Print

Mál nr. 745/2017

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Páll Rúnar M. Kristjánsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti
Reifun

Kæra Á til Hæstaréttar uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2017, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað. Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða allan kostnað við rekstur málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 er svo fyrir mælt að í skriflegri kæru til héraðsdómara skuli greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í kæru sóknaraðila er í engu vikið að þeim ástæðum, sem kæran er reist á, en ekki stoðar að þær komi fram í greinargerð sóknaðila, sem ranglega er nefnd kæra og barst Hæstarétti 30. nóvember 2017. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á kærunni að vísa verður málinu frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

                                                                 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2017.

Með matsbeiðni, sem barst héraðsdómi 18. október 2017, hefur sóknaraðili, X, óskað þess, með vísan til XIX. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að dómkvaddur verði matsmaður til þess að meta meta hvar líkama A hafi verið komið fyrir í sjó, vegna áfrýjunar dóms Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2017 til Hæstaréttar Íslands.

                Varnaraðili, Ríkissaksóknari, krefst þess að beiðni um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað.

Málið var tekið til úrskurðar 20. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi.

I

                Með ákæru, útgefinni 30. mars 2017, voru sóknaraðila gefin að sök eftirfarandi brot, framin í janúar 2017:

1.            ,, Manndráp, með því að hafa að morgni laugardagsins 14. janúar svipt A, kennitala [...], lífi. Ákærði veittist með ofbeldi að A í bifreiðinni [...], af gerðinni [...], sem lagt var nálægt flotkví við enda hafnarkantsins í [...], og/eða á öðrum óþekktum stað, og sló hana ítrekað í andlit og höfuð, tók hana kverkataki og herti kröftuglega að hálsi hennar og í framhaldinu, á óþekktum stað, varpaði ákærði A í sjó eða vatn, allt með þeim afleiðingum að A hlaut punktblæðingar í augnlokum, táru og glæru augnlokanna og innanvert á höfuðleður, þrýstingsáverka á hálsi, þar á meðal brot í vinstra efra horn skjaldkirtilsbrjósks, nefbrot og marga höggáverka í andlit og á höfuð og drukknaði, en lík Birnu fannst sunnudaginn 22. janúar í fjörunni rétt vestan við [...].“ Var þetta talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.            ,,Stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 19. janúar í káetu sem hann hafði til umráða í fiskveiðiskipinu [...] sem kom til hafnar í [...], haft í vörslum sínum 23.424 g af kannabisefnum, sem ákærði hugðist flytja til [...] í ágóðaskyni.“ Var þetta talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2017 var sóknaraðili sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök og hann dæmdur til 19 ára fangelsisvistar, að frádreginni gæsluvarðhaldsvist. Þessum dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og er málið nr. [...] í málaskrá réttarins.

II

                Í matsbeiðni kemur fram að af gögnum málsins sé ljóst að sóknaraðili hafi ekki getað ekið nema um 130 km á milli klukkan sex og ellefu um morguninn 14. janúar. Við munnlegan flutning málsins sagði lögmaður sóknaraðila þessa vegalengd vera um 130 til 150 km. Hafi líkama A, hér eftir brotaþola, verið komið fyrir í sjó utan þeirrar vegalengdar megi útiloka sekt sóknaraðila. Sóknaraðili sé ókunnugur Íslandi og hafi aldrei komið á það svæði þar sem brotaþoli hafi fundist. Hafi brotaþola verið komið í sjó af landi megi ráða af landslagi við [...] að staðir og aðstæður þar sem slíkt sé mögulegt séu fáir, ef nokkrir. Þannig þurfi ekki eingöngu að vera til staðar landfræðilegar aðstæður til slíks, heldur einnig sog eða straumur til að sjósetja líkama fullorðins einstaklings. Hvað varði þetta atriði hafi í dómi Héraðsdóms Reykjaness verið komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hefði, miðað við ofangreindan kílómetrafjölda, getað ekið á þann stað þar sem brotaþoli hafi fundist. Í þessu felist mikil rökvilla, enda skipti það ekki máli hvort hann hafi getað komist á þann stað þar sem brotaþoli fannst. Efni málsins sé hvort hann hafi getað komist á þann stað þar sem brotaþola var, samkvæmt ákæru, komið fyrir í sjó sjö dögum áður, en það sé augljóslega ekki sami staðurinn og þar sem brotaþoli fannst.

                Í ljósi þessa sé þess óskað að dómkvaddur matsmaður leggi mat á og svari eftirfarandi spurningum:

1.            ,,Hvar er líklegast að líkama brotaþola hafi verið komið fyrir í sjó?

2.            Hvort var líkama brotaþola komið fyrir í sjó austan eða vestan við þann stað sem hún fannst?

3.            Sé ekki hægt að gefa afdráttarlaus svör við þessum spurningum er farið fram á að matsmaður svari því hvað sé líklegasta svarið við þeim“.

Þess er óskað að við matið sé tekið ,,mið af hafstraumum, veðurfari, landslagi og öðrum þeim þáttum sem kunna að hafa áhrif á það hvar sé almennt hægt að sjósetja líkama einstaklings og hvar það [kunni] að hafa verið gert“.

Það sé viðurkennt í íslenskum rétti að játa verði sökuðum einstaklingi ríkt svigrúm til að afla sönnunargagna í sakamáli. Matsbeiðandi neiti sök. Hann hafi ekki og geti ekki hafa farið með brotaþola um Suðurstrandarveg umræddan morgun. Hann rati ekki um svæðið auk þess sem gögn málsins og heilbrigð skynsemi bendi til þess að brotaþola hafi verið komið fyrir í sjó á stað eða með aðferðum sem ómögulegt sé að hann hafi átt aðkomu að. Tilgangur matsins sé að freista þess að afla sönnunar til að sýna fram á sakleysi sóknaraðila.

Við munnlegan málflutning innti dómari lögmann sóknaraðila eftir því hvort svar við spurningu 1 fæli ekki jafnframt í sér svar við spurningum 2 og 3, yrði fallist á dómkvaðningu matsmanns. Kvað hann þá spurningar 2 og 3 vera settar fram til vara, ef matsmanni reyndist ekki unnt að gefa svar við 1. spurningunni.

III

                 Varnaraðili byggir á því að þau atriði sem matinu sé ætlað að leiða í ljós hafi enga þýðingu við sönnunarmat í sakamálinu á hendur sóknaraðila, ekki síst þar sem ekki sé hægt að svara matsspurningunum, sbr. 1. mgr. 128. gr. og 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

                Í fyrsta lagi liggi fyrir með óhrekjanlegum hætti að sóknaraðili hafi banað brotaþola, eins og fram komi í dómi Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. S-[...]. Auk þess sé ljóst að matsmaður geti ekki svarað matsspurningunum á þann hátt að það breyti nokkru um sönnunarstöðu málsins þar sem margir óvissuþættir séu til staðar. Í því sambandi nægi að nefna að ekki liggi fyrir hversu lengi lík brotaþola hafi legið í fjörunni við [...] þegar það fannst. Atriði í krufningarskýrslu dr. B og matsgerð C gefi sterka vísbendingu um að líkið hafi legið allnokkurn tíma í fjörunni/grunnsævi áður en það fannst. Varnaraðili vísar til ummæla í krufningarskýrslu um leðurkennda hörðnun á hörundi á dæmigerðum snertiflötum liggjandi eða hallandi líkama, frumstig rotnunar í mestöllu yfirborði líkamans og ummerki á líkama vegna afráns dýra, sem og ummæla í matsgerð þar sem meðal annars segi að ekki sé hægt að áætla dvalartíma líksins í vatni út frá eyðingu af völdum dýra, enda liggi ekki fyrir hvort líkið hafi legið í djúpu eða grunnu vatni eða frá hvaða tíma það hafi legið á ströndinni.

                Þar sem ekki sé hægt að segja til um í hversu langan tíma lík brotaþola hafi verið í sjónum vanti meginbreytuna til þess að unnt sé að svara matsspurningunum. Þá sé ekki mögulegt að reikna út eða fá fullnægjandi upplýsingar um hver hafi verið ölduhæð, styrkur sjávarstrauma eða vindstyrkur á hverjum tíma í sjónum við sunnanvert [...] þá rúmlega átta daga sem um ræðir. Matsmaður geti aldrei reiknað sig til baka í tíma, þannig að hann geti sagt hvar sé líklegast að líkama brotaþola hafi verið komið fyrir í sjó eða gefið svar um líkindi. Hægt sé að fullyrða að líkami brotaþola hafi verið settur í sjó á sunnanverðu [...] en nær verði ekki komist hvað það varði. Í ákæru sé ekki sagt hvar líkami brotaþola hafi verið settur í vatn, enda sé það ómögulegt.

                Samkvæmt skýrslu 8. nóvember 2017, sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið fyrir varnaraðila í tilefni af áfrýjun sóknaraðila, komi fram að sóknaraðili hafi sannanlega ekið 129,8 km á bifreiðinni [...] frá því hann hafi tekið hana á leigu 13. janúar 2017 til klukkan sjö að morgni 14. janúar og svo frá klukkan ellefu þann morgun þar til hann skilaði bifreiðinni sama dag. Heildarakstur bifreiðarinnar á leigutímanum hafi verið 319 km. Af því leiði að bifreiðinni hafi verið ekið 189,2 km á tímabilinu frá klukkan sjö til ellefu, sem séu heldur fleiri kílómetrar en D lögreglumaður hafi áætlað í skýrslu sinni fyrir dómi. Í dómi héraðsdóms sé tekið fram að miðað við skýringar sóknaraðila á þeim akstursleiðum sem hann hafi ekið sé að lágmarki óútskýrður 140 km akstur. Nú liggi hins vegar fyrir að óútskýrður akstur sé um 190 km. Sóknaraðili hafi neitað að upplýsa hvert hann hafi ekið bifreiðinni á umræddu tímabili. Miðað við þann fjölda kílómetra sem bifreiðinni hafi verið ekið á tímabilinu sé ljóst að sóknaraðili hafi getað ekið frá [...] á sunnanvert [...], þar með talið að [...] og nágrenni, brúnni yfir [...] og [...].

Ekkert sé því til fyrirstöðu að fella dóm á málið á áfrýjunarstigi þótt matsbeiðni verði hafna.     

IV

                Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008 leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar og samkvæmt 3. mgr. sömu greinar getur aðili snúið sér beint til opinbers starfsmanns ef hann er skipaður í eitt skipti fyrir öll til að meta tiltekin atriði, ef honum er skylt að framkvæma matið eða hann er fús til þess án dómkvaðningar, enda sé það í verkahring hans. Verði ekki farið að svo sem segi í 2. eða 3. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008 kveður dómari til einn eða tvo matsmenn, ef honum þykir þörf á, til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila, sbr. 1. mgr. 128. gr. laganna. Í beiðni skal koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það er sem meta á og hvað aðili hyggst sanna með mati. Ákærandi eða ákærði geta hvor um sig beðist mats eftir að mál hefur verið höfðað. Samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laganna getur dómari meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar.

                Eins og áður greinir var sóknaraðili sakfelldur fyrir manndráp með dómi Héraðsdóms Reykjaness 29. september sl. Við mat á því hvort umbeðin dómkvaðning matsmanns sé þarflaus til sönnunar verður að líta til þess ríka svigrúms sem sökuðum manni er veitt til að afla sönnunargagna í sakamáli, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 225/2014. Sóknaraðili neitar sök í málinu og hyggst með matsgerð freista þess að færa sönnur á hvar líkama brotaþola var komið í sjó eða vatn í því augnamiði að sýna fram á að það hafi ekki verið á hans færi. 

Eins og málið liggur fyrir dóminum þykir hvorki verða fullyrt að umbeðin matsgerð sé þarflaus til sönnunar um atvik sem skipt geta máli, né að ómögulegt sé að svara þeim matsspurningum sem sóknaraðili setur fram. Það er æðri dóms að taka afstöðu til þýðingar umbeðinnar matsgerðar. Einnig er til þess að líta að sóknaraðili ber hallann af því ef umbeðin matsgerð reynist haldlaus við úrlausn málsins. Þá mun kostnaður af matsgerðinni falla á sóknaraðila, verði dómur héraðsdóms staðfestur um sakfellingu hans, sbr. c. lið 1. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt framangreindu verður fallist á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns í samræmi við matsbeiðni.

                Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Fallist er á beiðni sóknaraðila, X, um dómkvaðningu matsmanns samkvæmt framlagðri matsbeiðni.