Print

Mál nr. 30/2018

Gísli Reynisson (Reimar Pétursson lögmaður)
gegn
ríkissaksóknara (Einar Karl Hallvarðsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Dómstóll
  • Ákæruvald
  • Stjórnarskrá
  • Hæfi stjórnvalds
Reifun

G höfðaði mál og krafðist ógildingar á þeirri ákvörðun R að hætt skyldi lögreglurannsókn á ætluðum brotum æðstu embættismanna Seðlabanka Íslands gegn 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Héraðsdómur tók kröfu G til greina og áfrýjaði R þeirri niðurstöðu til Landsréttar. Landsréttur vísaði málinu frá héraðsdómi á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, með vísan til þess að ákvarðanir R um að hefja eða hætta lögreglurannsókn væru hluti af valdheimildum sem embættinu væru fengnar að lögum og þess eðlis að þær gætu ekki sætt endurskoðun dómstóla. G kærði þá niðurstöðu til Hæstaréttar sem vísaði meðal annars til þess að það væri á færi dómstóla að taka afstöðu til þess við úrlausn sakamáls hvort ákæranda hefði verið rétt að höfða það á grundvelli fyrirliggjandi lögreglurannsóknar. Á hinn bóginn gæti ekki, að virtum meginreglum um þrígreiningu ríkisvaldsins og verkaskiptingu ákæruvaldsins og dómstóla, komið í þeirra hlut að hrinda ákvörðun ákæranda um að mæla ekki fyrir um lögreglurannsókn eða láta ekki verða af saksókn af efnislegum ástæðum. Yrði því að binda heimildir til slíkrar endurskoðunar, sem styddust við 60. gr. stjórnarskrárinnar, við atriði sem vörðuðu formhlið máls og þá eingöngu til að kveða á um gildi ákvörðunar. Á þeim grunni hefði Landsrétti því verið rétt að taka afstöðu til þess hvort starfsmanni þeim sem tók ákvörðunina um að rannsókninni skyldi hætt hefði brostið til þess hæfi en vísa málinu að því frágengnu frá héraðsdómi. Með því að hvorki saksóknarinn sem tók ákvörðunina né forstöðumaður R töldust hafa verið vanhæf, var niðurstaða Landsréttar um frávísun málsins staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2018 en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 16. nóvember 2018 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti Seðlabanki Íslands 11. nóvember 2009 Fjármálaeftirlitinu í samræmi við þágildandi ákvæði laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál að grunur væri uppi um að sænskt félag með heitinu Aserta AB og fjórir nafngreindir menn, þar á meðal sóknaraðili, hafi brotið á nánar tiltekinn hátt gegn þeim lögum og reglum nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál, en þær hafði bankinn gefið út 15. desember 2008 og fengið birtar í B-deild Stjórnartíðinda 16. sama mánaðar. Á grundvelli þessarar tilkynningar sendi Fjármálaeftirlitið kæru 19. nóvember 2009 til þáverandi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra sem tók málið til rannsóknar í janúar 2010. Í framhaldi af því að lög nr. 82/2011 öðluðust gildi 1. september 2011 tók embætti sérstaks saksóknara við rannsókn málsins og gaf að henni lokinni út ákæru 22. mars 2013 á hendur sóknaraðila og þeim þremur mönnum öðrum sem áður var getið. Þar voru þeir bornir sökum um nánar tilgreind brot gegn lögum nr. 87/1992 og almennum hegningarlögum nr. 19/1940, svo og reglum um gjaldeyrismál, þar á meðal fyrrnefndum reglum nr. 1130/2008.

Undir rekstri framangreinds máls fyrir héraðsdómi leitaði embætti sérstaks saksóknara að gefnu tilefni upplýsinga Seðlabanka Íslands um hvernig aflað hafi verið þess samþykkis ráðherra fyrir setningu reglna nr. 1130/2008 sem áskilið var í ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 87/1992, svo sem þeim hafði verið breytt með lögum nr. 134/2008. Samkvæmt svari bankans 27. janúar 2014 fannst engin formleg staðfesting ráðherra á reglum þessum. Í framhaldi af því mun ákæruvaldið hafa fallið frá sakargiftum sem vörðuðu brot gegn reglum nr. 1130/2008 en haldið málinu að öðru leyti áfram í óbreyttu horfi. Sóknaraðili var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins 18. desember 2014 með héraðsdómi sem ríkissaksóknari áfrýjaði 14. janúar 2015 en málið felldi hann síðan niður fyrir Hæstarétti 19. febrúar 2016.

Með bréfi 14. október 2016 krafðist sóknaraðili þess að fram færi „opinber rannsókn á því hvort æðstu embættismenn Seðlabanka Íslands kunni að hafa gerst brotlegir við 148. gr. almennra hegningarlaga ... með því að tilkynna að tilhæfulausu meint brot“ sóknaraðila gegn reglum nr. 1130/2008 til Fjármálaeftirlitsins „með það fyrir augum að eftirlitið myndi kæra þau til lögreglu“. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti sóknaraðila með bréfi 11. nóvember 2016 að það væri mat lögreglu að ekki væru skilyrði til að hefja rannsókn sakamáls af þessu tilefni. Í því sambandi var vísað til þess að ekki væru „fyrir hendi nægilegar vísbendingar um að æðstu embættismenn seðlabankans hafi af ásetningi skýrt ranglega frá atvikum í málinu“ og borið þannig sóknaraðila „röngum sökum í því skyni að hann yrði sakaður eða dæmdur saklaus fyrir refsiverðan verknað.“ Kærunni var af þessum sökum vísað frá samkvæmt 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili kærði þessa ákvörðun lögreglustjóra til varnaraðila sem staðfesti hana að niðurstöðu til 21. febrúar 2017.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta 3. mars 2017 og krafðist þess að framangreind ákvörðun varnaraðila yrði ógilt. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2018 var sú krafa tekin til greina og sóknaraðila dæmdur málskostnaður. Varnaraðili áfrýjaði dóminum 16. mars 2018 en með hinum kærða dómi varð Landsréttur við aðalkröfu hans um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi.

II

Samkvæmt 52. gr. laga nr. 88/2008 hefur lögregla á hendi rannsókn sakamáls undir stjórn héraðssaksóknara eða lögreglustjóra og skal lögregla hefja slíka rannsókn hvenær sem þess er þörf út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið. Hafi kæra borist um brot getur lögregla vísað henni frá ef ekki eru talin efni til að hefja rannsókn út af henni, svo sem ef hún þykir ekki vera á rökum reist, en ákvörðun um það má kæra til varnaraðila sem mælir þá fyrir um hvort rannsókn fari fram. Ákvæði þessi eru reist á þeirri grunnreglu að það sé hlutverk lögreglu og ákærenda að gæta að því að rannsókn fari fram ef grunur er uppi um refsiverða háttsemi og þá án tillits til þess hvort kæra hefur verið borin fram vegna hennar nema því aðeins að saksókn sé háð kröfu brotaþola. Í þessu ljósi verður að virða heimild þess sem á hagsmuna að gæta til að skjóta til varnaraðila ákvörðun lögreglu um að hefja ekki rannsókn í tilefni af kæru, sbr. 6. mgr. fyrrnefndrar lagagreinar.

Þegar metið er hvort heimild geti að lögum staðið til þess að brotaþoli eða annar sá sem á hagsmuna að gæta geti frekar en að framan greinir hlutast til um að lögreglurannsókn fari fram á grundvelli kæru, eftir atvikum með málsókn, verður að gæta að því að samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 hefur lögreglurannsókn það markmið að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé að henni lokinni fært að ákveða hvort sækja skuli mann til sakar, svo og til að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi. Á færi dómstóla er að taka afstöðu til þess við úrlausn sakamáls hvort ákæranda hafi verið rétt að höfða það á grundvelli fyrirliggjandi lögreglurannsóknar. Á hinn bóginn getur ekki að virtum meginreglum um þrígreiningu ríkisvaldsins og verkaskiptingu ákæruvaldsins og dómstóla komið í hlut þeirra að hrinda ákvörðun ákæranda um að mæla ekki fyrir um lögreglurannsókn eða láta ekki verða af saksókn af efnislegum ástæðum. Verður að binda heimildir til slíkrar endurskoðunar, sem styðjast við 60. gr. stjórnarskrárinnar, við atriði sem varða formhlið máls og þá eingöngu til að kveða á um gildi ákvörðunar. Á þessum grunni var Landsrétti í hinum kærða dómi rétt að taka afstöðu til þess hvort starfsmann varnaraðila, sem tók fyrrnefnda ákvörðun 21. febrúar 2017, hafi brostið til þess hæfi samkvæmt 1. mgr. 26. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 88/2008, en vísa að því frágengnu málinu frá héraðsdómi samkvæmt niðurlagsorðum fyrri málsliðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 8. maí 2008 í máli nr. 207/2008.

III

Daði Kristjánsson, þáverandi saksóknari hjá varnaraðila, stóð að ákvörðuninni 21. febrúar 2017 sem mál þetta varðar og bar ríkissaksóknari, Sigríður J. Friðjónsdóttir, ábyrgð á henni samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 88/2008. Fyrir liggur eftir gögnum málsins að ríkissaksóknari var við störf á því tímabili sem ákvörðunin var tekin og kom því ekki til kasta vararíkissaksóknara, Helga Magnúsar Gunnarssonar, að gegna þá verkum ríkissaksóknara sem staðgengill hennar. Þótt sóknaraðili telji, eins og greinir í hinum kærða dómi, að vararíkissaksóknari hafi gert á sinn hlut í fyrra starfi sem saksóknari við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra á þeim tíma sem mál sóknaraðila var þar til meðferðar geta hvorki starfstengslin ein milli vararíkissaksóknara og saksóknarans eða ríkissaksóknara né eðli þessara ávirðinga hafa valdið vanhæfi þeirra tveggja síðastnefndu til að taka ákvörðunina 21. febrúar 2017. Að þessu gættu verður niðurstaða hins kærða dóms staðfest.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði dómur skal vera óraskaður.

Sóknaraðili, Gísli Reynisson, greiði varnaraðila, ríkissaksóknara, 500.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Dómur Landsréttar 16. nóvember 2018.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Kristbjörg Stephensen og Ragnheiður Bragadóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

  1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 14. mars 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. sama mánaðar í málinu nr. E-767/2017.

  2        Áfrýjandi krefst þess að úrskurður héraðsdóms 20. september 2017 verði felldur úr gildi og að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt þannig að áfrýjandi verði sýknaður af öllum kröfum stefnda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Landsrétti.

  3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Málsatvik

  4        Málsatvik eru ítarlega rakin í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram hefur stefndi krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun áfrýjanda um að vísa frá kæru stefnda, þar sem hann krafðist rannsóknar á ætlaðri saknæmri háttsemi æðstu embættismanna Seðlabanka Íslands.

  5        Með úrskurði héraðsdóms 20. september 2017 var hafnað kröfu áfrýjanda um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi. Gerði héraðsdómari munnlega grein fyrir forsendum niðurstöðu sinnar með vísan til 3. málsliðar 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en færði jafnframt til bókar forsendur sínar. Áfrýjandi krefst endurskoðunar þess úrskurðar fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

  6        Stefndi byggir kröfu sína um ógildingu ákvörðunar ríkissaksóknara 21. febrúar 2017 annars vegar á því að sá saksóknari sem tók ákvörðunina hafi verið vanhæfur til afgreiðslu málsins þar sem ,,vararíkissaksóknari er a.m.k. vitni í málinu og við það riðinn með afar sérstökum hætti“. Sá saksóknari sem tekið hafi ákvörðunina hafi verið undirmaður vararíkissaksóknara og náinn samstarfsmaður hans. Því séu réttmætar ástæður fyrir hendi í málinu til þess að efast um hæfi hans, sbr. 26. gr. og 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hins vegar byggir stefndi kröfu sína um ógildingu ákvörðunarinnar á því að sú lögskýring sem ríkissaksóknari hafi lagt til grundvallar ákvörðun sinni hafi ekki verið tæk.

  7        Í 26. gr. laga nr. 88/2008 greinir að ef ríkissaksóknari er vanhæfur til að fara með mál sem dómari, samkvæmt 6. gr. laganna, skuli hann víkja sæti. Í 6. gr. er í stafliðum a-g 1. mgr. og í 2. mgr. tilgreindar ástæður sem valdið geta vanhæfi dómara. Af hálfu stefnda er á því byggt að sá saksóknari sem tók hina umdeildu ákvörðun hafi  verið vanhæfur þar sem vararíkissaksóknari, Helgi Magnús Gunnarsson, hafi beitt stefnda þvingunaraðgerðum við rannsókn málsins auk þess sem hann hafi tjáð sig á blaðamannafundi um ætlað brot stefnda með þeim hætti að sakir sem á hann voru bornar væru sannaðar. Af hálfu stefnda er ekki vísað til ákveðins stafliðar 6. gr. laganna í þessu sambandi en ætla má í ljósi framangreinds að hann byggi á g-lið 6. gr. þar sem kveðið er á um vanhæfi dómara ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður, en þær sem greinir í a-f liðum, sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa.

  8        Þegar saksóknarinn tók hina umþrættu ákvörðun 21. febrúar 2017 var Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 88/2008 er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds og ber hann ábyrgð á ákvörðunum þeirra sem við embætti hans starfa. Ágreiningslaust er að á þeim tíma sem hin umdeilda ákvörðun var tekin starfaði vararíkissaksóknari, Helgi Magnús Gunnarson, ekki sem staðgengill ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari bar samkvæmt framangreindu ein ábyrgð á þeirri ákvörðun sem til umfjöllunar er í máli þessu. Ekki hefur verið sýnt fram á að fyrir hendi hafi verið aðstæður eða atvik, sem hafi verið til þess fallin að draga óhlutdrægni hennar í efa eða þess saksóknara sem tók ákvörðunina. Breytir í því sambandi engu að vararíkissaksóknarinn, sem þá var saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, hafi á blaðamannafundi í lok janúar 2010 tjáð sig um málefni stefnda, enda gat sá saksóknari sem tók hina umdeildu ákvörðun ekki orðið vanhæfur til þess að fara með málið af þeirri ástæðu einni að það varðaði persónu, störf eða hagsmuni annars saksóknara, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. nóvember 2002 í máli nr. 487/2002.

  9        Krafa áfrýjanda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi er á því reist að ákvörðun sú sem um er deilt sé þess eðlis að hún sæti ekki endurskoðun dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi kveður kröfu sína um ógildingu ákvörðunarinnar á hinn bóginn byggjast á því að hann hafi hagsmuni af því að rannsókn á ætluðum brotum æðstu embættismanna Seðlabanka Íslands fari fram. Virk refsivarsla sé forsenda fyrir vernd hans samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 2. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979 og 8. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

10      Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og við meðferð ákæruvalds er hann óháður vilja stjórnvalda og annarra, en ráðherra hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 88/2008. Af þessu lagaákvæði verður ráðið að engum er ætlað að hafa áhrif á einstakar ákvarðanir ríkissaksóknara í tengslum við framkvæmd ákæruvalds, hvorki ákvarðanir um að hefja eða hætta lögreglurannsókn né að gefa út ákæru, enda eru þessar ákvarðanir hans hluti af valdheimildum sem honum eru fengnar að lögum og þess eðlis að þær geta ekki sætt endurskoðun dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Þessum ályktunum verður einkum fundin stoð í dómi Hæstaréttar 8. maí 2008 í máli nr. 207/2008 en einnig í dómum réttarins 29. nóvember 2001 í máli nr. 178/2001 og 7. febrúar 2013 í máli nr. 74/2012. Eru engin efni til að víkja frá þessum fordæmum Hæstaréttar. Verður því fallist á kröfu áfrýjanda um að fella beri úrskurð héraðsdóms 20. september 2017 úr gildi og vísa málinu frá héraðsdómi.

11      Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.

Dómsorð:

        Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

       Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður.

 

D Ó M U R

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 3. mars 2017 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 9. febrúar sl. Stefnandi er Gísli Reynisson, Lindarflöt 26, Garðabæ. Stefndi er ríkissaksóknari, Suðurlandsbraut 4, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að ógilt verði ákvörðun embættis stefnda 21. febrúar 2017 í máli nr. 300-2016-127. Hann krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

                Með úrskurði 20. september 2017 var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

                Með hinni umstefndu ákvörðun tók stefndi afstöðu til kæru stefnanda og annars nafngreinds manns, samkvæmt 6. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, vegna ákvörðunar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 11. nóvember 2016 þar sem hafnað hafði verið kröfu þeirra um að fram færi lögreglurannsókn á því hvort æðstu embættismenn Seðlabanka Íslands hefðu gerst brotlegir við 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um rangar sakargiftir. Var krafan um lögreglurannsókn á því byggð að Seðlabanki Íslands hefði haustið 2009 sakað umrædda menn um brot gegn reglum nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál þótt æðstu embættismönnum bankans hefði verið ljóst frá öndverðu að reglurnar hefðu ekki hlotið lögáskilið samþykki ráðherra og væru því ógild refsiheimild. Seðlabanki Íslands hefði enn fremur látið það viðgangast að fram færi tímafrek lögreglurannsókn, þar sem beitt hefði verið ýmsum þvingunaraðgerðum gegn stefnda, og að gefin væri út ákæra í málinu án þess að veittar væru réttar upplýsingar að þessu leyti, meðal annarra starfsmönnum sérstaks saksóknara. Stefnandi byggir kröfugerð sína í málinu annars vegar á því að ákvörðun stefnda sé reist á rangri skýringu á 148. gr. hegningarlaga, en hins vegar hafi sá saksóknari sem tók ákvörðunina fyrir hönd stefnda verið vanhæfur til töku hennar. Báðum málsástæðum er mótmælt af hálfu stefnda.

                Tildrög málsins eru þau að með lögum nr. 134/2008, sem breyttu lög­um nr. 87/1992 um gjald­eyris­mál, var Seðlabanka Íslands heimilað að gefa út reglur, að fengnu samþykki ráð­herra, sem takmörkuðu eða stöðvuðu tiltekna flokka fjár­magns­­­­­hreyfinga og tengdra gjald­eyrisviðskipta, að nánari skilyrðum uppfylltum. Hinn 15. desember 2008 gaf bankinn út reglur nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál sem námu úr gildi fyrri reglur um sama efni. Reglurnar voru birtar samdægurs í B-deild Stjórnar­­tíðinda. Í frétta­tilkynningu kom fram að hinar nýju reglur væru gefnar út að fengnu samþykki við­­skipta­­ráðherra. Í málinu er hins vegar ágreiningslaust að slíkt samþykki ráðherra lá þá ekki fyrir.

                Með bréfi 11. nóvember 2009 tilkynnti Seðlabanki Íslands Fjármála­eftir­litinu, samkvæmt 15. gr. a í lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, grun um brot fjögurra nafngreindra manna, þ.á m. stefnanda, sem allir tengdust tilteknu erlendu félagi, gegn meðal annars 4. mgr. 1. gr. reglna nr. 1130/2008. Í ljósi úrlausnar málsins eru ekki efni til þess að reifa nánara efni tilkynningarinnar. Í framhaldinu hóf efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rann­sókn saka­máls á grundvelli tilkynningarinnar og var yfirmaður rannsóknarinnar Helgi Magnús Gunnarsson, síðar vararíkissaksóknari. Mun við rannsóknina hafa verið beitt þvingunarúrræðum, svo sem húsleit, handtöku, öflun símagagna og kyrrsetningu. Við upphaf rannsóknarinnar 29. sama mánaðar var haldinn blaðamannafundur um málið þar sem téður Helgi Magnús tjáði sig meðal annars um málið ásamt fulltrúum Seðlabanka Íslands.

                Hinn 22. mars 2013 var gefin út ákæra gegn stefnanda og þremur öðrum mönnum. Í ákærunni voru ákærðu meðal annars gefin að sök brot gegn reglum nr. 1130/2008. Eftir útgáfu ákærunnar mun að nýju hafa hafa farið fram kyrrsetning á eignum stefnanda. Í framhaldi af athugun sérstaks saksóknara á því hvort téðar reglur hefðu verið samþykktar af ráðherra var ákveðið að falla frá ákæruatriðum er vörðuðu meint brot gegn reglunum. Stefnandi og aðrir ákærðu í málinu voru sýknaðir af öðrum liðum ákæru með dómi Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2014. Þeim dómi skaut sérstakur saksóknari til Hæstaréttar en hann féll síðan frá áfrýjun málsins 19. febrúar 2016.

                Áðurgreind kæra til lögreglunnar 14. október 2016 var á því byggð að starfsmenn og æðstu stjórnendur Seðlabanka Íslands hefðu sýnt af sér refsiverða háttsemi gagnvart kærendum. Seðlabanki Íslands hefði ítrekað gefið ýmist rangar eða villandi upp­­­­­­­­­lýsingar um tilvist samþykkis ráðherra við reglur nr. 1130/2008 þrátt fyrir fjöl­margar ábendingar um hið gagnstæða. Í tilkynningu bankans 11. nóvember 2009 hefði í reynd falist slík yfirlýsing bankans. Hið sama mætti segja um upplýsingar sem bankinn hefði veitt embætti sérstaks saksóknara munnlega haustið 2011 og svör sem veitt hefðu verið umboðsmanni Alþingis. Hefði þetta einnig átt við um tölvupóst aðal­lögfræðings Seðlabankans til saksóknarfulltrúa við embætti sérstaks saksóknara 12. nóvember 2013 þar sem aðallögfræðingurinn hefði haldið því fram að samþykki ráðherra væri fyrir hendi og vísað til bréfs ráðherra 12. desember 2008. Hefðu stjórnendur bankans með þessu brotið gegn 148. gr. hegningarlaga. Einnig var vísað til þess að með því að láta það farast fyrir að gefa að eigin frumkvæði réttar upplýsingar eftir tilkynninguna 15. nóvember 2009 hefðu stjórnendur bankans komið því til leiðar „á annan hátt“ að stefnandi yrði ranglega sakaður um refsiverðan verknað. Var vísað til þess að 148. gr. hegningarlaga áskilji ekki að slíkar sakir komi fram heldur sé nægjanlegt að hætta sé á slíku. Í máli kærenda hefði slík hætta ekki aðeins verið fyrir hendi heldur hefði hún raungerst með því að kærendur hefðu orðið að þola kæru frá Fjármálaeftirlitinu og svo ákæru, allt á grundvelli tilhæfulausra ásakana Seðlabanka Íslands.

                Í rökstuðningi fyrrgreindrar ákvörðunar lögreglustjóra 11. nóvember 2016 kom meðal annars fram að hann legði til grundvallar að 148. gr. almennra hegningarlaga áskilji ásetning til verknaðar. Til þess að um rangar sakargiftir sé að ræða í skilningi ákvæðisins þurfi sá er ber mann sökum, t.d. í kæru eða með framburði hjá lögreglu eða fyrir dómi, vísvitandi að fara ranglega með staðreyndir eða atvik máls í því skyni að fá mann sakaðan eða dæmdan fyrir refsi­­verðan verknað. Viðkomandi þurfi jafnframt að vera ljóst að sá sem borinn sé sökum sé saklaus. Það að atvik reynist vera með öðrum hætti en kærandi taldi þau vera eða að háttsemi sem hann telji refsiverða sé ekki refsiverð nægi ekki til sak­fellingar samkvæmt ákvæðinu. Segir að lögreglustjóri telji, með hliðsjón af kærugögnum, að ekki séu fyrir hendi nægilegar vísbendingar um að æðstu embættismenn seðla­bankans hafi af ásetningi skýrt ranglega frá atvikum í málinu og með þeim hætti borið kær­­endur röngum sökum í því skyni að þeir yrðu sakaðir um eða dæmdir fyrir refsiverðan verknað.

                Í hinni umstefndu ákvörðun stefnda eru rakin ákvæði 1. mgr. 53. og 1. málsl. 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála og því slegið föstu að lögreglu sé heimilt að vísa kæru frá, að lok­inni athugun á henni og án eiginlegrar rannsóknar, af þeirri ástæðu að kæran gefi ekki tilefni til þess að kæru­efnið verði rannsakað. Þær ástæður geti verið af ýmsum toga, meðal annars að efni kæru feli ekki í sér lýsingu á refsiverðu broti sem leitt geti til þess að sakamál verði höfðað af ákæruvaldsins hálfu, fyrning sakar o.fl. Þá er í ákvörðuninni rakin 1. mgr. 148. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 101/1976 og 67. gr. laga nr. 82/1998, og tilurð gjaldeyrishafta frá nóvember 2008. Kemur þar fram að samkvæmt bráðabirgða­­ákvæði laga nr. 134/2008 hafi verið áskilið að ráð­­­herra þyrfti að samþykkja reglur um gjald­eyrishömlur sem Seðlabanki Íslands gæfi út og þær skyldu birtar í B-deild Stjórnar­tíðinda. Þá segir eftirfarandi: „Sam­þykki ráðherra reyndist ekki vera fyrir reglum nr. 1130/2008 þrátt fyrir út­gáfu þeirra og birtingu í Stjórnar­tíðindum. Ákæru­valdið hefur lagt til grund­vallar í sakamáli á hendur kær­endum o.fl. að umræddar reglur nr. 1130/2008 hafi ekki verið fullnægjandi sem refsi­heimild þar sem skort hafi samþykki ráð­herra fyrir þeim. [/] Refsiábyrgð vegna brots gegn 148. gr. almennra hegningarlaga kemur aðeins til álita að uppfyllt séu hlutlæg og huglæg refsiskilyrði sem fram koma í verknaðarlýsingu ákvæðisins, auk almennra refsiskilyrða. Í verknaðarlýsingu 1. mgr. 148. gr. almennra hegn­ingar­­laga er meðal annars áskilið að maður sé sakaður um “refsi­­­verðan verknað„. Þar sem reglur nr. 1130/2008 voru ekki fullgild refsiheimild varðandi þá háttsemi sem kærendum var gefið að sök þá verður að leggja til grundvallar að sú háttsemi hafi verið þeim refsilaus á þeim tíma sem um ræðir. Er því ekki uppfyllt hlutrænt skil­yrði 148. gr. almennra hegningar­laga um “refsi­verðan verknað„ og þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til álita að hefja rannsókn á slíku broti sem kæra kærenda tekur til.“ Í ákvörðun stefnda er því næst tekið til skoðunar hvort til greina komi að hefja lögreglurannsókn vegna ætlaðra brota gegn 141. eða 146. gr. hegningarlaga en komist að þeirri niðurstöðu að slík ætluð sök sé fyrnd. Þá segir í ákvörðuninni: „Með þessum athugasemdum verður hin kærða ákvörðun staðfest.“ Í ályktarorðum ákvörðunarinnar segir: „Ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 11. nóvember 2016, að vísa frá kæru í máli nr. 300-2016-127, er staðfest.“. Ákvörðunin er undirrituð af Daða Kristjánssyni saksóknara 21. febrúar 2017.

                Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu sem vitni Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, og Hreiðar Eiríksson, fyrrverandi starfsmaður gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi vísar til þess að leggja beri til grundvallar að grunur sé uppi um að stefnandi hafi verið hafður fyrir rangri sök af hálfu æðstu embættismanna Seðlabanka Íslands, enda segi í ákvörðun ríkissaksóknara að upplýsingagjöf bankans „hafi verið áfátt“. Lögreglu hafi samkvæmt þessu verið skylt að hefja rannsókn málsins, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008. Kröfugerð stefnanda sé liður í að knýja á um að slík rannsókn fari fram. Af þessu hafi stefnandi lögvarða hagsmuni. Virk refsivarsla, sem stefnandi fari fram á, sé forsenda fyrir vernd stefnanda samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hún sé einnig forsenda fyrir vernd hans gegn beitingu þvingunarráðstafana að ósekju sem takmarki rétt borgaranna samkvæmt 67., 71. og 72. gr. stjórnarskrár og 5., 8. gr. og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.

                Stefnandi telur þetta eiga sérstaklega við þegar ásakanir eigi rætur að rekja til opinberra embættismanna vegna þess vægis sem yfirlýsingar embættismanna hafi alla jafnan, sbr. 4. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 og áskilnað 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um raunhæf réttarúrræði þegar opinberir embættismenn hafi gerst brotlegir.

                Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu í fyrsta lagi á því að skýring embættisins á 148. gr. almennra hegningarlaga standist enga skoðun. Lögskýringin feli að mati stefnanda í sér svokallaða „hringavitleysu.“ Með henni séu opinberir embættismenn undanþegnir refsiábyrgð, jafnvel þótt þeir viðhafi ósannindi gegn betri vitund, svo að borgarar þurfi að þola afar íþyngjandi rannsóknir, ákæru og mögulega dóm, allt fyllilega að ósekju. Slík undanþága frá refsiábyrgð geti aldrei helgast af því að atvikin sem ranglega er greint frá varði grundvöll refsiheimildarinnar sjálfrar. Þegar svo hátti til sé það þvert á móti til þess fallið að gera misgjörðina alvarlegri og refsiverndina mikilvægari. Einnig verði að horfa til þess að lögregla beitti þvingunarúrræðum, með atbeina dómstóla, og sérstakur saksóknari hafi gefið út ákæru fyrir ætluð brot á reglum nr. 1130/2008. Þær aðgerðir lögreglu, ákæruvalds og dómstóla hljóti að hafa grundvallast á þeirri afstöðu að ásökun Seðlabankans væri um „refsiverðan verknað.“ Aðrar útskýringar komi ekki til álita. Stefnandi vísar einnig til refsiþyngingarákvæðis 138. gr. hegningarlaga þegar opinber starfsmaður gerist sekur um refsilagabrot sem telja verði misnotkun á stöðu hans. Grunsemdir um rangan sakaráburð embættismanna verði því ekki léttvægar fundnar.

                Í annan stað byggir stefnandi kröfu sína á því að sá saksóknari sem tók ákvörðunina, Daði Kristjánsson, hafi verið vanhæfur til töku hennar þar sem hann hafi verið undirmaður Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara, sem hafi komið að rannsókn málsins með mjög sérstökum hætti og því verið vanhæfur til meðferðar málsins. Við munnlegan flutning málsins var því einnig hreyft af hálfu stefnanda að embætti stefnda hefði í heild sinni verið vanhæft til meðferðar málsins þar sem téður Helgi Magnús hefði verið yfirmaður þess auk þess sem fyrrverandi ríkissaksóknari hefði komið að rannsókn málsins. Hefði því borið að setja ríkissaksóknara til meðferðar máls stefnanda. Með hliðsjón af úrlausn málsins er ekki ástæða til að rekja nánar málsástæður og lagarök stefnanda um þetta atriði.

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

                Við munnlegan flutning málsins taldi stefndi það hafa þýðingu fyrir málatilbúnað sinn að ákvörðun stefnda væri þess eðlis að hún sætti ekki endurskoðun dómstóla samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og dómaframkvæmd. Í öllu falli væri hér um að ræða þá aðstöðu að endurskoðunarvald dómstóla væri takmarkað. Ákvörðun stefnda væri endanleg og yrði ekki borin undir dómstóla. Væri það ákæruvaldið sem færi með endanlega ákvörðun um það hvort af rannsókn eða saksókn yrði og gæti það ekki átt undir dómstóla að endurskoða þá ákvörðun.

                Að því er varðar lagagrundvöll ákvörðunar stefnda er byggt á sömu ástæðum og færðar eru fram í áðurlýstri ákvörðun stefnda. Stefnda sé heimilt samkvæmt 1. málslið 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 að vísa kæru um brot frá ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn út af henni. Stefndi vísar til þess að ákæruvaldið hafi metið það svo í máli stefnanda að umræddar reglur nr. 1130/2008 hefðu ekki verið fullnægjandi refsiheimild þar sem skort hefði samþykki ráðherra. Afstaða stefnda, sem um sé deilt í málinu, hafi byggt á því að refsiábyrgð brota gegn 148. gr. almennra hegningarlaga komi því aðeins til álita að uppfyllt séu hlutlæg og huglæg refsiskilyrði. Hafi stefndi talið að þar sem reglurnar fyrrnefndu væru ekki gild refsiheimild vegna þeirrar háttsemi sem stefnanda var gefin að sök yrði að leggja til grundvallar að háttsemin hefði verið honum refsilaus. Væri því ekki uppfyllt hlutrænt skilyrði refsingar í ljósi 148. gr. almennra hegningarlaga. Hafi því ekki komið til álita að hefja rannsókn á broti sem kæra stefnanda tók til. Stefndi vísar einnig til þess að hann hafi að eigin frumkvæði tekið til sérstakrar athugunar hvort til greina kæmi að hefja rannsókn á ætluðu broti gegn 141. gr. eða 146. gr. almennra hegningarlaga.

                Stefndi byggir á því að framangreindar ástæður hafi réttilega og að lögum leitt til þess að staðfesta hafi borið ákvörðun lögreglustjóra um að vísa kærunni frá. Lögreglu hafi því ekki verið skylt að hefja rannsókn eða stefnda að mæla fyrir um hana á grundvelli 52. gr. laga nr. 88/2008. Hin ætluðu brot sæti ákæru og rannsókn ef skilyrði eru til. Ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, tryggi ekki rétt stefnanda til að knýja á um rannsókn ef ákæruvaldið telur ekki skilyrði til. Hafnar stefndi því einnig að önnur tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár og sáttmálans í stefnu styðji kröfur stefnanda.

                Stefndi hafnar því að Daði Kristjánsson saksóknari hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins hjá stefnda. Því er sérstaklega mótmælt að ákvörðunin hafi verið tekin í skjóli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara sem komið hafi að rannsókn á fyrri stigum enda hafi skipaður ríkissaksóknari verið við störf á umræddum tíma og vararíkissaksóknari aldrei sinnt starfi sem staðgengill hennar. Við munnlegan flutning málsins hafi sjónarmiðum stefnda um vanhæfi embættis stefnda einnig verið mótmælt sem nýrri málsástæðu sem auk þess skorti heimild í íslenskum lögum. Með hliðsjón af úrlausn málsins þykir ekki ástæða til þess að reifa frekar málsástæður og lagarök stefnda um ætlað vanhæfi þess saksóknara sem fór með málið á vegum stefnda og hugsanlegt ógildi ákvörðunarinnar á þeim grundvelli.

Niðurstaða

                Í máli þessu krefst stefnandi ógildingar þeirrar ákvörðunar stefnda, sem tekin var á grundvelli 6. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með síðari breytingum, að staðfesta ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 11. nóvember 2016 um að hefja ekki sakamálarannsókn í tilefni af kæru stefnanda 14. október það ár. Krafa stefnanda beinist þannig að ákvörðun stefnda, sem er stjórnvald í skilningi 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944, í stjórnsýslumáli sem hann var aðili að. Þótt stefndi njóti sjálfstæðis gagnvart öðrum þáttum framkvæmdavalds og fari með endanlegt ákvörðunarvald um tiltekin efni, sem stjórnvald, er honum ekki falið fullnaðarúrskurðarvald eða ákvarðanir hans undanskildar lögsögu dómstóla með lögum. Hvað sem líður svigrúmi stefnda til mats við meðferð valdheimilda sinna, meðal annars um það hvort hefja skuli lögreglurannsókn vegna gruns um að refsivert brot hafi verið framið, verður ályktun um fullnaðarúrskurðarvald ekki heldur leidd af stöðu stefnda, eðli téðrar ákvörðunar eða ólögfestum sjónarmiðum. Fer dómurinn því með úrskurðarvald samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 60. og 72. gr. stjórnarskrárinnar, um það hvort stefndi hafi farið að lögum við ákvörðun sína og hvort slíkir annmarkar séu á ákvörðuninni, að formi eða efni til, að leiði til ógildis hennar, svo sem á er byggt af stefnanda.

A

Ákvörðun um hefja rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi er í höndum lögreglu, en ríkissaksóknari getur þó gefið lögreglu fyrirmæli um að hefja rannsókn, svo og um nánari framkvæmd rannsóknar, sbr. 1. og 2. mgr. 52. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 47/2015, og 3. mgr. 21. gr. laga nr. 88/2008. Ákvörðun um rannsókn er að jafnaði án tillits til þess hvort kæra hefur borist lögreglu og tekur lögregla ákvörðun um rannsókn án þess að gefa þeim sem í hlut á kost á að tjá sig um þá ákvörðun. Af ákvæðum laga nr. 88/2008, svo og eðli málsins, verður dregin sú ályktun að ákvörðun um rannsókn sakamáls sé ekki einungis háð mati lögreglu á staðreyndum og túlkun refsilaga heldur einnig ýmsum öðrum atriðum, jafnvel efnahagslegum og félagslegum þáttum. Það er ekki í valdi dómsins að taka ákvörðun um lögreglurannsókn eða mæla fyrir um skyldu stjórnvalda til að hefjast handa við slíka rannsókn. Svo sem áður greinir er það hins vegar dómsins að skera úr um hvort stefndi hafi gætt réttra laga við meðferð máls stefnanda og ákvörðun í því, þ.á m. hvort sú túlkun refsilaga sem stefndi reisir niðurstöðu sína á sé tæk.

                Því er áður lýst að hin umdeilda ákvörðun stefnda var grundvölluð á því að stefnandi hefði ekki verið sakaður um refsiverða háttsemi með fyrrgreindri tilkynningu Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins 11. nóvember 2009 þar sem reglur nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál hefðu ekki falið í sér fullnægjandi refsiheimild. Væri því ekki fullnægt því hlutræna skilyrði 148. gr. hegningarlaga að með tilkynningunni, eða öðrum athöfnum og athafnaleysi bankans í framhaldi tilkynningarinnar, hefði stefndi verið sakaður um refsiverðan verknað. Var ákvörðun lögreglustjóra 11. nóvember 2016 staðfest með „þessum athugasemdum“ án þess að tekin væri rökstudd afstaða til efnislegs rökstuðnings lögreglustjóra fyrir því að hafna kæru stefnanda.

B

Með 148. gr. hegningarlaga er lögð refsing við því að koma því til leiðar, með rangri kæru, röngum framburði, rangfærslu eða undanskoti gagna, öflun falsgagna eða á annan hátt, að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Samkvæmt framangreindu getur ekki farið á milli mála að nægilegt er til fullframningar brots samkvæmt 148. gr. hegningarlaga að maður komi því til leiðar að saklaus maður sé sakaður um brot án þess að ásetningur þurfi að vera til þess að hann verði dæmdur fyrir refsiverðan verknað af dómstólum. Er enn fremur ljóst að ásökun um refsiverðan verknað, án tillits til endanlegrar niðurstöðu málsins, kann að vera íþyngjandi fyrir saklausan mann með margvíslegum hætti, auk þess sem augljósir almannahagsmunir standa til þess að handhafar rannsóknar- og ákæruvalds saki ekki menn um refsiverðan verknað gegn betri vitund.

                Að mati dómsins verður tilkynning Seðlabanka Íslands 11. nóvember 2009 ekki skilin á aðra leið en þá að háttsemi stefnanda sé þar talin varða við refsilög, meðal annars áðurgreindar reglur nr. 1130/2008. Svo sem áður greinir leiddi tilkynningin til lögreglurannsóknar og að lokum til þess að sérstakur saksóknari gaf út ákæru 22. mars 2013 vegna ætlaðra brota stefnanda og þriggja annarra nafngreindra manna, meðal annars gegn reglum nr. 1130/2008. Seðlabanki Íslands var á þeim tíma sem hér um ræðir það stjórnvald sem fór með framkvæmd og frumeftirlit laga um gjaldeyrismál og reglna sem settar höfðu verið samkvæmt þeim lögum. Eðli málsins samkvæmt hlaut því í téðri tilkynningu bankans að felast ásökun um refsiverðan verknað stefnanda í skilningi 148. gr. hegningarlaga, hverjar svo sem endanlegar lyktir málsins kynnu að verða, eftir atvikum fyrir dómstólum. Myndi það þar af leiðandi ekki hagga fullframningu brots, að fullnægðum huglægum refsiskilyrðum, þótt hlutaðeigandi starfsmenn hefðu haft vitneskju um að þær refsiheimildir sem vísað var til væru ógildar og líklegt væri að málinu kynni að endingu að lykta með sýknu fyrir dómstólum. Á þetta því frekar við að umrædd tilkynning Seðlabanka Íslands leiddi til ýmissa þvingunarráðstafana og þess að formleg ákæra var gefin út gegn stefnanda og stefnandi því í reynd saksóttur fyrir brot gegn téðum reglum.

C

Samkvæmt framangreindu er það álit dómsins að sú skýring á 148. gr. hegningarlaga sem stefndi reisti ákvörðun sína á fái ekki samræmst lögum. Líkt og áður greinir verður því ekki fundinn nægilegur staður að ákvörðun stefnda hafi einnig verið á því reist að ekki væru fyrir hendi nægilegar vísbendingar um að starfsmenn Seðlabanka Íslands hefðu af ásetningi skýrt ranglega frá atvikum í máli stefnanda í því skyni að hann yrði sakaður eða dæmdur saklaus fyrir refsiverðan verknað, sbr. hins vegar rökstuðning lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í ákvörðun embættisins 11. nóvember 2016. Þvert á móti verður ekki önnur ályktun dregin af ákvörðun stefnda en að endurskoðun á þessu mati lögreglunnar hafi verið talin óþörf.

                Að öllu þessu virtu eru annmarkar á lagalegum grundvelli ákvörðunar stefnda svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi að kröfu stefnanda, svo sem nánar greinir í dómsorði. Það athugast að með þeirri niðurstöðu er engin afstaða tekin til gildis ákvörðunar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 11. nóvember 2016, sem ekki er til úrlausnar í málinu.

                 Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna að teknu tilliti til virðisaukaskatts og frávísunarþáttar málsins.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Eva Halldórsdóttir lögmaður.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Einar Karl Hallvarðsson lögmaður.     

                Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákvörðun stefnda, ríkissaksóknara, 21. febrúar 2017 í máli nr. 300-2016-127 er felld úr gildi.

Stefndi, ríkissaksóknari, greiði stefnanda, Gísla Reynissyni, 1.000.000 króna í málskostnað.