Print

Mál nr. 285/2017

Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.)
gegn
ónefndri dóttur, K og M (Haukur Örn Birgisson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Meðdómsmaður
  • Hæfi dómara
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem því var hafnað að E yrði gert að víkja sæti sem meðdómsmaður í máli sem höfðað var til ógildingar á úrskurði mannanafnanefndar og viðurkenningar á rétti ónefndrar dóttur M og K til að bera tiltekið nafn. Í úrskurði sínum hafði nefndin byggt á því að ritháttur nafnsins væri hvorki í samræmi við ritreglur íslensks máls né uppfyllti hann hefðarskilyrði vinnulagsreglna nefndarinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að E hefði tjáð sig opinberlega um ýmis ákvæði laga nr. 45/1996 um mannanöfn og meðal annars skilað athugasemdum við drög að lagafrumvarpi þar sem gert væri ráð fyrir afnámi laga nr. 45/1996. Í þeim athugasemdum hefði E bent á að viðmiðin í vinnulagsreglum mannanafnanefndar væru umdeilanleg og án beinnar lagastoðar, og að hin nýju frumvarpsdrög væru veruleg réttarbót sem afnæmu þá mismunun sem fælist í gildandi lögum og væri í raun mannréttindabrot. Þar sem hinn umþrætti úrskurður væri meðal annars reistur á umræddum vinnulagsreglum og krafa varnaraðila á því reist að skýra beri lög um mannanöfn í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu, hefði E með ummælum sínum tjáð sig um atriði sem ágreiningur í málinu lyti að á þann hátt að draga mætti óhlutdrægni hans með réttu í efa. Var honum því gert að víkja sæti í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. maí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að meðdómsmaðurinn Eiríkur Rögnvaldsson viki sæti í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með úrskurði mannanafnanefndar uppkveðnum  [...] í máli nr. [...] var hafnað beiðni K og M vegna ónefndrar dóttur þeirra um að hún megi bera nafnið [...]. Í kjölfarið var mál þetta höfðað 19. september 2016 til ógildingar á úrskurðinum og viðurkenningar á rétti stúlkunnar til að bera áðurgreint nafn. Málið var þingfest 20. sama mánaðar og átti aðalmeðferð í því að hefjast 28. apríl 2017. Í þinghaldi þann dag krafðist sóknaraðili þess að meðdómsmanninum Eiríki Rögnvaldssyni prófessor yrði gert að víkja sæti. Þeirri kröfu hafnaði dómurinn með hinum kærða úrskurði.

Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að áðurnefndur meðdómsmaður sé vanhæfur til meðferðar málsins, en í því reyni á allmörg atriði við skýringu á lögum nr. 45/1996 um mannanöfn, sem aðila greini á um. Meðdómsmaðurinn hafi tjáð sig opinberlega um ýmis ákvæði og skýringu á lögunum, meðal annars í athugasemdum sínum við drög að frumvarpi til laga þar sem gert var ráð fyrir afnámi laga nr. 45/1996.

Í úrskurði mannanafnanefndar kemur fram að til að unnt sé að samþykkja eiginnafn þurfi öllum skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 að vera fullnægt. Í málinu reyni á það skilyrði ákvæðisins að nafn skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Ritháttur nafnsins [...] sé ekki í samræmi við þær reglur þar sem bókstafurinn [...] sé ekki notaður í íslenskri stafsetningu. Á þennan rithátt nafnsins sé því aðeins hægt að fallast „ef hann telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.“ Við mat á því hvort hefð hafi komist á um notkun á nafninu hafi nefndin stuðst við vinnulagsreglur, sem hún hafi sett sér 19. janúar 2015 og byggðar séu á athugasemdum  með frumvarpi til laga um mannanöfn og eldri vinnulagsreglum. Þar sem nafnið fullnægði ekki skilyrðum gildandi vinnulagsreglna hafnaði nefndin beiðninni.

Í framangreindum athugasemdum meðdómsmannsins sagði meðal annars: „Við beitingu hefðarákvæðisins hefur mannanafnanefnd komið sér upp ákveðnum vinnulagsreglum ... En viðmiðin í þessum reglum eru umdeilanleg og eiga sér ekki beina stoð í lögum“. Þá sagði í niðurstöðukafla athugasemdanna: „Hin nýju frumvarpsdrög eru veruleg réttarbót og afnema þá mismunun sem felst í gildandi lögum og er í raun mannréttindabrot.“

Krafa varnaraðila er meðal annars reist á því að skýra beri lög um mannanöfn í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu. Þá eru forsendur úrskurðar mannanafnanefndar meðal annars reistar á þeim vinnulagsreglum, sem meðdómsmaðurinn hefur talið samkvæmt framansögðu að eigi sér ekki beina stoð í lögum.  Með áður tilvitnuðum ummælum hefur meðdómsmaðurinn tjáð sig um atriði, sem ágreiningur í málinu lýtur að, á þann hátt að draga má óhlutdrægni hans með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Ber honum því að víkja sæti í málinu.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

          Meðdómsmaðurinn Eiríkur Rögnvaldsson skal víkja sæti í máli þessu.

          Kærumálskostnaður fellur niður.         

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2017.

                Mál þetta höfðuðu M og K, bæði til heimilis að [...], f.h. óskírðrar dóttur sinnar, fæddrar [...], með stefnu birtri 19. september 2016 á hendur íslenska ríkinu.  Málið er höfðað til ógildingar á úrskurði Mannanafnanefndar og til viðurkenningar á rétti stefnanda til að bera nafnið [...]. 

                Dómari málsins taldi að þörf væri sérkunnáttu í dómi til að leysa úr málsástæðum aðila, svo og að sakarefnið væri mikilvægt frá almennu sjónarmiði.  Samþykkti dómstjóri að meðdómendur tækju sæti í dóminum. Tilnefndi dómstjóri Hólmfríði Grímsdóttur héraðsdómara, en dómsformaður kvaddi prófessor Eirík Rögnvaldsson til setu í dóminum. 

                Stefndi krafðist þess að meðdómandinn Eiríkur Rögnvaldsson viki sæti. 

                Stefnandi mótmælti þessari kröfu stefnda. 

                Stefndi byggir á því að g-liður 5. gr. laga nr. 91/1991 eigi við um sérstakt hæfi meðdómandans.  Fyrir hendi séu atvik sem réttlæti það að óhlutdrægni hans verði dregin í efa.  Hefur stefndi lagt fram frásagnir af ummælum meðdómandans og afrit greinar sem hann ritaði og birti í tímariti. 

                Ummælin sem vísað er til lýsa þeirri skoðun meðdómandans að fólk ætti að hafa sjálfdæmi um nöfn sín.  Þá koma fram fleiri atriði eins og að rök standi ekki til þess að hafa skörp skil á milli karlmannsnafna og kvenmannsnafna.  Þá segir að ákvæði laga um ættarnöfn standist ekki jafnréttishugmyndir nútímans.  Gefur hann í skyn að mismunun sú sem felist í lögunum brjóti gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá er lýst þeirri skoðun að þótt mönnum og konum sem flytja til landsins og verða íslenskir ríkisborgarar, sé ekki gert að breyta nafni sínu, sé ekki unnt að skíra börn hér á landi í höfuð þeirra, eins og alsiða sé.  Þetta geti valdið miklum sárindum og hugarangri.  Í lok greinarinnar segir að hin nýju frumvarpsdrög séu veruleg réttarbót og þau afnemi þá mismunun sem felist í gildandi lögum og sé í raun mannréttindabrot. 

                Þessi ummæli telur stefndi sýna að ekki sé fullvíst að meðdómandinn geti litið óhlutdrægt á málavöxtu í þessu máli. 

                Stefnandi mótmælir kröfu stefnda. Telur hann að allt sem haft hafi verið eftir meðdómandanum vitni um skoðanir hans á því hvernig lögum ætti að haga, en ekki hvernig eigi að dæma eftir gildandi lögum. Mannanöfn séu hluti af fræðasviði hans sem prófessors í íslenskri málfræði. 

                Niðurstaða

                Ekki er vitað til þess að Eiríkur Rögnvaldsson hafi tjáð sig sérstaklega um nafnið [..] í tengslum við íslensk mannanafnalög. 

                Í þeim heimildum sem raktar voru hér að framan koma fram ákveðnar skoðanir meðdómandans á því hvernig lögum skuli hagað og þeim breytt.  Hann hefur ekki tjáð sig um sakarefni þessa máls.  Í þeim greinum sem vísað hefur verið til og lagðar fyrir dómara er að finna umfjöllun málfræðings um málefnið.  Hann hefur einnig lýst þeirri skoðun að lögin um mannanöfn brjóti í bága við stjórnarskrá með því að takmarka heimildir til notkunar ættarnafna.  Það varðar ekki sakarefni þessa máls.  Að þessu virtu telur dómari að ekki sé rökstudd ástæða til að draga óhlutdrægni meðdómandans Eiríks Rögnvaldssonar í efa.  Verður kröfu stefnda því hafnað. 

Úrskurðarorð

                Kröfu um að meðdómandinn Eiríkur Rögnvaldsson víki sæti er hafnað.