Print

Mál nr. 408/2017

A (Hólmgeir Elías Flosason hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í tólf mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2017 þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tólf mánuði.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og verður hún ákveðin með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2017.

I.

Með kröfu, sem barst dóminum 12. júní sl., gerir sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kröfu um að varnaraðili, A, kt. [...], [...] í Reykjavík, verði svipt sjálfræði í 12 mánuði.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá gerir verjandi hennar kröfu um að honum verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

II.

Sóknaraðili byggir kröfur um sviptingu sjálfræðis til 12 mánaða á a-lið 4. gr. sbr. 5. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Er krafan reist á því að varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð vegna geðsjúkdóms.

Sóknaraðili vísar um aðild sína til d-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Aðstæður allar þyki vera með þeim hætti að rétt sé að sóknaraðili standi að beiðni um sjálfræðissviptingu varnaraðila. Samkvæmt upplýsingum frá geðlækni varnaraðila hafi ættingjum hennar verið gert kunnugt um kröfu sóknaraðila um sjálfræðissviptingu hennar.

Með beiðni sóknaraðila fylgdi m.a. læknisvottorð B geðlæknis frá 7. júní sl., og læknisvottorð C, dags. 24. maí sl. og beiðni um fyrirsvar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur varðandi kröfu um sjálfræðissviptingu varnaraðila, dags. 9. júní 2017.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé 58 ára gömul fráskilin kona sem eigi tvö börn. Hún búi í eigin íbúð en undanfarin ár hafi hún verið félagslega einangruð. Varnaraðili sé greind með þekktan geðhvarfaklofa og nú með manískum blæ (F25.0). Frá árinu 1992 hafi hún oftsinnis lagst inn á geðdeild frá 1992 og hafi verið sjálfræðissvipt um níu mánaða skeið árið 2008 til að hægt væri að koma við lyfjameðferð. Sjúkdómi hennar fylgi iðulega ofsóknarranghugmyndir og hún hafi oft verið ógnandi og árásargjörn. Varnaraðili hafi hvorki innsæi í sjúkdóm sinn né náð að halda út þær meðferðir sem henni séu nauðsynlegar. Hún hafi ekki verið til samráðs með lyfjaskammta og átt það til að breyta skömmtunum. Hún hafi prófað mörg lyf en hætt á þeim þar sem hún telji sig vera með ofnæmi fyrir þeim eða fá sjaldgæfar aukaverkanir vegna þeirra.

Varnaraðili hafi lagst sjálfviljug inn á geðdeild þann 8. maí sl. fyrir milligöngu samfélagsgeðteymisins en þann 22. maí sl. hafi hún verið nauðungarvistuð í 72 klst., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Í kjölfarið hafi sóknaraðili staðið að nauðungarvistun í 21 dag, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, með beiðni, dags. 24. maí 2017, sem samþykkt var samdægurs með bréfi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Með kröfu dagsettri 25. maí 2017 hafi varnaraðili krafist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 30. maí 2017, var kröfu hennar hafnað.

Aðdragandi núverandi innlagnar sé sá að varnaraðili hafi verið með ranghugmyndir um að verið væri að reyna drepa hana og son hennar. Erfitt hafi reynst að fylgja henni eftir í samtali ásamt því að merki hafi verið um losaraleg hugrenningartengsl. Varnaraðili hafi dvalið á móttökugeðdeild 32A á Landsspítalanum til að byrja með en þann 14. maí hafi varnaraðili verið metin ör og ógnandi umhverfi sínu. Aðrir sjúklingar hafi hræðst hana svo hún hafi verið flutt til meðferðar á bráðageðdeild 32C. Þar hafi varnaraðili verið óútreiknanleg og veist að starfsfólki með orði og gjörðum. Hún hafi verið með mikla aðsóknarkennd og hafi viljað láta kalla sig öðrum nöfnum en sínu eigin. Þá hafi hún verið metin hugsanatrufluð og verið með geðrofseinkenni með örlyndisyfirbragði. Varnaraðili hafi verið í þörf fyrir lyfjameðferð. Hún hafi verið nauðungarsprautuð þann 22. maí 2017 eftir að hafa í tvígang veist að lækni en í kjölfarið hafi verið farið fram á nauðungarvistun. Varnaraðili hafi lítið innsæi í veikindi sín og hafi ekki verið til samvinnu hvað varði lyfjameðferð en hún hafi verið nauðungarsprautuð fjórum sinnum frá fyrstu nauðungarsprautu.

Í vottorði B, geðlæknis, dags. 7. júní sl., kemur fram að varnaraðili sé greind með þekktan geðhvarfaklofa og krónískar aðsóknarranghugmyndir. Ranghugmyndir varnaraðila hverfi aldrei að fullu þó þær hjaðni og hún hafi ekki innsæi inn í sjúkdóm sinn. Að mati læknisins sé það ástæða þess að varnaraðili hafi í gegnum tíðina ekki getað verið til fullrar samvinnu með lyfjameðferð en hún hafi bæði breytt skömmtum lyfja og hætt alfarið að taka lyfin og þar með aukið hættu á að veikjast. Orðrétt segir í vottorðinu: „Það er mat undirritaðrar að nauðsynlegt sé að svipta A sjálfræði til að tryggja viðeigandi meðferð vegna alvarlegs geðsjúkdóms. Mun meðferðin tryggja lyfjameðferð og vonandi leiða til aukins sjúkdómsinnsæis. Áframhaldandi meðferð er A nauðsynleg og án hennar stefnir hún heilsu sinni í voða og spillir möguleikum á bata. Það er mat undirritaðrar og annarra fagaðila sem komið hafa að málum hennar, að frekari meðferð sé réttlætanleg og styðja meðferðaraðilar eindregið fram komna beiðni um sjálfræðissviptingu til eins árs.“

Sóknaraðili telur að með hliðsjón af framanrituðu, gögnum málsins og aðstæðum öllum að öðru leyti verði að telja að tímabundin sjálfræðissvipting til tólf mánaða sé nauðsynleg til að vernda líf og heilsu varnaraðila. Nauðsynlegri læknishjálp og meðferðarúrræðum verði ekki komið við með öðrum hætti og að önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar hafi verið fullreynd. Í því tilliti sé vísað til langrar geðsögu varnaraðila og að hún hafi veikst í apríl sl. þrátt fyrir að hafa notið þjónustu samfélagsgeðteymis á heimili sínu. Þá hafi hvorki lega á almennri móttökugeðdeild 33C né nauðungarvistun í kjölfar hennar skilað nauðsynlegum árangri. Krafan um tímabundna sjálfræðissviptingu byggist á því að varnaraðili sé án vafa haldin alvarlegum geðsjúkdómi og sé sökum hans ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð. Krafan sé tímabundin til tólf mánaða og taki því fullt mið af meðalhófsreglu 1. mgr. 12. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 þar sem fram komi að svipting sjálfræðis skuli ekki ganga lengra en dómari telji þörf á hverju sinni. Með vísan til alls þessa verði að telja að skilyrðum a. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 sé fullnægt.

         B geðlæknir gaf skýrslu fyrir dómi. Hún staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess og um heilsufar varnaraðila. Læknirinn greindi frá því að hún hefði verið meðferðarlæknir varnaraðila á meðan hún dvaldi á deild 32C á Landspítalanum, sem hefði verið frá 14. maí til 16. eða 17. júní sl. þegar hún var flutt yfir á deild 32A. Skýrði hún frá því að meðferðin sem varnaraðili hefði fengið á spítalanum hefði skilað nokkrum árangri með því að örlyndiseinkenni hennar hefðu hjaðnað mikið og geðrofseinkennin minnkað. Enn væri varnaraðili þó bráðveik og nauðsyn bæri til að veita henni frekari læknismeðferð, m.a. forðalyfjameðferð til að tryggja meðferðarheldni. Þá greindi hún frá því að skortur á innsæi varnaraðila í sjúkdómsástand sitt gerði það erfitt að veita henni aðstoð vegna annarra heilsufarsvandamála en geðsjúkdómsins en varnaraðili glímdi m.a. við sykursýki. Staðfesti læknirinn það mat sitt, sem fram kemur í vottorði hennar, að sjálfræðissvipting varnaraðila væri nauðsynleg til að unnt væri að veita henni viðeigandi meðferð. Varnaraðili hefði notið allrar aðstoðar utan spítala sem í boði væri en þau úrræði væru ekki nægjanleg miðað við ástand varnaraðila nú.

         Þá gaf einnig skýrslu fyrir dómi D geðlæknir en hann er sérfræðingur á deild 32A þar sem varnaraðili dvelur nú. Hann kvaðst hafa rætt við varnaraðila í gær og teldi hana hafa þörf fyrir frekari meðferð, m.a. með forðalyfjum. Meðferð varnaraðila miðaði að því að reyna að forða henni frá að lenda aftur í bráðum veikindum líkum þeim sem hún nú væri að glíma við. Var hann sammála mati B um nauðsyn þess að krafa sóknaraðila yrði tekin til greina.

         Verjandi varnaraðila mótmæltir kröfu sóknaraðila og telur skilyrði lögræðissviptingar skv. a-lið 4. gr. laga nr. 71/1997 ekki vera fyrir hendi. Ekki væri forsvaranlegt að lögræðissvipta varnaraðila á grundvelli fyrirliggjandi sjúkdómsástands hennar. Varnaraðili væri til samvinnu við lækna.

III.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, fyrirliggjandi gagna og skýrslna lækna fyrir dómi, er það mat dómsins að fullar sönnur hafi verið færðar fyrir því að varnaraðili glími við alvarlegan geðsjúkdóm og hún hafi lítið sem ekkert innæi í sjúkdómsástand sitt.

Fyrir liggur mat geðlækna um að varnaraðili þurfi læknisaðstoð til að takast á við sjúkdóm sitt og fái hún ekki viðeigandi meðferð stefni hún heilsu sinni í voða og spilli möguleikum á bata.

Verður að fallast á það með sóknaraðila að varnaraðili sé af þessum sökum ófær um ráða persónulegum högum sínum og að nauðsynlegt sé í þágu hagsmuna hennar að svipta hana sjálfræði. Í ljósi vættis geðlæknanna B og D er fallist á að allar líkur séu á því að vægari úrræði en sjálfræðissvipting komi ekki að tilætluðu gagni. Því er skilyrðum a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 fullnægt, sbr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga.

Fyrir liggur mat geðlæknis um að sjálfræðissvipting í eitt ár sé varnaraðila nauðsynleg en um langtíma vanda sé að ræða. Er þá vísað til þess að varnaraðili eigi fjölmargar innlagnir að baki ásamt því að vandi hennar sé viðvarandi og ekki sé útlit fyrir breytingu þar á. Ekki er efni til að draga í efa að varnaraðili þurfi virkt og stöðugt aðhald í töluvert langan tíma til að vinna bug á eða ná tökum á alvarlegum heilsufarsvanda sínum. Þegar jafnframt er litið til þess, að samkvæmt 15. gr. lögræðislaga er unnt að fella lögræðissviptingu niður með úrskurði dómara, séu ástæður sviptingarinnar ekki lengur fyrir hendi, þykir tíminn ekki vera óhæfilegur. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila eins og hún er sett fram.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað af rekstri málsins, þar með talda þóknun verjanda varnaraðila, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 180.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...], er svipt sjálfræði og í 12 mánuði.

Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.