Print

Mál nr. 30/2019

Lögmannafélag Íslands (Óttar Pálsson lögmaður)
gegn
Jóni Steinari Gunnlaugssyni (Björgvin Þorsteinsson lögmaður)
Lykilorð
  • Lögmaður
  • Úrskurðarnefnd
  • Aðild
  • Stjórnarskrá
  • Sératkvæði
Reifun

J höfðaði mál þetta á hendur L og krafðist ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna þar sem honum var gert að sæta áminningu vegna tilgreindrar framgöngu sinnar í samskiptum við dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Í málinu greindi aðila á um hvort L hefði heimild til að leggja fram kvörtun á hendur félagsmanni til úrskurðarnefndarinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn væri sérhverjum þeim sem teldi að lögmaður hefði í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríddi gegn lögum eða siðareglum heimilað að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum vegna þess. Þrátt fyrir framangreint orðalag ákvæðisins yrði það þó ekki skýrt á þann veg að samkvæmt því gæti hver átt sök sem vildi, enda væri það skilyrði jafnframt sett að sá hinn sami teldi að gert hefði verið á „sinn hlut“. Yrði ekki talið að í ákvæðinu fælist frávik frá almennum reglum stjórnsýsluréttar um nauðsyn beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna til kæruaðildar. Var hvorki talið að í ákvæði 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 fælist nægilega skýr lagaheimild fyrir L til að bera fram kvörtun vegna hinnar meintu háttsemi J né að hagsmunir félagsins vegna hennar væru slíkir að félagið teldist hafa öðlast þann rétt. Var hinn áfrýjaði dómur staðfestur og úrskurðurinn felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Haraldur Henrysson, fyrrverandi hæstaréttardómari, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Eggert Óskarsson, fyrrverandi héraðsdómari, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2019. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar á dómi Landsréttar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta á rætur að rekja til samskipta stefnda við dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur síðla árs 2016 í framhaldi af beiðni hins fyrrnefnda um flýtimeðferð máls sem hann hugðist höfða fyrir dómstólnum til ógildingar á rekstrar- og starfsleyfum tiltekins aðila. Stefndi taldi sig hafa fengið jáyrði dómstjórans fyrir því að hann þyrfti ekki að senda öll gögn málsins, sem voru viðamikil, með beiðninni. Hins vegar hafnaði dómstjórinn beiðninni og byggðist synjunin á því að nauðsynleg gögn hefðu ekki fylgt. Stefndi sendi þá dómstjóranum tölvubréf og lýsti þeirri skoðun á bréfi dómstjórans að það væri „furðulegt og reyndar eins konar högg undir beltisstað.“ Þá kvaðst hann ekki muna eftir „svona framgöngu embættismanns eða dómara fyrr á starfsæfi minni, sem spannar um hálfa öld“ og bætti við orðunum: „Vonandi sefur þú vel næstu nótt.“ Dómstjórinn svaraði þessu og kvaðst hafa sagt í fyrra samtali þeirra að ekki væri nauðsynlegt að senda öll gögnin en að hann hefði nefnt sem dæmi að væri óskað flýtimeðferðar vegna ákvörðunar stjórnvalds þá þyrfti ákvörðunin að sjálfsögðu að fylgja. Að öðru leyti kvaðst hann ekki hirða um ávirðingar stefnda. Þessu svaraði stefndi með tölvuskeyti nokkru síðar og kvaðst finna hjá sér þörf fyrir að ljúka þessum óskemmtilegu samskiptum við dómstjórann, mann sem hann hefði „jafnan talið að væri þokkalega heiðarlegur maður með sæmilegt jarðsamband.“ Tók hann fram að í ljósi samskiptanna hefðu allir venjulegir menn tekið upp símann og gert viðvart um vöntun gagna og bætti síðan við „[e]n ekki þú hinn mikli dómstjóri! Svo sendir þú mér í þokkabót svar sem er fullt af hroka og yfirlæti. Ef satt skal segja kenni ég í brjósti um þig. Menn sem koma svona fram eru að mínum dómi varla í góðu jafnvægi. Ég mun núna eftir helgina senda að nýju óskina um flýtimeðferð, þó ekki væri til annars en að skemmta þér í yfirlæti þínu.“ Sendi hann síðan nýja beiðni um flýtimeðferð til Héraðsdóms Reykjavíkur en henni var hafnað með þeim rökum að hvorki væri séð að brýn þörf væri á skjótri úrlausn málsins né að sú úrlausn hefði slíka þýðingu fyrir skjólstæðing stefnda að rétt væri að verða við beiðninni. Í framhaldi þessa sendi stefndi dómstjóranum enn tölvuskeyti þar sem hann sagði meðal annars að dómstjórinn ætti að láta af hroka og yfirlæti sem svo mjög hefði einkennt afgreiðslu  hans á málinu. Miklu betur færi á því að sleppa slíku þó að menn kynnu að líta stórt á sig. Þeim liði að jafnaði betur þannig.    

 Ofangreind samskipti urðu tilefni bréfs dómstjórans til formanns áfrýjanda 4. janúar 2017 þar sem hann vakti athygli á framgöngu stefnda sem að sínu áliti bæri vott um „fádæma dónaskap, virðingarleysi og vanstillingu“ stefnda gagnvart verkefnum dómstjórans eftir að hann hafði tvívegis hafnað beiðni stefnda um flýtimeðferð. Kvaðst dómstjórinn telja einsýnt að háttsemi stefnda bryti í bága við 19. gr. siðareglna lögmanna, „hvað þá almenna kurteisi og samskiptavenjur.“ Dómstjórinn tók fram að honum væri ekki kunnugt um hvernig dómari eða dómstjóri ætti að fara með mál sem þetta og léti sig ekki varða hvort félagið kysi að aðhafast en óskaði þess aðeins að hvorki hann né aðrir í sömu stöðu þyrftu eftirleiðis að sitja undir slíkum skætingi sem þarna um ræddi.

Stjórn áfrýjanda fjallaði um bréf þetta á fundi og sendi stefnda bréf 24. janúar 2017 og óskaði afstöðu hans og skýringa á umræddum samskiptum. Því bréfi svaraði stefndi 31. janúar og greindi frá atvikum eins og þau horfðu við honum. Taldi hann framkomu dómstjórans í sinn garð ámælisverða og bréf hans gæfi sérstakt tilefni til að spyrja hann hvernig hann færi með eftirlits- og agavald yfir dómurum sem starfa við dómstól hans þar sem brotinn sé freklega réttur á borgurum.

Með bréfi 8. mars 2017 sendi stjórn áfrýjanda úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun og krafðist þess að nefndin úrskurðaði hvort háttsemi stefnda, sem nánar var lýst í bréfinu, samrýmdist siðareglum lögmanna og teldist svo ekki vera yrðu honum ákvörðuð viðurlög til samræmis við tilefnið.

Stefndi krafðist þess í bréfi 23. mars 2017 að málinu yrði vísað frá nefndinni en ella synjað kröfu um að honum yrðu ákveðin viðurlög.

Úrskurðarnefndin úrskurðaði 26. maí 2017 að stefndi hefði brotið gegn 19. gr. siðareglna lögmanna og skyldi hann sæta áminningu. Í niðurstöðu nefndarinnar segir meðal annars: „Þegar metin eru þau skrif sem kærði sendi dómstjóranum í Reykjavík og fólu í sér viðbrögð kærða við úrlausn hans, er það mat nefndarinnar að kærði hafi farið langt út fyrir þau mörk sem ákvæði 19. gr. siðareglna lögmanna setur. Það getur ekki talist eðlilegt að lögmenn setji sig í beint samband við dómendur til að fjalla um óánægju sína með úrlausnir þeirra eftir að þær koma fram með þeim hætti sem gert var. Einstök ummæli kærða í þessum samskiptum, sem að ofan eru rakin, um högg undir beltisstað, um nætursvefn dómarans, hroka, yfirlæti, skort á jarðsambandi, heiðarleika og að hann sé varla í góðu jafnvægi, eru fjarri því sem er viðeigandi í samskiptum lögmanna við dómendur. Með þessu er gefið í skyn að umræddan dómara skorti þá lyndiseinkunn sem dómara þarf að prýða og dómstólalög gera ráð fyrir. Ekkert tilefni var til þessa. Ekki fæst séð að þessi tilskrif kærða hafi á nokkurn hátt þjónað þeim tilgangi að gæta hagsmuna skjólstæðingsins og verða þau ekki réttlætt með því. ... Við ákvörðun viðurlaga er horft til þess að brot kærða lýtur að þeim mikilvægu hagsmunum réttarkerfisins að samskipti séu fagleg og grundvölluð á virðingu. Víki lögmenn frá þessu í andstöðu við lög eða siðareglur er farið gegn þeim hagsmunum og þar með einnig hagsmunum skjólstæðinga þeirra. Nefndin telur brot kærða alvarlegt og sætir hann áminningu vegna þess.“   

Stefndi höfðaði síðan mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 13. október 2017 til ógildingar á ofangreindum úrskurði. Með dómi héraðsdóms 17. maí 2018 var áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda. Var þeirri niðurstöðu snúið við með dómi Landsréttar 5. apríl 2019 þar sem fallist var á kröfur stefnda og úrskurðurinn felldur úr gildi. Áfrýjunarleyfi var veitt fyrir Hæstarétti á þeim grunni að dómur í málinu hefði verulegt almennt gildi um skýringu 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

II

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er mælt fyrir um starf og hlutverk áfrýjanda í lögum nr. 77/1998 um lögmenn, en með lögmanni er eftir 1. mgr. 1. gr. laganna átt við þann sem hefur leyfi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti eða Hæstarétti Íslands. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skulu lögmenn hafa með sér félag sem nefnist Lögmannafélag Íslands og er þeim öllum skylt að vera þar félagsmenn. Í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan megi skylda til aðildar að félagi, en með lögum megi þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 setur félagið sér samþykktir og skal það ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega er mælt fyrir um í lögum, sbr. þó 5. mgr. sömu greinar um að félagið geti starfrækt deild eða deildir sem félagsmönnum er frjálst að eiga aðild að.

Í 3. mgr. 3. gr. laganna segir að í tengslum við áfrýjanda skuli starfa sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna, sem hafi lögsögu yfir lögmönnum er starfa hér á landi og er þar mælt fyrir um hvernig hún skuli skipuð. Eftir 4. mgr. skal áfrýjandi bera kostnað af störfum sem félaginu og úrskurðarnefnd lögmanna eru falin með lögum. Í 1. mgr. 5. gr. er kveðið á um að áfrýjandi komi fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum og í 2. mgr. sömu greinar segir að áfrýjandi setji siðareglur fyrir lögmenn. Í 1. mgr. 27. gr. laganna segir að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. geti hann lagt kvörtun fyrir úrskurðarnefndina. Er þar vísað til siðareglna sem áfrýjandi hefur sett fyrir lögmenn (Codex Ethicus) 17. mars 2000 með síðari breytingum.

III

Ágreiningur  er milli aðila málsins um það hvernig túlka eigi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og þá hvort áfrýjandi hafi heimild til að leggja fram kvörtun á hendur félagsmanni fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Áfrýjandi heldur því fram að hann hafi slíkan rétt og að við úrlausn málsins þurfi annars vegar að huga að réttri túlkun ákvæðisins og hins vegar að hagsmunum áfrýjanda af því að lögmenn virði ákvæði siðareglna í samskiptum við dómstóla. Telur hann að ályktun sú sem dregin er í hinum áfrýjaða dómi af lögskýringargögnum við túlkun ákvæðisins sé með öllu órökrétt. Vitnar hann til umfjöllunar um ákvæðið á Alþingi þar sem í upphafi hafi verið gert ráð fyrir að einungis umbjóðandi lögmanns gæti lagt fram kvörtun til úrskurðarnefndarinnar teldi hann lögmanninn hafa gert á sinn hlut. Þessu hafi verið breytt í meðförum þingnefndar í núgildandi horf með þeirri skýringu meðal annars að eðlilegt væri að víkka heimildina út þannig að um greiða kæruleið yrði að ræða. Augljóst sé að löggjafinn hafi talið að áfrýjandi hefði verulega hagsmuni af því að lögmenn gerðust ekki sekir um framferði er telja mætti stéttinni ósamboðið. Í hinum áfrýjaða dómi sé hvergi vikið að þessum hagsmunum. Þá vísar áfrýjandi til 43. gr. siðareglna er hann hefur sett samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998. Hann telur engar vísbendingar að finna í lögskýringargögnum um að eftirlitsskyldur áfrýjanda væru aflagðar eða fyrir það girt að hann gæti vísað málum sem hann hefði hagsmuni af til úrskurðarnefndarinnar. Áfrýjandi byggir á því að í þessu máli séu hagsmunir hans verulegir, beinir og lögvarðir. Stefndi hafi því gert á hlut hans í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Stefndi byggir á því að stjórn áfrýjanda hafi ekki heimild til að kvarta til úrskurðarnefndar lögmanna vegna samskipta lögmanns við dómara og að með kvörtun sinni hafi áfrýjandi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt, í beinni andstöðu við lög og þau sjónarmið er gildi um neikvætt félagafrelsi, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995. Með lögum nr. 77/1998 hafi eftirlitshlutverk áfrýjanda verið fellt niður og vald til að ákveða lögmönnum agaviðurlög vegna brota gegn lögum og siðareglum fært til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar. Áréttað sé í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 að áfrýjandi skuli ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem mælt sé fyrir um í lögum, sbr. þó 5. mgr. ákvæðisins. Öll vafaatriði varðandi þetta verði að túlka með þrengjandi skýringu. Hvergi í lögum sé áfrýjanda falið að hafa eftirlit með því að lögmenn fylgi siðareglunum. Ekki sé fullnægjandi að kveða svo á í reglunum sjálfum. Varðandi ætlaða hagsmuni áfrýjanda af fylgni félagsmanna við siðareglur lögmanna í einkasamskiptum lögmanna og dómara er það mat stefnda að þeir séu í besta falli almennir, óverulegir og óbeinir og alls ekki slíkir að réttlætt geti að áfrýjandi taki upp hanskann fyrir dómara, sem telji lögmann hafa brotið gegn sér og beini kvörtun af því tilefni til úrskurðarnefndar lögmanna.

IV

Áður er fram komið að með 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er sérhverjum þeim sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna heimilað að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum vegna þess. Þrátt fyrir framangreint orðalag ákvæðisins verður það þó ekki skýrt á þann veg að samkvæmt því geti hver átt sök sem vill, enda er það skilyrði jafnframt sett að sá hinn sami telji að gert hafi verið „á sinn hlut“. Verður ekki talið að í ákvæðinu felist frávik frá almennum reglum stjórnsýsluréttar um nauðsyn beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna til kæruaðildar. Þá verður og að hafa í huga við skýringu ákvæðisins að aðild að áfrýjanda er skyldubundin og að með tilliti til þessa er sérstaklega áréttað í 2. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga að félagið skuli ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega sé mælt fyrir um í lögum, utan heimildarinnar í 5. mgr. lagagreinarinnar til starfsrækslu sérstakrar félagsmáladeildar sem áður hefur verið vikið að. Ber því enn frekar til þess nauðsyn, með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, að gera strangar kröfur til skýrleika lagaákvæða er kveða á um eftirlit stjórnarinnar gagnvart einstökum félagsmönnum og heimila henni eftirfylgni gagnvart úrskurðarnefnd félagsins vegna meintra brota einstakra lögmanna á lögum eða siðareglum þess. Þótt áfrýjanda sé í 13. gr. laga nr. 77/1998 falið að hafa eftirlit með tilteknum þáttum í starfsemi lögmanna, svo sem að hann uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum samkvæmt 6., 9. og 12. gr. laganna, verður hvorki talið að í fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 27. gr. felist nægilega skýr lagaheimild fyrir áfrýjanda til að bera fram kvörtun vegna hinnar meintu háttsemi stefnda né að hagsmunir félagsins vegna hennar séu slíkir að félagið teljist hafa öðlast þann rétt. Í samræmi við þetta verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest og gildir það einnig um niðurstöðu hans um málskostnað.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lögmannafélag Íslands, greiði stefnda, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, 900.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                           

Sératkvæði

                                                              Haralds Henryssonar

                                                              og Eggerts Óskarssonar

Við erum sammála því sem kemur fram í köflum I-III í atkvæði meirihluta dómenda.

           Meðal þeirra hlutverka sem löggjafinn hefur ætlað áfrýjanda er sem fyrr segir að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum og setja lögmönnum siðareglur svo sem hann hefur gert. Er þar kveðið á um góða lögmannshætti, skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum, samskipti lögmanna við dómstóla og lögmanna innbyrðis svo nokkur dæmi séu nefnd. Í 1. mgr. 43. gr. reglnanna segir að stjórn áfrýjanda hafi eftirlit með því að þeim sé fylgt, en úrskurðarnefnd lögmanna skeri úr ágreiningi um skilning á reglunum, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í 3. mgr. 3. gr. samþykkta áfrýjanda sem settar eru samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er vísað til siðareglnanna þegar fjallað er um réttindi og skyldur félagsmanna. Þá er í 3. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna sem hún hefur sett sér, sbr. 2. málslið 1. mgr. 4. gr. sömu laga, gert ráð fyrir því að hlutverk hennar sé meðal annars að fjalla um erindi frá stjórn áfrýjanda samkvæmt 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna. Þegar litið er til þessara ákvæða í ljósi fyrirmæla löggjafans um setningu siðareglna verður að telja að áfrýjandi hafi réttilega með höndum eftirlit með fylgni við reglurnar og séu félagsmeðlimir við það bundnir. Eftirlitshlutverk áfrýjanda að þessu leyti er hluti af lögbundnu hlutverki hans og er í almannaþágu, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki verður talið vafa undirorpið að meðal þeirra hagsmuna sem siðareglum lögmanna er ætlað að vernda séu hagsmunir áfrýjanda og lögmannastéttarinnar í heild af því að einstakir lögmenn komi fram af virðingu fyrir starfi sínu og skaði ekki orðstír stéttar sinnar í heild.

Við setningu laga nr. 77/1998 kom fram ótvíræður vilji löggjafans til þess að kæruleið til úrskurðarnefndar lögmanna yrði greið. Eftir orðanna hljóðan verður 1. mgr. 27. gr. laganna  ekki skilin öðru vísi en svo að hver sá sem telur lögmann hafa gengið á hagsmuni sína með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti kvartað til úrskurðarnefndarinnar. Er þessi heimild ekki einskorðuð við umbjóðendur lögmanna svo sem greinilega kemur fram í lögskýringargögnum sem áður er vísað til. Miðað við afdráttarlaust orðalag ákvæðisins þykir ekki tækt að álykta að áfrýjandi sé hér undanskilinn enda eigi hann ótvíræðra hagsmuna að gæta vegna framkomu lögmanns og gildir þá einu þótt aðrir kynnu að eiga hagsmuna að gæta af sama tilefni. Kvörtun áfrýjanda á hendur stefnda til úrskurðarnefndarinnar kom til vegna háttsemi sem hann taldi lúta að slíkum hagsmunum sínum. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að þessir hagsmunir hafi verið beinir, lögvarðir og nægilega sérgreindir til að áfrýjandi gæti átt aðild að máli þessu fyrir úrskurðarnefndinni. Auk þess sem þetta styðst við ofangreint ákvæði 27. gr. er þetta og í samræmi við ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna um hagsmunagæslu áfrýjanda fyrir lögmannastéttina og samrýmist áskilnaði 2. mgr. 3. gr. laganna um starfsemi áfrýjanda. Stefndi varð sem félagsmaður að una kvörtunarrétti áfrýjanda.

Þá skal á það bent að fyrir liggja skýr dómafordæmi Hæstaréttar um að félagasamtökum sem telja brotið á lögvörðum hagsmunum félagsmanna sinna sé heimil málsókn hvort sem er fyrir dómstólum eða á stjórnsýslusviði eins og hér háttar til, sbr. og málshöfðunarheimild 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, teljum við að staðfesta eigi hann að öllu leyti.                                                   

 

 

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson, Kristbjörg Stephensen og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1   Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 22. júní 2018 að fengnu áfrýjunarleyfi. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2018 í málinu nr. E-3301/2017.

2   Áfrýjandi krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að ógiltur verði með dómi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna, uppkveðinn þann 26. maí 2017 í málinu nr. 14/2017: Lögmannafélag Íslands gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins í héraði og fyrir Landsrétti.

3   Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Hann krefst einnig greiðslu málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Landsrétti að mati dómsins.

Málsatvik

4   Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar er meðal annars gerð grein fyrir beiðni áfrýjanda 5. desember 2016 til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur um flýtimeðferð á máli skjólstæðings síns, samskiptum þeirra á milli og synjun dómstjóra á beiðni áfrýjanda 7. sama mánaðar. Í tölvuskeytum áfrýjanda til dómstjóra eftir synjunina sem rakin eru í héraðsdómi, lýsir áfrýjandi áliti sínu á afgreiðslu dómstjóra meðal annars með þeim orðum að hann muni ekki eftir svona framgöngu embættismanns eða dómara fyrr á starfsævi sinni, sem spanni um hálfa öld. Í fyrrnefndum tölvuskeytum segir jafnframt: „Ég finn hjá mér þörf til að ljúka þessum óskemmtilegu samskiptum við þig, mann sem ég hef jafnan talið að væri þokkalega heiðarlegur maður með sæmilegt jarðsamband.“ Þá rekur héraðsdómur að þann 4. janúar 2017 sendi dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur bréf til formanns stefnda þar sem hann vekur athygli formannsins á framkomu áfrýjanda í samskiptum þeirra. Taldi dómstjórinn framgöngu áfrýjanda bera vott um „fádæma dónaskap, virðingarleysi og vanstillingu lögmannsins“ sem brjóti í bága við 19. gr. siðareglna lögmanna og gæti vart talist stétt lögmanna til framdráttar. Í bréfinu krafðist dómstjórinn ekki beinna aðgerða stefnda af þessu tilefni en afrit af tölvuskeytum áfrýjanda fylgdu bréfinu.

Niðurstaða

5   Í 1. mgr. 3. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 segir að lögmenn skuli hafa með sér félag sem nefnist Lögmannafélag Íslands og sé þeim öllum skylt að vera þar félagsmenn. Af þeirri skylduaðild leiðir að hvorki áfrýjandi né nokkur annar lögmaður getur skorast undan aðildinni eða þeim skyldum sem henni fylgja. Í 2. mgr. sama ákvæðis segir að Lögmannafélagið setji sér samþykktir. Í greininni segir einnig að félagið skuli ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega er mælt fyrir um í lögum, sbr. þó 5. mgr., en það ákvæði kemur ekki til álita hér. Í 3. mgr. 3. gr. laganna segir síðan að í tengslum við Lögmannafélag Íslands skuli starfa sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna sem leysi úr málum eftir ákvæðum laganna. Úrskurðarnefndin hafi lögsögu yfir lögmönnum sem starfa hér á landi í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laganna.

6   Í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar segir  að engan megi skylda til aðildar að félagi, en með lögum megi þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Meginrökin fyrir skylduaðild að stefnda eru reist á ákvæðum laganna um eftirlitshlutverk úrskurðarnefndar lögmanna samkvæmt 3. mgr. 3. gr.  þeirra, sbr. og 26. og 27. gr. laganna. Leiðir af ákvæði stjórnarskrárinnar sem og 3. mgr. 3. gr. laganna að heimildir stjórnar stefnda til að koma fram viðurlögum gagnvart lögmönnum þurfa að styðjast við skýra lagaheimild.

7   Meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna fer eftir stjórnsýslulögum og setur nefndin sér nánari reglur um meðferð einstakra málaflokka, sbr. 4. gr. laga nr. 77/1998. Þá setur stefndi siðareglur fyrir lögmenn, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.

8   Í 26. og 27. gr. laga nr. 77/1998 eru með tæmandi hætti talin þau tilvik sem verða borin undir úrskurðarnefndina. Í 26. gr. er fjallað um rétt lögmanns til endurgjalds en í 27. gr. segir að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. geti hann lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum.

9   Ágreiningur aðila máls þessa lýtur einkum að því hvort stefndi hafi á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 getað átt aðild að málinu og lagt fram kvörtun fyrir úrskurðarnefndina á hendur áfrýjanda fyrir brot á siðareglum stefnda. Samkvæmt orðanna hljóðan er kæruheimildin víðtæk. Á hinn bóginn verður ráðið af lögskýringargögnum að undir 27. gr. falli fyrst og fremst mál sem byggjast á kvörtun umbjóðanda á hendur lögmanni fyrir háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

10 Að öllu því virtu sem að framan greinir verður að telja að ekki sé fyrir hendi nægilega traust lagaheimild fyrir stjórn stefnda til að koma fram viðurlögum gegn félagsmanni  með því að leggja fram kvörtun fyrir úrskurðarnefndina. Skírskotun til málsmeðferðarreglna nefndarinnar og siðareglna stefnda nægir ekki til að bæta úr skorti á slíkri skýrri heimild til handa stefnda til að sækja hið umþrætta mál fyrir úrskurðarnefndinni. Verður úrskurðurinn því felldur úr gildi.

11 Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Felldur er úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna frá 26. maí 2017 í málinu nr. 14/2017: Lögmannafélag Íslands gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl.

Stefndi, Lögmannafélag Íslands, greiði áfrýjanda, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti, samtals 1.200.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, fimmtudaginn 17. maí 2018

                Mál þetta sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð þann 23. apríl sl., er höfðað af Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Holtsvegi 31, 210 Garðabæ, með stefnu birtri 13. október 2017, á hendur stefnda, Lögmannafélagi Íslands, Álftamýri 9, 108 Reykjavík.

                Stefnandi gerir þær dómkröfur að ógiltur verði með dómi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna, uppkveðinn þann 26. maí 2017 í málinu nr. 14/2017: Lögmannafélag Íslands gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                Ágreiningsefni og málsatvik

                Málavextir eru þeir að stefnanda var ásamt Konráð Jónssyni héraðsdómslögmanni falið að annast málsókn til ógildingar á rekstrar- og starfsleyfum sem Matvælastofnun og Umhverfisstofnun höfðu veitt fyrirtækinu Arnarlaxi hf. til sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði með leyfum dags. 15. febrúar og 6. maí 2016. Með bréfi dags. 5. desember 2016 fór stefnandi fram á það við þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur að umrætt mál fengi flýtimeðferð með vísan til 123. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í bréfi þessu kvaðst stefnandi hafa vísað til þeirra hagsmuna er í húfi væru fyrir málsaðila og aðra í sömu sporum en með því hafi fylgt stefna í málinu til útgáfu.

                Áður en stefnan var þannig send dómstjóra afréði stefnandi að hafa símasamband við hann. Í því símtali kveðst stefnandi hafa greint dómstjóranum frá því að stefnan geymdi ítarlega og nákvæma lýsingu á málavöxtum og að henni fylgdu viðamikil gögn. Kveðst stefnandi hafa spurt dómstjórann hvort hann vildi fá gögnin með beiðninni um flýtimeðferðina. Er staðhæft af hálfu stefnanda að dómstjórinn hafi þá enga þörf talið á því á þessu stigi málsins og hafi þá orðið að samkomulagi með stefnanda og dómstjóranum að stefnandi sendi honum skjalaskrána og að dómstjórinn myndi síðan láta stefnanda vita ef hann teldi sig þurfa að sjá einhver þeirra skjala sem talin hafi verið upp í skjalaskránni og myndi þá stefnandi senda honum þau skjöl.

                Til samræmis við framangreint ætlað samkomulag hafi stefnandi getið þess í niðurlagi bréfs síns, dags. 5. desember 2016, að málsgögn sem fram yrðu lögð við þingfestingu málsins væru mikil vöxtum og hann léti fylgja skrá yfir þau. Hafi hann tekið fram að ef dómstjóri óskaði eftir að kynna sér einhver þeirra áður en hann tæki afstöðu til beiðninnar myndi stefnandi framvísa skjölum. Eftir að stefnandi sendi framangreinda beiðni inn og áður en tekin var afstaða til hennar áttu dómstjórinn og stefnandi samtal símleiðis þar sem staðhæft er af hálfu stefnanda að dómstjórinn hafi tekið fram að hann hefði móttekið beiðnina og að vel hefði verið gengið frá öllu af hálfu stefnanda, en það eina sem væri þó til athugunar snerti blaðsíðu 19 í beiðninni.

                Fyrir liggur í málinu að dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur hafnaði síðan framangreindri beiðni stefnanda með bréfi dags. 7. desember 2016. Byggðist synjunin á því að nauðsynleg gögn hefðu ekki fylgt með erindi stefnanda. Lítur stefnandi svo á að með þessari afgreiðslu málsins hafi dómstjórinn brotið gegn því framangreinda ætlaða samkomulagi sem stefnandi telur að hann og dómstjórinn hafi áður komist að.

                Eftir að svar dómstjórans um synjun barst stefnanda sendi stefnandi sama dags dómstjóranum tölvuskeyti þar sem hann lýsti þeirri skoðun á bréfi dómstjórans að það væri „furðulegt og reyndar eins og högg undir beltisstað“. Vísaði stefnandi þar til samskipta vegna gagna málsins. Í niðurlagi skeytisins kvaðst stefnandi ekki muna eftir „slíkri framgöngu embættismanns eða dómara á starfsæfi sinni sem spannaði hálfa öld.“ Bætti stefnandi síðan að endingu við orðunum „vonandi sefur þú vel næstu nótt“.

                Dómstjórinn sendi síðan stefnanda tölvuskeyti þann 7. desember 2016. Í því skeyti kvaðst hann þurfa að leiðrétta stefnanda. Sagðist dómstjórinn hafa sagt í samtali þeirra að ekki væri nauðsynlegt að senda inn öll gögnin en að hann hefði nefnt sem dæmi að ef óskað væri flýtimeðferðar vegna ákvörðunar stjórnvalds þá þyrfti að sjálfsögðu að fá ákvörðunina. Kvaðst dómstjórinn að öðru leyti ekki hirða um ávirðingar stefnanda, en kvaðst þykja það leitt ef stefnandi hefði gleymt samtali þeirra.

                Stefnandi sendi dómstjóranum þá enn tölvuskeyti dags. 11. desember 2016. Þar kvaðst stefnandi finna hjá sér þörf fyrir að ljúka þessum óskemmtilegu samskiptum við dómstjórann, mann sem hann hefði „jafnan talið að væri þokkalega heiðarlegur maður með sæmilegt jarðsamband.“ Stefnandi tók þar fram að hann myndi samskipti sín við dómstjórann á annan veg en jafnvel þótt dómstjórinn hefði rétt fyrir sér mætti honum vera ljóst að eitthvað hefði farið milli mála þegar gögnin sem dómstjórinn nefndi fylgdu ekki bréfinu. Stefnandi tók þá fram að í ljósi samskiptanna hefðu allir venjulegir menn þá tekið upp símann og gert viðvart um þetta en bætti síðan við: „ En ekki þú hinn mikli dómstjóri! Svo sendir þú mér í þokkabót svar sem er fullt af hroka og yfirlæti. Ef satt skal segja þá kenni ég í brjósti um þig. Menn sem koma svona fram eru að mínum dómi varla í góðu jafnvægi. Ég mun núna eftir helgina senda að nýju óskina um flýtimeðferð, þó ekki væri til annars en að skemmta þér í yfirlæti þínu.“

                Stefnandi sendi nýja beiðni um flýtimeðferð til Héraðsdóms Reykjavíkur þann 14. desember 2016. Þann 19. desember 2016 var þeirri beiðni um flýtimeðferð hafnað á þeim grunni að hvorki væri séð að brýn þörf væri á skjótri úrlausn málsins né að sú úrlausn hefði slíka þýðingu fyrir hagsmuni stefnanda að rétt væri að verða við beiðni.

                Í framhaldinu, 23. desember 2016, sendi stefnandi tölvuskeyti til dómstjórans þar sem hann sagði meðal annars að dómstjórinn ætti að láta af hroka og yfirlæti sem svo mjög hefði einkennt afgreiðslu hans í málinu. Sagði svo að það færi miklu betur á því að sleppa slíku þó að menn kynnu að líta stórt á sig. Þeim liði að jafnaði betur þannig.

                Þann 4. janúar 2017 sendi dómstjórinn bréf til Reimars Péturssonar, formanns Lögmannafélags Íslands. Í bréfinu lýsir dómstjórinn því að hafa átt í „óskemmtilegum samskiptum“ við stefnanda sem sé félagi í Lögmannafélaginu. Dómstjórinn benti þar á að háttsemi stefnanda í samskiptum þeirra tveggja hlyti að fara á svig við 19. gr. siðareglna lögmanna, „hvað þá almenna kurteisi og samskiptavenjur, og geti vart talist stétt lögmanna til framdráttar“. Tók dómstjórinn fram að þar sem honum væri ekki kunnugt um hvernig dómari eða dómstjóri ætti að fara með erindi sem þetta leitaði hann til formanns félagsins. Þá tók dómstjórinn fram að hann léti sig ekki varða hvernig eða hvort félagið kysi að aðhafast, en að hann óskaði þess aðeins að hvorki hann né aðrir í hans stöðu þyrftu „eftirleiðis að sitja undir skætingi sem þessum“. 

                Þann 24. janúar 2017 sendi Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands, bréf fyrir hönd stjórnar þess til stefnanda. Í bréfinu kom fram að erindi dómstjórans hefði verið lagt fyrir stjórnarfund í félaginu, þar sem samþykkt hefði verið að óska eftir afstöðu stefnanda til erindis dómstjórans. Þá var óskað eftir skýringum á þeim samskiptum sem um ræðir, sérstaklega með tilliti til ákvæða 2., 19. og 22. gr. siðareglna lögmanna. Stefnandi sendi stjórn stefnda svarbréf ásamt með fylgiskjölum dags. 31. janúar 2017. Með bréfi dags. 8. mars 2017 kvartaði svo framkvæmdastjórinn fyrir hönd stjórnar Lögmannafélags Íslands til úrskurðarnefndar lögmanna. Í bréfinu var gerð sú krafa að nefndin úrskurðaði hvort háttsemi stefnanda í garð dómstjórans í Reykjavík samrýmdist siðareglum lögmanna og ákvarðaði honum viðurlög til samræmis við tilefnið teldist svo ekki vera. Kvörtunin var stimpluð um móttöku með móttökustimpli Lögmannafélags Íslands sama dag, 8. mars 2017, og málinu gefið númerið 14/2017 hjá úrskurðarnefnd lögmanna. Kvörtun stjórnar stefnda var síðan send til stefnanda í bréfi frá úrskurðarnefnd lögmanna, dags. 14. mars 2017. Í bréfinu var óskað eftir greinargerð stefnanda um erindið og sendi hann greinargerð ásamt með fylgiskjölum til úrskurðarnefndar lögmanna þann 23. mars 2017.

                Föstudaginn 26. maí 2017 var síðan kveðinn upp úrskurður í málinu nr. 14/2017: Lögmannafélag Íslands gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Úrskurðarorðið er svohljóðandi: „Kærði, Jón Steinar Gunnlaugsson hrl., sætir áminningu.“ Stefnandi er ósammála niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og afréð því að skjóta málinu til héraðs- dóms til að fá úrskurðinum hnekkt með dómi, sbr. 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.

                Geta ber þess að stefndi, Lögmannafélag Íslands, vísar um málavexti til kvörtunar sinnar til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 8. mars 2017, og til I. kafla úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 14/2017. Sé málavaxtalýsingu af hálfu stefnanda í stefnu mótmælt að því leyti sem hún feli í sér fullyrðingar um efni símtala á milli stefnanda og þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, sem ekki fari saman við lýsingu dómstjórans sjálfs, sbr. tölvuskeyti hans til stefnanda, dags. 7. desember 2016. Sé því sérstaklega mótmælt sem ósönnuðu að á milli stefnanda og dómstjórans hafi komist á einhvers konar samkomulag um tiltekna meðferð þess erindis sem stefnandi sendi dómstjóranum, dags. 5. desember 2016, samkvæmt 123. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og að með afgreiðslu dómstjórans, dags. 7. desember 2016, hafi dómstjórinn brotið gegn samkomulagi sem hann og stefnandi hefðu gert með sér.

 

                Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda

                Stefnandi byggi mál þetta á því að stefndi, Lögmannafélag Íslands (LMFÍ), geti ekki átt aðild að máli sem þessu hjá úrskurðarnefnd lögmanna, meðal annars vegna skorts á lögvörðum hagsmunum og vegna þess að lagareglur um nefndina leyfi ekki slíka aðild. Þá byggi stefnandi á því að úrskurðarnefnd LMFÍ sé vanhæf til þess að úrskurða í málum þar sem stefndi sé annar málsaðila. Þá byggi stefnandi á því að með úrskurðinum og þeim reglum sem hann sé byggður á sé í raun verið að skerða tjáningarfrelsi stefnanda og grafa undan getu hans til þess að sinna starfi sínu sem lögmaður. Loks byggi stefnandi á því að hann hafi ekki gerst brotlegur við neitt ákvæði í siðareglum lögmanna eða lögum og reglum sem gildi um störf lögmanna.

                Stefnandi byggi á því að stefndi geti ekki átt aðild að máli fyrir úrskurðarnefnd lögmanna er varði samskipti lögmanns og dómara. Í það minnsta geti slík aðild ekki átt við í þessu máli. Grundvallarheimildin til að leggja mál fyrir úrskurðarnefnd lögmanna sé í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Þar sé gert að skilyrði fyrir því að leggja mál fyrir nefndina að málshefjandi telji að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Stefnandi hafi ekki gert neitt á hlut stjórnar stefnda eða stefnda. Það breyti engu að dómstjórinn hafi lagt það í hendur stjórnar stefnda að ákveða hvernig brugðist yrði við erindi dómstjórans. Dómstjórinn sé sá eini er geti haldið því fram að stefnandi hafi gert á sinn hlut. Hvergi sé í lögum að finna heimild til að framselja réttinn til að leggja mál fyrir úrskurðarnefndina til annarra, en stjórn stefnda hafi sótt málið í eigin nafni.

                Samkvæmt reglum um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sem nefndin setji sér sjálf samkvæmt 2. mgr. 13. gr. samþykkta fyrir LMFÍ, sbr. 2. málslið 1. mgr. 4. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, sé hlutverk nefndarinnar meðal annars að fjalla um erindi sem stjórn stefnda sendi nefndinni samkvæmt 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna. Í 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna segi að úrskurðarnefnd lögmanna skeri úr ágreiningi um skilning á reglunum. Stefnandi fái ekki séð að á grundvelli framangreinds sé stefnda veitt sjálfstæð heimild til að leggja kæru gegn tilgreindum lögmanni fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Því hljóti almenna heimildin að gilda, það er að sá geti kvartað til nefndarinnar sem telji lögmann hafa gert á hlut sinn, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Stefnandi telji stefnda ekki hafa sýnt fram á það með neinum hætti að stefnandi hafi gert á sinn hlut.

                Stjórn stefnda hafi sjálf talið að lög um lögmenn nr. 77/1998 geri ekki ráð fyrir því að stjórn félagsins geti beint málum til úrskurðarnefndar lögmanna. Samkvæmt bréfi dags. 16. júlí 2015 hafi stefndi unnið drög að breytingum á lögum um lögmenn nr. 77/1998. Í drögunum hafi verið lögð til sú breyting á 27. gr. laganna að stjórn félagsins hefði heimild til þess að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun, teldi hún að lögmaður hefði með háttsemi sinni brotið gegn lögum eða reglum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna sem kastað gæti rýrð á störf og ímynd lögmanna. Þetta gefi skýrlega til kynna að almennt hafi verið litið svo á að stefndi gæti ekki átt aðild að málum fyrir úrskurðarnefnd lögmanna nema til kæmi breyting á lögum um lögmenn.

                Jafnvel þótt stefnda yrði játuð viss heimild til að bera mál undir úrskurðarnefnd lögmanna verði hún ekki skýrð svo rúmt að stjórn stefnda geti ákveðið að stefndi hafi frumkvæði að því að höfða mál fyrir úrskurðarnefndinni af hvaða tilefni sem er. Úrskurðarnefndin virðist sjálf fallast á þetta í úrskurði í þessu máli sem og í tveimur öðrum málum sem stjórn stefnda hafi tekið ákvörðun um að höfða fyrir nefndinni.       Í forsendum nefndarinnar fyrir niðurstöðu í málunum þremur sé efnislega samhljóða umfjöllun um það að játa verði stjórn stefnda formlegan rétt til þess að bera fram kvörtun þegar hún telji að lögmaður hafi brotið gegn lögum eða siðareglum og að brotið hafi beinst gegn hagsmunum lögmanna almennt eða gegn stefnda. Síðan segi að stefndi geti ekki knúið fram umfjöllun vegna kvartana sem beinist að því að lögmaður hafi í störfum sínum brotið gegn ákveðnum aðila, sem fari þá með forræði á sakarefni, þar á meðal á ákvörðun um það hvort þeir beini kæru til úrskurðarnefndar eða ekki.

                Í þessu máli hafi ekkert komið í veg fyrir það að dómstjórinn kærði stefnanda til úrskurðarnefndarinnar teldi hann stefnanda hafa gert á sinn hlut. Þetta hafi hann ekki gert heldur tilkynnt formanni stefnda um samskipti sín við stefnanda og sagt ekki láta það sig varða hvernig eða hvort félagið kysi að aðhafast eitthvað vegna málsins. Byggi stefnandi á því að dómstjórinn hafi ekki og geti ekki framselt málshöfðunarrétt sinn með bréfinu og að enginn annar en hann og stefnandi geti hafa haft lögvarða hagsmuni af úrlausn máls um einkasamskipti þeirra á milli. Þá byggi stefnandi á því að meint brot hans gegn dómstjóranum geti ekki varðað hagsmuni lögmannastéttarinnar eða lögmanna almennt, enda sé að mati stefnanda enginn dómari sem líti svo á að lögmaður sem eigi í samskiptum við dómara komi fram sem fulltrúi allrar stéttarinnar.

                Þá byggi stefnandi á því að úrskurðarnefnd lögmanna hafi verið vanhæf til að úrskurða í málinu vegna þess að nefndin sé rekin á kostnað stefnda og stefndi eigi verulegan þátt í því að skipa nefndarmenn. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998 fari um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna eftir stjórnsýslulögum nema annað leiði af ákvæðum V. kafla. Í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu reglur um sérstakt hæfi. Þar komi fram að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls eigi hann sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta eða ef fyrir hendi séu þær aðstæður er fallnar séu til þess að draga óhlutdrægni nefndarmannsins í efa með réttu.

                Stefnandi byggi á því að nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar eigi fjárhagslegra hagsmuna að gæta í málum sem stjórn stefnda ákveði að beina til hennar. Þá sé málshefjandi stjórn félagsins er ákveði og greiði nefndarmönnum laun sem séu ekki óveruleg. Þá sjái stefndi um að skipa einn af þremur nefndarmönnum samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998. Verði og að benda á, að ef úrskurðarnefnd lögmanna, sem hafi á að skipa þremur lögmönnum, hafi til umfjöllunar mál um það hvort lögmaður hafi í störfum sínum gert á hlut stéttar lögmanna í heild sinni þá séu nefndarmenn þegar af þeim sökum vanhæfir enda hefðu þeir þá beina hagsmuni af úrslitum máls.

                Varðandi gagnrýni lögmanna á störf dómara og neikvætt félagafrelsi vísist til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi í fjölda mála komist að þeirri niðurstöðu að lögmönnum skuli játuð rúm heimild til gagnrýni á störf dómara og annarra opinberra starfsmanna. Sú heimild taki bæði til opinberrar umfjöllunar um störf opinberra starfsmanna og til gagnrýni á störf þeirra sem fari með opinbert vald sem ekki sé borin út opinberlega heldur aðeins send afmörkuðum hópi. Sömu sjónarmið hljóti að eiga við um gagnrýni lögmanns á dómara þegar gagnrýninni sé beint til dómarans sjálfs.

                Stefnandi hefði getað skrifað grein um afgreiðslu dómstjórans á erindinu og haft þar uppi harðorða gagnrýni á afgreiðslu hans og birt í fjölmiðlum. Stefnandi hafi þó þess í stað ákveðið að gera það sem minna væri, að beina gagnrýni að dómstjóranum í persónulegu tölvuskeyti sem enginn hafi séð nema hann, í stað þess að birta gagnrýni í fjölmiðlum. Það fái ekki staðist að stefnandi sé í verri stöðu vegna þess að hann hafi kosið að beina gagnrýni að dómstjóranum einum en ekki birt hana opinberlega.

                Stefnandi telji sig ekki hafa gengið of hart fram í gagnrýni sinni á meðferð dómstjórans á erindi umbjóðanda stefnanda. Dómarar verði að mati stefnanda að þola það að spjótum sé beint að þeim í þeim tilfellum sem lögmenn telji afgreiðslu þeirra á erindum í ósamræmi við lög eða samkomulag sem dómari og lögmaður hafi komist að. Það gangi að mati stefnanda ekki upp að stjórn stefnda taki þá ákvörðun að taka upp hanskann fyrir dómara sem móðgist eða telji að sér vegið í tilfelli sem þessu.

                Það samrýmist ekki hlutverki stefnda eða úrskurðarnefndar á vegum þess félags að takmarka frelsi lögmanna til tjáningar og til að gagnrýna störf dómara líkt og hér. Það sé eitt af grundvallarhlutverkum lögmanns í hagsmunagæslu fyrir umbjóðendur að geta tjáð sig greiðlega við aðra lögmenn, dómstóla og stjórnvöld eftir eigin samvisku og án inngrips stefnda eða úrskurðarnefndar lögmanna. Lögmaður eigi ekki að þurfa að óttast áminningu frá henni vegna starfa í þágu umbjóðanda síns þar sem hann gagnrýni dómara fyrir ósanngjarna og óeðlilega meðferð á máli umbjóðandans.

                Stefndi sé félag sem lögmönnum sé skylt að eiga aðild að. Félagið feli því í sér lögbundna takmörkun á neikvæðu félagafrelsi, það er frelsinu til að standa utan félaga og verða ekki þvingaður til aðildar að þeim, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Sem slíkt verði LMFÍ að gæta þess að ganga ekki lengra í störfum sínum en nauðsynlegt sé til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Meginhlutverk félagsins sé samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/1998 þríþætt: Félagið komi í fyrsta lagi fram fyrir hönd lögmanna gagnvart stjórnvöldum og dómstólum um þau málefni sem stéttina varði. Í öðru lagi setji félagið siðareglur fyrir lögmenn. Í þriðja lagi skuli félagið stuðla að því að sérhver sem þarfnist aðstoðar lögmanns fái notið hennar. Í 1. mgr. 13. gr. laganna komi síðan fram eftirlitshlutverk er stefnda sé falið en það beinist aðeins að því að gæta þess að lögmenn uppfylli skilyrði laganna fyrir lögmannsréttindum. Með því að hafa frumkvæði að málum fyrir úrskurðarnefndinni sé stefndi að fara út fyrir skyldubundið hlutverk sitt og sé farið að sinna eftirlits- og ritskoðunarhlutverki sem fái ekki samrýmst því hlutverki sem samtök lögmanna eigi að sinna.

                Hvað varði Siðareglur lögmanna (Codex Ethicus) þá sé í málatilbúnaði stefnda fyrir úrskurðarnefnd lögmanna byggt á því að stefnandi hafi gerst sekur um brot gegn 2., 19. og 22. gr. siðareglnanna. Í 2. gr. þeirra sé kveðið á um það að lögmaður skuli gæta að heiðri lögmannastéttarinnar jafnt í lögmannsstörfum sem öðrum athöfnum.      Í 19. gr. komi fram að lögmaður skuli sýna dómstólum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu en skuli eftir sem áður gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi af fullri einurð og heiðarleika og án tillits til eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra. Í 22. gr. komi svo fram að lögmaður skuli kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómstólum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu.

                Stefnandi byggi á því að hann hafi ekki með neinum hætti brotið gegn þessum ákvæðum siðareglna lögmanna. Þvert á móti hafi hann sinnt því lykilhlutverki lögmanns sem komi fram í 1. gr. sömu siðareglna að efla rétt og hrinda órétti. Hann hafi lagt til þessa máls það sem hann vissi sannast eftir sinni samvisku. Í samtali við dómara hafi orðið samkomulag um að haga umsókn um flýtimeðferð með þeim hætti að stefna og skjalaskrá yrðu send dómara, en dómari myndi láta vita ef hann teldi þörf á að fá gögn, og þá hvaða gögnum hann teldi þörf á. Jafnvel þótt það teldist ósannað að samtal stefnanda og dómarans hefði verið með þessum hætti þá hafi það ekki getað dulist dómaranum að stefnandi teldi svo vera þegar bréf um ósk um flýtimeðferð hafi verið sent dómstjóra þann 5. desember 2016. Í niðurlagi bréfsins segi: „Með stefnunni fylgir listi yfir þau skjöl sem til stendur að leggja fram við þingfestingu málsins. Þau eru mikil að vöxtum. Ef þér óskið eftir að fá einhver þeirra til athugunar, áður en afstaða verður tekin til beiðninnar um útgáfu stefnunnar, verða þau send yður.“

                Þegar dómstjórinn hafi brugðist við erindi stefnanda með því að hafna beiðninni á þeim grundvelli að gögn með beiðninni hafi ekki verið fullnægjandi hafi stefnandi auðvitað orðið ósáttur í ljósi þess sem hafi farið fram þeirra á milli í símtali og í ljósi niðurlags bréfs stefnanda til dómstjórans. Stefnandi telji viðbrögð sín sem hann hafi sent með tölvuskeyti 7. desember 2016, ekki hafa verið úr hófi fram, en með þeim hafi stefnandi verið að bregðast við því þegar umbjóðandi hans hafi verið beittur órétti.

                Stefnandi geti með engu móti áttað sig á því hvernig einkasamskipti hans við dómstjórann eigi að geta vegið að heiðri lögmannastéttarinnar í andstöðu við 2. gr. siðareglna lögmanna. Dómstjóra hafi verið fullkomlega ljóst að stefnandi kæmi fram fyrir hönd umbjóðanda síns en ekki sem sérstakur sendiboði stéttar lögmanna. Ekkert hafi verið að finna í samskiptum stefnanda við dómstjórann sem hafi verið með þeim hætti að stefnandi hafi gert á hlut annarra lögmanna. Engin ástæða hafi verið til þess að gera samskipti stefnanda og dómarans opinber. Jafnvel þótt talið yrði að háttsemi stefnanda hafi með einhverjum hætti ekki verið eðlileg í samskiptum lögmanns við dómara þá leiði sú niðurstaða ekki til þess að stefnandi verði sakaður um að hafa vegið að starfsheiðri lögmannastéttarinnar, heldur hafi hann þá hugsanlega vegið að eigin starfsheiðri. Það sé ekkert sem banni einstaklingi að vega að eigin starfsheiðri. Stefnandi hafi sýnt dómstjóranum alla þá virðingu í ræðu og riti sem málið hafi gefið tilefni til. Honum hafi þó borið að bregðast við höfnun dómstjórans á erindi umbjóðanda síns með því að gæta réttmætra hagsmuna umbjóðandans. Dómstjórinn hafi að mati stefnanda gengið á bak orða sinna og við því hafi stefnandi brugðist.

                Loks mótmæli stefnandi því að hann hafi brotið gegn 22. gr. siðareglna lögmanna. Stefnandi hafi kappkostað að vanda málatilbúnað sinn þegar hann hafi haft samband símleiðis við dómarann til að ganga úr skugga um hvernig hann vildi að framsetningu erindisins væri háttað. Stefnandi hafi ítrekað í bréfi sínu til dómstjórans að stefnandi myndi leggja fram þau gögn sem dómstjórinn teldi þörf á að leggja fram að beiðni hans. Þetta hafi allt verið gert í því skyni að greiða fyrir hraðri afgreiðslu málsins enda ljóst að þau umfangsmiklu gögn sem til hafi staðið að leggja fram við þingfestingu málsins hafi ekki öll skipt máli við afgreiðslu á beiðni um flýtimeðferð. Stefnandi hafi því ekki brotið gegn 22. gr. siðareglna lögmanna heldur þvert á móti kappkostað að vanda málatilbúnað og tryggja greiða málsmeðferð. Sé ekki stefnanda um að kenna að dómstjórinn hafi kosið að bregðast við erindinu með þeim hætti sem raun bar vitni.

                Að öllu framangreindu virtu verði ekki hjá því komist að fallast á kröfu stefnanda um að úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna í málinu nr. 14/2017 verði felldur úr gildi og stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað. Málshöfðunin eigi stoð í 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem kveðið sé á um heimild aðila máls fyrir úrskurðarnefndinni til þess að leita ógildingar úrskurðar nefndarinnar fyrir dómi. Stefnandi byggi á meginreglum stjórnsýsluréttar og einkamálaréttarfars en vísi að öðru leyti til framangreindrar umfjöllunar um einstök lagaákvæði sem byggt sé á.

 

                Málsástæður og lagarök af hálfu stefnda

                Stefndi byggi á því að hann hafi haft lögvarða hagsmuni og átt aðild að málinu fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og að nefndarmenn í úrskurðar­nefndinni hafi verið hæfir til þess að úrskurða í málinu. Einnig sé byggt á því að úrskurður úrskurðar­nefndarinnar sé efnislega réttur og ekki haldinn ágöllum sem valda beri ógildi hans.

                Almennt sé viðurkennt að félög lögmanna njóti sjálfstæðis. Hafi mikilvægi þess verið áréttað í ályktun ráðherraráðs Evrópu­ráðsins sem lagt hafi áherslu á að starfandi séu slík sjálfstæð félög er séu í störfum sínum óháð yfirvöldum og almenningi. Félögin eigi að setja lögmönnum siðareglur, gæta stéttarhagsmuna þeirra og bera ábyrgð á og eiga rétt til þátttöku í agamálum lögmanna. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn (lögmannalög) skuli lögmenn hafa með sér félag er nefnist Lögmannafélag Íslands (LMFÍ). Stefndi sé það félag. Sé öllum lögmönnum skylt að vera félagsmenn í stefnda. Stefndi skuli ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega sé mælt fyrir um í lögum, sbr. þó 5. mgr. 3. gr. lögmannalaga.  

                Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. lögmannalaga setji stefndi sér samþykktir. Samþykktir fyrir LMFÍ hafi fyrst verið settar í desember 1944 en hafi síðan tekið breytingum. Í 2. gr. gildandi samþykkta stefnda sé tilgangur félagsins meðal annars skilgreindur sem svo að það sé að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi, að gæta hagsmuna lögmanna­stéttarinnar, stuðla að samheldni og góðri samvinnu félagsmanna, að standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar og stuðla að framþróun réttarins og réttaröryggi. Samkvæmt 11. gr. samþykktanna sé stjórn stefnda meðal annars falið það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmannastéttarinnar, að leysa úr ágreinings­málum á milli félagsmanna innbyrðis, að gæta þess að fylgt sé góðum lögmanns­háttum og vinna að hagsmunamálum félagsmanna.

                Samkvæmt 5. gr. lögmannalaga komi stefndi fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varði. Stefndi skuli jafnframt setja siðareglur (Codex Ethicus) fyrir lögmenn. Slíkar reglur hafi fyrst verið samþykktar í júní 1960 en þær hafi síðan tekið breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. gildandi siðareglna lögmanna skuli stjórn stefnda hafa eftirlit með því að reglunum sé fylgt, í samráði við dómstóla og stjórnardeildir.

                Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. lögmannalaga skuli, í tengslum við stefnda, starfa sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna sem leysi úr málum eftir ákvæðum laganna. Úrskurðarnefnd lögmanna hafi það grundvallarhlutverk að fjalla um kvartanir á hendur lögmanni vegna háttsemi sem kunni að stríða gegn lögunum eða siðareglum lögmanna. Þetta sé orðað svo í 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga að telji „einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr.“ geti hann lagt fyrir úrskurðarnefndina kvörtun á hendur lögmanninum. Þá sé sérstaklega tilgreint í 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna að úrskurðarnefndin skeri úr ágreiningi um skilning á reglunum.

                Þessu til samræmis og á grundvelli 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998 hafi úrskurðarnefndin sett sér málsmeðferðarreglur. Fram komi í 2. og 3. tl. 3. gr. þeirra að hlutverk nefndarinnar sé „að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ“ og „að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna“. Þessi skilgreining á hlutverki úrskurðarnefndarinnar sé að mati stefnda í fullu samræmi við lögmannalög og þær siðareglur sem lögmenn skuli starfi eftir. Í þeim lögum og reglum sem gildi um úrskurðarnefndina sé þannig síður en svo ráðgert að kvartanir frá stjórn stefnda séu undanskildar valdsviði nefndarinnar. Þá sé vandséð hvernig félagið eigi að geta sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu, geti það ekki leitað úrlausnar nefndarinnar um meint brot lögmanna á lögmannalögum og siðareglum.

                Samkvæmt framangreindu sé aðild að kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna skilgreind vítt og bundin við „einhvern“ sem telji að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum. Hver sá sem sýnt geti fram á lögvarða hagsmuni geti því lagt mál fyrir nefndina. Skipti í því sambandi ekki máli hvort um sé að ræða félag eða einstakling eða hvernig hafi verið gert á hlut viðkomandi. Þá verði varla um það deilt að það falli undir tilgang stefnda að hafa eftirlit með störfum lögmanna, gæta hagsmuna lögmannastéttarinnar og að standa vörð um sjálfstæði stéttarinnar, sbr. 2. gr. samþykkta félagsins.

                Stefndi byggi á því að þau brot gegn siðareglum lögmanna sem kvartað hafi verið undan, sem og það brot er úrskurðarnefndin hafi komist að niðurstöðu um að stefnandi hafi gerst sekur um, varði hagsmuni lögmannastéttarinnar í heild sinni, en ekki aðeins hagsmuni þess sem beinlínis sé misgert við. Hagsmunir lögmannastéttarinnar af því að virðing sé borin fyrir stétt lögmanna séu mikilvægir enda gegni þeir veigamiklu hlutverki í réttarríki sem ella væri stefnt í hættu. Tilhlýðileg samskipti lögmanna við dómstóla vegi þar þungt og endurspeglist áherslan meðal annars í því að um samskipti lögmanna og dómstóla sé fjallað í heilum kafla í siðareglum lögmanna. Ákvæði 2. og 19. gr. siðareglnanna, sem stefndi telji að stefnandi hafi meðal annars brotið gegn, séu sett til verndar þessum hagsmunum. Brot gegn ákvæðum siðareglnanna sem sett séu til verndar virðingu fyrir lögmannastéttinni brjóti því ekki aðeins gegn þeim sem beinlínis sé misgert við heldur einnig gegn lögmönnum almennt. Úrskurður sá sem stefnandi krefjist ógildingar á varði háttsemi sem stefndi telji í andstöðu við þá hagsmuni sem félaginu beri að gæta og vinna að, sbr. til hliðsjónar einnig 1. mgr. 5. gr. lögmannalaga. Stefndi hafi því beina og nægilega sérgreinda hagsmuni af kvörtun þeirri sem lögð hafi verið fram við úrskurðarnefnd lögmanna.

                Samkvæmt öllu framangreindu hafi stefndi því haft lögvarða hagsmuni og átt aðild að málinu fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. einnig sjónarmið úrskurðar­nefndar­innar um þetta atriði sem fram komi í I. hluta niðurstöðukafla úrskurðarins og sjónarmið stefnda sem fram komi í bréfi hans til nefndarinnar, dags. 4. maí 2017.

                Hvað varði hæfi nefndarmanna úrskurðarnefndarinnar þá mótmæli stefndi því að nefndarmenn í úrskurðarnefnd lögmanna hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins af þeirri ástæðu að stjórn stefnda ákveði og greiði nefndarmönnum laun fyrir nefndarstörfin. Störf og skipan nefndar þessarar séu lögbundin og sé hún sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Stefndi skipi minnihluta nefndarmanna og greiði nefndinni, lögum samkvæmt, laun fyrir starfann. Brúttólaun fyrir setu í nefndinni séu í dag 90.000 krónur á mánuði eða þá 54.484 krónur þegar tekið hafi verið tillit til skatta, lífeyrissjóðsgreiðslna, o.s.frv. Mánaðarlaun nefndarmanna hafi ekki verið hækkuð frá 1. desember 2013, en þá hafi þau verið hækkuð samhliða ákvörðun um hækkun á tímagjaldi starfsmanns nefndarinnar. Laun fyrir setu í nefndinni séu töluvert lægri en þau laun sem þeir lögmenn sem í nefndinni sitja myndu innheimta við hefðbundinn málarekstur í ljósi þeirrar vinnu sem nefndarmenn inni af hendi við lestur mála, fundasetu, vinnu að niðurstöðu í málum, o.s.frv. Nefndarmenn standi heldur ekki í sérstakri þakkarskuld við stefnda fyrir greiðslur til sín vegna starfanna enda séu greiðslurnar fjármagnaðar á lögákveðinn hátt, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga um lögmenn, með framlögum meðlima félagsins, þar á meðal með framlögum frá stefnanda.

                Megi og benda á að yrði fallist á rök stefnanda að þessu leyti myndi engin skipan nefndarinnar samkvæmt lögunum um lögmenn uppfylla hæfisskilyrði, enda yrði einn ad hoc nefndarmanna einnig skipaður af stefnda og laun ad hoc nefndarmanna einnig greidd af stefnda. Líkt og tíðrætt sé um í skrifum fræðimanna sé ótækt að skýra hæfisreglur svo að enginn sé hæfur til að úrskurða í máli. Þannig hafi aðild ríkisins að málum á stjórnsýslustigi, t.d. fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og kærunefnd jafnréttismála, ekki verið talin valda vanhæfi nefndarmanna sem ríkið skipi og greiði laun. Þá hafi dómarar sem skipaðir séu og fái greidd laun frá ríkinu ekki verið taldir vanhæfir til þess að dæma í dómsmálum þar sem íslenska ríkið sé aðili.

                Að auki mótmæli stefndi því að nefndarmenn í úrskurðarnefnd lögmanna hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins sökum þess að ætluð brot stefnanda hafi beinst gegn lögmannastéttinni allri sem nefndarmenn tilheyri. Enda þótt nefndum ákvæðum siðareglnanna sé ætlað að gæta að heiðri stéttarinnar og að hagsmunir hennar séu þannig tryggðir með ákvæðunum verði ekki talið að einstaka lögmenn hafi svo beina hagsmuni af málum er varði slík brot að þeir teljist vanhæfir af þeirri ástæðu. Forðast beri að túlka reglur um vanhæfi með svo rúmt að enginn geti talist hæfur, svo sem niðurstaðan yrði ef hæfisreglur yrðu túlkaðar svo að enginn lögmaður væri hæfur til að úrskurða í máli fyrir úrskurðarnefndinni sem varðaði heiður lögmannastéttarinnar.

                Hvað varði ummæli stefnanda og efnislega niðurstöðu úrskurðarins þá telji stefndi einsýnt að stefnandi hafi með ummælum sínum gerst sekur um brot gegn 19. gr. siðareglna lögmanna og vísist um það til forsendna úrskurðarnefndar lögmanna. Verði ummæli stefnanda ekki réttlætt með því að hann hafi með þeim gætt hagsmuna umbjóðanda síns enda hafi honum verið sá starfi fær án þess að vega að starfsheiðri dómarans og sýna honum vanvirðingu. Til þess sé að líta við mat á ummælum stefnanda að þau hafi ekki verið látin falla í hita leiksins heldur skriflega á nokkurra daga tímabili. Sé því enn síður tilefni til þess að gefa stefnanda afslátt af þeirri kröfu sem siðareglur lögmanna geri um tillitssemi og virðingu með vísan til þess að í orðunum hafi falist viðbrögð við því sem stefnandi hafi upplifað sem óréttlæti, enda hafi hann haft nægan tíma til að láta sér renna reiðina og ígrunda orð þau sem hann hafi látið falla við dómstjórann. Orð hans hafi, líkt og úrskurðarnefndin hafi komist að niðurstöðu um, verið fjarri því sem viðeigandi sé í samskiptum lögmanna við dómara.

                Þá sé því hafnað að ummæli stefnanda um og við dómstjórann séu hans einkamál og komi stétt lögmanna ekki við. Stefnandi byggi á því að hann hafi ekki komið fram sem sendiboði stéttar lögmanna gagnvart dómstjóranum heldur fyrir hönd umbjóðanda síns. Væru siðareglur lögmanna eða ákvæði þeirra um að halda uppi heiðri lögmannastéttarinnar túlkaðar svo að þær tækju aðeins til þess þegar lögmenn kæmu fram sem sendiboðar stéttarinnar væri ljóst að gildissvið þeirra yrði allverulega þröngt. Öllum lögmönnum megi vera ljóst að þegar þeir komi fram í störfum sínum þá séu þeir ekki aðeins fulltrúar sín og umbjóðenda sinna, heldur einnig óbeint fulltrúar lögmannastéttarinnar í heild. Hið sama megi segja um fjölmargar aðrar stéttir og þannig þyki störf dómara t.a.m. ekki aðeins endurspegla þá sjálfa heldur einnig dómstóla almennt. Um þetta telji stefndi að almennt sé ekki deilt enda hafi löggjafinn falið stefnda að setja siðareglur fyrir lögmenn og taki ákvæði þeirra meðal annars til atriða sem nauðsynlegt sé að virt séu, ef lögmenn og störf þeirra í þágu réttarkerfisins eiga að vera tekin alvarlega og njóta virðingar í samfélaginu.

                Stefndi hafni því að með úrskurði nefndarinnar hafi verið vegið að tjáningarfrelsi eða neikvæðu félagafrelsi stefnanda. Vissulega hafi lögmenn rétt til þess að gagnrýna dómstóla og störf dómara en sú gagnrýni, líkt og önnur störf lögmanna, þurfi að vera sett fram með þeim hætti sem gæti að heiðri lögmanna­stéttarinnar. Stefnanda hafi vel verið fært að gera athugasemdir við afgreiðslu erindis síns, hvort heldur sem hann kysi að gera það í tölvuskeyti til dómstjórans eða á opinberum vettvangi, án þess að sýna þann fádæma dónaskap sem raunin hafi orðið. Ekki hafi verið vegið að neikvæðu félagafrelsi stefnanda með þeirri aðgerð stefnda að beina kvörtun undan honum til úrskurðarnefndarinnar eða að félagið hafi með því farið út fyrir skyldubundið hlutverk sitt. Félaginu sé falið það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum, að setja siðareglur fyrir lögmenn og hafa eftirlit með framfylgni þeirra reglna. Þegar einstaka lögmaður stefni heiðri lögmannastéttarinnar í hættu með framkomu sinni gagnvart dómstólum standi það félaginu og hlutverki þess afar nærri að láta til sín taka og gæta að því að siðareglum lögmanna sé framfylgt, og þá ekki síst þegar undan slíkri framkomu sé sérstaklega kvartað til stjórnar stefnda.

                Samkvæmt öllu framangreindu beri því að hafna kröfu stefnanda um að ógiltur verði með dómi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna sem kveðinn hafi verið upp hinn 26. maí 2017 í málinu nr. 14/2017, en um lagarök vísi stefndi til laga nr. 77/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og til óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins.

 

                Niðurstaða.

                Í málinu krefst stefnandi ógildingar á framangreindum úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna gagnvart honum, dags. 26. maí 2017, þar sem niðurstaðan varð sú að stefnandi var látinn sæta áminningu vegna framgöngu sinnar sem lögmaður í samskiptum við þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og með síðari breytingum, eins og nánar er lýst hér að framansögðu.

                Byggir stefnandi dómkröfu sína um ógildingu, sbr. 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, einkum á því að stefndi, Lögmannafélag Íslands (LMFÍ), hafi með réttu ekki átt að geta haft stöðu sem kærandi í málinu á stjórnsýslustigi fyrir úrskurðarnefnd lögmanna vegna skorts á lögvörðum hagsmunum og vegna þess að lög um nefndina leyfi ekki slíka aðild félagsins í máli af þessu tagi. Í annan stað byggir stefnandi svo ógildingarkröfu á því að úrskurðarnefndin hafi verið vanhæf í málinu þar sem stefndi, LMFÍ, sem hafi aðkomu að tilnefningu í nefndina og standi straum af kostnaði við rekstur hennar, hafi verið málsaðili. Í þriðja lagi byggir stefnandi síðan á því að hann hafi í umrætt skipti ekki gerst brotlegur við nein ákvæði í siðareglum lögmanna eða almennt í lögum og reglum sem gildi um störf lögmanna þar sem hann hafi aðeins sinnt nauðsynlegri hagsmunagæslu fyrir skjólstæðing sinn, en slík skerðing á úrræðum til þess feli auk þess í sér skerðingu á tjáningarfrelsi hans sem lögmanns.

                Hvað varðar fyrst þá málsástæðu stefnanda fyrir ógildingu, sem snýr að aðild stefnda, LMFÍ, sem kæranda í úrskurðarmáli því sem leiddi til áminningar stefnanda í úrskurðinum, dags. 26. maí 2017, þá er ágreiningur um það í málinu hvort stefndi geti samkvæmt lögum um lögmenn og siðareglum lögmanna átt aðild að slíku kærumáli sem varðar samskipti lögmanns við dómara, sem og hvort stefndi geti þá mögulega átt lögvarða hagsmuni í slíku máli þar sem háttsemi stefnanda hafi beinst að dómara.

                Í 1. málslið 1. mgr. 27 gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn segir um mögulega aðild:

                 „Nú telur einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. og getur hann þá lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum.“

                Reglur sem hér er vísað til í 2. mgr. 5. gr. laganna eru siðareglur þær sem LMFÍ setur fyrir lögmenn (Codex Ethicus) og eru frá 24. júní 1960 með síðari breytingum.

                Sé tekið mið af orðalagi framangreinds ákvæðis í 1. mgr. 27 gr. laga nr. 77/1998 þá er það nú fremur opið um það hverjir geti mögulega talist aðilar sem kærendur í kærumálum til úrskurðarnefndarinnar, sem starfar samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna, en þó er við það miðað að gert hafi verið á hlut þess er beinir kvörtun til nefndarinnar. Sé litið til nefndarálits frá allsherjarnefnd Alþingis er lá fyrir í tengslum við setningu laganna þá kemur þar fram að fyrirætlun hafi verið sú að víkka kæruheimild út þannig að um greiða kæruleið verði að ræða fyrir aðra en einungis umbjóðendur lögmanna.

                Þá liggur fyrir að úrskurðarnefndin hefur sjálf sett sér frekari málsmeðferðarreglur sem eru frá árinu 1999 með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 13. gr. samþykkta fyrir LMFÍ frá 1944 með síðari breytingum, sbr. og 2. málslið, 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998. Er í 3. gr. málsmeðferðarreglnanna gert ráð fyrir því að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé meðal annars „að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ“ og „að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna“.

                Að mati dómsins verður því ekki séð að framangreind lög og reglur fyrirbyggi mögulega aðild stefnda LMFÍ að kærumálum gagnvart einstökum lögmönnum eins og hér um ræðir samkvæmt 1. mgr. 27 gr. laga nr. 77/1998, að því gefnu að félagið geti þá með réttu fært rök fyrir úrskurðarnefndinni fyrir því að gert hafi verið á þess hlut.

                Ber þá að taka fram að ekki er unnt að draga hér of víðtækar ályktanir í ljósi þess að ekki er nú fjallað sérstaklega um mögulegt umfang og inntak þessara heimilda LMFÍ til aðildar að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni í 27. gr. laga nr. 77/1998 og þess að komið hafa fram tillögur og hugmyndir um það að skerpa þurfi frekar á þeim heimildum sérstaklega, en hefur þó til þessa ekki náð fram að ganga, sbr. þær tillögur stjórnar stefnda LMFÍ til breytinga á 27. gr. frá 16. júlí 2015, er liggja fyrir í málinu.

                Hvað varðar síðan skilyrði um að sýna þurfi fram á mögulega lögvarða hagsmuni LMFÍ, og þá með tilliti til lögbundins hlutverks þess, þá liggur óumdeilt fyrir í málinu að heimildir stjórnar stefnda LMFÍ til þess að hafa frumkvæði að slíkum kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni gagnvart einstökum lögmönnum eru, eins og nú er ástatt um, í öllu falli takmarkaðar við þau tilvik þegar brot lögmanns gegn framangreindum lögum nr. 77/1998, eða þá siðareglunum lögmanna, telst ótvírætt beinast gegn hagsmunum lögmanna almennt sem stéttar eða þá hagsmunum félagsins sem slíks.

                Eins og vísað er til af hálfu stefnda, þá gera gildandi samþykktir fyrir LMFÍ, sem settar hafa verið á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998, ótvírætt ráð fyrir því að tilgangur félagsins sé meðal annars sá að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi og gæta hagsmuna lögmannastéttarinnar, sbr. 2. gr. gildandi samþykkta, en stjórn félagsins sé meðal annars falið það hlutverk að gæta þess að fylgt sé góðum lögmannsháttum, sbr. 11. gr. þeirra. Þá gerir 5. gr. laga nr. 77/1998 ráð fyrir því að LMFÍ komi fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum og setji lögmönnum siðareglur, en í 1. mgr. 43. gr. siðareglna er síðan gert ráð fyrir því að stjórn LMFÍ hafi eftirlit með því að siðareglunum sé fylgt í samráði við dómstóla og stjórnardeildir.

                Að mati dómsins verður að fallast á með stefnda, að líta verði til framangreinds tilgangs og hlutverks við mat á því hvort stefndi geti hér almennt átt lögvarða hagsmuni, en einnig verður þá síðan að líta hverju sinni til þeirra efnislegu verndarhagsmuna sem undir eru í viðkomandi tilviki, í þessu tilviki ætluð brot stefnanda gegn 1. mgr. 19. gr., sbr. 2. gr. í siðareglum fyrir lögmenn, er virðast út frá verndarhagsmunum allt eins geta varðað lögmannastéttina í heild, eins og ákvæðin eru fram sett.

                Í máli því sem hér um ræðir byggir stefndi enn fremur á því að þau brot stefnanda gegn siðareglum lögmanna sem kvartað hafi verið yfir, sem og þau brot á siðareglum sem úrskurðarnefndin hafi síðan komist að niðurstöðu um að stefnandi hefði sannarlega haft í frammi í þeim samskiptum við þáverandi dómstjóra í Héraðsdómi Reykjavíkur og sem áður er hér lýst, varði hagsmuni lögmannastéttarinnar í heild, en ekki einungis hagsmuni þess dómstjóra sem beinlínis hafi hér verið misgert við.

                Verður að mati dómsins fallist á það með stefnda að þær röksemdir um mikilvægi tilhlýðilegrar háttvísi í samskiptum lögmanna við dómstóla sem endurspeglist einkum í ákvæðum III. kafla í siðareglum fyrir lögmenn, sbr. þá einkum 19. gr. þeirra, feli í sér heildarhagsmuni lögmannastéttarinnar og að úrskurður sá sem stefnandi krefjist hér ógildingar á varði því háttsemi sem geti talist vera í andstöðu við þá hagsmuni sem stefnda beri að gæta og vinna að, sbr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998, og að stefndi teljist því hafa getað haft beina og nægilega sérgreinda lögvarða hagsmuni af kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna og til þess að geta átt aðild að því máli fyrir nefndinni.

                Að framangreindu virtu er það því mat dómsins að stefnandi hafi hér ekki sýnt fram á að gild rök standi til þess að ógilda beri úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna gagnvart honum, dags. 26. maí 2017, byggt á því að stefndi hafi ekki getað átt aðild að umræddu kærumáli með hliðsjón af framangreindum lögum og reglum sem um það gilda, sbr. einkum ákvæði 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. 2. og 11. gr. samþykkta fyrir LMFÍ, sem og 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna og 3. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndarinnar, sem virt í heild sinni virðast styðja þá framkvæmd og skýringu á lögunum að slík aðild stefnda fái hér við svo búið staðist.

                Skal þá því næst vikið að þeirri málsástæðu stefnanda að ógilda beri úrskurðinn frá 26. maí 2017 á þeim grundvelli að fulltrúar í úrskurðarnefnd lögmanna hafi verið vanhæfir til þess að fjalla um málið. Byggir stefnandi þá einkum á því að þetta leiði af því að úrskurðarnefndin sé alfarið rekin á kostnað stefnda og stefndi skipi auk þess einn af þremur nefndarmönnum, sbr. 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998. Vísar stefnandi til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998, sbr. og II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með síðari breytingum, um sérstakt hæfi nefndarmanna í slíkri stjórnsýslunefnd, sbr. einkum 5. og 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. um vanhæfisástæður, þegar viðkomandi nefndarmaður telst sjálfur eiga sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls eða ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Þá vísar stefnandi til þess að nefndarmenn í málinu, sem allir þrír hafi verið lögmenn, eigi þá í öllu falli slíka hagsmuni af niðurstöðu í máli sem félagið hefur frumkvæði að þar sem málsefnið varði hagsmuni stéttarinnar í heild.

                Að mati dómsins verður hins vegar að fallast á það með stefnda að framangreind lögbundin skipun úrskurðarnefndarinnar og fjármögnun hennar samkvæmt 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 geti ekki eitt og sér talist leiða sjálfkrafa til þess háttar vanhæfis nefndarmanna í málum þar sem LMFÍ á sjálft aðild að kærumáli, þó svo að félagið standi vissulega straum af kostnaði við rekstur nefndarinnar og skipi í hana einn fulltrúa, eins og lög bjóða. Er og ljóst að viðlíka háttur við skipun og fjármögnun sjálfstæðra stjórnsýslunefnda hefur t.d. ekki verið talinn valda vanhæfi í málum þegar hið opinbera á í hlut, sbr. almennt um úrskurðarnefndir á vegum ríkisins. Þá er ekki heldur tækt að fallast á það að ætlað vanhæfi nefndarmanna í úrskurðanefndinni geti grundvallast á því að þeir hljóti að hafa átt svo einstaka hagsmuni af úrlausn umrædds máls, þó svo að það hafi snúið almennt að heildarhagsmunum lögmannastéttarinnar.

                Að framangreindu virtu er því ekki unnt að fallast á það að stefnandi hafi hér sýnt fram á það að fallast beri á kröfu hans um ógildingu úrskurðarins frá 26. maí 2017 á þeim grundvelli að einhverjir nefndarmannanna hafi sannarlega verið vanhæfir við meðferð umrædds stjórnsýslumáls, sbr. ákvæði í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

                Að lokum ber þá að víkja í einu lagi að þeim málsástæðum stefnanda að hann hafi þó í öllu falli með umræddri framgöngu sinni ekki gerst brotlegur við nein ákvæði í siðareglum lögmanna eða í lögum og reglum er gildi um störf lögmanna, þar sem hann hafi í umrætt sinn aðeins haft í frammi gagnrýni í tengslum við hagsmunagæslu fyrir skjólstæðing sinn, sem fullt tilefni hafi hér verið til. Skerðing á úrræðum lögmanns til þess með slíkum viðurlögum sem umrædd áminning í skjóli skyldubundinnar aðildar að Lögmannafélagi Íslands sé feli auk þess í sér skerðingu á tjáningarfrelsi stefnanda sem lögmanns til þess að gagnrýna störf dómara og gæta hagsmuna umbjóðenda. Telur stefnandi að með umræddri kæru er leiddi til áminningar úrskurðarnefndarinnar hafi stefndi farið út fyrir skyldubundið hlutverk sitt, sbr. 5. og 13. gr. laga nr. 77/1998, en stefnandi hafi hér auk þess ekki farið á svig við 19. gr. siðareglna fyrir lögmenn, eins og úrskurðarnefndin hafi komist að í úrskurði sínum frá 26. maí 2017. 

                Er það mat dómsins að við efnislega endurskoðun á umræddum úrskurði frá 26. maí 2017, þá verði að líta svo á að þar sé fyrst og fremst um að ræða matskennda ákvörðun þar til bærrar sjálfstæðrar úrskurðarnefndar um það hvernig bæri að heimfæra framgöngu stefnanda með hliðsjón af túlkun ákvæða í 2., 19., og 22. gr. siðareglna fyrir lögmenn. Var mat nefndarinnar að hún taldi stefnanda með framgöngu sinni a.m.k. hafa farið á svig við 19. gr. siðareglnanna þannig að leiddi til áminningar hans að mati nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Að mati dómsins verður að telja þetta forsvaranlega niðurstöðu af hálfu úrskurðarnefndarinnar með hliðsjón af efni umræddra siðareglna og þeim gögnum sem liggja fyrir um samskipti stefnanda sem lögmanns við þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, auk þess sem ekki er deilt á það mat nefndarinnar að framgangan hafi varðað stéttina sem heild.

                Verður þannig að telja ótvírætt að ýmis framangreind ummæli þau sem stefnandi viðhafði óumdeilt í þessum samskiptum sínum við dómstjórann hafi verið alls kostar óviðeigandi og óþörf í því skyni að vinna sem best að hagsmunum umbjóðenda hans. Voru ummælin auk þess sett þannig fram að það getur ekki með nokkru móti falið í sér skerðingu á eðlilegu tjáningarfrelsi stefnanda eða þá misbeitingu á neikvæðu félagafrelsi gagnvart honum sem lögmanni að þannig hafi verið við þeim brugðist sem gert var hér af hálfu stefnda og úrskurðarnefndarinnar við meðferð stjórnsýslumálsins. Ekki verður heldur séð að hald sé í þeim röksemdum af hálfu stefnanda að gætt hafi verið viss meðalhófs með því að birta ekki opinberlega ummælin í garð dómstjórans enda er það alls ekki inntak málefnalegrar gagnrýni stefnanda á störf dómstjórans sem tekist var á um og sem aðilum ber ekki allskostar saman um heldur einungis óverjandi framsetning og orðaval stefnanda í garð dómstjórans, sbr. hér framangreinda lýsingu á málsatvikum. Er því fallist á það með stefnda að ekki hafi hér heldur verið sýnt fram á af hálfu stefnanda að stefndi eða úrskurðarnefndin hafi með einhverjum hætti farið út fyrir lögbundin hlutverk sín í þeirri málsmeðferð eða þá við það mat sem viðhaft var í framangreindu stjórnsýslumáli, sbr. úrskurðurinn frá 26. maí 2017 í máli nr. 14/2017.

                Að öllu framangreindu virtu er það því mat dómsins að stefnandi hafi í máli þessu ekki fært fram neinar þær málsástæður eða lagarök sem leiða eigi til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndarnefndar lögmanna í máli nr. 14/2017, er kveðinn var upp 26. maí 2017, og með hliðsjón af því ber að sýkna stefnda af þeirri dómkröfu stefnanda.

                Eins og mál þetta er vaxið þykir þó rétt að málskostnaður á milli aðila falli niður.      

                Málið flutti Björgvin Þorsteinsson lögmaður fyrir stefnanda en Óttar Pálsson lögmaður fyrir stefnda.

                Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan. 

                                                                                D ó m s o r ð:

                Stefndi, Lögmannafélag Íslands, er sýknaður af kröfu stefnanda, Jóns Steinars Gunnlaugssonar.

                Málskostnaður fellur niður.