Print

Mál nr. 656/2017

Aðaleign ehf. (Jón Einar Jakobsson lögmaður)
gegn
Orkuveitu Reykjavíkur - vatns- og fráveitu sf. (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
Lykilorð
  • Þjónustugjald
  • Nauðungarsala
  • Skaðabætur
Reifun

O sf. krafðist nauðungarsölu á sex eignarhlutum A ehf. í nánar tilgreindri húseign vegna ógreiddra vatns- og fráveitugjalda. Voru nauðungarsölubeiðnir O sf. teknar fyrir hjá sýslumanni en afturkallaðar áður en til byrjunar uppboðs kom þar sem A ehf. hafði greitt kröfur samkvæmt þeim. Í málinu krafðist A ehf. skaðabóta úr hendi O sf. á grundvelli 86. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Byggði krafa hans aðallega á því að í lögum nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga og 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna hefði ekki falist fullnægjandi lagastoð fyrir álagningu gjaldanna. Talið var að viðhlítandi grundvöllur hefði verið lagður fyrir heimild O sf. til að leggja á A ehf. vatns- og fráveitugjald og að gjöldin skyldu ákveðin á grundvelli fastrar krónutölu annars vegar eða breytilegs gjalds á hvern fermetra hins vegar. Af því og aðstæðum að öðru leyti leiddi jafnframt að leggja mætti til grundvallar að forsendur gjaldskráa O sf. fyrir töku gjaldanna hefðu verið nægilega traustar og samrýmanlegar grundvallarreglum og sjónarmiðum um fjárhæð þjónustugjalds. Voru því hvorki talin uppfyllt skilyrði bótaskyldu samkvæmt 86. gr. laga nr. 90/1991 vegna nauðungarsölubeiðna O sf. né skyldu til endurgreiðslu oftekinna gjalda samkvæmt lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Var O sf. því sýknað af kröfu A ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson landsréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 3. ágúst 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 20. september 2017 og áfrýjaði hann öðru sinni 16. október sama ár. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.584.323 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 25. júní 2015 til 19. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi er fjárkrafa áfrýjanda í málinu reist á því að hann eigi rétt til bóta úr hendi stefnda á grundvelli 86. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í ákvæðinu er mælt fyrir um sérreglur um bótaskyldu vegna nauðungarsölu. Í því felst annars vegar að gerðarbeiðandi ber án sakar ábyrgð á því að fullnægt sé lagaskilyrðum fyrir nauðungarsölu, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Hins vegar ber hann ábyrgð eftir almennum skaðabótareglum vegna mistaka við framkvæmd nauðungarsölunnar, sem gætu leitt til ógildingar hennar, sbr. 2. mgr. hennar. Þá er enn fremur til stuðnings kröfugerð vísað til laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sem eðli máls samkvæmt getur eingöngu náð til þess hluta dómkröfunnar sem lýtur að þeim gjöldum sem áfrýjandi telur sig hafa staðið skil á umfram skyldu.

Krafa áfrýjanda snýr að beiðnum stefnda 4. júní 2015 um nauðungarsölu á sex af tíu eignarhlutum áfrýjanda í húsinu nr. 9 við Aðalstræti í Reykjavík vegna ógreiddra vatns- og fráveitugjalda 2014. Studdist álagning gjaldanna við 6. gr. laga nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga annars vegar og 14. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna hins vegar og gjaldskrár sem settar höfðu verið á grundvelli laganna, en að auki studdist gjaldskrá vatnsveitu við reglugerð nr. 401/2005 um vatnsveitur sveitarfélaga og gjaldskrá fráveitu við reglugerð nr. 982/2010 um fráveitur sveitarfélaga. Voru beiðnirnar teknar fyrir hjá sýslumanni 29. október 2015, en stefndi afturkallaði þær allar 6. nóvember sama ár og áður en til byrjunar uppboðs kom, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1991, þar sem kröfur samkvæmt þeim höfðu verið greiddar daginn áður. Var greiðsla innt af hendi með fyrirvara um réttmæti gjaldtökunnar.

II

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2004 fylgir vatnsgjaldi lögveðréttur í viðkomandi fasteign í tvö ár frá gjalddaga. Hið sama á við um fráveitugjald, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 9/2009. Er ekki um það deilt að gjöld þessi falli undir 5. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 og þar með að krefjast megi nauðungarsölu á fasteign til fullnustu á þeim án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að nauðungarsölubeiðnir stefnda hafi fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt 11. gr. laga nr. 90/1991 og að tilskilin gögn hafi fylgt þeim. Eru því ekki efni til að fallast á það með áfrýjanda að sýslumanni hafi borið að hafna þeim þegar í stað og endursenda stefnda þær, sbr. 2. mgr. 13. gr. sömu laga. Þá þykir mega ganga út frá því að miðað við þær forsendur sem lágu til grundvallar álagningu gjaldanna hafi skuld áfrýjanda við stefnda að því er tekur til höfuðstóls þeirra numið þeim fjárhæðum sem tilgreindar voru í beiðnunum, en hluti álagðra gjalda hafði þá verið greiddur.

Samkvæmt framansögðu eru ekki fyrir hendi atvik eða aðstæður sem leitt geta til bótaskyldu stefnda óháð álitaefnum um lögmæti þeirrar gjaldaálagningar sem leysa þarf úr í málinu.

III

Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi er krafa áfrýjanda aðallega byggð á því að í lögum nr. 32/2004 og 9/2009 hafi ekki falist fullnægjandi lagastoð fyrir þeirri álagningu vatns- og fráveitugjalds sem um er deilt í málinu. Gjöld þessi séu þjónustugjöld sem verði ekki lögð á nema gjaldandi geti notið þjónustu sem svari til gjaldtökunnar. Er nánar tiltekið vísað til þess hvað þetta varðar að þar sem þeir eignarhlutar í húsinu, sem málið tekur til, séu ekki beintengdir vatnsveitu og fráveitu stefnda verði áfrýjanda ekki gert að greiða af þeim vatns- og fráveitugjald. Þá hafi stefndi í öllu falli ekki sýnt fram á að gjaldtakan hafi fullnægt þeim kröfum sem gerðar séu lögum samkvæmt til ákvörðunar þjónustugjalda í samræmi við þá sérgreindu þjónustu sem innt sé af hendi og kostnað er almennt leiði af henni.   

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2004, eins og ákvæðið hljóðaði á þeim tíma sem hér skiptir máli, var heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatns gátu notið. Gat það numið allt að 0,5 hundraðshlutum af fasteignamati. Þá sagði í 2. mgr. sömu greinar að í gjaldskrá væri heimilt að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna og enn fremur að heimilt væri að miða vatnsgjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar og/eða notkunar samkvæmt mæli. Samkvæmt 10. gr. laganna skyldi stjórn vatnsveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið yrði nánar á um greiðslu og innheimtu gjaldsins og miðað við að það ásamt öðrum tekjum vatnsveitu stæði undir rekstri hennar, þar með töldum fjármagnskostnaði, og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Auk vatnsgjalds, sem hér er eingöngu til umfjöllunar, innheimtir stefndi sérstakt notkunargjald sem miðast við notkun mælda í rúmmetrum.

Í þágildandi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 var á árinu 2014 mælt fyrir um heimild til innheimtu fráveitugjalds af öllum fasteignum sem tengdar væru fráveitu sveitarfélags eða myndu tengjast henni. Sagði í 2. mgr. sömu greinar að þar sem frárennsli væri veitt frá atvinnustarfsemi eða vegna annars en venjulegra heimilisnota í fráveitukerfi sveitarfélaga væri heimilt að innheimta gjald vegna losunar miðað við innrennsli vatns samkvæmt mæli. Þá var í 15. gr. laganna mælt fyrir um að stjórn fráveitu skyldi semja gjaldskrá sem tæki mið af því að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu stæði undir rekstri hennar, þar með töldum fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Þar sagði enn fremur að heimilt væri að ákveða hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna, svo og að miða mætti gjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar. Þá sagði um gjaldskrá fráveitu í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 982/2010 að heimilt væri að miða fráveitugjald við fast gjald, annað hvort fasta krónutölu eða sem hlutfall af fasteignamati, auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar.   

Það mun hafa verið skilningur stefnda að leggja mætti vatnsgjald á þegar gjaldandi gæti tengt eign sína við vatnasveituna án tillits til þess hvort hann gerði það. Með dómum Hæstaréttar 28. nóvember 2013 í málum nr. 396 og 397/2013 var því slegið föstu að þar sem um þjónustugjald væri að ræða yrði það ekki lagt á nema gjaldandi fengi þá þjónustu sem svaraði til gjaldtökunnar. Samkvæmt því væri óheimilt að heimta vatnsgjald áður en búið væri að tengja eign við vatnsveitu. Með sama hætti var það niðurstaða Hæstaréttar í dómi 6. febrúar 2014 í máli nr. 613/2013 að ekki stæðu heimildir til álagningar fráveitugjalds nema gjaldandi fengi þá þjónustu sem svaraði til gjaldtökunnar og því væri óheimilt að heimta það vegna þeirra hluta húsa á tiltekinni fasteign sem ekki væru tengd fráveitukerfi viðkomandi sveitarfélags.

Húsið nr. 9 við Aðalstræti í Reykjavík hefur um áratugaskeið verið tengt við vatns- og fráveitu stefnda. Eignarhlutar áfrýjanda eru á 2. hæð hússins og er óumdeilt að þeir eru hvorki beintengdir við vatnsinntak hússins né fráveitukerfi þess. Á hinn bóginn liggur fyrir að í sameignarrými á hæðinni er salerni og þrifvaskur sem áfrýjandi hefur aðgang að.

Um álagningu vatnsgjalds til stefnda vegna ársins 2014 fór eftir gjaldskrá nr. 1172/2013 sem birt var 27. desember 2013. Samkvæmt henni skiptist gjaldið í fastagjald að fjárhæð 5.490,51 krónur og álag sem nam 213,05 krónum á hvern fermetra miðað við hverja matseiningu samkvæmt fasteignamati.  Um álagningu fráveitugjalds fór eftir gjaldskrá nr. 1156/2013 sem birt var 23. desember 2013. Samkvæmt henni nam fast gjald á matseiningu 9.262,39 krónum og það sem þar er nefnt breytilegt gjald 357,52 krónum á hvern fermetra hennar. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að álagning vegna umræddra eignarhluta áfrýjanda hafi verið í samræmi við gjaldskrárnar.

Heimild til töku þjónustugjalds verður almennt aðeins nýtt í því skyni að hið innheimta gjald svari til hinnar veittu þjónustu. Í réttarframkvæmd hefur verið viðurkennd sú undantekning frá þessari almennu reglu að þjónustugjaldi megi á grundvelli lagafyrirmæla jafna með tilteknum hlutlægum aðferðum á gjaldendur þess. Á það við um þá gjaldtöku stefnda sem hér er til umfjöllunar.   

Að virtu því sem að framan greinir verður fallist á það með stefnda að viðhlítandi grundvöllur hafi verið lagður fyrir heimild hans til að leggja á áfrýjanda vatns- og fráveitugjald fyrir árið 2014 að því er tekur til umræddra eignarhluta hans í húseigninni Aðalstræti 9 í Reykjavík og að gjöldin skyldu ákveðin á grundvelli fastrar krónutölu annars vegar og álags eða breytilegs gjalds á hvern fermetra eignar hins vegar. Í ljósi þessa og aðstæðna að öðru leyti verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins að forsendur framangreindra gjaldskráa stefnda fyrir töku umræddra gjalda hafi verið nægjanlega traustar og samkvæmt því samrýmanlegar grundvallarreglum og sjónarmiðum um fjárhæð þjónustugjalds.     

            Samkvæmt öllu framansögðu eru hvorki uppfyllt skilyrði bótaskyldu samkvæmt 86. gr. laga nr. 90/1991 vegna nauðungarsölubeiðna stefnda né skyldu til endurgreiðslu oftekinna gjalda samkvæmt lögum nr. 29/1995. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

            Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Aðaleign ehf., greiði stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur - vatns- og fráveitu sf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2017

                Mál þetta höfðaði Aðaleign ehf., Aðalstræti 9, Reykjavík, með stefnu birtri 4. maí 2016 á hendur Orkuveitu Reykjavíkur – vatns- og fráveitu sf., Bæjarhálsi 1, Reykjavík.  Málið var dómtekið 11. apríl sl., en endurupptekið og dómtekið á ný 29. maí. 

                Stefnandi krefst greiðslu bóta að fjárhæð 1.584.323 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.000.000 króna frá 25. júní 2015 til 5. nóvember sama ár og af 1.584.323 krónum frá þeim degi til 5. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.584.323 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Stefnandi krefst einnig máls­kostnaðar að mati dómsins. 

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. 

                Stefndi krafðist frávísunar málsins í greinargerð.  Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 29. september 2016. 

                Stefnandi á sex eignarhluta á 2. hæð í húsinu að Aðalstræti 9 í Reykjavík.  Fasteignanúmer þeirra eru 229-6400, 229-6784, 229-6402, 229-6401, 229-6399 og 229-6396.  Ágreiningur málsins varðar álagningu og innheimtu stefnda á vatns- og fráveitugjaldi af þessum eignarhlutum árin 2013 og 2014. 

                Þann 25. júní 2015 krafðist stefndi nauðungarsölu á þessum eignarhlutum til lúkningar álögðum gjöldum ársins 2014.  Beiðnirnar voru teknar fyrir 29. október.  Mætti þá stefnandi og mótmælti kröfum stefnda.  Sýslumaður hunsaði mótmæli stefnanda og stefndi hafnaði því að málinu yrði skotið til héraðsdóms, samkvæmt 4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991. 

                Stefnandi greiddi kröfur stefnda með fyrirvara þann 5. nóvember 2015 og stefndi afturkallaði beiðnir sínar degi síðar. 

                Við þingfestingu máls þessa var lögð fram aðilaskýrsla forsvarsmanns stefnanda.  Þar er fyrst vikið að því að engin haldbær gögn hafi fylgt beiðnum stefnda um nauðungarsölu.  Kveðst hann draga mjög í efa að þetta sé í samræmi við fram­kvæmd allt frá árinu 2011.  Hann hafi eftir margítrekaðar kvartanir loks fengið að ganga á fund starfsmanna stefnda í desember 2014.  Hann hafi þar krafist niður­fellingar gjalda fyrir árin 2013 og 2014, til vara að vatnsgjald yrði miðað við fermetra­tölu húsnæðis, en ekki innheimt hámarksgjald eins og verið hefði.  Hafi hann lagt fram töflu sem sýndi lækkun vegna þessara tveggja ára.  Þann 16. desember 2014 hafi borist tölvupóstur frá stefnda þar sem hann hafi reiknað að nýju álagningu og lækkað, en þar hafi verið miðað við fermetratölu.  Enginn fyrirvari hafi verið gerður í skeytinu um árið 2013, ekki hafi verið tekið fram að lækkunin næði ekki til þess árs.  Það hafi fyrst verið við fyrirtöku nauðungarsölubeiðninnar sem stefndi hafi fullyrt að gjöld ársins 2013 hefðu ekki verið leiðrétt. 

                Þá segir í aðilaskýrslunni að stefndi hafi tekið upp á því að hækka fráveitu­gjald, sem hafði verið lagt á og kveðst stefnandi hafa greitt með fyrirvara.  Þessi aftur­virka álagning sé með öllu óheimil.  Loks segir að vatns- og fráveitugjald sé ekki ákveðið á málefnalegum grundvelli eins og krefjast verði, en þetta séu þjónustugjöld.  Miða bæri gjaldið við nýtingu, en fermetrafjöldi gefi enga vísbendingu um nýtingu vatns eða fráveitu.  Brotið sé gegn jafnræðisreglum með því að leggja sama gjald á allt atvinnuhúsnæði. 

                Stefnandi lagði fram í dóminum skjal með fyrirsögninni Tafla, sem rædd var og lögð til grundvallar á fundi aðila í desember 2014.  Þar er í töflum sundurliðuð álagning vatns- og fráveitugjalds á hvern eignarhluta árin 2013 og 2014.  Samtals námu þessi gjöld 324.712 krónum árið 2013 og 338.412 krónum árið 2014.  Í út­reikningi stefnanda er hins vegar talið að gjöldin hefðu átt að nema samtals 110.314 krónum árið 2013 og 113.945 krónum árið 2014. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Í stefnu segir að málið grundvallist á 1.–3. mgr. 86. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 (hér eftir skammst. nsl.)  Ekki hafi verið skilyrði fyrir stefnda til að krefjast nauðungarsölu og sé hann því bótaskyldur samkvæmt 1. mgr. 86. gr.  Til þess að takmarka tjón sitt hafi stefnandi greitt kröfur stefnda með fyrirvara.  Þá hafi stefndi afturkallað beiðnir sínar og nauðungarsölum þar með verið lokið, sbr. 5. tl. 2. mgr. 15. gr. nsl. 

                Stefnandi kveðst sækja bætur vegna allra beiðnanna í sama málinu, en málin fyrir sýslumanni hafi verið samkynja og af sömu rót runnin.  Vísar hann til 1. mgr. 27. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og 4. mgr. 84. gr. nsl. 

                Stefnandi byggir á því að sýslumanni hafi borið að endursenda nauðungarsölu­beiðnir stefnda þar sem engin gögn hafi fylgt þeim, engin skilríki um grundvöll krafnanna.  Í beiðnum hafi einungis komið fram óskiljanlegar fullyrðingar stefnda.  Ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 3. mgr. 11. gr. nsl.  Ekki hafi verið bætt úr þessum ágalla við fyrirtöku beiðnanna þann 29. október 2015 og með því hafi verið brotið gegn fyrirmælum 21. og 22. gr. nsl.  Þegar af þeirri ástæðu beri stefnda að bæta tjón stefnanda. 

                Stefnandi byggir á því að kröfur stefnda hafi þegar verið greiddar þegar beiðnir voru sendar.  Því hafi ekki verið heimilt að krefjast nauðungarsölu.  Stefndi hafi á fundi í janúar 2015 fallist á að lækka vatnsgjald áranna 2013 og 2014.  Hann hafi fallist á að miða við fermetrafjölda í stað hlutfalls af fasteignamati.  Stefnandi hafi samt ekki fallið frá kröfu um niðurfellingu gjaldsins.  Miðað við meðalhófsreglu hafi stefnda borið að láta fermetrafjölda ráða álagningu frá upphafi, enda hafi upplýsingar um fermetrafjölda legið fyrir hjá kröfueiganda, Reykjavíkurborg, og einnig á þinglýstu skjali.  Stefnandi kveðst frá upphafi hafa greitt álögð gjöld með fyrirvara og því hafi hann eignast kröfu á hendur stefnda.  Hann hafi greitt gjöldin í sex mánuði á árinu 2014 og þannig hafi gjöld ársins 2014 greiðst að fullu.  Telur stefnandi að hann hafi sýnt fram á þetta með skjölum við fyrirtökuna hjá sýslumanni, en ekki hafi verið tekið neitt tillit til þeirra.  Hafi þó verið augljóst af framlögðum gögnum að hann hafi verið búinn að borga álögð gjöld að fullu og meira til, jafnvel þótt eingöngu væri litið til greiðslna á árinu 2014. 

                Þá byggir stefnandi á því að kröfur stefnanda hafi verið ólögmætar frá upphafi.  Hann hafi ekki notið þeirrar þjónustu sem greitt sé fyrir með þessum gjöldum.  Eignarhlutar þessir séu ekki tengdir við vatns- eða fráveitu.  Gjöldin séu þjónustugjöld sem Reykjavíkurborg feli stefnda að innheimta.  Ekki sé hægt að leggja þjónustugjald á nema notið sé þjónustu sem svari til gjaldanna.  Umræddir eignarhlutar hafi allir sér­stakt fasteignarnúmer hjá Fasteignamati ríkisins og í sameignarsamningi.  Þar sé hvorki tengd vatns- né fráveita.  Sameignarrými á hæðinni séu tengd.  Væri gjaldið réttmætt bæri að leggja það á alla sameigendur þessara rýma, þ.e. alla eigendur þriggja neðstu hæðanna í húsinu.  Þar sem stefndi hafi lagt gjöld á sameignarhlutana sé honum óheimilt að leggja frekari gjöld á eignarhluta þá sem ekki séu tengdir veitunum. 

                Í aðilaskýrslu sinni ber stefnandi fram þá málsástæðu að gjaldskrá stefnda byggist ekki á málefnalegum grunni.  Reikna beri gjaldið miðað við nýtingu og að fráleitt sé að fermetratala veiti vísbendingu um notkunina.  Atvinnuhúsnæði sé lagt að jöfnu, hvort sem um sé að ræða skrifstofur, sláturhús, fiskvinnsluhús eða sundhallir.  Feli þetta í sér brot gegn jafnræðisreglu. 

                Stefnandi bendir á að álögð gjöld hafi hækkað verulega á árinu 2013.  Þá hafi verið tekið svokallað hámarksgjald af hverjum eignarhluta, sem hafi miðað við 0,5% af fasteignamati.  Svo hátt gjald geti ekki talist sanngjarnt eða í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé.  Mótmælir stefnandi því að unnt sé að skýra hugtakið atvinnu­starfsemi í 7. gr. laga nr. 32/2004, um vatnsveitur, og 14. gr. laga nr. 9/2009, um fráveitugjöld, svo að það nái til starfsemi sem ekki nýti vatn.  Í umræddum eignar­hlutum séu einungis skrifstofur sem nýti ekki vatn. 

                Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki sannað að skilyrði þjónustugjalda hafi verið uppfyllt við álagninguna, svo sem hver kostnaður hafi hlotist af þjónustu við stefnanda. 

                Kröfufjárhæðin skiptist í þrennt.  Í fyrsta lagi er krafist 1.000.000 króna í bætur fyrir miska, misgerð og lánstraustsspjöll, í öðru lagi 396.198 króna vegna oftekinna gjalda og í þriðja og síðasta lagi 188.125 króna vegna lögmannsþóknunar við meðferð máls hjá sýslumanni. 

                Krafa um bætur fyrir miska, misgerð og lánstraustsspjöll er byggð á því að í aðgerðum stefnda hafi falist ólögmæt meingerð og þær hafi verið til þess fallnar að valda sér álits- og lánstraustsspjöllum, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Auglýst hafi verið í Lögbirtingablaði og hjá Creditinfo að eignir stefnanda væru til nauðungarsölumeðferðar vegna vanskila. 

                Krafa um endurgreiðslu oftekinna gjalda er miðuð við þá fjárhæð sem stefnandi greiddi til að fá nauðungarsölubeiðnir stefnda afturkallaðar. 

                Kröfu um greiðslu lögmannsþóknunar við málsmeðferð hjá sýslumanni byggir stefnandi á því að honum hafi verið nauðsynlegt að leita aðstoðar lögmanns til að verjast hjá sýslumanni. 

                Auk áðurgreindra réttarheimilda vísar stefnandi til stjórnsýslulaga, einkum reglna laganna um jafnræði og meðalhóf.  Þá byggir hann á lögmætisreglunni, stjórnvöld geti ekki íþyngt aðilum án heimildar í settum lögum. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi mótmælir því að einhverjir formgallar hafi verið á nauðungarsölu­beiðnum sínum.  Með beiðnunum hafi verið lagt fram stöðuyfirlit sem byggi á álagningu sem stefnanda hafi verið kynnt í byrjun árs 2014.  Sýslumanni hafi ekki borið að endursenda beiðnir þessar, þær hafi verið í samræmi við þá framkvæmd sem hafi tíðkast allt frá 2011 þegar stefndi tók við innheimtu þessara gjalda. 

                Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið búinn að borga álögð gjöld þegar nauðungarsölu var krafist.  Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi eignast inneign vegna leiðréttingar gjaldanna sem hafi verið ákveðin á fundi í desember 2014.  Stefnandi hafi fengið leiðréttingu vegna gjalda ársins 2014 vegna upplýsinga um stærð eignarhlutanna.  Lækkunin hafi numið samtals 33.992 krónum.  Hafi hún verið færð inn á hvern eignarhluta í réttum hlutföllum sem innborgun.  Ekki hafi verið gerð nein leiðrétting vegna ársins 2013 og ekki um það rætt.  Þar sem gjöldin hafi verið ógreidd hafi stefnda verið rétt að krefjast nauðungarsölu og geti stefnandi því ekki krafist bóta. 

                Stefndi byggir á því að álagning vatns- og fráveitugjalda á umrædda eignarhluta sé réttmæt og lögmæt.  Hann vísar til laga nr. 32/2004, um vatnsveitur sveitarfélaga, og laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna.  Reykjavíkur­borg hafi með heimild í lögunum falið stefnda að annast vatns- og fráveitu í borginni, sbr. 4. gr. laga nr. 32/2004 og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, sbr. lög nr. 136/2013, um Orkuveitu Reykjavíkur. 

                Stefndi vísar til 6. gr. laga nr. 32/2004, áður en þeim var breytt með 2. gr. laga nr. 21/2016.  Heimilt hafi verið að leggja vatnsgjald á allar fasteignir „sem vatns geta notið“:  Sams konar heimild hafi verið í 14. gr. laga nr. 9/2009, áður en þeim var breytt, einnig með 2. gr. laga nr. 21/2016. 

                Stefndi bendir á að gjöldin séu lögð á fasteign í heild, ekki á einstaka hluta hennar.  Gjald sé lagt á íbúðarhús í heild, þótt vatn eða frárennsli sé ekki tengt nema í hluta hússins.  Aðalstræti 9 hafi verið reist 1970 og skiptist í 43 matshluta.  Af þeim séu 10 í eigu stefnanda.  Fasteignin sé tengd bæði við vatns- og fráveitu.  Því séu lögð gjöld á fasteignina alla, heildargjaldinu sé skipt á milli hvers eignarhluta í samræmi við eignarhlutföll. 

                Stefndi mótmælir bótakröfum stefnanda.  Segir hann að ekki sé sýnt fram á að skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga sé fullnægt.  Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir miska. 

                Stefndi segir að meginreglan sé sú að aðili stjórnsýslumáls verði sjálfur að bera sinn málskostnað.  Hann eigi ekki kröfu til þess að fá hann endurgreiddan frá stjórn­völdum nema sérstök lagaheimild standi til þess.  Slík heimild sé hér ekki til staðar.  Þá reki fyrirsvarsmaður stefnanda málið sem lögmaður.  Óeðlilegt sé að hann taki að sér málflutning gegn fullri greiðslu í þessu tilviki.  Eigi þetta einnig við um máls­kostnaðarkröfu stefnanda hér fyrir dómi. 

                Varakröfu um lækkun stefnukrafna byggir stefndi á því að stefnandi hefði getað takmarkað tjón sitt með því að leysa úr ágreiningnum á fyrri stigum.  Hann hefði getað skotið máli sínu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og innanríkis­ráðuneytisins.  Enn fremur hefði hann getað skotið ákvörðun sýslumanns, um að halda áfram nauðungarsölumeðferð, til héraðsdóms. 

                Loks telur stefndi að miskabótakrafa stefnanda sé óhófleg. 

                Niðurstaða

                Kjarni ágreinings aðila er réttmæti álagningar vatns- og fráveitugjalds á eignar­hluta stefnanda í húseigninni Aðalstræti 9.  Í eignarhlutum þessum eru hvorki vatns­tengingar né frárennsli.  Slíkar tengingar eru hins vegar í sameignarrými á sömu hæð.  Stefnandi kýs að færa ágreining þennan í form skaðabótamáls samkvæmt 86. gr. laga nr. 20/1991, um nauðungarsölu.  Skilyrði bótaábyrgðar samkvæmt 1. mgr. 86. gr. er að skilyrði hafi skort til að krefjast nauðungarsölu, en stefnandi byggir gagngert á því að stefndi hafi ekki haft slíka heimild.  Bótaskylda samkvæmt 2. mgr. er útilokuð þar sem nauðungarsalan fór ekki fram. 

                Málið varðar álagningu áranna 2013 og 2014.  Tilvísanir stefnanda til fyrri ára eru óákveðnar og ekki studdar neinum gögnum.  Er ekki unnt að líta til þeirra að neinu leyti.  Þá er málatilbúnaður stefnanda varðandi álagningu ársins 2013 vanreifaður.  Hann hefur ekki með haldbærum gögnum sýnt fram á hver gjöld hefði með réttu átt að leggja á eignarhluta hans á því ári.  Hann hefur ekki sannað að stefndi hafi fallist á að endurreikna gjöld ársins 2013 á grundvelli upplýsinga um fermetratölu eignar­hlutanna.  Er ekki unnt að fjalla frekar um gjöld ársins 2013, nema í tengslum við þá málsástæðu að álagning á eignarhluta stefnanda hafi verið með öllu óheimil. 

                Um vatnsgjald gilda lög nr. 32/2004.  Á árinu 2014 gilti sú regla samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna að heimta mátti vatnsgjald af öllum fasteignum sem tengja mætti vatnsveitu.  Óumdeilt er að vatn er tengt í húsið Aðalstræti 9. 

                Um fráveitugjald gilda lög nr. 9/2009.  Á árinu 2014 gilti sú regla samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna að heimta mætti gjaldið af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags.  Óumdeilt er að húseignin Aðalstræti 9 er tengd við fráveitukerfi borgarinnar. 

                Heimilt er að leggja bæði gjöldin á fasteignir í heild.  Ekki stoðar fasteignar­eigendum að skipta eignum sínum svo að einungis sameignarhlutar séu tengdir við vatns- og fráveitu, heimilt er að leggja gjald á alla eignarhluta fasteignar sem er tengd vatns- og fráveitu.  Þau dómafordæmi sem stefnandi vísar til (H 396, 397 og 613/2013) fjalla einungis um aðskilda hluta fasteigna sem ekki voru tengdir við vatns- eða fráveitukerfi sveitarfélagsins. 

                Stefnda var heimilt að leggja á gjöld sem hlutfall af fasteignamati, en það stóð stefnanda nær að koma upplýsingum til stefnda um fermetratölu eignarhluta sinna og æskja leiðréttingar í samræmi við það.  Það gerði hann á fundi aðila í desember 2014 og var álagning gjalda fyrir árið 2014 lækkuð í kjölfarið.  Stefnanda hefur, eins og áður segir, ekki tekist sönnun þess að stefndi hafi samþykkt að breyta gjöldum fyrir árið 2013 á fundi aðila.  Skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt stefndi hafi ekki skráð sérstaka fundargerð.  Hefur stefnandi því ekki sannað að hann hafi verið orðinn skuld­laus við stefnda þegar nauðungarsölu var krafist. 

                Stefnandi byggir á því að fráveitugjald hafi verið lagt á eignarhluta hans með afturvirkum hætti.  Þessi málsástæða var loks skýrð þegar málið var endurupptekið og kom þá fram að hann vísar til þess að þegar útreikningi gjaldanna var breytt frá við­miðun við fasteignamat í hlutfall af stærð eignarhluta í rúmmetrum, flokkaðist gjaldið í tvennt, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, eins og hún hljóðaði á árinu 2013.  Þannig var annað hvort miðað við fasteignamat, eða innheimt fast gjald og álag vegna stærðar.  Stefnandi hefur ekki hnekkt því að breytt álagning gjaldsins hafi verið rétt­mæt, en gjaldið var endurskoðað að kröfu hans sjálfs. 

                Stefnandi byggir á því að stefnda beri að sýna fram á að gjöldin séu ákveðin í samræmi við kostnað af því að veita þjónustuna.  Hann hefur hins vegar ekki reynt að benda á nein atriði sem bent gætu til þess að talsverður hagnaður sé af rekstri þessarar þjónustu.  Til að mynda er ósannað að arður hafi verið greiddur til eigenda stefnda eða að fyrirtækið hafi verið rekið með verulegum hagnaði.  Verður að hafna þessari máls­ástæðu stefnanda.  Þá verður ekki fallist á að það sé ómálefnalegt að miða við stærð húsnæðis í fermetrum þegar gjaldið er ákveðið. 

                Ekki verður fallist á að nauðungarsölubeiðnir stefnda hafi verið ófullnægjandi.  Stefndi fullyrðir að hann hafi sent slíkar beiðnir í sama formi og með sömu fylgiskjölum frá árinu 2011.  Dómari málsins þekkir af eigin reynslu að fyrir mörgum árum þegar Gjaldheimtan í Reykjavík annaðist innheimtu fasteignagjalda, þ.m.t. vatnsgjalds, voru nauðungarsölubeiðnir vegna gjaldanna í svipuðu formi og nú tíðkast.  Grundvöllur innheimtunnar er skýrður í beiðnunum og gjaldendum sem telja sig órétti beitta ekkert að vanbúnaði að hafa uppi varnir. 

                Í aðilaskýrslu sinni ber stefnandi fram þá málsástæðu að gjaldskrá stefnda byggist ekki á málefnalegum grunni.  Reikna beri gjaldið miðað við nýtingu og að fráleitt sé að fermetratala veiti vísbendingu um notkunina.  Atvinnuhúsnæði sé lagt að jöfnu, hvort sem um sé að ræða skrifstofur, sláturhús, fiskvinnsluhús eða sundhallir.  Feli þetta í sér brot gegn jafnræðisreglu.  Þessi fullyrðing var ekki studd neinum gögnum, en lögmaður stefnda mótmælti henni, bæði sem rangri og of seint fram kominni.  Þessi málsástæða kom ekki fram í stefnu, en þar á stefnandi að greina allar málsástæður sem hann byggir málsókn sína á, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Þá hefur stefnandi ekki lagt fram nein gögn sem styðja þessa fullyrðingu hans.  Er ekki unnt að fjalla um þessa málsástæðu þar sem hún er með öllu óútskýrð. 

                Samkvæmt framansögðu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi verið skuldlaus þegar nauðungarsölu var krafist, eða að líta bæri svo á vegna þess að inn­heimta gjaldanna hafi verið óheimil.  Verður því að sýkna stefnda af kröfu um skaða­bætur sem nemur endurgreiðslu gjaldanna og kostnaði af málsvörnum hjá sýslumanni.  Þá voru allar aðgerðir stefnda lögmætar og þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til greiðslu miskabóta. 

                Þrátt fyrir skýra niðurstöðu er rétt að málskostnaður falli niður.  Er þá einnig litið til þess að frávísunarkröfu stefnda var hrundið. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Mál þetta var eins og áður segir dómtekið 11. apríl sl.  Dómari ákvað að taka málið upp á ný og leita nánari skýringa á tveimur atriðum, en endurupptaka málsins náðist ekki fyrr en 29. maí.  Töldu lögmenn ekki þörf á að málið yrði flutt í heild á ný. 

Dómsorð

                Stefndi, Orkuveita Reykjavíkur - vatns- og fráveita sf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Aðaleignar ehf. 

                Málskostnaður fellur niður.