Print

Mál nr. 826/2016

Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.)
gegn
Autonomy Capital LP (Pétur Örn Sverrisson hrl.), Autonomy Master Fund Limited (Pétur Örn Sverrisson hrl.), GAM Trading (Nr. 37) (Pétur Örn Sverrisson hrl.) og Autonomy Iceland Two S.á.r.l. (Pétur Örn Sverrisson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var að hluta til greina krafa A. o.fl um dómkvaðningu matsmanna til að svara átta spurningum án þess að mál hefði verið höfðað gegn Í. Var hinn kærði úrskurður staðfestur að öðru leyti en því að hafnað var að leggja þrjár matsspurninganna fyrir hina dómkvöddu matsmenn þar sem þær væru einvörðungu að leita mats á atriðum sem bersýnilega væru tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eða hefðu ekki tengsl við atvik að baki væntanlegum kröfum A o.fl. á hendur Í, sbr. 1. mgr. 77. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2016, þar sem tekin var að hluta til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Matsbeiðni varnaraðila er reist á XII. kafla laga nr. 91/1991 um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað, sbr. 1. mgr. 77. gr. laganna. Með beiðni  sinni hyggjast varnaraðilar afla sönnunar um hagfræðilegar forsendur að baki setningu laga nr. 37/2016 um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, er þeir telja að feli í sér margháttaða skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum sínum, til þess að renna stoðum undir væntanlegar dómkröfur sínar á hendur sóknaraðila. Í beiðninni eru tilgreindar 11 spurningar sem varnaraðilar óskuðu efir að lagðar yrðu fyrir dómkvadda matsmenn. Með úrskurði héraðsdóms var fallist á kröfu varnaraðila um að dómkvaddir yrðu matsmenn til þess að svara spurningum þessum, að undanskildum 2., 3. og 5. spurningu, og una varnaraðilar við þá niðurstöðu héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að dómkvaddir verði matsmenn til þess að leggja mat á og svara 1., 4., 6., 7. og 8. spurningu varnaraðila.

Spurningu nr. 6 í matsbeiðni varnaraðila er ætlað að varpa ljósi á hvort meðalhófs hafi verið gætt með þeim aðgerðum sem kveðið er á um í lögum nr. 37/2016. Með spurningu nr. 10 virðist það einnig vera ætlun varnaraðila að leita svars við því hvort unnt hefði verið að beita vægari aðgerðum en fram koma í lögunum til þess að ná því markmiði sem að var stefnt með setningu þeirra. Með hliðsjón af fyrri spurningunni er sú síðari bersýnilega tilgangslaus til sönnunar og verður því ekki lögð fyrir matsmenn, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, en ekkert er því til fyrirstöðu að varnaraðilar láti matsmönnum í té tillögur sínar sem vísað er til í spurningunni.

Með spurningu nr. 8 í matsbeiðninni er þess farið á leit að matsmenn leggi mat á hvort viðmiðunargengið 220 krónur fyrir hverja eina evru endurspegli raunstöðu íslensks efnahagslífs við setningu laga nr. 37/2016. Ekki verður ráðið af matsbeiðninni hvaða tengsl spurningar nr. 9 og 11, sem báðar lúta að ákvörðunum Seðlabanka Íslands sem stjórnvalds, hafa við atvik að baki væntanlegum kröfum varnaraðila á hendur sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum verða þær spurningar ekki heldur lagðar fyrir matsmenn.

Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna til að leggja mat á og svara þeim spurningum sem nánar greinir í dómsorði, en rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að matsspurningar nr. 9, 10 og 11 verða ekki lagðar fyrir dómkvadda matsmenn.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2016

Með beiðni, sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. júní sl., fór sóknaraðilinn Autonomy Capital LP, 90 Park Avenue (31 st floor) New York, NY 10016, Bandaríkjum Norður-Ameríku, þess á leit fyrir eigin hönd og fyrir hönd annarra sóknaraðila, þ.e. eftirtalinna sjóða sem félagið hefur í stýringu: Autonomy Master Fund Limited, GAM Trading (No. 37) og Autonomy Iceland Two S.à.r.l., að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að svara þeim matsspurningum sem fram koma í matsbeiðni. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila, íslenska ríkisins.

Málið var þingfest 9. september sl. Varnaraðili mótmælti fram kominni beiðni og lagði fram bókun mótmæla vegna beiðninnar í þinghaldi 30. september sl. Krefst hann þess að beiðni sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málið var tekið til úrskurðar 16. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi.

I

Málsatvik og tilurð matsbeiðni

Sóknaraðilar lýsa atvikum og tilurð beiðninnar svo að sóknaraðilinn Autonomy Capital LP sé alþjóðlegt fjárfestingarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hafi hann staðið í umfangsmiklum fjárfestingum á Íslandi um langt árabil í gegnum ýmis dóttur- og hlutdeildarfélög. Almennir fjárfestar, svo sem eftirlauna- og lífeyrissjóðir, háskóla- og góðgerðarsjóðir, auk einstaklinga, standi að baki fjárfestingum sóknaraðila á Íslandi. Meðal fjárfestinga sóknaraðila á Íslandi séu ríkisskuldabréf og víxlar sem féllu á gjalddaga á tímabilinu fram til loka október sl. Umfang þessara fjárfestinga á Íslandi nema tugum milljarða króna.

Þá segir nánar í matsbeiðni að í kjölfar falls hinna þriggja stóru viðskiptabanka á Íslandi í október 2008 hafi gjaldeyrislögum verið breytt í nóvember sama ár og fjármagnshöftum komið á til þess að tryggja stöðugleika íslensku krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu hennar. Með breytingunni hafi Seðlabanka Íslands verið veitt heimild, í samráði við viðskiptaráðherra, til þess að setja reglur í því skyni að takmarka fjármagnshreyfingar til og frá Íslandi og gjaldeyrisviðskipti þeim tengd.

Með bréfum sóknaraðila til Seðlabanka Íslands í nóvember og desember 2015 hafi sá fyrrnefndi lýst áhyggjum sínum vegna fyrirætlana stjórnvalda í tengslum við afnám fjármagnshafta og þau áhrif sem þær aðgerðir kæmu til með að hafa á fjárfestingar sóknaraðila á Íslandi.

Í bréfi frá 8. desember 2015, sem erlendur lögmaður sóknaraðila ritaði, sé því lýst að í kynningu stjórnvalda á aðgerðaráætlun til losunar fjármagnshafta, sem fram hafi farið þann 8. júní 2015, hafi stjórnvöld gert grein fyrir því að svokallaður aflandskrónuvandi yrði leystur með því að eigendum aflandskróna yrði gefinn kostur á að taka þátt í gjaldeyrisútboðum eða fjárfesta í íslenskum ríkisskuldabréfum til 20 ára með endurgreiðsluferli sem samræmdist langtímagreiðsluferli þjóðarbúsins og væru með útgöngugjaldi fyrstu sjö árin. Afar takmarkaðar upplýsingar hafi að öðru leyti verið tilgreindar um framkvæmd og lagaleg eða efnahagsleg áhrif hvors kostanna um sig. Engar upplýsingar eða vísbendingar hafi á þeim tíma legið fyrir um á hvaða grundvelli verðmyndun á hinum fyrirhuguðu gjaldeyrisútboðum yrði byggð eða hversu gagnsæ, eða ógagnsæ eftir atvikum, hún kynni að verða. Í kynningu stjórnvalda hafi komið fram að ef til þess kæmi að einhver tilgreindra fjármagnseigenda kysi að taka ekki þátt í gjaldeyrisútboði eða fjárfesta í ríkisskuldabréfum til 20 ára yrði sá hinn sami látinn sæta afarkostum. Kynnt var að afarkostir þessir fælu í sér að fjármunum viðkomandi yrði ráðstafað inn á læsta reikninga til langs tíma án vaxta. Jafnframt var tekið fram að kjör færu versnandi eftir því sem tíminn liði og gerðu þennan kost óverjandi fyrir fjármagnseigendur til frambúðar. Hvorki hafi verið tekið fram hve lengi féð ætti að vera óaðgengilegt eigendum sínum með þessum hætti né hvernig hin vaxtalausu kjör gætu farið versnandi eftir því sem tíminn liði. Af kynningunni hafi mátt skilja að umræddar aðgerðir stjórnvalda yrðu látnar gilda um alla þá sem skilgreindir væru sem hluti af hinum svokallaða aflandskrónuvanda, þ.m.t. sóknaraðila. Svo virtist sem þar hafi engu skipt hvers eðlis fjárfestingar viðkomandi væru eða hvort viðkomandi hefði yfirhöfuð hug á því að leita útgöngu fyrir fjármuni sína.

Í fyrrnefndu bréfi hafi þeirri skoðun sóknaraðila verið lýst, að þær efnahagslegu forsendur sem byggt var á þegar framangreind áætlun stjórnvalda var samin hafi ekki lengur átt við, enda hafi mikill efnahagslegur bati átt sér stað á Íslandi næstliðin tvö til þrjú ár á undan og efnahagsleg staða þjóðarbúsins mun sterkari en hún hafi verið um langt skeið. Sóknaraðilar teldu því að allar efnahags- og lagalegar forsendur skorti til þess að þeir yrðu beittir jafn íþyngjandi aðgerðum og boðaðar voru í kynningu stjórnvalda auk þess sem boðaðar aðgerðir brytu í bága við stjórnarskrárvarin réttindi hans, m.a. um jafnræði og eignarrétt.

Í kjölfarið hafi orðið formleg samskipti og fundir milli sóknaraðila og stjórnvalda, m.a. með fulltrúum framkvæmdahóps um afnám fjármagnshafta, þar sem sóknaraðilar hafi sett fram tillögur sínar um lausnir sem að hans mati væru til þess fallnar að leysa þann vanda sem upp væri kominn, án ágreinings.

Í tillögum sóknaraðila frá 19. febrúar 2016 hafi m.a. verið reifuð lausn sem samrýmdist greiðslujafnaðaráskorunum íslenska þjóðarbúsins. Hafi hún falið í sér tíu tímabila lausn þar sem afsláttur af krónueignum sóknaraðila færi stigminnkandi yfir 5 ára tímabil. Afsláttur af fyrstu útborgun krónueigna hefði verið 20% og farið stiglækkandi niður í 0% á níunda tímabilinu. Lausnin hefði gert stjórnvöldum og Seðlabanka Íslands kleift að greiða sóknaraðila án þess að þurfa að notast við gjaldeyrisforða þjóðarbúsins. Innflæði gjaldeyris samkvæmt efnahagsspám Seðlabankans sjálfs hefði dugað til að leysa vandann.

Frá því að þessi tillaga var lögð fram hafi staða þjóðarbúsins batnað og sé skoðun Seðlabanka Íslands sú að horfur hér á landi séu með besta móti, sbr. t.d. nýjasta hefti ritsins Fjármálastöðugleiki, sem gefið sé út af Seðlabankanum, nýjasta hefti ritsins Peningamál sem einnig sé gefið út af Seðlabankanum og ræðu seðlabankastjóra á aðalfundi bankans þann 17. mars sl. Nánari upplýsingar og gögn um þessi málefni munu lögð fram á matsfundi, þegar þar að komi. Sóknaraðilar telja óskiljanlegt að grípa þurfi til svo íþyngjandi aðgerða eins og útboð Seðlabanka Íslands feli í sér.

Í öðrum samskiptum sóknaraðila og stjórnvalda hafi ítrekað komið fram vilji þess fyrrnefnda til þess að fjárfesta á Íslandi til lengri tíma í markaðshæfum ríkisbréfum og öðrum fjármálagerningum með sama hætti og ýmsir aðrir innlendir og erlendir fjárfestar. Hafa sóknaraðilar sýnt þann vilja í verki, m.a. með því að sækja um undanþágur frá gjaldeyrishöftum, samkvæmt heimild í lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, til fjárfestinga í ríkisskuldabréfum með gjalddaga allt til ársins 2025. Þannig hafa sóknaraðilar lagt á það áherslu í samskiptum við stjórnvöld að hann hyggist ekki leita útgöngu úr íslensku hagkerfi heldur vilji þvert á móti fjárfesta til framtíðar á Íslandi.

Sóknaraðilar kveðast frá upphafi samskipta sinna við stjórnvöld hafa gagnrýnt skort á gagnsæi í tillögum þeirra og síðar þeim aðgerðum sem felast í lögum nr. 37/2016. Þeir hafi reynt með ýmsum hætti að fá upplýsingar um tilhögun boðaðra aðgerða stjórnvalda og væntanleg áhrif á stöðu sína en fengið litlar sem engar upplýsingar. Í því samhengi er bent á að þann 6. maí 2016 hafi verið sent bréf til Seðlabanka Íslands þar sem óskað var svara við tilteknum spurningum og álitaefnum sóknaraðila. Erindinu hafi ekki verið svarað.

Þá hafi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis verið sent erindi þann 11. maí 2016 vegna væntanlegrar lagasetningar í tengslum við aðgerðir stjórnvalda við afnám fjármagnshafta. Í erindinu hafi verið lýst áhyggjum af fyrirætlunum stjórnvalda og því tjóni sem þær muni valda á hagsmunum sóknaraðila. Í erindinu hafi verið ítrekað að sóknaraðilar hefði ekki í hyggju að selja eignir sínar á Íslandi í skiptum fyrir gjaldeyri heldur hygði á áframhaldandi fjárfestingar á Íslandi. Jafnframt hafi verið áréttað í erindinu að sóknaraðilar teldi fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda brjóta í bága við ýmsar grunnreglur stjórnarskrár og stjórnsýslu auk skuldbindinga íslenska ríkisins að þjóðarrétti og að staða þjóðarbúsins og stöðugleiki í gjaldeyrismálum hefði batnað til muna misserin á undan. Þannig yrðu aðgerðir gagnvart sóknaraðila ekki byggðar á sögulegum grunni eða með skírskotun til efnahagslegra þátta fyrir hartnær áratug, heldur yrði að horfa til þess efnahagslega veruleika sem sem uppi væri þegar ráðist væri í aðgerðir og þörf þeirra metin á þeim grunni. Í erindi sóknaraðila hafi einnig verið gerð grein fyrir því að óskað hafi verið undanþágu frá fjármagnshöftum, líkt og áður er rakið, án þess að undanþágubeiðnum hefði verið svarað.

Þann 20. maí 2016 hafi verið lagt fram á Alþingi frumvarp að lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Frumvarpið var samþykkt, með örfáum breytingum, þann 22. maí 2016 og öðluðust lögin þegar gildi sem lög nr. 37/2016.

Samkvæmt 1. gr. laganna sé markmið þeirra að stuðla að losun fjármagnshafta og skapa grundvöll fyrir frjáls milliríkjaviðskipti með íslenskar krónur, með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi. Í því skyni sé mælt fyrir um meðferð tiltekinna krónueigna, svonefndra aflandskróna sem verði áfram háðar sérstökum takmörkunum sem ætlað er að draga úr áhættu við að ná framangreindum markmiðum. Í 2. gr. laganna sé hugtakið aflandskrónur skilgreint og mæla lögin fyrir um sérstakar takmarkanir á ráðstöfun slíkra eigna. Jafnframt geri lögin ráð fyrir því að aflandskrónueigendum verði gefinn kostur á að skipta slíkum eignum fyrir gjaldeyri og komast þannig hjá þeim takmörkunum sem lögin kveði á um. Lögin feli þannig efnislega í sér að sóknaraðila sé gert að skipta krónueignum sínum fyrir gjaldeyri með tugprósenta afföllum eða sæta því ella að eignirnar verði læstar á sérstökum innstæðureikningum sem beri litla sem enga vexti og séu úttektir af reikningunum háðar takmörkunum. Samkvæmt lögunum sé ákvarðað sérstakt viðmiðunargengi íslenskrar krónu sem sé 220 krónur á móti einni evru. Það gengi virðist ákveðið með hliðsjón af vegnu meðaltali í 21 útboði sem Seðlabanki Íslands hafði forgöngu um á ríflega þriggja ára tímabili frá 7. júní 2011 til 10. febrúar 2015. Ekki sé í lögskýringargögnum að finna útskýringar á því hvers vegna viðmiðunargengið er lögfest eða við hvað það styðst að öðru leyti.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/2016 sé einnig að finna órökstuddar fullyrðingar um að þær eignir, sem með lögunum féllu undir hugtakið aflandskrónur sem ekki hafði að lögum verið skilgreint áður, væru kvikari en aðrar eignir og því frekar líklegar til þess að leita útgöngu í einu vetfangi. Jafnframt var á sama stað fullyrt að öðru máli gilti um aðrar krónueignir enda fylgdi þeim svokölluð heimaslagsíða (e. „home bias“).

Þann 21. maí 2016 hafi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis verið send umsögn um frumvarp það er síðar varð að lögum nr. 37/2016. Í umsögninni hafi verið færð rök fyrir því að í skýringum að baki frumvarpinu væri ekki gerð grein fyrir því með rökstuddum hætti hvers vegna þörf væri aðgerða af þeim toga sem boðaðar væru í frumvarpinu og lögð áhersla á góðar efnahagshorfur á Íslandi auk vilja sóknaraðila til fjárfestinga á Íslandi. Í umsögninni hafi einnig verið færð frekari rök en áður fyrir því að með frumvarpinu væri m.a. brotið gegn eignarrétti sóknaraðila, jafnræðisreglu, sjónarmiðum um meðalhóf auk þess sem með því væri sóknaraðila mismunað með ólögmætum hætti á grundvelli þjóðernis.

Með auglýsingu sem birt var þann 25. maí sl. hafi verið kynntir skilmálar útboðs Seðlabanka Íslands vegna kaupa á íslenskum krónum í skiptum fyrir evrur. Samkvæmt þeim skilmálum hafi verið miðað við að verð fyrir hverja evru væri á bilinu 190–210 krónur eftir þátttöku. Útboðið hafi farið fram þann 16. júní sl. Gerðar hafi verið breytingar á skilmálum útboðsins í tvígang frá því að það var fyrst auglýst.

Með lögum nr. 42/2016 hafi verið gerðar tilteknar breytingar á áðurnefndum lögum nr. 37/2016, m.a. sú að Seðlabanka Íslands var veitt heimild til þess að ákveða á hverjum tíma þá fjármálagerninga sem eigendum innstæðna á reikningum háðum sérstökum takmörkunum, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 37/2016, yrði heimilt að fjárfesta í. Hins vegar sé þess ekki getið hvernig heimild Seðlabankans verði nýtt. Telja sóknaraðilar því að framangreind breyting á lögunum bæti ekki úr og lögin séu enn því marki brennd að verulega skorti á gagnsæi og skýrleika þeirra aðgerða sem lögin boða gagnvart sóknaraðila. Enda láti lögin og þau lögskýringargögn sem þeim fylgja ekkert uppi um það hvaða forsendur eigi að liggja að baki ákvörðun Seðlabankans og bent á að þrátt fyrir breytingarnar séu möguleikar sóknaraðila á fjárfestingum á Íslandi enn háðir veigamiklum takmörkunum.

Sóknaraðilar kveðast árétta að eignir þeirra sem sæta skerðingu á grundvelli frumvarpsins samanstandi annars vegar af ríkisbréfum (skuldabréf eða víxlar) sem hvort tveggja séu skuldbindingar íslenska ríkisins, og hins vegar lausu fé í íslenskum krónum sem gefnar hafi verið út af Seðlabanka Íslands og sé lögeyrir á Íslandi. Telja sóknaraðilar engin rök standa til þess að eignir þeirra í íslenskum krónum séu meðhöndlaðar með öðrum hætti en annað fé í sama lögeyri. Jafnframt telja sóknaraðilar að ríkari kröfur verði að gera til skuldbindinga ríkja en þar sem einkaaðilar séu skuldunautar. Grundvallarmunur sé á stöðu þeirra og erlendra aðila sem áttu kröfur á fjármálafyrirtæki í slitameðferð í kjölfar bankahrunsins á Íslandi í október 2008. Sé á þetta bent til þess að setja það álitaefni sem hér er undir í rétt samhengi.

II

Matsbeiðni og matsspurningar

Í beiðni sóknaraðila segir að óskað sé eftir rökstuddu áliti matsmanna á eftirfarandi matsspurningum:

1. Þess er óskað að matsmenn leggi mat á hvert er raunverulegt eðli og umfang hins svokallaða greiðslujafnaðarvanda sem íslenskt hagkerfi glímir við miðað við 16. júní 2016.

2 Hver er staða efnahagsmála á Íslandi með sérstöku tilliti til greiðslujafnaðar og stöðugleika í gengis- og peningamálum á eftirfarandi tímabilum:

a. þann 19. febrúar 2016;

b. þann 23. maí 2016;

c. þann 16. júní 2016; og

d. á þeim degi er mat þetta er framkvæmt,

samanborið við stöðu efnahagsmála í sama tilliti við árslok á hverju af árunum 2009 til og með 2015?

3. Hefur staða efnahagsmála á Íslandi almennt og með sérstöku tilliti til greiðslujafnaðar og stöðugleika í gengis- og peningamálum tekið breytingum síðan:

a. Frá ársbyrjun 2009 og til 16. júní 2016 og ef svo er, hver er batinn á hverju þeirra ára sem um er að ræða, hvert er umfang batans og í hverju er batinn fólginn?

b. 8. júní 2015 og til dagsins í dag og ef svo er, hver er batinn, hvert er umfang batans og í hverju er batinn fólginn?

4. Þess er óskað að matsmenn leggi rökstutt mat á það hvort aflandskrónueignir, eins og þær eru skilgreindar í lögun nr. 37/2016 og lögskýringargögnum að baki þeim, séu líklegar til þess að hafa veruleg áhrif á gengisstöðugleika og stöðu gjaldeyrisforða ef fjármagnsflutningar með aflandskrónueignir yrðu frjálsir.

a. Við mat á framangreindu er þess óskað að matsmenn meti hvort aflandskrónur séu kvikari en aðrar eignir í þeim skilningi að líklegra sé að þær leyti útgöngu úr íslensku efnahagskerfi en aðrar krónueignir.

b. Þess er óskað að matsmenn leggi mat á það hvort mismunandi form aflandskrónueigna, eins og þeir eignaflokkar eru skilgreindir í 1. mgr. 2. gr. stafliðum a.-h., séu öll jafn líkleg til þess að leita útgöngu í einu vetfangi verði fjármagnshöftum aflétt.

c. Sé þess kostur er óskað eftir því að matsmenn leggi mat á hve mikið af aflandskrónueignum í fjárhæðum talið muni leita útgöngu við losun fjármagnshafta.

5. Þess er óskað að matsmenn beri saman stöðu íslensks þjóðarbús, miðað við hentugt tímamark sem næst 16. júní 2016, (sem hlutfall af þjóðarframleiðslu) við önnur OECD-ríki varðandi skuldastöðu viðmiðunarríkja í skuldaviðurkenningum útgefnum í eigin mynt hvers ríkis um sig gagnvart erlendum fjármagnseigendum sem búsettir eru utan viðkomandi landa.

6. Sé það mat matsmanna samkvæmt spurningu 4 hér að framan að ef allar aflandskrónueignir leituðu samtímis útgöngu hefði það veruleg áhrif á gengisstöðugleika og stöðu gjaldeyrisforða er þess óskað að matsmenn leggi á það mat hvort mögulegt sé út frá hagfræðilegu sjónarmiði að draga úr neikvæðum áhrifum af slíku útflæði fjármagns með vægari aðgerðum en þeim sem kveðið er á um í lögum nr. 37/2016.

7. Þá er þess óskað að matsmenn leggi mat á það hvort um allar aðrar krónueignir en aflandskrónur gildi að þeim fylgi svokölluð heimaslagsíða (e. home bias).

8. Þess er óskað að matsmenn leggi mat á það hvort viðmiðunargengið 220 íslenskar krónur fyrir hverja eina evru endurspegli raunstöðu íslensks efnahagslífs við setningu laga nr. 37/2016. 

9. Þess er óskað að matsmenn leggi mat á það hvort gengi það sem auglýst hefur verið í útboði Seðlabanka Íslands, á bilinu 210-190 íslenskar krónur fyrir hverja evru endurspegli raunstöðu íslensks efnahagslífs hinn 16. júní 2016.

10. Þess er óskað að matsmenn leggi mat á það hvaða áhrif það hefði haft á gengisstöðugleika og stöðu gjaldeyrisforða ef skriflegar tillögur matsbeiðenda sem afhentar og kynntar voru á fundi með framkvæmdahópi um afnám fjármagnshafta í Seðlabanka Íslands hinn 19. febrúar sl. hefðu orðið grundvöllur samkomulags milli matsbeiðenda og íslenskra stjórnvalda.

11. Telja matsmenn eðlilegt í hagfræðilegu tilliti að miða gengi í útboði Seðlabanka Íslands við meðaltal í gjaldeyrisútboðum sem haldin hafa verið á tímabilinu 2011 til 2015 fremur en að miða slíkt gengi við efnahagslega stöðu á þeim tíma er útboð fer fram, að teknu tilliti til mismunandi stöðu í efnahagsmálum á hverjum tíma frá 2011 til 2015 og að teknu tilliti til mismunandi forsendna og skilmála í þeim gjaldeyrisútboðum sem framkvæmd hafa verið á sama tímabili?

III

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðilar vísa til þess að meginreglan í íslensku réttarfari sé sú að sönnunarfærsla sé frjáls, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 og af því leiði að dómstólar standi ekki í vegi fyrir öflun sönnunargagna með matsgerð sem sé á áhættu og ábyrgð matsbeiðanda. Það eigi eingöngu við í þeim tilvikum þar sem ljóst sé að lagaskilyrði 77. og 78. gr. séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði sem bersýnilegt sé að skipti ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða beiðnin beinist að atriði sem ekki heyri undir matsmenn að fjalla um, sbr. 2. mgr. 60. gr. sömu laga. Þetta hafi margoft komið fram í dómum Hæstaréttar á þessu sviði. Allan vafa um hvort þessi undantekningartilvik eigi við skuli skýra matsbeiðanda í hag enda beri hann ábyrgð á sönnunargildi matsgerðar og kostnað af öflun hennar.

Þá verði að hafa hugfast að eðli málsins samkvæmt eigi sá sem óskar eftir öflun mats á grundvelli XII. kafla laga nr. 91/1991, án þess að mál sé höfðað þess, ekki kost á að gera með tæmandi hætti grein fyrir endanlegum kröfum sínum og málatilbúnaði að öðru leyti og því beri að fara enn varlegar í sakirnar en ella við mat á því hvort sönnunarfærsla teljist bersýnilega tilgangslaus í skilningi 3. mgr. 46. gr. laganna.

Skilyrði fyrir dómkvaðningu matsmanna samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 séu þau að sönnunarfærslan sé til þess gerð að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni, sbr. 1. mgr. 77. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. skuli í beiðni greina skýrt frá því atviki sem leitað er sönnunar um, hvernig sönnunar verði aflað, hvaða réttindi séu í húfi og hverja aðra sönnunin varði að lögum. Enginn vafi sé um að skilyrði þessi séu uppfyllt í máli þessu.

Skýrlega komi fram í beiðni sóknaraðila að það sé mat þeirra að lög nr. 37/2016, sbr. lög nr. 42/2016, feli í sér margháttaða skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra án þess að sýnt hafi verið fram á að almannaþörf krefji eða að aðrar réttlætingarástæður séu til staðar. Þá komi þar nánar fram að það sé mat sóknaraðila að með lögunum sé brotið gegn eignarrétti þeirra, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, í þeim felist ólögmæt mismunun á grundvelli þjóðernis og brot á jafnræðisreglu í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar auk þess sem með lögunum sé gengið mun lengra en þörf krefji til þess að markmiðum þeirra verði náð. Sóknaraðilar hyggist því láta reyna á rétt sinn í þessum efnum. Ætlun með matsbeiðninni sé að afla sönnunargagna í því skyni að sýna fram á að sóknaraðilar þurfi ekki að sæta áðurnefndri eignaskerðingu laga nr. 37/2016 bótalaust, m.a. með tilliti til sjónarmiða um meðalhóf og lögmæt markmið í almannaþágu. Álitaefni um hvort ákvæði laganna, aðrar ákvarðanir og ráðstafanir varnaraðila í tengslum við fjármagnshöft og afnám þeirra, brjóti í bága við skráðar og óskráðar grundvallarreglur laga, þ.m.t. ákvæði stjórnarskrár um jafnræði, friðhelgi eignarréttar, meginreglur um meðalhóf og önnur slík atriði, muni koma til kasta dómstóla á síðari stigum og að fengnum öllum þeim sönnunargögnum sem aðilar telji þörf á að tefla fram til stuðnings kröfum sínum. Í væntanlegu dómsmáli muni því reyna á hvort tiltekin ákvæði laganna standist stjórnarskrá og aðrar skuldbindingar varnaraðila gagnvart sóknaraðilum. Skilyrði 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um lögvarða hagsmuni sé því uppfyllt enda sé matinu ætlað að sanna tiltekin atvik að baki kröfum sóknaraðila í máli þar sem varnaraðili verði krafinn um skaðabætur vegna þeirrar ólögmætu eignarskerðingar sem lögin feli í sér að mati sóknaraðila. Áhrif þessarar ólögmætu eignarskerðingar séu þau að sóknaraðilum sé torveldað að ávaxta fjármuni sína hérlendis. Þeim bjóðist afar lág ávöxtun og verulega lægri en aðrir krónueigendur búi við, eða einungis tæplega 10 hundraðshluta af stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Jafnhliða því séu þeim settar umfangsmiklar skorður við notkun eigna sinna. Kröfugerð í væntanlegu dómsmáli muni taka mið af þessu. Að svo komnu máli hafi hún þó ekki verið fullmótuð, eins og áður sagði, enda ekki þörf á því að hún liggi fyrir við öflun mats á þeim grunni sem hér sé gert.

Þá geti enginn vafi verið á því að sóknaraðilar hafi allir lögvarða hagsmuni af því að fallist verði á beiðnina. Sóknaraðilinn Autonomy Capital LP sé sjóðastýringarfyrirtæki. Hann sé ekki sjálfur skráður fyrir neinum eignum hjá vörsluaðilum en hann sé með stöðu sem sé sambærileg við rekstrarfélag verðbréfasjóða sem skilgreint sé í 2. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og hafi því hagsmuna að gæta með þeim hætti. Aðrir sóknaraðilar, þ.e. Autonomy Master Fund Ltd., GAM Trading (No. 37) og Autonomy Iceland Two S.à.r.l., séu sjálfstæðir lögaðilar, skráðir beint fyrir eignum hjá vörsluaðilum sem séu andlag þeirrar skerðingar samkvæmt lögum nr. 37/2016 sem sé tilefni beiðni þessarar. Fyrstnefndi sóknaraðilinn beri ábyrgð á þeim þremur sjóðum sem síðar eru tilgreindir og eignirnar eru skráðar á og bera ábyrgð gagnvart sínum umbjóðendum.

Sóknaraðilar benda á að í athugasemdum að baki frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 37/2016 komi fram að það sé brýnt að losun fjármagnshafta tefjist ekki frekar og nauðsynlegt sé að grípa til þeirra ráðstafana sem felist í frumvarpinu, án þess að gerð sé grein fyrir því með rökstuddum hætti hvers vegna sé þörf aðgerða af þeim toga sem lögin feli í sér. Sóknaraðilar telja efnahagshorfur á Íslandi góðar og allt aðrar en hafi verið til staðar í lok nóvember 2008 þegar fjármagnshöft hafi verið innleidd á Íslandi. Það mat sóknaraðila byggi annars vegar á opinberum hagtölum, sem birti mælingar opinberra aðila á raunstærðum í íslensku efnahagslífi, og hins vegar á spám bæði opinberra aðila og einkaaðila á fjármálamarkaði. Telja sóknaraðilar því að þær aðgerðir sem lögin hafi í för með sér verði ekki réttlættar með vísan til efnahagslegrar nauðsynjar. Með matsbeiðni þessari freista sóknaraðilar þess að afla sér sönnunar á því að önnur og vægari úrræði hafi verið tiltæk stjórnvöldum til þess að ná markmiðum laga nr. 37/2016.

Með dómkvaðningunni hyggist sóknaraðilar afla mats um nánar tilteknar efnahagslegar forsendur sem lagðar voru til grundvallar við undirbúning og setningu laga nr. 37/2016, sem tóku gildi þann 23. maí 2016. Líkt og fram komi í umsögn matsbeiðanda um lagafrumvarp það sem varð að lögum nr. 37/2016 sé það mat sóknaraðila að lagasetningin feli í sér margháttaða skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum hans án þess að sýnt sé fram á að almannaþörf krefji eða að aðrar réttlætingarástæður séu til staðar. Jafnframt sé það ætlan matsbeiðanda að fá metið hvort hægt væri að ná efnahagslegum markmiðum um afléttingu fjármagnshafta með öðrum leiðum, og minna íþyngjandi fyrir eigendur þess fjármagns sem nú sé skilgreint sem aflandskrónur, en þeirri ólögmætu skerðingu er sóknaraðilar telja að felist í lögum nr. 37/2016. Þá sé það ætlan sóknaraðila að fá matsmenn til þess að leggja mat á efnahagsleg áhrif tillagna til lausnar greiðslujafnaðarvandanum er kynntar voru fulltrúum framkvæmdahóps um afnám fjármagnshafta á fundi í húsakynnum Seðlabanka Íslands hinn 19. febrúar sl.

Fyrir sóknaraðilum vaki að afla sönnunar um tiltekin atvik og efnahagslegar staðreyndir að baki væntanlegum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila. Muni í dómsmálinu m.a. reyna á atriði er varði það hvort tiltekin ákvæði áðurnefndra laga nr. 37/2016 standist stjórnarskrá og aðrar skuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart sóknaraðilum. Dómstólar skeri úr um álitaefni af þessum toga og þegar álitaefnin varði það hvort efnahagslegar forsendur, og hvers kyns önnur réttlæting sem teflt sé fram í tilefni lagasetningar eða annarra ráðstafana stjórnvalda fái staðist, þá sé fráleitt að sá sem verða kann fyrir tjóni eigi þess ekki kost að afla sönnunargagna sem sýnt geta fram á að umræddar forsendur eigi ekki við rök að styðjast. Öll þau atriði sem sóknaraðilar óski mats á séu til þess gerð að færa dómara, sem muni hafa efnislega úrlausn ágreinings aðila til umfjöllunar, í hendur sönnunargögn um atriði sem skipt geta máli við mat á því hvort brotið hafi verið gegn stjórnarskrárvörðum rétti sóknaraðila, t.d. hvort gengið hafi verið lengra en efni stóðu til við lagasetningu eða tilteknar ráðstafanir stjórnvalda. Dómari meti sönnun í máli eftir þeim gögnum sem fyrir liggi, sbr. 44. gr. laga nr. 91/1991, og það sé ekki á hendi varnaraðila að binda hendur dómara um það, hvorki nú né síðar, hvort tiltekin gögn eða upplýsingar geti skipt máli. Með engu móti sé verið að færa það í hendur matsmanna að skýra ákvæði stjórnarskrárinnar líkt og varnaraðili haldi fram. Það verði ávallt í höndum dómara sem hafi vald til að skera úr um gildi laga og lögmæti stjórnarathafna andspænis stjórnarskrá.

Á hinn bóginn sé verið að varpa ljósi á efnahagslegar forsendur fyrir lagasetningu og annarri meðhöndlun löggjafans og handhafa framkvæmdarvalds eftir atvikum á stjórnarskrárvörðum réttindum sóknaraðila svo dómstólum sé kleift að taka afstöðu til væntanlegra krafna sóknaraðila og meta hvort hinar umdeildu ráðstafanir hafi verið byggðar á hlutlægum og málefnalegum grunni.

Þá sé engan veginn hægt að líta svo á að eitthvert þeirra atriða sem sóknaraðilar hyggist leita mats um sé þess eðlis að það varði lagalegt mat í skilningi 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 og heyri því ekki undir matsmenn heldur dómara að taka afstöðu til. En jafnvel þótt svo yrði talið benda sóknaraðilar á að það eitt og sér leiði ekki til þess að matsbeiðni verði hafnað enda myndi niðurstaða slíks mats ekki binda hendur dómara. Sé því mótmælt þeim sjónarmiðum varnaraðila að með beiðninni sé verið að óska eftir endurskoðun lagaatriða. Þá sé hvergi í lögum að finna stoð fyrir þeirri fullyrðingu varnaraðila að ekki sé hægt að fá dómkvadda matsmenn til að leggja mat á þær forsendur sem löggjafinn leggur til grundvallar lagasetningu, hvort sem það sé í því skyni að láta reyna á gildi laga andspænis stjórnarskrá eða í því skyni að láta reyna fyrir dómi á lögmæti aðgerða handhafa framkvæmdarvaldsins sem byggja kunni á umdeildri lagasetningu.

Þá benda sóknaraðilar á að í dómum þar sem deilt hafi verið um stjórnskipulegt gildi laga sé dæmi um að Hæstiréttur hafi vísað til þess að aðila máls hafi ekki tekist sönnun þess efnis að aðrar leiðir hafi verið færar í átt að því markmiði sem löggjöf stefni að. Engan veginn sé því hægt að líta svo á að matsgerðin hafi ekki þýðingu og sönnunarfærslan sé bersýnilega tilgangslaus.

Hvað varði einstakar spurningar taka sóknaraðilar fram að athugasemdir varnaraðila við þær séu að mestu leyti þess eðlis að þær lúti efnislega að röksemdum og málsástæðum varnaraðila í væntanlegu dómsmáli. Slíkt geti þó engu máli skipt um það hvort sóknaraðilum verði heimilað að afla matsgerðar á þessu stigi málsins. Þá hafni sóknaraðilar því að einstakar spurningar séu of víðtækar og óljósar líkt og varnaraðili haldi fram. En jafnvel þótt svo væri byggja sóknaraðilar á því að það geti ekki haft þær afleiðingar að hafna beri matinu enda sé það á ábyrgð sóknaraðila. Auk þessa vilja sóknaraðilar taka eftirfarandi fram varðandi einstakar spurningar:

Sóknaraðilar kveða spurningu nr. 1 vera ætlað að varpa ljósi á eðli og umfang þess vanda sem löggjafarvaldið staðhæfði að væri til staðar í tengslum við setningu laga nr. 37/2016 og réttlætti skerðingu eigna sóknaraðila. Það sé afstaða sóknaraðila að ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir hinum svokallaða greiðslujafnaðarvanda sem þó sé tilgreindur í frumvarpinu sem forsenda eignaskerðingar. Það varði sóknaraðila miklu að geta sannreynt hvort mat löggjafans byggi á réttum forsendum. Þá skipti engu máli þótt vera kunni að einhver gögn séu í fórum Seðlabanka Íslands sem séu undanþegin upplýsingarétti eftir ákvæðum upplýsingalaga enda beri matsmönnum að afla sér gagna til afnota fyrir matið og um heimildir þeirra og aðgang fari eftir ákvæðum laga nr. 91/1991, sbr. 2. og 3. mgr. 62. gr. þeirra, þ.m.t. reglum um vitnaskyldu. Reynist matsmönnum ekki unnt að svara spurningum til fulls vegna skorts á aðgangi að gögnum geti það haft áhrif á sönnunargildi matsgerðarinnar en ráði engu um það hvort hin umbeðna dómkvaðning fari fram. Þá geti ekki átt við um þessa spurningu að hún sé bersýnilega tilgangslaus sönnunarfærsla í skilningi 3 mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Þá sé spurningu nr. 2 ætlað að sýna fram á að efnahagsleg staða íslenska ríkisins hafi ekki tekið miklum stakkaskiptum á tímabilinu frá árslokum 2009 til þess dags er útboð fór fram í júní 2016. Spurningu nr. 3 sé ætlað að draga fram umfang þess efnahagsbata og þeirra jákvæðu breytinga sem orðið hafi á því tímabili sem þar greini. Þá geti ekki átt við um þessar spurningar að þær séu bersýnilega tilgangslaus sönnunarfærsla í skilningi 3 mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Með spurningu nr. 4 sé ætlunin að varpa ljósi á það hvort sú fullyrðing fái staðist að aflandskrónur séu líklegri en aðrar krónur til þess að leita útgöngu úr íslensku efnahagskerfi. Með spurningu nr. 5 sé ætlunin að fá mat dómkvaddra matsmanna á því að hvaða leyti skuldastaða íslenska ríkisins sé sambærileg stöðu annarra OECD-ríkja í ákveðnu tilliti. Sóknaraðilar hafi forræði á væntanlegum málatilbúnaði sínum og eru ósammála því að þessi samanburður skipti engu máli.

Með spurningu nr. 6 sé þess freistað að fá hlutlaust mat á því hvort önnur og vægari úrræði hefðu staðið til boða andspænis þeim hagfræðilega vanda sem þjóðarbúið kann að hafa staðið frammi fyrir ef eigendur allra hinna svokölluðu aflandskróna hefðu leitað útgöngu á sama tíma.

Hvað varði spurningu nr. 7 taka sóknaraðilar fram að hugtakið „heimaslagsíða“ komi fyrir í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/216. Því sé nauðsynlegt að afla sönnunargagna um það í hvaða tilfellum hugtakið eigi við m.a. til að sannreyna hvort allir eigendur krónueigna sem hugtakið gildi ekki um hafi sætt sambærilegri skerðingu eigna.

Þá sé spurningum nr. 8 og 9 ætlað að styrkja grundvöll krafna sóknaraðila í væntanlegu dómsmáli þar sem með lögum nr. 37/2016 hafi verið veitt takmörkuð heimild til þess að eiga viðskipti með aflandskrónueignir á viðmiðunargengi sem skilgreint sé sem 220 krónur á móti einni evru.

Spurningu nr. 10 sé ætlað að sýna fram á að sú lausn sem sóknaraðilar lögðu til hafi verið til þess fallin að ná markmiðum um losun hafta án þess að beita hefði þurft þeirri víðtæku eignarskerðingu sem lög nr. 37/2016 feli í sér. Því hafi verið gengið lengra en nauðsynlegt var í aðgerðum gegn sóknaraðilum og öðrum í sambærilegri stöðu.

Hvað varði spurningu nr. 11 sé tilgangur hennar að afla mats á því hvort einhliða ákvörðun varnaraðila um gengi í svokölluðu útboði sé réttmæt einkum með tilliti til þess hvernig forsendur hennar séu skýrðar í lögskýringargögnum að baki lögum nr. 37/2106.

Sóknaraðilar kveðast telja mikilvægt að tryggja hlutleysi matsmanna og óhæði þeirra gagnvart efnahagslegri stöðu Íslands og hugsanlegum afleiðingum málshöfðunar sóknaraðila. Af þeim sökum sé þess krafist að til matsins verði fengnir erlendir aðilar sem hafi yfirgripsmikla þekkingu á hagfræði, efnahagsmálum og gjaldeyrisjöfnuði þjóðríkja. Jafnframt telji sóknaraðilar nauðsynlegt að matsmenn hafi þekkingu á markaði með ríkistryggð skuldabréf og aðrar ríkistryggðar skuldaviðurkenningar auk þess að geta lagt mat á þróun og áhrif gjaldeyrisviðskipta á efnahag þjóðríkja.

IV

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um matsbeiðni verði hafnað. Byggir varnaraðili í fyrsta lagi á því að formskilyrði 77. og 78. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt.

Varnaraðili kveður 1. mgr. 77. gr. laganna heimila aðila sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta að beiðast dómkvaðningar matsmanns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli sé það gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni.

Matsbeiðni sóknaraðila lúti almennt að gagnrýni á þær forsendur sem lög nr. 37/2016 byggi á og mati löggjafans í þeim efnum. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2016 sé skilmerkilega og ítarlega gerð grein fyrir mati löggjafans vegna fyrirhugaðrar löggjafar. Engin efni séu til að telja matsgerð erlendra manna hafa þýðingu um hvort ákvæði laganna standist ákvæði stjórnarskrár eða aðrar heimildir ef á reyni í dómsmáli. Það yrði alfarið dómstóla að meta eftir því sakarefni sem lagt yrði fyrir þá til úrlausnar.

Þá hafi sóknaraðilar ekki gert grein fyrir kröfuréttindum sínum heldur aðeins lýst því að þeir hafi staðið í umfangsmiklum fjárfestingum á Íslandi í gegnum ýmis dóttur- og hlutafélög. Þó komi fram að meðal fjárfestinga sóknaraðila á Íslandi séu ríkisskuldabréf og víxlar sem fallið hafi á gjalddaga á tímabilinu fram til loka október sl. Engin nánari lýsing sé gefin á því hver þau kröfuréttindi séu sem sóknaraðilar eigi eða á eðli þeirra. Boða sóknaraðilar að það verði gert í greinargerð til matsmanna auk þess sem þar verði fjallað um stöðu efnahagsmála hérlendis auk frekari gagna.

Þá sé ekkert fjallað um það í beiðni sóknaraðila hvers konar kröfur þeir hafi í hyggju að beina að íslenska ríkinu í dómsmáli. Það sé ekki fyrr en í bókun sem sóknaraðilar hafi lagt fram á síðari stigum sem þessu séu gerð einhver skil. Þá sé ekki lýst í matsbeiðni hvaða eða hvers kyns skerðing á stjórnarskrárvörðum réttindum eða kröfum að áliti matsbeiðanda hafi komið sérstaklega fram með setningu laga nr. 37/2016. Vísi sóknaraðilar þó almennt til tveggja ákvæða stjórnarskrár, 65. gr. og 72. gr. Þá hafi þeir ekki sýnt fram á hvaða lögvörðu hagsmuni þeir hafi af mati dómkvaddra manna. Verði ekki séð hvaða skerðingar sóknaraðilar eigi við í matsbeiðni, enda sé ekki fyrir að fara sérstökum takmörkunum sem ekki voru þegar komnar til sögunnar áður en lög nr. 37/2016 tóku gildi. Með vísan til þessa uppfylli beiðnin ekki 1. mgr. 77. gr. eða 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991.

Þá kveðst varnaraðili benda á að álitamál um það hvort lög standist stjórnarskrá sé ekki sönnunaratriði í þeim skilningi heldur leggi dómstólar á það mat á grundvelli stjórnlaga og skýringa á stjórnarskrá. Annað væri tæplega í samræmi við 2. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæði XI. og XII. kafla laga nr. 91/1991 geti ekki talist úrræði til að fá hnekkt forsendum laga, tilgangi löggjafans eða vilja hans. Þvert á móti sé um að ræða atriði sem dómstólar eiga lagalegt mat um, sbr. 2. mgr. 60. gr. laganna. Engin stoð sé fyrir því að dómkveðja matsmenn til að meta efnahagslegar forsendur við undirbúning og setningu laga. Af þessum ástæðum beri einnig að hafna beiðni um dómkvaðningu.

Almennt kveðst varnaraðili telja þær spurningar sem bornar séu upp í matsbeiðni um margt óljósar, yfirgripsmiklar og um þess háttar viðfangsefni og forsendur að engin efni séu til að afla mats um þær á grundvelli ákvæða XII. kafla laga nr. 91/1991. Sé til að mynda óskað eftir mati á „raunverulegu eðli og umfangi hins svokallaða greiðslujafnaðarvanda“, „stöðu efnahagsmála á Íslandi“ með tilliti til greiðslujafnaðar í ýmsu samhengi, hagfræðileg líkindi á rás atburða í framtíðinni, „stöðu íslensks þjóðarbús“ í öðru samhengi, hvort gengi krónunnar miðað við evru „endurspegli raunstöðu íslensks efnahagslífs við setningu laga nr. 37/2016“, hvað sé „eðlilegt í hagfræðilegu tilliti“, o.s.frv. Spurningarnar séu ekki sérstaklega tengdar lýsingu á kröfum sóknaraðila, tilgangi matsbeiðninnar eða fyrirætlan um málarekstur, enda skorti alla reifun á þeim atriðum. Þá sé gengið svo langt í matsbeiðninni að óskað sé eftir mati á tillögum sóknaraðila sem settar hafi verið fram á fundi í Seðlabanka Íslands í febrúarmánuði síðastliðnum.

Með vísan til alls þessa telur varnaraðili að ekki séu lagaskilyrði til að fallast á beiðni um dómkvaðningu matsmanna í samræmi við ofangreint og kveðst hann einnig vísa til 3. mgr. 46. gr. og niðurlags 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, enda sé ekki ljóst hvað sóknaraðilar áforma sönnun um með umbeðnu mati.

Verði beiðninni ekki hafnað þegar af þessum ástæðum tekur varnaraðili eftirfarandi fram um einstakar spurningar:

Spurning 1.

Með tilvísun til greiðslujafnaðarvanda íslenska hagkerfisins sé átt við raunhæfan möguleika á ójafnvægi í hagkerfinu þegar komi að flæði fjármagns milli landa, og/eða vegna annarra breytinga á viðskipta- og fjármagnsjöfnuði, sem geta valdið óstöðugleika þegar kemur að gengismálum og/eða fjármögnun innlendra aðila, og bera með sér veruleg neikvæð ytri áhrif. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands geri bankinn skýrslur og áætlanir um peningamál, greiðslujöfnuð, gengis- og gjaldeyrismál og annað sem hlutverk og stefnu hans varðar. Greiðslujafnaðargreining bankans byggi á trúnaðargögnum sem bankinn hafi sjálfur aflað til hagskýrslugerðar, sbr. 2. mgr. 29. gr. og 1. mgr. 35. gr. sömu laga, og í því skyni að framkvæma greininguna þurfi starfsmenn bankans að setja fram ólíkar „sviðsmyndir“, þ.e.a.s. að meta hvernig ólíkar forsendur hafi mismunandi áhrif á tiltekna þætti. Talsverður munur geti falist í spám um greiðslujöfnuð, með hliðsjón af þeim forsendum sem lágu til grundvallar, líkt og eigi við um allar hagspár.

Framangreind spurning sóknaraðila sé víðtæk og ekki sett fram í samhengi við hvort unnt sé að sannreyna kröfu eða atvik að baki henni. Þá sé ekki vísað til tiltekinna forsendna eða þátta sem hafa skuli til hliðsjónar við mat á greiðslujafnaðarvandanum. Þá sé ljóst að ítarleg greiðslujafnaðargreining Seðlabankans byggi m.a. á mati bankans á undirliggjandi erlendri stöðu þjóðarbúsins á grundvelli ýmissa trúnaðargagna, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 og úrskurð úrskurðarnefndar upplýsingamála í máli nr. 558/2014. Um sé að ræða viðkvæmar markaðstengdar upplýsingar sem bankinn safni á grundvelli hagskýrslugerðar, auk forsendna úr spám bankans sem snerti grundvöll peningastefnu. Í fyrrnefndu máli úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafi nefndin fallist á að þagnarskylda ætti við um aðgang að greiningu bankans á greiðslujöfnuði með vísan til þess hversu víða í gögnunum væru upplýsingar undanþegnar upplýsingarrétti. Af þessu sé vandséð á hvaða forsendum og gögnum greining dómkvaddra matsmanna ætti að byggja. Þessu til viðbótar megi nefna að greiningar Seðlabankans á greiðslujafnaðarvanda íslenska hagkerfisins hafi undanfarið verið unnar í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, AGS, en sjóðurinn hafi m.a. það hlutverki að tryggja stöðugleika alþjóðlega fjármálakerfisins með því að fylgjast með gengi gjaldmiðla og greiðslujöfnuði milli aðildarríkja. Með því hafi greiðslujafnaðargreining Seðlabankans hingað til verið unnin á traustum, faglegum og hlutlausum forsendum í samstarfi við erlenda aðila sem séu sérhæfðir í slíkum greiningum.

Spurning 2.

Varnaraðili kveður spurningu þessa vera allt of víðtæka og óljósa. Ekki sé skýrt hvort verið sé að óska eftir því að matsmenn meti stöðu efnahagsmála á Íslandi með tilliti til greiðslujafnaðar og stöðugleika í gengis- og peningamálum á þessum tilteknu dagsetningum í sögulegu samhengi, þ.e. með hliðsjón af hagtölum eins og þær reyndust vera á hverjum tíma fyrir sig, eða hvort matsmenn eigi að leggja sérstakt mat á þessi atriði með hliðsjón af spám um greiðslujöfnuð og stöðugleika í gengis- og peningamálum á hverjum tíma fyrir sig, sem byggist þá á væntingum um framtíðarþróun. Sé um hið síðarnefnda að ræða sé rétt að undirstrika að þegar spáð er fyrir um þróun greiðslujafnaðar er byggt á viðeigandi forsendum á hverjum tíma fyrir sig. Slíkar spár feli í sér áætlun um mögulega þróun fram í tímann, með hliðsjón af næmi þjóðarbúskaparins gagnvart fjölmörgum forsendum, t.d. um gengisþróun, endurfjármögnun lána, þróun viðskiptakjara, vaxta o.fl., en sem fyrr segir sé ekki vísað til tiltekinna forsendna eða þátta sem hafa skuli til hliðsjónar við greiðslujafnaðargreininguna.

Þess beri jafnframt að geta að torvelt yrði að framkvæma slíka greiningu á greiðslujöfnuði og stöðugleika í gengis- og peningamálum á tilteknum dagsetningum líkt og gert sé ráð fyrir í spurningu matsbeiðanda, en óskað sé eftir að greiningin miðist við tilteknar viðmiðunardagsetningar með minnst rúmlega þriggja vikna millibili. Benda megi á að við greiningu á greiðslujöfnuði og stöðugleika í gengis- og peningamálum þurfi helst að miða við tilteknar skiladagsetningar á þeim gögnum sem liggi til grundvallar greiningunni, en algengt sé að slík skil séu sum hver einu sinni í mánuði, en langflest einu sinni á hverjum ársfjórðungi. Þess vegna sé óraunhæft að velja tilteknar dagsetningar af handahófi til greiningar á greiðslujöfnuði með þessum hætti. Sömuleiðis virðist sóknaraðilar gera ráð fyrir því að með slíkri greiðslujafnaðargreiningu mætti sjá marktækar breytingar á þriggja vikna tímabili innan ársfjórðungs, en slíkt beri með sér að misskilnings gæti hjá sóknaraðilum um eðli greiðslujafnaðargreiningar með hliðsjón af flæðistærðum og næmni í heilu hagkerfi.

Að auki sé erfitt að átta sig á tilgangi greiningar á efnahagsaðstæðum á þeim dagsetningum sem nefndar séu í matsbeiðninni, því sú staða sem að endingu skipti einhverju máli hljóti að vera staðan á þeim tíma sem til álita komi að losa fjármagnshöftin. Af þessum ástæðum öllum sé spurningin bersýnilega tilgangslaus í skilningi 2. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 og uppfylli að mati varnaraðila ekki skilyrði 77. gr. laganna.

Spurning 3.

Í þessari spurningu virðist sóknaraðilar vera að óska eftir hagtölum um stöðu efnahagsmála á Íslandi almennt og með sérstöku tilliti til greiðslujafnaðar og stöðugleika í gengis- og peningamálum. Í þessu samhengi vísi varnaraðili til sjónarmiða sinna við fyrstu tveimur spurningum sóknaraðila. Þar sem ekki sé verið að óska eftir spám um þróun greiðslujafnaðar sé vandséð hvernig slík greining gæti byggst á öðru en opinberum hagtölum, sbr. fyrrnefndan úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 558/2014.

Spurning 4.

a-liður

Varnaraðili kveður skilgreiningu laga nr. 37/2016 miða að því að hún taki til krónueigna sem leita kunni á innlendan gjaldeyrismarkað við losun hafta, óháð raunverulegum eigendum, með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir almannahag. Ljóst sé að raunverulegir eigendur aflandskrónueigna séu bæði innlendir og erlendir aðilar.

Markaðsvirði aflandskrónueigna ráðist ekki á innlendum verðbréfa- og gjaldeyrismarkaði heldur á aðskildum aflandskrónumarkaði. Ólíkt markaðsgengi á innlendum gjaldeyrismarkaði, sem ráðist einkum af vöru- og þjónustuviðskiptum, ráðist markaðsvirði þessara eigna í erlendum gjaldeyri einkum af væntingum aðila, sem eigi viðskipti á aflandskrónumarkaði, um tímasetningu og gengi við losun fjármagnshafta, þ.m.t. líkum á verulegum fjármagnsflótta, og þörf þeirra sem selja aflandskrónur fyrir laust fé í erlendum gjaldeyri. Flestir núverandi aflandskrónueigendur hafi keypt þessar eignir á aflandsmarkaði á aflandsgengi sem endurspegli þessar væntingar. Við losun hafta á aflandskrónueignir munu þessir aðilar því flestir raungera gengishagnað takist þeim að selja eignirnar á gengi sem sé hagstæðara en aflandsgengið sem þeir keyptu þær á. Því séu eigendur aflandskróna líklegri en aðrir krónueigendur til þess að vilja innleysa hagnað með því að selja krónueignir við losun hafta.

Þessu til viðbótar megi geta þess að rannsóknir sýni að fjárfestingar almennt einkennist af svokallaðri heimaslagsíðu. Þannig hafi fjárfestar á Íslandi tilhneigingu til þess að fjárfesta meira í innlendum krónuverðbréfum en ætla mætti út frá sjónarmiðum ávöxtunar og áhættudreifingar og aflandskrónueigendur hafi tilhneigingu til að fjárfesta aðallega í þeim gjaldmiðlum sem skuldbindingar þeirra séu í. Líkurnar á því að eigendur aflandskróna erlendis vilji skipta krónum í gjaldeyri við losun hafta séu því meiri en líkur á því að innlendir eigendur sambærilegra eigna, sem séu t.d. í flestum tilvikum með umtalsverðar skuldbindingar í innlendum gjaldeyri, vilji gera slíkt hið sama. Aflandskrónueignir svari enn til 11% af vergri landsframleiðslu. Áhrif þess að heimila viðskipti á milli innlendra og erlendra aðila með núverandi aflandskrónur gætu því orðið mikil. Vitneskjan um að aflandskrónueigendum yrði heimilað að skipta krónum fyrir erlendan gjaldeyri, á sama tíma og innlendum heimilum og fyrirtækjum, gæti magnað upp óróleika á meðal innlendra fjárfesta og ýtt undir almennan fjármagnsflótta úr landi.

Þótt staða gjaldeyrisforða sé nægilega góð til að hefja losun hafta á heimili og fyrirtæki í áföngum veiti hún ekki svigrúm til óhefts útflæðis aflandskrónueigna á sama tíma. Því sé óhjákvæmilegt að áfangaskipta losun fjármagnshafta. Aflandskrónueigendum hafi þegar verið gefið tækifæri, á undan öðrum, til þess að kaupa erlendan gjaldeyri úr gjaldeyrisforða Seðlabankans. Ef þau viðskipti hefðu farið fram á innlendum gjaldeyrismarkaði hefði krónan fallið verulega með tilheyrandi efnahagslegum afleiðingum. Innlendir aðilar munu hins vegar ekki geta treyst á að Seðlabankinn selji úr forða sínum til þess að auðvelda þeim erlenda fjárfestingu nema að því marki sem það þjónar lögbundnum markmiðum um stöðugleika verðlags og fjármálakerfisins. Ólíkt aflandskrónueigendum verði þeim ekki tryggt tiltekið útgöngugengi. Í ljósi þeirrar óvissu sem ríki um uppsafnaða fjárfestingarþörf innlendra aðila erlendis væri afar óvarlegt að losa á sama tíma höft á þá eigendur aflandskróna sem ekki tóku þátt í útboði Seðlabankans. Slíkt gæti sett áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta úr skorðum, sbr. nánari umfjöllun um c-lið matsspurningar þessarar.

b-liður

Skilgreining á hugtakinu aflandskrónueign sé sett fram í átta stafliðum í 1. tölulið 2. gr. laga nr. 37/2016, þar sem hugtakið sé afmarkað bæði út frá formi eignarinnar og svo skráðum eiganda eða vörsluaðila hennar. Með þessum hætti hafi skilgreining á aflandskrónueignum verið nánar útfærð en áður hafi verið og lúti að uppruna eignanna. Með hliðsjón af ofangreindum sjónarmiðum um a-lið spurningar þessarar telur varnaraðili ljóst að kvikleiki aflandskrónueigna sé fyrir hendi óháð formi þeirra. Hvorki tímalengd viðkomandi skuldbindinga né seljanleiki (illseljanlegar eða auðseljanlegar) hefur í þeim efnum veruleg áhrif á hvata eigenda til að leita útgöngu við losun hafta og raungera þar með gengishagnað við losun fjármagnshafta. Með lögum nr. 37/2016 sé því ekki gerður greinarmunur á formi eigna heldur horft til uppruna þeirra og þeirra áhrifa sem uppruninn hafi á það hve líklegt sé að stór hluti eigenda tiltekinna eiga, sem séu í sambærilegri stöðu, vilji selja þær á skömmum tíma. Sé framangreind afmörkun m.a. útbúin með jafnræðissjónarmið að leiðarljósi.

c-liður

Hvað þennan lið varðar vill varnaraðili benda á að í ljósi þeirra sjónarmiða sem reifuð voru í sjónarmiðum við síðustu tvær spurningar sóknaraðila er það mat varnaraðila að það kynni að hafa veruleg áhrif á gengisstöðugleika og stöðu gjaldeyrisforða ef fjármagnsflutningar með aflandskrónueignir yrðu gerðir frjálsir á sama tíma og næsta skref er stigið í losun hafta á heimili og fyrirtæki. Hin neikvæðu áhrif á gengisstöðugleika og stöðu gjaldeyrisforða sem á sínum tíma voru tilefni þess að takmarka fjármagnshreyfingar á milli landa í innlendum gjaldeyri á haustmánuðum 2009 komi enn í veg fyrir að hægt sé losa höftin í einu skrefi þótt batnandi aðstæður gefi nú færi á varfærinni losun hafta í áföngum.

Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 37/2016 sé m.a. fjallað um áætlun um losun hafta frá árinu 2011, markmið hennar og þann árangur sem náðst hafði við að draga úr vanda sem aflandskrónueignir geti skapað við losun fjármagnshafta. Þá sé lýst afleiðingum þess ef allar eftirstæðar aflandskrónueignir fengju óhindraðan aðgang að innlendum gjaldeyrismarkaði.

Í þessu samhengi megi líta til þess, að í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands, með viðskiptadag 16. júní sl., og svo möguleika á viðskiptum á útboðsgengi til 27. júní sl. bárust 1.715 tilboð um sölu aflandskrónueigna frá 1.437 aðilum sem allir vildu leita útgöngu, á mismunandi verðum þó. Heildarfjárhæð þess fjármagns sem boðið var fram í útboðinu hafi numið um 58,9% af heildarfjárhæð aflandskrónueigna, sem nam um 319 ma.kr. þegar útboðið var haldið. Af því má sjá að engin tilefni séu fyrir stjórnvöld til að líta öðruvísi á málið en þannig að fyrir hendi sé veruleg hætta á því að án þeirra aðgerða sem lög nr. 37/2016 feli í sér kæmi til umfangsmikilla fjármagnsflutninga við losun hafta á aflandskrónueignir sem hefðu áhrif á gengisstöðugleika og stöðu gjaldeyrisforða og þar með efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að umfang aflandskrónueigna nemi um 65% af veltu á gjaldeyrismarkaði síðasta árs og um 80% af þeim hluta gjaldeyrisforða Seðlabankans sem fjármagnaður er innanlands.

Jafnframt beri að árétta að með ofangreindri spurningu gefi sóknaraðilar sér að mögulegt sé að greina með vissu hversu mikið af aflandskrónueignum í fjárhæðum talið muni leita útgöngu við losun fjármagnshafta. Varnaraðili telur ljóst að slíkt mat yrði ávallt að byggja á því hversu mikið af eignunum væri „líklegt“ að leituðu útgöngu. Hér sé sömuleiðis mikilvægt að árétta að ekki er skynsamlegt, hvorki að mati varnaraðila né AGS, að taka einungis mið af því sem talið er líklegast á hverjum tíma varðandi eftirspurn aflandskrónueigenda eftir erlendum gjaldeyri í kjölfar losunar fjármagnshafta heldur þurfi að gera ráð fyrir mörgum ólíkum sviðsmyndum í þeim efnum, þ.m.t. áhrifum útflæðis allra aflandskrónueigna við losun fjármagnshafta. Ljóst sé að jafnvel þótt líkur á sumum mögulegum sviðsmyndum séu ekki yfirgnæfandi þá gætu efnahagslegar og félagslegar afleiðingar óhefts útflæðis gjaldeyris við losun fjármagnshafta orðið svo geigvænlegar, raungerist sviðsmyndirnar, að óréttlætanlegt væri að taka ekki tillit til möguleikans á neikvæðum sviðsmyndum, einnig þeim sem eru síður líklegar, þegar hugað sé að áfangaskiptingu losunar fjármagnshafta. Augljóst sé að í jafn opnu hagkerfi og hinu íslenska hafi mikil gengislækkun íslensku krónunnar og langvarandi óstöðugleiki í gengismálum afar neikvæð áhrif á efnahag heimila og fyrirtækja, sem þegar hafi gengið í gegnum einhverja alvarlegustu efnahagskreppu í hartnær heila öld. Með hliðsjón af varfærnissjónarmiðum og stjórnskipulegum rétti og skyldu stjórnvalda til að gæta velferðar íslensks samfélags hafi verið talið nauðsynlegt að grípa til þeirra ráðstafana sem felast í lögum nr. 37/2016.

Spurning 5.

Hvað varði spurningu 5 telur varnaraðili óljóst hvaða þýðingu slíkur samanburður myndi hafa. Líta verði til þess að fjármagnshöft hafi verið við lýði á Íslandi frá árinu 2008 og líklegt að stór hluti hinna erlendu fjármagnseigenda myndi raungera gengishagnað hér á landi við óheft útflæði innlendra eigna þeirra. Þetta séu aðstæður sem ekki séu uppi hjá erlendum fjármagnseigendum í öðrum OECD-ríkjum sem geri það að verkum að mat á slíkri skuldastöðu hjá öðrum OECD-ríkjum sé með öllu ósambærilegt við sambærilega skuldastöðu hér á landi. Þá megi jafnframt líta til þess að stærð ríkja og stærð markaðar auk sögu viðkomandi hagkerfis og flökt hafi mikið að segja um þróun á matsliðum sem þessum. Samanburður sem þessi myndi því einungis vera upplýsandi um þessa stöðu hjá hinum mismunandi OECD-ríkjum en væri langt í frá lýsandi fyrir það hvernig æskilegt væri að slík staða væri.

Spurning 6.

Hvað spurningu 6 varði tekur varnaraðili fram að staðfest hafi verið af EFTA-dómstólnum með dómi 14. desember 2011 í máli nr. nr. E-3/11 (Pálmi Sigmarsson gegn Seðlabanka Íslands) að reglur sem takmarka frjálsa fjármagnsflutninga þurfi að vera til þess fallnar að ná markmiðum sem að sé stefnt og megi þær ekki ganga lengra en nauðsyn krefji. Enda þótt ráðstafanir samkvæmt lögum nr. 37/2016 séu ekki eins íþyngjandi og þær sem á undan hafi gengið frá setningu fjármagnshafta feli þær að hluta til í sér áframhaldandi takmarkanir á fjármagnsflutningum með sambærilegum hætti og í gildi hafi verið. Því þurfi þau skilyrði sem kveðið sé á um í 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins að vera fyrir hendi líkt og endranær vegna verndarráðstafana á borð við setningu og viðhald fjármagnshafta og ráðstafana í tengslum við losun þeirra.

Íslensk stjórnvöld hafi nokkurt svigrúm til að meta hvort þessi skilyrði eru fyrir hendi og hvaða úrræði séu viðeigandi líkt og rakið sé í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 37/2016. Sé vandséð að fyrir hendi séu vægari úrræði en það sem valið var, þegar fyrir liggi að ekki er æskilegt að afnema fjármagnshöft í einu skrefi. Þá sé rétt að árétta að sú afmörkun sem felst í lögum nr. 37/2016 feli ekki í sér frekari takmarkanir fyrir aflandskrónueigendur umfram það sem áður var heldur sé afmörkunin einvörðungu gerð í þeim tilgangi að forðast áhættu í tengslum við næstu skref í losun hafta sem nú munu beinast að heimilum og fyrirtækjum, verði frumvarp það sem nýverið var lagt fram að lögum.

Spurning 7.

Heimaslagsíða (e. home bias) sé hugtak sem vísi til tilhneigingar aðila til að fjárfesta á heimamarkaði frekar en á erlendum mörkuðum umfram það sem hagrænir þættir segi til um. Þessi slagsíða geti haft sterk áhrif á fjárfestingarákvarðanir jafnvel þó að aukin alþjóðleg eignadreifing feli jafnan í sér meiri áhættudreifingu. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi að lögum nr. 37/2016 hafi verið vísað til hugtaksins í því samhengi að aflandskrónueignum fylgdi mun minni heimaslagsíða (þ.e.a.s. frá sjónarhóli Íslands) en öðrum krónueignum, m.a. þar sem þær væru í verulegum mæli í eigu erlendra aðila. Líkurnar á því að þeim væri skipt í erlendan gjaldeyri við losun hafta væru þar af leiðandi meiri en líkurnar á því að öðrum krónueignum væri skipt í gjaldeyri. Með þessu hafi þó ekki verið fullyrt að öllum öðrum krónueignum fylgdi heimaslagsíða, enda séu þær ekki í eigu erlendra aðila heldur innlendra sem almennt hafi einnig skuldbindingar í krónum, t.d. lífeyrissjóðir.

Spurning 8.

Með þessari spurningu sé þess óskað að matsmenn leggi mat á hvort viðmiðunargengið endurspegli raunstöðu íslensks efnahagslífs við setningu laga nr. 37/2016. Í þessu samhengi bendir varnaraðili á að viðmiðunargengi þessu hafi ekki verið ætlað að endurspegla „raunstöðu íslensks efnahagslífs“, sem hafi afar óljósa merkingu, heldur hafi gengið tekið mið af stærð gjaldeyrisforðans miðað við æskilega stærð hans fyrir almenna losun fjármagnshafta að gefinni hámarksþátttöku aflandskrónueigenda. Með öðrum orðum, á genginu 220 hafi verið til nægur forði til þess að leysa út alla aflandskrónueigendur án þess að forðastaðan yrði í kjölfarið of veik til þess að hægt yrði að losa um höft á innlend heimili og fyrirtæki fljótlega, sbr. það sem fyrr segir um áfangaskiptingu við losun fjármagnshafta. Þá beri jafnframt að nefna að í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands 16. júní sl. var samþykkt útboðsverð sem í raun tók mið af því, að bankinn hafi verið tilbúinn að fara þó nokkuð niður fyrir viðmið Seðlabankans og AGS um æskilega stærð gjaldeyrisforða í aðdraganda losunar hafta á innlenda aðila. Þetta hafi verið gert til að auka líkur á þátttöku í útboðinu og hafi þá verið haft til hliðsjónar að líklegt væri að innstreymi gjaldeyris á sumarmánuðum myndi gera Seðlabankanum mögulegt að auka forðann á ný í æskilega stöðu. Í útboðinu ákvað Seðlabankinn að taka öllum tilboðum miðað við gengið 190 krónur á hverja evru.

Spurning 9.

Hér sé vísað til sjónarmiða í svari við spurningu 8. Eins og þar komi fram þá sé merking hugtaksins „raunstaða íslensk efnahagslífs“ afar óljós og engin leið að komast að niðurstöðu um svarið nema merking þess hugtaks sé fyrst skýrð. Útboðsgengið taki mið af stöðu forðans. Fyrir gjaldeyrisútboð Seðlabankans fyrir aflandskrónueignir 16. júní sl. og möguleika á viðskiptum á útboðsgengi til 27. júní sl., fór mat á stöðu forðans fram. Líkt og fyrr segir var samþykkt útboðsverð 190 krónur á hverja evru. Ítrekar varnaraðili að með útboðinu sé um ívilnandi aðgerð fyrir aflandskrónueigendur að ræða, þar sem þeim hafi verið veitt valkvætt tækifæri til að losa aflandskrónustöður sínar fyrir erlendan gjaldeyri í viðskiptum við Seðlabankann, áður en næstu skref í losun fjármagnshafta væru stigin, þ.e.a.s. losun hafta á heimili og fyrirtæki í áföngum. Áður hafði erlendum fjárfestum boðist að leysa út krónueignir sínar fyrir erlendan gjaldeyri í gjaldeyrisútboðum samkvæmt svonefndri fjárfestingarleið. Fjárfestingarleiðin hafi ekki staðið innlendum aðilum til boða.

Spurning 10.

Sóknaraðilar lýsi tillögum sínum í matsbeiðni, en þar sé nefnt að lausnin hafi falið í sér tíu tímabil þar sem afsláttur af krónueignum matsbeiðanda færi stigminnkandi yfir t.d. fimm ára tímabil. Afsláttur af fyrstu útborgun krónueigna hefði verið 20% og farið svo stiglækkandi niður í 0% á níunda tímabilinu. Hafi því verið haldið fram að lausnin hefði gert stjórnvöldum og Seðlabanka Íslands kleift að greiða sóknaraðila í erlendum gjaldeyri án þess að þurfa að notast við gjaldeyrisforða þjóðarbúsins. Þá hafi verið tekið fram að innflæði gjaldeyris samkvæmt efnahagsspám Seðlabankans sjálfs hefði dugað til að leysa vandann.

Varnaraðili bendir á að spurning þessi taki mið af því að aflandskrónueign sóknaraðila sé eina forsendan sem taka þurfi tillit til við mat á áhrifum tillögunnar. Þar að auki vísast til fyrri umfjöllunar um mál EFTA-dómstólsins nr. E-3/11, en samkvæmt honum hefur ríkjum verið eftirlátið nokkurt svigrúm til að meta hvort skilyrði verndarráðstafana séu fyrir hendi og hvaða úrræði séu viðeigandi. Þá sé það enn fremur áréttað að til þess að fyrrnefnd áfangaskipting sé möguleg við losun fjármagnshafta þurfi ákveðinn fyrirsjáanleiki með hliðsjón af útgöngu aflandskrónueigna og stærð gjaldeyrisvaraforða að vera fyrir hendi. Slíkur fyrirsjáanleiki sé ekki fyrir hendi í tillögum sóknaraðila og hefðu þær getað leitt til þess að veruleg fjárhæð aflandskrónueigna hefði leitað útgöngu á þeim tíma sem brýnast var að ekki yrði gengið á gjaldeyrisforða, sbr. fyrri umfjöllun um áfangaskiptingu við losun fjármagnshafta.

Spurning 11.

Varnaraðili tekur fram að í athugasemdum við 10. tölulið 2. gr. í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 37/2016 hafi verið tekið fram að viðmiðunargengið væri sama gengi og vegið meðalverð í þeim tuttugu gjaldeyrisútboðum sem Seðlabanki Íslands hefur haldið frá árinu 2012 fyrir aflandskrónueigendur. Með þessu hafi þó ekki verið átt við að gengið væri ákvarðað út frá meðalverðinu. Sem fyrr segi hafi viðmiðunargengið verið miðað við svigrúm gjaldeyrisforða Seðlabankans með hliðsjón af mögulegu útflæði aflandskrónueigna og áfangaskiptingu við losun fjármagnshafta, en sviðsmyndir hafi þurft að taka mið af þeim möguleika að allir aflandskrónueigendur nýttu sér útgönguheimild á viðmiðunargengi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur varnaraðili að ekki sé tilefni til að dómkvaddir verði matsmenn á grundvelli laga nr. 91/1991 í samræmi við matsbeiðni sóknaraðila. Matsbeiðnin og einstakar spurningar hennar uppfylla að mati varnaraðila ekki ákvæði áðurnefndra laga, sbr. einkum 77. gr. þeirra. Þá áréttar varnaraðili að engan veginn sé ljóst hver sé tilgangur matsspurninga, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga. Varnaraðili kveðst ítreka að leitað er álits á hagfræðilegum atriðum er spanna mjög vítt svið án tengsla við kröfur sem sóknaraðilar hafa hvorki skýrt né skilgreint. Þá sé matsmönnum ætlað að spá fyrir um líkindi sem ýmist eru háð stórum óvissuþáttum eða forsendum sem ekki er lagður grunnur að í einstökum spurningum með fullnægjandi hætti. Í reynd sé þó í sömu andrá óskað álits á lögfræðilegum atriðum er snúa að forsendum löggjafar þannig að matsmönnum sé ætlað að endurskoða vilja og tilgang löggjafans, andspænis ákvæðum stjórnarskrár.

Varnaraðili vill einnig geta þess að fjármála- og efnahagsráðherra mælti þann 19. ágúst sl. fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum, nr. 87/2001, um gjaldeyrismál (þskj. 1556, 826. mál) þar sem lagt er til að fjármagnshöft á heimili og fyrirtæki verði losuð í varfærnum áföngum. Í athugasemdum við frumvarpið er boðað að stjórnvöld muni strax í upphafi næsta árs endurmeta aðstæður til enn frekari losunar fjármagnshafta og vinna að áframhaldandi undirbúningi að fullri losun fjármagnshafta. Engar tafir hafi því orðið á vinnu við losun fjármagnshafta af hálfu stjórnvalda en á þessum tímapunkti sé ekki unnt að fullyrða hvenær og með hvaða hætti fjármagnshöft verða að fullu losuð á aflandskrónueignir en með vísan í umfjöllun hér að framan má ganga að því vísu að það verði gert þegar efnahagslegar aðstæður leyfa.

Varnaraðili byggir loks á því að engin stoð í lögum sé fyrir kröfu um að erlendir menn verði kvaddir til matsstarfa. Matsbeiðnin sætir mótmælum og kæmi því í hlut dómsins að dómkveðja matsmenn eftir ákvæðum 61. gr. laga nr. 91/1991 ef af yrði.

Í ljósi alls framanritaðs og einnig í ljósi 3. mgr. 78. gr. nefndra laga telur varnaraðili rétt að úrskurðað verði um hvort rétt sé að matsbeiðni með svo yfirgripsmiklum rannsóknarefnum nái fram að ganga. Verði fallist á að dómkvaðning nái fram að ganga áréttar varnaraðili að matsgerð verður á ábyrgð og áhættu matsbeiðenda.

V

Niðurstaða

Í máli þessu hafa sóknaraðilar sett fram beiðni um öflun matsgerðar samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um öflun sönnunargagna, án þess að dómsmál hafi verið höfðað. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laganna ber að fara eftir ákvæðum II. og VII.-X. kafla þeirra við öflun slíkrar matsgerðar eftir því sem við getur átt.

Í beiðni sóknaraðila kemur fram að það sé mat þeirra að lög nr. 37/2016 um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, sbr. lög nr. 42/2016 um breytingu á þeim lögum, feli í sér margháttaða skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra án þess að sýnt hafi verið fram á að almannaþörf krefji eða að aðrar réttlætingarástæður séu til staðar. Telja þeir að með áðurnefndum lögum sé brotið gegn eignarrétti þeirra, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, í þeim felist ólögmæt mismunun á grundvelli þjóðernis og brot á jafnræðisreglu í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar auk þess sem með þeim sé gengið mun lengra en þörf krefji til þess að markmiðum þeirra verði náð. Fyrir sóknaraðilum vaki að afla sönnunar um tiltekin atvik og efnahagslegar staðreyndir að baki væntanlegum kröfum þeirra á hendur varnaraðila. Muni í dómsmálinu m.a. reyna á atriði er varði það hvort tiltekin ákvæði áðurnefndra laga nr. 37/2016 standist stjórnarskrá og aðrar skuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart sóknaraðilum sem dómstólar muni svo eiga lokaorð um. Sóknaraðilar hafa í matsbeiðni sinni sett fram 11 spurningar sem þeir óska eftir að beint verði til matsmanna með það að markmiði að leggja grunn að kröfugerð sinni og málatilbúnaði í komandi dómsmáli

Varnaraðili hefur mótmælt fram kominni matsbeiðni sóknaraðila bæði að formi og efni auk þess sem hann hefur sett fram athugasemdir við einstakar spurningar. Hefur varnaraðili á því byggt að matsbeiðnin uppfylli ekki ákvæði XII. kafla laga nr. 91/1991 hvað varðar framsetningu og skýrleika. Þannig sé matsbeiðnin sett fram án sjáanlegra tengsla við málshöfðun eða án þess að þess sé getið um hvað slík málshöfðun eigi að vera. Ekki er fjallað um það með skýrum hætti í matsbeiðni hvaða kröfu sé verið að staðreyna eða hvaða atvik að baki henni sé verið að sanna með það fyrir augum að komið geti til dómsmáls um hana. Matsbeiðnin uppfylli þannig ekki skilyrði ákvæðisins og því beri að hafna henni. Þá hafi sóknaraðilar ekki sýnt fram á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að bera fram beiðni um matsgerð, sbr. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Þannig komi m.a. ekki fram með nægilega skýrum hætti hvernig sóknaraðilinn, Autonomy Capital LP hafi lögvarða hagsmuni af málinu. Þá telur varnaraðili spurningar í matsbeiðninni vera óljósar og óskýrar auk þess sem hann telur þær mjög almennar og yfirgripsmiklar. Þær feli í sér tilgangslausa sönnunarfærslu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Einnig telur varnaraðili að sóknaraðilar séu með beiðni sinni um mat og spurningum sínum að færa það í hendur matsmanna að leggja mat á hvort ákvæði laga nr. 37/2016 standist stjórnarskrá og túlka ákvæði hennar sem fari gegn 2. mgr. 60. gr. áðurnefndra laga. Með vísan til alls framangreinds byggir varnaraðili á því að matsbeiðnin uppfylli ekki skilyrði XII. kafla laga nr. 91/1991 og að henni beri því að hafna.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 eiga sóknaraðilar rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem þeir telja málstað þeirra til framdráttar. Er að meginreglu hvorki á valdi varnaraðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæðum áðurnefndra laga. Ber þannig að verða við beiðni um dómkvaðningu matsmanns samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 nema skilyrði 77. gr. og 78. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að skipti ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. þeirra, eða að beiðnin beinist að atriði, sem ekki heyrir undir matsmann að fjalla um, sbr. 2. mgr. 60. gr. Við úrlausn um beiðni sóknaraðila á þessu stigi er það því ekki hlutverk dómara að taka afstöðu til efnisvarna sem lúta í raun beint að úrlausn sakarefnis að baki matsbeiðninni, og meta á þeim grunni, umfram það sem að framan segir, hvort verða eigi við beiðni þeirra. Geta slík atriði engu breytt um hvort sóknaraðilum yrði heimilað að afla matsgerðar á eigin kostnað og áhættu á þeim forsendum sem þeir hafa kosið að leggja til grundvallar í beiðni, að því gefnu að ekki sé svo ástatt sem um ræðir í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 er það hlutverk dómara í einkamáli að skera úr um hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð og leggur hann sjálfur eftir 2. mgr. 60. gr. laganna mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Þótt með matsbeiðni sé leitað eftir áliti á einhverju sem öðrum þræði snertir lagaleg atriði myndi niðurstaða þar að lútandi í matsgerð ekki binda hendur dómara eða þrengja svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Þá geta staðhæfingar í matsbeiðni um atriði sem matsþoli í hverju tilviki telur hafa áhrif við matið ekki skert frelsi matsmanna til að leggja á þau sjálfstætt mat. Þá tekur dómurinn fram að samkvæmt 5. mgr. 61. gr. beri matsmanni að vinna verk sitt af bestu vitund og samviskusemi. Að því leyti sem dómkvaðning matsmanns leiðir ekki til annars hefur hann frjálsar hendur um hvaða sjónarmið hann leggur til grundvallar og eftir atvikum hvaða gagna hann aflar sér til afnota við matið, en matsþoli á þess ávallt kost á matsfundi að koma að athugasemdum sínum og ábendingum um framkvæmd mats, sbr. 2. mgr. 62. gr. laganna. Er þess jafnframt að gæta að matsbeiðandi yrði að bera hallann af því verði sönnunargildi matsgerðar rýrara en ella vegna þess að lögð hefur verið til grundvallar í mati forsenda matsbeiðanda sem reynist ekki eiga við rök að styðjast.

Matsbeiðni sóknaraðila er eins og áður segir reist á XII. kafla laga nr. 91/1991 um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað, sbr. 1. mgr. 77. gr. laganna. Í því ákvæði er kveðið á um að aðila sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta sé heimilt að beiðast dómkvaðningar matsmanns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli, sé það gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni. Heimild ákvæðisins er því bundin við þann sem hefur í hyggju að höfða mál um kröfu, sem staðreyna þarf eða renna stoðum undir með slíku sönnunargagni og hefur til þess lögvarða hagsmuni. Í 2. mgr. 78. gr. sömu laga kemur fram að í beiðni skuli greina skýrt frá því atviki sem aðili vilji leita sönnunar um, hvernig hann vilji að það sé gert, hver réttindi séu í húfi og hverja aðra sönnunin varði að lögum.

Bæði matsbeiðni sóknaraðila og bókun varnaraðila eru því marki brenndar að þar er í löngu máli lýst aðdraganda að setningu laga nr. 37/2016 og tekin upp umfjöllun í frumvarpi því er varð að þeim lögum og lýst viðhorfum aðila til þessarar lagasetningar og aðdraganda hennar. Þótt matsbeiðni sóknaraðila mætti, að mati dómsins, að þessu leyti vera skýrari og hnitmiðaðri verður þó að telja nokkuð ljóst að með henni hyggjast sóknaraðilar renna stoðum undir það að varnaraðili hafi með setningu laga nr. 37/2016 hvorki gætt meðalhófs né jafnræðis með þeim afleiðingum að þeir sæti skerðingu á réttindum sínum sem njóti verndar stjórnarskrárinnar og tíunduð voru hér framar. Í því skyni hafa þeir beiðst dómkvaðningar matsmanna til að afla sönnunargagna og leggja þar með grundvöll að kröfugerð sinni í væntanlegu dómsmáli. Því verður að telja ljóst af málatilbúnaði sóknaraðila í hvaða skyni umrædd matsbeiðni er sett fram og hvað sóknaraðilar hyggjast sýna fram á með henni. Má ljóst vera að tilgangur þeirra er að beiðast dómkvaðningar matsmanns til að afla sönnunargagna í því skyni að leggja grundvöll að dómsmáli á hendur varnaraðila þar sem þeir telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna setningar áðurnefndra laga. Er því ekki unnt að fallast á þær röksemdir varnaraðila að matsbeiðni sé sett fram án sjáanlegra tengsla við málshöfðun. Með vísan til þessa er hafnað öllum sjónarmiðum varnaraðila um að óljóst sé hver tilgangur matsbeiðninnar sé eða hverju sóknaraðilar hyggjast ná fram með umbeðnu mati. Er matsbeiðni því að þessu leyti í samræmi við 1. mgr. 77. gr. og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991. Reyndar verður ekki betur séð en stór hluti mótmæla varnaraðila feli í sér efnisvarnir og andsvör við kröfugerð sóknaraðila í væntanlegu dómsmáli því er sóknaraðilar hyggjast höfða um réttindi sín.

Í matsbeiðni og gögnum málsins er því lýst að sóknaraðilinn Autonomy Capital Fund LP sé sjóðastýringarfyrirtæki. Hann mun ekki sjálfur vera skráður fyrir eignum hjá vörsluaðilum en hann telur sig vera með stöðu sem er sambærileg við rekstrarfélag verðbréfasjóða sem skilgreint er í 2. gr. laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði og hafi því hagsmuna að gæta með þeim hætti. Aðrir sóknaraðilar, þ.e. Autonomy Master Fund Ltd., GAM Trading (No. 37) og Autonomy Iceland Two S.à.r.l., eru sjálfstæðir lögaðilar, skráðir beint fyrir eignum hjá vörsluaðilum, eins og fram kemur í gögnum málsins, sem eru andlag þeirrar meintu skerðingar sem sóknaraðila telja að felist í lögum nr. 37/2016 sem er tilefni beiðni þessarar. Af þessu verður að telja ljóst að sóknaraðilar hafa lögvarða hagsmuni, í skilningi 1 mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, af því að bera fram kröfu um matsbeiðni. Eru skilyrði ákvæðisins því uppfyllt að þessu leyti.

Þá hafnar dómurinn jafnframt þeim sjónarmiðum varnaraðila að með umræddu mati færi sóknaraðilar það í hendur matsmanna að leggja mat á það hvort ákvæði laga nr. 37/2016 brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrár eða hvernig skýra beri ákvæði hennar sem á undir dómstóla, sbr. 1. mgr. 44. gr. og 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Á engan hátt er unnt að líta svo á að þær spurningar sem settar eru fram í matsbeiðni feli þetta í sér. Sem endranær er það á valdi dómstóla að skera úr um hvort tiltekin lagafyrirmæli sem deilt yrði um í tilteknu dómsmáli færu í bága við ákvæði stjórnarskrár.

Einstökum matsspurningum og sjónarmiðum beggja aðila hvað varðar hverja og eina þeirra hafa verið gerð ítarleg skil hér framar. Þótt fallast megi á það með varnaraðila að sumar matsspurningar mættu vera skýrari verður þó ekki annað séð en að flestar þeirra miði að því að renna stoðum undir væntanlega kröfugerð sóknaraðila á hendur varnaraðila. Að virtri þeirri meginreglu sem að framan greinir um forræði aðila á sönnunarfærslu og því að spurningunum er ætlað að leggja grunn að kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila í væntanlegu dómsmáli verður þó talið að þær fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 enda er ekki litið svo á að með þeim sé verið að leita eftir áliti matsmanna á lagalegum atriðum. Telur dómurinn að því verði ekki slegið föstu á þessu stigi að matsgerðin sé með öllu bersýnilega þýðingarlaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Verður henni ekki hafnað í heild sinni á þessum grundvelli. Þá verður matsbeiðni ekki hafnað af þeirri ástæðu einni að torvelt sé fyrir matsmenn að svara einstökum spurningum heldur væri það þeirra að taka afstöðu til þess hvort svo háttaði til. Mat varnaraðila á sönnunargildi og þýðingu matsgerðar hefur ekki áhrif á heimild sóknaraðila til að afla matsgerðar. Dómur metur sönnunargildi matsgerðar og verður einstökum matsspurningum ekki hafnað á þeim grundvelli einum að matsþoli telji þær þýðingarlausar. Þá bendir dómurinn á að sóknaraðilar verða að bera hallann af því að matið komi þeim af einhverjum ástæðum ekki að notum.

Almennt verður að telja að fyrirhuguð matsgerð hafi það að markmiði að afla sérfræðilegs álits eða mats á staðreyndum svo sem gert er ráð fyrir með 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Eiga þau sjónarmið við um spurningu nr. 1 þar sem sóknaraðilar freista þess að varpa ljósi á eðli og umfang þess vanda sem talið var að hefði verið til staðar í aðdraganda hinnar umþrættu lagasetningar. Tekur dómurinn fram að ekki getur haft úrslitaáhrif á það hvort mat fari fram samkvæmt þessari spurningu að  vera kunni að einhver gögn séu í fórum Seðlabanka Íslands sem séu undanþegin upplýsingarétti eftir ákvæðum upplýsingalaga, enda ber matsmönnum að afla sér gagna til afnota fyrir matið og um heimildir þeirra og aðgang fer eftir ákvæðum laga nr. 91/1991, sbr. 2. og 3. mgr. 62. gr. þeirra, þ.m.t. reglum um vitnaskyldu. Reynist matsmönnum ekki unnt að svara spurningum til fulls vegna skorts á aðgangi að gögnum kann það á hinn bóginn að hafa áhrif á sönnunargildi matsgerðarinnar en getur engu ráðið um það hvort hin umbeðna dómkvaðning fari fram. Þá getur ekki átt við um þessa spurningu að hún sé bersýnilega tilgangslaus sönnunarfærsla í skilningi 3 mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Með spurningum nr. 2 og 3 gera sóknaraðilar hins vegar ráð fyrir að matsmenn upplýsi um tilteknar staðreyndir án þess að fram fari, að séð verður, skoðun eða mat svo sem gert er ráð fyrir með umræddu ákvæði. Verður enn fremur að telja að í væntanlegu dómsmáli séu sóknaraðilum tæk önnur og nærtækari úrræði til þess að fá upplýst um atriði sem þessi, t.d. með öflun og framlagningu skriflegra gagna. Er hið fyrirhugaða mat að þessu leyti tilgangslaust til sönnunar samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 og verða þessar spurningar af þessum sökum ekki lagðar fyrir matsmenn.

Með spurningu nr. 4 hyggjast sóknaraðilar leita svara við því hvort sú fullyrðing fái staðist að aflandskrónur séu líklegri en aðrar krónur til þess að leita útgöngu úr íslensku efnahagskerfi. Tengist hún spurningu nr. 6 þar sem sóknaraðilar hyggjast fá mat á því hvort önnur og vægari úrræði hefðu staðið til boða andspænis þeim hagfræðilega vanda sem þjóðarbúið kann að hafa staðið frammi fyrir ef eigendur allra hinna svokölluðu aflandskróna hefðu leitað útgöngu á sama tíma. Dómurinn telur ljóst í hvaða tilgangi umræddar spurningar eru settar fram. Verður þeim því hvorki hafnað á þeim forsendum að þær séu óljósar né tilgangslausar. Það sama má segja um spurningu nr. 7 þar sem sóknaraðilar óska eftir mati á því í hvaða tilfellum hugtakið „heimaslagsíða“ eigi við. Munu þessar spurningar því verða lagðar fyrir matsmenn.

Með spurningu nr. 5 er á hinn bóginn óskað eftir mati dómkvaddra matsmanna á því að hvaða leyti skuldastaða íslenska ríkisins sé sambærileg stöðu annarra OECD-ríkja í ákveðnu tilliti. Ekki verður séð að í matsbeiðni eða gögnum málsins sé að finna viðhlítandi skýringu á því hverju svar við spurningu nr. 5 varði fyrir úrlausn um kröfur hans í væntanlegu dómsmáli og verða ekki með góðu móti séð tengsl hennar við það álitaefni sem á kann að reyna í væntanlegu dómsmáli. Verður henni því hafnað af þeim sökum.

Þá verður að telja að spurningum nr. 8. og 9 sé ætlað að styrkja grundvöll krafna sóknaraðila í væntanlegu dómsmáli þar sem viðmiðunargengi var skilgreint sem 220 krónur á móti einni evru með lögum nr. 37/2016. Þykir ekki unnt að hafna þeim sökum þess að hugtakið „raunstaða íslensks efnahagslífs“ sé óljós forsenda spurninganna. Ítrekar dómurinn það sem áður er fram komið að sóknaraðilar verða að bera hallann af óljósum spurningum og hvort niðurstaða matsins komi þeim að notum vegna óljósra forsendna. Munu þessar spurningar því verða lagðar fyrir matsmenn.

Með spurningu nr. 10 æskja sóknaraðilar mats á því hvaða áhrif það hefði haft á gengisstöðugleika og stöðu gjaldeyrisforða hefði verið fallist á tillögur sem þar er nánar lýst. Dómurinn telur að á þessu stigi sé ekki unnt að slá því föstu að spurningin feli í sér tilgangslausa sönnunarfærslu. Mun þessi spurning því verða lögð fyrir matsmenn.

Hvað varðar spurningu nr. 11 verður að líta svo á að með henni sé ætlunin að afla sérfræðilegs mats á því við hvaða gengi „í hagfræðilegu tilliti“ skuli miða við tilteknar aðstæður. Verður að telja ljóst hver tilgangur hennar er. Mun þessi spurning því verða lögð fyrir matsmenn.

Að öðru leyti en ofangreindar spurningar nr. 2, 3 og 5 varðar verður ekki fullyrt á þessu stigi að matsgerð samkvæmt beiðninni skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Er sjónarmiðum varnaraðila hvað þetta varðar því hafnað. Sóknaraðilum verður því ekki meinað að afla svara dómkvaddra manna við spurningum 1, 4, 6, 7, 8, 9, 10 og 11. Loks verður því ekki slegið föstu að útilokað sé fyrir dómkvadda menn að taka saman matsgerð um þær spurningar sem greinir í matsbeiðni þótt fallast megi á það með varnaraðila að sumar þeirra séu að nokkru leyti óljósar og matskenndar. Verður sóknaraðilum ekki meinað að afla matsgerðar um þessar spurningar, enda bera þeir sjálfir kostnað af matsgerðinni og áhættu af því hvort hún komi þeim að notum.

Með vísan til alls þess er að framan greinir er það því niðurstaða dómsins að skilyrðum 1. mgr. 77. og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt til að unnt sé að verða við beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns til að svara áðurnefndum spurningum.

Hvað varðar þau sjónarmið sem tæpt er á í matsbeiðni og mótmælt í greinargerð að dómkvaddir verði erlendir sérfræðingar með tiltekna þekkingu tekur dómurinn fram að á þessu stigi verður ekki tekin afstaða til þess heldur eingöngu til þess hvort fallist verði á að umbeðið mat fari fram eður ei. Bendir dómurinn á að í 61. gr. laga nr. 91/1991 er fjallað um dómkvaðningu matsmanna til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal dómkveðja þann matsmann sem aðilar koma sér saman um að kveðja til starfans sé hann hæfur, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Annars greinir dómari aðilum að öðru jöfnu frá því hvern hann hafi í hyggju að kveðja til matsstarfa og á þá aðili máls ekki kröfu á að tiltekinn maður verði dómkvaddur. Með vísan til þessa er það á forræði dómara að ákveða hverja hann dómkveður til matsstarfa komi aðilar sér ekki saman um matsmenn. Á slíka ákvörðun getur reynt verði um hana ágreiningur með aðilum.

Með hliðsjón af úrslitum málsins þykja sóknaraðilar eiga rétt á málskostnaði úr hendi varnaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 3. október sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Umbeðið mat, samkvæmt framlagði matsbeiðni sóknaraðila, Autonomy Capital LP, Autonomy Master Fund Limited, GAM Trading (No. 37) og Autonomy Iceland Two S.à.r.l á dómskjali nr. 1, skal fara fram að undanskildum spurningum nr. 2, 3 og 5 sem ekki verða lagðar fyrir matsmenn og nánar eru tilgreindar í matsbeiðni sóknaraðila.

Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðilum 650.000 krónur í málskostnað.