Print

Mál nr. 28/2018

Samtök sparifjáreigenda (Hróbjartur Jónatansson lögmaður)
gegn
Kaupþingi ehf. (Stefán A. Svensson lögmaður)
Lykilorð
 • Kærumál
 • Kæruheimild
 • Frávísun frá Hæstarétti
Reifun

S kærði úrskurð Landsréttar sem felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms þar sem K ehf. var gert að afhenda S nánar tilgreind gögn. Um kæruheimild vísaði S til a. liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þess að samkvæmt nefndu ákvæði væri heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar ef þar hefði verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti, eða niðurfellingu þess þar að hluta eða öllu leyti. Með því að úrskurður Landsréttar hefði hvorki falið í sér frávísun málsins né niðurfellingu þess, brysti heimild til kærunnar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2018, en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 6. nóvember 2018, þar sem felldur var úr gildi úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október sama ár, en með honum var varnaraðila gert að afhenda sóknaraðila nánar tilgreind gögn. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „málinu vísað heim í Landsrétt til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar að nýju.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu þess að hluta eða að öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti. Með hinum kærða úrskurði felldi Landsréttur úr gildi úrskurð héraðsdóms þar sem varnaraðila var gert að afhenda sóknaraðila afrit af nánar tilgreindum gögnum. Samkvæmt því felur úrskurður Landsréttar hvorki í sér að málinu hafi verið vísað frá héraðsdómi eða Landsrétti né að það hafi verið fellt þar niður að hluta eða öllu leyti. Brestur því heimild til kæru og verður málinu þar af leiðandi vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Samtök sparifjáreigenda, greiði varnaraðila, Kaupþingi ehf., 750.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Landsréttar 6. nóvember 2018.

Landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Jón Finnbjörnsson og Oddný Mjöll Arnardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 15. október 2018, en kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2018 í málinu nr. Ö-15/2018 þar sem sóknaraðila var gert að afhenda varnaraðila nánar tilgreind gögn. Kæruheimild er í d-lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

2        Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfum varnaraðila verði vísað frá dómi en til vara að þeim verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

3        Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Niðurstaða

4        Með bréfi 21. júlí 2017 krafðist varnaraðili afhendingar tiltekinna gagna frá sóknaraðila. Sóknaraðili hafnaði afhendingu þeirra með bréfi 10. ágúst sama ár.

5        Með beiðni til héraðsdóms 28. mars 2018 óskaði varnaraðili dómsúrskurðar um skyldu sóknaraðila til afhendingar gagna, sem nánar voru tilgreind í sex liðum, en undir rekstri málsins í héraði féll varnaraðili frá tveimur þeirra. Beiðnin varðar hluta þeirra gagna sem varnaraðili hafði áður krafist frá sóknaraðila auk annarra nánar tilgreindra gagna. Um lagagrundvöll vísar varnaraðili til 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991.

6        Í beiðni varnaraðila greinir að hann hyggist höfða skaðabótamál byggt á því að „tilteknir stjórnendur og hluthafar Kaupþings banka hf., og aðilar þeim tengdir hafi gerst sekir um saknæma og ólögmæta markaðsmisnotkun með tilteknum ráðstöfunum í rekstri bankans.“ Meðal þeirra væri Ólafur Ólafsson. Skaðabótamálið hafði ekki verið höfðað þegar beiðni varnaraðila um afhendingu gagna var þingfest í héraðsdómi 4. maí 2018. Sóknaraðili skilaði greinargerð 1. júní sama ár, en stefna varnararaðila í skaðabótamáli á hendur Ólafi Ólafssyni var birt í Lögbirtingablaði 5. sama mánaðar.

7        Ákvæði 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 kveða á um öflun skjallegra gagna undir rekstri dómsmáls sem þegar hefur verið höfðað en samkvæmt 1. mgr. 47. gr. sömu laga skal öflun sönnunargagna að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem fer með málið. Frá því verður ekki vikið nema undantekningarheimildir til öflunar sönnunargagna fyrir öðrum dómi eða til öflunar sönnunargagna áður en mál er höfðað eigi við, sbr. XI. og XII. kafla laganna.

8        Krafa varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að afhenda sér nánar tiltekin gögn er ekki byggð á ákvæðum XII. kafla laga nr. 91/1991 sem heimila öflun sönnunargagna áður en mál er höfðað. Þá liggur ekkert fyrir um það hvort sá dómari sem úrskurðaði um kröfuna muni fara með skaðabótamál varnaraðila á hendur Ólafi Ólafssyni. Af þessum sökum brast lagaskilyrði fyrir því að dómarinn leysti úr beiðni varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. janúar 2015 í máli nr. 821/2014.

9        Varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í úrskurðarorði greinir.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðili, Samtök sparifjárieigenda, greiði sóknaraðila, Kaupþingi ehf., 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2018

I.

Með beiðni sem barst dómnum 28. mars sl. gerðu Samtök sparifjáreigenda, Borgartúni 23, 105 Reykjavík, kröfu um að Kaupþingi ehf., Borgartúni 26, 105 Reykjavík, yrði með vísan til 68. gr. laga nr. 91/1991 gert með dómsúrskurði skylt að afhenda sóknaraðila eftirfarandi gögn sem varnaraðili hefði haft í fórum sínum frá því að félagið var rekið sem fjármálafyrirtæki:

 

1. Lánssamning Kaupþings banka hf. og Eglu Invest B.V. vegna u.þ.b. 120 milljóna evra láns sem veitt var í janúar 2008 auk fylgigagna, svo sem;

  1. lánsumsóknar Eglu Invest B.V. til Kaupþings,
  2. mats á lánshæfi Eglu Invest B.V.,
  3. mats á tryggingum vegna lánsins.

 

2. Lánssamning Kaupþings banka hf. og Eglu Invest B.V. vegna u.þ.b. 160 milljóna evra láns sem veitt var í mars 2008 auk fylgigagna, svo sem;.

  1. lánsumsóknar Eglu Invest B.V. til Kaupþings,
  2. mats á lánshæfi Eglu Invest B.V.
  3. mats á tryggingum vegna lánsins.

 

3. Fundargerðir lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf., 30. janúar, 18. mars og 29.maí 2008 þar sem fjallað var um lánveitingar til Eglu Invest B.V. í tengslum við endurfjármögnun á skuldum Eglu Invest B.V. við Citibank í Bandaríkjunum, auk fylgigagna með lánsumsókn Eglu Invest B.V. og/eða, eftir atvikum, aðrar fundargerðir lánanefndar stjórnar Kaupþings eða annarra lánanefnda bankans á framangreindu tímabili þar sem fjallað er um lánveitingar Kaupþings til Eglu Invest.

 

4. Samskiptagögn milli Citibank og Kaupþings hf., þ.m.t. tölvuskeyti, almenn bréf og fundargerðir vegna endurfjármögnunar Kaupþings á skuldum Eglu Invest B.V. við Citibank, þ.m.t. sk. „Comfort letter“ eða sambærileg bréf um stuðning Kaupþings við Eglu Invest BV vegna efnda gagnvart Citibank.

 

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi en að öðrum kosti hafnað.

 

Að því marki sem fallist yrði á kröfur sóknaraðila er þess krafist að sóknaraðili greiði kostnað varnaraðila sem hlýst af því. Þá er krafist ómaksþóknunar varnaraðila til handa, sbr. 4. mgr. 79. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila vegna reksturs ágreiningsmáls þessa, að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

 

Málið var tekið til úrskurðar eftir munnlegan málflutning 21. ágúst sl. Við upphaf málflutnings staðfesti lögmaður sóknaraðila áður kynnt áform, og féll frá síðustu tveimur kröfum sínum samkvæmt beiðni til dómsins, nr. 5 og 6, þ.e. annars vegar um fjárhæð lána Kaupþings til þriðja aðila með veði, þ.m.t. sölubann, í eigin bréfum á árinu 2007 og 2008 og hins vegar skýrslur sem Kaupþing bank í slitameðferð lét vinna um ársreikninga bankans vegna áranna 2006, 2007 og 2008 þar sem til umfjöllunar voru viðskipti bankans við Eglu Invest B.V. og tengda aðila, stórar áhættur Kaupþings, tengdir aðilar m.t.t lánaáhættu, eigið fé Kaupþings og annað sem lagt var mat á af hálfu sérfróðra aðila að beiðni skilanefndar og slitastjórnar Kaupþings.

 

Hins vegar útvíkkaði sóknaraðili gagnabeiðni sína við lánveitingar varnaraðila í tengslum við endurfjármögnun á skuldum Eglu Invest B.V. við Citibank í Bandaríkjunum, við Eglu Invest B.V. Kjalar ehf., Kjalar Invest B.V. og önnur tengd félög þar sem sóknaraðila sé ómögulegt að staðhæfa hvaða félög undir stjórn Ólafs Ólafssonar hafi verið hinn formlegi lántaki hjá varnaraðila vegna endurfjármögnunar varnaraðila á skuldum Eglu Invest B.V. við Citibank. Þessu mótmælti varnaraðili.

 

Dómari féllst á það með lögmönnum aðila að málið væri þannig vaxið að það yrði flutt samhliða um frávísunarkröfu varnaraðila og efnisatriði málsins sbr. heimild í 2. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

II.

Með erindi sóknaraðila 21. júlí 2017 var þess farið á leit við varnaraðila að afhent yrðu afrit af framangreindum gögnum. Þau gögn eru að sögn sóknaraðila skjöl sem falli undir 3. mgr. 67. gr. eml. og sé ekki ágreiningur um að þau skjöl séu til. Á þeim tíma hafði sóknaraðili, sem fengið hafði framseldar kröfur frá Stapa lífeyrissjóði, fyrrum hluthafa í Kaupþingi, höfðað mál á hendur fyrrum stjórnendum og hluthöfum Kaupþings hf. til heimtu bóta vegna markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Kaupþingi.

 

Með bréfi 14. ágúst 2017 hafi Kaupþing ehf. hafnað því að afhenda sóknaraðila umbeðin gögn með vísan til þess að þau væru háð bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

 

Þann 11. janúar 2008 vísaði Hæstiréttur máli sóknaraðila frá dómi vegna óskýrleika. Í þeim dómi hafi meðal annars komið fram að ekki dygði að vísa eingöngu til atvika sem rakin séu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) vegna hruns íslensku bankanna en í málinu var um viðskipti Kaupþings og Eglu Invest BV, eins stærsta hluthafa Kaupþings, vísað til téðrar skýrslu.

 

Sóknaraðili hefur höfðað að nýju mál gegn Ólafi Ólafssyni með stefnu sem birt var í Lögbirtingablaðinu 5. júní sl. Kveður sóknaraðili að sér sé því nauðsyn á að afla gagna er varða lánsviðskipti Kaupþings og Eglu Invest B.V. sem vísað sé til í kröfugerð.

 

Varnaraðili lýsir í greinargerð sinni nokkuð ítarlega málavöxtum, málatilbúnaði og niðurstöðu í máli Hæstaréttar nr. 845/2017, enda telur hann þá málaleitan sem hér er höfð uppi við dóminn sprottna af því máli og kröfur sóknaraðila áþekkar þeim sem gerðar voru þar.

 

Dómurinn telur rétt að taka þessa lýsingu upp undir reifun málavaxta, samhengisins vegna, en sóknaraðili hefur enga athugasemd gert við þessa lýsingu varnaraðila, sem er efnislega eftirfarandi.

 

Að samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila í fyrrnefndu máli, og svo sem honum er lýst í dómi Hæstaréttar í því, hafi Stapi lífeyrissjóður átt hlutabréf í varnaraðila 1. nóvember 2007, sem hann hafði keypt fyrir samtals 4.230.351.596 krónur, og hafi síðan keypt frá þeim tíma fram til 7. ágúst 2008 til viðbótar hlutabréf í félaginu fyrir alls 2.161.176.732 krónur. Á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 þar til Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki til að víkja þáverandi stjórn varnaraðila Kaupþings frá, taka yfir vald hluthafafundar í félaginu og setja yfir það skilanefnd hafi lífeyrissjóðurinn selt hlutabréf í því fyrir samtals 5.455.837.008 krónur og fengið að auki arð af hlutabréfum sínum að fjárhæð alls 33.197.560 krónur. Síðastgreindan dag hafi hlutabréf í Kaupþingi orðið verðlaus, en lífeyrissjóðurinn hafi þá átt eftir 196.108 hluti í því. Sóknaraðili hafi þannig kveðið tap lífeyrissjóðsins vegna þessara viðskipta orðið 902.493.733 krónur. Sóknaraðili hafi kveðið lífeyrissjóðinn hafa eftir þetta framselt sér áðurnefnda 196.108 hluti ásamt skaðabótakröfu, sem hann kynni að eiga vegna þessara viðskipta með hlutabréf í varnaraðila Kaupþingi.

 

Sóknaraðili hafi staðhæft að stefndu í téðu máli, þ.e. Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Magnús Guðmundsson, Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson, hafi á árunum 2007 og 2008 staðið að markaðsmisnotkun til að halda uppi verði á hlutabréfum í varnaraðila Kaupþingi og valdið þannig hluthöfum í félaginu tjóni með því annars vegar að blekkja þá til að kaupa hlutabréf í félaginu á of háu verði og hins vegar að selja þau ekki áður en þau urðu verðlaus. Stapi lífeyrissjóður, sem sóknaraðili hafi leitt rétt sinn frá, hafi verið meðal þeirra sem hafi orðið fyrir tjóni af þessum sökum. Á þessum grunni hafi sóknaraðili höfðað fyrrnefnt mál.

 

Í málatilbúnaði sóknaraðila í téðu máli hafi verið byggt á því að markaðsmisnotkun, sem hann taldi stefndu í málinu hafa staðið að í starfsemi varnaraðila og hafa valdið lífeyrissjóðnum tjóni sem sóknaraðili leitaði skaðabóta fyrir, hafi verið fólgin í sex atriðum.

 

Í fyrsta lagi hafi sóknaraðili vísað til þess að í dómi Hæstaréttar 6. október 2016 í máli nr. 498/2015 hafi þótt sannað að stefndu málsins, Hreiðar, Ingólfur og Sigurður, hafi á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008 staðið að því að deild eigin viðskipta innan varnaraðila Kaupþings hafi keypt verulegan hluta af hlutabréfum í félaginu, sem seld hafi verið í svonefndum sjálfvirkum pörunarviðskiptum í kauphöll, og látið með því líta svo út að spurn væri eftir hlutabréfunum, sem í raun hafi ekki verið fyrir hendi. Hafi þessir stefndu verið sakfelldir í dóminum fyrir að hafa brotið á þennan hátt gegn 117. gr., sbr. 146. gr., laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

 

Í öðru lagi hafi stefndu málsins, Hreiðar, Ingólfur og Sigurður, í sama dómi verið sakfelldir fyrir að hafa brotið gegn áðurnefndum ákvæðum laga nr. 108/2007 með því að hafa staðið að því að varnaraðili seldi hlutabréf í félaginu, sem hafi safnast fyrir með fyrrgreindum kaupum, til þriggja félaga í stórum viðskiptum, sem hafi farið fram utan kauphallar. Þetta hafi verið gert meðal annars með þeim skilmálum að félögin þrjú fengju lán frá varnaraðila til kaupanna án þess að setja aðrar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánanna en hlutabréfin, sem keypt voru. Hafi þetta leitt til þess að verði á hlutabréfum í félaginu hafi verið haldið uppi. Í dóminum hafi stefndi Magnús einnig verið sakfelldur fyrir hlutdeild í broti hinna þriggja í einum af þessum viðskiptum.

 

Í þriðja lagi hafi sóknaraðili vísað til þess að rakið væri í skýrslu RNA um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði að varnaraðili Kaupþing hafi á því ári veitt félögum í eigu stefnda Ólafs lán að fjárhæð 280.000.000 evra til að greiða skuldir þeirra við tiltekinn erlendan banka, sem tryggðar hafi verið með veði í hlutabréfum félaganna í varnaraðila Kaupþingi. Með þessu hafi verið komið í veg fyrir að erlendi bankinn leitaði fullnustu á kröfum sínum með því að ganga að hlutabréfunum, en varnaraðili hafi í staðinn fengið tryggingu í bréfunum og eftir það borið af þeim alla markaðsáhættu. Á þennan hátt hafi því verið forðað að verulegur fjöldi hlutabréfa í félaginu færi á markað, en hefði það gerst hefðu þau lækkað mjög í verði. Um þessa ráðstöfun hefðu stefndu málsins allir sammælst. Varnaraðila virðist fyrirliggjandi beiðni sóknaraðila, a.m.k. samkvæmt liðum 1–4, einkum tengjast þessum þætti.

 

Í fjórða lagi hafi sóknaraðili byggt á því að í sömu skýrslu kæmi fram að varnaraðili hefði frá árinu 2004 boðið starfsmönnum sínum að kaupa hlutabréf í félaginu með lánum frá því, veitt starfsmönnum kauprétt að hlutabréfum og tryggt þeim sölurétt. Þegar verð á bréfunum hafi farið að lækka á árinu 2007 og andvirði þeirra ekki lengur nægt til tryggingar fyrir lánunum hafi stefndu Hreiðar, Ingólfur og Sigurður ákveðið að varnaraðili myndi ekki neyta réttar til að kalla eftir frekari tryggingum og um leið meinað starfsmönnum félagsins að selja hlutabréfin. Í kjölfarið hafi þeir samþykkt að gefa eftir ábyrgð starfsmannanna á endurgreiðslu þessara lána að því leyti sem andvirði hlutabréfanna nægði ekki til uppgjörs á lánunum. Með þessu hafi verið komið í veg fyrir mikið framboð hlutabréfa á markaði og hafi verði þeirra verið haldið þar uppi með þessum ráðstöfunum.

 

Í fimmta lagi hafi sóknaraðili kveðið Gnúp fjárfestingafélag ehf. hafa 11. desember 2007 selt verulegan fjölda hlutabréfa í varnaraðila Kaupþingi, annars vegar til Giftar fjárfestingarfélags ehf. og hins vegar AB 57 ehf. Fyrir þeim kaupum í heild hafi Kaupþing veitt lán, til fyrrnefnda kaupandans að fjárhæð 20.000.000.000 króna og þess síðarnefnda 3.000.000.000 króna. Fyrir 16.000.000.000 króna af láni til þess fyrrnefnda hafi verið veitt veð í hlutabréfunum, en engin trygging hafi verið sett fyrir láninu að öðru leyti. Sóknaraðili telji að verð á hlutabréfum í varnaraðila hefði lækkað ef svo verulegur fjöldi bréfa hefði verið boðinn til sölu á markaði og hafi því „stjórnendur bankans“ tryggt „óeðlilegt verð“ á bréfunum í andstöðu við b-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.

 

Í sjötta lagi hafi sóknaraðili vísað til þess að með dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014 hefðu stefndu, Hreiðar, Magnús, Ólafur og Sigurður, verið sakfelldir meðal annars fyrir brot gegn 117. gr., sbr. 146. gr., laga nr. 108/2007 með því að hafa staðið að nánar tilgreindum viðskiptum með rúmlega 5% af heildarhlutafé í varnaraðila. Hafi sóknaraðili talið að markaðsmisnotkun, sem í þessu hafi falist, hafi haft veruleg áhrif á verðbréfamarkaði, enda hafi lækkun á verði hlutabréfa í varnaraðila Kaupþingi, sem hafi verið nær samfelld frá 2007, „stöðvast við tilkynninguna“ um þessi viðskipti og gengi á bréfunum tekið „í kjölfarið skyndilega kipp upp á við“.

 

Í dómi Hæstaréttar segi að fallast yrði á það með sóknaraðila að honum nægði að reisa staðhæfingar í málatilbúnaði sínum um saknæma háttsemi stefndu málsins á tilvísun til áðurnefndra dóma Hæstaréttar 12. febrúar 2015 og 6. október 2016 að því leyti, sem hann byggði á sakarefni í þeim, enda hefðu þeir dómar fullt sönnunargildi um þau atvik sem í þeim greindi, þar til það gagnstæða yrði sannað, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í málinu væri um slíkar tilvísanir í dóma þessa að ræða varðandi þrjú (þ.e. væntanlega 1., 2. og 6. atriðið) af þeim sex atriðum sem áður var lýst og sóknaraðili teldi fela í sér skaðabótaskylda háttsemi stefndu málsins.

 

Um hin atriðin þrjú ætti þetta á hinn bóginn ekki við. Eins og málið lægi fyrir Hæstarétti væru málsástæður sóknaraðila um saknæma og ólögmæta háttsemi stefndu málsins í þeim tilvikum verulega vanreifaðar og virtust litlum sem engum gögnum studdar. Í því sambandi væri þess að gæta að skírskotanir til áðurnefndrar skýrslu RNA yrðu engan veginn lagðar að jöfnu við tilvísanir til dóma, sem hefðu í málinu bindandi áhrif eftir fyrrgreindu ákvæði laga nr. 88/2008.

 

Þá hafi komið fram að þótt rétt væri hjá sóknaraðila að engu gæti breytt um óskipta skaðabótaábyrgð stefndu Hreiðars, Ingólfs, Magnúsar, Ólafs og Sigurðar hvort hlutur hvers þeirra í ætlaðri saknæmri háttsemi kynni að hafa verið misjafn, mætti vera ljóst að slík skaðabótaábyrgð gæti ekki fallið á einstaka stefndu vegna atvika sem kynnu að hafa gerst áður en þeir áttu hlut að máli. Á skorti að málatilbúnaður sóknaraðila væri nægilega skýr með tilliti til þessa.

 

Loks hafi komið fram að reifun sóknaraðila á atriðum varðandi umfang tjóns hans hefði verið háð verulegum annmörkum.

 

III.

Sóknaraðili kveður þau skjöl sem hann óskar afhendingar á varða staðreyndir sem hafi þýðingu í því dómsmáli sem sóknaraðili hafi nú þegar höfðað með útgáfu stefnu sem birt var 5. júní sl. í Lögbirtingablaðinu og sé efni þeirra slíkt að vörslumanni þeirra sé skylt að bera vitni um það, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi verið staðfest að við mat á því hvort afhending gagna fari í bága við þagnarskylduákvæði, s.s. bankaleynd, sé ekki ástæða til að veita félögum, sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta, jafn ríka vernd og einstaklingum. Í slíkum tilfellum, þar sem málsaðili hafi lögvarða hagsmuni af því að afla gagna til stuðnings málatilbúnaði sínum, hafi réttur hans þannig gengið framar þagnarskyldu.

 

Í því máli, sem sóknaraðili hefur höfðað sé byggt á því að tilteknir stjórnendur og hluthafar Kaupþings banka hf., og aðilar þeim tengdir, hafi gerst sekir um saknæma og ólögmæta markaðsmisnotkun með tilteknum ráðstöfunum í rekstri bankans. Meðal þeirra sé Ólafur Ólafsson, en sumir þessara aðila hafi nú þegar verið dæmdir sekir um refsiverða markaðsmisnotkun. Sé sóknaraðila, samkvæmt almennum sönnunarreglum, nauðsynlegt að færa sönnur á þær staðhæfingar sem byggt sé á, enda ljóst af dómaframkvæmd Hæstaréttar að skýrsla RNA nægi ekki ein og sér til að færa sönnur á staðhæfingu, ef atvikum er mótmælt. Hafi sóknaraðili því lögvarða hagsmuni af öflun áðurnefndra gagna og sé sönnunarfærslan fjarri því að vera bersýnilega þarflaus í skilningi 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

 

Til þess verði á hinn bóginn að líta að þær upplýsingar sem fram koma í hinum umbeðnu gögnum komi fram í skýrslu RNA og hafi þagnarvernd því í reynd verið létt af þeim og séu því hagsmunir varnaraðila engir af því að efni þeirra verði haldið leyndu, og annarra smávægilegir, ef einhverjir eru, samanborið við þá miklu hagsmuni sem sóknaraðili hafi af því að fá umrædd gögn til framlagningar í málinu.

 

Hvað varði kröfuliði 1–4, sem eru endanlegar kröfur sóknaraðila, sé byggt á því í stefnu málsins að Kaupþing hafi með ólögmætum hætti endurfjármagnað lán Eglu Invest B.V. sem síðarnefnda félagið hafði upphaflega tekið hjá Citibank til þess að koma í veg fyrir að Citibank gengi að bréfunum sökum veðkalls og þau færu á markað með tilheyrandi gengisfalli á hlutabréfum í Kaupþingi.

 

Samkvæmt upplýsingum úr fjölmiðlum, svo og úr skýrslu RNA, hafi Kaupþing veitt lán til Eglu Invest B.V. annars vegar í janúar 2008, að fjárhæð u.þ.b. 120 milljónir evra, og hins vegar í mars 2008, að fjárhæð u.þ.b. 160 milljónir evra. Sé samtökunum nauðsynlegt að afla þeirra lánssamninga til að sýna fram á þá lánveitingu. Þá sé samtökunum jafnframt nauðsynlegt að afla fundargerða frá fundunum þar sem ákvörðun um lánveitinguna var tekin en samkvæmt upplýsingum úr skýrslu RNA hafi ítrekað verið fjallað um hana í fundargerðum lánanefndar stjórnar bankans, m.a. þann 18. mars 2008.

 

Varði því öll þau gögn sem óskað er afhendingar á umdeildar staðreyndir sem sóknaraðila sé nauðsynlegt að færa sönnur á og því ljóst að hann hafi lögvarða hagsmuni af öflun þeirra, sem gangi framar meintri bankaleynd.

 

Sóknaraðili byggir kröfu sína á 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

IV.

Varnaraðila virðist, eins og fyrr segir, kröfur sóknaraðila til komnar af því, að því er best verður séð, að hann höfði nýtt mál fyrir dómi og hafi uppi kröfur, af áþekkum toga og þær sem til umfjöllunar hafi verið í dómi Hæstaréttar 11. janúar 2018 í máli nr. 845/2017, þar sem kröfum sóknaraðila var vísað frá dómi.

 

Varnaraðili byggir á öllum sömu málsástæðum til stuðnings frávísun og höfnun krafna sóknaraðila.

 

Varnaraðili kveðst telja óhjákvæmilegt að vísa til helstu réttarheimilda samhengis vegna, þ.á m. í ljósi þess hvernig málatilbúnaður sóknaraðila sé fram settur.

 

Sóknaraðili kveðist reisa kröfu sína á 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Í 3. mgr. 67. gr. segi að „nú er skjal í vörslum manns sem er ekki aðili að máli, og getur þá aðili krafist að fá það afhent til framlagningar í máli ef vörslumanni skjalsins er skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu.“ Kveði sóknaraðili að „[þ]au skjól [sic] sem [sóknaraðili] óski afhendingar á varða staðreyndir sem hafa þýðingu í væntanlegu í [sic] dómsmáli og er efni þeirra því slíkt að vörslumanni þess sé skylt að bera vitni um það, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991“, en samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði er „[h]verjum manni, sem er orðinn 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, ... skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem er beint til hans um málsatvik.“

 

Í 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 sé mælt svo fyrir að ef vörslumaður skjals verður ekki við kröfu aðila um að láta það af hendi geti aðili lagt þau gögn sem um getur í 4. mgr. 67. gr. fyrir dómara, ásamt skriflegri beiðni um að vörslumaður verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi. Ef dómari telur ekki útilokað að skjalið hafi þýðingu í málinu kveðji hann aðila og vörslumann fyrir dóm og gefi þeim kost á að tjá sig um beiðnina. Að því loknu kveði dómari upp úrskurð ef með þarf um skyldu vörslumanns til að afhenda aðila skjalið, sbr. þó 69. gr. Í þessu samhengi sé og til þess að líta að sóknaraðili hafi raunar ekki, á fyrri stigum, farið þess sérstaklega á leit að fá afhent sum þeirra gagna, sbr. einkum liði 5–6 sem reyndar hafi verið fallið frá, sem tilgreind séu í beiðninni, svo sem lög gera kröfu um, og valdi þetta þá væntanlega sjálfkrafa frávísun eða höfnun þeirra liða.

 

Samkvæmt því sem segir í 4. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, sem vísað sé til í 2. mgr. 68. gr. laganna, beri aðili, sem krefst skjals skv. 2. eða 3. mgr., sönnunarbyrði fyrir því að skjalið sé til og í vörslum þess sem hann heldur fram. Ef staðhæfingum aðila um það er mótmælt beri honum að leggja fram eftirrit af skjalinu ef þess er kostur, en lýsa ella efni þess eftir föngum, og skuli greina frá því hvað eigi að leiða í ljós með skjalinu. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991, sem einnig sé vísað til í fyrrnefndri 2. mgr. 68. gr., hafi skjal, sem er skylt að láta af hendi skv. 67. gr., að geyma atriði sem hlutaðeiganda væri óskylt eða óheimilt að bera vitni um, og geti þá dómari ákveðið að skjalið verði lagt fyrir hann í trúnaði og gegn þagnarskyldu og annaðhvort að hann taki eftirrit af því úr skjalinu sem er skylt og heimilt að láta uppi eða geri skýrslu um þau atriði.

 

Í XII. kafla laga nr. 91/1991 gefi að líta reglur um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað, sem hvergi sé þó vísað til í beiðni sóknaraðila, sbr. einnig hér síðar. Í 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 sé mælt svo fyrir um að sé hætta á að kostur fari forgörðum á því að afla sönnunar um atvik sem varðar lögvarða hagsmuni aðila eða að það verði verulega erfiðara síðar, og sé honum þá heimilt að leita sönnunar um atvikið fyrir dómi með vitnaleiðslu eða öflun skjals eða annars sýnilegs sönnunargagns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu í tengslum við atvikið í dómsmáli. Aðila sé með sama hætti heimilt að leita sönnunar fyrir dómi um atvik sem varði lögvarða hagsmuni hans og geti ráðið niðurstöðu um það hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir að heimildum 1. og 2. mgr. „verður ekki beitt til að afla sannana um refsiverða háttsemi þar sem ákæruvaldið ætti sókn sakar“. Samkvæmt því sem segi í 2. mgr. 78. gr., sé sönnunar „leitað skv. 2. mgr. 77. gr. skuli enn fremur rökstutt hvers vegna sönnunarfærsla þolir ekki bið eða getur ráðið niðurstöðu um hvort mál verði síðar höfðað“. Í 4. mgr. sömu lagagreinar segi að dómari kveðji aðila fyrir dóm þar sem sönnunarfærsla fer fram. Ef beiðni varðar aðra aðila skuli þeir einnig kvaddir fyrir dóm, enda þoli málefnið þá bið sem leiði af því. Í 1. mgr. 79. gr. segi að við öflun sönnunar eftir fyrirmælum þessa kafla skuli farið eftir ákvæðum II. og VII.–X. kafla eftir því sem átt geti við.

 

---------

 

Varnaraðili telur kröfu sóknaraðila haldna margvíslegum annmörkum. Í fyrsta lagi bendir hann á að krafa sóknaraðila sé eingöngu studd fyrirmælum X. kafla laga nr. 91/1991. Þau ákvæði, svo sem þau beri með sér, taki á hinn bóginn til öflunar sönnunargagna undir rekstri máls sem þegar hafi verið höfðað. Sú hafi ekki verið raunin þegar beiðni sóknaraðila hafi verið send dómnum og valdi þetta þá þegar frávísun, en að öðrum kosti höfnun á öllum kröfum sóknaraðila.

 

Eigi á hinn bóginn að skilja dómkröfu sóknaraðila á þann veg að krafan sé í raun réttri studd við fyrirmæli XII., sbr. X. kafla, laga nr. 91/1991, sem varnaraðili mótmælir að rúmist innan málatilbúnaðar sóknaraðila svo sem hann er úr garði gerður, sé þess annars vegar að gæta að samkvæmt 3. mgr. 77. gr. laganna verði heimildum 1. og 2. mgr. „ekki beitt til að afla sannana um refsiverða háttsemi þar sem ákæruvaldið ætti sókn sakar“. Þegar litið sé á hinn bóginn til málatilbúnaðar sóknaraðila í fyrrnefndu Hæstaréttarmáli nr. 845/2017, og málatilbúnaðar í því máli sem nú hafi verið höfðað, sbr. fyrri umfjöllun, grundvallist skaðabótakrafa sóknaraðila á því að stefndu þess máls hafi staðið að markaðsmisnotkun í starfsemi varnaraðila, sem teldist þá vera refsiverð háttsemi þar sem ákæruvald eigi sókn sakar. Bresti því heimild til öflunar umbeðinna gagna eftir fyrirmælum 3. mgr. 77. gr. Hins vegar sé til þess að líta, burtséð frá framangreindu, að beiðni sóknaraðila fullnægi ekki þeim lagaáskilnaði 2. mgr. 78. gr. að rökstutt sé „hvers vegna sönnunarfærsla þolir ekki bið eða getur ráðið niðurstöðu um hvort mál verði síðar höfðað“. Um síðasttalda atriðið sé þess einnig að gæta að þegar beiðni sóknaraðili hafi borist hafði nýtt mál ekki verið höfðað, og því ekki um það að ræða að sönnunarfærsla hafi getað ráðið því hvort mál yrði síðar höfðað. Um fyrrnefnda atriðið verði ekki séð að hætta sé á að kostur fari forgörðum á því að afla sönnunar um atvik eða að það verði verulega erfiðara síðar þótt öflun sönnunargagna fari fram undir rekstri máls eftir fyrirmælum X. kafla laga nr. 91/1991, og slíkt sé a.m.k. í engu rökstutt í beiðni sóknaraðila. Raunar skorti á, sér í lagi varðandi suma liði í beiðni sóknaraðila, að sýnt sé fram á lögvarða hagsmuni af öflun einstakra gagna, þ. á m. tengsl þeirra við það mál sem hafinn er rekstur á, svo sem gera verði kröfu til af hálfu sóknaraðila. Séu slíkir hagsmunir í öllu falli vanreifaðir og þeim mótmælt sem ósönnuðum og óljósum. Þess sé einnig að gæta að telji dómurinn að beiðni sóknaraðila sé að réttu lagi reist á ákvæðum XII. kafla laga nr. 91/1991 beri honum í samræmi við fyrirmæli 4. mgr. 78. gr. laganna að kveðja fyrir dóm aðra þá aðila sem beiðnin varðar. Verður ekki séð að svo hafi verið gert.

 

Varnaraðili vísar í þriðja lagi til þess að til að unnt sé að ganga svo langt við skýringu á orðalagi dómkröfu sóknaraðila að hún verði talin byggð á fyrirmælum XII. kafla laga nr. 91/1991, sbr. X. kafla sömu laga, verði að gæta að því að í ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 sé því lýst hvernig aðili geti neytt úrræða til að fá til framlagningar í máli skjal, sem sannanlega sé þegar orðið til og aðilinn geti að minnsta kosti að einhverju marki lýst hvers efnis sé, sbr. áðurreifaða 4. mgr. 67. gr. laganna. Sóknaraðili geti því ekki stuðst við þessi ákvæði til að fá varnaraðila skyldaðan til að afhenda sér ótilgreind gögn, sem aðeins sé lýst undir sameiginlegu heiti með tilliti til tegundar þeirra eða ætlaðs efnis, og enn síður til að búa slík gögn til, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 13. mars 2017 í máli nr. 43/2017. Taki málatilbúnaður sóknaraðila sjáanlega ekki nægilegt mið af þessu, ekki hvað síst varðandi lið 3 í beiðni sóknaraðila. Séu liðir 1–2, a.m.k. að hluta til, sama marki brenndir.

 

Varnaraðili tekur vegna þessa sérstaklega fram varðandi liði 1–4 að hann kunni að hafa í vörslum sínum einhver þau gögn sem gætu rúmast innan fyrrnefndra liða, en hafi á hinn bóginn ekki heildstæða mynd af þeim.

 

---------

 

Varnaraðili vísar einnig til þess að öll þau gögn eða upplýsingar sem sóknaraðili óskar eftir virðist eiga það sammerkt að falla undir þagnarskylduákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem varnaraðili telur sig bundinn af enda hafi hann á sínum tíma óumdeilanlega verið fjármálafyrirtæki sem hafi fallið undir gildissvið laga nr. 161/2002.

 

Undir lið 1 sé krafist aðgangs að lánssamningi á milli varnaraðila og Eglu Invest B.V. „vegna u.þ.b. 120 milljón evru láns sem veitt var í janúar 2008 auk fylgigagna svo sem ...“, og undir lið 2 aðgangs að lánssamningi milli sömu aðila „vegna u.þ.b. 160 milljón evru láns sem veitt var í mars 2008 auk fylgigagna svo sem ...“. Samkvæmt lið 3 sé óskað aðgangs að fundargerðum varnaraðila, á nánar tilgreindum dagsetningum, „þar sem fjallað var um lánveitingar til Eglu Invest BV í tengslum við endurfjármögnun á skuldum Eglu Invest BV við Citibank í Bandaríkjunum“, auk frekari gagna, þ.m.t. fundargerða, þar sem sú lánveiting sem sóknaraðili lýsir á að hafa verið til umfjöllunar. Samkvæmt lið 4 vilji sóknaraðili fá aðgang að „samskiptagögn[um] milli Citibank og Kaupþings hf., þ.m.t. ... vegna endurfjármögnunar Kaupþings á skuldum Eglu Invest BV við Citibank, þ.m.t. sk. „Comfort letter“ eða sambærileg bréf um stuðning Kaupþings við Eglu Invest B.V. um efndir gagnvart Citibank“.

 

Hér sé bersýnilega um að ræða atriði sem varði „viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna“ í skilningi 58. gr. laga nr. 161/2002 og teljist því vera háð þagnarskyldu. Telur varnaraðili að „Citibank“ teljist jafnframt til viðskiptamanns í skilningi sömu lagagreinar, en ellegar með lögjöfnun frá ákvæðinu, auk þess sem að með því að veita upplýsingar/aðgang að gögnum, sem tengjast Citibank sé verið að veita upplýsingar/aðgang að gögnum um Eglu Invest B.V. Geti heldur engu breytt þótt varnaraðili hafi á sínum tíma verið tekinn til slita eftir fyrirmælum laga nr. 161/2002. Reglur um bankaleynd séu settar til hagsbóta viðskiptamönnum, ekki fjármálafyrirtækinu sjálfu, auk þess sem varnaraðili sé ekki lengur undir slitum. Hafi sóknaraðili heldur ekki bent á nein þau atriði svo hald sé í sem réttlæti afnám þagnarskyldu, þ. á m. gagnvart Eglu Invest B.V, og því sé mótmælt að skilyrði standi til slíks. Sömuleiðis sé að því að gæta að beiðni sóknaraðila, t.d. undir lið 3 þar sem óskað er aðgangs að fundargerðum, sé ekki nægilega bundin við málefni Eglu Invest B.V., sem hljóti að lágmarki að þurfa að gera kröfu til.

 

Vegna tilvísunar sóknaraðila til 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991, um skyldu aðila „til að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem er beint til hans um málsatvik“, þá ryðji þetta ákvæði ekki til hliðar fyrirmælum um bankaleynd, sbr. meðal annars b- og d-liði 2. mgr. 53. gr. sömu laga og almennar reglur um þagnarvernd og trúnaðarskyldu. Raunar, svo sem sakarefninu sé lýst af hálfu sóknaraðila sem „markaðsmisnotkun“, væri vitni rétt að skorast undan því að svara spurningum um þessi atriði á grundvelli 3. mgr. 52. gr. sömu laga. Hagsmunir sóknaraðila af því að fá þessi gögn/upplýsingar takmarki heldur ekki gildissvið 58. gr. né „að þær upplýsingar sem fram koma í hinum umbeðnu gögnum koma fram í skýrslu RNA og hefur þagnarvernd því í reynd verið létt af þeim ... “, sem virðist þess utan ekki alls kostar rétt.

 

---------

 

Samkvæmt því sem segi í 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991, og sem áður segi, hafi skjal, sem sé skylt að láta af hendi skv. 67. gr., að geyma atriði sem hlutaðeiganda væri óskylt eða óheimilt að bera vitni um, og geti þá dómari ákveðið að skjalið verði lagt fyrir hann í trúnaði og gegn þagnarskyldu og annaðhvort að hann taki eftirrit af því úr skjalinu sem er skylt og heimilt að láta uppi eða geri skýrslu um þau atriði. Að því marki, og í tengslum við, að varnaraðila yrði gert að afhenda sóknaraðila nánar tilgreind skjöl/upplýsingar, fer varnaraðili þess á leit að dómurinn neyti þessarar heimildar.

 

---------

 

Að því marki sem fallist yrði á kröfur sóknaraðila er þess krafist að sóknaraðili greiði kostnað varnaraðila sem hlýst af því, sbr. 4. mgr. 79. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er krafist ómaksþóknunar varnaraðila til handa, sbr. sömu lagagrein.

 

Um lagarök vísast meðal annars til X. og XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísast til 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og grunnreglna um þagnarvernd. Um kröfu um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

V.

Með bókun sem lögð var fram í þinghaldi 28. júní sl. bætti sóknaraðili, eins og fram er komið, við beiðni sína og snýr hún nú að lánveitingum varnaraðila í tengslum við endurfjármögnun á skuldum Eglu Invest B.V. við Citibank í Bandaríkjunum, við Eglu Invest B.V. Kjalar ehf., Kjalar Invest B.V. og önnur tengd félög þar sem sóknaraðila væri ómögulegt að staðhæfa hvaða félög undir stjórn Ólafs Ólafssonar hefðu verið hinn formlegi lántaki hjá varnaraðila vegna endurfjármögnunar varnaraðila á skuldum Eglu Invest B.V. við Citibank. Í næsta þinghaldi 6. júlí mótmælti varnaraðili þessu, sem hann kallaði rýmkun á gagnabeiðni sóknaraðila, en vísaði til krafna og málsástæðna í greinargerð sinni, ef fallist yrði á að þessi leið væri tæk.

 

Dómurinn telur að undir ákveðnum kringumstæðum geti ekkert hindrað sjálfkrafa útvíkkun á gagnabeiðni eins og sóknaraðili freistar að gera, a.m.k. ekki ef um sama sakarefni er að ræða, útvíkkuð beiðni er rökstudd með fullnægjandi hætti til samræmis við upphaflega beiðni og talið verði að möguleikar varnaraðila til að bregðast við slíku í sama máli séu ekki skertir.

 

Á hinn bóginn telur dómurinn þessa útvíkkun vanreifaða af hálfu sóknaraðila, m.a. tengsl Ólafs Ólafssonar við umrædd félög, en þótt upplýsingar liggi væntanlega fyrir, og jafnvel víða, um einhver tengsl þarna verður að gera þá kröfu að slík tengsl séu útskýrð í beiðni til dómsins. Þá er bókunin orðuð með þeim hætti að ætla má að óskað sé upplýsinga um skuldir Eglu Invest B.V. við þessi félög í meintri eigu Ólafs Ólafssonar en það fer illa saman við málatilbúnað sóknaraðila að öðru leyti.

 

Því verður þessari beiðni/kröfu vísað frá dómi. Hægur vandi er og væntanlega fyrir sóknaraðila að ítreka þessa beiðni með frekari rökstuðningi í nýju máli, þar sem varnaraðila gefst þá kostur á að taka til fullra varna.

 

-------

 

Dómurinn telur það ekki geta komið að sök þótt sóknaraðili hafi, þegar hann bar fram kröfur sínar í málinu 4. maí sl., vísað til X. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þ.e. eins og mál hefði þá þegar verið höfðað. Sóknaraðili höfðaði mál sem varðar kröfur hans með stefnu sem birtist í Lögbirtingablaðinu rétt um mánuði síðar eða 5. júní sl. en stefnan er rituð 3. maí. Þó að varnaraðili hafi skilað greinargerð í málinu 1. júní, þ.e. áður en stefnan var birt, verður ekki sagt að það hafi komið niður á málatilbúnaði hans í greinargerð, en einnig lagði varnaraðili fram bókun í þinghaldi 28. júní sl., án andmæla varnaraðila, þar sem hann fjallaði sérstaklega um stefnu sóknaraðila og áhrif hennar á málatilbúnaðinn. Af beiðni sóknaraðila má og ráða að stefna hafi þá verið í farvatninu.

 

Því telur dómurinn ástæðulaust að horfa til ákvæða XII. kafla laganna við úrlausn málsins, heldur verði litið til X. kafla eins og sóknaraðili vísar til.

 

-------

 

Aðili dómsmáls getur krafist atbeina þriðja manns til sönnunarfærslu undir rekstri máls með því annaðhvort að fá hann skyldaðan til að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu sem vitni eða til að afhenda tiltekið skjal eða annað sýnilegt sönnunargagn til framlagningar þar, enda sanni aðili að sönnunargagnið sé til og í vörslum þess manns. Getur aðili þá beitt 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 til að fá þriðja mann skyldaðan til að láta slík gögn í té, eða eftir atvikum farið þá leið sem boðin er í 1. og 2. mgr. 69. gr. laganna ef þörf er á. 

 

Ágreiningslaust er að varnaraðili hefur stöðu þriðja manns í skilningi framangreindra ákvæða, þ.e. vörslumanns. Varnaraðili hefur ekki heldur mótmælt því að hafa þau gögn sem sóknaraðili óskar eftir að fá afhent. Í greinargerð fjallar hann um öll tormerki á því að hann hafi gögn samkvæmt 5. og 6. tölulið í upphaflegri kröfugerð en sóknaraðili hefur fallið frá þeim kröfum. Varnaraðili telur hins vegar að hann kunni að hafa gögn samkvæmt öðrum töluliðum þótt hann hafi ekki heildstæða mynd af því eða hafði ekki þegar greinargerð hans var rituð.

 

Dómurinn telur því að skilyrðum 4. mgr. 67. gr. sé fullnægt enda verður gengið út frá því að fjármálafyrirtæki sem stundar útlán búi yfir gögnum eins og þeim sem krafist er afhendingar á, og er því reyndar ekki mótmælt.

 

-------

 

Hagsmuni sína af beiðni sinni rökstuddi sóknaraðili þannig í beiðninni sjálfri að í því máli sem sóknaraðili hugðist þá höfða yrði byggt á því að tilteknir stjórnendur og hluthafar Kaupþings banka hf., og aðilar þeim tengdir, hefðu gerst sekir um saknæma og ólögmæta markaðsmisnotkun með tilteknum ráðstöfunum í rekstri bankans. Meðal þeirra væri Ólafur Ólafsson. En sumir þeirra hefðu nú þegar verið dæmdir sekir um refsiverða markaðsmisnotkun, sbr. Hæstaréttarmál nr. 145/2014 og nr. 498/2015. Væri stefnanda, sóknaraðila, samkvæmt almennum sönnunarreglum, nauðsynlegt að færa sönnur á þær staðhæfingar sem fram myndu koma í stefnu, en af dómaframkvæmd Hæstaréttar væri ljóst að skýrsla RNA nægi ekki ein og sér til að færa sönnur á staðhæfingu, ef atvikum er mótmælt. Hefði stefnandi því lögvarða hagsmuni af öflun áðurnefndra gagna og sönnunarfærslan væri fjarri því að vera bersýnilega þarflaus í skilningi 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Eins og áður er rakið höfðaði sóknaraðili strax í kjölfar beiðninnar mál sem hann beindi einungis að Ólafi Ólafssyni en ekki öðrum fyrrverandi stjórnendum eða hluthöfum bankans, eins og hann gerði í máli Hæstaréttar nr. 845/2017, sbr. framangreint. Ljóst má þó vera að um sama málatilbúnaðinn er að ræða og hin meinta skaðabótaskylda háttsemi byggð á framangreindum ávirðingum og þeim sömu atvikum og málsástæðum, eftir því sem best verður séð, og byggt var á í framangreindu máli.

 

Þá vísar sóknaraðili um hagsmuni sína hvað varðar liði 1–4 í kröfugerð til þess að byggt yrði á því í stefnu málsins að Kaupþing hefði með ólögmætum hætti endurfjármagnað lán Eglu Invest B.V. sem síðarnefnda félagið hafði upphaflega tekið hjá Citibank til þess að koma í veg fyrir að Citibank gengi að bréfunum sökum veðkalls og þau farið á markað með tilheyrandi gengisfalli á hlutabréfum í Kaupþingi. Þess vegna sé sóknaraðila nauðsyn að fá í hendur þau gögn sem um ræðir.

 

Til sanns vegar má færa að sóknaraðili hefði mátt gera ítarlegri grein fyrir hagsmunum sínum í beiðninni til dómsins þar sem ekki lá fyrir ný málshöfðun á þeim tíma. Þetta verður þó heldur ekki talið koma að sök þar sem varnaraðili telur í sinni greinargerð, með réttu, ljóst að beiðnin varði sama sakarefni og fjallað var um í dómi Hæstaréttar nr. 845/2017, sbr. af því tilefni ítarlega reifun hans í greinargerð á þeim dómi. Því verður að telja haldlausa þá málsástæðu varnaraðila í bókun sem lögð var fram 28. júní sl. að í ljósi þess að Hæstiréttur hefði vísað frá framangreindu máli og gagnabeiðni sóknaraðila hefði komið fram áður en nýtt mál hefði verið höfðað hafi í raun verið ákveðið tómarými í málinu á þeim tíma og sóknaraðili hafi þá ekki haft lögvarða hagsmuni af beiðninni og beri að vísa henni frá eða hafna henni af þeim sökum. Beiðnin var til umfjöllunar fyrir dómnum þegar nýtt mál var höfðað vegna sakarefnisins, en það var gert innan sex mánaða frá því að dómur Hæstaréttar gekk 11. janúar sl. Af beiðninni má og ráða að sóknaraðili hafði þá þegar dregið útlínur nýs máls og skrifað stefnu málsins án þess þó að stefna hefði verið birt.

 

Því verður talið ótvírætt að til grundvallar beiðni sóknaraðila liggi brýnir og lögvarðir hagsmunir hans. Jafnframt verður því hafnað út frá sömu sjónarmiðum að beiðnin beinist að atriðum sem bersýnilegt sé að skipti ekki máli og eigi þannig ekki erindi inn í málið sem sóknaraðili hefur höfðað eða séu tilgangslaus til sönnunar. Því girðir 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 ekki fyrir að fallist verði á beiðni sóknaraðila.

 

-------

 

Varnaraðili telur að þagnarskylduákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki standi því í vegi að hægt sé að fallast á kröfur sóknaraðila. Fallast verður á að flest ef ekki öll þau gögn sem óskað er eftir séu þeirrar gerðar að þau séu að öllum líkindum af þeim sökum undirseld ákvæðinu. Því verður að líta nánar til þeirra hagsmuna sem felast í því að full leynd ríki áfram um skjölin andspænis þeim hagsmunum sem sóknaraðili hefur af því að fá gögnin afhent.

 

Til þess að unnt sé að meta hvort beiðni um gögn eða upplýsingar fari í bága við þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. verður sá sem óskar aðgangs að gögnunum að tilgreina nægilega skýrt hvaða gagna sé óskað. Almenn staðhæfing fjármálafyrirtækis um að gögn séu háð þagnarskyldu leiðir á hinn bóginn ekki ein og sér til þess að þau verði ekki afhent. Er það hlutverk dómstóla að leggja mat á það í hverju tilviki hvort í bága fari við þagnarskyldu að veita upplýsingar eða afhenda gögn, sbr. til að mynda athugasemdir um 58. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 161/2002. Við það mat hefur m.a. verið lagt til grundvallar, sbr. fordæmi Hæstaréttar, að ekki sé ástæða til að veita félögum, sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta eða slita, jafn ríka vernd og einstaklingum, sbr. XII. kafla laga nr. 161/2002, en varnaraðili var í slitameðferð og engu breytir að mati dómsins þótt henni sé nú lokið. Verndin geti ekki aukist við það og farið í fyrra horf, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 385/2016.

 

Hér hlýtur að verða horft til þess að gögn þau sem óskað er afhendingar á eru nú meira en tíu ára gömul, þ.e. þær ákvarðanir og þau samskipti sem um ræðir áttu sér stað fyrir bankahrun hér á landi í byrjun október 2008, eða nánar tiltekið í janúar og maí það ár.

 

Dómurinn telur að það hafi ekki verið nægjanlega rökstutt hvers vegna þau gögn sem um ræðir séu þess eðlis að brýnir hagsmunir varnaraðila krefjist þess að þau fari leynt. Eins og fram hefur komið er umræddra lánveitinga til Eglu Invest B.V. getið í rannsóknarskýrslu Alþingis. Ekkert liggur fyrir í málinu sem gefur vísbendingar um hver starfsemi Eglu Invest B.V. er í dag og hvers vegna það gæti skaðað félagið að umbeðnar upplýsingar yrðu veittar nú, rúmum tíu árum eftir þessar ráðstafanir. Þá er jafnframt með öllu óútskýrt hvernig Citibank þurfi undir þeim kringumstæðum sem hér eru uppi, og eftir allan þennan tíma, vernd á grundvelli 58. gr. laga nr. 161/2002.

 

Á hinn bóginn verður ekki betur séð en að brýnir hagsmunir sóknaraðila geti legið til þess að fá umræddar upplýsingar eins og hann byggir upp mál sitt sem höfðað var 5. júní sl., þótt hitt geti allt eins verið að gögnin muni ekki nýtast honum og jafnvel orðið til þess að rýra málstað hans. Um það verður ekkert fullyrt nema að gögnin fáist afhent.

 

Að svo komnu máli verður hins vegar að líta svo á að hagsmunir sóknaraðila af því að fá umrædd gögn afhent séu meiri en hagsmunir varnaraðila og eftir atvikum þriðja manns af því að leynd haldist.

 

Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður annars vegar hafnað kröfu varnaraðila um frávísun á málinu í heild en hins vegar fallist á kröfur sóknaraðila, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

 

Með hliðsjón af 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 er ljóst að gæta þarf varfærni þegar úrskurður héraðsdómara um afhendingu eða aðgang að gögnum fjármálafyrirtækis er túlkaður. Leiki vafi á því hvort tilteknar tegundir samninga eða skjala falli undir úrskurðarorð dómsins gæti varnaraðili alla jafnan synjað um aðgang að hlutaðeigandi upplýsingum. Væri þá sóknaraðila, ef hann teldi þörf, heimilt í framhaldi af slíkri synjun að gera nýja kröfu fyrir dómi um aðgang að slíkum gögnum. Þrátt fyrir orðalag í kröfum sóknaraðila nr. 1 og 2, þ.e. „auk fylgigagna svo sem:“ sem þannig tilgreinir ekki ákveðin skjöl sem alla jafnan er talið skilyrði fyrir afhendingu gagna verður að telja tilgreininguna nægjanlega þar sem hún miðast einvörðungu við tiltekinn og afmarkaðan lánasamning. Jafnframt liggur í hlutarins eðli að mat varnaraðila á því hvað teljist til fylgigagna með lánasamningum, þ.e. þegar hann vill uppfylla skyldur sínar samkvæmt úrskurðarorði, sætir ekki endurskoðun eða kallar á athugasemdir sóknaraðila nema hann verði upplýstur um vafaatriði hvað þetta varðar. Sömu sjónarmið eiga væntanlega við um orðalagið „sambærileg bréf“ í kröfu nr. 4. Þá geta gögn samkvæmt 3. kröfu varðandi fundargerðir einungis, eðli máls samkvæmt, varðað málefni Eglu Invest B.V. og er því varnaraðila rétt að afmá aðrar upplýsingar. Með vísan til framangreindra sjónarmiða þykir dómnum ekki ástæða til að takmarka kröfur sóknaraðila.

 

Vegna kröfu varnaraðila um kostnað sem kann að hljótast af því að finna til og afhenda gögn þá athugist að ekki er gert ráð fyrir því í lögum nr. 91/1991 að heimilt sé að synja um aðgang eða afhendingu gagna með vísan til þess kostnaðar sem aðili hefur af slíkri afhendingu eða veitingu aðgangs. Hins vegar kann að vera að aðili sem skyldaður hefur verið til að afhenda gögn geti eftir atvikum átt fjárkröfu gegn aðila dómsmáls vegna kostnaðar sem hann hefur orðið fyrir og eigi þess kost að krefjast endurgreiðslu slíks kostnaðar samkvæmt almennum reglum. Engin heimild er í X. kafla laganna um að úrskurða kostnað vegna þessa og ekki eru heldur efni til að úrskurða varnaraðila ómaksþóknun, enda er ekki hægt að mati dómsins að beita hér 4. mgr. 79. gr. laganna sem gildir að mati dómsins einungis um mál samkvæmt XII. kafla laganna. Kröfum varnaraðila í þessa veru verður því hafnað.

 

Dómurinn telur að endingu ekki ástæðu til að nýta heimild í 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991 til að skoða umrædd gögn, hvorki þau öll né hluta þeirra, áður en ákvörðun er tekin um afhendingu þeirra, enda verður ekki séð, og það hefur ekki verið rökstutt með nægjanlegum hætti, að nauðsyn sé á því að beita úrræðinu.

 

Ekki verður séð að krafist hafi verið málskostnaðar af hálfu sóknaraðila og verður hann því ekki dæmdur.

 

Málið fluttu Hróbjartur Jónatansson lögmaður fyrir sóknaraðila og Stefán A. Svensson lögmaður fyrir varnaraðila.

 

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættri 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Dómarinn tók við meðferð málsins 6. júní sl.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila þar sem gagnabeiðni var útvíkkuð með bókun sem lögð var fram á dómþingi 28. júní sl. er vísað frá dómi.

 

Varnaraðila Kaupþingi ehf. er skylt að afhenda sóknaraðila, Samtökum sparifjáreigenda, afrit af þeim gögnum sem krafist er afhendingar á samkvæmt kröfum nr. 1, 2, 3 og 4 í beiðni sóknaraðila til dómsins.