Print

Mál nr. 15/2019

Þrotabú Azazo hf. (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)
gegn
Ólafi Páli Einarssyni (Halldór Brynjar Halldórsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Réttindaröð
  • Forgangskrafa
Reifun

Með nánar tilgreindum héraðsdómi var A hf. gert að greiða Ó tiltekna fjárhæð vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi þeirra. Félagið áfrýjaði dóminum en bú þess var síðan tekið til gjaldþrotaskipta. Með dómi Hæstaréttar var málinu sjálfkrafa vísað fá réttinum þar sem þb. A hf. hafði ekki sett tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í samræmi við ákvörðun réttarins um að verða við kröfu Ó um slíka tryggingu. Á grundvelli framangreindra dóma lýsti Ó kröfu við gjaldþrotaskipti á A hf., samtals að fjárhæð 8.996.327 krónur, og krafðist þess að henni yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skiptastjóri hafnaði því að krafan fengi notið slíks forgangsréttar og taldi hana almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laganna. Með úrskurði héraðsdóms var niðurstaða skiptastjóra staðfest en með hinum kærða úrskurði komst Landsréttur að gagnstæðri niðurstöðu og tók kröfu Ó til greina. Ágreiningur aðila fyrir Hæstarétti laut einungis að því hvernig beita ætti 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við ákvörðun um stöðu kröfu Ó í réttindaröð. Nánar tiltekið var deilt um það hvort dómur í skilningi ákvæðisins þyrfti að fela í sér úrlausn um efni máls, eins og þb. A hf. lagði til grundvallar, eða hvort þar gæti einnig átt undir dómur, sem kvæði aðeins á um niðurfellingu máls eða frávísun þess frá æðri dómi, eins og Ó hélt fram að ætti við um kröfu hans. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tilgangur 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 væri að sporna við því að forgangsréttur fyrir kröfu félli niður ef kröfuhafi væri knúinn til að höfða mál til heimtu hennar, enda gerði hann það innan tilskilinna tímamarka. Að gengnum fyrrgreindum dómi Hæstaréttar, þar sem málinu var sjálfkrafa vísað frá réttinum vegna atvika sem eingöngu vörðuðu þb. A hf., hefði fyrst legið fyrir sú endanlega niðurstaða um kröfu Ó að héraðsdómur stæði óhaggaður. Talið var að þótt í dómi Hæstaréttar hefði ekki verið fjallað efnislega um kröfuna yrði að skýra niðurlagsorð 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 svo að krafa ætti undir ákvæðið ef dómur um frávísun máls um hana frá æðri dómi gengi innan sex mánaða fyrir frestdag eða síðar, enda fæli önnur niðurstaða í sér að skuldari gæti haft í hendi sér að láta forgangsrétt fyrir kröfu líða undir lok með því að búa svo um hnúta að máli ljúki fyrir æðri dómi án þess að efnisdómur gengi um hana. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. febrúar 2019 en kærumálsgögn bárust réttinum 5. mars sama ár.  Kæruleyfi á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, var veitt 14. mars 2019. Kærður er úrskurður Landsréttar 21. febrúar 2019, þar sem krafa, sem varnaraðili lýsti við gjaldþrotaskipti á sóknaraðila að fjárhæð 8.996.327 krónur, var viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að skipa kröfunni á þennan hátt í réttindaröð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var mál þetta munnlega flutt 15. maí 2019.

I

Samkvæmt gögnum málsins réði Azazo hf. varnaraðila til starfa með samningi 14. nóvember 2014, en því vinnusambandi lauk með því að félagið sagði varnaraðila fyrirvaralaust upp störfum 26. október 2015 og felldi niður launagreiðslur til hans frá þeim tíma. Af því tilefni höfðaði varnaraðili mál gegn félaginu 8. janúar 2016 og krafðist þess að því yrði gert að greiða sér laun fyrir sex mánaða uppsagnarfrest ásamt orlofi, orlofsuppbót, desemberuppbót og bifreiðarstyrk. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2016 var krafa varnaraðila að fullu tekin til greina og Azazo hf. dæmt til að greiða honum 5.810.327 krónur með dráttarvöxtum frá 26. október 2015 auk 950.000 króna í málskostnað. Félagið áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar 17. febrúar 2017 en bú þess var síðan tekið til gjaldþrotaskipta 3. október sama ár. Með dómi 30. nóvember 2017 í máli nr. 114/2017 var málinu vísað frá Hæstarétti þar sem sóknaraðili hafði ekki sett tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í samræmi við ákvörðun réttarins um að taka til greina kröfu varnaraðila um slíka tryggingu. Var sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.

Með bréfi til skiptastjóra sóknaraðila 5. desember 2017 lýsti varnaraðili kröfu á grundvelli framangreindra dóma, samtals að fjárhæð 8.996.327 krónur, og krafðist þess að henni yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Skiptastjóri hafnaði því 22. sama mánaðar að krafan fengi notið slíks forgangsréttar og taldi hana almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laganna, en við fjárhæð hennar var engin athugasemd gerð. Reisti skiptastjóri niðurstöðu sína á því annars vegar að varnaraðili teldist nákominn þrotamanni, sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, og hins vegar að skilyrðum um aldur kröfu varnaraðila samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. og 2. mgr. sömu lagagreinar væri ekki fullnægt til að henni yrði veittur forgangsréttur. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og með bréfi 2. maí 2018 krafðist skiptastjóri úrlausnar Héraðsdóms Reykjaness um ágreininginn samkvæmt 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 171. gr. laganna. Í úrskurði héraðsdóms 17. janúar 2019 var því hafnað að krafa varnaraðila nyti forgangs við gjaldþrotaskiptin en með hinum kærða úrskurði komst Landsréttur að gagnstæðri niðurstöðu.

II

Mál þetta lýtur samkvæmt framansögðu að kröfu varnaraðila um að viðurkennt verði að krafan sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti á sóknaraðila njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili fallið frá þeirri málsástæðu að varnaraðili teljist vera nákominn þrotamanni í skilningi 3. mgr. lagagreinarinnar og snýr ágreiningur aðila nú aðeins að því hvernig beita eigi 2. mgr. hennar við ákvörðun um stöðu kröfu varnaraðila í réttindaröð.

Í 112. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um forgangsrétt fyrir tilteknum kröfum við gjaldþrotaskipti að frágengnum kröfum samkvæmt 109. til 111. gr. laganna. Í 1. mgr. 112. gr. er talið upp í átta töluliðum hvaða kröfur njóti slíks forgangs, meðal annars kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag eða eftir hann, sbr. 2. tölulið ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 skulu kröfur samkvæmt 1. til 6. tölulið 1. mgr. enn fremur njóta forgangsréttar þótt þær séu eldri en að framan segir ef mál hefur verið höfðað til heimtu þeirra innan sex mánaða frá gjalddaga og dómur hefur gengið um þær á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag eða síðar.

Ekki er ágreiningur um að krafa varnaraðila hafi verið á gjalddaga 26. október 2015 en frestdagur við gjaldþrotaskiptin var 28. september 2017. Varnaraðili höfðaði sem fyrr segir mál til heimtu kröfu sinnar 8. janúar 2016 og var það því gert innan sex mánaða frá gjalddaga hennar. Dómur gekk í því máli í héraði 22. nóvember 2016, meira en sex mánuðum fyrir frestdag, en þeim dómi áfrýjaði Azazo hf. og lauk málinu fyrir æðri dómi á þann hátt að því var vísað frá Hæstarétti með dómi 30. nóvember 2017. Var frestdagur þá kominn. Aðilarnir deila um hvort skýra eigi 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þannig að áskilið sé að dómur, sem gangi um kröfu á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag eða síðar, þurfi að fela í sér úrlausn um efni máls eða hvort þar geti einnig átt undir dómur, sem kveði aðeins á um niðurfellingu máls eða frávísun þess frá æðri dómi.

Ljóst er að tilgangur 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 er að sporna við því að forgangsréttur fyrir kröfu falli niður ef kröfuhafi er knúinn til að höfða mál til heimtu hennar, enda geri hann það innan tilskilinna tímamarka. Að gengnum fyrrgreindum dómi Hæstaréttar, þar sem málinu var vísað frá réttinum vegna atvika sem eingöngu vörðuðu sóknaraðila, lá fyrst fyrir sú endanlega niðurstaða um kröfu varnaraðila að héraðsdómur stæði óhaggaður. Þótt í dómi Hæstaréttar hafi ekki verið fjallað efnislega um kröfuna verður að skýra niðurlagsorð 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 svo að krafa eigi undir ákvæðið ef dómur um frávísun máls um hana frá æðri dómi gengur innan sex mánaða fyrir frestdag eða síðar, enda fæli önnur niðurstaða í sér að skuldari gæti haft í hendi sér að láta forgangsrétt fyrir kröfu líða undir lok með því að búa svo um hnúta að máli ljúki fyrir æðri dómi án þess að efnisdómur gengi um hana. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur en ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfu varnaraðila.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Azazo hf., greiði varnaraðila, Ólafi Páli Einarssyni, 1.200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Landsréttar 21. febrúar 2019.

Landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Oddný Mjöll Arnardóttir og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 21. janúar 2019, en kærumálsgögn bárust réttinum 1. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. janúar 2019 í málinu nr. X-8/2018 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að kröfu sem hann lýsti við slit varnaraðila yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991.

2        Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og honum breytt á þá leið að krafa hans í þrotabú varnaraðila, eins og henni var lýst í kröfulýsingu 5. desember 2017, verði samþykkt sem forgangskrafa í búið, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

3        Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.

Málsatvik

4        Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness 22. nóvember 2016 þar sem félaginu AZAZO hf. var gert að greiða sóknaraðila 5.810.327 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum og málskostnað vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi milli félagsins og sóknaraðila.

5        Héraðsdóminum var áfrýjað til Hæstaréttar 17. febrúar 2017 af hálfu félagsins. Hæstiréttur vísaði málinu frá 30. nóvember 2017, þar sem félagið hafði ekki reitt fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, er krafist hafði verið af hálfu sóknaraðila, eftir að bú félagsins hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta 3. október 2017. Með dómi Hæstaréttar var varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað.

6        Í ráðningarsamningi sóknaraðila og félagsins 14. nóvember 2014 kom fram að sóknaraðili væri ráðinn sem starfsmaður fyrirtækisins og bæri hefðbundna ábyrgð gagnvart forstjóra þess. Sóknaraðili væri ráðinn framkvæmdastjóri þróunarsviðs og sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Nánar er þar rakið að sóknaraðili beri ábyrgð á vöruþróun í samræmi við stefnu fyrirtækisins á því sviði og í samráði við forstjóra. Hann skuli taka þátt í vinnu í tengslum við ýmis verkefni og verkefnastjórn og gæti í einhverjum tilvikum tekið þátt í ráðgjafaverkefnum. Þá skyldi hann sjá um að stýra þeim starfsmönnum sem tengdust verkefnum sem hann sæi um. Undir samninginn rituðu Brynja Guðmundsdóttir fyrir hönd félagsins og sóknaraðili.

7        Framangreind Brynja mun hafa verið forstjóri félagsins og sat í stjórn þess. Bar hún fyrir héraðsdómi í máli því sem sóknaraðili höfðaði vegna slita á ráðningarsamningi að sóknaraðili hefði verið eini starfsmaður þróunarsviðsins. Í hans vinnu hefði falist að greina markaðinn og sjá hvaða tækifæri væru erlendis. Framkvæmdastjóratitill á þróunarsviði þýddi ekki að ,,þú sért í alþjóðlegu fyrirtæki með fullt af fólki“.

8        Í skýrslugjöf sinni fyrir héraðsdómi kvaðst sóknaraðili ekki hafa stýrt daglegum rekstri félagsins og ekki haft prókúru fyrir félagið eða þróunarsviðið. Þá kvaðst hann ekki hafa haft neinn aðgang að fjárhagsupplýsingum félagsins og ekki borið neina fjárhagslega ábyrgð í því. Hann hafi heyrt beint undir forstjórann, fyrrgreinda Brynju. Hann kvað fundi í framkvæmdastjórn hafa verið haldna um það bil einu sinni í viku. Þar hafi verið fjallað um stöðu verkefna á hverjum tíma, en ekki um fjárhagslega stöðu félagsins. Hafi forstjórinn séð alfarið um allt sem tengst hafi fjármálum þess. Hafi þeir sem setið hafi í framkvæmdastjórn félagsins fengið upplýsingar um skuldir félagsins á nákvæmlega sama tíma og allir aðrir starfsmenn og ekki haft betri aðgang að upplýsingum um þau málefni en aðrir starfsmenn.

9        Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár um hlutafélagið AZAZO 21. september 2017 var dagsetning samþykkta félagsins 30. október 2015. Skráður tilgangur þess var þróun og sala hugbúnaðarlausna sem ,,efla upplýsingastjórnun fyrirtækja og stofnana og annar skyldur rekstur. Ráðgjöf, varsla og önnur þjónusta sem styður við bætta upplýsingastjórnun fyrirtækja og stofnana.“ Sóknaraðili sat ekki í stjórn þess og var ekki skráður framkvæmdastjóri þess, en firmað ritaði meirihluti stjórnar.

10       Ágreiningur málsins snýst einvörðungu um það hvar skipa skuli kröfu sóknaraðila í réttindaröð við skipti á varnaraðila.

Málsástæður

Málsástæður sóknaraðila

11       Sóknaraðili byggir á því að skilyrðum 112. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt og njóti krafa hans forgangs við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Krafan sé grundvölluð á 2. tölulið 1. mgr. 112. gr. laganna, en samkvæmt 2. mgr. 112. gr. skuli kröfur njóta rétthæðar samkvæmt þeirri grein þótt þær séu eldri en þar segir, ef mál hefur verið höfðað til heimtu þeirra innan sex mánaða frá gjalddaga og dómur hefur gengið um þær á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag eða síðar.

12       Á því er byggt í fyrsta lagi að sóknaraðili hafi ekki verið nákominn þrotamanni, hvorki þegar honum var vikið úr starfi hjá AZAZO hf. né vegna þess tímabils sem bótakrafan nær til. Bendir sóknaraðili á að hann hafi ekki verið framkvæmdastjóri félagsins í skilningi laga þótt hann hafi borið titilinn framkvæmdastjóri þróunarsviðs. Hann hafi verið starfsmaður þess sviðs og ekki haft nein mannaforráð. Seta sóknaraðila í svonefndri ,,framkvæmdastjórn“ geti enga þýðingu haft, enda hafi hún enga lögformlega þýðingu og ekkert umboð að lögum. Sóknaraðili hafi ekki komið að fjármálum fyrirtækisins með nokkrum hætti, hann hafi hvorki haft prókúru né aðgang að fjármálakerfi félagsins og hann hafi þurft að leita með allar ákvarðanir varðandi útgjöld til framkvæmdastjórans. Hann hafi starfað eftir fyrirmælum framkvæmdastjóra félagsins.

13       Í öðru lagi grundvallist krafa hans á dæmdri bótakröfu vegna ólögmætra starfsloka hjá AZAZO hf., sem nemi vangoldnum launum á sex mánaða tímabili eftir að ráðningarsambandi hafi verið rift einhliða af hálfu félagsins. Hafi það átt sér stað tveimur árum áður en úrskurður gekk um gjaldþrotaskipti félagsins.

14       Þá hafi endanlegur dómur í máli sóknaraðila vegna þeirrar kröfu er mál þetta varðar ekki fallið fyrr en með dómi Hæstaréttar 30. nóvember 2017. Tilgangur 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé að kröfur sem ella hefðu notið forgangs samkvæmt 1.-6. tölulið greinarinnar missi ekki þá réttarvernd á þeim grunni að hið gjaldþrota félag neiti að greiða réttmætar kröfur og því þurfi að höfða mál til greiðslu þeirra. Geti kröfurnar þannig orðið eldri en 18 mánaða, en notið samt forgangs samkvæmt 2. mgr. 112. gr. laganna. Í máli þessu beri að miða tímamörk samkvæmt ákvæðinu við dóm Hæstaréttar sem fallið hafi 30. nóvember 2017 og séu því þau tímaskilyrði sem ákvæðið tilgreini uppfyllt.

Málsástæður varnaraðila

15       Varnaraðili kveður óumdeilt að sóknaraðili hafi verið ráðinn sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs AZAZO hf. og hafi jafnframt setið í framkvæmdastjórn félagsins. Þá hafi hann verið einn af lykilstarfsmönnum félagsins. Staða sóknaraðila innan þess hafi meðal annars birst í vikulegum fundum hans með framkvæmdastjóra og framkvæmdastjórn. Ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki einungis við um þá sem að forminu til séu titlaðir framkvæmdastjórar í skilningi laga nr. 2/1995 um hlutafélög, heldur eigi það einnig við um þá forráðamenn félagsins sem hafi raunverulega yfirmannsstöðu. Þá hljóti þeir sem hafa með höndum kjarnastarfsemi félags að falla undir 3. mgr. 112. gr. laganna og teljast nákomnir því. Sóknaraðili hafi samkvæmt framangreindu verið einn af lykilstarfsmönnum AZAZO hf. og farið með raunverulega yfirmannsstöðu. Það hvort hann hafi farið með fjárheimildir félagsins ráði ekki úrslitum þegar meta skuli hvort hann teljist nákominn í skilningi 3. gr. laganna.

16       Þá bendir varnaraðili á að þeir sem störfuðu fyrir félagið sem síðar varð gjaldþrota og nutu stöðu nákomins aðila í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 njóti ekki réttinda samkvæmt 1.-3. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, óháð því hvort viðkomandi starfaði áfram fyrir félagið í uppsagnarfresti eða ekki.

17       Enn fremur bendir varnaraðili á að máli AZAZO hf. á hendur sóknaraðila hafi verið vísað frá Hæstarétti án kröfu og án efnisúrlausnar um kröfu sóknaraðila. Efnisúrlausnin sé í héraðsdóminum sem áfrýjað hafi verið og sé ekki unnt að líta svo á að í Hæstarétti hafi gengið dómur um kröfu sóknaraðila í skilningi 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Séu tímaskilyrði 2. mgr. 112. gr. laganna ekki uppfyllt og breyti áfrýjun til Hæstaréttar engu um það.

Niðurstaða

18       Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 fer félagsstjórn með málefni félagsins og skal annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Félagsstjórn og framkvæmdastjóri fara með stjórn félagsins. Samkvæmt 2. mgr. annast framkvæmdastjóri daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið.

19       Í 3. gr. laga nr. 21/1991 er rakið hvaða tengsl annars vegar milli manna og hins vegar milli manna og félaga, sem og félaga í milli, geti orðið til þess að þeir teljist nákomnir. Í 4. tölulið greinarinnar er meðal annars kveðið á um að ef maður situr í stjórn félags eða stýrir daglegum rekstri þess teljist hann nákominn félaginu. 

20       Við mat á því hvort sóknaraðili teljist nákominn í skilningi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. gr. laganna, ræður ekki úrslitum að hann hafi borið titilinn framkvæmdastjóri þróunarsviðs og setið í framkvæmdastjórn félagsins, heldur ber að horfa til þess meðal annars hvaða stjórnunarheimildir hann hafði og hvort í stöðu hans hafi falist raunverulegt vald til að hafa áhrif á mikilsverðar ákvarðanir sem teknar voru innan félagsins og gátu skuldbundið það.

21       Af því sem rakið hefur verið um starfssvið sóknaraðila er fram komið að hann sat ekki í stjórn félagsins og hafði enga aðkomu að fjármálum þess. Hann fór ekki með daglegan rekstur félagsins, hann laut boðvaldi forstjóra þess og var eini starfsmaðurinn á  þróunarsviði, þar sem hann bar titilinn framkvæmdastjóri. Hann hafði ekki prókúru fyrir félagið og gat ekki haft áhrif á það hvaða ákvarðanir voru teknar á þeim sviðum sem ráða úrslitum um það hvort menn teljist nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt öllu framangreindu telst sóknaraðili ekki nákominn í skilningi 3. gr. laganna og á því undantekningarákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 ekki við um hann.

22       Af hálfu varnaraðila er því einnig haldið fram að tímaskilyrði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt, þar sem ekki sé unnt að líta svo á að með dómi Hæstaréttar 30. nóvember 2017 hafi gengið dómur um kröfu sóknaraðila í skilningi þess lagaákvæðis.

23   Í 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um að kröfur samkvæmt 1.-6. tölulið 1. mgr. greinarinnar njóti forgangsréttar þótt þær séu eldri en kveðið er á um í 1. mgr., hafi mál verið höfðað til heimtu þeirra innan sex mánaða frá gjalddaga og dómur gengið um þær á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag eða síðar.

24   Sóknaraðili höfðaði mál til heimtu kröfu þeirrar sem kröfulýsing hans er reist á 8. janúar 2016 en samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember sama ár féll krafan í gjalddaga 26. október 2015. Málið var því höfðað innan sex mánaða frá gjalddaga kröfunnar. Frestdagur við skipti á búi varnaraðila var 28. september 2017, en dómur héraðsdóms gekk 22. nóvember 2016. Áður hafði félagið áfrýjað dómi héraðsdóms til Hæstaréttar og frestað þar með aðfararhæfi kröfunnar, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Með dómi Hæstaréttar 30. nóvember 2017 í máli nr. 114/2017 var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti, þar sem varnaraðili hafði ekki lagt fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

25       Samkvæmt framangreindu hélt sóknaraðili rétti sínum til laga eins og honum var kostur. Með dómi Hæstaréttar 30. nóvember 2017 varð niðurstaða héraðsdóms um kröfu sóknaraðila endanleg, enda gat hann ekki eftir að málinu hafði verið áfrýjað hafið fullnustuaðgerðir á grundvelli héraðsdómsins. Endanlegur dómur í skilningi 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 féll því þá. Að þessu virtu er einnig fullnægt því skilyrði að dómur hafi gengið um kröfu sóknaraðila á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag eða síðar.

26   Af hálfu varnaraðila hafa ekki komið fram efnisleg andmæli við fjárhæð kröfu sóknaraðila. Að öllu framangreindu virtu verður krafa sóknaraðila tekin til greina að fjárhæð 8.996.327 krónur, eins og henni var lýst í kröfulýsingu 5. desember 2017 og samþykkt að hún njóti rétthæðar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um greiðslu kostnaðar vegna kröfulýsingar telst eftirstæð krafa, sbr. 1. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991.

27   Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Viðurkennt er að krafa sóknaraðila, Ólafs Páls Einarssonar, 8.996.327 krónur, sem lýst var með kröfulýsingu við skipti varnaraðila, þrotabús AZAZO hf., 5. desember 2017 njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 1.000.000 króna í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 17. janúar 2019.

Mál þetta, sem þingfest var 14. júní 2018, var tekið til úrskurðar 22. nóvember 2018.

Sóknaraðili er Ólafur Páll Einarsson, Ásakór 14, Kópavogi.

Varnaraðili er þrotabú Azazo hf., Bæjarhrauni 22, Hafnarfirði.

Sóknaraðili krefst þess að krafa hans í þrotabú varnaraðila, eins og henni var lýst í kröfulýsingu 5. desember 2017, verði samþykkt sem forgangskrafa í búið, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

I

Að beiðni stjórnar Azazo hf. var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 3. október 2017. Var Arnar Þór Stefánsson lögmaður skipaður skiptastjóri í búinu.

Með kröfulýsingu 5. desember 2017 lýsti sóknaraðili forgangskröfu í þrotabúið samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 8.996.327 krónur, auk dráttarvaxta, á grundvelli ráðningarsamnings 14. nóvember 2015, dóms Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-63/2016 og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 114/2017. Í kröfulýsingu sóknaraðila er sérstaklega vísað til þess að um sé að ræða kröfu um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafi átt sér stað á því tímabili sem um ræði í 1. tölulið eða eftir frestdag og falli undir 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. tölulið 1. mgr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 112. gr. sömu laga skuli kröfur njóta rétthæðar samkvæmt 112. gr. þótt þær séu eldri en þar segir ef mál hafi verið höfðað til heimtu þeirra innan sex mánaða frá gjalddaga og dómur hafi gengið um þær á síðustu sex mánuðunum fyrir frestdag eða síðar. Einnig var fullyrt í kröfulýsingunni að sóknaraðili gæti ekki talist nákominn þrotamanni í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Í bréfi skiptastjóra varnaraðila 22. desember 2017 kemur fram að kröfu sóknaraðila var hafnað sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Taldi skiptastjóri kröfuna vera almenna kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Tekið er fram í bréfinu að ekki sé tekin afstaða til almennra krafna að svo stöddu þar sem ljóst þyki að ekkert fáist greitt upp í slíkar kröfur. Afstaða skiptastjóra byggðist á því að sóknaraðili hefði sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá þrotabúinu verið nákominn félaginu í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með vísan til 1-3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóti krafan ekki réttarstöðu samkvæmt 1., sbr. 2., tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Lögmaður sóknaraðila mótmælti afstöðu skiptastjóra með bréfi 22. desember 2017. Ekki tókst að jafna ágreininginn á skiptafundi 4. janúar 2018. Þann 31. janúar 2018 var haldinn fundur vegna ágreinings um kröfu sóknaraðila. Ekki tókst að jafna ágreining aðila á fundinum sem var frestað til 6. apríl 2018. Í fundargerð frá þeim fundi kemur fram að lögmaður sóknaraðila hafi ítrekað mótmæli hans við afstöðu skiptastjóra og að afstaða skiptastjóra sé óbreytt. Var bókað að skiptastjóri myndi krefjast úrlausnar héraðsdóms um ágreininginn. Í tilkynningu varnaraðila til héraðsdóms segir að skiptastjóri hafi talið að sóknaraðili væri nákominn félaginu og nyti þar af leiðandi ekki réttar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá hefði krafan ekki fallið í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag og þótt mál hafi verið höfðað til heimtu kröfunnar innan sex mánaða frá gjalddaga hefði dómur ekki gengið á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag eða síðar og nyti krafan ekki forgangs samkvæmt fyrrnefndu ákvæði laga nr. 21/1991. Mótmælti lögmaður sóknaraðila þessari afstöðu skiptastjóra til kröfunnar.    

Sóknaraðili gerði ráðningarsamning við varnaraðila í nóvember 2014 og hóf störf 1. febrúar 2015. Sóknaraðili starfaði sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs og sat í framkvæmdastjórn félagsins. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur samkvæmt ráðningar-samningi aðila var sex mánuðir. Sóknaraðili sagði upp starfi sínu með bréfi 25. september 2015. Forstjóri félagsins fór þess á leit við sóknaraðila að hann drægi uppsögnina til baka. Sóknaraðili féllst ekki á þessa beiðni. Þann 14. október 2015 var óskað eftir því við hann að hann færi heim og héldi sig fjarri vinnustaðnum. Daginn eftir var lokað fyrir aðgang sóknaraðila að tölvu hans hjá félaginu og nafn hans tekið út af starfsmannalista á heimasíðu félagsins. 

Sóknaraðili kveður að hinn 23. október 2015 hafi aðilar átt fund þar sem þess var farið á leit við sóknaraðila að hann ynni áfram út uppsagnarfrestinn við greiningarvinnu, en tilboðið fól í sér að hann ynni ekki lengur sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs í samræmi við starfslýsingu í ráðningarsamningi. Að öðrum kosti myndi hann láta af störfum og héldi þá launum út þennan mánuð. Þessu hafi sóknaraðili hafnað. Þann 26. október 2015 hafi sóknaraðila svo borist bréf frá félaginu með fyrirsögninni „Fyrirvaralaus uppsögn“. Þar hafi honum verið tilkynnt að honum væri fyrirvaralaust vikið úr starfi og jafnframt að launagreiðslur féllu niður frá og með sama tíma. Einnig hafi komið fram í bréfinu að nettenging og sími yrðu flutt yfir á hans kennitölu og þess óskað að tölvu yrði skilað fyrir kl. 17.00 sama dag.

Sóknaraðili hafi mótmælt ólögmætum brottrekstri með bréfi 27. október 2015 og krafist þess að riftun ráðningarsamnings yrði afturkölluð. Hafi sóknaraðili látið þess getið að hann væri  reiðubúinn til að vinna út uppsagnarfrest við þau störf og á þeim kjörum sem hann hefði verið ráðinn til í ráðningarsamningi í nóvember 2014. Félagið hafi hafnað sjónarmiðum sóknaraðila með bréfi 30. október 2015. Í byrjun árs 2016 höfðaði sóknaraðili mál á hendur félaginu til heimtu launa og orlofs frá brottrekstrardegi og út uppsagnarfrest. Var málið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 20. janúar 2016. Með dómi 22. nóvember sama ár var félaginu gert að greiða sóknaraðila 5.810.327 krónur að viðbættum dráttarvöxtum frá 26. október 2015 til greiðsludags og málskostnaði. Byggðist dómurinn á því að félagið hefði ekki sýnt fram á að ástæður hafi verið til að rifta ráðningarsamningi sóknaraðila án fyrirvara og hefði sóknaraðili átt rétt á launum á sex mánaða uppsagnarfresti. Félagið hafi áfrýjað dóminum til Hæstaréttar Íslands. Sóknaraðili hafi undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti krafist þess að félaginu yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fallist var á þá kröfu og félaginu veittur tveggja vikna frestur til að afhenda skilríki fyrir tryggingunni sem ákveðin var 600.000 krónur. Sú trygging var ekki sett og var málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti með dómi 30. nóvember 2017. 

Málið barst héraðsdómi 4. maí 2018 með bréfi dagsettu 2. s.m. þar sem farið er fram á úrlausn dómsins samkvæmt 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna ágreinings aðila.

 

II

Sóknaraðili kveðst mótmæla þeirri afstöðu skiptastjóra að krafa hans sé vegna áunninna launa á tímabili sem hann hafi verið nákominn þrotamanni. Í fyrsta lagi þá hafi sóknaraðili ekki verið nákominn þrotamanni í skilningi 3. gr., sbr. 3. mgr. 112. gr., laga nr. 21/1991. Í ráðningarsamningi segir: „Ólafur er ráðinn sem starfsmaður fyrirtækisins og ber hefðbundna ábyrgð gagnvart forstjóra fyrirtækisins. [...]“  Sóknaraðili hafi aldrei verið skráður sem framkvæmdastjóri félagsins hjá fyrirtækjaskrá eða hafi haft með höndum nein þau verkefni sem lúti að verksviði stjórnanda í tengslum við daglegan rekstur og þess háttar. Til að mynda hafi sóknaraðili verið eini starfsmaður þróunarsviðs. Hann hafi ekki verið með prókúru fyrir félagið og hvorki setið í stjórn félagsins né stýrt daglegum rekstri. Hafa beri hugfast að 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé undanþáguákvæði sem beri að túlka þröngt. Dómur Hæstaréttar Íslands í máli númer 248/2015 veiti vísbendingar um að ákvæðið, í kjölfar breytinga á því með með lögum nr. 95/2010, sé annars vegar ætlað að ná til þess aðila sem stýrir daglegum rekstri og hins vegar til stjórnarmanna. Hvorugt hafi átt við um sóknaraðila.

Þá sé bent á að krafa sóknaraðila byggist ekki á því að varnaraðili geri upp vangoldin laun á uppsagnarfresti þar sem sóknaraðili hafi áfram verið starfsmaður félagsins, heldur sé um að ræða dæmda bótakröfu vegna ólögmætra starfsloka sem nemi vangoldnum launum og öðrum kjörum á sex mánaða tímabili eftir að ráðningarsamningi hafi verið rift einhliða. Sé því um að ræða kröfu um bætur sem nemi launum á tímabili eftir að sóknaraðili hafi misst stöðu sína hjá félaginu, þá stöðu sem skiptastjóri telji valda því að hann hafi verið nákominn félaginu í skilningi 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Þrotamaður hafi rift ráðningarsamningi við sóknaraðila 26. október 2015. Eftir það hafi honum verið meinaður aðgangur að kerfum þrotamanns, vinnustað o.fl. Sóknaraðili hafi því ekki verið nákominn þrotamanni á þeim tíma sem krafa taki til, það er 26. október 2015 – 31. mars 2016. Þvert á móti hafi honum verið meinað að koma að nokkrum verkefnum hjá félaginu á þeim tíma. Það skjóti því skökku við að sóknaraðili hafi átt að teljast nákominn aðili á þessu tímabili.

Það liggi fyrir að skiptastjóri hafi í upphafi hafnað launakröfu annars kröfuhafa í sama þrotabú með sömu rökum og í þessu máli, en hafi síðar fallið frá þeirri afstöðu þegar í ljós hafi komið að krafan hafi verið gerð vegna áunninna launa á tímabili eftir að sóknaraðili hafi misst stöðu sína sem framkvæmdastjóri hjá félaginu og þar með talið stöðu sem nákominn aðili í skilningi 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann hafi því ekki verið talinn hafa stöðu nákomins aðila við afgreiðslu á kröfunni, jafnvel þótt hann hafi áður verið slíkur.

Í ljósi þess sem fram sé komið um að krafa sóknaraðila í þrotabúið nái til launa vegna tímabils eftir að ráðningarsamningi var rift og hann misst stöðu sína hjá félaginu, væri eðlilegt, til að gæta jafnræðis, að krafan yrði samþykkt sem forgangskrafa í þrotabúið. Þótt skiptastjóri hafi ekki synjað kröfu sóknaraðila samþykkis sem forgangskröfu á grundvelli þess að hún sé fyrnd sé rétt að það komi fram að kröfur samkvæmt 1.–6. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti skuli njóta rétthæðar þótt þær séu eldri en þar segi ef mál hefur verið höfðað til heimtu þeirra innan sex mánaða frá gjalddaga og dómur hafi gengið um þær á síðustu sex mánuðunum fyrir frestdag eða síðar. Mál var höfðað fyrir sóknaraðila á hendur félaginu vegna fyrirvaralauss brottreksturs innan sex mánaða frá því að ráðningarsamningi var rift. Endanlegur dómur í málinu hafi ekki verið kveðinn upp fyrr en eftir að félagið var úrskurðað gjaldþrota þegar Hæstiréttur Íslands hafi vísað áfrýjunarkröfu félagsins frá, eins og áður greini. Samkvæmt þessu eigi krafa sóknaraðila undir undanþáguákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Vegna kröfu um málskostnað vísar sóknaraðili til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Af hálfu varnaraðila er bent á að sóknaraðili hafi gert ráðningarsamning við félagið í nóvember 2014 og hafið störf 1. febrúar 2015. Það sé óumdeilt að sóknaraðili hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra þróunarsviðs hjá félaginu og setið í framkvæmdastjórn þess. Komi það fram í kröfulýsingu sóknaraðila og í greinargerð hans. Af þessum sökum telji varnaraðili ljóst að sóknaraðili teljist vera nákominn aðili í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Af því leiði, með vísan til 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, að launakrafa hans geti ekki notið forgangs samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laganna.

Samkvæmt 4. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991 teljist einstaklingar sem stýri daglegum rekstri félags vera nákomnir aðilar hlutaðeigandi félags. Þrátt fyrir að það sé ekki skilgreint með nákvæmum hætti í ákvæðinu, eða greinargerð með því, hvernig beri að skilgreina daglegan rekstur félags þá telji varnaraðili það liggja í augum uppi að ákvæðið nái tvímælalaust til kjarnastarfsemi félags samkvæmt skráðum tilgangi þess.

Skráður tilgangur félagsins hafi aðallega verið þróun og sala hugbúnaðarlausna sem efli upplýsingastjórnun fyrirtækja og stofnana og annar skyldur rekstur, auk ráðgjafar, vörslu og annarrar þjónustu sem styðji við bætta upplýsingastjórnun fyrirtækja og stofnana. Sóknaraðili hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra þróunarsviðs. Því megi ljóst vera að sóknaraðili hafi stýrt og borið ábyrgð á mikilvægum þáttum í kjarnastarfsemi félagsins. Þyki það að mati varnaraðila renna stoðum undir þá afstöðu skiptastjóra að sóknaraðili teljist nákominn aðili í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi ekki mótmælt því að hann hafi á grundvelli stöðu sinnar hjá félaginu verið nákominn því í skilningi 3. gr. laganna. Hins vegar hafi sóknaraðili haldið því fram að sökum þess að krafa hans sé vegna vangoldinna launa á tímabili eftir að honum hafi verið sagt upp störfum og staða hans felld niður, þá sé um að ræða kröfu um bætur sem nemi launum á tímabili eftir að sóknaraðili hafi misst stöðu sína hjá félaginu.

Varnaraðili kveðst byggja á því að í framkvæmd hafi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 verið túlkuð með þeim hætti að ákvæðið eigi ekki einungis við um þá sem að forminu til eru titlaðir framkvæmdastjórar í skilningi laga nr. 2/1995 um hlutafélög, heldur eigi það einnig við um þá forráðamenn félags sem hafi raunverulega yfirmannsstöðu. Varnaraðili hafni því að unnt sé að draga almennar ályktanir um túlkun ákvæðisins af niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu númer 248/2015, enda sé það um margt ólíkt þessu og meta þurfi hvert mál með hliðsjón af atvikum þess. Með vísan til þess sem að framan sé rakið telji varnaraðili að sóknaraðili hafi haft slíka stöðu með höndum.

Sóknaraðili haldi því fram að sökum þess að krafa hans sé bótakrafa vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi sem nemi launatekjum á tímabili eftir að sóknaraðili hafi misst stöðu sína hjá félaginu þá hafi hann ekki lengur talist nákominn félaginu í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili mótmæli þessum sjónarmiðum sóknaraðila. Krafa sóknaraðila sé byggð á 2. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Á það sé bent af hálfu varnaraðila að skýrt sé kveðið á um það í 3. mgr. 112. gr. laganna að þeir sem séu nákomnir félagi sem sé til gjaldþrotaskipta njóti ekki réttar samkvæmt 1.-3. tölulið 1. mgr. 112. gr. Það liggi í hlutarins eðli að við slit á vinnusamningi, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 112. gr., rofni ráðningarsamband viðkomandi starfsmanns og atvinnurekanda. Ýmsir þættir geti haft áhrif á það hvort vinnuframlags viðkomandi starfsmanns sé óskað eða ekki, en í báðum tilvikum eigi viðkomandi rétt til launa á uppsagnarfresti. Ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 geri ekki greinarmun á tilvikum eftir því hvort viðkomandi starfsmaður starfi hjá atvinnurekanda á uppsagnarfresti eða ekki. Í tilvikum þar sem vinnuframlags sé ekki óskað á uppsagnarfresti þá njóti stöðu viðkomandi ekki lengur við hjá félaginu. Varnaraðili kveðst byggja á því að framangreint leiði til þess að þeir sem í starfi sínu fyrir gjaldþrota félag hafi notið stöðu nákomins aðila í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991, njóti ekki réttinda samkvæmt 1.-3. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, óháð því hvort viðkomandi hafi áfram starfað fyrir viðkomandi félag á uppsagnarfresti eða ekki. Þá byggi varnaraðili á því að sjónarmið sóknaraðila gangi þvert á tilgang 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og að ef þau næðu fram að ganga þá væri 3. mgr. 112. gr. laganna í raun gagnslaus með öllu gagnvart 2. tölulið 1. mgr. 112. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 skulu kröfur samkvæmt 1.-6. tölulið 1. mgr. sömu greinar njóta rétthæðar samkvæmt henni þótt þær séu eldri en kveðið sé á um í 1. mgr. ef mál hafi verið höfðað til heimtu þeirra innan sex mánaða frá gjalddaga og dómur hafi gengið um þær á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag eða síðar. Kröfur sóknaraðila byggist á dómi Héraðsdóms Reykjaness í málinu númer 63/2016 þar sem félagið hafi verið dæmt til að greiða sóknaraðila 5.810.327 krónur með dráttarvöxtum frá 26. október 2015 til greiðsludags. Mál hafi verið höfðað til greiðslu kröfunnar 8. janúar 2016, sem hafi verið innan sex mánaða frá gjalddaga. Dómur hafi gengið um kröfuna 22. nóvember 2016, eða um tíu mánuðum fyrir frestdag við skiptin, sem var 28. september 2017. Það sé því ljós að síðara tímaskilyrði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um að dómur skuli hafa gengið um kröfu á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag eða síðar, sé ekki uppfyllt. Varnaraðili telji að áfrýjun til Hæstaréttar breyti engu um þetta. Í því sambandi byggi varnaraðili á því að þar sem málinu hafi verið vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti, án þess að hafa verið tekið til meðferðar fyrir dómstólnum, þá sé ekki hægt að líta svo á að dómur hafi gengið um kröfu sóknaraðila í Hæstarétti í skilningi 2. mgr. 112. gr. laganna. Því beri að líta svo á að endanlegur dómur um kröfu sóknaraðila hafi fallið í Héraðsdómi Reykjaness 22. nóvember 2016, um það bil tíu mánuðum fyrir frestdag. Af þeim sökum beri að hafna kröfu sóknaraðila. 

Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 3. og 112. gr. Krafa varnaraðila um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, 129. og 130. gr. 

IV

Ágreiningur aðila snýst ekki um fjárhæð kröfu sóknaraðila heldur hvar skipa skuli henni í réttindaröð við skipti á þrotabúi varnaraðila. Krefst sóknaraðili þess að forgangskrafa sem hann lýsti að fjárhæð 8.996.327 krónur verði samþykkt við bússkiptin samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Vísar sóknaraðili til þess að krafa hans sé bótakrafa sem hafi verið dæmd vegna ólögmætra starfsloka sóknaraðila hjá félaginu. Varnaraðili hafnar því að krafan njóti forgangs þar sem sóknaraðili hafi verið nákominn félaginu í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili mótmælir sérstaklega þeirri afstöðu skiptastjóra að krafa hans sé vegna áunninna launa á tímabili sem hann hafi verið nákominn þrotamanni.

Sóknaraðili hóf störf hjá félaginu 1. febrúar 2015 og starfaði sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að sóknaraðili hafi aldrei verið skráður framkvæmdastjóri félagsins hjá fyrirtækjaskrá eða haft með höndum nein þau verkefni sem lúti að verksviði stjórnanda í tengslum við daglegan rekstur. Hafi sóknaraðili verið eini starfsmaður þróunarsviðs og ekki haft mannaforráð.

Í ráðningarsamningi sóknaraðila við félagið, sem dagsettur er 14. nóvember 2014, segir að sóknaraðili sé ráðinn sem starfsmaður fyrirtækisins með hefðbundna ábyrgð gagnvart forstjóra. Hann sé ráðinn sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs og sitji í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Verkefni sóknaraðila eru sögð fjölbreytt, svo sem samræming vinnu í tengslum við vöruþróun og beri hann ábyrgð á þeim málaflokki í samræmi við stefnu fyrirtækisins á því sviði, og í samráði við forstjóra taki hann þátt í vinnu í tengslum við ýmis verkefni, verkefnastjórn og geti tekið þátt í ráðgjafarverkefnum. Þá sjái sóknaraðili um að stýra þeim starfsmönnum sem tengist verkefnum sem hann stýri.

Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. njóta forgangs kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag. Einnig njóta forgangs samkvæmt 2. tölulið ákvæðisins kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafa átt sé stað á því tímabili sem um ræðir í 1. tölulið eða eftir frestdag, sbr. laun og hlunnindi í uppsagnarfresti, og samkvæmt 3. tölulið ákvæðisins njóta kröfur um orlofsfé og orlofslaun, sem réttur hefur unnist til á því tímabili sem um ræðir í 1. tölulið eða eftir frestdag, einnig forgangs. Þá segir í 2. mgr. 112. gr. laganna að kröfur samkvæmt 1.-6. tölulið 1. mgr. skulu enn fremur njóta rétthæðar samkvæmt þessari grein þótt þær séu eldri en þar segir ef mál hefur verið höfðað til heimtu þeirra innan sex mánaða frá gjalddaga og dómur hefur gengið um þær á síðustu sex mánuðunum fyrir frestdag eða síðar.

Krafa sóknaraðila, sem er um bætur fyrir ólögmæt starfslok hjá félaginu, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2016, fellur samkvæmt framangreindu undir 2. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafnar forgangsrétti kröfunnar enda teljist sóknaraðili nákominn félaginu, sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Byggir varnaraðili afstöðu sína einnig á því að krafan hafi ekki fallið í gjaldadaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag og þótt mál hafi verið höfðað um kröfuna innan sex mánaða frá gjalddaga hafi dómur ekki gengið um kröfuna á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag eða síðar. Af þeim sökum njóti krafa sóknaraðila ekki forgangs, en sé almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. breytingu með 19. gr., sbr. 22. gr. laga nr. 95/2010, geta þeir sem nákomnir eru þrotamanni eða félagi eða stofnun, sem er til gjaldþrotaskipta, ekki notið réttar samkvæmt 1.-3. tölulið 1. mgr. 112. gr. fyrir kröfum sínum. Orðið nákomnir er samkvæmt 3. gr. laganna notað um  mann og félag eða stofnun sem hann eða maður honum nákominn á verulegan hluta í eða þar sem hann eða maður honum nákominn situr í stjórn eða stýrir daglegum rekstri, sbr. 4. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991 og breytingu með 3. gr. laga nr. 95/2010 um breytingu á lögum nr. 21/1991.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 95/2010 segir að ákvæðið geymi rýmri skilgreiningu á hugtakinu nákomnir en nú sé að finna í 3. gr. Tiltekið sé að hugtakið nákomnir nái einnig til þeirra sem sitja í stjórn eða stýra daglegum rekstri félaga eða annarra lögaðila. Einnig segir að til að einhver teljist nákominn í skilningi ákvæðisins þurfi hann að hafa nánar tilgreinda stöðu gagnvart skuldara, ýmist vegna fjölskyldutengsla eða skyldleika eða vegna eignarhalds þegar um lögaðila er að ræða. Hugtakið nákomnir hefur einkum áhrif í tengslum við reglur um rétthæð krafna á hendur þrotabúi og riftun ráðstafana þrotamanns. Að baki því býr það sjónarmið að hætt er við að þeir sem eru nákomnir geti haft áhrif á skuldara og því séu löggerningar sem snerta þá varhugaverðari en þegar um aðra er að ræða. Yfir stjórn félaga eða annarra lögaðila hafa þeir helst áhrif sem sitja í stjórn eða stýra daglegum rekstri. Þá segir að samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laganna njóta hvorki nákomnir né þeir sem átt hafa sæti í stjórn eða hafa haft með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar forgangsréttar í þrotabú fyrir launum og öðrum kröfum sem taldar eru í 1.-3. tölulið 1. mgr. sömu greinar. Með því að rýmka hugtakið nákomnir eins og lagt er til með 3. gr. frumvarpsins, þannig að það taki jafnframt til stjórnarmanna og þeirra sem stýra daglegum rekstri, er óþarft að hafa slíka upptalningu sem nú er í 3. mgr. 112. gr. laganna.

Svo sem fram er komið var sóknaraðili ráðinn framkvæmdastjóri þróunarsviðs félagsins í maí 2015 og átti sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Sóknaraðili skýrði frá því fyrir dómi að starf hans hjá félaginu hefði verið að stjórna þróun hugbúnaðarlausnar sem félagið hefði unnið að. Kvaðst sóknaraðili ekki hafa stýrt daglegum rekstri og hvorki haft prókúru fyrir félagið né komið að fjármálum þess. Það hefði eingöngu verið á hendi forstjóra. Hann hefði átt sæti í framkvæmdastjórn félagsins ásamt öðrum framkvæmdastjórum félagsins og fundað hefði verið einu sinni í viku þar sem fjallað var um stöðu verkefna sem fyrirtækið hefði verið að vinna að á hverjum tíma. Þá kom fram í skýrslu sóknaraðila að framkvæmdastjórar hefðu borið ábyrgð á sínum málaflokkum í samráði við forstjóra. Sóknaraðili hætti störfum um tveimur árum áður en félagið varð gjaldþrota.

Að virtu því sem nú er fram komið er óhjákvæmilegt annað en að líta svo á að sóknaraðili hafi haft þá stöðu gagnvart félaginu að hann teljist nákominn í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Breytir þá engu þótt það fyrirkomulag hafi verið viðhaft við stjórn félagsins að eingöngu forstjóri þess gæti bundið félagið fjárhagslega, enda stýrði sóknaraðili rekstri þróunarsviðs félagsins, sbr. 4. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991, og var yfirmaður á því sviði þar sem hann gegndi starfi framkvæmdastjóra. Bar sóknaraðili ábyrgð á þróun hugbúnaðarlausnar vegna rafrænna undirskrifta sem félagið áformaði að selja. Þá liggur fyrir að sóknaraðili sat reglulega fundi með forstjóra félagsins og öðrum yfirmönnum verkefna þar sem fjallað var um stöðu verkefna sem unnið var að á vegum félagsins á hverjum tíma.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er niðurstaða málsins sú að sóknaraðili hafi verið nákominn í  skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og því njóti krafa hans ekki forgangsréttar samkvæmt 1. mgr. 112. gr., sbr. 3. mgr. 112. gr., sömu laga. Að mati dómsins gildir það óháð því að um bætur var að ræða fyrir tímabil eftir að vinnusambandi aðila var slitið.

Eins og fram kemur að framan og samkvæmt kröfulýsingu sóknaraðila styðst krafa sóknaraðila við niðurstöðu í dómi Héraðsdóms Reykjaness í málinu númer 63/2016 sem kveðinn var upp 22. nóvember 2016. Byggðist niðurstaða málsins á því að félagið Azazo hf. hefði ekki sýnt fram á að fyrir hendi hafi legið ástæður sem réttlættu fyrrvaralausa riftun félagsins á ráðningarsamningi við sóknaraðila eins og gert var og hefði sóknaraðili átt rétt á launum í sex mánuði samkvæmt ráðningarsamningi. Svo sem áður segir er kveðið á um það í 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 að kröfur samkvæmt 1.-6. tölulið 1. mgr. greinarinnar njóti forgangsréttar þótt þær séu eldri en kveðið er á um í 1. mgr. hafi mál verið höfðað til heimtu þeirra innan sex mánaða frá gjalddaga og dómur hefur gengið um þær á síðustu sex mánuðunum fyrir frestdag eða síðar.

Samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms gjaldféll krafa sóknaraðila 26. október 2015. Mál það sem um ræðir var höfðað með birtingu stefnu þann 8. janúar 2016 og því innan sex mánaða frá gjalddaga. Frestdagur við skipti á búi varnaraðila var 28. september 2017. Dómur héraðsdóms gekk 22. nóvember 2016. Voru þá liðnir meira en sex mánuðir frá frestdegi við skipti á búi varnaraðila. Samkvæmt því telst ekki uppfyllt síðara tímaskilyrði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til þess að krafa sóknaraðila njóti forgangs samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laganna. Dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 114/2017, sem kveðinn var upp 30. nóvember 2017, fær ekki breytt þessari niðurstöðu, enda var máli sóknaraðila vísað frá Hæstarétti án kröfu og efnisúrlausnar á kröfu sóknaraðila.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Lára V. Júlíusdóttir lögmaður, en af hálfu varnaraðila Birgir Már Björnsson lögmaður.

Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari að gættum fyrirmælum 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila, Ólafs Páls Einarssonar, um að krafa hans í þrotabú varnaraðila, eins og henni var lýst í kröfulýsingu 5. desember 2017, verði samþykkt sem forgangskrafa í búið, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.