Print

Mál nr. 603/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Einar Gautur Steingrímsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Leit
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn X var hafnað. Í málinu krafðist sóknaraðili heimildar til húsleitar hjá varnaraðila og á lóð umhverfis húsið og að honum yrði gert ,,að afhenda“ sóknaraðila óskráðar hænur og tvo „óleyfishana“ sem hann héldi þar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki væri fullnægt lagaskilyrði fyrri málsliðar 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að leit þjónaði augljósum rannsóknarhagsmunum. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um heimild til húsleitar hjá varnaraðila að [...] í Mosfellsbæ og á lóð umhverfis húsið og að honum verði gert „að afhenda“ sóknaraðila óskráðar hænur og tvo „óleyfishana“ sem hann haldi þar. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann „málsvarnarlauna“ úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins í héraði og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt  fyrri málslið 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 er það skilyrði fyrir húsleit að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi. Ágreiningslaust er að hænsn þau, er um ræðir í málinu, séu haldin á heimili varnaraðila. Að því virtu er ekki fullnægt fyrrgreindu lagaskilyrði um að leit þjóni augljósum rannsóknarhagsmunum. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Eftir 1. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 eru ekki efni til að ákveða verjanda varnaraðila þóknun vegna meðferðar málsins í héraði. Þá verður kærumálskostnaður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. sömu laga.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.     

                                               

                                                    

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2017

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag að loknum munnlegum málflutningi var þingfest 12. júlí sl.

Af hálfu sóknaraðila er krafist úrskurðar um að Héraðsdómur Reykja­víkur heimili lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu húsleit að [...], Mos­fells­bæ og á lóð umhverfis húsnæðið á heimili X, og að honum verði gert að afhenda lögreglustjóranum á höfuð­borgar­svæðinu óskráðar hænur og tvo óleyfishana sem hann heldur að [...] í Mosfellsbæ.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málsvarnarlauna.

Varnaraðila var veittur frestur til að skila greinargerð til 18. ágúst sl. með samþykki aðstoðarsaksóknara. Ástæða nokkuð ríflegs frests voru fyrir fram ákveðin sumarleyfi. Munnlegur málflutningur fór fram 31. ágúst sl. og var málinu vísað frá dómi með úrskurði dómstólsins 7. september sl. Sóknaraðili kærði úrskurðinn og var hann felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar Íslands 12. september sl. í málinu nr. 563/2017 og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Málið var tekið fyrir fyrr í dag og í kjölfar gagnaframlagningar var málið endurflutt og síðan tekið á ný til úrskurðar. Sakflytjendur vísuðu að mestu til málflutnings 31. ágúst sl.

I.

Ekki er teljandi ágreiningur um helstu málsatvik. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um húsleit að [...], Mosfellsbæ og á lóð umhverfis húsnæðið á heimili X, og að honum verði gert að afhenda lögreglustjóranum á höfuð­borgarsvæðinu óskráðar hænur og tvo óleyfishana sem hann heldur að [...] í Mosfellsbæ.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til meðferðar kæru Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis frá 10. mars 2017 er varðar hænsn sem haldin séu af X að [...] í Mosfellsbæ án tilskilins leyfis. Í gögnum málsins kemur fram að heilbrigðisyfirvöldum á Kjósarsvæði hafi borist fjölmargar kvartanir íbúa í nágrenninu.

Þann 18. maí 2016 ákvað heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis á fundi sínum að fjar­lægja bæri óleyfishænsni þar með talið tvo hana vegna ónæðis sem þeir valdi og hafi gert um árabil. [...] tilheyri samkvæmt opinberum gögnum þéttbýli Mos­fells­bæjar og gildi því um hænsnahaldið samþykkt nr. 971/2015 um hænsnahald í Mos­fellsbæ utan skipulagðra landbúnaðarsvæða. Varnaraðili mótmælir þessu, segir eign sína ekki vera [...] heldur sé um að ræða lögbýlið [...], en það hafi verið stofnað með útskiptingu úr lögbýlinu [...], 29. desember 1991. Fram kom hjá aðstoðarsaksóknara við munnlegan málflutning að hann teldi [...] og [...] eina og sömu eignina.

Varnaraðili kærði framangreinda ákvörðun heil­brigðis­nefndar til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindarmál. Aðgerðum heil­brigð­is­nefndar var frestað uns úrskurður lægi fyrir. Með úrskurði úrskurð­ar­nefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 74/2016, fimmtudaginn 23. febrúar 2017 var kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis um að fjarlægja bæri tvo hana af lóð kæranda hafnað. 

II.

Sóknaraðili vísar vegna kröfu sinnar til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, en samkvæmt greininni geti heilbrigðisnefnd óskað eftir aðstoð lögreglu sinni aðilar ekki úrbótum. Ætluð brot teljist varða við lögreglu­sam­þykkt Mosfellsbæjar og samþykkt um hænsnahald í Mosfellsbæ utan skipu­lagðra landbúnaðarsvæða nr. 971/2015, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Vísar sóknaraðili til 33. gr. laga nr. 7/1998 um refsiheimild.  Um heimild til rannsóknaraðgerðarinnar er vísað til 1. mgr. 75. gr., sbr. 1. mgr. 74. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Sóknaraðili krefst þess að krafan verið tekin til greina eins og hún er sett fram.

Sóknaraðili telur frávísunarkröfu varnaraðila vera útúrsnúning og að hún standist ekki. Þá telur sóknaraðili, vegna sjónarmiða í greinargerð varnaraðila, heimilt að gera húsleit hjá öðrum en þeim sem grunaður sé um refsiverða háttsemi sbr. 2. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008.

III.

Varnaraðili bendir á að [...] séu á lögbýlisskrá og hafi verið það í 46 ár og þegar af þeirri ástæðu eigi að hafna kröfu sóknaraðila.

Varnaraðili bendir á að hann eigi ekki heima að [...], Mosfellsbæ heldur að [...]. Til sé gata sem hafi verið kölluð [...]. Hún sé hinum megin við [...] og fjarri heimili varnaraðila. Fasteignin [...] sé ekki til í reynd. Af þeim sökum sé ekki hægt að kalla varnaraðila fyrir dóm til að þola leit á fasteign sem hann ekki búi á, hafi engin umráð yfir og sé ekki til.

Þá vísar varnaraðili til þess að skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar njóti borgarar friðhelgi einkalífs. Það sé hluti efnisvarna að fjalla um hvort lög heimili leit. Það varði hins vegar formið þegar lögreglan ætli með úrskurði á hendur varnaraðila að æða inn á heimili eiginmanns hans, leita þar dyrum og dyngjum að hönum og hænum, innan dyra sem utan án þess að hann fái aðild að málinu. Dómsúrskurður verði að vera á hendur báðum heimilismönnum enda liggi ekkert annað fyrir í málinu en að eiginmaður varnaraðila eigi nákvæmlega sömu aðild að málinu og hann.

Varnaraðili áréttar að engar grunsemdir séu um að hanar séu týndir á eða við heimili hans, heldur ekki um að þeir séu í felum. Því sé engin þörf á að lögreglan fari inn á heimili hans til að leita að því sem hvorki sé týnt né dulið.

Varnaraðili bendir á að krafist sé ótakmarkaðrar leitarheimildar, innan dyra sem utan. Þessi krafa sé órökstudd og alltof víðtæk.

Gerð sé krafa um að varnaraðili afhendi hænsnfé. Slík kröfugerð eigi sér enga stoð í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kröfugerð í máli af þessu tagi geti aðeins lotið heimildum lögreglu til handa til tiltekinna aðgerða. Kröfugerð lögreglunnar væri ekki einu sinni hæf í innsetningarmáli því hún lúti að því að fá dóm um rétt og skyldur. Til slíkrar kröfugerðar þurfi stefnu skv. lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og þar væri aðildin Mosfellsbæjar eða einhvers nágranna sem teldi grenndarreglur brotnar. Þessari kröfu verði hvað sem öðru líði að vísa frá dómi. Lögreglan geti því aðeins tekið í sínar vörslur og gert upptæka muni í eigu annarra, á þeim grundvelli sem málið er rekið, ef hún sannar refsiverða háttsemi í skilningi 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Hún verði einnig að sanna að skilyrði 71. og 72. gr. stjórnarskrárinnar séu uppfyllt þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa. Í málinu leggi lögreglan ekkert með sér í þeim efnum.

Þá verði varnaraðila ekki gert með dómi að afhenda hænsnfugla sem hann hann á ekkert meira í en eiginmaður hans. Heilbrigðisyfirvöld geti ekki snúið sér að öðrum eiganda hænsnfugla og beint aðför að honum en virt hinn að vettugi. Hvað þá lögregluyfirvöld og dómstólar.

Að því leyti sem framangreind rök varnaraðila leiða ekki til frávísunar málsins er byggt á að þau hin sömu leiði til þess að kröfum sóknaraðila beri að hafna.

Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar þurfi dómstóllinn að skera úr um embættistakmörk yfirvalda. Hann komist ekki hjá því að meta hvort ákvarðanir stjórnvalda á fyrri stigum séu lögmætar að formi og efni. Á því er byggt að verulega skorti á um hvort tveggja. Sömuleiðis verði dómstóll að meta hvort lögreglan hafi sannað mál sitt þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa. Lögreglan eigi enga aðild að einkaréttarlegum ágreiningi en verði að axla sönnunarbyrði um að henni sé heimilt að ónáða borgara landsins með þessum hætti.

Í málatilbúnaði lögreglunar sé meint brot talið varða við lögreglusamþykkt. Engin lögreglusamþykkt sé til fyrir Mosfellsbæ og varnaraðili kveðst ekki sjá hvar í málinu reglugerð nr. 1127/2011 hafi verið brotin.

IV.

Óumdeilt er í máli þessu að samþykkt um hænsnahald í Mosfellsbæ utan skipulagðra landbúnaðarsvæða nr. 971/2015 gildir ekki um skipulögð landbúnaðarsvæði eða skráð lögbýli sbr. 1. gr. samþykktarinnar.

Varnaraðili byggir á að [...] sé í raun ekki til, þ.e. Mosfellsbær hafi upp á sitt einsdæmi ákveðið að hluti [...] skyldi bera þetta nafn.

Varnaraðili bendir á að eign hans hafi sannanlega verið skipt út úr landi [...] 2, 29. desember 1991 en hafi fengið nafnið [...] og hafi verið tekið á lögbýlaskrá fardagaárið 1971-1972. Um þetta hefur hann lagt fram gögn. Jafnframt liggur fyrir staðfesting Þjóðskrár á því að skráð lögheimili varnaraðila er á [...]. Þá hefur því ekki verið andmælt af sóknaraðila að varnaraðili stundi landbúnað á jörðinni.

Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, frá 23. febrúar sl. í málinu nr. 74/2016 er fjallað nokkuð ítarlega um þessa málsástæðu varnaraðila og komist að þeirri niðurstöðu með vísan til gagna málsins og upplýsingaöflunar nefndarinnar sjálfrar að hænur og hanar varnaraðila séu á fasteign sem teljist ekki vera lögbýli.

Dómurinn telur hins vegar, miðað við framlögð gögn, ekki fært að fella í þessu máli dóm á það í máli þessu hvort [...], sem sé skiki sem hafi verið skipt út úr lögbýlinu [...], ásamt fleiri lóðum, með skiptayfirlýsingu 9. nóvember 1989, sbr. framangreindan úrskurð, sé sá staður sem geymir þær hænur og hana sem málið fjallar um. Framangreind yfirlýsing liggur ekki fyrir í málinu. Þá verður ekki felldur dómur á það með óyggjandi hætti miðað við gögn málsins hvort fuglarnir séu í raun á lögbýlinu [...] eða ekki sem ætti að leiða til þess að kröfu sóknaraðila yrði þegar af þeirri ástæðu hafnað. Varnaraðili hefur hins vegar haldið því fram að hann hafi ekki hugmynd um hvar [...] sé, en bendir á að við munnlegan málflutning 31. ágúst sl. hafi sóknaraðili fullyrt að [...], sé sama eignin og [...]. Því beri þegar að þeirri ástæðu að hafna kröfu sóknaraðila þar sem ekki verði gerður ágreiningur um að [...] séu lögbýli.

Þá verður einnig litið til þess að vafasamt má telja að sóknaraðili geti neytt úrræða í X. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 til að ná fram markmiði sínu. Ekki verður séð að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna. Þannig er markmiðið ekki að handtaka varnaraðila og rannsaka andlag brots og önnur ummerki eða hafa uppi á    munum sem rannsaka á.

Þá er í 3. mgr. 74. gr. laganna sett það skilyrði fyrir því að leitarúrskurður verði upp kveðinn, að rökstuddur grunur leiki á því að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi. Burtséð frá því hvort líkur yrðu taldar standa til þess að ákæra gæti verið gefin út er ekki hægt að sjá að uppfyllt sé skilyrði ákvæðisins um rannsóknarhagsmuni. Enginn ágreiningur er þannig sjáanlegur um hvar hænsnin eru geymd og engin leynd yfir því. Málið verður að því leytinu talið upplýst. Þá má líta til þess að varnaraðili er samkvæmt upplýsingum frá lögmanni hans, sem ekki var andmælt af sóknaraðila, eigandi einungis 25% hlutafjár í einkahlutafélagi sem eigi hænsnin. Því blasir við að annar eða aðrir eigendur eiga meirihluta án þess að eiga aðild að þessu máli.

Enn annað skilyrði fyrir leit samkvæmt þessari grein er að rannsókn beinist að broti sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum. Samkvæmt 33. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 sem er refsiheimildin í málinu, varða brot við ákvæðum laganna sektum hvort sem þau eru framin af stórfelldu gáleysi eða ásetningi. Fangelsisrefsing liggur ekki við nema brotin séu stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot. Dómurinn telur að því skilyrði sé tæpast fullnægt í máli þessu og brot varnaraðila gætu einungis varðað sekt.

Varðandi þá óvissu sem í málinu er um hvort hænsnin séu á lögbýli eða ekki verður að telja að miðað við þau gögn sem varnaraðili hefur lagt fram að sönnunarbyrðin um að hænsnin séu ekki lögbýli hvíli á sóknaraðila. Jafnframt verður litið til þess að draga verður í efa að sóknaraðili geti stuðst við 74. sbr. 75. gr. laga nr. 88/2008 miðað við málsatvik. Í ljósi framangreinds telur dómurinn ekki annað fært en að hafna kröfu sóknaraðila.

Ekki eru efni til að fallast á málskostnaðarkröfu varnaraðila.

Málið fluttu Sigrún Inga Guðnadóttir fyrir hönd sóknaraðila og Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður fyrir varnaraðila.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, er hafnað.