Print

Mál nr. 22/2017

VHE ehf. (Halldór Reynir Halldórsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Árnason lögmaður)
Lykilorð
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Fjármálafyrirtæki
Reifun

V ehf. höfðaði mál á hendur L hf. og krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði að lánssamningur sem félagið hafði gert við S hf., sem síðar sameinaðist L hf., vegna kaupa á bryggjukrana frá Þýskalandi, hefði verið bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Til vara krafðist félagið þess að viðurkennt yrði að samningurinn hefði verið bundinn ólögmætri gengistryggingu sem næmi útgreiðslu vörugjalda, tollafgreiðslu og aðflutningsgjalda. Héraðsdómur sýknaði L hf. með vísan til þess að lánveitingin hefði verið bundin við fjármögnun á krana sem fyrir lá að keyptur yrði frá Þýskalandi og greitt yrði fyrir í evrum. Hefði S hf. tekið að sér að millifæra fjárhæðina til Þýskalands í evrum og með því efnt samningsskuldbindingu sína í erlendum gjaldmiðli. Hefði því verið um erlent lán að ræða. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með þeirri athugasemd að þótt nokkrum hluta lánsfjárhæðarinnar hefði verið ráðstafað til að greiða lögboðin gjöld í íslenskum krónum vegna innflutnings kranans fengið það ekki breytt því að um erlent lán hefði verið að ræða.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2017. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði að lánssamningur sem áfrýjandi gerði 6. september 2007 upphaflega við SP-Fjármögnun hf. og bar heitið „fjármögnunarleigusamningur“ sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en til vara að viðurkennt verði að lánssamningurinn sé á sama veg bundinn ólögmætri gengistryggingu sem nemur útgreiðslu annars vegar 21. desember 2007 að fjárhæð 232.807 krónur vegna vörugjalda og hins vegar 30. júní 2008 að fjárhæð 5.976 krónur vegna tollafgreiðslu og 81.656.839 krónur vegna aðflutningsgjalda, eða samtals 81.895.622 krónum. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi tók áfrýjandi umrætt lán hjá SP-Fjármögnun hf. til að fjármagna kaup í evrum á krana frá seljanda í Þýskalandi. Þótt nokkrum hluta lánsfjárhæðarinnar hafi verið ráðstafað til að greiða lögboðin gjöld í íslenskum krónum vegna innflutnings kranans fær það ekki breytt því að um erlent lán var að ræða. Að þessu gættu og með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, VHE ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. október sl., er höfðað 19. apríl 2015 af  Vélaverkstæði Hjalta Einars ehf., Melabraut 23-25, Hafnarfirði gegn Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur sem stefnandi gerði upphaflega við SP-Fjármögnun hf. og ber heitið fjármögnunarleigusamningur, nr. 1700444, frá 6. september 2007, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur sem stefnandi gerði upphaflega við SP-Fjármögnun hf. og ber heitið fjármögnunarleigusamningur, nr. 1700444, frá 6. september 2007, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 sem nemur útgreiðslum þann 21. desember 2007 að fjárhæð 232.807 krónur vegna vörugjalda; þann 30. júní 2008 að fjárhæð 5.976 krónur vegna tollafgreiðslu og þann 30. júní 2008 að fjárhæð 81.656.839 krónur vegna aðflutningsgjalda, samtals 81.895.622 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

I.                       

Í apríl 2007 óskaði stefnandi eftir tilboðum frá SP Fjármögnun hf. vegna fjármögnunar á hafnarkrana sem stefnandi hugðist kaupa frá Gottwald Port Technology GmbH. í Þýskalandi. Sendi SP Fjármögnun hf. stefnanda nokkur tilboð í fjármögnunina. Tók stefnandi tilboði um eina fjármögnunarleiðina og í kjölfarið, eða 6. september 2007, var undirritaður svonefndur fjármögnunarleigusamningur nr. 1700044. Sá samningur fékk síðar númerið SFL 025181 og enn síðar 71955. Samkvæmt samningi náði samningurinn til leigu á hafnarkrana samkvæmt meðfylgjandi reikningi. Samningsverð var tilgreint þannig að fjárhæðin í svissneskum frönkum, eða CHF, skyldi vera 1.723.815 og í japönskum jenum, eða JPY, skyldi vera 247.444.863. Samtals skyldi fjárhæðin nema 230.000.000 króna, en íslenska fjárhæðin var tilgreind innan sviga. Leigutími skyldi vera 7 ár og hefjast 26. febrúar 2008. Mánaðarlegt leigugjald skyldi nema 19.066 svissneskum frönkum og 2.468.795 japönskum jenum eða samtals 2.408.046 krónum. Aftur var íslenska fjárhæðin tilgreind innan sviga. Skyldi leigugjaldið gengistryggt miðað við breytingar erlends gjaldmiðils eða á samsettum gjaldmiðlum gagnvart íslenskri krónu. Skyldi fjárhæðin skiptast þannig að 40% væri í svissneskum frönkum en 60% í japönskum jenum. Skyldu Libor vextir við gildistöku samningsins vera þannig að svissneskur franki næmi 2,75% en japanskt jen 0,31%. Greiðslustaður skyldi vera á skrifstofu SP Fjármögnunar hf. Sama dag og samningurinn var undirritaður var jafnframt undirritaður fyrirvari um endanlegt kaupverð. Fram kemur að aðilar séu sammála um að kaupverð og leigugjöld séu áætluð þar sem endanlegar fjárhæðir liggi enn ekki fyrir. Verði þær ákveðnar strax og nægar upplýsingar hafi fengist og verði fjárhæðum breytt til samræmis við þær. Sama dag var einnig undirrituð yfirlýsing um staðfestingu á afhendingu leigumunar.

Þann 26. febrúar 2008 var undirritaður viðauki við samninginn þar sem fram kemur að kaupverð hafi hækkað um 70.698.147 krónur eftir að samningur var undirritaður. Hækkun höfuðstóls samnings og fyrirfram greidd leiga hefði í för með sér þær breytingar á samningsverði að hann yrði þannig að japönsk jen yrðu 208.503.137,00 og svissneskur franki 1.448.489,96. Skyldi leigugjald hækka í samræmi við hækkun á höfuðstól. Þann 29. nóvember 2008 var á ný undirritað samkomulag um skilmálabreytingu. Samkvæmt samkomulaginu skyldi leiga greiðast 25. hvers mánaðar. Yrði næsti gjalddagi eftir dagsetningu viðaukans 30. nóvember 2008. Frá og með þeim gjalddaga skyldi eingöngu greiðast föst fjárhæð mánaðarlega í 6 mánuði. Skyldi mánaðarleg greiðsla þann tíma vera 2.500.000 krónur, auk virðisaukaskatts. Var vakin athygli á breytingu á samningsskilmálum frá árinu 2007 er vörðuðu meðal annars heimildir SP Fjármögnunar hf. til vaxtabreytinga. Með yfirlýsingu 12. júní 2009 varð að samkomulagi milli stefnanda og SP Fjármögnunar hf. að við höfuðstól fjármögnunarleigusamningsins skyldi bætast lokagreiðsla að fjárhæð 1.789.000 krónur, sem væri lokagreiðsla reiknings frá seljanda kranans. Skyldi höfuðstóll samnings hækka um þessa fjárhæð og leigugjald hækka hlutfallslega. 

Á meðal gagna málsins er reikningur frá Gottwald Port Technology GmbH. í Þýskalandi dagsettur 31. ágúst 2007. Er SP Fjármögnun hf. greiðandi samkvæmt reikningi, en hann tekur til kaupa á hafnarkrana. Er fjárhæð samkvæmt reikningi 2.295.000 evrur. Samkvæmt kvittun um erlenda millifærslu 11. september 2007 eru 2.295.000 evrur þann dag lagðar inn á reikning félagsins í Þýskalandi og greiðandi tilgreindur SP Fjármögnun hf. Er fjárhæðin skuldfærð af tékkareikningi SP Fjármögnunar hf. í Landsbanka hf. Tvær aðrar greiðslur, að fjárhæð 127.500 evrur og 117.500 evrur, fara út af sama reikningi Landsbanka hf. til seljanda 22. nóvember 2007 og 30. september 2008. Loks eru 10.000 evrur millifærðar af reikningnum 15. júní 2009 til sama aðila.

Með bréfi 19. nóvember 2014 tilkynnti stefndi stefnanda að með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 430/2013 væri það mat stefnda að sá samningur er um ræddi í máli því sem hér er til meðferðar væri lánssamningur, en ekki leigusamningur.    Þann 6. nóvember 2011 sameinaðist SP Fjármögnun hf. stefnda og 21. nóvember sama ár var SP Fjármögnun hf. tekin út af fyrirtækjaskrá vegna samrunans.

II.                   

Stefnandi byggir á því að með dómi Hæstaréttar frá 12. desember 2013 í máli nr. 430/2013 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að fjármögnunarleigusamningur, sambærilegur þeim sem hér sé um deilt, bæri öll helstu einkenni lánssamnings og því verið talið að um lánssamning væri að ræða. Með bréfi stefnda 25. nóvember 2014 hafi stefnanda verið tilkynnt að bankinn hefði yfirfarið fjármögnunarleigusamninga sem stefnandi hefði gert upphaflega við SP Fjármögnun hf. og það verið niðurstaða bankans að samningarnir féllu undir fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 430/2013 og teldust vera lánssamningar en ekki leigusamningar. Þá hafi komið fram að stefndi hefði jafnframt yfirfarið fjármögnunarleigusamninga félagsins nr. SFL 025161, SFL 011001 og SFL 025181 sem allir hefðu fengið ný lánsnúmer. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 337/2013, hafi Hæstiréttur m.a. komst að þeirri niðurstöðu að lán sem greitt var út í erlendum myntum væri erlent lán. Með hliðsjón af framangreindum dómi væri það mat bankans að lánin væru erlend og yrðu lánin því ekki endurreiknuð.Við þessa afstöðu geti stefnandi ekki unað og sé því nauðugur sá kostur að höfða mál á hendur stefnda enda telji félagið að samningur nr. 1700444 (síðar SFL 025181 og nr. 71955) sé gengistryggður lánssamningur sem brjóti í bága við ákvæði laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og sé af þeim sökum ekki skuldbindandi fyrir félagið.

Áður en stefnandi hafi ritað undir fjármögnunarleigusamning nr. 1700444 hafi SP-Fjármögnun hf. sent stefnanda nokkur tilboð 30. apríl 2007. Í einu þeirra hafi m.a. sagt að sent væri gengistryggt tilboð m.v. 50% CHF og 50% JPY í fjármögnun á bryggjukrana samkvæmt samtali nýverið. Tilboð SP-Fjármögnunar hf., sem gildi til 7. maí nk., sé svohljóðandi:

Kaupverð                                            :              ca. kr. 280.000.000,-

Gengisviðmiðun                 :              50% CHF & 50% JPY.

Á grundvelli þessa kauptilboðs SP Fjármögnunar hf. hafi aðilar gert lánssamning nr. 1700444, 6. september 2007, en ástæða þyki að reifa stuttlega helstu ákvæði samningsins. Í I. kafla samnings aðila komi fram að andlag lánssamningsins hafi verið hafnarkrani með fastanúmerið AH-0021 en seljandi kranans verið Gottwald Port Technology GmbH. í Þýskalandi. Í ákvæðinu sé samningsverð aðila, þ.e. lánsfjárhæð, hvort tveggja tilgreint í svissneskum frönkum og japönskum jenum, þ.e. CHF 1.723.815 og JPY 247.444.863, sem og í íslenskum krónum, þ.e. 230.000.000 króna. Í II. kafla samnings sé leigutími, þ.e. lánstími tilgreindur, en hann hafi verið 7 ár, þ.e. frá 26. febrúar 2008 til 26. febrúar 2015. Í III. kafla samningsins komi fram að notkunarstaður samningsandlagsins sé á Íslandi. Í IV. kafla komi fram mánaðarlegt leigugjald, þ.e. mánaðarlegar afborganir af lánum en samkvæmt ákvæðinu hafi þær numið CHF 19.066 og JPY 2.468.795 eða 2.408.046 krónum. Í ákvæðinu komi fram að leigugjaldið sé gengistryggt m.v. breytingar erlends gjaldmiðils eða samsettra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Þá komi fram mynthlutfall hinna erlendu mynta, þ.e. CHF 40% og JPY 60%. Að lokum komi fram að LIBOR-vextir við gildistöku samningsins séu CHF 2,74% og JPY 0,81%. Í V. kafla samningsins komi fram að fyrsti gjalddagi lánsins hafi verið 26. febrúar 2008 og sá síðasti 26. febrúar 2015 og séu þeir því 84 talsins. Í VI. kafla samningsins komi fram að greiðslustaður lánsins sé á skrifstofu SP Fjármögnunar hf. eða öðrum stað er það tiltaki. Í VII. kafla samningsins komi fram að samningsandlagið sé tryggt hjá Sjóvá Almennum hf. Með viðauka 26. febrúar 2008 hafi framangreindum samningi verið breytt á þá leið að kaupverð muna, skv. ofangreindum samningi, hafi hækkað um 70.698.147,00 krónur eftir að samningurinn var undirritaður. Fyrirfram greidd leiga sé 28.112.449,00 krónur. Hækkun höfuðstóls samningsins og fyrirfram greidd leiga hafi í för með sér neðangreindar breytingar á samningsverði:

Samningsverð verður:       JPY:       208.503.137,00

                                                              CHF:           1.448.498,96

Hluti af umþrættum samningi aðila hafi verið svokallaðir almennir samningsskilmálar vegna fjármögnunarleigu. Í 4. gr. þeirra komi m.a. fram að einstakar leigugreiðslur breytist í samræmi við breytingar á vísitölu hins erlenda gjaldmiðils frá grunngengi, skv. IV. D., til þeirrar vísitölu sem í gildi sé á hverjum gjalddaga. Ágreiningslaust sé milli aðila að samningsform umþrætts samnings nr. 1700444 sé að öllu leyti sambærilegt þeim samningum sem stefndi hafi nú þegar viðurkennt að séu gengistryggðir. Í bréfi stefnda 25. nóvember 2014 komi hins vegar fram að ástæða þess að bankinn telji umþrættan samning vera erlendan en ekki gengistryggðan sé sú að greitt hafi verið út í erlendum myntum. Þessu sé stefnandi alfarið ósammála.

Í málinu liggi fyrir að seljandi samningsandlagsins, þ.e. hafnarkranans, hafi verið þýskt fyrirtæki að nafni Gottwald Port Technoloy GmbH. Heildarkaupverð kranans samkvæmt reikningum frá seljanda hafi numið 2.550.000 evra og það innt af hendi í fjórum færslum. Í millifærslukvittun 11. september 2007, vegna umræddra kaupa frá Landsbanka Íslands hf., komi fram að kaupverð samningsandlagsins, þ.e. 206.971.200 krónur eða 2.295.000 evrur, hafi verið skuldfært af íslenskum tékkareikningi nr. 0111-26-006202 en eftir því sem stefnandi komist næst hafi umræddur reikningur verið í eigu SP Fjármögnunar hf. Í millifærslukvittun 22. nóvember 2007, komi einnig fram að kaupverð, þ.e. 11.881.725 krónur eða 127.500 evrur, hafi verið skuldfært af sama íslenska tékkareikningi. Í millifærslukvittun 30. september 2008, komi einnig fram að kaupverð, þ.e. 17.488.700 krónur eða 117.500 evrur, hafi verið skuldfært af sama íslenska tékkareikningi. Í millifærslukvittun 15. júní 2009, komi að lokum fram að kaupverð, þ.e. 1.788.100 krónur eða 10.000 evrur, hafi verið skuldfært af sama íslenska tékkareikningi. Samkvæmt framangreindu hafi allt kaupverð hafnarkranans verið greitt með skuldfærslu af íslenskum tékkareikningi. Virðist lánveitandi þannig hafa nýtt íslenskar krónur, sem skuldfærðar voru af framangreindum reikningi, til kaupa á evrum sem síðar hafi verið greiddar til seljanda hafnarkranans. 

Af hálfu stefnda hafi verið haldið fram að lánið til stefnanda hafi verið greitt út í erlendum myntum. Að mati stefnanda fáist slíkt ekki staðist enda kaupverð hafnarkranans ekki greitt út í þeirri mynt sem lánssamningur aðila tók til, þ.e. japönskum jenum og svissneskum frönkum. Þá hafi lánsfjárhæðin ekki verið innt af hendi til stefnanda með greiðslu í erlendri mynt, þ.e. með millifærslu af erlendum gjaldmiðlareikningi, þ.e. svokölluðum 38-reikningi, heldur þess í stað verið skuldfærð af íslenskum tékkareikningi. Erlendur gjaldmiðill hafi því aldrei skipt um hendur milli lánveitanda og lántaka, hvorki við útborgun lánsins né við greiðslur afborgana. Af þeim sökum sé útilokað að mati stefnanda að lánið hafi verið greitt út í erlendri mynt og sé af þeim sökum erlent líkt og stefndi virðist byggja afstöðu sína á. Hafi í raun staðið til að greiða lánið út í erlendri mynt hafi lánveitanda verið í lófa lagið að greiða það inn á gjaldeyrisreikninga í eigu stefnanda í japönskum jenum og svissneskum frönkum í samræmi við myntskiptingu í lánssamningi aðila. Það hafi þó ekki verið gert heldur hafi heildarfjárhæð þess í stað verið skuldfærð af 0111-26-006202. Af þeim sökum geti umrædd lánveiting aldrei talist vera í erlendri mynt og því sé tilvísun stefnda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 337/2013 þýðingalaus enda hafi legið fyrir í því  máli að lánið hafi sannarlega verið greitt út til lántakanda í þeirri erlendu mynt sem tilgreind hafi verið í lánssamningi. Slíkt sé ekki tilfellið í þessu máli. 

Þessu til viðbótar beri ennfremur að líta til þess að hluti endanlegrar lánfjárhæðar, eða rúmlega 27%, hafi verið greiddar til innlendra aðila vegna ýmiss umsýslukostnaðar við innflutning hafnarkranans til landsins. Nánar tiltekið hafi 232.807 krónur verið greiddar til Hafnarfjarðarhafnar vegna vörugjalda, 5.976 krónur til Vectura ehf. vegna tollafgreiðslu og 81.656.839 krónur til Tollstjórans í Reykjavík vegna aðflutningsgjalda eða samtals 81.895.622 krónur. Fyrir liggi, og ætti að vera óumdeilt í málinu, að allar þessar greiðslur hafi verið inntar af hendi með íslenskum krónum. Í ljósi alls þessa, sem og þeirrar staðreyndar að allar afborganir af láninu hafi farið fram í íslenskum krónum, í samræmi við greiðsluseðla frá SP-Fjármögnun hf., telji stefnandi einsýnt að umþrætt lánsskuldbinding á grundvelli lánssamnings nr. 1700444 hafi falið í sér lán í íslenskum krónum sem hafi verið gengistryggt með erlendri mynt. Slík lánveiting hafi verið ólögmæt enda brjóti hún í bága við ákvæði laga nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. laganna.

Aðalkrafa stefnanda sé viðurkenningarkrafa þar sem þess er krafist að lánssamningur nr. 1700444 sé bundinn gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Um heimild til öflunar viðurkenningardóms vísi stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um kröfu hans. Stefnandi leggi í því skyni fram útreikninga frá Impact  lögmönnum en þeir taki mið af punktstöðu lánsins 30. desember 2013 og séu tvenns konar. Annars vegar taki þeir mið af dómi Hæstaréttar í máli nr. 464/2012 þar sem gert sé ráð fyrir því að stefnandi geti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir í málinu en miðað við þær forsendur hafi eftirstöðvar lánsins numið 20.864.875 krónum, 30. desember 2013. Hins vegar taki útreikningarnir mið af því að lánið beri vexti, skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 18. gr. laganna, en miðað við þær forsendur hafi eftirstöðvar lánsins numið 46.419.358 krónum, 30. desember 2013. Að mati stefnanda sýni endurútreikningarnir fram á lögvarða hagsmuni stefnanda af úrlausn málsins enda hafi eftirstöðvar lánsins, samkvæmt forsendum stefnda, numið 220.788.855 krónum, 30. desember 2013.

Varakrafa stefnanda sé, líkt og aðalkrafa, viðurkenningarkrafa þar sem þess sé krafist að lánssamningur nr. 1700444 sé bundinn gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að hluta. Verði ekki fallist á að þeir lánshlutar, sem nýttir hafi verið til greiðslu á hafnarkrananum til Gottwald Port Technology GmbH, hafi verið gengistryggðir í skilningi laga nr. 38/2001, sé þess til vara krafist að viðurkennt verði að þeir lánshlutar sem nýttir hafi verið til greiðslu á vörugjalda, tollafgreiðslu og aðflutningsgjalda, samtals 81.895.622 krónur, hafi verið gengistryggðir í skilningi laganna enda greiðslurnar óumdeilanlega inntar af hendi í íslenskum krónum. Stefnandi árétti þó að hann telji engu breyta við matið á lánshlutanum, sem nýttur var til greiðslu á hafnarkrananum, að seljandi kranans, Gottwald Port Technology, hafi á endanum fengið greitt í evrum. Greiðslurnar hafi í öllum tilvikum verið skuldfærðar af íslenskum tékkareikningi stefnanda en ekki af erlendum gjaldeyrisreikningi, þ.e. evrureikningi, og hafi því erlendur gjaldmiðill aldrei skipt um hendur milli lánveitanda og lántaka. Um lögvarða hagsmuni af viðurkenningarkröfunni vísist að öðru leyti til þess sem að framan greini. 

Krafa stefnanda byggir á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. laganna. Um vaxtakröfu vísast til 4. gr., sbr. 18. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttarins um gildi fullnaðarkvittanna. Um heimild til öflunar viðurkenningardóms vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. gr. og 130. gr. laganna.

III.                

Stefndi kveður sýknukröfu sína á því byggða að með undirritun á lánssamningi nr. 71955 hafi stefnandi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum. Stefnanda beri að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar. Stefndi telji að krafa hans á hendur stefnanda samkvæmt hinum umdeilda lánssamningi sé skuldbinding í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Af hálfu stefnda sé á því byggt að lánssamningurinn og framkvæmd lánveitingarinnar, lánsfjárhæð tilgreind í erlendum myntum og lánið greitt út í erlendri mynt, beri með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða. Stefnandi hafi leitað eftir tilboðum í fjármögnun hafnarkranans hjá stefnda. Hafi hann nokkur tilboð fengið bæði í íslenskum krónum og í erlendri mynt. Mánaðarleg greiðslubyrði af láninu í íslenskum krónum hafi verið 4.369.100 krónur en mánaðarleg greiðslubyrði af því erlenda láni sem stefnandi hafi tekið hafi verið 2.408.046 krónur, eða tæplega tveimur milljónum lægri. Stefnanda hafi því ekki getað dulist að þessi lága greiðslubyrði hafi verið bundin því skilyrði að hann hafi verið að taka erlent lán. Lánssamningurinn hafi tiltekið lánsfjárhæðina í erlendum myntum sem og mánaðarlega greiðslubyrði lánsins. Í yfirliti yfir endurgreiðsluferil lánsins hafi lánið verið tilgreint í erlendum myntum þess. Þá bendi stefndi á að stefnandi hafi samkvæmt ákvæði IV. í lánssamningnum átt að greiða stefnda tilgreinda LIBOR vexti. Stefnandi hafi ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur. Ef svo hefði verið hefði skuldbinding stefnanda að grunni til byggst á svokölluðum REIBOR vöxtum og vextirnir orðið umtalsvert hærri en þeir voru í raun enda LIBOR vextir ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur. Skuldbinding stefnanda hafi því án alls vafa verið í erlendum myntum og honum það ljóst. Að mati stefnda verði að líta á fjármögnunarleigusamninginn sem lánssamning í erlendum myntum sem uppfylli skilyrði VI. kafla laga nr. 38/2001. Í I. kafla komi fram að samningsverð sé CHF 1.723.815 og JPY 247.444.863. Mánaðarlegar afborganir séu tilgreindar í IV. kafla samningsins og séu þær tilgreindar í erlendu myntunum, CHF 19.066 og JPY 2.468.795, í samræmi við greiðsluyfirlit.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar, þar sem fjallað hafi verið um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið með óheimilum hætti við gengi erlendrar myntar, hafi fyrst og fremst verið byggt á skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hafi gengist undir. Komi önnur atriði við lánveitinguna ekki til álita ef textaskýring taki af skarið um efni skuldbindingarinnar að þessu leyti. Um þetta vísist m.a. til dóma Hæstaréttar í málum nr. 835/2014, nr. 25/2014, nr. 187/2014, sbr. og til hliðsjónar dóm í máli nr. 14/2014, sbr. og dóma í máli nr. 446/2013, nr. 757/2012, nr. 715/2012 og nr. 50/2012. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 70/2014 hafi verið skorið úr um það hvort í sambærilegum fjármögnunar-leigusamningi og um sé deilt í þessu máli væri um erlent eða gengistryggt lán að ræða. Í forsendum Hæstaréttar komi fram að bæði samningsverð og leigugreiðslur hafi verið tilgreindar í erlendum myntum. Hins vegar hafi í samningnum verið kveðið á um að leigugjaldið væri gengistryggt miðað við breytingar erlends gjaldmiðils gagnvart íslenskri krónu. Af efni samningsins yrði því ekki ráðið hvort um væri að ræða lán í erlendum myntum eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum. Yrði þannig að líta til gagna um efndir og framkvæmd samningsins. Í ljósi dómafordæmis Hæstaréttar verði að skoða útgreiðslu láns nr. 71955 til þess að komast að niðurstöðu um hvort um erlent eða gengistryggt lán sé að ræða. Ákvæði samningsins feli í sér að  andvirði lánsins hafi ekki átt að greiða inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda í JPY og CHF heldur að lánið yrði greitt út með þeim hætti að stefndi keypti kranann af söluaðila hans í Þýskalandi og andvirðið greitt til hans í evrum án aðkomu stefnanda, en samningurinn byggi á því að stefndi yrði eigandi kranans þangað til stefnandi hefði greitt upp lánið.

Seljandi kranans sé þýskt fyrirtæki og hafi það farið fram á að fá andvirðið greitt til sín í evrum inn á tilgreindan reikning í banka í Þýskalandi. SP Fjármögnun hf. hafi ekki átt gjaldeyrisreikning í evrum með höfuðbók 38 og hafi því óskað því eftir því að Landsbanki Íslands hf., erlendar millifærslur, greiddi evrurnar inn á reikning félagsins. Landsbanki Íslands hf. hafi því, þann 9. september 2007, millifært í evrum, þ.e. 2.295.000 EUR, af gjaldeyrisreikningi sínum inn á reikning þýska félagsins. SP Fjármögnun hf. hafi greitt til Landsbanka Íslands hf. andvirði evranna í íslenskum krónum. Óumdeilt sé að seljandi tækisins hafi fengið andvirði þess greitt inn á bankareikning sinn í evrum enda ekki hægt að leggja íslenskar krónur inn á umræddan reikning seljanda kranans og því sá hluti lánsins sannanlega greiddur út í erlendri mynt. Stefndi byggi á því að lánsfjárhæðin hafi verið greidd út í erlendum gjaldeyri, sbr. kvittanir fyrir erlendum millifærslum. Breyti engu í þessu sambandi þótt lánsfjárhæðin hafi ekki fyrst verið lögð inn á gjaldeyrisreikninga í eigu stefnanda. Vísi stefndi til dóma Hæstaréttar um þetta efni, m.a. dóms í máli nr. 337/2015, en þar hafi útgreiðsla lánsins farið fram á þann hátt að erlend mynt hafi verið notuð til uppgreiðslu eldri lána, sem að stærstum hluta (70%) hafi verið í erlendum gjaldmiðlum. Í dóminum segi að lánveitingin teljist hafa verið í erlendum gjaldmiðlum í þeim skilningi sem hér skipti máli. Einnig sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 106/2015.   

Stefndi telji einnig að það skipti ekki máli varðandi lögmæti lánsins að það hafi verið greitt út í annarri erlendri mynt, evrum, en samningurinn sjálfur tiltaki sem lánsfjárhæðina, þ.e. JPY og CHF. Stefndi hafi ekki getað greitt lánið út í þeim myntum þar sem söluaðili kranans hafi farið fram á að fá söluverðið greitt í evrum. Um þetta efni vísi stefndi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 558/2014. Stefndi mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda að það bendi til þess að lánið hafi verið gengistryggt að stefnandi hafi endurgreitt það í íslenskum krónum. Hæstiréttur hafi ítrekað tekið það fram í dómum sínum að endurgreiðsla erlends láns í íslenskum krónum breyti ekki eðli lánsins. Það hafi ekki verið talið ráða úrslitum í hæstaréttarmáli nr. 337/2013 að lántaka hafi verið heimilt samkvæmt samningi að inna af hendi afborganir í íslenskum krónum, og sé einnig vísað til dóms í máli nr. 66/2012 til stuðnings þeirri niðurstöðu.    Stefndi telji því ljóst að af orðalagi samningsins, öðrum skjölum og athöfnum aðila, engum vafa háð að umþrættar skuldbindingar hafi verið í erlendum gjaldmiðlum og slíkt raunar verið skýrlega staðfest í dómaframkvæmd. Beri þegar af framangreindum ástæðum, hverri og einni og öllum samanlögðum, að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

Í varakröfu krefjist stefnandi þess að viðurkennt sé að sá hluti lánssamnings nr. 71955, sem sannanlega hafi verið greiddur út í íslenskum krónum, 81.895.622 krónur, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi krefjist sýknu af þessari kröfu og telji að allt lánið sé erlent þrátt fyrir að 26% af lánsfjárhæðinni hafi verið greitt út í íslenskum krónum. Um þetta efni bendi stefndi á dóm Hæstaréttar í máli nr. 337/2015 en þar hafi lán verið talið erlent en 75% af andvirði lánsins hafi verið greitt út í erlendri mynt og afgangurinn í íslenskum krónum, sbr. og dóm réttarins í máli nr. 602/2013.

Stefndi vísar til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 1. – 4. gr. og 13. og 14. gr., meginreglna samninga- og kröfuréttar um að efna gerða samninga og virðis skuldbindingar. Krafa stefnda um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.

                                                                       IV.

Ágreiningur aðila málsins lýtur eingöngu að því hvort lánssamningurinn 6. september 2007 feli í sér skuld í erlendri mynt eða íslenskum krónum sem bundnar séu gengi erlends gjaldmiðils með ólögmætum hætti samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Í dómum Hæstaréttar hefur ítrekað komið fram að þegar vafaatriði sé hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum sé að ræða skuli við úrlausn þess fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggi til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í samningnum.

Efni lánssamnings sem um ræðir í máli þessu er sambærilegt við þann lánssamning er var til úrlausnar í hæstaréttarmálinu nr. 70/2014. Í því máli var komist að þeirri niðurstöðu að í samningnum væri ekki afdráttarlaust kveðið á um það hvort í honum fælist skuldbinding um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum. Þar sem efni samningsskilmálanna væri ekki ljóst yrði að líta til gagna um framkvæmd og efndir samningsins. Hér háttar til með sama hætti og verður því að líta til gagna um framkvæmd og efni samningsins.

Í hæstaréttarmálinu nr. 70/2014 báru gögn málsins með sér að stefndi í því máli greiddi út lánsfjárhæðina í íslenskum krónum. Þá lá einnig fyrir að skuldarinn greiddi afborganir og vexti í íslenskum krónum. Er tekið fram að aðilar hafi því báðir efnt skuldbindingar sínar í þeim gjaldmiðli. Í máli því sem hér er til úrlausnar er ekki ágreiningur um að stefnandi greiddi afborganir af láninu og vexti í íslenskum krónum. Það sem helst greinir þessi tvö mál að er að í því máli sem hér er leyst úr háttaði svo til að SP Fjármögnun hf. millifærði lánsfjárhæðina ekki inn á reikning stefnanda, heldur millifærði félagið fjárhæðina í íslenskum krónum út af eigin tékkareikningi, til stefnda, sem aftur millifærði fjárhæðina í evrum inn á reikning hins erlenda seljanda kranans í Þýskalandi. Í þessu máli er lánsfjárhæðin, í skjölum tengdum lánveitingunni, ýmist tilgreind í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, en oft þó íslenskum krónum einum saman. Á það til að mynda við um skilmálabreytinguna frá 29. nóvember 2008 og ákvörðun um lokagreiðslu frá 12. júní 2009.

Á þeim tíma er lánveitingin var innt af hendi var hún á hendi SP Fjármögnunar hf., sem var annar lögaðili en stefndi. Svo sem áður er rakið greiddi SP Fjármögnun hf. lánsfjárhæðina í íslenskum krónum út af eigin reikningi. Lánveitingin var þó bundin við fjármögnun á krana, sem þá lá fyrir að yrði keyptur í evrum frá hinum tilgreinda seljanda í Þýskalandi. SP Fjármögnun hf. tók að sér, fyrir milligöngu stefnda, að millifæra fjárhæðina til Þýskalands í evrum. Með því efndi SP Fjármögnun hf. samningsskuldbindingu sína í erlendum gjaldmiðli. Að því gættu hefur stefndi leitt í ljós að um erlent lán hafi verið að ræða. Stefnandi kaus að verja hluta lánsfjárhæðarinnar til að greiða vörugjöld og aðflutningsgjöld vegna kaupanna. Þegar til þessa er litið verður stefndi sýknaður bæði af aðal- og varakröfu stefnanda.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Halldór Reynir Halldórsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Hrannar Jónsson héraðsdómslögmaður.

Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Vélaverkstæðis Hjalta Einars ehf.

Málskostnaður fellur niður.