Print

Mál nr. 196/2017

X (Björgvin Þorsteinsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfum X á hendur Í var að hluta vísað frá dómi. Málið hafði X höfðað til heimtu skaða- og miskabóta í kjölfar gæsluvarðhaldsvistar. Annars vegar var kröfu X um bætur vegna tekjutaps á meðan á gæsluvarðahaldsvistinni stóð vísað frá dómi á grundvelli 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þar sem krafan þótti svo vanreifuð að Í væri ómögulegt að taka afstöðu til hennar. Hins vegar var vísað frá kröfu X um bætur vegna fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir til frambúðar vegna tekjuskerðingar, þar sem hann hefði ekki tekið beina afstöðu til þess í málsástæðum sínum hvort greiðslur frá þriðja manni ættu að koma þar til frádráttar, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 7. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2017 þar sem máli sóknaraðila var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og frávísunarkröfu varnaraðila hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar „eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.“

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um að vísa frá dómi þeim kröfuliðum sóknaraðila sem í úrskurðarorði greinir.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 10. mars 2017

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 10. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 29. júní 2016. Stefnandi er X, [...] og stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli í Reykjavík.

              Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 68.060.058 krónur, með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011, sbr. 9. gr. sömu laga, frá 28. febrúar 2015 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 67.146.297 krónur, með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011, sbr. 9. gr. sömu laga, frá 28. febrúar 2015 til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum aðra lægri fjárhæð samkvæmt mati dómsins. Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnd eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

              Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá dómi en til vara sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum gerir stefnandi kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda. Til þrautavara krefst stefnandi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórlega og að málskostnaður verið látinn niður falla.

              Í þessum þætti málsins er frávísunarkrafa stefnda til úrlausnar. Málflutningur um þann þátt málsins fór fram 10. febrúar sl. og var tekið til úrskurðar að því loknu. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið auk málskostnaðar í þessum þætti málsins.

Helstu atvik máls

Með bréfi til lögreglunnar á [...], dags. 29. nóvember 2011, tilkynnti yfirfélagsráðgjafi hjá fjölskyldustofu [...] um meint kynferðisbrot stefnanda gagnvart [...] A. Daginn eftir mætti stefnandi á lögreglustöðina á [...] þar sem honum voru kynntar sakargiftir og hann handtekinn.

              Stefnanda var með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 1. desember 2011 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 10. desember sama ár á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Stefnanda var jafnframt gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stóð, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 5. desember 2011 í máli nr. 646/2011. Gæsluvarðhaldsvist stefnanda var framlengd með dómum Hæstaréttar 14. desember 2011 í máli nr. 669/2011, 11. janúar 2012 í máli nr. 29/2012, 9. febrúar 2012 í máli nr. 84/2012, 7. mars 2012 í máli nr. 146/2012, 2. apríl 2012 í máli nr. 217/2012 og 25. apríl 2012 í máli nr. 282/2012. Alls sat stefnandi í gæsluvarðhaldi frá 1. desember 2011 til 7. júní 2012, eða 190 daga, þar af 11 daga í einangrun.

              Ákæra var gefin út á hendur stefnanda 5. janúar 2012 fyrir kynferðisbrot gegn A sem voru í ákæru talin varða við 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 28. mars 2012 var stefnandi fundinn sekur samkvæmt ákærunni. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og með dómi réttarins 7. júní 2012 í máli nr. 241/2012 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 30. apríl 2013 var stefnandi sýknaður af öllum sakargiftum.

              Hinn 8. mars 2012 var beiðni um nauðungarsölu á fasteign stefnanda að [...] á [...] móttekin hjá sýslumanninum á [...]. Gerðarbeiðandi var Olíuverzlun Íslands hf. og var krafan studd við fjárnám sem gert var í eigninni að kröfu gerðarbeiðanda 15. febrúar 2012. Önnur beiðni um nauðungarsölu sömu fasteignar barst sýslumanninum á [...] 1. júní 2012. Gerðarbeiðandi var [...] og var krafan vegna ógreiddra fasteignagjalda vegna fasteignarinnar. Nauðungarsalan var fyrst tekin fyrir 13. júní 2012 og aftur 29. ágúst og 25. september sama ár. Fyrir liggur að hvorki stefnandi né nokkur fyrir hans hönd var viðstaddur fjárnámsgerðina og fyrirtökur nauðungarsölunnar.

              Stefnandi segir að honum hafi ekki borist tilkynningar um fyrirhugað uppboð með sannanlegum hætti. Tilkynning hafi einungis verið send í almennum bréfpósti á Litla-Hraun en hún hafi aldrei komist til vitundar stefnanda. Hann hafi ekki haft tök á að koma í veg fyrir uppboðið eða semja um kröfur við gerðarbeiðendur sökum atvinnuleysis í kjölfar þess að vist hans lauk í gæsluvarðhaldi og skertra tekna meðan á því hafi staðið. Stefnandi kveður einnig að hann hafi ekki fengið vinnu hérlendis síðan honum var sleppt úr gæsluvarðhaldi.

              Með bréfi dagsettu 28. janúar 2015 óskaði lögmaður stefnanda eftir afstöðu stefnda til bótaábyrgðar vegna gæsluvarðhaldsvistar stefnanda. Bótaskyldu var hafnað með bréfi ríkislögmanns, dags. 30. apríl 2015.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að honum hafi að ósekju verið gert að sæta gæsluvarðhaldi frá 1. desember 2011 til 7. júní 2012. Það leiði af 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að bætur vegna sakamáls verði ákveðnar á hlutlægum grundvelli og skipti þá ekki máli þótt fullt tilefni hafi verið til ráðstafana gagnvart sakborningi eins og málið horfði við lögreglu þegar gripið var til aðgerða.

              Stefnandi byggir á því að skilyrðum 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 30. apríl 2013 hafi stefnandi verið sýknaður af öllum sakargiftum. Þá hafi stefnandi hvorki í upphafi eða síðar valdið eða stuðlað að hinum íþyngjandi aðgerðum sem hafi verið beitt gegn honum. Stefnandi hafi allt frá upphafi rannsóknar neitað sök og haldið því fram að framburður stúlkunnar væri ósannur, m.a. í skýrslutökum sínum hjá lögreglu 30. nóvember og 8. desember 2011. Þá hafi hann haldið hinu sama fram við aðalmeðferð málsins 22. febrúar 2012 og þegar málið var flutt að nýju 3. apríl 2013.

              Stefnandi hafi komið á lögreglustöðina 30. nóvember 2011, þar sem honum voru kynntar hinu meintu sakagiftir og hann handtekinn. Þann sama dag hafi verið gerð húsleit á heimili hans. Því sé vandséð hvaða rannsóknarhagsmunir hafi legið að baki þegar stefnandi var úrskurðaður í gæsluvarðhald 1. desember 2011. Þá hafi honum verið gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stóð skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 allt fram til 11. desember 2011.

              Frá 11. desember 2011 fram til 7. júní 2012 hafi áframhaldandi gæsluvarðhaldsvist verið reist á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Skilyrðum ákvæðisins hafi ekki verið fullnægt. Stúlkan hafi dregið frásögn sína um sakir stefnanda til baka, fyrst 28. desember árið 2011 í viðtali við sálfræðing Barnahúss. Í skýrslu sálfræðings, dags. 17. janúar 2012, komi fram að í viðtali 28. desember 2011 hafi brotaþoli lýst því að hún hafi: „ekkert vita [svo] hvort þetta hefði verið satt eða hvort þetta væri draumur.“ Þá sé tiltekið að í viðtali við stúlkuna 17. janúar 2012 hafi hún greint frá því að hún hugsaði mikið um hvort þetta hafði gerst eða ekki. Stúlkan hafi svo dregið frásögn sína um sakir stefnanda til baka enn að nýju í facebooksamskiptum við móður sína 21. janúar 2012, þar sem m.a. komi fram að móðir hennar hafi ekki reynt að fá hana til að breyta frásögn sinni.

              Þrátt fyrir að stefnandi hafði neitað sakargiftum allt frá upphafi rannsóknar og stúlkan hafði ítrekað dregið framburð um sakir stefnanda til baka, hafi gæsluvarðhald yfir honum ítrekað verið framlengt. Þá hafi héraðsdómur hafnað því að kveðja stúlkuna fyrir dóm að nýju í kjölfar þess að hún breytti framburði sínum. Úrskurður héraðsdóms þess efnis hafi verið staðfestur í Hæstarétti með dómi 13. febrúar 2012 í máli nr. 95/2012. Stefnandi byggir meðal annars á því að málsmeðferð hafi dregist af þessum sökum og hann hafi þurft að sæta lengra gæsluvarðhaldi.

              Gæsluvarðhald sé í eðli sínu sú þvingunarráðstöfun sem að jafnaði gangi lengst. Af þeim sökum verði að gera ríkar kröfur til þess að skilyrðum gæsluvarðhalds sé fullnægt. Í samræmi við það beri að skýra ákvæði um heimild til að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þröngt. Stefnandi byggir á því að skilyrðum til beitingar gæsluvarðhalds hafi ekki verið fullnægt, hvað þá í svo langan tíma sem raun beri vitni.

              Þá byggir stefnandi á því að málsmeðferð fyrir Héraðsdómi Vesturlands, sem vart geti talist réttlát í skilningi ákvæða stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu, hafi orðið þess valdandi að málið hafi dregist úr hófi fram. Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn stefnanda hafi farið fram í Héraðsdómi Vesturlands 22. febrúar 2012. Dómurinn hafi ekki verið kveðinn upp fyrr en 28. mars 2012. Þá hafi verið liðinn sá tími sem kveðið sé á um að lengstur megi líða frá dómtöku máls til dómsuppkvaðningar, samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 án þess að mál sé endurflutt eða sérstakar yfirlýsingar gefnar um að dómari og aðilar telji það óþarft.

              Þann 27. mars 2012 hafi dómsformaður Héraðsdóms Vesturlands haft símasamband við verjanda ákærða og tilkynnt að hann hygðist kveða upp dóm í málinu þann 28. mars. Verjandi hafi krafist þess að málið yrði endurflutt með vísan til 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008. Því hafi verið hafnað af dómsformanni og síðar þann sama dag hafi hann sent tölvupóstskeyti þar sem boðað var til dómsuppsögu í málinu degi síðar. Verjandi hafi mótmælt að nýju og kvaðst ekki reiðubúinn til málflutnings þá strax degi síðar en hafi tilkynnt að hann myndi leggja fram ný gögn með vísan til 171. gr. laga nr. 88/2008. Því var svarað af hálfu dómsformannsins með orðunum: „Við sjáumst þá í dag“. Verjandi hafi því talið að málið yrði tekið fyrir svo unnt væri að leggja fram hið nýja gagn. Verjandi hafi mætt til þinghalds og lagt fram mynddisk með videoupptöku af yfirlýsingu stúlkunnar um að hún hafi verið að segja ósatt, þegar hún bar sakir á stefnanda. Dómendur og saksóknari hafi farið afsíðis til að skoða upptökuna. Þegar dómþingi var fram haldið hafi dómendur hafnað framlagningu mynddisksins með vísan til 3. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008. Ákæruvaldið hafi hins vegar engar athugasemdir gert við framlagningu mynddisksins. Að því búnu hafi dómsformaður hent diskinum til verjanda og krafist þess að málið yrði munnlega flutt. Því hafi verið mótmælt af hálfu verjanda en dómendum hafi ekki verið hnikað og munnlegur málflutningur hafi farið fram án þess að verjandi hefði öll gögn tiltæk eða væri nægilega undirbúinn. Dómendur hafi síðan tekið sér stutt hlé og kveðið að því búnu upp dóminn. Með dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 241/2012 hafi dómur héraðsdóms verið ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað.

              Þeir annmarkar á málsmeðferð er hér hafi verið lýst, sem fólust í því að synja að taka skýrslu af stúlkunni í upphafi, hafna framlagningu á tilgreindum mynddisk og loks gera verjanda að endurflytja málið að nýju án undirbúnings og nauðsynlegra gagna, brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda til réttlátrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Annmarkar á málsmeðferð hafi orðið til þess að málið hafi dregist úr hófi fram. Eigi að síður hafi stefnanda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til fyrrgreindur dómur Hæstaréttar var kveðinn upp 7. júní 2012.

              Hin langa frelsissvipting stefnanda hafi haft veruleg áhrif á líf hans. Stefnandi hafi ekki fengið vinnu hérlendis, allt frá því að honum var sleppt úr gæsluvarðhaldi, og þar af leiðandi geti hann ekki séð sér og fjölskyldu sinni farborða. Bótakrafa stefnanda byggi á því fjártjóni og miska sem hann hafi orðið fyrir vegna gæsluvarðhaldsvistarinnar, sbr. 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993. Í dómaframkvæmd, þar sem ágreiningur sé um bætur vegna gæsluvarðhalds að ósekju, hafi jafnan verið horft til meginreglu 26. gr. skaðabótalaga varðandi bætur fyrir miska. Jafnframt beri að horfa til meginreglna laganna varðandi útreikning á varanlegri örorku vegna tekjuskerðingar stefnanda til framtíðar, m.a. hvað aldursstuðul og árslaunaviðmið varðar.

                Aðalkrafa stefnanda sundurliðast á eftirfarandi hátt:

                Tekjutap vegna gæsluvarðhaldsvistar                                        5.488.751        kr.

                Bætur vegna tekjuskerðingar til frambúðar                            11.302.304        kr.

                Bætur vegna varanlegs miska                                                      2.087.264        kr.

                Annað fjártjón vegna nauðungaruppboðs

                á fasteign stefnanda                                                                       9.181.793        kr.

                Miskabætur                                                                                    40.000.000        kr.

                Samtals:                                                                                          68.060.058        kr.

Launakrafa stefnanda byggi á því fjárhagslega tjóni sem hann hafi orðið fyrir. Stefnandi hafi orðið fyrir tekjutjóni á meðan gæsluvarðhaldsvist stóð og hafi ekki enn fengið starf. Stefnandi sé [...] að mennt og hafi lokið námi sem slíkur í Bandaríkjunum í maí 2001. Í kjölfarið hafi hann unnið í nokkur ár þar ytra áður en hann sneri heim að nýju. Gegnum árin hafi hann starfað m.a. hjá D og E ehf. sem [...] þar sem menntun hans hafi nýst honum í starfi. Allt árið 2010 var stefnandi í fastri vinnu, fyrri hluta árs hjá E og síðari hluta árs hjá D. Frá miðju ári 2010 og fram á vor 2011 hafi stefnandi unnið við verkefni á Grænlandi á vegum D. Því verkefni hafi lokið á vormánuðum 2011 og hafi stefnandi þá snúið heim til Íslands í fæðingarorlof. Fjárhæð skaðabótakröfu vegna tekjutaps byggi á meðallaunum stefnanda frá 20. desember 2010 til 13. mars 2011, er hann starfaði hjá D og miðist við þann tíma sem stefnandi sat í gæsluvarðhaldi, þ.e. í 190 daga. Til frádráttar komi þær greiðslur sem stefnandi hafi fengið meðan á gæsluvarðhaldi stóð, annars vegar lífeyrissjóðsgreiðslur og hins vegar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 941.419 krónur skv. staðgreiðsluyfirliti. Meðallaun stefnanda á tilgreindu tímabili hafi verið reiknuð niður á dag 33.843 krónur sem geri 6.430.170 krónur miðað við 190 daga gæsluvarðhaldsvist að frádregnum 941.419 krónum, samtals 5.488.751 króna.

Krafa stefnanda um bætur vegna fjártjóns sem hann hafi orðið fyrir til frambúðar vegna tekjuskerðingar byggi á 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. til hliðjónar 1. og 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Stefnandi sé í dag óvinnufær með öllu sem rekja megi beint til afleiðinga af hinni löngu gæsluvarðhaldsvist. Þá hafi stefnandi átt verulega erfitt andlega, stríði við alvarlegt þunglyndi og kvíða. Stefnandi hafi leitað sér aðstoðar hjá B sálfræðingi og C geðlækni. Í vottorði þess síðarnefnda, dags. 15. apríl 2016, sé rakið að stefnandi sé algjörlega niðurbrotinn með lítið sem ekkert sjálfstraust og þrátt fyrir langt nám í sambandi við [...] og [...] og starfsreynslu á því sviði treysti hann sér ekki í vinnu. Af framanrituðu sé ljóst að afleiðingar hinnar löngu frelsissviptingar séu verulegar og orsakatengsl skýr. Samkvæmt niðurstöðu mats C geðlæknis hafi hin langa gæsluvarðhaldsvist valdið stefnanda varanlegri skerðingu og getu til að afla vinnutekna. Niðurstaðan sé því að varanleg örorka stefnanda sé 25%. Stefnandi byggir á því að tekjuskerðing hans til framtíðar vegna varanlegrar örorku teljist til fjártjóns í skilningi 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 og sé því hluti af framsettri kröfu á hendur stefnda. Samkvæmt skattframtölum stefnanda hafi launatekjur hans árið 2008 verið samtals 2.098.023 krónur, árið 2009 samtals 4.303.034 krónur og árið 2010 samtals 2.923.138 krónur.

Raun per ár

Vísit. stöðugl.p. 7. júní 2013

Meðallaunavt. p. ár

Leiðr. í samræmi við launavísitölu

2.098.023 kr.

457,8

345,0

2.783.985 kr.

4.303.034 kr.

457,8

358,6

5.493.388 kr.

2.923.138 kr.

457,8

375,8

3.560.970 kr.

 

 

Meðalatvinnutekjur sl. 3 ár

3.946.115 kr.

                Meðaltekjur stefnanda, leiðréttar samkvæmt launavísitölu, sbr. 1. mgr. 7. gr., auk 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, verði þannig samtals 4.261.804 krónur.

                Tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku reiknist út á því tímamarki sem upphaf örorkubóta miðist við sem sé 7. júní 2013, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt mati C hafi stöðugleikapunkti verið náð ári eftir að gæsluvarðhaldsvist stefnanda lauk, þ.e. 7. júní 2013. Þá hafi stefnandi verið [...] ára og [...] daga gamall. Samkvæmt töflugildum í 1. mgr. 6. gr. sé aldursstuðull varanlegrar örorku 10,784 þegar í hlut eigi [...] tjónþoli og þegar í hlut eigi [...] tjónþoli sé stuðullinn 10,577. Mismunur fyrrgreindra töflugilda sé 0,207 (10,784-10,577) og í ljósi aldurs stefnanda sé margfeldisstuðullinn því 10,608. Metin varanleg örorka stefnanda skv. matsgerð sé 25% og geri stefnandi því kröfu um að bætur fyrir varanlega örorku nemi samtals 11.302.304 krónum (4.261.804*10,608*25%). Varðandi þennan kröfulið áskilji stefnandi sér rétt til dómkvaðningar matsmanns, gefi varnir stefnda tilefni til, og til að aðlaga kröfur að niðurstöðu matsgerðar.

                Kröfu sína um bætur vegna varanlegs miska byggi stefnandi á 4. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt vottorði C geðlæknis sé varanlegur miski stefnanda af völdum tjónsins samkvæmt 4. gr. 20 stig. Fjárhæðir séu verðlagsbættar, sbr. 15. og 29. gr. laganna, skv. lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1993 (3282) til útgáfu stefnu í júnímánuði 2016 (8.563). Í júnímánuði 2016 nemi bætur fyrir 100 stiga miska 10.436.319  krónum (4.000.000*8563/3282), sbr. 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Nemi krafa vegna þessa samtals 2.087.264 krónum (10.436.319 x 20%).

                Þá krefst stefnandi bóta vegna annars fjártjóns sem megi rekja beint til gæsluvarðhaldsvistarinnar. Sú krafa lúti að því fjártjóni sem hann hafi orðið fyrir þegar þinglýst eign hans að [...] var seld á nauðungaruppboði. Stefnandi hafi engar tilkynningar fengið um byrjun uppboðs og hafi ekki haft tök á að koma í veg fyrir uppboðið eða semja um kröfur við gerðarbeiðendur sökum atvinnuleysis í kjölfar þess að gæsluvarðhaldsvist lauk og skertra tekna á meðan á því stóð. Uppboð á eigninni hafi því verið óumflýjanlegt og sé lánshæfi stefnanda ónýtt af þeim sökum. Krafa stefnanda á hendur stefnda vegna framangreinds taki mið af eftirstæðri kröfu Íbúðalánasjóðs á hendur stefnanda. Sú krafa nemi samtals 9.181.739 krónum og sé fjárhæðin tilkomin með eftirfarandi hætti og byggi á upplýsingum frá Íbúðalánasjóði:

Lýstar kröfur Íbúðalánasjóðs                                                    27.740.873     kr.

Greitt til veðhafa af hálfu Íbúðalánasjóðs                                   625.866     kr.

Sölulaun í ríkissjóð                                                                              15.000     kr.

Samtals                                                                                          28.381.739     kr.

Verðmat m.v. uppboðsdag                                                         19.200.000     kr.

Eftirstöðvar                                                                                      9.181.739     kr.

              Fyrir gæsluvarðhaldsvist stefnanda hafi hann staðið í skilum með afborganir áhvílandi lána. Stefnandi telji því að skýr orsakatengsl séu milli þess að stefnandi gat ekki staðið í skilum og eignin var seld á nauðungaruppboði. Stefnda beri á grundvelli 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 að bæta stefnanda tjón hans sem nemi fjárhæð eftirstæðra krafna Íbúðalánasjóðs á hendur honum. Stefnandi áskilji sér rétt til að leggja fram frekari gögn þar um og eftir atvikum dómkveðja matsmann í þeim efnum og þá jafnframt aðlaga kröfur að niðurstöðu matsgerðar.

              Loks krefst stefnandi 40 milljón króna miskabóta úr hendi stefnda. Stefnandi byggi kröfuna á 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 auk 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Krafan byggi á þeim miska sem hann hafi orðið fyrir vegna gæsluvarðhaldsvistarinnar. Á meðan á gæsluvarðhaldinu stóð hafi stefnandi verið í mikilli óvissu um framtíð sína og frelsi auk þess að vera þjakaður af áhyggjum og vanlíðan yfir að vera ranglega sakaður um svo alvarlegt brot gegn [...]. Málið hafi í raun kippt algjörlega fótunum undan tilveru stefnanda. Miski hans sé fyrst og fremst fólginn í sálrænum erfiðleikum sem ekki sé fyrirséð að hann jafni sig á í nákominni framtíð, sbr. skýrslu B sálfræðings og vottorðs C geðlæknis. Í niðurstöðu skýrslna beggja þessara sérfræðinga hafi stefnandi verið greindur með persónuleika- og áfallastreituröskun vegna málsins, auk langvarandi þunglyndis- og kvíðaeinkenna. Niðurstöður þessar séu fengnar með klínískum viðtölum og séu staðfestar með mælikvarða Beck’s á geðlægð og kvíða.

              Stefnandi hafi auk þess orðið fyrir mannorðsmissi en mikið hafi verið fjallað um málið í fjölmiðlum, þar sem hann hafi orðið að sitja undir fyrirsögnum á borð við „Barnaníðingur áfram í haldi“. Stefnandi hafi orðið að flytjast búferlum frá [...], bæði vegna útskúfunar í kjölfar málsins auk þess að fasteign hans var seld á uppboði. Segja megi því að stefnandi standi uppi allslaus í dag vegna málsins.

              Miski stefnanda felist því í mannorðsmissi, þjáningum og óþægindum vegna hinnar löngu frelsissviptingar. Horft sé til framangreindra þátta við mat á miska og vísi stefnandi í þeim efnum til dómaframkvæmdar og túlkunar á 26. gr. og 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

              Varakrafa stefnanda byggir á því að ekki hafi verið tilefni til að halda honum lengur í gæsluvarðhaldi en til 28. desember 2011, er stúlkan dró frásögn sína um sakir stefnanda til baka. Vísar stefnandi til áður framkominnar umfjöllunar sinnar í þeim efnum, og viðtals stúlkunnar í barnahúsi þann dag við sálfræðing.

              Stefnandi telur einsýnt að um leið og stúlkan dró frásögn sína til baka í fyrsta skipti hafi skilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi brostið. Sakargiftir á hendur stefnanda hafi eingöngu byggst á framburði [...], en hann hafi neitað sök frá upphafi. Þegar stúlkan lét í ljós efasemdir um réttmæti sakargifta sinna á hendur stefnanda hafi réttmætur vafi strax orðið um að hann hafi framið umrætt brot gegn henni. Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé það meðal annars skilyrði gæsluvarðhald skv. ákvæðinu að „sterkur grunur“ leiki á að sakborningur hafi framið það afbrot sem hann er sakaður um. Lúti nærri að í þessu felist að sök þurfi að vera sönnuð til þess að unnt sé að beita ákvæðinu, enda sé í 2. mgr. 6. gr. sömu laga kveðið á um að dómari sem fallist hefur á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli þessa ákvæðis skuli víkja sæti í máli eftir útgáfu ákæru. Stefnandi telur því að gæsluvarðhald stefnanda hafi staðið lengur en efni stóðu til.

              Varakrafan sé að meginefninu til reist á sömu málsástæðum og aðalkrafa stefnanda, að því undanskyldu að miðað sé við að gæsluvarðhaldsvistin frá 28. desember 2011 hafi verið að ósekju og lækki því krafa stefnanda vegna tekjutjóns á meðan gæsluvarðhaldsvist stóð sem því nemi. Stefnandi krefjist samkvæmt því 5.516.409 króna vegna tekjutaps sem hann sannanlega hafi orðið fyrir. Sé þar miðað við meðaltalslaun stefnanda frá 20. desember 2010 til 13. mars 2011, líkt og í aðalkröfu og miðist við tímabilið frá 28. desember 2011 til 7. júní 2012, þ.e. í 163 daga. Þá komi til frádráttar þær greiðslur sem hann hafi fengið meðan á gæsluvarðhaldi stóð, annars vegar lífeyrissjóðsgreiðslur og hins vegar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 941.419 krónur skv. staðgreiðsluyfirliti. Meðallaun stefnanda á tilgreindu tímabili hafi verið reiknuð niður á dag 33.843 krónur sem geri 5.516.409 krónur, miðað við 163 daga gæsluvarðhaldsvist að frádregnum 941.419 krónum. Þannig sé krafa vegna tekjutaps 4.574.990 krónur. Aðrar fjárhæðir séu óbreyttar frá aðalkröfu og sé heildarkrafan því 67.146.297 krónur (4.574.990+11.302.304+2.087.264+9.181.739+40.000.000).

              Þrautavarakrafa stefnanda byggir að meginefni til á sömu málsástæðum og aðalkrafan. Stefnandi vísar meðal annars til þess að í fjórum dómum Hæstaréttar af sex, þar sem gæsluvarðhald yfir stefnanda var framlengt, hafi verið skilað sératkvæði af hálfu eins dómara þar sem hann taldi skilyrðum gæsluvarðhalds ekki fullnægt. Þá hafi [...] dregið frásögn sína um sakir stefnanda ítrekað til baka, en stefnanda hafi eftir sem áður verið gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Nefnd sératkvæði hafi meðal annars verið byggð á þessum grunni. Þá vísi stefnandi jafnframt til fyrrgreindra annmarka á málsmeðferð sem hafi valdið því að málið dróst úr hófi fram. Stefnandi vísi til umfjöllunar hér að framan í þeim efnum að breyttu breytanda.

              Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til þess að réttur til skaðabóta vegna frelsissviptingar að ósekju sé varinn í 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Einnig vísar stefnandi til XXXVII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, einkum 228. gr. Þá vísar stefnandi til alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979 og 4., 5., 6., 7., og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra skaðabótareglna. Krafa stefnanda um dráttarvexti er reist á ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um upphafsdag dráttarvaxta sé vísað til 9. gr. sömu laga. Bréf stefnanda til ríkislögmanns, þar sem krafið var um afstöðu stefnda til bótaábyrgðar, var móttekið 28. janúar 2015 og sé gerð krafa um dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi. Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á 1. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á ákvæðum laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir aðalkröfu sína, um frávísun málsins frá dómi, á því að málið sé vanreifað af hálfu stefnanda. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi ekki lagt fram öll rannsóknargögn málsins. Til að mynda vanti sjáanlega skýrslur yfir öðrum, önnur rannsóknargögn, úrskurði um gæsluvarðhald og endurrit dóma Hæstaréttar vegna þeirra. Gera verði þá kröfu til stefnanda að hann leggi fram kröfum sínum til stuðnings þessi rannsóknargögn og raunar öll þau gögn skipta máli við mat á kröfum hans að því marki sem hann á rétt til, sbr. 37. gr. laga nr. 80/2008 um meðferð sakamála, 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 1/2013 frá 27. febrúar 2013. Heimildir þessar tryggi meðal annars sakborningum úrræði til að kanna réttarstöðu sína, eftir atvikum ef þeir telja ástæðu til að höfða mál til greiðslu bóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008. Miklu varði að gögn sem þessi séu lögð fram og málsatvik reifuð með tilliti til þeirra, jafnt vegna kröfu um miskabætur og annarra kröfuliða. Stefnandi hafi heldur ekki lagt fram þau gögn önnur sem kröfur hans skírskota þó til eins og dóma Héraðsdóms Vesturlands og Hæstaréttar.

              Stefnandi byggi á því að hann hafi orðið af tekjum meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stóð. Ekki séu lagðir fram ráðningarsamningar, gögn um starfslok eða umsóknir um störf. Sé því engin leið að sjá af gögnum málsins hvert tekjutap kunni að hafa orðið eða hvort gæsluvarðhald var orsök þess og þá að hve miklu leyti. Krafa um tekjutap sé miðuð við tekjur stefnanda á stuttu tímabili sem lauk löngu áður en hann sætti gæsluvarðahaldi. Ekki komi fram hvenær stefnandi lauk fæðingarorlofi. Þá verði ekki séð að stefnandi hafi verið á vinnumarkaði að afla tekna þegar hann var handtekinn.

              Stefnandi geri kröfu um bætur fyrir missi framtíðartekna og miði það við mat geðlæknis. Í áliti hans sé talið að varanleg örorka sé 25% en varanlegur miski 20%. Í útreikningi kröfunnar á grundvelli þess mats vanti liði sem kynnu að koma til frádráttar eða að tekin sé afstaða til þeirra. Þótt ástæða kunni að vera til að leita eftir endurskoðun á mati læknisins breyti það því ekki að stefnandi verði að taka afstöðu til þeirra þátta sem 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 nái til og hvort til frádráttar komi aðrar greiðslur. Skattframtöl vegna tekna frá árinu 2008 til 2014 sýni greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Miðað við það og að stefnandi hafi verið metinn til örorku verði að reifa málið og einstaka liði bótakröfu með tilliti til þessa.

              Gögn um hvort uppboð á fasteign stefnanda stafi af gæsluvarðhaldsvistinni og ætluðu tekjutapi séu engan veginn næg. Gögn frá sýslumanni vegna málsins eða samskipti við kröfuhafa vanti svo unnt sé að leiða líkum að því að fullnustugerðin sé því um að kenna. Engin gögn séu um hvenær til vanskila stofnaðist.

              Af þessum ástæðum sé málið svo vanreifað að það uppfylli ekki ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eða grunnreglur um skýran og glöggan málsflutning. Beri því að vísa málinu frá dómi.

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun

Stefnandi mótmælir því að málið sé vanreifað. Stefnandi vísar til þess að krafa hans sé sett fram í fimm liðum og sé skýrt reifuð í stefnu. Krafan sé skýrt sundurliðuð og hver kröfuliður sé reiknaður út og vísað til framlagðra gagna. Stefnandi hafnar því að málið sé vanreifað vegna skorts á gögnum, en 30 dómskjöl hafi verið lögð fram við þingfestingu málsins. Sönnunarbyrði hvíli á stefnda fyrir því að stefnandi eigi ekki rétt til bóta. Stefnandi leggi fram samantektir allra framburða stefnanda, en aðrir framburðir og önnur gögn sakamálsins eigi ekki erindi í þessu máli. Einungis þurfi að athuga hvort stefnandi hafi sjálfur stuðlað að þeim aðgerðum sem hann var beittur.

Þá sé rangt að gögn vanti um nauðungarsölu á fasteign stefnanda. Lögð séu fram endurrit úr gerðarbók sýslumannsins á [...] ásamt nauðungarsölubeiðnum, úthlutunargerð nauðungarsöluandvirðis og tilkynning um skuldastöðu stefnanda eftir nauðungarsöluna. Því sé mótmælt að gögn vanti um tekjutap stefnanda í gæsluvarðhaldi. Allar greiðslur á því tímabili séu dregnar frá. Kröfur stefnanda séu settar fram á sama hátt og í skaðabótamálum vegna líkamstjóns. Greiðslur frá Tryggingastofnun tengist ekki kröfu stefnanda, en greiðslur hafi byrjað árið 2008. Þá hafi stefnandi engar bætur fengið frá þriðja manni vegna gæsluvarðhaldsins sem hann sætti. Ekki sé þörf annarra gagna en matsgerð. Loks sé gagnaöflun í málinu ekki enn lokið.

Niðurstaða

Bæði aðal- og varakrafa stefnanda eru settar saman úr nokkrum liðum. Munurinn á aðal- og varakröfu stefnanda felst í því að kröfuliður um bætur sem nema tekjutapi á meðan gæsluvarðhaldsvist stóð er mishár. Í aðalkröfu er þessi liður að fjárhæð 5.488.751 króna, en í varakröfu er þessi liður að fjárhæð 4.574.990 krónur. Aðrir kröfuliðir eru þeir sömu í aðal- og varakröfu. Þessir liðir eru krafa um bætur vegna fjártjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir til frambúðar vegna tekjuskerðingar, að fjárhæð 11.302.304 krónur, bætur vegna varanlegs miska að fjárhæð 2.087.264 krónur, bætur vegna nauðungaruppboðs á þinglýstri eign stefnanda að fjárhæð 9.181.739 krónur og miskabætur að fjárhæð 40 milljónir króna.

              Krafa stefnda um frávísun málsins byggir meðal annars á því að stefnandi hafi ekki lagt fram gögn. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi ekki lagt fram öll rannsóknargögn málsins, þar á meðal endurrit úrskurða um gæsluvarðhald og endurrit dóma Hæstaréttar vegna þeirra. Í þinghaldi 13. janúar sl. lagði lögmaður stefnanda fram dóma Hæstaréttar Íslands 5. desember 2011 í máli nr. 646/2011, 14. desember 2011 í máli nr. 669/2011, 11. janúar 2012 í máli nr. 29/2012, 9. febrúar 2012 í máli nr. 84/2012, 7. mars 2012 í máli nr. 146/2012,  2. apríl 2012 í máli nr. 217/2012 og 25. apríl 2012 í máli nr. 282/2012. Liggja þannig frammi endurrit allra úrskurða og dóma Hæstaréttar þar sem fallist var á gæsluvarðhald yfir stefnanda. Hvað varðar endurrit dóms Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 241/2012 er sá dómur birtur opinberlega á heimasíðu Hæstaréttar. Þegar af þeirri ástæðu getur það ekki varðað frávísun málsins þótt endurrit dómsins sé ekki lagt fram. Hvað varðar önnur rannsóknargögn málsins, þar á meðal dóma Héraðsdóms Vesturlands, hefur gagnaöflun ekki verið lýst lokið. Er báðum aðilum því kleift að leggja fram frekari rannsóknargögn málsins, eftir því sem þeir telja málatilbúnaði sínum til framdráttar. Verður málinu því ekki vísað frá dómi vegna þess að rannsóknargögn hafi ekki öll verið lögð fram.

              Kröfuliður í aðal- og varakröfu um bætur vegna tekjutaps meðan gæsluvarðhaldsvist stefnanda stóð yfir er byggð á meðaltalslaunum stefnanda fyrir tímabilið 20. desember 2010 til 13. mars 2011 er hann starfaði hjá D. Í stefnu er því lýst að stefnandi hafi allt árið 2010 verið í fastri vinnu, fyrri hluta árs hjá E og síðari hluta ársins hjá E. Stefnandi hafi frá miðju ári 2010 og fram á vor 2011 starfað við verkefni á Grænlandi á vegum E. Því verkefni hafi lokið á vormánuðum 2011 og hafi stefnandi þá snúið aftur til Íslands í fæðingarorlof sem hafi byrjað í apríl 2011. Ekki er úrskýrt í stefnu af hverju stefnandi byggir kröfu sína á meðaltalslaunum hjá D fyrir tímabilið 20. desember 2010 til 13. mars 2011, úr því stefnandi kveðst hafa unnið hjá því fyrirtæki yfir mun lengra tímabil. Í stefnu er ekki lýst með nákvæmni hvenær stefnandi byrjaði og hætti störfum hjá E, hvenær hann hóf störf hjá D og hvenær hann hafi byrjað töku fæðingarorlofs. Þá er ekki gerð grein fyrir því hvort stefnandi hafi enn verið í fæðingarorlofi þegar hann var handtekinn 1. nóvember 2011 eða hvort og þá hvenær fæðingarorlofi hafi þá verið lokið og hvort og þá hvenær stefnandi hafi aftur hafið störf. Er raunar ómögulegt að ráða af stefnu hvort stefnandi hafi verið í launaðri vinnu er hann var handtekinn. Reifun þessa kröfuliðar í stefnu er svo áfátt að stefnda er ómögulegt að taka afstöðu til kröfuliðarins og getur frekari gagnaframlagning stefnanda ekki bætt úr þessum misbresti. Verður þessum lið aðal- og varakröfu stefnanda því vísað frá dómi með vísan til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

              Kröfuliður um bætur vegna fjártjóns sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir til frambúðar vegna tekjuskerðingar er byggður á mati C geðlæknis. Stefnandi byggir fjárhæð þessa kröfuliðar á launatekjum stefnanda samkvæmt skattframtölum fyrir tekjuárin 2008, 2009 og 2010. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 dragast frá skaðabótum ákveðnar greiðslur frá þriðja manni. Í stefnu er þess ekkert getið hvort stefnandi hafi fengið slíkar greiðslur og þá hvort þær komi til frádráttar kröfu hans. Samkvæmt skattframtölum stefnanda fyrir tekjuárin 2008 til og með 2014 hefur stefnandi þó fengið greiðslur frá bæði Tryggingastofnun ríkisins og Greiðslustofu lífeyrissjóða. Á stefnanda hvílir ekki aðeins skylda til að greina til fullnaðar í stefnu frá dómkröfu sinni, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, þar á meðal jöfnum höndum þeim atriðum, sem horfa henni til hækkunar og lækkunar, heldur einnig að taka í málsástæðum sínum beina afstöðu til þess hvort einstakir liðir eigi að koma þar til frádráttar. Á þessu er verulegur misbrestur og er því óhjákvæmilegt að vísa frá dómi þessum lið aðal- og varakröfu stefnanda, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 4. desember 2014 í máli nr. 762/2014.

              Kröfuliður um bætur vegna nauðungaruppboðs á þinglýstri eign stefnanda að [...] byggir á því að stefnandi hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni vegna nauðungarsölunnar sem stefnda beri að bæta á grundvelli 5. mgr. 228. gr. um meðferð sakamála. Fjárhæðin nemur eftirstæðri kröfu Íbúðalánasjóðs á hendur stefnanda og byggir á framlögðu bréfi sjóðsins til stefnanda. Stefnandi hefur einnig lagt fram endurrit úr gerðarbók sýslumannsins á [...] og beiðnir um nauðungarsölu á fasteigninni. Stefnandi hefur samkvæmt þessu lýst grundvelli þessa kröfuliðar og lagt fram gögn henni til stuðnings. Gagnaöflun hefur ekki enn verið lýst lokið og hefur stefnandi kost á að leggja fram frekari gögn þessum kröfulið til stuðnings, svo sem gögn um það hvenær til vanefnda hafi stofnast. Stefnandi hefur með þessu lagt þann grunn að þessum kröfulið þannig að stefndi geti tekið afstöðu til hans. Verður þessum lið aðal- og varakröfu stefnanda því ekki vísað frá dómi.

              Kröfuliður um bætur vegna varanlegs miska er byggð á mati C geðlæknis. Í stefnu er gerð grein fyrir lagagrundvelli þessa kröfuliðar, því miskastigi sem stefnandi telur að hann hafi orðið fyrir og gerð skýr grein fyrir því hvernig fjárhæð kröfuliðarins er fundin. Í stefnu er gerð grein fyrir lagagrundvelli kröfuliðar um miskabætur. Rakið er að miski stefnanda sé fyrst og fremst komin til vegna sálrænna erfiðleika hans auk mannorðsmissis og óþæginda vegna frelsissviptingar stefnanda og vísað er til skýrslu B sálfræðings og mats C geðlæknis. Stefnandi hefur með þessu lagt þann grundvöll að þessum kröfuliðum að stefnda er kleift að taka afstöðu til þeirra. Gagnaöflun hefur ekki enn verið lýst lokið og hefur stefnandi kost á að leggja fram frekari gögn þessum liðum til stuðnings. Verður þessum liðum aðal- og varakröfu stefnanda því ekki vísað frá dómi.

              Þrautavarakrafa stefnanda byggir að meginefni til á sömu málsástæðum og aðalkrafa stefnanda. Þar sem dómurinn hefur hafnað frávísun á þremur af fimm kröfuliðum í aðal- og varakröfu stefnanda eru ekki efni til þess að vísa þrautavarakröfu stefnanda frá dómi og vísast þar um til framangreinds rökstuðnings.

              Með framangreindum rökstuðningi verður vísað frá dómi kröfuliðum í aðal- og varakröfu stefnanda um bætur vegna tekjutaps meðan gæsluvarðhaldsvist stefnanda stóð yfir og bætur vegna fjártjóns sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir til frambúðar vegna tekjuskerðingar, en að öðru leyti er frávísunarkröfu stefnda hafnað.

              Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins bíði efnisdóms.

              Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá dómi kröfuliðum í aðal- og varakröfu stefnanda, X, um bætur vegna tekjutaps meðan gæsluvarðhaldsvist stefnanda stóð yfir og bætur vegna fjártjóns sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir til frambúðar vegna tekjuskerðingar. Að öðru leyti er frávísunarkröfu stefnda, íslenska ríkisins, hafnað.