Print

Mál nr. 35/2016

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
X (Guðmundur Ágústsson hrl., Saga Ýrr Jónsdóttir hdl.), Y (Erlendur Þór Gunnarsson hrl., Flosi Hrafn Sigurðsson hdl.), Z (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl., Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl.), Þ (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) og Æ (Kristján Stefánsson hrl., Páll Kristjánsson hdl.)
, (Margrét Gunnlaugsdóttir réttargæslumaður )
Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Brot gegn blygðunarsemi
  • Barnavernd
  • Ómerking héraðsdóms að hluta
Reifun

Í héraði voru X, Y, Z, Þ og Æ sýknaðir af því að hafa í félagi í svefnherbergi íbúðar haft margs konar kynferðismök við A með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung. Þá var Y einnig sýknaður af því að hafa í beinu framhaldi af þessu haft kynmök við A á baðherbergi í sömu íbúð gegn vilja hennar. Æ var á hinn bóginn sakfelldur og gert að greiða A miskabætur fyrir að hafa myndað kynmökin í svefnherberginu án leyfis A, en sýknaður af því að hafa daginn eftir sýnt öðrum en meðákærðu myndefnið. Í dómi Hæstaréttar var ekki fallist á með ákæruvaldinu að ómerkja bæri héraðsdóm á þeim grunni að samningu dómsins hefði verið áfátt. Þá var vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála gæti Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gæfu skýrslu þar fyrir dómi. Við þær aðstæður gæti Hæstiréttur hins vegar fellt úr gildi héraðsdóm samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar ef taldar væru líkur á að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls. Talið var að í hinum áfrýjaða dómi hefði verið tekin afstaða til þess á rökstuddan hátt, meðal annars með mati á trúverðugleika munnlegs framburðar ákærðu, A og eftir atvikum annarra vitna fyrir dómi, hvað teldist sannað í þeim þætti málsins er varðaði hina ætluðu nauðgun og hvað ekki, sbr. f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008. Sama var talið gilda um þátt Æ við myndun kynmakanna. Var sá hluti dómsins því ekki ómerktur á grundvelli 3. mgr. 208. gr. laganna. Á hinn bóginn var frásögn Æ um að einhver, sem hann gat ekki nafngreint, hefði tekið farsíma hans ófrjálsri hendi og sýnt nokkrum samnemendum myndefnið talin fjarstæðukennd. Var því litið svo á að nægar líkur hefðu verið leiddar að því að mat meirihluta hins fjölskipaða héraðsdóms á sönnunargildi framburðar Æ og tiltekinna vitna kynni að vera rangt svo að einhverju skipti um úrlausn sakargifta á hendur honum hvað þennan lið ákæru varðaði. Af þeim sökum var sá hluti dómsins ómerktur og þeim þætti málsins vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Að öðru leyti og með hliðsjón af þeirri meginreglu að allan vafa um sekt ákærða eigi að skýra honum í hag var niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2015. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og ákærðu X, Y, Z og Þ dæmdir til refsingar og ákærða Æ gerð frekari refsing. Til vara er þess krafist að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

Ákærði X krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði Y krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa, fjárhæð einkaréttarkröfu um miskabætur verði lækkuð og hafnað einkaréttarkröfu um bætur vegna fjártjóns.

Ákærði Z krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og einkaréttarkröfu vísað frá dómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Ákærði Þ krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og einkaréttarkröfu vísað frá dómi, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og fjárhæð kröfunnar lækkuð.

Ákærði Æ krefst aðallega sýknu, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni, en að því frágengnu að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða Æ verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu hennar verði staðfest.

I

Samkvæmt I. kafla ákæru er öllum ákærðu gefið að sök í fyrri lið hans að hafa í félagi haft margs konar kynferðismök við brotaþola í svefnherbergi í íbúð að [...] í Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 4. maí 2014 með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung þar sem þeir hefðu meðal annars notfært sér yfirburðastöðu gagnvart henni vegna líkamlegra aflsmuna, en með þessu hafi ákærðu jafnframt sýnt af sér ruddalegt og ósiðlegt athæfi. Í síðari lið ákærukaflans er ákærði Y sakaður um að hafa í beinu framahaldi af þessu haft kynmök við brotaþola á baðherbergi í sömu íbúð með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung og jafnframt sýnt af sér ruddalegt og ósiðlegt athæfi. Er þessi háttsemi ákærðu talin brot á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt II. kafla ákæru er ákærða Æ gefið að sök að hafa sært blygðunarkennd brotaþola og sýnt henni ósiðlegt og særandi athæfi með því að hafa í umrætt skipti myndað hluta af kynmökunum með upptökubúnaði í farsíma, sbr. fyrri lið ákærukaflans, og síðan mánudaginn 5. maí 2014 sýnt nokkrum samnemendum þeirra myndefnið í matsal [...], sbr. síðari lið kaflans. Er þessi háttsemi ákærða talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

Þegar hin ætluðu brot áttu sér stað var brotaþoli 16 ára, ákærði X um fimm mánuðum og aðrir ákærðu um níu mánuðum eldri en hún, að undanskildum ákærða Æ sem var 19 ára.

Að því er varðar sakargiftirnar á hendur ákærða Æ samkvæmt II. kafla ákæru liggur fyrir að hann tók með farsíma sínum upp hluta af áðurgreindum kynmökum. Ennfremur að síminn var lagður á borð í matsal [...] meðan myndskeiðið með kynmökunum var sýnt í honum. Við það tækifæri var tekinn upp á annan farsíma hluti af myndskeiðinu. Ákærðu hafa borið að í kjölfarið hafi ákærði Æ eytt upphaflega myndskeiðinu, en brotaþola barst síðar vitneskja um að styttri útgáfunni hefði verið dreift til skólafélaga þeirra. Það er sú útgáfa af myndskeiðinu sem er meðal gagna málsins.

Ákærðu neita allir sök. Með hinum áfrýjaða dómi voru þeir sýknaðir af þeim sakargiftum að hafa haft kynmök við brotaþola umrætt sinn á þann hátt sem að framan greinir. Var það mat fjölskipaðs héraðsdóms að framburður ákærðu fyrir dómi hafi verið trúverðugur og ekkert fram komið sem gæfi til kynna að þeir hafi haft ástæðu til að ætla annað en brotaþoli væri samþykk því sem fram fór. Einnig hafi vitnisburður hennar um andstöðu sína og hvernig hún hafi gefið ákærðu hana til kynna verið ótrúverðugur. Á hinn bóginn var ákærði Æ talinn hafa myndað kynmökin þótt honum hafi verið ljóst að það hefði hann gert án leyfis brotaþola og var hann því sakfelldur vegna þeirrar háttsemi fyrir þau brot, sem í ákæru greinir, en sýknaður af því að hafa sýnt öðrum en meðákærðu myndefnið. Þótt það komi ekki fram í dómsorði að einkaréttarkröfu brotaþola hafi verið vísað frá héraðsdómi vegna þeirrar sakargifta, sem sýknað var af, verður samkvæmt dómsforsendum að líta svo á að það hafi verið gert.

II

Krafa ákæruvaldsins um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur er studd tvenns konar rökum. Í fyrsta lagi að samningu dómsins hafi verið svo áfátt að leiða eigi til ómerkingar hans og í öðru lagi að sönnunarmat héraðsdóms hafi ekki verið reist á nægjanlega traustum grundvelli.

1

Samkvæmt 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eins og henni hefur verið breytt með 26. gr. laga nr. 78/2015, skal meðal annars greina í dómi svo stutt og glöggt sem verða má meginefni ákæru, sbr. b. lið, hver málsatvik séu í aðalatriðum, án þess að gerð sé grein fyrir framburði ákærða og vitna nema að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar máls, sbr. d. lið, við hvaða sönnunargögn og rök ákæra sé studd og andsvör ákærða við þeim eftir því sem þörf krefur, sbr. e. lið, og röksemdir dómara fyrir því hvað teljist sannað í málinu og með hverjum hætti, sbr. f. lið. Af ákvæðum d. liðar málsgreinarinnar og 1. mgr. 111. gr. laganna leiðir að í héraðsdómi skal fyrst og fremst greina í stuttu máli frá framburði ákærða og vitna fyrir dómi. Óþarft er að víkja að skýrslum, sem gefnar hafa verið hjá lögreglu, nema af sérstöku tilefni, svo sem vegna þess að skýrslugjafi hafi breytt framburði sínum fyrir dómi frá því, sem hann skýrði frá hjá lögreglu, og dómari telji það rýra sönnunargildi framburðarins. Sé gefin skýring á hinni breyttu frásögn, sem dómari metur trúverðuga, og framburðurinn fyrir dómi lagður til grundvallar við úrlausn málsins er sjaldnast þörf á að geta þessa sérstaklega.

Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að lýsing málsatvika í hinum áfrýjaða dómi fullnægi ekki þeim kröfum sem að framan greinir. Þótt fallast megi á að rétt hefði verið að greina í stuttu og samfelldu máli frá helstu atvikum málsins á einum stað í dóminum verður ráðið af lestri hans, meðal annars reifun á framburði ákærðu og fjölmargra vitna, hver þau eru.

Þá gerir ákæruvaldið margvíslegar athugasemdir við hvernig framburður ákærðu og nafngreindra vitna er reifaður í dóminum þar sem litið sé framhjá ýmsum atriðum, einkum þeim sem styrki trúverðugleika vitnisburðar brotaþola og dragi að sama skapi úr trúverðugleika framburðar ákærðu. Svo að dæmi sé tekið er fundið að því að þess sé ekki getið í reifun á framburði vitnanna B og C að þær hafi breytt frásögn sinni verulega fyrir dómi frá því sem var hjá lögreglu að því er varðaði fyrstu viðbrögð brotaþola þegar henni var sagt frá áðurgreindu myndskeiði þriðjudaginn 6. maí 2014. Fyrir dómi bar vitnið C að brotaþoli hefði hlegið og haft á orði að færi myndupptakan í dreifingu myndi hún segja að það, sem gerðist, hefði verið nauðgun. Áður hafði vitnið borið á annan veg hjá lögreglu, en gaf þá skýringu á hinum breytta framburði að vinkonur sínar hefðu beðið sig um að skýra frá atvikum hjá lögreglu á þann hátt sem hún gerði þar. Vitnið B bar fyrir dómi með sama hætti um fyrstu viðbrögð brotaþola þegar hún frétti af myndskeiðinu, en áður hafði hún skýrt öðru vísi frá hjá lögreglu. Til skýringar á hinum breytta framburði vísaði vitnið til skjáskota sem væri að finna í farsíma sínum. Að öllu þessu virtu bar samkvæmt framansögðu ekki nauðsyn til að geta þessa misræmis í frásögn vitnanna fyrir dómi annars vegar og hjá lögreglu hins vegar í reifun á framburði þeirra í héraðsdómi.

Fjallað verður frekar hér á eftir um athugasemdir ákæruvaldsins sem lúta að sönnunarmati héraðsdóms. Þótt sumar þeirra séu á rökum reistar, eins og nánar verður gerð grein fyrir, eru þær ekki þess eðlis að þeir hnökrar á hinum áfrýjaða dómi, sem af því leiðir, valdi ómerkingu hans af þeirri ástæðu að samningu hans hafi verið áfátt.

2

Ákærðu og vitni, sem skýrslu gáfu fyrir dómi við meðferð málsins í héraði, hafa ekki komið fyrir Hæstarétt til skýrslugjafar. Í 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 er svo fyrir mælt að rétturinn geti ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar þegar svo háttar til. Við þær aðstæður getur Hæstiréttur hins vegar fellt úr gildi héraðsdóm samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar ef taldar eru líkur á að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls.

Ákærðu og brotaþoli geta ein borið um það sem fram fór í svefnherberginu að [...] umrætt sinn og fyrri liður I. kafla ákæru tekur til. Af framburði þeirra er ljóst að brotaþoli fór þangað inn í fyrstu með ákærða Æ þar sem þau höfðu kynmök með samþykki beggja. Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi héldu ákærðu því þar fram að brotaþoli hefði tekið þátt í því, sem síðar gerðist, af frjálsum og fúsum vilja. Á hinn bóginn kvaðst hún hafa verið því mótfallin að halda kynmökunum áfram eftir að fleiri bættust í hópinn og gefið það til kynna, fyrst með því að ýta ákærðu frá sér, en síðar hefði hún frosið. Ákærða Y og brotaþola greindi á sama hátt á um fyrir dómi hvað átt hefði sér stað á baðherberginu milli þeirra tveggja sem síðari liður ákærukaflans lýtur að.

Af hálfu ákæruvaldsins er umfjöllun í héraðsdómi um samskipti milli ákærðu á vefsíðunni Facebook í framhaldi af því, sem gerðist aðfaranótt 4. maí 2014, sögð ófullnægjandi þar sem aðeins sé vísað til samskiptanna og skýringa ákærðu á þeim með almennum hætti. Er því haldið fram að samskiptin séu fremur til þess fallin að varpa sök á þá. Líta má svo á að sumt af því, sem þar kemur fram, gefi vísbendingu um að ákærðu hafi séð eftir framkomu sinni umrætt sinn. Þegar samskiptin eru virt í heild og tekið tillit til þess við hvaða aðstæður þau fóru fram verður aftur á móti ekki vefengd sú ályktun héraðsdóms að ekki sé unnt að jafna ummælum ákærðu til viðurkenningar á því að þeir hafi brotið gegn brotaþola með refsiverðum hætti. Þá er í dómsforsendum vísað til samskipta brotaþola og ákærða Æ á sömu vefsíðu og þau ranglega sögð hafa átt sér stað 4. maí 2014 í stað 6. og 7. sama mánaðar, en rétt er greint frá því sem þeim fór þar á milli.

Ekki er tekið undir þær athugasemdir ákæruvalds að reifun í héraðsdómi á vitnisburði brotaþola fyrir dómi sé ófullkomin, heldur gefur hún glögga mynd af honum, enda á aðeins að koma fram í dóminum það úr framburðinum sem þörf er á til að leysa úr málinu, sbr. d. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008. Að vísu er í héraðsdómi gert óþarflega mikið úr misræmi í frásögn brotaþola um hvort ákærði Y hefði leitt hana eða togað inn á baðherbergið, en ekki verður séð að það atriði skipti máli við úrlausn um sekt eða sýknu þessa ákærða. Hins vegar verður ekki horft framhjá því að nokkurs misræmis gætti í framburði brotaþola fyrir dómi. Sem dæmi má nefna að í svari við spurningu frá verjanda ákærða Þ kvað hún vitneskju sína um áðurgreint myndskeið ekki hafa haft nein áhrif á þá ákvörðun sína að kæra ætluð brot ákærðu til lögreglu. Nokkru síðar vísaði verjandinn til þess að haft hafi verið eftir henni við skýrslutöku hjá lögreglu í maí 2014 að henni hafi ekki fundist hún þurfa að segja neitt frá þessu fyrr en myndskeiðið hafi komið til sögunnar og hún hefði ekki kært nema vegna þess. Spurð hvort það væri réttur skilningur að hefði myndskeiðið ekki komið til hefði hún ekki kært svaraði hún: „Nei. Ef þetta myndband hefði aldrei komið þá hefði ég líklega aldrei farið að tala svona mikið um þetta við ... fólkið í kringum mig. Þannig að ég hefði í rauninni örugglega ekki áttað mig á því sjálf að ég þyrfti að kæra þetta.“

Vitnin D, E og F, sem voru staddar í samkvæminu í íbúðinni að [...], báru allar að ákærðu eða að minnsta kosti einhverjir þeirra hefðu verið ágengir kynferðislega við stúlkur sem þar voru. Gerir ákæruvaldið athugasemdir við að þessa sé ekki getið í reifun af vitnisburði þeirra í héraðsdómi. Vitnið G bar á sama veg, en framburður hans var þó mjög óljós um þetta atriði sem önnur. Aftur á móti sagðist vitnið C, sem einnig var stödd í samkvæminu, ekki hafa orðið vör við neitt þessu líkt. Fallist er á að þessa hefði mátt geta í reifun af framburði umræddra fimm vitna.

 Í skýrslu vitnisins H fyrir dómi kvaðst hann ekki hafa getað séð á upprunalega myndskeiðinu hvort brotaþoli hafi verið samþykk því sem fram fór. Þetta er tekið fram í reifun á vitnisburði hans í héraðsdómi, en hins vegar segir ranglega í forsendum dómsins að hann hafi eins og vitnið I upplifað það, sem hann sá á umræddu myndskeiði, eins og brotaþoli hafi verið samþykk því sem gerðist.

Ekki verður ráðið af skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun, sem gerð var á brotaþola 7. maí 2014, eða framburði læknisins fyrir dómi að hún hafi verið beitt ofbeldi eða ólögmætri þvingun rúmum þremur sólarhringum fyrr. Þau gögn útiloka þó ekki að slíkt hafi gerst.

Myndskeiðið sem lagt hefur verið fram í málinu og er eins og áður segir styttri útgáfa af hinu upprunalega myndskeiði hefur takmarkað sönnunargildi þar sem upptakan er mjög óskýr. Það sem þar sést staðfestir hvorki að frásögn brotaþola af atvikum sé rétt né að hún sé röng. Sama er að segja um upptöku úr eftirlitsmyndavélum að [...] aðfaranótt 4. maí 2014 þar sem ekki verður ráðið af útliti og fasi brotaþola að brotið hafi verið alvarlega gegn henni skömmu áður.

Í vottorði sálfræðings 26. mars 2015 sagði meðal annars að niðurstaða mats væri að brotaþoli hafi greinst með áfallastreituröskun og almennan kvíða. Þá væri sjálfsásökun hennar í eigin garð algeng meðal þolenda kynferðisofbeldis. Sálfræðingurinn staðfesti skýrslu sína fyrir dómi 23. október 2015 og bar þá meðal annars að brotaþoli uppfyllti ekki lengur öll greiningarmerki fyrir áfallastreituröskun.

Í hinum áfrýjaða dómi er tekin afstaða til þess á rökstuddan hátt, meðal annars með mati á trúverðugleika munnlegs framburðar ákærðu, brotaþola og eftir atvikum annarra vitna fyrir dómi, hvað teljist sannað í þeim þætti málsins, sem I. kafli ákæru lýtur að, og hvað ekki, sbr. f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008. Sama gildir um þann þátt sem fyrri liður II. ákærukafla tekur til. Að teknu tilliti til þessa og með hliðsjón af því, sem að framan greinir, hefur ekki verið gert sennilegt að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi framburðar ákærðu og vitna, sem gáfu skýrslu þar fyrir dómi, kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrlausn sakargifta á hendur ákærðu samkvæmt I. kafla og fyrri lið II. kafla ákæru. Verður sá hluti dómsins því ekki ómerktur á grundvelli 3. mgr. 208. gr. laganna.

3

Eins og reifað er í hinum áfrýjaða dómi skýrði ákærði Æ svo frá fyrir dómi að einhver hefði tekið farsíma hans í leyfisleysi í [...] á mánudeginum 5. maí 2014 og farið með símann í matsal skólans. Þar hefði hópur nemenda skoðað áðurgreint myndskeið og einhver viðstaddra hljóti að hafa tekið það upp á sinn farsíma. Ákærði viðurkenndi jafnframt hafa sýnt meðákærðu upprunalega myndskeiðið í farsíma sínum sama dag og ákveðið að eyða því eftir að þeir hefðu beðið sig um það.

Vitnið H, sem áður er nefndur, neitaði því fyrir dómi að hafa tekið farsímann af ákærða Æ. Nánar aðspurður svaraði vitnið: „Nei, mig minnir ekki. Getur verið að ég hafi tekið símann af honum ... en ekki ... hlaupið bara einhvers staðar í burtu.“ Við skýrslutöku hjá lögreglu 9. maí 2014 sagðist vitnið hafa séð myndskeiðið í matsal [...] og hefði ákærði Æ sýnt honum það í farsíma sínum að fleiri viðstöddum. Inntur eftir því af saksóknara hvort hann myndi þetta betur svona svaraði hann: „Ef þú segir að ég hafi sagt þetta þarna 9. maí þá sagði ég þetta örugglega svona.“ Jafnframt staðfesti vitnið það, sem hann hafði áður borið hjá lögreglu, að aðrir ákærðu hefðu beðið ákærða Æ um að eyða myndskeiðinu eftir að hann hefði sýnt vitninu það. Vitnið I kvaðst fyrir dómi hafa séð myndskeiðið á mánudeginum 5. maí 2014 í matsalnum. Spurður hver hefði sýnt myndskeiðið sagðist hann halda að það hefði verið ákærði Æ, en væri þó ekki alveg viss um það.

Framangreind frásögn ákærða Æ um að einhver, sem hann gat ekki nafngreint, hefði tekið farsíma hans ófrjálsri hendi og hann síðan fengið símann samdægurs aftur í hendur er fjarstæðukennd, ekki síst í ljósi framburðar vitnanna tveggja sem rakinn hefur verið. Að því virtu hafa verið leiddar nægar líkur að því að mat meirihluta hins fjölskipaða héraðsdóms á sönnunargildi framburðar ákærða og vitnanna kunni að vera rangt svo að einhverju skipti um úrlausn sakargifta á hendur honum samkvæmt síðari lið II. kafla ákæru. Af þeim sökum verður sá hluti dómsins ómerktur og þeim þætti málsins vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.

III

Í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er svo fyrir mælt að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í samræmi við það er í 108. gr. laga nr. 88/2008 kveðið á um að sönnunarbyrði um sekt ákærða hvíli á ákæruvaldinu. Af þeirri reglu leiðir að allan vafa um sekt ákærða á að skýra honum í hag.

Eins og áður segir ber ákærðu og brotaþola saman um að þau hafi haft kynmök aðfaranótt 4. maí 2014, en þeir halda því staðfastlega fram að það hafi gerst með vilja hennar. Í málatilbúnaði ákæruvaldsins hér fyrir dómi hefur verið lögð áhersla á að vitni, sem eru tengd brotaþola fjölskyldu- og vinaböndum, hafi borið að hún hafi verið döpur og ólík sjálfri sér þennan dag og daginn eftir. Af því verður þó ekki ályktað með einhlítum hætti að ákærðu hafi brotið gegn henni á þann hátt, sem þeim er gefið að sök í ákæru, heldur gæti það hafa stafað af öðrum ástæðum. Samkvæmt framansögðu verður að skýra þann vafa ákærðu í hag.

Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna ákærðu af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru, en þar er ætluðum brotum þeirra á 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga lýst á nákvæmlega sama hátt og ætluðum brotum þeirra á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Eftir 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 ber að vísa þeim hluta einkaréttarkröfu brotaþola, sem varðar sakargiftir samkvæmt þessum kafla ákærunnar, frá héraðsdómi.

Af hálfu ákærða Æ er því haldið fram að héraðsdómur hafi farið út fyrir efni fyrri liðar II. kafla ákæru þar sem ákærði er sakaður um að hafa myndað hluta af kynmökunum milli annarra ákærðu og brotaþola með upptökubúnaði í farsíma og með því brotið gegn 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Vegna þess að ekki sé tekið fram í ákærunni að þetta hafi gerst án leyfis brotaþola sé óheimilt að sakfella ákærða fyrir þau brot, sem honum eru gefin þar að sök, á þann hátt sem gert var í héraði.

Í verknaðarlýsingu hvorugs þess ákvæðis, sem hér um ræðir, er gert að skilyrði fyrir því að manni sé refsað að hann hafi gert á hlut brotaþola án samþykkis hans. Hins vegar getur samþykki þolandans, ef sannað þykir, leyst gerandann undan refsingu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 9. mars 2000 í máli nr. 31/2000 sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 1117. Af þeim sökum var ástæðulaust að taka fram í ákæru að ákærði hefði tekið myndir af brotaþola án leyfis hennar.

Með þessari athugasemd verður með skírskotun til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða að sakfella ákærða Æ samkvæmt fyrri lið II. kafla ákæru, svo og ákvörðun um refsingu fyrir þau brot og bætur til handa brotaþola vegna þeirra.

Staðfest verða ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.

Samkvæmt 2. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 greiðist allur áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu og þóknun réttargæslumanns brotaþola hér fyrir dómi sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Sá hluti héraðsdóms, sem lýtur að sakargiftum á hendur ákærða Æ samkvæmt síðari lið II. kafla ákæru, er ómerktur og þeim þætti málsins vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður. Þeim hluta einkaréttarkröfu A, sem varðar sakargiftir samkvæmt I. kafla ákæru, er vísað frá héraðsdómi.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Erlendar Þórs Gunnarssonar, Guðmundar Ágústssonar, Kristjáns Stefánssonar, Sveins Andra Sveinssonar og Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar, 992.000 krónur til hvers þeirra um sig og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2015

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 28. maí 2015, á hendur:

,,X, kennitala [...],

                   [...], [...],

                   Y, kennitala [...],

                   [...], [...],

                   Z, kennitala [...],

                   með lögheimili í [...],

                   Þ, kennitala [...],

                   [...], [...], og

                   Æ, kennitala [...],

                   [...], [...]

fyrir eftirtalin brot framin aðfaranótt sunnudagsins 4. maí 2014, í íbúð að [...] í Reykjavík, nema annað sé tekið fram, gagnvart A, fæddri [...], sem þá var 16 ára:  

I.

Nauðgun og barnaverndarlagabrot:

1.       Á hendur ákærðu öllum, með því að hafa í félagi, í svefnherbergi, haft margs konar kyn­­ferðis­mök við A, að hluta þar sem fleiri en einn af ákærðu áttu kynferðismök við hana í einu á sama tíma, með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólög­mætri nauð­­ung, og með þessu að hafa jafnframt sýnt af sér ósið­legt og rudda­legt athæfi. Ákærðu létu A leggjast niður og beittu hana harð­ræði, meðal annars með því að höfði hennar var haldið um stund og lagst var yfir það, ól var spennt um læri hennar og ákærði Y beit í aðra geirvörtu hennar. Ákærðu not­færðu sér yfir­burða stöðu og aðstöðu­mun gagn­vart A vegna líkam­­­legra afls­­­­muna og að hún var ein og mátti sín lítils gegn þeim í lokuðu og myrkvuðu her­bergi, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunn­­ugum stað. Ákærðu X, Y, Z og Þ skiptust á að hafa sam­­­ræði við A, ákærðu Æ, Y og Z létu A fróa sér, allir ákærðu settu kyn­færin í munn hennar, að hluta svo þrengdi að öndunarvegi hennar, og ákærði Y fór auk þess höndum um kyn­færi hennar og stakk fingrum inn í þau.

  1. Á hendur ákærða Y, með því að hafa í beinu framhaldi af framangreindum brotum haft kynferðismök við A, á baðherbergi, með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólög­mætri nauðung, og með þessu að hafa jafnframt sýnt af sér ruddalegt og ósið­legt athæfi. Ákærði hélt um hendi A og leiddi hana úr svefnherberginu inn á bað­herbergið, tálmaði henni útgöngu með því að loka að þeim og notfærði sér yfir­burða stöðu sína og aðstöðumun vegna líkamlegra aflsmuna og að hún var ein og mátti sín lítils gegn honum í lokuðu her­bergi, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunn­ugum stað þar sem hann lét hana sjúga á sér kyn­færin og hafa við sig samræði.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndar­laga nr. 80/2002.

 

II.

Brot gegn blygðunarsemi og barnaverndarlagabrot:

Á hendur ákærða Æ, með því að hafa sært blygðunarkennd A og sýnt henni ósið­legt og særandi at­hæfi:

1.       Með því að hafa í það skipti sem greinir í ákærulið I/1 myndað hluta af kynferðis­mökunum með upptökubúnaði í farsíma.

2.       Með því að hafa mánudaginn 5. maí, í matsal [...], [...], sýnt nokkrum samnemendum A framangreint mynd­efni.

 

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Í málinu gerir J, kt. [...], fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A, kt. [...], kröfu um skaða- og miskabætur úr hendi sak­borninga, in solidum, að fjárhæð kr. 10.183.804. Krafist er vaxta af ofangreindri fjár­hæð samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 4. maí 2014, þar til mánuður er liðinn frá því að sakborningi var kynnt bótakrafa þessi, en dráttarvaxta sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.“

 

Verjandi ákærða X krefst aðallega sýknu, til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist ef dæmd verður verði skilorðsbundin. Þess er aðallega krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara er krafist sýknu af bótakröfu og til þrautavara lækkunar. Málsvarnarlauna er krafist samkvæmt framlögðum reikningi. Þá er gerð krafa um málsvarnarlaun f.h. Sögu Ýrar Jónsdóttur héraðsdómslögmanns fyrir verjandastörf undir rannsókn málsins.

Verjandi ákærða Y krefst aðallega sýknu, til vara vægustu refsingar. Aðallega er krafist frávísunar bótakröfu en til vara að sýknað verði af kröfunni. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði samkvæmt framlögðum reikningi.

Verjandi ákærða Z krefst aðallega sýknu, til vara að refsing verði felld niður og til þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfa. Til samræmis við aðalkröfu er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að sýknað verði af bótakröfu og til þrautavara að hún sæti lækkun. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins samkvæmt tímaskýrslu. Þá er gerð krafa um málsvarnarlaun f.h. Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns fyrir verjandastörf undir rannsókn málsins.

Verjandi ákærða Æ krefst aðallega sýknu, til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið og til þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin. Komi til refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar refsivist. Þess er aðallega krafist að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, til vara er krafist sýknu og til þrautavara að hún verði lækkuð. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun samkvæmt tímaskýrslu.

Verjandi ákærða Þ krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar og að bótakrafa sæti lækkun. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins. Þá er gerð krafa um málsvarnarlaun f.h. Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærða á rannsóknarstigi málsins.

 

Ákæruliðir I.1 og I.2

Hinn 7. maí 2014 lagði J, móðir A, fram kæru vegna háttseminnar sem í þessum ákærulið greinir. Vitnisburður hennar fyrir dómi um aðdraganda kærunnar verður rakinn síðar.

Sama dag gaf A skýrslu hjá lögreglu þar sem hún lýsti samskiptum sínum og ákærðu á þeim tíma sem hér um ræðir.

Undir rannsókn málsins voru teknar fjórar vitnaskýrslur af A og verða þær raktar að hluta síðar eins og ástæða þykir.

Ákærðu voru allir handteknir 7. maí 2014 og úrskurðaðir í gæsluvarðhald 9. s.m. Teknar voru fjórar lögregluskýrslur af hverjum hinna ákærðu undir rannsókn málsins þar sem allir neituðu sök og kváðu kynferðislegu samskiptin við A á þeim sem tíma sem í ákæru greinir hafa átt sér stað af fúsum og frjálsum vilja allra. Hver og einn hinna ákærðu bar efnislega á sama veg við allar fjórar lögregluskýrslurnar. Verður framburður þeirra undir rannsókninni rakinn eins og ástæða þykir, jafnhliða því að framburður viðkomandi fyrir dómi verður rakinn.

 

Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi. Eins og málavöxtum er háttað verða þeir raktir saman vegna ákæruliða I.1 og I.2.

 

Ákæruliðir I.1 og I.2

Ákærði X neitar sök. Hann kvaðst hafa fengið boð frá meðákærða Þ um að kom í partí á þessum tíma. Hann kvaðst hafa farið þangað milli kl. 21 og 22 en fólk hafi tekið að streyma þangað milli klukkan 23 og miðnættis. Þetta hafi verið „venjulegt“ partí sem hann lýsti en hann kvaðst hafa drukkið einn eða tvo bjóra. Fólk hefði farið að tínast út um klukkan eitt og hann verið einn í íbúðinni ásamt meðákærðu. Hann hefði verið úti á svölum að fá sér ferskt loft er meðákærði Æ kallaði á hann og bað hann um að koma og sjá hvað væri að gerast. Þeir Æ hefðu þá farið inn í herbergi þar sem hann sá meðákærðu Y og Z í kynlífi með A. Y hafði samfarir við A en Z hafi legið við hlið hennar og A hefði tekið að fróa Z skömmu síðar. „Algjörlega venjulegt kynlíf“ eins og ákærði bar. Ekkert hafi gefið til kynna að eitthvað óeðlilegt eða að nauðgun hefði átt sér stað. A hefði tekið fullan þátt í kynlífinu. Er ákærði kom inn í herbergið kallaði A á hann og sagði „vertu með“ en ákærði kvaðst engin samskipti hafa átt við A fyrr þetta kvöld. Ákærði kvaðst samkvæmt þessu ekki hafa spurt A hvort hún væri samþykk því sem fram fór en hann kvað alveg öruggt að allt sem fram fór meðan ákærði var inni í herberginu hafi verið með vilja hennar. Ákærði kvaðst hafa tekið að fróa sér og hann hefði verið inni í herberginu í um fimm mínútur og stundað kynlíf í um tvær mínútur en A hefði veitt honum munnmök og síðar hóf hann samfarir við A sem veitti Y munnmök á sama tíma. Eftir þetta fór hann út úr herberginu og hann viti ekki hvað gerðist eftir það. Hann kvaðst hafa séð A veita meðákærða Æ munnmök. Hann vissi ekki hvar meðákærði Þ var á þessum tíma en hann hefði komið inn í herbergið meðan ákærði var þar. Er allir ákærðu voru inni í herberginu hafi þeir skipst á að hafa kynmök við A auk þess sem hún veitti þeim munnmök. Hann lýsti líkamsstellingum sem A var í við þessar athafnir. Enginn þvingaði A til neins og lýsti hann því hvernig hún notaði hendur sínar við að fróa þeim. Hann lýsti því hvernig A átti frumkvæði að kynferðissamskiptunum svo sem munnmökunum og að fróa sumum hinna ákærðu. A hefði tekið fullan þátt í því sem fram fór. Á einum tímapunkti hefði hún sagst vera þreytt og ætlað að leggjast sem hún gerði og skipti um líkamsstellingar sem hann lýsti auk þess sem hún notaði hendur sínar við að fróa ákærðu eins og rakið var. Enginn hinna ákærðu hefði látið hana leggjast eins og lýst er í ákærunni. Enginn neyddi hana til munnmaka og enginn hélt um höfuð hennar meðan ákærði var inni í herberginu. Þá hafi hún ekki gefið neitt til kynna um að hún vildi ekki það sem fram fór. A hafi aldrei gefið neitt til kynna um að hún vildi hætta. Hins vegar hafi einu sinni verið gert hlé þar sem A hafi verið þreytt eins og lýst var. Þá hafi verið stöðvað stutta stund en A hefði sagt ákærðu að halda áfram sem þeir gerðu. Hann kveðst ekki hafa séð A afklæðast en hún hefði verið í síðum bol er ákærði kom inn í herbergið og hann hefði ekki séð neinn hinna ákærðu klæða hana úr. Hann kvað meðákærða Þ hafa komið inn í herbergið á eftir sér. Þ hafi farið út úr herberginu stuttu á eftir ákærða og fór Þ á snyrtinguna þar sem hann kastaði upp. Herbergisdyrnar hefðu verið opnar meðan á þessu stóð en myrkur var í herberginu. Ákærði kvaðst hafa aðstoðað Þ en farið heim til sín eftir það. Hann kvað ofbeldi eða annars konar nauðung aldrei hafa átt sér stað og ekkert af efnislýsingu ákærunnar sem lýsir nauðgun hafi átt sér stað. A hefði ekki verið hrædd við ákærðu eins og lýst er í ákærunni. Hann kvað belti ekki hafa verið notað meðan hann var inni í herberginu. Þá kannaðist hann ekki við að A hafi verið bitin í geirvörtuna. Enginn hafi lagst ofan á höfuð A, aðeins við hlið hennar.

Ákærði lýsti því að myndbandsupptaka, sem sýnd var í upphafi aðalmeðferðar málsins, sýni ekki er ákærði stundaði kynlíf með A auk þess sem fleira vanti í upptökuna. Hann kvaðst telja að upptakan sýni lok kynferðisathafna. Hann kvað meðákærða Æ hafa haldið á lofti síma með ljósi en hann hafi ekki vitað að Æ væri að taka upp á símann. A hefði sagt Æ að taka ekki upp en hún hefði ekki verið mótfallin ljósinu. Enginn sem þarna var vildi að tekið væri upp.

Ákærði X kvaðst hafa frétt síðar að meðákærði Y hefði verið með A inni á snyrtingunni, það hefði verið eftir að ákærði var farinn úr íbúðinni en hann kvaðst hafa farið fyrstur hinna ákærðu og A hafi enn verið í íbúðinni við brottför hans.

Ákærði X kvaðst aldrei hafa séð upptökuna sem um ræðir í ákærulið II og hann hafi ekki verið viðstaddur í skólanum er upptakan var til umræðu. Hann viti ekki hvort meðákærði Æ sýndi einhverjum upptökuna. Hann kvaðst hafa talið mikilvægt að upptökunni yrði eytt þar sem hann hefði ekki verið sáttur við hana en ákærði kvað þetta hafa sært blygðunarsemi sína þar sem upptakan sýni kynlíf sem eigi að vera einkamál.

Ákærði kvað mál þetta hafa haft mikil áhrif á sig. Hann hafi misst vinnuna, hann verði fyrir áreiti, fólk horfi á sig og bendi á sig. Hann hafi ekki getað verið á landinu heldur hafi hann farið til heimalands síns og lýsti miklum áhrifum þess á líf sitt.

Ákærði Y neitar sök. Hann kvað kynlífið við A  hafa farið fram af fúsum og frjálsum vilja hennar. Ákærði kvaðst hafa komið einn í partí til meðákærða Þ á þessum tíma. Hann hefði drukkið tvo til þrjá bjóra og eitt „skot“. Hann kvað margt fólk hafi komið og skemmt sér vel. Hann hefði þekkt lítillega til A áður og það tengdist skóla. Eftir að gestirnir fóru var A inni í herbergi með Æ. Þeir Z komu inn í herbergið um svipað leyti. Hann kvaðst ekki muna hvernig A var klædd á þessum tíma en hún hafi verið klædd í brjóstahaldara. Hann sá hana ekki afklædda. Inni í herberginu hafi A veitt þeim munnmök. Hann hefði farið úr buxunum eftir að honum varð ljóst að A var fús til að veita þeim munnmök, sem hún gerði, en hann hefði staðið við rúmið er hún veitti honum munnmökin og fróaði ákærða og öðrum með höndunum. Enginn hafi haldið um hendur hennar er þetta átti sér stað. Ákærði kvaðst hafa haft samfarir við A og notað smokk og kvaðst hann hafa stungið fingri inn í kynfæri hennar. Meðákærðu Þ og X hefðu komið síðar og A veitt þeim munnmök. Meðákærði Þ hafi haft samfarir við hana og hún veitt honum munnmök og fróað honum. Hið sama ætti við um Z. A hafi fróað honum og veitt honum munnmök og hann minnti að Z hafi einnig haft samfarir við A. X hafi haft samfarir við A en hann hefði ekki séð hvort A veitti honum munnmök. X hafi verið stutt í herberginu sem hafi verið opið meðan á þessu stóð. Ákærði kvað ljóst að allt sem fram fór hafi verið með samþykki A. Hún hafi tekið fullan þátt, meðal annars með höndunum, en hún fróaði ákærða og lýsti hann því nánar. A hafi ekki verið hrædd. Hún hafi sjálf lagst niður. Enginn hafi látið hana leggjast. Ákærði Y kannaðist ekki við að belti hafi verið spennt um læri A. Ákærði neitaði ákærulýsingunni þar sem lýst er nauðgun. Þá neitaði ákærði að hafa bitið A í geirvörtuna eins og honum er gefið að sök. Allt hafi farið fram með fúsum og frjálsum vilja A en ákærða hafi verið þetta ljóst af ástæðum sem hann lýsti nánar. Hann kvað Þ hafa kastað upp. Hann vissi ekki hve lengi hann dvaldi sjálfur í herberginu. Það gæti verið um ein klukkustund en fram kom að ákærði mundi það ekki. Ákærði kvað mikið vanta í myndbandsupptökuna sem skoðuð var við upphaf aðalmeðferðar.

Ákærði Y lýsti því er hann sá ljós á síma meðákærða Æ í herberginu. Hann áttaði sig síðan á því að Æ var að taka upp myndband á símann sinn. Hann kvað þau A hafa skipað Æ að hætta upptökunni. Hugsanlega hafi aðrir sem þarna voru fyrirskipað hið sama þótt hann muni það ekki. Hann kvað Æ hafa myndað í leyfisleysi og hann hafi ekki hætt upptökunni strax.

Hann kvað meðákærða Æ hafa sýnt þeim ákærðu Z og Þ myndupptökuna sem um ræðir. Það hafi átt sér stað á mánudeginum á eftir og hann hafi séð Æ eyða upptökunni. Ákærði kvað það óþægilegt og leiðinlegt að upptakan sýndi sig í kynlífsathöfnum. Hann kvaðst síðar sama daga hafa frétt af því að myndbandið hafi verið „komið út um allt“. Hann hefði ekki séð hvort einhver tók símann af Æ í skólanum og hann vissi ekki hvort Æ sýndi öðrum upptökuna en hann kvaðst hafa frétt það síðar.

 

Framburður ákærða Y vegna ákæruliðar I.2

Ákærði kvað þau A hafa verið tvö eftir í herberginu sem greinir í ákærulið I 1 eftir að meðákærðu fór þaðan. Þau hefðu þá gengið fram og ákærði spurt hana hvort hún vildi klára. A hefði þá sagt já. Er ákærði spurði hvar kvað hann A hafa stungið upp á því að þau notuðu baðherbergið. Þangað hefðu þau farið og lokað á eftir sér. Þar inni hafi hún veitt ákærða munnmök auk þess sem þau hafi haft samfarir sem hann lýsti. Hann hefði spurt A eins og rakið var og allt sem fram fór inni á snyrtingunni hafi verið með hennar vilja. Ákærði neitaði því að hafa haldið um hendur hennar, leitt hana inn á baðherbergið og tálmað henni útgöngu með því að loka dyrunum. Dyrnar voru opnar og A gat farið, vildi hún það, en þau hafi verið inni á snyrtingunni í nokkrar mínútur. Þá neitaði ákærði því að hafa notfært sér yfirburða stöðu sína og aðstöðumun vegna líkamlegra aflsmuna og að A hafi verið lömuð af hræðslu eins og lýst er í ákærunni. Ákærði kvað þetta allt rangt með vísan til þess sem rakið var. Eftir að þessu lauk hafi ákærði farið fram og A á eftir talandi í farsímann sinn. Hún hafi kvatt stuttu síðar og farið.

Ákærði lýsti áhrifum myndbandsins á sig sem hafi verið mikil. Hann hefði misst vinnuna. Þá hafi verið erfitt að hefja nám á ný auk þess sem hann hafi fengið hótanir á Facebook. Þetta hafi orðið til þess að hann hafi hræðst að fara út úr húsi og lýsti hann því nánar. Hann hefði leitað til sálfræðings vegna þessa. Hann kvað líðan sína betri í dag en hann kveðst ekkert afbrot hafa framið.

Ákærði Z neitar sök. Hann kvað meðákærða Þ hafa boðið sér í partí á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann hefði komið fyrstur í partíið um klukkan 19. Partíið hafi verið skemmtilegt og lýsti hann því. Hann hefði drukkið einn til tvo bjóra. Hann hefði lítið rætt við A í partíinu en hann kvaðst kannast við hana úr skóla. Ákærði lýsti því er hann, ásamt bróður meðákærða Þ, sögðu fólki að partíinu væri lokið og var fólki vísað út. Er hann var að athuga hverjir væru í íbúðinni fór hann inn í svefnherbergi og sá þá meðákærðu Æ og Y þar inni ásamt A sem var að veita þeim munnmök. Er ákærði fór inn í herbergið og kom nær A tók hún í buxur ákærða sem spurði hvað hún væri að gera. Fyrr en varði hefði hún byrjað að veita ákærða munnmök þar sem hann stóð við rúmið þar sem A var. Munnmökin voru þannig að frumkvæði A. Þá hafi A fróað ákærða og meðákærðu einnig og hún hafi stjórnað höndum sínum sjálf. Þá hafi Y haft samfarir við hana. Hann lýsti því að hann hefði ekki getað eða viljað hafa samfarir við A sem hefði hlegið að sér. X kom inn í herbergð á eftir ákærða og Þ hafi kom þangað síðastur. Hann kvað allt hafa átt sér stað með fúsum og frjálsum vilja A og öll efnislýsing ákærunnar um nauðgun væri röng. Hann kvað A hafa veitt Æ munnmök. Þá hafi Þ haft samfarir við A og A einnig veitt honum munnmök. Hið sama eigi við um X, hann hafi haft samfarir við A sem einnig hafi veitt honum munnmök. Hann lýsti því að Þ hefði verið ölvaður og kastað upp á snyrtingunni og kvaðst ákærði hafa aðstoðað hann. Hann lýsti þessu nánar. Hann lýsti því að A hefði verið í ýmsum líkamsstellingum þegar kynmökin áttu sér stað og skýrði hann það nánar. Hún hefði sjálf breytt um líkamsstöðu. A hafi sjálf klætt sig úr. Herbergið hafi verið opið á þessum tíma en myrkur þar inni. Hann kvaðst hafa boðið A banana meðan á þessu stóð og hafi hún þegið hann og tekið bita. Ákærði kvað allt sem átti sér stað inni í herberginu hafa verið með fúsum og frjálsum vilja A. Hann kvað alla efnislýsingu ákærunnar um nauðgun ranga og hafnaði ákærulýsingunni. A hafi aldrei gefið neitt til kynna sem benti til þess að það sem fram fór væri ekki að vilja hennar og hún hefði engum ýtt frá. Hefði það verið gert hefði hann hætt strax þar sem ákærði kvaðst ekki vilja gera neitt gegn vilja A.

Ákærði kvað að Y og A hefðu verið eftir í herberginu er aðrir voru farnir þaðan. Hann sá þau ekki fara inn á snyrtinguna en sá þau koma þaðan út. Hann mundi ekki hvort salernið var lokað eða opið á meðan Y og A voru þar inni og hann hafi ekki vitað hvað þau aðhöfðust þar. Hann kvað A hafa verið glaða í bragði er hún kom út af snyrtingunni. Hún hafi kallað upp og kvatt ákærðu er hún fór úr íbúðinni eftir þetta en á sama tíma talaði hún í síma.

Ákærði Z kvaðst hafa vitað að meðákærði Æ tók á símann sinn myndband af því sem gerðist í herberginu. Æ hefði verið beðinn um að hætta upptökunni og A ítrekað sagt honum að hætta upptöku. Ákærði kvað einhvern hafa sent Y snapchatupptöku af kynlífsathöfnunum mánudeginum á eftir en meðákærði Æ hefði ekki sent upptökuna. Ákærðu hafi þá farið og hitt Æ sem eyddi upptökunni úr símanum sínum en hann hefði greint sér frá því að síminn hefði verið tekinn af sér. Skilja mátti ákærða svo að Æ hefði greint frá því að hann hefði ekki dreift upptökunni. Ákærði Z kvaðst ekki hafa verið í matsal skólans er upptakan var sýnd.

Ákærði Z lýsti samskiptum þeirra Þ eftir þetta og fram kom hjá ákærða að hann teldi A hafa kært vegna þess að myndbandið fór í dreifingu. Hann kvaðst hafa fengið margar hótanir eftir mál þetta. Hann hafi orðið hræddur við að fara út úr húsi og hann hafi hætt í skóla. Þá hafi hann neyðst til að flytja af landinu um hríð.

Ákærði Þ neitar sök. Hann kvaðst hafa boðið í partí á Facebook og fjöldi manns komið á heimili hans. Fólkið hafi farið milli klukkan eitt og tvö að hann minnti, en bróðir ákærða, vísaði gestum út meðan ákærði kastaði upp á snyrtingunni. Hann kvaðst hafa heyrt hljóð úr svefnherberginu, farið þangað inn og séð meðákærðu Æ, Z og Y þar fyrir ásamt A. Hún hafi  setið á rúmstokknum og verið að fróa meðákærðu og veita þeim munnmök. A hafi þá verið í brjóstahaldara en hún hefði síðar klætt sig sjálf úr buxum og skóm. Allt virtist í lagi að hans sögn. Hann kvaðst engin samskipti hafa haft við A í partíinu og fyrst séð hana inni í herberginu. Er ákærði kom þangað inn tók hann að fróa sér uns A tók óbeðin við og leysti buxur ákærða niður um hann þar sem hann stóð fyrir framan rúmið þar sem A sat. Ákærðu voru þá fjórir í herberginu með A sem fróaði þeim öllum. Hann lýsti því hvernig samræði var haft við A í ýmsum líkamsstellingum og kvaðst ákærði hafa haft samræði við hana og meðákærðu einnig. X hefði komið inn í herbergið litlu síðar og tekið þátt í því sem fram fór. Hann hefði haft samfarir við A sem einnig hafi fróað honum og veitt munnmök. Hann kvað herbergið hafa verið opið en ljós á ganginum skein þangað inn. Ákærði kvaðst hafa verið ölvaður og hann hefði þurft að kasta upp en hann muni atburði engu að síður. Hann hafi ekki komið aftur inn í herbergið eftir að hann kastaði upp. Allt sem fram fór hafi verið með fúsum og frjálsum vilja A. Hann hefði aldrei tekið þátt í þessu gegn vilja hennar. Farið var ítarlega yfir efnislýsingu ákærunnar er varðar nauðgun og kvað ákærði þá efnislýsingu ranga í öllu. Hann kvað allt hafa farið fram með samþykki A sem ekki hafi verið hrædd eins og lýst er í ákærunni. Hann kvað belti ekki hafa verið notað eins og lýst sé í ákærunni. Hann hafi ekki séð meðákærða Y bíta í geirvörtu A.

Ákærði Þ kvað meðákærða Y hafa orðið eftir í herberginu ásamt A er aðrir ákærðu fóru þaðan út. Hann kvaðst hvorki hafa séð ákærða Y og A fara inn á snyrtinguna eftir þetta né er þau komu þaðan út. Hann kvaðst hafa heyrt A fara en hún hafi þá verið að tala í síma og hefði hún kastað kveðju á ákærðu.

Ákæri Þ kvaðst hafa séð ljós í herberginu, hann hafi beðið um að það yrði slökkt og meðákærði Æ verið beðinn um að hætta upptökunni og A hefði einnig beðið hann um það. Ákærði kvað meðákærða Æ hafa sýnt sér myndbandsupptökuna í skólanum um hádegið mánudeginum á eftir en þá hafi enginn ákærðu vitað að aðrir hefðu séð myndbandið. Ákærðu fréttu það síðar sama dag. Hann kvaðst ekki vita hvort Æ sýndi öðrum en ákærðu myndbandið en ákærði kvað þá Z og Y hafa verið viðstadda er ákærði Æ eyddi myndabandinu úr síma sínum.

Ákærði Æ neitar sök. Hann kvaðst hafa komið á heimili meðákærða Þ um klukkan 22 þetta kvöld og var þar fyrir nokkuð af fólki sem hann þekkti. Hann lýsti því er fjölgaði í samkvæminu uns Þ bað ákærða um að koma fólkinu út sem hann gerði. Hann lýsti því er A og vinkona hennar komu en ákærði kvaðst hafa þekkt E, sem var ein þeirra sem kom með A. Hann lýsti samskiptum þeirra E um kvöldið. Þá lýsti hann aðstoð þeirra meðákærða Þ við ölvaða vinkonu A. Hann lýsti því er hann ræddi við A og þau hafi kysst í framhaldinu. Eftir það fóru þau inn í svefnherbergi íbúðarinnar þar sem þau kysstust og létu vel hvort að öðru. Leiddi þetta til þess að A tók ákærða úr buxunum og veitti honum munnmök. Þá hafi A viljað kynmök sem ákærði vildi ekki og ýtti A til hliðar. Hún hefði hins vegar tekið í ákærða og sett lim hans inn í leggöng sín stutta stund. Hann kvaðst þessu næst hafa klætt sig í buxurnar, farið fram og á snyrtinguna. Er hann kom þaðan voru gestirnir farnir. Hann hafi þá heyrt hljóð úr herberginu þaðan sem þau A voru og er hann kom þangað voru fjórir meðákærðu þar ásamt A sem veitti þeim munnmök. Herbergið var opið á þessum tíma. Hann lýsti nánar líkamsstöðu þeirra sem áttu hlut að máli en enginn hafi legið ofan á A eða haldið um höfuð hennar og hún hafi aldrei verið beitt hörku. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið þátt í neinum kynlífsathöfnum eftir að hann kom aftur inn í herbergið. Hann telji að meðákærðu beri um það vegna þess að hann hafi verið inni í herberginu á sama tíma, eins og hann hefur borið. Þá hafi A fróað tveimur ákærðu í einu meðan einn stakk fingri í kynfæri hennar. Ákærði kvað ekkert í efnislýsingunni sem varðar nauðgun hafa átt sér stað og kvað hann ákæruna að því leyti ranga. Allt sem fram fór hafi verið með fúsum og frjálsum vilja A, jafnt er ákærði átti samskipti við hana, eins og lýst var, og einnig er meðákærðu gerðu það. Hún hafi tekið fullan þátt í því sem fram fór. Hið eina sem ákærði kvað rétt er að hann sá ól vera spennta um læri A en hann viti ekki hvers vegna það var gert né hver gerði það. Hann kvaðst hafa séð meðákærða Y sjúga geirvörtu A en hann viti ekki hvort hann beit A eins og lýst sé í ákærunni.

Ákærði lýsti Facebooksamskiptum við A eftir á en hún hafi verið reið vegna myndabandsins sem ákærði tók. Hún hefði ekki sakað ákærða um nauðgun þar. Þá lýsti hann samtali sínu og B vinkonu A, á mánudeginum eftir atburðinn og hefur ákærði eftir B að A hefði hálfpartinn gortað af því að hafa verið með fjórum strákum. Þá lýsti hann hótunum sem hann varð fyrir á Facebook vegna myndbandsins en þar var ekki minnst á nauðgun.

Ákærði Æ kvaðst hvorki hafa séð A og Y fara á snyrtinguna eftir það sem gerðist í herberginu né er þau komu þaðan út. Hann viti ekki hvað átti sér stað inni á snyrtingunni. Hann heyrði A kasta kveðju á ákærðu við brottför úr íbúðinni en þá hafi klukkan verið um fjögur um nóttina.

Vitnið A kvaðst hafa komið í [...] ásamt E, vinkonu sinni, en þá voru þar fyrir tuttugu til þrjátíu manns. Allt hafi farið vel fram en hún kvaðst hafa fundið „aðeins“ til áfengisáhrifa. Að því kom að þau ákærðu Æ fóru saman inn í herbergi en hún mundi ekki alveg hvað gerðist þar en þau hafi kysst uns þau fóru aftur fram og þá voru gestir enn á staðnum, meðal annars vinkonur hennar. Hún hafi síðan farið ein inn í herbergið og ákærði Æ á eftir. Þá hafi þau aftur tekið að kyssast, kynferðisleg samskipti hafi verið milli þeirra og það sem fram fór hafi verið með samþykki beggja en hún muni ekki nákvæmlega hvað gerðist milli þeirra. Meðan á þessu stóð hafi tveir aðrir strákar komið inn í herbergið og eftir það hafi ákærðu tekið að brjóta gegn henni og framkvæma kynlífsathafnir gegn vilja hennar. Þarna hafi þeir brotið mótstöðu hennar á bak aftur. Stuttu síðar komu tveir síðustu ákærðu, líklega ákærðu Þ og X, en hún var þó ekki viss um það. Hafi þessir tveir ákærðu ekki gert sér grein fyrir því er þeir komu inn að það sem átti sér stað inni í herberginu hafi verið gegn vilja hennar, hafi þeir gert það er hún ýtti þeim báðum frá sér strax og þeir byrjuðu kynlífsathafnirnar. Er strákarnir komu inn hafi þau Æ hætt kynferðislegu samskiptunum og þá hafi verið eins og Æ hafi boðið strákunum að vera með án þess að spyrja hana. Þeir hafi þá komið að og ætlast til þess að fá að „vera með“. Hún hefði ýtt þeim frá en þeir hefðu stöðugt komið aftur, ýtt á hnakka hennar til að láta hana halda áfram og þvingað hana til að veita þeim munnmök. Nánar spurð um það hvernig þetta gerðist og hvort hún hefði verið þvinguð til að opna munninn kvaðst hún ekki muna hvernig þetta var. Hún kvað hendi sína hafa verið tekna og hún látin halda utan um lim einhvers ákærðu. Hún mundi ekki hvor höndin var notuð í þetta. Hún hafi sleppt margoft en ákærðu hefðu tekið hendi hennar jafnharðan og látið hana halda áfram. Ákærðu hefðu allir tekið álíka þátt í því sem fram fór. Nánar spurð um athafnir ákærða Þ þarna inni kvaðst hún muna eftir honum þar en ekki muna nákvæmlega hvað hann gerði. Hún kvaðst hafa sagt þeim að hætta og gefið þeim til kynna að hún vildi ekki vera með þeim en hún hefði hins vegar aldrei sagt ákærðu það með beinum orðum. Síðar við vitnisburðinn greindi hún svo frá að hún gæti hafa sagt þeim berum orðum að það sem gerðist væri ekki að vilja hennar. Hún muni það ekki. Hún hafi ekki vitað fyrr en ákærðu allir hafi verið inni í herberginu, ýtt henni í rúmið og látið hana leggjast og byrjað þá að skiptast á að hafa samfarir við hana og munnmök. Þá hafi Y sett fingur í leggöng hennar. Hún hefði verið í ýmsum líkamsstellingum, meðal annars á fjórum fótum, og taldi hún einhvern hinna ákærðu hafa lyft sér upp og sagt sér að vera í þeirri stöðu. Hún mundi ekki hvenær þetta var en hún hefði náð að komast úr þeirri stöðu. Hún kvaðst hafa verið bitin í geirvörtuna en hún viti ekki hver gerði það. Hún kvað alla fimm ákærðu hafa tekið þátt í því sem fram fór en hún geti ekki lýst því hver hinna ákærðu gerði hvað, enda þekkti hún þá ekki mikið fyrir og hefði aldrei séð suma þeirra áður. Hún kvaðst hafa reynt að ýta öllum ákærðu frá eins og rakið er en hún hafi síðan misst tök á aðstæðum, frosið og ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við. Hún hefði verið hrædd en herbergið var myrkvað. Hún hafi vitað að þau ákærðu væru ein í íbúðinni og því ekki komið til álita að kalla á hjálp. Enginn hefði heyrt í henni þótt hún kallaði. A mundi ekki hver klæddi hana úr skónum. Við skýrslutöku hjá lögreglunni 8. maí 2014 greindi hún svo frá að hún hefði sjálf sparkað af sér skónum. Spurð um þetta misræmi fyrir dómi kvað hún vitnisburðinn hjá lögreglu hljóta að vera réttan þar sem hún hefði munað atburði betur þá. Hún mundi ekki hver klæddi hana úr buxunum en hún hefði ekki farið sjálf úr þeim og mundi ekki hvort hún klæddi sig sjálf úr skónum. Hún kvaðst ekki muna að henni hefði verið hótað ofbeldi. Hún kvað beltið hafa verið bundið um lærið á henni en hún viti ekki í hvaða tilgangi það var gert. A kvað ekkert í hennar athöfnum hafa verið þannig að ákærðu hefðu getað mistúlkað aðstæður og talið hana samþykka því sem fram fór.

A bar að þegar þessu var að ljúka inni í herberginu hafi ákærðu verið farnir fram utan ákærði Y. Aðrir ákærðu hafi stöðugt komið aftur inn í herbergið. Y hafi þá sagt henni að koma með sér inn á bað. Hún hafi þá staðið á fætur og ætlað að klæða sig en þá hafi Y leitt sig, eins og hún bar fyrst, en síðar sagði hún að hann hefði togað sig inn á baðherbergið þar sem hann hefði látið hana setjast á klósett og hafa munnmök við hann sem hún gerði. Við skýrslutöku 8. maí 2014 hjá lögreglu greindi A svo frá að ákærði Y hefði leitt hana inn á baðherbergið og ákærði hefði ekkert togað í hana á þeirri leið. Spurð um þetta fyrir dómi kvaðst hún muna að ákærði leiddi hana og togaði inn á baðherbergið og að vitnisburður sinn hjá lögreglu 8. maí 2014 væri rangur um þetta. Ákærði Y hefði einnig haft við hana samfarir inni á snyrtingunni. Hún hafi ætlað að standa á fætur og opna dyrnar en hann hefði haldið þéttar í hana og lokað dyrunum svo að hún komst ekki undan. Hún kvaðst síðan ekki muna hvað gerðist inni á baðherberginu í framhaldinu fyrr en hún gekk þaðan út. Hún fór þá inn í herbergi, klæddi sig, fór út úr í búðinni og heim til sín.

Daginn eftir vakti móðir hennar hana vegna þjófnaðar hennar úr íbúðinni að [...] og til stóð að íbúi þaðan sækti til hennar muni, en A kvaðst hafa rætt við E vinkonu sína um að hún kæmi einnig með þýfi til hennar til að unnt yrði að koma munum til skila sem úr varð. A staðfesti að fram komi á eftirlitsmyndavél hússins að [...] að hún sæki poka með þýfi undir stiga í anddyri hússins er hún fór þaðan út um nóttina.

A kvaðst hafa sagt E frá atburðunum sem hér um ræðir á sunnudeginum. Ítrekað spurð um það hvort hún hefði notað orðið nauðgun er hún greindi E frá því sem átti sér stað kvaðst hún ekki hafa notað það orð. Hún hafi sagt að hún hefði lent í kynlífsathöfnum sem hún var ekki samþykk. Hún lýsti því er hún ræddi atburðinn við vinkonur sínar á þriðjudeginum og á miðvikudeginum og hafi þá rætt um atburðinn sem nauðgun eftir að myndbandsupptakan var komin fram. Hún ákvað að kæra eftir að hún frétti af myndbandinu en það hefði ekki haft áhrif á þá ákvörðun hennar að kæra, vinkonur hennar hafi hvatt hana til þess.

Hún kvaðst ekki vita hvers vegna hún greindi móður sinni ekki frá því sem gerðist.

Hún hefði verið í sambandi við K og L, vini sína, á sunnudeginum en hún greindi þeim ekki frá því sem gerðist. Spurð hvers vegna kvaðst hún ekki hafa haft ástæðu til þess.

Hún kvað föður sinn hafa vakið sig á mánudeginum til að fara í skólann. Þá hafi hún „misst sig“ og ráðist á föður sinn. Móðir hennar hringdi á lögregluna. Þetta hafi verið óvenjulegt af hennar hálfu.

Hún kvað vinkonur sínar hafa sagt sér frá upptökunni. Hún hafi ekki vitað hvernig hún ætti að taka því en henni hafi fundist upptakan særandi. Hún hafi fyrst í stað ekki ætlað að kæra. Hún hefði ætlað að gleyma þessu. Hún lýsti slæmri líðan sinni dagana eftir atburðinn. Þá lýsti hún afleiðingum þessa atburðar á líf sitt en þetta hefði m.a. haft mikil áhrif á skólagönguna. Hún kvað allt það sem fram fór í herberginu, fyrir utan upphaflegu samskiptin við Æ, sem lýst var, hafa verið gegn vilja sínum. Spurð um líkamlegt ofbeldi kvaðst hún muna að hafa verið slegin með belti í lærið auk þess að hafa verið bitin í geirvörtuna. Hún viti ekki hver hinna ákærðu gerði þetta. Þá hafi verið legið ofan á henni í rúminu á tímabili svo að hún gat ekki komist undan. Við skýrslutöku hjá lögreglu var vitnið spurt að því hvort hún hefði tekið þátt í því sem fram fór þannig að ákærðu hefðu mátt ætla að hún vildi það sem fram fór. A svaraði því þannig ,,nei eða ég held ég ekki“. Nánar spurð um þetta hjá lögreglunni kvaðst hún hafa frosið en ekki hafa tekið þátt. Spurð um þetta fyrir dómi, hvort þetta væri eitthvað málum blandið, kvað hún það vera sér ljóst núna að hún hefði ekki tekið neinn þátt í kynlífsathöfnunum. Hún kvaðst ekki vita hvers vegna hún orðaði þetta eins og rakið var við skýrslutöku hjá lögreglu.

A lýsti því er ljós kviknaði á síma ákærða Æ inni í herberginu. Hann hafi þá verið beðinn um að hætta að taka upp og A kvaðst sjálf hafa beðið hann um það. Ákærðu gerðu það einnig. Hann hafi þá sagt að hann væri ekki að mynda. Hann væri að lýsa upp herbergið vegna myrkursins þar.

Vitnið J kvað A, dóttur sína, hafa hringt í sig í vinnu sama dag og hún kærði atburðinn sem hér um ræðir. Hún kvaðst ekki hafa orðið A vör er hún kom heim aðfaranótt sunnudagsins. Hún lýsti samskiptum þeirra mæðgna á sunnudeginum, sér hefði fundist A einkennileg í framkomu og hún hafi talið hana þreytta. Við gerð kæruskýrslu hjá lögreglu greindi vitnið ekki frá þessu heldur kvað A hafa komið aðeins niður og að vitnið hefði eiginlega ekkert tekið eftir henni. Spurð um þetta misræmi í vitnisburði kvað hún samskipti þeirra A á sunnudeginum hafa verið lítil en hún hefði talið A þreytta. J kvað þá foreldrana hafa farið að heiman og er hún kom til baka hafi A verið farin og vitnið verið sofnað er A hafi komið heim á sunnudagskvöldinu. A hefði síðan ekki viljað fara í skólann á mánudeginum og lýsti hún deildum og erfiðleikum vegna þessa og átökum A og föður hennar. Hún kvað háttalag A þarna hafa verið óvenjulegt. Hún hefði hringt í lögregluna. A hefði farið til vinkonu sinnar og síðan til systur sinnar um kvöldið. Hún hefði ekki hitt A fyrr en kæra var lögð fram, miðvikudaginn 7. maí 2014. Hún lýsti breytingum sem hún merkti í fari A á þessum tíma en hún hefði verið ólík sjálfri sér.

Vitnið M, faðir A, kvaðst hafa verið sofandi er A kom heim aðfaranótt sunnudags og hann verið farinn að heiman er hún vaknaði á sunnudeginum. Hann lýsti því að illa hefði gengið að fá A til að vakna í skólann á mánudeginum og lýsti hann tilraunum sínum til að reyna að ná sambandi við hana. Leiddi þetta til deilna milli þeirra A sem hann lýsti en þetta hefði verið óvenjuleg uppákoma. Hann kvaðst hafa frétt af ætluðu kynferðisbroti nokkrum dögum síðar.

Vitnið N kvaðst ekki hafa verið heima hjá sér að [...] á þeim tíma sem um ræðir en hún hefði hringt tvisvar sinnum í bróður sinn, ákærða Þ, til að athuga ástandið. Hún lýsti ferð sinni á heimili A á sunnudeginum á eftir vegna þess að munum hafði verið stolið frá henni um nóttina. Fram kom að A og tvær vinkonur hennar stálu dótinu frá vitninu. Hún lýsti samskiptum á milli aðila á Facebook vegna þessa og þannig hefði hún komist að því hverjir þjófarnir voru. Hún lýsti samskiptum vegna þessa en að lokum hringdi A í vitnið, sagðist vera með dótið sem hún ætti og að hún ætti að koma heim til A og sækja eigur sínar. Hún hafi síðan gert það og sótt mest af því sem stolið hafði verið heim til A á sunnudeginum um klukkan 14. Hún hefði sagt A að sér líkaði ekki framferði hennar og að hún hefði hug á að kæra. A hefði hlegið að sér og ekkert virst ama að henni. Er hún spurði hvers vegna mununum hefði verið stolið sagði A að þær vinkonur hefðu verið svo fullar að þær hefðu ekki vitað hvað þær gerðu.

Vitnið O kvaðst hafa verið í samkvæminu að [...] á þessum tíma. Hann mundi ekki hvenær hann kom en þá voru margir gestir fyrir. Hann mundi ekki eftir A þar. Fram kom að vitnið mundi tímasetningar illa. Hann kvaðst hafa vísað hluta gesta út úr íbúðinni. Hann kvaðst hafa athugað flest herbergin eftir að gestir fóru en hann hefði ekki athugað hvort herbergin sem hann kannaði ekki voru læst. Vitnið kvaðst hafa farið úr veislunni stuttu eftir að hafa vísað gestum út.

Vitnið K kvaðst hafa fengið símtal frá A um miðja nótt sem hann svaraði ekki. Hann hafi síðan hitt A á sunnudeginum 4. maí og hafi A komið sér ágætlega fyrir sjónir. Hún hafi verið mjög eðlileg. Ekkert hafi bent til þess að A hefði lent í einhverju en hún sagðist hafa farið í partí kvöldið áður.

Vitnið D kvaðst hafa verið í samkvæminu að [...] sem um ræðir. Hún hefði hitt A þar en hún hefði verið búin að drekka „alveg slatta“. A hefði verið áberandi ölvuð. Við skýrslutöku hjá lögreglunni 9. maí 2014 greindi hún svo frá að A hefði verið fín og ekkert full. Spurð um þetta fyrir dómi kvað hún allt vera óskýrt fyrir sér. A hefði verið eitthvað drukkin og skýrði hún þetta frekar. Hún hafi hitt E og B sem hafi verið „blind full“ og kastað upp. Hún kvaðst hafa farið úr partíinu ásamt P en áður hefði B verið ekið heim. Hún taldi sig hafa farið um miðnætti.

Vitnið G var í samkvæminu á heimili ákærða Þ á þessum tíma. Hann mundi hvorki hvenær hann kom né hvenær hann fór. Hann hitti A í partíinu. Vitnisburðurinn varpar ekki ljósi á málavexti.

Vitnið C var í samkvæminu í [...] á þessum tíma en þangað kom hún ásamt B, vinkonu sinni. Hún hitti A en átti lítil samskipti við hana. Hún kvað B hafa verið mikið ölvaða og keyrði vitnið hana heim en þá hafi fólkið verið farið að tínast út. Hún kvaðst ekki hafa komið aftur í partíið eftir að hún ók B heim. Hún kvaðst hafa verið með B í för er hún greindi A frá myndbandinu. Spurð um viðbrögð A kvað hún hana hafa farið að hlæja en ekki hafi verið rætt um það þá að A hefði orðið fyrir nauðgun. A hefði sagt að ef myndbandið færi lengra myndi hún segja að þetta hefði verið nauðgun. A hefði sagt vinkonum sínum frá því í tölvusamskiptum á sunnudeginum að hún hefði tekið þátt í ,,orgíu“. Þá hefði komið fram hjá henni að einhverju hefði verið stolið í partíinu. Þá lýsti vitnið því að fram hafi komið í Facebooksamskiptum A og vinkvenna hennar að færi myndbandið lengra þá myndi hún segja „að þetta sé nauðgun“. A hefði gert þetta þar sem hún hefði ekki viljað fá á sig slæmt orð og því sagt að það sem fram fór hafi verið nauðgun. Þessi samskipti séu til hjá B, vinkonu vitnisins. C kvaðst hafa afhent lögreglu upptöku af myndbandinu sem um ræðir. Hún kvað H hafa tekið upp myndband úr síma ákærða Æ og sent sér. Hún vissi ekki hvernig H komst í aðstöðu til að taka myndbandið upp úr síma ákærða Æ.

Vitnið E kvaðst vera besta vinkona A og þær hafi komið saman í samkvæmið á heimili ákærða Þ á þessum tíma. Hún kvaðst muna mjög takmarkað eða „eiginlega ekkert“ eftir samkvæminu en hún hefði verið „frekar full“. Aðspurð kvað hún A hafa verið „mjög full“. Síðar í skýrslunni lýsti vitnið því að kannski hafi A ekki verið jafn ölvuð og vitnið hélt. Ef til vill hafi einhver „byrlað henni lyfjum“ og A virst ölvaðri og ,,alveg týnd“ vegna efnis sem henni kunni að hafa verið byrlað. E mundi ekki hvenær hún fór úr samkvæminu en A hefði verið eftir í íbúðinni við brottför vitnisins. Hún kvaðst hafa hitt A um hádegið sunnudaginn 4. maí og þá hafi A sagt að ákærðu hefðu nauðgað henni en A hafi ekki greint henni ítarlega frá því sem gerðist. Nánar spurð hvernig A greindi henni frá atburðum mundi vitnið það óljóst en vitnisburðurinn var mjög óskýr um þetta o.fl. Farið var yfir hluta vitnisburðar hennar hjá lögreglu þar sem þessu var lýst ítarlegar og kvaðst hún þá kannast við frásögnina en kvað nú svo langan tíma liðinn frá þessu að hún myndi þetta ekki. Hún kvaðst meðal annars hafa séð áverka á geirvörtu A sem hafi verið rifin. E gaf skýrslu hjá lögreglunni 10. júní 2014 sem hún mundi ekki eftir. Hún kvaðst hafa séð á A að eitthvað amaði að henni og skýrði vitnið það. Hún lýsti því að rætt hefði verið um myndbandsupptökuna í skólanum á þriðjudeginum á eftir. Hún hafi þá, ásamt C, farið og hitt A og greint henni frá upptökunni. Hún kvaðst ekki muna viðbrögð A sem hafi verið í sjokki að hún taldi.

Vitnið F kvaðst hafa verið í samkvæminu hjá Þ 4. maí 2014. Hún kvaðst ekki hafa verið ölvuð. Hún kvað A hafa orðið ölvaða er leið á kvöldið. B og E hafi verið „fullar“. Hún kvaðst telja að þær E og Q hafi farið seinastar úr samkvæminu en hún hafi ekki vitað hvar A var á þeim tíma, hún hafi ekki fundið hana þrátt fyrir leit en hún bæði kallaði á hana og reyndi að hringja í hana án árangurs. Hún lýsti því að fyrr um kvöldið hefði hún haft tal af A sem var inni í herbergi með ákærða Æ, hún hefði ætlað að fá A með sér út en A vildi ekki fara. Hún kvaðst hafa heyrt í A á sunnudeginum eða mánudeginum á eftir og spurt hana hvert hún hefði farið þar sem þær hefðu áður ákveðið að A myndi gista hjá vitninu eftir samkvæmið. A hefði sagt að eitthvað kynferðislegt hefði átt sér stað í íbúðinni og hún hefði ekki viljað það sem átti sér stað. Vitnið mundi ekki hvernig A greindi frá því sem gerðist. Vitnið kvaðst hafa frétt af myndbandinu og þá hringt í A en hana minnti að hún hefði skellt á hana.

 

Vitnið B var í samkvæminu hjá Þ 4. maí 2014 en þær C komu þangað saman. Hún kvaðst ekki hafa neytt mikils áfengis en eitthvað hefði verið sett í drykk hennar svo að hún myndi ekki neitt frá samkvæminu. Hún kvaðst hafa verið í Facebooksamskiptum við A daginn eftir en þá hafi A sagt að hún hafi farið í „orgíu“ auk þess sem fram kom að A og fleiri hefðu stolið einhverju í partíinu. Þá hafi þær C, og fleiri sem hún mundi ekki hverjar voru, farið til A og greint henni frá myndbandinu sem um er rætt. Spurð um viðbrögð A kvað hún hana hafa hlegið og brosað og sagt að ef myndbandið færi í dreifingu þá myndi hún segja að „þetta sé nauðgun“. Vitnið kvaðst hafa þrjú skjáskot eftir atburðinn sem hér um ræðir á síma sínum þar sem þetta komi fram og voru skjámyndirnar prentaðar úr síma vitnisins og lagðar fram í málinu. Spurð um efni lögregluskýrslu þar sem hún greinir frá samskiptum sínum og ákærða Æ kvaðst hún muna eftir því að ákærði Æ hefði tekið upp myndband sem hann sæi mikið eftir. Hún kvaðst ekki muna efni lögregluskýrslunnar nú.

Vitnið H hafði réttarstöðu sakbornings undir rannsókn málsins en rannsókn á hendur honum var hætt. Hann kvað ákærða Æ hafa sýnt sér myndbandsupptökuna í [...] og hann hafi tekið upp á síma sinn hluta þess sem hann sá í síma Æ. Þeir Æ hafi verið tveir einir er hann sá myndbandið en hann mundi ekki hvernig það kom til að hann sá það og hann hafi ekki séð ákærða Æ sýna öðrum upptökuna. Nánar spurður um þetta kvað hann hugsanlegt að hann hefði séð upptökuna í matsal skólans. Spurður um það hvort hugsanlegt væri að hann hefði tekið símann af Æ neitaði vitnið því og kvað sig ekki minna það. Hann kvaðst hins vegar hafa tekið upp úr síma ákærða Æ í leyfisleysi og ákærði Æ hafi ekki heimilað upptökuna. Spurður um efni lögregluskýrslu, dagsettrar 9. maí 2014 þar sem fram kom hjá vitninu að hugsanlega hafi fleiri verið viðstaddir er hann sá upptökuna kvað hann svo geta verið. Hann nafngreindi engan. H kvaðst hafa séð alla upptökuna í síma Æ en hann tók upp hluta þess sem hann sá. H kvað ljóst af upptökunni að A hefði verið með í „orgíunni“. Ekkert hafi sést á myndbandinu um það hvort A hafi verið samþykk því sem fram fór eða ekki. Hann kvaðst ekki hafa séð A ýta ákærðu frá eins og hún vildi ekki það sem fram fór. H kvaðst síðan hafa setið í tíma, meðal annars með C. Hann hafi greint frá því að hann hefði myndbandið í símanum sínum og hann hafi þá, að ósk C, sent henni upptökuna en hann hafi aðeins sýnt C upptökuna. Hann kvaðst ekki get svarað því hvort síminn hafi verið tekinn af ákærða Æ í skólanum.

Vitnið R kvaðst besta vinkona A. Hún kvaðst ekki hafa verið í partíinu að [...] hinn 4. maí 2014 en hún hafi verið í sambandi við A eftir það. R kvaðst hafa séð myndbandið sem um ræðir í ákærulið II og hún hafi eftir það farið ásamt F, E og S að hún taldi, og hitt A. Fram kom hjá vitninu að myndbandið er hið sama og liggur frammi í málinu. Spurð um viðbrögð A kvaðst hún hafa tekið því eins og hún er gerð. Hún hafi verið vandræðaleg og hlegið en vitnið hafi skynjað að A leið illa þarna og dagana á eftir. Spurð um það hvenær hún hafi fengið vitneskju um nauðgun kvað hún það hafa verið er hún sá myndbandið en A hefði ekki greint frá nauðgun. Afrit af Facebooksamskiptum vitnisins og vinkvenna liggur fyrir í málinu. Þar segir R m.a. við A „þú ert hreyfingarlaus á myndbandinu og gætir notað það sem nauðgun“. Vitnið kannaðist við að hafa skrifað þetta. Hún kvaðst hafa átt við það að þótt A myndi ekki það sem gerðist gæti hún kært nauðgun og byggt á myndbandinu eftir því sem helst mátti skilja á vitninu. Hún kvaðst hafa spurt A út í það sem gerðist og hún hefði ekki vitað almennilega hvað hefði gerst. Hún kannaðist við það að A hefði sagt að ef myndbandið færi í dreifingu þá myndi hún segja að það sem þar sæist væri nauðgun. Vitnið kvaðst myndu hafa orðið brjálað ef A kærði ekki nauðgun þar sem vitnið kvaðst hafa séð myndbandið og að um nauðgun væri  að ræða.

Vitnið T kvað A, hálfsystur sína, hafa dvalið hjá sér eftir atburðinn sem í I. kafla ákæru greinir. Hún lýsti uppnámi A og líðan hennar.

Vitnið U, sambýlismaður T, hálfsystur A, lýsti dvöl A á heimili vitnisins í [...] eftir atburðinn sem hér um ræðir. Hann lýsti breytingum sem hann merkti í fari A.

Fyrir liggur skýrsla neyðarmóttöku, dagsett 8. maí 2014. V heimilislæknir og starfandi læknir á neyðamóttöku undirritaði skýrsluna. V staðfesti og skýrði skýrsluna fyrir dóminum. Hún lýsti því hvernig A hefði komi sér fyrir sjónir. Hún lýsti skráningu sinni eftir frásögn sjúklings en hún hitti A 7. maí 2014. Í skýrslunni er því lýst að rifið hafi verið út frá pinna eftir að bitið hafi verið í brjóst A. Vitnið lýsti þessum áverka og kvað sýkingu hafa verið í sárinu. Hún kvaðst ekki geta sagt til um það hvort þessi áverki hafi verið frá aðfaranótt sunnudags 4. maí 2014 en áverkinn gæti samrýmst frásögn A. Þá er lýst í skýrslunni tveimur marblettum á hægra læri. Marblettirnir hafi verið frekar litlir. Þeir hafi ekki verið ferskir en meira sé ekki unnt að segja. Marblettirnir gætu samrýmst frásögn sjúklings. Marbletti á innanverðu læri er lýst í skýrslunni. Vitnið kvað þennan marblett geta verið eftir ól samkvæmt frásögn A. V kvað marbletti geta hlotist við átök en hún kvað A ekki hafa greint sér frá því að hún hefði lent í átökum á mánudeginum fyrir komu á neyðarmóttökuna. Í skýrslunni er lýst mögulegum þrýstingsáverka í harðagómi. V kvað A hafa lýst því að höfð hefðu verið við hana endurtekin munnmök. A hafi fundið til en áverkarnir hafi verið farnir að minnka við skoðunina. Spurð hvort áverki sem þessi geti myndast við þvinguð munnmök kvaðst hún ekki hafa séð svona áverka áður en roða sem hún greindi hafi verið óvenjulegt að sjá á svona stað. Hún kvaðst hafa greint slímhúðarafrifur við leggangaopið. Hún lýsti þessu nánar en afrifur sem þessar grói mjög hratt og fremur óvenjulegt sé að sjá afrifur á þriðja degi frá atburði. Hún kvað áverka sem þessa geta hlotist við eðlilegar samfarir.

Vitnið W hjúkrunarfræðingur hitti A við komu hennar á neyðarmóttöku 7. maí 2014. Hún kvað A hafa komið í endurkomu 28. maí 2014 og lýsti hún meðferð sem A var þá veitt.

Vitnið BB rannsóknarlögreglumaður tók skýrslur og stýrði skýrslutökum í málinu hjá lögreglu. Hún tók skýrslu af A og vísaði í þeim skýrslum til Facebooksamskipta nafngreindra aðila en þau gögn kvaðst hún hafa fengið inn á borð til sín dagana 9., 10. eða 11. maí 2014. Í þessum samskiptum komi fram að aðili, sem eigi þar samskipti, hafi þekkt þá sem komu að máli þessu og að A hlæi að því sem fram fór, hún tali um þetta sem orgíuna og ræði um þetta sem slíkt. A hafi komið til skýrslutöku 12. maí 2014 og þá verið spurð út í þessi atriði. Yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar hafi ákveðið að ekki skyldi rætt við þetta fólk af ástæðum sem vitnið greindi frá. Spurð hvers vegna tiltekin gögn er varða Facebooksamskipti fólks, og spurt var út í við yfirheyrslur hjá lögreglunni, væru ekki á meðal gagna málsins gat hún ekki svarað því. Fyrir liggur að teknar voru fjórar lögregluskýrslur af hverjum sakborningi undir rannsókn málsins. Spurð um það hvers vegna sakborningum var ekki sýnd myndbandsupptakan undir rannsókn málsins kvaðst vitnið ekki vita það og ekki geta svarað því. Hún kvað lögreglufulltrúa hafa stjórnað rannsókninni og vitnið mundi ekki hvort komið hefði til álita að sýna sakborningunum upptökuna. Fyrir liggur póstur frá skólameistara [...] þar sem greint er frá eftirlistmyndavélum og að lögregla hafi ekki leitað eftir upplýsingum úr þeim. Ákærði Æ hefur frá 7. maí og í þremur skýrslum síðan borið að síminn hafi verið tekinn af honum og lagður á borð í matsal skólans. Spurð hvers vegna ekki hafi verið kallað eftir upptökum úr eftirlitsmyndavélum [...] kvað vitnið að sér hafi ekki verið kunnugt um þetta.

Vitnið CC sérfræðingur hjá lögreglunni, lýsti rannsókn lögreglu á Facebookreikningi A. Hann kvað ekki hafa verið unnt að afrita hluta samtala eða spjall af reikningum. Hann skýrði ástæður þessa og lýsti vinnuaðferðum í því sambandi.

Vitnið DD rannsóknarlögreglumaður lýsti vinnu sinni við rannsókn á Facebooksamskiptum A. Hann kvaðst hafa skoðað Facebookreikninga ákærðu og eftir á hafi hann verið beðinn um að skoða Facebookreikninga A. Hann var spurður hvers vegna þau gögn voru ekki meðal ganga málsins. Samkvæmt upplýsingum tölvurannsóknardeildar hafi ekki verið unnt að afrita tiltekinn hluta samskipta hennar á Facebook. Hann kvaðst því aldrei hafa farið inn á Facebookreikning A og vísaði hann á tölvurannsóknardeild varðandi skoðun á Facebookreikningi hennar.

Vitnið EE rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði vinnu sína við málið. Hann vann vettvangsrannsókn að [...]. Hann kvað rannsókn hafa leitt í ljós að ekki væri hægt að læsa hurðinni að herberginu þar sem atburðurinn í ákærulið I.1 átti sér stað.

Meðal gagna málsins er sálfræðivottorð fyrir A, dagsett 26. mars 2015. FF, sálfræðingur Barnahúss, ritaði vottorðið. Hún staðfesti það og skýrði fyrir dóminum. Hún kvaðst hafa merkt bata hjá A en hún hitti A fyrst 13. maí 2014 og hún hafi þá uppfyllt skilyrði fyrir áfallastreituröskun sem hún geri ekki í dag þótt hún hafi einkenni sem hún lýsti. Hún lýsti sjálfsmatsprófunum sem lögð voru fyrir A og lýst er í vottorði. Aðspurð kvað hún kynlífsmyndband sem birtist af einstaklingi ekki geta, eitt og sér, valdið áfallastreituröskun. Nánar spurð kvað hún slíka birtingu geta valdið einkennum og skýrði hún það álit sitt.

Meðal gagna málsins er sálfræðivottorð fyrir ákærða Þ, dagsett 31. ágúst 2015. GG sálfræðingur ritaði vottorðið. Hann lýsti áhrifum máls þess á ákærða Þ. Hann hafi átt við kvíða, óöryggi og depurð að stríða og svefn hafi raskast. Hann hefði einangrað sig töluvert félagslega sem sé breyting frá því sem var. Fram kemur í vottorðinu að það hafi verið gríðarlegt áfall fyrir ákærða Þ að vera sakaður um glæp sem hann telji sig saklausan af. 

 

Niðurstaða ákæruliðar I.1

Ákærðu neita allir sök. Ákærðu voru allir handteknir 7. maí 2014 og úrskurðaðir í gæsluvarðhald sama dag. Þeir hafa, hver um sig, lýst efnislega á sama veg frá upphafi því sem gerðist að [...] á þessum tíma. Er framburður ákærðu hjá lögreglu, meðan allir sættu gæsluvarðhaldi, í aðalatriðum eins um það sem gerðist og mestu varðar. Hver hinna ákærðu um sig hefur síðan borið efnislega á sama veg og allir borið að A hafi af fúsum og frjálsum vilja tekið fullan þátt í þeim kynferðisathöfnum sem áttu sér stað. Hún hafi hvorki verið beitt ofbeldi né annars konar nauðung eins og lýst er í ákærunni.

Vitnisburður A hefur verið breytilegur um sumt eins og rakið hefur verið. Þá kom fram hjá henni að hún mundi sumt illa. Hún virðist fyrst hafa greint frá nauðgun eftir að myndbandsupptökuna bar á góma. Er í þessu sambandi vísað til vitnisburðar C, sem m.a. bar um að A hefði sagt að færi myndbandið í dreifingu þá myndi hún segja að það sem þar sæist væri nauðgun, K, sem kvað ekkert hafa bent til þess að A hefði lent í einhverju í partíinu kvöldið áður, B, sem kvað A hafa greint sér frá því á Facebook að hún hefði farið í ,,orgíu“ í partíinu og A hafi sagst ætla að segja atburðinn á myndbandinu nauðgun, færi myndbandið í dreifingu, og R sem kvað A hafa sagt að færi myndbandið í dreifingu, myndi hún segja að það sem þar sæist væri nauðgun.

Fyrir liggur að A og ákærði Æ töluðu saman á Facebook 4. maí 2014 eftir atburðinn. Þar kom fram að A var ósátt við upptökuna. Ekki er þar minnist á nauðgun þótt hún hafi þar rætt við einn hinna ákærðu sem gefið er að sök að hafa nauðgað henni nokkrum klukkustundum áður. 

A greindi m.a. svo frá í vitnisburði sínum fyrir dómi að hún hefði gefið ákærðu til kynna að hún vildi ekki vera með þeim en hún hefði ekki sagt þeim það berum orðum. Síðar greindi hún frá því að hún gæti hafa sagt þeim þetta berum orðum en hún myndi það ekki. Þá mundi hún ekki eftir því að henni hefði verið hótað ofbeldi. 

Fyrir liggur að myndbandsupptakan sem skoðuð var undir aðalmeðferð málsins er aðeins hluti upptökunnar sem ákærði Æ tók upp í herberginu í [...]. Ákærði Æ hefur lýst því að þar sjáist aðeins hluti atburðarásarinnar eins og rakið var. Vitnin H og I, sem sáu upptökuna, styðja framburð ákærða Æ að hluta, en vitnin báru bæði að þau hefðu upplifað það sem þau sáu þannig að A væri samþykk því sem gerðist og hún hafi ekki sést ýta ákærðu frá eins og hún bar fyrir dóminum.

Meðal gagna málsins er upptaka úr eftirlitsmyndavél að [...] þar sem A sést fara úr húsinu eftir samkvæmið. Þar sést hún tala í síma jafnframt því að sækja þýfi sem komið hafði verið fyrir undir stiga í húsinu. Af þessari upptöku verður ekki ráðið að hún hafi skömmu fyrr orðið fyrir því alvarlega broti sem lýst er í ákæru.

Undir aðalmeðferðinni var farið nákvæmlega yfir samskipti sumra ákærðu og vitna á Facebook sem varða mál þetta. Ákærðu og vitni hafa skýrt ummæli sín eftir því sem við á. Það er mat dómsins að engin af þessum samskiptum verði skýrð svo, andstætt útskýringum ákærðu, að þeir hafi í samskiptunum verið að fjalla um sönnun í sakamáli og að þeir hafi þar sett fram eitthvað sem jafna megi til viðurkenningar þess að hafa framið brot. Meðal þess sem kom fram í þessum samskiptum voru áhyggjur af upptökunni en fram kom hjá ákærðu og A, eins og lýst hefur verið, að þeim sem hlut áttu að máli leið illa vegna upptökunnar.

Það er mat dómsins að framburður ákærðu sé trúverðugur og hefur hver þeirra um sig greint hreinskilnislega frá. Ekkert er fram komið í málinu sem gefur til kynna að ákærðu hafi haft ástæðu til að ætla annað en að A væri samþykk því sem fram fór inni í herberginu. Vísast um þetta til framburðar ákærðu að framan og til vitnisburðar A fyrir dómi sem bar að hún hefði gefið ákærðu til kynna að hún vildi ekki vera með þeim en hún hefði ekki sagt þeim það berum orðum. Vitnisburður hennar um að hún hafi ýtt ákærðu frá fær ekki stoð í vitnisburði vitnanna H og I sem skoðuðu upptökuna í síma ákærða Æ. Þá greindi A svo frá að hún gæti hafa sagt ákærðu berum orðum að hún vildi ekki vera með þeim en hún myndi það ekki og hún mundi ekki eftir því að hafa verið hótað ofbeldi.

Með vísan til framburðar ákærðu, vitnisburðar þeirra sem sáu myndbandið í heild og til vitnisburðar þeirra sem báru um afstöðu og frásögn A eftir hina meintu nauðgun, er það mat dómsins, að vitnisburður hennar um andstöðu sína við því sem fram fór og hvernig hún kveðst hafa gefið ákærðu hana til kynna sé ótrúverðugur.

Vísað er til þess sem rakið var um skoðun A á neyðarmóttöku 7. maí 2014 og vitnisburðar  V læknis.

Það er mat dómsins að hvorki gögn um skoðun á neyðarmóttöku né önnur gögn málsins, svo sem vitnisburður, styðji vitnisburð A þannig að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni, gegn eindreginni neitun allra ákærðu frá upphafi, og gegn því sem rakið hefur verið að framan og er að mati dómsins til þess fallið að veikja og draga úr trúverðugleika vitnisburðar hennar. Vitnisburður A fær því ekki næga stoð af öðru því sem fram er komið í málinu til að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni gegn eindreginni neitun ákærðu.

Samkvæmt þessu er ósannað að ákærðu hafi gerst sekir um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og ber að sýkna þá.

 

Niðurstaða ákæruliðar I.2

Ákærði Y neitar sök. Ákærði og A eru tvö til frásagnar um það sem átti sér stað inni á snyrtingunni greint sinn. Vísað er til þess sem við á um þennan ákærulið og rakið var undir ákærulið I 1 að framan. Eins og rakið var er misræmi í vitnisburði A um sumt en ákærði hefur frá upphafi borið efnislega á sama veg. Á sama hátt og rakið er undir ákærulið I 1 er það mat dómsins af öllu framanrituðu og öðrum gögnum málsins virtum að vitnisburður A fái ekki þá stoð sem þarf til að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni gegn eindreginni neitun ákærða. Er því ósannað að ákærði hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir og ber að sýkna hann.

 

Ákæruliðir II.1 og II.2

Ákærði Æ neitar sök samkvæmt ákæruliðum II.1 og II.2. Hann kvaðst hafa tekið upp, eins og lýst er í þessum ákærulið en hann hefði tekið upp í góðri trú. Sér hafi ekki verið ljóst fyrr en eftir á, meðal annars af samskiptum við A á Facebook 6. maí 2014, að hún hefði ekki verið samþykk upptökunni. Þá kvaðst hann ekki hafa sýnt nokkrum samnemendum A myndbandið í matsal skólans eins og lýst er í ákærunni. Ákærði kvaðst hafa kveikt ljós á símanum sínum en honum hafi verið sagt að slökkva sem hann gerði. Hann kvað andmælum hafa verið hreyft við ljósinu í símanum, meðal annars frá A, en ekki við upptökunni. Hann kvað hugsanlegt að andmælin við ljósinu hafi verið vegna þess að þeir sem þarna voru hafi verið á móti því að hann myndaði en hann hefði ekki fengið andmæli við upptökunni sem fór fram síðar. Hann kvaðst telja að þeir sem þarna voru hafi vitað að hann aðhafðist eitthvað þar sem hann hélt símanum sínum uppi. Er hann stöðvaði það fór meðákærði Þ út úr herberginu og á snyrtinguna að kasta upp. Ákærði kvaðst hafa farið með honum þangað. Eftir þetta kom Z fram og stuttu síðar, er ákærði fór inn í herbergið að leita að bol Z, hafi enginn verið þar. Ákærði kvað upptökuna sem fyrir liggur í málinu ekki vera allt sem hann tók upp. Upptakan hafi verið mun lengri. Upptakan meðal gagna málsins sé upptaka úr síma ákærða og sýni aðeins hluta þess sem ákærði tók upp. Hann kvað hafa verið átt við upptökuna áður en hún var afhent lögreglu. Fyrirliggjandi upptaka gefi ekki rétta mynd af því sem fram fór í herberginu. Hún sýni aðeins það sem hluti ákærðu gerðu við A en upptakan sýni ekki það sem hún gerði við þá, svo sem að veita þeim munnmök og að fróa þeim. Hann kvaðst ekki hafa gert þessa athugasemd við skýrslutökur hjá lögreglu þar sem honum var ekki sýnd upptakan undir rannsókn málsins. Hann hefði fyrst séð hana undir aðalmeðferð málsins. Hann kvaðst hafa sýnt meðákærðu upptökuna í símanum sínum á mánudeginum á eftir. Þeir hafi horft á hluta hennar og hann hafi eytt henni úr símanum sínum eftir að meðákærðu báðu hann um það en þeir hafi verið ósáttir við upptökuna. Hann kvað einhvern hafa frétt af myndbandinu í símanum sínum en hann viti ekki hvernig. Þá hafi einhver tekið símann í leyfisleysi í skólanum á mánudeginum og farið með hann í matsal skólans þar sem myndaðist hópur nemenda þar sem myndbandið var skoðað. Einhver hljóti að hafa tekið upp úr síma ákærða. Meðal þeirra sem þarna voru voru [...] HH og H en annar þeirra hafi tekið upp úr síma ákærða. Ákærði kvaðst strax við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglunni hafa greint frá því hvernig síminn var tekinn af honum í leyfisleysi. Hann kvaðst ekki hafa verið spurður nánar út í þetta og hann viti ekki hvort lögreglan sannreyndi framburð hans um þetta, svo sem með því að kanna eftirlitsmyndavélar skólans.

Vitnið H kvaðst hafa séð upptökuna sem hér um ræðir í skólanum en hann mundi ekki hvaða dag. Hann kvað þá ákærða Æ hafa verið tvo eina er hann sá upptökuna en hann hafi aðeins séð hluta upptökunnar og lýsti hann því sem hann sá. Við skýrslutöku af H hjá lögreglu 8. maí 2014 lýsti hann því að maður sem hann lýsti sem hávöxnum (2 metrar á hæð) og þreknum hefði sett símann sinn á borðið í matsal skólans og kveikt á honum. Hann nafngreindi ákærða Æ ekki í þessu sambandi. Spurður um þetta fyrir dómi kvaðst hann ekki muna þetta nú.

Vitnið I kvaðst mánudaginn eftir atburðinn sem í ákæru greinir hafa séð hluta myndbandsins sem um ræðir í matsal [...]. Hann kvað nokkra hafa verið saman komna er hann sá myndbandið og hann vissi ekki hvort Æ sýndi það en skyndilega hafi síminn verið uppi á borði og margir staðið þar í kring. Hann viti ekki hver setti símann á borðið og hann viti ekki hvort ákærði Æ gerði það en skyndilega hafi síminn legið á borðinu. Hann viti ekki hvort einhver tók upp myndband af símanum þar sem hann lá á borðinu. Hann mundi ekki hvort H og HH voru við borðið þar sem síminn var. Á myndbandinu hafi stúlka, sem hann frétti síðar að var A, verið í rúmi. Hún hafi sést fróa tveimur piltum, veitt einum munnmök og einn hafi verið að hafa við hana samfarir. Hann kvað sína upplifun þá við skoðun myndbandsins að stúlkan hafi tekið virkan þátt í kynlífsathöfnunum.

Um annan vitnisburð vegna þessara ákæruliða er vísað til reifunar vitnisburðar undir ákæruliðum I. 1 og I. 2 að framan.

 

Niðurstaða ákæruliðar II.1

Ákærða er gefið að sök að hafa sært blygðunarkennd A og sýnt henni ósiðlegt og særandi athæfi eins og hér er lýst. Í þessu felst að ákærða er gefið að sök að hafa tekið upp án samþykkis hennar.

Vitnið A bar að upptakan hefði farið fram án hennar samþykkis og það gerðu sumir hinna ákærðu einnig eins og rakið var. Ákærði bar að andstaðan við ljósið á síma hans hafi verið vegna þess að þeir sem voru inni í herberginu hafi verið andvígir ljósinu en ekki því að hann myndaði. Það er mat dómsins að af vitnisburði A og af framburði meðákærðu og að hluta af framburði ákærða sjálfs sé ljóst að hann vissi að hann myndaði án leyfis A. Með því braut ákærði gegn henni svo varðar hann refsingu samkvæmt þeim lagaákvæðum sem í þessum ákærulið greinir.

 

Niðurstaða ákæruliðar II 2

Ákærði neitar sök. Hann hefur borið frá upphafi um að síminn hans hafi verið tekinn af honum eins og lýst var að framan. Hann hafi aðeins sýnt meðákærðu upptökuna. Vitnið I vissi ekki hvort það var ákærði Æ sem sýndi myndbandið í skólanum eins og rakið var. Vitnisburður HH er ótrúverðugur og breytilegur og verður hann ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni gegn neitun ákærða. Hið sama á við um vitnisburð H, sem hafði réttarstöðu sakbornings undir rannsókn málsins. Hann ber einn um að ákærði hafi sýnt sér upptökuna og hann bar jafnframt að hafa tekið upp úr símanum í leyfisleysi og kvað sig ekki minnast þess að hafa tekið síma ákærða Æ í leyfisleysi. Þessi vitnisburður verður ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni gegn neitun ákærða. Samkvæmt því sem rakið er er enginn trúverðugur vitnisburður um það að ákærði hafi sýnt samnemendum A upptökuna í matsal skólans mánudaginn 5. maí 2014. Ekki var leitað eftir upptökum úr eftirlitsmyndavélum skólans þrátt fyrir að lögregla hafi strax fengið ábendingu sem gaf ástæðu til að það yrði gert en þá hefði e.t.v verið unnt að sannreyna framburð ákærða um að síminn hefði verið tekinn af honum eins og hann hefur lýst. Samkvæmt þessu er ósannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og ber að sýkna hann.

 

Sératkvæði Arngríms Ísberg héraðsdómara varðandi 2. lið II. kafla ákæru.

Vitnið H bar fyrir dómi að ákærði Æ hefði sýnt sér upptökuna og hefði það verið í [...] en ekki mundi vitnið hvort það var í matsalnum eða annars staðar. Vitnið HH bar fyrir dómi að ákærði hefði sýnt sér upptökuna í skólanum. Vitnið I kvaðst hafa séð myndbandið og hélt að ákærði hefði sýnt sér það en var ekki viss hvort ákærði hefði sýnt það, enda hefðu fleiri verið á staðnum. Hann taldi að ákærði hefði verið á staðnum. Samkvæmt þessu tel ég lögfulla sönnun fram komna fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um það sem honum er gefið að sök í þessum ákærulið og beri að sakfella hann fyrir það. Brot hans er rétt fært til refsiákvæða í ákærunni.

Hér er um mjög alvarlegt brot að ræða og mikla meingerð af hálfu ákærða gagnvart brotaþola. Ég tel því að refsing hans eigi að vera þyngri í samræmi við það og  miskabætur hærri.

 

Ákærði Æ hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar eins og í dómsorði greinir. Komi til afplánunar refsivistarinnar skal draga frá henni gæsluvarðhald sem ákærði sætti vegna rannsóknar málsins, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Bótakrafan var lækkuð undir aðalmeðferð málsins þannig að krafist er 9.183.000 króna sem sundurliðast þannig að krafist er 9 milljóna króna í miskabætur en 183.000 króna vegna fjártjóns.

Ráða má af miskabótakröfunni að hún byggi á miskabótum vegna háttseminnar sem lýst er í I. og II. kafla ákærunnar. Vegna niðurstöðu í kafla I. 1, I. 2 og II. 2 í ákærunni kemur aðeins til þess að ákveða A miskabætur úr hendi ákærða Æ vegna sakarefnis í ákærulið II.1. A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur til hennar hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en dráttarvextir reiknast frá 28. júní 2014 er mánuður var liðinn frá birtingu bótakröfu fyrir ákærða.  

Ekkert liggur fyrir um það hvernig krafan fyrir fjártjón að fjárhæð 183.000 krónur tengist sakarefni málsins, sbr. 1. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2008. Er þessum kröfulið því vísað frá dómi.

Ákærði Æ greiði 1/5 hluta 3.682.800 króna málsvarnarlauna Páls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns á móti 4/5 hlutum sem greiðast úr ríkissjóði og sama hlutfall á móti ríkissjóði af 1.335.015 króna réttargæsluþóknun Ingibjargar Ólafar Vilhjálmsdóttur, héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.

Annar sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þ.m.t. eftirtalin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu:

2.843.940 króna málsvarnarlaun Guðmundar Njáls Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákæra X, og 903.495 króna málsvarnarlaun Sögu Ýrar Jónsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða X, undir rannsókn málsins og 28.200 króna aksturskostnaður sama lögmanns.

 3.229.611 króna málsvarnarlaun Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Y.

2.659.800 króna málsvarnarlaun Steinbergs Finnbogasonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærða Z og 787.710 króna málsvarnarlaun Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða Z undir rannsókn málsins og 28.200 króna aksturskostnaður sama lögmanns.

3.682.800 króna málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Þ og 286.440 króna málsvarnarlaun Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða Þ undir rannsókn málsins og 24.000 krónur vegna aksturskostnaðar sama lögmanns. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.

Daði Kristjánsson saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Arngrímur Ísberg og Barbara Björnsdóttir.

Dómsorð

Ákærðu, X, Y, Z og Þ eru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærði Æ sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til afplánunar refsivistarinnar skal draga frá henni gæsluvarðhald sem ákærði sætti vegna rannsóknar málsins.

Ákærði Æ greiði A, kt. [...], 500.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 4. maí 2014, til 28. júní 2014 en með dráttarvöxtum sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði Æ greiði 1/5 hluta 3.682.800 króna málsvarnarlauna Páls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns á móti 4/5 hlutum sem greiðast úr ríkissjóði og sama hlutfall á móti ríkissjóði af 1.335.015 króna réttargæsluþóknun Ingibjargar Ólafar Vilhjálmsdóttur, héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.

Annar sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þ.m.t. eftirgreind málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu:

2.843.940 króna málsvarnarlaun Guðmundar Njáls Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærða X, og 903.495 króna málsvarnarlaun Sögu Ýrar Jónsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða X, undir rannsókn málsins og 28.200 króna aksturskostnaður sama lögmanns.

 3.229.611 króna málsvarnarlaun Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Y.

2.659.800 króna málsvarnarlaun Steinbergs Finnbogasonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærða Z og og 787.710 króna málsvarnarlaun Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða Z undir rannsókn málsins og 28.200 króna aksturskostnaður sama lögmanns.

3.682.800 króna málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Þ og 286.440 króna málsvarnarlaun Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða Þ undir rannsókn málsins og 24.000 krónur vegna aksturskostnaðar sama lögmanns.

Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.