Print

Mál nr. 310/2017

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
X (Björn Þorri Viktorsson hrl.)
, (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður brotþola )
Lykilorð
  • Fjárkúgun
  • Samverknaður
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
Reifun

X var sakfelld fyrir fjárkúgun samkvæmt 251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í félagi við dómfelldu Y haft fé af A með hótunum um að Y myndi leggja fram kæru hjá lögreglu gegn honum fyrir nauðgun ef hann greiddi þeim ekki nánar tilgreinda fjárhæð. X var jafnframt sakfelld fyrir tilraun til fjárkúgunar samkvæmt sömu lagagrein, sbr. 20. gr. laganna, með því að hafa í félagi við Y reynt að hafa fé af B með hótunum um að birta að öðrum kosti viðkvæmar upplýsingar sem gætu haft áhrif á stöðu hans. Við ákvörðun refsingar X, sem var ekki talin eiga sér neinar málsbætur, var litið til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þar sem brot hennar og tilraunarbrot voru framin í félagi við Y og þess að ásetningur X var styrkur og einbeittur, sbr. 6. tölulið 1. mgr. sömu lagagreinar. Á hinn bóginn var horft til þess að X hafði ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Að því virtu og með hliðjón af 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing X ákveðin fangelsi í 12 mánuði en fullnustu níu mánaða refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var X og Y gert að greiða A óskipt 1.300.000 krónur í skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. maí 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærða krefst þess að hún verði sýknuð af I. kafla ákæru, en sakfelld fyrir hlutdeild í broti samkvæmt II. kafla hennar og refsing milduð. Þá krefst hún þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til að vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærðu verði gert að greiða sér 1.700.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu verði staðfest.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu samkvæmt ákæru héraðssaksóknara 31. október 2016 fyrir annars vegar fjárkúgun samkvæmt 251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem henni er gefin að sök í I. kafla ákærunnar, og hins vegar tilraun til fjárkúgunar samkvæmt sömu lagagrein, sbr. 20. gr. sömu laga, eftir II. kafla hennar.

Við ákvörðun refsingar ákærðu, sem á sér engar málsbætur, verður litið til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þar sem brot hennar og tilraunarbrot voru framin í félagi við dómfelldu, Y, og þess að ásetningur ákærðu var styrkur og einbeittur, sbr. 6. tölulið 1. mgr. sömu lagagreinar. Á hinn bóginn verður tekið tillit til þess að ákærða hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga verður refsing ákærðu staðfest, svo og skilorðsbinding hennar að hluta.

Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærða verður dæmd til að greiða brotaþola málskostnað við að halda bótakröfu sinni fram hér fyrir dómi eins og í dómsorði greinir, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dæma ber ákærðu til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærða, X, greiði A 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.124.392 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björns Þorra Viktorssonar hæstaréttarlögmanns, 992.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 7. apríl 2017

                Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 21. mars sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 27. október 2016, á hendur Y, kennitala [...], [...], [...], og X, kennitala [...], [...], [...],

I.

1.       Fyrir fjárkúgun, með því að hafa í apríl 2015 í félagi haft 700.000 krónur af A með hótunum um að ákærða Y myndi leggja fram kæru hjá lögreglu gegn A fyrir að hafa nauðgað henni laugardaginn 4. apríl 2015 ef hann ekki greiddi þeim féð. Ákærða X ræddi í nokkur skipti við A í síma á tímabilinu 8.-10. apríl og greindi honum frá því að ákærða Y myndi kæra hann til lögreglu fyrir nauðgun ef hann ekki greiddi þeim féð fyrir klukkan 16 föstudaginn 10. apríl. A afhenti ákærðu X 500.000 krónur föstudaginn 10. apríl og 200.000 krónur mánudaginn 13. apríl á skrifstofu ákærðu X í [...] í Reykjavík og skiptu ákærðu fénu á milli sín.

Telst þetta varða við 251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

                Fyrir tilraun til fjárkúgunar, með því að hafa í maí 2015 í félagi reynt að hafa fé af B, þáverandi [...], með hótunum um að birta að öðrum kosti viðkvæmar upplýsingar sem gætu haft áhrif á stöðu og framtíð B í [...], svo sem hér nánar greinir:

  1. Miðvikudaginn 20. maí eða fimmtudaginn 21. maí setti ákærða X inn um bréfalúguna að [...], á heimili C, aðstoðarmanns B, umslag með ódagsettu og nafnlausu bréfi sem hún hafði ritað og ákærða X prentað út, en bréfið innhélt hótun um að bréfritari myndi birta opinberlega upplýsingar sem hann sagðist hafa undir höndum og vörðuðu afskipti B af fjárhagsmálefnum [...] ehf., ef B ekki greiddi 7.500.000 krónur og setti í tösku og afhenti klukkan 9:30 þriðjudaginn 25. maí. Ekki kom fram í bréfinu hvar afhenda ætti féð auk þess sem umslagið var ekki opnað fyrr en 1. júní.
  2. Þriðjudaginn 26. maí eða miðvikudaginn 27. maí við [...] póstlagði ákærða Y annað ódagsett og nafnlaust bréf til B sem hún hafði sjálf ritað og ákærða X prentað út og ritað nafn og heimilisfang D, eiginkonu B, á umslagið. Bréfið barst á heimili B, að [...], fimmtudaginn 28. maí. Efni þess var samhljóða því bréfi sem borið var út á heimili C, sbr. ákærulið 2, en þess nú krafist að B greiddi 8.000.000 króna og fylgdu fyrirmæli um afhendingarmáta, gps-hnit og ljósmyndir af afhendingarstaðnum, sem var við Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði. Ákærðu voru handteknar föstudaginn 29. maí við Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði eftir að þær höfðu sótt pakkningu í tösku sem þær töldu innihalda umkrafða greiðslu 8.000.000 króna í seðlum af hendi B, en pakkningin hafði verið skilin þar eftir í trékassa, í samræmi við fyrirmæli þeirra.

                Teljast brot samkvæmt 2. og 3. ákærulið varða við 251. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdar til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærðu verði dæmdar til að greiða honum, óskipt, skaðabætur að fjárhæð 1.700.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 13. apríl 2015, til þess dags þegar liðinn er mánuður frá því þeim var birt skaðabótakrafan, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærðu verði dæmdar til þess að greiða honum málskostnað við að halda fram kröfunni.

                Verjandi ákærðu Y krefst þess aðallega að ákærða verði sýknuð af I. kafla ákæru og einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara krefst hún vægustu refsingar sem lög leyfa sem öll verði bundin skilorði og hún verði sýknuð af einkaréttarkröfu eða fjárhæð hennar lækkuð verulega. Þá krefst hún vægustu refsingar sem lög leyfa, sem öll verði skilorðsbundin, vegna II. kafla ákæru. Jafnframt krefst hún þess að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greidd úr ríkissjóði.

                Verjandi ákærðu X krefst þess aðallega að ákærða verði sýknuð í I. kafla ákæru, en til vara að refsing verði felld niður og til þrautavara að ákærðu verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa sem öll verði bundin skilorði. Þá krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa vegna II. kafla ákæru. Jafnframt krefst hann þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði stórlega lækkuð. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna.

Málsatvik

I. kafli ákæru.

                Þann 3. júní 2016 mætti brotaþoli, A, á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til þess að leggja fram kæru á hendur ákærðu. Hann kvaðst hafa verið beittur blekkingum á tímabilinu 4. til 13. apríl 2015 í þeim tilgangi að hægt væri að kúga af honum 700.000 krónur. Hann kvaðst hafa tekið ákvörðun um að kæra eftir fréttaflutning um ákærðu daginn áður. Brotaþoli lýsti því að hann hefði unnið með ákærðu Y þremur árum áður. Þau hefðu hist skömmu áður og ákveðið að fara út saman laugardagskvöldið 4. apríl. Hún hefði komið í heimsókn til hans og þau farið út að borða. Þaðan hefðu þau farið á Kaffibarinn og svo heim til brotaþola þar sem þau hefðu sofið saman. Eftir það hefði ákærða viljað að hann kæmi út að skemmta sér með henni, en hann hefði ekki viljað það. Fram kom að ákærða Y hefði verið drukkin.

                Næsta dag hefði hann sent henni skilaboð á Facebook sem hún hefði ekki svarað. Mánudaginn eftir hefði systir ákærðu Y, ákærða X, hringt í hann og viljað hitta hann. Hann hefði verið staddur í heilsuræktinni í Laugum og hún hefði viljað hitta hann þar. Hún hefði komið til hans og spurt hvað hann hefði sett í drykk ákærðu Y. Hann hefði ekki skilið þetta og farið út í bifreið þar sem ákærða Y hefði verið. Hún hefði tekið einhvers konar kast og sagt að hún vildi ekki ræða við hann en hún myndi ekki hvað hefði gerst. Hann kvaðst hafa verið í áfalli og ekki skilið hvað hefði verið í gangi. Á þriðjudeginum hefði hann ekki heyrt frá þeim systrum en tekið eftir því að ákærða Y hefði verið búin að eyða honum út af Facebook. Hann hefði leitað til læknis þar sem málið hefði legið þungt á honum.

                Á miðvikudeginum hefði hann sent skilaboð til ákærðu X og hún hringt í hann. Hann kvað hana hafa sýnt sögu hans mikinn skilning en talað um að systir hennar væri í einhverju áfalli. Á fimmtudeginum hefðu þau aftur rætt saman og ákærða X hefði sagt honum að ákærða Y hefði farið á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Komið hefði í ljós að hún bæri öll merki þess að hafa verið nauðgað og leifar af lyfjum hefðu fundist í blóði hennar. Hún væri nú komin með réttargæslumann sem segði málið tilbúið til vinnslu. Málið væri erfitt þar sem hann myndi lenda í tölvukerfi sem hann kæmist ekki úr. Ákærða Y væri tilbúin til að leysa málið með sátt ef hann borgaði 700.000 krónur. Hann yrði að ákveða sig innan eins og hálfs tíma, en þær væru á leiðinni til lögfræðings að setja málið af stað.

                Brotaþoli kvaðst telja að hann hefði ekki gert neitt rangt, en hann hefði ekki þorað annað en að borga þar sem hann hefði verið hræddur um mannorðsmissi sem fylgdi slíkri kæru. Hann hefði hitt ákærðu X í [...] á föstudeginum og afhent henni 500.000 krónur, en hann hefði ekki getað útvegað meiri peninga. Hún hefði sagt að þetta væri ekki nóg og hann hefði mætt aftur næsta mánudag með 200.000 krónur til viðbótar. Ákærða X hefði veitt honum kvittun fyrir móttöku fjárins.

                Í málinu liggja frammi kvittanir vegna framangreindrar greiðslu og hljóðupptökur af þremur samtölum brotaþola við ákærðu X sem brotaþoli tók upp og afhenti lögreglu. Þá liggja fyrir upplýsingar um símasamskipti ákærðu og brotaþola, auk fjárhagsupplýsinga um ákærðu.

                Ákærða X kærði í framhaldi ætlaða nauðgun til lögreglu. Með bréfi 16. nóvember 2016 var rannsókn þess máls hætt þar sem ekki var talinn frekari grundvöllur til áframhaldandi rannsóknar, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

                E geðlæknir var af lögreglu fenginn til að vinna geðrannsókn á ákærðu Y í því skyni að meta hvort hún teljist sakhæf í skilningi 15. gr. laga nr. 19/1940 eða eftir atvikum hvort ætla megi að refsing muni bera árangur í skilningi 16. gr. laganna. Í málinu liggur fyrir skýrsla hans frá 12. júlí 2015. Kemur þar fram að ákærða [...]. Það er niðurstaða geðlæknisins að í viðtölum við ákærðu væri ekki hægt að fá fram nein þau einkenni sem talin séu upp í 15. gr. laga nr. 19/1940. Þá komi ekkert læknisfræðilegt fram sem útiloki að refsing kunni að bera árangur reynist ákærða sek, sbr. 16. gr. laganna.

II. kafli ákæru.

                Samkvæmt skýrslu lögreglu fékk hún að kvöldi fimmtudagsins 28. maí 2015 upplýsingar um bréf sem borist hefði þann sama dag á heimili þáverandi [...]. Í bréfinu væri hann krafinn um 8.000.000 króna, ellegar myndu viðkvæmar upplýsingar um aðkomu hans að skuldamálum [...] ehf. hjá [...] banka gerðar opinberar og hann fá fjölmiðlaumfjöllun „af verri sortinni“. Fram kom að afhenda ætti peningana í tösku föstudaginn 29. maí kl. 9:30 við Krýsuvíkurveg. Meðfylgjandi voru gps-hnit af afhendingarstaðnum og ljósmynd. Vinna lögreglu við að upplýsa um sendanda bréfsins leiddi til handtöku ákærðu í nágrenni við afhendingarstaðinn.

                Mánudaginn 1. júní 2015 barst lögreglu annað bréf sem hafði borist á heimili þáverandi aðstoðarmanns B, en bréfið var ætlað B. Bréfið var í stóru brúnu umslagi og hafði ekki verið póstlagt. Það hafði borist nokkrum dögum fyrr en hafði legið í blaðabunka á skrifstofu á heimili hans. Inntak bréfsins var það sama og þess sem barst á heimili B 28. maí, fyrir utan það að krafist var 7.500.000 króna og ekki getið um afhendingarstað. Þá átti að afhenda peningana 25. maí.

                Í málinu liggja meðal annars fyrir gögn úr síma- og tölvurannsóknum hjá ákærðu og hljóðupptaka frá ákærðu Y úr bifreið þeirra systra að morgni 29. maí 2015.

Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi

                Ákærða Y greindi frá því að hún og A hefðu verið vinir í áratug. Hún hefði aldrei haft áhuga á neinu öðru en vináttu við hann. Þau hefðu ákveðið að hittast laugardaginn 4. apríl 2015 og hún hefði farið heim til hans. Þar hefði hún drukkið tvo til þrjá bjóra, en hann drekki ekki. Þau hefðu svo farið út að borða á Kryddlegnum hjörtum. Þar hefði hún fengið sér eitt rauðvínsglas með matnum. Leið þeirra hefði síðan legið á Kaffibarinn þar sem hún hefði fengi sér einn stóran bjór. Þau hefðu hlegið mikið saman og grínast. Hún hefði talið að þau ætluðu að halda áfram að skemmta sér og fara á pöbbarölt. Hún hefði síðan séð tiltekna konu sem hefði ætlað á klósettið, en það hafi verið upptekið. Hún hefði grínast með að konan gæti farið á karlaklósettið en A hefði ekki fundist það fyndið. Henni hefði þótt það skrítið. Það næsta sem hún muni sé að hann hefði verið inni í henni og hún að reyna að berjast um. Hún hefði ekki getað barið frá sér og ekki skilið hvað væri að gerast. Hann hefði hins vegar sagt „jájá jájá“. Hún hefði síðan farið í fötin og út á götu. Þar hefði hún strax hringt í meðákærðu X og sagt henni að hún héldi að hún hefði verið að sofa hjá A. Meðákærða hefði spurt hana á hverju hún væri þar sem hún hefði heyrt á henni að eitthvað væri ekki í lagi. Ákærða neitaði því að hafa sagt að henni hefði verið nauðgað. Hún hefði hitt vin sinn í bænum eftir þetta og haldið áfram að skemmta sér en verið mjög skrítin.

                Daginn eftir hefði svo runnið upp fyrir henni hvað hefði gerst. Hún hefði verið örvingluð og í slæmu ástandi, en meðal annars hefði hana vantað lyf sem hún þurfti á að halda. Hún hefði rætt við nokkra vini sína þann dag og líklega við meðákærðu líka. Á mánudeginum hefðu hún og meðákærða farið í World Class til að hitta A. Hann hefði komið út til hennar. Hún hefði brjálast, öskrað á hann og potað í bringuna á honum, en hún muni þó ekki glögglega eftir þessu. Þetta hefðu verið síðustu samskipti hennar við hann. Hún hefði hent honum út af Facebook án þess að svara skilaboðum hans.

                Miðvikudaginn 8. apríl hefði hún leitað á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota. Hún hefði ekki fengið neinar upplýsingar um skoðunina, en læknirinn hefði ætlað að hringja og láta hana vita um niðurstöðurnar. Hann hefði aldrei hringt. Hún hefði farið til sálfræðings einu sinni. Þá hefði henni verið boðið upp á réttargæslumann sem hún taldi að hún hefði rætt við í síma. Ákærða sagðist hafa greint meðákærðu frá skoðuninni og því að engar niðurstöður væru úr henni. Hún neitaði því að hafa talað um að merki um „dröggun“, marblettir eða rispur hefðu fundist. Þær hefðu rætt um hvort hún myndi kæra þetta til lögreglu en hún hefði tekið ákvörðun um að gera það ekki.

                Á sama tíma hefði A farið að hafa samband við meðákærðu og spyrja hana hvað ákærða Y ætlaði að gera í málinu. Hún hefði leyft meðákærðu að taka stjórnina og ekki fengið miklar upplýsingar um samtöl hennar við A. Meðákærða hefði spurt hana hvort hún væri til í að semja við hann þar sem honum liði svo illa. Hún hefði fallist á það þar sem hún myndi þá fá bætur vegna atburðarins fyrr. Þá hefði hún verið í mjög slæmu andlegu ástandi. Hún kvaðst ekki muna hvaðan hugmyndin að fjárhæðinni hefði komið. Meðákærða hefði alfarið séð um framkvæmdina á þessu og hún hefði einungis spurst fyrir um hvort hann væri búinn að greiða. Hún hefði aldrei sagt meðákærðu að segja við A að málið yrði kært myndi hann ekki greiða. Þær hefðu ekki rætt um hvort greiðsla skyldi fara fram með peningum eða hvort leggja mætti hana inn á bankareikning. Þær meðákærða hefðu skipt peningunum jafnt á milli sín, 350.000 krónur til hvorrar. Þær hefðu hist við vinnustað meðákærðu og ekið stuttan spöl þar sem þær hefðu skipt peningunum. Þetta gæti hafa verið 10. apríl, en hún var ekki viss um hvort greiðslan hefði öll verið komin þá.

                Ákærða kvað fjárhag sinn ekki hafa verið góðan á þessum tíma og peningarnir hefðu því verið kærkomnir. Meðákærða hefði líka verið illa stödd fjárhagslega og hún hefði fengið helming upphæðarinnar þar sem hún hefði séð um alla framkvæmdina. Hún hefði talið þetta farsælli leið en að fara í gegnum sársaukafull réttarhöld en kvaðst ekki viss um hvað hún hefði gert ef A hefði ekki innt greiðsluna af hendi.

                Spurð um smáskilaboð milli þeirra meðákærðu kvað hún skilaboð, um að þær skyldu gera þetta og að hún væri mjög ákveðin, eiga við um sölu á lóð sem þær hefðu verið að ræða. Skilaboð meðákærðu um ýmsar hugmyndir hennar taldi hún geta vísað til þess að A hefði viljað semja um málið. Hún taldi þá hugmynd hafa komið frá honum en spurð um framburð hennar hjá lögreglu um að meðákærða hefði átt hugmyndina kvað hún svo geta verið. Skilaboð um að þetta hefði verið „teamwork“ taldi hún vísa til þess að málið hefði verið leyst farsællega og hún hefði aldrei getað það ein. Hún hefði verið ánægð með að hægt hefði verið að leysa málið með þessum hætti.

                Varðandi II. kafla ákærunnar lýsti ákærða Y því að þær meðákærða hefðu tekið sameiginlega ákvörðun. Hún hefði talið sig búa yfir upplýsingum sem gætu komið þáverandi [...] illa. Hugmyndin hefði komið frá henni sjálfri en meðákærðu hefði litist vel á hana. Hún hefði tekið fullan þátt í framkvæmdinni og verið 50% þátttakandi allan tímann. Hún hefði aldrei reynt að draga úr henni eða telja henni hughvarf. Ákærða hefði skrifað bréfin en meðákærða sett þau á minniskubb og gert smávægilega breytingar. Meðákærða hefði svo prentað bréfin út í vinnunni. Hún hefði verið jafnspennt yfir þessu. Þær hefðu ekið saman í Hafnarfjörð og valið stað til afhendingar peninganna. Þær hefðu svo farið og keypt umslög og frímerki. Þær hefðu gætt þess sérstaklega að ekki kæmu fingraför. Bréfin hefðu orðið tvö þar sem meðákærða hefði gleymt að setja hnitin inn í fyrra bréfið. Hún hefði sjálf farið með það bréf heim til aðstoðarmanns B en hitt bréfið hefði hún sett í póst í Grafarvogi. Þær hefðu svo farið saman á afhendingarstaðinn. Meðákærða hefði komið með kíki og myndavél. Hún hefði fengið lánaða bifreið til þess að þær myndu ekki þekkjast. Meðákærða hefði svo flett upp númerum nálægra bifreiða til þess að gæta þess að ekki væri um lögregluna að ræða. Hún hefði tekið upp hljóð af hluta samskipta þeirra meðan á þessu hafi staðið. Ákærða kvað þær hafa ætlað að skipta fjárhæðinni til helminga. Ástæða þessa hefði verið fjárhagsskortur þeirra beggja.

                Ákærða lýsti því að hún hefði verið illa stödd andlega á þessum tíma og skildi ekki af hverju hún hefði gert þetta. Hún greindi frá því að hafa leitað sér hjálpar og lýsti stöðu sinni í dag. Þá greindi hún frá því að fjölmiðlaumfjöllun um málið hefði verið henni þungbær.

                Ákærða X lýsti því að meðákærða Y hefði hringt í sig eftir miðnætti laugardagskvöldið 4. apríl 2015 og sagt að A hefði nauðgað henni. Hún hefði heyrt að meðákærða væri í annarlegu ástandi, ekki eins og hún væri ölvuð heldur frekar eins og hún væri lyfjuð. Hún hefði sjálf verið úti á landi og ekki getað hjálpað henni en sagt henni að koma sér heim eins fljótt og hún gæti. Spurð um skilaboð sem hún sendi meðákærðu fáum mínútum síðar um að hún væri „öfgafyndinn snillingur“ kvað hún þau hafa tengst því sem þær hefðu rætt í lok símtalsins um konu sem meðákærða hefði hitt fyrr um kvöldið. Skilaboðin tengdust því ekki nauðguninni en hún hefði verið miður sín yfir henni.

                Ákærða kvaðst hafa heyrt aftur í meðákærðu tveimur dögum síðar. Hún hefði þá verið í undarlegu ástandi. Þær hefðu þann dag farið í World Class í Laugum og hitt A. Hún hefði farið inn og spurt hann hvað hann hefði gert. Hann hefði komið út og hitt meðákærðu sem hefði gert honum ljóst að hún vildi ekki tala við hann. Eftir þetta hefði A farið að hringja í hana til spyrja um stöðuna á málinu. Hann hefði aldrei viðurkennt að hafa beitt meðákærðu valdi heldur talið að samþykki beggja hefði verið fyrir hendi. Hún hefði verið komin í óþægilega stöðu við að flytja fréttir á milli þeirra.

                Hún hefði ekið meðákærðu á neyðarmóttöku en hún hefði verið að hugsa um að kæra. Hún hefði sjálf hvatt hana til þess. Hún hefði rætt við meðákærðu eftir skoðunina. Hún hefði sagt að á henni hefðu fundist áverkar sem bentu til þess að henni hefði verið nauðgað og hún sýndi merki um „dröggun“. Þá hefði henni verið úthlutað réttargæslumanni. Ákærða hefði fengið leyfi meðákærðu til að greina A frá þessum niðurstöðum. Hún hefði trúað því sem meðákærða hefði sagt henni og einungis sagt honum það.

                Meðákærða hefði átt hugmynd að því að leysa málið með sátt. A hefði tekið vel í það. Hún taldi að málið hefði farið í kæruferli ef hann hefði ekki greitt. Hann hefði komið tvisvar sinnum í vinnuna til hennar með peningagreiðslu, annars vegar 500.000 krónur og hins vegar 200.000 krónur. Meðákærða hefði ekki viljað að fjárhæðin yrði lögð inn á bankareikning. Hún hefði látið meðákærðu hafa alla fjárhæðina, að undanskildum 200.000 krónum sem hún hefði fengið lánaðar til þess að greiða gamla visa skuld. Þær meðákærða hefðu verið í samskiptum um þetta þegar hann hefði komið til hennar með greiðslurnar. Ákærða staðfesti að upptökur af samtölum frá A væru samtöl við hana.

                Spurð um skilaboð hennar til meðákærðu um að hún hefði „vondar/gúdd“ hugmyndir kvaðst hún hafa verið meðvirk með meðákærðu og hafa verið að reyna að selja bifreið sem hún hefði átt. Þá hefði hún fengið hugmynd um að skrifa skáldsögu ásamt meðákærðu í því skyni að afla peninga. Hún lýsti því þó að fjárhagsstaða hennar hefði ekki verið slæm á þessum tíma. Hún hefði verið í góðu starfi, átt þrjár bifreiðar og vel náð endum saman. Hún hefði hins vegar haft miklar áhyggjur af andlegu ástandi meðákærðu og óttast að missa hana. Því hefði hún viljað gera þessa hluti til að hjálpa henni.

                Varðandi II. kafla ákærunnar lýsti ákærða X því að hugmyndin hefði komið frá meðákærðu Y. Hún hefði boðið sér í mat og sagt henni að hún vissi eitthvað um þáverandi [...] sem hann vildi ekki að yrði gert opinbert. Hún hefði talið að þetta væri einhvers konar drykkjutal og hlegið að þessu. Henni hefði fundist þetta alveg galið. Meðákærða hefði hins vegar ekki gleymt þessu og farið aftur að ræða um þetta. Hún hefði þá verið búin að skrifa bréfin. Ákærða hefði lánað henni minniskubb og prentað bréfin út fyrir hana af því að hún hefði sagt prentarann sinn bilaðan. Hún hefði skimað yfir bréfin en ekki viljað lesa þau þar sem henni hafi þótt þau ógeðfelld. Hún hefði ekki átt þátt í sendingu bréfanna.

                Þann 29. maí 2015 hefði hún átt frí í vinnunni. Hún hefði þá farið með meðákærðu á afhendingarstaðinn. Hún hefði tekið með sér myndavél og sjónauka að ósk meðákærðu. Þær hefði farið á bifreið meðákærðu en þar sem meðákærða hefði viljað skipta um bifreið hefði hún fengið lánaða bifreið í bifreiðaumboði. Þær hefðu ekið um nokkra stund en meðákærða hefði síðan viljað fara að töskunni. Hún hefði reynt að fá hana ofan af þessu í bifreiðinni og fara seinna að skoða staðinn en meðákærða ekki viljað það. Ákærða kannaðist við hljóðupptöku úr bifreiðinni og kvað þær hafa verið að flett upp númerum af bifreiðum, en mikil umferð hefði verið um svæðið. Meðákærða hefði farið út í hraun til þess að sækja töskuna en hún sjálf beðið. Lögreglan hefði svo komið.

                Ákærða taldi að hún hefði ekki verið þátttakandi í þessari atburðarás. Hún hefði strax frá upphafi sagt að þetta væri galið. Meðákærða, systir hennar, hefði komið til hennar hálfgrátandi í slæmu andlegu ástandi og beðið hana um aðstoð. Hún hefði þá prentað bréfin út fyrir hana vegna meðvirkni sinnar. Aðspurð kvað ákærða bréfin ekki hafa verið prentuð út á sama tíma og verið gæti að annað hefði verið skilið eftir í vinnunni hennar fyrir meðákærðu. Henni hefði ekki dottið í hug að hringja í lögreglu en hún hefði íhugað að fara með meðákærðu til læknis. Meðákærða hefði verið illa stödd andlega og ákærða hefði verið hrædd um hana. Ákærða kvaðst iðrast aðkomu sinnar að málinu. Hún sagði að hún hefði átt erfitt eftir að málið komst upp. Meðal annars hefði fjölmiðlaumfjöllun verið langvarandi og niðurlægjandi. Þá greindi hún frá núverandi aðstæðum sínum.

                Vitnið A greindi frá því að hafa farið út með ákærðu Y. Hann hefði sent henni skilaboð daginn eftir, sem hún hefði ekki svarað. Næsta dag hefði ákærða X hringt í hann og viljað hitta hann. Hann hefði ekkert vitað um hvað málið snerist. Hún hefði komið til hans og spurt hvað hann hefði sett í drykk ákærðu Y. Hann hefði verið undrandi og ekki skilið þessa spurningu. Hann hefði farið út í bifreið til ákærðu Y sem hefði verið í mikilli geðshræringu og spurt hvernig hann hefði getað sofið hjá drukkinni vinkonu sinni. Hann hefði ekki áttað sig á því hvað gengi á en orðið hræddur. Ákærða X hefði sagt hana í miklu uppnámi en hann hefði ekki verið sakaður um neitt. Hann hefði verið í slæmu andlegu ástandi eftir þetta og haft samband við geðlækni. Læknirinn hefði bent honum á að vera í sambandi við þær og fá svör við því um hvað þetta snerist. Aðspurður kvað hann ákærðu X hafa greint honum frá símtali ákærðu Y um nóttina. Hún hefði sagt honum að ákærða Y hefði hljómað lyfjuð. Hún hefði hins vegar ekkert minnst á nauðgun.

                Hann hefði í framhaldi átt samskipti við ákærðu X. Hún hefði sagt honum frá heimsókn ákærðu Y á bráðamóttöku. Honum hefði í fyrstu verið létt og talið að hún væri komin að geðdeild. Á fimmtudagsmorgni hefði ákærða X greint honum frá því að um neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis hefði verið að ræða. Hún hefði svo um kvöldið sagt honum að hún hefði því miður ekki góðar fréttir. Einhvers konar nauðgunarlyf hefði fundist hjá ákærðu Y, en það gæti greinst í allt að viku, og á henni hefðu fundist áverkar. Hún bæri öll merki þess að hafa verið nauðgað. Þá væri hún komin með réttargæslumann og hefði mjög sterkt mál í höndunum. Þarna hefði hann í fyrsta sinn heyrt minnst á nauðgun. Hann hefði viljað ræða sjálfur við ákærðu Y og hjálpa henni að rifja upp hvað hefði gerst þetta kvöld, en ekki fengið það. Hann hefði talið að hún væri í einhvers konar geðrofi.

                Honum hefði liðið mjög illa og séð fyrir sér að kæra gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir mannorð hans og starfsferil, jafnvel þótt hann yrði sýknaður. Ásökun um kynferðisbrot jafngildi sekt hjá dómstóli götunnar. Ákærða X hefði bent honum á að hann yrði skráður í málaskrá lögreglunnar þaðan sem nafnið hans færi aldrei. Vitnið lýsti því jafnframt að fyrrum sambýlismaður ákærðu Y hefði sent honum skilaboð um að hann vissi af málinu og vildi ekki eiga í samskiptum við hann. Þá vissi hann að barnsfaðir hennar væri tengdur undirheimunum og hann vildi alls ekki að hann heyrði þessa sögu.

                Á föstudagsmorgni hefði ákærða X haft samband við hann og sagt að hún hefði rætt við ákærðu Y og fengið hana til að fallast á að hann myndi leysa málið með því að greiða henni peninga. Hún hefði sagt að þær væru að ákveða fund með lögfræðingi vegna málsins. Ákærða Y þyrfti að ákveða fyrir kl. 12 hvort hún ætlaði að kæra þar sem kæran þyrfti að vera komin inn fyrir kl. 16 svo hún næði inn fyrir helgi. Hann þyrfti því að svara þeim fyrir kl. 12. Hann hefði sjálfur talið að peningar myndu ekki leysa málið. Hins vegar hefði fjárhæðin verið viðráðanleg. Honum hefði verið ráðið frá því að gera þetta en látið til leiðast þar sem hann hefði átt mjög erfiða daga og fundist sér vera haldið í gíslingu. Hann hefði svo tekið upp samtöl við ákærðu X til þess að tryggja að ekki væri hægt að líta svo á að hann væri að játa neina sekt með því að greiða þessa fjárhæð. Hann hefði útvegað 500.000 krónur og farið með til hennar samdægurs. Hún hefði ekki talið þetta nægjanlegt og hann hefði farið aftur til hennar næsta mánudag með 200.000 krónur til viðbótar. Hann hefði viljað millifæra fjárhæðina en ákærða X hefði ekki viljað það. Þá hefði hann viljað fá kvittun til þess að eiga einhverja staðfestingu á greiðslunni. Hann hefði viljað tengja ákærðu Y við greiðsluna en ákærða X hefði ekki viljað það.

                Vitnið lýsti því að málið hefði fengið mikið á hann. [...]. Málið truflaði hann enn í dag. Meðal annars hefði fjölmiðlaumfjöllun verið mikil og óþægileg, en nafn hans hefði birst í fjölmiðlum skömmu eftir að hann hefði kært.

                Vitnið F lögreglumaður gerði grein fyrir samantektum sínum um rannsókn málsins. Hann kvað þær hafa verið settar saman til þess að auðveldara væri að átta sig á tímalínu málsins. Sérstaklega spurður taldi hann ekkert koma fram í gögnum málsins sem benti til þess að ákærða X hefði ekki verið fullur þátttakandi í II. kafla ákærunnar.

                Vitnið E geðlæknir greindi frá geðrannsókn sinni á ákærðu Y. Hún uppfyllti ekki skilyrði 15. gr. almennra hegningarlaga og ekkert læknisfræðilegt kæmi í veg fyrir að refsing bæri árangur. [...]. Niðurstaða rannsóknar hans væri að ákærða væri sakhæf en langsótt væri að komast að annarri niðurstöðu.

                Vitnið G geðlæknir staðfesti tvö vottorð sín í málinu vegna ákærðu Y. [...].

                Vitnið H sálfræðingur greindi frá tíu viðtölum við ákærðu Y frá sumri 2015 og staðfesti skýrslu sína. Hún hefði ekki rætt málið við ákærðu í smáatriðum en komið hefði fram að henni hefði verið nauðgað. Ákærða væri haldin skömm og sektarkennd. [...].

                Vitnið I sálfræðingur kvað ákærðu X hafa leitað til hans eftir að málið kom upp. Hún hefði komið í gegnum VIRK. Hún hefði misst starf sitt og meðferð hans hefði gengið út á að efla hana þannig að hún gæti snúið aftur til starfa. Málið hefði verið henni þungbært og hún hefði orðið fyrir endurteknum áföllum vegna þess, meðal annars vegna umfjöllunar fjölmiðla. Málið hafi því dregist óþarflega á langinn. Líðan hennar hefði verið sveiflukennd þennan tíma. Unnið hafi verið með einkenni áfallastreitu sem nú séu ekki lengur fyrir hendi. Hálfur sigur hafi náðst en hún sé nú komin í 50% starfshlutfall. Ákærða sé vönduð manneskja sem þekki vel muninn á réttu og röngu. Hún sé viljug til að bæta fyrir brot sitt. Hún hafi mjög gott minni en slíkt hafi verið misskilið af lögreglu sem tilbúningur og samantekin ráð.

                Vitnið J taugalæknir greindi frá rannsóknum sínum á ákærðu X. Hún hefði verið send til hans frá öðrum taugalækni. Hún væri vel gefin og greindi skýrt frá. [...].

                Vitnið K geðlæknir gerði grein fyrir vottorði sínu vegna A. Hann hefði verið hjá honum í viðtalsmeðferð af og til í tvö ár fyrir atvikið sem um ræði. Staðið hefði til að ljúka meðferðinni á þessum tíma, en hann hefði haft samband áður en að tíma hans hefði komið og verið mikið niðri fyrir. Hann hefði þá greint frá því að hann hefði ranglega verið sakaður um nauðgun og verið mjög skelkaður vegna þessa. Hann hefði rekið [...] og talið einfalt að rústa mannorði hans. Þetta hefði valdið honum miklum kvíða. Hann hefði því talið einfaldara að kaupa sér frið þótt hann hefði verið viss um að ekki væri hægt að sanna slíkan verknað og honum hefði þótt krafa þeirra óréttmæt. Vitnið hefði verið ósammála þessu mati hans. Hann hefði átt tvö samtöl við hann um þetta en atvikið hefði vakið upp gömul kvíðaviðbrögð hjá honum og haft slæm áhrif á líðan hans í nokkurn tíma.

Niðurstaða

I. kafli ákæru.

                Ákærðu neita báðar sök í I. kafla ákærunnar. Þeim er þar gefin að sök fjárkúgun samkvæmt 251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa í félagi haft peninga af brotaþola með hótunum um að ákærða Y myndi leggja fram kæru hjá lögreglu gegn honum fyrir að hafa nauðgað henni ef hann ekki greiddi þeim féð. Því er lýst í ákæru að ákærða X hafi í nokkur skipti rætt við brotaþola í síma og greint honum frá því að ákærða Y myndi kæra hann til lögreglu fyrir nauðgun ef hann ekki greiddi þeim féð fyrir kl. 16 föstudaginn 10. apríl. Þá hafi ákærða X tekið við tveimur peningagreiðslum úr hendi brotaþola á vinnustað hennar og er ákærðu gefið að sök að hafa skipt fénu á milli sín.

                Samkvæmt framangreindu ákvæði 251. gr. almennra hegningarlaga skal hver sæta refsingu sem hefur fé af öðrum með því að hóta manni að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi, svipta hann eða þá frelsi, eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér vegna málefnis þess, er hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans.

                Ákærðu telja háttsemi sína ekki refsiverða, en um hafi verið að ræða miskabætur til ákærðu Y vegna kynferðisbrots. Þá telur ákærða Y að óljóst sé hver sú háttsemi sé sem hún eigi að hafa viðhaft. Þessi hluti ákærunnar byggir á því að um samverknað ákærðu hafi verið að ræða. Dómurinn telur að háttsemi beggja ákærðu sé lýst með fullnægjandi hætti í ákærunni, þannig að það hafi ekki komið niður á vörnum ákærðu, sbr. 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, en háttseminni er lýst sem samverknaði með verkskiptri aðild.

                Fyrir liggur að ákærða Y hafði samband við systur sína, ákærðu X, aðfaranótt sunnudagsins 5. apríl 2015 kl. 01.06. Símtalið varði í sjö mínútur. Ákærðu greinir á um hvað kom fram í samtalinu. Ákærða X heldur því fram að systir hennar hafi sagt henni að henni hefði verið nauðgað, en ákærða Y neitar því alfarið og kveðst ekki hafa áttað sig á því fyrr en daginn eftir. Þremur mínútum eftir lok símtalsins sendir ákærða X smáskilaboð til ákærðu Y: „Þú ert samt öfga-fyndinn snillingur!“ og fimm mínútum eftir það: „Lofarðu að fara varlega sys?“ Ákærða Y greindi lögreglu frá því að hún hefði gist [...] þessa nótt en á hádegi næsta dag sendi hún systur sinni skilaboð: „Vá hvað þetta var fkn fyndið atriði. Sorry ég man að hafa talað við þig...steikt kvöld. Ég tók b5 all over again.“

                Ákærðu voru aftur í sambandi á hádegi mánudaginn 6. apríl 2015 en ákærða Y sendi meðákærðu þá skilaboð um að hún þyrfti að tala við hana og í framhaldinu ræddu þær saman í síma. Skömmu síðar sendi ákærða X skilaboð: „Væntanlega engin mynd/selfie tekin af ykkur þetta kvöld?“ Ákærða Y svaraði: „Nei. Var bara of „drukkin“.“ Ákærða X svaraði: „Einmitt. A væntanlega gætt þess að engin mynd væri tekin“ og: „Á ég að taka verkfærakassann með ef okkur langar til að klípa af honum fálmara?“ Þessu svarar ákærða Y: „Já takk. Srsly“ og ákærða X: „Er alltaf vopnuð!“ Ákærðu voru svo aftur í samskiptum síðla þess dags en þá sendi ákærða Y skilaboð: „Hvar ertu nú elsku sys? Eg er í bio í Egilshöll“ og meðákærða svaraði: „Er á [...] – hvernær eigum við að hittast?“ Nokkru síðar ræddu ákærðu saman í síma og um klukkutíma eftir það ræddi ákærða X tvisvar við brotaþola, eftir að hafa þrisvar sinnum áður reynt að hringja í hann. Nokkru síðar hringdi brotaþoli stutt símtal til ákærðu X og hún hringdi enn í hann um klukkustundu eftir það og ræddu þau þá saman í u.þ.b. hálftíma. Ljóst er að ákærðu hittu brotaþola þennan dag eða kvöld þar sem hann var staddur í Laugum heilsurækt.

                Samkvæmt framburði ákærðu borðuðu þær saman þetta kvöld. Síðar um kvöldið sendi ákærða Y vinkonu sinni skilaboð: „Elsku vinkona. X for með mér og vííí“ og stuttu síðar: „Við konfrontuðum mannhelvitið.“ Ákærðu voru svo aftur í símasamskiptum um kl. 23.

                Miðvikudaginn 8. apríl 2015 fór ákærða Y á neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota. Þann dag voru brotaþoli og ákæra X í samskiptum að morgni dags. Skömmu fyrir hádegi sendi ákærða Y barnsföður sínum skilaboð og spurði hvort hann gæti verið með börnin að loknum skóla þann dag fram til næsta dags þar sem „dálítið alvarlegt“ hefði komið upp. Ákærðu voru í símasambandi eftir hádegi þann dag og svo aftur kl. 18.05. Skömmu síðar ræddi ákærða X við brotaþola. Ákærða Y fékk símtal frá Landspítalanum kl. 19.04 og skilaboð frá meðákærðu: „Máttirðu koma fyrr?“ skömmu síðar. Ákærða X hringdi í ákærðu Y kl. 19.37 en ekki var svarað. Ákærða Y hringdi til baka kl. 20.25 og stóð símtalið í 14 mínútur. Eins og fram hefur komið greindi ákærða X frá því að meðákærða hefði sagt henni að merki um „dröggun“ og áverkar hefðu fundist hjá henni og henni hefði verið útvegaður réttargæslumaður. Því hefur ákærða Y harðneitað og lýst því að hún hafi aldrei fengið neinar niðurstöður úr skoðuninni og ekki greint frá öðru. Þá hefði réttargæslumaður talið málið vera veikt.

                Þetta sama kvöld kl. 20.59 sendi ákærða Y skilaboð til meðákærðu: „Hversu háar bætur í svona málum?“ og fær svarið: „Oggulitlar – nokkrir hundraðkallar + málsvarnarlaun.“ Ákærða Y svarar: „Ókei takk elsku sys“ og ákærða X svarar: „PS. Verðum að selja fkn lóðina asap! Nú er ég búin með launin mín :/“ Ákærða Y svarar enn: „Ég á ekki einn einasta aur heldur. En við gerum þetta. Er mjög ákveðin!“ og fær svarið: „Amm.“ Ákærða Y sendir þá „C“ og ákærða X: „Amen“ og svo: „Hef ýmsar vondar/gúdd hugmyndir sem við getum rætt í hádó á morgó. Getum étt spaghettí og hakk í mötuneyti [...] fyrst við eigum ekki pjéning.“ Ákærða Y sendir þá: „Hahaha ókei ;) Þetta verður allt í lagi sys Lofa. Takk fyrir að standa með mér. Besti bróðir í geimi“ og ákærða X svarar: „Við erum góðir bræður og ég held að við ættum að nýta styrkleika okkar til að verða über-veldi í sameiningu!“ Eins og fram kom hér að framan lýsti ákærða Y því að tilvísun ákærðu X til „vondra/gúdd“ hugmynda ættu við um þá hugmynd að láta brotaþola greiða henni miskabætur, en ákærða X lýsti allt öðrum hugmyndum til þess að afla fjár.

                Næsta dag ákváðu ákærðu að hittast milli kl. 13 og 14. Kl. 11.16 þann dag sendi brotaþoli ákærðu X skilaboð: „Góðan daginn X – þú lætur mig vita ef þú fréttir eitthvað. Annars bara væri ég til í að heyra frá þér eftir vinnu J“ Ákærða sagðist ætla að gera það. Ákærðu ræddu þrisvar sinnum saman í síma milli kl. 13 og 14 þennan dag og aftur kl. 19.34. Kl. 19.36 hringdi brotaþoli í ákærðu X og varði símtalið í 40 mínútur. Kl. 20.03 sendi ákærða Y skilaboð: „Hringdu elsku sys ef ég þarf að vera on top of things...hvíldu þig annars.“ Skömmu síðar ræddu ákærðu tvisvar sinnum saman í síma. Þennan dag greindi ákærða X brotaþola frá niðurstöðum skoðunar á ákærðu Y á neyðarmóttöku.

                Föstudaginn 10. apríl sendi ákærða Y skilaboð kl. 8.46 að morgni: „Hæ sys“ „tilbúin í daginn“ og svarið var: „Hæ! Jabb J.“ Ákærða Y sendi til baka: „lovjú...ef ég á að gera eitthvað....“ og fékk á móti „Lovjú líka J“. Kl. 10.37 sendi ákærða X skilaboð til brotaþola og spurði hvort hann væri í símafæri. Skömmu síðar hringdi brotaþoli í hana og varði símtalið í 14 mínútur. Brotaþoli hringdi tvisvar sinnum aftur í ákærðu milli kl. 12 og 13 og liggja fyrir hljóðupptökur af þeim símtölum. Kl. 12.40 sendi ákærða Y skilaboðin: „No news?“ og fékk á móti hjörtu. Hún sendi þá aftur: „Let me know like this C“ og nokkru síðar: „Er hann búinn að skila?“ Ákærða X svaraði: „Veit ekki. Er ekki í húsi“ og ákærða Y: „jæks. Er það bara þar? Hringirðu ekki og tekkar?“ og fékk svarið: „Róleg sys – ég sé um þetta. Treystu mér.“ Ákærða Y sendi: „Ég er mjög“ og með því er tákn sem greindist ekki. Ákærða X spurði þá: „Treystir mér?“ og fékk svarið: „Auðvitað.“ Kl. 15.21 sendi ákærða X brotaþola skilaboð og spurði hvort það væri í lagi að hún yrði kominn kl. 15.50 og hann féllst á það. Skömmu síðar spurði hann hvort hún væri mætt og hún játaði. Ákærðu og brotaþola ber saman um að þarna hafi hann komið með 500.000 krónur á vinnustað ákærðu X. Meðal gagna málsins er hljóðupptaka af þessum samskiptum þeirra.

                Kl. 16.09 sendi ákærða Y skilaboð: „Sys“ og ákærða X svaraði: „C“. Ákærða Y svaraði: „Í alvöru? J“og ákærða X: „Já“ og „En ég er samt farin í smá ferðalag“ og svo „Djók“. Ákærða Y sendi þá: „Hahaha“ og „Farðu bara að koma svo við getum chillað“. Ákærða X svaraði þá: „En ég óttast að ég verði að sleppa kvöldverði – vinn frameftir og er með ægilegan verk í haus.“ Ákærða Y svaraði þessu: „Úff! Ég er með dúndrandi hausverk líka. Stressið. Ertu samt viss? Væri svo gaman.“ Þessu svaraði ákærða X: „Er bara ónýtur – en á morgó?“ og ákærða Y: „Endilega. En svo þú þurfir ekki að koma – þarf að fara í búð. A ég að koma við núna? Langar líka bara að knúsa þig.“ „Já! Kem út í bíl til þín“ svaraði ákærða X og ákærða Y sendi skömmu seinna: „Komin.“ Um klukkustund síðar sendi ákærða Y: „ERTU AÐ NÁ ÞESSU? omg sh....love U“ og ákærða X sendi hjörtu til baka. Ákærðu ræddu saman í síma skömmu síðar og kl. 22.14 sendi ákærða Y: „Elsku sys verum bara ánægðar með allt. Lovjú og hlakka til að sja þig a morgun.“ Ákærða X sendi þá: „Er fyrst og fremst ánægð með þig“ og ákærða Y: „Þetta var algert teamwork J“ sem ákærða X svaraði: „Djös snilldarbræður erum við samt!“ Ákærða Y svaraði enn: „I fkn know J“ og ákærða X sendi: „C“.

                Ákærðu voru í símasamskiptum bæði laugardag og sunnudag. Á sunnudagskvöldið sendi ákærða Y skilaboð: „Spennandi að sjá hvort niðurgangurinn standi við sitt 2morrow“ og ákærða X svaraði: „Já, hann gerir það. Annars fer þetta landleiðina.“ Ákærða Y svaraði þá: „Nkl. Fkn auminginn. Ertu eitthvað búin að tala v hann?“ og ákærða X: „Neibb, heyri í honum í fyrró.“ Ákærða Y svaraði þá aftur: „Ok. Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað.“

                Mánudaginn 13. apríl 2015 voru ákærðu í samskiptum frá kl. 11.35 er ákærða Y sendi skilaboð: „News?“ og fékk svarið: „Nibb – ekki komið hádegi enn“ og sendi þá: „Þú lætur mig vita?“ Í framhaldinu ræddu þær saman í síma. Kl. 15:47 sendi ákærða X skilaboð til brotaþola og sagðist fara kl. 17. Kl. 16:56 sendi ákærða Y: „Gekk þetta?“ og ákærða X sendi: „Jamm.“ Ákærða Y sendi þá: „C ok?“ og ákærða X „Ok“.

                Ákærðu ber ekki saman um hver hafi átt hugmyndina að því að krefja brotaþola um peningagreiðslu. Ákærða Y sagði fyrir dóminum að hún teldi brotaþola sjálfan hafa stungið upp á því en þegar borinn var undir hana framburður hennar hjá lögreglu kvað hún það geta staðist að hugmyndin hefði komið frá ákærðu X. Það er í samræmi við framburð brotaþola og samræmist þeim gögnum sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

                Eins og að framan greinir ber ákærðu ekki saman um hvað hafi komið fram þeirra á milli um niðurstöður skoðunar á neyðarmóttöku. Fyrir liggur þó að ákærða X greindi brotaþola frá niðurstöðum sem ekki lágu fyrir. Þá var honum veittur mjög skammur frestur til þess að ákveða hvort hann greiddi umkrafða fjárhæð. Á upptöku, sem brotaþoli afhenti lögreglu, af samskiptum hans og ákærðu X, kemur fram að hann vill millifæra peningana inn á reikning hennar eða ákærðu Y. Ákærða neitaði þessu strax. Þá skrifaði hún kvittun að lokinni seinni greiðslunni þar sem ákærðu Y var í engu getið.

                Báðar ákærðu hafa greint frá því að peningunum frá brotaþola hafi verið skipt á milli þeirra þótt þær greini á um með hvaða hætti og ákærða X hafi talað um það fyrir dóminum að hún hefði ætlað að endurgreiða þetta. Hjá lögreglu sagði ákærða X hins vegar að ákærðu Y hefði fundist sjálfsagt að láta hana frá 200.000 krónur hvort sem hún myndi borga það til baka eða ekki. Það hefði ekki verið rætt sérstaklega. Með hliðsjón af þessu er það ekki trúverðugt að hún hafi ekki átt að fá hluta af fjárhæðinni.

                Ákærða Y kveðst ekki hafa verið í neinum samskiptum við brotaþola eftir 6. apríl 2015. Hún telur því að hún hafi ekki getað staðið að fjárkúgun og hafi ekki viðhaft þá háttsemi sem lýst sé í ákærunni. Eins og ítarlega hefur verið rakið hér að framan voru mikil samskipti milli ákærðu þá daga í apríl 2015 sem um ræðir. Af þeim verður ekki annað séð en að ákærðu Y hafi verið fullkunnugt um öll atvik og tekið fullan þátt í skipulagningu þeirra. Gögnin sýna jafnframt að þátttaka ákærðu X var ekki bundin við milligöngu fyrir hönd ákærðu Y. Var um samverknað ákærðu að ræða og skiptu þær með sér verkum eins og lýst er í ákærunni.

                Samkvæmt 251. gr. almennra hegningarlaga er það refsivert að hafa fé af manni með því að hafa uppi rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi, þótt hann sé sannur, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér vegna málefnis þess er hótunin beinist að. Hvort háttsemi ákærðu er refsiverð veltur þannig á því hvort hótun um að kæra til lögreglu átti nægjanlegan rétt á sér eða ekki. Það er því ekki úrlausnarefni dómsins hvort kynferðisbrot átti sér stað.

                Ákærða X hefur staðfest framburð brotaþola um að hún hafi gefið honum þær upplýsingar að greinileg merki um nauðgun hafi fundist hjá ákærðu Y í skoðun hjá neyðarmóttöku. Ljóst er að engin slík merki fundust og voru honum því gefnar rangar upplýsingar. Brotaþoli kvaðst allan tímann vera hafður fyrir rangri sök. Engu að síður var hann beittur miklum þrýstingi til þess að greiða fljótt, en ella yrði hann kærður til lögreglu. Ekkert í samskiptum ákærðu gefur til kynna að þær hafi rætt um kynferðisbrot gegn ákærðu Y. Þá þykir sú staðreynd að ákærðu skiptu fénu á milli sín benda til þess að ekki hafi verið um miskabætur til ákærðu Y að ræða. Með hliðsjón af öllu framangreindu er sannað að brotaþoli var beittur nauðung sem á ekki rétt á sér og ákærðu hafa gerst sekar um brot gegn 251. gr. almennra hegningarlaga.

II. kafli ákæru.

                Ákærða Y játar skýlaust sök í þessum kafla ákærunnar. Játning hennar er studd sakargögnum. Verður hún sakfelld fyrir þau brot og eru þau rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

                Ákærða X neitar því að hafa gerst sek um samverknað en viðurkennir hlutdeild í broti meðákærðu. Ákærðu ber að mestu leyti saman um málsatvik. Hugmyndin kom frá ákærðu Y. Hún greindi ákærðu X frá henni í matarboði 9. maí 2015. Ákærða Y taldi ákvörðunina um að framkvæmda hugmyndina hafa verið tekna af þeim í sameiningu en ákærða X lýsti því að hún hefði talið þetta galið og myndi vonandi gleymast. Hún kvaðst ítrekað hafa reynt að draga úr meðákærðu og telja henni hughvarf. Hún viðurkenndi að hafa lánað henni minniskubb til þess að vista bréfin á og prenta þau bæði út, hvort í sínu lagi, á vinnustað sínum, auk þess sem hún hefði séð efni bréfanna. Hún fór með meðákærðu að velja stað fyrir afhendingu peninganna og í framhaldi að kaupa umslög og frímerki til notkunar fyrir sendingu bréfanna. Þann 29. maí 2015 fór ákærða X með systur sinni á afhendingarstaðinn. Hún hafði með sér myndavél og sjónauka sem þær notuðu til að sjá afhendingarstaðinn og fylgjast með umferð í kringum hann. Ákærða fékk lánaða bifreið í bifreiðaumboði sem hún ók þennan dag. Í bifreiðinni fletti hún upp númerum bifreiða til þess að gæta þess að lögreglan væri þar ekki á ferð. Þá beið hún meðákærðu er hún fór úr bifreiðinni til þess að sækja töskuna. Ákærðu greinir á um hvort ákærða X hafi átt að fá hluta fjárins.

                Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að ákærða X hafi reynt að fá meðákærðu ofan af áætlunum sínum og ákærða Y hefur alfarið hafnað því að svo hafi verið. Verður að horfa til þess að ákærða X heyrði fyrst af hugmyndinni 9. maí eða 20 dögum áður en þær ákærðu voru handteknar.

                Þegar litið er til þess hlutar ákærðu X sem hún sjálf hefur líst er ekki hægt að líta svo á að hún hafi átt það veigalítinn þátt í brotunum sem líst er í 2. og 3. lið II. kafla ákærunnar að hún verði ekki talin aðalmaður. Þá styðja gögn málsins, sérstaklega skilaboð milli ákærðu, þá niðurstöðu. Er um verkskipta aðild ákærðu að ræða og teljast þær báðar vera aðalmenn í brotunum. Brot ákærðu X eru því rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Refsing, einkaréttarkröfur og sakarkostnaður

                Ákærði Y er fædd í [...] 1977 og ákærða X í [...] 1981. Samkvæmt sakavottorðum þeirra hafa þær ekki áður gerst sekar um refsivert brot. Undir rannsókn málsins framkvæmdi E geðrannsókn á ákærðu Y. Það var niðurstaða hans að hún væri sakhæf og ekkert læknisfræðilegt útiloki að refsing kunni að bera árangur. Meðal gagna málsins eru ýmis vottorð um andlega og líkamlega heilsu ákærðu. Ekkert í þeim bendir til þess að ákærðu séu ósakhæfar. Hins vegar þykir rétt að líta til þeirra upplýsinga við ákvörðun refsingar. Við ákvörðun refsingar verður einnig horft til þess að annars vegar var um að ræða fullframið brot en hins vegar tilraun, en tilraunin til fjárkúgunar beindist að þáverandi [...]. Þá þykir einnig mega líta til þess að ákærðu hafa mátt þola óvægna fjölmiðlaumfjöllun. Með hliðsjón af framangreindu og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærðu, hvorrar um sig, hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Af hálfu A er krafist skaðabóta óskipt úr hendi ákærðu að fjárhæð 1.700.000 krónur, sem skiptast þannig að 700.000 krónur eru vegna þess fjár sem ákærðu höfðu af honum, en 1.000.000 króna vegna miskabóta. Í málinu er óumdeilt, auk þess sem fyrir því liggur kvittun í tvíriti, að brotaþoli afhenti ákærðu X 700.000 krónur í tvennu lagi. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu um ólögmæta nauðung er rétt að fallast á kröfuna. Með vísan til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þykir brotaþoli jafnframt eiga rétt á miskabótum. Brot ákærðu var til þess fallið að valda brotaþola andlegri vanlíðan. Fyrir liggur vottorð geðlæknis sem staðfestir að svo hafi verið. Með vísan til framangreinds þykja miskabætur til ákærða hæfilega ákveðnar 600.000 krónur sem beri vexti eins og í dómsorði greinir.

                Ákærða Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 3.277.940 krónur.

                Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 3.478.200 krónur og málsvarnarlaun verjanda síns á rannsóknarstigi, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 628.215 krónur.

                Ákærðu greiði óskipt þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhanns Karls Hermannssonar hdl., 943.330 krónur, og 784.456 krónur í annan sakarkostnað.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.

                Dóm þennan kveður upp Barbara Björnsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

                Ákærða, Y, sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærða, X, sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærðu greiði óskipt A 1.300.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 13. apríl 2015 til 14. desember 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærða Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 3.277.940 krónur.

                Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 3.478.200 krónur og málsvarnarlaun verjanda síns á rannsóknarstigi, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 628.215 krónur.

                Ákærðu greiði óskipt þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhanns Karls Hermannssonar hdl., 943.330 krónur, og 784.456 krónur í annan sakarkostnað.