Print

Mál nr. 444/2016

Vatnajökulsþjóðgarður (Óskar Thorarensen hrl.)
gegn
Rannveigu Einarsdóttur (Eva Dís Pálmadóttir hrl.)
Lykilorð
  • Kjarasamningur
  • Túlkun samnings
Reifun
R starfaði samkvæmt tímabundnum ráðningarsamningi við V við landvörslu í Lónsöræfum. R og V deildu um hvort R ætti rétt á fjarvistaruppbót til viðbótar við laun sín samkvæmt kjarasamningi SGS. Var talið að samkvæmt orðanna hljóðan yrði ákvæðið skilið svo að það ætti við um tímabundin störf á vinnustað, þar á meðal vinnustað sem teldist fastur í skilningi samningsins, svo lengi sem vinnustaðurinn væri í óbyggðum þar sem ekki væri unnt að sækja hann frá heimili eða fasti aðstöðu vinnuveitanda í byggð. Vara krafa R því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2016 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vatnajökulsþjóðgarður, greiði stefndu, Rannveigu Einarsdóttur, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 5. febrúar 2016

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 18. desember 2015, höfðaði stefnandi, Rannveig Einarsdóttir, Smárabraut 14, Höfn í Hornafirði, hinn 18. ágúst 2015 gegn stefnda, Vatnajökulsþjóðgarði, Klapparstíg 25 – 27, Reykjavík.

      Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 126.208 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 67.507 krónum frá 1. ágúst 2014 til 1. september 2014 og af 126.208 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta, samkvæmt 12. gr. sömu laga, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Loks krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara lækkunar þeirra. Þá krefst stefndi málskostnaðar, en til vara er þess krafist að málskostnaður milli aðila falli niður.

I

                Launakröfu þá sem stefnandi hefur uppi í máli þessu er að rekja til starfa hennar hjá stefnda samkvæmt tímabundnum ráðningarsamningi, dags. 1. júlí 2014. Samkvæmt samningnum starfaði hún á tímabilinu 1. júlí til 20. ágúst 2014 í 100% starfi við landvörslu í Lónsöræfum. Óumdeilt er að um kjör stefnanda hafi farið samkvæmt stofnanasamningi Starfsgreinasambands Íslands (SGS) annars vegar og Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs hins vegar, sem og kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og SGS vegna m.a. AFLs Starfsgreinafélags, sem tók gildi 1. maí 2011 (hér eftir nefndur „kjarasamningurinn“). Greinir aðila á um það hvort stefnanda beri greiðsla fjarvistaruppbótar, sbr. gr. 2.3.10 í kjarasamningnum, til viðbótar við þegar greiddar launagreiðslur. Af því sem fram kom við munnlegan málflutning, og ráðið verður af stefnu og greinargerð, er enginn ágreiningur um vinnudaga stefnanda á Lónsöræfum samkvæmt framlögðum vinnuskýrslum eða önnur málsatvik. Einskorðast ágreiningur aðila þannig við túlkun ákvæða gr. 2.3.10 í kjarasamningnum.

                Af gögnum málsins verður séð að næsti yfirmaður stefnanda hjá stefnda hafnaði því, með tölvupósti 20. október 2014, að stefnandi ætti rétt á fjarvistaruppbót. Í kjölfarið leitaði AFL Starfsgreinafélag til samstarfsnefndar um kjarasamninginn, með bréfi dags. 16. desember 2014, með ósk um að skorið yrði úr um rétt stefnanda til fjarvistaruppbótarinnar. Samkvæmt fundargerðum samstarfsnefndarinnar var fjallað um málið á fundum 22. og 26. janúar 2015 og var á síðari fundinum ákveðið að leita m.a. til fjármálaráðuneytisins varðandi túlkun á ákvæðinu og hugsanleg fordæmi. Var það gert formlega með bréfi, dags. 4. febrúar s.á. Ekki er að sjá að því erindi hafi verið svarað formlega af hálfu ráðuneytisins. Í málinu liggur þó fyrir tölvupóstur starfsmanns fjármálaráðuneytisins frá 6. febrúar s.á., þar sem svarað er óformlegri fyrirspurn starfmanns stefnda um túlkun ákvæða gr. 2.3.10 kjarasamningsins. Kemur þar fram að ákvæðin séu talin eiga við þegar „starfsmaður sem er t.d. með starfsstöð í Reykjavík er sendur í tímabundin verkefni fjarri sinni starfsstöð, t.d. vegna rannsókna sem ekki er hægt að framkvæma á starfsstöð viðkomandi“, en eigi ekki við „þegar um er að ræða starfsmann sem er með fasta starfsstöð t.d. við Kverkfjöll, enda er hann þá ekki fjarri sinni starfsstöð“.

                Í júnímánuði 2015 hófst lögmaður stefnanda handa um innheimtu kröfunnar, fyrir tilstuðlan AFLs Starfsgreinafélags. Var innheimtubréfi stefnanda svarað með bréfi framkvæmdastjóra stefnda, dags. 2. júlí s.á., þar sem því var enn hafnað að stefnandi ætti rétt til fjarvistaruppbótar. Höfðaði stefnandi þá mál þetta í ágústmánuði 2015.

II

                Stefnandi kveðst byggja á því að um kjör hennar fari samkvæmt framangreindum stofnanasamningi og kjarasamningi. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda skuli laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um vera lágmarkskjör. Samningar um lakari kjör skuli ógildir.

                Stefnandi kveðst byggja á ákvæðum gr. 2.3.10 í kjarasamningnum um fjarvistaruppbót, svohljóðandi:

                „2.3.10.1 Greiða skal fjarvistaruppbót vegna dvalar í lengri tíma við störf fjarri föstum vinnustað.

                2.3.10.2 Fjarvistaruppbót greiðist vegna tímabundinna starfa á vinnustöðum í óbyggðum, á hafi úti eða sambærilegum vinnustöðum þar sem ekki er unnt að sækja vinnustað frá heimili eða fastri aðstöðu vinnuveitanda í byggð eða svo er ekki gert að ákvörðun vinnuveitanda.

                2.3.10.3 Fjarvistaruppbót greiðist þannig að til viðbótar unnum tíma skal greiða eina klst. í yfirvinnu á dag frá og með þriðja degi samfelldrar fjarvistar, sem uppfyllir skilyrði gr. 2.3.10.2. Greiðsla þessi fellur niður sé greitt fyrir vinnu þessa öðrum ákvæðum samnings þessa eða skv. sérstökum samningum umfram það sem ákveðið er í kjarasamningi SGS.“

                Stefnandi byggi á því að hún hafi sinnt tímabundnu starfi á vinnustað í óbyggðum og að henni hafi ekki verið unnt að sækja vinnustað frá heimili sínu eða fastri aðstöðu vinnuveitanda í byggð. Vinnustaður hennar hafi ekki verið föst aðstaða stefnda og krafist ferðalaga innan hvers fjarvistartímabils. Samfelldar fjarvistir hennar hafi verið umfram þrjá daga og hún hafi ekki fengið aðrar greiðslur vegna þeirra. Henni beri því fjarvistaruppbót samkvæmt grein 2.3.10.2, sbr. nánar grein 2.3.10.3 í kjarasamningi. Óumdeilt sé að Lónsöræfi séu í óbyggðum en ekki byggð, og ekki sé hægt að sækja vinnu þar frá heimili eða fastri aðstöðu vinnuveitanda í byggð.     Stefnandi mótmæli túlkun stefnda á umþrættum ákvæðum kjarasamningsins sem of þröngri. Í bréfi stefnda, dags. 2. júlí 2015, sé vísað til þess að greiða beri fjarvistaruppbót samkvæmt gr. 2.3.10 „vegna dvalar í lengri tíma við störf fjarri föstum vinnustað.“ Þá sé þar vísað til þess að fram komi í ráðningarsamningi að vinnustaður stefnanda hafi verið Lónsöræfi þar sem hún hafi starfað sem landvörður. Hafi hún þannig sinnt störfum í námunda við sinn fasta vinnustað og ekki verið um að ræða dvöl/störf í lengri tíma fjarri hinum fasta vinnustað á Lónsöræfum. Vegna þessa geti ekki komið til greiðslu fjarvistaruppbótar.

                Þarna telji stefnandi alfarið byggt á grein 2.3.10.1 í kjarasamningi en ekki litið til greinar 2.3.10.2 sem stefnandi byggi á að geti staðið sjálfstætt. Í grein 2.3.10.2 komi fram að það þurfi að vera hægt að sækja vinnu frá fastri aðstöðu vinnuveitanda í byggð, þ.e. ekki í óbyggðum. Stefnandi byggi á að markmið ákvæðanna sé að tryggja starfsmönnum, sem svo háttar til hjá, umrædda aukagreiðslu.

                Stefnandi kveðst sundurliða dómkröfu sína með þessum hætti:

Nr.                          Skýring                                                 Gjalddagi              Fjárhæð

1.            Júlí, 23 * 2.596,49 + 13,04%           01.08.2014           67.507

2.            Ágúst, 20 * 2.596,49 + 13,04%       01.09.2014           58.701

                Stefnanda hafi borið, samkvæmt gr. 2.3.10.3 í kjarasamningi, að fá greidda eina klst. í yfirvinnu á dag frá og með þriðja degi samfelldrar fjarvistar sem uppfylli skilyrði gr. 2.3.10.2. Stefnandi hafi farið til dvalar í Lónsöræfum 3. júlí 2014 og hafi þar með borið fjarvistaruppbót frá og með þriðja degi, 5. júlí, til og með 27. júlí, sem hafi verið síðasti starfsdagur hennar í bili þar. Þá hafi hún sinnt störfum í byggð í tvo daga. Hún hafi farið aftur inn á Lónsöræfi 30. júlí og hafi þá borið fjarvistaruppbót frá og með þriðja degi, 1. ágúst, og til 20. ágúst. Ofan á laun stefnanda bætist 13,04% orlof, sbr. gr. 4.1 í kjarasamningi.

                Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Um varnarþing vísist til 38. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi aðild sé bent á að stefndi sé ríkisstofnun með sérstaka stjórn, sbr. nánar II. kafla laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð.

III

                Í greinargerð stefnda kemur fram að stefndi mótmæli öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Þá mótmæli stefndi því að markmið nefndra kjarasamningsákvæða styðji kröfu stefnanda.

                Stefndi bendir á að Lónsöræfi séu eitt af tólf starfssvæðum landvarða sem starfi hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Landverðir með starfsstöð á Lónsöræfum hafi þar fasta viðveru á meðan á ráðningartíma stendur og hafi afnot af húsnæði í eigu Vatnajökulsþjóðgarðs á ráðningartímanum. Ljóst sé því að stefnandi hafi verið ráðinn á fasta starfsstöð og hafi starfið ekki krafist þess að hún væri við störf tímabundið fjarri hinni föstu starfsstöð.

                Stefndi kveðst byggja á því að gr. 2.3.10 kjarasamningsins eigi ekki við um störf stefnanda þar sem hún hafi verið sérstaklega ráðin til starfa á tilgreinda starfsstöð. Ákvæði gr. 2.3.10.2 eigi eingöngu við þegar starfsmaður með fasta starfsstöð sé sendur í tímabundin verkefni fjarri sinni föstu starfsstöð, t.d. vegna rannsókna sem ekki sé hægt að framkvæma á starfsstöð viðkomandi og sé öðru mótmælt sem röngu. Ekki sé unnt að fallast á þá túlkun stefnanda að ákvæðið eigi við um starfsmann sem sé með fasta starfsstöð á Lónsöræfum, enda sé hann þá ekki fjarri sinni starfsstöð við vinnu.

                Þjóðgarðurinn skiptist í fjögur rekstrarsvæði og starfi á hverju þeirra sérstakur þjóðgarðsvörður, þ.e. Norðursvæði, Austursvæði, Suðursvæði og Vestursvæði.  Meginstarfsstöðvar innan þjóðgarðsins séu alls sex, þ.e. í Ásbyrgi, Mývatnssveit, Skriðuklaustri, Skaftafelli, Höfn og á Kirkjubæjarklaustri. Ein starfsstöðvanna sé í Reykjavík og þar sé rekin skrifstofa, þar sem starfi einn starfsmaður auk framkvæmdastjóra. Starfsmenn þjóðgarðsins, að framkvæmdastjóra meðtöldum, séu alls 14 talsins. Langstærstur hluti starfsmanna þjóðgarðsins sé með fasta starfsstöð utan Reykjavíkur.

                Tekið skuli fram að stefndi hafi ekki í nokkru tilfelli greitt fjarvistaruppbót samkvæmt framangreindum stofnanasamningi vegna starfsmanna sem sinni tímabundið landvörslu fjarri byggðum eða heimili sínu. Stefndi hafi ekki talið slíka skyldu vera til staðar á grundvelli gr. 2.3.10 kjarasamningsins.

                Stefndi mótmæli því einnig að stefnandi geti byggt rétt á gr. 2.3.10.2 og að sú grein geti staðið sjálfstætt eins og haldið sé fram í stefnu.

                Um málskostnaðarkröfu sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

                Til stuðnings varakröfu sinni um lækkun kemur fram í greinargerð að stefndi sé ósammála upphafstímamarki dráttarvaxtakröfu stefnanda í málinu. Telji dómurinn koma til greina að dæma dráttarvexti fyrir þingfestingu málsins þá bendi stefndi á að dráttarvaxta hafi fyrst verið krafist með innheimtubréfi stefnanda, dags. 22. júní 2015.

IV

Niðurstaða

                Eins og fyrr sagði einskorðast ágreiningsefni máls þessa við það hvort stefnandi hafi átt rétt á fjarvistaruppbót samkvæmt gr. 2.3.10 í þeim kjarasamningi sem gilti um kjör stefnanda, þ.e. kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsgreinasambands Íslands f.h. tilgreindra stéttarfélaga, þ. á m. AFLs Starfsgreinafélags, með gildistíma frá 1. maí 2011. Reynir þar á túlkun ákvæða nefndrar kjarasamningsgreinar, einkum gr. 2.3.10.2, en enginn ágreiningur er um málsatvik, þar á meðal um það að fastur vinnustaður stefnanda var, í samræmi við ráðningarsamning, á Lónsöræfum.

                Stefndi byggir á því að leggja verði þann skilning í ákvæðið að þar sé aðeins átt við störf fjarri „föstum vinnustað“ í skilningi gr. 2.3.10.1. Því mótmælir stefnandi og byggir á því að gr. 2.3.10.2 verði að túlka „sjálfstætt“.

                Þegar deilt er um skýringu samningsákvæða, þar á meðal ákvæða sem aðilar vinnumarkaðarins semja um við gerð kjarasamninga, liggur beinast við að skýra ákvæðin samkvæmt orðanna hljóðan. Nægi orðskýring ekki til að leysa úr vafa koma önnur atriði til skoðunar, svo sem sönnunargögn sem varpað geta ljósi á tilgang og markmið að baki samningsákvæðum. Í máli þessu hefur hvorugur málsaðila leitast við að sanna hvað samningsaðilum gekk til við samningu umþrættra ákvæða við kjarasamningsgerðina, þótt framlögð gögn gefi vissar upplýsingar um afstöðu fjármálaráðuneytisins annars vegar og AFLs Starfsgreinafélags hins vegar til skýringar ákvæðanna. Ekki kemur það að sök, enda leiðir skýring ákvæðanna samkvæmt orðanna hljóðan til ótvíræðrar niðurstöðu, að áliti dómsins.

                Ákvæði gr. 2.3.10 eru rakin orðrétt í heild sinni hér að framan, í kafla II um málsástæður stefnanda. Andstætt ákvæði gr. 2.3.10.1, þar sem ræðir um störf„fjarri föstum vinnustað“, er í gr. 2.3.10.2 í fyrsta lagi rætt um tímabundin störf á „vinnustöðum í óbyggðum“, án frekari takmörkunar. Í öðru lagi kemur fram í ákvæðinu að skilyrði greiðslu fjarvistaruppbótar sé að ekki sé unnt að sækja vinnustaðinn frá „heimili eða fastri aðstöðu vinnuveitanda í byggð“ eða svo sé ekki gert að ákvörðun vinnuveitanda [leturbreytingar dómara]. Styður orðnotkun þessi, hvað bæði framangreind áhersluatriði varðar, fremur þá staðhæfingu stefnanda að ekki verði svo þröngur skilningur lagður í gr. 2.3.10.2 sem stefndi heldur fram í málinu. Hafi það verið ætlun kjarasamningsaðila að takmarka rétt til fjarvistaruppbótar með þeim hætti sem stefndi heldur fram, við störf fjarri „föstum vinnustað“ starfsmanns, hefði að áliti dómsins þurft að taka það skýrt fram í texta greinarinnar. Eins og ákvæðið verður skilið samkvæmt orðanna hljóðan á það við um tímabundin störf á vinnustað, þar á meðal vinnustað sem telst „fastur“ í skilningi gr. 2.3.10.1, svo lengi sem vinnustaðurinn er „í óbyggðum“ þar sem ekki er unnt að sækja hann „frá heimili eða fastri aðstöðu vinnuveitanda í byggð eða svo er ekki gert að ákvörðun vinnuveitanda“. 

                Óumdeilt er í málinu að starf stefnanda á Lónsöræfum var tímabundið, þ.e. yfir sumarmánuði 2014, og er því uppfyllt það skilyrði gr. 2.3.10.2 að fjarvistaruppbót greiðist vegna „tímabundinna starfa“. Þá verður að telja það vafalaust að Lónsöræfi og það húsnæði sem stefnandi bjó þar í á vegum vinnuveitanda síns, í Múlakoti, séu „í óbyggðum“ í skilningi gr. 2.3.10.2. Hefur stefndi hvorki haft uppi málsástæður né lagt fram gögn sem benda til annars en að það sé í reynd óumdeilt. Enginn ágreiningur er um það að stefnandi hafðist við í Múlakoti allt ráðningartímabilið, utan tveggja daga sem hún starfaði á Höfn við öflun aðfanga. Verður því að líta svo á að dvöl hennar þar, fjarri bæði heimili sínu og næstu föstu starfsaðstöðu stefnda í byggð, á Höfn í Hornafirði, hafi helgast af ákvörðun vinnuveitanda hennar, stefnda. Er auk þess enginn ágreiningur í málinu um að aðstæður sem varða leiðina inn á Lónsöræfi, s.s. fjarlægðir og torfær vatnsföll, geri það að verkum að vart getur talist raunhæft að sækja vinnu þangað daglega frá Höfn.

                Eins og ákvæði gr. 2.3.10 eru fram sett, og þau verða skýrð samkvæmt orðanna hljóðan, verður samkvæmt framangreindu fallist á það með stefnanda að hún eigi rétt til greiðslu fjarvistaruppbótar samkvæmt ákvæðum þeirrar kjarasamningsgreinar vegna starfa sinna á Lónsöræfum sumarið 2014. Ágreiningslaust er að stefnandi hafi ekki notið greiðslna sem leitt gætu til niðurfalls fjarvistaruppbótar samkvæmt síðari málslið gr. 2.3.10.3. kjarasamningsins.

                Fjárkrafa stefnanda er ekki tölulega umdeild. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina. Varakrafa stefnda um lækkun lýtur einungis að upphafstímamarki dráttarvaxta, sem stefndi krefst þess að taki mið af því að dráttarvaxta hafi fyrst verið krafist með innheimtubréfi stefnanda 22. júní 2015. Dómkrafa stefnanda, þar sem krafist er dráttarvaxta frá fyrirfram ákveðnum gjalddögum launa hennar vegna einstakra mánaða, á sér stoð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hefur engum málsástæðum verið hreyft í þá átt að fjarvistaruppbót hafi átt að greiðast á öðrum gjalddögum. Verður krafa stefnanda því dæmd með dráttarvöxtum eins og krafist er. Vegna ákvæðis 1. mgr. 12. gr. laga nr. 38/2001 er ekki nauðsynlegt að kveða í dómsorði á um höfuðstólsfærslu vaxta í samræmi við dómkröfu stefnanda.

                Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem þykir hæfilega ákveðinn eins og í dómsorði greinir. 

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Voru lögmenn aðila og dómari sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins þrátt fyrir þann drátt sem varð á dómsuppsögu fram yfir lögbundinn frest, sem helgaðist af embættisönnum dómarans og hátíðisdögum.

Dómsorð:

                Stefndi, Vatnajökulsþjóðgarður, greiði stefnanda, Rannveigu Einarsdóttur, 126.208 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 67.507 krónum frá 1. ágúst 2014 til 1. september 2014 og af 126.208 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað.