Print

Mál nr. 143/2017

A (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)
gegn
B (Hjalti Brynjar Árnason hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögræðissvipting
  • Aðildarskortur
Reifun
Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var hafnað kröfu B um að A skyldi sviptur lögræði þar sem B var ekki bær til að bera fram kröfuna, sbr. d. lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2017, þar sem sóknaraðili var sviptur lögræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að „hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og máli þessu vísað frá dómi“. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Kröfugerð sína fyrir Hæstarétti reisir sóknaraðili meðal annars á því að varnaraðili geti ekki átt aðild að kröfu um lögræðissviptingu hans. Aðild sína að málinu byggir varnaraðili á d. lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, en samkvæmt ákvæðinu getur félagsþjónusta sveitarfélags eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað þess sem krafa beinist að verið sóknaraðili lögræðissviptingarmáls í héraði. Fyrir liggur að sóknaraðili er með skráð lögheimili á B en fastan dvalarstað á öryggisgeðdeild Landspítalans í Reykjavík. Með vísan til þessa og hins afdráttarlausa orðalags umrædds ákvæðis lögræðislaga var varnaraðili ekki bær til þess að bera fram kröfu um lögræðissviptingu sóknaraðila og verður henni því hafnað á grundvelli meginreglu 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 10. gr. lögræðislaga.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest. 

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Í málinu liggja fyrir vottorð E og C geðlækna um heilsuhagi sóknaraðila. Það athugast að héraðsdómara hefði verið rétt, samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 11. gr. lögræðislaga, að kveðja læknana fyrir dóm til staðfestingar á vottorðunum.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, B, um að sóknaraðili, A, skuli sviptur lögræði.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Hjalta Brynjars Árnasonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 148.800 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2017.

                Með kröfu, sem barst dóminum 20. febrúar sl., hefur sóknaraðili, B, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], með lögheimili að [...], B, en fastan dvalarstað á Öryggisgeðdeild Landspítalans að Kleppi, verði með vísan til a- og b-liða 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sviptur sjálfræði og fjárræði í 5 ár. 

                Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfunni verði hafnað en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími og að fjárræðissviptingu verði hafnað. 

                Beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð frá C geðlækni dags. 18. febrúar sl. þar sem sjúkrasaga varnaraðila er rakin. 

                Fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili hafi átt við geðræn vandamál að stríða frá barnæsku og hafi verið nánast samfleytt á opinberum stofnunum frá árinu 2009.  Varnaraðili hafi verið greindur með geðklofa, alvarlegar persónuleikaraskanir með andfélagslegum þáttum og ofsóknaræði auk þess að glíma við mikinn fíkniefnavanda.  Varnaraðili eigi það til að sýna ofbeldisfulla hegðun og hafi oft komist í kast við lögin vegna ofbeldis- og fíkniefnabrota.  Þann 4. maí 2012 hafi varnaraðili verið sakfelldur fyrir brennu og dæmdur í þriggja ára fangelsi.  Varnaraðili hafi nokkrum sinnum verið sviptur sjálfræði, síðast til tveggja ára frá 8. desember 2014, en að þeirri sviptingu lokinni hafi hann dvalið áfram á Öryggisgeðdeild Landspítala Íslands, en hann eigi ekki í önnur hús að vernda.  Telur sóknaraðili að sjálfræðissviptingin hafi ekki borið tilætlaðan árangur, en varnaraðili hafi verið ósamvinnuþýður og hafi aðsóknarkenndar ranghugmyndir um starfsfólk geðdeildarinnar.  Ákveðin var nauðungarvistun varnaraðila til þriggja vikna þann 31. janúar sl.  Hún rann því út þann 20. þessa mánaðar, en þann dag var mál þetta þingfest. 

                Sóknaraðili segir að læknar telji nauðsynlegt að varnaraðili fái áframhaldandi meðferð, ella væri lífi hans og heilsu hætta búin.  Hann sé ófær um að hugsa um sjálfan sig.  Sjúkdómsinnsæi sé nánast ekkert og hann hafi ekki vilja til að takast á við vandamál sín.  Þá telji læknarnir í ljósi lítils árangurs af fyrri lögræðissviptingu að nauðsynlegt sé að svipting verði ákveðin til fimm ára. 

                Aðild sína að kröfunni skýrir sóknaraðili með því að varnaraðili eigi lögheimili á B.  Því sé sóknaraðila skylt að veita honum nauðsynlega aðstoð, sbr. lög nr. 40/1991, einkum XI. kafla. 

                Sóknaraðili segir sviptingu fjárræðis og sjálfræðis nauðsynlega til að halda megi meðferð áfram í því skyni að varnaraðili nái hugsanlega meiri bata.  Varnaraðili eigi við geðsjúkdóm og fíknivanda að stríða og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð, sbr. a-og b-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. 

                D geðlæknir hefur annast varnaraðila.  C geðlæknir ritaði vottorð að beiðni sóknaraðila til framlagningar í dóminum.  Þar segir að varnaraðili hafi snemma hafi neyslu áfengis og síðan annarra vímuefna.  Hann hafi verið inn og út af stofnunum, geðdeildum fangelsum og meðferðarheimilum frá unga aldri.  Gríðarlegur neysluvandi hafi gert hann veikari og hamlað þroska.  Í niðurstöðukafla vottorðsins segir: 

                „Undirrituð finnur ekki merki þess að A sé með virkan geðrofssjúkdóm í dag, en þó er vissulega stutt í aðsóknarhugmyndir gagnvart fólki.  Það eru til staðar ákveðin neikvæð einkenni með frumkvæðisleysi til daglegra athafna og hirðuleysi.  Hann getur ekki tekist á við daginn án mikils stuðnings frá starfsfólki.  A skortir dómgreind og innsæi í vandann.  Hann viðurkennir ekki ekki að hann hjálp eða sér sig veikan.  Þá eru til staðar merki um alvarlega persónuleikaröskun sem jafna má við alvarlegan geðsjúkdóm.  Það er stutt í ofbeldishugsanir út í fólk og mörg atvik hafa gerst.  A upplifir að fólki sé ekki treystandi og getur túlkað sakleysisleg atvik sem aðför að sér, sem kallar síðan á ofbeldi.  Hann sýnir enga eftirsjá eftir slík atvik, eða hefur verið hægt að vinna með þau í viðtölum.  Að mati undirritaðrar getur A ekki borið ábyrgð á sjálfum sér, hvorki séð um sína persónulegu hagi eða fé og þarf að vistast áfram á geðdeild, þar til viðeigandi úrræði finnst fyrir hann utand deildar.  Mælt er með að A verði sviptur lögræði í 5 ár.“

                Varnaraðili kom fyrir dóminn.  Hann mótmælti kröfu sóknaraðila. 

                Verjandi varnaraðila benti á að ekki væri sýnt fram á nauðsyn svo langrar sviptingar og alls ekki sýnt fram á nauðsyn fjárræðissviptingar.  Hann benti á að B væri ekki réttur aðili að málinu, en varnaraðili ætti fastan dvalarstað í Reykjavík. 

                Niðurstaða

                Samkvæmt gögnum málsins á varnaraðili skráð lögheimili á B.  Hann hefur dvalið langdvölum á sjúkrahúsi í Reykjavík.  Þrátt fyrir þá dvöl er rétt að skrá lögheimili hans á B, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990.  Sóknaraðili er því réttur aðili málsins, sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/1997. 

                Að framan er rakið stuttlega vottorð geðlæknis sem segir að varnaraðili glími við geðsjúkdóm og alvarlegan fíkniefnavanda, sem þarfnist meðhöndlunar.  Þá segir skýrt að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum og fjármunum.  Brýnt er að varnaraðila verði veitt nauðsynleg læknismeðferð og er sýnt fram á að svipta verður hann sjálfræði til að það verði tryggt. 

                Samkvæmt framansögðu verður fallist á að svipta skuli varnaraðila sjálfræði og fjárræði samkvæmt a-lið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 71/1997, sbr. 1. gr. laga nr. 84/2015. 

                Ekki er skýrt hvers vegna læknar telji að sviptingartími þurfi að vera fimm ár.  Því er ekki haldið fram að vonlítið sé um bata, þótt augljóst sé að verkefni læknanna er erfitt.  Hefði þurft að rökstyðja sérstaklega kröfu um sviptingu í svo langan tíma, en fimm ár er hámarkið samkvæmt lögunum.  Er að þessu virtu rétt að sviptingin standi í tvö ár. 

                Málskostnaður beggja málsaðila greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.  Ákveðst þóknun lögmanns sóknaraðila 150.000 krónur, en þóknun lögmanns varnaraðila, 120.000 krónur.  Í báðum tilvikum er tekið tillit til virðisaukaskatts. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Varnaraðili, A, er sviptur fjárræði og sjálfræði í tvö ár frá uppkvaðningu úrskurðar þessa að telja. 

                Þóknun lögmanns sóknaraðila, 150.000 krónur, og lögmanns varnaraðila, 120.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.