Print

Mál nr. 115/2017

Íslenska ríkið (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)
gegn
Stapa lífeyrissjóði (Bjarni G. Björgvinsson lögmaður)
og gagnsök
Lykilorð
  • Nauðungarsala
  • Veðréttindi
  • Þinglýsing
  • Tilkynning
  • Skaðabætur
Reifun

Lífeyrissjóðurinn S höfðaði mál á hendur Í og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem sjóðurinn taldi sig hafa orðið fyrir við að hafa ekki verið tilkynnt um framhald uppboðs á íbúð sem hann átti veðrétt í á grundvelli skuldabréfs. Skuldabréfið hafði upphaflega verið í eigu annars aðila sem tilgreindur var sem eigandi á þinglýsingarvottorði íbúðarinnar. Óumdeilt var að sýslumaður hafði hvorki tilkynnt S um framhald uppboðsins né hafði sjóðnum verið að öðrum sökum kunnugt um það eða nauðungarsöluna. Í héraði var fallist á að S ætti rétt á skaðabótum úr hendi Í en hann látinn bera helming tjóns síns sjálfur. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur ákvæði laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu um skyldu sýslumanns til að tilkynna gerðarþola og öðrum um fyrirtöku á beiðni um nauðungarsölu og meðferð hennar. Taldi rétturinn að af þeim ákvæðum yrði ráðið að veðhafar yrðu í meginatriðum að gæta sjálfir að því á grundvelli auglýsinga hvort nauðungarsala stæði yfir á eign sem þeir ættu veðréttindi í. Þá yrði skylda sýslumanns til að tilkynna veðhöfum um framhald uppboðs að byggja á skjölum sem þinglýst hefði verið á viðkomandi eign og eftir atvikum öðrum opinberum skráningum. Taldi rétturinn að sýslumaður hefði ekki getað náð til eiganda veðréttinda samkvæmt umræddu skuldabréfi með því að líta til efnis þess eða annarra opinberra skráninga. Yrði honum því ekki metið til gáleysis að hafa ekki aðhafst frekar en raun varð á við leit að eigendum veðréttinda í eigninni. Var Í því sýknað af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari og Kristbjörg Stephensen landsréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. febrúar 2017. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 3. maí 2017. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 5.626.863 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins gaf nafngreind kona út skuldabréf 22. október 1999 til Byggingarfélags eldri borgara á Suðurnesjum að fjárhæð 2.589.764 krónur, sem bundin var vísitölu neysluverðs og greiða átti með jöfnum mánaðarlegum afborgunum á 40 árum ásamt 5% ársvöxtum. Til tryggingar skuldinni var sett að veði tiltekin íbúð að Hjallavegi 5 í Reykjanesbæ á eftir þremur verðtryggðum veðskuldum að upphaflegri fjárhæð samtals 1.772.000 krónur við Byggingarsjóð ríkisins, en þau skuldabréf tilheyra nú Íbúðalánasjóði. Að baki fyrstnefnda skuldabréfinu var íbúðin síðan sett Íbúðalánasjóði að veði til tryggingar verðtryggðu skuldabréfi útgefnu 6. febrúar 2003 að upphaflegri fjárhæð 1.616.169 krónur. Á íbúðina var þinglýst 21. mars 2003 yfirlýsing frá 27. febrúar sama ár um að önnur nafngreind kona hafi tekið yfir skuld samkvæmt skuldabréfinu, sem gefið var út 22. október 1999. Í yfirlýsingunni kom meðal annars fram að „núverandi eigandi“ skuldabréfsins væri Lífeyrissjóður Austurlands, sem samþykkti þessa skuldskeytingu. Fyrir liggur að sá lífeyrissjóður hafi 28. júní 2007 sameinast Lífeyrissjóði Norðurlands undir heiti gagnáfrýjanda og er skuldabréfið enn í eigu hans, en hann kveður það hafa verið í skilum þegar þau atvik gerðust í febrúar 2014, sem hér á eftir greinir, og mun það þá hafa verið til innheimtu í banka.

Fram kemur í gögnum málsins að vanskil hafi orðið frá 1. ágúst 2012 á öllum áðurnefndum skuldabréfum í eigu Íbúðalánasjóðs og virðist hann hafa krafist nauðungarsölu á íbúðinni að Hjallavegi 5 til fullnustu kröfum sínum. Ekki liggur fyrir í málinu hvenær nauðungarsölunnar var krafist eða hún tekin fyrir fram að því að íbúðin var seld við framhald uppboðs 25. febrúar 2014, þar sem Íbúðalánasjóður varð hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 3.000.000 krónur. Við framhald uppboðsins lýsti Íbúðalánasjóður kröfum að fjárhæð samtals 7.857.418 krónur í söluverð íbúðarinnar á grundvelli skuldabréfa sinna, þar af alls 4.694.769 krónur vegna skuldabréfa á 1., 2. og 3. veðrétti og 3.162.649 krónur vegna skuldabréfs á 5. veðrétti. Að auki var lýst þar þremur lögveðkröfum vegna fasteignagjalda, vatnsgjalds og brunatryggingariðgjalda alls að fjárhæð 182.407 krónur. Gagnáfrýjandi lýsti á hinn bóginn engri kröfu á grundvelli skuldabréfsins frá 22. október 1999, sem taldist hvíla á 4. veðrétti í íbúðinni. Óumdeilt er að hvorki hafi sýslumaður tilkynnt gagnáfrýjanda um framhald uppboðsins samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu né hafi honum af öðrum sökum verið kunnugt um það eða nauðungarsöluna. Sýslumaður gerði 18. mars 2014 frumvarp til úthlutunar á söluverði íbúðarinnar. Samkvæmt því átti að verja 30.000 krónum af söluverðinu til greiðslu sölugjalds í ríkissjóð og 182.407 krónum til greiðslu fyrrnefndra lögveðkrafa, en eftirstöðvarnar, 2.787.893 krónur, áttu að ganga upp í kröfur Íbúðalánasjóðs vegna skuldabréfa á 1. og 2. veðrétti. Önnur veðbönd skyldu afmáð af íbúðinni, þar á meðal veðskuldabréfið í eigu gagnáfrýjanda. Ekki liggur annað fyrir en að nauðungarsölunni hafi lokið á þessum grunni og afsal verið gefið út til Íbúðalánasjóðs fyrir íbúðinni.

Gagnáfrýjandi kveðst fyrst hafa fengið vitneskju um nauðungarsöluna eftir að liðnir hafi verið allir frestir til að gæta þar réttinda sinna vegna skuldabréfsins frá 22. október 1999. Í matsgerð dómkvadds manns 19. nóvember 2015, sem gagnáfrýjandi aflaði, var komist að þeirri niðurstöðu að markaðsverð íbúðarinnar að Hjallavegi 5 hafi numið 11.000.000 krónum þegar hún var seld við framhald uppboðs 25. febrúar 2014. Á þeim grunni telur gagnáfrýjandi sýnt að markaðsverð íbúðarinnar hefði nægt til að greiða sölugjald vegna nauðungarsölu, lögveðkröfur og kröfur Íbúðalánasjóðs vegna skuldabréfa, sem hvíldu á 1., 2. og 3. veðrétti, samtals 4.907.176 krónur. Markaðsverðið hefði að auki nægt fyrir kröfu samkvæmt skuldabréfinu frá 22. október 1999, en hún hafi numið 5.626.863 krónum að meðtöldum vöxtum og kostnaði þegar gagnáfrýjandi fékk gert árangurslaust fjárnám fyrir henni 18. mars 2015 hjá fyrrnefndri konu, sem tók að sér skuldina með yfirlýsingunni um skuldskeytingu frá 27. febrúar 2003. Telur gagnáfrýjandi sýslumann hafa valdið sér tjóni sem þessu nemur með því að hafa vanrækt að tilkynna sér um framhald uppboðs á íbúðinni, enda hefði gagnáfrýjandi annars getað mætt þar og boðið nægilega háa fjárhæð til að eignast íbúðina á verði innan marka veðréttar síns eða tryggt að öðrum kosti að söluverð hennar hrykki fyrir kröfu sinni. Í málinu leitar gagnáfrýjandi skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda á þessum grunni.

II

Þegar leyst er úr hvort gagnáfrýjandi eigi rétt til skaðabóta af framangreindum ástæðum verður að gæta að því að samkvæmt 16. gr. laga nr. 90/1991 ber sýslumanni, eftir að staðreynt hefur verið að beiðni um nauðungarsölu á fasteign fullnægi skilyrðum 13. gr. laganna, að tilkynna gerðarþola og gerðarbeiðanda hvenær beiðnin verði tekin fyrir, svo og að fá birta í Lögbirtingablaði auglýsingu um nauðungarsöluna samkvæmt 19. og 20. gr. sömu laga. Sé ákveðið við þá fyrirtöku að eignin verði seld á uppboði skal sýslumaður tilkynna gerðarþola, hafi hann ekki verið staddur við fyrirtökuna, hvenær uppboðið byrji og jafnframt fá birta um það auglýsingu í dagblaði, á vef sýslumanna eða á annan samsvarandi hátt, sbr. 26. gr. laga nr. 90/1991. Sé síðan ákveðið við byrjun uppboðs að framhald verði á því ber sýslumanni enn að tilkynna gerðarþola hvenær það verði gert, hafi hann ekki verið viðstaddur byrjun uppboðsins, ásamt því að fá birta um það auglýsingu á framangreindan hátt, sbr. 35. gr. sömu laga. Að auki er mælt svo fyrir í 3. mgr. þeirrar lagagreinar að sýslumaður skuli með ábyrgðarbréfi, símskeyti eða öðrum samsvarandi hætti tilkynna öllum öðrum aðilum að nauðungarsölunni, sem náð verði til, um framhald uppboðs, en til þeirra teljast meðal annarra þeir, sem njóta þinglýstra réttinda yfir eigninni, sbr. 3. tölulið 2. gr. laganna. Af þessu er ljóst að skyldur sýslumanns til tilkynninga við nauðungarsölu beinast einkum að gerðarþola og í byrjun einnig að gerðarbeiðanda, en gagnvart öðrum aðilum að henni, þar með töldum veðhöfum í viðkomandi eign, kemur til engrar slíkrar skyldu fyrr en á lokastigum nauðungarsölu við framhald uppboðs og sætir sú skylda jafnframt takmörkunum. Af þessu verður þannig ályktað að í lögum nr. 90/1991 sé byggt á því að veðhafar verði í meginatriðum að gæta sjálfir að því hvort nauðungarsala standi yfir á eign, sem þeir eiga veðréttindi í, á grundvelli auglýsinga samkvæmt 19. gr., 20. gr., 2. mgr. 26. gr. og 5. mgr. 35. gr. laganna.

Skylda sýslumanns til að tilkynna veðhöfum um framhald uppboðs samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991 er eins og áður greinir bundin við þá, sem náð verður til, svo sem komist er að orði í ákvæðinu. Þegar sýslumaður sinnir þessari skyldu verður leit hans að veðhöfum, sem ekki hafa þegar gefið sig fram við nauðungarsölu, eðli máls samkvæmt að byggja á skjölum, sem þinglýst hefur verið á viðkomandi eign, og síðan eftir atvikum annars konar opinberum skráningum. Til þess verður og að líta að vegna 1. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tekur rannsóknarreglan í 10. gr. þeirra laga ekki til starfa sýslumanns við framkvæmd nauðungarsölu. Í framlögðu þinglýsingarvottorði fyrir íbúðina að Hjallavegi 5 frá 24. febrúar 2014 var greint frá nafni þinglýsts eiganda hennar með tilvísun til tiltekins afsals, fimm veðskuldabréfum, sem hvíldu á eigninni, með tilgreiningu á veðhafa, fjárhæð þeirra, útgáfudegi, þinglýsingardegi og þinglýsingarnúmeri skjalanna, eignaskiptayfirlýsingu frá tilteknum degi ásamt þinglýsingarnúmeri þess skjals og tveimur kvöðum á íbúðinni. Loks var getið undir fyrirsögninni: „Önnur þinglýst skjöl“ yfirlýsingarinnar um skuldskeytingu frá 27. febrúar 2003, yfirlýsingar um ótilgreint efni frá 2007 og húsaleigusamnings frá 2010. Veðskuldabréfið í eigu gagnáfrýjanda, sem málið varðar, var sem fyrr segir gefið út 22. október 1999 til Byggingarfélags eldri borgara á Suðurnesjum og var það félag tilgreint sem veðhafi í þinglýsingarvottorðinu. Samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra var félagið afskráð 1. desember 2004 og gat því sýslumaður ekki náð í skilningi 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991 til eiganda veðréttinda samkvæmt hljóðan skuldabréfsins með því að líta til efnis þess eða annarra opinberra skráninga. Þinglýsingarvottorðið bar ekki með sér að yfirlýsingin um skuldskeytingu sneri að þessari tilteknu veðskuld. Að auki var ekkert sýnilegt tilefni til að sýslumaður kannaði þetta skjal við leit að þeim, sem kynni að hafa eignast skuldabréfið með framsali frá Byggingarfélagi eldri borgara á Suðurnesjum, enda sneri skjalið eftir yfirskrift þess og tilgreiningu á þinglýsingarvottorði að skuldaraskiptum en ekki kröfuhafaskiptum og stafaði það jafnframt frá tíma þegar félagið var enn skráð. Sýslumanni verður af þessum sökum ekki metið til gáleysis að hafa ekkert aðhafst frekar en raun varð á við leit að eigendum veðréttinda í íbúðinni að Hjallavegi 5 til að koma fram tilkynningum um framhald uppboðs samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991. Samkvæmt þessu verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Stapa lífeyrissjóðs.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2016.

I

         Mál þetta, sem var dómtekið 3. nóvember sl., er höfðað 10. febrúar 2016 af Stapa lífeyrissjóði, Strandgötu 3 á Akureyri, gegn íslenska ríkinu.

         Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 5.626.863 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. maí 2015 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna mistaka sýslumannsins í Keflavík við uppboð á fasteigninni Hjallavegi 5, Njarðvík, eign skv. fasteignamati nr. 209-3444, en lokasala eignarinnar fór fram 25. febrúar 2014. Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts af málskostnaði.

         Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar að mati dómsins. Jafnframt er þess krafist að varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara er krafist verulegrar lækkunar kröfufjárhæðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

II

         Málavextir eru þeir að sýslumaðurinn í Keflavík mun hafa auglýst nauðungarsölu á íbúð nr. 209-3444 að Hjallavegi 5 í Reykjanesbæ í Lögbirtingablaði í september 2013. Uppboð eignarinnar mun síðar hafa verið auglýst á vefnum nauðungarsolur.is. Framhald nauðungarsölu fasteignarinnar var auglýst í Víkurfréttum 20. febrúar 2014 sem og í Morgunblaðinu. Fasteignin var seld nauðungarsölu hjá sýslumannsembættinu 25. febrúar 2014. Hæstbjóðandi var Íbúðalánasjóður með boð upp á þrjár milljónir króna.

         Á íbúðinni hvíldi veðskuldabréf, dags. 22. október 1999, að höfuðstólsfjárhæð 2.587.764 krónur, sem fyrrum eigandi fasteignarinnar hafði gefið út til Byggingarfélags eldri borgara á Suðurnesjum. Stefnandi var eigandi þessa skuldabréfs þegar fasteignin var seld nauðungarsölu. Þá er ágreiningslaust að stefnandi fékk ekki tilkynningu um framhald uppboðs, sbr. 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Kveðst stefnandi ekki hafa heyrt af sölu eignarinnar fyrr en samþykkisfresti var lokið, en þá hafi verið orðið of seint að aðhafast nokkuð sem hefði getað takmarkað tjón stefnanda. Hann hafi þó reynt að innheimta kröfuna hjá greiðanda skuldabréfsins, en þeirri tilraun hafi lokið með árangurslausu fjárnámi 18. mars 2015.

         Með bréfi 24. mars 2015 var stefndi krafinn um skaðabætur af þessu tilefni. Með bréfi 9. júní 2015 hafnaði stefndi bótaskyldu í málinu. Í kjölfarið fékk stefnandi dómkvaddan matsmann, Guðlaug H. Guðlaugsson, löggiltan fasteignasala, til þess að meta verðmæti fasteignarinnar 25. febrúar 2014. Samkvæmt matsgerð hins dómkvadda matsmanns nam verðmæti eignarinnar þann dag 11 milljónum króna.

III

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi byggir kröfur sínar á því að sýslumanninum á Suðurnesjum, áður sýslumanninum í Keflavík, hafi borið að láta sig vita af framhaldssölu á umræddri fasteign að Hjallavegi 5, þar sem stefnandi sé eigandi veðskuldabréfs sem hvílt hafi á 3. veðrétti eignarinnar. Stefnandi hafi aldrei fengið vitneskju um framhaldssöluna eins og hann hafi átt tilkall til samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Þess vegna hafi ekki verið mætt af hálfu stefnanda við framhaldssölu eignarinnar til að lýsa kröfum og halda uppi rétti stefnanda.

         Stefnandi bendir á að samkvæmt þinglýsingarvottorði, dags. 24. febrúar 2014, hafi Byggingarfélag eldri borgara á Suðurnesjum verið skráður eigandi veðskuldabréfs á 3. veðrétti. Á veðbókarvottorðinu sé þó að finna skuldskeytingu, dags. 27. febrúar 2003, þar sem fram kemur að núverandi skuldari yfirtaki lán samkvæmt umræddu veðskuldabréfi. Í þessu skjali komi fram að Lífeyrissjóður Austurlands sé eigandi veðskuldabréfsins. Þinglýsingarvottorðið hafi sýslumaður haft undir höndum við söluna. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi sýnt af sér gáleysi með því að hafa ekki kannað nægilega þinglýst skjöl á eigninni sem hafi legið nauðungarsölunni til grundvallar. Hafi það leitt til tjóns fyrir stefnanda sem ekki hafi getað varið hagsmuni sína við söluna og beri stefndi skaðabótaábyrgð á því. Um þá ábyrgð vísar stefnandi til 87. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölur, og almennra meginreglna skaðabótaréttar um bótaskyldu vegna gáleysis. Einnig sé bótaskylda stefnda byggð á reglum skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.

         Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndi hafi ekki sýnt fram á að það hafi reynst honum ómögulegt að finna út að stefnandi væri eigandi veðskuldabréfsins á 3. veðrétti eignarinnar, miðað við þau gögn sem stefndi hafi haft undir höndum. Telur stefnandi að stefnda hafi borið að kanna skuldskeytinguna frekar svo tryggja mætti lögmæta framkvæmd lokasölunnar. Með einfaldri leit á internetinu hefði stefnandi getað séð að stefnandi væri raunverulegur eigandi bréfsins. Bendir stefnandi á að þegar Lífeyrissjóði Austurlands sé slegið upp í leitarvafranum „Google“ komi fram í efsta flipa að sjóðurinn heiti nú Stapi lífeyrissjóður eftir samrunasamning við Lífeyrissjóð Norðurlands 15. nóvember 2006. Fleiri og ítarlegri upplýsingar um það atriði sé einnig „þarna og víðar að finna án mikillar fyrirhafnar“, eins og segir í stefnu.

         Stefnandi telur að framkomnar skýringar sýslumannsins fái ekki staðist. Í því sambandi áréttar stefnandi það sem rakið hefur verið. Telur hann að sérhæft starfsfólk stefnda hafi átt að geta aflað upplýsinga um Lífeyrissjóð Austurlands og finna út að hann hefði verið sameinaður stefnanda. Þá kveður hann líklegt að framkomnar skýringar sýslumannsins séu eftiráskýringar. Bendir hann m.a. á að í tölvuskeyti frá starfsmanni embættisins hafi komið fram að ranglega hafi verið ályktað að kröfuhafinn á bréfinu væri Íbúðalánasjóður og því hafi ekki verið hirt um að koma tilkynningu til rétts kröfuhafa. Þetta hafi verið fyrstu skýringar sem fengist hafi á málinu frá sýslumanni. Gefi þetta til kynna að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér verulegt gáleysi og ekki viðhaft þau vinnubrögð sem almennt sé gerð krafa um við sambærilegar aðstæður við framkvæmd og meðferð nauðungarsölu.

         Stefnandi telur stefnda ekki geta borið því við að hann hafi fullnægt skyldu sinni með því að auglýsa framhald uppboðs í staðarblaði eða öðrum miðlum, enda hafi stefndi haft möguleika á því að kynna sér til hlítar hverjir væru eigendur þeirra veðskulda sem hvílt hafi á eigninni. Telur hann stefnda hafa sýnt af sér gáleysi með því að fara ekki að settum lögum við nauðungarsöluna og að það hafi valdið stefnanda tjóni.

         Stefnandi kveðst einnig byggja kröfur sínar á því að rannsóknarreglan, sem sé meginregla í stjórnsýslurétti, hafi verið brotin. Hafi stefndi ekki séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en lokasala fasteignarinnar fór fram. Nauðsynlegt hafi verið að kanna hver væri kröfuhafi veðskuldabréfsins, sér í lagi ef stefndi hafi orðið þess áskynja fyrir uppboðið, eins og stefndi haldi fram, að ætlaður kröfuhafi væri afmáður og hans nyti ekki við. Augljóst hafi verið að einhver annar hlyti að eiga kröfuna. Bendir stefnandi í því sambandi á að veðskuldabréfið beri með sér að vera gefið út árið 1999 til 40 ára, með 480 gjalddögum á 1 mánaðar fresti. Samkvæmt efni sínu hafi skuldabréfið því átt að hvíla á eigninni til ársins 2039.

         Stefnandi bendir á að þegar nauðungarsalan hafi farið fram hafi krafa stefnanda á hendur greiðanda veðskuldabréfsins verið í skilum og hafi verið það fram að því. Ekkert tilefni hafi því verið fyrir stefnanda að vera á varðbergi gagnvart vanskilum greiðanda og því síður gagnvart yfirvofandi nauðungarsölu.

         Stefnandi kveðst hafa gripið til þeirra aðgerða sem af sanngirni megi ætlast til af honum til að takmarka tjón sitt. Hafi stefnandi meðal annars reynt árangurslaust að innheimta kröfuna hjá greiðanda hennar. Stefnandi hafi ekki haft tök á því að takmarka tjón sitt og verði því að sækja fullar bætur til stefnda.

         Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína enn fremur á fyrirliggjandi matsgerð Guðlaugs H. Guðlaugssonar, löggilts fasteignasala. Samkvæmt henni hafi verðmæti íbúðarinnar á uppboðsdegi numið 11 milljónum króna. Íbúðin hafi verið seld fyrir þrjár milljónir króna. Kröfulýsingar með rétthæð framar kröfu stefnanda hafi samtals numið 4.907.176 krónum. Þá nemi sölukostnaður í ríkissjóð vegna uppboðsins 30.000 krónum. Krafa stefnanda nemi samkvæmt árangurslausu fjárnámi 5.626.863 krónum, sem sé það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir. Samanlagt geri það 10.564.039 krónur, þannig að öll krafa stefnanda rúmast vel innan verðmætis fasteignarinnar. Með matsgerðinni telur stefnandi sig hafa sannað tjón sitt, en leggja verði til grundvallar að stefnanda hefði verið kleift að verja kröfu sína við nauðungarsöluna og, eftir atvikum, selja eignina gegn matsvirði á frjálsum markaði, hefði komið til þess að stefnandi hefði keypt eignina við nauðungarsöluna. Hefði stefnandi því átt að fá kröfu sína greidda að fullu.

         Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta í heild eða að hluta er til vara gerð krafa um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda. Kveðst stefnandi hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um slíka bótaskyldu til að eiga þess kost að sækja tjón sitt á hendur stefnda, enda verði þá ekki ágreiningur um annað en endanlega fjárhæð bóta. Heimild til að afla viðurkenningardóms sé að finna í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Með því að afstaða verði tekin til viðurkenningarkröfunnar, verði kveðið upp úr með það hvort umþrætt háttsemi stefnda við nauðungarsölu Hjallavegar 5 leiði til bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda.

         Til stuðnings skaðabótakröfu vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og almennra meginreglna skaðabótaréttar þar á meðal sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð. Þá vísar stefnandi til meginreglna stjórnsýsluréttarins um vandaða stjórnsýsluhætti og meginreglna um meðferð opinbers valds. Um varnarþing vísar stefnandi til 3. mgr. 33 gr. laga nr. 91/1991. Einnig vísar stefnandi til þeirra laga varðandi málsmeðferð, aðild o.fl. Um varakröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá byggir stefnandi á 35. gr. og 87. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölur, einkum 3. mgr. 35. gr. laganna. Kröfu sína um vexti styður stefnandi við reglur laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, þ.m.t. við 1. mgr. 6. gr. þeirra laga, og skaðabótalög nr. 50/1993. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við ákvæði XXI. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, einkum við 129. og 130. gr. laganna. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun kveður stefnandi styðjast við lög nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

         Kröfu stefnanda um skaðabætur í heild eða að hluta er mótmælt af hálfu stefnda. Telur hann engar sannanir liggja fyrir um að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti.

         Stefndi kveður sýknukröfu sína aðallega vera reista á því að öll skilyrð laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, hafi verið uppfyllt þegar íbúðin að Hjallavegi 5 hafi verið seld framhaldssölu 25. febrúar 2014. Vísar stefndi til þess að samkvæmt 3. mgr. 35. gr. þeirra laga skuli sýslumaður, þegar ákvörðun um framhald uppboðs hefur verið tekin og svo fljótt sem verða má, tilkynna öllum aðilum nauðungarsölunnar, sem náð verður til, um hana. Skuli senda slíka tilkynningu í ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða með öðrum sambærilegum hætti.

         Stefndi viðurkennir að slík tilkynning hafi ekki verið send stefnanda enda hafi stefnda ekki verið kunnugt um aðild hans að viðkomandi nauðungarsölu. Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki verið þinglýstur veðhafi samkvæmt þinglýsingarvottorði og kröfulýsing hafi ekki borist frá honum. Því hafi stefnda verið ókunnugt um að stefnandi ætti hagsmuni við þessa nauðungarsölu eða væri aðili að henni. Því hafi ekki verið unnt að senda honum tilkynningu.

         Af hálfu stefnda er á það bent að umrætt skuldabréf beri með sér að veðhafi sé Byggingarfélag eldri borgara á Suðurnesjum. Þinglýsingarvottorðið staðfesti hið sama. Meginregla íslensks réttar sé að kröfuhafaskipti geti átt sér stað án samþykkis skuldara og ekki sé skylt að lögum að þinglýsa yfirlýsingu um kröfuhafaskipti. Þegar um sé að ræða kröfu sem tryggð sé með veði í fasteign samkvæmt þinglýsingalögum nr. 39/1978 sé þó eðlilegt að gera þá kröfu til veðhafa að hann fái þinglýst yfirlýsingu um hver sé nýr eigandi kröfunnar, m.a. til að skuldari fái upplýsingar um kröfuhafaskiptin, sem og sýslumaður vegna hugsanlegrar nauðungarsölumeðferðar fasteignarinnar. Það sé megintilgangur þinglýsingalaga að greiðar og öruggar upplýsingar megi fá um réttindi yfir fasteignum. Tilkynni nýr kröfuhafi ekki um kröfuhafaskipti verði hann sjálfur að bera áhættu af því tjóni sem hugsanlega hljótist af því, enda hafi hann þá ekki tryggt réttindi sín með fullnægjandi hætti. Stefndi bendir einnig á að hvorki sé áritun á bréfið sjálft um framsal né almenn yfirlýsing um kröfuhafaskipti á sambærilegum bréfum, eins og hafi háttað til í nokkrum málum sem komið hafi til kasta dómstóla á undanförnum árum.

         Í tilefni af röksemdum stefnanda er lúta að því að þinglýst skuldskeyting hafi átt að koma sýslumanni á sporið tekur stefndi fram að hún beri ekki með sér með hvaða hætti eða hvenær Lífeyrissjóður Austurlands hafi orðið eigandi skuldabréfsins. Ekki verði séð að viðkomandi skuldabréf hafi fylgt þessari skuldskeytingu eða að frumrit bréfsins hafi verið áritað um þá skuldskeytingu. Stefndi bendir í þessu sambandi á 11. gr. þinglýsingalaga þar sem kveðið er á um að ef í einu og sama skjali er stofnað til fleiri réttinda en þeirra sem skjalinu er aðallega ætlað að veita skuli athygli þinglýsingarstjóra sérstaklega vakin á því til hvaða réttinda þinglýsingin eigi að taka, t.d. með áritun á skjalið sjálft eða með undirstrikunum í texta skjalsins. Tekur stefndi fram að skuldskeytingin lúti einungis að því að nýr skuldari komi í stað upphaflegs skuldara, en ekki að nýjum kröfuhafa.

         Stefndi vísar til þess að framangreindri skuldskeytingu hafi verið þinglýst í apríl 2003, en að nauðungarsalan hafi farið fram árið 2014. Þá hafi Lífeyrissjóður Austurlands ekki verið til enda hafi hann liðið undir lok árið 2007. Ekkert hafi legið fyrir um með hvaða hætti eignum lífeyrissjóðsins hafi verið skipt eða hverjir hafi þá verið nýir kröfuhafar. Þannig hafi stefnda verið ómögulegt að komast að því með athugun á fyrirliggjandi gögnum hverjum ætti að senda tilkynningu samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991.

         Stefndi telur að ekki hvíli sú skylda á sýslumanni að skoða alla leitarvefi sem til staðar séu og reyna þannig að finna út hver sé kröfuhafi. Hins vegar sé það vinnuregla hjá viðkomandi embætti í slíkum tilvikum að fletta upp í opinberum skrám, þ.e. fyrirtækjaskrá, þegar leita þurfi að veðhöfum. Stefndi mótmælir því að útskýringar sýslumanns séu eftiráskýringar og að starfsmenn embættisins hafi ekki sinnt starfi sínu og hirt um að tilkynna veðhafa um nauðungarsöluna. Hið rétta sé að ekki hafi verið unnt að senda stefnanda tilkynningu um uppboðið vegna þess að skráður kröfuhafi hafi ekki verið til, auk þess sem ekki hafi verið tilkynnt um kröfuhafaskiptin og þeim þinglýst á fasteignina. 

         Stefndi kveður tilvísanir stefnanda til meginreglna stjórnsýsluréttar hafa takmarkað gildi enda segi í 1. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að lögin gildi ekki um nauðungarsölu. Einnig verði að hafa í huga við skoðun þessa máls að stefnandi sé stór lífeyrissjóður á fjármálamarkaði og beri að fylgjast vel með og gæta hagsmuna sinna m.a. með athugun á nauðungarsölum. Nauðungaruppboðið hafi verið auglýst með lögboðnum hætti. Því hafi stefnandi getað hvenær sem var látið vita af réttindum til viðkomandi eignar og tryggt aðkomu sína og hagsmuni.

         Stefndi telur að vísa beri varakröfu stefnanda frá dómi enda eigi sú krafa, byggð á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, ekki við í þessu máli. Þegar fyrir liggi dómkrafa um greiðslu á tjóni sé óvíst hvaða lögvörðu hagsmuni stefnandi geti haft af sérstakri umfjöllum um viðurkenningarkröfu, enda þurfi að taka afstöðu til bótaskyldu við mat á aðalkröfu stefnanda. Því beri að vísa þessari kröfu frá enda fullnægi hún ekki skilyrðum d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þessu til stuðnings vísar stefndi m.a. til Hæstaréttardóms í málinu nr. 146/2005.

         Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísar hann í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. þeirra laga. Þá kveðst stefndi mótmæla kröfugerð og málsástæðum stefnanda í heild sinni, þar á meðal kröfu um dráttarvexti og málskostnað.

IV

         Stefnandi var eigandi skuldabréfs sem hvíldi á 3. veðrétti fasteignar með fasteignanúmerið 209-3444 að Hjallavegi 5 í Reykjanesbæ, þegar fasteignin var seld nauðungarsölu á uppboði 25. febrúar 2014. Ágreiningslaust er að stefnanda var ekki send tilkynning um framhald uppboðs fasteignarinnar og kveðst hann ekkert hafa vitað af nauðungarsölu hennar fyrr en hún var um garð gengin. Með því kveðst stefnandi hafa orðið fyrir tjóni sem rekja megi til vanrækslu starfsmanns stefnda við að senda honum tilkynningu samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.

         Fyrsti málsliður 3. mgr. 35. gr. laganna er svohljóðandi: „Þegar ákvörðun hefur verið tekin um framhald uppboðs skal sýslumaður svo fljótt sem verða má tilkynna öllum aðilum að nauðungarsölunni sem verður náð til um hana, sbr. þó 2. mgr.“

         Stefnandi átti sjálfkrafa aðild að nauðungarsölu fasteignarinnar sem veðhafi samkvæmt skuldabréfinu sem hvíldi á henni, sbr. 3. tölulið 2. gr. laga nr. 90/1991. Hið þinglýsta skuldabréf bar hins vegar ekki með sér að stefnandi ætti þau réttindi yfir fasteigninni sem hann átti, heldur upphaflegur kröfuhafi, Byggingarfélag eldri borgara á Suðurnesjum. Við athugun í opinberum skrám mátti ráða að þetta félag var ekki lengur starfandi. Engum skjölum hafði þó verið þinglýst um kröfuhafaskipti á skuldabréfinu. Þess ber þó að geta að engin skylda hvílir á nýjum kröfuhafa að láta þinglýsa skjölum um kröfuhafaskipti.

         Með 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991 er lögð ákveðin skylda á sýslumann að afla upplýsinga um aðila nauðungarsölunnar þannig að tilkynna megi þeim um framhald uppboðs. Ber sýslumanni í því skyni að rannsaka gögn málsins og kanna upplýsingar í aðgengilegum, opinberum skrám. Sýslumanni var ljóst að upphaflegur kröfuhafi var ekki lengur eigandi þess skuldabréfs sem um ræðir. Við þær aðstæður má ætlast til þess að sýslumaður athugi þinglýst skjöl um skuldskeytingu skuldabréfsins, enda getur skuldskeyting ekki átt sér stað nema með samþykki þess kröfuhafa sem er eigandi skuldabréfsins á þeim tíma. Með því má varpa ljósi á hvort kröfuhafaskipti kunni að hafa orðið á bréfinu fyrir skuldskeytinguna og hver sé þá eigandi þess.

         Skuldskeytingu, dags. 27. febrúar 2003, hafði verið þinglýst á umrædda fasteign. Í skjali þessu kemur fram að Lífeyrissjóður Austurlands sé „núverandi eigandi“ skuldabréfsins og var bréfið undirritað fyrir hönd þess sjóðs. Lífeyrissjóður Austurlands sameinaðist stefnanda árið 2007. Fyrir liggur að tilkynningar sem sendar eru á heimilisfang fyrrnefnda sjóðsins berast stefnanda. Þá koma fram upplýsingar um sameininguna í vottorði frá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra sem stefnandi lagði fram undir rekstri málsins.

         Í þessu ljósi verður að fallast á það með stefnanda að unnt hafi verið að ná til hans og að sýslumanni hafi borið að senda honum sem aðila að nauðungarsölunni tilkynningu um framhald uppboðs á fasteigninni samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991. Þar sem það var ekki gert verður á það fallist að stefndi beri skaðabótaábyrgð á grundvelli almennra skaðabótareglna á tjóni sem stefnandi hefur orðið fyrir sökum vanrækslu sýslumanns.

         Nauðungarsala á fasteignum er auglýst í Lögbirtingablaði samkvæmt 19. og 20. gr. laga nr. 90/1991. Sýslumanni ber enn fremur að auglýsa uppboð með minnst þriggja daga fyrirvara í dagblaði, á vef sýslumanna eða á annan samsvarandi hátt, sbr. 26. gr. sömu laga. Framhald uppboðs er jafnframt auglýst með sama hætti, sbr. 5. mgr. 35. gr. laganna. Ágreiningslaust er að sýslumaður birti auglýsingar um nauðungarsölu umræddrar fasteignar í samræmi við framangreindar kröfur.

         Tilgangur auglýsinga um nauðungarsölu er að gefa þeim sem kunna að eiga réttindi í viðkomandi eign færi á því að standa vörð um þau réttindi sem ella kunna að falla niður að einhverju eða öllu leyti við nauðungarsöluna. Ætlast má til þess að lífeyrissjóður, sem ekki hefur þinglýst skjölum um réttindi sín yfir fasteign, láti fylgjast með auglýsingum um nauðungarsölur fasteigna til að honum sé unnt standa vörð um hagsmuni sína og sjóðfélaga sinna. Stefnandi getur því ekki varpað allir ábyrgð á gæslu þeirra hagsmuna yfir á sýslumann í þeirri von að hann finni út hver sé réttur eigandi áhvílandi skuldabréfs og tilkynni honum um framhald uppboðs. Af þessum sökum verður stefnandi látinn bera helming þess tjóns sem hann hefur orðið fyrir við nauðungarsölu umræddrar fasteignar.

         Stefndi andmælir ekki röksemdum stefnanda fyrir því að sjóðurinn hafi orðið fyrir tjóni við nauðungarsölu fasteignarinnar, sem nemur kröfu stefnanda á hendur skuldara við árangurslaust fjárnám sem gert var hjá honum, 5.626.863 krónur. Þannig er ágreiningslaust að stefnandi hefði fengið þessa kröfu greidda að fullu hefði hann vitað af nauðungarsölunni og gætt þar hagsmuna sinna. Samkvæmt framansögðu ber að fallast á að stefndi bæti stefnanda helming tjónsins. Verður stefnda því gert að greiða stefnanda 2.813.432 krónur í skaðabætur.

         Í ljósi þessarar niðurstöðu, sem rúmast innan kröfugerðar og málsástæðna fyrir aðalkröfu stefnanda, kemur varakrafa stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda ekki til álita. Kemur því heldur ekki til álita að vísa þeirri kröfu frá dómi, eins og stefndi gerir kröfu um.

         Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, bera skaðabótakröfur dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Dómstólar geta þó, ef sérstaklega stendur á, ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta. Eins og atvikum er háttað í máli þessu var ekki unnt að meta fjárhæð skaðabótakröfunnar fyrr en upplýsingar lágu fyrir um verðmæti umræddrar fasteignar. Stefnandi staðreyndi verðmæti hennar með matsgerð dómkvadds matsmanns, sem er dagsett 19. nóvember 2015. Ekkert er fram komið um að stefnda hafi verið gerð grein fyrir niðurstöðu matsgerðar fyrr en við höfðun málsins. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. niðurlag 4. mgr. 5. gr. sömu laga, skal skaðabótakrafa stefnanda bera dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá málshöfðun.

         Stefndi hefur frá öndverðu alfarið neitað skaðabótaskyldu á þeim grundvelli að sýslumaður hafi ekki sýnt af sér sök í aðdraganda nauðungarsölunnar. Stefnanda var því nauðsynlegt að höfða mál til að fá tjón sitt bætt að hluta. Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnda því gert að greiða stefnanda hluta þess kostnaðar sem stefnandi hefur haft af rekstri málsins. Þykir sá hluti hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

          Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Stapa lífeyrissjóði, 2.813.432 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. mars 2016 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.