Print

Mál nr. 619/2017

A (Pétur Örn Sverrisson lögmaður)
gegn
B (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)
Lykilorð
  • Hjón
  • Ógilding hjúskapar
Reifun

A krafðist þess að ógiltur yrði hjúskapur hennar og B sem stofnað var til 2016. Var A þá 27 ára og bjó í foreldrahúsum en B 24 ára frá C. Lá fyrir í málinu að A hefði allt frá barnsaldri glímt við alverleg þroskafrávik og hafi af þeim sökum þurft á miklum stuðningi að halda í daglegu lífi. Í dómi Hæstaréttar var tiltekið að ekki hefði annað komið fram en að foreldrar A hefðu enga vitneskju haft um hjónaband A og B fyrr en 2017 og þá í tengslum við umsókn B til Útlendingarstofnunar um dvalarleyfi hér á landi. Þá hefði mjög skammur tími liðið frá því að A og B kynntust og þar til þau stofnuðu til hjúskapar eða innan við tveir mánuðir. Kom fram að í samræmi við málatilbúnað A mætti slá því föstu að þar að baki hefði legið eindregin ráðagerð B um að öðlast dvalarleyfi hér á landi og að hjúskapar hans og A hefði verið nauðsynlegur liður í því. Var talið að líta mætti svo á að þegar A og B hefðu stofnað til hjúskapar síns og aðdraganda hans hefðu verið uppi svo sérstakar aðstæður með tilliti til andlegrar stöðu hennar að þeim yrði fyllilega jafnað við að hún hafi í skilningi niðurlagsorða 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 ekki verið bær til að takast þá skuldbindingu á hendur. Var krafa A því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Þorgeir Ingi Njálsson landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Hún krefst þess að ógiltur verði hjúskapur hennar og stefnda sem stofnað var til 7. desember 2016. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur hér fyrir dómi.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

I

            Málsaðilar gengu í hjónaband [...] 2016 hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Var áfrýjandi þá 27 ára og bjó í foreldrahúsum. Liggur fyrir að hún hefur allt frá barnsaldri glímt við alvarleg þroskafrávik, svo sem nánar verður vikið að hér síðar, og þarf af þeim sökum á miklum stuðningi að halda í daglegu lífi. Stefndi, sem er  24 ára, er frá C. Kemur fram í gögnum málsins að hann hafi komið hingað til lands í lok [...] 2016 og stuttu síðar komist í kynni við áfrýjanda. Er ekki annað fram komið en að foreldrar áfrýjanda hafi enga vitneskja haft um hjónaband hennar og stefnda fyrr en í [...] 2017 og þá í tengslum við umsókn hans til Útlendingastofnunar [...] 2016, fimm dögum eftir hjónavígsluna, um dvalarleyfi hér á landi. Hafði hann áður sótt um hæli en verið synjað um það. Málið var síðan höfðað 27. janúar 2017.

II

Ógildingarkrafa áfrýjanda er meðal annars reist á ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Samkvæmt ákvæðinu getur annað hjóna krafist ógildingar hjúskapar síns hafi það verið viti sínu fjær þegar vígsla fór fram eða að öðru leyti svo ástatt um það að það mátti þá eigi skuldbinda sig til hjúskapar að lögum. Þá er jafnframt byggt á 3. og 4. tölulið sömu málsgreinar.

            Í hinum áfrýjaða dómi er stuttlega vikið að vitnisburði sálfræðings sem metið hafði andlegt atgervi áfrýjanda í tengslum við málshöfðunina. Kemur þar meðal annars fram það mat sálfræðingsins að áfrýjandi búi við vitsmunaskerðingu og einhverfu og sé alvarlega fötluð. Hugtakaskilningur hennar sé á við 6 til 8 ára barn og skilningur á félagslegum aðstæðum sé á við 6 ára barn eða jafnvel yngra.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð matsgerð D, barna- og unglingageðlæknis, [...] 2017, sem var eftir uppkvaðningu héraðsdóms dómkvaddur til að gefa álit sitt á fötlun áfrýjanda, getu hennar til að skynja eðli félagstengsla eins og hjónabands og hvort andlegt ástand hafi dregið úr hæfi hennar til að gera sér grein fyrir hvað fólst í hjónabandi hennar og stefnda á þeim tíma þegar til þess var stofnað. Í matsgerðinni segir að í viðtölum matsmanns við áfrýjanda hafi komið fram skýr einkenni einhverfu og þroskaskerðingar. Ljóst sé að hún þurfi á miklum stuðningi að halda í daglegu lífi. Þessi fötlun hennar geri henni erfitt fyrir við félagslega aðlögun og myndun félagstengsla. Greindarskerðing hennar hafi einnig áhrif í þessu sambandi. Skilningur hennar á félagslegum samskiptum sé því takmarkaður. Hún hafi gefið þá lýsingu á hjónabandi að það feli í sér að einstaklingar séu lengi saman og dýpri lýsing eða skilningur á því hafi ekki fengist fram. Leiki enginn vafi á því að geta einstaklings með greindarskerðingu og dæmigerða einhverfu til að skynja eðli félagstengsla sé verulega skert. Í niðurlagi matgerðarinnar er sett fram það álit að hafið sé yfir allan vafa að færni áfrýjanda til að gera sér grein fyrir hvað felist í hjónabandi hennar og stefnda hafi verið verulega skert.

Við vinnslu matsgerðarinnar hafði matsmaður undir höndum greinargerð E sálfræðings frá [...] 2017. Þar kemur meðal annars fram það álit sálfræðingsins að áfrýjandi átti sig ekki á fyrirætlunum annarra. Hún sé leiðitöm og auðvelt sé að blekkja hana. Þá hafi hún fá bjargráð til að leysa flóknar aðstæður og eigi erfitt með að setja fólki mörk.

            Mjög skammur tími leið frá því málsaðilar kynntust og þar til þau stofnuðu til hjúskapar síns. Þá er þess áður getið að foreldrar áfrýjanda höfðu enga vitneskju um þessi áform og ekki er annað fram komið en að hið sama eigi við um aðra þá sem gætt höfðu hagsmuna hennar. Hélt áfrýjandi þessu þannig leyndu fyrir þeim sem næst henni stóðu. Í samræmi við málatilbúnað áfrýjanda þykir mega slá því föstu að þar að baki hafi legið eindregin ráðagerð stefnda um að öðlast dvalarleyfi hér á landi og að hjúskapur hans og áfrýjanda væri nauðsynlegur liður í því. Hafi áfrýjandi í þeim tilgangi verið beitt þrýstingi sem hún hafði enga burði til að standa gegn í ljósi fötlunar sinnar. 

            Að framangreindu virtu og í ljósi þeirra sérfræðigagna um áfrýjanda sem lögð hafa verið fram í málinu verður litið svo á að þegar hún og stefndi stofnuðu til hjúskapar síns og í aðdraganda hans hafi verið uppi svo sérstakar aðstæður með tilliti til andlegrar stöðu hennar að þeim verði fyllilega jafnað við að hún hafi í skilningi niðurlagsorða 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga ekki verið bær til að takast þá skuldbindingu á hendur. Verður krafa áfrýjanda um ógildingu á hjúskap hennar og stefnda því tekin til greina.

            Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

            Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

            Hjúskapur áfrýjanda, A, og stefnda, B, sem stofnað var til [...] 2016, er ógiltur.

            Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda skulu vera óröskuð.

            Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

            Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.000.000 krónur.

                                                                           

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2017.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. júní 2017, var höfðað 27. janúar s.á. af hálfu A, [...], Reykjavík á hendur B, ríkisborgara C með dvalarstað að [...], Garðabæ, til ógildingar á hjúskap þeirra.

Dómkröfur stefnanda eru þær að hjúskapur hennar og stefnda, sem stofnað var til þann [...] 2016, verði ógiltur. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða honum málskostnað, auk virðisaukaskatts.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Aðilar málsins gengu í hjúskap [...] 2016 hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Stefnandi krefst í máli þessu ógildingar á hjúskap þeirra. Hún er 27 ára gömul kona, sem býr í foreldrahúsum í Reykjavík. Stefndi er 23 ára gamall maður frá C sem sótti um hæli hér á landi [...] 2016, en var synjað um það.

Í stefnu segir að stefnandi sé greindarskert, með greiningu um dæmigerða einhverfu, og samkvæmt mati lækna uppfylli hún skilyrði um hæsta örorkustig. Hún beri afar takmarkað skynbragð á eðli félagstengsla, eins og vináttu eða annarra sambanda, hvað þá hjúskapar. Þá hafi hún takmarkaða ábyrgðartilfinningu gagnvart eigin aðstæðum. Stefnandi hvorki treysti sér til né hafi nokkra burði til þess að búa í eigin húsnæði. Stefnandi starfi við þjónustu- og afgreiðslustörf hjá [...] og hafi gert um nokkurt skeið. Stefnandi njóti mikils stuðnings foreldra og systkina við daglegt líf og með aðstoð þeirra hafi það verið í nokkuð föstum skorðum.

Málavöxtum er lýst svo í stefnu að stefnandi hafi [...] 2016 komist í kynni við stefnda. Hann hafi tekið að venja komur sínar að starfsstöð stefnanda, ásamt [...] félögum sínum, og tekið að senda henni skilaboð á samskiptamiðlum. Stefnandi hafi hrifist af stefnda, sem hafi tjáð henni að nauðsynlegt væri fyrir þau að ganga í hjúskap. Það sama hafi félagar hans sagt. Ef stefnandi giftist ekki stefnda gæti hann ekki haldið sambandi við hana og það myndi hafa slæmar afleiðingar í för með sér. Stefndi hafi þrýst mjög á stefnanda að giftast sér og hafi talið henni trú um að það væri nauðsynlegt. Stefnandi hafi ekki viljað slíkan ráðahag, en hafi ekki getað staðist þann þrýsting sem stefndi hafi beitt og látið að lokum undan honum.

Útlendingastofnun barst umsókn um dvalarleyfi fyrir stefnda hér á landi [...] 2016, fimm dögum eftir hjónavígslu aðila. Þegar stofnunin sendi stefnanda bréf á heimili hennar, dags. [...] 2017, með ósk um frekari gögn og upplýsingar vegna umsóknar um dvalarleyfi fyrir stefnda, maka stefnanda, var foreldrum hennar enn ókunnugt um hjónavígsluna. Í svarbréfi lögmanns stefnanda til Útlendingastofnunar, dags. [...] 2017, segir að stefndi hafi augljóslega beitt stefnanda blekkingum og þrýstingi til að giftast sér og að til ráðahagsins hafi verið stofnað til málamynda í þeim tilgangi einum að afla honum dvalarleyfis. Stefnandi hafi ekki verið fær um að meta hvað fælist í hjúskap eða af hvaða hvötum stefndi hafi sótt hann svo fast.

Stefndi kveður stefnanda hafa verið fullkunnugt um samskipti stefnda við Útlendingastofnun og að hann væri að sækja um dvalarleyfi. Það hafi aldrei verið leyndarmál og óljóst sé hvaða veittar upplýsingar stefnandi telji að hafi verið rangar.  Stefndi kveður fjölskyldu stefnanda vera andstæða ráðahagnum og hafnar því að hann og vinir hans hafi beitt stefnanda þrýstingi. Sýslumaður rannsaki hvort hjónaefni uppfylli skilyrði fyrir því að mega ganga í hjúskap. Þannig sé gengið úr skugga um aldur hjónaefna, lögræði og hvort aðilar hafi verið í hjúskap áður. Aðilar þurfi að afhenda viðeigandi vottorð og undirritun tveggja svaramanna. Sýslumaður gefi út könnunarvottorð til staðfestingar á því að skilyrði fyrir hjónavígslu séu fyrir hendi. Aðilar hafi undirgengist þetta ferli og sýslumaður hafi samþykkt það. Vígsla hefði ekki farið fram ef sýslumaður hefði séð á sambandi þeirra einhverja meinbugi.

Í stefnu segir að stefnandi hafi ekki átt í eiginlegu sambandi við stefnda, enda hafi hún aðeins þekkt hann í örfáa mánuði. Samskipti þeirra hafi einkum verið á vettvangi samskiptamiðla, en stefndi hafi einungis tvisvar komið stuttlega að heimili stefnanda og hafi ekki hitt foreldra hennar eða fjölskyldu. Stefnandi viti lítil sem engin deili á stefnda eða hans einkahögum og hafi haft lítið af honum að segja eftir giftinguna. Stefndi hafi þó ítrekað reynt að setja sig í samband við stefnanda og fjölskyldu hennar samhliða afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn hans um dvalarleyfi. Stefnandi hafi ekki viljað ræða við hann þar sem hún óttist viðbrögð hans og að hann muni reyna að fá hana til að undirrita fleiri skjöl eða gerninga. Stefndi hafi fengið stefnanda til þess að undirrita skjöl sem tengist umsókn hans um dvalarleyfi, m.a. staðfestingu á því að stefndi væri búsettur á heimili foreldra hennar. Stefndi hafi ekki viljað láta stefnanda í té umrædd gögn og hafi hún takmarkaða hugmynd um hvaða skjöl og gögn hún hafi undirritað að fyrirmælum stefnda. Stefndi hafnar því að hann neiti að láta í té gögn, hann hafi skilað gögnum til Útlendingastofnunar og séu þau gögn öll tiltæk þar.

Í stefnu segir að stefnandi hafi átt við mikla vanlíðan að stríða vegna þessara aðstæðna, sem hún hafi takmarkaðan skilning á. Hún hafi m.a. þurft að vera frá vinnu þar sem hún telji að stefndi muni mæta á starfstöð hennar og reyna að beita hana frekari þrýstingi. Stefndi telur að fjölskylda stefnanda meini honum samskipti við eiginkonu sína, hún njóti mikils stuðnings foreldra sinna og systkina við daglegt líf og telur stefndi að ráðskast sé með líf stefnanda. Hún hafi ekki verið svipt sjálfræði sínu og sé fullfær um að taka ákvarðanir um eigið líf.

                Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar þess skýrslur og auk þess komu fyrir dóm og gáfu skýrslur vitnin F sálfræðingur, G, faðir stefnanda, H og svaramennirnir I og J.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Kjarni þessa máls sé að stefnandi hafi augljóslega verið blekkt og beitt þrýstingi til að ganga í hjúskap með stefnda. Til hjónabandsins hafi verið stofnað í þeim eina tilgangi, sem hafi verið dulinn stefnanda, að styðja við umsókn stefnda um dvalarleyfi. Fyrirliggjandi gögn um sjúkrasögu stefnanda og andlegt atgervi sýni svo ekki verði um villst að hún hafi ekki verið fær um að sporna við blekkingum og þrýstingi í aðdraganda og við stofnun hjúskaparins. Hún sé ekki fær um að meta afleiðingar þess að ganga í málamyndahjónaband með nánast ókunnugum manni frá C í þeim tilgangi einum að afla honum dvalarleyfis.

Stefnandi krefjist ógildingar hjúskaparins og byggi þá kröfu á 1., 3. og 4. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Nánar tiltekið á þeim grundvelli að (i) stefnandi hafi verið viti sínu fjær eða svo hafi verið ástatt um stefnanda þegar vígsla fór fram að hún mátti þá eigi skuldbinda sig til hjúskapar að lögum, (ii) stefndi hafi komið stefnanda til að eiga sig með því að villa vísvitandi á sér heimildir eða leyna atvikum úr lífi sínu er mundu hafa fælt stefnanda frá hjúskapnum ef vitað hefði og/eða (iii) stefnandi hafi verið neydd til vígslunnar.

Til stuðnings framangreindu sé í fyrsta lagi lagt til grundvallar að andlegt atgervi stefnanda og hugarástand hennar í kjölfar þess þrýstings sem stefndi og félagar hans hafi beitt hana í aðdraganda og við vígsluna, hafi verið með þeim hætti að jafnað verði til þess að hún hafi verið viti sínu fjær eða þannig ástatt um hana að hún hafi ekki mátt skuldbinda sig til hjúskapar að lögum. Gögn um sjúkrasögu og heilsufar stefnanda renni stoðum undir þetta.

Í öðru lagi hafi stefnandi staðið í þeirri trú að til hjúskaparins væri stofnað til að forða stefnda frá bráðri hættu og að það væri eina leiðin til að þau gætu haldið sambandi. Síðar hafi stefnandi gert sér grein fyrir því að um svokallað málamyndahjónaband hafi verið að ræða sem haft hafi þann eina tilgang að styðja við umsókn stefnda um dvalarleyfi. Stefnandi viti í raun engin deili á stefnda og telji að hann eigi eiginkonu, ástkonu eða fjölskyldu annars staðar. Stefndi hafi villt á sér heimildir gagnvart sér með vísvitandi hætti og leynt atvikum úr lífi sínu sem hefðu fælt stefnanda frá hjúskapnum hefði hún vitað um þau.

Stefnandi byggi í þriðja lagi á því að líta verði svo á, að teknu tilliti til aðstæðna allra og andlegs atgervis hennar, að stefndi hafi neytt hana til vígslunnar, eftir atvikum með fulltingi félaga sinna.

Í öllu falli sé ljóst að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim eina tilgangi að afla stefnda dvalarleyfis og að slík stofnun hjúskaparins sé ekki með vilja stefnanda. Slíkt brjóti óhjákvæmilega í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga, sbr. til hliðsjónar 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, og ætti að leiða til þess að fallist verði á kröfu stefnanda.

Mál þetta sé hjúskaparmál samkvæmt XV. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 1. tl. 113. gr. laganna, og sé höfðað hér á landi á grundvelli 114. gr. hjúskaparlaga, sbr. 2. tl. 1. mgr. 114. gr. og 2. mgr. ákvæðisins. Þar sem stefndi eigi ekki heimilisvarnarþing hér á landi sé málið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á heimilisvarnarþingi stefnanda, með heimild í 1. mgr. 115. gr. hjúskaparlaga. Um heimild stefnanda til málshöfðunarinnar vísist til 1. mgr. 116. gr. hjúskaparlaga.

                Stefnandi reisi kröfur sínar meðal annars á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, einkum V. og XV. kafla laganna og á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þá byggi stefnandi kröfur sínar á meginreglum sifjaréttar og grunnreglum að baki ákvæðum laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, eftir því sem við eigi. Stefnandi byggi einnig á og vísi til laga um útlendinga, nr. 80/2016, einkum 8. mgr. 70. gr. Krafa um málskostnað sé reist á 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefnandi fullyrði að hún hafi verið beitt augljósum blekkingum og þrýstingi til þess að ganga í hjúskap. Stefndi mótmæli þessu og bendi á að engin gögn styðji þessa fullyrðingu. Þvert á móti hafi aðilar undirgengist könnun hjá sýslumanni áður en til hjúskapar hafi verið stofnað.

Fyrirliggjandi gögn sem vísað sé til sé vottorð frá Borgarspítalanum frá árinu 1994 og athugun á einkennum á einhverfurófi í [...] 2014. Þar komi m.a. fram:

Hún er myndarleg ung kona sem var samvinnufús og jákvæð við athugun. Það var gaman að spjalla við A og hún hafði góða nærveru. Hún sagði prófanda frá því að það skemmtilegasta sem hún gerði væri að taka ljósmyndir, mála og lesa bækur. Einnig finnst henni gaman að vera með vinum sínum.

Stefnandi starfi við afgreiðslustörf hjá [...]. Hún haldi úti facebook síðu þar sem hún birti upplýsingar um sig, myndir með vinum og úr ferðalögum o.fl. o.fl. Draga megi þá ályktun að stefnandi sé opin, lífsglöð og hress kona. Stefndi hafni því að það eigi að vera á einhvern átt ljóst að stefnandi sé með skert atgervi.

Stefndi mótmæli því að ákvæði 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eigi við.

Töluliður 1. Því sé hafnað að stefnandi hafi verið viti sínu fjær eða ástand hennar verið með þeim hætti að hún hafi ekki mátt skuldbinda sig til hjúskapar að lögum. Stefndi haldi því fram að það sé stefnanda að sýna fram á að svo hafi verið og verði þá að telja að fulltrúa sýslumanns hafi einnig átt að vera það ljóst. Stefnandi hafi ekki verið svipt sjálfræði þegar hjónavígslan fór fram.

Töluliður 3. Stefndi hafni röksemdum stefnanda. Stefnanda hafi ætíð verið það ljóst að eiginmaður hennar hafi verið B frá C, sem hafi verið með umsókn um dvalarleyfi í gangi. Stefndi hafni því að um málamyndahjónaband hafi verið að ræða. Stefndi hafi engum blekkingum beitt. Hann leggi fram fjölskylduvottorð frá C sem sýni fram á að hann sé maður einhleypur. Ávirðingum um eiginkonu, ástkonu eða fjölskyldu annars staðar sé mótmælt og telji stefndi stefnanda þurfa að styðja fullyrðingar sínar með einhverjum hætti.

Töluliður 4. Stefnandi brigsli stefnda um refsiverða háttsemi. Ekki liggi fyrir að stefnandi hafi nokkru sinni séð ástæðu til þess að leggja fram kæru til lögreglu vegna stefnda. Stefndi mótmæli því með vísan til 4. tl. ákvæðisins.

Almenn tilvísun stefnanda til allsherjarreglu og meginreglna íslenskra laga eigi ekki við. Mál þetta sé hjúskaparmál samkvæmt ákvæðum XV. kafla hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Krafa um málflutningsþóknun sé byggð á ákvæðum í XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur, því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum.

Niðurstaða

Í máli þessu krefst stefnandi ógildingar á hjúskap sínum og stefnda á grundvelli 28. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Skilyrði þess að fallist verði á slíka kröfu er að fyrir hendi hafi verið einhver þau atvik sem talin eru upp í fjórum töluliðum í 1. mgr. ákvæðisins. Þau eru í fyrsta lagi að annað hjóna hafi verið viti sínu fjær þegar vígsla fór fram eða að öðru leyti svo ástatt um það að það mátti þá eigi skuldbinda sig til hjúskapar að lögum. Í öðru lagi, hafi það af vangá látið vígja sig öðrum en þeim sem það hafði bundist hjúskaparorði eða hafi það verið vígt án þess að það ætlaðist til þess, en í málinu er ekki byggt á ógildingarástæðum samkvæmt þessum tölulið. Í þriðja lagi, hafi eiginkona þess eða eiginmaður komið því til að eiga sig með því að villa vísvitandi á sér heimildir eða leyna atvikum úr lífi sínu er mundu hafa fælt hitt frá hjúskapnum ef vitað hefði og loks í fjórða lagi, hafi það verið neytt til vígslunnar. 

                Í málinu liggja fyrir gögn um andlegt atgervi stefnanda og nýlegt mat sem stefnandi aflaði í tilefni af þessu máli. Fyrir dóminn kom sá sálfræðingur sem framkvæmdi matið, en hún hafði ekki sinnt stefnanda fyrir þann tíma. Kvað hún sjúkdómsgreiningu hennar vera tvíþætta, vitsmunaskerðingu og einhverfu. Stefnandi byggi við alvarlega fötlun og hefði hugtakaskilning á við 6-8 ára barn og skilning á félagslegum aðstæðum á við sex ára barn eða jafnvel yngra. Hún hefði ekki burði til að sjá um sig sjálf eða búa ein. Stefnandi hefði styrkleika í sjónúrvinnslu og geti unnið einhæf verkefni hratt og vel. Hún geti tjáð sig í einföldu máli í ræðu og riti. Fyrir liggur að stefnandi stundaði nám á starfsbraut í fjölbrautaskóla og vinnur á kassa á [...]. Faðir stefnanda bar fyrir dóminum að hann og móðir stefnanda hefðu alla tíð reynt að styðja hana til sjálfstæðis, langan tíma hefði tekið að kenna henni að aka bifreið en það hefði tekist og stefnandi hefur bílpróf. Hún sé félagslynd og eigi skara af kunningjum sem sumir hverjir vilji hafa gott af henni. Hún trúi engu illu upp á fólk, vilji öllum vel og sé því útsett fyrir misnotkun. Stefnandi kom fyrir dóm og gerði grein fyrir afstöðu sinni með einföldum en skýrum og skiljanlegum hætti.

                Stefnandi er lögráða. Hún krefst ógildingar á hjúskap sínum og stefnda, en ekki er á því byggt af hennar hálfu að hún sé ekki bær til að ganga í hjúskap eða sé ekki fær um það. Í framburði stefnanda fyrir dóminum kom fram að hún kynni að vilja ganga í hjúskap síðar og að hún hefur skýrar hugmyndir um hvernig að því skuli staðið, m.a. að unnusti biðji föður stúlku um leyfi og að hjónavígsla færi fram í kirkju. Ljóst er að stefnandi sér nú eftir því að hafa gifst stefnda. Henni finnst að rangt hafi verið að hjúskaparstofnuninni staðið, hún hafi gert mistök með því að giftast stefnda hjá sýslumanni og með því að leyna því fyrir foreldrum sínum. Hún kvaðst hafa gert sér grein fyrir því eftir á að hún hefði gert rangan hlut.

Í stefnu er því haldið fram að andlegt atgervi stefnanda og hugarástand hennar í kjölfar þess þrýstings sem stefndi og félagar hans hafi beitt hana í aðdraganda og við vígsluna, hafi verið með þeim hætti að jafnað verði til þess að hún hafi verið viti sínu fjær eða þannig ástatt um hana að hún hafi ekki mátt skuldbinda sig til hjúskapar að lögum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga. Þar segir að gögn um sjúkrasögu og heilsufar stefnanda renni stoðum undir þetta. Stefnandi undirritaði gögn vegna hjónavígslunnar [...] 2016. Gögnin hafði, samkvæmt framburði stefnanda, útvegað stúlka, sem verið hafði vinkona hennar frá árinu 2011. Sú ætti maka frá C og hefði kynnt hana fyrir stefnda. Þær hefðu rætt saman um þau áform að stefnandi giftist stefnda. Samkvæmt framburði svaramannsins J, sem einnig á maka frá C, hitti hún stefnanda í fyrsta sinn að kvöldi [...] 2016. J undirritaði svaramannavottorð vegna hjúskaparstofnunar stefnanda og stefnda daginn eftir. Hún bar fyrir dómi að þær hefðu eytt miklum tíma saman fram að hjónavígslu, sem fór fram tíu dögum síðar. Stefnandi hefði verið venjuleg og ekki komið henni undarlega fyrir sjónir, þó hefði henni síðar dottið í hug að stefnandi væri hugsanlega með athyglisbrest. Það hefði verið gaman að spjalla við stefnanda, en vitnið hefði ekki gert sér grein fyrir því að hún væri greindarskert. Faðir stefnanda bar fyrir dóminum að stefnandi hefði á þessum tíma verið mikið með þessu fólki, strákum frá C og einhverri J, en ekkert hefði bent til þess að neitt sérstakt væri í gangi. Engin gögn eða framburður vitna benda til þess að ástand stefnanda á þessu tímabili, eftir að hún virðist hafa tekið ákvörðun um að ganga að eiga stefnda og fram á vígslustundina, hafi verið með þeim hætti að hún hafi þá virst vera viti sínu fjær eða að hún hafi verið það við vígsluna. Stefnandi hefur ekki fært að því viðhlítandi rök hvernig gögn um fötlun hennar sýni fram á að hún hafi verið viti sínu fjær í skilningi 1. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga við vígsluna og í aðdraganda hennar eða að ástandi hennar verði jafnað til þess.

                Samkvæmt framburði stefnanda tók hún þá ákvörðun að giftast stefnda á þessum tíma vegna þess að hún vildi að hann gæti haldið áfram að dvelja hér á landi. Hún vildi líka, með því að giftast honum, bjarga honum frá því að sæta refsiviðurlögum sem stefndi hefði upplýst hana um að biðu hans í C. Sannað þykir að stefnandi hafi verið upplýst um þá stöðu sem stefndi var í þegar til hjúskapar þeirra var stofnað og að hún hafi gert sér grein fyrir því að honum yrði ella gert að fara af landi brott. Framburður stefnanda um þennan tilgang hjónavígslunnar fær stoð í framburði vitnisins H. Einnig í framburði föður stefnanda um hjálpsemi hennar og að hún hafi séð hjónavígsluna sem hjálp við manninn. Stefndi heldur því fram að hjónavígslan hafi ekki verið til málamynda, hann hefði hrifist af stefnanda og hafi viljað giftast henni þess vegna. Þessar ástæður þurfa ekki að útiloka hvor aðra. Vitnið J bar um að aðilar hafi virst vera sæl saman og stefnandi kvaðst sjálf hafa hrifist af stefnda á þessum tíma, en hún hefði viljað bíða með giftingu ef ekki hefði verið svona ástatt fyrir stefnda. Virðist hún ekki hafa verið í neinni villu um það hver stefndi væri eða hver staða hans hafi verið.

                Framburður stefnanda um ástæður sinnaskipta sinna um hug sinn til stefnda er trúverðugur og varða þær ástæður aðallega stjórnsemi hans og framkomu við hana, en einnig grunsemdir hennar um að hann eigi kærustu. Sinnaskipti af slíkum toga verða vart talin einsdæmi eða rakin til fötlunar stefnanda. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefnandi hafi eftir hjónavígsluna fengið nýjar upplýsingar um líf stefnda og verða sinnaskipti hennar því ekki rakin til nýrra upplýsinga um atvik úr lífi stefnda sem hann hafi áður leynt hana. Stefnanda hefur ekki tekist að sýna fram á að stefndi hafi vísvitandi villt á sér heimildir eða leynt atvikum úr lífi sínu er fælt hefðu stefnanda frá hjúskapnum ef vitað hefði. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að ógilda megi hjúskapinn á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga.

                Sú lýsing í stefnu að stefnandi hafi verið neydd til vígslunnar af stefnda, eftir atvikum með fulltingi félaga hans, styðst við það eitt að líta verði svo á að sú hafi verið raunin, að teknu tilliti til andlegs atgervis hennar og aðstæðna allra. Að virtu því sem upplýst þykir um hug stefnanda til stefnda á sínum tíma, og vilja hennar til þess að giftast honum þá, verður ekki fallist á að hún hafi verið neydd til vígslunnar, þannig að ógilda megi hjúskap aðila á grundvelli 4. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga.

                Af framburði stefnanda er ljóst að það er nú einlægur vilji hennar að vera ekki lengur í hjúskap með stefnda. Stefnandi krefst ógildingar hjúskaparins, en hún hefur ekki sótt um hjónaskilnað. Samkvæmt 29. gr. hjúskaparlaga hefur ógilding hjúskapar sömu áhrif að lögum og lögskilnaður nema lög greini annað. Lagaskilyrði til hjónaskilnaðar og til ógildingar hjúskapar eru þó ekki hin sömu og ekki er það því alfarið á færi stefnanda að velja hér um leiðir. Þegar ákvæði um tvíkvæni eða ólögmætan skyldleika hjóna eiga ekki við, en svo stendur á í máli þessu, verður hjúskapur ekki ógiltur með dómi nema framangreind lagaskilyrði 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga til ógildingar séu fyrir hendi. Stefnanda hefur að mati dómsins ekki tekist að sýna fram á að svo sé. Verður því að hafna kröfu stefnanda um ógildingu hjúskapar hennar og stefnda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

                Stefnandi hefur leyfi til gjafsóknar. Samkvæmt því greiðist allur gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þóris Júlíussonar hdl., sem ákveðin er 850.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, B, er sýkn af kröfu stefnanda, A, um ógildingu hjúskapar þeirra, sem stofnað var til þann [...] 2016.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þóris Júlíussonar hdl., 850.000 krónur.