Print

Mál nr. 682/2016

Dagur Klemensson (Guðjón Ármannsson hrl.)
gegn
Sigurgeiri Jónssyni (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)
Lykilorð
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Hefð
Reifun
D höfðaði mál gegn S og krafðist þess aðallega að fjárhús og hlaða í eigu S ásamt öllu því sem þeim húsum tilheyrði yrði borið út af jörðinni Ártúni sem var í eigu D. Talið var sannað að S og þar áður faðir hans, sbr. 3. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, hefðu haft umráð skika sem fjárhúsið og hlaðan væru á í fullan hefðartíma og jafnframt útilokað aðra frá afnotum hans. Hefði með því stofnast eignarréttur til handa S yfir skikanum. Væru ekki í máli þessu forsendur til að afmarka þann skika sem eignarréttur S tæki til. Var S því sýknaður af aðalkröfu D. Til vara krafðist D þess að S og allt sem honum tilheyrði yrði borinn út af landi, sem D afmarkaði annars vegar með nánar tilgreindum hnitum og hins vegar yrði að skilja afmörkunina þannig að ytri mörk hennar væru landamerki jarðarinnar Ártúns. Með vísan til þess að ekki væru forsendur til þess í málinu að ákvarða ytri mörk fyrrgreinds skika var varakröfu D vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 2016. Hann krefst þess aðallega að fjárhús og hlaða, fastanúmer 216-1803,  í eigu stefnda ásamt öllu því sem fjárhúsinu og hlöðunni tilheyrir, verði borið út af jörðinni Ártúni sem er í eigu áfrýjanda. Til vara krefst hann þess að stefndi ásamt öllu því sem honum fylgir verði borinn út af fyrrgreindri jörð, fyrir utan það svæði sem afmarkast með eftirfarandi hætti: úr punkti 1, hnit X564934.8 og Y603670.3, í punkt 2, hnit X564897.6 og Y603672.4, í punkt 3, hnit X564899.4 og Y603703.4, í punkt 4, hnit X564936.6 og Y603701.4 og þaðan í fyrrnefndan punkt 1. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að sannað sé að stefndi og þar áður faðir hans, sbr. 3. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, hafi haft umráð skika sem fjárhúsið og hlaðan, og það sem þessum húsum tilheyrir, eru á í fullan hefðartíma og jafnframt útilokað aðra frá afnotum hans. Hafi með þessu stofnast eignarréttur til handa stefnda yfir skikanum. Ekki eru í máli þessu forsendur til þess að afmarka þann skika, sem eignarréttur stefnda, sem til er orðinn á þann hátt er að framan greinir, tekur til. Verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af aðalkröfu áfrýjanda.

Varakrafa áfrýjanda miðar við að stefndi og allt sem honum tilheyrir verði borinn út af landi, sem áfrýjandi afmarkar annars vegar með hnitum á þann hátt sem í kröfunni er lýst og hins vegar verður að skilja afmörkunina þannig að ytri mörk hennar séu landamerki jarðarinnar Ártúns. Í ljósi þess að ekki eru forsendur til þess í málinu að ákvarða ytri mörk þess skika, sem eignarréttur stefnda tekur til, verður varakröfu áfrýjanda vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda, Sigurgeirs Jónssonar, af aðalkröfu áfrýjanda, Dags Klemenssonar, svo og um málskostnað.

Varakröfu áfrýjanda er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi greiði stefnda 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. júlí 2016.

Mál þetta er höfðað 2. september 2015 og var dómtekið 10. maí sl.

Stefnandi er Dagur Klemensson, Ártúni, Þingeyjarsveit.

Stefndi er Sigurgeir Jónsson, Árteigi, sömu sveit.

Stefnandi krefst þess að fjárhús og hlaða, fastanr. 216-1803, matshluti 11-0101 og 12-0101 í eigu stefnda, ásamt öllu því sem fjárhúsinu og hlöðunni tilheyrir, verði borið út af landi stefnanda, Ártúni, landnr. 153397.

Til vara er krafist að stefndi ásamt öllu því sem honum fylgir verði borinn út af landi stefnanda, Ártúni, landnr. 153397, öðru en því sem afmarkast með svofelldum hætti: Úr hnitpunkti 1 (X: 564934.8, Y: 603670.3) í hnitpunkt 2 (X: 564897.6, Y: 603672.4) í hnitpunkt 3 (X: 564899.4, Y: 603703.4) í hnitpunkt 4 (X: 564936.6, Y: 603701.4) og þaðan í áðurnefndan punkt 1. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

Gengið var á vettvang.

I

Stefnandi er eigandi Ártúns í Þingeyjarsveit og stefndi eigandi Árteigs. Var síðarnefnda jörðin stofnuð úr landi hinnar fyrrnefndu árið 1959. Liggja fyrir landamerkjaskrár, dagsettar 27. október 1959. Segir þar að merki Ártúns að sunnan séu norðurmerki Granastaða II, vestan Kvíslar, að vestan Hágrjót, að norðan lína frá vörðu á Fljótsbakka, rétt sunnan við litla tjörn á Eyjunni, í norðurbakka Álftatjarnar og skurðós við tjörnina og bein lína þaðan, nyrst á há-Nípu og að austan Skjálfandafljót, suður að landamerkjum Árteigs, á Granastaðaeyju, sem séu afmörkuð með vörðum þvert yfir eyjuna, en þaðan séu merkin í Kvíslina, suður að stíflu. Innan landamerkja Ártúns, í fjallinu, eigi nýbýlið Árteigur helming ræktanlegs lands ofan Klappa, sunnan Raflækjar og helming óskipts beitilands. Þá segir sameiginlega um Granastaði II, Ártún og Granastaði I að tún séu ekki bundin landamerkjaskrám um þessar jarðir, þau sem ræktuð hafi verið. Séu þau teiknuð á sérstakt túnkort og liggi öll vestan Kvíslar.

Landamerkjaskrá Árteigs segir að að sunnan ráði norðurmerkjalína Granastaða II, að austan Skjálfandafljót, að norðan landamerkjalína Ártúns, afmörkuð með vörðum, þvert yfir Granastaðaeyju og að vestan Granastaðakvísl. Auk þess eigi ,,þetta nýbýli“ helming óskipts beitilands í fjallinu í landi Ártúns og hlutfallslegar nytjar af varphólmum í Fljótinu, sem liggi í hinu forna Granastaðalandi.

Jón Sigurgeirsson eignaðist Árteig árið 1959, er hann skipti jarðeignum með bræðrum sínum Klemens og Páli. Fékk Klemens Ártún, þ.e. þann helming sem eftir stóð er stofnað hafði verið til Árteigs. Stefndi er sonur Jóns og stefnandi sonur Klemens.

Í greinargerð stefnda er staðhæft að við stofnun Árteigs hafi aðeins óræktuðu landi verið skipt milli bræðranna. Jón hafi áfram verið með verkstæðisaðstöðu til 1964 og með búrekstraraðstöðu ásamt stefnda til 1974. Fram til 1974 hafi heyskapur jarðanna verið sameiginlegur, heyjað í sömu hlöðu og sameiginleg útihús verið notuð. Hafi verið skýr skilningur á því milli bræðranna að þeir ættu saman ,,búrekstrar­einingar“ í Ártúni og að eftir ætti að skipta þeim á milli þeirra. Til marks um það séu makaskiptasamningar, undirritaðir af Klemens m.a., þar sem makaskipta hafi átt hluta Páls í ,,þessum húseignum“ og að í skattframtölum hafi verið talin fram hjá Páli og Jóni þriðjungseign í húseignum í Ártúni. Í fasteignamati hafi verið gert ráð fyrir sömu þriðjungaskiptingu fram yfir 1990, en það hafi þá breyst án nokkurra löggerninga varðandi það.

Jón Sigurgeirsson og stefndi byggðu á árunum 1974 og 1975 fjárhús og hlöðu, sem þetta mál snýst um. Óumdeilt er að byggingarnar voru reistar í landi Ártúns. Bræðurnir Jón og Klemens gerðu engan skriflegan samning um lóð undir byggingarnar. Segir stefnandi að Klemens hafi heimilað munnlega að þær yrðu reistar. Segir stefnandi að síðan hafi stefndi ,,stundað búskap á landinu“ með samþykki stefnanda og mannvirkin fengið að standa fyrir greiðasemi stefnanda. Þá hafi stefndi með hléum nýtt land hjá mannvirkjunum, m.a. undir búfé og heyrúllur og geri svo nú. Kveðst stefnandi hafa ámálgað það við stefnda, svo sem áður hefði oft verið rætt, að mannvirkin stæðu heimildarlaust í landi Ártúns. Hafi stefndi óskað eftir heimild til að þau stæðu áfram. Með bréfi 14. maí 2014 hafi stefnandi lýst því að heimildin stæði ekki lengur og óskað viðræðna um hentuga tímasetningu til brottflutnings. Hafi stefndi ekki orðið við ítrekuðum tilmælum um að flytja mannvirkin á brott.

II

Stefnandi telur rétt sinn til að fá landið rýmt vera ótvíræðan, enda sé hann þing­lýstur eigandi landsins, sem aldrei hafi verið skilið frá jörðinni Ártúni. Sé eignarréttur hans óumdeildur að hann telji, því hvergi sé að finna skjöl er varði lóðarréttindi stefnda. Aldrei hafi staðið til að veita stefnda eða fyrri eigendum slík réttindi og það hafi ekki verið gert. Stefnda hafi alla tíð verið ljóst að mannvirkin væru án lóðar­réttinda og hann hafi aldrei haldið öðru fram fyrr en fyrst með bréfi dags. 30. mars 2015.

Stefnandi kveðst vísa til þess að hann hafi greitt skatta og aðrar skyldur af landinu, án þess að krefja stefnda um lóðarleigu. Hafi mannvirkin þannig fengið að standa á landinu fyrir góðvild stefnanda án nokkurs endurgjalds allt frá upphafi og stefnandi borið af því allan kostnað. Stefndi hafi engar athugasemdir gert við það og ekki greitt sjálfur skatta af landinu eða borið aðrar skyldur. Stefndi og fyrri eigandi Árteigs hafi þannig í framkvæmd viðurkennt ótakmarkað eignarhald stefnanda á landi undir mannvirkin, allt frá upphafi. Hafi stefndi þannig ætíð verið grandsamur um að þau yrðu þar ekki varanlega.

Hvað sem líði meintum og mögulegum viðræðum milli aðila á liðnum áratugum um möguleg landskipti og nýtingarheimildir, liggi fyrir að þær hafi aldrei leitt til samkomulags.

Stefnandi kveður varakröfu sína byggða á sömu málsástæðum og aðalkröfu að breyttu breytanda.

Stefnandi vísar til meginreglu eignarrétta, ákvæða þinglýsingalaga nr. 39/1978 og almennra réttarvörslusjónarmiða.

III

Stefndi kveðst aðallega byggja á því að hann eigi landskikann sem húsin standi á, en til vara á því að hann hafi afnotarétt af honum. Hann kveðst aðallega byggja á því að Jón Sigurgeirsson hafi fengið skikann með samkomulagi við Klemens bróður sinn.  Hafi skikinn verið girtur af og húsin reist á honum með fullu samþykki Klemens, sem þá hafi átt Ártún. Afmörkun skikans hafi verið hluti af uppgjöri og skiptingu á milli bræðranna á eignum bús foreldra þeirra. Hér skipti einnig máli að faðir stefnanda og síðar stefnandi hafi aldrei gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag í fleiri áratugi og hafi því sýnt af sér tómlæti. Faðir stefnda og síðar stefndi séu því réttmætir eigendur landskikans. Sé raunar viðurkennt í stefnu að þetta samkomulag hafi verið til staðar, þar sem þar segi að umrædd mannvirki hafi verið byggð samkvæmt munnlegri heimild Klemens, þá eiganda Ártúns.

Verði ekki fallist á að faðir stefnda hafi eignast landskikann með samkomulagi, kveðst stefndi byggja á því að hann hafi eignast hann fyrir hefð. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 46/1905 megi vinna hefð á fasteign, er geti verið eign einstakra manna, án tillits til þess, hvort hún hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign. Samkvæmt 2. gr. sömu laga sé 20 ára óslitið eignarhald skilyrði fyrir hefði. Fyrir liggi að fjárhúsið hafi staðið á lóðinni síðan 1974 og það hafi verið reist með fullu samþykki eiganda Ártúns. Fjárhúsið hafi staðið athugasemdalaust í að minnsta kosti tuttugu ár á þessum landskika, með tilheyrandi afnotum og eignarhaldi á landskikanum vegna samkomu­lags feðra aðila þar um, en til vara að stefndi hafi öðlast afnotarétt fyrir hefð.

Í öllum tilvikum kveðst stefndi byggja á því að réttindum sínum til eignar eða nota af landskikanum hafi fylgt afnotaréttur af jörð Ártúns til vörslu þess lausafjár og búfénaðar sem stefndi hafi haft á landinu, þ.m.t. heyrúllur, búfénaður, vinnuvélar og verkfæri og eigi þar sömu málsástæður við að breyttu breytanda.

Stefndi vísar einkum til meginreglna samninga- og kröfuréttar og eignaréttar. Þá vísar hann til fyrrnefndra laga nr. 46/1905 um hefð.

IV

Málsaðilar gáfu skýrslu fyrir dómi, svo og vitnin Klemens Sigurgeirsson, faðir stefnanda og Eiður Jónsson, bróðir stefnda.

Svo sem að framan er rakið er deilt um rétt til skika úr landi Ártúns, sem faðir stefnda, þá eigandi Árteigs, notaði til að reisa á fjárhús og hlöðu um miðjan 8. áratug síðustu aldar. Hafði hann heimild Klemens bróður síns, þá eiganda Ártúns, til að nota skikann. Klemens sagði fyrir dómi að bróðir sinn hefði beðið um þetta og hann orðið við því af greiðasemi, en ekki hefði staðið til að afhenda honum skikann til eignar.

Í skýrslu Eiðs Jónssonar kom fram að faðir hans hefði átt hlutdeild í byggingum í Ártúni og hefði gefið þá hlutdeild eftir er hann reisti nýjar byggingar fyrir sig. Þrátt fyrir þetta þykir stefndi ekki hafa fært sönnur á að Klemens hafi framselt skikann til eignar með samkomulagi þeirra Jóns í öndverðu.

Dómurinn telur það engu breyta um niðurstöðu málsins þótt stefnandi og faðir hans hafi greitt fasteignagjöld af Ártúni og þar með töldum skikanum, sem er að mestu afgirtur, þótt deilt sé um hvort girðingarnar eigi að ráða mörkum hans. Er ljóst að mati dómsins að faðir stefnda og síðar stefndi hafa haft umráð hans í fullan hefðar­tíma og jafnframt útilokað aðra frá afnotum hans.

Ekki verður talið að sýnt hafi verið nægilega fram á að faðir stefnda hafi fengið skikann til láns eða með öðrum hætti skuldbundið sig til að skila honum aftur. Stendur 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 því ekki í vegi að hefð geti hafa unnist. Verður að þessu gættu fallist á það með stefnda að hann hafi eignast skikann fyrir hefð.

Aðilar eru ósammála um mörk skikans. Ætla verður rekstri sem tengist slíkum bygg­ingum sem hér um ræðir hæfilegt svæði til óhjákvæmilegrar umferðar og athafna tengdum rekstrinum. Það svæði sem varakrafa stefnanda felur í sér er þrengra en svo að hæfilegt geti talist, sérstaklega að því er varðar syðri mörkin. Ekki eru efni til að ákveða mörk skikans hér, en rétt þykir að sýkna stefnda af varakröfunni með vísan til þessa.

Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 900.000 krónur í málskostnað.

Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Sigurgeir Jónsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Dags Klemenssonar í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.