Print

Mál nr. 721/2016

VHE ehf. (Hilmar Gunnlaugsson hrl.)
gegn
Hýsi-Merkúr hf. (Bjarki Þór Sveinsson hrl.)
Lykilorð
  • Verksamningur
  • Meðdómsmaður
  • Ómerking héraðsdóms
  • Aðfinnslur
Reifun

V ehf. gerði samning við H hf. um afhendingu á stáli í byggingu sem V ehf. var að reisa samkvæmt verksamningi við E ehf. Hafði síðargreindi samningurinn verið gerður að undangengnu útboði. Miðað var við í upphafi að stál í bygginguna yrði um 350 tonn en það magn sem var notað og H hf. afhenti reyndust vera um 550 tonn. Deildu aðilar meðal annars um hvor þeirra bæri áhættuna af því. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við úrlausn á því hvort H hf. gæti krafið V ehf. um greiðslu fyrir allt stálið gæti skipt máli hvort honum hefði mátt vera ljóst af útboðsgögnum einum, sem fyrir lá að V ehf. hafði sent honum, að V ehf. hefði reiknað með að nota of lítið af stáli í bygginguna. Einnig þyrfti að meta hvort H hf. hefði verið kleift á grundvelli útboðsgagna að hanna burðaþol byggingarinnar eða hvort hann þurfti við þá hönnun að hafa teikningar frá arkitektum hússins. Talið var að þegar þessi atriði væru virt reyndi á sérfræðileg álitaefni á sviði byggingaverkfræði. Hefði því verið nauðsynlegt að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á þau og dæma málið með sér, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem það hefði ekki verið gert var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. október 2016. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 1. júní 2016 og málinu vísað heim í hérað, til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda, en að því frágengnu að krafa stefnda verði lækkuð og að hún beri dráttarvexti frá uppsögu héraðsdóms. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í nóvember 2014 bauð Eimskip Ísland ehf. út í lokuðu útboði byggingu frystigeymslu ásamt forrými og stoðrýmum við Suðurhöfn að Óseyrarbraut 22 í Hafnarfirði. Byggingin skiptist í tvo frystiklefa, samtals að grunnfleti um 5.400 fermetrar, og forrými, um 1.200 fermetrar. Verkið skiptist í tvo áfanga og átti þeim fyrri að vera lokið 1. júlí 2015 en þeim síðari 1. október sama ár. Tilboðum í verkið átti að skila 3. desember 2014 og bauð áfrýjandi í það. Tilboði hans var tekið og mun hafa komist á samningur um verkið á grundvelli útboðsgagna.

Í kjölfar þess að áfrýjandi tók að sér verkið hófst hann handa við að afla tilboða í efni og tæki fyrir bygginguna. Meðal annars fékk hann tilboð 8. janúar 2015 frá stefnda í yleiningar og klæðningarefni og keypti þær vörur af honum. Jafnframt óskaði áfrýjandi eftir tilboði frá stefnda í stál fyrir bygginguna og fékk það með bréfi hans 15. sama mánaðar. Þar kom fram að einingarverð á máluðu stáli væri 1.690 evrur en á heithúðuðu stáli 1.750 evrur. Innifalið í verðinu var burðarþolshönnun á stálvirki forrýmis og frystigeymslu. Samhliða þessu fékk áfrýjandi þrjú önnur tilboð í þennan þátt verksins, en vikið er að efni þeirra í hinum áfrýjaða dómi. Í einu af þessum tilboðum var miðað við að magn af stáli í bygginguna yrði um 347 tonn en í öðru um 520 tonn.

Áfrýjandi gekk til samninga við stefnda og keypti af honum allt stál í bygginguna, en það var framleitt í Póllandi. Um viðskiptin var ekki gerður skriflegur samningur, en í aðdraganda þeirra sendi áfrýjandi tölvupóst 6. janúar 2015 til stefnda með gögnum úr útboðinu. Þar var tekið fram að verkáætlun gerði ráð fyrir að stálvirki yrði reist um mánaðarmótin apríl/maí 2015 og að afhending til verkkaupa yrði í ágúst sama ár. Þessu erindi svaraði stefndi með tölvupósti síðar sama dag, en þar sagði meðal annars svo: „ ... við erum að tala um að burðarvirkið sem um 350 tonn ...“.

Eftir að viðskiptin um kaup á stálinu komust á skiptust aðilar á fjölda tölvupósta. Að því er varðar magn á stáli kom fram í tölvupósti stefnda 9. mars 2015 að umtalsverð aukning hefði orðið á því með aukabitum vegna brunakrafna eða 32 tonn. Þannig færi stálvirkið úr 346 tonnum í 378 tonn. Í tölvupósti stefnda 22. apríl sama ár til áfrýjanda var spurt að því hvort „350 tonnin sem þið töluðuð um í upphafi“ ættu að vera 450 tonn eða hvort þetta væri „allt eitt bull?“ Þessu svaraði áfrýjandi með tölvupósti sama dag þar sem sagði: „350 tonn áttu að vera 350 tonn og ekkert bull.“ Þegar upp var staðið fóru samtals um 550 tonn af stáli í bygginguna.

Stefndi gerði áfrýjanda fjölda reikninga á tímabilinu frá 29. maí til 30. september 2015 samtals að fjárhæð 351.583.323 krónur. Af þeirri fjárhæð hefur áfrýjandi greitt samtals 263.376.946 krónur, en síðasta greiðslan var innt af hendi 27. ágúst 2015.

Aðilar funduðu 24. september og 7. október 2015 um viðskiptin og ritaði starfsmaður áfrýjanda minnisblað um fundina. Minnisblaðið var sent stefnda með tölvupósti 26. október það ár. Þar kom meðal annars fram að í upphafi hefði áfrýjandi áætlað að magn af stáli í húsið næmi 350 tonnum. Stefndi hefði látið hanna meira og teldi fjölda tonna vera um 370 til 380 en hefði gert reikninga fyrir 550 tonn. Þá kom fram að skýringu vantaði á umfram fjölda tonna um 150 til 170. Í niðurlagi minnisblaðsins sagði að fram hefði komið af hálfu áfrýjanda að frekari greiðslur yrðu ekki inntar af hendi fyrr en ágreiningi aðila um viðskiptin yrði ráðið til lykta. Stefndi sendi áfrýjanda bréf 11. nóvember 2015 og krafðist þess að staðið yrði skil á því sem væri ógreitt samkvæmt reikningum stefnda. Þessu erindi svaraði áfrýjandi með bréfi 26. sama mánaðar þar sem greiðsluskyldu var synjað meðal annars af þeirri ástæðu að upphaflega hefði verið samið um kaup á 346 tonnum en við það bæst 32 tonn sem áfrýjandi hefði óskað eftir til viðbótar. Að auki bæri að greiða fyrir stál sem verkkaupi, Eimskip Ísland ehf., hefði óskað eftir vegna aukaverka, en það næmi um 53 tonnum.

Af hálfu áfrýjanda varð dráttur á því að skila verkinu tímanlega til verkkaupa. Í samræmi við verksamning gekkst áfrýjandi af þeirri ástæðu undir að greiða verkkaupa tafabætur að fjárhæð 19.000.000 krónur með samkomulagi 1. febrúar 2016. Áfrýjandi heldur því fram að dráttur af hálfu stefnda á því að afhenda stálið hafi valdið því að verkinu var ekki skilað í tæka tíð. Telur áfrýjandi að tjón sitt af þessum sökum svari til tafabótanna og heldur hann þeirri kröfu fram til skuldajafnaðar gegn fjárkröfu stefnda. Stefndi telur aftur á móti að dráttur á afhendingu af sinni hálfu verði rakinn til atriða sem áfrýjandi beri ábyrgð á.

 Um afhendingu á stálinu kom fram í tölvupósti stefnda 10. febrúar 2015 til áfrýjanda að hinn fyrrnefndi hefði gert samkomulag við tiltekna verkfræðiskrifstofu í Þýskalandi um framleiðsluteikningar stálvirkis og var tekið fram að þeim yrði lokið tímanlega fyrir framleiðanda stálsins. Stálvirki fyrir forrýmið, annan af frystiklefunum og hluta af hinum, yrði komið til landsins 27. apríl til 2. maí 2015 en afgangur stálsins kæmi 25. til 30. maí sama ár. Þetta væri þó háð því að ekki yrðu gerðar neinar þær breytingar á byggingunni sem seinkað gætu teiknivinnu. Með tölvupósti 16. febrúar 2015 lýsti áfrýjandi yfir óánægju og áhyggjum gagnvart stefnda af framgangi mála við hönnun byggingarinnar. Var vísað til þess að þann dag hefði átt að halda þriðja fund um hönnunina, en þetta væri jafnframt þriðji slíkur fundur sem stefndi hefði óskað eftir að yrði frestað. Einnig var vísað til þess að óskað hefði verið eftir hönnunar- og verkáætlun frá stefnda, en komið hefði í ljós að áform um skil á þeim myndu ekki standast. Þetta væri byrjað að valda töfum sem erfitt væri að vinna upp. Jafnframt sendi áfrýjandi tölvupóst 4. mars 2015 til stefnda þar sem vísað var til fundar 17. febrúar sama ár sem boðað hafði verið til vegna óánægju með gang mála við hönnun og útvegun efnis í bygginguna. Frá þeim fundi væru liðnar tvær vikur og áhyggjur af framvindunni væru síst minni, enda væri stefndi farinn „að líta vægast sagt vandræðalaga út gagnvart verkkaupa“. Í tölvupósti stefnda 9. sama mánaðar til áfrýjanda sagði aftur á móti að verkfræðistofan í Þýskalandi gæti ekki haldið áfram vinnu við burðarþolshönnun sökum þess að teikningar frá arkitektum hefðu ekki borist. Þá kom fram í tölvupósti áfrýjanda 18. júní 2015 til stefnda að ákveðið hefði verið á fundi aðila 24. apríl sama ár að hafist yrði handa við framleiðslu á stálinu, en nú rétt tæpum tveimur mánuðum síðar hefðu borist 25 til 30% af efninu, lítið væri á leiðinni og ekkert vitað um framleiðslulok. Efnið í bygginguna mun síðan hafa borist þá um sumarið og afhendingu þess lokið í ágúst það ár.

Undir áfrýjun málsins fékk áfrýjandi dómkvaddan mann til að meta nánar tilgreind atriði um venjur í verktakastarfsemi og byggingu frystigeymslunnar, sbr. dóm Hæstaréttar 25. janúar 2017 í máli nr. 835/2016. Matsgerð þessari var skilað 21. febrúar 2017, en þá var liðinn sameiginlegur frestur aðila til gagnaöflunar fyrir réttinum. Af hálfu stefnda var því mótmælt með bréfi 23. sama mánaðar að matsgerðin kæmist að í málinu, en við munnlegan flutning þess var fallið frá þeim andmælum. Í matsgerðinni kemur meðal annars fram að aðeins burðarþolshönnuður hefði getað reiknað út magn af stáli í bygginguna. Aðrir hefðu eingöngu getað giskað á það.

II

Eins og hér hefur verið rakið tók stefndi að sér gagnvart áfrýjanda að afhenda stál í byggingu, sem hann var að reisa samkvæmt verksamningi við Eimskip Ísland ehf. Þegar þessi viðskipti aðila komust á var miðað við að stálið í bygginguna yrði um 350 tonn, en það magn sem var notað og stefndi afhenti reyndist vera um 550 tonn. Aðilar deila um hvor þeirra beri áhættuna af þessu. Jafnframt sömdu aðilar ekki í öndverðu um tiltekinn afhendingartíma á stálinu, en þó liggur fyrir að áfrýjandi sendi stefnda gögn úr útboði verkkaupans og þar kom fram hvenær skila átti verkinu. Verður því miðað við að stefnda hafi borið að afhenda stálið í tæka tíð svo verkinu yrði skilað á réttum tíma.

Við úrlausn þess hvort stefndi geti krafið áfrýjanda um greiðslu fyrir allt það stál sem hann afhenti getur skipti máli hvort honum hafi mátt vera ljóst af útboðsgögnum einum hvort áfrýjandi reiknaði með að nota of lítið af stáli í bygginguna. Einnig þarf að meta hvort stefnda var kleift á grundvelli útboðsgagnanna að hanna burðarþol byggingarinnar eða hvort hann þurfti við þá hönnun að hafa teikningar frá arkitektum hússins. Þegar virt eru bæði þessi atriði, sem aðilar deila um, reynir á sérfræðileg álitaefni á sviði byggingaverkfræði. Var því nauðsynlegt að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á þetta og dæma málið með sér, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem það var ekki gert verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins í héraði frá og með aðalmeðferð 1. júní 2016 og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Það athugast að samningu héraðsdóms er áfátt af þeim sökum að lýsing málavaxta er óglögg og ástæðulaust var með öllu að rekja í löngu máli framburð þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi í stað þess að geta aðeins um það í aðila- og vitnaskýrslum sem dómari taldi hafa áhrif við sönnunarmatið.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016.

Mál þetta, sem þingfest var 9. desember 2015 og dómtekið 1. júní 2016, var höfðað af Hýsi-Merkúr ehf., kt. 701006-2590, Völuteigi 7, 270 Mosfellsbæ, með stefnu, dagsettri 8. desember 2015, á hendur VHE ehf., kt. 531295-2189, Melabraut 23-25, Hafnarfirði.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða stefnanda 351.583.323 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 78.353.660 krónum frá 29. maí 2015 til 17. júní 2015, en af 83.175.499 krónum frá þeim degi til 18. júní 2015, en af 154.196.431 krónu frá þeim degi til 19. júní 2015, en af 180.874.485 krónum frá þeim degi til 20. júlí 2015, en af 242.878.271 krónu frá þeim degi til 21. júlí 2015, en af 254.275.890 krónum frá þeim degi til 29. júní 2015, en af 261.464.388 krónum frá þeim degi til 30. júlí 2015, en af 316.815.507 krónum frá þeim degi til 12. ágúst 2015, en af 323.059.606 krónum frá þeim degi til 18. ágúst 2015, en af 329.705.808 krónum frá þeim degi til 21. ágúst 2015, en af 334.028.904 krónum frá þeim degi til 24. ágúst 2015, en af 341.789.811 krónum frá þeim degi til 26. ágúst 2015, en af 345.042.343 krónum frá þeim degi til 1. október 2015, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð 269.355.498 krónur sem greiddar voru þann 16. júní 2015 að upphæð 21.036.020 krónur, þann 18. júní 2015 12.568.779 krónur, þann 26. júní 2015 12.196.227 krónur, þann 15. júlí 2015 32.552.634 krónur, þann 15. júlí 2015 3.061.112 krónur, þann 15. júlí 2015 1.760.727 krónur, þann 15. júlí 2015 45.585.483 krónur, þann 24. júlí 2015 16.571.127 krónur, þann 5. ágúst 2015 23.473.014 krónur, þann 14. ágúst 2015 5.362.438 krónur, þann 14. ágúst 2015 3.501.884 krónur, þann 14. ágúst 2015 3.205.040 krónur, þann 14. ágúst 2015 62.003.789 krónur og þann 27. ágúst 2015 20.498.672 krónur. Þá lækkaði stefnandi dómkröfur sínar þannig að hann samþykkti afslátt frá 30. sept. 2015 að fjárhæð 3.400.678 krónur  vegna gengismunar og þann 23. feb. 2016 2.577.874 krónur vegna stálsmíði stefnda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málsatvik og aðdragandi máls.

Samkvæmt gögnum málsins og framburði aðila bauð stefndi í frystigeymslu fyrir Eimskip í Hafnarfirði í lokuðu útboði í nóvember 2014. Í framhaldi leitaði stefndi tilboða í stál til byggingarinnar, m.a. hjá stefnanda, Húsasmiðjunni ehf.,  Límtré-Vírneti ehf. og Oostingh Staalbouw Katwijk í Póllandi. Stefnandi bauð í yleiningar og klæðningu í skemmu Eimskips. Í framhaldi af því gerði stefnandi stefnda tilboð í stálgrind skemmunnar. Sendi stefnandi stefnda yfirlýsingu þar sem segir að stefnandi staðfesti eftirfarandi stálverð vegna tilboðs þeirra í efnispakka í frystigeymslur fyrir Eimskip í Hafnarfirði. „Stálverð (málað) 1690 EUR. EX-work í Póllandi. Stálverð (heithúðað) 1750 EUR. EX-work í Póllandi. Flutningur á efni per trukk til Cuxhaven 980 EUR. Innifalið í stálverði er burðarþolshönnun á stálvirki forrýmis og frystigeymslu. VHE kaupir krana sem samið var um á fundi Hýsi-Merkúr hf. við Lambhagaveg 6. Þröstur og Unnar ganga frá samningi á greiðslum varðandi verk þessi. Endanlegur samningur verður gerður eigi seinna en í byrjun febrúar 2015“

                Í tölvupósti sendum frá stefnda til stefnanda 6. janúar 2015 segir að í framhaldi af símtali við Þröst hafi stefndi sent meðfylgjandi gögn og ósk um verð í stálgrindarhús. Miðað við þau viðmiðunarverð sem Þröstur hafi gefið upp deginum áður geti stefndi ekki betur séð en að stefnandi sé samkeppnishæfur eftir að hafa tekið stikkprufu. Um sé að ræða stálgrind, Z- prófíla, báruklæðningu úr stáli og ákeyrsluvörn að innan. Þá er stefnandi spurður hvort þeir séu í aðstöðu til að útvega alla verkþættina eða jafnvel fleiri en þá sem taldir séu upp. Hönnunargögn sem stefndi hafi fengið frá verkkaupa séu meðfylgjandi og megi þar nefna grunnmynd, útlit og snið á AutoCad-formi, álagsforsendur og verklýsingu. Varðandi afhendingartíma þá geri verkáætlunin ráð fyrir að stálreising byrji um mánaðamótin apríl-maí 2015 og afhending til verkkaupa sé í ágúst 2015. Sama dag svaraði stefnandi stefnda í tölvupósti þar sem segir að hann sé að vinna í þessu og þeir séu að tala um að burðarvirkið sé um 350 tonn og spyr hvort stefndi viti hver skiptingin sé á stálinu milli forrýmis og frystiklefa. Í gögnunum sé talað um að forrýmisburðarvirkið eigi að vera heithúðað en frystiklefaburðarvirkið eigi að vera málað.

                Í gögnum málsins er verðtilboð frá stefnanda til stefnda í klæðningarefni og fylgihluti vegna Eimskips. Kemur fram að það sé báruvalsað járn, Pir-samlokueiningar og fylgihlutir. Í greiðsluskilmálum segir að allt verð séu staðgreiðsluverð í íslenskum krónum og án virðisaukaskatts nema annað sé tekið fram. Verðið miðist við sölugengi gjaldmiðla á tilboðsdegi samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands og breytist í samræmi við skráð gengi við uppgjörsdag. Í viðhengi við tilboðið kemur fram að lækkun sé í íslenskum krónum 3.500.000, gengi Evru sé 154,68, fyrra verð 100 mm steinull og með lækkun 100 mm steinull. Var þannig gengið frá málum að Eimskip myndi sjá um flutninga á stálinu til landsins.

                Þann 16. janúar 2015 sendi stefnandi stefnda tölvupóst sem ber efnisheitið „Heiðursmannasamningur milli Hýsi-Merkúr og VHE“. Segir í  póstinum að þar komi þetta aftur eftir leiðréttingar á stafarugli. Þá segir stefnandi að stefndi athugi að endanlegt tilboð sé á þremur síðum, útreikningur á einingaverði 7701 m2 200 mm Pir-eininganna hafi verið breytt til að lækka verðið í Evrum sem samsvari 3.500.000 krónum. Daginn eftir svaraði stefndi stefnanda og sagðist staðfesta þetta samkomulag. Það vanti þó þar inn að ef samið verði við stefnanda um tölvuverið í Reykjanesbæ þá muni þeir einnig taka það.

                Í tölvupósti frá stefnanda til stefnda þann 10. febrúar 2015 kvaðst stefnandi staðfesta eftirfarandi í samræmi við ósk stefnda frá 22. janúar sl.: „Meðfylgjandi er teikning þar sem ég er búinn að merkja inná forrými og frystigeymsla 1 og 2. Forrýmið og frystiklefi 1 og hluti af frystiklefa 2, sá hluti af frystiklefa 2 sem snýr að forrýminu þarf að vera komið í viku 18. Restina þurfum við að fá í viku 22. Það má koma fyrr en ekki seinna.“ Þá segir stefnandi einnig: „Þá staðfestum við að allar þær tæknilegu upplýsingar sem Björn hjá VSB þarf frá okkur verða komnar til hans fyrir lok þessarar viku að undanskildum upplýsingum um boltagrúppur sem koma munu með hönnun sjálfrar stálgreindarinnar. Væntanlega verða þær tilbúnar eigi síðar en miðvikudaginn í næstu viku, 18. febrúar. Við höfum gert samkomulag við verkfræðistofuna IMC í Leipzig í Þýskalandi um allar framleiðslueiningar stálvirkis og verður þeim lokið tímanlega fyrir framleiðanda stálsins Metalbark, en þessi 2 fyrirtæki hafi unnið mikið saman. Afgreiðsla á stálvirkinu fyrir forrýmið og frystiklefa 1 og hluta af frystiklefa 2 verður því komið til landsins viku 18 og afgangurinn í viku 22. Að sjálfsögðu miðast þetta við að ekki verði gerðar neinar þær breytingar á húsinu sem seinkað geta teiknivinnu. ...“

                Þann 16. febrúar 2015 sendi stefnandi stefnda tölvupóst þar sem hann óskaði eftir tveggja til þriggja daga fresti á hönnunarfundi sem þeir hafi ætlað að halda daginn eftir. Segir í póstinum að eftir reiknivinnu síðustu daga hafi þeir ekki verið alveg nógu sannfærðir um að módelið væri að skila þeim nógu réttum kröftum svo að þeir hafi ákveðið að skjóta þessu til verkfræðinganna í Leipzig sem þeir höfðu samið við um að klára dæmið eins og útskýrt hafi verið í tölvupósti 10. sama mánaðar. Stefndi svarar stefnanda sama dag í tölvupósti og lýsir yfir óánægju og áhyggjum sínum með framgang mála við hönnunina. Þetta hafi átt að vera þriðji hönnunarfundurinn með starfsmönnum VSB og þetta sé jafnframt þriðji hönnunarfundurinn sem stefnandi óski frestunar á. Þá bendir stefndi stefnanda á að dagsetningar um afhendingu hönnunargagna muni ekki standast frá stefnanda. Lýsir stefndi yfir áhyggjum vegna seinkana frá stefnanda og kveðst einnig vera undrandi á því að hönnunar- og verkáætlun sem stefndi hafði óskað eftir frá byrjun hafi borist 10. febrúar sl. og viku síðar séu orðnar tafir á henni. Óskar stefndi eftir áreiðanlegri áætlun frá stefnanda. Kvað stefndi þetta þegar vera farið að valda töfum sem verði erfitt að vinna upp þar sem eðli verkefnisins bjóði ekki upp á neinar tafir. Þá séu þessar tafir þá þegar farnar að hafa áhrif á verkið.

                Næst liggur fyrir tölvupóstur frá stefnda til stefnanda 4. mars 2015 þar sem segir að meðfylgjandi sé tölvupóstur með minnisblaði sem stefndi kvaðst hafa sent út 17. febrúar þar sem fram komi ósk þeirra um að skipta afhendingu stálsins í þrennt og flýta einnig afhendingu. Einnig fylgi með teikning sem sýni þetta myndrænt. Þá spyr stefndi hver sé staðan á þessari ósk hans. Sama dag svaraði stefnandi tölvupósti stefnda þar sem hann kveðst ekki kannast við að hafa fengið þetta blað um afhendingu stáls. Spyr stefnandi hvort hann megi senda þetta svona í verksmiðjuna eða hvort einhverjar athugasemdir séu.

                Tölvupóstur þann 5. mars 2015 frá stefnanda til Ólafs Hermannssonar hjá VSÓ liggur fyrir. Upplýsir stefnandi þar að þeir séu búnir að vera í sambandi við Metalbark vegna afgreiðslnanna og nú sé bara beðið eftir teikningunum en stefnanda skiljist að þessi ósk sé ekki útilokuð, en þeir, í samræmi við Gunnar, hafi óskað eftir afgreiðslum í viku 15 á hluta 1, í viku 17 á hluta 2 og viku 19 á hluta 3 með því fororði að hluta 3 mætti alveg seinka til viku 22 að skaðlausu. Það væru hlutar 1 og 2 sem væru áríðandi. Ólafur Hermannsson svarar stefnanda sama dag og kveðst m.a. skynja að boðleiðir væru langar til stálhönnuða og stálframleiðandans. Um stálvirkið kveður hann gott ef menn ná að flýta afhendingu á stálinu. Það sé mikilvægt að framleiðandinn viti nákvæmlega hvað stefnandi vilji fá af stálinu á hverjum tíma. Þeir verði að gera skýran greinarmun gagnvart framleiðandanum og VHE hvort átt sé við afhendingu úr verksmiðju (viku 15, 17 etc) eða afhendingu á verkstað í Hafnarfirði. Þeir eða VHE þurfi líka að gera ráðstafanir í tíma vegna flutnings með Eimskipi.  Þá kannist brunahönnuður við eitt símtal frá Gísla í fyrradag þar sem þeir hafi rætt hvaða upplýsingar brunahönnuðinn vanti vegna brunahönnunar á stálvirkinu. Þá segir í lokin að það þurfi að vera á hreinu að það sé VHE sem ráði ferðinni í hvaða röð stálvirki og samlokueiningar komi á staðinn. Þeir séu ábyrgir gagnvart Eimskip með að skila húsinu á réttum tíma.

                Þann 9. mars 2015 sendi stefnandi stefnda tölvupóst þar sem hann upplýsti stefnda um að það hafi komið hringing frá hönnuðinum í Þýskalandi. Þeir séu stopp þar sem teikningar frá arkitektinum sem hafi átt að berast þeim samdægurs hafi ekki skilað sér. Þeir segist ekkert geta eða munu gera fyrr en teikningarnar berist og munu rukka stefnanda fyrir þennan biðtíma. Það hafi verið umtalsverð aukning í stálinu þar sem þeir aukabitar þurfi að koma vegna brunakrafna, 32 tonn eða svo. Stálvirkið fari því úr 346 tonnum í 378 tonn.  

                Þann 10 mars s.á. sendi stefnandi stefnda tölvupóst með efnislýsingunni „Klæðningin og einingar fyrir Eimskip“. Kvaðst stefndi ítreka enn og aftur að hann sé farinn að hafa verulegar áhyggjur af ákvarðanatöku á magni lit/áferð o.s.frv. með klæðninguna 46/159/900 sérstaklega.

                Sama dag svaraði stefndi ofangreindum tölvupósti og kvaðst ekki kannast við að stefnandi hafi rætt þetta við stefnda og hvað þá „ítrekað“. Segir að Guðbjartur hafi lagt bæklinga á borðið hjá sér með tækniblöðum varðandi klæðningarnar. Á þeim tækniblöðum geti hann ekki séð að þessar plötur uppfylli kröfur útboðsgagna um PVC 200µ þykka húð. Hafi stefndi þá óskað eftir frekari gögnum til að leggja inn til efnissamþykktar. Þann 2. mars hafi stefnandi sent sér tækiblöðin á tölvutæku formi. Á þeim blöðum hafi ekkert verið frekar um þykkt á húðinni og í kjölfarið hafi hann verið í reglulegu sambandi við Gísla sem hafi sagt sér deginum áður að það væri komið til stefnanda. Þá eru nokkrar umræður um frávik frá útboðslýsingu og tegund efnis.

                Daginn eftir eða 11. mars 2015 svaraði stefnandi stefnda í löngu máli um framvindu málsins sem hefur ekki þýðingu að reifa hér.

                Tölvupóstur frá pólska framleiðandanum til Cedrus ehf., dagsettur 22. apríl 2015, liggur fyrir í málinu. Segir þar að heildarþyngd á stáli sé 460 tonn og sundurliðast þannig: „Main building 116t columns + wall braces-málað. 234t trusses + roof braces – málað. 8t parapets = þakkantur – málað. 12t walkways = þjónustubrýr – galv. Lower building 71t complete-galv. Mezzanine =milligólf í forrými 20t- beams, volumns, hangers-galv.“

Framsendi Cedrus þennan tölvupóst til stefnanda sama dag og kvað þar koma upplýsingar um þyngd á stálvirkinu eftir breytingar. Stefnandi svarar sama dag og spyr hvort 350 tonnin sem þeir hafi talað um í upphafi hafi átt að vera 450 tonn eða hvort þetta sé allt eitt bull. Óskaði stefnandi eftir símtali við stefnda eins fljótt og kostur væri. Stefndi svaraði stefnanda sama dag og segist ekki skilja hvað stefnandi sé að fara. 350 tonn hafi átt að vera 350 tonn og ekkert bull. Stefnandi svaraði stefnda sama dag og spyr hvað hafi komið út úr spjalli Gísla og Pjotr. Biður hann Gunnar hjá stefnda að hringja í sig því að þetta verði að leysa áður en lengra sé haldið og allt fari í steik.

Aftur þann 22. apríl 2015 sendi Piotr tölvupóst til Cedrus og kvað eftirfarandi ekki hafa verið innifalið í fyrri tölvupósti: „mezzanine, beams in paratets, small side roof in lower building, additional elements for internal panels, frames for windows and additional gates.“ Segir enn fremur: „truss in lower building were higher -˃ lighter porfiles were used. Beams for freezers and frames for piping- I designed 2xU140 not HEA220 as required by  Frost. So the differnence (460 – 415 = 45t) should cover the mentionesd elements“. Var þessi tölvupóstur sendur stefnanda sem svaraði aftur og kvaðst  bíða eftir símtali og hvað þeir vildu gera eða hvað sé hægt að gera.

Með tölvupósti 5. maí 2015 frá stefnanda til stefnda sendi stefnandi afgreiðsluáætlun. Í afgreiðsluáætluninni segir m.a.: Efni. Stálgrind 1. hluti, hvenær fór/fer pöntun til framleiðanda. 27.4.2015. Afgreiðslutími erlendis í viku 20-21. Í athugasemdum segir að beðið sé eftir staðfestingu frá Metalbark. Stálgrind 2. hluti, pöntun til framleiðanda, fljótlega, lestað í skip í Hamborg og beðið eftir staðfestingu frá Metalbark. Stálgrind 3. hluti, pöntun til framleiðanda fljótlega, verður lestað í skip í Hamborg og beðið eftir staðfestingu frá Metalbark. Þá er tiltekið hvenær aðrar sendingar eiga að berast og hvar þær verði afhentar.

Stefnandi sendi stefnda aftur tölvupóst tæpum klukkutíma síðar og kvað svarthvítan veruleikann líta þannig út, en því miður komi tölvupóstur frá Metalbark ekki fyrir klukkan tíu þann sama dag en hann komi. Stefnandi hafi rætt við starfsmann sem hafi gefið stefnanda eftirfarandi afgreiðslutíma og hafi sagt þá verða staðfesta stuttu síðar. Fyrstu afgreiðslur verði í viku 21 og 22. Hugsanlega klárist ekki að „trukka“ þessu öllu fyrr en í viku 23 þar sem þetta sé mikið magn. Önnur afgreiðsla, þ.e.a.s. lóðréttir bitar undir þakburðarvirki, komi í 23.-24. viku. Áætlaður afgreiðslutími á áfanga 2 eða rest af húsinu verið í 25. viku. Afgreiðslur á öllu frá Metalbark miðist við að þetta sé komið á trukkum til flutningsaðila.

Þann 13. maí 2015 sendi stefndi stefnanda tölvupóst og segir að smíða- og flutningsáætlun stefnanda sé engan veginn í samræmi við það sem rætt hafi verið og ákveðið í heimsókn þeirra Gísla til Póllands. Þar hafi verið farið mjög nákvæmlega yfir það hvað þeir hafi þurft að fá fyrst og útskýrt af hverju. Það hafi verið gert bæði fyrir Piotr og aðaleiganda Metalbark. Farið hafi verið fram á að fá grindina í eftirfarandi röð: 1. Klefa 1, súlur, bita og gitter svo hægt verði að byrja og reisa rammann. 2. forrýmið, súlur, bitar og gitter svo hægt verði að byrja að reisa rammann. 3. Klefi 2, þ.e. súlur, bitar og gitter svo hægt verði að byrja að reisa rammann. Þá segir að samkvæmt planinu sem stefnandi hafi sent deginum áður séu þeir að fá eftirfarandi til landsins: Vika 23- þakvirki, þrjú fleti, 52t. Vika 24- þakvirki, þrjú fleti, 52t og vika 25- bitar, tvö fleti, ca 38t. Vika 25 sé júní hálfnaður og ekki byrjað að reisa nokkuð. Þá spyr stefndi hvenær þeir eigi von á súlum svo að hægt verði að byrja að reisa grindina.

Þann 1. júní 2015 kemur fram í tölvupósti frá stefnanda til stefnda að allur frystiklefi 1 sé mættur.

Næst liggur fyrir tölvupóstur frá stefnanda til stefnda frá 19. júní 2015 þar sem hann segir að 16 gámar af 24 í frysti 2 hafi farið í þessari viku og komi því einhverjir í næstu viku. Þá tíundar stefnandi að skrúfur o.fl. sé í gámunum. Þá segir að afgangurinn af frysti 2 fari frá Joris í næstu viku (8 gámar).

Tölvupóstur frá 3. júlí 2015 frá stefnanda til stefnda liggur fyrir þar sem stefnandi sendir í viðhengi pakklista frá Metalbark fyrir næstu sendingu sem sé væntanleg 6. júlí en það séu trukkar 15-18. Stefnandi svaraði og kvaðst vera með þá pakklista en vanta fyrir trukk 19. Sá pakklisti var sendur stefnda þann sama dag í tölvupósti.

Þann 9. júlí 2015 sendi stefnandi stefnda tölvupóst og sagði frystiklefa 1 hafa verið kominn allan þann 1. júní sl. Bað hann stefnda því að snerta ekki gáma með 200 mm einingum sem hafi komið eftir miðjan júní nema til að taka skrúfurnar og vinklana fyrir purlingana fyrr en þeir byrji á frystiklefa 2. Það virðist sem tollafgreiðslan hafi klúðrast í vikunni áður vegna þess að póstur hafi ekki komist á milli vegna stærðar en því verði kippt í lið sama dag.

Þann 13. júlí sendi stefnandi stefnda tölvupóst ásamt pakklista fyrir trukk 23. Sama dag sendi hann aftur tölvupóst og sagði að trukkur 24 og 23 væru að fara í skipið þann sama dag. Tölvupóstur milli Metalbark, stefnanda og stefnda þann 14. júlí 2015 upplýsir að trukkur 25 komi til Hamborgar þann sama dag.

Næsti tölvupóstur sem liggur fyrir í málinu er frá stefnda til stefnanda þann 22. júlí 2015 þar sem hann segir að hann þurfi nauðsynlega að vita hvar eftirtaldir bitar (súlur) séu staddir og hvenær sé von á þeim til landsins: „RE40, RE41, RE42, RE43, RE44, RE45, RE51“. Þá segir að það séu 3-4 dagar þar til stefndi verði að fá þessa bita til að koma í veg fyrir að vinna við samlokueiningar stoppi. Miðað við pökkunarlistana sem stefndi hafi fengið þá hafi hann ekki séð þessi númer. Kveðst stefndi þurfa svör við þessu strax, því sé þessi vara ekki á leiðinni þá verði hann að athuga hvort það efni sé til í landinu og láta smíða það sjálfur. Stefnandi sendir til Metalbark fyrirspurn stuttu síðar og spyr hvar umræddar vörur hafi verið afhentar. Metalbark svarar tölvupósti stefnanda samdægurs og kveðst setja umrædda vöru daginn eftir á flutningabíl sem verði í Hamborg mánudaginn 27. júlí 2015. Stefnandi framsendir þau svör til stefnda samdægurs. Nokkrum mínútum síðar svarar stefndi stefnanda og kveðst neyðast til að láta smíða þessa fjóra bita nú. Miðað við svarið frá Metalbark fari trukkurinn til Hamborgar 27. júlí og fari í skip 3. ágúst og þá verði efnið komið til stefnda 10. ágúst 2015. Kvaðst stefndi vera orðlaus því að þegar hann og Gísli hafi farið út síðast hafi þeim verið tjáð að allur klefinn væri tilbúinn en framleiðendur farið undan í flæmingi en svarað í lokin að þetta væri það síðasta sem færi í skip í næstu viku.

Í tölvupósti 31. júlí 2015 milli stefnanda og stefnda segir í efnislýsingu: „Pakklisti trukkur 31 í hamborg í dag.“ Í tölvupósti 10. ágúst 2015 frá stefnanda til stefnda segir í efnislýsingu: „Réttur pakklisti trukkur 31, tollað á eftir.“ Í tölvupósti 12. ágúst 2015 frá stefnanda til stefnda segir í efnislýsingu: „Joris gámur, pakklistar með skýringum.“

                Í tölvupósti frá stefnanda til söluaðila í Póllandi þann 10. ágúst 2015 segist stefnandi ekki finna sendingu F27 og F36 og óskar eftir upplýsingum um afhendingu þeirra. Sama dag er stefnanda svarað þar sem segir að sendingarnar hafi farið frá þeim og í öðrum pósti segir að vörurnar hafi farið á trukk 29. Þessum upplýsingum var komið til stefnda með tölvupósti 11. ágúst s.á. og segir stefnandi að það sé of seint að framleiða stykkin í Póllandi aftur og því þurfi að framleiða þessi stykki á Íslandi.

                Tölvupóstur frá söluaðila í Póllandi 11. ágúst 2015 til stefnanda liggur fyrir þar sem kemur fram að búið sé að ferma trukk 29 og vörurnar hafi farið þar með. Í tölvupósti sama dag frá stefnda til stefnanda segir að á pökkunarlista fyrir trukk 29 sé margt komið en ekki plötur merktar F27 og F36. Þeir neyðist því til að láta smíða þær plötur og skráist það á kostnað stefnanda. Stefnandi svarar þessu og spyr hvort það sé þannig að ef stefndi týni einhverju þá sé þeim kostnaði komið yfir á stefnanda. Stefndi svarar sama dag og kveðst fyrst þurfa að fá efnið afhent áður en hann geti týnt því. Stefnandi svarar því til að hingað til hafi ekki vantað neitt frá Metalbark og miðað við fyrri póst frá stefnda þá hafi þeir ekki leitað af sér allan grun.

                Næst liggur fyrir tölvupóstur frá 11. ágúst 2015 frá stefnda til stefnanda og spyr stefndi hvernig stefnandi geti sagt að fram til þessa hafi ekki vantað neitt frá Metalbark,  þá hafi vantað stál frá þeim allt sumarið. Hringlandahátturinn hafi þar að auk verið svo mikill að erfitt hafi verið að fylgjast með hvað sé að koma á hvað fleti. Lítið hafi verið að marka þessa svokölluðu pökkunarlista enda jafnvel tveir mismunandi pakklistar gefnir út fyrir hvert fleti. Stefnandi svaraði þeim tölvupósti samdægurs og kvað það einu sinni hafa gerst að það hafi komið tveir pakklistar fyrir sömu sendinguna en það hafi komið skýringar á því. Þá kvartar stefnandi yfir vinnulagi stefnda. Kvaðst stefnandi selja þeim „ex works“ og það sé stefnda að gæta að því hvað komi til þeirra og það sé á ábyrgð þeirra og Eimskips að sjá um flutninginn. Vörurnar komi í nafni stefnanda eingöngu vegna tollskýrslnanna. Séu umræddir plattar ekki í sendingunni verði bara að redda því og gera það upp síðar. Stefndi svarar stefnanda sama dag og kvaðst ætla að hnykkja á nokkrum atriðum. Stefndi kvaðst hafa skoðað pakklista frá söluaðila en það hafi stefnandi ekki gert. Þá kvað stefndi ekkert „ástand vera að koma upp trekk í trekk“. Kvað hann það ástand hafa varað allan tímann. Kvað stefndi einnig að það væri á ábyrgð stefnanda að það efni sem stefndi keypti af stefnanda bærist stefnda. Ef eitthvað vanti upp á sé það stefnanda að leysa það. Þá sé það á ábyrgð seljanda, þótt varan sé seld „ex works“, að sjá til þess að ekki vanti neitt efni í sendingarnar. Stefndi svarar þessum tölvupósti 27. ágúst og segist senda stefnanda ljósmynd af bretti sem innihélt rauða platta sem þá hafi vantað 10. ágúst sl. Stefnandi hafi átt að vera með meiri yfirlýsingar um að þetta væri komið til landsins og að stefndi hafi týnt vörunni. Staðreyndin sé að varan hafi komið til landsins 18. ágúst 2015 og afhent stefnanda 20. ágúst og komið fyrir á verkstað án þess að láta nokkurn hjá stefnda vita. Stefnandi hefði getað sparað sér sporin því að það hafi verið búið að smíða og skrúfa þetta saman áður en stefnandi hafi komið efninu á verkstað.

                Þann 13. ágúst 2015 óskaði stefndi eftir pökkunarlista frá stefnanda í tölvupósti fyrir efni sem átti að koma með skipi eftir þá helgi. Stefnandi svarar því samdægurs og kvaðst senda pakklista fyrir trukk 32 og 33 sem komi eftir helgina. Einnig fyrir trukk 34 sem væri kominn til Hamborgar og kæmi til Íslands 24. ágúst. Þá væri bara eftir trukkur 35 sem stefnanda skildist að væri farinn frá Metalbark en stefnandi myndi senda stefnda þann pakklista um leið og hann bærist. Þá spyr stefnandi stefnda í sama tölvupósti hvort plattarnir hafi fundist eða hvort stefndi hafi þurft að láta smíða þá.

                Þann 17. ágúst 2015 sendi stefnandi stefnda tölvupóst þar sem segir að það sé síðasta stálið frá Metalbark, trukkur 35. Segir stefnandi að það sé áríðandi að stefndi fari yfir meðfylgjandi pakklista og gangi úr skugga um að ekkert vanti miðað við kokkabækur stefnda og láti vita strax ef þeir telji að svo sé.

                Þann 17. september 2015 sendi söluaðili Metalbark stefnanda tölvupóst og kvaðst framleiða P7, 2 stk., P8, 1 stykki og P16, fjögur stykki. Áframsendi stefnandi þær upplýsingar til stefnda með þeim orðum að Metalbark hafi verið að senda sér fyrirspurn og hvort þeir eigi að segja fyrirspyrjanda að þeir hafi engan tíma til að framleiða þetta, ef varan liggi ekki hjá einhverjum öðrum viðskiptavini í reiðuleysi, þá verði þeir að búa þetta til hér á landi. Sama dag svaraði stefndi stefnanda og kvaðst ekki hafa tíma til að bíða eftir því að þeir framleiddu þessa vöru og sendi þeim, þeir þyrftu á þessu að halda strax eða þann sama dag. Stefnandi svaraði stefnda sama dag þannig: „Takk. Annað sem vantar, verður það einnig framleitt hérlendis?“ Stefndi svaraði stefnanda sama dag og kvað mikið álag á mannskapnum núna og af þeim sökum hafi þeir ekki haft tök á að finna númerin á þeim bitum sem einnig vanti. Hann geri ráð fyrir að þetta verði smíðað hér nema að þeir sjái hvaða númer þetta séu þá fljótlega og komi þeim til stefnanda.    

                Minnispunktar af fundum stefnanda og stefnda 24. september og 7. október 2015 liggja fyrir. Í punktum frá stefnda segir m.a.: Í upphafi gaf VE ehf. upp áætlaðan tonnafjölda í húsið ca 350 tonn. Hýsi lét hanna meira og taldi tonnafjölda ca 370-380 tonn. Hýsi búið að senda inn reikninga vegna 550 tonna. Vantar skýringar á umfram tonna fjöldanum ca 150-170 tonn. Líklegt að hægt sé að rukka Eimskip um eitthvað af umfram tonnunum vegna aukaverka. Finna þarf út þann tonnafjölda sem er í byggingunni og hvað er fyrir utan. Dæmi: Það komu 17 rangir bitar sem passa ekki í húsið. VHE ehf. búið að borga 263 milljónir, vitað að VHE ehf. á að borga meira en þarf að finna út nákvæmlega hver raunveruleg staða er. Af hálfu stefnanda voru eftirfarandi atriði m.a. nefnd: Hýsir gerði VHE ehf. tilboð en ekki Eimskipi. Finnst skrítið að umræða um aukaverk hafi ekki komið upp fyrr en á fundi 18. ágúst sl. Í fundargerð frá 7. október 2015 segir að komnar séu upplýsingar um aukaverk fyrir ca 50 tonn. Enn vanti upplýsingar um ca. 100 tonn.

Þann 11. nóvember 2015 sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf og krafði hann um ógreidda reikninga að fjárhæð 88.479.851 króna auk vaxta.

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á almennum reglum kröfuréttar og samningaréttar auk þess að vísa til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Krafan byggist á útgefnum reikningum sem ekki hafi sætt andmælum en reikningarnir séu fyrir efnissölu sem afhent hafi verið á verkstað að Óseyrarbraut 22 í Hafnarfirði samkvæmt samningi við stefnda. Engar upplýsingar hafi borist um að efnið hafi verið gallað eða með öðrum hætti ónothæft. Kveður stefnandi að stefndi hafi með óformlegum hætti borið því við að magnaukning hafi orðið í verkinu og það sé orsök greiðsludráttar og vanskila. Hafnar stefnandi því að það magn af stáli sem fór í verkið sé á hans áhættu. Stefnandi hafi gert stefnda tilboð um einingaverð en greiðsla eininga fari svo eftir þyngd, einingafjölda, fermetrum eða lengdarmetrum. Stefnandi hafi samið um að afhenda það magn af efni sem þyrfti í framkvæmdina samkvæmt útboðsgögnum en með þeim hafi fylgt útboðsteikningar og hafi framkvæmdin ekki verið fullhönnuð þegar aðilar gerðu með sér efnissamning og hafi þau gögn sem lágu til grundvallar langt í frá verið endanleg. Aðilar hafi ekki í byrjun vitað nákvæmlega hversu mikið magn færi í húsið en verkið hafi aukist að magni frá því sem útboðsgögn segi til um. Beri þar helst að nefna að upprunalegt milligólf hafi stækkað verulega sem og hafi nýju milligólfi verið bætt við, innkeyrsluleiðum inn í frystiklefa breytt o.s.frv. Stefnandi hafi einfaldlega tekið að sér að afhenda það efni sem þurfti samkvæmt samningum við stefnda. Þá liggur fyrir það magn efnis sem stefnandi hafi afhent stefnda. Stefndi hafi hins vegar ekki greitt fyrir um fjórðung efnisins. Afhendingarseðlar séu til en þeir nemi vel á annað hundrað í blaðsíðum en hingað til hafi það ekki sætt andmælum hvaða efni hafi verið afhent. Stefnandi kvaðst ekki geta verið ábyrgur vegna annarra tilboða sem stefnda hafi borist. Stefnandi hafi gert tilboð og það skipti máli. Stefnandi hafi ekki fengið upplýsingar um önnur tilboð áður en hann gerði sitt tilboð.  Kvað stefnandi að ef hann hafi ætlað að bjóða í ákveðinn tonnafjölda hefði það verið tekið fram í tilboði hans. Stefnanda hafi aldrei verið gerð grein fyrir því af hálfu stefnda að ef magnið færi yfir ákveðinn tonnafjölda þá ætti stefnandi að vera ábyrgur fyrir því. Þá kvað stefnandi að innifalið í stálverði frá stefnanda væri að hann legði til hönnuð í burðarþol stálsins. Sé það eðlilegur framgangur við sölu á stáli í byggingar sem þessar að aðili á vegum efnissala reikni út burðarþolið og sjái þannig um hönnun stálvirkisins.

Einu andmæli stefnda hafi borist 26. nóvember 2015. Þar sé því haldið fram að í tilboði stefnanda komi fram að um 350 tonn séu áætluð í verkefnið. Þessi fullyrðing stefnda sé einfaldlega röng. Þá sé einnig villandi framsetning í þessu svarbréfi stefnda að einhverjar tímasetningar hafi verið ákveðnar gagnvart stefnanda. Jafnvel þó svo að einhverjar tímasetningar teldust skuldbindandi gagnvart stefnanda þá hafi í fyrsta lagi ekkert verið upplýst um að hann hafi ekki staðið við þær tímasetningar og í öðru lagi þá liggi ekkert fyrir um að afhending efnis af hálfu stefnanda hafi með nokkru móti tafið verkframkvæmd stefnda. Stefndi hafi aldrei gert athugasemdir við þær upplýsingar eða hönnun sem borist hafi frá stálhönnuðinum. Hvorki er varði magnáætlanir, burðarþol né annað. Þá sé staðfest í gögnum að frystiklefi eitt hafi verið kominn 1. júní og sé því mótmælt að stefndi hafi orðið fyrir tjóni vegna seinkunar á því að hann hafi ekki komið í einu lagi. Engin gögn hafi verið lögð fram um að framleiðandinn hafi fengið plan frá stefnda og í hvaða röð stálið hafi átt að koma og ekkert lagt fram um það. Því sé engin leið að átta sig á því hvort það hafi valdið töfum. Þá hafi stefndi ekki haldið neitt yfirlit yfir það efni sem kom á staðinn þegar hann tók á móti því en í desember hafi stefndi verið að spyrjast fyrir um efni sem hafi komið í ágúst en megnið af efninu hafi verið komið í ágúst. Þá hafi stálhönnuður ítrekað þurft að gera breytingar vegna breytinga frá íslenska hönnuðinum sem hafi verið á vegum Eimskips.

Stefnandi mótmælir kröfum stefnda um skaðabætur. Stefnandi hafi ekki verið aðili að samningi stefnda og Eimskips og hafi ekki átt neina aðild að þeim samningum. Þá sé ekki gerð grein fyrir kröfunni í greinargerð stefnda og sú krafa því of seint fram komin. Efni í frystiklefa eitt hafi verið komið í júní 2015 og hafi stefndi ætlað að reisa frystiklefann frá 1. júní fram í ágúst eða á tveimur mánuðum. Afhending efnisins hafi því engin áhrif haft á smíði frystiklefans og ósannað að tafir þar séu af völdum stefnanda.

Stefnandi mótmælir kröfum stefnda um skaðabætur vegna nauðsynlegrar yfirvinnu vegna afhendingardráttar, skaðabætur vegna umfram hönnunar, skaðabætur vegna missis verktakaálags og um  lækkun vegna kreditfærslu frá Eimskipi til stefnanda vegna flutningskostnaðar sem of seint fram komnum en þær hafi ekki verið tilgreindar í greinargerð stefnda. Kveður stefnandi umkrafðar kröfur allar ósannaðar og engin gögn sem sýni fram á þær.

Vaxtakröfu sína byggir stefnandi á breyttri kröfugerð. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við reikningana og greiðsludráttur sé á ábyrgð stefnda. Því beri honum að greiða dráttarvexti eins og krafið sé um.

Stefnandi byggir á 45. gr. laga nr. 50/2000 enda einingaverð umsamið. Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir því að stefnandi hafi ekki afhent það magn sem greinir á reikningum hans. Þá vísar stefnandi til 47. gr. sömu laga um að kaupanda beri að segja til innan sanngjarns tíma ef hann samþykkir ekki verðið. Einnig vísar stefnandi til 49. gr. sömu laga um greiðslu kaupverðs. Stefnandi byggir því á þeirri málsástæðu að jafnvel þótt stefndi kunni að koma fram með einhverjar mótbárur við reikningi þá séu þær of seint fram komnar.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi komið fram gagnvart sér bæði sem efnissali og undirverktaki. Hann hafi séð um að selja stefnda efni í verkið og jafnframt hafi hann lagt til hönnuð í burðarþol stálsins. Stefnandi hafi fengið í hendur öll útboðsgögn og gert stefnda tilboð sitt á grundvelli þeirra gagna. Stefndi hafi notað umrætt tilboð stefnanda sem hluta af sínu tilboði til Eimskips hf. Telur stefndi að stefnandi hafi orðið bundinn sem undirverktaki af skilmálum ÍST 30:2012, sbr. ákvæði 3.2.4 og grein 0.2.4 í útboðsgögnum. Telur stefndi að þótt ekki hafi komist á beint samningssamband milli undirverktaka og verkkaupa sé undirverktaki engu að síður bundinn við þá skilmála útboðsgagna sem snúi beint að hans verkþætti og hann hafi notað við gerð tilboðs síns. Það er því fráleit fullyrðing stefnanda í stefnu að honum sé annars vegar ókunnugt um efni samnings stefnda við Eimskip hf. eða að sá samningur sé honum með öllu óviðkomandi. Stefnandi sé sérfræðingur í hönnun stálvirkis og útreikningum á burðarþoli. Það sé því í hans höndum að reikna út hversu mikið magn af stáli þurfi í byggingar sem þessar. Stefndi hafi treyst á þekkingu stefnanda á þessu sviði og því hafi hann óskað eftir því að fá stefnanda til verksins. Stefnandi hafi komið seint að verkinu og hann því verið inntur eftir því hvort hann gæti boðið í verkið á sömu nótum og aðrir og hafi stefnandi svarað því til að ef aðrir gætu það þá gæti hann það líka. Það hafi hins vegar komið í ljós á verktímanum að stefnandi hafi ekki getað staðið við tilboð sitt og það sé á ábyrgð stefnanda sjálfs.

 Stefndi byggir á því að í nokkrum tölvubréfum milli aðila komi fram að stefnandi hafi boðið 346 tonn í stálvirkið þegar tilboðið var gert. Bendir stefndi á að það sé rétt að geta þess að leitað hafi verið tilboða annars vegar í stálgrindina eins og hönnunargögn útboðslýsingar hafi gert ráð fyrir og hins vegar hafi verið leitað tilboða í einingaverð þar sem fyrir lá að hönnun var ekki að fullu lokið og því gæti tonnafjöldinn átt eftir að breytast til samræmis við óskir Eimskips hf. um breytingar og viðbætur. Stefndi byggir á því að sannað sé að stefnandi hafi greint stefnda frá því að heildartonnafjöldi í stálvirkið færi úr 346 tonnum í 378 tonn vegna brunakrafna. Stefndi kveðst ekki gera athugasemdir við auka- og viðbótarverk og eigi að standa skil á samtals 431 tonni að því gefnu að Eimskip hf. samþykki 53 tonn af þeim sem viðbót. Telur stefndi að geti stefnandi ekki rökstutt greiðsluskyldu verkkaupa, Eimskips hf., þá geti hann ekki velt þeirri greiðsluskyldu yfir á stefnda þessa máls vegna tonnafjölda sem ekki hafi verið samið um og sé með öllu óskilgreindur og ekki sé vitað hvar liggur.

                Stefnandi byggir á því að í útboðsgögnum frá Eimskipi hf., sem stefnandi hafi fengið send, hafi allir tímafrestir komið fram með skýrum hætti og að aðalverktaki gæti þurft að sæta dagsektum ef ekki yrði staðið við tímafesti. Stefnanda hafi verið vel kunnugt um ákvæðið um dagsektir. Stefnandi hafi verið margkrafinn um áætlanir um afhendingu sem hafi brugðist jafnharðan og hann setti þær fram. Stefndi byggir á því að margítrekað hafi hann kvartað við stefnanda um að tímasetningar standist ekki og vísar til tölvupóstssamskipta því til staðfestu. Stefndi telur hafið yfir vafa að stefnanda hafi borið að afhenda stál og annað efni í samræmi við ákvæði útboðsgagna. Að hann hafi bæði vitað um tímafresti og verið meðvitaður um mikilvægi þeirra. Hann hafi sjálfur gefið upp nýja og nýja viðmiðunartíma sem hann hafi ekki getað staðið við. Stefnandi er sérfræðingur á þessu sviði og auglýsi á heimasíðu sinni að rétt vara sé afhent á réttum tíma í samræmi við væntingar kaupanda. Ekkert af þessu hafi staðist. Af þessum ástæðum standi stefndi frammi fyrir kröfu um greiðslu dagsekta. Eimskip hf. hefur þegar boðað að það muni krefja stefnda um greiðslu á 66.000.000 króna og að sú tala sé hækkandi. Telur stefndi að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnanda jafnháa ofangreindri fjárhæð, sem eftirlitsaðili verksins telji að megi að öllu leyti rekja til vandamála við hönnun á vegum stefnanda og allt of síðbúinna skila á hinu umsamda stáli.

Stefndi byggir á því að hluti reikninga stefnanda sé tilhæfulaus og að stefnda beri ekki að greiða fyrir meira en 431 tonn. Stefnandi hafi hins vegar gert stefnda reikninga fyrir um 550 tonn. Þar til viðbótar liggi fyrir að stefndi telji að sumir reikningar séu með rangri gengisviðmiðun og að leiðrétta eigi eftir rangt einingaverð þar sem það eigi við. Að auki hafi komið fram á fundum að sumir reikningar séu óskýrir og óskað hafi verið eftir skýringum sem ekki hafi borist. Í greinargerð kveður stefndi að það eigi einnig eftir að taka saman kostnað vegna smíði stefnda á bitum sem hafi vantað í sendingar frá birgi stefnanda. Vísar stefndi til 27. gr. laga nr. 50/2000 um rétt sinn til  skaðabóta sem nemi fjárhæð jafnhárri þeim dagsektum sem hann hafi verið krafinn um fyrir að minnsta kosti 66.000.000 króna. Stefndi telur að þar sem stefnandi krefjist greiðslu fyrir mun meira magn af stáli en honum sé heimilt skv. samningi aðila telji hann að skaðabótakrafa sín sé hærri en mögulegar eftirstöðvar kaupverðs og því sé honum heimilt að halda eftir öllum eftirstöðvum kaupverðs til tryggingar skaðabótakröfunni skv. 42. gr. l. nr. 50/2000.

Stefndi byggir á því að greiðsla á hverjum reikningi fyrir sig hafi verið innáborganir. Reikningar sem gefnir hafi verið út í upphafi hafi verið mjög ófullkomnir með röngu gengisvirði og röngu einingaverði. Það hafi átt að gera verkið upp í lokin.

                Kvað stefndi að krafan vegna greiðslu fyrir yfirvinnustundir sé þannig fundin: Áætluð dagvinna 7.900 klst. x 6498 krónur = 51.748.772. Raundagvinna hafi verið 5178 klst. sem gerir 33.646.644 krónur. Raunnæturvinna og raundagvinna sé 61.697.164 krónur. Ef allt hefði verið dagvinna hefði það orðið 51.748.772 krónur. Gerð sé því krafa um umframkostnað sem stefndi hafi orðið fyrir vegna dráttar af hálfu stefnanda. Aldrei hafi verið hægt að setja á næturvaktir þar sem stál hafi vantað til að klára verkið eins og stóð til að gera. Tímaskýrslur séu lagðar fram. Þá hafi orðið kostnaður vegna VSB. Fara hafi þurft í aukavinnu vegna nýrra krafna stálsala, 562.790 krónur. Stefndi hafi gert kröfu um 15% verktakaálag að fjárhæð 3.196.564 en hann falli frá þeirri kröfu utan verktakaálags sem sé krafist ofan á  2.577.874 krónur sem sé 386.681 króna. Stefnandi hafi samþykkt þessa fjárhæð í breyttri kröfugerð sinni. Stefnufjárhæðin eigi að lækka um þá fjárhæð þar sem stefnandi hafi samþykkt þá liði.

                Þá byggir stefndi á því að þær tafabætur sem hann hafi þurft að greiða séu tilkomnar vegna seinni afhendingar stálsins. Hönnunarstjóri telji eðlilegt að framlengja skil á verkinu um 15 daga vegna breytinga á auka- og viðbótarverkum. Meginástæða fyrir verktöfum sé hönnun og afhending stálvirkis sem ekki hafi gengið skv. áætlun. Samkomulag hafi orðið undir rekstri málsins á milli stefnda og Eimskips um að stefndi greiddi Eimskipi 19.000.000 króna í tafabætur og geri stefndi kröfu um skaðabætur fyrri sömu fjárhæð á hendur stefnanda. Þá beri að lækka kröfu stefnanda um 12.336.006 krónur vegna yfirvinnu. Einnig um 697.860 krónur sem sé skaðabótakrafa til skuldajöfnunar skv. 27. gr. laga vegna breyttrar hönnunar. Þá beri að lækka kröfu stefnanda um 1.050.000 krónur en það sé lækkun sem þessu nemi frá Eimskipi en það sé reikningur upp á rúmlega 34 milljónir og sé nr. 6143 vegna flutningskostnaðar. Í vitnaskýrslum hafi verið útskýrt að verið var að bakfæra þessa fjárhæð. Því hafi verið um að ræða lækkun á þeirri kröfu frá  Hýsi. Ef stefndi hefði greitt þennan reikning að fullu þá stæði eftir að stefnandi hefði fengið afsláttinn. Kröfur um skaðabætur næmu því hærri fjárhæð en stefnufjárhæðin.

                Stefndi telur að hann þurfi ekki að greiða dráttarvexti frá útgáfu reikninga heldur frá dómsuppsögu. Reikningarnir séu rangir, stefnandi hafi sjálfur leiðrétt kröfugerð sína og hafi dómskjöl þess efnis verið lögð fram í mars þar sem gerð hafi verið grein fyrir leiðréttingu. Þá sé krafið um dráttarvexti af reikningi sem hafi verið bakfærður af stefnanda og nýr reikningur verið gefinn út í október 2015. Stefnandi byggir á því að munnlegur samningur hafi verið gerður milli aðila og við þá beri að standa.   

                Stefndi mótmælir því að tómlæti sem stefnandi byggi á eigi við í þessu máli. Menn hafi verið að reyna sættir og að leysa ágreining frá því í september og október sl.

Skýrslur fyrir dómi.

Þröstur Lýðsson, forsvarsmaður stefnanda, gaf skýrslu fyrir dóminum og kvað aðdraganda að samningi aðila hafa verið að seint á árinu 2014 hafi Eimskip farið í alútboð á frystigeymslu. Stefnandi hafði áður selt Eimskipi yleiningar í frystigeymslur fyrir Eimskip svo þeir hafi talið sig standa vel að vígi og boðið í yleiningar og klæðningar og þess háttar. Þó nokkrir hafi boðið í verkið en stefndi hafi síðan fengið verkið. Miklar breytingar hafi orðið í byrjun en stefnandi hafi farið á fund með stefnda í byrjun janúar 2015 með skjal með sér þar sem magn og verð frá verksmiðju kæmu fram. Kvað stefnandi mestu skipta í svona stóru verkefni hvað varan kosti komin til landsins. Á þessum fundi hafi stefnandi útskýrt fyrir stefnda hvernig kaupin og verðið komi út. Hafi stefndi átt að geta reiknað kostnað út nákvæmlega miðað við magn og kostnaðarverð. Stefnandi kvað þann fund hafa verið um 12. til 14. janúar 2015. Á þessum tíma hafi eingöngu verið rætt um yleiningar og klæðningu en stál í burðargrind hafi ekki verið komið í umræðuna. Líklega hafi tilboðið sem liggi fyrir, dagsett 15. janúar 2015, verið gert í beinu framhaldi af fundi þeirra 12. til 14. janúar. Lýsti stefnandi því hvernig tilboðið í yleiningarnar og klæðninguna hafi breyst í meðförum. Allir reikningar hafi verið gerðir eftir upphaflegum tillögum sem hafi verið gerðar á fundi í janúar 2015. Þá hafi orðið breytingar á áferð klæðningarinnar, skrúfum og fleira. Kvað vitnið skrúfur og bolta sem hafi fylgt stálgrindinni ekki hafa verið reiknisfærðir því að það hafi verið inni í tilboðinu í stálið.

                Stefnandi kvað upphaflega eingöngu hafa verið gert tilboð í yleiningar og klæðningu. Í framhaldi hafi viðskiptaaðilar stefnanda í Þýskalandi endilega viljað gera tilboð í stálgrindina líka. Í þeim tilgangi hafi verið haft samband við viðskiptaaðila þeirra í Póllandi sem hafi gefið þeim hugmynd um verð. Hafi stefnandi í framhaldi gert tilboð í tonnaverð í stálið og það verið sent til stefnda 15. janúar 2015. Það tilboð hafi verið samþykkt. Stefndi hafi upplýst stefnanda um að magnið væri 350 tonn. Stefnandi hafi ekki reiknað út magnið af stáli sem þurfti í húsið, það hafi stefndi gert. Hafi stefnandi eingöngu boðið verð í tonnið en ekki magnið enda hafi stefndi spurt stefnanda hvort þeir gætu gert tilboð í tonnaverð. Stálefnið hafi komið frá Metalbark í Póllandi. Aðspurður hvort stefnandi hafi miðað sín samskipti við Metalbark við 350 tonn, hvað stefnandi það vera rétt. Stefnandi sagði að í ljós hafi komið að frystigeymslan hafi langt í frá því verið fullhönnuð á þeim tíma. Síðustu teikningar frá arkitekti á vegum Eimskips til verkfræðistofunnar sem hafi síðan teiknað stálgrindina og sent stálframleiðandanum, sem svo smíðar samkvæmt þeim teikningum, hafi farið frá hönnuði hússins, þ.e. hönnuði Eimskips, um miðjan mars til verkfræðistofunnar. Sökum þess dráttar sem hafði verið á teikningum hafi sú verkfræðistofa sem stefnandi hafði samið við í upphafi sagt sig frá verkinu. Ferlið sé þannig að arkitektar á vegum Eimskips hanni húsið, þ.e. burðarvirkið. Þegar því sé lokið séu teikningarnar sendar til þess sem teikni burðarvirkið sem sendir þær teikningar til þess sem framleiði stálið. Þjóðverjarnir hafi gert tímaáætlun vegna framleiðslunnar en vegna seinkunar á skilum á teikningum frá Eimskipi hafi þeir ekki getað staðið við fyrri áætlun en þá hafi verið komin seinkun upp á tvo mánuði. Þeir hafi því sagt sig frá verkefninu. Í framhaldi hafi stefnandi fundið pólskan stálgrindarhönnuð í verkið og 20. mars hafi samningar verið gerðir við hann. Þann 24. mars hafi Gunnar Valdimarsson, starfsmaður stefnda og stjórnandi verksins, og íslenskur hönnuður á vegum stefnanda, Gísli Rafn, farið til Póllands, heimsótt stálgrindarhönnuðinn og fundað með honum um það hvernig verkið ætti að ganga fyrir sig og síðan farið í verksmiðjuna og farið yfir það hvenær stefndi þyrfti að fá stálið afhent. Fundur hafi verið með Ólafi, hönnuði á vegum Eimskips, 13. mars. Hafi þar komið fram að þýska verksmiðjan hafi sagt sig frá verkinu og því þyrfti að finna annan stálframleiðanda. Í apríl hafi stefnandi verið farinn að ýta á eftir því hvernig teiknivinna gengi hjá pólsku teiknistofunni og þá hafi komið í ljós að húsið væri komið upp í 450 tonn og þá væri allt stálið í forrýmið eftir. Stefnandi hafi um hæl sent stefnda tölvupóst og spurt hvað væri í gangi, stefnanda hafi verið tjáð að húsið væri 350 tonn en nú væri magnið komið upp í 450 tonn og hellingur eftir. Stefndi hafi svarað því að húsið ætti að vera 350 tonn og hafi stefnandi kallað eftir fundi. Á fundinum hafi stefnandi rætt þessa magnaukningu og hafi stefndi spurt stefnanda hvort hann væri hræddur um að hann fengi ekki borgað fyrir stálið sem færi í húsið. Hvað stefnandi þessa aukningu hafa komið sér á óvart. Ákveðið hafi verið að flýta verkinu eins hratt og kostur hafi verið. Hönnunartími hússins hafði dregist um tvo mánuði auk þess sem verksmiðjan hafi þurft að framleiða stál í hús sem upphaflega hafi átt að vera 350 tonn en væri allt í einu komið upp í 450 tonn og hafi þeir þurft að bæta því inn í framleiðslulínu sína. Afgreiðslutíminn hjá verksmiðunni hafi því lengst frá því sem í upphafi hafi verið samið um.

                Aðspurður um ágreining um magnið, þegar gera átti verkið upp milli aðila, kvað stefnandi þetta verk vera langstærsta verk stefnanda sem farið hafi verið í eftir bankahrunið þar sem ekki hafi verið opnuð bankaábyrgð fyrir greiðslum. Þegar í ljós hafi komið að húsið var miklu meira og stærra en þeim hefði verið sagt, hafi ekkert annað verið í stöðunni en að klára verkið eins fljótt og vel og kostur var. Aldrei hafi komið athugasemd frá stefnda um magnið sem hafi farið í húsið. Stefndi hafi að vísu sent stefnanda tölvupóst þar sem þeir kváðu nýtingu á stálinu vera góða. Þann 20. sept. hafi starfsmaður stefnda, Unnar, hringt í sig og tjáð sér að búið væri að loka öllum viðskiptareikningum hjá stefnda við birgja og hafi hann tjáð stefnanda að þeir myndu ekki geta greitt stefnanda meira. Í framhaldi hafi verið fundur með starfsmönnum stefnda, 24. september, og þar hafi stefnanda verið tjáð að það væri á ábyrgð hans að reikna út allt það magn sem hefði átt að fara í húsið þar sem stefnandi hafi verið ábyrgur fyrir stálgrindarhönnuninni. Stefnandi hafi strax farið í að reikna út í hverju aukamagnið hafi verið og hafi menn þá fundið út hvaða magn hafi farið í aukaverk. Stefndi hafi þrátt fyrir það neitað að greiða eftirstöðvar. Þegar stefndi hafi fengið greitt frá Eimskipi, sem hafi verið krafa stefnda áður en þeir greiddu stefnanda, neitaði stefndi aftur að greiða stefnanda fyrr en þeir væru búnir að fá á hreint hvaða tafabætur þeir þyrftu að greiða Eimskipi. Í ljós hafi komið að stefndi fengi í tafabætur 19.000.000 króna og hafi stefnandi talið að stefndi myndi þá draga það frá ógreiddum reikningum en það hafi stefndi ekki gert heldur neitað að greiða frekar. Stefnandi kvað að í apríl hafi verið orðið ljóst að húsið varð miklu stærra en 350 tonn eins og stefnanda hafi verið tjáð í upphafi af stefnda. Reyndar hafi stefnandi frétt utan að sér að stefndi hafi fengið tilboð frá fleiri aðilum í húsið, annað sem hljóðaði upp á 550 tonn og hitt upp á 700 tonn. Stefnandi kvað starfsmenn stefnda hafa sagt sér á fundi að stefndi gæti vel skrifað upp á að húsið yrði 420 til 450 tonn en það sé komið upp í 550 tonn. Hafi stefndi sagt stefnanda að hann yrði sjálfur að finna út úr þessu. Stefnandi hafi lagt til við stefnda að þeir greiddu 50.000.000 króna og þeir deildu svo um mismuninn en stefndi hafi þá þegar nýtt sér virðisaukaskatt á útgefnum ógreiddum reikningum stefnanda sem innskatt. Þegar komið hafi verið fram í mars hafi stefndi ekki verið farinn að panta neitt af yleiningum. Kvað stefnandi að áður en stálgrindin færi upp þyrftu yleiningarnar í frystigeymsluna að vera komnar upp. Hafi verið um 47 gáma að ræða. Seljandinn hafi viljað afhenda þær í janúar en þá var afgreiðslutíminn að öllu jöfnu tvær til þrjár vikur. Þegar leið á vorið hafi afgreiðslutíminn lengst í sjö til átta vikur og allt að tíu vikur þar til varan var komin til landsins. Hafi stefnandi verið farinn að hafa verulegar áhyggjur af þessum drætti, þar sem komið hafi verið fram í mars, vegna yleininganna. Stefnandi hafi þó ekki haft áhyggjur af afhendingartíma á stálgrindinni en þá hafi stefnandi ekki vitað að hönnunin hafi gengið svo illa sem raun var og að verkfræðistofan þýska hafði þá ekki fengið þau gögn sem hún þurfti til að geta klárað hönnunina og koma henni í framleiðslu. Kvað stefnandi stefnda hafa ráðið þeirri för. Stefnandi kvaðst hafa reynt á þessum tíma að stytta boðleiðir og því haft samband beint við Ólaf Hermannsson sem starfaði á vegum Eimskips en stefnanda verið bent á að hann ætti ekki að fara þá leið. Stefnandi kvaðst selja ákveðið efni en það væri ákvörðun stefnda hvernig og hvað þeir vildu fá afhent á hverjum tíma. Stefnandi kvaðst aldrei hafa komið nálægt því hvar og þá hvernig ætti að afhenda stálgrindina, aðilar á vegum stefnda hafi farið út til Póllands og hitt hönnuði og síðan farið í verksmiðjuna og gefið fyrirmæli um það hvernig og hvað af stálinu stefndi vildi fá á hverjum tíma. Skyldur stefnanda hafi verið að afgreiða efni á því verði sem um hafi verið samið. Enginn tími hafi verið tilgreindur um afhendingu. Í tölvupósti frá 10. febrúar 2015 frá stefnanda til stefnda kemur fram að að sjálfsögðu miðist þetta við að ekki verði gerðar neinar breytingar á húsinu sem seinkað geti teiknivinnu því að framleiðandi geti ekki byrjað framleiðslu nema hafa til þess teikningar. Stefnandi kvað að þegar stjórnandi verksins fyrir hönd stefnda og tengiliður stefnanda við stálgrindarhönnunina hafi farið til Póllands og heimsótt verksmiðjuna þá hafi legið í hlutarins eðli að þeir legðu fyrir framleiðandann í hvaða röð þeir vildu fá afhendingu á tilteknum hlutum í stálgrindina. Það hafi síðan komið í ljós að þeir hafi ekki gert það. Stefndi kvaðst aldrei hafa brotið neina verkáætlun af hálfu stefnda. Um miðjan janúar hafi komið fram hjá stefnda að þeir hafi þurft að fá afhendingu í viku 17-22. Stefnandi hafi samþykkt það að því tilskildu að allar teikningar frá stefnda væru komnar tímanlega svo að hægt væri að afhenda stálið á umræddum tíma. Eðlilegur afhendingartími á hönnun á svona húsi sé fjórar til sex vikur. Teikningarnar séu síðan sendar til stálframleiðandans sem taki sér um tvær vikur til að yfirfara teikningarnar. Framleiðslutíminn á 30 til 70 tonnum sé eðlilegur ein vika. Áður en slíkur framleiðslufrestur sé fundinn þurfi að kanna hver sé verkefnisstaðan hjá viðkomandi framleiðanda. Þann 5. maí hafi legið fyrir að fyrsta stálafgreiðslan yrði komin til Hamborgar í viku 20 til 21. Stefnandi kvað í símtali seinnihluta september við starfsmann stefnda að starfsmaðurinn hafi aldrei lagt fyrir verksmiðjuna í Póllandi hvaða hluta af stálgrindinni stefndi vildi fá og á hvaða tíma. Stefnandi kvað stefnda aldrei hafa tekið þá með á fundi með Eimskipi og allar ákvarðanir milli stefnda og Eimskips varðandi afhendingu og fl. hafi verið teknar án vitundar eða samráðs stefnanda.

                Stefnandi kvað að það hefði verið hægt að afhenda efnið í stálgrindina í viku 21, 22 ef teikningar frá stefnda hefðu legið fyrir í upphafi ferilsins eins og stefnandi hafi gert ráð fyrir við tilboðsgerð sína.

                Aðspurður kvað stefnandi sér aldrei hafa verið tilkynnt um að stefndi þyrfti að stofna til meiri yfirvinnukostnaðar eða annars kostnaðar við byggingu skemmunnar. Stefnandi telur að stefnda hafi verið ljóst allt frá upphafi, með hliðsjón af öðrum tilboðum sem þeir höfðu fengið áður en stefnandi gerði þeim tilboð, að stálgrindarhúsið yrði á bilinu 350 til 700 tonn. Stefndi hafi hins vegar sagt stefnanda að húsið væri 350 tonn en síðar hafi komið í ljós að það var miklu stærra. Stefnandi kvaðst ekki hafa haft önnur tilboð undir höndum sem stefndi hafði fengið frá öðrum aðilum og hafi stefnandi aldrei gert tilboð í annað en tonnaverð frá framleiðanda. Hönnunarkostnaður hefði eingöngu orðið hærri ef hann hefði vitað um að meira stál færi í húsið. Afhendingartími hefði hugsanlega lengst ef framleiðandinn hefði vitað fyrirfram að um væri að ræða 550 tonna hús en ekki 350 tonna. Stefnandi kvað aðspurður starfsmann á sínum vegum hafa setið á fyrstu hönnunarfundum með stefnda, starfsmaður stefnanda hafi setið einn eða tvo fundi og stefnandi setið síðasta hönnunarfundinn með stefnda. Hönnun hússins hefði ekki komið stefnanda neitt við nema þá til þess að koma upplýsingum til þeirra birgja.

                Aðspurður kvað stefnandi það rétt að Hýsi-Merkúr hefði aldrei reiknað það út hversu mikið af stáli þyrfti í húsið. Stefnandi væri ekki með arkitekta á sínum snærum. Stefnandi kvaðst fyrst hafa komið að málinu með tilboði í klæðningu og yleiningar en það hafi ekki verið fyrr en eftir að því tilboði hafi verið tekið sem stálgrindin hafi komið til. Stefnandi kvaðst hafa burðarþolshönnuð á sínum vegum, Gísla Rafn. Aðspurður um það hvort hægt væri að tryggja sig fyrir því að slík hús væru ekki ofhönnuð, kvaðst stefnandi ekki hafa heyrt um það og eingöngu fengið upplýsingar um að nýting stálsins væri góð. Stefnandi kvaðst ekki hafa haft neitt í höndunum um hversu mikið magn myndi fara í húsið, eingöngu upplýsingar frá stefnda um að það væru 350 tonn.

                Aðspurður um tölvupóst frá 6. janúar 2015 frá stefnda til stefnanda kvað stefnandi aldrei hafa boðið í stálgrindarhús sem slíkt heldur einungis í verð á tonni.

                Aðspurður um yfirlýsingu stefnanda frá 16. janúar 2015 um verð í Z-bita vegna tilboðs þeirra í efnispakka í fyrirgeymslur kvað stefnandi þetta skjal vera uppgefið verð í ákveðna bita sem klæðning skrúfast á. Því komi allir þessir bitar sem nefndir séu í skjalinu. Um sé að ræða metraverð í skjalinu. Aðspurður um þær upplýsingar í tölvupósti frá 9. mars 2015 um að stálvirki fari úr 346 tonnum í 378 tonn vegna brunavarna kvaðst stefnandi ekki vita hvaðan þær tölur hafi komið. Stefnandi kvaðst hafa gert allt sem í sínu valdi stóð til að láta hlutina ganga upp. Stefnandi kvaðst ekki hafa litið svo á að hann væri undirverktaki í þessum viðskiptum, hann hafi verið efnissali. Spurður um dagsektir, hvort stefnandi hafi litið svo á að hann bæri einhverja ábyrgð á dagsektum, kvaðst stefnandi ekki hafa litið svo á, ekki nema að tafir hafi stafað af völdum stefnanda. Spurður um frestun á hönnunarfundum kvaðst stefnandi ekki muna hvers vegna það hafi verið en þetta hafi verið 16. febrúar 2015. Hönnun hússins hafi fyrst verið lokið þegar teikningar voru sendar út 12. mars 2015 á vegum stefnda. Stefnanda hafi því verið ómögulegt að afhenda efni sem ekki var vitað hvernig átti að smíða. Stefnandi kvað flutningskostnað koma þannig til að Eimskip hafi gert stefnda tilboð í flutning vörunnar sem stefnandi hafi ekki komið að. Reikningana hafi þurft að skrifa á stefnanda svo að hann hafi getað tollafgreitt vöruna. Stefnandi hafi lagt út fyrir þeim kostnaði og væri hann ógreiddur af stefnda.

                Stefnandi skýrði það svo að þegar búið væri að hanna húsið sjálft þá taki burðarþolshönnun við. Sú hönnun hafi verið á ábyrgð stefnanda og innifalin í verðtilboði hans. Taki sú hönnun fjórar til sex vikur. Hönnun hússins hafi ekki lokið fyrr en í mars 2015 en þá hafi burðarþolshönnun fyrst geta hafist. Henni hafi lokið í apríl 2015. Burðarþolshönnun hafi verið innifalin í tilboði stefnanda. Pólski burðarþolshönnuðurinn hafi sent stefnanda upplýsingar um að stálgrindin væri komin í 460 tonn. Stefnandi hafi fengið „áfall“ og farið á fund stefnda og rætt þetta magn. Á þeim fundi hafi starfsmenn stefnda spurt stefnanda hvort hann væri hræddur um að hann fengi umframmagnið ekki greitt. Kvað stefnandi að ef stefndi hefði lýst því á þeim fundi að þeir greiddu bara fyrir 350 tonn þá hefði hann stöðvað alla vinnu sem hafi verið á ábyrgð stefnanda.

                Unnar Steinn Hjaltason, forsvarsmaður stefnda, kom fyrir dóminn. Kvað hann að rætt hafi verið á milli stefnanda og stefnda hversu mikið magn af stáli þyrfti í verkefnið. Þeir hafi hist á fundi og stefndi upplýst að stefndi hefði verið búinn að fá tilboð frá tveimur öðrum aðilum og hafi tonnafjöldinn verið ca 350 tonn. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi þá svarað því að ef aðrir geti þetta þá gætu þeir það líka. Stefndi kvaðst ekki hafa samþykkt tilboð þar sem heildarverð kæmi ekki fram, tonnafjöldinn yrði líka að koma fram. Heildarverðið skipti því máli. Bæði einingarverð og heildartonnafjöldi hafi komið fram í öðrum tilboðum sem bárust stefnda í stálgrindina.

                Vitnið Sigurfinnur Sigurjónsson, starfsmaður stefnda, kom fyrir dóminn. Kvaðst vitnið hafa rætt við stefnanda um hversu mikið af stáli þyrfti í verkefnið. Eftir að stefndi hafi tekið þátt í útboði Eimskips hafi stefndi kallað til tvo aðila sem höfðu gert tilboð í stálið. Stefnandi hafi verið annar þeirra aðila. Hafi sá fundur verið til að staðfesta magnið af stáli sem þurfti í verkið en það hafi verið á bilinu 340 til 350 tonn. Kvað vitnið tilganginn með fundinum hafa verið að ganga frá magntölum. Stefndi hafi ekki getað gengið til samninga við birgja nema hafa heildarmagn frá þeim. Kvaðst vitnið hafa beðið báða þessa aðila að ganga úr skugga um að þetta væri það stálmagn sem færi í verkið og ekki meira. Vissi vitnið ekki til þess að stefnandi hafi látið reikna magnið sérstaklega út fyrir sig. Kvaðst vitnið muna að stefnandi hafi svarað því svo til að ef aðrir gætu smíðað húsið með þessu stálmagni þá gætu þeir það líka.

                Tölvupóstur frá 18. júní 2015 var borinn undir vitnið. Kvað vitnið tafir hafa verið á afgreiðslu stálsins og því legið fyrir að það þyrfti að vinna auka- og næturvinnu til að vinna upp tafir. Þó hafi aldrei verið farið að vinna á sólarhringsvöktum eins og fyrirhugað hafði verið. Ástæðan hafi verið sú að þeir hafi ekki haft nægjanlegt stál til að vinna úr, það hefði ætíð borist það lítið af stáli til landsins í einu að það hafi ekki  verið grundvöllur fyrir yfirvinnu. Aðspurt um bakfærðan reikning að fjárhæð 1.055.000 krónur, kvað vitnið að Eimskip hafi gert kröfu um að stefnandi flytti allt efni til landsins. Þegar reikningar hafi verið gerðir upp hafi þessi reikningur verið lækkun á fyrri reikningi að fjárhæð rúmlega 34.000.000 króna. Aðspurt hvort vitnið hafi upplýst stefnanda í upphafi að ekki yrði greitt fyrir meira en 350 tonn kvað vitnið að um hafi verið rætt í samningum að það væri það magn sem ætti að fara í verkið. Hvort það hafi verið nógu skýrt gat vitnið ekki sagt til um. Tilboð stefnanda til stefnda frá 15. janúar 2015 um einingaverð á tonni var borið undir vitnið. Kvaðst vitnið hafa litið svo á að það einingaverð sem kemur fram í tilboðinu margfaldað með 350 tonnum væri heildarverðið. Vitnið kvaðst telja sig hafa gert stefnanda ljóst að um væri eingöngu að ræða 350 tonn sem stefndi myndi greiða fyrir. Hafi starfsmaður stefnanda orðað það þannig að ef aðrir gætu þetta þá gætu þeir það líka. Hönnun hafi verið ólokið en það hafi átt að vera 350 tonn ±10%. Vitnið hafi beðið menn um að fara heim og reikna þetta upp en það hafi ekki verið gerður samningur um þetta. Vitnið kvað að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir 350 tonnum en til viðbótar því hafi komið ýmsar breytingar sem hafi orðið til þess að magnaukningar hafi orðið og það hafi aldrei verið ætlunin að greiða ekki fyrir það. Í apríl 2015 hafi engin krafa verið komin fram um aukaverkin eða viðbótarmagn. Í tölvupósti frá 22. apríl 2015 komi fram að verkið hafi verið komið upp í 450 tonn og það sé ágreiningur um það. Þeir hafi gert ráð fyrir 350 tonnum og viðbótarverki að ósk verkkaupa og fyrir það hafi þeir ætlað að greiða. Tilboð frá Húsasmiðjunni sem var upp á 347 tonn var borið undir vitnið og kvað vitnið að sér sýndist þetta vera rétt tilboð frá þeim. Tonnin 350 hafi verið fundin á grófan hátt frá tæknimanni stefnda auk þess sem að flestir sem gerðu tilboð í stálverkið hafi reiknað með svipuðu tonnamagni. Tilboð frá Límtré Vírneti frá 14. janúar 2015 var borið undir vitnið auk tilboðs frá Oostingh Staalbouw Katwijk sem gerði tilboð í 520 tonn og kvaðst vitnið ekki hafa borið það undir stefnanda. Vitnið hafi ásamt öðrum starfsmanni ákveðið að ræða bara við lægstbjóðendur. Stefnandi hafi ekki fengið að vita um þessi tilboð. Aðspurt hvers vegna það hafi ekki gert athugasemd við reikning sem gerður var 29. maí 2015, þar sem krafið var fyrir grind fyrir gám og fl. þar sem stuðst sé við útreikninga frá því í janúar, kvaðst vitnið hafa litið svo á að um væri að ræða innágreiðslu inn á verkið en uppgjör færi síðar fram. Vitnið hafi ekki staðreynt hvort það efni hefði borist sem rukkað var fyrir þar sem það hafði ekki farið sjálft yfir pakklista.

                Vitnið kvað hönnun hússins hafa breyst eftir miðjan janúar og hafi verið um nokkrar breytingar að ræða en ekki stórvægilegar. Vitnið kvaðst hafa vitað að skipt hafi verið um hönnuð frá Þýskalandi yfir til Póllands. Vitnið kvað ráðstafanir hafa verið gerðar til að vinna aukavinnu í kjölfar þess að dráttur varð á afhendingu stálsins til þess að geta staðið við afhendingartíma sem samið hafði verið um við Eimskip. Vitnið kvaðst muna til þess að athugasemdir hafi verið gerðar við stefnanda þegar efni vantaði í sendingar. Vitnið kvað aðspurt að hugmyndin um stálmagnið hafi komið frá þeim fyrstu sem gerðu tilboð í stálgrindina. Því hafi stefndi miðað við það magn. Stálgrindin hafi síðan verið teiknuð af stefnanda. Því líti vitnið svo á að ef meira af stáli hafi farið í stálgrindina þá hafi umframmagnið átt að vera á ábyrgð stefnanda. Stefndi hafi hins vegar hvorki fengið útreikninga frá stefnanda né teikningar. Gengið hafi verið út frá því að stefnandi hafi sagt að ef aðrir gætu gert þetta með 350 tonnum þá gætu þeir það líka. Vitnið kvaðst hafa hvatt stefnanda til að fara heim og reikna dæmið út en vissi ekki hvort stefnandi hafi gert það og ekki séð útreikninga þess efnis. Vitnið kvað aðila hafa rætt um það að stálvirkið þyrfti að koma í síðasta lagi  um mánaðamótin apríl/maí 2015. Verkáætlun hafi verið gerð af hálfu stefnda og þegar stefndi hafi séð að afhending efnisins var farin að dragast hafi verið ákveðið að fá efnið sent heim í þremur áföngum. Starfsmaður stefnda og tengiliður stefnanda hafi farið til Póllands til að ganga frá því. Þetta hafi ekki verið tilkynnt stefnanda sérstaklega. Til að átta sig á því hversu mikið stál færi í verkið hefði stefnandi þurft að rýna í teikningarnar. Vitnið kvaðst ekki geta svarað því hvers vegna skriflegir samningar hafi ekki verið gerðir milli aðila.

                Vitnið Tjörvi Skarphéðinsson kom fyrir dóminn. Var tilboð sem Húsasmiðjan hafði gert stefnda borið undir vitnið. Kvað vitnið birgja Húsasmiðjunnar hafa reiknað út magnið af stáli sem þyrfti í húsið og tilboðið verið byggt á því. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð né vitað til þess að tilboð væru eingöngu með einingaverði. Húsasmiðjan hefði fengið útboðsgögn frá stefnda sem hafi verið forsenda tilboðs Húsasmiðjunnar. Birgir Húsasmiðjunnar hafi verið í Lettlandi. Aðspurt hvort Húsasmiðjan hefði tekið á sig viðbótarmagn ef verkið hefði farið upp fyrir 350 tonn kvaðst vitnið ekki geta svarað því. Vitnið kvaðst þó ekki vita hvaða forsendur þeirra birgir hafi notað við útreikningana, þeim birgi væri bara treyst.

                Ólafur Hermannsson hjá VSÓ ráðgjöf og hönnunarstjóri kom fyrir dóminn og kvað aðspurður að útboðsgögn Eimskips hafi verið nægjanlega skýr til að mögulegt hafi verið að reikna nákvæmlega út magnið af stáli sem þurfti í húsið, þ.e. til að hanna burðarveggi. Samkvæmt útboðsgögnunum hafi verktaki átt að hanna burðarverkið. Vitnið kvað magntölur ekki hafa verið breytilegar, einu magntölurnar sem hafi verið í útboðsgögnunum hafi verið í jarðvinnu. Sá sem hanni burðarvirkið þurfi að reikna út hversu mikið stál þurfi í burðarvirkið. Vitnið kvaðst ekki hafa talið að viðbótarstál þyrfti vegna aukaverka en það væri mögulegt ef breytingar yrðu á vegum verkkaupa eftir að tilboði var tekið. Eftir að samningar hafi farið fram sé fyrst og fremst vísað til útboðsgagna en samningurinn sem slíkur sé bara tvö til þrjú blöð en að öðru leyti að mestu vísað til útboðsgagna. Vitnið kvað sér hafa orðið það kunnugt í ferlinu í samskiptum við stefnda að stefndi ætlaði að skipta við stefnanda og að hönnun burðarvirkisins yrði í höndum stefnanda. Vitnið kvaðst hafa haft áhyggjur þegar afhending stálsins fór að dragast og hafi komið þeim áhyggjum á framfæri við stefnda en það væru boðleiðirnar sem verkkaupi hefði. Vitnið kvað að í byrjum mars 2015 hafi vitnið ásamt starfsmanni stefnda farið í heimsókn til stefnanda til að fá skýrari svör. Vitnið taldi að þær breytingar sem hefðu verið gerðar á teikningum hefðu ekki átt að tefja afhendingu stálsins að neinu marki. Aðspurt um tafabætur sem stefnda var gert að greiða til Eimskips, kvaðst vitnið telja að þær bætur hefðu átt að vera hærri en nítján milljónir sem samkomulag var gert um. Stefndi hafi hins vegar talið að þeir ættu ekki að greiða neinar tafabætur. Aðspurt um þá ætlun að vinna á sólarhringsvöktum, eins og komi fram í tölvupósti frá vitninu 6. apríl 2015, kvað vitnið það ekki hafa komist á þar sem afhending á stáli á verkstað hafi verið með þeim hætti að það bauð ekki upp á sólarhringsvinnu. Útreikningur vegna þess magns sem stefndi er krafinn um af stáli og kemur fram í skjali sem liggur frammi var borinn undir vitnið. Kvaðst vitnið geta staðfest að þau aukaverk sem hafi verið í gangi og tíunduð séu í skjalinu hafi verið samþykkt af Eimskipi. Vitnið hafi hins vegar ekki upplýsingar um tonnafjöldann. Þá hafi mest af þeim verkum sem hafi verið hafnað ekki átt rétt á sér. Útboðsgögn hafi verið nógu skýr til að menn gætu gert ráð fyrir því í sínu tilboði.

                Vitnið kvaðst hafa sjálft ásamt framkvæmdastjóra VSÓ samið útboðslýsingu í frystigeymslu Eimskips. Lýsti vitnið því svo að eftir að tilboði sé tekið fari fram ákveðið hönnunarferli, þar sem hönnuðir verkkaupa, arkitekt, lagna- og rafhönnuðir komi að ásamt burðarvirkjahönnuði sem verktakinn eigi að útvega. Hafi stefndi tilnefnt ákveðinn burðarvirkjahönnuð í þessu tilviki. Stærðir hússins hafi lítið sem ekkert breyst á öllu hönnunarferlinu. Burðarvirkjahönnuður hafi getað þá strax farið að stilla upp sínu reiknimódeli til að átta sig á kröftum, sem hafi átt að skila sér niður í undirstöður, súlur, bita og þess háttar. Á þessum hönnunarfundum hafi menn lítið sem ekkert verið að hræra í aðalstærðum. Aðallega hafi menn verið að spá í hurðargöt, staðsetningar á þeim o.fl., auk ákveðnar þarfir vegna frystikerfisins. Breyta hafi þurft þaksperru og gæta að burðarþoli vegna frystiklefa. Minnti vitnið að fyrsti hönnunarfundurinn hafi verið fyrstu vikuna í janúar 2015. Burðarvirkishönnuður á vegum stefnda hafi setið fyrstu hönnunarfundina en enginn frá stefnanda. Hafi það verið Gunnar Valdimarsson frá stefnda og Björn Gústafsson frá VSB. Björn hafi verið sá burðarvirkjahönnuður sem stefndi tilnefndi. Hans hlutverk hafi verið að hanna undirstöðurnar og síðan væntanlega að taka ábyrgð á heildarhönnun hússins. Sé stálgrind hönnuð og framleidd erlendis þurfi íslenskan burðarvirkjahönnuð til að staðfesta niðurstöðurnar. Hafi það verið Björn Gústafsson frá VSB. Ekki hafi verið ætlunin að halda fleiri hönnunarfundi eftir fund 15. apríl 2015 nema sérstök ástæða þætti til. Vitninu hafi þótt ástæða til að halda sérstakan hönnunarfund til að ræða hönnun stálvirkis og útfærslur og efnisval í klæðningum og samlokueiningum og hafi boðað til hans 17. apríl sl. og hafi stefnandi verið boðaður á þann fund og starfsmenn hans. Vitnið kvaðst hafa vitað til þess að upphaflega hafi verið rætt um að þýsk verkfræðistofa myndi hanna burðarvirkið. Stefnandi hafi verið tengiliður þess aðila. Minntist vitnið þess að í byrjum mars 2015 hafi menn sent út tölvugrunn og sagt að það væri endanlegur grunnur. Kvað vitnið alla tölvugrunna koma frá arkitektinum á vegum Eimskips sem þeir sendi áfram til VHE sem áframsendi þá til Hýsi-Merkúr sem svo hafi áframsent þá til þýsku verkfræðistofunnar. Það hafi komið fram á hönnunarfundi að hönnunin hafi verið tekin af þýsku hönnunarstofunni og flutt til Póllands. Starfsmenn stefnda ásamt stefnanda hafi farið í heimsókn til Póllands og þar hafi komið fram að lítið hafi verið gert. Hafi það komið mönnum á óvart. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa komið að gerð kostnaðaráætlunar vegna þessa verks en vitnið vissi að grunnurinn að áætluninni byggðist ekki endilega á tonnafleti á stáli heldur frekar á hjúpfleti, veggjum og fleira. Aðspurt kvað vitnið að ekki hafi verið bruðlað með stál í húsinu, það sé skylda hvers hönnuðar að hanna slíka byggingu á „grensunni“. Fram hafi komið að það væri góð nýting á stálinu og segi það vitninu að grindin hafi verið hönnuð á leyfilegum þolmörkum og þannig eigi að hanna burðarvirki. Aðspurt hvort hefði verið hægt að hanna stálgrindina á 350 tonnum kvaðst vitnið ekki geta svarað því. Aðspurt hvort viðbótarfrystiblásarar hafi haft áhrif á magn stálsins kvaðst vitnið hafa samþykkt viðbótarstál vegna þeirrar viðbótar en það hafi verið lítill hluti af heildarkröfunni. Vitnið hafi eingöngu metið viðbótina út frá því hversu mikið stál hafi þurft til að halda uppi fjórum frystiblásurum og lögnum að þeim og fimm blásurum. Krafan hafi hins vegar verið fyrir alla blásarana. Vitnið kvað að það hafa verið rætt á verkfundum að fá stálið í áföngum. Frystiklefi eitt hafi átt að koma fyrstur, síðan forrými í áfanga tvö örfáum vikum síðar, og frystiklefi tvö átt að koma síðastur því að hann átti að taka síðast í notkun. Talað hafi verið um og bókað að stefnt væri að því að frystiklefi eitt ætti að koma í viku átján og forrými í viku tuttugu og tvö. Síðan þegar stálið fór að koma þá hafi klefi eitt ekki komið í einni sendingu heldur hafi hann komið í mörgum sendingum. Þeir hafi því ekki verið að fá húshluta í einni sendingu. Tímasetningarnar hafi alltaf komið frá verktakanum, Gunnari Valdimarssyni, starfsmanni stefnda, en vitnið hafi verið í mestum tengslum við hann á verktímanum.

                Aðspurt um tafabætur sem stefnda var gert að greiða Eimskipi kvað vitnið þær vera tölu sem aðilar hafi komist að samkomulagi um. Vitnið kvað verklag verktakans ekki hafa haft áhrif á verktafir stefnda. Vitnið kvað Eimskip hafa getað tekið í notkun frystiklefa eitt 13. nóvember og frystiklefa tvö fyrri hlutann í desember 2015. Klefi eitt hafi átt að vera tilbúinn 31. júlí. Kvað vitnið fyrstu stálsendinguna hafa komið til landsins í byrjun júní og hafi hún verið þannig að ekki hafi verið hægt að byrja að reisa neitt stál því að það hafi vantað svo mikið inn í sendinguna. Vitnið hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmönnum stefnda auk þess sem vitnið hafi farið á verkstað og séð það sjálfur. Á vikulegum verkfundum hafi verið bókað að nú væri von á stálsendingu en þær hafi komið vikulega. Þá hafi líka verið bókað að það vantaði súlu eða bita svo að hægt væri að byrja að reisa húsið. Stefndi hafi ekki getað byrjað að reisa stálverkið af krafti fyrr en mánuði eftir að fyrsta sending kom á staðinn. Vitnið var spurt um það hvers vegna ekki hafi verið hægt að taka frystiklefa eitt í notkun fyrr en í nóvember þar sem allt stál hafi verið komið í ágúst og megnið af því í júlí 2015.  Kvað vitnið það vera eitt að reisa stálgrindina en síðan hafi þurft að klæða hana að innan með samlokueiningum. Það taki ákveðinn tíma. Síðan sé tengt uppsetningu stálsins, til dæmis forrými, en þar séu tæknirými fyrir rafkerfi, lagnakerfi og frystikerfi. Allt það hafi þurft að vera nothæft til að hægt hafi verið að taka klefann í notkun. Aðspurt hvort verklag stefnda hafi haft áhrif á þann drátt sem varð, kvaðst vitnið ekki hafa séð það og ekki gert athugasemdir við verkhraða þeirra. Í viku átján hafi stál í frystiklefa eitt átt að vera komið og í rest í viku 22. Frystiklefi eitt hafi átt að vera tilbúinn 31. júlí 2015. Eins og málin hafi þróast hafi það dregist í þrjá mánuði að gera frystiklefa eitt tilbúinn. Taldi vitnið tafirnar fyrst og fremst hafa stafað af drætti á afhendingu stálsins en það gæti einnig skýrst af bjartsýnni áætlun verktakans. Vitnið kvaðst kannast við þau aukaverk sem listuð voru upp í excel-skjali frá stefnda og þau verk sem samþykkt hafi verið.

                Vitnið Guðbjartur Halldórsson kom fyrir dóminn og kvaðst starfa fyrir stefnanda. Vitnið kvaðst hafa komið að gerð dómskjals 6, sundurliðun á tilboði í yleiningar og klæðningu í stálskemmu fyrir stefnda. Þröstur Lýðsson hafi einnig komið að gerð skjalsins. Kvað hann það skjal vera fyrstu hugmyndir að tilboði til stefnda. Aðspurt kvað vitnið sig hafa gert tilboð í einingaverð en ekki magn. Aðspurt um tölvupóst frá 6. janúar 2015, þar sem fram komi talan um 350 tonn, kvað vitnið stefnda hafa tjáð þeim að stefndi væri þegar með tilboð í burðarvirkið, 350 tonn.  Tölvupósturinn hafi meira snúist um það hvernig skiptingin á stálinu ætti að vera á milli forrýmis og frystiklefa. Hluti hafi átt að vera heit-galvaniserað og annað málað og því hafi hann beint þessari fyrirspurn til stefnda en stefndi hafi þegar látið vitnið vita að um 350 tonn væri að ræða. Vitnið hafi ekki reiknað út magnið af stáli í bygginguna og mundi ekki til þess að það hafi komið til. Vitnið hafi ekki haft neinar forsendur til að reikna það út. Á þessum tíma hafi stefndi sagt að þeir væru með tilboð frá 350 tonnum til 550 tonna. Vitnið hafi beðið starfsmann stefnda að sýna sér þau tilboð sem hann hafi gert eftir að hafa yfirstrikað fjárhæðir. Vitnið kvað að talað hafi verið um afhendingu á áfanga eitt, tvö og þrjú. Talað hafi verið um að afhending gæti verið samkvæmt því plani ef hönnunargögn frá hönnuði lægju tímanlega fyrir. Þær teikningar hafi dregist von úr viti. Vitað hafi verið að mikill sprettur hafi verið á þessu og einnig að öll gögn hafi þurft að liggja fyrir hjá stefnda strax í upphafi. Spurt hvort oft hafi vantað tiltekið efni kvaðst vitnið ekki geta sagt að það hafi komið oft fyrir en það hafi komið fyrir. Tvisvar til þrisvar hafi vitnið fundið sjálfur vöruna hjá stefnda en það hafi ekki komið oft fyrir. Varan hafi verið þannig afgreidd að hvert einasta stykki væri afhent með númerum og stefnda verið uppálagt að bera pakklistana saman við vöruna sem kom með gámunum. Eitt sinn hafi vantað plötur svo að stefndi hafi smíðað þær en síðar hafi Eimskip lætt plötunum til þeirra en þær hefðu þá verið inni í vöruhúsi hjá Eimskipi. Eitt sinn hafi vantað skrúfur samkvæmt stefnda en vitnið hafi síðan fundið myndir af skrúfunum sem hafi verið teknar nokkrum vikum áður þannig að vitnið vissi að þær skrúfur hafi komið. Eitt sinn hafi komið sjö bitar aukalega. Ef starfsmenn hefðu farið eftir leiðbeiningum um affermingu þá hefði vafalaust verið betri reiður á hlutunum.

                Vitnið Gunnar Valdimarsson, starfsmaður stefnda, kom fyrir dóminn og kvaðst kannast við tilboð sem Húsasmiðjan gerði stefnda í stálvirki fyrir Eimskip. Vitnið kvaðst hafa sent Húsasmiðjunni útboðsgögnin og beðið þá að yfirfara magnið sem hann hafi reiknað í húsið og hafi svo verið gert. Kvaðst vitnið hafa sent tilboðsgjafa öll hönnunargögn frá verktaka til að gefa upp réttar forsendur. Vitnið kvaðst hafa farið til Þýskalands ásamt Gísla Rafni Gylfasyni, starfsmanni stefnanda, þar sem þeir hafi ekki fengið nein svör um framvindu hönnunar þar, en öll gögn hafi þurft að leggja fyrir byggingarfulltrúa áður en farið var í framleiðsluna. Þá hafi komið í ljós að þýska fyrirtækið sem ætlaði að hanna húsið hafi hætt við og pólskur aðili væri tekinn við verkinu. Vitnið kvaðst ekki vita hvers vegna þýski aðilinn hætti með verkið. Þeir hafi því lent í Þýskalandi en farið þaðan til Póllands. Vitnið kvað stefnda ekki hafa haft neitt um það að segja við hverja stefnandi samdi. Kvað vitnið að þegar þeir fóru út hafi vitnið verið búið að teikna upp í hvaða röð það vildi fá húsið afhent en það hafi verið í þremur áföngum. Hafi vitnið farið yfir það með hönnuðum og þeir skilið að þeir þyrftu að hanna stálið í samræmi við þá einföldu teikningu sem vitnið hafði haft með sér út til Póllands. Hönnunaraðilar hafi viljað hanna húsið eftir annarri áætlun sem hefði hentað þeim betur en þeir hefðu skilið það fullkomlega af hverju vitnið óskaði eftir afgreiðslu og afhendingu stálsins á annan hátt en þeir höfðu ætlað. Þeir hafi í framhaldi af heimsókn til hönnuðanna heimsótt framleiðandann sem var þar stutt frá. Framleiðendur hefðu einnig skilið þarfir stefnda en þegar stálið hafi komið til landsins hafi það verið allt annað en vitnið hafði óskað eftir. Stálið hafi ekki komið í réttri röð og því hefðu þeir ekki getað byrjað að reisa grindina. Þeir hafi fyrst fengið sperrur í þakið í 23. og 24. viku. Komið hafi verið fram í viku 25 og þeir hafi ekki getað reist húsið þar sem burðarsúlur hafi t.d. vantað. Gríðarlegt magn af efni hafi verið komið en engar súlur og því ekki hægt að hefja reisingu.

                Tölvupóstur frá 4. mars 2015, sem vitnið sendi stefnanda, var borinn undir vitnið þar sem fram kemur að meðfylgjandi sé minnisblað frá 17. febrúar þar sem fram komi ósk stefnda um að skipta afhendingu stálsins í þrennt og flýta einnig afhendingu. Vitnið kvað stefnanda ekki hafa getað lofað að stálið bærist fyrr og þá myndi fyrri afhendingartími gilda. Þá dagsetningu hafi stefndi sett fram.

                Aðspurt um samskipti milli hönnuða sem hönnuðu fyrir Eimskip hvað vitnið gögn hafa bæði farið beint til stefnda auk þess að hafa síðar einnig farið á stefnanda. Vitnið kvað ætlun hafa verið um að vinna á vöktum við reisingu á húsinu en þeir hafi aldrei fengið nægjanlegt stál til að vinna úr svo að úr því hefði ekki orðið. Vitnið kvaðst hafa ýtt á að fá frekari upplýsingar frá stefnanda um afhendingu stálsins með tölvupósti 19. maí og aftur 20. júlí 2015. Þeir hafi fengið pakklista seint og illa yfir það sem væri að koma í sendingum. Aðspurður um platta sem stefndi kvað ekki hafa komið frá framleiðanda kvaðst stefndi hafa þurft að láta smíða þá sérstaklega því að það hefði tekið of langan tíma að bíða eftir hlutnum frá framleiðanda erlendis. Þá kvað vitnið efni hafa komið með gámum sem ekki hafi tilheyrt verkinu og stefndi hafi sett í geymslu en stefnandi verið látinn vita um það. Sjáist það t.d. í tölvupósti frá 8. október 2015 þar sem vitnið hafi spurt stefnanda um óviðkomandi efni sem hafi borist og ekki verið merkt verkinu. Vitnið kvað að ef pakklistar hafi verið stimplaðir af framleiðanda hafi það merkt að þær vörur sem tilgreindar væru á pakklistanum væru í trukknum og í viðkomandi sendingu. Yfirlit yfir efni var borið undir vitnið ásamt tölvupósti frá 4. desember 2015. Kvað vitnið það síðasta sem sett hafi verið upp í húsinu hafi verið þakkantur. Þeir hafi ekki getað klárað það þar sem horn frá framleiðandanum í Póllandi hafi vantað. Fyrirspurn hafi verið send til stefnanda með tölvupósti 4. desember 2015. Stefnandi hafi ekki kannast við þetta. Komið hafi í ljós að hornin hafi enn verið hjá framleiðanda. Ákvörðun hafi verið tekin um að láta smíða hornin á Íslandi því að það hefði tekið of langan tíma að láta senda hornin til Íslands. Vitnið kvaðst hafa sett upp hvaða aukaverk stefndi hafi samþykkt og hvaða verkum hafi verið hafnað. Þá hafi kostnaði vegna hönnunartímans verið hafnað. Vitnið kvaðst hafa óskað eftir rökstuðningi frá starfsmanni stefnanda fyrir viðbótarkostnaði og ekki fengið. Því hafi samþykktir stefnda verið lagðar fram fyrir Ólaf Hermannsson. Hann hafi hafnað frekari kostnaði fyrir hönnun.

                Aðspurt hvort stefndi hefði yfirfarið og borið saman pakklista og efnið sem kom með gámunum, kvað vitnið það hafa verið gert til að byrja með en svo hafi það orðið ógerlegt. Efni hefði verið sent þannig að fyrst væri efni sett á trukk hjá framleiðanda og það keyrt í höfn. Efnið hafi síðan verið sett á svokölluð flet. Á fletin hafi komist minna magn en var í trukkunum. Því hafi pakklistarnir sem sögðu til um það efni sem var í viðkomandi bíl ekki stemmt við efnið sem síðan kom á fletum til stefnda. Restin af efninu sem hafi verið í trukknum hafi síðan komið á öðru fleti. Því hafi verið ógerningur að stemma af það efni sem hafi komið á fleti við pakklistana og ganga þannig úr skugga um að allt efnið, sem sagt að væri að fara til landsins samkvæmt pakklistanum, hafi komið á sama fleti. Farmur trukksins hafi því oft verið á fleiri en einu fleti. Kvað vitnið starfsmenn hafa byrjað á því að setja fletin hlið við hlið og reyna að stemma pakklistana af við efnið en það hafi verið ógerningur. Vitnið kvað efnið ekki hafa komið í réttri röð og því hafi ekki verið hægt að hafa yfirsýn yfir það hvað kom og hvenær. Vitnið kvað rétt að það hafi gefið þau fyrirmæli í Póllandi að allt efni í frystiklefa eitt ætti að koma fyrst, síðan allt efni í forrými og síðan allt rými í klefa tvö. Engin athugasemd hafi verið gerð við þetta plan á Íslandi og ekki erlendis. Afhendingartíminn hafi komið fram í tölvupósti.   

                Aðspurt um það magn af stáli sem átti að fara í húsið, kvaðst vitnið ekki hafa verið með í samningum aðila. Vitnið kvaðst þó hafa vitað að stefnandi hafi gert tilboð í húsið, 350 tonn. Einingaverð hafi komið fram í tilboði en magnið hafi verið rætt milli aðila.

                Vitnið Þorvaldur Guðjónsson kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að verkinu að beiðni stefnanda í þeim tilgangi að reikna út stálið sem hafði farið í verkið og reikna út aukaverk. Skjal var borið undir vitnið sem kvað það stafa frá sér í grunninn. Þar hafi vitnið tekið saman upp úr gögnum, efni og verði sem hafði farið í verkið. Hafi vitnið verið í samskiptum við stefnda við þessa vinnu. Vitnið kvaðst hafa reynt sættir með aðilum um uppgjör en vitninu hafi fundist menn komnir í þrot með það.  

Forsendur og niðurstaða.

Mál þetta er tvíþætt. Í fyrsta lagi er óumdeilt að stefnandi gerði stefnda tilboð í yleiningar og klæðningarefni í frystigeymslu sem stefndi hugðist reisa samkvæmt samningi stefnda við Eimskip að Óseyrarbraut 22 í Hafnarfirði. Er tilboðið dagsett 8. janúar 2015. Kemur fram í tilboðinu tegund, stærðir, verð frá framleiðanda og heildarverð. Í framhaldi af því tilboði gerðu aðilar samning um lækkun á því efni sem nam 3.500.000 krónum miðað við ákveðið gengi EUR. Stefnandi hefur lækkað dómkröfur sínar að fjárhæð 3.400.678 krónur vegna þessa gengismunar.

                Í öðru lagi gerði stefnandi stefnda tilboð vegna stálverðs í efnispakka í sömu frystigeymslur. Er tilboðið dagsett 15. janúar 2015.

Ágreiningur máls þessa snýst í fyrsta lagi um það hvort samið hafi verið um það magn af stáli sem þurfti í stálgrindina og hvort stefnandi ætti að bera ábyrgð á því, í eigin reikning, ef meira magn en 350 tonn færu í stálgrindina auk samþykktra auka- og viðbótarverka.

Þá er ágreiningur um það hvort stefndi eigi að fá afslátt á útgefnum reikningum vegna lækkunar á einingaverði vegna klæðningar, vegna útreiknings á gengismun vegna reikninga til stefnda og skaðabætur vegna tafabóta, yfirvinnu, kostnaðar vegna umfram hönnunar, aukastálsmíði, missis verktakaálags og flutningskostnaðar frá stefnanda.

Stefndi féll frá kröfu um skaðabætur vegna missis15% verktakaálags utan stálsmíðinnar, 2.692.369 krónur. Þá krefst stefndi lækkunar vegna kreditfærslu frá Eimskipi til Hýsis-Merkúr vegna flutningskostnaðar, 1.050.000 krónur, en stefndi kveður að Eimskip muni gera stefnanda kreditreikning vegna þeirrar fjárhæðar.

Stefnandi mótmælir öllum kröfum stefnda og byggir m.a. á tómlæti stefnda en stefndi hafi ekki gert athugasemdir við reikningsgerð stefnanda fyrr en undir rekstri þessa máls og séu þær þau því of steint fram komin.

Ekki er byggt á því að yleiningar og klæðningar hafi ekki borist á réttum tíma heldur krefst stefndi leiðréttingar á reikningum vegna þeirra reikninga og samninga um að ákveðið gengi EUR gilti um þá.

                Ljóst er að aðilar gerðu aldrei með sér skriflegan samning um það magn og þann afhendingartíma sem deilt er um í máli þessu. Eingöngu liggur fyrir tilboð eða yfirlýsing frá stefnanda í einingaverð í stál sem átti að byggja stálgrind úr í frystigeymslu Eimskips. Stefndi heldur því fram að munnlegur samningur hafi verið gerður um 350 tonn og það sem umfram sé beri stefnandi ábyrgð á og geti ekki krafið stefnda um utan samþykktra viðbótar-og aukaverka.

                Í gögnum málsins liggja fyrir þrjú tilboð í stálgrindarhús Eimskips til stefnda: Tilboð frá Húsasmiðjunni, dagsett 27. nóvember 2014, sem hljóðar upp á 347,1 tonn. Tilboð frá Límtré Vírneti ehf., dagsett 14. janúar 2015, sem segir að heildarfjöldi gáma sé +/- 49, 40 feta HC gámar. Ekki kemur fram hversu mikill tonnafjöldi tilboðið hljóðar upp á en stefnandi heldur því fram að það séu um 800 tonn. Segir að afhendingartími sé 34 vikur eftir að framleiðsluteikningar hafi verið samþykktar. Tilboð frá Oostingh Staslbouw Katwijk, dagsett 27. nóvember 2014, sem hljóðar upp á 520 tonn. Ekki liggur fyrir samanburður á þessum tilboðum hvort þau séu sambærileg en þau byggjast væntanlega öll á útboðsgögnum sem stefndi hafði til viðmiðunar frá Eimskipi hf. Er af þessu ljóst að áður en stefnandi kom að tilboðsgerð í stálgrindina hafði stefndi fengið tilboð frá öðrum aðilum frá 347,1 tonni upp í 800 tonn. Stefndi hélt því fram fyrir dóminum að stefnandi hafi sagst geta gert tilboð í stálgrindina upp á 350 tonn en stefnandi kvaðst hafa sagt við stefnda að ef aðrir gætu það þá gæti hann það örugglega líka. Stefnandi kvað hins vegar að ef hann hefði átt að bera ábyrgð á því að ekki færi meira magn en 350 tonn auk samþykktra aukaverka í stálgrindina og hann ætti að bera kostnað af því sem umfram færi í húsið, hefði hann hætt við tilboð sitt.

Þá er viðurkennt í málinu að stefndi lagði til magnið við stefnanda, 350 tonn, sem virðist hafa verið haft til viðmiðunar vegna framleiðslugetu viðskiptaaðila stefnanda í Póllandi, Metalbark, framleiðanda stálsins. Í gögnum málsins er að finna tölvupóst milli stefnanda og stefnda þar sem stefnandi spyr stefnda hvort 350 tonn sem stefndi hafi talað um séu komin upp í 450 tonn eða hvort þetta sé bara bull. Tölvupóstur frá 22. apríl 2015 um að stálið sé komið upp í 450 tonn gefur til kynna að magnið hafi komið stefnanda á óvart. Ekkert er í gögnum málsins sem gefur til kynna að stefnandi hafi borið ábyrgð á því umframstáli sem myndi fara í stálgrindarhúsið né hafa verið færðar sönnur fyrir því við aðalmeðferð málsins. Var stefnda í lófa lagið að bóka það í fundargerðir eða ganga frá því í samningi við stefnanda. Það gerði stefndi ekki. Gegn neitun stefnanda um að hann hafi átt að bera kostnað vegna umframmagns á stáli telur dómurinn þá fullyrðingu stefnda ósannaða. Verður þeirri málsástæðu stefnda hafnað enda ekkert í málinu sem styður þann framburð stefnda. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda það magn af stáli sem stefnandi flutti inn og var ætlað til notkunar í stálgrindarhús Eimskips og reikningar hafa verið gerðir fyrir.

                Þá er til skoðunar sú málsástæða stefnda um að lækka beri stefnufjárhæðina og reikningana fyrir klæðningu frá stefnanda vegna gengismunar sem samið hafi verið um. Stefnandi mótmælti þeirri kröfu stefnda sem of seint fram kominni og sökum tómlætis hafi stefndi fyrirgert sér rétt til að gera athugasemdir við reikningana. Stefnandi kveður að á hverjum reikningi komi fram að athugasemdir vegna reikninga, skemmda eða vöntunar þurfi að berast innan tíu daga frá dagsetningu reiknings, annars teljist hann samþykktur. Stefnandi byggir einnig á því að samkvæmt útboðsgögnum sem stefndi byggi sjálfur mál sitt á segi að gefnir séu 28 dagar frá því að kröfugerð sé lögð fram og þar til hún skuli samþykkt eða henni hafnað. Samkvæmt IST 30 sem stefndi og Eimskip sömdu um að gilti í samningum milli þeirra eru ákvæði þess efnis að greiðslu skuli lokið innan þriggja vikna frá því að hennar var krafist nema verkkaupi hafi borið skriflega fram rökstudd andmæli gegn reikningi.

                Í 47. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup segir að ef kaupandi hafi fengið reikning eða orðsendingu sé hann bundinn við það verð sem þar komi fram ef hann segi ekki til um það innan sanngjarns tíma að hann samþykki ekki verðið. Telur dómurinn að athugasemdir stefnda við réttmæti reikninganna séu of seint fram komnar. Þrátt fyrir þetta liggur fyrir í gögnum málsins að stefnandi samþykkti í tölvupósti þann 16. janúar 2015 útreikning á einingaverði á Pir-einingum að fjárhæð 3.500.000 krónur. Stefnandi lækkaði við upphaf aðalmeðferðar stefnufjárhæð sína um 3.400.678 krónur vegna þessa gengismunar. Telur dómurinn sannað að þrátt fyrir nýja útreikninga, beri stefnanda að veita stefnda afslátt að fjárhæð 3.500.000 krónur eins og hann hafði í upphafi samþykkt án fyrirvara. Verður dómkrafa stefnanda lækkuð í samræmi við þetta.

Í máli þessu gerir stefndi kröfu um lækkun á 21 reikningi sem ýmist eru greiddir athugasemdalaust eða ógreiddir í dag samtals að fjárhæð 11.522.185 krónur. Varðandi þá reikninga sem stefndi hefur greitt athugasemdalaust komu ekki fram mótmæli fyrr en í greinargerð stefnda 20. janúar 2016 og útreikningar ekki fyrr en með framlagningu skjala 17. mars sl. Þó eru almennar athugasemdir gerðar á fundum aðila 24. september og 7. október 2015 en þá er bókað eftir fyrirsvarsmanni stefnanda að honum finnist skrýtið að umræða um aukaverk hafi ekki komið upp fyrr en á fundi 18. ágúst 2015. Ekki eru nein mótmæli eða athugasemdir bókaðar vegna greiddra reikninga í fundargerðina. Stefnandi leitaði sér aðstoðar lögmanns sem sendi stefnda innheimtubréf 11. nóvember 2015 þar sem stefnandi krafði stefnda um ógreidda reikninga. Stefndi svaraði bréfi stefnanda með bréfi 26. nóvember 2015 en þar kveðst stefndi ekki þurfa að greiða fyrir meira en 378 til 431 tonn af stáli. Ekki eru gerðar efnislegar athugasemdir við framkomna reikninga stefnanda. Í greinargerð stefnda, sem lögð var fram 20. janúar 2016, segir að hluti reikninga stefnanda séu tilhæfulausir og að stefnda beri ekki að greiða fyrir meira en 431 tonn. Nánari útlistanir eru ekki gerðar fyrr en undir rekstri málsins er stefndi lagði fram sundurliðun á kröfugerð sinni þann 23. febrúar og 17. mars 2016 eða tæpum fimm mánuðum eftir að síðasti reikningurinn var gefinn út og sex mánuðum eftir að stefndi greiddi síðast reikning athugasemdalaust. Ósannað er að stefndi hafi gert athugasemdir við hvern reikning efnislega fyrr en undir rekstri málsins bæði hvað varðar gengisákvæði reikninganna og einingaverð sem krafið var um. Telur dómurinn að stefndi hafi með þessu athafnaleysi sínu glatað rétti sínum til að bera fyrir sig réttmæti þeirra reikninga sem hann í það minnsta greiddi athugasemdalaust og svo reikninga sem gefnir voru út síðar. Þá gerði stefndi ekki athugasemdir við það magn sem honum var afhent og á meðan enn var unnt að staðreyna ágreiningsefnið. Eins og málum er fyrirkomið í dag er aðilum ómögulegt að staðreyna hugsanleg mótmæli stefnda um að það magn hafi komið sem krafið er um. Falla þessar varnir stefnda því niður sökum tómlætis og ber að hafna þeim.

Stefndi krefur stefnanda um skaðabætur til skuldajafnaðar vegna tafabóta sem stefnda var gert að greiða Eimskipi hf., að fjárhæð 19.000.000 króna. Eins og fram hefur komið gerðu aðilar ekki með sér skriflegan samning um verkið og eru því engin sönnunargögn sem staðfesta efnisinnihald hans. Greinir menn á um ástæður þess að reising frystiskemmunnar dróst. Stefndi kveður ástæðu þess vera að stefnandi hafi ekki staðið við að afhenda stálið á þeim tíma er hann hafði lofað en stefnandi kveður drátt hafa orðið í upphafi vegna þess að hönnunarteikningar frá íslenskum hönnuði hafi ekki verið tilbúnar í tæka tíð svo að hægt hafi verið að hanna stálgrindina í húsið. Hafi dráttur framleiðanda því verið af völdum stefnda. Stefndi telur hafið yfir vafa að stefnanda hafi borið að afhenda stál og annað efni í samræmi við ákvæði útboðsgagna frá Eimskipi. Því hefur stefnandi mótmælt.

Ekkert kemur fram í gögnum málsins um það hvenær átti að afhenda stálið utan misvísandi skilaboð og fullyrðingar stefnda og stefnanda. Þó er ljóst að stálið hefur komið til stefnda síðar en gert var ráð fyrir gagnvart skilum til Eimskips.

 Í tölvupósti frá stefnanda til stefnda 10. febrúar 2015 segir að afgreiðsla á stálvirkinu fyrir forrými og frystiklefa 1 og að hluta af frystiklefa 2 verði komið til landsins í viku 18 og afgangurinn í viku 22 en það miðist við að ekki verði gerðar neinar þær breytingar á húsinu sem seinkað geti teiknivinnu. Vika 18 á árinu 2015 var 27. apríl til 2. maí og vika 22 25. til 30. maí. Í tölvupósti frá stefnanda til stefnda þann 9. mars segir að stefnandi hafi fengið hringingu frá hönnuðunum í Þýskalandi en þeir væru stopp þar sem arkitektateikningarnar sem hafi átt að berast þeim 9. mars hafi ekki borist og þeir gætu ekkert gert fyrr en þær bærust. Voru það teikningar á vegum stefnda. Af þessum sökum sagði þýska fyrirtækið sig frá verkinu og stefnandi þurfti að finna annan framleiðanda og hönnuð til að geta staðið við tilboð sitt. Telur dómurinn sannað að upphaf tafa vegna framleiðslu stálsins hafi verið af völdum sem stefnda var um kennt. Þá liggur fyrir að starfsmaður á vegum stefnda fór tvívegis til Póllands og heimsótti framleiðanda stálsins og lagði fyrir hann í hvaða röð hann vildi fá stálið afhent. Stefndi hefur ekki lagt fram nein gögn sem sanna þær tímasetningar og að stefnandi bæri ábyrgð á þeim. Eins og fyrr segir kom fram í tölvupósti að frystiklefi eitt væri allur kominn 1. júní. Ágreiningur er á milli aðila hverjum er um að kenna að dráttur varð á afhendingu stálsins og hefur það ekki verið upplýst í málinu. Stefndi heldur því fram að allur dráttur hafi verið af völdum stefnanda en stefnandi hefur mótmælt því og talið dráttinn vera vegna seinagangs hjá hönnuðum stefnda sem hafi haft keðjuverkandi áhrif. Því sé síðbúin afhending ekki á ábyrgð stefnanda. Þá kemur fram í tölvupósti að afhending stálsins hafi ekki verið í samræmi við óskir stefnda og samkvæmt því sem hann lagði fyrir framleiðandann að afhenda. Teikningar sem stefndi fór með til Póllands um breytt afhendingarfyrirkomulag voru ekki lagðar fram í málinu. Því eru engin gögn um þá breytingu sem gerð var á afhendingu stálsins en óumdeilt er að starfsmaður stefnda hafði óskað eftir að afhendingu stálsins frá framleiðanda yrði breytt í samræmi við kröfur hans. Af þessu verður ekki annað ráðið en að ósannað sé af hálfu stefnda að þær tafir sem urðu á afhendingu stálsins til stefnda hafi verið á ábyrgð stefnanda eða að stefnandi hafi ekki staðið við samninga um afhendingardag og að stefnanda beri að greiða stefnda skaðabætur vegna þess. Þá er ekkert í málinu um að stefnandi hafi tekið á sig ábyrgð eða dagsektir vegna tafa á afhendingu stálsins og telur dómurinn verksamning, sem stefndi gerði við Eimskip hf., stefnanda óviðkomandi og óskuldbindandi fyrir stefnanda. Verður stefnandi því sýknaður af þessari kröfu stefnda.

Þá krefur stefndi stefnanda einnig um skaðabætur til skuldajafnaðar að fjárhæð 3.196.564 krónur vegna stálsmíði á efni sem ekki hafi borist frá stefnanda. Stefndi féll frá kröfu um skaðabætur vegna missis verktakaálags 15% vegna stálsmíðinnar 2.692.369 krónur. Stefnandi samþykkti fyrir dóminum kröfu að fjárhæð 2.577.874 krónur vegna stálsmíðinnar utan virðisaukaskatts. Verktakaálag á þá fjárhæð er 386.681 króna sem stefndi krefur stefnanda um. Verður sú krafa tekin til greina.

 Þá krefst stefndi skaðabóta vegna nauðsynlegrar yfirvinnu sökum afhendingardráttar, að fjárhæð 12.336.006 krónur, vegna umfram hönnunar, 697.860 krónur, og vegna missis verktakaálags, 2.434.564 krónur, eða samtals 37.664.994 krónur. Stefnandi leggur fram í málinu afrit af reikningi frá VSB verkfræðistofu ehf., dagsettan 22. apríl 2015 að fjárhæð 2.692.369 krónur. Þrátt fyrir að lesa megi úr tölvupósti milli aðila að þurft hafi að smíða eitthvað af því efni sem virðist ekki hafa komið með í sendingum til stefnda hefur stefndi ekki lagt fram reikninga né sýnt fram á hvaða efni það var sem þurfti að smíða hérlendis utan það sem stefnandi hefur samþykkt að greiða og kemur fram í breyttri kröfugerð hans. Stefndi lagði fram yfirlit yfir unnar klukkustundir hjá starfsmönnum stefnda. Er útilokað að sjá af því skjali að það hafi verið yfirvinna sem hafi verið unnin vegna tafa á ábyrgð stefnanda. Er þessi skaðabótakrafa eins og hún er fram sett, ásamt vinnu við umrædda smíði, svo vanreifuð að henni ber að hafna.   

Að lokum krefst stefndi lækkunar á kröfum stefnanda vegna kreditfærslu frá Eimskipi til stefnanda vegna flutningskostnaðar að fjárhæð 1.050.000 krónur. Engin gögn eru í málinu sem sýna fram á þessa fjárhæð utan færslu á skjali sem segir: „Villa í taxta 900 EUR, hærri sjófrakt um 5200EUR, hærri uppskipun 900 EUR, samtals ISK 1.050.000.“ Í tölvupósti frá 29. september 2015 sem stefndi vísar til er ekkert að finna um að þessi fjárhæð verði kreditfærð á stefnanda. Því liggur ekkert fyrir í gögnum málsins né viðurkenning stefnanda um að ofangreind fjárhæð hafi verið bakfærð af hálfu Eimskips. Verður því að hafna þessari kröfu stefnda.

Af öllu framangreindu virtu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 81.741.822 krónur. Stefnandi krefur stefnda um dráttarvexti frá útgáfudegi reikninga til greiðsludags að frádregnum innborgunum. Eins og máli þessu er háttað er ljóst, þótt aðilar hafi ekki getað staðfest hvað þeim hafi farið á milli á sáttafundum, að drátt á uppgjöri aðila megi rekja til þeirra beggja. Verður stefndi því dæmdur til greiðslu dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af ofangreindri fjárhæð frá því að mál þetta var höfðað með birtingu stefnu þann 8. desember 2015 til greiðsludags.

Að þessum málalokum virtum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að upphæð  2.200.000 krónur.

Ástríður Grímsdóttir kveður upp dóm þennan.

Við uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð.

Stefndi, VHE ehf., greiði stefnanda Hýsi-Merkúr hf., 81.741.822 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. desember 2015 til greiðsludags

Stefndi greiði stefnanda 2.200.000 krónur í málskostnað.