama niðurstaða fáist sé horft til þess að greiðslur hafi hafist árið 2005, en þær hafi þá strax farið í vanskil, sbr. dskj. nr. 26, og ábyrgðir gagnstefnanda því fyrnst árið 2009.

Ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 geti ekki hróflað við því samningssambandi og þeim kröfuréttindum sem til staðar hafi verið við stofnun samningssambandsins. Hið sama eigi við um sjónarmið um fyrningu. Ákvæði samningsins séu skýr hvað þetta varði og réttindum aðila samningsins verði ekki raskað með afturvirkum og íþyngjandi hætti.

Verði ekki fallist á þetta er á því byggt til vara varðandi fyrningu ábyrgðarkröfunnar að ábyrgð gagnstefnanda á þeim hluta kröfunnar sem hafði verið innheimtur gagnvart lántaka sé fyrnd. Um eftirtaldar greiðslur hafi verið að ræða:

Dagsetning

Upphæð

1.9.2005

52.175

1.9.2006

74.536

1.9.2007

206.656

1.9.2009

58.956

1.9.2010

59.600

Samtals

451.923 krónur

Gagnstefnandi telji að ábyrgð hans á þessari fjárhæð sé fyrnd, enda hafi í öllum tilfellum liðið meira en fjögur ár frá því að greiðslan féll í gjalddaga án þess að greitt hefði verið inn á ábyrgðina.

Verði ekki fallist á að framangreindar málsástæður leiði til sýknu byggir gagnstefnandi á því að framferði aðalstefnanda í þessu máli samræmist ekki skyldum hans sem opinberrar lánastofnunar og það feli í sér brot gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og almennum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Brotin séu það alvarleg og hafi raskað hagsmunum gagnstefnanda með svo verulegum hætti að ábyrgð hans skuli falla niður.

Verulega hafi skort á upplýsingagjöf af hálfu aðalstefnanda í málinu allt frá byrjun. Gagnstefnandi hafi aldrei verið upplýstur um það hvernig þeim tveimur lánum sem hann var í ábyrgð fyrir hefði verið ráðstafað. Vísast þar bæði til þess að ákveðið hafi verið að setja R-lán í forgang og fresta afborgunum af T-lánunum á meðan og einnig til þeirrar ráðstöfunar aðalstefnanda að sameina T-lán lántaka undir öðru skuldabréfi, sem hafi fengið auðkennið S-880701.

Aðalstefnanda hafi borið að halda gagnstefnanda upplýstum um þetta. Ennfremur hafi aðalstefnanda borið að gefa gagnstefnanda kost á að tjá sig um og koma á framfæri andmælum gegn þessum ráðstöfunum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt. Þá hafi aðalstefnandi ekki upplýst gagnstefnanda um gjaldþrot lántaka árið 2014 fyrr en einu og hálfu ári síðar. Með því hafi aðalstefnandi brotið gegn c-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og krafist þess þá að stefndi greiddi alla skuldina í einu, og þar með brotið gegn meðalhófsákvæði 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá hafi aðalstefnandi brotið gegn ákvæðum d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn með því að hafa ekki sent gagnstefnanda yfirlit um stöðu ábyrgðar hans um hver áramót, líkt og ákvæðið kveður á um. Ljóst sé að yfirlit á dskj. 32–36 uppfylli ekki kröfur laganna enda hafi gagnstefnanda verið send yfirlit um stöðu skuldabréfs nr. S-880701, sem hann hafi aldrei staðfest að hann væri í ábyrgð fyrir. Þá hafi engin yfirlit verið send fyrir árin 2009–2011.

IV.

Svo sem fyrr greinir var stefna í aðalsök þessa máls birt 26. apríl 2017. Með vísan til ákvæðis 93. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála telst málið því hafa verið höfðað innan þess tímafrests sem málskotsnefnd aðalstefnanda hafði veitt aðalstefnanda til að bera málið undir dómstóla, en skýrlega er tekið fram í úrskurði málskotsnefndarinnar og úrskurðarorðinu sjálfu að frestun réttaráhrifa úrskurðarins falli úr gildi „ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frá birtingu úrskurðar þessa og ef ekki er óskað eftir flýtimeðferð málsins“. Þá liggur fyrir að beiðni um flýtimeðferð var sannanlega send Héraðsdómi Reykjavíkur 19. apríl 2017 og að þeirri beiðni var hafnað með bréfi staðgengils dómstjóra 26. sama mánaðar. Sú málsástæða að aðalstefnandi hafi ekki höfðað mál í tæka tíð er því sett fram að ófyrirsynju og er gagnstefnanda ekkert hald í slíkum vörnum.

Ágreiningur málsaðila snýst um gildi sjálfskuldarábyrgða sem gagnstefnandi undirgekkst með áritun á tvö skuldabréf á árunum 1983 og 1984. Nánar tiltekið var um að ræða svonefnd „T-bréf“, hið fyrra með auðkennið T-3236 og hið síðara með auðkennið T-14730. Bæði skuldabréfin geyma skilmála um kröfuábyrgð sem gagnstefnandi undirgekkst með áritun sinni. Í þeim segir meðal annars svo:

Til tryggingar skilvísri greiðslu á láni þessu, höfuðstól að viðbættum verðtryggingum svo og þeim kostnaði er vanskil lántakanda kunna að valda, hefur ofanritaður ábyrgðarmaður lýst yfir því, að hann ábyrgist in solidum lán þetta sem sjálfskuldarábyrðarmaður.

Látist ábyrgðarmaður áður en lán þetta er að fullu greitt, getur stjórn sjóðsins krafist þess að lántakandi fái nýjan ábyrgðarmann í hans stað.

Að öðru leyti gilda um þetta skuldabréf ákvæði 2. kafla laga um námslán og námsstyrki nr. 72/1982.

                                                                       

Ábyrgðar þessarar var aflað í samræmi við fyrirmæli þágildandi laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, nánar tiltekið ákvæði 3. mgr. 6. gr. laganna, þar sem fram kom að námsmenn sem fengju lán úr sjóðnum skyldu undirrita skuldabréf við lántöku og leggja fram yfirlýsingu eins manns um það að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins, sbr. þó 3. mgr. 7. gr. laganna.

         Í síðastnefndu lagaákvæði var meðal annars kveðið á um að ábyrgð ábyrgðarmanns skv. 3. mgr. 6. gr. gæti fallið niður „þegar fyrsta greiðsla hefur að fullu verið innt af hendi, enda setji lánþegi aðra tryggingu fyrir lánum, sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi“. 

         Lög nr. 72/1982 voru felld úr gildi með setningu laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í frumvarpi til síðastgreindra laga var lagt upp með eftirfarandi ákvæði í 18. gr.:

Ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum getur hann annaðhvort greitt samkvæmt þeim lögum óháð og til viðbótar endurgreiðslum samkvæmt þessum lögum eða hann getur sameinað eldri skuld á skuldabréf sem hann gefur út samkvæmt þessum lögum og endurgreitt alla skuldina samkvæmt því, þó þannig að vextir reiknist eingöngu af lánum teknum samkvæmt þessum lögum. 

 

Í meðförum Alþingis voru gerðar nokkrar breytingar á texta frumvarps þessa og við gildistöku laga nr. 21/1992 var ákvæði 18. gr. svohljóðandi:

Ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin eru samkvæmt þessum lögum. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þar til lán samkvæmt þessum lögum eru að fullu greidd.

 

Með lögum nr. 67/1997 var ákvæði þessu breytt svo að eftir stóðu þessi lagafyrirmæli:

Ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin eru samkvæmt þessum lögum. Þá gildir endurgreiðsluhlutfallið 4,75% einnig gagnvart þeim sem tóku lán frá árinu 1992 með endurgreiðsluhlutfallið 5–7%. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þar til lán samkvæmt þessum lögum eru að fullu greidd.

 

Núgildandi ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992, eftir breytingar með lögum nr. 140/2004, hljóðar svo:

Ef lánþegi samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt eldri lögum um sjóðinn skal miða við að hann endurgreiði þau fyrst. Á næsta almanaksári eftir að endurgreiðslu samkvæmt eldri lögum lýkur eða á að vera lokið skal lánþegi hefja endurgreiðslu samkvæmt þessum lögum. Greiðslur samkvæmt þessum lögum frestast því þar til lán samkvæmt eldri lögum eiga að vera að fullu greidd.

Ef lánþegi skuldar námslán sem var úthlutað á árunum 1992–2004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt.

 

Þetta er reifað hér þar sem ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna stendur í forgrunni þess ágreinings sem til úrlausnar er í máli þessu. Með setningu laga þessara voru ýmsar breytingar gerðar á starfsemi lánasjóðsins. Í athugasemdum með frumvarpinu sem síðar varð að lögum nr. 21/1992 var tekið fram að tilgangur þeirra breytinga sem fólust í frumvarpi þessu væri „fyrst og fremst að treysta fjárhagslega stöðu Lánasjóðsins til frambúðar og draga úr þeirri byrði sem ríkissjóður hefur af sjóðnum“. Þar kemur einnig fram það mat að „gildandi námslánakerfi, sem byggist á lögum nr. 72/1982“ geti ekki „til frambúðar tryggt Lánasjóði íslenskra námsmanna það ráðstöfunarfé sem hann þarf til þess að geta gegnt hlutverki sínu“.

Við meðferð frumvarpsins sem varð að áðurnefndum lögum nr. 140/2004 kom fram breytingartillaga til samræmis við álit menntamálanefndar, þar sem áréttuð var „sú ætlun að námsmenn ljúki við að endurgreiða fyrst svokölluð R-lán áður en endurgreiðsla á öðrum lánaflokkum á að hefjast“.

Af yfirlitum um „greiðslustöðu“ lántakans Jóhanns V. Ólasonar sem lögð hafa verið fram af hálfu aðalstefnanda má sjá að aðalstefnandi hóf innheimtu að loknu námi Jóhanns með því að krefja hann fyrst um endurgreiðslu R-lánanna, þ.e. þeirra lána sem veitt voru eftir gildistöku laga nr. 21/1992. Framlögð gögn bera með sér að Jóhann var ekki krafinn um niðurgreiðslu T-lánanna fyrr en hann hafði endurgreitt R-lán sín að fullu. Lántakinn hafði með öðrum orðum lokið endurgreiðslu R-lánanna og hafið niðurgreiðslu T-lána þegar síga tók á ógæfuhliðina í fjármálum hans. Þar sem þeirri þróun varð ekki snúið við auðnaðist lántaka ekki sjálfum að greiða upp síðastgreindar skuldir sínar við aðalstefnanda. Með hliðsjón af þessum atvikum málsins verður ekki annað séð en að aðalstefnandi hafi hagað innheimtu í samræmi við fyrirmæli títtnefnds ákvæðis 18. gr. laga nr. 21/1992, með síðari breytingum.

Frá upphafi samningssambands málsaðila lá fyrir, sbr. ákvæði 7. og 8. gr. þágildandi laga nr. 72/1982, að stjórn aðalstefnanda hafði víðtækt svigrúm til að veita undanþágur og fresta gjalddögum samkvæmt umsóknum lánþega. Í samræmi við það fékk aðalskuldarinn Jóhann V. Ólason á fyrri stigum ríflegar undanþágur frá áður áætluðum endurgreiðslum námslána sinna. Umræddar lagaheimildir, sbr. og samsvarandi ákvæði síðari laga nr. 21/1992, voru þáttur í samningssambandi málsaðila og er gagnstefnanda því ekki hald í vörnum sem byggja á afturvirkri breytingu ábyrgðarskilmála og verður því ekki á það fallist með gagnstefnanda að aðalstefnandi hafi breytt ábyrgð gagnstefnanda með afturvirkum og íþyngjandi hætti. Á sama grunni ber að hafna þeirri viðbáru gagnstefnanda að samþykki hans hafi þurft til þess að haga innheimtu með þeim hætti sem aðalstefnandi hefur gert í máli þessu. Hið sama á við um breytingar á greiðsluröð. Frammi fyrir þeim beinu fyrirmælum löggjafans sem hér eru til umfjöllunar kemur almenn tilvísun til meginreglna kröfuréttar og ógildingarreglna samningaréttar gagnstefnanda ekki að gagni.

Lög nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda eiga aðeins við um þær kröfur sem stofnuðust eftir gildistöku þeirra laga, 1. janúar 2008. Um fyrningu þeirra krafna sem deilt er um í þessu máli fer því samkvæmt ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. síðastnefndra laga fyrnast kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum á fjórum árum. Svo sem fyrr greinir hefur gagnstefnandi haldið því fram að fyrningarfrest krafna aðalstefnanda beri að reikna frá því tímamarki er vanskil urðu af hálfu lántakans Jóhanns V. Ólasonar á árinu 2005 og að ekki hafi þurft að koma til sérstakra aðgerða af hálfu aðalstefnanda til að skuldirnar teldust þá fallnar í gjalddaga. Þessu til stuðnings hefur gagnstefnandi vísað til orðalags skilmála skuldabréfanna tveggja, en þar er að finna svohljóðandi ákvæði um gjaldfellingu: „Standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma er lánið allt gjaldfallið án uppsagnar.“ Í þessu samhengi hefur gagnstefnandi skírskotað beint og óbeint til þess að engin gögn hafi verið lögð fram í málinu sem sýni að aðalstefnandi hafi fellt téð lán í gjalddaga áður en bú Jóhanns V. Ólasonar var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 8. ágúst 2014.

Við úrlausn um það hvenær fyrningarfrestur telst hafa byrjað að líða þarf að hyggja vel að sérstökum atvikum þessa máls, þar sem ekki verður séð að íslensk réttarframkvæmd veiti einhlít svör um það hvernig leiða beri slík álitaefni til lykta.

Af málsgögnum má ráða að engir gjalddagar vegna þeirra lána sem gagnstefnandi hafði ábyrgst hafi verið í vanskilum þegar bú lántakans Jóhanns V. Ólasonar var tekið til gjaldþrotaskipta 8. ágúst 2014. Með hliðsjón af því verður ekki á það fallist með gagnstefnanda að tímabundnar vanefndir lántakans Jóhanns leiði til þess að aðalstefnandi teljist hafa glatað rétti gagnvart gagnstefnanda með því að halda innheimtuaðgerðum áfram gagnvart aðalskuldara. Að áliti dómsins færi slík niðurstaða í bága við undirstöður íslensks réttar um vernd kröfuréttinda, þar á meðal það meginsjónarmið að vanefnd eigi ekki að leiða til betri réttarstöðu skuldara.

Með því að aðalstefnandi hélt innheimtuaðgerðum sínum til streitu gagnvart lántaka í stað þess að grípa til gjaldfellingar naut gagnstefnandi þess að standa í vari meðan von var til þess að lántakinn efndi skuldbindingar sínar sjálfur. Í þessu ljósi telur dómurinn ekki koma til álita að hafa þann umsnúning á framangreindum staðreyndum að aðalstefnandi yrði látinn gjalda þess að hafa til þrautar freistað þess að láta aðalskuldarann endurgreiða þá fjármuni sem hann móttók, sbr. 18. gr. laga nr. 21/1992, fremur en að ganga að gagnstefnanda og krefjast endurgreiðslu beint úr hendi hans hendi sem ábyrgðarmanns.

Áður er komið fram að lagt sé til grundvallar að engir gjalddagar vegna umræddra lána hafi verið í vanskilum þegar bú Jóhanns V. Ólasonar var tekið til gjaldþrotaskipta 8. ágúst 2014. Með vísan til atvika þykir því mega miða við að fyrst við það tímamark hafi allar kröfur á hendur Jóhanni fallið sjálfkrafa í gjalddaga, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Svo sem fyrr greinir var aðalsök máls þessa höfðuð 26. apríl 2017. Að öllum framangreindum staðreyndum virtum telst aðalstefnandi þar með hafa rofið þann fjögurra ára fyrningarfrest sem gildir um téðar kröfur sjóðsins, sbr. ákvæði 3. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.

Í samhengi við framangreint verður aukinheldur ekki fram hjá því litið að meðal gagna málsins er skjal undirritað af gagnstefnanda sjálfum, sem jafna má til viðurkenningar í skilningi 1. gr. áðurnefndra laga nr. 14/1905. Nánar er þar um að ræða umsókn gagnstefnanda 21. október 2013 þar sem hann  sem „ábyrgðarmaður v. S láns“ óskaði eftir undanþágu frá tekjutengdri afborgun 2013 vegna verulegra fjárhagsörðugleika. Síðastnefnt skjal víkur einnig til hliðar vörnum þeim vörnum gagnstefnanda sjálfs að hann hafi aldrei staðfest að vera í ábyrgð vegna skuldabréfs nr. S-880701 og grefur auk þess undan viðbárum gagnstefnanda viðvíkjandi ætlaðan skort á tilkynningum eða upplýsingum frá aðalstefnanda um ábyrgðarskuldbindingar gagnstefnanda. Að öllu samanlögðu verður við það miðað að gagnstefnanda hafi frá upphafi verið fullkunnugt um tilvist þeirra ábyrgðarskuldbindinga sem hér eru til umfjöllunar og njóta verndar sem eignarréttindi aðalstefnanda samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár.

Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að að þeirri niðurstöðu að aðalstefnandi hafi hagað innheimtu í samræmi við fyrirmæli 18. gr. laga nr. 21/1992, kröfurnar séu ófyrndar og ekki hafi verið slíkir ágallar á tilkynningum eða upplýsingum að áhrif hafi á gildi ábyrgðarskuldbindinga gagnstefnanda. Verður því fallist á kröfur aðalstefnanda svo sem þær eru settar fram í aðalsök. Að fenginni þeirri niðurstöðu ber að hafna kröfum gagnstefnanda um endurgreiðslu.

Að virtum málsatvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. 

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna 15. mars 2017 í máli nr. L-15/2016 er felldur úr gildi.

Aðalstefnandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, skal vera sýkn af kröfum gagnstefnanda, Kristjáns Ara Arasonar, í gagnsök.

Málskostnaður fellur niður.