Print

Mál nr. 53/2019

Sindri Sindrason (Halldór Jónsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)
Lykilorð
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Lánssamningur
  • Ógilding samnings
  • Trúnaðarskylda
Reifun

L hf. krafði S um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar S á láni til S ehf. vegna kaupa á nánar tilgreindri fasteign. S ehf. ráðstafaði fasteigninni síðar til S40 ehf. sem hafði tekið að sér að reisa nýtt hús á lóðinni. S byggði sýknukröfu sína meðal annars á því að þar sem lánið hefði verið tryggt með 3. veðrétti í fasteigninni hefði L hf. brotið gegn trúnaðarskyldum gagnvart sér með því að leyfa greiðslu óveðtryggðra skulda áður en söluverði fasteignarinnar var ráðstafað inn á lánið. Í dómi Hæstaréttar var talið að með samkomulagi á milli S ehf. og S40 ehf. hefði síðarnefnda félagið fengið forræði á sölu eignanna og ráðstöfun söluandvirðis í samráði við L hf. Í samkomulaginu hafi falist að S40 ehf. hafði heimild til að ráðstafa söluandvirðinu með þeim hætti að kröfur á hendur félaginu vegna byggingarinnar sem ekki voru veðtryggðar myndu greiðast áður en aðrar kröfur yrðu efndar. L hf. hafi því verið rétt að samþykkja að söluandvirði yrði ráðstafað til greiðslu krafna á hendur félaginu samkvæmt reikningum vegna framkvæmdanna áður en veðkrafa á 3. veðrétti yrði greidd. Var S gert að greiða L hf. umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. nóvember 2019. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum.

Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur með þeirri breytingu að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 18.543.941 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. nóvember 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta lýtur að kröfu stefnda um að áfrýjanda og Sveini Þór Þórhallssyni verði gert að greiða sér óskipt 18.543.941 krónu auk dráttarvaxta vegna sjálfskuldarábyrgðar þeirra að fjárhæð 30.000.000 króna.

Með lánssamningi 20. nóvember 2009 lánaði stefndi, sem þá hét NBI hf., Samtímalist ehf. 110.790.380 krónur vegna kaupa á fasteign að Skólavörðustíg 40 í Reykjavík og samhliða gekkst áfrýjandi undir fyrrnefnda sjálfskuldarábyrgð. Var greiðsla lánsins enn fremur tryggð með tryggingarbréfi nr. 525222 að fjárhæð 110.000.000 króna á 1. veðrétti fasteignarinnar. Sama dag og fyrrnefnt lán var veitt gaf Samtímalist ehf. einnig út veðskuldabréf til stefnda að fjárhæð 5.050.505 krónur sem tryggt var með 2. veðrétti fasteignarinnar.

Á árinu 2012 ráðstafaði Samtímalist ehf. fasteigninni til S40 ehf. sem tók að sér að reisa nýtt hús á lóðinni. Til þess fékk hið síðarnefnda félag lán frá stefnda sem var fært á 1. veðrétt fasteignarinnar auk þess sem félagið fékk lán frá eigendum sínum sem fært var á 2. veðrétt. Með þessu færðist tryggingarbréf nr. 525222 á 3. veðrétt og veðskuldabréf að fjárhæð 5.050.505 krónur á 4. veðrétt.

Stefndi sem hafði leyst fasteignina úr veðböndum við sölu hennar ráðstafaði söluandvirðinu á árinu 2014 í samráði við S40 ehf. inn á lán sem hvíldu á 1., 2. og 4. veðrétti. Jafnframt samþykkti hann greiðslu reikninga S40 ehf. vegna framkvæmdanna að fjárhæð 24.835.116 krónur áður en greitt var inn á lánið sem tryggt var með 3. veðrétti og áfrýjandi var í ábyrgð fyrir. Fékkst sú skuld ekki greidd að fullu. Telur áfrýjandi að stefndi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum gagnvart sér með því að leyfa S40 ehf. að verja rúmum 24 milljónum af söluverði eignanna til greiðslu á óveðtryggðum skuldum og að ráðstafa þeim greiðslum sem hann fékk vegna sölu eignarinnar til greiðslu veðskuldabréfs sem hvíldi á 4. veðrétti áður en lánið á 3. veðrétti væri að fullu greitt. Þá telur hann að stefndi hafi vanrækt þær skyldur að nýta þá tryggingu sem fólst í lausafjárveði í eignum Samtímalistar ehf. Enn fremur telur áfrýjandi ábyrgðina fallna niður með vísan til 36. gr.  laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga svo og reglna um brostnar forsendur.

Með héraðsdómi voru áfrýjandi og meðábyrgðarmaður hans, sem ekki lét málið til sín taka, dæmdir til greiðslu kröfunnar. Var sú niðurstaða staðfest í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að dómur í máli þessu gæti haft fordæmisgildi og þá sérstaklega varðandi heimild lánardrottins gagnvart ábyrgðarmanni til að ráðstafa fjármunum inn á lán óháð veðröð þeirra.

Fyrir Hæstarétti hefur stefndi breytt dómkröfu sinni og lækkað hana um 9.179.275 krónur sem nemur þeirri greiðslu sem hann ráðstafaði á sínum tíma upp í veðskuld þá sem hvíldi á 4. veðrétti að höfuðstól 5.050.505 krónur. Við munnlegan flutning málsins gaf hann þá skýringu að fundist hefði samkomulag það sem vitnað er til milli Samtímalistar ehf. og S40 ehf. um uppgjör skulda vegna sölu fasteignarinnar að Skólavörðustíg 40 og með hliðsjón af því væri þessi breyting gerð áfrýjanda til hagsbóta.

II

Samkvæmt tryggingarbréfi 7. nóvember 2008 nr. 525222 veðsetti Samtímalist ehf. stefnda á 1. veðrétti fasteign sína að Skólavörðustíg 40 í Reykjavík til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum sínum við stefnda allt að fjárhæð 110.000.000 króna. Áfrýjandi var hluthafi í Samtímalist ehf.

Með lánssamningi 20. nóvember 2009 tók Samtímalist ehf. lán hjá stefnda að fjárhæð 110.790.380 krónur vegna kaupa á fasteigninni að Skólavörðustíg 40. Í 10. grein samningsins þar sem fjallað er um tryggingar segir í grein 10.1 að til tryggingar á lánum þeim sem veitt kunna að verða samkvæmt ákvæðum þessa samnings verða núverandi allsherjarveð tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka. Þá segir í grein 10.2 að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samningsins takist „Sindri Sindrason ... og Sveinn Þór Þórhallsson ... á hendur sjálfskuldarábyrgð in solidum að fjárhæð kr. 30.000.000.- Sjálfskuldarábyrgðin tekur til greiðslu höfuðstóls allra lánshluta, auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta, svo og alls kostnaðar, sem af vanskilum kann að leiða. Ábyrgðin gildir jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á skuldbindingum skv. samningi þessum einu sinni eða oftar, uns skuldin er að fullu greidd.“ Eðli málsins samkvæmt stóð tryggingarbréf nr. 525222 meðal annars til tryggingar framangreindu láni. Með sérstökum viðauka 17. ágúst 2011 við tryggingarbréfið heimilaði stefndi að umrætt tryggingarbréf stæði framvegis einvörðungu til tryggingar því láni og var áritað um viðaukann á bréfið.

Samhliða fyrrgreindri lánveitingu 20. nóvember 2009 gaf Samtímalist ehf. út veðskuldabréf til stefnda að fjárhæð 5.050.505 krónur með 2. veðrétti í fasteigninni.  

Samtímalist ehf. gaf út tryggingarbréf 17. ágúst 2011 til stefnda að fjárhæð 25.000.000 króna þar sem heildarvörubirgðir félagsins voru settar að veði til tryggingar framangreindum lánum.

Á árinu 2012 gerði Samtímalist ehf. samkomulag við Þorstein Pálsson og Kristján Magnason, sem síðar stofnuðu félagið S40 ehf., um uppbyggingu á lóðinni við Skólavörðustíg 40. Samkvæmt samkomulaginu mun S40 ehf. hafa tekið að sér að reisa nýbyggingu á lóðinni og skyldu félögin skipta með sér hagnaði sem eftir stæði þegar framkvæmdum lyki og eignin hefði verið seld. Veitti stefndi S40 ehf. framkvæmdalán af þessu tilefni og var tryggingarbréfi að fjárhæð 173.500.000 krónur því til tryggingar þinglýst á 1. veðrétt fasteignarinnar.  Þá veittu eigendur S40 ehf. félaginu lán samtals að fjárhæð 20.000.000 króna sem færð voru á 2. veðrétt fasteignarinnar. Við þetta færðist tryggingarbréf nr. 525222 að fjárhæð 110.000.000 króna á 3. veðrétt og veðskuldabréf að fjárhæð 5.050.505 krónur á 4. veðrétt, hvort tveggja með samþykki stefnda.

Sérstakt samkomulag var gert milli Samtímalistar ehf. og eigenda S40 ehf. um ráðstöfun væntanlegs söluandvirðis en þar mun hafa komið fram samkvæmt minnisblaði lánafulltrúa stefnda að til stæði að „byggja húsið, selja húsnæðið og greiða upp / inn á áhvílandi skuldir, semsagt framkvæmdalánið sem þarf að veita, framlag húsbyggjandans og loks núverandi lóðalán“ en það vísaði til þess láns sem áfrýjandi var í ábyrgð fyrir. Þá gerði samkomulagið ráð fyrir því að eigendur S40 ehf. myndu stýra framkvæmdum og færu með fullt ákvörðunarvald varðandi félagið og fasteignina. Fasteignin að Skólavörðustíg 40 var síðar seld í nokkrum hlutum á tímabilinu júní til nóvember 2014 og við sölu hvers eignarhluta samþykkti stefndi að aflétta veðböndum af þeim.

Söluandvirði fasteignarinnar samtals að fjárhæð 330.800.000 krónur var ráðstafað upp í skuldir á 1. og 2. veðrétti. Þá voru skuldir S40 ehf. vegna reikninga og framkvæmda greiddar og stefndi fékk það sem eftir stóð til ráðstöfunar upp í skuldir Samtímalistar ehf. sem tryggðar voru á 3. og 4. veðrétti fasteignarinnar. Ráðstafaði stefndi fénu þannig að krafa á 4. veðrétti greiddist en krafa samkvæmt lánssamningi þeim sem áfrýjandi var í ábyrgð fyrir og var tryggður með tryggingarbréfi á 3. veðrétti greiddist ekki að fullu.

Bú Samtímalistar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 24. febrúar 2016 og við það tímamark stóð krafa stefnda vegna lánssamningsins í 36.164.946 krónum og var þeirri kröfu lýst í þrotabúið sem veðkröfu á grundvelli fyrrgreinds tryggingarbréfs 17. ágúst 2011 að fjárhæð 25.000.000 króna þar sem heildarvörubirgðir félagsins voru veðsettar. Lauk skiptum 17. nóvember 2016 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, þeirra á meðal kröfu stefnda, en umræddar veðsettu vörubirgðir fundust ekki í búinu.

III

Svo sem áður greinir mun Samtímalist ehf. á árinu 2012 hafa gert samkomulag við eigendur S40 ehf. um að sá síðarnefndi byggði hús á lóðinni í samræmi við samþykktar teikningar. Markmiðið var að byggja húsið, selja það síðan og greiða upp eða inn á áhvílandi skuldir. Samkvæmt gögnum málsins mun tilgangurinn með því að færa fasteignina inn í S40 ehf. hafa verið sá að tryggja eigendum félagsins yfirráð á söluverði og allri ákvarðanatöku.

Skilja verður samkomulag þetta þannig að S40 ehf. hefði forræði á sölu eignanna og ráðstöfun söluandvirðis í samráði við stefnda. Í því fólst jafnframt að S40 ehf. hafði heimild til að ráðstafa söluandvirðinu með þeim hætti að kröfur á hendur félaginu vegna byggingarinnar sem ekki voru veðtryggðar greiddust áður en aðrar kröfur yrðu efndar. Var stefnda því rétt að samþykkja að söluandvirði yrði ráðstafað til greiðslu krafna á hendur S40 ehf. samkvæmt reikningum vegna framkvæmdanna áður en veðkröfur á 3. og 4. veðrétti yrðu greiddar. Er þess jafnframt að gæta að þegar áfrýjandi gekkst í ábyrgð sína 20. nóvember 2009 var það ekki háð því að stefndi hefði veðtryggingu í fasteigninni að Skólavörðustíg 40 sem bundin var sérstaklega við lánið sem ábyrgðin laut að. Slík trygging sem síðar var veitt með viðauka 17. ágúst 2011 takmarkaði ekki ábyrgð áfrýjanda gagnvart stefnda. 

Að því gættu sem hér hefur verið rakið en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur eins og í dómsorði greinir

Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sindri Sindrason, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 18.543.941 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. nóvember 2014 til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skulu óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen og Oddný Mjöll Arnardóttir og Arngrímur Ísberg, settur landsréttardómari. 

 

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 2. nóvember 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2018 í málinu nr. E-2604/2017.

2        Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að krafan verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

3        Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Málsatvik og sönnunarfærsla

4        Í ódagsettri greinargerð Sverris Hermanns Pálmarssonar, þáverandi starfsmanns stefnda, sem samin var í tilefni af lánafyrirgreiðslu vegna byggingarframkvæmda að Skólavörðustíg 40, kemur fram að í kringum 1. júní 2012 hafi Samtímalist ehf. sótt um framkvæmdalán hjá stefnda, að fjárhæð 144.700.000 krónur, í formi reikningslánalínu til óstofnaðs félags í eigu Þorsteins Pálssonar og Kristjáns Magnasonar. Samtímalist ehf. hafi gert samning við hið óstofnaða félag, sem síðar var stofnað undir heitinu S40 ehf., um að byggja fasteign á lóðinni í samræmi við samþykktar teikningar. Þorsteinn og Kristján myndu hvor um sig leggja fram 20.000.000 króna í verkefnið og taka að sér að stýra framkvæmdum en eignin yrði færð inn í óstofnaða félagið „til að tryggja yfirráð Þorsteins og Kristjáns á söluverði og allri ákvarðanatöku í þessu máli“. Markmiðið væri að „byggja húsið, selja húsnæðið og greiða upp / inn á áhvílandi skuldir, semsagt framkvæmdalánið sem þarf að veita, framlag húsbyggjandans og loks núverandi lóðalán“. Forsaga málsins væri sú að Samtímalist ehf. hafi keypt lóðina í nóvember 2007 fyrir 107.000.000 króna með lánafyrirgreiðslu frá stefnda og hefðu áfrýjandi og Sveinn Þ. Þórhallsson gengist í 30.000.000 króna sjálfskuldarábyrgð í því sambandi. Aldrei hefði verið greitt af lánum félagsins, sem hafi í júní 2012 staðið í 103.000.000 króna, þrátt fyrir að upprunalega lánið hafi 20. janúar 2010 verið fært niður úr 130.000.000 króna í 82.000.000 króna. Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að í tengslum við þetta yrði lán vegna lóðarkaupanna fært á 3. veðrétt, en nýja framkvæmdalánið og framlag Þorsteins og Kristjáns færi á 1. og 2. veðrétt í eigninni. Loks greinir að þegar sala íbúða hæfist „myndi söluandvirðið fara fyrst inná framkvæmdalánið þar til það væri uppgreitt, svo færi söluandvirðið inná 20 milljónirnar frá Þorsteini og Kristjáni og restin færi svo inná núverandi lóðalán“.

5        Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að vegna verktafa, fjármagnskostnaðar og gatnagerðargjalda hafi verið sótt um aukna lánafyrirgreiðslu, fyrst að fjárhæð 166.702.500 krónur en síðan að fjárhæð 185.000.000 króna, en ekki kemur fram hvenær það var gert. Þá segir í greinargerðinni að við afgreiðslu síðustu beiðninnar hafi verið gert ráð fyrir því að verkefnið skilaði hagnaði en áður hefði bankinn ekki verið bjartsýnn á að það yrði raunin.

6        Framangreindur Sverrir Hermann gaf skýrslu fyrir héraðsdómi og kvaðst hafa útbúið skjal um uppgjör fjármögnunarinnar í samræmi við framangreint. Kvað hann skjalið hafa verið útbúið eftir sölu allra eignarhluta í fasteigninni en áður en allar greiðslur hefðu borist. Á skjalinu væri söluandvirðið tilgreint ásamt því hvernig ætti að ráðstafa því inn á áhvílandi skuldir. Þar kemur fram að stefndi hafi greitt út 166.400.000 krónur auk þess sem „ógreiddir reikningar og framkv“ næmu 24.835.116 krónum. Kvað vitnið að síðarnefnda fjárhæðin hefði verið skuld félagsins S40 ehf. vegna þess sem „stóð út af í framkvæmdafjármögnuninni“. Samkvæmt uppgjörsskjalinu greiddust 102.002.884 krónur inn á lán Samtímalistar ehf. vegna lóðarkaupanna. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var þar um tvö lán að ræða, annars vegar lán það sem mál þetta varðar, 20. nóvember 2009, upphaflega að fjárhæð 110.790.380 krónur, sem tryggt var með 3. veðrétti í fasteigninni að Skólavörðustíg 40 samkvæmt tryggingarbréfi 2. nóvember 2008 að fjárhæð 110.000.000 króna, en hins vegar veðskuldabréf 20. nóvember 2009, að fjárhæð 5.050.505 krónur, sem hvíldi á 4. veðrétti.

7        Áfrýjandi gaf skýrslu fyrir héraðsdómi og kvaðst hafa verið hluthafi í félaginu Samtímalist ehf. Gerður hefði verið samstarfssamningur við byggingaraðila þar sem kveðið hefði verið á um hvernig ætti að ráðstafa tekjum af sölu fasteignarinnar að Skólavörðustíg 40 og hagnaði við uppgjör. Hefði stefndi í raun komið að þessu samkomulagi. Kvað hann það sem fram kemur í efnisgrein 4 hér að framan, um ráðstöfun kaupverðs fasteignarinnar inn á áhvílandi skuldir, hafa verið í samræmi við samkomulagið.

8        Fyrir Landsrétti lagði stefndi fram upplýsingar með ársreikningi Samtímalistar ehf. fyrir reikningsárið 2011 þar sem fram kemur að áfrýjandi hafi þá verið í stjórn félagsins. Þar kemur jafnframt fram að áfrýjandi og Kristbjörg Sigurðardóttir, sem mun vera eiginkona hans, áttu hvort um sig 25% hlut í félaginu.

9        Bú Samtímalistar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2016.

10       Að öðru leyti en að framan greinir vísast um atvik máls til hins áfrýjaða dóms.

Niðurstaða

11       Áfrýjandi byggir á því að ábyrgðarskuldbinding sín vegna láns til Samtímalistar ehf. 20. nóvember 2009, upphaflega að fjárhæð 110.790.380 krónur, sem tryggt var með 3. veðrétti í fasteigninni að Skólavörðustíg 40, sé fallin brott þar sem stefndi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum gagnvart sér með því að heimila greiðslu skulda sem stóðu aftar í veðröð og óveðtryggðra skulda áður en kaupverði allra eignarhluta í fasteigninni var ráðstafað inn á lánið. Fyrir Landsrétti hefur hann í þessu sambandi meðal annars vísað til þess að af forgangsrétti veðhafa leiði að fullnusta verði kröfur sem standa framar í veðröð áður en kröfur sem aftar standa og óveðtryggðar kröfur séu fullnustaðar, sbr. meginreglu 1. og 13. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.

12       Fallist er á það með héraðsdómi að leggja verði til grundvallar að áfrýjanda hafi verið kunnugt um efni samkomulags Samtímalistar ehf. og S40 ehf. um byggingarframkvæmdir að Skólavörðustíg 40 og um hlutverk stefnda við fjármögnun þeirra. Verður samkomulaginu ekki jafnað til fullnustugerðar og ber stefnda ekki á þeim grundvelli skylda til að ráðstafa eftir veðröð þeim greiðslum sem bárust inn á áhvílandi skuldir. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður því hafnað að stefndi hafi við móttöku söluandvirðis fasteignarinnar og ráðstöfun þeirra fjármuna brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart áfrýjanda. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er því jafnframt hafnað að stefndi hafi brotið gegn slíkum trúnaðarskyldum með því að heimila eða láta óátalda sölu vörubirgða Samtímalistar ehf., sem veðsettar voru stefnda með tryggingarbréfi 17. ágúst 2011 að fjárhæð 25.000.000 króna.

13       Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er einnig staðfest sú niðurstaða hans að sjálfskuldarábyrgð áfrýjanda verði ekki vikið til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og að ekki séu efni til að víkja henni til hliðar á grundvelli reglna um brostnar forsendur.

14       Áfrýjandi byggir einnig á því að sé ábyrgðarskuldbinding greidd feli það í sér innlausn ábyrgðarmanns á upphaflegu kröfunni. Stefndi hafi gefið eftir tryggingarréttindin sem fylgdu kröfunni þótt hún hafi aðeins verið greidd að hluta. Áfrýjandi þurfi ekki að sæta því og sé því laus undan ábyrgð sinni í sama mæli og tryggingarréttindi voru gefin eftir.

15       Til að ábyrgð áfrýjanda geti takmarkast af þeim sökum að veðréttindin sem stóðu kröfunni til tryggingar voru felld niður ber að meta hvað telst sanngjarnt og eðlilegt í ljósi þess samkomulags sem gert var um framkvæmdir við Skólavörðustíg 40 og hlutverk stefnda við fjármögnun þeirra. Eins og að framan greinir verður á því byggt að áfrýjanda hafi verið kunnugt um það samkomulag. Þegar metið er hvort áfrýjandi sé bundinn af ábyrgðinni er rétt að líta til þess að þær skuldir Samtímalistar ehf. vegna lóðarkaupa sem áfrýjandi gekkst í ábyrgð fyrir voru í vanskilum og höfðu verið færðar töluvert niður af hálfu stefnda þegar hann féllst á að fjármagna framkvæmdir á lóðinni. Þá var sú fjármögnun háð þeirri forsendu að söluandvirði fasteignarinnar rynni til greiðslu framkvæmdakostnaðar áður en greitt yrði inn á lánið. Ljóst er samkvæmt framansögðu að nauðsynlegt var að aflétta láninu af seldum eignarhlutum í fasteigninni í því skyni að koma þeim í verð þannig að nýta mætti söluandvirðið til að greiða lánið að hluta eða að fullu. Þá hefur áfrýjandi, líkt og greinir í hinum áfrýjaða dómi, ekki sýnt fram á að eignarhlutarnir hafi verið seldir undir markaðsverði. Það var því ekki fyrir sakir vanrækslu stefnda að tryggingarréttindi fyrir láninu voru felld niður eftir því sem sölu eignarhlutanna vatt fram. Þegar allt framangreint er virt verður talið að við þær aðstæður sem skapast höfðu vegna vanskila lánsins hafi samkomulagið í raun falið í sér takmörkun á þeirri áhættu sem áfrýjandi bar af ábyrgðinni sem hann hafði tekist á hendur vegna lóðarkaupanna en ekki aukningu hennar. Verður áfrýjandi því ekki leystur undan ábyrgðarskuldbindingu sinni.

16       Með vísan til alls hins framangreinda verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

17       Eftir þessum úrslitum greiði áfrýjandi stefnda málskostnað fyrir Landsrétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur.

Áfrýjandi, Sindri Sindrason, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 550.000 krónur í málskostnað.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 10. október 2018

Mál þetta, sem höfðað var með birtingu stefnu 16. og 24. ágúst 2017 var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 24. september sl. Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Stefndu eru Sindri Sindrason, Bæjarlind 7, Kópavogi og Sveinn Þórhallsson, Skólavörðustíg 40, Reykjavík.

            Endanleg krafa stefnanda er að stefndu greiði honum óskipt 27.723.216 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. nóvember 2014 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

            Stefndi Sindri krefst sýknu auk málskostnaðar.

            Af hálfu stefnda Sveins féll þingsókn niður við fyrirtöku málsins 22. febrúar sl. og heldur hann ekki uppi vörnum í málinu.

 

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

Krafa stefnanda er reist á sjálfskuldarábyrgð stefndu að fjárhæð 30.000.000 króna samkvæmt samningi stefnanda og Samtímalistar ehf. 20. nóvember 2009 um lán til fimm ára að fjárhæð 110.790.380 krónur. Samtímalist ehf. var tekin til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 24. febrúar 2016 og lauk skiptum félagsins án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, þ.á m. kröfu stefnanda að fjárhæð 36.172.386 krónur vegna fyrrgreinds láns. Af hálfu stefnda Sindra er kröfu stefnanda einkum mótmælt með vísan til þess að stefnandi hafi, sem kröfuhafi, brotið gegn trúnaðarskyldu sinni með ráðstöfun greiðslna sem fengust fyrir sölu nýbyggingar að Skólavörðustíg 40 í Reykjavík sem byggð var í samstarfi Samtímalistar ehf. og S40 ehf. svo og aflýsingu veðtryggðs tryggingarbréfs í fasteigninni í framhaldi af sölu íbúða. Einnig er vísað til þess að stefnandi hafi vanrækt að gæta réttar síns sem handhafi veðréttar í vörubirgðum Samtímalistar ehf. sem stóð til tryggingar skuldinni. Þá telur téður stefndi ábyrgðina niður fallna með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga svo og reglna um brostnar forsendur. Ekki er tölulegur ágreiningur um fjárhæð kröfu stefnanda að öðru leyti en því að stefndi Sindri hefur mótmælt því að stefnanda hafi verið heimilt að ráðstafa inneign hans hjá bankanum til lækkunar kröfunnar en upphafleg stefnukrafa nam 30.000.000 króna.

Fyrrgreint lán, sem var verðtryggt og bar svokallaða kjörvexti, skyldi endurgreiða með mánaðarlegum afborgunum. Í grein 10.1 í samningnum sagði að til tryggingar „lánum þeim sem veitt kunna að verða samkvæmt ákvæðum þessa samnings, verða núverandi allsherjarveð tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka“. Í grein 10.2 í samningnum kom fram að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samningsins tækjust stefndu á hendur sjálfskuldarábyrgð in solidum að fjárhæð 30.000.000 króna og tæki ábyrgðin til greiðslu höfuðstóls allra lánshluta, auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta, svo og alls kostnaðar sem af vanskilum leiddi. Einnig kom fram að ábyrgðin gilti þótt greiðslufrestur yrði veittur á skuldbindingum samkvæmt samningnum, einu sinni eða oftar, uns skuldin væri að fullu greidd. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnda Sindra var hann meðal hluthafa í Samtímalist ehf. Sama dag og lánssamningur var undirritaður, þ.e. 20. nóvember 2009, gaf Samtímalist ehf. einnig út veðskuldabréf til stefnanda að fjárhæð 5.050.505 krónur, til fimm ára. Af gögnum málsins, svo og munnlegum skýrslum fyrir dómi, verður ráðið að tilgangur framangreindra gerninga hafi einkum verið sá að skuldbreyta yfirdráttarláni Samtímalistar ehf. hjá stefnanda sem aflað hafði verið vegna kaupa á fasteigninni við Skólavörðustíg 40 árið 2007.

Í málinu liggur fyrir afrit tryggingarbréfs að fjárhæð 110.000.000 króna, útgefið af Samtímalist ehf. til stefnanda 7. nóvember 2008 með veði í fasteigninni að Skólavörðustíg 40. Er ekki um það deilt að umrætt bréf stóð meðal annars til tryggingar fyrrgreindu láni að fjárhæð 110.790.380 krónur. Með áritun á bréfið heimilaði stefnandi síðar að bréfið yrði eingöngu til tryggingar láninu en dagsetning þeirrar áritunar liggur ekki fyrir. Meðal skjala málsins er einnig tryggingarbréf í vörubirgðum Samtímalistar ehf., útgefið 17. ágúst 2011, að fjárhæð 25.000.000 króna, vegna tveggja framangreindra lána. Við skýrslutökur fyrir dómi kom fram að aldrei hefði verið gengið að þessu veði og við töku félagsins til gjaldþrotaskipta hefði engu lausafé verið til að dreifa í búi þess.

Árið 2012 gerði Samtímalist ehf. samkomulag við Þorstein Pálsson og Kristján Magnason, sem síðar stofnuðu félagið S40 ehf., um uppbyggingu á lóðinni við Skólavörðustíg 40. Samkvæmt samkomulaginu, sem ekki hefur verið lagt fram í málinu, mun S40 ehf. hafa tekið að sér að reisa nýbyggingu á lóðinni og skyldu félögin skipta með sér þeim hagnaði sem eftir stæði þegar framkvæmdum lyki og eignin hefði í heild sinni verið seld. Með samkomulaginu var fasteigninni afsalað til S40 ehf. sem samdi um fjármögnun framkvæmdanna við stefnanda auk þess sem félög á vegum eigenda þess lánuðu félaginu 10.000.000 króna hvort.

Í málinu liggur fyrir ódagsett greinargerð Sverris Hermanns Pálssonar, þáverandi starfsmanns stefnanda, um beiðni S40 ehf. um lán að fjárhæð 166,7 milljónir króna. Er þar gert ráð fyrir því að skuld félagsins vegna framkvæmdanna að Skólavörðustíg 40 muni nema 185 milljónum króna en söluverð eigna verði 310.225.000 krónur. Að teknu tilliti til skuldar Samtímalistar ehf., sem í greinargerðinni er talin nema 115.000.000 króna, er gert ráð fyrir 10.225.000 króna hagnaði af framkvæmdinni sem skiptist jafnt á milli Samtímalistar ehf. og S40 ehf. Samkvæmt skýrslum við aðalmeðferð málsins gekk þessi áætlun ekki eftir, einkum sökum þess að framkvæmdin tók lengri tíma en ætlað var, með þeim afleiðingum að vaxtakostnaður vegna lána varð meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Við framsal téðrar fasteignar til S40 ehf. flutti stefnandi fyrrgreint tryggingarbréf sitt vegna skulda Samtímalistar ehf., svo og veðskuldabréf að nafnvirði 5.050.505 krónur, á þriðja og fjórða veðrétt. Framkvæmdalán stefnanda til S40 ehf. var tryggt með tryggingarbréfi að fjárhæð 173.500.000 krónur á fyrsta veðrétti og lán félaga á vegum eigenda S40 ehf. að heildarfjárhæð 20.000.000 króna voru tryggð með tryggingarbréfum á öðrum veðrétti.

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda Sindra voru eignarhlutar í hinni nýju byggingu að Skólavörðustíg 40 seldir á tímabilinu júní til nóvember 2014. Fyrir dómi staðfesti fyrrnefndur Sverrir Hermann að stefnandi hefði yfirfarið fyrirhugaða kaupsamninga í því skyni að staðreyna að söluverð eignarhluta væri eðlilegt. Af hálfu stefnda Sindra er hins vegar vísað til þess að tveir eignarhlutar hafi verið seldir til nafngreinds systurfélags S40 ehf. og einum eignarhluta hafi verið afsalað til bróður meðstefnda Sveins. Telur stefndi Sindri ljóst að með þessu hafi verið brotið gegn 70. gr. a í lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Samhliða gerð kaupsamninga og útgáfu afsala vegna einstakra eignarhluta mun stefnandi hafa gefið úr veðbandslausn vegna þeirra. Með sölu og útgáfu afsala vegna allra hluta fasteignarinnar hafði því öllum framangreindum veðbréfum verið aflýst af eigninni, þ.á m. því tryggingarbréfi sem stóð til tryggingar láninu sem stefndu báru sjálfskuldarábyrgð á, og þá án þess að skuld Samtímalistar ehf. hefði að fullu fengist greidd af söluandvirðinu. Ekki er um það deilt að ekkert samráð var haft við stefndu um þessar ráðstafanir.

Í stefnu er greint frá skilmálabreytingum umrædds láns á árinu 2011 og 2013. Einnig er þar gerð grein fyrir yfirlitum sem stefnandi sendi stefndu vegna ábyrgðar þeirra svo og tilkynningu um gjaldþrot Samtímalistar ehf. Með hliðsjón af vörnum stefnda Sindra og úrlausn málsins er ekki ástæða til að gera sérstaka grein fyrir atvikum sem tengjast þessum gögnum.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi Sindri aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Betsý Ósk Hilmarsdóttir, skiptastjóri í þrotabúi Samtímalistar ehf., og Sverrir Hermann Pálsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á fyrrgreindum lánssamningi stefnda við Landsbanka Íslands hf., eins og honum var síðar skilmálabreytt, og áðurgreindri sjálfskuldarábyrgð stefndu samkvæmt honum. Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi kröfu sína með vísan til skuldajöfnuðar við inneign stefnda Sindra hjá bankanum, svo sem áður greinir. Stefnandi mótmælir því að hann hafi með nokkrum hætti brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefndu. Þvert á móti hafi allar ákvarðanir hans verið eðlilegar í ljósi þess samkomulags sem gert var á árinu 2012 um uppbyggingu á lóðinni að Skólavörðustíg 40 og fjármögnun stefnanda á þeirri framkvæmd. Stefnandi geti ekki borið ábyrgð á því að væntingar aðila um hagnað hafi ekki gengið eftir og ekki hafi reynst unnt að greiða skuld Samtímalistar ehf. upp að fullu. Stefndu hafi mátt vera ljóst frá upphafi að reyna kynni á sjálfskuldarábyrgð þeirra, einnig eftir að fasteigninni að Skólavörðustíg 40 var afsalað til S40 ehf. á árinu 2012. Það sé ekki á ábyrgð stefnanda að ekkert lausafé var fyrir hendi í búi Samtímalistar ehf. og trygging í vörubirgðum félagsins reyndist gagnslaus. Það hafi leitt af fyrrgreindu samkomulagi að stefnandi hlyti að leysa eignarhluta úr veðböndum eftir því sem þeir voru seldir á markaði. Er því mótmælt að óeðlilegt hafi verið að aflýsa umræddu tryggingarbréfi að fjárhæð 110.000.000 króna við þessar aðstæður. Stefnandi vísar til þess að samkomulag aðila hafi staðið til þess að kostnaður vegna byggingarframkvæmda á vegum S40 ehf. yrði greiddur áður en kæmi að greiðslu skulda Samtímalistar ehf. Ekkert hafi því verið óeðlilegt við að söluandvirði eigna væri meðal annars ráðstafað til greiðslu útistandandi reikninga og gjalda S40 ehf., sem sum hver hafi verið tryggð með lögveði. Þá hafi stefnanda verið heimilt að ráðstafa söluandvirði fyrst til greiðslu veðskuldabréfs að fjárhæð 5.050.505 krónur án tillits til þess hvort það stæði lægra í veðröð en það lán sem stefndu báru sjálfskuldarábyrgð á.

Málsástæðum stefnda Sindra varðandi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, svo og brostnar forsendur, er mótmælt með vísan til atvika við samningsgerðina og stöðu stefnda sem sérfróðs manns á sviði viðskipta. Ekkert við síðari atvik málsins geri það að verkum að ógildi ábyrgðarinnar komi til álita á þessum grundvelli.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi Sindri byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi misfarið með hagsmuni hans og brotið gegn trúnaðarskyldum sínum þegar fasteignin að Skólavörðustíg 40 var leyst úr veðböndum og því sé ekki unnt að krefjast efnda á ábyrgðinni. Stefndi hafi með réttu mátt ætla að þær tryggingar í eignum aðalskuldara sem veittar voru, og til stóð að veita, þegar stefndi gekkst í ábyrgð fyrir lánveitingunni yrðu nýttar til fullnustu kröfunnar. Ábyrgð hans takmarkist að því marki sem stefnandi hafi sjálfur kosið að gefa eftir tryggingarréttindi sín samkvæmt tryggingarbréfi með veði í fasteignunum að Skólavörðustíg 40 og tryggingarbréfi með veði í heildarvörubirgðum eða hafi ekki gripið til þeirra ráðstafana sem stefndi með réttu hafi mátt ætlast til af honum til að vernda þessi réttindi. Nánar tiltekið byggir stefndi á því að kröfuábyrgð stefnda eigi að lækka sem nemi þeirri fjárhæð eða tryggingu sem stefnandi gaf eftir þegar hann tók ákvörðun um að aflétta veði af fasteigninni að Skólavörðustíg 40. Uppreiknað virði tryggingarbréfsins hafi í janúar 2014 verið 145.283.677 krónur sem hafi verið verulega umfram skuld samkvæmt lánssamningnum. Þar sem hann hafi ekki kosið að nýta þessa tryggingu að fullu sé kröfuábyrgð stefnda fallin á brott.

Stefndi vísar einnig til þess að stefnandi hafi ekkert samráð haft við stefnda um eftirgjöf tryggingarréttindanna og beri því allan halla af því að hafa ekki fengið upp í kröfuna meira en raun ber vitni og hann beri sönnunarbyrðina fyrir því að verðmæti trygginganna hafi ekki verið meira. Þessu til frekari stuðnings bendir stefndi á að samkvæmt kröfuskrá þrotabús Samtímalistar ehf. virðist kröfu vegna veðskuldabréfs, upphaflega að fjárhæð 5.050.505 krónur, sem tryggt var með fjórða veðrétti í fasteigninni að Skólavörðustíg 40 ekki hafa verið lýst við skipti á þrotabúinu. Svo virðist því sem stefnandi hafi kosið að ráðstafa greiðslum, sem fengust fyrir fasteignina eða með öðrum hætti, inn á skuldir sem tryggðar voru með lakari hætti en tryggingarbréf sem tryggði skuld samkvæmt hinum stefnda lánssamningi. Stefndi vísar einnig til þess að sé kröfuábyrgð greidd eigi ábyrgðarmaður að eignast upphaflega kröfu aðalskuldara með þeim tryggingarréttindum sem henni fylgi. Með því að stefnandi hafi gefið eftir tryggingarréttindi sín eða vanrækt þau geti hann ekki afhent stefnda þau kröfu- og tryggingarréttindi sem hann átti. Stefndi byggir á því að af þessum sökum geti stefnandi ekki krafist greiðslu kröfuábyrgðar á hendur sér.

Stefndi bendir á að stefnandi hafi starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki í samræmi við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefndi vísar til þeirrar ábyrgðar og skyldu sem í stöðu stefnanda felist en þessi ábyrgð endurspeglist meðal annars í þeirri meginreglu sem fram komi í 5. gr. laga nr. 108/2007. Stefndi telur að í máli þessu hafi stefnandi ekki gætt að þessum skyldum sínum gagnvart stefnda og því beri að fella ábyrgðina niður.

Verði talið að kröfuréttur hafi ekki fallið niður af framangreindum ástæðum þá byggir stefndi á því, meðal annars með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum og atvikum, að ábyrgðarskuldbinding hans sé ógild með vísan til 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Í þessu sambandi bendir stefndi á að efni lánssamningsins hafi verið skýrt um að taka hafi átt veð í ýmsum öðrum eignum Samtímalistar ehf. auk þess sem fyrir hafi legið veð í fasteigninni að Skólavörðustíg 40 og stefnandi hafi því mátt gera ráð fyrir að þessi veðréttindi yrðu nýtt. Um stöðu samningsaðila er vísað til þess sem að framan greinir um stöðu stefnanda sem fjármálafyrirtækis og að stefnandi hafi haft yfirburðastöðu gagnvart stefnda. Um atvik sem síðar hafi komið til vísi stefndi til þeirrar meðferðar stefnanda á veðréttindum sínum, sem áður greinir. Því beri að ógilda ábyrgð stefnda samkvæmt lánssamningnum.

Stefndi byggir einnig á því, með hliðsjón af þeim atvikum sem rakin hafa verið, að forsendur fyrir ábyrgð stefnda á lánssamningi stefnanda við Samtímalist ehf. hafi brostið. Stefndi hafi mátt gera ráð fyrir því að stefnandi myndi bæði tryggja veðréttindi sín með fullnægjandi hætti og leita fullnustu krafna sinna í þeim réttindum og vernda þannig rétt stefnda. Það hafi stefnandi ekki gert og því séu forsendur fyrir ábyrgð hans brostnar.

 

Niðurstaða

Svo sem áður greinir gerði Samtímalist ehf. á árinu 2012 samkomulag við Þorstein Pálsson og Kristján Magnússon á þá leið að félag á þeirra vegum, sem síðar var stofnað undir heitinu S40 ehf., tæki að sér að reisa fjögurra hæða nýbyggingu á lóðinni við Skólavörðustíg 40 undir þjónustu- og íbúðarhúsnæði. Umrætt samkomulag hefur ekki verið lagt fram í málinu en ekki er um það deilt að það var reist á þeirri forsendu að framkvæmdin yrði að verulegu leyti fjármögnuð með láni frá stefnanda og að nokkru með fé frá framkvæmdaaðilanum. Í ódagsettri greinargerð Sverris Hermanns Pálssonar, þáverandi starfsmanns stefnanda, vegna umsóknar um framkvæmdalán hjá stefnanda að fjárhæð 166.702.500 krónur er samkomulaginu nánar lýst á þá leið að Þorsteinn og Kristján leggi fram 20 milljónir króna í peningum og taki að sér að stýra framkvæmdum ásamt því að halda utan um fjármál hennar. Fasteignin verði færð inn í félag Þorsteins og Kristjáns til að tryggja forræði þeirra á söluverði og allri ákvarðanatöku í málinu. Þá segir að núverandi lóðalán verði fært á þriðja veðrétt, framkvæmdalán stefnanda til hins fyrirhugaða félags verði á fyrsta veðrétti en 20 milljóna króna lán Þorsteins og Kristjáns verði tryggt með öðrum veðrétti. Einnig segir að þegar sala íbúða fari af stað muni söluandvirði fara fyrst inn á framkvæmdalánið, því næst inn á téð 20 milljóna króna lán Þorsteins og Kristjáns, en afgangurinn fari inn á núverandi lóðalán. Er ekki um það deilt að með téðu „lóðaláni“ er meðal annars vísað til þess láns Samtímalistar ehf. við stefnanda sem stefndu gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir og áður greinir. Í málinu liggja engin gögn fyrir um fjármögnunarsamning S40 ehf. við stefnanda en í skýrslu sinni fyrir dómi staðfesti áðurnefndur Sverrir Hermann að bankinn hefði fylgst með sölu eignarhluta á vegum S40 ehf. og staðreynt hvort endurgjald væri eðlilegt með tilliti til markaðsverðs. Þá er einnig fram komið að umsókn um framkvæmdalán var síðar hækkuð úr fyrrgreindri fjárhæð í 185.000.000 krónur þar sem við upphaflega umsókn hafði láðst að taka tillit til fyrirsjáanlegs vaxtakostnaðar vegna lántökunnar.

Í málinu liggur fyrir að umrædd lánsumsókn var samþykkt og tók S40 ehf., sem stofnað var í framangreindum tilgangi af téðum Þorsteini og Kristjáni, lán hjá stefnanda til fjármögnunar framkvæmdanna og gaf út veðtryggt tryggingarbréf að fjárhæð 173.500.000 krónur sem þinglýst var á fyrsta veðrétt auk þess sem tveimur tryggingarbréfum, hvoru um sig að fjárhæð 10.000.000 króna, var þinglýst á annan veðrétt vegna lána félaga í eigu Þorsteins og Kristjáns. Var þetta gert á grundvelli leyfis stefnanda sem handhafa veðtryggðs tryggingarbréfs að fjárhæð 110.000 milljónir króna og veðskuldabréfs að fjárhæð 5.050.505 krónur, báðum útgefnum af Samtímalist ehf. Að loknum umræddum ráðstöfunum voru því áðurgreind bréf vegna skulda Samtímalistar ehf. á þriðja og fjórða veðrétti fasteignarinnar en á sama tíma stóð fyrir dyrum veruleg verðmætaaukning fasteignarinnar vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda. Að virtum skýrslum við aðalmeðferð málsins verður að miða við að þessi ákvörðun stefnanda hafi verið í samræmi við téð samkomulag Samtímalistar ehf. og fyrirsvarsmanna S40 ehf. um uppbyggingu á lóðinni og jafnframt hafi hún verið gerð með vitund stefnda Sindra sem var einn af eigendum fyrrgreinda félagsins.

Eins og áður segir mun umrætt samkomulag um uppbyggingu á lóðinni hafa gengið eftir að því leyti að stefnandi tók að verulegu leyti að sér fjármögnun byggingarframkvæmda á lóðinni að Skólavörðustíg 40. Kom fram við munnlegan flutning málsins af hálfu stefnda Sindra að ekki væri um það deilt að ráðstafa hefði átt söluandvirði nýbyggingarinnar að Skólavörðustíg 40 fyrst til greiðslu áhvílandi veðskulda S40 ehf. við stefnanda og því næst til greiðslu þess láns eigenda félagsins sem tryggt var með tryggingarbréfum á öðrum veðrétti fasteignarinnar. Hins vegar byggir þessi stefndi á því að stefnandi hafi brotið gegn sér með því að leyfa S40 ehf. að verja 24.835.116 krónum af söluverði eignanna til að greiða óverðtryggðar skuldir félagsins sem í gögnum málsins voru tilgreindar sem „ógreiddir reikningar og framkvæmdir“. Einnig hafi stefnanda verið óheimilt að ráðstafa þeim greiðslum sem hann fékk vegna sölu eignarinnar til greiðslu veðskuldabréfs Samtímalistar ehf., upphaflega að fjárhæð 5.050.505 krónur, sem hvíldi á fjórða veðrétti fasteignarinnar, í stað þess að láta féð fyrst renna til greiðslu þess láns sem stefndi Sindri bar sjálfskuldarábyrgð á og tryggt var með áðurgreindu tryggingarbréfi á þriðja veðrétti. Þá er á því byggt af hálfu stefnda Sindra að stefnandi hafi vanrækt að nýta þá tryggingu lánsins sem fólst í lausafjárveði að fjárhæð 25.000.000 króna í eignum Samtímalistar ehf. með þeim afleiðingum að ekki fékkst full greiðsla upp í lánið.

Svo sem áður er lýst liggur fyrir að stefndi Sindri tókst í upphafi á hendur sjálfskuldarábyrgð á framangreindu láni Samtímalistar ehf. fyrir 30.000.000 króna. Þótt téður stefndi hafi á þeim tíma haft væntingar um að fasteign félagsins sem stóð til tryggingar láninu, svo og það lausafé sem sett var að veði, sbr. grein 10.2 í lánssamningnum, nægðu til þess að greiða allt lánið mátti hann eðli málsins samkvæmt búast við því að þetta gengi ekki eftir og reynt gæti á sjálfsskuldarábyrgð hans. Leggja verður til grundvallar að stefnda Sindra hafi verið kunnugt um umrætt samkomulag Samtímalistar ehf. og fyrirsvarsmanna S40 ehf. á árinu 2012 svo og hlutverk stefnanda við fjármögnum byggingarframkvæmdanna að Skólavörðustíg 40. Er því þannig ekki haldið fram í málinu að leyfi stefnanda þess efnis að umrætt tryggingarbréf að fjárhæð 110.000.000 króna væri flutt á þriðja veðrétt hafi verið andstætt hagsmunum stefnda Sindra þótt bréfið hafi þá verið sérgreint til tryggingar vegna þess láns sem hann bar ábyrgð á. Jafnframt hafa ekki verið færð að því rök að hagsmunir stefnda Sindra sem sjálfsskuldarábyrgðarmanns hafi verið fyrir borð bornir með umræddu samkomulagi Samtímalistar ehf. við S40 ehf. Þótt með áðurlýstum byggingarframkvæmdum á árinu 2012 væri stefnt að fullri uppgreiðslu skulda Samtímalistar ehf., sem og einhverjum hagnaði, mátti einnig vera ljóst á þeim tíma að í verkefninu fælist viðskiptaleg áhætta og ekki væri hægt að útiloka að söluandvirði íbúða myndi ekki nægja til þess að greiða áhvílandi lán Samtímalistar ehf. við stefnanda. Jafnframt mátti stefnda Sindra vera ljóst að umrætt samkomulag gerði ráð fyrir sölu allra eignarhluta fasteignarinnar og þar með aflýsingu allra veðbanda á eigninni við afsal til kaupenda, þ.á m. þess bréfs sem stóð til tryggingar því láni sem hann bar sjálfskuldarábyrgð á. Er ekkert komið fram í málinu um að samið hafi verið svo um að Samtímalist ehf. eða ábyrgðarmenn lána félagsins hefðu umsagnarrétt eða ákvörðunarvald yfir sölu eignarhluta, sem voru þinglýstar eignir S40 ehf., og aflýsingu veðbanda í kjölfar þess. Þvert á móti verður ráðið af gögnum málsins að samkomulag félaganna hafi falið það í sér að S40 ehf. hefði fullt forræði á sölu eignanna í samráði við stefnanda.

Stefndi Sindri hefur vísað til þess að tilteknir eignarhlutar fasteignarinnar að Skólavörðustíg 40 hafi verið seldir aðilum tengdum S40 ehf. og Samtímalist ehf. Í málinu hefur þó ekki verið aflað neinna gagna sem benda til þess að söluverð þessara eignarhluta hafi verið undir markaðsverði þannig að hagsmuna Samtímalistar ehf. og stefndu sem ábyrgðarmanna á láni félagsins hafi ekki verið gætt að því leyti. Að mati dómsins hlaut að leiða af umræddu samkomulagi félaganna að S40 ehf. væri heimilt að greiða allan kostnað af byggingarframkvæmdum af söluverði eignanna án tillits til þess hvort slíkur kostnaður væri háður veðrétti eða ekki. Dómurinn getur því ekki fallist á að stefnanda, sem handhafa tryggingarbréfs fyrir því láni sem stefndi Sindri var ábyrgðarmaður fyrir, hafi borið að nýta stöðu sína sem lánardrottinn S40 ehf. til þess að knýja það félag til þess að láta útistandandi reikninga vegna framkvæmdarinnar ógreidda og hlutast til um að samsvarandi hluta söluverðs íbúða yrði ráðstafað til skuldar Samtímalistar ehf. Hefði sú niðurstaða falið í sér að S40 ehf. hefði staðið uppi með ógreiddar kröfur vegna framkvæmdarinnar, en það var bersýnilega í ósamræmi við það samkomulag um uppbyggingu á lóðinni sem áður greinir. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda Sindra að með því að heimila S40 ehf. greiðslu umræddra reikninga, sem gera verður ráð fyrir að hafi tengst kostnaði við umræddar byggingarframkvæmdir, af söluverði eignarhlutanna hafi stefnandi brotið trúnaðarskyldu sína við stefnda Sindra eða vanrækt að gæta hagsmuna hans sem ábyrgðarmanns. Er þá tekið tillit til stöðu stefnanda og skyldna sem fjármálafyrirtækis, sbr. lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins að stefnandi hafi á nokkrum tíma skuldbundið sig til að ráðstafa þeim greiðslum sem hann fengi frá S40 ehf. vegna sölu eignarhluta í fasteigninni að Skólavörðustíg 40 til lána Samtímalistar ehf. í ákveðinni forgangsröð. Að mati dómsins var stefnanda því heimilt að gæta hagsmuna sinna sem lánardrottins með því að ráðstafa þeim fjárhæðum sem eftir stóðu þegar útgjöld S40 ehf. vegna byggingarframkvæmdanna höfðu verið greidd fyrst inn á framangreint veðskuldabréf, upphaflega að fjárhæð 5.050.505 krónur, sem hvíldi á fjórða veðrétti fasteignarinnar, með þeim afleiðingum að það lán sem stefndu voru ábyrgðarmenn fyrir varð ekki að fullu greitt upp.

Svo sem áður segir leiddi einnig af fyrrgreindu samkomulagi að stefnandi hlaut að lokinni sölu einstakra eignarhluta að hlutast til um aflýsingu áhvílandi veðskulda. Að virtum framangreindum atvikum telur dómurinn því að í aflýsingu þess tryggingarbréfs að fjárhæð 110.000.000 króna sem stóð til tryggingar láninu sem stefndi Sindri bar sjálfskuldarábyrgð á hafi stefnandi fylgt fyrirliggjandi samkomulagi sem fól í sér eðlileg jafnvægi hagsmuna beggja félaga svo og ábyrgðarmanna láns Samtímalistar ehf. Verður því ekki á það fallist að með þessari ráðstöfun hafi stefnandi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnda Sindra sem ábyrgðarmanni.

Í málinu liggur ekkert fyrir um afdrif þess lausafjár sem einnig stóð til tryggingar framangreindu láni Samtímalistar ehf. Að mati dómsins er ekkert fram komið í málinu um að stefnandi hafi með einhverjum hætti vanrækt skyldur sínar sem veðhafi við stefnda Sindra með því að heimila sölu muna úr búi Samtímalistar ehf. eða láta slíka sölu óátalda. Eins og atvik málsins liggja fyrir getur stefnandi ekki borið hallann af óvissu um afdrif þeirra muna sem hér um ræðir. Verður því ekki á það fallist að þessar ráðstafanir fyrirsvarsmanna Samtímalistar ehf. geti komið til lækkunar ábyrgðar stefnda Sindra.

Sú sjálfskuldarábyrgð sem hér er um að tefla er tíðkanleg og mátti stefnda Sindra, sem er viðskiptafræðingur, vera vel ljós sú ábyrgð sem hann tókst á hendur með undirskrift sinni og sú áhætta sem í henni fólst. Þá er ekkert fram komið um að atvik við samningsgerðina hafi verið óeðlileg þannig að til greina komi að víkja sjálfskuldarábyrgð stefnda Sindra til hliðar, að hluta eða í heild, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum. Gildir þá einu þótt horft sé til sérstakrar stöðu og skyldna stefnanda sem fjármálafyrirtækis.

Fyrrgreint samkomulag Samtímalistar ehf. og fyrirsvarsmanna S40 ehf. á árinu 2012 fól í megindráttum í sér að síðarnefnda félagið tók að sér byggingarframkvæmdir á lóðinni með fjármögnun frá stefnanda, og að nokkru frá eigendum félagsins, með það fyrir augum að íbúðir og þjónustuhlutar yrðu seldir á almennum markaði. Andvirði eignarhluta nýbyggingarinnar skyldi ráðstafa til greiðslu skulda félaganna í þeirri röð sem áður greinir, en að þeim greiddum skyldi hagnaður, ef honum yrði að skipta, koma til jafnra skipta félaganna. Af atvikum málsins verður ekki annað ráðið en að hér hafi verið um að ræða samkomulag þar sem eðlilegt endurgjald kom fyrir hagsmuni hvors félags að teknu tilliti til fyrirhugaðrar verðmætaaukningar fasteignarinnar vegna framkvæmdanna og væntinga um tiltekið söluverð eignarhluta. Með sama hætti er ljóst að framkvæmdin fól í sér þá áhættu að ekki reyndist unnt að greiða að fullu upp skuldir Samtímalistar ehf. Líkt og áður greinir var hlutverk stefnanda takmarkað við lánveitingar og fólst endurgjald til hans því eingöngu í greiðslu lána með kjörum sem ekki liggur annað fyrir um en að hafi verið tíðkanleg. Svo sem áður greinir er það mat dómsins að aðgerðir stefnanda við aflýsingu áhvílandi veða af Skólavörðustíg 40 hafi verið eðlilegar og fyrirsjáanlegar í ljósi þess samkomulags sem lá til grundvallar samstarfi Samtímalistar ehf. og S40 ehf. og hlutverks bankans sem fjármögnunaraðila. Að öllu þessu virtu geta atvik eftir gerð umrædds lánssamnings því ekki leitt til þess að sjálfskuldarábyrgð stefnda Sindra verði vikið til hliðar að hluta eða í heild með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Af sömu ástæðum verður ekki fallist á að ábyrgð stefnda Sindra verði vikið til hliðar á grundvelli reglna um brostnar forsendur.

Samkvæmt framangreindu er málsástæðum stefnda Sindra í málinu hafnað, en svo sem áður segir hefur stefndi Sveinn ekki haldið uppi vörnum í málinu. Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi kröfu sína með vísan til skuldajöfnuðar sem stefndi Sindri hefur mótmælt. Ágreiningur aðila um þessa lækkun dómkröfu stefnanda fellur utan sakarefnis málsins. Verður krafa stefnanda því tekin til greina eins og hún er fram sett, þ.m.t. um dráttarvexti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi Sindri dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, þar af greiði stefndi Sveinn, sem ekki hefur látið málið til sín taka, sameiginlega með téðum stefnda 100.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Hannes J. Hafstein lögmaður.

Af hálfu stefnda flutti málið Bjarni Aðalgeirsson lögmaður.

Skúli Magnússon kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Sindri Sindrason og Sveinn Þórhallsson, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., óskipt 27.723.216 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. nóvember 2014 til greiðsludags.

            Stefndi Sindri greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað, þar af greiði stefndi Sveinn sameiginlega með stefnda Sindra 100.000 krónur.