Print

Mál nr. 45/2019

Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
X (Reimar Pétursson lögmaður) og Y (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Hæfi dómara
Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu Á um að sérfróður meðdómsmaður viki sæti í máli Á gegn X og Y.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2019, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 3. október 2019, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Hreggviður Ingason, sérfróður meðdómsmaður, viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina.

Af hálfu varnaraðilans X eru ekki gerðar athugasemdir við hæfi áðurnefnds meðdómsmanns.

Varnaraðilinn Y hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í ákæru eru varnaraðilum gefin að sök brot í starfi þeirra hjá A hf. frá og með 1. júní 2007 til og með 26. september 2008. Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í A hf., víkja stjórn bankans frá og setja yfir hann skilanefnd.

Samkvæmt gögnum málsins vann hinn sérfróði meðdómsmaður fyrir slitastjórn bankans á árunum 2010 til 2015 sem forstöðumaður afleiðusafns. Af hálfu sóknaraðila hefur því ekki verið haldið fram að meðdómsmaðurinn hafi persónulegra eða fjárhagslegra hagsmuna að gæta í málinu þannig að valdi vanhæfi hans. Sóknaraðili heldur því á hinn bóginn fram að í ljósi fyrra starfs meðdómsmannsins fyrir slitastjórn A hf. megi draga óhlutdrægni hans í efa.

Í gögnum málsins er ekkert sem gefur til kynna að meðdómsmaðurinn hafi komið að rannsókn á ætluðum brotum innan bankans eða haft aðra aðkomu að því máli sem hér um ræðir. Þá liggur fyrir eins og áður segir að meðdómsmaðurinn starfaði ekki fyrir bankann á þeim tíma sem ætluð brot varnaraðila eru talin hafa átt sér stað.

Það eitt getur ekki leitt til vanhæfis að meðdómsmaðurinn hafi gegnt fyrrgreindu starfi hjá slitastjórn A hf. Samkvæmt framansögðu og þar sem sóknaraðili hefur ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem geta verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni meðdómsmannsins með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Eiríkur Jónsson og Kristbjörg Stephensen og Hreggviður Ingason, hagfræðingur og fjármálastærðfræðingur, kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

   1          Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 28. mars 2018 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2018 í málinu nr. S-(...)/2016. Á þessu stigi er aðeins til úrlausnar krafa ákæruvaldsins um að sérfróðum meðdómsmanni málsins í Landsrétti, Hreggviði Ingasyni sem tekið hefur sæti í málinu, verði gert að víkja sæti vegna vanhæfis. 

   2          Ákærðu Y og X gera ekki athugasemdir við hæfi Hreggviðs Ingasonar.

Málsatvik og málsástæður aðila

   3          Með tölvubréfi Landsréttar 10. september 2019 voru aðilar upplýstir um að Landsréttur hefði í hyggju að kveðja Hreggvið Ingason, hagfræðing og fjármálastærðfræðing, til setu í málinu sem sérfróðan meðdómsmann. Var aðilum veittur frestur til 16. sama mánaðar til að gera athugasemdir við framangreint og bárust athugasemdir frá sækjanda með tölvubréfi 12. sama mánaðar. Með tölvubréfi 23. sama mánaðar gerði sækjandi þá kröfu sem hér er til úrlausnar og fór munnlegur málflutningur um hana fram í þinghaldi 3. október 2019.

   4          Um vanhæfi dómarans er vísað til þess af hálfu ákæruvaldsins að hann hafi starfað hjá A hf. sem forstöðumaður afleiðusafns á árunum 2010-2015 og í því starfi hafi hann meðal annars unnið náið með slitastjórn og lögfræðingum við rekstur innlendra og erlendra dómsmála. Þá hafi hann starfað sem sérfræðingur á afleiðuborði hjá B hf. árin 2006-2007. Af þessum sökum eigi hann að víkja sæti, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá vísar ákæruvaldið til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 4. júní 2019 í máli Sigurðar Einarssonar og fleiri gegn íslenska ríkinu en þar reyndi meðal annars á hvort hæstaréttardómari hefði verið vanhæfur til að sitja sem dómari í máli þar sem sonur hans hefði unnið sem lögfræðingur hjá Kaupþingi banka hf. fyrir bankahrun og síðan sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings hf. árin 2008-2013. Dómstóllinn taldi að vegna stöðu sonar hæstaréttardómarans innan bankans hefði mátt draga í efa að dómurinn væri óvilhallur enda hefði sonurinn verið í ábyrgðarstöðu bæði fyrir og eftir hrun bankans. Ákæruvaldið byggir á því að með þessum dómi hafi Mannréttindadómstóll Evrópu sett ný viðmið varðandi hæfi dómara í einstökum málum hér á landi og eigi Hreggviður Ingason því að víkja sæti.

Niðurstaða

   5          Krafa ákæruvaldsins lýtur að því að Hreggviður Ingason, hagfræðingur og fjármálastærðfræðingur, sé með vísan til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 vanhæfur til að fara með málið vegna fyrri starfa sinna og beri af þeim sökum að víkja sæti í málinu.

   6          Hreggviður starfaði sem forstöðumaður afleiðusafns A hf. á árunum 2010-2015. Í því starfi bar hann ábyrgð á að stýra og vinda ofan af afleiðusafni A hf. fyrir hönd slitastjórnar A. Hann sinnti jafnframt ráðgjöf við slitastjórnina fram á fyrri hluta árs 2016. Ekki verður fallist á að staða Hreggviðs hafi verið sambærileg stöðu sonar hæstaréttardómarans í fyrrnefndum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 4. júní 2019. Sonur hæstaréttardómarans var í ábyrgðarstöðu innan bankans fyrir bankahrun og síðar einn af framkvæmdastjórum slitastjórnar bankans meðan á rannsókninni stóð og meðan málið var rekið fyrir héraðsdómi. Þá sinnti hann enn ráðgjafarstörfum fyrir bankann á meðan faðir hans dæmdi málið í Hæstarétti. Auk þess hafði slitastjórnin stefnt tveimur af ákærðu í málinu til greiðslu skaðabóta vegna viðskipta sem voru meðal annars grundvöllur sakfellingar ákærðu. Slitastjórnin hafði því hagsmuni af niðurstöðu hæstaréttarmálsins en sonur hæstaréttardómarans var forstöðumaður lögfræðisviðs slitastjórnarinnar. Fyrir liggur að Hreggviður starfaði hvorki með ákærðu í máli þessu né fyrir bankann á þeim tíma sem þau brot sem ákært er fyrir í þessu máli eiga að hafa átt sér stað. Þá hætti hann störfum fyrir slitastjórn A á fyrri hluta árs 2016, hefur enga aðkomu haft að því máli sem hér er til umfjöllunar og hefur engin hagsmunatengsl við aðila málsins. Störf hans fyrir slitastjórn A valda því ekki vanhæfi hans og enn síður fyrri störf hans fyrir B banka hf.

   7          Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki á það fallist að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem séu til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni Hreggviðs Ingasonar með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Er því hafnað kröfu ákæruvaldsins um að hann víki sæti í málinu.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu ákæruvaldsins um að hinn sérfróði meðdómsmaður Hreggviður Ingason, hagfræðingur og fjármálastærðfræðingur, víki sæti í málinu.