Print

Mál nr. 450/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. ágúst 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.         

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, föstudaginn 7. júlí 2017

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. ágúst nk. kl 13:30.

                Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að lögreglustjórinn á höfuð­borg­ar­svæðinu hafi til rannsóknar líkamsárás X sem gefið sé að sök að hafa aðfaranótt mánudagsins 5. júní sl., í félagi við A, ráðist á B á heimili B við [...] í Reykjavík. Sé X gefið að sök að hafa slegið B tveimur höggum með hafna­bolta­kylfu og stungið hann í hægra brjóstið með hníf með þeim afleiðingum að B hlaut skurð hægra megin á brjósti sem náði niður í mjúkvefi og skurð aftan á hnakka og aflögun á hægri hendi.

                Í skýrslutökum af brotaþola lýsi hann því að umræddan dag hafi hann verið heima hjá sér ásamt þremur vinum sínum. Kærða sem hafi verið fyrrverandi kærasta hans hafi ítrekað verið búinn að hringja í hann og hafi hann ekki nennt að tala við hana og því fengið stúlku sem hafi verið stödd á heimili hans til að svara kærðu í eitt sinn. Kærða hafi þá skellt á og stuttu síðar hafi brotaþoli fengið smáskilaboð frá X þar sem komið hafi fram að hún hlakkaði til að hitta þau. Skömmu síðar hafi verið bankað heima hjá honum og hann opnað dyrnar. Hafi þar verið X og með henni A. Hafi þau verið með klúta fyrir andlitum sínum. Hafi kærða haldið á kylfu sem hún hafi slegið brotaþola einu höggi í hnakkann með. Við það hafi brotaþoli farið að kærðu og A og þau tekist á. Lýsir brotaþoli því að hafa sjálfur slegið A með krepptum hnefa til að verjast honum. Brotaþoli lýsi því að kærða hafi á einhverjum tímapunkti líklega látið A hafa kylfuna en hún sjálf tekið upp hníf og stungið brotaþola í brjóstið með honum. Þá lýsti brotaþoli því að hafa séð kærðu með rafbyssu í átökunum. Brotaþoli lýsi því einnig að kærða hafi ráðist að öðru fólki sem statt hafi verið á heimili hans og ógnað því með hnífnum. Brotaþoli segist þess fullviss að kærða hafi komið í þeim tilgangi að drepa hann.

                Framburður brotaþola fái stoð í framburði þeirra aðila sem hafi verið staddir á heimili brotaþola umrætt sinn sem lýsa því að kærða hafi komið á heimilið í félagi við A og þar ráðist á brotaþola með kylfu og stungið hann með hníf auk þess að ógna öðrum sem þar voru staddir með hníf.

                Samkvæmt bráðabirgðalæknisvottorði sérfræðings á slysa- og bráðadeild LSH hafi brotaþoli reynst hafa verið með skurð hægra megin á brjósti sem hafi náð aðeins niður í mjúkvef og niður að lunga, en tölvusneiðmynd sýndi auk þess að skurðurinn hafi verið mjög nálægt slagæð í vöðva og hefði getað orðið lífshótandi blæðing inn á lunga ef hnífurinn hefði snert æðina. Auk þess hafi verið um að ræða minni skurð aftan á hnakka og aflögun á hendi og því grunur um brot þeim megin.

                Lögregla hafi í þrjú skipti tekið skýrslu af kærðu vegna málsins. Upphaflega sé haft eftir kærðu í frumskýrslu lögreglu að hún hafi orðið þreytt á því hvernig sambandi hennar og brotaþola var háttað og því ákveðið að “face-a” hann. Hún hafi því hringt í brotaþola en brugðið þegar kvenmaður hafi svarað í síma hans. Hún hafi því farið heim til hans og ráðist á hann og þau hefðu í framhaldi slegist inni í íbúð hans.

                Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 5. júní sl. sagðist kærða hafa farið að heimili brotaþola ásamt A til að skila brotaþola lyfjum sem hún hafði áður fengið hjá honum. Hún hafi farið vopnuð hafnaboltakylfu og teiser þar sem hún hefði orðið fyrir hótunum af hálfu konu sem hafi svarað í síma brotaþola skömmu áður. Sagðist kærða muna að þegar brotaþoli hefði opnað fyrir henni og A hafi hún slegið brotaþola tveimur höggum með hafnaboltakylfu og hann hafi þá tekið hana niður í gólfið en síðan muni hún ekki meira.

                Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 26. júní sl. sagði kærða að umrætt sinn hafi hún ætlað að skila  brotaþola lyfjum sem hún hafi fengið hjá honum. Hún hafi því hringt í síma hans til að ræða við hann en þá hafi einhver kona svarað og haft hótunum við sig. Kærða segist hafa farið í mikið uppnám yfir þessu og fundið til mikillar reiði og afbrýðisem en hún og brotaþoli hafi áður verið að “deita”. Hún hafi því fengið A til að fara með sér að heimili brotaþola og fengið þriðja mann til að skutla sér og A. Áður hafi hún þó farið heim til sín og sótt þangað búning, linsur og grímu auk hafnaboltakylfu sem staðið hafi til að nota til að hræða brotaþola og konuna. Hún hafi látið A hafa klút til að hylja andlit sitt með. Þá er haft eftir kærðu að hún hafi einnig verið með hníf í vasanum sem hún hafi alltaf meðferðis. Hún hafi komið sér inn í sameign húsnæðisins og þau A farið að íbúð brotaþola og bankað en brotaþoli hafi síðan opnað fyrir þeim. Kveðst X þá hafa slegið brotaþola einu höggi í höfuðið og hann hafi borið hendur fyrir sig og hún þá slegið hann öðru höggi sem hafi hafnað í hendi hans. Hún hafi síðan ýtt brotaþola inn í íbúðina. Í íbúð brotaþola hafi verið teiser sem hún hafi tekið af borði í íbúðinni og hún hafi látið A fá teiserinn. Þau hafi svo tekist eitthvað á og endað fyrir utan íbúðina þar sem brotaþoli hafi tekið hana niður og hún hafi verið að sparka með fótunum en síðan orðið vör við að brotaþoli hafi verið með hníf sem líklegast sé sá sem hafi verið í vasa hennar og hann hafi otað hnífnum að henni. Henni hafi síðan tekist að taka hnífinn af brotaþola og við það hafi hún skoris á hendi og A hafi þá skorist í leikinn og tekið hnífinn og hún þá orðið vör við að hendi sín var blóðug og að B var allur í blóði. Síðan hafi lögreglan komið á vettvang. Kærða segir að ekki hafi staðið til að drepa brotaþola umrætt sinn.

                A sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði farið með kærðu að heimili brotaþola umrætt sinn til að hræða brotaþola. Framburður A er um flest til samræmis við framburð kærðu frá 26. júní sl. Fram kom hjá A að þegar kærða og brotaþoli hafi tekist á fyrir utan húsnæðið hafi hann heyrt karlmann hrópa „hnífur“ og hafi A þá séð hvar kærða hélt á hníf. A kveðst þá hafa losað hnífinn úr hendi kærðu með því að slá hendi hennar utan í vegg en við það hafi hún misst hnífinn. Fyrir það hafi hann ekki vitað af hníf í átökunum og A lýsir því ekki að brotaþoli hafi handleikið hnífinn. Fram kom hjá A að hann hefði hent hnífnum og hafnaboltakylfunni út í garðinn við heimili brotaþola. 

                Vitni sem var á ganga framhjá [...] umrædda nótt lýsir því að hafa heyrt mikil öskur koma frá kjallara hússins. Vitnið sagðist síðan hafa heyrt einhvern segja "hún stakk hann, hún stakk hann". Þá hafi hún heyrt kærðu segja við A "hvar er hnífurinn minn, hvar er kylfan mín" en A hafi svarað "ég faldi dótið".

                Við leit í garði við [...] fann lögregla síðan blóðugan hníf og blóðuga kylfu sem talin eru tengjast málinu.

                Kærðu var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá mánudeginum 5. júní sl. til 9. júní sl. en hefur frá þeim tíma sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...].

                Samkvæmt framansögðu og gögnum málsins viðurkenna kærða og A við að hafa farið að heimili brotaþola í þeim tilgangi að hræða hann. Kærða kannast við að hafa slegið brotaþola með hafnaboltakylfu en neitar að hafa stungið brotaþola með hnífnum af ásetningi eins og hann lýsir. A segist hafa séð kærðu slá til brotaþola með hafnaboltakylfu og sömuleiðis hafi hann séð hana með hníf í átökum við brotaþola og hafi hann slegið hnífinn úr hendi hennar. A lýsir því ekki að brotaþoli hafi á nokkrum tímapunkti haldið á hnífnum eins og kærða heldur fram. Brotaþoli segir kærðu hafa ráðist að sér með kylfum og hafa stungið sig með hnífnum. Vitni og gögn málsins styðja við framburð brotaþola um þetta.

                Kærða liggi samkvæmt framsögðu undir sterkum grun um brot gegn 211. gr. sbr. 20 gr. hegningarlaga eða til vara gegn 2. mgr. 218. gr. og 2. mgr. 218. gr. b sömu laga, sem getur varðað allt að 16 ára fangelsi, með því að hafa ráðist á brotaþola með hníf og stungið hann í brjóstkassann. Er ljóst að beiting vopnsins og staðsetning áverkans er lífshættuleg og mátti kærðu vera það ljóst. Með hliðsjón af framangreindu og með tilliti til almannahagsmuna er það mat lögreglustjóra að brot kærðu sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hún gangi ekki laus meðan mál hennar er til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum.

                Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Niðurstaða:

                Kærða mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

                Með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins, og fyrri úrlausnum héraðsdóms er slegið hafa því sama föstu, er fallist á það mat lögreglustjóra að kærða sé undir sterkum grun um tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás, skv. 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða 2. mgr. 218. gr. og 2. mgr. 218. gr. b sömu laga. Brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga getur varðað fangelsi ekki skemur en í fimm ár eða ævilangt. Þá getur brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 2. mgr. 218. gr. b sömu laga varðað allt að 16 ára fangelsi. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um að sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem varðað getur 10 ára fangelsi, er því fyrir hendi. Í ljósi atvika málsins, eðlis brotsins og úrskurðar dómsins í máli nr. [...], er einnig á það fallist að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila, um að kærða sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli heimildar í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, eins og krafan er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærða, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. ágúst nk. kl 13:30.

Símon Sigvaldason