Print

Mál nr. 23/2019

B hf. (Gísli Guðni Hall lögmaður)
gegn
A (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Sjómaður
  • Slys
  • Líkamstjón
  • Orsakatengsl
  • Sennileg afleiðing
  • Skaðabætur
  • Aðalmeðferð
Reifun

Í málinu krafðist sjómaðurinn A viðurkenningar á bótaskyldu B hf. vegna afleiðinga slyss sem hann varð fyrir um borð í skipi í eigu B hf. þegar hann rann til og rak vinstri fót upp undir koll í klefa sínum. Við þetta fékk A sár á litlu tá sem olli beinsýkingu og beineyðingu í tá og rist og þurfti í kjölfarið að fjarlægja tána og hluta af ristarbeini. B hf. hélt því meðal annars fram að skilyrðum um orsakatengsl og sennilega afleiðingu væri ekki fullnægt og að orsök þess líkamstjóns sem A varð fyrir væri sykursýki sem hrjáði hann og hirðuleysi hans við að sinna sárinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ótvírætt væri að um hafi verið að ræða slys í skilningi 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Þá var A ekki talinn hafa sýnt af sér vítavert gáleysi í skilningi síðari málsliðar ákvæðisins. Við mat á því hvort skilyrði væru til að fella á B hf. skaðabótaábyrgð samkvæmt lagaákvæðinu á líkamstjóni A og þar með áhættuna af því að A hafi vegna sjúkdóms síns verið berskjaldaðri en almennt gerist fyrir því að lítilsháttar áverki á fæti gæti haft þær afleiðingar sem raun varð á, taldi Hæstiréttur að horfa yrði einkum til þriggja atriða. Í fyrsta lagi að A hefði verið haldinn sjúkdómnum áður en hann varð fyrir slysinu, í öðru lagi að sjúkdómurinn hefði ekki fram að því skert vinnugetu hans eða hamlað honum á annan hátt en þann að hann var háður reglubundinni lyfjatöku og í þriðja lagi hefði sárið, sem A hlaut við slysið, raungert þá hættu sem sjúkdómur hans hafði í för með sér. Loks var talið að afleiðingar slyssins gætu ekki talist svo langsóttar að komið væri út fyrir mörk þess, sem B hf. yrði að bera áhættu af. Að virtum þessum atriðum var talið að nægilega mætti rekja líkamstjón A til slyssins svo að B hf. yrði látinn bera skaðabótaábyrgð á því. Var krafa A því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 2019. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda um að viðurkennd verði skaðabótaskylda sín vegna afleiðinga slyss, sem stefndi kveðst hafa orðið fyrir 5. júlí 2015 um borð í fiskiskipi áfrýjanda, [...]. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður verði áfrýjandi sýknaður af framangreindri kröfu hans.

I

Samkvæmt gögnum málsins greindist stefndi, sem er fæddur 1985, með sjúkdóminn sykursýki I á árinu 1997 og hefur upp frá því þurft daglega að taka inn efnið insúlín með sprautu. Hann staðhæfir að þessi sjúkdómur hafi þó aldrei haft áhrif á getu sína til vinnu. Fyrir liggur að stefndi réði sig til starfa hjá áfrýjanda á fyrrnefndu skipi með samningum, sem tóku til einstakra veiðiferða á tímabilinu frá 9. maí til 28. september 2015, og vann þá stefndi ýmist sem háseti eða matsveinn.

Stefndi kveðst hafa orðið fyrir slysi í einni af þessum veiðiferðum seint að kvöldi 5. júlí 2015. Atburði þessum hefur hann lýst á þann hátt að hann hafi staðið á gólfi í klefa sínum um borð í skipinu og verið að klæða sig úr sokki. Hafi þá komið „eitthvað slag á bátinn“, annaðhvort út af veltingi á skipinu eða sökum þess að því hafi verið beygt, og hafi stefndi misst jafnvægi. Við þetta hafi hann rekið vinstri fót upp undir koll, sem hafi verið festur við gólfið í klefanum, en á neðanverðum kollinum hafi verið skrúfur og festingar, sem fóturinn hafi skollið í. Af þessu hafi stefndi hlotið sár á litlu tá, sem hafi blætt úr. Hann hafi sett bréf á sárið og farið í borðsal skipsins, þar sem hann hafi beðið þar til hætt hafi að blæða úr sárinu, en látið svo plástur á það og haldið aftur til klefa síns. Þessa atviks var getið í skipsdagbók, að því er virðist að ósk stefnda, með þeim orðum að hann hafi runnið til í klefa sínum, sparkað vinstri fæti „upp undir kollinn við borðið í klefanum“ og hlotið af því „smá sár á utanverða litlu tá“, en á það hafi verið settur plástur. Af dagbókinni virðist mega ráða að skipið hafi á þessum tíma verið statt á hafi úti og vindhraði verið 15 til 18 metrar á sekúndu. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi ekki andmælt því að atvik hafi verið með þessum hætti.

Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst stefndi lítið sem ekkert hafa fundið til í fætinum eftir þennan atburð og búist við að sárið „myndi bara gróa á eðlilegan máta“, en sár á honum hafi þó almennt verið lengi að gróa vegna sykursýki hans og hann því yfirleitt borið á þau sýkladrepandi og græðandi smyrsl, sem hann hafi og gert í þessu tilviki. Hann hafi á hinn bóginn fengið áhyggjur þegar sárið hafi ekki enn verið gróið að liðnum rúmum mánuði og leitað því til læknis í Vestmannaeyjum 17. ágúst 2015. Samkvæmt sjúkraskrá var sárið þá hreinsað og búið um það og var það gert á ný 20. sama mánaðar. Aftur leitaði stefndi til læknis 10. september 2015 og var þá fært í sjúkraskrá að hann hafi að mestu verið úti á sjó eftir síðustu komu sína. Tekið var fram að stefndi væri með verki í tábergi og greri sárið hægt. Það væri frekar djúpt og lyktaði illa, roði væri við litlu tá og eymsli við þreifingu. Greindi læknir þetta sem „diabetískt fótsár“ og væri hugsanlega komin sýking í það. Hafi stefndi því fengið töflur með sýklalyfi. Sárið hafi verið hreinsað og búið um það og var þetta gert aftur 14. og 21. sama mánaðar. Sýni var tekið úr sárinu 28. september 2015 og leiddi rannsókn í ljós að í því væru fjórar tegundir af sýklum. Röntgenmynd var tekin af fætinum 12. október 2015 og fannst þá sýking og eyðing í beinum í litlu tá og rist. Enn leitaði stefndi til læknis að morgni 14. sama mánaðar og var eftirfarandi fært um þá komu hans í sjúkraskrá: „Fór í sturtu og var ekki með neitt yfir sárinu. Fór í sokkinn beint yfir. Þurfti að hreinsa vel sárið þar sem að var mikið af sokk í sárinu. Er rauður og tá rauð og bólgin. Er á sýklalyfi.“ Stefndi kom á ný til læknis fáum klukkustundum síðar og var þá ritað í sjúkraskrá að hann væri „með meiri sýkingu, litla táin eldrauð og bólgin“ og komin húðnetjubólga og sogæðabólga upp á miðjan sköflung. Hafi stefndi því fengið sýklalyf í æð. Degi síðar var sárið opnað og var þá „komið inn á graftarpoll fremst í litlu tá og sett dren í 24 klukkustundir.“ Stefndi var lagður inn á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum 16. október 2015, þar sem hann fékk áfram sýklalyf í æð, en var svo fluttur á bráðadeild Landspítala 19. sama mánaðar sökum þess að táin var orðin „bláleit/svört og roði og hiti upp á rist“, stefndi skjálfandi og með háan hita. Degi síðar mun gröftur hafa runnið úr sárinu og drep verið komið í tána. Hún var því fjarlægð í skurðaðgerð 22. október 2015 ásamt beini í rist, en eftir það mun stefndi hafa verið áfram undir læknishendi um margra vikna skeið vegna meðferðar á sárinu og húðágræðslu. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvað stefndi lækna hafa ráðið sér frá því að fara aftur til starfa á sjó og hafi hann því fengið vinnu við akstur vörubifreiða og stjórn jarðvinnutækja, sem hann hafi svo ekki þolað til lengdar vegna fótarins. Hann kvaðst jafnframt hafa þurft að gangast undir aðra skurðaðgerð í mars 2018, þar sem meira hafi verið fjarlægt af ristarbeini, og hafi hann eftir það verið atvinnulaus.

Fyrir liggur að áfrýjandi tók slysatryggingu vegna sjómanna í þjónustu sinni á grundvelli 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og ákvæða í kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands frá 17. desember 2008. Stefndi krafðist bóta úr þeirri vátryggingu 6. apríl 2016. Vátryggingafélagið, sem í hlut átti, hafnaði kröfu hans 10. maí sama ár með vísan til þess að ekki væri uppfyllt skilyrði, sem fram kæmi í skilmálum slysatryggingarinnar, um að bætur yrðu því aðeins greiddar að slys væri bein og eina orsök þess að vátryggður missti starfsorku sína að nokkru leyti eða öllu.

Stefndi höfðaði mál þetta 13. janúar 2017 og krafðist þess annars vegar að viðurkennd yrði skaðabótaábyrgð áfrýjanda vegna afleiðinga slyssins, sem hann hafi orðið fyrir 5. júlí 2015 um borð í áðurnefndu skipi, og hins vegar að áfrýjanda yrði gert að greiða sér 5.521.201 krónu með nánar tilgreindum vöxtum, en sú krafa sneri að vangoldnum launum í slysaforföllum. Með hinum áfrýjaða dómi var fyrrnefnda krafan tekin til greina og jafnframt sú síðarnefnda að því leyti að áfrýjandi var dæmdur til að greiða stefnda 3.022.688 krónur ásamt vöxtum. Fyrir Hæstarétti una báðir málsaðilar við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um síðarnefndu kröfuna, en áfrýjandi leitar endurskoðunar dómsins að því er þá fyrrnefndu varðar.

II

Í 1. mgr. 172. gr. siglingalaga er kveðið á um að útgerðarmaður beri meðal annars ábyrgð á kröfu vegna líkamstjóns þess, sem ráðinn er í skiprúm hjá honum, hafi slys borið að höndum þegar sá var staddur á skipi eða vann í beinum tengslum við rekstur þess, en einu gildi þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til bilunar á tækjum, ónógra öryggisráðstafana eða yfirsjónar þeirra, sem starfi í þágu skips. Megi þó lækka fébætur eða fella þær niður verði slys eða tjón rakið til vítaverðs gáleysis þess, sem orðið hafi fyrir því. Í 2. mgr. 172. gr. siglingalaga er mælt fyrir um skyldu útgerðarmanns til að taka vátryggingu vegna bóta, sem kunna að falla á hann eftir 1. mgr. sömu lagagreinar, og er í b. lið 2. töluliðar fyrrnefndu málsgreinarinnar kveðið á um fjárhæðir til ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku, sem vátryggingin eigi að taka til. Skulu þær fjárhæðir háðar verðlagsbreytingum eftir nánari fyrirmælum 4. mgr. sömu lagagreinar. Þá felst sú regla í 5. tölulið 175. gr. siglingalaga að hlutlæg bótaábyrgð útgerðarmanns á líkamstjóni skipverja samkvæmt 1. mgr. 172. gr. laganna takmarkist við þær fjárhæðir, sem mælt er fyrir um í b. lið 2. töluliðar 2. mgr. síðarnefndu lagagreinarinnar. Í 1. mgr. greinar 1.23. í áðurnefndum kjarasamningi var áréttuð skylda útgerðarmanns til að vátryggja hvern þann mann, sem samningurinn næði til og slasast kynni um borð í skipi eða við vinnu í beinum tengslum við rekstur þess, í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar í kjarasamningnum skyldu bætur úr slíkri vátryggingu ákveðnar eftir reglum skaðabótalaga nr. 50/1993 ef þær leiddu til hærri heildarbóta en fengjust eftir 172. gr. siglingalaga. Þá var í 8. mgr. sömu greinar kjarasamningsins kveðið á um hlutdeild þeirra, sem nytu þessarar vátryggingar, í kostnaði af henni, en sú hlutdeild skyldi nema tiltekinni mánaðarlegri fjárhæð, sem tæki sömu breytingum og kauptrygging sjómanna.

Í málinu reisir stefndi kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaábyrgð áfrýjanda á afleiðingum ætlaðs slyss eingöngu á 172. gr. siglingalaga ásamt fyrrgreindum ákvæðum kjarasamnings og miðar þannig við að áfrýjandi beri þá ábyrgð án sakar. Stefndi hefur þó hvorki í kröfugerð sinni né öðrum málatilbúnaði vikið að því hvort skaðabótaábyrgð þessi eigi að sæta tilteknum takmörkunum eftir ákvæðum 2. mgr. 172. gr. og 5. töluliðar 175. gr. siglingalaga og þá eftir atvikum hverjum. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn í engu hreyft andmælum á þessum grunni gegn kröfugerð stefnda. Að því virtu er ekki unnt að líta svo á að málið sé vanreifað af hendi stefnda og verður því felldur efnisdómur á það án þess að gæta þurfi frekar að framangreindu.

III

Í samræmi við frásögn stefnda, sem sætir ekki andmælum að þessu leyti, verður við úrlausn málsins að byggja á því að hann hafi hlotið sár á litlu tá vinstri fótar, þar sem hann var staddur að kvöldi 5. júlí 2015 í klefa sínum um borð í skipi áfrýjanda, sem hann hafði verið ráðinn til starfa á. Þetta hafi gerst á þann hátt að hann hafi misst jafnvægi vegna snarprar hreyfingar á skipinu og rekið af þeim sökum fótinn upp í festingar á neðanverðri sessu á kolli, sem boltaður hafði verið við gólfið í klefanum. Þegar að þessu virtu er ótvírætt að hér hafi verið um að ræða slys í skilningi 1. mgr. 172. gr. siglingalaga og eru að öðru leyti uppfyllt skilyrði fyrri málsliðar þess ákvæðis til að áfrýjandi beri án sakar skaðabótaábyrgð á tjóni stefnda, sem rakið verður til slyssins.

Stefndi hefur lagt fram í málinu vottorð yfirlæknis í æðaskurðlækningum á Landspítala 15. febrúar 2016, þar sem sagði meðal annars að stefndi hafi í fyrrgreindu slysi hlotið „lítið sár á fót sem endaði með meiriháttar alvarlegri sýkingu í húðnetju, sogæðum og beinum ásamt drepi í vef.“ Hafi reynst nauðsynlegt að fjarlægja tá og hluta af beini í rist. Þar sagði einnig: „Fótamein … er vel þekktur fylgikvilli sykursýki og vel þekkt að jafnvel lítil sár geta leitt til meiriháttar aflimana hjá sykursjúkum. Spila þar inn í margir þættir svo sem skert skyn í fótum vegna sykursýkistaugakvilla, skert blóðflæði og ónæmisbæling vegna sykursýki.“ Þá var í vottorðinu vísað til fræðirits á sviði æðaskurðlækninga um að allt að fjórðungur sykursjúkra fái sár á fæti einhvern tíma á lífsleiðinni og í um helmingi þeirra tilvika berist sýking í sárið. Þegar það gerist leiði sýkingin í um fimmtungi tilvika til aflimunar. Sjaldgæft sé að fullorðinn maður, sem haldinn sé sykursýki, fái sýkingu í útlim án þess að sár valdi henni og séu blóðbornar mjúkvefja- og beinasýkingar mjög óvenjulegar. Áfrýjandi hefur ekkert lagt fram í málinu til að hnekkja þessum ályktunum. Verður samkvæmt því að leggja til grundvallar að sárið, sem stefndi fékk á tá í slysinu 5. júlí 2015, hafi verið orsök þess líkamstjóns, sem hann varð að endingu fyrir vegna brottnáms á tánni og beins í rist á fæti hans. Ljóst er þó einnig af vottorðinu að sárið hefði vart getað leitt til þessa tjóns nema sökum þess að stefndi var haldinn sykursýki þegar slysið bar að höndum.

Þegar mat er lagt á það hvort skilyrði séu til að fella á áfrýjanda skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnda og þar með áhættuna af því að stefndi hafi vegna sjúkdóms síns verið berskjaldaðri en almennt gerist fyrir því að lítilsháttar áverki á fæti gæti haft þær afleiðingar, sem raun varð á, verður eftir viðteknum kenningum í norrænum skaðabótarétti að horfa einkum til þriggja atriða. Eins og atvikum er hér háttað verður þannig í fyrsta lagi að líta til þess hvort stefndi hafi verið haldinn þessum veikleika áður en hann varð fyrir slysinu, í öðru lagi hvort sá veikleiki hafi legið þá í dvala og ekki orðið til tjóns fram að því og í þriðja lagi hvort slysið hafi leyst úr læðingi skaðlegar afleiðingar veikleikans. Um þetta er þá þess að gæta að fyrir liggur að stefndi hafði verið haldinn sjúkdómnum sykursýki I að minnsta kosti frá árinu 1997, en slysið varð 5. júlí 2015. Sjúkdómurinn var að sönnu þekktur allan þann tíma, en hafði ekki eftir gögnum málsins skert vinnugetu stefnda eða hamlað honum á annan hátt en þann að hann var háður reglubundinni og tíðri lyfjatöku. Óumdeilt er að stefndi hlaut við slysið það sár, sem sýking settist síðan í, og verður að leggja til grundvallar í ljósi fyrrgreinds læknisvottorðs að sárið hafi þannig raungert þá hættu, sem sjúkdómur hans hafði í för með sér. Að auki verður að gæta þess að afleiðingar slyssins geta ekki talist svo langsóttar að komið sé út fyrir mörk þess, sem áfrýjandi verði að bera áhættu af. Að þessu öllu virtu verður að líta svo á að nægilega megi rekja líkamstjón stefnda til slyssins svo að áfrýjandi verði látinn bera skaðabótaábyrgð á því.

Af áðurgreindum framburði stefnda fyrir héraðsdómi verður ráðið að honum hafi verið ljóst að sjúkdómur hans hefði áhrif á það hvernig sár greru á líkama hans, gæta þyrfti varúðar þegar hann fengi þau og grípa yrði til varna gegn því að sýking settist í þau. Ekki eru efni til að fallast á með áfrýjanda að stefndi hafi sýnt af sér vangæslu þótt hann hafi ekki leitað til læknis fyrr en um sex vikum eftir að hann hlaut sár í slysinu, sem málið varðar. Þótt líta verði á hinn bóginn svo á að gálaust hafi verið af stefnda að búa ekki um sárið á fyrrnefndum tíma, sem leið að morgni 14. október 2015 frá því að hann baðaði sig þar til hann gekk til læknis, getur það gáleysi ekki talist vítavert í skilningi síðari málsliðar 1. mgr. 172. gr. siglingalaga þannig að stefndi verði sjálfur að bera tjón sitt með öllu eða að hluta.

Samkvæmt öllu framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þá kröfu stefnda, sem hér hefur verið fjallað um. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, B hf., greiði stefnda, A, 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Ásmundur Helgason og Hervör Þorvaldsdóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 10. júlí 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Suðurlands 13. júní 2018 í málinu nr. E-[…]/2017.

2        Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda. Til vara krefst hann þess annars vegar, hvað viðurkenningarkröfu varðar, að ábyrgð verði skipt og bótaréttur stefnda eingöngu viðurkenndur í samræmi við þá skiptingu og hins vegar krefst hann lækkunar á fjárkröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Landsrétti.

3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

4        Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi auk þess sem þar er gerð grein fyrir málsástæðum aðila. Eins og þar segir lýtur ágreiningur þeirra að því hvort á áfrýjanda hvíli skaðabótaskylda á grundvelli 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 vegna afleiðinga slyss sem stefndi kveðst hafa orðið fyrir 5. júlí 2015 um borð í […]. Ágreiningslaust er að áfrýjandi gerði skipið út og að stefndi var ráðinn […] um borð í umrætt sinn. Þá er óumdeilt að stefndi varð fyrir því óhappi um miðnætti 5. júlí 2015 að renna til og reka vinstri fótinn upp undir koll í skipsklefa sínum eins og lýst er í skipsdagbók. Þar segir að við þetta hafi stefndi fengið „smá sár“ á utanverða litlu tá vinstri fótar. Eins og rakið er í héraðsdómi olli sárið beinsýkingu og beineyðingu í litlu tá og rist stefnda um miðjan október 2015 og þurfti að fjarlægja tána og hluta af beini á rist með aðgerð 22. sama mánaðar.

5        Í 1. mgr. 172. gr. siglingalaga segir að útgerðarmaður beri ábyrgð á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum hafi slys borið að höndum er hlutaðeigandi var staddur á skipi eða vann í beinum tengslum við rekstur skips enda þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til bilunar á tækjum eða ónógra öryggisráðstafana né heldur yfirsjónar þeirra er starfa í þágu skips. Þá segir í ákvæðinu að lækka megi fébætur eða láta þær niður falla ef sá sem fyrir slysi eða tjóni varð sýndi vítavert gáleysi sem leiddi til slyssins eða tjónsins. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er útgerðarmanni skylt að kaupa tryggingu fyrir bótum sem á hann kunna að falla samkvæmt 1. mgr. greinarinnar. Nánari fyrirmæli eru í ákvæðinu um fjárhæð dánar- og slysabóta sem greiða ber úr tryggingunni. Þá er mælt fyrir um heimild útgerðarmanns til að takmarka ábyrgð sína í 173. gr. til 183. gr. laganna. Af 5. tölulið 175. gr. laganna leiðir að hlutlæg bótaábyrgð útgerðar á kröfu vegna lífs- og líkamstjóns samkvæmt 1. mgr. 172. gr. laganna takmarkast við fjárhæð tryggingar samkvæmt 2. mgr. sömu greinar.

6        Hlutlæg bótaregla 1. mgr. 172. gr. siglingalaga er skaðabótaregla þó að fjárhæð bóta takmarkist af vátryggingu sem útgerðarmanni er skylt að kaupa. Við túlkun á slysahugtaki greinarinnar má eftir sem áður hafa hliðsjón af því hvernig hugtakið er almennt skilgreint í vátryggingarskilmálum og vátryggingarrétti þannig að sé um slys að ræða í skilningi þeirra skilmála megi jafnframt ganga út frá því að hlutlæg bótaregla 1. mgr. 172. gr. siglingalaga taki til þess.

7        Fyrir liggur að óhappið varð skyndilega með því að stefndi rak vinstri fótinn í koll um borð í skipinu með þeim afleiðingum að sár myndaðist á vinstri fæti. Samkvæmt því var um skyndilegan, utanaðkomandi atburð að ræða sem olli meiðslum á líkama stefnda án vilja hans. Af þessu leiðir að fullnægt er skilyrðum 1. mgr. 172. gr. siglingalaga um að stefndi hafi orðið fyrir slysi þegar hann var ráðinn í skiprúm hjá áfrýjanda og var staddur á skipinu.

8        Bótaábyrgð samkvæmt 1. mgr. 172. gr. siglingalaga stofnast ekki nema að líkamstjón skipverja verði rakið til slyss um borð í viðkomandi skipi. Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að skilyrði um slík orsakatengsl sé ekki fullnægt í málinu. Vísar hann til þess að orsök þess líkamstjóns sem stefndi varð fyrir í október 2015 hafi verið sykursýki sem hrjáð hafi stefnda og hirðuleysi hans við að meðhöndla sárið en ekki atvikið um borð í skipi áfrýjanda. Þá er á því byggt að þær miklu afleiðingar sem sárið hafði falli utan ábyrgðar hans þar sem skilyrði um sennilega afleiðingu sé ekki fullnægt.

9        Stefndi var ungur að árum greindur með sykursýki og hefur sjúkdómurinn verið meðhöndlaður með innsúlíngjöf úr sprautu. Samkvæmt sjúkraskrá leitaði stefndi á heilsugæslu 17. ágúst 2015 þar sem sárið, sem hann hlaut 5. júlí sama ár, hafði stækkað og hann verkjaði í það. Hafði hann þá borið sýkladrepandi krem á sárið án árangurs. Sárið var í framhaldinu þvegið og búið um það. Hann leitaði að nýju til heilsugæslunnar 10. september 2015 og greindi læknir hann þá með „diabetiskt fótsár“ með mögulegri sýkingu. Samkvæmt sjúkraskrá var sárið á þeim tíma frekar djúpt og aðeins minna en einnar krónu peningur. Stefnandi fékk ávísað sýklalyfi og var honum bent á að koma aftur í umbúðaskipti og endurmat. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að það hafi stefndi gert. Samkvæmt niðurstöðu úr ræktun á sýni úr sárinu, sem lá fyrir 28. september 2015, greindust fjórar tegundir baktería í því. Röntgenmynd var tekin af fætinum en niðurstaða hennar, sem lá fyrir 12. október 2015, gaf til kynna að sýking væri í beinum með „beineyðingu í nærkjúku litlu táar“ eins og segir í vottorði C æðaskurðlæknis 15. febrúar 2016. Stefndi leitaði til heilsugæslunnar 14. október sama ár en hafði rétt áður farið í sturtu án þess að vera með neitt yfir sárinu. Greindi hann frá því að hann hefði farið í sokk beint yfir sárið en ráða má af færslu í sjúkraskrá að þess vegna hafi þurft að hreinsa sárið vel. Þegar læknir skoðaði hann var táin eldrauð og bólgin og náðu einkenni upp á rist og sköflung. Í vottorði æðaskurðlæknisins kemur fram að stefndi hafi þá verið kominn með húðnetju- og sogæðabólgu og að hann hafi fengið sýklalyfið Ceftriaxone í æð. Hafi sárið verið opnað daginn eftir og var þá komið inn á „graftarpoll fremst í litlu tá og sett dren í 24 klukkustundir“. Stefndi lagðist síðan inn á sjúkrahúsið í […] 16. október þar sem honum var gefin önnur tegund sýklalyfs í æð. Hann var sendur á bráðamóttöku Landspítalans 19. október sama ár og var lagður inn á lyflæknisdeild. Hann gekkst undir aðgerð 22. október sama ár þar sem litla táin var fjarlægð og hluti af beini á rist auk þess sem gröftur var hreinsaður og dauð húð fjarlægð. Í framangreindu vottorði er meðferð stefnda í kjölfarið lýst.

10       Í framangreindu vottorði æðaskurðlæknisins er einnig vikið almennt að samspili sykursýki og fótameina. Þar kemur fram að fótamein sykursjúkra sé þekktur fylgikvilli sjúkdómsins. Jafnvel lítil sár geti leitt til meiri háttar aflimunar hjá sykursjúkum. Í vottorðinu er vitnað til þekktrar textabókar í æðaskurðlækningum þar sem fram kemur að allt að 25% sykursjúkra fái fótasár einhvern tímann á lífsleiðinni. Þar segir að sáramyndun sé vendipunktur í ferlinu að sýkingu og aflimun. Kemur þar fram að um 50% „sykursýkisfótasára“ sýkist og um 20% af „sýktum sykursýkisfótasárum“ þurfi aflimunar við. Þá er í vottorðinu vitnað til þeirra orða í ritinu að sjaldgæft sé að fullorðinn einstaklingur með sykursýki fái sýkingu í útlim án sárs sem orsakavalds. Þess vegna sé mikilvægt að fótasár séu greind og meðhöndluð.

11       Samkvæmt framangreindu verður að líta svo á að slysið 5. júlí 2015 annars vegar og sykursýkin sem hrjáði stefnda hins vegar hafi verið samverkandi orsakir líkamstjóns hans. Án sáramyndunar við slysið hefði með öðrum orðum ekki komið til þeirra einkenna og meðferðar sem lýst er í vottorði læknisins. Sáramyndunin var því nauðsynlegt skilyrði líkamstjóns stefnda en hvorki sárið né sjúkdómurinn voru nægjanleg til þess að tjónið yrði. Með undirliggjandi sjúkdómi hafði sáramyndunin þá eiginleika sem voru fallnir til þess að valda því tjóni sem stefndi varð fyrir. Þá varð áfrýjandi að sæta því að tjónþoli var veikari fyrir að þessu leyti en almennt gengur og gerist. Í þessu ljósi ber að fallast á að skilyrðum sé fullnægt til að áfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnda á grundvelli hlutlægrar bótareglu 1. mgr. 172. gr. siglingalaga. Þá hefur áfrýjandi ekki fært sönnur á að stefndi hafi sýnt af sér vítavert gáleysi við meðhöndlun á sárinu þannig að efni sé til þess að lækka fébætur eða láta þær falla niður á grundvelli niðurlags greinarinnar. Samkvæmt þessu ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um skaðabótaábyrgð áfrýjanda eins og í dómsorði greinir.

12       Í hinum áfrýjaða dómi var auk viðurkenningar á skaðabótaábyrgð áfrýjanda fallist á greiðsluskyldu hans á grundvelli 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Í ákvæðinu segir að verði skipverji óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skuli hann eigi missa neins af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Í málinu liggja fyrir gögn er sýna að stefndi var ráðinn til einnar veiðiferðar í senn á skip sem áfrýjandi gerir út. Þegar stefndi varð fyrir meiðslum 5. júlí 2015 var hann ráðinn á […] til loka veiðiferðarinnar degi síðar. Hann var lögskráður á sama veiðiskip næstu mánuði, síðast frá 24. til 29. september 2015. Hann var ráðinn í veiðiferð á annað skip í eigu áfrýjanda 6. til 11. október 2015 en samkvæmt læknisvottorði varð stefndi óvinnufær frá 12. sama mánaðar allt til 8. febrúar 2016. Í málinu liggur fyrir annað læknisvottorð um óvinnufærni stefnda frá 11. apríl til 31. maí 2016.

13       Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið ber að fallast á þá niðurstöðu héraðsdóms að stefndi hafi verið óvinnufær vegna meiðsla sem hann hlaut meðan á ráðningartíma stóð. Af þeim sökum naut hann réttar til óskertra launa úr hendi áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga í tvo mánuði. Eftir það átti hann rétt til þess að fá greitt „fast kaup, kauptryggingu eða sérlega umsamið veikindakaup“ samkvæmt 3. mgr. sömu greinar í allt að þrjá mánuði til viðbótar.

14       Kröfugerð stefnda, sem fallist var á í héraðsdómi, er á því reist að hann eigi tilkall til staðgengilslauna í fimm mánuði meðan hann var óvinnufær. Í framlögðum útreikningum Sjómannasambands Íslands á launum stefnda á þeim tíma er miðað við að hann hafi verið ráðinn […] á […]. Þar sem skipið var ekki á sjó frá 12. október til 10. nóvember 2015 er lagt til grundvallar að stefndi hafi átt rétt á kauptryggingu […] á þeim tíma en eftir það hafi borið að taka mið af aflahlut […] meðan hann var óvinnufær.

15       Þessi kröfugerð samrýmist ekki framangreindum fyrirmælum 1. og 3. mgr. 36. gr. sjómannalaga. Samkvæmt þeim átti stefndi rétt á staðgengilslaunum, er gátu eftir atvikum verið aflahlutur, fyrstu tvo mánuðina eftir að hann varð óvinnufær en eftir það einskorðaðist réttur hans við kauptryggingu í þrjá mánuði. Ekki verður ráðið af kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands, sem lagður hefur verið fram, að þar hafi verið samið um betri rétt að þessu leyti en leiðir af sjómannalögum. Útreikningur, sem áfrýjandi lagði fram í héraði til stuðnings varakröfu sinni um lækkun á fjárkröfu stefnda, tekur mið af forsendum 1. og 3. mgr. 36. gr. sjómannalaga. Eins og í kröfugerð stefnda er þar miðað við kauptryggingu og aflahlut […] á […]. Þessir útreikningar hafa ekki sætt andmælum stefnda og ber því að fallast á þá kröfu með þeim dráttarvöxtum sem í dómsorði greinir.

16       Engin rök hafa verið færð fyrir því að efni sé til þess að breyta niðurstöðu héraðsdóms um málskostnað. Ákvæði hans um það atriði skal því vera óraskað. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Landsrétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennd er skaðabótaábyrgð áfrýjanda, B hf., á afleiðingum slyss sem stefndi, A, varð fyrir 5. júlí 2015 um borð í […].

Áfrýjandi greiði stefnda 3.022.688 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 254.773 krónum frá 15. nóvember 2015 til 15. desember 2015, af 1.480.492 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2016, af 2.077.325 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2016, af 2.399.608 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2016, af 2.485.550 krónum frá þeim degi til 15. maí 2016, af 2.700.405 krónum frá þeim degi til 15. júní 2016 og af 3.022.688 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað. Áfrýjandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.

Dómur  Héraðsdóms Suðurlands, miðvikudaginn 13. júní 2018

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 20. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 13. janúar 2017.

            Stefnandi er A, kt. […], […].

            Stefndi er B hf., kt. […], […].

            Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefnda B hf. á afleiðingum vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir 5. júlí 2015 um borð í […]. Þá er þess jafnframt krafist að stefndi greiði stefnanda 5.521.201 krónu vegna launa í slysaforföllum ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 227.099 krónum frá 15. nóvember 2015 til 15. desember 2015, af 1.152.441 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2016, af 2.015.793 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2016, af 3.305.346 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2016, af 3.420.783 krónum frá þeim degi til 15. maí 2016, af 3.849.987 krónum frá þeim degi til 15. júní 2016 og loks af 5.521.201 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt reikningi. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

            Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara eru þær kröfur gerðar að sök verði skipt hvað viðurkenningarkröfu varðar og bótaréttur stefnanda eingöngu viðurkenndur í samræmi við þá skiptingu. Þá gerir stefndi þá kröfu að laun í slysaforföllum verði lækkuð. Þá gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda að  mati dómsins.

            Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar kröfur í málinu að öðru leyti en því að hann krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að  mati dómsins.

 

Málavextir.

            Stefnandi mun hafa verið ráðinn sem […] á fiskiskipið […] með ráðningarsamningum dagsettum 9. maí 2015, 14. júní sama ár og 2. júlí sama ár. Stefnandi hefur lýst því að um miðnætti 5. júlí sama ár hafi hann verið að fara í koju sína þegar veltingur hafi komið á skipið, hann hafi runnið til og rekið vinstri fót upp undir koll í klefa sínum. Við þetta hafi hann fengið slæmt sár á utanverða litlu tá vinstri fótar. Plástur mun hafa verið settur á sárið en enginn sjónarvottur varð að atvikinu, en stefnandi hafði samband við stýrimann skipsins og óskaði eftir skráningu á atvikinu. Atvikið var skráð í skipsdagbók og þar kemur fram að vindhraði hafi þennan dag verið 15-18 metrar á sekúndu. Stefnandi mun hafa haldið áfram störfum hjá stefnda en þegar verkir hafi farið að ágerast og sárið sýnt þess merki að það væri að stækka hafi hann leitað til læknis 17. ágúst sama ár og aftur 20. ágúst sama ár. Stefnandi tekur fram að hann hafi greinst með sykursýki I árið 1997 og af þeim sökum hafi eftirfylgni lækna verið meiri. Samkvæmt gögnum málsins leitaði stefnandi til heilsugæslu þann 10. september sama ár og kemur fram í samskiptaseðli að sárið hafi verið aðeins minna en 1 krónu peningur og aðeins gróandi væri í sárinu en hægur. Búið var um sárið og stefnandi settur á sýklalyf. Stefnandi mun hafa komið á heilsugæslu 14. september sama ár, 21. sama mánaðar, 28. sama mánaðar og þann 12. október sama ár en þá munu hafa sést merki um sýkingu í beini. Þann 14. sama mánaðar mun stefnandi hafa komið tvisvar á heilsugæslu og vegna fyrri komunnar er því lýst að hann hafi farið í sturtu og ekki verið með neitt yfir sárinu og hefði hann farið í sokkinn beint yfir. Hafi þurft að hreinsa sárið vel þar sem mikið hafi verið af sokki í sárinu. Þennan dag mun fótur stefnanda hafa farið hratt versnandi með roða, húðnetjubólgu og sogæðabólgu upp á miðjan sköflung. Í kjölfarið var stefnandi fluttur á bráðamóttöku Landspítalans og þann 22. sama mánaðar var gerð aðgerð þar sem litla tá stefnanda var fjarlægð ásamt hluta af beini á rist.

            Samkvæmt læknisvottorði C læknis, dags. 15. febrúar 2016, var það umrætt sár sem stefnandi fékk á litlu tá sem endaði með framangreindri sýkingu sem gert hafi það að verkum að nauðsynlegt reyndist að fjarlægja tána og hluta af beini á rist. Í vottorðinu segir að það sé vel þekkt að lítil sár geti leitt til meiri háttar aflimana hjá sykursjúkum einstaklingum.

            Stefnandi mun hafa verið óvinnufær frá 12. október 2015 til 8. febrúar 2016 og aftur frá 11. apríl sama ár til 31. maí sama ár en stefndi mun hafa neitað ósk hans um greiðslu launa í slysaforföllum í nóvember 2015 þar sem of langur tími væri liðinn frá óhappinu og meira yrði að koma til sönnunar því að slysið hefði valdið óvinnufærni stefnanda. Stefnandi skilaði tilkynningu um slysið til Sjúkratrygginga Íslands sem í kjölfarið samþykkti bótaskyldu vegna slyssins. Réttargæslustefndi hafnaði hins vegar greiðslu bóta úr slysatryggingu sjómanna með vísan til gr. 10.4 í skilmálum tryggingarinnar þar sem fram kemur að bætur greiddust aðeins ef slysið væri bein og eina orsök þess að vátryggður léti lífið eða missti starfsorku sína að nokkru eða öllu leyti. Þá vísaði félagið til þess að starfsorkumissir stefnanda væri vegna vanrækslu  hans á að leita strax til læknis, en þessi vanræksla hefði orðið til þess að þurft hefði að aflima hann. Stefnandi reyndi án árangurs að innheimta hjá stefnda laun í slysaforföllum en stefndi féllst ekki á þær kröfur.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

             Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á bótaskyldu á ráðningarsamningi aðila, 172. gr. siglingalaga nr. 34/1984 og kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands frá 1. janúar 2009. Stefnandi byggir á því að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á slysi stefnanda samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Óumdeilt sé að stefnandi hafi orðið fyrir slysi um borð í togara sem gerður sé út af stefnda. Samkvæmt ákvæði 1.23 í kjarasamningnum beri útgerð að tryggja hvern þann mann sem samningurinn nær til og slasast um borð í skipi eða í vinnu í tengslum við rekstur skips í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga. Þá beri útgerðarmanni skv. 2. mgr. 172. gr. laganna að kaupa tryggingu fyrir slysabótum sem á hann kunna að falla og eigi bæturnar að ákvarðast á grundvelli skaðabótalaga leiði það til hærri heildarbóta. Í 5. mgr. ákvæðis 1.23 í kjarasamningnum segi að um vátrygginguna skuli að öðru leyti gilda almennir skilmálar fyrir slysatryggingu sjómanna. Gildissvið slysatryggingar sjómanna sem stefndi hafi keypt hjá réttargæslustefnda til þess að tryggja sig fyrir kröfum sem skipverjar gætu átt á hendur útgerðinni sé þrengra en hlutlæg ábyrgð stefnda. Slík þrenging gildi ekki gagnvart stefnanda, stefndi beri hlutlæga ábyrgð á slysi stefnanda óháð því hvort slysið kunni að falla utan vátryggingarskilmála vátryggingafélags þar sem vátrygging hafi verið keypt. Stefndi sé ekki í samningssambandi við vátryggingafélag stefnda og hvorki í kjarasamningum né lögum sé vikið að því að útgerð sé heimilt að takmarka bótaskyldu á þeim grundvelli sem réttargæslustefndi hafi gert. Þá byggir stefndi á því að umræddir vátryggingarskilmálar séu háðir takmörkunum og undanþágum sem almennt tíðkist ekki hjá íslenskum vátryggingafélögum. Sjúkratryggingar Íslands hafi samþykkt bótaskyldu vegna slyss stefnanda, enda engar sambærilegar undanþágur í lögum um slysatryggingar almannatrygginga á borð við þær sérstöku undanþágur sem réttargæslustefndi byggir höfnun sína á.  Það sé á áhættu stefnda að kynna sér skilmála réttargæslustefnda og eftir atvikum að kaupa tryggingarvernd hjá vátryggingafélagi sem þrengdi ekki gildissvið slysatryggingar sjómanna. Það hafi stefndi ekki gert en það breyti því ekki að stefndi ber fulla bótaábyrgð á slysi stefnanda. Þá beri stefndi hallann af því að sú vátryggingarvernd sem hann hafi keypt hjá réttargæslustefnda hafi ekki tekið til hlutlægrar bótaskyldu stefnda á slysi stefnanda samkvæmt lögum og kjarasamningi.

             Stefnandi byggir kröfu um laun í slysaforföllum á 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og gr. 1.21 í fyrrgreindum kjarasamningi sem vísi til sama ákvæðis varðandi rétt skipverja til slysa- og veikindabóta. Þar sé kveðið á um að skipverji, sem verði óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verði fyrir meðan á ráðningartíma stendur, skuli eigi missa neins í af launum sínum meðan hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum. Óumdeilt sé að stefnandi hafi verið starfsmaður stefnda þegar hann slasaðist  og hafi hann því áunnið sér rétt til launa í slysaforföllum. Samkvæmt 1. og 3. mgr. 36. gr. sjómannalaga hafi stefnda borið að greiða stefnanda laun í 5 mánuði meðan hann hafi verið óvinnufær vegna slyssins. Þessi skylda sé óháð skaðabótaskyldu vegna slyssins og einungis háð því að um slys hafi verið að ræða sem skipverji hafi orðið fyrir við vinnu sína. Þessi ákvæði séu skýr og ófrávíkjanleg, í öllu falli hefði stefnanda borið að greiða laun í veikindaforföllum samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna óháð því hvort forföllin hafi stafað af slysi. Stefndi hafi ekki innt þá greiðslu af hendi þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Stefnandi hafi ekki leynt þeirri staðreynd að hann væri haldinn sykursýki I þegar hann hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda og því séu engar forsendur til að horfa til ákvæðis 4. mgr. 36. gr. laganna. Hafi samstarfsmönnum og yfirmönnum stefnanda veri ljóst að hann hafi notað Insulin í sprautuformi nokkrum sinnum á dag og hafi sjúkdómur hans því ekki dulist neinum. Þá hafi sjúkdómurinn aldrei haft áhrif á vinnugetu stefnanda.

             Stefnandi byggir kröfu sína á útreikningi Sjómannasambands Íslands og upplýsingum frá Verðlagsstofu skiptaverðs og afla og aflaverðmæti á því tímabili þegar stefnandi hafi verið óvinnufær. Þá gerir stefnandi kröfu um 10.17% orlof af launakröfunni í samræmi við 7. gr. laga nr. 30/1987, sbr. 2. gr. laganna.

             Stefnandi byggir á almennum reglum skaðabótaréttar, meginreglum samningaréttar um skyldu til efnda samninga og vinnuréttar um réttar efndir ráðningarsamninga. Þá er byggt á ákvæðum siglingalaga nr. 34/1985, einkum 172. gr. laganna, sjómannalaga nr. 35/1985, sérstaklega 6. og 36. gr. þeirra. Krafa um orlof er byggð á ákvæðum laga nr. 30/1987, sérstaklega 7. og 2. gr. Krafa um vexti og vaxtavexti er studd við III. kafla laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

             Stefndi byggir á því að skilmálar slysatryggingarinnar séu í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga og hafnar því að hafa á einhvern hátt takmarkað kjarasamningsbundin og lögbundin réttindi stefnanda til bóta. Ákvæði í kjarasamningi mæli fyrir um að kaupa skuli vátryggingu vegna 172. gr. siglingalaga og að um þá tryggingu skuli gilda almennir skilmálar fyrir slysatryggingu sjómanna. Stefndi hafi keypt slíka tryggingu hjá réttargæslustefnda með tilteknum skilmálum. Bótasviðið sé tilgreint í gr. 9.1 og sé inntak þess hið sama og í 1. mgr. 172. gr. siglingalaga. Stefnandi verði að sæta því að uppfylla þurfi almenn skilyrði til að bótaréttur geti stofnast, eins og um orsakatengsl og felist engin þrenging á bótarétti í því.

            Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi byggð á því að þær afleiðingar sem stefnandi búi við verði ekki raktar til slyss í skilningi 172. gr. siglingalaga. Í 171. gr. laganna sé að finna meginregluna um skaðabótaábyrgð útgerðarmanns á grundvelli sakar. Í 172. gr. laganna sé mælt fyrir um hlutlæga ábyrgð í vissum tilvikum sem feli í sér undantekningu frá meginreglunni í 171. gr. Hugtakið slys sé skilgreint með sambærilegum hætti í skilmálum þeirra tryggingarfélaga sem veiti slysatryggingar sjómanna hér á landi, en átt sé við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem vátryggður er og gerist án vilja hans. Stefndi byggir á því að umrætt atvik verði ekki heimfært undir slysahugtakið þar sem það hafi hvorki verið skyndilegt né utanaðkomandi. Í skipsdagbók komi fram að það hafi verið mikill vindur og á sjó valdi hann veltingi. Veltingur í slíkum aðstæðum sé ekki skyndilegur og feli ekki í sér frávik frá þeirri atburðarás sem stefnandi hafi mátt reikna með miðað við aðstæður. Þegar af þeirri ástæðu séu skilyrði ákvæðisins um slys ekki uppfyllt og bótaréttur ekki fyrir hendi.

            Stefndi byggir á því í öðru lagi að ósannað sé að stefnandi hafi hlotið umrædd meiðsli er hann hafi rekið tána í og sé því ekki uppfyllt það skilyrði að atburður hafi valdið meiðslum á líkama. Stefnandi hafi hlotið smá sár sem ekki hafi þarfnast annars en að plástur hafi verið settur yfir. Atburðarásina sem síðar hafi orðið hafi hins vegar verið að rekja til alvarlegs sjúkdóms sem stefnandi hafi lengi verið haldinn, sykursýki I. Óhætt sé að ganga út frá að án þess sjúkdóms hefði atvikið engar afleiðingar haft.  Sýkingin geti því ekki talist skyndilegur utanaðkomandi atburður heldur sé hana að rekja til innra ástands í líkama stefnanda. Þá hafi afleiðingarnar verið lengi að koma fram  og geti því ekki talist skyndilegur utanaðkomandi atburður.

            Stefndi byggir einnig á því að ekki sé fullnægt skilyrðinu um orsakatengsl verði talið að um slys hafi verið að ræða. Ljóst sé að atvikið um borð í skipinu hafi ekki verið orsök tjónsins og alls ekki meginorsök þess. Þrátt fyrir að stefnandi hafi hlotið smá sár á litlu tá hafi það verið fyrrnefndur sjúkdómur stefnanda sem orsakað hafi hvernig fór. Geti sárið eitt og sér aldrei hafa verið nægileg orsök þess að fjarlægja hafi þurft litlu tá ásamt hluta af beini á rist. Í áverkavottorði komi fram að fótamein sykursjúkra sé vel þekktur fylgikvilli sykursýki og vel þekkt að jafnvel lítil sár geti leitt til meiriháttar aflimana hjá sykursjúkum. Þá komi þar fram að sykursjúkir geti jafnvel fengið sýkingu í fót án þess að nokkuð utanaðkomandi hafi valdið sári á fætinum. Því sé mikilvægt að fótasár séu greind og meðhöndluð tafarlaus. Langur tími hafi liðið þar til stefnandi hafi leitað fyrst til læknis og þá komi fram í áverkavottorði að sykursýkistjórnun hafi verið ábótavant hjá stefnanda og hann hafi haft mikil líkamleg einkenni af völdum sjúkdómsins. Hann hafi ekki mælt blóðsykur sinn reglulega á þeim tíma sem hann hafi sætt læknismeðferð vegna sársins, en það sé talinn mikilvægur þáttur í meðferð sykursjúkra. Hafi þessi vanræksla að miklu leyti átt þátt sinn í líkamstjóninu. Þá hafi stefnandi rétt fyrir aðgerð farið í sturtu án þess að vera með neitt yfir sárinu og síðan farið í sokk beint yfir. Síðar um daginn hafi verið mikið af sokki í sárinu og meiri sýking í því. Eftir þetta hafi fóturinn farið hratt versnandi og nokkrum dögum síðar hafi táin verið fjarlægð. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi sýnt af sér vítavert hirðuleysi hvað varðar meðhöndlun á sárinu í ljósi sjúkdóms síns og hafi líkamstjónið orðið í beinu framhaldi af því. Í þessu hafi falist stórfellt gáleysi sem leiði til brottfalls mögulegs bótaréttar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 172. gr. siglingalaga.

            Verði fallist á að orsakatengsl séu milli umrædds atviks og þess tjóns sem stefnandi krefst viðurkenningar á bótaskyldu á, telur stefndi að skilyrðinu um sennilega afleiðingu sé ekki fullnægt. Það sé meginregla í skaðabóta- og vátryggingarétti að tjónvaldur beri aðeins ábyrgð á afleiðingum sem hann sá eða átti að sjá fyrir. Afleiðingar sársins hafi verið ófyrirsjáanlegar og falli utan marka ábyrgðar stefnda. Þá verði ekki annað séð miðað við viðbrögð stefnanda eftir að hann hlaut sárið en að  hann hafi ekki talið nokkrar líkur á þeim afleiðingum sem að lokum urðu. Hann hafi ekki vakið athygli á því að slíkar afleiðingar væru mögulegar vegna sykursýkinnar þegar hann hafi óskað eftir skráningu atviksins í skipsbók og þá hafi hann látið margar vikur líða þar til hann hafi leitað til læknis.

            Stefndi vísar til reglunnar í lokamálslið 1. mgr. 172. gr. siglingalaga um að lækka megi fébætur eða láta þær niður falla ef sá, sem fyrir slysi eða tjóni varð, sýndi vítavert gáleysi sem leiddi til slyssins eða tjónsins og þá vísar stefndi til óskráðrar reglu skaðabóta- og vátryggingaréttar um skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt. Stefnandi hafi verið greindur með sykursýki I […] ára gamall og hafi hann haft margvísleg einkenni sjúkdómsins þegar hann hafi fengið sár á tána. Hann hafi látið nokkrar vikur líða þar til hann hafi leitað læknis og ekkert liggi fyrir um hvernig hann hafi meðhöndlað sárið á þeim tíma. Komur hans á heilsugæslu hafi verið slitróttar og þá vegi þungt aðgæsluleysi stefnanda þegar hann hafi farið í sturtu án þess að hafa neitt yfir sárinu.

            Varakrafa stefnda um skiptingu ábyrgðar er á því byggð að tjónið sé a.m.k. að mestu leyti á ábyrgð stefnanda. Hann hafi sýnt af sér mikið hirðuleysi við að leita læknis og í allri meðhöndlun sársins. Megi ljóst vera að þessi atriði hafi verið meginorsakir þess hvernig fór.

            Stefndi reisir kröfu sína um sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu forfallalauna á því að skilyrði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga séu ekki uppfyllt. Umrætt atvik hafi orðið 5. júlí 2015 og hafi stefnandi þá verið  með ráðningu til einnar veiðiferðar sem lokið hafi daginn eftir. Stefnandi hafi ekki orðið óvinnufær á ráðningartímanum heldur hafi óvinnufærni hans komið til rúmum þremur mánuðum síðar. Óvinnufærnin hafi ekki komið til vegna sjúkdóms eða meiðsla meðan á ráðningartímanum hafi staðið heldur vegna sjúkdóms sem stefnandi hafi verið haldinn áður en ráðningartímabilið hófst og sinnuleysis hans gagnvart sjúkdómnum síðar. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir slysi í skilningi 3. mgr., sbr. 1. mgr.  36. gr. sjómannalaga.

            Varakrafa stefnanda er á því byggð að samkvæmt 3. mgr. 36. gr. sjómannalaga eigi stefnandi aðeins rétt til fastra launa, kauptryggingar eða umsaminna veikindalauna sem í tilviki stefnanda væri eingöngu kauptrygging. Verði ekki fallist á sýknukröfuna krefst stefndi þess að stefnandi eigi einungis rétt á greiðslu á 3.022.688 krónum.

            Stefndi vísar til meginreglna vátrygginga- og skaðabótaréttar, 171. og 172. siglingalaga og 36. gr. sjómannalaga. Krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða.

                Ekki er um það deilt í máli þessu að um miðnætti þann 5. júlí 2015 rak stefnandi vinstri fót sinn upp undir koll í klefa sínum er hann hugðist fara í koju sína í fiskiskipinu […], en stefnandi hafði verið ráðinn sem […] á skipið. Þá er ekki deilt um það að við þetta hafi hann fengið sár á utanverða litlu tá vinstri fótar. Atvikið var skráð í skipsdagbók og þar kemur fram að vindhraði hafi þennan dag verið 15-18 metrar á sekúndu. Stefnandi mun fyrst hafa leitað til læknis þann 17. ágúst sama ár en sökum þess að hann var haldinn sykursýki I var ljóst að fylgjast þurfti sérstaklega vel með sárinu og verður ekki annað ráðið af málflutningi stefnanda en að honum hafi verið þetta vel ljóst. Ekki tókst betur til en svo að þann 12. október sama ár fundust merki um sýkingu í beinum með beineyðingu í litlu tá og rist stefnanda. Stefndi bendir sérstaklega á að rétt fyrir aðgerð hafi stefnandi farið í sturtu án þess að vera með neitt yfir sárinu og síðan farið í sokk beint yfir. Síðar um daginn hafi verið mikið af sokki í sárinu og meiri sýking í sárinu. Eftir þetta hafi fóturinn farið hratt versnandi og  þann 22. október 2016 var litla tá stefnanda fjarlægð ásamt hluta af beini á rist.

            Samkvæmt ráðningarsamningi hafði stefnandi verið ráðinn til einnar veiðiferðar á skipi stefnda sem hófst þann 2. júlí sama ár. Hann mun áður hafa gert slíka ráðningarsamninga við stefnda fyrir atvikið og þá er upplýst að hann hélt áfram störfum fyrir stefnda eftir það en hann mun hafa verið óvinnufær frá 12. október 2015 til 8. febrúar 2016 og aftur frá 11. apríl sama ár til 31. maí sama ár.

            Ágreiningur aðila snýst um það hvort umrætt atvik teljist vera slys í merkingu 1. mgr.  172. gr. siglingalaga, en samkvæmt því ákvæði ber útgerðarmaður ábyrgð á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum hafi slys borið að höndum er hlutaðeigandi var staddur á skipi eða vann í beinum tengslum við rekstur skips enda þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til bilunar á tækjum eða ónógra öryggisráðstafana né heldur yfirsjónar þeirra er starfa í þágu skips. Lækka má fébætur eða láta þær niður falla ef sá, sem fyrir slysi eða tjóni varð, sýndi vítavert gáleysi sem leiddi til slyssins eða tjónsins. Þá segir í 2. mgr. sömu lagagreinar að útgerðarmanni sé skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum er á hann kunna að falla skv. 1. mgr. Stefndi mun hafa keypt slíka tryggingu hjá réttargæslustefnda og í gr. 10.4 vátryggingarskilmála félagsins greiðast bætur því aðeins að slysið sé bein og eina orsök þess að vátryggður deyr eða missir starfsorku sína að nokkru eða öllu leyti. Þá er hugtakið slys í sömu skilmálum skilgreint þannig að átt sé við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem vátryggður er og gerist án vilja hans. 

            Fallast ber á það með stefnanda að það teljist vera slys í merkingu 1. mgr. 172. gr. siglingalaga þegar hann rak fót sinn upp undir koll með þeim afleiðingum að hann fékk sár á litlu tá. Kemur þá til skoðunar hvort lækka beri fébætur eða láta þær niður falla ef stefnandi verður talinn hafa sýnt af sér vítavert gáleysi sem leiddi til slyssins eða tjónsins eins og heimilt er samkvæmt lokamálslið framangreinds lagaákvæðis. Í máli þessu verður að telja nægilega upplýst og því ekki mótmælt af  hálfu stefnanda að afleiðingar slyssins hafi orðið miklu meiri sökum þeirrar sykursýki I sem stefnandi var haldinn. Stefnanda var þetta vel kunnugt en allt að einu leitaði hann ekki til læknis fyrr en um 6 vikum eftir slysið. Ekki liggur fyrir læknisfræðilegt mat á því hvaða afleiðingar þessi dráttur hefur haft á framvindu sýkingar þeirrar sem síðar greindist í beinum stefnanda og leiddi til framangreindrar aflimunar. Verður því ekki talið að nægilega sé sýnt fram á að stefnandi hafi sýnt af sér vítavert gáleysi í skilningi framangreinds lagaákvæðis og eru því hvorki efni til að lækka né fella niður fébætur til stefnanda. Verður því krafa stefnanda þess efnis að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefnda á afleiðingum slyssins tekin til greina.

            Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi eigi rétt á launum í slysaforföllum eins og hann hefur krafist. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga skal skipverji, sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur, eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en í tvo mánuði. Samkvæmt framlögðum ráðningarsamningum og viðauka við þá milli stefnanda og stefnda virðist stefnandi frá 9. maí 2015 hafa verið ráðinn til einnar veiðiferðar í senn og verður ekki betur séð en að síðustu veiðiferðinni hafi lokið þann 28. september sama ár. Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið óvinnufær vegna slyssins þann 12. október 2015 og er það í samræmi við framlögð læknisvottorð. Stefnandi varð fyrir meiðslum á ráðningartíma hans hjá stefnda sem leiddu til óvinnufærni hans síðar. Að mati dómsins verður 1. mgr. 36. gr. laganna ekki skilin svo að skilyrði greiðslu forfallalauna séu þau að óvinnufærnin hafi komið til á ráðningartíma, heldur ber að miða við það tímamark þegar slysið varð. Ber því að fallast á fjárkröfu stefnanda að þessu leyti og þar sem útreikningi hans hefur ekki verið hnekkt verður þessi kröfuliður tekinn til greina eins og í dómsorði greinir.

            Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 2.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostnaðar lögmanns stefnanda, 44.640 krónur.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

 

DÓMSORÐ:

 

            Viðurkennd er skaðabótaábyrgð stefnda B hf. á afleiðingum vinnuslyss sem stefnandi, A, varð fyrir 5. júlí 2015 um borð í […].

            Stefndi greiði stefnanda 5.521.201 krónu vegna launa í slysaforföllum ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 227.099 krónum frá 15. nóvember 2015 til 15. desember 2015, af 1.152.441 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2016, af 2.015.793 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2016, af 3.305.346 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2016, af 3.420.783 krónum frá þeim degi til 15. maí 2016, af 3.849.987 krónum frá þeim degi til 15. júní 2016 og loks af 5.521.201 krónu frá þeim degi til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda málskostnað, 2.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostnaðar lögmanns stefnanda, 44.640 krónur.