Print

Mál nr. 631/2017

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf., B og dánarbúi C (Ólafur Eiríksson lögmaður)
Lykilorð
  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Endurupptaka
  • Fyrning
  • Umferðarlög
  • Matsgerð
  • Fyrirvari
Reifun

A varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi 8. desember 1999. Þann 2. maí 2001 greiddi V hf. honum bætur á grundvelli matsgerðar sem þá lá fyrir og tók A við bótunum með fyrirvara. A höfðaði síðan mál gegn V hf., B og C til heimtu frekari bóta vegna slyssins. Byggði A kröfu sína á matsgerð dómkvaddra matsmanna sem hann hafði aflað af því tilefni. Í héraði var sakarefni málsins skipt með heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 þannig að fyrst var fjallað um hvort bótakrafa A væri fyrnd og hvort áðurnefnt bótauppgjör teldist fullnaðaruppgjör. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í matsgerð þeirri sem A hafði aflað vegna málsins, kæmi fram að heilsufar hans hefði verið orðið stöðugt í skilningi skaðabótalaga 4. febrúar 2004. Þótt upphaf fyrningarfrests réðist ekki almennt séð af því hvenær heilsufar tjónþola telst orðið stöðugt, þá hefði A ekki leitað sérstaklega mats á því hvenær hefði verið tímabært að meta afleiðingar slyssins. Eins og atvikum væri háttað væru því ekki efni til annars en að líta svo á að A hefði átt að geta hafist handa við að leita fullnustu kröfu sinnar á árinu 2004. Hefði krafa A því verið fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga þegar hann höfðaði fyrst dómsmál til heimtu hennar 7. desember 2009. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu V, B og C því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. október 2017. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að viðurkennt verði með dómi „að skaðabótakrafa áfrýjanda á stefndu, vegna þess líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi þann 8. 12. 1999, sé ekki fyrnd.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar greinir nánar lýtur mál þetta að afleiðingum umferðarslyss sem áfrýjandi lenti í 8. desember 1999. Reisir hann dómkröfu sína í málinu á matsgerð þriggja manna 8. júní 2016, sem hann fékk dómkvadda til þess að meta afleiðingar slyssins. Við fyrirtöku málsins í héraði 15. maí 2017 var ákveðið að skipta sakarefni þess með heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þannig að í þessum þætti málsins yrði aðeins um það fjallað hvort bótakrafa áfrýjanda væri fyrnd og hvort bótauppgjör 2. maí 2001 teldist fullnaðaruppgjör, hvað sem liði fyrirvara áfrýjanda við það.

I

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi gert þá kröfu aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Hvað þá kröfu varðar verður að líta til þess að í forsendum hins áfrýjaða dóms er nægileg afstaða tekin til málatilbúnaðar áfrýjanda um þýðingu matsgerðar dómkvaddra manna 8. júní 2016 og þýðingu 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um skilyrði endurupptöku. Þá var engin þörf á því, með hliðsjón af skiptingu sakarefnisins, að í dómi sætu sérfróðir meðdómendur auk embættisdómara. Er kröfu áfrýjanda um ómerkingu því hafnað.

II

Með bréfi þáverandi lögmanns áfrýjanda 16. ágúst 2004 til stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. var af hans hálfu farið fram á „endurupptöku málsins“ og þá þess bótauppgjörs sem fram hafði farið 2. maí 2001 vegna afleiðinga umferðarslyssins 8. desember 1999. Kemur auk þess fram í bréfinu að farið sé fram á að „afleiðingar slyssins verði metnar að nýju þar sem ekki var vitað um og því ekki tekið tillit til þessara afleiðinga við fyrra örorkumat.“  

Í áðurgreindri matsgerð frá 8. júní 2016 kom fram að heilsufar áfrýjanda í kjölfar slyssins hafi verið orðið stöðugt, í skilningi skaðabótalaga, 4. febrúar 2004. Þó svo upphaf fyrningarfrests ráðist ekki af því almennt séð hvenær heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, enda um afturvirkt læknisfræðilegt mat að ræða, þá er þess að gæta að áfrýjandi leitaði ekki jafnframt sérstaklega mats á því hvenær tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins 8. desember 1999. Eins og atvikum er háttað eru því ekki efni til annars en að líta svo á að áfrýjandi hafi átt að geta hafist handa við að leita fullnustu kröfu sinnar á árinu 2004, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 18. mars 2008 í máli nr. 449/2007.  

Með hliðsjón af því að krafa áfrýjanda á hendur stefnda laut fyrningu á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem hann fékk vitneskju um hana og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, sbr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, hófst fyrningartími kröfunnar 31. desember 2004. Hún var því fyrnd þegar áfrýjandi höfðaði dómsmál á hendur stefndu til heimtu hennar 7. desember 2009 en með þeirri málsókn gat fyrst komið til þess að rofin yrði fyrning kröfunnar. Þegar af þessari ástæðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefndu af kröfu áfrýjanda. 

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2017.

                Mál þetta höfðaði A, [...] með stefnu birtri 20. febrúar 2017 á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, B, [...] og dánarbúi C, sem lést [...].  Málið var dómtekið 19. júní sl. 

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt 4.227.200 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 2.856.400 frá 8. desember 1999 til 4. febrúar 2002, en af 4.227.200 krónum frá þeim degi til 2. mars 2017, en með dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni 260.808 króna innborgun 2. maí 2001.  Þá krefst stefnandi máls­kostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. 

                Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnda.  Til vara krefjast stefndu lækkunar á dómkröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda. 

                Við fyrirtöku málsins þann 15. maí sl. var ákveðið, samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, að skipta sakarefninu þannig að fyrst yrði aðeins fjallað um hvort skaðabótakrafa stefnanda sé fyrnd og hvort bótauppgjör við stefnanda 2. maí 2001 teljist fullnaðaruppgjör, hvað sem líði fyrirvara stefnanda þar að lútandi. 

                Stefnandi slasaðist í umferðarslysi [...] 1993 og hlaut við það [...].  Hann gekkst undir [...]og síðar [...]. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna [...] 1999 hlaut stefnandi 45% varanlegan miska og 75% varanlega örorku af völdum slyssins [...] 1993.  Samkvæmt matsgerðinni hafði stefnandi viðvarandi verki í [...] og [...] en stöðugleika­punktur var fundinn [...] 1998, þegar liðnir voru sex mánuðir frá lokum læknis­meðferðar eftir síðari [...] á stefnanda. 

                Mál þetta hverfist um afleiðingar umferðarslyss sem stefnandi lenti í 8. desember 1999.  Óumdeilt er í málinu að stefndi B olli slysinu, en hann ók þá bifreið eiginkonu sinnar, C heitinnar, sem tryggð var ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.  Stefnandi var fluttur á slysa- og bráðamóttöku Landspítala og voru teknar röntgenmyndir af hálsi og lendahrygg hans.  Engin ný áverkamerki greindust og engir áverkar á beini hægra hnés. Samkvæmt vottorði tognaði stefnandi á hné. 

                Samkvæmt vottorði heimilislæknis [...] 2000 þótti stefnanda verkur í [...] hafa versnað til muna eftir umferðarslysið 8. desember 1999. Var honum því vísað til D bæklunarskurðlæknis, sem hafði gert tvær aðgerðir eftir slysið [...] 1993.  Í vottorði hans [...] 2000 kemur fram að röntgen­myndir sýni vel [...] í [...] stefnanda og í [...] hans, en stefnandi hafi eftir síðara umferðaróhappið haft viðvarandi verki í [...] og [...]. Saga stefnanda og einkenni bendi til endurtekinnar tognunar á bæði [...] og [...].

                Samkvæmt vottorði sjúkraþjálfara, dags. [...] 2000, sem hafði komið að endurhæfingu stefnanda eftir slysið 1993, fékk stefnandi orðið slæm verkjaköst og virtist ekki þola álag.  Hann hefði stífnað allur upp eftir síðara slysið, sérstaklega í [...].  Þá kvartaði stefnandi um verki í hægri hlið líkamans, bæði út í hendur og niður í fót.  Fyrir síðara slysið hefði hægri hliðin verið mun betri en hefði versnað til muna eftir slysið. 

                Að beiðni stefnanda voru dómkvaddir þrír matsmenn til að meta afleiðingar slyssins 8. desember 1999 og lá matsgerð þeirra fyrir 20. mars 2001.  Síðara slysið var þar fyrst og fremst talið hafa ýft upp fyrri einkenni stefnanda vegna fyrra slyssins 1993.  Hafði stefnandi þá viðvarandi verki í [...],[...],[...] og [...] og niður í [...].  Töldu matsmenn að meta mætti aukningu einkenna frá stoð­kerfi og einkenni frá [...] stefnanda til 5% aukningar á varanlegum miska.  Hins vegar væri engin breyting á þeirri 75% varanlegu örorku sem hefði þegar verið ákvörðuð, meðal annars með hliðsjón af því að stefnandi hefði ekkert getað unnið frá fyrra slysinu, hann gerði ekki ráð fyrir því að fara aftur út á vinnumarkaðinn og að helsta markmið hans væri að lifa lífinu án þess að taka lyf. 

                Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. bætti stefnanda líkamstjón af völdum slyssins 8. desember 1999 með vísan til matsgerðarinnar 20. mars 2001. Stefnandi tók við bótagreiðslunni 2. maí 2001 „með fyrirvara um alla þætti örorkumatsins sem lagt [væri] til grundvallar uppgjöri“.  Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. tók fram á tjóns­kvittun að það hefði greitt „fullar og endanlegar bætur“ vegna slyssins. 

                Stefnandi leitaði að nýju til D bæklunarskurðlæknis 3. september 2003 vegna [...].  Að rannsókn lokinni ákvað læknirinn að framkvæmd skyldi aðgerð, en [...] hans voru laus.  Stefnandi undirgekkst aðgerð 4. nóvember 2003 þar sem innri [...] voru fjarlægð.  Í vottorði D 13. maí 2004 kemur fram að nauðsyn aðgerðarinnar hafi stafað af miklum verkjum sem rekja mætti til [...], en einnig hefði verið grunur um [...]. Taldi læknirinn allt benda til þess að [...] mætti rekja til slyssins 8. desember 1999, en það hefði síðan aukist á eðlilegan hátt með tilheyrandi óþægindum. 

                Stefnandi fór fram á það með bréfi 16. ágúst 2004 að mál hans yrði tekið upp að nýju hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. og að afleiðingar slyssins 8. desember 1999 yrðu metnar að nýju.  Með samþykki þáverandi lögmanns stefnanda var óskað eftir mati E bæklunarskurðlæknis, á því hvort [...] stefnanda mætti rekja til slyssins.  Mat hans um að svo væri ekki lá fyrir 14. júní 2005.  Á röntgenmyndum teknum á slysdegi hefði mátt mæla [...], sem væru sér klár merki um [...] á festiskrúfunum.  Slíkt [...] mætti merkja á myndum teknum 21. apríl 1998 og jafnvel fyrr.  [...], sem bætt var úr með aðgerðinni 4. nóvember 2003, hafi því hafist fyrir slysið 8. desember 1999.  Líklegasta skýringin á [...] væri síendurtekið daglegt álag með hægfara [...].  Stefnandi dró í efa réttmæti mats E, sem hefði ruglað saman árekstursbifreiðum og því gert ranglega ráð fyrir því að um lágorkuáverka væri að ræða.  Auk þess hefði hann farið í leyfisleysi í sjúkraskrá stefnanda og verið vanhæfur til verksins, enda hefði hann þar sinnt hlutverki verktaka hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.  Með bréfi 11. október 2005 leiðrétti E tilgreiningu sína á stefnanda sem ökumanns rangrar bifreiðar en tók fram að breytingin hefði engin áhrif á niðurstöðu álitsins. 

                Úr varð að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta hvort rekja mætti [...] stefnanda til slyssins 8. desember 1999 og þá hvaða afleiðingar hefðu hlotist af slysinu.  Niður­staða matsgerðar, dags. 21. janúar 2006, var sú að [...] stefnanda væri ekki að rekja til þess slyss.  Líklegast mætti rekja það til hægfara [...] í kjölfar aðgerðarinnar 1997, en sýni úr stefnanda, sem hefðu verið ræktuð í kjölfar aðgerðarinnar 2003, hafi staðreynt að [...] hefði verið [...].  Tiltölulega algengt væri að [...] eftir [...] vegna [...] eða álags meðan á gróanda stæði.  Greina mætti út frá röntgenmyndum á árunum 1997-2003 [...] við [...], allt aftur til 6 vikum eftir upphaflegu aðgerðina.  Hálfu ári eftir aðgerðina mætti greina [...] við bæði [...] í [...] stefnanda.  Hafi [...] því verið [...] fyrir umferðarslysið 8. desember 1999.  Hins vegar hafi matsmenn engin haldbær vísindaleg rök fyrir því að slysið hefði haft áhrif á [...].  Matsmenn bentu og á að frá síðustu mötum vegna slyssins 1993 sem fram fóru 1999 og 2001 hafi stefnandi farið í endur­aðgerð vegna [...] og virtist sem ástand hans væri lakara en við fyrri möt. 

                Stefnandi gat ekki sætt sig við niðurstöðu matsins frá 21. janúar 2006 og fékk tekna dómskýrslu af einum matsmanna, F bæklunarskurðlækni, 13. mars 2006.  Þar kom fram að ekki hefði verið metið sérstaklega hverju líkamlegri versnun stefnanda frá fyrri mötum sætti.  Sjálfur teldi hann líklegt að versnunina mætti rekja aftur til slyssins 1993 þar eð stefnandi hefði verið með [...] í sér fyrir slysið 1999.  Hefði síðara slysið haft tiltölulega lítil áhrif á ástand stefnanda og að það ætti jafnt við um miska og varanlega örorku.  Læknirinn gerði eins grein fyrir því að hann teldi að virkni stefnanda hefði verið metin of há í matsgerðum frá 1999 og 2001, hann hefði þá stefnt út á vinnumarkaðinn á nýjan leik en það ekki gengið eftir. 

                Stefnandi gat eftir sem áður ekki sætt sig við útkomuna úr matinu frá 21. janúar 2006 og leitaðist við að fá því hnekkt fyrir dómstólum.  Byggði hann á því í málinu að matsmennirnir hefðu verið vanhæfir til starfans og að þeim hafi verið ólögmætt að byggja matið á niðurstöðu E.  Málinu var vísað af sjálfs­dáðum frá Hæstarétti með dómi 4. janúar 2007. 

                Að svo búnu krafðist stefnandi í tvígang dómkvaðningar matsmanna til að framkvæma yfirmat á matinu 21. ágúst 2006, fyrst 22. júní 2007 og aftur 28. mars 2008.  Stefnandi óskaði samhliða málunum eftir gjafsókn en var synjað í bæði skiptin.  Stefnandi kveður það ástæðu þess að hann hafi fallið frá kröfum sínum um yfirmat. 

                Með stefnu birtri 7. desember 2009 höfðaði stefnandi skaðabótamál á hendur stefndu vegna slyssins 8. desember 1999 og krafðist 6.900.000 króna skaðabóta til viðbótar þegar uppgerðum bótum.  Málið var fellt niður 27. nóvember 2011.  Stefnandi höfðaði sams konar mál í tvígang fyrir dómi, annars vegar með stefnu birtri 26. apríl 2012, en það mál var fellt niður 25. janúar 2013, hins vegar með stefnu birtri 19. júlí 2013.  Málsástæður að baki kröfum stefnanda í þessum málum voru þær að slysið 8. desember 1999 hefði haft í för með sér mun meiri afleiðingar en gert hafi verið ráð fyrir í upphaflegu mati þar að lútandi frá 20. mars 2001.  Varanlegur miski sem hlotist hefði væri hæfilega metinn 20 miskastig og varanleg örorka 25%.  Þá ætti hann rétt á bótum vegna annars fjártjóns, sjúkrakostnaðar og einnig á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, enda hefði stefndi B sýnt af sér stórfellt gáleysi er hann olli árekstrinum. 

                Stefnandi fékk gjafsókn vegna málsins frá 19. júlí 2013 þann 3. mars 2015 og óskaði 30. mars 2015 eftir mati þriggja dómkvaddra matsmanna til þess að fá metið á nýjan leik hverjar afleiðingar umferðarslyssins 8. desember 1999 væru. Niðurstaða matsgerðar þeirra frá 8. júní 2016 var sú að stefnandi hefði hlotið 10% varanlega örorku og 15 stig í viðbótarmiska í slysinu.  Í samantektarkafla matsgerðarinnar ítreka matsmenn að þeir séu ósammála umfangsmikilli röksemdafærslu í vottorðum og dóm­skjölum um að [...] hafi [...] við slysið og það sé orsök aukins miska og örorku.  Í matsgerðinni eru færðar þær röksemdir að það sé mun líklegra að [...] „vegna áverkans í slysinu, einkum rétt fyrir ofan [...], hafi orsakað viðbótarskaðann í [...] og í raun í öllum [...]“.  Í lokaorðum matsgerðarinnar segir svo:  „Þar að auki vaknar grunur um að þrenging í [...], geti átt þátt í einkennamynd stefnanda í dag.  Myndun þessarar [...] er væntanlega í bæði beinu og óbeinu orsakasambandi við [...] sem voru settar inn vegna fyrra umferðarslyssins, vegna [...] í [...].  Þó er mun erfiðara að meta með vissu hvaða einkenni orsakast af [...] og hvenær einkenni af þeim toga voru áberandi, þar sem einkenna­myndin líkist í mörgu afleiðingum af [...] í tvígang, sem varð í bíl­slysunum í [...] 1993 og þann 8. desember 1999.“ 

                Hinn 14. september 2016 var dómsmálið frá 19. júlí 2013 fellt niður að kröfu stefnanda, með hliðsjón af afstöðu Hæstaréttar um öflun matsgerða eftir þingfestingu máls. 

                Mál þetta höfðaði stefnandi eins og áður segir 21. febrúar 2017, nú til heimtu bóta að fjárhæð 4.227.200 króna vegna slyssins 8. desember 1999, með vísan til niður­stöðu matsgerðarinnar frá 8. júní 2016.  Sem fyrr segir var sakarefni málsins skipt og er nú tekist á um það hvort krafa stefnanda sé fyrnd en ella hvort hún komist að með hliðsjón af því bótauppgjöri sem fram fór 2. maí 2001 á milli málsaðila. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda 

                Stefnandi byggir dómkröfu sína í málinu á niðurstöðu matsgerðarinnar 8. júní 2016 og með vísan til 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 91. gr. sbr. 93., 95. og 97. gr. laganna. Krafa stefnanda sundurliðast svo: 

                Miskabætur:                                                                                                          1.656.400 krónur

                Bætur fyrir varanlega örorku:                                                                            1.370.800 krónur

                Bætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993                                  1.200.000 krónur

                Samtals:                                                                                                                 4.227.200 krónur       

                Samandregið byggir stefnandi miskabótakröfu sína á 4. gr. skaðabótalaga, en bætur fyrir varanlega örorku styður stefnandi við 1. og 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og niðurstöðu matsgerðarinnar 8. júní 2016.  Fyrir kröfu um bætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga færir stefnandi þau rök að stefndi B hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er hann olli slysinu 8. desember 1999, sbr. einnig 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga. 

                Um þann þátt málsins sem hér er til úrlausnar byggir stefnandi á því að mats­gerðin frá 8. júní 2016 hafi fært honum nýja og raunhæfa vitneskju um afleiðingar slyssins 8. desember 1999. Geri það stefnanda loks kleift að leita fullnustu kröfu sinnar vegna þess líkamstjóns sem hann hafi orðið fyrir í slysinu. Sé krafa hans því ekki fyrnd í skilningi 99. gr. umferðarlaga. 

                Þá sé krafa stefnanda ekki fyrnd enda hafi hann gætt þess að stefna henni ætíð fyrir dómstólum í því skyni að rjúfa fyrningu, fyrst 7. desember 2009 en það mál hafi verið fellt niður 25. janúar 2013.  Nýtt mál hafi svo verið höfðað, 19. júlí 2013 og hafi það verið fellt niður 14. september 2016.  Kröfunni hafi svo verið haldið við með málshöfðun þessari 20. febrúar 2017.  Þannig hafi stefnandi viðhaldið kröfu sinni í samræmi við 15. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 22. gr. sömu laga. 

                Að því er varðar uppgjörið við stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. 2. maí 2001, þá hafi það byggt á mati 20. mars 2001, en niðurstaða þess hafi miðað við að slysið 8. desember 1999 hafi einkum ýft upp fyrri einkenni vegna slyssins sem stefnandi lenti í 1993.  Stefnandi hafi verið ósammála niðurstöðu matsins og þar af leiðandi tekið við bótunum með fyrirvara um grundvöll uppgjörsins.  Þá vísar stefnandi til þess stefndi Vátryggingafélag Íslands hafi fallist á að taka mál hans fyrir að nýju þann 2. maí 2005 í samræmi við beiðni hans þar að lútandi 16. ágúst 2004.  Sú beiðni hafi verið gerð með vísan til nýrra einkenna sem tengdust [...], einkum í [...] stefnanda, sem bæklunarskurðlæknir hans hafi talið að mætti að öllum líkindum rekja til hnykkáverka sem hann hafi hlotið í slysinu 8. desember 1999.  Við hafi tekið matsferli sem hafist hafi að frumkvæði hins stefnda félags sem ekki hafi lokið fyrr en með dómi Hæstaréttar 4. janúar 2007.  Frá þeim tíma og til 7. desember 2009, þegar stefnandi hafi fyrst rofið fyrningarfrest kröfunnar, hafi ekki liðið 4 ár í skilningi 99. grein umferðarlaga.  Hið sama eigi við um lok matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá janúar 2006. 

                Þá vísar stefnandi til 11. gr. skaðabótalaga enda hafi heilsu hans samkvæmt matsgerðinni 8. júní 2016 hrakað á síðustu árum vegna afleiðinga umferðaslyssins 8. desember 1999 sem sanni að veruleg versnun hafi orðið á heilsu stefnanda frá fyrra uppgjöri í maí 2001. 

                Auk þeirra lagareglna sem getið hefur verið vísar stefnandi til skaðabótalaga, einkum 1.-8. gr. og a-liðar 1. mgr. 26. gr. sem og bótakafla umferðarlaga.  Stefnandi vísar einnig til meginreglna vátryggingaréttarins um upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu vátryggingafélaga og um að félögin geti ekki takmarkað ábyrgð sína nema samkvæmt skýrum lagaheimildum. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndu byggja á því að ekki séu lagaskilyrði til greiðslu frekari bóta vegna slyssins 8. desember 1999 en greiddar hafi verið með bótauppgjörinu 2. maí 2001, á grundvelli matsgerðarinnar 20. mars 2001.  Bótauppgjörið hafi verið endanlegt uppgjör vegna slyssins og skapi fyrirvari stefnanda við bótauppgjörið honum ekki rétt til frekari bóta án þess að skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé fullnægt.  Skilyrði ákvæðisins séu tvö, annars vegar að um sé að ræða ófyrirséða heilsufarslega versnun af völdum slyss og hins vegar að versnun sé veruleg eða þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Stefnanda hafi ekki tekist sönnun um að þeim skilyrðum sé fullnægt í málinu.  Ekkert sé að finna í fyrirliggjandi læknis­fræðilegum gögnum eða matsgerðum sem sýni fram á það.  Matið frá 8. júní 2016 hafi tekið til sömu einkenna og áður fyrr, auk þess sem það sé haldið verulegum annmörkum og verði því ekki lagt til grundvallar niðurstöðu í málinu. 

                Fyrirvari stefnanda við grundvöll uppgjörsins hafi enga þýðingu hér, enda hafi hann verið of almennur.  Hæstiréttur hafi túlkað slíka almenna fyrirvara við bótauppgjör þannig að þeir feli ekki annað í sér en áskilnað um rétt til bóta kæmi síðar til ófyrirsjáanlegra breytinga á heilsufari tjónþola sem ylli frekari varanlegum miska eða örorku en samkvæmt matinu sem lagt hafi verið til grundvallar bótauppgjörs. 

                Stefndu byggja jafnframt á því að dómkröfur stefnanda séu fyrndar samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, um að allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu þeirra.  Dómkröfurnar hafi verið fyrndar áður en mál vegna þeirra hafi fyrst verið höfðað með birtingu stefnu 7. desember 2009.  Beita verði hlutlægum mælikvarða á það, hvenær stefnandi hafi mátt vita um tilvist kröfunnar og fyrst getað hafist handa um að leita fullnustu hennar. 

                Byggt sé á því í stefnu að afleiðingar slyssins 8. desember 1999 hafi versnað jafnt og þétt.  Þegar 12. október 2000 hafi stefnandi leitað til læknis vegna aukinna verkja í [...].  Þá sé rætt um breytingar á líkamlegu ástandi stefnanda til hins verra frá því sem áður var í vottorði sjúkraþjálfara 17. október 2000.  Í vottorði D bæklunarskurðlæknis, 23. október 2000, komi fram að saga stefnanda og einkenni bendi til endurtekinnar [...] á bæði [...]. 

                Þá liggi fyrir að 19. janúar 2001 hafi að beiðni stefnanda verið dómkvaddir matsmenn til að meta afleiðingar slyssins 8. desember 1999 og hafi mat þeirra legið fyrir 20. mars 2001.  Niðurstaða þeirra hafi verið sú að slysið hafi fyrst og fremst ýft upp fyrri einkenni stefnanda eftir slysið 1993.  Þeir hafi metið aukningu einkenna stefnanda eftir slysið 8. desember 1999 til 5% aukningar á varanlegum miska ásamt þjáningartíma í rúma 6 mánuði.  Afleiðingar slyssins myndu hins vegar ekki koma til með að breyta þeirri varanlegu örorku sem þegar hefði verið ákvörðuð eftir fyrra slysið 1993.  Þá hafi matsmenn talið að ekki hafi verið að vænta frekari bata, er liðnir hafi verið sex mánuðir og þrjár vikur frá því slysið varð 8. desember 1999.  Þá komi fram í matinu að stefnandi hafi m.a. greint matsmönnum frá því að hann hafi ekkert getað unnið frá slysinu [...] 1993 og að líkamsástand sitt væri með þeim hætti að hann hugsaði nú ekki um að fara aftur út á vinnumarkaðinn. 

                Þá vísa stefndu til þess að stefnandi hafi tekið við bótum úr hendi stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. 2. maí 2001, með fyrirvara um réttmæti örorkumatsins 20. mars 2001. 

                Allt framangreint beri með sér að stefnandi hafi vitað um tilvist dómkröfunnar og getað hafist handa við heimtu bóta úr hendi stefnda, þegar á árunum 2000 og 2001, er hann leitaði til sérfræðinga með einkenni sín eftir slysið og sætti örorkumati.  Hafi þá hafist 4 ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga á kröfu stefnanda við árslok 2000 eða við árslok 2001.  Hafi það í för með sér að krafa hans hafi fyrnst í árslok 2004 eða í árslok  2005. 

                Þá benda stefndu einnig á það að í vottorði D bæklunar­skurðlæknis 13. maí 2004 segi að í kjölfar slyssins 8. desember 1999 hafi óþægindi frá [...] stefnanda komið til að nýju, versnað og leitt til aðgerðarinnar á stefnanda 4. nóvember 2003.  Á þeim grunni hafi lögmaður stefnanda krafist endurupptöku málsins hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. 16. ágúst 2004 með vísan til nýrra einkenna og vandamála stefnanda sem rekja mætti til hnykkáverkans í téðu slysi.  Hafi þar verið rakin sjúkrasaga stefnanda, m.a. um aðgerðina 4. nóvember 2003, og þess krafist að afleiðingar slyssins yrðu metnar að nýju.  Þá breyti gagnaöflun á árinu 2005, engu um upphaf fyrningarfrestsins. 

                Megi því ráða að í öllu falli sé óumdeilanlegt, að stefnandi hafi áfram verið vel vitandi um  kröfu sína og getað hafist handa um heimtu hennar eigi síðar en um mitt ár 2004, svo sem hann hafi gert.  Samkvæmt þessu hafi 4 ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga byrjað að líða í síðasta lagi í árslok 2004 og verið úti í árslok 2008. 

                Allt framangreint leiði til þess að krafa hafi verið fallin niður fyrir fyrningu við málshöfðun stefnanda 7. desember 2009.

                Niðurstaða

                Í máli þessu greinir aðila á um hvort bótakrafa stefnanda á hendur stefndu vegna umferðarslyss, sem átti sér stað 8. desember 1999, sé fallin niður fyrir fyrningu.  Um fyrningu kröfu stefnanda gildir sérákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Þar segir að allar bótakröfur skv. XIII. kafla umferðarlaga fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.  Slíkar kröfur fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.  Líta verður svo á að fjögurra ára fyrningarfresturinn hefjist frá lokum þess almanaksárs þegar nægar upplýsingar liggja fyrir um heilsufar tjónþola er gera honum fyrst kleift að leita fullnustu kröfu sinnar.  Um þá túlkun má meðal annars vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 604/2012. 

                Í málinu liggja fyrir ýmis gögn er sýna að stefnandi hafi allt frá því á fyrri hluta ársins 2000 leitað til lækna í því skyni að varpa ljósi á afleiðingar umferðarslyssins 8. desember 1999.  Þannig greinir í vottorði D bæklunarskurðlæknis, frá 23. október 2000, að stefnandi hafi komið til skoðunar og eftirlits, samkvæmt tilvísun G, læknis á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, þann 1. febrúar 2000.  Vottorð lækna og önnur gögn málsins styðja sömuleiðis að stefnandi hafði leitað aðstoðar lögmanns vegna téðra umleitana sinna í október 2000. 

                Í nefndu vottorði D bæklunarskurðlæknis, 23. október 2000, greinir frá því að einkenni stefnanda og saga hans, m.a. um umferðaróhappið, bendi til endurtekinnar tognunar á bæði hálshryggjar- og lendahryggjarsvæði.  Hafði læknirinn þá skoðað stefnanda, meðal annars framkvæmt röntgenrannsókn, í því skyni að varpa ljósi á afleiðingar tjónsatburðarins 8. desember 1999. 

                Samkvæmt matsgerð þriggja dómkvaddra matsmanna, H taugalæknis, I bæklunarskurðlæknis og J prófessors, frá 20. mars 2001, sem aflað var af stefnanda, var heilsufar hans orðið stöðugt sex mánuðum eftir slysið 8. desember 1999.  Stefnandi leitaði hins vegar ekki jafnframt sérstaklega mats á því hvenær tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins.  Þá aflaði stefnandi hvorki yfirmats né eftirmats á umræddri matsgerð og hefur sönnunargildi hennar um ástand stefnanda á umræddu tímabili því ekki verið hnekkt.  Getur almennur fyrirvari stefnanda við niðurstöðu matsgerðarinnar í bótauppgjöri 2. maí 2001 engu breytt þar um.  Eins og atvikum er hér háttað eru ekki efni til annars en að líta svo á að stefnanda hafi átt að vera kunnugt um kröfu sína á því ári og getað hafist handa við að leita fullnustu hennar með málshöfðun í kjölfarið.  Yrði samkvæmt þessu að miða við að fyrningartími kröfu stefnanda í skilningi 99. gr. umferðarlaga hafi byrjað að líða í árs­byrjun 2002. 

                Á árinu 2003 leitaði stefnandi aðstoðar lækna að nýju vegna verkja frá [...].  Úr varð að stefnandi undirgekkst aðgerð 4. nóvember 2003 þar sem [...] voru fjar­lægð.  Þá liggur fyrir vottorð D bæklunarskurðlæknis, 13. maí 2004, þar sem fram kemur að hann telji að allar líkur bendi til þess að [...] hafi byrjað við umrætt óhapp.  Í síðasta lagi þá verður litið svo á að nægar upplýsingar hafi legið fyrir um afleiðingar slyssins á heilsufar stefnanda er gerðu honum fyrst kleift að leita fullnustu kröfu sinnar á hendur stefnda.  Engu breytir í því efni þó að stefnanda hafi reynst torvelt að færa sönnur á frekara tjón sitt í kjölfar þess.  Er þá til þess að líta að þetta atriði er aðeins einn þáttur af fleirum sem þýðingu geta haft við sönnun á því hvort einkenni tjón­þola megi rekja til tjónsatburðarins 8. desember 1999. 

                Samandregið er það mat dómsins að þau sönnunarvandkvæði sem stefnandi lýsir í stefnu hindruðu hann ekki í því að leita fullnustu kröfu sinnar um skaðabætur með málshöfðun á hendur stefnda í síðasta lagi í ársbyrjun 2005. 

                Þá verður sú upplýsingaöflun sem stefndi Vátryggingarfélag Íslands hf. stóð að, í kjölfar kröfu lögmanns stefnanda um endurupptöku málsins í bréfi 16. ágúst 2004, ekki talin fela í sér viðurkenningu sem hafi rofið fyrningu kröfunnar lögum samkvæmt.  Vísast um það til dóms Hæstaréttar í máli nr. 77/2008. 

                Af öllu framangreindu leiðir, jafnvel þótt fallist yrði á síðarnefndan upphafstíma fyrningarfrests, þannig að miðað yrði við að fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hafi byrjað að líða um áramótin 2004-2005, að krafa stefnanda var fallin úr gildi fyrir fyrningu áður en kom til málshöfðunar til heimtu hennar, upphaflega 7. desember 2009.  Þetta á við um alla þætti kröfunnar, líka þann sem hann vill byggja á 26. gr. skaðabótalaga.  Ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. 

                Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutnings­þóknun lögmanns hans, sem er ákveðin 1.500.000 krónur að teknu tilliti til virðisauka­skatts. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

Dómsorð

                Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf., B og dánarbú C, eru sýkn af kröfum stefnanda, A. 

                Málskostnaður fellur niður. 

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.500.000 krónur.