Print

Mál nr. 585/2017

Útgerðarfélagið Haukur ehf. (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Árnason lögmaður)
Lykilorð
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
Reifun

Ú ehf. krafðist þess að viðurkennt yrði að lánssamningur milli hans og LÍ hf., forvera L hf., hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Var um að ræða fjölmyntalán „að jafnvirði“ 104.000.000 krónur í fjórum erlendum gjaldmiðlum sem skiptust í tilteknum hlutföllum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að slík tilgreining á fjárhæð lánsins nægði ekki ein og sér til að komast að niðurstöðu um hvort hann tæki til láns í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar heldur yrði að líta til þess hvernig aðilar efndu aðalskyldur sínar samkvæmt samningnum. Var tekið fram að andvirði lánsins hefði verið ráðstafað að ósk Ú ehf. inn á gjaldeyrisreikninga, en með því móti hefði stofnast samsvarandi krafa í erlendum myntum á hendur bankanum vegna reikninganna. Talið var að þegar lánveitandi efni aðalskyldu sína með því móti hefði fé í erlendum gjaldmiðlum í reynd skipt um hendur. Var því fallist á það með héraðsdómi að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum og L hf. því sýknað af kröfu Ú ehf.

                                                        Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Símon Sigvaldason dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2017. Hann krefst þess að viðurkennt verði að lánssamningur milli áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. 17. febrúar 2004 sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi. Við úrlausn um hvort samningur sé um lán í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta hefur í fjölmörgum dómum Hæstiréttar verið lagt til grundvallar að fyrst og fremst verði byggt á skýringu á texta viðkomandi samnings þar sem lýst er skuldbindingunni sem lántaki gengst undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um efni lánssamningsins hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi sagði í fyrrgreindum lánssamningi að um væri að ræða fjölmyntalán „að jafnvirði“ 104.000.000 krónur í fjórum erlendum gjaldmiðlum sem skiptust í tilteknum hlutföllum. Hæstiréttur hefur ítrekað slegið því föstu að slík tilgreining á fjárhæð láns í texta samnings nægi ekki ein og sér til að komast að niðurstöðu um hvort hann taki til láns í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012. Verður því að líta til þess hvernig lánveitandinn og lántakinn efndu aðalskyldur sínar samkvæmt samningnum. Svo sem rakið er í héraðsdómi var andvirði lánsins ráðstafað að ósk áfrýjanda inn á gjaldeyrisreikninga, en með því móti stofnaðist samsvarandi krafa í erlendum myntum á hendur bankanum vegna reikninganna. Þegar lánveitandi efnir aðalskyldu sína með því móti hefur verið talið að fé í erlendum gjaldmiðlum skipti í reynd um hendur, sbr. meðal annars dóma réttarins 11. september 2014 í máli nr. 90/2014 og 15. janúar 2015 í máli nr. 409/2014. Samkvæmt þessu verður fallist á það með héraðsdómi að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum. Verður dómurinn því staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en fjárhæð hans tekur mið af því að samhliða er rekið annað mál um samkynja sakarefni.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Útgerðarfélagið Haukur ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                           

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 27. júní 2017, í máli nr. E-2160/2015:

Mál þetta, sem dómtekið var 17. maí sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 12. júní 2015, af Útgerðarfélaginu Hauki hf., Ennisbraut 8, Ólafsvík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf., nr. 455, frá 17. febrúar 2004, að fjárhæð 104.000.000 króna, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

II

Stefnandi, sem er útgerðarfyrirtæki, gerði samning við Útgerðarfélagið Tjald, 17. febrúar 2004, um kaup stefnanda á aflahlutdeild skipsins Tjalds SH-270.  Kaupverðið var ákveðið 108.000.000 króna og bar stefnanda að leggja fjárhæðina inn á fjárvörslureikning Magnúsar Helga Árnasonar hdl., nr. 0101-26-27175, en honum bar svo að flytja fjárhæðina inn á reikning Útgerðarfélagsins Tjalds, nr. 190-26-200058, þegar Fiskistofa hefði staðfest að flutningur aflahlutdeildanna og aflamarksins hefði farið fram.

Stefnandi kveður að vegna framangreindra kaupa hafi hann óskað eftir því að Landsbanki Íslands hf. lánaði honum íslenskar krónur, sem bundnar væru gengi erlendra gjaldmiðla.

Sama dag, 17. febrúar 2004, gerðu stefnandi og Landsbanki Íslands hf. með sér lánssamning nr. 445 að fjárhæð 104.000.000 króna.  Umdeilt lán er á forsíðu lánssamningsins tilgreint í íslenskum krónum en í upphafsorðum samningsins segir að aðilar geri með sér lánssamning um „fjölmyntalán að jafnvirði“ 104.000.000 króna „í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 44%, CHF 10%, JPY 16%, USD 30%“.  Síðan segir:  „Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.  Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“

Í grein 1.1 segir meðal annars að lántaki, þ.e. stefnandi, lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána umsamda lánsfjárhæð.  Í grein 1.2 segir að lántaki sendi bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli lánshlutann inn á.  Form að útborgunarbeiðni sé viðauki 1 við samninginn.

Í útborgunarbeiðni óskar stefnandi eftir því að lánið verði greitt út 19. febrúar 2004, „í þeim myntum sem lánið er tekið í beint til Útgerðarfélagsins Tjalds ehf.“, inn á reikning sem félagið tilgreini.  Þá segir að stefnandi heimili Landsbanka Íslands hf. að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt lánssamningnum af reikningi hans nr. 190-26-30039.

Samkvæmt framlögðu tölvuskeyti fór Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. fram á að andvirði kvótasölu félagsins til Útgerðarfélaganna Hauks og Dvergs yrði „að eins miklu leyti og hægt er“ greitt í erlendum myntum inn á gjaldeyrisreikninga félagsins í bandaríkjadölum, evrum, sterlingspundum, japönskum jenum og svissneskum frönkum.  Eftirstöðvar skyldu greiðast inn á tékkareikning félagsins í íslenskum krónum.

Í grein 2.1 í lánssamningnum segir að lánið skuli greiða með tíu afborgunum á sex mánaða fresti, fyrst 2. júní 2004.  Skyldu þá greiðast 2/31 hlutar lánsins, síðan 1/31 hluti á hverjum gjalddaga en á lokagjalddaga, 2. desember 2008, skyldu 21/31 hluti lánsins greiddir.  Í grein 2.2 kemur fram að lántaki óski eftir því að reikningur hans nr. 190-26-30039 hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum.

Í grein 2.3 segir meðal annars að lántaka sé heimilt að greiða lánið hraðar eða að fullu áður en að lokagjalddaga komi en það sé þó háð samþykki bankans.  Sé þessi heimild nýtt skuli „lágmarksgreiðsla nema a.m.k. jafnvirði 10 milljóna íslenskra króna hverju sinni“.

Í grein 2.5 er kveðið á um að komi til vanefnda af hálfu lántaka skuldbindi hann sig til þess að greiða bankanum, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, allan kostnað sem bankinn leggi út vegna vanefndanna.

Í grein 3.1 segir að lántaki lofi að greiða bankanum vexti sem skuli vera breytilegir vextir jafnháir sex mánaða LIBOR-vöxtum, auk 2,75% vaxtaálags.

Í grein 4.1 er kveðið á um að sé skuldin í skilum geti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið.  Síðan segir: „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt gengisskráning Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað sé sérstaklega samið.“

Í grein 7.1 er kveðið á um að standi lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001.  Bankinn hafi um það val, hvort hann krefjist dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.

Í grein 10.1 kemur fram að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra skuldbindinga samkvæmt samningnum hafi lántaki afhent bankanum tryggingarbréf með veði í skipinu Gunnari Bjarnasyni SH-122, skipaskrárnr. 1244, að fjárhæð 115.000.000 króna.

Í grein 11.2 er kveðið á um að sé samningurinn gjaldfelldur á grundvelli ákvæða í grein 11.1 í samningnum, sé bankanum heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi bankans á þeim myntum sem hver lánshluti sé í og krefja lántaka um greiðslu hans í samræmi við ákvæði samningsins.  Samkvæmt grein 11.3 bera allar skuldir í tilvikum gjaldfellingar dráttarvexti í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð.

Samkvæmt framlögðum kaupnótum millifærði forveri stefnda inn á reikninga Útgerðar­félagsins Tjalds ehf., 18. febrúar 2004, 528.712 evrur inn á reikning nr. 190-38-710006, 189.298 svissneska franka inn á reikning nr. 190-38-600558, 25.866.626 japönsk jen inn á reikning nr. 190-38-670058 og 459.635 bandaríkjadali inn á reikning nr. 190-38-100058.

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd.  Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Landsbanki Íslands hf., nú Landsbankinn hf., stefndi þessa máls.  Tók stefndi við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans og er óumdeilt að hann hafi þar á meðal tekið yfir kröfu á hendur stefnanda samkvæmt lánssamningnum frá 17. febrúar 2004.

Af hálfu stefnanda og stefnda var undirritaður viðauki við umþrættan lánssamning 31. desember 2008.  Í viðaukanum segir að samningurinn hafi verið um fjölmyntalán að jafnvirði 104.000.000 króna, „í eftirtöldum myntum og hlutföllum: EUR 44%, USD 30%, CHF 10% og JPY 16%“.  Eftirstöðvar lánsins, 2. júní 2008, eru tilgreindar 23.122.247 japönsk jen, 202.802,90 svissneskir frankar, 225.463,58 evrur, 194.960,14 bandaríkjadalir og 336.495,01 kanadadalur.  Lánstímanum var breytt þannig að lokagjalddaginn færðist aftur til 2. desember 2013 og vaxtaálag á LIBOR-vexti var hækkað í 3,50%.

Af hálfu aðila var undirrituð skilmálabreyting við lánssamninginn 17. febrúar 2010.  Í skilmálabreytingunni er vísað til lánssamnings aðila sem samkomulag um langtímalán að fjárhæð 104.000.000 króna, „í eftirtöldum myntum og hlutföllum: EUR 44%, USD 30%, CHF 10% og JPY 16%“.  Fól skilmálabreytingin í sér að á tímabilinu frá 2. júní 2009 til og með 2. desember 2010 skyldi lántaki greiða bankanum fasta greiðslu að fjárhæð 6.143.277 krónur á sex mánaða fresti.  Sérstaklega er tekið fram að lántaki skuli inna greiðslur af hendi í íslenskum krónum.  Fjárhæðinni skyldi fyrst ráðstafað til greiðslu áfallinna vaxta og síðan til greiðslu höfuðstóls lánsins.  Sá hluti af greiðslum sem frestaðist samkvæmt þessu, frá upphaflegum skilmálum, skyldi leggjast við höfuðstól lánsins.  Lánstíminn skyldi haldast óbreyttur og frá og með 2. júní 2010 skyldi lántaki greiða afborganir og vextir í samræmi við upphaflega skilmála lánssamningsins.  Þá var vaxtaálag á LIBOR-vexti hækkað í 3,75%.

Í framlagðri tilkynningu um gjalddaga frá stefnda, dagsettri 25. maí 2007, eru fjárhæðir afborgana og vaxta tilgreindar í kanadadölum, svissneskum frönkum, bandaríkjadölum, norskum krónum, japönskum jenum og evrum.  Í annarri tilkynningu um gjalddaga, dagsettri 22. maí 2008, eru fjárhæðir afborgana og vaxta tilgreindar í evrum, svissneskum frönkum, kanadadölum, sænskum krónum og japönskum jenum.  Samkvæmt framlögðum kvittunum, útgefnum 1. september 2015, greiddi stefnandi af láninu 4. júní 2007 í evrum, japönskum jenum, norskum krónum, bandaríkjadölum, svissneskum frönkum og kanadadölum og 2. júní 2008 í evrum, svissneskum frönkum, kanadadölum, sænskum krónum og japönskum jenum.

Stefnandi kveður stefnda ekki hafa samþykkt ítrekuð erindi hans þess efnis að lán hans verði leiðrétt í samræmi við niðurstöður dóma Hæstaréttar Íslands sem kveða á um ólögmæti lána í íslenskum krónum, sem bundin séu við gengi erlendra gjaldmiðla, líkt og ágreiningur aðila stendur nú um.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að lánssamningurinn frá 17. febrúar 2004, nr. 445, sé um lán sem verðtryggt hafi verið við gengi erlendra mynta og að slík verðtrygging fari í bága við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 13. og 14. gr. laganna, eins og dómstólar hafi margsinnis staðfest.  Stefnandi heldur því fram að samningur þessi sé sams konar og fjallað var um í dómi Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, þar sem staðfest hafi verið að samhljóða samningur væri um lán í íslenskum krónum, bundinn með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla.

Stefnandi vísar til forsíðu lánssamningsins og að hvergi sé þar að finna tilgreiningu á láninu í erlendum myntum.  Hafi það verið ætlun stefnda að veita lán í erlendri mynt hefði slíkt vitaskuld verið tekið fram á forsíðu samningsins.  Í upphafsorðum samningsins sé lánsfjárhæðin jafnframt aðeins tilgreind í íslenskum krónum.  Hvorki þar né annars staðar í lánssamningnum sé að finna ákvæði um hversu há lánsfjárhæðin sé í erlendum myntum en slíkt er, að mati stefnanda, forsenda þess að skuldbinding geti talist vera í erlendum myntum.  Aðeins hlutföll hinna erlendu mynta séu tilgreind.  Að mati stefnanda gefi þetta bersýnilega til kynna að lánið sé í raun og veru í íslenskum krónum og bundið við gengi umræddra gjaldmiðla í tilgreindum hlutföllum.  Þá komi fram í aðfaraorðum samningsins að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðist ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Með öðrum orðum ákvarðist „viðmiðunargengið“ ekki fyrr en tveimur bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Þetta ákvæði þjóni vart öðrum tilgangi en að binda skuld­bindinguna, sem sé í íslenskum krónum, við gengi gjaldmiðlanna á þeim tiltekna degi.  Vísar stefnandi um þetta til dóma Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, frá 14. febrúar 2011, í máli nr. 603/2010, og frá 8. mars 2011, í máli nr. 30/2011.  Í ljósi þess að skuldbinding aðila sé eingöngu tilgreind í íslenskum krónum geti lánið ekki hafa verið í erlendum myntum.  Af þeim sökum blasi við að umþrætt lán hafi verið gengistryggt lán.

Stefnandi vísar jafnframt í grein 4.1 í lánssamningnum um heimild lántaka til þess að óska eftir því að myntsamsetningu lánsins verði breytt þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða hluta við aðrar erlendar myntir en upphaflega hafi verið samið um.  Ákvæðið gefi það bersýnilega til kynna að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum enda komi það beinlínis fram í ákvæðinu að hægt sé að greiða eftirstöðvar skuldarinnar þannig að þær „miðist“ við aðrar myntir.  Stefnandi fái ekki séð hvers vegna erlent lán ætti að miðast við aðrar myntir, hafi það í raun verið í erlendum myntum.  Lántaka hafi verið veitt heimild til þess að breyta „vísitölu“ lánsins meðan á lánstíma stæði og sýni það glöggt að lánið hafi aldrei verið í erlendum myntum heldur í íslenskum krónum með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla.  Hefði lánið í reynd verið í erlendum myntum hefði heimildarákvæði um breytingu á andlagi lánsfjárhæðar ekki kveðið á um breytingu á viðmiðum heldur beinlínis um sölu eins gjaldmiðils og kaup annars.  Í grein 4.1 sé jafnframt útfært með hvaða hætti skuli staðið að myntbreytingu.  Þar segi að við umreikning skuli nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt sé að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skuli miða við, samkvæmt gengisskráningu bankans á íslensku krónunni.  Að mati stefnanda staðfesti framangreint ákvæði enn betur að verið sé að miða lánið við erlendar myntir, þ.e. gengistryggja það.  Þá staðfesti ákvæðið einnig, að við slíka breytingu á „myntvísitölu“ eða gengistryggingu, sé höfuðstóll lánsins ávallt reiknaður í íslenskum krónum.  Þýðingarlaust hefði verið að vísa til gengisskráningar íslensku krónunnar, hefði höfuðstóllinn ekki verið í íslenskum krónum, t.d. ef umbreyta ætti láni sem í raun væri í evrum í japönsk jen.  Vísar stefnandi um þetta til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011.  Samkvæmt dóminum hafi ákvæði 4. gr. samningsins verulegt vægi við mat á því hvort lán sé gengistryggt eða í erlendum myntum.

Í grein 2.2 í lánssamningi aðila komi sérstaklega fram að lántaki óski eftir því að íslenskur reikningur hans nr. 190-26-30039 verði skuldfærður fyrir afborgunum og/eða vöxtum.  Þá liggi fyrir í málinu beiðni um útborgun, dagsett 17. febrúar 2004, þar sem vísað sé til lánssamningsins og, með vísan til greinar 1.2 í lánssamningi aðila, óskað eftir því að lánið verði greitt út 18. febrúar 2004.  Þess sé óskað að útborgunarfjárhæð lánsins verði greidd Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf. beint, inn á reikninga sem félagið tilgreini, í þeim myntum sem lánið sé tekið í.  Í útborgunarbeiðninni sé einnig tiltekið að stefnandi heimili bankanum að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt lánssamningnum af reikningi stefnanda nr. 190-26-30039.

Samkvæmt framlögðum tölvupósti hafi, af hálfu Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., verið óskað eftir því að andvirði kvótasölu félagsins yrði greitt að eins miklu leyti og hægt væri í erlendum myntum inn á tilgreinda reikninga félagsins í bandaríkjadölum, evrum, sterlingspundum, japönskum jenum og svissneskum frönkum, og að eftirstöðvar yrðu greiddar inn á tékkareikning félagsins nr. 0106-26-1055.  Á grundvelli þeirrar beiðni hafi verið ákveðið að nýta lánsfjárhæðina, sem stefnandi hafi tryggt sér í íslenskum krónum, til þess að kaupa erlendan gjaldeyri.  Kaupnótur þar að lútandi, dagsettar 18. febrúar 2004, hafi verið útbúnar og stílaðar á stefnanda.  Í kaupnótunum segi: „Við höfum keypt af yður erlent lán.“  Stefnandi hafi hins vegar aldrei átt erlendir myntir eða erlendan gjaldeyrisreikning og erlendur gjaldeyrir hafi ekki verið færður milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf.  Stefnandi skilji því ekki hvernig ætluð gjaldeyrisviðskipti eigi að hafa farið fram eða hvernig bankinn geti hafa „keypt“ lán af stefnanda.

Tilefni lánveitingarinnar hafi verið kaup stefnanda á aflahlutdeild af Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf.  Í kaupsamningi vegna þeirra viðskipta hafi kaupverðið eingöngu verið tilgreint í íslenskum krónum og í raun hafi átt að leggja það inn á íslenskan tékkareikning, þ.e. fjárvörslureikning í eigu Magnúsar Helga Árnasonar hdl.  Það hafi hins vegar ekki verið gert vegna óska Útgerðarfélagsins Tjalds um að fá kaupverðið greitt í erlendri mynt.  Bankinn hafi orðið við þeirri beiðni og því hafi erlendur gjaldeyrir verið lagður inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds.  Að mati stefnanda geti krafa þriðja aðila um útborgun, og þaðan af síður útborgunarbeiðni eða kaupnótur, ekki breytt eðli lánssamningsins sem kveði á um skuldbindingu í íslenskum krónum.  Stefnandi leggi áherslu á að túlka verði ákvæði samningsins eins og þau komi fram í samningnum sjálfum og að beita beri hefðbundinni textaskýringu þeirra ákvæða.  Sú leið hafi enda verið farin í dómum Hæstaréttar Íslands og vísar stefnandi í því samhengi til dóms réttarins frá 17. janúar 2013, í máli nr. 386/2012.  Í málinu hafi verið deilt um hvort lánssamningur væri gengistryggður eða í erlendi mynt.  Líkt og í þessu máli hafi lánssamningur aðila aðeins kveðið á um skuldbindingu í íslenskum krónum.  Í útborgunarbeiðni, eða lánsumsókn, hafi hins vegar verið tilgreind tiltekin fjárhæð erlendrar myntar.  Lánveitandi hafi talið að slík umsókn væri hluti af samningi aðila en því hafi Hæstiréttur Íslands hafnað og talið að einungis bæri að líta til orðalags lánssamningsins sjálfs.  Að virtri niðurstöðu framangreinds dóms sé ljóst að útborgunarbeiðni geti aldrei breytt efni samningsins, sem sé um lán í íslenskum krónum með verðtryggingu í erlendri mynt.

Hafa beri í huga að lánssamningur aðila hafi verið saminn einhliða af forvera stefnda.  Af þeim sökum beri að beita andskýringarreglu við túlkun ákvæða samningsins.  Samkvæmt þeirri túlkunarreglu skuli óljós samningsákvæði, sem ágreiningi valda, skýrð þeim aðila í óhag sem hafi samið þau einhliða eða ráðið þeim atriðum til lykta.  Löggerninga skuli, í samræmi við þetta, túlka þeim aðila í óhag sem hefði átt að hlutast til um skýrara form samningsins eða tjá sig skýrar um viðkomandi ágreiningsatriði.  Stefndi beri þar af leiðandi hallann af óljósum ákvæðum samningsins.

Stefnandi hafi greitt allar afborganir lánsins með íslenskum krónum, í samræmi við skýr ákvæði í grein 2.2 í lánssamningnum, sem kveði á um að tékkareikningur stefnanda skuli skuldfærður fyrir afborgunum.  Það sýni, svo ekki verði um villst, að lánið hafi verið gengistryggt.

Í ljósi alls framangreinds sé þess krafist að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur aðila nr. 445 kveði á um lán bundið ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Til grundvallar viðurkenningakröfu stefnanda liggi fyrir útreikningar Deloitte sem sýni að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið byggir stefnandi á því að umþrætt lán hafi verið greitt út í íslenskum krónum en fært í þann búning að það hafi verið millifært inn á innlenda gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds.  Frá árinu 1960 hafi almennt verið óheimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þessi almenna regla hafi verið tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.  Með setningu reglugerðar um gengisbundin inn- og útlán í bönkum og sparisjóðum, sem sett hafi verið með heimild í 3. mgr. 65. gr., sbr. b-lið 4. töluliðar 1. mgr. 39. gr. laganna, hafi bönkum og sparisjóðum verið heimilað að taka við innlánum sem tengd hafi verið við ECU, sem sé evrópsk reiknieining, og SDR, sem sé reiknieining Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Eftir setningu reglugerðarinnar hafi innstæða í bönkum og sparisjóðum því getað breyst eftir gengi íslensku krónunnar gagnvart ECU og SDR.  Með setningu laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, hafi þessi heimild fjármálastofnanna verið felld úr gildi.  Í sérstökum athugasemdum við 13. og 14. gr. í frumvarpi til laganna segir orðrétt:  „Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“

Eins og alkunna sé hafi Hæstiréttur Íslands margstaðfest að óheimilt sé að gengistryggja lánssamninga og vísast um það m.a. til dóma réttarins frá 16. júní 2010, í málum nr. 92/2010 og 153/2010.  Lög nr. 38/2001 banni hins vegar ekki einungis gengistryggingu lánssamninga heldur einnig sparifjár og innlánsreikninga.  Að mati stefnanda sé einsýnt að þeir reikningar sem forveri stefnda hafi lagt lánsféð inn á, á grundvelli umþrætts lánssamnings, hafi verið ólögmætir gengistryggðir reikningar samkvæmt lögum nr. 38/2001 og því óhjákvæmilegt að líta svo á að umþrætt lán hafi verið ólögmætt gengistryggt lán.

Stefnandi byggir á því að þegar lán sé lagt inn á reikning með höfuðbók 38 felist ekki í því afhending á erlendum gjaldeyri heldur íslenskum krónum með gengistryggingu, þ.e. tengingu við erlenda gjaldmiðla.  Innlendir viðskiptabankar hafi til marga ára boðið upp á sparireikninga í erlendum myntum, svokallaða IG-reikninga.  Höfuðbók IG-reikninga sé einkennd með númerinu 38.  Um það sé ekki deilt.  Hins vegar sé nákvæmlega sami texti í umþrættum lánssamningi og í þeim samningi sem Hæstiréttur Íslands hafi þegar dæmt um að feli í sér ólögmæta gengistryggingu, sbr. dóm réttarins frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011.  Það liggi því fyrir að lánssamningurinn sjálfur kveði á um ólögmæta gengisviðmiðun.

Að mati stefnanda sé það útbreiddur misskilningur að með því að fá millifærslu inn á slíka gjaldeyrisreikninga, sem að framan greini, flytjist gjaldeyrir til Íslands.  Gjaldeyrir þjóðarinnar sé aldrei geymdur á Íslandi heldur sé hann í því landi eða löndum sem gefi út viðkomandi gjaldmiðil.  Til dæmis séu öll japönsk jen ávallt geymd í Japan og svissneskir frankar í Sviss.  Stefnandi byggir á því að afhending á gjaldeyri felist ekki í því að „leggja inn“ gjaldeyri á reikninga nr. 38 hér á landi, heldur sé þar einungis um færslu á blaði að ræða.  Eina leiðin til þess að afhenda gjaldeyri í raun sé að leggja hann inn á reikning í eigu lántakans í banka í því landi sem gefi út viðkomandi gjaldeyri, eða að afhenda gjaldeyrinn í seðlum hjá gjaldkera.  Hvorugt eigi við í tilviki þessu og þar sem viðskiptin hafi farið fram innan sömu bankastofnunar, Landsbanka Íslands hf., forvera stefnda þessa máls, hafi ekki farið fram neinar færslur af „nostro“ reikningum Landsbanka Íslands hf. hjá erlendum bankastofnunum.

Stefnandi kveður reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisjöfnuð taka af öll tvímæli í þessum efnum.  Í reglum um gjaldeyrisjöfnuð og um flokkunarlykla Seðlabanka Íslands komi fram að það sé afstaða Seðlabanka Íslands að íslenskar krónur með gengisviðmiðun séu innstæður á innlendum gjaldeyrisreikningum, IG-reikningum, eins og höfuðbók 38.  Millifærsla stefnda inn á IG-reikninga feli því ekki í sér að erlendur gjaldeyrir skipti um hendur heldur séu það íslenskar krónur sem miðist við gengi erlendra gjaldmiðla, sem stefnda sé ekki heimilt að lána viðskiptamönnum.  Lög séu því brotin þegar lán sé greitt út með millifærslu inn á reikning þar sem innstæðan sé í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla.

Innstæður á innlendum gjaldeyrisreikningum, IG-reikningum, eins og höfuðbók 38, teljist samkvæmt reglum um gjaldeyrisjöfnuð til eignaliða og skuldaliða, þegar nústaða gjaldmiðla í eignaliðum og skuldaliðum sé metin í gjaldeyrisjöfnuði, samanber reglur Seðlabanka nr. 387 frá 22. maí 2002, sem í gildi hafi verið við undirritun umþrætts lánssamnings.  Reglur um gjaldeyrisjöfnuð, hafi að mestu haldist óbreyttar allt til ársins 2010.  Reglur um gjaldeyrisjöfnuð frá árinu 2010 tilgreini í fyrsta sinn „nostro“ reikninga bindisskyldra lánastofna, við mat á opinni gjaldeyrisstöðu til gjaldeyrisjöfnunar.  Innstæður “nostro“ reikninga stefnda séu erlendar myntir enda séu þeir reikningar í banka í því landi sem gefi út þá mynt sem sé innstæða slíkra reikninga.  Hlutverki íslenskra króna, sem bundnar séu við gengi erlendra gjaldmiðla, sem eignir og skuldir í gjaldeyrisjöfnuði þjóðarinnar, hafi lokið með setningu Seðlabankans á reglum nr. 950 frá 6. desember 2010 um gjaldeyrisjöfnuð.

Stefnandi byggir kröfur sínar á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum á 13. og 14. gr. laganna, reglum Seðlabanka Íslands frá 22. maí 2002, nr. 387/2002, um gjaldeyrisjöfnuð, og á almennum reglum kröfu- og samningaréttarins.  Um heimild til að höfða viðurkenningarmál vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um málskostnaðarkröfu til XXI. kafla sömu laga, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna.

IV

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum, lagarökum og dómatilvísunum stefnanda og telur að engin þeirra eigi að leiða til þess að dómkröfur hans verði teknar til greina.  Sýknukrafa stefnda sé byggð á því að með undirritun lánssamnings nr. 445 hafi stefnandi skuldbundið sig til þess að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.  Stefnanda beri að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar.  Stefndi telur að krafa hans á hendur stefnanda samkvæmt umþrættum lánssamningi sé skuldbinding í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.  Stefndi byggir á því að láns­samningurinn og framkvæmd lánveitingarinnar, m.a. útgreiðsla lánsins, beri það með sér að skuldbindingin sé í erlendri mynt og vísar um það m.a. til dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands.

Áður en stefnandi hafi tekið lán nr. 445 hjá Landsbanka Íslands hf. hafi hann tekið nokkur lán hjá bankanum í erlendri mynt.  Stefnandi hafi, 16. júlí 1998, gefið út veðskuldabréf, fjölmyntakörfulán, til Landsbanka Íslands hf. og 19. febrúar 1998 gefið út fjögur skuldabréf í erlendum myntum, eins og framlögð skjöl beri með sér.  Þá hafi stefnandi jafnframt tekið erlend lán hjá Landsbanka Íslands hf. eftir að hann hafi tekið lán nr. 445, sbr. framlögð skjöl þar um.

Í stefnu málsins sé á því byggt að lán samkvæmt lánssamningi aðila nr. 445 sé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, þar sem lánsfjárhæðin sé tilgreind í íslenskum krónum og aðeins getið um hlutfall hinna erlendu mynta.  Lögð sé áhersla á að í fyrirsögn lánssamningsins segi „lánssamningur um fjölmyntalán“ og vísað til þess að talað sé um „jafnvirði“ íslenskra króna, sem ekki geti talist vera tilgreining á skuldbindingu í íslenskum krónum.  Stefndi vísar hins vegar til þess að skuldbindingin sé, í öðrum skjölum sem tengd séu lánssamningnum órjúfanlegum böndum, tilgreind í hinum erlendu myntum.  Í báðum skilmálabreytingum lánsins hafi skuldbindingar stefnanda einungis verið tilgreindar í hinum erlendu myntum og sama eigi við um tilkynningu um gjalddaga og kvittanir fyrir greiðslu hvers gjalddaga.  Stefnandi hafi fengið öll framangreind skjöl send til sín og aldrei gert athugasemd við efni þeirra.  Það liggi því fyrir að skuldbinding stefnanda hafi í öllum skjölum, frá og með útgreiðslu lánsins, verið tilgreind í þeim erlendu gjaldmiðlum sem hún hafi verið tilgreind í, en ekki í íslenskum krónum.

Í dómum Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010, í málum nr. 92/2010 og 153/2010, hafi því verið slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils.  Frá þeim tíma hafi rétturinn kveðið upp marga dóma, þar sem á það hafi reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi teljist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem á þennan óheimila hátt hafi verið gengistryggð, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum, einum eða fleiri, sem fyrrnefnt lagaákvæði taki ekki til.  Af þeim meiði séu meðal annarra dómar Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, frá 15. júní 2012, í máli nr. 3/2012, frá 1. nóvember 2012, í máli nr. 66/2012, og frá 14. nóvember 2013, í máli nr. 337/2013.  Í þeim öllum hafi verið deilt um samninga um lán, sem tilgreind hafi verið sem jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í tilteknum gjaldmiðlum, og hafi þess þá einnig verið getið hvert hlutfall hvers erlends gjaldmiðils ætti að vera af fjárhæð lánsins.  Í þessum tilvikum hefi verið litið svo á að orðalag í samningi um skuldbindingu í þessari mynt dygði ekki eitt og sér til að komast að niðurstöðu heldur yrði jafnframt að líta til þess hvernig aðilar samnings hefðu í raun efnt hann, hvor fyrir sitt leyti.  Að framangreindu virtu, hafi í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, verið litið svo á að samningur hafi verið um lán í íslenskum krónum, bundið með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla.  Í hinum dómunum, sem að framan greini, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að samningar væru um lán í erlendum gjaldmiðlum, sem væru skuldbindandi fyrir lántaka.

Í dómum Hæstaréttar Íslands, í málum nr. 3/2012, 66/2012 og 337/2013, hafi orðalag þeirra lánssamninga, sem til umfjöllunar hafi verið, í öllum meginatriðum verið það sama og í umþrættum samningi.  Í málum nr. 3/2012 og 66/2012 hafi lánin verið greidd út með því að bankinn hafi lagt tilteknar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikninga lántaka í þeim sömu gjaldmiðlum en í máli nr. 337/2013 hafi verið lagt til grundvallar að lánsfjárhæðin hafi verið greidd út í evrum.  Fé í erlendum gjaldmiðlum hafi því í reynd skipt um hendur þegar lánveitandi hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum.  Í máli nr. 3/2012 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að samningsaðilar hefðu báðir efnt skyldur sínar með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum hafi skipt um hendur.  Í máli nr. 66/2012 hafi hins vegar sérstaklega verið vísað til þess að að það breytti ekki niðurstöðunni þótt lántaki hafi ekki greitt afborganir af skuld sinni, þ.e. efnt aðalskyldu sína, með fé í sömu erlendu gjaldmiðlum, enda hafi borið að endurgreiða lánið eftir hljóðan samningsins „í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af“.  Í samningnum hafi því verið kveðið á um að „fé í erlendum gjaldmiðlum myndi einnig skipta um hendur við efndir [lántaka] á aðalskyldu sinni, þótt svo hafi ekki verið í raun“.  Þá hafi það ekki verið látið ráða úrslitum í máli nr. 337/2013 að lántaka hafi verið heimilt samkvæmt samningi að inna af hendi afborganir í íslenskum krónum og sé vísað til dóms í máli nr. 66/2012 til stuðnings þeirri niðurstöðu.  Þvert á móti sé í niðurstöðu réttarins sérstaklega vísað til þess að efndir á aðalskyldu lánveitanda hafi farið fram í hinum umsömdu erlendu gjaldmiðlum.  Stefndi vísar einnig til dóma Hæstaréttar Íslands frá 6. mars 2014, í máli nr. 602/2013, og frá 11. september 2014, í máli nr. 90/2014.  Í þeim málum hafi orðalag lánssamninga í öllum meginatriðum verið það sama og í umþrættum samningi og hafi þá verið litið til þess hvernig aðilar hefðu efnt samninginn.  Komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að efndir samningsaðila á aðalskyldum sínum samkvæmt hinum umdeildu samningum hefðu að verulegu en ekki öllu leyti falið í sér að erlendir gjaldmiðlar hafi skipt um hendur.  Hafi því verið talið að um gild erlend lán væri að ræða.

Eins og í þeim dómum sem að framan greini telji stefndi að leggja verði til grundvallar að umþrættur lánssamningur sé um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum.  Óumdeilt sé í málinu að lánið hafi verið greitt út í erlendum gjaldmiðlum.  Í útborgunarbeiðni, sem sé hluti af lánssamningnum, hafi stefnandi farið fram á að lánið yrði greitt út í þeim myntum sem það hafi verið tekið í og að Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf. yrði greitt beint, inn á reikninga sem félagið skyldi tilgreina.  Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. hafi tilgreint gjaldeyrisreikninga sína í þeim myntum sem lánið hafi verið tekið í og hafi lánið verið greitt út í þeim myntum inn á reikninga, eins og framlagðar kaupnótur beri með sér.  Það sé ekki rétt sem fram komi í stefnu að lánið hafi verið greitt út í þeim myntum af því að Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. hafi farið fram á greiðslu í erlendum myntum.  Stefnandi sjálfur hafi farið fram á að lánið yrði greitt út í erlendum myntum inn á reikninga sem Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. myndi tilgreina.  Stefnandi vísi til framlagðs kaupsamnings sem kveði á um það hvernig stefnandi skyldi greiða Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf. fyrir aflahlutdeild í þorski.  Stefndi hafi ekki verið aðili að þessum samningi og sé því ekki bundinn af efni hans.  Hvorugur samningsaðila hafi farið eftir ákvæði samningsins um greiðslu kaupverðsins þegar þeir hafi óskað eftir því að lán nr. 445 yrði greitt út í erlendum myntum þess.

Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um að hann hafi, þegar hann hafi tekið lánið í febrúar 2004, talið að heimilt væri að tengja lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og talið gengistryggð lán lögleg.  Á árinu 2004 hafi engin umræða verið um að þessi lán væru gengistryggð.  Sú umræða hafi ekki komið fram fyrr en í júní 2010 þegar fyrstu dómarnir þar um hafi verið kveðnir upp í Hæstarétti Íslands.  Þá hafi stefnandi þegar tekið fimm erlend lán hjá Landsbanka Íslands hf., árið 1998, og greitt af þeim og hafi hann ekki greint á um lögmæti þeirra lána við stefnda.  Stefnandi hafi því verið vanur erlendum lánum, enda hafi hann sótt um erlent lán hjá Landsbanka Íslands hf. í febrúar 2004 og skrifaði undir lán nr. 455 og óskað eftir því að lánið yrði greitt út í erlendum myntum.  Stefndi leyfi sér að benda á að ársreikningar stefnanda bendi ótvírætt til þess að hann hafi talið skuldbindingarnar í erlendum gjaldmiðlum, sbr. framlagða ársreikninga fyrir árin 2004-2007.  Þá hafi stefnandi gert nokkra lánssamninga við Landsbanka Íslands hf. árin 2005-2007, sem séu sambærilegir umþrættum lánssamningi nr. 455.  Þar af leiðandi sé ljóst að vilji stefnanda hafi staðið til þess að taka erlend lán.

Greiðsla afborgana og vaxta af láni nr. 455 hafi verið í samræmi við beiðni stefnanda um að íslenskur tékkareikningur hans skyldi skuldfærður.  Erlendar myntir lánsins hafi verið keyptar fyrir íslensku krónurnar og erlendu myntirnar greiddar inn á lánið.  Í meginatriðum hafi samningsaðilar því efnt aðalskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum hafi skipt um hendur, eins og skýrlega hafi verið gengið út frá í lánssamningnum.

Því sé ranglega haldið fram í stefnu að stefnandi hafi tryggt sér lánsfjárhæðina í íslenskum krónum og því hafi íslenskar krónur verið notaðar til að kaupa hinar erlendu myntir lánsins og þær millifærðar inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf.  Landsbanki Íslands hf. hafi átt gjaldeyrisreikninga í framangreindum myntum lánsins og hafi millifært af þeim inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. af því að stefnandi hafi óskað eftir því að sá háttur yrði hafður á varðandi útgreiðslu lánsins en ekki að erlendu myntirnar yrðu færðar inn á hans eigin gjaldeyrisreikninga.  Því hafi erlendar myntir ekki verið keyptar, eins og stefnandi haldi fram, heldur hafi Landsbanki Íslands hf. millifært af eigin gjaldeyrisreikningum.  Framlagðar kaupnóturnar staðfesti þessa framkvæmd.  Í kaupnótunum staðfesti bankinn að hann hafi keypt lánssamninginn, erlent lán, af stefnanda og greitt lánið út í erlendri mynt.  Með vísan til framangreinds telji stefndi ljóst að form og meginefni lánssamningsins bendi eindregið til þess að skuldbindingin hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Því sé ekki tilefni til að líta svo á að samningsskilmálar séu svo óskýrir eða óljósir að beita eigi einhvers konar „andskýringarreglu“, svo sem stefnandi vísi til.  Einnig sé til þess að líta að umþrættur samningur sé í eðli sínu gagnkvæmur.  Við skýringu hans beri að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.  Þá verði að telja, hvað sem öðru líði, að stefnandi hafi með athafnaleysi sínu viðurkennt að umþrættar skuldbindingar séu að sönnu í erlendum gjaldmiðlum og í öllu falli að hann hafi fyrirgert rétti til að bera öðru við.

Samkvæmt ákvæði 3.1 í lánssamningnum hafi stefnandi átt að greiða stefnda breytilega vexti, jafnháa sex mánaða LIBOR-vöxtum, auk 2,75% vaxtaálags.  Stefnandi hafi því ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur.  Ef svo hefði verið hefði skuldbinding stefnanda að grunni til byggst á svokölluðum REIBOR-vöxtum og vextirnir orðið umtalsvert hærri en þeir hafi í raun verið enda séu LIBOR-vextir ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur.  Skuldbinding stefnanda hafi því án alls vafa verið í erlendum myntum.

Samkvæmt ákvæðum samningsins hafi stefnanda verið heimilt að greiða afborganir, vexti og dráttarvexti, eða aðrar greiðslur, í íslenskum krónum en þá skyldi hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.  Því sé ljóst að aðalskylda stefnanda hafi verið að greiða í viðeigandi mynt en honum hafi verið heimilt að greiða í íslenskum krónum samkvæmt samningnum.  Engin þörf hefði verið á að kveða á um slíkan rétt hefði lánið verið að öllu leyti í íslenskum krónum.

Stefnandi byggi á því að orðalag myntbreytingarheimildar í ákvæði 4.1 bendi ótvírætt til þess að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum.  Þessu sé mótmælt af hálfu stefnda.  Myntbreytingarákvæðið sé ákvæði sem veiti skuldara heimild til að breyta hinni erlendu mynt sem lánið hafi upphaflega verið tekið í, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.  Beiðni um breytingu mynta skyldi setja fram með ákveðnum fyrirvara til þess að gera bankanum kleift að kaupa viðkomandi myntir eða eftir atvikum gera skiptasamning við annan aðila um viðkomandi myntir, til að geta veitt skuldara þau vaxtakjör sem umræddar myntir bjóði upp á.  Skýrlega megi ráða af ákvæðinu að við hugsanlega myntbreytingu á láni fari fram viðskipti með viðkomandi myntir.  Orðrétt segi:  „[g]eti bankinn ekki útvegað lántaka einhverja tiltekna mynt eða útvegun hennar myndi hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir bankann er honum heimilt að nota USD í stað þeirrar myntar.“  Hefði ætlunin verið að miða íslenska fjárhæð við gengi myntar væri framangreint orðalag óþarft enda ljóst að þá þyrfti ekki að útvega neina mynt.  Í orðalaginu felist að gert sé ráð fyrir því að við hugsanlega myntbreytingu sé raunveruleg umsýsla með þær myntir sem lántaki kunni að óska eftir að umbreyta láninu í.

Stefnandi hafi áður tekið erlend lán hjá stefnda.  Á því tímabili hafi hann séð að greiðslubyrði þeirra lána hafi verið mun lægri en hefði stefnandi tekið lán í íslenskum krónum.  Í því samhengi vísi stefndi til þess að LIBOR-vextir hafi verið umtalsvert hagstæðari fyrir stefnanda en REIBOR-vextir á íslenskar krónur á því tímabili sem hann hafi innt vaxtagreiðslur af hendi, frá árinu 1998 til ársins 2004.

Málatilbúnaður stefnanda virðist byggður á því að þrátt fyrir að stefndi hafi millifært hinar erlendu myntir lánsins af eigin gjaldeyrisreikningum inn á gjaldeyrisreikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. breyti það engu um lögmæti samningsins þar sem erlendur gjaldeyrir hafi ekki í reynd skipt um hendur.  Að mati stefnanda hafi allar greiðslur, jafnt útgreiðsla lánsins sem og endurgreiðslur, verið í íslenskum krónum.  Um þennan málatilbúnað stefnanda, sem stefndi mótmæli, vísast til allrar framangreindrar og jafnframt eftirfarandi umfjöllunar.

Málatilbúnaður stefnanda um að „IG reikningar séu í raun ekki annað en gengistryggðir innlánsreikningar í íslenskum krónum“, sé ekki studdur neinum haldbærum rökum eða gögnum.  Fráleitt sé, m.a. í ljósi tilvísaðrar dómaframkvæmdar, að halda því fram að á IG-reikningum hvíli ekki raunverulegur gjaldeyrir.  Við úrlausn þessa ágreinings geti ekki skipt máli hverjir flokkunarlyklar Seðlabanka Íslands séu eða hvernig hann líti á skuldbindingar á innlendum gjaldeyrisreikningum.  Því sé jafnframt mótmælt að Seðlabanki Íslands líti á þær sem skuldbindingar í íslenskum krónum með gengisviðmiðun.  Þá sé því hafnað að „greiðslur inn og út af IG reikningum geti ekki falið í sér yfirfærslu erlends gjaldeyris milli aðila í reynd“.  Árétta beri í þessu sambandi að andvirði lánsins í erlendum gjaldmiðlum hafi verið ráðstafað inn á gjaldeyrisreikninga þriðja aðila, Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., í samræmi við beiðni stefnanda.

Samkvæmt afdráttarlausri dómaframkvæmd hér á landi teljist innlendir gjaldeyrisreikningar, með höfuðbók 38, fela í sér innstæðu í erlendum gjaldmiðlum, með sama hætti og innstæður á reikningum í íslenskum krónum teljast í íslenskum krónum.  Stefndi vísar um þetta m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1. nóvember 2012, í máli nr. 66/2012, þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram að lánveitandi í því tilviki hefði lagt tilteknar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum „inn á fjóra gjaldeyrisreikninga [lántaka] í þeim gjaldmiðlum“ og að „[f]é í erlendum gjaldmiðlum skipti því í reynd um hendur þegar [lánveitandi] efndi aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum“.  Stefndi vísar um þetta einnig til dóms Hæstaréttar Íslands frá 11. september 2014, í máli nr. 90/2014.

Í öllu falli sé langsótt að halda því fram, í ljósi fyrirliggjandi dóma­framkvæmdar sem að framan sé vísað til, að erlendur gjaldeyrir geti aðeins „talist hafa skipt um hendur“ ef framkvæmdin sé með þeim hætti sem stefnandi lýsi, þ.e. með afhendingu erlends gjaldeyris í „seðlum og mynt“ og endurgreiðslu með sama hætti eða með því að tilgreina lánið í erlendri mynt í samningi og greiða það svo út í sömu mynt eða myntum „inn á bankareikninga í fjármálafyrirtækjum í þeim löndum þar sem viðeigandi myntir væru gefnar út (svonefnda „nostro“ reikninga)“.

Stefndi byggir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar, um skuldbindingargildi samninga og efndir kröfuréttinda, og á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. laganna.  Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn á að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.

V

Við aðalmeðferð komu og gáfu skýrslu vitnin Ásgeir Brynjar Torfason og Halldór Hildimundarson.

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort skuldbinding stefnanda samkvæmt umþrættum lánssamningi sé um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti.

Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna, dagsett 31. október 2016.

Í máli þessu er krafist viðurkenningar á því að lánssamningur aðila nr. 445 sé um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Byggir stefnandi á því að lán samkvæmt lánssamningnum sé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og þar af leiðandi ekki skuldbindandi fyrir stefnanda.  Um lögvarða hagsmuni af viðurkenningarkröfunni vísar stefnandi til minnisblaðs frá Deloitte, dagsett 7. maí 2015, sem lagt er fram í málinu.

Samkvæmt framangreindu minnisblaði var lán samkvæmt umþrættum samningi gert upp 6. mars 2012.  Af útreikningum á minnisblaðinu, sem og af málatilbúnaði aðila að öðru leyti, er ekki skýrt hvað stefnandi hafði samtals greitt stefnda í raun við uppgjör lánsins 6. mars 2012 og hvað hann hefði þá átt að hafa greitt stefnda miðað við að lánið hefði verið endurútreiknað í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og niðurstöður dóma Hæstaréttar Íslands þar um.  Hins vegar má ráða af útreikningum minnisblaðsins að miðað við að endurreikna beri lán samkvæmt samningi nr. 445 hafi stefnandi ofgreitt af láninu sem nemi 89.036.288 krónum.  Að því gefnu, og þar sem því hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda, verður fallist á að stefnandi hafi af því lögvarða hagsmuni að fá greitt úr viðurkenningarkröfu sinni.

Ákvæðum samningsins er lýst hér að framan.  Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, meðal annars í máli nr. 602/2013, gefa ákvæði sambærilegra samninga ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, meðal annars eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti.

Þegar litið er til efnda aðila á skyldum sínum samkvæmt umdeildum lánssamningi nr. 445, er óumdeilt að útborgunarfjárhæð lánsins var ráðstafað inn á reikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. í samræmi við beiðni um útborgun lánsins, sem er hluti af lánssamningnum, samkvæmt grein 1.2 í samningnum.  Hvergi í lánssamningi nr. 445 eða í útborgunarbeiðninni er vísað í kaupsamning stefnanda og Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., dagsettan 17. febrúar 2004, en óumdeilt er að lán samkvæmt lánssamningi nr. 445 var notað til að greiða Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf. kaupverð samkvæmt kaupsamningnum.  Í framangreindri útborgunarbeiðni segir eingöngu að óskað sé eftir því að útborgunarfjárhæð lánsins verði greidd Útgerðar­félaginu Tjaldi ehf. „í þeim myntum sem lánið er tekið í“ inn á reikninga sem félagið tilgreini.

Í framlögðu tölvuskeyti frá 18. febrúar 2004 er, af hálfu Útgerðarfélagsins Tjalds ehf., óskað eftir því að kaupverðið verði greitt að eins miklu leyti og hægt sé í erlendum myntum inn á meðfylgjandi gjaldeyrisreikninga félagsins, sem tilgreindir eru í bandaríkjadölum, evrum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og sterlingspundum.  Samkvæmt framlögðum kaupnótum voru eftirfarandi fjárhæðir lagðar inn á reikninga Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. þann sama dag, 18. febrúar 2004:  528.712 evrur, 189.298 svissneskir frankar, 25.866.626 japönsk jen og 459.635 bandaríkjadalir.  Sé miðað við skráð gengi Seðlabanka Íslands þann dag voru hlutföll framangreindra gjaldmiðla af heildarlánsfjárhæðinni, 104.000.000 króna, þannig að evrur voru um 44%, svissneskir frankar um 10%, japönsk jen um 16% og bandaríkjadalir um 30%.  Er það í fullu samræmi við tilgreind hlutföll í lánssamningi aðila nr. 445 og eru efndir bankans, forvera stefnda, á aðalskyldu sinni samkvæmt samningnum því að fullu leyti í hinum erlendu gjaldmiðlum og í þeim hlutföllum sem í samningnum eru tilgreind.  Að mati dómsins og í samræmi við það sem að framan er rakið verður ekki talið að framangreint tölvuskeyti hafi breytt einhverju um efndir aðila á samningnum heldur hafi skeytið, samkvæmt efni sínu, aðeins verið til upplýsinga um þau reikningsnúmer Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. sem óskað var eftir að kaupverðið, þ.e. lánsfjárhæðin, yrði lagt inn á.

Í málinu eru ekki lögð fram ítarleg gögn um greiðslur stefnanda á afborgunum og vöxtum af láni samkvæmt lánssamningi nr. 445.  Stefnandi kveðst hafa greitt af láninu í íslenskum krónum og er því ekki mótmælt af stefnda að tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum hafi verið skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af láninu.  Kveður stefndi hins vegar að erlendir gjaldmiðlar hafi verið keyptir fyrir íslensku krónurnar og notaðir til uppgreiðslu lánsins.  Samkvæmt tveimur kvittunum fyrir greiðslum, útgefnum 1. september 2015, sem lagðar eru fram í málinu, greiddi stefnandi af láninu 4. júní 2007 í evrum, japönskum jenum, norskum krónum, bandaríkjadölum, svissneskum frönkum og kanadadölum og 2. júní 2008 í evrum, svissneskum frönkum, kanadadölum, sænskum krónum og japönskum jenum.  Þau takmörkuðu gögn sem liggja fyrir um uppgreiðslu lánsins bera því með sér að lánið hafi verið gert upp í erlendum gjaldmiðlum þannig að stefndi skuldfærði tékkareikning stefnanda fyrir afborgunum og vöxtum og notaði svo íslensku krónurnar til þess að kaupa erlendan gjaldmiðil til uppgjörs á láninu.

Af dómum Hæstaréttar Íslands, meðal annars í máli nr. 66/2012, má ráða að rétturinn gerir ekki fortakslausa kröfu til þess að skuldbindingar aðila á grundvelli samninga, eins og þeirrar sem deilt er um í þessu máli, séu að öllu leyti efndar með greiðslum í erlendum gjaldmiðlum til þess að lán verði talin í þeim gjaldmiðlum.  Þegar efndir á hinum umdeilda samningi eru virtar í heild verður að telja að þær hafi að svo verulegu marki falist í því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur, að leggja verði til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum.

Það styður framangreinda niðurstöðu að í viðauka við lánssamning nr. 445, dagsettum 31. desember 2008, og undirrituðum af hálfu beggja aðila, eru eftirstöðvar lánsins aðeins tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum.  Gefur það vísbendingu um að aðilar hafi litið svo á að lán samkvæmt samningnum væri í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Með síðari viðauka, dagsettum 17. febrúar 2010, sömdu aðilar um tímabundna breytingu á endurgreiðslum, frá 2. júní 2009 til 2. desember 2010, og var þá sérstaklega tekið fram að greiðslur á þeim tíma skyldi inna af hendi í íslenskum krónum.  Frá og með 2. júní 2010 skyldi stefnandi greiða afborganir og vexti í samræmi við upphaflega skilmála lánssamningsins.

Loks verður, með hliðsjón af niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 602/2013, ekki litið fram hjá því að stefnandi færði hið umdeilda lán sem skuldir í erlendum gjaldmiðlum í framlögðum ársreikningum félagsins.  Í ársreikningi félagsins frá 2004 er lánið fært inn sem ný lántaka og er sundurliðuð í samræmi við samninginn, í evrur, bandaríkjadali, svissneska franka og japönsk jen.  Í ársreikningi félagsins frá 2005 er vísað til skulda í erlendum gjaldmiðlum og í ársreikningum félagsins frá 2006 og 2007 eru skuldir í erlendum gjaldmiðlum sundurliðaðar eftir hverjum og einum gjaldmiðli.  Gefur það einnig vísbendingu um að samningsvilji stefnanda hafi staðið til þess að umdeilt lán væri í erlendum gjaldmiðlum.

Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands ræðst niðurstaða um það hvort lán séu í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum af ákveðnu heildarmati, sér í lagi séu ákvæði lánssamninga ekki skýr hvað það varðar.  Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að slíkt heildarmat leiði til þess að umdeilt lán teljist hafa verið í erlendum gjaldmiðlum.

Þá byggir stefnandi mál sitt á því að þeir reikningar sem stefndi lagði lánsféð inn á séu reikningar með ólögmætri gengistryggingu samkvæmt lögum nr. 38/2001 og því óhjákvæmilegt að líta svo á að umþrætt lán hafi verið ólögmætt gengistryggt lán.  Byggir stefnandi jafnframt á því að millifærsla á innlenda gjaldeyrisreikninga geti ekki falið í sér færslu á erlendum gjaldmiðli og vísar um það m.a. til reglna Seðlabanka Íslands.

Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, dagsettri 31. október 2016, kemur fram að niðurstaða matsins sé að „líta verði svo á að lánveiting [stefnda] til [stefnanda] hafi í raun verið skuldbindingar í formi innistæðna í íslenskum krónum sem bundnar voru gengi erlendra gjaldmiðla“.  Jafnframt segir í samantekt matsins:

Þessi niðurstaða byggir á því að banki getur með lánveitingu sinni aukið peningamagn í umferð, en aðeins í eigin gjaldmiðli, eða nánar tiltekið í gjaldmiðli þess lands sem bankinn starfar í, banki getur ekki aukið peningamagn í umferð í öðrum gjaldmiðli en þeim sem seðlabanki sá sem yfir honum vakir ræður yfir.  Þó að lánveiting geti verið skráð í eða bundin erlendri mynt, þá verður sú lánveiting ávallt að hafa að baki sér erlenda gjaldeyrisstöðu bankans.

Loks segir að það sé samdóma álit matsmanna „að greiðslukerfi íslenskra banka hafi ekki getað í raun millifært erlendan gjaldeyri inn á bankareikninga á Íslandi og að við útgreiðslu [stefnda] á lánsfjárhæð inn á reikning [stefnanda] þá hafi engin fjárhæð færst af öðrum reikningi í eigu [stefnda] heldur hafi innistæðan orðið til við lánveitinguna og því ekki verið um aðrar færslur að ræða“.

Í dómum Hæstaréttar Íslands hefur ítrekað verið komist að þeirri niðurstöðu að hér á landi hafi lán verið veitt í erlendum gjaldmiðlum, m.a. með millifærslu banka inn á gjaldeyrisreikninga, eins og atvik voru til að mynda í dómum réttarins frá 1. nóvember 2012, í máli nr. 66/2012, og frá 11. september 2014, í máli nr. 90/2014.  Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands í málum sem varða lán í erlendum gjaldmiðlum getur niðurstaða matsmanna því ekki breytt framangreindri niðurstöðu um að umdeilt lán teljist vera lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum.

Að öllu framangreindu virtu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 800.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Útgerðarfélagsins Hauks hf.

Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.