Print

Mál nr. 14/2019

LBX ehf. (Bjarni Hauksson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Árnason lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Hæfi dómara
Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu LBX ehf. um að landsréttardómari viki sæti í máli á hendur Landsbankanum hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2019 en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 21. febrúar 2019, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefnd krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, LBX ehf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Landsréttar 21. febrúar 2019.

Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 24. maí 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2018 í málinu nr. E-583/2017. Á þessu stigi er aðeins til úrlausnar krafa áfrýjanda um að einum dómara málsins í Landsrétti, Aðalsteini E. Jónassyni, verði gert að víkja sæti vegna vanhæfis.

2. Stefndi tekur ekki afstöðu til þess hvaða dómarar sitji í málinu en byggir á því að krafa áfrýjanda eigi ekki við rök að styðjast.

Málsatvik

3. Áfrýjandi höfðaði mál þetta aðallega til viðurkenningar á því að hluti samnings sem hann gerði upphaflega við SP fjármögnun hf. sem stefndi hefur yfirtekið beri ekki vexti. Til vara krefst hann þess að verðtryggður hluti samningsins beri vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

4. Í bréfi lögmanns áfrýjanda 18. febrúar 2019, sem barst Landsrétti sama dag, gerði áfrýjandi þá kröfu sem hér er til úrlausnar og fór munnlegur málflutningur um hana fram í þinghaldi 20. sama mánaðar. Kröfuna reisir áfrýjandi á g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

5. Um vanhæfi dómarans er vísað til þess af hálfu áfrýjanda að hann hafi „sem lögmaður unnið mikið fyrir Landsbankann hf. og flutt m.a. tugi mála fyrir bankann í Hæstarétti Íslands“. Hafi hann síðast flutt mál fyrir bankann í Hæstarétti í apríl 2017, samkvæmt heimasíðu réttarins. Vísar áfrýjandi til þess að flest málin varði lánasamninga, sem sé einnig ágreiningsefni máls þessa. Hann hafi gætt hagsmuna bankans þegar atvik máls þessa hafi komið upp og miðað við fjölda fluttra mála verði að ætla að hann hafi gegnt mikilvægu hlutverki sem ráðgjafi og bankinn verið verðmætur viðskiptavinur hans. Verkefni hans fyrir bankann hafi ekki verið tilfallandi eða smávægileg heldur þvert á móti reglubundin og umfangsmikil. Af þessum sökum eigi hann að víkja sæti, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

6. Krafa áfrýjanda lýtur að því að Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari sé með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 vanhæfur til að fara með málið og beri af þeim sökum að víkja sæti í því. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda er ekki byggt á því að persónuleg afstaða landsréttardómarans til áfrýjanda eða efnis máls sé með þeim hætti að draga megi óhlutdrægni hans í efa. Hann heldur því á hinn bóginn fram að í ljósi hagsmunagæslu hans fyrir stefnda áður en hann tók við starfi landsréttardómara megi draga óhlutdrægni hans í efa.

7. Aðalsteinn var skipaður í embætti dómara við Landsrétt í júní 2017 og tók við embættinu 1. janúar 2018. Frá og með sama tíma hætti hann að starfa sem lögmaður, lagði inn lögmannsréttindi sín og seldi eignarhlut sem hann átti í lögmannsstofu sem hafði tekið að sér hagsmunagæslu fyrir stefnda í þeim dómsmálum sem vísað er til í málatilbúnaði áfrýjanda.

8. Fyrir liggur að Aðalsteinn gætti sem lögmaður hagsmuna stefnda við rekstur nokkurra dómsmála árin 2011 til 2017. Að meðaltali var þar um að ræða tæplega fjögur dómsmál á ári en flest þeirra voru rekin árin 2013 og 2015. Var vinna hans fyrir stefnda á umræddu tímabili óverulegur hluti af störfum hans. Aðalsteinn gegndi ekki annars konar trúnaðarstörfum fyrir bankann en sem lögmaður.

9. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016, um dómstóla, eru dómarar sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Við úrlausn máls fara þeir eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra. Eins og fyrr greinir liggur fyrir að Aðalsteinn hætti störfum sem lögmaður í árslok 2017 og hefur gegnt starfi sem dómari síðan. Fyrir liggur að hann hefur enga aðkomu haft að því máli sem hér er til umfjöllunar og hefur engin hagsmunatengsl við aðila málsins.

10. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki á það fallist að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem séu til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni Aðalsteins E. Jónassonar með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Er því hafnað kröfu áfrýjanda um að hann víki sæti í málinu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu áfrýjanda, LBX ehf., um að Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari víki sæti í málinu.