Print

Mál nr. 828/2016

Gerður Einarsdóttir (Björn Jóhannesson lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. og Atafli ehf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)
Lykilorð
  • Bifreið
  • Aðild
  • Slysatrygging
  • Gjafsókn
  • Málsástæða
Reifun

G höfðaði mál gegn V hf. og A ehf. og krafðist bóta úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 vegna slyss sem eiginmaður hennar Þ varð fyrir þegar hann var að undirbúa að afferma lyftara af palli vörubifreiðar í eigu A ehf. sem tekið hefði vátrygginguna hjá V hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í málinu væri óupplýst með hvaða hætti Þ hefði fengið þá áverka sem drógu hann til dauða og hvort eða hvernig þeir tengdust bifreiðinni eða notkun hennar. Var því talið að ekki stæðu rök til þess að tjón af völdum slyssins yrði fellt undir slysatryggingu ökumanns, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 88. gr. þeirra. Voru V hf. og A ehf. því sýknuð af kröfum G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2016. Hún krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 8.677.429 krónur með 4,5% ársvöxtum  frá 28. mars 2014 til 1. september sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í máli þessu krefst áfrýjandi tryggingabóta úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafði veitt stefnda Atafli ehf., eiganda vörubifreiðarinnar VT-360 sem Þorsteinn heitinn Sveinbjörnsson, eiginmaður áfrýjanda ók, vátrygginguna. Stefndi Atafl ehf. er ekki skuldbundinn til greiðslu vátryggingarbóta samkvæmt ákvæðinu og voru ekki efni til að stefna honum í málinu. Hann hefur hins vegar ekki stutt kröfu sína um sýknu við aðildarskort, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en á því hefur hann forræði. Kemur sú ástæða því ekki til skoðunar í málinu.

Málsástæða áfrýjanda þess efnis að rannsókn slyssins 17. mars 2014 hafi verið ábótavant og á því verði stefndu að bera ábyrgðina var ekki höfð uppi í héraði. Standa skilyrði 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 ekki til þess að hún komist að fyrir Hæstarétti.

Í hinum áfrýjaða dómi er grein gerð fyrir því sem vitað er um slys það sem Þorsteinn Sveinbjörnsson varð fyrir 17. mars 2014 og leiddi hann til dauða. Hann starfaði sem verktaki, hjá stefnda Atafli ehf., og var að vinna þann dag í þágu fyrirtækisins sem bílstjóri vörubifreiðarinnar VT-360 við að flytja lyftara að nýbyggingu við Mýrargötu 26 í Reykjavík. Fyrir liggur að bifreiðin hafði verið stöðvuð og Þorsteinn hafið undirbúning þess að afferma lyftarann af palli hennar. Hafði hann í því skyni komið fyrir svokölluðum stuðningsfótum beggja vegna bifreiðarinnar. Þá hafði Þorsteinn fjarlægt fremsta skjólborð palls vörubílsins hægra megin, sett á sig belti með fjarstýringu sem notuð var til þess að stýra krana bifreiðarinnar og tekið til handagagns álstiga, að öllum líkindum í þeim tilgangi að fara upp á pall bifreiðarinnar. Að öðru leyti eru tildrög og orsakir slyssins ókunn en Þorsteinn fannst liggjandi við hlið bifreiðarinnar með tvenna áverka á höfði. Í málinu er óupplýst með hvaða hætti Þorsteinn fékk umrædda áverka, sem drógu hann til dauða, og hvort eða hvernig þeir tengdust bifreiðinni eða notkun hennar. Standa rök því ekki til þess að tjón af völdum slyssins verði fellt undir slysatryggingu ökumanns, sbr. 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga, sbr. 88. gr. þeirra. Þegar af þessari ástæðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að málskostnaður milli aðila fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Gerðar Einarsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Björns Jóhannessonar, 1.200.000 krónur.

 

                                                                           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2016.

                Mál þetta er höfðað 6. október 2015 og dómtekið 27. apríl 2016.

                Stefnandi er Gerður Einarsdóttir, Kríulandi 3, Garði.

                Stefndu eru Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, og Atafl ehf., Klettatröð 1, Reykjanesbæ.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu greiði henni sameiginlega  8.677.429 krónur með 4,5% vöxtum frá 28. mars 2014 til 1. september 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

                Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar.

Málsatvik

                Eiginmaður stefnanda, Þorsteinn Sveinbjörnsson, starfaði hjá stefnda, Atafli ehf., við akstur vörubifreiðarinnar VT-360, en bifreiðin var tryggð með ábyrgðartryggingu, þ.m.t. ökumannstryggingu, hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Þann 17. mars 2014 varð Þorsteinn fyrir slysi við vinnu sína þar sem hann hafði verið að flytja lyftara að byggingarsvæði við Mýrargötu í Reykjavík. Engin vitni voru að slysinu, en lögregla var kvödd á vettvang eftir að Þorsteinn fannst meðvitundarlaus við vörubifreiðina þar sem henni hafði verið lagt á Rastargötu við byggingarsvæðið. Þegar lögreglumenn bar að lá Þorsteinn á bakinu við bifreiðina og voru hjá honum tveir starfsmenn stefnda Atafls, Elías Bjarni Baldursson og Einar Árnason. Þorsteinn var með meðvitund, en virtist vankaður. Enginn hjálmur var sjáanlegur þar sem hann lá. Kom fram hjá starfsmönnunum tveimur að álstigi hefði legið við hlið Þorsteins er þá bar að, en þeir hefðu fært hann til. Þá hafi Þorsteinn verið með fjarstýringu í belti, sem þeir hefðu losað af honum. Í lögregluskýrslu er því lýst að stuðningsfætur hafi verið úti á vörubifreiðinni og hefði hleri á hægri hlið legið niður frá pallinum. Lítill lyftari hafi staðið á pallinum, en ekki hafi verið búið að festa í hann tog. Fjarlægð frá pallinum niður í malbik fyrir neðan hafi verið 160 cm. Ljósmyndir, teknar á vettvangi, fylgdu skýrslunni. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að starfsmennirnir tveir hafi tjáð lögreglu að Þorsteinn hafi sennilega ætlað að hífa lyftarann af vörubifreiðarpallinum er slysið varð. Auk framangreindra vitna tók lögregla skýrslu af Jacek Artur Kotlinski, starfsmanni stefnda, sem kvaðst hafa rætt við Þorstein áður en slysið varð. Hann hefði þá verið búinn að setja út armana á vörubifreiðinni og verið að búa sig undir að hífa lyftarann af pallinum.

                Þorsteinn var fluttur á bráðamóttöku Landspítala og missti meðvitund skömmu eftir komu þangað. Sneiðmyndataka af höfði sýndi brot í kúpuhvolfi og blæðingu í heila. Þorsteinn gekkst undir skurðaðgerð, en komst ekki aftur til meðvitundar. Hann lést á sjúkrahúsinu 28. mars 2014. Í málinu liggur fyrir skýrsla réttarmeinafræðings um áverka Þorsteins og dánarorsök. Kemur þar fram að margúll hafi verið á brjóstkassa vinstra megin sem kunni að hafa orðið til við högg eða við að hafa rekist á hlut. Þá hafi verið mar á hægri þumalfingri og vinstri baugfingri vegna höggáverka. Áverkar á höfði, brot á hægra ennisbeini og vinstra hvirfilbeini og blæðing í kúpuhvolfi, hafi sömuleiðis verið eftir höggáverka. Var talið sennilegast að rekja mætti brot á ennisbeini til þess að högg hefði komið á ennið eða að það hefði skollið á eitthvað eða eitthvað skollið á það.   

                Í málinu liggur fyrir skýrsla lögreglu, dagsett 4. apríl 2014, samantekt um rannsóknaraðgerðir. Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að við rannsókn málsins hafi ekki verið hægt að sýna fram á hvað hafi átt sér stað. Atvikið sé slys sem ekki sé hægt að útskýra hvernig átti sér stað nákvæmlega.

                Stefnandi sótti um bætur til stefnda, Vátryggingafélags Íslands, en með bréfi, dagsettu 1. september 2014, var bótaskyldu úr slysatryggingu synjað. Stefnandi bar þá ákvörðun undir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum, sem staðfesti niðurstöðu stefnda.

                Vitnin, Einar Árnason, Elías Bjarni Baldursson og Jacek Artur Kotlinski, gáfu skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins. Einar og Elías Bjarni kváðu sig minna að vörubifreiðin hefði verið í gangi þegar þá bar að eftir slysið. Þá bar Jacek að bifreiðin hefði verið í gangi þegar hann ræddi við Þorstein skömmu áður en atvikið varð.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á bótareglum umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 1. og 2. mgr. 92. gr., sbr. 1. mgr. 88. gr. laganna. Um fjárkröfu er vísað til 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. og 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 5. til 7. gr. laganna.

Í stefnu er málavöxtum lýst svo að eiginmaður stefnanda, Þorsteinn Sveinbjörnsson, hafi í umrætt sinn verið við vinnu hjá stefnda Atafli við að afferma vinnutæki af vörubifreiðinni VT-360. Hann hafi verið að flytja lyftara á verkstað á vörubifreiðinni og hugðist hífa lyftarann af vörubifreiðinni. Hann hafi stöðvað bifreiðina og sett út stuðningsarma hennar en bifreiðin hafi verið í lausagangi. Hann hafi verið með belti um sig til að stjórna krana sem var áfastur bifreiðinni. Hvort tveggja kraninn og stuðningsarmarnir séu knúnir af vélarafli bifreiðarinnar. Þorsteinn hafi tekið niður einn hlera (skjólborð) af pallinum hægra megin, sett álstiga þar upp að og farið upp á pallinn. Hann hafi verið byrjaður að stjórna krananum sem sjáist af því að hann hafi verið kominn út og til hægri á bifreiðinni. Ekki verði fullyrt hvað gerðist næst, en að öllum líkindum hafi Þorsteinn verið að koma krananum í stöðu með fjarstýringarbeltinu til að afferma lyftarann þegar kraninn hafi skollið ofarlega hægra megin í höfuð hans af nokkru afli svo að hann féll aftur fyrir sig á stigann og lenti með hnakkann á jörðinni fyrir neðan. Telur stefnandi þetta verða af líkum leitt vegna stöðu kranans og áverka á höfði Þorsteins hægra megin framarlega á höfuðkúpu og vinstra megin aftarlega á höfuðkúpu. Tveir menn, sem staddir voru á svæðinu, hefðu lýst því að hafa heyrt þungt högg og álstiga detta í jörðina og hafi þeir kallað eftir aðstoð. Aðkoman hafi verið þannig að Þorsteinn hafi legið titrandi í jörðinni með fjarstýringarbelti af krananum utan um sig. Stiginn hafi legið hornrétt út frá vörubifreiðinni. Stuðningsarmar hafi verið úti og kraninn greinilega verið notaður þar sem hann hafi verið úti og til hægri á þeim stað þar sem Þorsteinn féll til jarðar.

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að krani sé eðlilegur tengibúnaður og nauðsynlegur hluti af bifreið og starfrækslu hennar sem vörubifreiðar. Vinna ökumanns við þann búnað sé nauðsynlegur og óhjákvæmilegur hluti af störfum ökumanns vörubifreiðar í skilningi 92. gr. umferðarlaga, og í svo nánum tengslum við akstur og notkun bifreiðarinnar, að hún falli, rétt eins og akstur, undir notkunarhugtak 2. mgr. 92. gr. sbr. 88. gr. umferðarlaga.

Með breytingum á 92. gr. umferðarlaga, með lögum nr. 32/1998, hafi verið stefnt að því að auka vátryggingarvernd vátryggingartaka sem slasist í eigin bifreið. Hin sérstaka slysatrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga, sem áður hafi aðeins tekið til ökumanns, hafi einnig verið látin ná til vátryggingartaka er slasist „sem farþegi í eigin ökutæki eða af völdum þess“, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Með breytingunni hafi staða ökumanns verið gerð sambærileg stöðu tjónþola sem eigi skaðabótakröfu samkvæmt 88. gr. umferðarlaga.

                Stefnandi kveður losun og lestun vörubifreiðar vera þátt í notkun hennar, enda beinlínis tilgangur með notkun hennar. Þorsteinn hafi nýlokið við að flytja lyftara á vinnustað þegar hann hafi farið að afferma hann af palli bifreiðarinnar. Er slysið átti sér stað hafi bifreiðin verið í venjulegri og eðlilegri notkun sem vörubifreið og Þorsteinn að störfum við notkun hennar í skilningi 92. gr. umferðarlaga. Því sé umrætt slys bótaskylt úr slysatryggingu ökumanns.

Stefnandi bendir á að bifreiðin, sem um ræðir, sé þannig útbúin að á milli stýrishúss og vörupalls sé áfastur krani sem er notaður til að hífa hluti á og af pallinum. Á hliðum bifreiðarinnar séu stuðningsarmar til að varna því að bifreiðin velti á meðan verið er að hífa þunga hluti á og af henni. Hvort tveggja gangi fyrir vélarafli bifreiðarinnar og sé hluti af eðlilegri notkun hennar. Þegar slysið hafi orðið hafi Þorsteinn verið að vinna við að koma krana í stöðu til að hífa lyftara af palli bifreiðarinnar. Bifreiðin hafi því verið í gangi þegar slysið hafi átt sér stað og kraninn gengið fyrir aflvél bifreiðarinnar.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að bifreiðin VT-360, sem Þorsteinn hafi slasast við að stjórna, hafi verið sérstaklega tryggð hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands, sem vörubifreið. Iðgjald vörubifreiða sé hærra en venjulegra bifreiða, enda stærð þeirra og hættueiginleikar meiri. Slys Þorsteins hafi orðið við stjórn vörubifreiðar og þar sem stefndi, Atafl, hefði keypt lögboðna slysatryggingu vegna starfa við vörubifreiðina af stefnda, Vátryggingafélagi Íslands, beri stefndu bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna slyssins. Í því að stjórna vörubifreið felist óhjákvæmilega vinna við að afferma pallinn, eins og annan þann búnað sem sé eðlilegur og nauðsynlegur búnaður bifreiðarinnar. Sem fyrr greinir sé eiganda slíks ökutækis gert að greiða hærra iðgjald en af venjulegri bifreið, þar sem starf við að stjórna vörubifreið sé talið umfangsmeira og hættumeira en stjórn venjulegra bifreiða. Af því leiði að öll slys sem verði við venjuleg og nauðsynleg störf við stjórnun vörubifreiða falli undir trygginguna.

                Krafa stefnanda um bætur sundurliðast á eftirfarandi hátt: Gerð er krafa um bætur fyrir útfararkostnað samkvæmt 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga, samtals 1.171.030 krónur sem sundurliðast í þjónustu útfararstofu, 494.487 krónur, erfidrykkju, 640.000 krónur, tilkynningar um andlát í 365 miðlum, 18.912 krónur, og tilkynningar um andlát í Morgunblaðinu, 17.631 krónu. Þá er gerð krafa um bætur að fjárhæð 7.506.399 krónum samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga. Með vísan til 2. málsliðar þeirrar lagagreinar miðast krafan við 3.000.000 króna, uppreiknað miðað við lánskjaravísitölu á dánardegi, 8.212 stig og leiðrétt miðað við grunnvísitölu 15. gr., sbr. 29. gr.  skaðabótalaga, 3.282 stig. Krafist er 4,5% vaxta frá tjónsdegi til þess dags er stefndi synjaði bótaskyldu, 1. september 2014, sbr. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Um lagarök vísar stefnandi til umferðarlaga nr. 50/1987 um bótaskyldu, einkum 92. gr., sbr. 88. gr. laganna. Um aðild stefndu er vísað til 97. gr., sbr. 90. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 og laga nr. 30/2004, um vátryggingasamninga. Dómkröfur stefnanda eru byggðar á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, einkum 12. gr., 13. gr., 15. gr. og 16. gr. Um varnarþing er vísað til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 33. gr. Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga 91/1991, sérstaklega 130. gr., sbr. lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Krafa um dráttarvexti er reist á III. og IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og 16. gr. skaðabótalaga.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu vísa til þess að í málinu gildi almennar reglur skaðabótaréttar um sönnun og sönnunarbyrði. Stefnandi beri því sönnunarbyrði um bótarétt sinn. Í því felist að stefnandi verður að sanna að skilyrði fyrir bótarétti úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga séu uppfyllt. Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að skilyrði bótaréttar úr lögbundinni slysatryggingu ökumanns séu ekki uppfyllt þar sem umrætt slys hafi ekki verið að rekja til notkunar ökutækisins og hafi Þorsteinn Sveinbjörnsson ekki verið við stjórn þess í skilningi 88. gr. umferðarlaga. 

                Stefndu byggja á því að atvik að slysinu séu óljós. Niðurstaða lögreglurannsóknar hafi verið sú að ekki lægi fyrir hvernig slysið vildi til. Þegar af þeirri ástæðu sé ósannað að atvikið falli undir 2. mgr. 92. gr., sbr. 88. gr., umferðarlaga. Af þessari óvissu leiði að ekki sé unnt að fallast á bótarétt úr slysatryggingu ökumanns og beri af þeim sökum að sýkna stefndu.

                Þá byggja stefndu á því að skilyrði bótaréttar samkvæmt 2. mgr. 92. gr., sbr. 88. gr., umferðarlaga séu ekki uppfyllt. Samkvæmt 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga tryggi slysatrygging ökumanns bætur fyrir líkamstjón ökumanns er verður við stjórn ökutækisins enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 88. gr. Skilyrði bótaréttar séu þannig tvö og þurfi þau bæði að vera til staðar, þ.e. að ökumaður sé við stjórn ökutækis þegar hann slasast og að slysið sé að rekja til notkunar ökutækisins í skilning 88. gr. umferðarlaga. Stefndu telja hvorugt skilyrðið vera uppfyllt í málinu og eigi stefnandi því ekki bótarétt úr tryggingunni.

Samkvæmt 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga sé um hlutlæga ábyrgð að ræða á tjóni sem er að rekja til notkunar ökutækis. Skilyrði fyrir því að sú regla eigi við sé að tjón hafi hlotist af þeirri notkun ökutækisins sem hefur í för með sér að sérstakir hættueiginleikar ökutækisins sem slíks verði virkir, þ.e. hraði, vélarafl eða þyngd. Í málinu liggi fyrir að bifreiðin var kyrrstæð þegar slysið varð en stuðningsfætur hennar voru úti báðum megin. Meginregla sé að kyrrstætt vélknúið ökutæki teljist ekki í notkun í skilningi umferðarlaga. Þá teljist umgangur manna um ökutæki, sem ekki tengist þessum tilteknu hættueiginleikum þess, ekki heldur notkun í þessum skilningi. Í stefnu sé byggt á því að Þorsteinn hafi verið að vinna við affermingu bifreiðarinnar þegar hann slasaðist. Ferming og afferming vörubifreiða sé eitt af því sem talið hefur verið hluti af eðlilegri notkun, sem fellur undir 88. gr. umferðarlaga. Skilyrði sé þó að slys hafi hlotist við þær athafnir, þ.e. við fermingu eða affermingu bifreiðarinnar. Það að undirbúa slíkt teljist ekki notkun sem fellur undir hina hlutlægu reglu 88. gr.

Af málsgögnum sé ljóst að engan veginn hafi verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti að slys Þorsteins hafi orðið þegar hann vann við affermingu lyftarans af pallinum. Bendi aðstæður mun frekar til þess að hann hafi verið að undirbúa affermingu. Gögn málsins bendi ekki heldur til þess að Þorsteinn hafi, þegar hann slasaðist, verið byrjaður að nota kranann til að hífa lyftarann af pallinum eins og stefnandi haldi fram í málinu. Ljósmyndir í lögregluskýrslum sanni ekkert slíkt, enda liggi fyrir í málinu að kraninn hafi verið hreyfður til eftir slysið. Að mati stefndu var slysið þannig ekki í neinum þeim tengslum við losun farms að það teljist hafa hlotist af notkun bifreiðar eða við stjórn hennar, sbr. 88. og 92. gr. umferðarlaga. Hvorugt skilyrði 92. gr. sé því uppfyllt og bótaréttur þar með ekki til staðar. Leiði af því að sýkna beri stefndu af kröfu stefnanda.

Af lögregluskýrslum sem liggja fyrir í málinu megi ráða að stefnandi hafi verið að undirbúa það að flytja lyftara af palli vörubifreiðarinnar. Það að búið var að setja út stoðfætur báðum megin og taka hluta af hlera niður hægra megin leiði vissum líkum að því, auk stigans sem þar var og hafi að öllum líkindum verið reistur upp við bifreiðina í því skyni að fara upp á pallinn. Þá beri lögregluskýrslur jafnframt með sér að afferming lyftarans hafi ekki verið hafin, en í frumskýrslu komi fram að ekki hafi verið búið að festa tog í lyftarann. Stefndu hafna því sem röngu og ósönnuðu að Þorsteinn hafi verið að afferma bifreiðina þegar slysið varð og að hann hafi verið byrjaður að stýra krananum og koma honum í stöðu til að hífa lyftara af palli bifreiðarinnar. Það stangist á við niðurstöður rannsóknar lögreglu á aðstæðum á vettvangi og sé vandséð hvernig afferming geti hafa verið hafin þegar viðeigandi búnaður hafi ekki verið festur í það sem á að afferma. Að sama skapi telja stefndu ósannað að kraninn hafi skollið á höfði Þorsteins eins og haldið sé fram af hálfu stefnanda.

                Stefndu telja, sem fyrr greinir, að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að Þorsteinn hafi eingöngu verið að undirbúa það að hefja afferminguna. Hann hafi í því skyni verið á leið upp á pallinn, eða kominn þangað, þegar hann hafi af einhverjum ástæðum fallið á jörðina og fengið þá áverka sem síðar leiddu til þess að hann lést. Fyrir liggi að stiginn lá á jörðinni þegar komið var að Þorsteini og hafi lega stigans bent til þess að hann hafi verið reistur upp við bifreiðina. Megi því ætla að Þorsteinn hafi annað hvort verið á leið upp stigann þegar hann féll, og stiginn þá með honum, eða hann hafi fallið af pallinum og tekið stigann með sér í fallinu. Í hvoru tilvikinu sem er megi vera ljóst að afferming bifreiðarinnar hafi ekki verið hafin þegar slysið vildi til.

Af rannsókn lögreglu á atvikum, og gögnum sem liggja fyrir í málinu, megi því vera ljóst að Þorsteinn hafi ekki verið að vinna við affermingu bifreiðarinnar þegar hann slasaðist. Hann hafi því hvorki verið við stjórn bifreiðarinnar né hún verið í notkun en slíkt sé skilyrði þess að bótaréttur sé til staðar samkvæmt 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga. Leiði af því að sýkna beri stefndu af kröfu stefnanda.

Varakrafa stefndu er byggð á því að lækka beri bætur fyrir missi framfæranda vegna frádráttar samkvæmt 4. mgr. 5. gr., sbr. 2. mgr. 12. gr. skaðabótalaga.

Stefndu hafna kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögu, enda liggi ekki fyrir fyrr en þá hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefndu og hvort vanefndir verði á greiðslu sem heimili að dráttarvextir séu reiknaðir.

Um lagarök vísa stefndu einkum til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum um sönnun og sönnunarbyrði, skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 12. og 13. gr., sbr. 4. og 5. gr., 88. og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, m.a. 129. og 130. gr. um málskostnað.

Niðurstaða

                Samkvæmt 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, skal slysatrygging tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss, sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækis, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 88. gr. laganna.

Engin vitni voru að því er Þorsteinn Sveinbjörnsson slasaðist við vinnu sína í umrætt sinn. Af aðstæðum á vettvangi og framburði samstarfsmanna Þorsteins, sem rakinn hefur verið, verður þó ráðið að vörubifreiðin hafi verið kyrrstæð og að hann hafi verið að búa sig undir að afferma lyftara af palli hennar er slysið varð, en á bifreiðinni var áfastur krani til notkunar við affermingu. Af skýrslu réttarmeinafræðings, sem liggur fyrir í málinu, þykir ekki verða dregin sú ályktun að slysið hafi orðið með þeim hætti að Þorsteinn hafi fengið í sig högg frá krananum og fallið við það. Var það jafnframt niðurstaða lögreglurannsóknar að ekki væri hægt að útskýra hvernig slysið hefði átt sér stað nákvæmlega. Þá hafði ekki verið fest tog í lyftarann til að hífa hann af palli vörubifreiðarinnar, sem bendir til þess að afferming hafi ekki verið hafin.

Samkvæmt framangreindu verður hvorki talið sýnt fram á að Þorsteinn hafi verið við stjórn bifreiðarinnar, né að slysið hafi hlotist af eiginleikum eða sérstökum búnaði hennar í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 116/1999 og 671/2014. Af því leiðir að slysið og afleiðingar þess falla utan gildissviðs vátryggingar samkvæmt 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga. Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda um bætur samkvæmt 1. mgr. 12. gr. og 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Eins og atvikum er háttað þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.039.920 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Ingólfs Kristins Magnússonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 990.000 krónur án virðisaukaskatts.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Stefndu, Vátryggingarfélag Íslands hf. og Atafl ehf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Gerðar Einarsdóttur, í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.039.920 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Ingólfs Kristins Magnússonar hdl., 990.000 krónur.