Print

Mál nr. 570/2016

Kvistfell fasteignir ehf. og Þorsteinn Þorvaldsson (Gísli Guðni Hall hrl.)
gegn
Guðrúnu Einarsdóttur (Björgvin Þórðarson hrl.)
og gagnsök
Lykilorð
  • Verksamningur
  • Þjónustukaup
  • Matsgerð
  • Galli
  • Aðild
  • Málskostnaður
Reifun
K ehf. tók að sér framkvæmdir við sumarhús G og stjórnaði Þ byggingarframkvæmdum við það. Eftir að G hafði aflað matsgerðar meðal annars um galla á hönnun og byggingarvinnu krafði hún K ehf. og Þ um skaðabætur. Taldi K ehf. að G gæti ekki byggt kröfu sína um bætur vegna galla á matsgerð þeirri sem hún hefði aflað þar sem úrbótarétti hans hefði verið hafnað á ólögmætan hátt.Var talið að frestur K ehf. til úrbóta hefðu verið útrunninn og K ehf. því glatað þeim rétti sínum. Þá var talið að ekki væri slíkir ágallar á matsgerðinni sem gerði það að verkum að hún yrði ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins um galla, en að K ehf. og Þ hefðu ekki leitast við að hnekkja henni með yfirmati. Var talið að verk K ehf. hefði að hluta til verið gallað og K ehf. og Þ sem byggingarstjóra gert að greiða G skaðabætur sameiginlega.

Dómur Hæstaréttar.

     Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

    Aðaláfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 14. júní 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 27. júlí sama ár og áfrýjuðu þeir öðru sinni 9. ágúst 2016. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að krafa hennar verði lækkuð. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

    Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 10. október 2016. Hún krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjandanum Þorsteini verði gert að greiða sér óskipt með aðaláfrýjandanum Kvistfelli fasteignum ehf. 1.754.493 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 27. nóvember 2014 til greiðsludags.

                                                                                                                                                                         I

    Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi sendi aðaláfrýjandinn Þorsteinn gagnáfrýjanda tölvupóst 28. febrúar 2012, þar sem fram kom áætlun „í stækkun og fl“ vegna fyrirhugaðra breytinga á sumarhúsi að Kjalbraut 7 í landi Vaðness í Grímsnesi. Samkvæmt tölvupóstinum var kostnaður við verkið talinn nema samtals 10.534.000 krónum, en þar af næmi vinnuliður þess 6.272.000 krónum. Gagnáfrýjandi svaraði því erindi með tölvupósti 2. mars sama ár, þar sem þakkað var fyrir „tilboðið.“ Þá sagði eftirfarandi í tölvupóstinum: „Við höfum skoðað það og komið okkur saman um að setja í gang teikningarnar og byrja á stækkun húss og palls, pottur og bíslag kemur á eftir húsinu og pallinum. Við skoðum það þegar hitt er komið á rekspöl.“ Framkvæmdir aðaláfrýjandans Kvistfells fasteigna ehf. við sumarhúsið hófust 15. maí 2012 og lauk 13. desember sama ár. Hinn 1. júní 2012 tók aðaláfrýjandinn Þorsteinn að sér stjórn byggingarframkvæmda við húsið samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Jafnframt staðfesti hann ábyrgð sína gagnvart húseiganda í samræmi við 27. gr. laganna.

    Eftir að aðaláfrýjandinn Kvistfell fasteignir ehf. gerði gagnáfrýjanda reikning 8. mars 2013 að fjárhæð 5.684.695 krónur hlutuðust gagnáfrýjandi og þáverandi eiginmaður hennar, Ágúst Guðmundsson, til um að fá tvo nafngreinda húsasmíðameistara til að meta kostnað vegna framkvæmda við sumarhúsið. Samkvæmt úttektarskýrslu þeirra 4. apríl 2013 gerðu þeir nokkrar athugasemdir við framkvæmdirnar og komust að tiltekinni niðurstöðu um kostnað við þær miðað við þær forsendur, sem lagðar voru til grundvallar í skýrslunni. Í framhaldi af því sendu gagnáfrýjandi og fyrrgreindur Ágúst aðaláfrýjandanum Þorsteini bréf 17. maí 2013, þar sem greint var frá úttektargerðinni og farið fram á skýringar á því hvers vegna kostnaður við framkvæmdirnar hefði farið langt fram úr „þeirri áætlun sem þú gerðir áður en verk hófst í maí á síðastliðnu ári.“ Þá skoðaði byggingarfulltrúi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps byggingarframkvæmdirnar 24. apríl 2013 að tilhlutan gagnáfrýjanda og Ágústs og samkvæmt bréfi hans 3. júní sama ár til þeirra gerði hann ýmsar athugasemdir við þær.

    Með bréfi lögmanns aðaláfrýjandans Kvistfells fasteigna ehf. 9. júlí 2013 var gagnáfrýjandi krafin um greiðslu 5.684.695 króna ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, samtals 6.119.153 krónur.

Hinn 30. september 2013 fór lögmaður gagnáfrýjanda fram á að dómkvaddur yrði matsmaður til að „skoða og meta vinnuframlag, hönnun og galla á verki vegna viðbyggingar og stækkunar/endurnýjunar palls“ við umrætt sumarhús. Í matsbeiðninni kom fram að í kjölfar „tilboðs“ aðaláfrýjandans Kvistfells fasteigna ehf. hafi verið ákveðið að fara í allt verkið nema það sem varðaði efni og vinnu við heitavatnspott, en kostnaður vegna þess hafi numið samtals 680.000 krónum. Verk það sem ráðast hafi átti í hafi því verið samtals að fjárhæð 9.854.000 krónur og þar af hafi vinnuliður þess numið 5.942.000 krónum.

    Samkvæmt beiðninni var í fyrsta lagi óskað eftir að mat yrði lagt á hvert væri hæfilegt og sanngjarnt endurgjald, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, fyrir vinnu matsþola vegna stækkunar sumarhússins og endurbyggingar og stækkunar sólpalls við húsið miðað við „tilboð matsþola ... 2. mars 2012, eins og við var skilið í desember 2012.“

    Í annan stað var óskað eftir mati á hvert væri hæfilegt og sanngjarnt endurgjald, sbr. fyrrgreint ákvæði laga nr. 42/2000, fyrir nánar tiltekin 14 aukaverk eins og skilið hafi verið við verkið í desember 2012. 

    Í þriðja lagi var farið fram á „athugun“ á eftirtöldum atriðum „varðandi galla á hönnun og byggingarvinnu“ matsþola:

1.      Hvort hönnun verksins væri fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

2.      Hvaða hönnunargögnum ætti eftir að skila til embættis byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps.

3.      Hvort frágangur á þakjárni hliðarbyggingar væri fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

4.      Hvort undirstöður undir hliðarbyggingu væru fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

5.      Hvort undirstöður undir stækkun og endurnýjun á palli væru fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

6.      Hvort burðarþol palls, þar sem fyrirhugað væri að hafa heitan pott, væri fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

7.      Hvort frágangur á palli væri fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

8.      Hvort frágangur á parketlögn væri fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

9.      Hvort frágangur á opi í lofti svefnherbergis við „nýja vegginn sem var endursmíðaður“ væri fullnægjandi miðað við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

10.  Hvort frágangur á þakplötum, sem settar voru undir palla til að mynda þar regnhelt skýli, væri fullnægjandi miðað við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

11.  Hvort frágangur rafmagnsrörs í milliveggi í útbyggingu væri fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

12.  Hvort frágangur fjala í veggklæðningu væri fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola.

Eftir dómkvaðningu matsmanns var eftirtöldum spurningum bætt við matsbeiðni:

13.  Var rétting hússins fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola?

14.  Var málun á vindskeiðum fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola?

Í öllum liðum var óskað eftir að matsmaður legði mat á orsakir viðkomandi galla eða skemmda og hæfilegan kostnað vegna viðgerða, úrbóta og frágangs, bæði vegna efnis og vinnu.

Til verksins var dómkvaddur 21. október 2013 Björn Gústafsson byggingartækni­­- og byggingarverkfræðingur, sem skilaði matsgerð 14. október 2014.

Matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að hæfilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu matsþolans Kvistfells fasteigna ehf. vegna endurbyggingar sumarhússins og sólpalls væri 5.233.000 krónur. Þá mat hann að kostnaður samkvæmt 32 liðum fyrir aukaverk væri 2.357.000 krónur.

Um galla á hönnun og byggingarvinnu komst matsmaður að eftirfarandi niðurstöðum:

1.      Hönnun verksins væri alls ekki fullnægjandi og einungis væri búið að skila inn aðaluppdrætti, en ekkert kostnaðarmat fylgdi þessum lið.

2.      Kostnaður við að skila inn viðeigandi hönnunargögnum næmi 300.000 krónum.

3.      Fjarlægð að nöglum ofan brots væri um 10 cm, sem væri full lítil að áliti matsmanns, þar sem halli á þaki bíslags væri lítill og gæti við vissar aðstæður skapað hættu á leka niður með nöglum, auk þess sem það benti til að lengd „flasningar“ næði stutt upp fyrir naglana. Auk þess væri greinilegt að frágangur í broti, þar sem kverk mætir aðalþaki, væri ekki í lagi, þar sem opið væri niður á þakpappann fyrir neðan. Kostnaður vegna vinnu og efnis næmi samtals 54.100 krónum.

4.      Undirstöður undir hliðarbyggingu væru ekki í samræmi við það sem telja mætti eðlilegt við þessar aðstæður. Í byggingarlýsingu segi að súlur skuli vera úr járnbentri steinsteypu og ofan á þær skuli koma tvöfaldur dregari úr 2 x 2“x 8“, en þess í stað séu notuð grönn rör sem standi grunnt í steypu. Væru þessar undirstöður ófullnægjandi og ekki í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola. Væru þær ekki færar um að taka við hliðarálagi þó þær gætu tekið við lóðréttu álagi. Var kostnaður vegna þessa liðar metinn samtals 25.500 krónur vegna vinnu og efnis.

5.      Matsmaður taldi frágang á undirstöðum á palli öldungis ófullnægjandi og ekki í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola og vísaði til annarra liða sem fjölluðu um undirstöður, frágang og festingar. Mat hann kostnað vegna þessa samtals 309.600 krónur vegna vinnu og efnis.

6.      Matsmaður vísaði til þess sem fram kæmi í liðum 4 og 5 um að undirstöður hafi ekki verið í samræmi við byggingarlýsingu, en ljóst væri að engir séruppdrættir hafi verið gerðir, sbr. grein 19.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Af framansögðu mætti ljóst vera að þessar undirstöður væru ekki í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola, en ekki var metinn kostnaður vegna þessa liðar.

7.      Í matsgerð var vísað til þess er áður greinir um að undirstöður pallsins og að frágangur væri ófullnægjandi. Varðandi festingar á dekki pallsins taldi matsmaður að hafi matsbeiðandi viljað að notaðar yrðu ryðfríar skrúfur hafi honum verið í lófa lagið að koma því á framfæri við matsþola. Var kostnaður við að rétta allan pallinn af metinn samtals 64.600 krónur fyrir vinnu og efni.

8.       Matsmaður kvað hafa komið fram á matsfundi að þessi spurning hafi verið byggð á misskilningi og hún verið felld út samkvæmt samkomulagi á matsfundi.

9.      Um þennan matslið sagði að hann byggðist á misskilningi og var kostnaður því ekki metinn.

10.  Halli væri á þessum þakplötum frá húsi og að enda palls, sem væri um 50 mm. Frágangur á plötunum væri í samræmi við aðstæður og ekki ástæða til að setja út á frágang þeirra. Var því enginn kostnaður metinn vegna þessa liðar.

11.  Í ljós hafi komið þegar draga átti í rafmagnsrör að það var stíflað. Opna þyrfti vegginn og laga rörið, sem eðlilegt væri að verktaki gerði á sinn kostnað. Var kostnaður við að koma þessu í lag metinn samtals 14.820 krónur vegna vinnu og efnis.

12.  Þarna væri um að ræða einn tiltekinn stað, þar sem væru mjög áberandi dökkir kvistir, sem væru þess eðlis að fagmenn ættu ekki að „skila verki svona af sér.“ Kostnaður við að lagfæra þetta var talinn nema samtals 7.910 krónum vegna vinnu og efnis.

13.  Ekki lægi annað fyrir en að húsið hafi verið rétt alveg af, en hins vegar væri frágangur undir því óviðunandi, þar sem hver fleygurinn væri ofan á öðrum og slaki á festingum niður í steyptar undirstöðusúlur, sem væru aðeins öðrum megin á þeim. Laga þyrfti allflestar festingar hússins og pallana niður á undirstöður. Var kostnaður við að lagfæra þetta metinn samtals 150.000 krónur vegna vinnu og efnis.

14.  Málun á vindskeiðum væri ekki fullnægjandi og ekki samræmi við þær kröfur sem gera mátti til matsþola. Kostnaður vegna þessa liðar var metinn samtals 24.200 krónur vegna vinnu og efnis.

Samkvæmt þessu var það niðurstaða matsgerðar að heildarkostnaður við að bæta úr þeim göllum, sem matsmaður taldi vera á verkinu, væri 950.730 krónur, 259.730 krónur vegna efnis og 691.000 krónur fyrir vinnu.

Að fenginni matsgerð krafðist gagnáfrýjandi þess með bréfi 27. október 2014 að aðaláfrýjendur greiddu sér skaðabætur að fjárhæð 950.730 krónur, lögfræðikostnað að fjárhæð 1.477.198 krónur, 1.242.164 krónur í matskostnað og 15.000 krónur vegna þingfestingar matsbeiðnar, samtals 3.685.092 krónur. Þá gerði hún kröfu um endurgreiðslu að fjárhæð 134.237 krónur vegna ofgreiðslu samkvæmt matsgerð. Aðaláfrýjendur höfnuðu kröfu gagnáfrýjanda með tölvupósti 10. nóvember sama ár. Vísuðu þeir til þess að ekki hafi verið samið um fast verð eða tilboð gert, heldur hafi í upphafi verið gerð áætlun, sem ljóst væri að engan veginn hefði staðist vegna umfangs verksins og viðbótarverka. Þá væri áréttað að aðaláfrýjendur ættu skýlausan rétt til úrbóta væri um slíkt að ræða. Degi síðar ritaði lögmaður gagnáfrýjanda lögmanni aðaláfrýjenda tölvupóst, þar sem áréttað var að málinu yrði stefnt fyrir héraðsdóm, nema boð kæmu frá aðaláfrýjendum um að þeir færu fram á yfirmat. Þá sagði þar að miðað við það sem á undan væri gengið gæti gagnáfrýjandi ekki fyrir nokkurn mun hugsað sér að óska eftir að aðaláfrýjendur gerðu úrbætur á sumarhúsinu. 

II

Í skýrslu sinni í héraði kvaðst gagnáfrýjandi vera eigandi sumarhúss þess, sem um ræðir í málinu og hún hafi keypt það 4. febrúar 2011, en samkvæmt skilnaðarsamkomulagi hennar og fyrrverandi eiginmanns síns sé hann eigandi að helmingi hússins. Hann hafi á hinn bóginn ekki átt að fá neina hlutdeild í kröfum hennar á hendur aðaláfrýjendum í máli þessu. Gagnáfrýjandi kvað aðaláfrýjandann Þorstein hafa fengið „teikningaskissur“ af fyrirhuguðum framkvæmdum við húsið, sem fyrrverandi eiginmaður hennar hafði gert í tölvu. Teikningar af húsinu ásamt byggingarlýsingu hafi á hinn bóginn verið unnar af nafngreindum manni og hafi fyrrnefndur aðaláfrýjandi gert upp við hann vegna þeirra. Gagnáfrýjandi kvað vinnu við húsið hafa gengið hægt og þau hjónin stöðvað framkvæmdir í desember 2012. Hún kvaðst hafa verið krafin um greiðslu ríflega 19.000.000 króna, en væri búin að greiða samtals 13.862.690 krónur. Gagnáfrýjandi kvaðst hafa fengið aðstoð frá fyrrverandi eiginmanni sínum við tæknileg mál í sambandi við framkvæmdirnar, en það hafi verið með fullri vissu hans að hún ætti sumarhúsið.

Aðaláfrýjandinn Þorsteinn kvað gagnáfrýjanda hafa haft samband við sig vegna hugmynda um að stækka sumarhúsið og hann hitt hana og eiginmann hennar. Hafi eiginmaðurinn komið með teikningar og í framhaldi af því hafi aðaláfrýjandinn gert áætlun um að lengja húsið fram og byggja forstofu. Hafi nafngreindur maður gert teikningar, sem gagnáfrýjandi og eiginmaður hennar hafi samþykkt. Um leið og framkvæmdir hófust hafi eiginmaðurinn beðið sig um að grafa fyrir skýli undir nýja pallinum og færa niður hraunhól og moka honum til hliðar, leggja „affalspott fyrir pottinn“ og síðan meira og meira. Hann hafi komið þarna einu sinni til tvisvar í viku og endalaust verið að bæta við það sem átti að gera. Í ljós hafi komið að húsið hafði sigið niður að framan um 6 cm og eiginmaðurinn beðið um að það yrði lagað. Þegar búið var að reisa forstofuna hafi eiginmaðurinn komið og fundist hún alltof lítil og beðið um að hún yrði stækkuð. Hún hafi verið lengd fram, en þá hafi eiginmaðurinn beðið um að veggir yrðu hækkaðir. Þeir hafi verið hækkaðir bæði að neðanverðu og ofanverðu og þá hafi þurft að breyta þakhallanum á göflunum á bíslaginu til þess að fá meiri þakhalla. Til þess að það gæti orðið hafi þurft að rjúfa þakið og þegar það hafi verið búið hafi hann beðið um að sett yrði nýtt þak á allt húsið að vestanverðu og það verið gert. Þá hafi hann meðal annars beðið um að settur yrði einn gluggi til viðbótar og hann færður fram um 70 cm og gamli glugginn yrði settur aftan á forstofuna og þá þurft að rjúfa vegginn aftur. Aðaláfrýjandinn kvaðst hafa hringt í eiginmanninn í ágúst 2012 og sagt honum að kostnaðurinn við verkið væri kominn í 16.000.000 krónur. Hann hafi aldrei gert neinar athugasemdir við verklag eða unna tíma og verklok aldrei verið rædd.

Vitnið Ágúst Guðmundsson, fyrrverandi eiginmaður gagnáfrýjanda, kvaðst enga hlutdeild hafa átt í sumarhúsinu á árunum 2011, 2012 og 2013, en í maí 2014 hafi þau átt það í sameiningu samkvæmt skilnaðarsamkomulagi. Hafi það verið sameiginleg ákvörðun þeirra hjóna að fara í umræddar framkvæmdir og gagnáfrýjandi alfarið séð um greiðslur. Taldi vitnið gagnáfrýjanda eiga sumarhúsið, en væri svo að hann ætti hlutdeild í kröfunni þá væri hún „bara hér með framseld“. Hafi vitnið aldrei litið svo á að hann ætti kröfuna. Vitnið kvað verklok vegna framkvæmdanna hafa átt að vera í september 2012, en rétt væri að ýmis aukaverk hafi verið unnin. Vitnið kvaðst hafa verið tíður gestur á verkstað og hitt aðaláfrýjandann Þorstein svona tvisvar til þrisvar sinnum. Hafi framkvæmdirnar verið stöðvaðar í byrjun desember 2012. Vitnið kvað rétt að hann hafi ekki viljað að aðaláfrýjendur héldu verkinu áfram. Eftir að úttektarmenn hafi farið í gegnum verkið hafi þeir séð ýmsa ágalla og ráðlagt sér að fá nafngreindan byggingarfulltrúa til að skoða það. Hann hafi skoðað verkið á miðvikudegi fyrir sumardaginn fyrsta og skilað úttektarskýrslu sex vikum síðar. Fjórum dögum eftir að byggingarfulltrúinn kom hafi aðaláfrýjandinn Þorsteinn komið með vinnuflokk og farið í „lagfæringar“ á atriðum sem byggingarfulltrúinn hafi bent á að ekki væru í lagi. Þegar framkvæmdum var hætt í desember 2012 hafi það annars vegar verið vegna þess að þau hjónin ætluðu að fara að nota húsið og hins vegar í ljósi þess að búið hafi verið að greiða 13.800.000 krónur vegna verksins. Það hafi verið alveg ljóst að verkinu var þá ekki lokið og rætt hafi verið um að „við skyldum alla vega gera hlé á verkinu.“ Vitnið kvaðst ekki hafa gert formlegar athugasemdir við verkið.

Matsmaðurinn Björn Gústafsson kvað hlutfall vinnu sinnar við að kostnaðarmeta vinnuliðinn annars vegar og galla hins vegar hafa verið um það bil 70/30. Varðandi gallana taldi matsmaður að það sem búið var að gera hafi ekki verið nógu vel gert.

III

Hvað sem leið eignarhaldi á sumarhúsi því, sem um ræðir í málinu, verður að líta svo á að Ágúst Guðmundsson hafi í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi framselt gagnáfrýjanda kröfu þá, sem hún hefur uppi í málinu, og á hún þar af leiðandi ein aðild að því. Á hinn bóginn verður ráðið af gögnum málsins að Ágúst hafi haft fullt umboð til að koma fram fyrir hennar hönd gagnvart aðaláfrýjendum og gera ráðstafanir vegna verksins.

Svo sem áður greinir hófust framkvæmdir við breytingar á sumarhúsinu í maí 2012 og stóðu fram í desember sama ár. Ekki var gerður formlegur verksamningur, en telja verður að slíkur samningur hafi komist á milli aðaláfrýjandans Kvistfells fasteigna ehf. og gagnáfrýjanda á grundvelli þess, sem fram kom í tölvupósti hins fyrrnefnda 28. febrúar 2012, miðað við þær forsendur sem þar voru gefnar.

Eins og rakið hefur verið tók verkið verulegum breytingum að ósk gagnáfrýjanda. Þá kom í ljós að húsið hafði sigið og skekkst og þurfti því að rétta það af. Af framburði fyrrverandi eiginmanns gagnáfrýjanda verður ráðið að hlé varð á verkframkvæmdunum í desember 2012. Þegar reikningur aðaláfrýjandans Kvistfells fasteigna ehf., að fjárhæð 5.684.695 krónur, barst gagnáfrýjanda í mars 2013 hafði hún greitt aðaláfrýjandanum 13.862.690 krónur án athugasemda, síðast í desember 2012. Samkvæmt því nam heildarkrafa aðaláfrýjandans á hendur gagnáfrýjanda 19.547.385 krónum. Viðbrögð gagnáfrýjanda vegna reikningsins voru þau að fá tvo húsasmíðameistara til að kostnaðarmeta framkvæmdir við sumarhúsið. Samkvæmt úttektarskýrslu þeirra 4. apríl 2013 gerðu þeir athugasemdir við framkvæmdirnar og komust að tiltekinni niðurstöðu um kostnað. Þá skoðaði byggingarfulltrúi framkvæmdirnar 24. sama mánaðar að tilhlutan gagnáfrýjanda og gerði hann einnig athugsemdir við verkið. Loks fór gagnáfrýjandi fram á að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta þau atriði sem áður greinir.

Af hálfu aðaláfrýjandans Kvistfells fasteigna ehf. er á því byggt að gagnáfrýjandi hafi rift samningi sínum við sig og hann þá ekki átt annarra kosta völ en að fara frá verkinu ókláruðu. Hafi aðaláfrýjandanum því ekki gefist kostur á að ljúka verkinu eða bæta úr því sem hugsanlega átti eftir að yfirfara og laga. Geti gagnáfrýjandi þar af leiðandi ekki reist kröfu sína um bætur vegna galla á matsgerð þeirri sem hún aflaði, þar sem úrbótarétti aðaláfrýjandans  hafi verið hafnað á ólögmætan hátt.

Í 16. gr. laga nr. 42/2000, sem hér eiga við, sbr. 1. mgr. 1. gr. sömu laga, segir að tilkynni neytandi um galla og bjóðist seljandi þjónustunnar til að bæta úr honum geti neytandi ekki krafist afsláttar frá verði né heldur rift samningi um kaup á þjónustunni, enda sé bætt úr galla innan sanngjarns frests án kostnaðar eða verulegs óhagræðis fyrir neytandann. Þetta gildi nema neytandi hafi sérstakar ástæður til þess að hafna að seljandi þjónustunnar taki að sér að bæta úr gallanum. Ráðið verður af tölvupóstsamskiptum aðila í apríl og maí 2013 að gagnáfrýjandi beindi kvörtun til aðaláfrýjenda vegna galla á verkinu án þess að brugðist væri við af hálfu þeirra nema að óverulegu leyti. Jafnframt er ósannað af þeirra hálfu að úrbætur hafi verið boðnar fram, en í tölvupósti lögmanns aðaláfrýjenda 10. nóvember 2014 segir það eitt að aðaláfrýjandinn Kvistfell fasteignir ehf. eigi „skýlausan rétt til úrbóta“ væri um slíkt að ræða. Er því fallist á með héraðsdómi að þá hafi frestur til úrbóta verið útrunninn og þar með hafi aðaláfrýjandinn Kvistfell fasteignir ehf. glatað rétti sínum til úrbóta.

Gagnáfrýjandi hefur ekki fært haldbær rök fyrir því að á aðaláfrýjendum hafi hvílt sú skylda að skila inn teikningum til byggingarfulltrúa, en matsmaður mat það sem „galla“ á verkinu og væri kostnaður vegna þess 300.000 krónur. Verður þessi kröfuliður því ekki tekinn til greina.

Ekki verður talið að slíkir ágallar séu á fyrrgreindri matsgerð, sem geri það að verkum að hún verði ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins um galla, en aðaláfrýjendur hafa ekki leitast við að hnekkja henni með yfirmati. Verður því fallist á með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að verk aðaláfrýjandans Kvistfells fasteigna ehf. hafi verið gallað að öðru leyti en að framan greinir og að tjón gagnáfrýjanda vegna þess nemi 650.730 krónum. Samkvæmt þessu verða aðaláfrýjendur, aðaláfrýjandinn Kvistfell fasteignir ehf. á grundvelli 15. gr. laga nr. 42/2000 og aðaláfrýjandinn Þorsteinn sem byggingarstjóri með vísan til 7. mgr. 29. gr. laga nr. 160/2010, gert að greiða óskipt gagnáfrýjanda 650.730 krónur með vöxtum eins og krafist er.

Gagnáfrýjandi ákvað að fara fram á dómkvaðningu matsmanns eftir XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um öflun sönnunargagna án þess að mál hefði verið höfðað. Samkvæmt 1. mgr. 77. gr. laganna er aðila, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, heimilt að beiðast dómkvaðningar matsmanns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli, ef það er gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni. Í máli þessu hefur gagnáfrýjandi ekki uppi kröfu á grundvelli áðurnefndrar matsgerðar til viðurkenningar á hvert hafi verið sanngjarnt endurgjald fyrir verk það, sem unnið var af hálfu aðaláfrýjandans Kvistfells fasteigna ehf., heldur krefst hún einungis skaðabóta vegna galla á verkinu.

Samkvæmt e. lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 telst matskostnaður til málskostnaðar og hið sama gildir um málskostnað vegna öflunar matsgerðar, sbr. g. lið sömu málsgreinar. Brestur því lagaskilyrði til að dæma gagnáfrýjanda bætur vegna matskostnaðar og málskostnaðar við öflun matsgerðar.

Í ljósi úrslita málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Kvistfell fasteignir ehf. og Þorsteinn Þorvaldsson, greiði óskipt gagnáfrýjanda, Guðrúnu Einarsdóttur, 650.730 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. nóvember 2014 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                        

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 23. mars 2016

                Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 27. janúar sl., er höfðað með stefnu birtri 12. mars 2015.

            Stefnandi er Guðrún Einarsdóttir, kt. 230452-4909, Rauðagerði 31, Reykjavík.

            Stefndu eru Kvistfell fasteignir ehf., kt. 680794-2279, Þóristúni 18, Selfossi og Þorsteinn Þorvaldsson, kt. 010460-4929, Þóristúni 18, Selfossi.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að að stefndi, Kvistfell fasteignir ehf., verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 3.629.942,- þar af óskipt með stefnda, Þorsteini Þorvaldssyni, kr. 2.290.336,-, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, af þeirri fjárhæð frá 27. nóvember 2014 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti.

            Dómkröfur stefndu eru að stefndu Kvistfell fasteignir ehf. og Þorsteinn Þorvaldsson verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þess er einnig krafist að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að mati réttarins en áskilinn er réttur til að leggja fram málskostnaðarreikning í málinu komi til aðalmeðferðar.

            Fyrir uppkvaðningu dóms var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

            Málavextir

            Þann 4. febrúar 2011 keypti stefnandi 38,3 fm. sumarhús að Kjalbraut 7 í Grímsnesi ásamt 7 fm. geymslu/útihúsi, hvorutveggja byggt árið 1991. Var hún eini eigandi hússins á þeim tíma og allt til þess að hún og eiginmaður hennar skildu, en samkvæmt skilnaðarsamkomulagi þeirra frá árinu 2014 eiga þau húsið að jöfnu nú.

            Kveðst stefnandi í byrjun janúar 2012 hafa haft samband við skrifstofu embættis byggingafulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps vegna endurbóta og stækkunar á sumarhúsinu sem hún hafði hug á að gera. Hafi hún fengið þær upplýsingar að ekkert væri því til fyrirstöðu að stækka sumarhússið að Kjalbraut 7. Hafi henni þá verið vísað á stefnda Þorstein Þorvaldsson, fyrirsvarsmann stefnda Kvistfells fasteigna ehf., sem húsasmíðameistara sem tæki að sér verkefni af þessum toga.

            Fyrir liggur að stefnandi hitti stefnda Þorstein í kjölfarið að Kjalbraut 7, en með henni var þáverandi eiginmaður hennar, Ágúst Guðmundsson. Var farið yfir fyrirhugaðar framkvæmdir. Kveður stefnandi að ákveðið hafi verið að skipta verkinu upp í þrjá hluta, svo unnt væri að vinna hvern áfanga eftir því sem efnahagur stefnanda leyfði. Hafi þessi þrískipting verið svofelld:

1.         Lenging á meginhúsi og þakskeggi ásamt nýsmíði á pöllum framan við hús. Nota skyldi bárujárn sem klæðningu ásamt því að klæða veggi á eldri hluta hússins til samræmingar.

2.         Smíði á hliðarbyggingu, bíslagi, ásamt pallavinnu á því svæði.

3.         Stækkun á palli og viðeigandi undirstöður fyrir heitavatnspott.

            Stefnandi kveðst hafa afhent stefnda Þorsteini skissur með þeim breytingum sem hún hafði í huga en kveður að strax á fyrsta fundi hafi hann komið með hugmyndir um stórt þakskegg og að heilklæða húsið með liggjandi bárustáli og sýnt hús á svæðinu sem hann væri að byggja með slíkum frágangi.

            Stefndu kveða að stefnandi og Ágúst Guðmundsson, þáverandi eiginmaður hennar, hafi farið fram á það við stefnda Kvistfell að taka að sér að endurbyggja umrætt sumarhús og smíða viðbyggingu ofl., en þá hafi verið ljóst af hálfu stefnda Kvistfells að ekki væri mögulegt að gera tilboð í verkið, enda hafi ekki verið búið að ákveða nákvæmlega hvað ætti að gera og engar verklýsingar legið frammi sem hægt væri að vinna eftir. Hið eina sem lagt hafi verið fram í upphafi hafi verið einföld teikning af grunnmynd sem stefnandi hafi látið vinna fyrir sig og greitt sjálf fyrir.

            Stefnandi kveður að stefndi Þorsteinn hafi séð um að fá tilskilin leyfi og að láta gera þær teikningar sem krafist yrði við stækkunina. Stefndi Þorsteinn hafi haft samband við fagaðila er gæti teiknað breytingarnar á húsinu og pallinum.

            Aðilar eru ekki sammála um hvað þeir samið um.

            Þann 28. febrúar 2012 sendi stefndi Þorsteinn úr netfangi stefnda Kvistfells tölvupóst til stefnanda. Aðila greinir á um það hvers eðlis tölvupósturinn hafi verið. Byggir stefnandi á því að hann hafi falið í sér bindandi tilboð, en stefndu kveða að einungis hafi verið um að ræða áætlun og tillögur að því hvernig haga ætti breytingum á húsinu og meðal annars að lengja það. Hafi þetta verið efni tölvupóstsins 28. febrúar 2012, en eftir það hafi verkið tekið miklum breytingum og aukist frá því sem upphaflegar áætlanir hafi gert ráð fyrir.

            Í tölvupóstinum sagði:

            „Komið þið sæl var ekki búinn að gleyma ykkur.

Hér kemur áætlun í stækkun og fl.

til að stækka húsið tel eg best að saga skyggnið af þá get ég fært sperrurnar fram og þá kemur allt nýtt í loftin inni.

lengja húsin um 4.3m skyggni 3m.

innifalið fullfrágengið úti sem inni en á parketts, bárujárn klæðning úti.

öll verð m vsk.

allt efni úti sem inni                          kr            1.190.000.

gluggar + hurð                                  kr            1.002.000.sjá tilboð.

ofnar + vinna                                     kr            180.000.

rafvirki + efni                                     kr            150.000.

teikningar                                            kr            250.000.

samtals með vsk                                  kr            2.772.000.

vinna smíði og frárif.

með akstri og öllu,heild    kr            3.672.000.

samtals                                 kr            6.444.000.

endur gr vsk af vinnu ca   kr            700.000.

Viðbygging 1,4 x 400 og færa útihurð fullklætt utan sem innan allt einangrað.

efni                                        kr 485.000.

vinna                                     kr 1.290.000. 

heild m vsk                                           kr 1.775.000. 

endurgr vsk 220.000.

Pallur stækkun 38 m2 með steyptum súlum

heild efni með handriðum

og undirneglingu                               kr 435.000.

vinna                                                    kr 980.000.  

heild m vsk                                           kr 1.415.000.

endur gr vsk                                        kr 160.000.

Stækka pall 1m x 4m og smíða ramma undir pott.

efni timbur, skolp, hitastýritæki og fl.

                                               kr            220.000.

vinna smíði og tengja pott               kr 330.000.

heild m vsk.                                          kr 550.000.

pottur ca 350.000 = kr. 900.000.

endurgr. vsk. ca 70.000.

Þetta á að vera ríflega áætlað hjá mer bæði tímar og efni tel engar líkur að þetta hækki, heldur verði um lækkun að ræða

allt efni fáið þið hjá mér með afslætti og þið fáið ljósrit af efnisúttekt með hverjum reikning.

útseld vinna er kr. 4143 + vsk.

inní þessu verði er vélar, akstur, fæði, urðunargjald og allt sem þarf í þetta nema parkett ,og pottur er áætlun en samt raunhæft. þetta er aðeins meiri vinna því allt þarf að bera í höndum fram og aftur.

kv steini“

            Þessum tölvupósti svaraði stefnandi með öðrum tölvupósti 2. mars 2012 þannig:

            „Sæll Steini

            Takk kærlega fyrir tilboðið. Við höfum skoðað það og komið okkur saman um að setja í gang teikningarnar og byrja á stækkun húss og palls, pottur og bísalg kemur á eftir húsinu og pallinum. Við skoðum það þegar hitt er komið á rekspöl.

            Getur þú áætlað verð á kamínu í húsið?

            Viltu að við tölum við manninn sem teiknar eða gerir þú það? (ég man ekki nafnið) þurfum við ekki líka að skrifa formlega uppá tilboð frá þér?

            Ég er að fara til útlanda næsta sunnudag og verð til 15. mars en Ágúst verður að vinna í Búðarhálsi, netfangið hans er agust@geoice.net ef þú þarft að hafa samband, hann er fagmaðurinn á heimilinu í smíðum og tæknimálum.

            Bestu kveðjur Guðrún“

            Stefnandi kveðst hafa samþykkti tilboð stefnanda með tölvupóstinum 2. mars 2012 og þannig hafi komist á samningur með þessum hætti um verkið á milli stefnanda og stefnda Kvistfells, enda formlegum verksamningi ekki til að dreifa. Stefndu kveðast hafa litið svo á að stefnandi og Ágúst Guðmundsson væru bæði viðsemjendur stefndu, en stefnandi kveður svo ekki hafa verið og kveðst hafa staðið ein að þessu sem eini eigandi hússins.

            Kveður stefnandi að í kjölfarið hafi verið ákveðið að fara í allt verkið nema það sem varðaði efni og vinnu við sjálfan heitavatnspottinn, samtals. kr. 680.000,-. Smíða skyldi pallinn undir pottinn en ekki setja sjálfan pottinn né lagnir að honum. Verk það sem ráðast hafi átt í hafi því samtals numið kr. 9.854.000,- m/vsk. og þar af kostnaðarliðir vegna vinnu kr. 5.942.000,-. Við verkið hafi svo sannanlega bæst við aukaverk í 32 liðum.

            Stefndu kveða að alls hafi verið óljóst í upphafi verks út í hvaða framkvæmdir stefnandi og Ágúst Guðmundsson hafi verið að leggja. Enda hafi komið í ljós að verkið hafi orðið mun umfangsmeira og kostnaðarsamara en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Hafi komið upp ýmis vandamál sem ekki hafi verið fyrirséð, eins og að húsið hafi verið sigið og í verra ásigkomulagi en viðsemjendur stefnda Kvistfells hafi gert sér grein fyrir í upphafi. Hafi t.d. komið í ljós á verktímanum að húsið hafi skekkst mikið eftir jarðskjálfta. Stefndu kveða að viðsemjendum Kvistfells hafi verið fulljóst í upphafi að ekki væri um fast tilboð að ræða. Annar viðsemjenda sé menntaður verkfræðingur og hafi því haft fullan skilning á því sem fram fór og hafi hann engan áskilnað gert um að gert yrði formlegt tilboð eða gerður skriflegur verksamningur þar sem honum hafi verið fulljóst að verkið væri ómótað og ekki búið að ákveða hvernig því skyldi háttað.

            Stefndu telja að viðsemjendum þeirra hafi verið ljóst að ekki hafi verið um að ræða tilboð og benda á bréf þeirra sem dagsett er 17. maí 2013, en þar er notað orðalagið áætlun, en ekki um samning

            Stefnendur kveða stefnda Þorstein hafa annast öll samskipti við byggingafulltrúa, auk þess að sjá um að fá hönnuð, til þess að teikna upp það sem stefnandi hafi haft í huga enda hafi það verið inní tilboði því sem gefið hafi verið. Stefndi Þorsteinn var skráður sem byggingarstjóri verksins, en á þeim tíma sem verkið var unnið var hann ekki með gilda starfsábyrgðartryggingu. Stefndu kveða að einungis hafi verið um að ræða áætlun og þar komi ekki fram að stefndi Kvistfell hafi ætlað að fá tilskilin leyfi eða láta gera teikningar vegna breytinga eins og haldið er fram í stefnu. Þó komi fram í samskiptum aðila á einum stað að stefndi Kvistfell áætli kr. 250.000 í teikningar en ekki hafi orðið af því að stefndi Kvistfell tæki að sér þann þátt í framhaldinu heldur hafi viðsemjendur hans annast þann þátt og greitt fyrir þær teikningar og útvegað þær.   Stefndi Kvistfell hafi enda engan reikning gert vegna þessa verkþáttar.

            Stefndi Kvistfell hófst handa við verkið í maí 2012 og var gert ráð fyrir að því lyki í september sama ár. Verkið gekk hægar en stefnandi kveðst hafa gert ráð fyrir  sem varð til þess að stefnandi kveðst hafa krafist þess að fá húsið afhent um miðjan desember 2012, en stefndu kveða að þá hafi ekki legið annað fyrir en að stefndu héldu áfram vinnu við húsið með vorinu. Stefnandi gerði einnig á sama tíma athugasemdir við vinnubrögð en stefndi Þorsteinn kvaðst eingöngu hafa verið með lærða smiði og vana menn við störf fyrir stefnanda. Óskaði stefnandi eftir því að stefndi Kvistfell ynni ekki við verkið frekar fyrr en gert væri grein fyrir áföllnum kostnaði við verkið ásamt sundurliðun um það hvaða verkliðir hefðu farið fram úr áætlun og hversu mikið. Stefndi Þorsteinn sendi kostnaðaryfirlit með tölvupósti þann 27. febrúar 2013, þ.e. samantekt yfir kostnaðarliði ásamt handskrifuðum vinnuseðlum. Heildarfjöldi vinnustunda stafsmanna stefnda Kvistfell við verkið nemur 2.555 tímum. Þrátt fyrir óskir stefnanda barst ekki sundurliðun um það hvaða verkliðir hefðu farið fram úr áætlun.

            Heildarkostnaður við verkið og aukaverk þann 27. febrúar 2013 nam samkvæmt tölvupósti stefnda Þorsteins f.h. stefnda Kvistfells til stefnanda samtals kr. 20.347.385,- m/vsk. þar af kostnaður vegna vinnu kr. 13.286.000,- auk kostnaðarliða vegna aksturs, fæðis og vélaleigu kr. 922.932,-. Efniskostnaður nam kr. 6.138.453,-. Samkvæmt sama tölvupósti stefnda Þorsteins f.h. stefnda Kvistfells hafði stefnandi þegar greitt stefnda Kvistfelli kr. 13.362.690,-. vegna verksins sem stefnandi telur að eigi að vera kr. 13.862.690,-. Síðasti reikningur sem stefnandi greiddi stefnda Kvistfelli nam kr. 3.487.000. Á þessum tíma var verkinu ekki lokið.

            Fyrrum eiginmaður stefnanda, Ágúst Guðmundsson, fékk tvo húsasmíðameistara, Bergsvein Halldórsson og Jón H. Gíslason, til þess að mæla upp allar framkvæmdir og kostnaðarmeta. Þeir skiluðu úttektarskýrslu þann 4. apríl 2013. Húsasmíðameistararnir komst að þeirri niðurstöðu að hæfilegur kostnaður vegna vinnu, ferða, fæðis og efnisflutnings væri samtals kr. 4.370.401. Í úttektarskýrslunni er gert ráð fyrir álagi vegna aðstæðna á verkstað. Við uppmælingu Bergsveins og Jóns, sem framkvæmd var þann 30. mars 2013, komu einnig í ljós ýmsir gallar sem þeir töldu að athuga þyrfti nánar.

            Í framhaldi af því að stefnandi fékk úttektarskýrslu húsasmíðameistaranna var sú krafa sett fram til stefnda Þorsteins að tiltekin atriði yrðu tekin til skoðunar áður en hugað yrði að uppgjöri. Þann 10. apríl 2013 barst stefnanda tölvupóstur frá stefnda Þorsteini þar sem hann setur fram skýringar, sem að mati húsasmíðameistaranna Bergsveins og Jóns eru ótrúverðugar.

            Þann 15. apríl 2013 hafði stefnandi samband við Guðjón Þórisson hjá byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps og tjáði honum að talið væri að undirstöður byggingarinnar væru að hluta til vafasamar og hvort hann hafi litið á þær eða gert úttekt. Taldi Guðjón allar slíkar áhyggjur óþarfar, enda hefði hann litið á framkvæmdirnar og allt verið í lagi. Þar sem stefnandi vildi ekki una við þetta mat hafði hann samband við Helga Kjartansson, byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, og greindi honum frá stöðu málsins ásamt því að senda honum ljósmyndir af undirstöðum og þaki Kjalbrautar 7.  Byggingarfulltrúinn skoðaði verkið þann 24. apríl 2013 og skilaði skoðunarskýrslu, dags. 3. júní 2013. Niðurstaða byggingarfulltrúa var sú að ýmsu væri ábótavant.

            Þann 17. maí 2013 sendi stefnandi formlegt bréf til stefnda Þorsteins og óskaði eftir sundurliðuðum skýringum á því hvers vegna kostnaðurinn við verkið hefði farið fram úr því sem hann hafði talið vera tilboð, ásamt því að greina frá þeim göllum sem stefnandi taldi vera á verkinu. Stefndi Þorsteinn svaraði með tölvupósti, dags. 20. maí 2013, þar sem fram kemur að verkið hafi verið mun umfangsmeira en lagt hafi verið af stað með í upphafi og vísaði í því sambandi til vinnuseðla ásamt því sem hann fór yfir verkið í heild sinni. Stefndi Þorsteinn bauðst ekki til að bæta úr göllum á verkinu.

            Stefndi Kvistfell sendi stefnanda innheimtubréf 9. júlí 2013. Í bréfinu er gerð krafa um greiðslu á kr. 6.119.153.

            Í kjölfar innheimtubréfs þessa lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns, dags. 30. september 2013, fyrir Héraðsdómi Suðurlands, í því skyni að verjast kröfu stefnda Kvistfells, sem stefnandi taldi óréttmæta. Matsmaður var annars vegar beðinn um að staðreyna hvort endurgjald það sem stefndi Kvistfell krafðist greiðslu á fyrir verkið eins og skilið var við það í desember 2012 hafi verið hæfilegt m.v. umfangs þess og gæði og hins vegar að staðreyna meinta galla á verkinu.

            Þann 21. október 2013 var Björn Gústafsson, byggingatækni- og byggingafræðingur dómkvaddur sem matsmaður og liggur fyrir matsgerð hans, dags. 14. október 2014.

            Niðurstaða matsmanns um hvað teljist hæfilegt og sanngjarnt endurgjald, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup (hér eftir „lög um þjónustukaup“), fyrir vinnu stefnda Kvistfells, starfsmanna þess og undirverktaka vegna verksins og 32 aukaverka eins og við var skilið í desember 2012 nemur kr. 7.590.000,- m/vsk. Þar sem akstur og fæðis var ekki getið sem sérliðar í upphaflegu tilboði stefnda Kvistfells til stefnanda telur stefnandi ekki skilyrði fyrir því að leggja 10% ofan á fjárhæðina eins og matsmaður gerir. Hvað varðar galla kemst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að samtala þeirra liða nemi kr. 950.730,- m/vsk.

            Þegar niðurstaða matsmanns lá fyrir sendi stefnandi kröfubréf til stefndu þar sem þess var krafist að þeir greiddu stefnanda in solidum skaðabætur vegna galla á hönnunar- og byggingarvinnu samkvæmt efni matsgerðarinnar. Krafa stefnanda var samtals að fjárhæð kr. 950.730,- m/vsk. vegna umræddra galla. Einnig var krafist bóta vegna þess kostnaðar sem stefnandi hafði lagt út í innheimtu stefndu og til að staðreyna galla á verkinu vegna vinnu stefnda Kvistfells við verkið, og stefnda Þorsteins sem byggingarstjóra. Var þar annars vegar um að ræða lögmannskostnað og kostnað vegna þingfestingar matsbeiðna samtals að fjárhæð kr. 1.492.198,- og hins vegar kostnað við matsgerð að fjárhæð kr. 1.242.164. Upphaflegt kröfubréf var sent til stefndu 21. október 2014 en leiðrétt kröfubréf hinn 27. október 2014. Nam krafa gagnvart báðum stefndu in solidum samtals kr. 3.685.092,- samkvæmt hinu leiðrétta kröfubréfi. Auk þess var sérstök krafa gerð á hendur Kvistfelli vegna ofrukkunar sem samkvæmt kröfubréfinu samtals nam kr. 169.435.

            Kröfum stefnanda var hafnað af hálfu lögmanns beggja stefndu, með vísan til þess að ekki hafi verið samið um fast verð eða gert tilboð, að stefndu hefðu ekki fengið tækifæri til að ljúka verkinu og með vísan til meints úrbótaréttar stefndu.

            Stefndu benda stefndu á að allir reikningar sem stefndi Kvistfell sendi hafi verið greiddir án athugasemda uns síðasti reikningur var lagður fram í mars 2013. Eftir að sá reikningur var gerður hafi viðsemjendur stefnda Kvistfells sent bréf dagsett 17. maí 2013, þar sem fyrst hafi komið fram athugasemdir við þá áætlun sem gerð hafi verið í upphafi.

            Þá kveða stefndu að viðsemjendur Kvistfells hafi fylgst vel með verkinu allan verktímann án þess að gera athugasemdir við verklag eða vinnustundir eða þann kostnað sem upp hafi safnast. Að mati stefnda Kvistfells sýni þetta að viðsemjendur félagsins hafi verið sáttir við verkið fram að ákveðnum tímapunkti, en eftir það hafi komið upp ósætti milli viðsemjenda hans sem hafi leitt málið inn á þá braut sem það síðan þróaðist í.

            Stefndu ítreka að verkinu hafi ekki verið lokið þegar viðsemjendur Kvisfells óskuðu eftir því að vinnu yrði hætt og hafi stefnda Kvistfelli því ekki verið annar kostur en að fara frá verkinu ókláruðu og ekki gefist kostur á að ljúka verkinu eða bæta úr því sem hugsanlega hafi átt eftir að yfirfara og laga.

 

            Málsástæður og lagarök stefnanda.

            1. Stefndi Kvistfell gaf tilboð í verkið – Aukaverk og 28. gr. laga um þjónustukaup

            Stefnandi byggir á því að stefndi Þorsteinn, f.h. stefnda Kvistfells, hafi gert sundurliðað tilboð í verkið með tölvupósti hinn 28. febrúar 2012. Tilboðið hafi hljóðað upp á kr. 10.534.000,- m/vsk. Þar af hafi áætlaðir kostnaðarliðir vegna vinnu verið kr. 6.272.000,-. Tilboðið hafi verið án fyrirvara. Samkvæmt því sem fram hafi komið í tölvupóstinum hafi kostnaðurinn samkvæmt tilboðinu átt að vera ríflega áætlaður og að „engar líkur á að þetta hækki, heldur verði um lækkun að ræða“. Með tölvupósti dags. 2. mars 2012 hafi stefnandi samþykkt tilboðið. Hafi þá verið kominn á samningur milli aðilanna í skilningi almennra reglna samningaréttarins, auk VII. kafla laga um þjónustukaup.

            Óumdeilt sé að við verkið hafi bæst aukaverk í samtals 32 liðum, og taki verðmat í hinni dómkvöddu matsgerð mið af því. Þar sem ekki hafi sérstaklega verið samið um verð fyrir umrædd aukaverk telji stefnandi að um verðlagningu þeirra hafi átt að fara samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup. Þrátt fyrir umrædd aukaverk sé ljóst af hinni dómkvöddu matsgerð að það endurgjald sem stefndi Kvistfell hafi krafist fyrir verkið hafi verið verulega umfram það sem sanngjarnt myndi ætla, og langt umfram það tilboð sem gefið hafi verið í verkið, að teknu tilliti til þeirra aukaverka sem síðar hafi bæst við.

            Þess beri að geta að í tölvupósti stefnanda, dags. 2. mars 2012, komi skýrt fram sá skilningur hennar að um tilboð hafi verið að ræða. Hafi stefnda Þorsteini, sem fyrirsvarsmanni stefnda Kvistfells, borið að leiðrétta það við stefnanda strax í upphafi ef einungis væri um að ræða kostnaðaráætlun. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi stefnandi mátt með réttu líta svo á að um hafi verið að ræða tilboð og að með samþykki hennar hafi komist á bindandi samningur milli aðila.

2.         Stefndu hvorki áttu né eiga rétt á að fá að ljúka verkinu

            Eins og samskiptasaga stefnanda og stefndu gefi til kynna hafi stefnandi haft fullt tilefni til þess að óska eftir afhendingu bústaðarins í desember 2012, þrátt fyrir að verkinu væri ólokið. Hafi verkið þá dregist úr hófi, kostnaður hlaðist upp og stefnandi verið verulega óánægð með vinnubrögð stefndu.

            Nú sé svo komið að stefnandi hafi þurft að verjast óréttmætum kröfum stefnda Kvistfells með dómkvaðningu matsmanns og neyðist til að sækja rétt sinn, sem staðfestur hafi verið með umræddri matsgerð, með atbeina dómstóla. Hafi mál þetta tekið verulega langan tíma og haft mikil áhrif á hagi stefnanda. Verði ekki séð að stefndu geti átt rétt til að ljúka verkinu, hvorki nú né á þeim tíma sem óskað hafi verið eftir því að stefndu afhendu bústaðinn til stefnanda í desember 2012.

3.         Tjón stefnanda

            Stefnandi telur að stefndu beri in solidum skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Tjón stefnanda sé tvíþætt og skiptist annars vegar í tjón vegna galla á hönnunar- og byggingarvinnu og hins vegar í fjártjón sem stefnandi hafi sannanlega orðið fyrir við að sannreyna galla á verki stefndu og verjast hinni óréttmætu kröfu sem stefndi Kvistfell hafi sett fram gagnvart stefnanda með innheimtubréfi, dags. 9. júlí 2013. Krafan sundurliðist með eftirfarandi hætti á hendur Kvistfelli:               

Galli skv. matsgerð                                               950.730,-

                Lögmannskostnaður                                         1.437.048,-

                Kostnaður vegna matsgerðar                          1.242.164,-

                Samtals:                                                              3.629.942,-

Á hendur stefnda Þorsteini sundurliðist krafan með eftirfarandi hætti:

Galli skv. matsgerð                                            950.730,-

                Lögmannskostnaður ½                                    718.524,-

                Kostnaður vegna matsgerðar ½      621.082,-

                Samtals:                                                              2.290.336,-

            Stefndi Kvistfell sé krafið um heildarfjárhæðina en með stefnda Þorsteini in solidum hvað varði fjárhæð vegna gallans skv. hinni dómkvöddu matsgerð og helming af lögmannskostnaði og helming af kostnaði vegna matsgerðar, sbr. nánar liður B hér að neðan.

            Gerir stefnandi eftirfarandi nánari grein fyrir kostnaðarliðum.

A.        Krafa um greiðslu skaðabóta samkvæmt matsgerð – Úrbótaréttur stefndu ekki fyrir hendi.

            Samkvæmt niðurstöðu matsmanns um mat á galla á hönnun og byggingarvinnu sem rakin sé í hinni dómkvöddu matsgerð, nemi galli á verkinu, og þar með tjón stefnanda vegna gallans, samtals kr. 950.730,- með vsk. og sé þar sundurliðað með eftirfarandi hætti:

                                                                                              Efni                        Vinna                    Upphæð

1.         Hverju á eftir að skila til fulltrúa                                                                       300.000 300.000

2.         Frágangur á þakjárni hliðarbyggingar                               26.100                   28.000                   54.100

3.         Undirstöður undir hliðarbyggingu                       10.500                   15.000                   25.500

4.         Undirstöður undir stækkun og endurnýjunar

á palli                                                                   138.600 171.000 309.600

5.         Frágangur á palli                                                    17.600                   47.000                   64.600

6.         Frágangur á rafmagnsröri í millivegg                 5.820                     9.000                     14.820

7.         Frágangur fjala í veggklæðningu                        2.910                     5.000                     7.910

8.         Rétting hússins                                                                       50.000                   100.000 150.000

9.         Málun á vindskeiðum                                                          8.200                     16.000                   24.200

SAMTALS                                                                          259.730 691.000 950.730

Verktaki hafi verið stefndi Kvistfell og verði hið stefnda félag því að bera fébótaábyrgð á umræddum göllum samkvæmt 15. gr. laga um þjónustukaup og almennum reglum skaðabótaréttar. Þá hafi stefndi Þorsteinn verið byggingastjóri verksins og verði sem slíkur að bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt sömu reglum, auk 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Á meðan á verktíma stóð hafi stefndi Þorsteinn ekki verið með í gildi starfsábyrgðartryggingu, svo sem honum hafi borið skv. 8. mgr. 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 5. gr. reglugerðar nr. 271/2014 um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra. Byggir stefnandi á að stefndu eigi að bera óskipta ábyrgð á tjóni stefnanda, sem sannreynt hafi verið með matsgerð.

            Svo sem stefnandi hafi gert grein fyrir hafi lögmaður beggja stefndu haldið því fram að stefndu eigi rétt á að bæta úr þeim ágöllum sem verið hafi á verkinu, og hafi kröfum stefnanda um greiðslu skaðabóta verið hafnað á þeim grundvelli.

            Stefnandi telur að úrbótaréttur stefndu sé niður fallinn. Þessu til stuðnings bendir stefnandi meðal annars á að hefðu stefndu viljað nýta sér úrbótarétt þá hafi þeim verið í lófa lagið að gera það á fyrri stigum málsins. Stefnandi telur að úttektarskýrslan frá 4. apríl 2013 og niðurstaða byggingarfulltrúa frá 3. júní 2013, auk bréfs stefnanda frá 17. maí 2013 þar sem tilkynnt hafi verið um galla, skv. 17. gr. laga um þjónustukaup, hafi verið nægt tilefni fyrir stefndu til þess að bjóða fram úrbætur skv. 16. gr. laga um þjónustukaup. Það hafi þeir hins vegar ekki gert. Telur stefnandi að með því að láta hjá líða að bjóða fram úrbótarétt á þessum tímapunkti hafi stefndu fyrirgert rétti sínum til úrbóta.

            Samkvæmt 16. gr. laga um þjónustukaup sé úrbótaréttur seljanda þjónustu takmarkaður á þann veg að bjóði seljandi fram úrbætur geti kaupandi ekki krafist afsláttar eða rift samningi  „enda sé bætt úr galla innan sanngjarns frests og án kostnaðar eða verulegs óhagræðis fyrir neitandann“. Í skýringum ákvæðisins í greinargerð með frumvarpi segi meðal annars:

            „Seljandi verður að bjóða úrbætur án óþarfa dráttar eða um leið og hann fær tilkynningu frá neytanda um galla.

[...]

    Ef seljandi býðst til að bæta úr verður neytandi að sætta sig við það nema það valdi neytanda verulegu óhagræði og kostnaði eða hann hafi sérstakar ástæður til að neita seljanda þjónustunnar um að taka að sér að bæta úr gallanum.

[...]

    Úrbætur verður að gera innan sanngjarns tíma. Sá tími hefst þegar neytandi hefur tilkynnt seljanda um gallann, sbr. einnig 17. og 18. gr.

[...]   

    Neytandi hefur heimild til að hafna úrbótum seljanda af sérstökum ástæðum. Neytandi getur synjað seljanda um að bæta úr ef seljandi hefur reynst ófær um að vinna verkið, ef verulegt ósamkomulag er milli aðila eða ef seljandi hefur ekki staðið við umsamin tímamörk.“

Það hafi verið fyrst í nóvember 2014 sem lögmaður stefnda hafi minnst á úrbótarétt stefndu án þess þó að bjóða stefnanda hann formlega. Með hliðsjón af 16. gr. laga um þjónustukaup og skýringum með því ákvæði megi ætla að stefndu hefðu mun fyrr átt að bjóða fram úrbætur, vildu þeir raunverulega nýta sér þann rétt. Þar sem enn hafi ekki sannarlega verið boðinn fram úrbótaréttar af hálfu stefndu sé hann niður fallin. Auk þessa megi af samskiptum aðila, sem gerð hafi verið grein fyrir í málavaxtalýsingu og fái stoð í gögnum málsins, ljóst vera að stefnandi hafi sérstakar ástæður í skilningi 16. gr. laga um þjónustukaup til þess að neita stefndu um úrbótarétt.

            Fjárhæð galla á verkinu samkvæmt matsgerð sé samtals kr. 950.730,- með vsk. Ekki sé tilefni til þess að draga frá kröfunni virðisaukaskatt af vinnuliðum þar sem bráðabirgðaheimild sumarhúsaeiganda til þess að sækja um slíka endurgreiðslu frá ríkinu hafi fallið niður þann 1. janúar 2015, sbr. lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og reglugerð 449/1990 um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

B.        Krafa um bætur fyrir útlagðan kostnað

            Stefndi Kvistfell hafi sent stefnanda innheimtubréf, dags. 9. júlí 2013, þar sem tilkynnt hafi verið að fjárkrafa yrði innheimt með atbeina dómstóla ef ekki yrði greitt innan 7 daga frá dagsetningu bréfsins. Á þeim tíma hafi stefnandi talið sig hafa fullgreitt fyrir verk stefnda, og ríflega það, auk þess sem fyrir hafi legið að gallar væru á verkinu, sem tilkynntir hafi verið til stefndu. Stefnandi hafi átt engra annarra kosta völ en að afla mats á verðmæti vinnu Kvistfells til að verjast hinni óréttmætu kröfu og til að staðreyna umrædda galla. Kostnaður við matið hafi numið kr. 1.242.164,- og verið greiddur af stefnanda.

            Þegar matsgerð hins dómkvadda matsmanns hafi legið fyrir hafi verið ljóst að stefnandi hafi haft rétt fyrir sér, þ.e. að krafa Kvistfells væri óréttmæt, auk þess sem matsgerðin staðfesti galla sem stefnandi hafi tilkynnt stefndu um.

            Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að leita atbeina lögmanns í því skyni að gæta hagsmuna sinna gagnvart stefndu. Hafi stefnandi þurft að leggja út í lögmannskostnað vegna matsbeiðna, reksturs matsmáls og samskipta við stefndu og lögmann þeirra. Nemi útlagður kostnaður vegna lögmannskostnaðar stefnanda samtals kr. 1.437.048,-.

            Ofangreindur kostnaður sem stefnandi hafi þurft að leggja út fyrir hafi verið nauðsynlegur í því skyni að verjast hinni óréttmætu kröfu stefnda Kvistfells. Þá hafi hann einnig verið nauðsynlegur til að sýna fram á galla á umræddu verki sem báðir stefndu hafi borið sameiginlega ábyrgð á. Hafi stefnandi sannarlega orðið fyrir fjártjóni vegna þessa. Verði stefndu að bera óskipta fébótaábyrgð á þessu tjóni stefnanda.

            Krafa á hendur stefnda Þorsteini nemi helmingi fjárhæðar hins útlagða kostnaðar enda telji stefnandi það rétt, hóflegt og sanngjarnt þegar litið sé til þess að hluti kostnaðarins hafi farið í það að verjast óréttmætum reikningi Kvistfells og hluti í það að leiða skaðabótakröfuna fram á hendur Þorsteini sem byggingarstjóra og Kvistfelli.

C.        Krafa um dráttarvexti

            Krafa um dráttarvexti sé sett fram mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs stefnanda til stefndu sem dags. hafi verið 27. október 2014, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 28/2001.

                Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, einkum 9. gr., 15. gr., 16. gr. og 17. gr. sem og VII. kafla. Eins vísar stefnandi til laga nr. 160/2010 um mannvirki, einkum 29. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar, almennra reglna samningaréttar og almennra reglna kröfuréttar. Krafa um dráttarvexti er studd við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 9. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styður stefnandi við ákvæði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu

Málsástæður og lagarök stefndu.

Aðalkrafa  stefndu um sýknu

Úrbótaréttur seljanda og byggingastjóra. Verkinu ekki lokið.

Stefndu mótmæla því sem röngu og ósönnuðu að verk það sem stefndi Kvistfell vann hafi verið haldið galla.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að verki því sem stefndi Kvistfell annaðist hafi ekki verið lokið þegar viðsemjendur Kvistfells hafi stöðvað framkvæmdir og rift samningi aðila einhliða með því að óska ekki eftir frekara vinnuframlagi af hendi félagsins.

Stefnandi geti ekki byggt kröfur sínar á matsgerð þeirri sem fram hafi verið lögð í málinu, en “gallaþáttur” matsgerðarinnar  byggi á 9 liðum sem vinnu hafi ekki verið lokið við.

Stefndi Kvistfell hafi boðist til að ljúka verkinu og bæta þar með úr hinum meintu “göllum” sem falist hafi í ókláruðum verkliðum,  en stefnandi hafi alfarið hafnað allri aðkomu stefnda Kvistfells að frekari framkvæmdum. Þetta sjáist í tölvupóstum lögmanna, en þar segi í svari lögmanns stefnanda að umbjóðandi hans geti ekki hugsað sér  að stefndi Kvistfell framkvæmi úrbætur á sumarhúsinu eins og það sé orðað. Úrbótarétti stefnda Kvistfells, sem í raun felist í því að ljúka verkinu, hafi því verið hafnað á ólögmætan hátt af hálfu stefnanda.

Þá benda stefndu á að þeir liðir sem metnir séu sem galli og þarfnist frekari vinnu séu veigalitlir og einn liður taki til atriða sem ekki hafi verið samið um að stefndi Kvistfell annaðist.  

Samkvæmt framlagðri matsbeiðni hafi verið óskað eftir að alls 14 liðir yrðu metnir þar sem sett hafi verið út á ýmsa hluti og þeir ekki taldir í lagi. Matsmaður meti 9 af þessum 14 liðum til einhvers verðs, sem sýni að ekki hafi verið stoð undir tæpum helmingi þeirra matsspurninga sem krafist hafi verið mats á.

Fyrsti liðurinn í matinu snúi að því hverju eigi eftir að skila til fulltrúa eins og það er orðað í matsgerð og sé sá liður metinn á kr. 300.000 eða um 1/3 af því sem talið sé til meintra galla við húsið. Hvað þennan lið varðar bendi stefndi Kvistfell einfaldlega á að ekki hafi verið samið um að Kvistfell annaðist þetta verk.

Fram komi á einum stað í öllu samskiptaferli aðila að Kvistfell hafi áætlað kr. 250.000 fyrir teikningar. Ekki hafi orðið af því að Kvistfell kæmi að teikningum, enda hafi kostnaður vegna teikninga aldrei verið innheimtur. Viðsemjendur Kvistfells hafi sjálf séð um að útvega teikningar og greitt fyrir þann þátt til þess aðila sem þau hafi samið beint við.

Ótrúlegt sé að stefnandi krefji um mat á atriði sem ekki hafi verið samið um að stefndi Kvistfell annaðist. Ef stefndi Kvistfell hefði átt að afla þessara gagna og kosta hefði þurft að semja um þá hluti og þá hefði stefndi innheimt þann kostnað úr hendi viðsemjenda sinna. Viðsemjendur stefnda Kvistfells hafi sjálf lagt fram teikningar af húsinu og þeim breytingum sem hafi átt að gera. Á verktímanum hafi þrívegis verið lagðar fram nýjar teikningar sem stefndi Kvistfell hafi unnið eftir eins og mögulegt var. Sjáist af þessu að verkið hafi sífellt verið að breytast. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að stefndi Kvistfell hafi átt að annast þennan lið sem metinn sé í matsgerð sem galli. Hvergi komi fram að þetta hafi verið umsamið enda hafi stefndi Kvistfell ekki innheimt gjald fyrir þennan lið. Þessum lið sé mótmælt sem tilhæfulausum.

Þá séu aðrir liðir í matinu veigalitlir og hefði verið auðvelt að ljúka ef stefnda Kvistfelli hefði verið gefið færi á að ljúka verkinu. 

Liður nr. 12 sé t.d. upp á kr. 7.910.

Liður nr. 14 sé málun upp á kr. 24.200.   

Stefnandi sé hér að láta meta  ólokið verk, málun vindskeiðar, sem galla.

Kveða stefndu þetta allt með ólíkindum.

Liður nr. 5., sem sé stærsti liðurinn hvað meinta galla varðar, sé um undirstöður undir stækkun og endurnýjun á palli sem ekki hafi verið lokið. 

Hvað þennan lið varðar tekur stefndi Kvistfell fram að í upphafi hafi stefndi Kvistfell steypt súlur fyrir framan húsið undir nýjan sólpall í rétta hæð eins og húsið hafi þá staðið. Sé hér um fullkomlega eðlilegt verklag að ræða. Hafi verið reiknað með að hægt yrði að tengja nýjan sólpall beint framan á húsið þannig að þetta passaði vel saman.

Þegar gamli sólpallurinn hafi verið rifinn hafi komið í ljós að húsið hafi verið  sigið niður að framan og því frekari framkvæmdir til afréttunar nauðsynlegar. Hafi þá verið ákveðið að rífa ekki gamla sólpallinn strax þar sem viðsemjendur Kvistfells hafi verið að nýta húsið á þessum tíma.

Húsið hafi verið það mikið sigið að ekki hafi komið annað til greina en að rétta það af, enda hafi viðsemjendur stefnda Kvistfells óskað eftir að það yrði gerð.

Tjakka hafi þurft húsið upp og hafi tréfleygar verið settir undir húsið á símastaura sem húsið hafi staðið á. Eftir að húsið hafi verið orðið rétt hafi steyptu súlurnar verið orðnar lægri en æskilegt var. Til að jafna þetta hafi verið gerðar bráðabirðaráðstafnir til að pallurinn passaði við húsið. Í þessu horfi hafi húsið verið metið.

Endanlegur frágangur á festingum og hækkunum á súlum hafi ekki verið inntur af hendi þegar viðsemjendur stefnda Kvistfell hafi óskað eftir að félagið hætti verkinu.

Verk geti ekki talist gallað þegar því er ólokið.  

Þessi liður, sem metinn sé sem “rétting hússins fullnægjandi”, sé metinn á kr. 150.000.

Kostnaðurinn sé sá kostnaður sem felist í því að ljúka réttingu, eins og hafi átt eftir að gera.

Kveðast stefndu mótmæla sem röngum og ósönnuðum öllum þeim 9 liðum sem metnir séu sem galli.

Stefndu hafna því alfarið að um galla sé að ræða og ítreka að verkinu hafi ekki verið lokið.

Þá hafna stefndu því að lög um þjónustukaup nr. 42/2000 eigi við um viðskipti aðila.   

Þó svo réttarsamband aðila eigi undir lögin um þjónustukaup þá breyti það engu um réttarstöðu stefndu á neinn hátt.

Stefndu benda á að viðsemjendur stefnda Kvistfells hafi auk stefnanda verið Ágúst Guðmundsson verkfræðingur sem reki fyrirtækið Jarðfræðistofuna ehf.   

Hafi stefndi Kvistfell unnið verk fyrir það félag á sama tíma og unnið hafi verið við það verk sem mál þetta snúist um. Hafi verið gefnir út 3 reikningar  á hendur Jarðfræðistofunni ehf. samtals að fjárhæð kr. 2.875.690. Lög um þjónustukaup geti því ekki átt við um réttarsamband aðila þessa máls með vísan til þessa.

Viðsemjendur Kvistfells hafi allan tímann fylgst með verkinu án þess að gera athugasemdir, hvorki við verklega framkvæmd né við framlagða reikninga fyrr en undir lok verksins er gerð hafi verið athugasemd við síðasta reikning sem stefndi Kvistfell hafi lagt fram. Sá reikningur sé enn ógreiddur.

Það verið fyrst í maí 2013 eftir útgáfu reiknings nr. 1761 sem fram hafi komið athugasemdir af hálfu viðsemjenda stefnda Kvistfells og þess krafist að verkið yrði stöðvað. Koma þessar athugasemdir fram á bréfi stefnanda og eiginmanns hennar til stefnda Þorsteins, dags. 17. maí 2013.

Stefndi Kvistfell hafi því ekki fengið að ljúka verkinu, eða bæta úr því sem kvartað hafi verið um.

Slíkan rétt sé að finna í almennum reglum kröfuréttar og þá sé þessa reglu einnig að finna í 11.-12. grein laga um þjónustukaup.

Stefndi Kvistfell hafi átt óvéfengjanlegan rétt á að bæta úr því sem kvartað hafi verið yfir skv. almennum reglum hafi einhverju verið ábótavant við verkið.

Stefndu ítreka að engum skriflegum verksamningi hafi verið til að dreifa um verkið. 

Eftir að áætlun hafi verið lögð fram hafi komist á munnlegur samningur aðila sem í raun hafi þróast eftir því hvernig verkið sjálft hafi breyst og bregðast hafi þurft við þeim aðstæðum sem upp hafi komið á verkstað.

Viðsemjendur stefnda Kvistfells hafi kosið að rifta samningi aðila og hafna því að stefndi Kvistfell fengi að ljúka verkinu hvað þá að bæta úr því sem kvartað hafi verið yfir.

Á þessu beri viðsemjendur stefnda Kvistfells ehf. fulla ábyrgð og þar af leiðandi stefnandi þessa máls. Stefnandi geti ekki byggt rétt sinn til bótakröfu vegna liða sem ekki hafi verið búið að ljúka eða ekki verið umsamið að stefndi Kvistfell annaðist. Skaðabótakrafan byggist í raun á kostnaðarmati hvað kosti að ljúka ákveðnum verkþáttum.

Stefnukröfum stefnanda sé því mótmælt með vísan til ofangreindra raka.

Kröfum stefnanda um greiðslu skaðabóta samkvæmt matsgerð með vísan til þess að útbótaréttur sé ekki fyrir hendi, eins og segi í stefnu, sé því alfarið hafnað sem röngum og ósönnuðum.  

Skaðabótakrafa stefnanda hvað meinta galla varðar er að fjárhæð kr. 950.730.

Til staðar hafi verið verksamningur sem upphaflega hafi byggst á framlagðri áætlun. Sú áætlun hafi breyst mikið og í framhaldinu hafi verið samið munnlega um þá þætti sem hafi breyst og bæst við. Þeim verksamningi hafi verið rift einhliða af hálfu viðsemjenda Kvistfells ehf. Ekki sé hægt að byggja á öðru en þeim munnlega verksamningi sem verkið hafi að mestu byggt á. Stefnandi hafi ekki rétt á að rifta samningi einhliða og hafna úrbótarétti í kjölfarið, úrbótarétti sem í raun snúi að því að ljúka verkinu en ekki bæta úr göllum.

Þá benda stefndu á að sú upphæð sem sett er fram í stefnu sem skaðabótakrafa að fjárhæð kr. 950.730 sé með virðisaukaskatti á vinnuliði. Vinnuliðir nemi samkvæmt matsgerð kr. 691.000. Ekki sé tekið tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts á vinnu á byggingastað sem sé í dag 60% eða kr. 140.412. Sú upphæð sem krafið sé um standist því ekki með tilliti til þessa. Tjónþoli eigi ekki að vera betur settur en sem nemi meintu tjóni. Skaðabótakröfunni sé því sérstaklega mótmælt með vísan til þessa þar sem hún sé einfaldlega rangt fram sett.

Sjónarmið um ósanngjarnt endurgjald og þörf á matsgerð

Hvað varði þau sjónarmið stefnanda að stefndi Kvistfell hafi krafist ósanngjarns endurgjalds fyrir vinnu sína þá sé þeirri kröfu mótmælt sem rangri og ósannaðri.

Ljóst sé að það endurgjald sem stefndi Kvistfell hafi krafið viðsemjendur sína um sé ekki umfram þær upphæðir sem matsgerð hljóði uppá sem hæfilegt endurgjald fyrir vinnu þá sem unnin hafi verið og fyrir efniskostnaði. Þvert á móti séu upphæðir þær sem Kvistfell hafi krafið um lægri.

Samkvæmt framlagðri matgerð nemi vinnuliðir kr. 7.590.000, sem sé þá hið hæfilega endurgjald sem hægt sé að miða við.  

Reyndar bæti matsmaður við fjárhæð að upphæð kr. 759.000 sem sé vegna ferða, fæðis og ófyrirséðs kostnaðar. Samtals sé niðurstöðuupphæð matsmanns því kr. 8.349.000 fyrir vinnuliði. Stefnandi kjósi að miða við þá upphæð sem fram komi í matsgerð án þessa þáttar.

Þessar upphæðir hljóti að vera þær viðmiðunarupphæðir sem stefnandi geti stuðst við hvað varðar vinnuliðinn í verkinu. Efniskostnaður nemi hið minnsta kr. 6.138.453 skv. upplýsingum stefnda Kvistfells. Stefnandi hafi ekki mótmælt þeirri upphæð sem of hárri. Matsgerð fjalli eingöngu um vinnuliði, ekki efnisliði sem þó hefði verið eðlilegt að fara fram á að meta en matsbeiðendur hafi einhverra hluta vegna kosið að óska ekki eftir mati á þeim.  

Samtals nemi því heildarupphæð vinnuliðar skv. matsgerð og efniskostnaður kr. 13.728.453. Reikningar sem stefndi hafi gefið út á hendur stefnanda nemi kr. 13.326.690.  

Stefndi Kvistfell hafi gefið út 3 reikninga vegna verksins, þ.e. reikninga nr. 1729, 1734 og reikning nr. 1761, sem liggi fyrir í málinu.

Samtals nemi upphæðir þessara reikninga kr. 13.326.690, efni og vinna. 

Því sé ljóst að útgefnir reikningar á hendur stefnanda séu lægri sem nemi kr. 401.863, miðað við þær upphæðir sem fram komi í matsgerð.

Því sýni framlögð matsgerð ekki fram á annað en að þeir reikningar sem gefnir hafi verið út séu lægri en framlögð matsgerð kveði á um sem hæfilegt verkgjald, auk efniskostnaðar.

Kröfum stefnanda að henni hafi verið nauðsynlegt að afla gagna til að verjast óréttmætum kröfum stefnda Kvistfells sé því hafnað með vísan til þessa.

Matsgerð sýni ekki fram á að endurgjald hafi verið óréttmætt og því geti stefnandi ekki byggt skaðabótakröfu sína á kostnaði við öflun matsgerðar né á lögmannskostnaði í tengslum við málið.

Kröfunum sé því mótmælt sem röngum og ósönnuðum þar sem ekki hafi verið þörf á að leggja út í þennan kostnað.

Stefndi Kvistfell vill vekja athygli á að stefnandi hafi talið, fyrst eftir að matsgerð hafi legið fyrir, að hún hefði ofgreitt kr. 6.292.690, sbr. bréf frá lögmanni stefnanda, dags. 22.10 2014. Þetta bréf hafi í kjölfarið verið leiðrétt þar sem ekki hafi verið tekið tillit til efniskostnaðar sem stefndi Kvistfell hafi lagt út fyrir.   

Kveða stefndu þetta sýna að stefnandi virðist ekki hafa fylgst með hvernig mál þróuðust enda ljóst að Ágúst Guðmundsson og Jarðfræðistofan ehf. hafi fylgst með framvindu verksins á verktíma.

Komi fram í síðastgreindu bréfi að stefnandi hafi það til alvarlegrar skoðunar að tilkynna málið til embættis sérstaks saksóknara þar sem hún telji að háttsemi Kvistfells kunni að hafa falið í sér auðgunarbrot samkvæmt XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. sérstaklega 248. grein laganna eins og segi í bréfinu. 

Sýnir þetta að stefnandi hafi ekki á neinn hátt verið upplýst um þann verksamning sem í gangi hafi verið, enda hafi það komið fram að aðrir viðsemjendur hafi fylgst með framvindu mála. Þá virðist sem svo að stefnandi hafi ekki einu sinni kynnt sér málið í þaula áður en málið fór af stað þar sem stefndu séu sakaðir um alvarlegan glæp. Verði þetta að teljast ámælisvert.

Skaðabótakröfum stefnanda, með vísan til þess að henni hafi verið nauðsynlegt að afla matsgerðar, sé því hafnað sem röngum og ósönnuðu. Sama eigi við um bótakröfu vegna lögfræðikostnaðar.

Sérstaklega vegna kröfu á hendur Þorsteini Þorvaldssyni.

Stefndi Þorsteinn krefst einnig sýknu vegna krafna sér á hendur.

Stefndi Þorsteinn hafi ekki verið aðili að neinum samningum heldur stefndi Kvistfell fasteignir ehf.

Beri því að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga 91/1991.

Stefndi Þorsteinn kveðst vísa til sömu raka og eiga við um stefnda Kvistfell.   Þeim málsástæðum sem fram komi í stefnu á hendur honum sé sérstaklega mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Framlögð matsgerð fjalli t.d. á engan hátt um þátt stefnda Þorsteins eða hans aðkomu að framkvæmdinni.

Kröfur á hendur honum geti eingöngu byggst á sönnun á því að hann hafi bakað viðsemjendum sínum tjón á grundvelli skaðabótareglna.

Ekki liggi sönnun fyrir um slíka kröfu. Sanna þurfi hið meinta tjón og að byggingastjóri hafi bakað viðsemjendum sínum tjón með vísan til almennu skaðabótareglunnar. Engin slík sönnun liggi fyrir og beri því að sýkna stefnda Þorstein af öllum kröfum stefnanda í málinu þegar af þeirri ástæðu.

Ekkert  í framlagðri matsgerð sýni að stefndi Þorsteinn hafi bakað stefnanda tjón á einn eða neinn hátt. Beri því að sýkna stefnda Þorstein sérstaklega með vísan til þessa.

Aðild stefnanda

Þá byggja stefndu á því að stefnandi málsins, Guðrún Einarsdóttir, geti ekki ein staðið að málsókn þeirri sem málið snýst um. Hún sé aðeins önnur tveggja viðsemjenda stefnda Kvistfells. Ekki hafi verið sýnt fram á framsal á rétti hins viðsemjandans, Ágústs Guðmundssonar, og því mótmælt að hún ein geti stefnt til heimtu skaðabóta vegna meintra galla og kostnaðar án þess fyrir liggi framsal. Viðsemjendur stefnda Kvistfells hljóti allir að þurfa að standa að málsókninni.

Varakrafa stefndu um lækkun stefnukrafna

Stefndu krefjast þess til vara að stefnukröfur stefnenda verði lækkaðar ef stefndu verði ekki sýknaðir af kröfum stefnenda.

Sé þá vísað til sömu röksemda og varða aðalkröfu þeirra.

Lagarök

Um lagarök kveðast stefndu vísa til almennra sjónarmiða í skaðabótarétti, verktakarétti, samningarétti, kröfurétti og kauparétti.

Vísað er til 2. mgr. 16. greinar laga 91/1991 er varðar aðildarskort.

Um málskostnað vísa stefndu til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. 

                Forsendur og niðurstaða

Í málinu gerir stefnandi kröfur um að stefndu greiði tiltekna fjárhæð, nánar tiltekið þannig að stefndi Kvistfell fasteignir ehf. greiði kr. 3.629.942, en þar af óskipt með stefnda Þorsteini kr. 2.290.336.

Stefndu hafa vísað til þess að stefnandi og Ágúst Guðmundsson hefðu þurft að standa saman að málssókninni.  Ekki er þó gerð krafa um frávísun málsins vegna þess. Ekki verður fallist á að þessa hafi þurft. Í fyrsta lagi verður að líta svo á að stefnandi hafi verið eini viðsemjandi stefndu, en hún var þá og á verktímanum eini eigandi hússins. Þá kom fram fram hjá stefnanda við aðalmeðferð að hún ætti ein þá kröfu sem hún hefur gert í málinu. Sama sjónarmið kom fram hjá Ágústi Guðmundssyni við aðalmeðferð málsins, þ.e. að hann kvaðst ekki líta svo á að hann ætti hluta þeirrar kröfu sem stefnandi kveðst eiga á hendur stefndu og breytti engu að hann væri nú eigandi að sumarhúsinu á móti stefnanda. Væri hins vegar svo að lögum þá kvaðst Ágúst hins vegar afsala sér öllum mögulegum rétti til slíkra  krafna. Þá verður að líta til þess að aldrei var Ágúst krafinn um neina fjárhæð af stefndu vegna verksins og var innheimtu og kröfum einungis beint að stefnanda en ekki Ágústi. Þykja stefndu ekki hafa gert það líklegt að þeir hafi talið Ágúst vera verkkaupa í málinu. Verður málinu því ekki vísað frá dómi af þessum sökum.

Krafa stefnanda er að hluta til byggð á matsgerð sem ekki hefur verið hnekkt með yfirmati eða á annan handa máta. Er það sá hluti kröfu stefnanda sem lýtur að bótum vegna galla á verkinu. Stefndu hafa bent á að metnir hafi verið sem gallar verkþættir sem ekki hafi verið lokið við og þá hafa stefndu bent á að ekki hafi verið gefinn kostur á að bæta úr göllum. Fyrir liggur að stefnandi hafði komið á framfæri við stefnda Þorstein athugasemdum og kvörtunum vegna ýmissa atriða sem hún var óánægð með vegna verksins. Var þeim athugasemdum svarað af hálfu stefndu. Bættu stefndu úr hluta þeirra atriða og höfnuðu frekari úrbótum. Þegar verkið var tekið út af byggingafulltrúa kom fram að verkinu væri lokið og að gerðar hefðu verið þær úrbætur sem verktaki hafi talið efni til að gera. Þá var það fyrst með tölvupósti lögmanns stefndu í nóvember 2014 sem gerðar voru kröfur um úrbætur. Þykir þá mögulegur úrbótaréttur hafa verið úr sögunni.

Vegna þeirra athugasemda stefndu að metnir hafi verið sem gallar verkþættir sem ekki hafi verið lokið verður að líta til þess að hjá matsmanni kom fram við aðalmeðferð að um hafi verið að ræða atriði sem unnin hafi verið en ekki nægilega vel svo að gera þyrfti betur. Verður ekki fallist á það að metnir séu sem gallar verkþættir sem hafi verið ólokið, heldur einungis verkþættir sem unnir hafi verið á ófullnægjandi hátt.

Verður því matsgerð lögð til grundvallar um galla á umræddu verki. Ekki eru efni til að draga frá göllum endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts þar sem fyrir liggur að heimild til slíkrar endurgreiðslu féll niður 1. janúar 2015 og því ljóst að stefnandi getur ekki fengið endurgreiddan virðisaukaskatt vegna vinnu við að bæta úr göllum.

Hinn hluti krafna stefnanda er annars vegar vegna matsgerðar við að staðreyna galla og hins vegar vegna lögfræðikostnaðar við að verjast innheimtukröfum stefndu í málinu áður en kom til málssóknarinnar.

Fyrir liggur að stefnandi hafði greitt stefndu kr. 13.862.690. Hluta þeirrar fjárhæðar kveður stefndi Kvistfell að hafi verið vegna annars verks og óskylds, en reikningur vegna hluta fjárhæðarinnar er gerður á Jarðfræðistofuna ehf., sem stefnandi átti að hluta til ásamt Ágústi Guðmundssyni. Í framburði Ágústs, sem og framburði stefnanda, kom fram að reikningurinn hafi allt að einu verið vegna þessa verks en vegna bókhaldslegra og skattalegra sjónarmiða verið gerður á Jarðfræðistofuna. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefndi Kvistfell hafi unnið fyrir Jarðfræðistofuna á þessum tíma og er framburður stefnda Þorsteins um það óglöggur og verður honum hafnað og byggt á því að allar greiðslur hafi verið vegna sumarhússins og vinnu við það. Fyrir liggur samkvæmt stefndu að endanlegur kostnaður við verkið er kr. 20.347.385 og var þá farið rækilega fram úr þeirri áætlun sem upphaflega var gengið út frá, hvort sem samningur telst hafa verið gerður á grundvelli framanlýstra tölvupósta frá 28. febrúar og 2. mars 2012 eða ekki. Fyrir liggur að samkvæmt matsgerð hins dómkvadda matsmanns var raunhæft verð fyrir vinnu sem unnin var kr. 8.349.000 að meðtöldu álagi vegna aðstæðna, staðaruppbót, ferða og fæðis auk ófyrirséðs kostnaðar. Verður að telja að stefnanda hafi verið rétt að grípa til varna gegn innheimtu stefndu við þessar aðstæður og þá jafnframt að því gættu að ýmsir gallar voru á verkinu svo sem sýnt hefur verið fram á með matsgerð. Fyrir liggur óumdeilt í málinu að stefnandi hefur þurft að greiða lögmannskostnað á fyrri stigum kr. 1.437.048 og jafnframt liggur fyrir að kostnaður vegna matsgerðar, sem ekki hefur verið hnekkt, er kr. 1.242.164 sem stefnandi hefur lagt út fyrir. Er rétt að stefnandi fái fjárútlát þessi bætt.

Ber að dæma stefnda Kvistfell fasteginir ehf. til greiðslu allrar fjárhæðarinnar.

Eins og áður segir gerir stefnandi kröfu um að stefndi Þorsteinn verði dæmdur til að greiða hluta fjárhæðarinnar in solidum með hinu stefnda félagi. Er nánar tiltekið um að ræða 950.730 vegna galla og helming lögmannskostnaðar og helming af kostnaði vegna matsgerðar. Fyrir liggur að stefndi Þorsteinn var byggingarstjóri vegna umræddra framkvæmda. Um ábyrgð stefnda Þorsteins vísar stefnandi til 29. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, einkum 29. gr. Verður stefnda Þorsteini gert að greiða bætur vegna galla in solidum með hinu stefnda félagi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. lga nr. 160/2010, en ekki verður séð að ábyrgð byggingastjórans geti náð til útlagðs kostnaðar vegna lögfræðiþjónustu eða matsgerðar, enda hið stefnda félag viðsemjandi stefnanda en ekki stefndi Þorsteinn.

Í greinargerð stefndu er gerð krafa um lækkun á kröfum stefnanda, en ekki eru færðar fram sérstakar málsástæður til stuðnings þeirri kröfu og verður ekki fallist á hana. Þá eru ekki höfð uppi mótmæli við dráttarvaxtakröfu stefnanda og verður hún dæmd eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum verða stefndu dæmdir til greiðslu málskostnaðar. Stefndi Kvistfell fasteignir ehf. greiði stefnanda kr. 1.942.943 í málskostnað, þar af in solidum með stefnda Þorsteini kr. 1.000.000.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt sérfróðum meðdómendum Ástráði Guðmundssyni húsasmíðameistara og Guðmundi Hjaltasyni byggingatæknifræðingi.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Kvistfell fasteignir ehf., greiði stefnanda, Guðrúnu Einarsdóttur, kr. 3.629.942,- þar af óskipt með stefnda Þorsteini Þorvaldssyni, kr. 950.730,-, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, af þeirri fjárhæð frá 27. nóvember 2014 til greiðsludags.

Stefndi, Kvistfell fasteignir ehf., greiði stefnanda kr. 1.942.943 í málskostnað, þar af in solidum með stefnda Þorsteini kr. 1.000.000.