Print

Mál nr. 33/2017

Hringiðan ehf./Vortex Inc. (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður, Agnar Þór Guðmundsson lögmaður 4. prófmál)
gegn
STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (Tómas Jónsson lögmaður, Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður 4. prófmál)
og gagnsök
Lykilorð
  • Höfundarréttur
  • Lögbann
Reifun

S krafðist staðfestingar á lögbanni sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði við því að H ehf./V Inc. veitti viðskiptamönnum sínum í té aðgang að nánar tilgreindum vefsíðum sökum þess að þar væri unnt að nýta án endurgjalds efni, sem háð væri höfundarétti þeim sem S, sem samtök rétthafa eftir ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, kæmu fram fyrir. Þá krafðist S þess að viðurkennt yrði að H ehf./V Inc. væri óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að umræddum vefsíðum. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að S hefði sýnt nægilega fram á að rétthafar ættu höfundarétt að efni sem miðlað væri í heimildarleysi á framangreindum vefsíðum fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja líkt og H ehf./V Inc. Jafnframt var fallist á að H ehf./V Inc.bæri að hindra slíka háttsemi og því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms um að taka til greina viðurkenningarkröfu S. Þá var með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest niðurstaða hans um að uppfyllt hefðu verið öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 til að leggja lögbann við háttsemi H ehf./V Inc.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2017. Hann krefst þess að „synjað verði staðfestingar lögbanns“, svo og að hann „verði sýknaður af viðurkenningarkröfu“ gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 8. mars 2017. Hann krefst  staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti.

Líta verður svo á að með framangreindri kröfugerð leiti aðaláfrýjandi sýknu af kröfum gagnáfrýjanda ásamt því að krefjast málskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi greinir aðila á um hvort aðaláfrýjanda, sem rekur starfsemi á sviði fjarskipta og veitir viðskiptamönnum sínum svonefnda netþjónustu, sé óheimilt að láta þeim í té aðgang að níu tilgreindum vefsíðum sökum þess að þar sé unnt að nýta án endurgjalds efni, sem háð sé höfundarétti þeirra sem gagnáfrýjandi, sem samtök rétthafa eftir ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, komi fram fyrir. Fallist verður á með héraðsdómi að gagnáfrýjandi hafi sýnt nægilega fram á að rétthafar, sem hann komi fram fyrir, eigi höfundarétt að efni sem miðlað sé í heimildarleysi á vefsíðum þessum, svo og að gagnvart rétthöfunum feli sú miðlun í sér ólögmæta háttsemi sem háð sé aðgangi að vefsíðunum fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja svo sem aðaláfrýjanda. Verður jafnframt fallist á með héraðsdómi að aðaláfrýjanda beri að hindra slíka háttsemi og stoði honum ekki í því sambandi að bera fyrir sig frelsi sitt til atvinnu í skjóli 75. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að taka til greina kröfu gagnáfrýjanda um að viðurkennt verði að aðaláfrýjanda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að umræddum vefsíðum. Um þá kröfu er þess jafnframt að gæta að ekki getur skipt frekar máli hvort aðaláfrýjanda geti reynst nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana til að laga sig að dómi um hana eða hverjar þær yrðu að vera, enda hefur gagnáfrýjandi kosið að gera ekki kröfu um skyldu aðaláfrýjanda til tiltekinna athafna eða bann við tilgreindri háttsemi hans sem fullnægja mætti eftir 11. kafla laga nr. 90/1989 um aðför með aðfarargerð til að leysa af hólmi bráðabirgðavernd á grundvelli lögbanns sem sýslumaður lagði 23. október 2015 við fyrrgreindri háttsemi aðaláfrýjanda.

Í málinu krefst gagnáfrýjandi jafnframt staðfestingar á lögbanni sem að framan getur og lagt var á með stoð í 2. mgr. 59. gr. a. höfundalaga og 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að uppfyllt hafi verið öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 til að leggja lögbann við háttsemi aðaláfrýjanda, sem eftir gögnum málsins var á þeim tíma byrjuð en ekki aðeins yfirvofandi, svo og að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gagnáfrýjanda geti ekki tryggt þá nægilega í skilningi 1. töluliðar 3. mgr. sömu lagagreinar. Ekki hefur aðaláfrýjandi sýnt fram á að hagsmunir sínir af því að fá að halda áfram þeirri háttsemi, sem lögbannið var lagt við, geti talist meiri en hagsmunir þeirra, sem gagnáfrýjandi kemur fram fyrir, af því að fyrirbyggja þá háttsemi, sbr. 2. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, en við mat á því getur ekki ráðið úrslitum hvort stöðvun háttsemi aðaláfrýjanda komi nægilega að haldi til að vernda réttindi gagnáfrýjanda. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms um kröfu gagnáfrýjanda um staðfestingu lögbanns jafnframt staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standa engin efni til annars en að dæma aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, Hringiðan ehf. / Vortex Inc., greiði gagnáfrýjanda, STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. september 2016, var höfðað með réttarstefnu, útgefinni 29. október 2015 og birtri 3. nóvember sama ár, af hálfu Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, Laufásvegi 40 í  Reykjavík á hendur Hringiðunni ehf./Vortex Inc., Skúlagötu 19 í Reykjavík til staðfestingar á lögbanni og viðurkenningardóms.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að þess er krafist að lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 23. október 2015 við því að stefndi veiti viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framan nafn vefsíðnanna eða ekki, verði staðfest með dómi. Jafnframt er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org. Loks krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, þ.m.t. alls útlagðs og áfallins kostnaðar við lögbannsgerð, að mati dómsins.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru að þess er krafist að synjað verði um staðfestingu lögbanns og að stefndi verði sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Aðalmeðferð fór fram í einu lagi í þessu máli og í máli stefnanda gegn Símafélaginu ehf., mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-3784/2015.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi er samtök sem gætir hagsmuna tónskálda og rétthafa flutningsréttar að tónlist og stefndi er fjarskiptafélag. Stefnandi kveður vefsíðurnar sem kröfugerð hans beinist að vera reknar í þeim tilgangi að gera notendum þeirra kleift að gera öðrum notendum aðgengileg eintök af hugverkum. Nú vísi þessar vefsíður allri netumferð á lénin deildu.net og thepiratebay.se. Notendum síðnanna sé gert kleift að hlaða niður á tölvur sínar hugverkum, sem aðrir notendur gera aðgengileg og gera þannig eintök af nefndum verkum. Yfirgnæfandi hluti þeirra hugverka sem gerð séu aðgengileg til eintakagerðar á vefsíðunum séu þar aðgengileg án heimildar eigenda þeirra.

Stefnandi kveður vefsíðuna deildu.net reka svokallað jafningjanet sem sé rekið í þeim tilgangi að gera notendum kleift að deila eða skiptast á efnisskrám með svokallaðri BitTorrent tækni. Í september 2015 hafi vefsíðan verið sú 22. vinsælasta á Íslandi undir heimasíðunni icetracker.org. Á vefsíðunni sé starfræktur leiðarþjónn (e. tracker). Notendur síðunnar geti leitað eftir ákveðnum skrám, sótt sér skráarskiptiforrit og með því forriti geti þeir sótt efnisskrár og/eða deilt þeim. Gríðarlegur fjöldi notenda deili með sér skrám á þennan hátt og hafi sumar skrár verið sóttar yfir mörg þúsund sinnum. Sjá megi hvaða hljóð- og myndefni hafi mest verið deilt innbyrðis meðal notenda vefsvæðisins í október 2014 og hvaða torrent hafi verið vinsælust í lok september 2015. Umbjóðendur stefnanda eigi höfundaréttindi að nánast öllu hljóð- og myndefni sem þar um ræði. Ekki sé kunnugt um hverjir séu ábyrgðaraðilar deildu.net. Stefnandi kveður vefsíðuna hafa notað IP-töluna 104.28.6.73 þann 28. september 2015 og sé sú vefsíða vistuð í Bandaríkjunum. Því sé ekki unnt að fara fram á lögbann við rekstri vefsíðunnar samkvæmt íslenskum lögum. Í reglum vefsíðunnar deildu.net sé notendum gert að deila efni á síðunni, ella sé aðgangi þeirra lokað, þ.e. ef niðurhal er ekki í samræmi við upphal. Notendur vefsíðunnar séu þannig hvattir til að brjóta gegn ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972. 

Stefnandi kveður sambærilegar reglur að finna á piratebay.se., þar sem sé að mestu leyti rekin sams konar starfsemi og á vefsíðunni deildu.net. Vefsíðan sé ein fjölsóttasta vefsíða sinnar tegundar í heiminum og hafi verið ein af mest sóttu vefsíðum á Íslandi árið 2013. Stefnandi kveður vefsíðuna thepiratebay.se notast við nýrri tækni en deildu.net til að gera notendum kleift að deila efni á milli sín, þar sé ekki notast við leiðarþjón, heldur segulhlekki (e. magnetic links), en vefsíðan sé að öðru leyti sambærileg deildu.net. Ekki sé kunnugt um hverjir séu ábyrgðaraðilar thepiratebay.se. IP-tala vefsíðunnar hafi verið 199.27.134.242 þann 28. september 2015 og sé sú vefsíða vistuð í Hollandi. Ekki sé unnt að fara fram á lögbann við rekstri vefsíðunnar samkvæmt íslenskum lögum. Rétthafasamtök um allan heim hafi árangurslaust reynt að láta loka vefsíðunni thepiratebay.se um langa hríð. Eina leiðin sem rétthafasamtökum hafi verið fær til að stemma stigu við þeirri háttsemi sem eigi sér stað fyrir milligöngu vefsíðunnar sé sú að krefjast þess að fjarskiptafyrirtæki í hverju landi um sig hindri gagnaflutning að og frá vefsíðunni.

Stefnandi lagði fram kæru til lögreglu þann 13. febrúar 2012 vegna vefsíðnanna deildu.net og deildu.com. Í kærunni var vísað til nokkurra þeirra verka sem deilt var fyrir milligöngu rekstraraðila vefsíðnanna, auk þess sem líkur voru að því leiddar að vefsíðurnar væru reknar af nánar tilgreindum aðila. Rannsókn lögreglu var hætt 5. nóvember 2015 með vísun til þess að þær upplýsingar sem fram hefðu komið um raunverulega stjórnendur vefsíðunnar deildu.net bentu eindregið til þess að þeir væru erlendir og því yrði mál á hendur þeim ekki rannsakað frekar hér á landi. Var sú ákvörðun lögreglu staðfest af embætti ríkissaksóknara 30. desember s.á.

Í september 2013 krafðist stefnandi, ásamt þremur öðrum rétthafasamtökum, lögbanns gegn fimm fjarskiptafyrirtækjum, þ.e. Símanum hf., Fjarskiptum hf. (Vodafone), 365 miðlum ehf., IP fjarskiptum ehf. (Tal) og Hringdu ehf., og krafðist þess að fjarskiptafyrirtækin lokuðu á tiltekin vefsvæði. Sýslumaður hafnaði öllum lögbannsbeiðnunum og vísaði stefnandi þeim ágreiningi til héraðsdóms, sem upphaflega vísaði öllum málunum frá dómi. Hæstiréttur lagði þá fyrir héraðsdóm að taka kröfur stefnanda í málum gegn Fjarskiptum hf. og Hringdu ehf. til meðferðar. Þann 14. október 2014 kvað fjölskipaður héraðsdómur upp úrskurði um efnishlið þessara mála, í málum Héraðsdóms Reykjavíkur nr. K-8/2013 og K-9/2013, þar sem fallist var á kröfur stefnanda. Talið var að tilgangur, virkni og rekstur vefsíðnanna væri sambærilegur við vefsíðuna torrent.is, en Hæstiréttur hafði í dómi sínum í máli nr. 214/2009 staðfest lögbann við starfrækslu hennar. Aðilar undu úrskurðunum og lagði sýslumaður á lögbann í samræmi við niðurstöður þeirra þann 6. nóvember 2014. Jafnframt var þá lagt samsvarandi lögbann á Símann hf. að beiðni stefnanda. 

Þann 13. nóvember 2014 skoraði stefnandi á stefnda að loka fyrir aðgengi að ákveðnum torrent vefsíðum, þeim sem staðfestingarmál þetta snýst um, en stefndi varð ekki við því og ekki náðist samkomulag um málið í síðari samskiptum aðila. Í september 2015 gerðu fjarskiptafyrirtækin Síminn, Fjarskipti, Nova, 365 og Hringdu samkomulag við rétthafasamtökin STEF (stefnanda), SÍK, SFH og FRÍSK um að loka aðgengi að vefsvæðunum deildu og piratebay óháð því á hvaða lénum síðurnar eru skráðar. Samkomulagið nær einnig til þess að loka lénum sem eingöngu eru sett upp til þess að vísa á vefsvæðin. Samkomulag var gert við hvert og eitt fjarskiptafyrirtæki og er grundvöllur þess fyrrnefndir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. október 2014 og eftirfarandi lögbannsgerðir sýslumanns. Stefndi hefur ekki fallist á tilmæli stefnanda um að gera sambærilegt samkomulag.

Stefnandi krafðist lögbanns á háttsemi stefnda og þann 23. október 2015 var það lögbann lagt á sem krafist er staðfestingar á í máli þessu. Með lögbanninu var stefnda meinað að veita viðskiptavinum sínum aðgang að þeim vefsíðum sem nefndar eru í dómkröfum, en því er einkum beint gegn vefsvæðunum, deildu.net og thepiratebay.se. Stefnandi kveður eintakagerð fyrir milligöngu umræddra vefsíðna ólögmæta og hafa valdið eigendum verkanna gríðarlegu fjárhagslegu tjóni. Með netþjónustu sinni veiti stefndi viðskiptavinum sínum aðgang að ólögmætum vefsvæðum.

Stefndi kveður lögbannsbeiðnina hafa verið víðtækari en viðurkennt hafi verið með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2014, þar sem krafist sé lögbanns vegna aðgangs að fleiri vefsíðum en þar hafi verið fallist á. Í lögbannsbeiðni stefnanda hafi jafnframt upphaflega verið víðtækara orðalag, sem stefnandi hafi fallið frá við lögbannsgerðina.

Framkvæmdastjóri stefnda, Guðmundur Kristján Unnsteinsson, kom fyrir dóm og gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

1. Starfræksla og notkun vefsíðnanna brýtur gegn ákvæðum höfundalaga

Samkvæmt 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 eigi höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt að því með þeim takmörkunum sem í lögunum greini. Í 3. gr. laganna sé mælt fyrir um einkarétt höfundar verks til að gera eintök af því og til að birta í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum. Til verka sem njóta verndar höfundalaga teljist samið mál í ræðu og riti, leiksviðsverk, tónsmíðar, myndlist, byggingarlist, kvikmyndir, ljósmyndalist, nytjalist og aðrar samsvarandi listgreinar, á hvern hátt og í hverju formi sem verkið birtist, skv. ákvæði 1. gr. sömu laga. Þá sé listflytjendum í 45. gr. laganna veittur einkaréttur til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings. Samkvæmt 46. gr. laganna sé eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum óheimil án samþykkis framleiðanda.

Rekstraraðilar og stjórnendur vefsíðnanna www.deildu.net og www.thepiratebay.se geri notendum þeirra kleift að fá aðgang að og deila hljóð- og myndskrám sem verndaðar séu af ákvæðum höfundalaga. Langstærstur hluti þeirra verka sem notendur beggja vefsvæða geri aðgengileg, deili og geri eintök af séu varin höfundarétti og séu rekstraraðilar vefsvæðanna grandvísir um þessa staðreynd.

Í 1. mgr. 8. gr. höfundalaga segi að höfundur verks teljist sá, uns annað reynist, sem nafngreindur sé á eintökum þess með venjulegum hætti eða lýstur er höfundur, þegar verk sé birt. Gildi þetta einnig um höfunda, sem nota gervinöfn eða merki, þegar almennt sé vitað, hver þar felist að baki. Framangreindum ákvæðum skuli einnig beita um framleiðanda kvikmyndaverks. Þá skuli einnig í þeim tilvikum, þegar verulegur og samfelldur flutningur verka eða umfangsmikil fjölföldun eða útleiga hafi átt sér stað, talið að flutt hafi verið, leigð út eða fjölfölduð verk sem vernduð séu að höfundalögum nema annað verði í ljós leitt. Þau verk sem deilt sé á áðurnefndum vefsvæðum teljist því til verka sem vernduð séu af höfundalögum, nema færðar verði sönnur fyrir hinu gagnstæða.

Í ljósi forsendna dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2009, í svonefndu Istorrent máli, sé óhætt að líta svo á að stjórnendur beggja vefsvæðanna vinni að því með markvissum hætti, með starfrækslu vefsvæðanna og tæknilegri uppbyggingu, að fram geti farið greið og umfangsmikil skráarskipti með efni, sem háð sé höfundarétti, og stuðli þannig beinlínis að brotum notenda vefsvæðanna. Þannig sé ljóst að sömu aðilar brjóti gegn lögvörðum rétti umbjóðenda stefnanda. Þá sé einnig ljóst, með vísan til fyrrnefnds dóms, að sömu aðilar valdi stefnanda tjóni með áframhaldandi rekstri vefsvæðanna og beri skaðabótaábyrgð gagnvart umbjóðendum stefnanda. Í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur sé því slegið föstu að vefsvæðin www.deildu.net og www.thepiratebay.se séu sambærileg að uppbyggingu og www.torrent.is. Ljóst sé að notkun einstaklinga hér á landi á nefndum vefsvæðum fari eingöngu fram í þeim tilgangi að birta og afrita höfundaverk án heimildar rétthafa.

2. Aðkoma stefnda að brotum notenda

Starfræksla beggja vefsvæðanna sé ólögmæt, sem staðfest hafi verið í úrskurðum héraðsdóms, en ókleift sé fyrir stefnanda að krefjast lögbanns við rekstri sjálfra vefsíðnanna, enda virðist þær báðar reknar utan íslenskrar lögsögu. Stefnanda hafi ekki reynst unnt að komast að því hverjir séu raunverulegir rekstraraðilar vefsíðnanna. Þeim aðilum sem birti lögvarið efni á vefsíðunum væri ekki kleift að birta efnið fyrir viðskiptamönnum stefnda með góðu móti án atbeina stefnda sjálfs, sem veiti viðskiptamönnum sínum aðgang og alla tæknilega aðstöðu til þess að sækja og senda gögn til og frá vefsíðunum. Stefndi sé því óhjákvæmilegur milliliður milli vefsvæðanna og þeirra notenda sem brjóti gegn höfundarétti umbjóðenda stefnanda.

Með því að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se tryggi stefndi úrræði og aðstöðu, sem þeim aðilum sem standi að höfundaréttarbrotum á nefndum vefsvæðum séu nauðsynleg til þeirra, og birta höfundaverk opinberlega í heimildarleysi. Af samskiptum stefnanda og stefnda sé ljóst að stefndi sé grandvís um þá starfsemi sem stunduð sé á vefsíðunum. Stærstu seljendur netþjónustu á landinu hafi gengið frá samkomulagi um að hætta að veita aðgang að hinum ólögmætu vefsvæðum og verði stefnda gert að hætta að veita viðskiptavinum sínum aðgang að þeim sé ljóst að úrræði þeirra sem vilja og reyna að brjóta gegn höfundarétti með notkun vefsvæðanna séu skert verulega.

Í fjölmörgum ríkjum, s.s. í Belgíu, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Grikklandi, Ítalíu, Hollandi og Bretlandi, hafi dómstólar gert fjarskiptafélögum skylt að loka fyrir aðgengi að www.thepiratebay.se í ljósi þess að sú starfsemi sem þar sé rekin brjóti gróflega gegn höfundaréttindum.

3. Ákvæði 2. mgr. 59. gr. a höfundalaga

Auk ákvæða laga nr. 31/1991, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., byggi stefnandi jafnframt á ákvæðum höfundalaga, nr. 73/1972, einkum á svohljóðandi ákvæði 2. mgr. 59. gr. a í lögunum:

Að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns, sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., geta einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Enn fremur verður lögbann lagt við því að þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin eru í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum.

Í ákvæðinu felist almenn heimild til handa rétthöfum eða samtökum rétthafa til þess að krefjast lögbanns við miðlun gagna af hálfu þjónustuveitenda í skilningi laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, þegar viðskiptamenn þeirra nýti þjónustu þeirra til að brjóta gegn ákvæðum höfundalaga, að því gefnu að skilyrði samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. séu uppfyllt. Ekki sé þörf á að sýna fram á að þjónustuveitendur beri ábyrgð á háttsemi viðskiptamanna og þeirri miðlun sem fram fari fyrir milligöngu þjónustuveitenda, til að heimildin verði nýtt.

Stefndi teljist vera þjónustuveitandi í skilningi laga nr. 30/2002. Með vísan til 2. ml. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga megi ganga út frá því að þau verk sem deilt sé á vefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se séu verk sem vernduð séu af höfundalögum, uns færðar verði sönnur fyrir því að svo sé ekki. Stefnanda sé því tækt að nýta sér þessa heimild höfundalaga til þess að krefjast lögbanns við miðlun gagna að og frá vefsvæðunum. Stefnandi vísi til orðalags í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 93/2010, þar sem fyrrnefnt ákvæði höfundalaga var lögfest. Þar segi m.a.:

Tilgangur ákvæðisins er fyrst og fremst að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verður beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um er að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Í íslenskum rétti hefur verið miðað við að lögbann verði einungis lagt við tilteknum athöfnum sem eru taldar ólögmætar í sjálfu sér. Vegna orðalags ákvæða 12., 13. og 14. gr. laga nr. 30/2002 er mögulegt að vafi yrði talinn leika á því hvort miðlun, skyndivistun eða hýsing þjónustuveitanda væri ólögmæt athöfn í sjálfu sér. Það gerir réttarvörslu rétthafa mun auðveldari ef skýrt er að hann geti lagt lögbann við athöfnum milliliða. Ekki verður séð að neinir lögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði af því tagi sem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirri grundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sá sem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á.

[...]

Hins vegar þykir rétt að kveða skýrt á um rétt höfunda og annarra rétthafa til að beina kröfu um lögbann að þjónustuveitanda, t.d. fjarskiptafyrirtæki, svo að ekki fari á milli mála að slíkur réttur sé fyrir hendi samkvæmt íslenskum lögum.

Af þessu orðalagi megi sjá að beinlínis sé gert ráð fyrir því í höfundalögum að lögbann megi leggja við gagnamiðlun fjarskiptafyrirtækja þegar viðskiptamenn þeirra nýti þjónustu þeirra til þess að brjóta gegn ákvæðum höfundalaga. Af nefndu ákvæði höfundalaga megi jafnframt ráða að gert sé ráð fyrir því að fjarskiptafyrirtæki stýri því að einhverju leyti með hvaða hætti viðskiptavinir þeirra nýti selda fjarskiptaþjónustu. Ástæða sé því til að ætla að fjarskiptafélögum beri hreinlega að láta sig málið varða ef viðskiptavinir þeirra nýta og/eða hyggjast nýta keypta þjónustu til ólögmætra verka, séu fjarskiptafélögin grandvís um það. Í úrskurðum sínum frá 14. október 2014 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur staðfest gildi reglunnar og réttmæti beitingar hennar við sambærilegar aðstæður.

4. Önnur skilyrði lögbanns uppfyllt

Brot á lögvörðum réttindum stefnanda

Í óheftum aðgangi viðskiptamanna stefnda að vefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se felist skýlaust brot á lögvörðum réttindum stefnanda, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991, en löglíkur séu fyrir því að notendur vefsvæðanna birti eintök af og afriti hugverk sem njóti verndar höfundalaga, sbr. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga, fyrir tilstuðlan rekstraraðila þeirra. Í úrskurðum héraðsdóms frá 14. október 2014 sé því slegið föstu að skilyrði þetta sé uppfyllt varðandi umrædd vefsvæði.

Athöfn stefnda er þegar hafin

Brot gegn höfundarétti umbjóðenda stefnanda hafi átt sér stað á báðum vefsvæðunum um nokkra hríð og ekki sé fyrirséð að nokkurt lát verði á þeim brotum að óbreyttu. Gerðarþoli veiti enn í dag viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum. Því sé um athöfn að ræða, sem þegar er hafin, sbr. áskilnað 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Engu máli skipti þó að hún hafi staðið yfir í töluvert langan tíma, sbr. fyrrnefnda úrskurði héraðsdóms frá 14. október 2014.

Réttindi stefnanda hefðu farið forgörðum og valdið miklu tjóni væri beðið dóms

Ótvírætt sé að umbjóðendur stefnanda hafi þegar orðið fyrir gríðarlegu tjóni fyrir tilstilli notenda margnefndra vefsíðna. Samkvæmt upplýsingum, sem finna megi á vefsíðunum sjálfum, sé gríðarlega miklu efni deilt á síðunum. Í september 2013 hafi notendur á www.deildu.net deilt yfir 34.000 skrám. Í lok október 2014 hafi sá fjöldi verið kominn yfir 100.000. Í september 2013 hafi notendur vefsíðunnar www.piratebay.se verið sagðir yfir 30 milljónir, sem deili með sér rúmlega 5 milljónum skráa. Í lok október 2014 hafi þeir verið sagðir yfir 39 milljónir og deili með sér 6 milljónum skráa. Sjá megi hversu margir hafi verið skráðir inn á deildu.net á mismunandi tímum, en þann 22. september 2015 hafi t.d. 1135 notendur verið skráðir inn á ákveðnum tíma þann dag og 1047 á svipuðum tíma daginn eftir. Það sé því ljóst að notkunin sé umfangsmikil og stöðug. www.deildu.net sé ein vinsælasta vefsíða á Íslandi og www.piratebay.se ein af hundrað vinsælustu netsíðum heims. Umfang þeirrar brotastarfsemi sem þar sé rekin sé gífurlegt. Ekki sé að sjá að notendur muni breyta hegðun sinni að óbreyttu. Ómögulegt sé að gera sér grein fyrir því hversu mikið tjón muni hljótast af því í framtíðinni verði aðgangur að nefndum vefsvæðum áfram óheftur. Óhætt sé þó að slá því föstu að tjón stefnanda verði afar mikið verði aðgangur að vefsíðunum framvegis óheftur, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2009 hafi verið litið svo á að rétthafar verka sem deilt hafi verið á vefsíðunni www.torrent.is hefðu orðið fyrir tjóni vegna háttsemi notenda síðunnar og stjórnenda hennar. Sams konar aðstæður séu uppi í máli þessu.

Tjón umbjóðenda stefnanda mun ekki fást bætt eftir reglum skaðabótaréttarins

Tjón umbjóðenda stefnenda muni ekki fást bætt eftir reglum skaðabótaréttarins. Óljóst sé hverjir séu rekstraraðilar umræddra vefsíðna og einnig sé óljóst hversu mikið tjón muni hljótast af áframhaldandi óheftum aðgangi að vefsvæðunum, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Engar upplýsingar liggi fyrir um hæfi rekstraraðila vefsíðnanna til að greiða stefnendum skaðabætur vegna þess tjóns sem hlotist hafi af rekstri þeirra. Héraðsdómur hafi samþykkt þessi sjónarmið í úrskurðum sínum frá 14. október 2014.

Hagsmunir umjóðenda stefnanda eru mun meiri en hagsmunir stefnda

Hagsmunir umbjóðenda stefnenda af því að hefta aðgang að vefsvæðunum séu miklum mun meiri en hagsmunir stefnda af því að halda aðgangi viðskiptavina sinna óheftum, sbr. 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Aðgangur viðskiptavina stefnda að vefsíðunum tryggi þeim einungis nauðsynlega aðstöðu til þess að brjóta gegn lögvörðum rétti stefnenda og umbjóðenda þeirra, en ekki til að stunda aðra háttsemi, enda sé starfsemi vefsíðnanna takmörkuð við að auðvelda notendum ólögmætar athafnir. Því verði einfaldlega að virða að vettugi þá hagsmuni sem stefndi kunni að hafa af því að halda þeirri aðstöðu opinni, enda sé hún aðeins nýtt í ólögmætum tilgangi. Héraðsdómur hafi tekið undir og samþykkt þessi sjónarmið í úrskurðum sínum frá 14. október 2014.

5. Ákvæði laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu

Lög nr. 30/2002, um ábyrgðartakmarkanir þjónustuveitenda, girði ekki á nokkurn hátt fyrir að unnt sé að krefjast lögbanns við miðlun þjónustuveitenda. Þvert á móti sé beinlínis kveðið á um það í athugasemdum með frumvarpi til laganna, sbr. V. kafla athugasemdanna, að ákvæði laganna hafi ekki áhrif á lögbannsúrræði aðila. Þar segir:

Ákvæði þessa kafla kveða á um hvenær þjónustuveitandi, sem er milligönguaðili við miðlun gagna, ber ekki ábyrgð á gögnum sem hann miðlar, vistar með skyndivistun eða hýsir. Frumvarpið kveður ekki á um hvenær þjónustuveitandi getur orðið ábyrgur fyrir slíkum gögnum ef skilyrði takmörkunar ábyrgðar eru ekki fyrir hendi. Þá hafa ákvæði frumvarpsins ekki áhrif á lögbannsúrræði aðila.

Þetta sé í samræmi við ákvæði 3. mgr. 12. gr. tilskipunar 2000/31/EBE, sem lögfest hafi verið með lögum nr. 30/2002, en þar segi:

Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á það úrræði dómstóls eða stjórnvalds, í samræmi við réttarkerfi aðildarríkja, að krefjast þess að þjónustuveitandi stöðvi eða komi í veg fyrir brot.

Sams konar ákvæði sé að finna í 13. og 14. gr. tilskipunarinnar.

Í 45. mgr. inngangs tilskipunarinnar hafi þetta inntak verið áréttað, en þar segi:

Takmörkuð ábyrgð þjónustuveitenda sem eru milliliðir, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, hefur engin áhrif á hugsanleg fyrirmæli af ýmsum toga. Slík fyrirmæli geta einkum falist í úrskurðum dómstóla eða stjórnvalda, þar sem krafa er gerð um að brotum sé hætt eða komið sé í veg fyrir þau, meðal annars að ólöglegum upplýsingum sé eytt eða að aðgengi að þeim sé hindrað.

Þessi skilningur hafi verið staðfestur í nýlegum forúrskurði Evrópudómstólsins, í máli nr. C-70/10, þar sem dómstóllinn hafi talið að á þjónustuveitendum hvíldi ekki skylda til þess að koma á laggirnar síunarkerfi til að hafa eftirlit með öllum gagnasendingum um kerfi þeirra, um ótiltekinn tíma og á kostnað þjónustuveitenda. Af úrskurðinum megi hins vegar ráða að lögbannskrafa rétthafa á hendur þjónustuveitendum, í þeim tilgangi að stöðva eða hindra veitingu þjónustu sem nýtt sé til að brjóta gegn lögvörðum rétti aðila, sé í samræmi við ákvæði og tilgang tilskipunar 2000/31/EBE og reglur hennar um ábyrgðartakmarkanir þjónustuveitenda. Margnefndir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. október 2014 séu í samræmi við þessa niðurstöðu.

6. Mótmæli stefnda vegna lögbanns við fyrirtöku hjá sýslumanni

Stefndi hafi lagt fram mótmæli við fyrirtöku hjá sýslumanni þann 23. október 2015 og hafi að auki látið bóka sérstök mótmæli í gerðarbók sýslumanns. Þar sé aðallega byggt á því að skilyrði lögbanns samkvæmt lögum nr. 31/1990 séu ekki uppfyllt, auk þess sem stefnandi geti náð fram rétti sínum með refsi- og skaðabótakröfum og að atvinnuréttindi stefnda séu varin af 75. gr. stjórnarskrárinnar.

Stefnandi hafni mótmælum stefnda og vísi m.a. til fordæma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum K-8/2013 og K-9/2013. Í bókun í gerðabók sýslumanns haldi stefndi því m.a. fram að vegna þess að lögbann sé neyðarráðstöfun og að stefnandi hafi beðið í ár með að fara fram á lögbann hafi verið sýnt fram á að neyð sé ekki fyrir hendi í málatilbúnaði stefnanda. Stefnandi bendi á að í Hæstaréttardómi í máli nr. 214/2009 hafi verið lagt lögbann við rekstri vefsíðu sem hafi verið starfandi í u.þ.b. tvö ár án þess að dómurinn gerði athugasemdir við þann tíma sem vefsíðan hafði verið starfrækt. Í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum K-8/2013 og K-9/2013 hefðu deildu.net og piratebay.se jafnframt verið starfandi í töluverðan tíma áður en lögbann hafi verið lagt á. Stefnandi telji sömu atriði eiga við í máli þessu.

Mótmælt sé þeim skilningi stefnda á 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum að sú athöfn stefnda að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að ofangreindum vefsvæðum samræmist engan veginn eðlilegri skilgreiningu á orðinu athöfn og að greinin sé ósamrýmanleg þeim kröfum sem gera verði til lögbanns. Stefndi vísi til 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi máli sínu til stuðnings. Stefnandi mótmæli þessari málsástæðu. Atvinnufrelsi megi setja skorður með lögum samkvæmt ákvæðinu, enda krefjist almannahagsmunir þess. Alþingi hafi sett skorður með lögum og hafi samhliða tekið afstöðu til almannahagsmuna með þeim en Hæstiréttur hafi í framkvæmd talið að löggjafinn ætti sjálfur fullnaðarmat um það hvort skilyrði um almannahagsmuni væri uppfyllt.

7. Aðgerðir sem stefnda er rétt að grípa til

Í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms í umræddum úrskurðum sé rétt að stefndi hafi frjálsar hendur með það hvaða aðferðum hann beiti til þess að hlíta lögbanninu. Að mati héraðsdóms hafi hann nokkrar leiðir til þess. Ein sé DNS-lokun og sé þá allri umferð inn á lénin www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org beint með einföldum hætti inn á annað vefsvæði sem svari öllum köllum sem send séu á viðkomandi lén. Æskilegt sé þá að sú síða birti skilaboð um að aðgangur að umræddum lénum sé takmarkaður. Síminn hf. og Fjarskipti hf. hafi þegar komið upp slíkum síðum. Þessi sjónarmið hafi komið til umfjöllunar í úrskurðum héraðsdóms í málum K-8/2013 og K-9/2013 og dómurinn talið að engin gögn sýndu að mjög íþyngjandi væri fyrir fjarskiptafyrirtækin að loka aðgangi að umræddum vefsvæðum.

8. Um stefnanda, umboð, réttindi og lagarök

Stefnandi lýsi starfsemi sinni, umboði og réttindum til að krefjast lögbanns svo að STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) séu samtök tónskálda, textahöfunda og eigenda flutningsréttar sem annist innheimtu vegna opinbers tónflutnings. STEF sé einnig aðili að NCB (Nordisk Copyright Bureau), sem séu samtök tónskálda, textahöfunda og eigenda flutningsréttar á Norðurlöndum og innheimti gjöld vegna eintakagerðar og dreifingar á tónverkum. NCB og STEF hafi gert gagnkvæma samninga við erlend systursamtök sín þar sem samtökin gæti hagsmuna vegna nær allra tónverka sem verndar njóti samkvæmt höfundalögum. Gæti STEF þannig hagsmuna bæði íslenskra og erlendra rétthafa og hafi hlotið löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til þess að gæta hagsmuna höfunda skv. 23. og 23. gr. a í höfundalögum, sbr. 59. gr. a sömu laga. STEF byggi umboð sitt til að krefjast lögbanns m.a. á nefndu lagaákvæði og liggi upplýsingar um aðildarfélög STEF fyrir.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2009, Istorrent-máli, hafi aðild STEF til að reka lögbannsmál f.h. umbjóðenda samtakanna verið staðfest og byggi stefnandi umboð sitt til að krefjast lögbanns f.h. umbjóðenda sinna fyrst og fremst á ákvæði 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum. Að öðru leyti byggir stefnandi aðild sína og umboð sitt á ákvæðum II. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem og á almennum reglum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á ákvæðum höfundalaga, nr. 73/1972, einkum 1.gr., 3.gr., 1. mgr. 8. gr., 23. gr., 23. gr. a, 45. gr., 46. gr. og 59. gr. laganna. Stefnandi styður kröfu sína um staðfestingu lögbanns við ákvæði 24. og 25. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. ákvæði 36. gr. laganna. Jafnframt sé vísað til 8. gr. tilskipunar EB nr. 2001/29 sem innleidd var með ákvæðum íslensku höfundalaganna. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 41. og 42. gr. laga nr. 31/1990.

Málsástæður og lagarök stefnda

Skilyrði lögbanns

Í 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum nr. 73/1972 segi að rétthafi eða samtök þeirra geti fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi láti í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða samtímageymslu gagna. Enn fremur verði lögbann lagt við því að þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin séu í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum. Heimildin sé sett að því tilskildu að hún fullnægi öðrum skilyrðum lögbanns og sé þar vísað til laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Stefnandi byggi lögbannskröfu sína á þessu ákvæði höfundalaga og geri stefndi því eftirgreindar athugasemdir.

Stefnandi hafi ekki með nokkru móti sýnt fram á að stefndi hafi miðlað gögnum sem ímyndaður þjónustuþegi hafi látið í té um fjarskiptanet, eða hafi hýst gögn sem látin séu í té af þjónustuþega. Þar sem lögbann sé neyðarráðstöfun verði að gera ríkar kröfur til þess að stefnandi sanni eða geri sennilegt að athöfn muni brjóta gegn lögvörðum rétti stefnanda. Stefnandi hafi hvorki sannað né gert sennilegt að stefndi brjóti gegn lögmætum rétti hans, hvorki með framlögðum gögnum né rökstuðningi í lögbannsbeiðni eða stefnu. Að auki verði ekki séð að um neyð sé að ræða hjá stefnanda sem hafi knúið hann til að leita lögbanns þar sem hann hafi ekki getað beðið dóms, enda liggi fyrir að hann hafi beðið í meira en ár með að gera lögbannskröfuna.

Skilyrði 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum um miðlun gagna eigi ekki við um starfsemi og aðkomu stefnda að þessu máli. Stefndi miðli ekki gögnum þjónustuþega eða þeirra vefsíðna sem lögbann beinist gegn, enda sé slíkt ekki með nokkru móti á forræði stefnda. Hugtakið „að miðla“ sé hvergi skilgreint í höfundalögum, en það feli samkvæmt orðabók í sér að veita, úthluta eða láta af hendi. Þá sé sögnin „að veita“ skilgreind sem það að afhenda, láta einhvern fá eitthvað eða láta í té. Engin framangreindra skilgreininga geti náð til þeirrar þjónustu sem stefndi veiti með því að veita viðskiptavinum sínum aðgang að internetinu gegn gjaldi. Stefndi hýsi hvorki né hlutist til um hýsingu þeirra gagna sem aðgengileg séu á vefsíðum sem lögbannsbeiðni stefnanda hafi snúið að og geti því eðli málsins samkvæmt heldur ekki afhent þau. Stefndi geti ekki afhent eða látið í té gögn sem ekki séu í vörslu stefnda.

Verði ekki fallist á að skilyrði 59. gr. a í höfundalögum um miðlun gagna eigi ekki við um starfsemi stefnda, sé byggt á því að stefndi uppfylli skilyrði 12. gr. laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti o.fl. Í lagagreininni sé kveðið á um takmörkun ábyrgðar vegna miðlunar. Samkvæmt henni beri þjónustuveitandi, sem miðli gögnum sem þjónustuþegi láti í té um fjarskiptanet eða veiti aðgang að fjarskiptaneti, ekki ábyrgð vegna miðlunar að því tilskildu að þjónustuveitandinn eigi ekki frumkvæði að miðluninni, velji ekki viðtakanda þeirra gagna sem miðlað sé, og velji hvorki né breyti þeim gögnum sem miðlað sé. Stefndi sé hvorki ábyrgðarmaður þeirra vefsíðna sem lögbannsbeiðni stefnanda beinist að né tengist þeim með nokkrum öðrum hætti. Því hafi stefndi augljóslega ekki frumkvæði að miðlun efnis gegnum vefsíðurnar. Það gefi augaleið að stefndi stýri því ekki hvaða vefsíður viðskiptavinir hans heimsæki eða eftir atvikum hverju þeir hlaði þaðan niður og því sé ljóst að stefndi velji ekki viðtakanda þeirra gagna sem miðlað sé. Stefndi hvorki velji né breyti þeim gögnum sem miðlað sé, enda alls ótengdur umræddum vefsíðum. Það sé stefnda því ómögulegt að hafa nokkur slík áhrif á gögn sem miðlað sé. Verði því að líta svo á að stefndi geti ekki borið ábyrgð sem þjónustuveitandi á þeirri miðlun sem fram fari á vefsíðunum.

Áðurgreind lagagrein höfundalaga samræmist engan veginn eðlilegri skilgreiningu á orðinu athöfn. Í málatilbúnaði stefnanda sé á því byggt að aðkoma stefnda sé sú að hann sé óhjákvæmilegur milliliður milli vefsvæðanna og þeirra notenda, sem brjóti gegn höfundarétti umbjóðenda stefnanda. Þó að notendur geti þannig nálgast umræddar vefsíður sé ekki um athöfn eða verknað stefnda að ræða og því síður athöfn eða verknað einstaklings, fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, svo sem áskilið sé í 1. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Því megi vera ljóst að 59. gr. a í höfundalögum sé að þessu leyti ósamrýmanleg þeim kröfum sem gera verði til lögbanns. Beiðninni sé ranglega beint að stefnda, enda verði að beina lögbannsbeiðni að fyrirsvarsmanni þess félags sem lögbannsbeiðni beinist gegn, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Í 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. segi einfaldlega að lögbann verði ekki lagt á ef sýnt þyki að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af því að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kunni að baka gerðarbeiðanda. Staða stefnda sé skólabókardæmi um notkun þessa ákvæðis. Um sé að ræða lítið fjarskiptafyrirtæki sem hafi mun meiri hag af því að starfsemi þess haldist óskert en stefnandi, sem hafi mjög óljósan ávinning eða hag af því að lögbann verði lagt á stefnda. Þá verði stefnandi jafnframt að sanna tjón sitt telji hann að setja verði tryggingu, en hún verði ekki sett nema eftir atvikum vegna þess tjóns sem kunni að verða af athöfn stefnda. Þetta leiði af almennum reglum skaðabótaréttar og sé krafa um lögbann þar ekki undanskilin. Um þetta segi nánar í athugasemdum með frumvarpi til laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.:

Loks er í 2. tölul. sama ákvæðis gert ráð fyrir að synjað verði um lögbann ef hagsmunir gerðarþola af athöfn eru stórfelldir í samanburði við hagsmuni gerðarbeiðanda af stöðvun hennar, enda setji gerðarþoli þá að öðru jöfnu tryggingu fyrir því tjóni sem gerðarbeiðandi yrði að þola. Í báðum þeim tilvikum, sem hér um ræðir, má segja að ætlast sé til að hagsmunir gerðarbeiðandans af framgangi lögbanns verði metnir sérstaklega, en munurinn milli hinna tveggja töluliða 3. mgr. 24. gr. felst í því í hverju samhengi eða hverjum samanburði þetta mat yrði lagt  á hagsmunina. Þótt reglur þessa efnis hafi ekki verið í lögum hefur verið gengið út frá því í framkvæmd að niðurstaða hagsmunamats af þessum toga geti leitt til synjunar um lögbann, en slík sjónarmið styðjast við viðteknar fræðikenningar á þessum vettvangi.

Sýslumaður hefði þurft að gera sjálfstætt hagsmunamat, óháð öðrum lögbannsbeiðnum stefnanda. Mikilvægt sé að í slíku hagsmunamati komi fram hverjir séu hagsmunir stefnda og hverjir séu hagsmunir stefnanda í þessu tiltekna máli. Hagsmunir stærri fjarskiptafyrirtækja, sem jafnframt selji með beinum hætti aðgang að höfundavörðu efni, séu allt aðrir og minni en hagsmunir minni fjarskiptafyrirtækja eins og stefnda.

Stefnandi verði að sýna fram á að lögbrot hafi átt sér stað svo að lögbanni verði beitt gegn stefnda. Í athugasemdum með frumvarpi sem urðu að lögum nr. 93/2010 segi:

Ekki verður séð að neinir lögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði af því tagi sem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirri grundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sá sem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á.

Þar sem ekkert lögbrot liggi fyrir í málinu segi sig sjálft að ekki verði lagt lögbann á stefnda og því beri að hafna staðfestingu þess.

Önnur sjónarmið og rök stefnda

Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann geti ekki náð fram meintum rétti sínum með refsi- eða skaðabótakröfum þrátt fyrir að það sé skilyrði lögbanns að gerðarbeiðandi „sanni eða geri sennilegt að hagsmunir hans muni fara forgörðum verði hann knúinn til að bíða dómsúrlausnar um vernd þeirra“. Í þeim úrskurðum, K-8/2013 og K-9/2013, sem stefnandi byggi mál sitt á, segi að ekki sé hægt að finna ábyrgðarmenn viðkomandi vefsvæða þar sem þau séu skráð erlendis. Um sé að ræða eins árs gamla úrskurði og aðstæður hafi breyst. Síðurnar deildu.net og iceland.pm séu báðar hýstar hjá bandarísku hýsingarþjónustunni Cloudflare. Hægt sé að tilkynna um brot á höfundalögum til Cloudflare. Ekki komi fram í lögbannsbeiðni hvort stefnandi hafi tilkynnt um meint höfundalagabrot eða ekki. Það eina sem komi fram í lögbannsbeiðninni sé að stefnandi hafi lagt fram kæru vegna tveggja af vefsíðunum til lögreglu. Gera verði þær lágmarkskröfur til stefnanda að hann tryggi sína hagsmuni eins og hægt sé áður en hann beini lögbannsbeiðni að stefnda.

Sænskur dómstóll hafi lokað PirateBay.se og thepiratebay.se þann 19. maí 2015 og geti krafa gerðarbeiðanda því ekki beinst að þessum vefsvæðum. Sýni þetta, svo ekki verði um villst, að stefnandi hafi ýmiss konar úrræði önnur en að krefjast lögbanns hjá stefnda. Sænskur dómstóll hafi komist að þeirri niðurstöðu í lok ársins 2015 að rétthafar verði að sýna fram á að þeir hafi leitað annarra leiða áður en krafist sé lögbanns á grundvelli sambærilegs ákvæðis í sænskum lögum. Eðlilegt sé að álykta svo að sambærileg túlkun gildi í íslenskum rétti.

Atvinnuréttindi stefnda séu varin af 75. gr. stjórnarskrárinnar og ljóst sé að þau vegi þyngra en hagsmunir stefnanda. Ekki verði séð að þau skilyrði 75. gr. að skerða megi atvinnufrelsi ef almannahagsmunir krefjist þess eigi við. Þvert á móti sé stefndi lítið fjarskiptafyrirtæki og það sé ljóst að lögbannið geti haft verulega neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu stefnda sem og þjónustustig og netöryggi. Það sé alþekkt að þeir notendur eða þjónustuþegar sem ætli að ná sér í efni geri það einfaldlega með öðrum hætti og fari þá iðulega í gegnum erlenda DNS-þjóna sem geti leitt til þess að hraði tengingar hjá stefnda geti minnkað, auk þess sem netöryggi sé ógnað. Þetta geti haft verulega neikvæðar afleiðingar fyrir stefnda, sérstaklega þar sem stór hluti hans viðskiptavina séu hugbúnaðarfyrirtæki sem treysti á það öryggi sem stefndi hafi getað veitt hingað til.

Stefndi haldi því fram með mótmælum þessum að lögbannsbeiðni stefnanda uppfylli ekki skilyrði sem gerð séu með lögbannslögunum. Ef gerðarþoli heldur því fram að skilyrði til lögbanns séu ekki uppfyllt eða að gerðarbeiðandi eigi ekki þann rétt, sem hann segir að brotið sé á, verður gerðarbeiðandi að sýna fram á hið gagnstæða. Þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á hið gagnstæða verði að hafna því að staðfesta lögbannið.

Stefndi geri athugasemdir við viðurkenningarkröfu stefnanda. Ekki verði séð að þörf sé á sérstakri viðurkenningarkröfu vegna málsins. Auk þess hafi viðurkenningarkrafan gengið mun lengra en krafa stefnanda um staðfestingu lögbanns með orðalaginu að stefnda „sé skylt að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til þess að hindra að viðskiptamenn hans geti heimsótt vefsíðurnar“. Stefndi líti svo á að þessi krafa eigi ekki heima í málinu, en geri þó ekki sérstaka kröfu um frávísun vegna þess. Við aðalmeðferð málsins gerði stefndi, með samþykki stefnanda, nýja kröfu um sýknu af viðurkenningarkröfunni og féll stefnandi jafnframt í sama þinghaldi frá þeim hluta kröfu sinnar sem hafði að geyma hið umdeilda orðalag.

Um lagarök vísi stefndi til höfundalaga, nr. 73/1972, laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1991, og til laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, m.a. vegna málskostnaðar.

Niðurstaða

Stefnandi krefst í máli þessu, á grundvelli 36. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, staðfestingar á lögbanni sem lagt hefur verið á stefnda. Samkvæmt ákvæðinu skal, hafi ekki áður verið dæmt um kröfu stefnanda eða mál höfðað til þess að fá skorið úr um rétt hans, gera slíka kröfu í sama máli. Stefnandi krefst þess því jafnframt í málinu að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum deildu.net, deildu.com, iceland.pm, icetracker.org, afghanpirate.com, deildu.eu, thepiratebay.se, thepiratebay.sx, og thepiratebay.org.

Í höfundarétti felst einkaréttur höfundar til að gera eintök af verki sínu og birta það, sbr. 3. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Viðurkenningarkrafa stefnanda byggir á því að starfsemi umræddra vefsvæða vegi gegn þessum grundvallarrétti og er krafa stefnanda um viðurkenningu á því að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að þeim. Stefndi hefur ekki andmælt réttmæti staðhæfinga stefnanda um að yfirgnæfandi hluti þess hljóð- og myndefnis, sem hafi að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eigi höfundarétt að og finna megi á vefsvæðunum, og gert sé aðgengilegt til eintakagerðar, sé þar án heimildar eigenda þess. Telst óumdeilt að svo sé og fær það stuðning í framlögðum gögnum. Þá er óumdeild heimild stefnanda til aðildar að málinu, sbr. dóma Hæstaréttar í málum réttarins nr. 239/2014, nr. 240/2014 og nr. 214/2009. Stefnandi verður talinn hafa af því lögvarða hagsmuni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að fá úr því skorið hvort stefnda sé það heimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsvæðunum eða ekki.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 214/2009 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að á vefsíðunni torrent.is hafi verið í boði mikið af efni, sem háð var höfundarétti og að notendur hafi með þeim búnaði, sem vefsvæðið bauð upp á, miðlað því sín á milli í umtalsverðum mæli án þess að heimild rétthafa hafi verið fyrir hendi. Í dóminum sagði að því mætti leggja til grundvallar við úrlausn málsins að tilgangur með starfrækslu vefsvæðisins hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir því að notendur gætu með skjótum hætti miðlað sín á milli efni, sem háð er höfundarétti, án tillits til þess hvort fyrir hendi væri tilskilin heimild til slíkrar miðlunar frá rétthafa. Með þessum dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að rekstur vefsíðunnar torrent.is væri ólögmætur. Jafnframt var fallist á að ábyrgðartakmarkanir V. kafla laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, ættu ekki við, þegar með þjónustunni sé gagngert stuðlað að því að brotið sé gegn lögvörðum rétti höfunda og listflytjenda samkvæmt höfundalögum.

Tilgangur, virkni og rekstur vefsíðnanna deildu.net og thepiratebay.se er að mati dómsins sambærilegur við tilgang, virkni og rekstur vefsíðunnar torrent.is, sem fjallað var um í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Var lögbann á rekstur þeirrar vefsíðu staðfest á þeim forsendum að þar færi fram ólögmæt starfsemi, sem bryti gegn lögvörðum réttindum höfundarréttarhafa. Hinar sjö vefsíðurnar sem taldar eru upp í kröfu stefnanda vísa beint á áðurnefndar vefsíður og falla því sjálfkrafa í sama flokk.

Stefnandi þykir hafa sýnt nægilega fram á að umbjóðendur hans eigi höfundaréttindi að hljóð- og myndefni sem deilt er á vefsíðunum sem viðurkenningarkrafa hans tekur til og leggja má til grundvallar að tilgangur með starfrækslu þeirra sé fyrst og fremst sá að greiða fyrir því að notendur geti miðlað sín á milli efni, sem háð er höfundarétti, án tillits til þess hvort fyrir hendi væri tilskilin heimild til slíkrar miðlunar frá rétthafa. Notkun vefsíðnanna felur því í sér ólögmæta háttsemi og fer hún ekki fram nema notandi hafi aðgang að vefsíðunum, fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja svo sem stefnda. Fjarskiptafyrirtæki geta þurft að sæta því að verða að gera ráðstafanir til að hindra, svo sem þeim er unnt, aðgang viðskiptamanna sinna að ólögmætum vefsvæðum.

Stefndi byggir á því að slík takmörkun brjóti gegn atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrár. Við mat á því er til þess að líta að slík réttindi þurfa ætíð að sæta takmörkunum af sambærilegum réttindum annarra og almannahagsmunum. Þótt takmörkunin kunni að skerða atvinnufrelsi stefnda þá felst ekki í því stórkostleg skerðing samanborið við þá hagsmuni umbjóðenda stefnanda að stöðva höfundaréttarbrotin. Þó að sú takmörkun sem hér er krafist viðurkenningar á taki til fleiri vefsíðna en fjallað var um í úrskurðum héraðsdóms 14. október 2014, er til þess að líta, svo sem fram er komið í málinu, að vefsíðurnar sem mál þetta snýst um vísa allar beint á síðurnar deildu.net eða thepiratebay.se. Með samkomulagi stefnanda við stærstu fjarskiptafyrirtæki á markaði hafa þau fallist á að loka einnig aðgangi að vefsvæðum sem opnuð eru til að sniðganga það bann sem fallist hefur verið á eða ákveðið í úrskurðum héraðsdóms. Starfsemi stefnda hefur ekki verið stöðvuð heldur einungis lagt fyrir hann að hamla aðgengi að tilteknum vefsvæðum, sem hafa þann megintilgang að greiða fyrir miðlun höfundavarins efnis án tillits til tilskilinnar heimildar til slíkrar miðlunar frá rétthafa. Því verður að hafna að slík takmörkun brjóti gegn 75. gr. stjórnarskrár Íslands, en atvinnufrelsið sem þar um ræðir er heimilt að takmarka með lögum. Í framburði fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dóminum kom m.a. fram að slíkar hömlur geti skaðað þá ímynd sem hann kýs að standa fyrir, um eftirlitslausa netnotkun viðskiptamanna sinna. Þótt tjáningarfrelsi stefnda eða viðskiptamanna hans, sem felur m.a. í sér rétt til að miðla og nálgast upplýsingar á netinu, sæti óverulegri takmörkun þá felur sú skerðing að mati dómsins ekki í sér stórfelldari hagsmuni en þá sem felast í hagsmunum umbjóðenda stefnanda. Til þess er og að líta að unnt er að nálgast hið höfundavarða efni eftir löglegum leiðum.

Að framangreindu virtu verður fallist á kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi þessum að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að framangreindum vefsíðum.

Fyrrnefndur dómur Hæstaréttar í máli nr. 214/2009 var kveðinn upp 11. febrúar 2010. Síðar sama ár, þann 2. júlí 2010, tóku gildi lög nr. 93/2010, til breytinga á höfundalögum. Í ákvæði 2. mgr. 59. gr. a, sem þá var bætt í höfundalög með 13. gr. laga nr. 93/2010, er m.a. kveðið á um, að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að einstakir rétthafar eða samtök þeirra geti fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Styðst lögbann það sem krafist er staðfestingar á í máli þessu við þessa heimild í 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum.

Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 93/2010, kemur m.a. fram að í ákvæðinu sem varð að 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum sé fólgið nýmæli þar sem gert sé ráð fyrir sérstakri heimild til að leggja lögbann við athöfnum milliliða, fyrst og fremst fjarskiptafyrirtækja. Taki ákvæðið mið af lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Tilgangur ákvæðisins sé fyrst og fremst að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verði beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um sé að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Í þessu ljósi verður að hafna málsástæðum stefnda og orðskýringum hans í því sambandi, um að skilyrði 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum um miðlun gagna geti ekki átt við um stefnda. Með ákvæðinu var innleitt það efni í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 að ríkjum bæri að sjá til þess að rétthafar séu í aðstöðu til að krefjast lögbanns gegn milliliðum ef þriðji aðili notar þjónustu þeirra til að brjóta gegn höfundarétti eða skyldum rétti. Með hliðsjón af fyrrnefndum dómi Hæstaréttar og forsögu og orðfæri ákvæðisins í höfundalögum verður ekki fallist á að sú takmörkun á ábyrgð stefnda á grundvelli 12. gr. laga nr. 30/2002, sem stefndi ber fyrir sig, geti átt við. Í 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum felst sérstök lagaheimild til að lögbann verði lagt á fjarskiptafyrirtæki eins og stefnda.

Þau önnur skilyrði lögbanns sem vísað er til í ákvæðinu um að tilskilið sé að einnig sé fullnægt, er einkum að finna í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Samkvæmt því ákvæði má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Þá er í 1. og 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 tekið fram að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Heldur ekki ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda.

Með hliðsjón af því sem fyrr er rakið verður fallist á það með stefnanda að ef þjónustuþegar stefnda, fyrir milligöngu umræddra vefsvæða, hlaða niður á nettengda tölvu sína skrá sem hefur að geyma höfundaréttarvarið efni og gera skrána um leið aðgengilega öðrum til niðurhals, þá gerist þeir sekir um brot á einkarétti höfundar til að gera eintök af verki sínu og birta það, sbr. 3. gr. höfundalaga, og eftir atvikum brot á sambærilegum rétti listflytjenda, sbr. 45. og 46. gr. laganna. Er því uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 að lögbannið beinist að athöfn sem brjóta kann gegn lögvörðum rétti umbjóðenda stefnanda. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt stefndi sjálfur hafi ekki sýnt af sér ólögmæta háttsemi og að ekki sé upplýst um það hvort viðskiptamenn stefnda noti eða vilji nota umræddar vefsíður.

Ekki liggur annað fyrir en að notkun og dreifing hins höfundavarða efnis standi enn yfir og nýtt efni bætist sífellt inn á vefsíðurnar. Byggir stefndi m.a. á því að hagsmunir hans af því að fallist verði á kröfu hans felist í því að lokanir samkvæmt lögbanninu geti skaðað fjarskiptaöryggi og valdið auknum kostnaði í erlendu niðurhali vegna þeirra aðferða sem notendur beiti til að komast fram hjá þeim aðgangshindrunum. Þessi sjónarmið stefnda samræmast því, sem stefnandi heldur fram og dómurinn fellst á, að réttarbrotin séu jafnframt yfirvofandi í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Stefndi vísar til sænskra tilvika og telur að stefnandi hafi átt annarra kosta völ en að beina kröfu um lögbann að stefnda. Ekki liggur fyrir hverjir eru ábyrgðarmenn vegna reksturs vefsíðnanna thepiratebay.se og deildu.net en þær vefsíður munu vera skráðar erlendis. Hefur ekki tekist að upplýsa það, þrátt fyrir ítarlega lögreglurannsókn, svo sem ríkissaksóknari hefur staðfest, að þar kunni að vera að finna aðila sem íslensk lögsaga nái til. Hefur stefnanda verið ókleift að krefjast þess af rekstraraðilum vefsíðnanna að þeir láti af rekstri þeirra eða beina til þeirra bótakröfum, enda eru þeir óþekktir. Stefndi bendir á að beina beri tilkynningum um brot gegn höfundarétti til fyrirtækisins Cloudflare sem hýsi síðurnar deildu.net og iceland.pm. Dómurinn telur Cloudflare ekki vera hýsingarþjónustu, heldur víðtækt net sem er fyrst og fremst byggt til að verja síður og hýsingaraðila fyrir netárásum og feli þannig í raun hýsingaraðilann á bak við eigið net. Við meðferð málsins hefur stefnandi lagt fram gögn um tilraunir sínar til þess að fá Cloudflare til aðstoðar í viðleitni sinni til að stemma stigu við ólögmætri starfsemi á vefsíðunum. Samkvæmt þeim gögnum er þar ekki aðstoð að fá sem komi að gagni. Verður að þessu virtu ekki talið að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna stefnanda tryggi þá nægilega í skilningi 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Við þær aðstæður var lögbann hjá stefnda viðeigandi úrræði til að sporna gegn notkun á vefsíðunum.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi takmarkaða hagsmuni af lögbanninu í samanburði við hagsmuni stefnda og því standi ákvæði 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því í vegi að leggja hafi mátt það á. Stefndi heldur því fram að sú aðferð sem nú sé beitt við lokun, að loka fyrir DNS-aðgang, hafi neikvæð áhrif á þjónustustig og netöryggi. Í lögbannsgerðinni sem krafist er staðfestingar á í máli þessu er ekki mælt fyrir um það með hvaða aðferð aðgangi að vefsvæðunum skuli loka og á stefndi því um það nokkurt val, en ætlast verður til þess að beitt sé þeim aðferðum sem komi að notum á hverjum tíma. Í málatilbúnaði stefnanda kemur fram að hann telji rétt að stefndi hafi frjálsar hendur um það hvaða aðferðum hann beiti til að hlíta lögbanninu. Aðrar þekktar aðferðir til að loka fyrir aðgengi að síðunum sem vísa á höfundarvarið efni en umrædd DNS-lokun eru t.d. „IP-tölu lokun“ og „Rýnt í innihaldið“ (e. deep packet inspection).

Tekið er undir sjónarmið stefnda um að DNS-lokun geti fylgt meiri kostnaður vegna aukinnar útlandaumferðar og minni gæði þjónustunnar vegna aukins svartíma. DNS-lokun er aðferð sem geti hvatt notendur til að breyta stillingum sínum þannig að öryggi notenda á internetinu minnki. Til lengri framtíðar er DNS-lokun, að mati sérfróðra meðdómenda, ósamrýmanleg þróun netsins til öruggari DNS-þjónustu og fer gegn heildaruppbyggingu netsins. DNS-lokun sé í besta falli lausn til skamms tíma sem geti leitt til þess að uppbygging internetsins sé ekki eins og best verður á kosið (e.optimal) hvað varðar hagkvæma og skjóta efnisdreifingu. IP-tölu lokun sé tæknilega einföld aðgerð og á færi smærri fjarskiptafélaga ef IP-tölur breytast ekki mjög oft. Margar vefsíður geti þó legið að baki sömu IP-tölu og kynni því að verða lokað á einhverjar löglegar vefsíður sé aðferðinni beitt, en með IP-tölu lokun megi loka með afgerandi hætti á viðkomandi síður. Hún sé því tæknilega möguleg en hafi ýmsa annmarka, sérstaklega þann að um bein inngrip í fjarskiptaumferð væri að ræða. Hjáleiðir eins og staðgengilssíður (e.proxy) muni vera fyrir hendi en þeim megi líka loka með IP-tölu lokun. Þriðja aðferðin sem að framan er nefnd, að rýna í innihaldið, felur í sér eftirlit með netnotkun notenda, ásamt því að vera mjög kostnaðarsöm, og kæmi því vart til álita séu önnur úrræði tiltæk.

Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á að það hafi verið mjög íþyngjandi fyrir stefnda að loka aðgangi að umræddum vefsvæðum með DNS-lokun. Það er aðgerð sem gerð er einu sinni og að mati sérfróðra meðdómenda ættu sérfræðingar á þessu sviði að vera nokkuð fljótir að framkvæma innleiðinguna. Því er hafnað að mikil vinna fylgi því að innleiða DNS-lokun og vega þær röksemdir stefnda að lögbannið leggist vegna smæðar fyrirtækisins þyngra á hann en á stærri fjarskiptafyrirtæki ekki þungt í þessu sambandi. Það er mat dómsins að meðalhófs sé gætt með því að stefndi eigi val um aðferð og að þær aðrar aðferðir sem nú kæmi til greina að beita til að framfylgja lögbanninu en DNS-lokun væru meira íþyngjandi fyrir stefnda og viðskiptamenn hans. Aðgerðir sem þessar munu sennilega aldrei loka alveg fyrir síður sem opna á niðurhal höfundavarins efnis en hafa vissulega truflandi áhrif. Þótt viðskiptamenn stefnda kunni að geta farið fram hjá lokun á vefsvæðunum, t.d. með notkun staðgengilsþjónustu, hefur ekki verið sýnt fram á að lögbannið, sem lagt var á til að sporna gegn ólögmætri háttsemi, sé tilgangslaust með öllu.

Þykir nægilega sýnt fram á að stefnandi og umbjóðendur hans hafi af því lögvarða hagsmuni að stemmt sé stigu við notkun umræddra vefsíðna með takmörkun á aðgangi viðskiptamanna stefnda að þeim, enda þótt ekki verði með staðfestingu lögbanns komið í veg fyrir starfrækslu þeirra. Að virtum hagsmunum aðila stendur 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því ekki í vegi að lögbannið verði staðfest. Lagaskilyrði þykja samkvæmt framangreindu hafa verið fyrir hendi til að lögbann yrði lagt við því, að stefndi veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að hinum umdeildu vefsíðum, sbr. 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum.

Að öllu framangreindu virtu verður fallist á kröfu stefnanda um staðfestingu þess lögbanns sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 23. október 2015 við því að stefndi veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum deildu.net, deildu.com, iceland.pm, icetracker.org, afghanpirate.com, deildu.eu, thepiratebay.se, thepiratebay.sx, og thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framan nafn vefsíðnanna eða ekki.

Aðilar krefjast hvor um sig málskostnaðar úr hendi hins. Þó að með dómi þessum sé fallist á endanlegar kröfur stefnanda er til þess að líta við ákvörðun um málskostnað að við meðferð málsins hefur stefnandi dregið úr upphaflegum dómkröfum sínum. Meirihluti dómenda telur að réttmætar röksemdir stefnda, m.a. um tæknilega vankanta á því að framfylgja lögbanninu, séu til marks um það að veruleg vafaatriði hafi verið í málinu. Að þessu virtu, og eftir atvikum, þykir rétt að málskostnaður falli niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Dóm þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt sérfróðu meðdómsmönnunum Birni Jónssyni, rafmagnsverkfræðingi og tölvunarfræðingi, og Erni Orrasyni fjarskiptaverkfræðingi.

D Ó M S O R Ð

Staðfest er lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 23. október 2015 við því að stefndi, Hringiðan ehf./Vortex inc, veiti viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framan nafn vefsíðnanna eða ekki.

Viðurkennt er að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www.thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org.

Málskostnaður fellur niður.