Print

Mál nr. 758/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Sigurður Freyr Sigurðsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
Reifun

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. desember 2017  klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og a. liðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Samkvæmt fyrrgreinda ákvæðinu verður sakborningur aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald ef fram er kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Fallist er á með héraðsdómi að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um brot gegn XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þannig að fullnægt sé fyrra skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi. Á hinn bóginn er til þess að líta að nú hefur verið tekin skýrsla af brotaþola og allsendis óljóst af kröfugerð sóknaraðila hvaða frekari vitnaskýrslur á eftir að taka þannig að varnaraðili geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Að þessu virtu verður ekki talið að rannsóknarhagsmunir standi til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016 er heimilt að handtaka útlending og færa hann í gæsluvarðhald ef ekki liggur fyrir hver útlendingurinn er, hann neitar að gefa upp hver hann er eða ef rökstuddur grunur er um að hann gefi rangar upplýsingar um hver hann er. Sóknaraðili kveðst hafa upplýsingar um að varnaraðili sé mögulega ekki sá sem hann kveðist vera, án þess að nokkur gögn um þá staðhæfingu liggi fyrir í málinu. Hefur sóknaraðili þannig ekki sýnt fram á að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa gefið rangar upplýsingar um hver hann er þannig að fullnægt sé framangreindu skilyrði til að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2017.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 15. desember nk. kl. 16:00

                Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að kærði, X, liggi undir rökstuddum grun um að hafa veist að A á dvalarstað sínum að [...] í Reykjavík og tekið hana kyrkingartaki og þrengt þannig að öndunarvegi hennar með þeim afleiðingum að hún hafi misst meðvitund.

                Lögregla hafi komið á vettvang laust eftir kl. 05:00 í morgun og hafi þar brotaþoli tekið á móti þeim. Hafi hún verið í miklu uppnámi og hafi tjáð lögreglu að kærði hefði kyrkt hana. Kærði hafi gefið sig svo fram á vettvangi og hafi í kjölfarið verið handtekinn.

                Enn eigi eftir að taka skýrslu af brotaþola og einnig öðrum mögulegum vitnum. Þá hafi lögreglu borist upplýsingar um að kærði sé mögulega ekki sá sem hann kveðst vera, en lögregla hafi undir höndum vegabréf sem virðist vera í eigu kærða. Þar komi fram að hann heiti [...] og sé ríkisborgari [...]l, en kærði sé með dvalarleyfi hér á landi sem ríkisborgari [...]. Samkvæmt sama vegabréfi sé kærði einnig sex árum eldri en hann kveðst vera.

                Það er mat lögreglu að verði kærði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málanna, svo sem með því hafa áhrif á framburð vitna. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að rannsaka málið án hættu á að kærði getið spillt rannsókn þess og einnig til að lögreglan geti komist að því hver kærði í raun sé.

                Þá skal tekið fram að kærði sé einnig grunaður í öðru máli að hafa tekið brotaþola kyrkingartaki þann 20. nóvember sl. og sé það til rannsóknar hjá lögreglu.

                Sakarefni málsins sé talið varða við 211., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það er því brýnt og nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærða verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og a. liðar 1. mgr. 115. gr. útlendingalaga gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Niðurstaða:

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins er á það fallist að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur fangelsisrefsingu. Þá hefur lögreglan upplýsingar um að kærði sé mögulega ekki sá sem hann kveðst vera. Lögreglan hefur undir höndum vegabréf sem virðist vera í eigu kærða. Komi þar fram að hann heiti [...] og sé ríkisborgari [...], en kærði er með dvalarleyfi hér á landi sem ríkisborgari [...]. Samkvæmt sama vegabréfi er kærði einnig sex árum eldri en hann kveðst vera. Því er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hann gefi rangar upplýsingar um hver hann sé.

Rannsókn málsins er á frumstigi en enn á eftir að taka skýrslu af brotaþola og mögulega fleiri vitnum. Fallist er á að aðstæður séu þannig að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða koma undan gögnum, fái hann að ganga laus. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála og a liðar 1. mgr. 115. gr. nr. 80/2016 um útlendinga er því fullnægt. Því er fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 15. desember nk. kl. 16:00.