Print

Mál nr. 32/2018

Gamli Byr ses. (Gestur Jónsson lögmaður)
gegn
Íslandsbanka hf. (Andri Árnason lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli G ses. á hendur Í hf. var vísað frá Landsrétti. Í málinu krafðist G ses. þess að dómkvaddir matsmenn og nafngreindur starfsmaður Í hf. yrðu kvaddir fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Í úrskurði Landsréttar, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að matsmennirnir hefðu verið dómkvaddir í sérstöku matsmáli en ágreiningur um kröfu Í, sem matsgerðinni var ætlað að staðreyna, sætti meðferð héraðsdóms í öðru máli og hafði matsgerðin verið lögð fram í því eftir að úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp. Við meðferð þess máls ætti G ses. þess kost að leggja fram gögn og leiða matsmennina og önnur vitni til skýrslugjafar. Var því ekki talið að G ses. hefði við svo búið lögvarða hagsmuni af því að krafa hans í matsmálinu næði fram að ganga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. desember 2018, en kærumálsgögn bárust réttinum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 3. desember 2018, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Gamli Byr ses., greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 750.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Landsréttar 3. desember 2018.

Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Davíð Þór Björgvinsson og Þorgeir Ingi Njálsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 15. október 2018 en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2018 í málinu nr. M-147/2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dómkvaddir matsmenn í málinu og nafngreindur starfsmaður varnaraðila yrðu kvaddir fyrir dóminn til skýrslugjafar. Um kæruheimild er vísað til b- og c-liða 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

2. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

3. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvik

4. Með matsbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2013 krafðist varnaraðili þess að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til að meta nánar tiltekin atriði varðandi fjárhagsstöðu Byrs hf. 30. júní 2011. Matsþolar voru sóknaraðili og íslenska ríkið. Í matsbeiðninni er rakið að tilgangur matsins sé að staðreyna fjárhagslegt tjón sem varnaraðili kveðst hafa orðið fyrir vegna ætlaðra vanefnda matsþola á samningi 12. júlí 2011 þar sem varnaraðili keypti alla hluti í Byr hf. af matsþolum. Hinn 16. maí 2014 voru dómkvödd sem matsmenn þau Lúðvík Tómasson og María Sólbergsdóttir, löggiltir endurskoðendur.

5. Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er jafnframt rekið dómsmál milli sóknaraðila og varnaraðila þar sem sá síðarnefndi gerir kröfu um að tilgreind fjárkrafa hans á hendur sóknaraðila vegna hins ætlaða tjóns verði viðurkennd við slitameðferð sóknaraðila á grundvelli 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið er nr. X-32/2014 í málaskrá dómsins.

6. Með beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2018 krafðist sóknaraðili úrskurðar dómsins um að hinir dómkvöddu matsmenn teldust ekki hæfir sem dómkvaddir matsmenn í málinu. Varnaraðili krafðist þess að kröfunni yrði hafnað. Undir rekstri málsins krafðist sóknaraðili þess jafnframt að matsmennirnir og Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármála hjá varnaraðila, yrðu kvödd fyrir dóminn til skýrslugjafar. Varnaraðili mótmælti þeirri kröfu og var henni hafnað með hinum kærða úrskurði.

7. Í beiðni sinni frá maí 2018 vísar sóknaraðili til þess að matsmenn hafi verið að störfum og þegið reglubundið greiðslur frá varnaraðila í hartnær fjögur og hálft ár. Ekki sé ágreiningur um að dómkvaddir matsmenn eigi rétt á þóknun fyrir störf sín en setja verði því eðlileg mörk út frá sjónarmiðum um hæfi þeirra. Sóknaraðili telur ástæðu til að ætla að siðareglum löggiltra endurskoðenda hafi ekki verið fylgt. En þótt ekki væri við slíkar siðareglur að styðjast yrði niðurstaðan sú sama út frá ákvæði 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Framvinda matsmálsins beri þess glögg merki að hinir dómkvöddu matsmenn séu, meðvitað eða ómeðvitað, háðir matsbeiðanda og „það virðist vera samvinna þeirra á milli um að ljúka verkinu“. Þá sé athugasemdum sóknaraðila í engu sinnt.

8. Tilgangur þess að taka skýrslu af matsmönnunum og framkvæmdastjóra fjármála hjá varnaraðila sé meðal annars að krefjast þess að matsmenn og umræddur starfsmaður varnaraðila leggi fram ,,þau skjöl sem á vantar til að verða við kröfu sóknaraðila um gagnaframlagningu …“. Í bókun, sem sóknaraðili lagði fram í þinghaldi 23. ágúst 2018, eru talin upp þau gögn sem sóknaraðili krefst að matsmenn og varnaraðili leggi fram. Þá sé ætlunin að spyrja þá um atvik sem skipti máli við mat á hæfi matsmannanna. 

9. Varnaraðili tilkynnti Landsrétti 15. nóvember 2018 að matsmenn hefðu afhent honum matsgerð ásamt fylgiskjölum. Bréfinu fylgdi endurrit úr þingbók máls nr. X-32/2014 þar sem meðal annars kemur fram að í þinghaldi sama dag hafi matsgerðin ásamt fylgiskjölum verið lögð fram í því.

Niðurstaða

10. Matsmenn í máli þessu voru dómkvaddir á grundvelli XII. kafla laga nr. 91/1991 í sérstöku matsmáli. Við öflun sönnunar eftir fyrirmælum þessa kafla skal meðal annars farið eftir ákvæðum 60. til 66. gr. laganna eftir því sem við getur átt, sbr. 79. gr. þeirra. Samkvæmt því ákvæði tekur dómari, sem öflun sönnunar fer fram fyrir, ákvarðanir og úrskurðar um þau atriði varðandi hana sem hefðu ella borið undir dómara við rekstur máls. Ef sérstakt tilefni verður til þess meðan á öflun sönnunar stendur getur aðili óskað eftir því að frekari gagna verði aflað en beiðst var í byrjun. Getur dómari ákveðið hvort orðið verði við slíkri ósk. 

11. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 skal matsmaður semja rökstudda matsgerð þar sem þau sjónarmið eru greind sem álit hans er reist á og afhenda hana matsbeiðanda. Þegar matsgerð hefur verið afhent matsbeiðanda er hlutverki matsmanns lokið að öðru leyti en því að honum er samkvæmt 1. mgr. 65. gr. sömu laga skylt að kröfu aðila að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð og um atriði sem tengjast henni. Fram kemur í 1. mgr. 66. gr. laganna að dómari leysi með úrskurði meðal annars úr ágreiningi sem lýtur að hæfi matsmanns og í 6. mgr. 61. gr. segir að reynist matsmaður óhæfur til starfans kveðji dómari til annan í hans stað að kröfu matsbeiðanda.

12. Ágreiningur um þá kröfu varnaraðila, sem matsgerðinni var ætlað að staðreyna, sætir nú meðferð héraðsdóms í fyrrnefndu máli nr. X-32/2014 og hefur matsgerðin verið lögð fram í því. Við meðferð þess máls á sóknaraðili kost á því að leggja fram gögn og leiða matsmennina og önnur vitni til skýrslugjafar að skilyrðum laga nr. 91/1991 uppfylltum, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Gefst sóknaraðila þá tækifæri til að spyrja matsmennina, og eftir atvikum önnur vitni, út í atriði sem leitt geta í ljós hvort þá hafi brostið hæfi til starfans. Að þessu gættu verður ekki séð að sóknaraðili hafi á þessu stigi lögvarða hagsmuni af því að krafa hans, sem hinn kærði úrskurður tekur til, nái fram að ganga. Verður málinu því vísað frá Landsrétti.

13. Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá Landsrétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.