Print

Mál nr. 307/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Útlendingur
  • Gæsluvarðhald
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu L um að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi var hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum samdægurs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2017, þar sem kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 30. maí 2017 klukkan 16 var hafnað. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 9. maí 2017 var varnaraðila gert að halda sig á tilgreindum dvalarstað til 6. júní sama ár samkvæmt heimild í  a. og b. liðum 1. mgr. 114. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Verður ekki talið að það úrræði sé fullreynt.

Af gögnum málsins er ljóst að varnaraðili á við andleg veikindi að stríða, en ekki liggja fyrir læknisfræðileg gögn sem gera það að verkum að unnt sé að beita heimild 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um vistun hans á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

          Hinn kærði úrskurður er staðfestur.         

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2017.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að að Héraðsdómur Reykja­víkur úrskurði að útlendingur sem kveðst heita X verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí 2017, kl. 16:00. 

                Í greinargerð lögreglu kemur fram hinn 27. desember sl. hafi X ásamt öðrum karlmanni og stúlku verið stöðvuð á Flugstöð Leifs Eiríkssonar grunuð um að framvísa fölsuðum vegabréfum en fólkið hafði framvísað [...] vegabréfum. Aðilarnir höfðu flogið með [...] frá [...] til Keflavíkur 22.12.2016 og ætluðu samdægurs að fljúga með [...] frá Keflavík til [...]. Hins vegar virðist það ekki hafa gengið eftir og hafi þau mætt þann 27.12.2016 og ætlað sér að fljúga með [...] til [...]. Miðarnir hafi verið keyptir samdægurs og greiddir í reiðufé. Við 2. stigs skoðun hafi komið í ljós að um breytifölsun virtist vera að ræða og staðfesti vakthafandi skilríkjasérfræðingur það. Hafi fólkinu verið tilkynnt um að þau væru handtekin grunuð um skjalafals. 

Í skýrslutöku hjá lögreglu gat X ekki gefið upp fæðingardag en sagðist vera um 17 ára.  Hann sagðist vera fæddur í [...]. Hann sagðist ekki geta sagt til um það með nákvæmum hætti hvenær hann hafi farið frá [...]en hafi talið að það hefði verið fyrir  um einu og hálfu ári síðan. Hann sagðist hafa farið frá [...] til [...] og þaðan til  [...].  Hann sagðist hafa farið frá [...] til [...], frá [...] til [...] og þaðan til [...].  Hann sagðist hafa endað í [...] þar sem hann hafi sótt um hæli og hafi hann verið þar í hælisbúðum í [...]. Hann sagðist hafa keypt [...] vegabréfið í gegnum smyglara í [...].  Hann sagðist ekki vera viss um það hvað greitt hafi verið fyrir vegabréfið þar sem það hafi verið vinur hans sem greiddi fyrir það en hann taldi það hafa verið um 1000 evrur eða dollarar sem greitt hafi verið fyrir vegabréfið. Aðspurður um hver hafi greitt og bókað fyrir hann flugfarið sagði hann að það hafi verið vinur hans sem búi á Íslandi.

Hafi Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra verið send beiðni um leit í gagnagrunni Eurodac vegna X. Svar hafi borist frá þeim 2. janúar sl. þar sem komi fram að X hefði verið í [...] árið 2015 og [...] í lok árs 2016. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafði X fyrir komuna hingað til lands sótt um hæli í [...] og samkvæmt norskum lögregluyfirvöldum sætti X rannsókn vegna hnífstunguárásar þar sem honum hafi verið gefið að sök að hafa stungið annan hælisleitanda með hníf. Þá liggi einnig fyrir upplýsingar frá [...] yfirvöldum að gerð hafi verið aldursgreining á X í febrúar 2016 þegar hann hélt því fram að hann væri 17 ára og 10 mánaða en niðurstöður greiningarinnar voru þær að X væri um 20 ára gamall.

Skömmu eftir komuna hingað til lands hafi X sótt um hæli hér á landi og hafi hann dvalið hér á landi á vegum Útlendingastofnunar og haft aðsetur í húsnæði á vegum þeirra á [...] í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun verði X sendur aftur til X á grundvelli Dublinarreglugerðarinnar og sé mál hans í forgangsmeðferð. Hafi yfirvöld í X samþykkt að taka við honum.

Eftir komu X hingað til lands hafi hann sýnt af sér ógnandi hegðun, hótanir og áreiti gagnvart starfsmönnum Útlendingastofnunar sem hafi haft aðkomu að hans málum og vísast um það í skýrslu lögreglu af A starfsmanni Útlendingastofnunar frá 5. maí sl. þar sem hún lýsi m.a. hótunum og áreiti X í hennar garð. Þá hafi X sýnt af sér sjálfskaðandi hegðun og hafi í 5 skipti verið færður á geðdeild Landspítalans vegna ástands síns. Hafi starfsfólk Útlendingarstofnunar farið að hafa verulegar áhyggjur af hegðun X og óttaðist hann.

Í ljósi framangreinds hafi sú ákvörðun verið tekin af lögreglu þann 9. maí sl. að X skyldi halda sig á dvalarstað sínum að [...] í Reykjavík til 6. júní nk. skv. heimild í a. og b. lið 114. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 enda hafi legið fyrir að X hafði þá gefið upp þrjá mismunandi fæðingardaga og stafsett nafn sitt með mismunandi hætti auk þess sem hann hafi verið handtekinn með falsað vegabréf í máli 008-2016-16225 og sömuleiðis þótti X hafa sýnt af sér ógnandi hegðun og verið talin hættulegur öðrum, sem og sjálfum sér. Hafi X verið birt ákvörðunin þann 10. maí sl. að viðstöddum túlk og starfsmanni Útlendingarstofnunar.

Þann 11. maí sl. hafi öryggisvörður á [...] tilkynnt lögreglu að X hefði farið út úr húsnæðinu. Rúmri klukkustund síðar hafi X verið handtekinn og færður til skýrslutöku þar sem hann hafi haldið því fram að hann hefði ekki skilið ákvörðunina sem fyrir honum hafði verið birt degi áður. Hafi því verið farið yfir ákvörðunina með honum að viðstöddum túlki og verjanda hans og honum í framhaldi keyrt aftur á dvalarstað hans. Degi síðar hafi starfsmaður Útlendingastofnunar ásamt lögreglumanni og túlki farið að [...] og rætt við X um gildi ákvörðunarinnar og mögulegar afleiðingar þess ef hann virti ekki það sem þar kæmi fram.

Nú í dag var lögreglu tilkynnt um að X hefði aftur brotið gegn ákvörðuninni um að halda sig á dvalarstað sínum að [...]. Hafi hann í framhaldi verið handtekinn og færður á lögreglustöð.

Sé það mat lögreglu skv. framansögðu að X hyggist ekki sinna kröfu um skyldu til dvalar á [...] skv. ákvörðun lögreglustjóra frá 9. maí sl. Sé það mat lögreglu að samkvæmt því séu skilyrði a. b. og c liðar 115. gr. laga 80/2016 uppfyllt enda liggi fyrir að X hafi reynt að villa á sér heimildir og ekki sé vitað hver hann sé, þá hafi hann sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að hann ógni almannahagsmunum og sömuleiðis hafi hann ekki sinnt kröfu um dvöl á ákveðnum stað skv. 114. gr. sömu laga meðan mál hans er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum hér á landi.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, a. b. og c liðar 115. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 30. maí 2017

Niðurstaða:

Krafa lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi styðst við það að hann hafi með því að finnast utandyra í nágrenni [...] í Reykjavík brotið gegn ákvörðun lögreglu sem birt hafi verið fyrir honum um að honum væri óheimilt að yfirgefa húsnæðið. Þetta hafi gerst í tvígang. Kærði kveðst hafa þurft að fara út til að fá sér frískt loft.

Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að ekki sé vitað um fæðingardag kærða. Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði segist vera um 17 ára gamall. Þar segir jafnframt að norsk stjórnvöld telji hann vera um 20 ára gamall. Samkvæmt gögnum málsins getur norskur barnalæknir ekki útilokað að kærði sé yngri en 18 ára, en útilokar í sömu greinargerð að hann sé yngri en 16 ára. Verður frásögn kærða sjálfs um aldur sinn lögð til grundvallar ásamt því að í gögnum málsins kemur fram að hann hefur fengið íslenska kennitölu, [...], og er samkvæmt því 17 ára gamall, en lögreglustjóri telur að ókunnugt sé um fæðingardag hans.

Samkvæmt 5. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, er aðeins heimilt að úrskurða umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem er yngri en 18 ára en eldri en 15 ára, í gæsluvarðhald þegar hann hefur sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að hann ógni allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum. Fyrir liggur að kærði, sem ósannað er að sé orðinn 18 ára, hefur sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Af því sem fram kemur í gögnum málsins og greinargerð lögreglustjóra verður ekki ráðið að af kærða stafi þvílík ógn sem áskilin er í ákvæðinu. Þá er í ákvæðinu áskilið að úrræðinu skuli því aðeins beitt að önnur vægari úrræði samkvæmt lögum um útlendinga eða barnaverndarlögum komi ekki til greina eða nái ekki því markmiði sem að sé stefnt. Auk þess sem taka ber tillit til aldurs umsækjanda og þarfa hans hverju sinni, en fyrir liggur að kærði á við andleg veikindi að stríða. Lögreglustjóri hefur hvorki með gögnum eða á annan hátt sýnt fram á að slík úrræði komi ekki til greina í tilviki kærða. Þá liggja ekki fyrir sannfærandi upplýsingar um að úrræði á grundvelli 114. gr. laga nr. 80/2016 hafi verið reynd til hlítar, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að skylda útlending til að sinna reglulegri tilkynningarskyldu um veru sína hér á landi eða dveljast á ákveðnum stað að skilyrðum greinarinnar uppfylltum. Sú ráðstöfun lögreglu að skylda kærða til að dveljast innan dyra að [...] í Reykjavík, án möguleika á útiveru, brýtur berlega gegn kröfum um meðalhóf sem gæta ber að við slíka ákvörðun.

Að þessu virtu og með vísun til 2. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016 er ekki fallist á að lagaskilyrðum sé fullnægt til að fallast megi á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald og verður henni því hafnað.

                Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði, útlendingur sem kveðst heita X skuli sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí 2017, kl. 16:00, er hafnað.