Print

Mál nr. 614/2017

Íslenska ríkið (Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður, Jónas Fr. Jónsson lögmaður 3. prófmál)
gegn
Björgu Pálsdóttur, Brynju Pálu Helgadóttur, Kristínu Svölu Jónsdóttur, Sigrúnu Ingvarsdóttur og Önnu Jónínu Eðvaldsdóttur (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Verkfall
  • Laun
  • Opinberir starfsmenn
  • Aðfinnslur
Reifun

Verkfall félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands á Landspítala hófst í apríl 2015. Verkfallið varði þrjá sólarhringa í senn, frá þriðjudegi til fimmtudags í hverri viku, og lauk í júní sama ár. Ágreiningur aðila laut að launagreiðslum til B o.fl. meðan á verkfallinu stóð, en þær voru allar félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands og unnu á vöktum í hlutastarfi á spítalanum eftir fyrirfram ákveðnu kerfi er tók til allra daga vikunnar. B o.fl. kröfðust launa fyrir vinnu sína á þeim dögum sem verkfall stóð ekki yfir, en Í taldi að draga ætti hlutfallslega jafnt af launum allra félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands sem tóku þátt í verkfallinu samkvæmt reiknireglu í þágildandi kjarasamningi stéttarfélagsins og Í. Kom fram í dómi Hæstaréttar að samkvæmt orðum sínum ætti regla þessi einungis við um hvernig reikna skyldi út brot úr mánaðarlaunum þegar unninn væri átta stunda vinnudagur reglubundið, en ekki samkvæmt vaktafyrirkomulagi sem B o.fl. ynnu eftir. Þótt verkfallið hefði náð til allra ljósmæðra á Landspítala þá hefðu verkfallsaðgerðir takmarkast við þrjá daga í viku hverri. Útreikningsaðferðir Í, sem ættu sér hvorki stoð í lögum né kjarasamningi, hefðu leitt til þess að B o.fl. hefðu ekki fengið að fullu greitt fyrir allar þær stundir sem þær hefðu unnið. Vísaði Hæstiréttur til þess að slík niðurstaða væri í andstöðu við grunnreglur kröfuréttar og vinnuréttar um gagnkvæmni og greiðslu verkkaups. Var því fallist á kröfur B o.fl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2017 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu eru allar félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands, sem er aðildarfélag Bandalags háskólamanna. Í kjölfar verkfallsboðunar 20. mars 2015 hófst verkfall félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands á Landspítala 7. apríl það ár. Skyldi verkfallið vara þrjá sólarhringa í senn, frá miðnætti aðfaranótt þriðjudags til loka fimmtudags í hverri viku, uns samningar næðust við áfrýjanda.  Verkfallinu lauk 14. júní 2015 með gildistöku laga nr. 31/2015 um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin samskipti stéttarfélags stefndu og áfrýjanda vegna verkfallsins og niðurstöður Félagsdóms um ágreiningsefni þeirra í millum.

Ágreiningsefni málsins lýtur að launagreiðslum til stefndu meðan á verkfallinu stóð, en eins og nánar greinir í héraðsdómi voru stefndu allar í hlutastarfi á Landspítala og unnu á vöktum eftir fyrirfram ákveðnu kerfi er tók til allra daga vikunnar.

Stefndu krefjast launa fyrir vinnu sína á þeim dögum sem verkfall stóð ekki yfir á tilgreindu tímabili. Telja þær einungis heimilt að fella niður laun þeirra vegna vakta sem óumdeilt er að féllu niður vegna verkfallsins. Áfrýjandi telur á hinn bóginn að draga eigi hlutfallslega jafnt af launum allra félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands sem tóku þátt í verkfallinu. Beita eigi frádrætti við greiðslu launa til stefndu á þann hátt að deila eigi hlutfalli verkfallsdaga í viku hverri í heildarfjölda vinnudaga hvers mánaðar samkvæmt reiknireglu í grein 1.1.2 í þágildandi kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og áfrýjanda, sem er svofelld: „Þegar unninn er 8 stunda vinnudagur reglubundið, reiknast brot úr mánaðarlaunum þannig að deilt er með 21,67 í mánaðarlaunin og margfaldað með fjölda almanaksdaga annarra en laugardaga og sunnudaga frá upphafi eða til loka starfstíma.“

Samkvæmt orðum sínum á regla þessi einungis við um hvernig reikna skuli út brot úr mánaðarlaunum þegar unninn er átta stunda vinnudagur reglubundið, en ekki samkvæmt vaktafyrirkomulagi sem stefndu unnu eftir. Þótt verkfall það sem um ræðir hafi náð til allra ljósmæðra á vinnustað stefndu þá takmörkuðust verkfallsaðgerðir við þrjá daga í viku hverri, en ekki við aðra daga vikunnar. Óumdeilt er að stefndu unnu þær stundir er þær krefjast launa fyrir. Áfrýjandi þáði vinnuframlag stefndu á því tímabili sem um ræðir í málinu en útreikningsaðferð hans, sem á sér hvorki stoð í lögum né kjarasamningi, leiddi á hinn bóginn til þess að stefndu fengu ekki að fullu greitt fyrir allar þær stundir sem þær unnu. Er slík niðurstaða í andstöðu við grunnreglur kröfuréttar og vinnuréttar um gagnkvæmni og greiðslu verkkaups. Þá hafa útreikningar stefndu á kröfum sínum ekki sætt haldbærum andmælum. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Í rökstuðningi sínum fyrir niðurstöðu fór héraðsdómari í verulegum atriðum út fyrir fyrirmæli f. liðar 1. mgr. og 3. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er það aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Björgu Pálsdóttur, Brynju Pálu Helgadóttur, Kristínu Svölu Jónsdóttur, Sigrúnu Ingvarsdóttur og Önnu Jónínu Eðvaldsdóttur, hverri um sig 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, þriðjudaginn 30. maí 2017

                Þetta mál, sem var endurflutt og tekið til dóms 15. maí 2017, er höfðað af Önnu Jónínu Eðvalds­dóttur, kt. [...], Gauksási 41, Hafnarfirði, Björgu Páls­dóttur, kt. [...], Vesturbrún 31, Reykjavík, Brynju Pálu Helgadóttur, kt. [...], Gull­engi 17, Reykjavík, Kristínu Svölu Jónsdóttur, kt. [...], Goð­heimum 24, Reykja­vík og Sigrúnu Ingvarsdóttur, kt. [...], Brekkuási 3, Hafn­ar­firði, með stefnu birtri 15. apríl 2016, á hendur íslenska ríkinu, til heimtu van­gold­inna launa.

                Anna Jónína Eðvaldsdóttir krefst þess að stefndi greiði henni 161.734 kr. ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 130.239 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 207.412 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 161.734 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

                Björg Pálsdóttir krefst þess að stefndi greiði henni 319.679 kr. ásamt dráttar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 142.810 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 270.754 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 319.679 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

                Brynja Pála Helgadóttir krefst þess að stefndi greiði henni 40.643 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 105.549 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 108.046 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 40.643 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

                Kristín Svala Jónsdóttir krefst þess að stefndi greiði henni 73.369 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 17.672 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015 og af 73.369 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

                Sigrún Ingvarsdóttir krefst þess að stefndi greiði henni 188.369 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 93.533 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 160.890 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 188.370 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

                Allir stefnendur krefjast málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda auk álags er nemi virðisaukaskatti af mál­flutn­ings­þóknun.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnenda.

                Stefndi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnenda en til vara að máls­kostn­aður verði felldur niður.

Málsatvik

                Ágreiningur þessa máls hverfist um það hvernig beri að reikna í verkfalli laun starfs­manna sem vinna hlutastarf í vaktavinnu.

                Í byrjun apríl 2015 hófust sameiginlegar verkfallsaðgerðir hjá 17 stéttar­félögum sem eiga aðild að Bandalagi háskólamanna, þar með talið Ljósmæðrafélagi Íslands. Það boðaði, með bréfi dagsettu 20. mars 2015, til ótímabundins verkfalls meðal félagsmanna sinna sem starfa hjá Landspítala. Verkfallið hófst 7. apríl 2015, kl. 00:00, og var ætlað að standa frá kl. 00:00 til 24:00 alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtu­daga þar til samningar hefðu náðst. Í tilkynningu til stefnda um verkfallsboðun sagði: Samkvæmt þessari niður­stöðu hafa félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands sam­þykkt að hefja verkfall á Land­spítala Háskólasjúkrahúsi þann 7. apríl 2015, kl. 00:00, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.

                Stefnendur eru allar félagsmenn í Ljósmæðrafélaginu og starfa allar á Land­spít­ala háskólasjúkrahúsi. Í apríl 2015 fékk bandalagið veður af því að við launa­út­reikn­ing í verkföllum félagsmanna aðildarfélaganna hygðist stefndi byggja á við­miðum sem lýst er í dreifibréfi stefnda, nr. 6/2001, um launagreiðslur á meðan á verk­falli stendur svo og umfjöllun sem þar er um túlkun á 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ekki kom þó til frádráttar í byrjun apríl enda byggði stefndi á því að boðað verk­fall væri ólögmætt auk þess sem ráðgert var að verkfallið hæfist 7. apríl. Félags­dómur leysti úr því 6. apríl með dómi í máli nr. 14/2015 að verkfallið væri ekki ólögmætt. Að þeim dómi gengnum árétt­aði Bandalag háskóla­manna athuga­semdir við þessar ráðagerðir um framkvæmd á launa­útreikn­ingum.

                Frá og með þriðjudeginum 7. apríl 2015, kl. 00.00, hófust tímabundnar verk­falls­lotur hjá Ljósmæðrafélagi Íslands sem stóðu frá kl. 00.00 til 24.00 alla þriðju­daga, mið­viku­daga og fimmtudaga á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Þessar tíma­bundnu verk­falls­lotur áttu að standa ótímabundið þar til samið hefði verið.

                Þegar laun voru greidd í byrjun maímánaðar beitti stefndi sem fyrr þeirri reikni­reglu sem hann hefur fylgt í verkföllum opinberra starfsmanna og fram kemur í dreifi­bréfi stefnda nr. 6/2001 um launagreiðslur í verkfalli. Launa­útreikn­ingurinn byggð­ist á túlkun stefnda á frá­dráttar­heim­ildum og útreikn­ingi á því hversu háu hlut­falli launa skyldi haldið eftir þar eð verkfall Ljós­mæðra­félags­ins tók ekki til allra daga vik­unnar, heldur einungis þriggja daga í senn. Stefndi byggði á því að beita ætti frá­drætti á þann hátt að deila ætti hlut­falli verk­falls­daga á viku í heildar­vinnu­daga­fjölda mán­aðar sam­kvæmt reikni­reglu í grein 1.1.2 í kjara­samn­ingi. Reiknireglan hljóðar svo:

Þegar unnin er 8 stunda vinnu­dagur reglu­bundið, reiknast brot úr mán­aðar­launum þannig að deilt er með 21,67% í mán­að­ar­launin og margfaldað með fjölda alman­aks­daga annarra en laugar­daga og sunnu­daga frá upphafi til loka starfs­tíma.

                Þessari reglu er beitt þegar gera þarf upp laun starfs­manns fyrir hluta mánaðar af ein­hverjum sökum, starfs­manns sem sinnir dag­vinnu reglubundið. Þessi aðferð stefnda tók ekki mið af því að stefn­endur, eins og aðrir félagsmenn Ljós­mæðra­félags­ins, vinna ekki reglu­bundið í dag­vinnu á virkum dögum heldur í vakta­vinnu alla daga vik­unnar. Þær vaktir eru að auki almennt ekki reglubundnar heldur breytast frá mán­uði til mánaðar. Það er jafnframt óreglulegt hve­nær sólar­hrings vaktirnar eru og á hvaða viku­dögum. Strax af þeirri ástæðu var það frá­drátt­ar­hlutfall sem stefndi kynnti að hann ætlaði að beita alltof hátt þar sem miðað var við þrjá verk­falls­daga af fimm daga vinnu­viku þegar raunin er sú að vinnu­vika félags­manna Ljós­mæðra­félagsins er sjö dagar og því hefði, að mati stefnenda, átt að horfa til 3/7 í stað 3/5. Í annan stað hélt stefndi þeirri afstöðu til streitu að draga bæri frá launum óháð vinnuframlagi, skerða ætti laun allra á sam­ræmdan hátt án tillits til fjarveru hvers og eins frá vinnu vegna hvers verkfalls. Horfa ætti til meðaltals vinnu­skyldu í hverjum mánuði, telja svo verk­falls­daga mán­aðar og deila svo með 21,67% og finna þannig frá­dráttar­hlut­fall. Að mati stefnenda hafi slík stærð­fræði, eðli málsins sam­kvæmt, ekkert tillit tekið til rétt­inda hvers og eins ein­stakl­ings eða raun­veru­legs vinnu­fram­lags.

                Félags­menn Ljósmæðrafélagsins vildu ekki una þessari aðferð við launa­greiðslu í verk­falli. Af því tilefni skoraði framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna á stefnda, með bréfi dags. 7. maí 2015, að leiðrétta án tafar þennan misbrest á launa­greiðslum ella yrði leitað full­tingis dómstóla án frekari fyrirvara.

                Stefndi brást við erindum BHM með tveimur bréfum dags. 8. maí 2015. Annað var svar við tölvupósti lögmanns BHM frá 10. apríl 2015 og hitt svar við fyrr­greindu bréfi framkvæmdastjóra BHM frá 7. maí 2015. Stefndi hafnaði afstöðu félags­ins í báðum bréfunum og tók fram að hann teldi ekkert komið fram í mál­inu sem ætti að leiða til þess að brugðið yrði út af fyrri framkvæmd.

                Stefndi benti á það sjónarmið að verkfall sé félags­leg aðgerð (koll­ektiv) stétt­ar­félagsins. Því verði allir félags­menn að sitja við sama borð um frá­drátt launa. Ekki skipti máli hvort verkfallið sé tíma­bundið eða ótíma­bundið. Stefndi byggði á fyrr­nefndum vinnu­reglum sínum í þessu efni sem hann taldi í samræmi við Félags­dóm í máli nr. 8/1984 frá 17. desember 1984. Í sam­ræmi við þessa afstöðu beitti stefndi þessum reikni­aðferðum við útreikning launa félags­manna Ljósmæðrafélagsins, þar með talið stefn­enda.

                Ljósmæðrafélag Íslands höfðaði mál gegn stefnda fyrir Félagsdómi (nr. 19/2015). Því máli var vísað frá Félagsdómi með úrskurði 29. júní 2015. Áður, eða 13. júní 2015, tóku gildi lög nr. 31/2015, sem lögðu bann við vinnu­stöðvun aðild­ar­félaga BHM, meðal annars Ljósmæðrafélags Íslands. Jafnframt var kveðið á um það í lög­unum, að hefðu aðilar ekki undirritað kjarasamning fyrir 1. júlí 2015, skyldi gerðar­dómur skip­aður til að ákveða kaup og kjör félagsmanna aðildarfélaga BHM fyrir 15. ágúst 2015. Samn­ingar tókust ekki milli aðila fyrir tilsettan tíma. Af þeim sökum tók gerðar­dóm­ur­inn til starfa. Hann afhenti niðurstöðu sína 14. ágúst 2015. Ákvarð­anir hans eru bindandi sem kjarasamningur frá og með 13. júní 2015, sbr. 2. gr. laga nr. 31/2015.

                Ljósmæðrafélag Íslands höfðaði mál gegn stefnda á ný fyrir Félags­dómi. Þess var krafist að viðurkennt yrði að stefndi hefði brotið gegn greinum 1.1 og 1.6, sbr. grein 2.6, í kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkis­sjóðs, með því að greiða tilgreindum félagsmanni Ljósmæðrafélagsins ekki óskert laun vegna vinnu á sex tilgreindum vöktum sem hún hafði unnið í apríl 2015 þá daga sem verkfallið stóð ekki. Með dómi Félagsdóms 14. október 2015 í máli nr. 22/2015 var stefndi sýkn­aður af öllum kröfum Ljósmæðrafélagsins á þeim forsendum að sam­kvæmt ákvæðum kjara­samn­ings­ins yrði að líta svo á að félagsmenn hefðu verið í verk­falli óháð því hvort þeir áttu vinnuskyldu þá daga sem boðað verkfall varði eða ekki. Í sér­atkvæði tveggja dómara Félagsdóms var fallist á kröfur Ljós­mæðra­félags­ins á þeim grun­dvelli að sú framkvæmd að draga laun vegna verkfalls hlutfalls­lega af öllum félags­mönnum sam­rýmd­ist ekki þeirri grunnreglu að starfsmaður skuli fá laun fyrir vinnu­framlag sitt. Íslenska ríkið hefði þegið vinnuframlag starfs­manna athuga­semda­laust og hefði því borið að greiða laun fyrir daga sem unnir voru utan verk­falls.

 

Dómkröfur stefnenda

                Kröfur stefnenda byggja á útreikningum Ljósmæðrafélags Íslands. Við þann útreikn­ing studdist félagið við tímaskráningu stefn­enda og launa­seðla þar sem fram kemur frádráttur stefnda vegna verkfalls í tilviki hverrar fyrir sig. Fundin eru laun hvers stefnanda um sig fyrir unna klukku­stund með því að deila umsömdu prósentu­hlut­falli samkvæmt grein 1.4.1 í kjara­samn­ingnum, sem fjallar um tíma­kaup í dag­vinnu, í heildar­mán­að­ar­laun þeirra. Tekið er tillit til þess að laun stefn­enda hækk­uðu frá og með 1. maí 2015 samkvæmt úrskurði gerðardóms enda leið­rétti stefndi launa­upp­gjör sitt vegna maí og júní 1. september 2015 samhliða greiðslu launa þess mán­aðar. Síðan er skilgreint hver vinnu­stunda­fjöldi við­kom­andi átti að vera sam­kvæmt vakt­áætlunum stefnda og svo skil­greint hversu margar þeirra vinnu­stunda féllu niður vegna verkfalls. Þá er reiknað út hver frá­dráttur launa hefði átt að vera vegna verk­falls­frá­tafa og það borið saman við raun­veru­legan frá­drátt stefnda. Mis­munur þessa myndi dómkröfu hvers stefnanda fyrir sig. Krafist er greiðslu van­gold­inna launa með svofelldum hætti:

 

Dómkrafa Önnu Jónínu Eðvaldsdóttur

                Á tímabili verkfallsaðgerða, 7. apríl 2015 til 12. júní 2015, hafi vinnu­skylda stefn­anda, samkvæmt vaktaáætlun sem Landspítali háskóla­sjúkra­hús gaf út, verið 112 klst. í apríl, 125 klst. í maí og 137 klst. í júní. [Við aðalmeðferð var leiðrétt að vinnu­skylda hennar í júní nam 123 klst.] Í apríl 2015 hafi stefnandi verið 8 klst. í verk­falli, 24 klst. í maí og 16 klst. í júní. Stefnandi starfaði á tíma­bili verkfallsaðgerða á deild 22A á Land­spítala háskóla­sjúkra­húsi, Meðgöngu- og sæng­ur­kvennadeild, í 70% starfs­hlut­falli sam­kvæmt vakta­áætlun sem var skipulögð í sam­ræmi við tillögur hennar sjálfrar. Þær tillögur byggðu ekki á neinum séróskum um nánari framkvæmd vinn­unnar og féllu því til á öllum tímum sólarhrings.

                Stefnandi er í launaflokki 9-7. Mánaðarlaun hennar nema því 539.293 kr. eftir niður­stöðu gerðardóms skv. lögum nr. 31/2015. Tímakaup hennar er því 3.317 kr. (539.293*0,615%). Að mati stefnenda hefði frádráttur vegna verkfalls réttilega átt að vera þessi:

Mánuður

Tímafjöldi

Tímakaup

Heildarfjárhæð

Apríl 2015

8 klst.

3.317 kr.

26.533 kr.

Maí 2015

24 klst.

3.317 kr.

79.600 kr.

Júní 2015

16 klst.

3.317 kr.

53.066 kr.

Samtals

 

 

159.199 kr.

 

                Samkvæmt launaseðli stefnanda frá september 2015 dró stefndi af launum hennar samtals 320.933 krónur. Þar af 156.772 kr., vegna apríl, 156.772 kr., vegna maí, og 7.388 kr., vegna júní. Launaseðillinn sýni hvernig frádráttur af launum hennar hafi verið leið­réttur aftur­virkt í samræmi við niður­stöðu gerðardóms. Stefn­andi telur réttan frá­drátt af launum hennar nema 159.199 kr. Raunar hátti svo til að stefndi hafi dregið minna af launum hennar vegna júní­mán­aðar heldur en þátttaka hennar í verk­falli hafi gefið til­efni til en tekið sé tillit til þess í fram­setningu dómkröfu stefn­anda. Vangoldin laun sund­ur­lið­ast þannig:

Mánuður

Frádráttur stefnda

Réttur frádráttur að mati stefnanda

Mismunur

Apríl 2015

156.772

-26.533

130.239

Maí 2015

156.772

-79.600

77.173

Júní 2015

7.388

-53.066

-45.678

Samtals

 

 

161.734

 

Dómkrafa Bjargar Pálsdóttur

                Á tímabili verkfallsaðgerða, 7. apríl 2015 til 12. júní 2015, hafi vinnu­skylda stefn­anda, samkvæmt vaktaáætlun sem Landspítali háskóla­sjúkrahús gaf út, verið 93 klst. í apríl, 126 klst. í maí og 80,33 klst. í júní. Í apríl 2015 hafi stefnandi verið fjórar klst. í verkfalli, 8,27 klst. í maí en engar frátafir hafi verið hjá henni af þessum sökum í júní. Stefnandi starfaði á tíma­bili verkfallsaðgerða á deild 23B á Landspítala háskóla­sjúkra­húsi, á fæðingar­vakt­inni við móttöku barna. Stefnandi, sem var í 50% starfi, vann fyrst og fremst á nætur­vöktum að eigin ósk en jafnframt eru vaktir skipu­lagðar í sam­ræmi við tillögur hennar sjálfrar sem hún leggur fram með tveggja mán­aða fyrirvara. Til­viljun hafi ráðið háu hlutfalli verkfallsvakta.

                Stefnandi er í launaflokki 10-7. Mánaðarlaun hennar nema því 566.257 kr. eftir niður­stöðu gerðardóms skv. lögum nr. 31/2015. Tímakaup hennar er því 3.482 kr. (566.257*0,615%). Að mati stefnenda hefði frádráttur vegna verkfalls réttilega átt að vera þessi:

Mánuður

Tímafjöldi

Tímakaup

Heildarfjárhæð

Apríl 2015

4 klst.

3.482

13.930

Maí 2015

8,27 klst.

3.482

28.796

Júní 2015

0 klst.

3.482

0

 

 

Samtals

42.726

 

                Samkvæmt launaseðli stefnanda frá september 2015 dró stefndi af launum hennar samtals 362.404 kr. Þar af 156.740 kr., vegna apríl, 156.740 kr., vegna maí, og 48.925 kr. vegna júní. Launaseðillinn sýni hvernig frádráttur af launum stefnanda var leið­réttur aftur­virkt í samræmi við niður­stöðu gerðardóms. Stefnandi telur réttan frá­drátt af launum hennar nema 42.726 kr. Vangoldin laun sundurliðast þannig:

Mánuður

Frádráttur stefnda

Réttur frádráttur að mati stefnanda

Mismunur

Apríl 2015

156.740

-13.930

142.810

Maí 2015

156.740

-28.796

127.944

Júní 2015

48.925

-0

48.925

Samtals

 

 

319.679

 

Dómkrafa Brynju Pálu Helgadóttur:

                Á tímabili verkfallsaðgerða, 7. apríl 2015 til 12. júní 2015, hafi vinnu­skylda stefn­anda, samkvæmt vaktaáætlun sem Landspítali háskóla­sjúkra­hús gaf út, verið 143 klst. í apríl, 154 klst. í maí og 136 klst. í júní. Í apríl 2015 hafi hún verið 20 klst. í verk­falli, 35,2 klst. í maí og 38,4 klst. í júní. Stefnandi starfaði á tíma­bili verk­falls­að­gerða á deild 23B á Land­spítala háskólasjúkrahúsi á fæðingar­vakt­inni við móttöku barna. Hún var í 80% starfi og voru vaktir skipulagðar í sam­ræmi við tillögur hennar sjálfrar.

                Stefnandi er í launaflokki 9-4. Mánaðarlaun hennar nema því 504.780 kr. eftir nið­ur­stöðu gerðardóms skv. lögum nr. 31/2015. Tímakaup hennar er því 3.104 kr. (504.780*0,615%). Að mati stefnanda hefði frádráttur vegna verkfalls réttilega átt að vera þessi:

Mánuður

Tímafjöldi

Tímakaup

Heildarfjárhæð

Apríl 2015

20 klst.

3.104

62.088

Maí 2015

35,2 klst.

3.104

109.261

Júní 2015

38,4 klst.

3.104

119.194

Samtals

 

 

290.542

 

                Samkvæmt launaseðli stefnanda frá september 2015 dró stefndi af launum hennar samtals 331.186 kr. Þar af 167.637 kr. vegna apríl, 111.758 kr. vegna maí og 51.790 kr. vegna júní. Launaseðillinn sýni hvernig frádráttur af launum stefnanda var leið­réttur aftur­virkt í samræmi við niður­stöðu gerðardóms. Stefnandi telur réttan frá­drátt af launum hennar nema 290.542 kr. Raunar hátti svo til að stefndi hafi dregið minna af launum stefnanda vegna júnímánaðar heldur en þátttaka hennar í verk­falli gaf tilefni til en tekið er tillit til þess í framsetningu dómkröfu stefnanda. Van­goldin laun sundur­lið­ast þannig:

Mánuður

Frádráttur stefnda

Réttur frádráttur að mati stefnanda

Mismunur

Apríl 2015

167.637

-62.088

105.549

Maí 2015

111.758

-109.261

2.497

Júní 2015

51.790

-119.194

-67.403

Samtals

 

 

40.643

 

Dómkrafa Kristínar Svölu Jónsdóttur

                Á tímabili verkfallsaðgerða, 7. apríl 2015 til 12. júní 2015, hafi vinnu­skylda stefn­anda, samkvæmt vaktaáætlun sem Landspítali háskóla­sjúkra­hús gaf út, verið 33 klst. í apríl, 40 klst. í maí og 24 klst. í júní. Í apríl 2015 var stefnandi 12,3 klst. í verk­falli, en hvorki í maí og júní. Hún starfaði á tímabili verkfallsaðgerða á deild 23D, Vöku­deild, í 20% starfshlutfalli sem hún leysti almennt þannig af hendi að vinna þriðju hverja helgi, því féll ekki niður vinna hjá henni umfram eina aukavakt sem ráð­gert var að hún tæki í apríl.

                Stefnandi er í launaflokki 8-6. Mánaðarlaun hennar nema því 502.684 kr. eftir niður­stöðu gerðardóms skv. lögum nr. 31/2015. Tímakaup hennar er því 3.092 kr. (502.684*0,615%). Að mati stefnenda hefði frádráttur vegna verkfalls rétti­lega átt að vera þessi:

Mánuður

Tímafjöldi

Tímakaup

Heildarfjárhæð

Apríl 2015

12,3 klst.

3.092

38.026

Maí 2015

0 klst.

3.092

0

Júní 2015

0 klst.

3.092

0

Samtals

 

 

38.026

 

                Samkvæmt launaseðli stefnanda frá september 2015 dró stefndi af launum hennar samtals 111.395 kr. Þar af 55.697 kr. vegna apríl og 55.697 kr. vegna maí, en ekk­ert vegna júní. Launaseðillinn sýni hvernig frádráttur af launum stefnanda var leið­réttur aftur­virkt í samræmi við niður­stöðu gerðardóms. Stefnandi telur réttan frá­drátt af launum hennar nema 38.026 kr. Vangoldin laun sundurliðast þannig:

Mánuður

Frádráttur stefnda

Réttur frádráttur að mati stefnanda

Mismunur

Apríl 2015

55.697

-38.026

17.672

Maí 2015

55.697

-0

55.697

Júní 2015

 

 

0

Samtals

 

 

73.369

 

Dómkrafa Sigrúnar Ingvarsdóttur

                Á tímabili verkfallsaðgerða, 7. apríl 2015 til 12. júní 2015, hafi vinnu­skylda stefn­anda, samkvæmt vaktaáætlun sem Landspítali háskóla­sjúkrahús gaf út verið 96,36 klst. í apríl, 88 klst. í maí og 108 klst. í júní. Í apríl 2015 var stefnandi 20 klst. í verk­falli, 16 klst. í maí og 8 klst. í júní. Stefnandi starfaði á tíma­bili verkfallsaðgerða á deild 22B á Landspítala háskólasjúkrahúsi, við áhættu­mæðra­vernd, en þau verk eru leyst af hendi í dagvinnu milli kl. 8 og 16 þannig að allar vaktir hennar voru á þeim tíma sólar­hrings. Á tíma verkfalls var hún í 60% starfi.

                Stefnandi er í launaflokki 7-3. Mánaðarlaun hennar nema af þeim sökum 447.524 kr. eftir niðurstöðu gerðardóms skv. lögum nr. 31/2015. Tímakaup hennar er því 2.752 kr. (447.524*0,615%). Að mati stefnanda hefði frádráttur vegna verkfalls rétti­lega átt að vera þessi:

Mánuður

Tímafjöldi

Tímakaup

Heildarfjárhæð

Apríl 2015

20 klst.

2.752

55.045

Maí 2015

16 klst.

2.752

44.032

Júní 2015

8 klst.

2.752

22.016

Samtals

 

 

121.093

 

                Samkvæmt launaseðli stefnanda frá september 2015 dró stefndi af launum hennar samtals 309.463 kr. Þar af 148.578 kr. vegna apríl, 111.389 kr. vegna maí og 49.496 kr. vegna júní. Launaseðillinn sýni hvernig frádráttur af launum stefnanda var leið­réttur aftur­virkt í samræmi við niður­stöðu gerðardóms. Réttur frádráttur af launum hennar hefði átt að nema 121.093 kr. Vangoldin laun sundurliðist þannig:

Mánuður

Frádráttur stefnda

Réttur frádráttur að mati stefnanda

Mismunur

Apríl 2015

148.578

55.045

93.533

Maí 2015

111.389

44.032

67.357

Júní 2015

49.496

22.016

27.480

Samtals

 

 

188.369

 

                Allir stefnendur krefjast dráttarvaxta frá hverjum gjalddaga launa vegna upp­gjörs vakta sem er fyrsti dagur annarra mánaðarmóta, það er frá 1. júní vegna vakta­tíma­bils til 15. apríl, 1. júlí vegna vaktatímabils til 15. maí og 1. ágúst vegna vakta­tíma­bils til 15. júní 2016.

 

Málsástæður og lagarök stefnenda

Samlagsaðild

                Stefnendur sækja þetta mál í félagi, samkvæmt heimild 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þær vísa til þess að dómkröfurnar eigi rót sína að rekja til þeirrar aðstöðu að stefn­endur, sem eru allar félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands, hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sem þær inntu af hendi. Sömu atvik eigi við í tilviki þeirra allra, þ.e. að stefndi dró af launum þeirra eftir reiknireglu vegna verkfallsaðgerða án tillits til eign­ar­rétt­inda hverrar og einnar af stefnendum á launum fyrir vinnuframlag sem þær höfðu látið í té. Af þeim sökum telja stefnendur mál sitt fullnægja þeim skilyrðum að þær geti nýtt sér rétt­ar­fars­hagræði samlagsaðildar þótt réttindi hverrar og einnar njóti ein­stakl­ings­bund­innar stjórnarskrárverndar. Máls­ástæður og aðstæður allar í til­viki hverrar fyrir sig séu alger­lega sambærilegar að gættum þeim mun sem er á vakta­fjölda, launa­flokki og starfs­hlut­falli hverrar fyrir sig.

                Stefnendur byggja kröfur sínar á ráðningarsamningum sínum og rétti sínum til end­ur­gjalds fyrir þá vinnu í þágu stefnda sem þær hafa innt af hendi. Þær byggja einnig á meginreglum samningaréttar um skyldu til að efna gerða samn­inga.

                Stefnendur vísa til þess að kjör ljósmæðra á Landspítalanum háskólasjúkrahúsi ráðist af kjara­samn­ingi Ljós­mæðrafélags Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkis­sjóðs, frá 28. febrúar 2005, og úrskurði gerðardóms, samkvæmt lögum nr. 31/2015, frá 14. ágúst 2015. Stefnendur hafi allar starfað á Landspítalanum í þágu stefnda. Því beri að líta til kjara­samn­ingsins og úrskurðar gerðardóms um kaup og kjör stefn­enda sem stefndi sé bund­inn af. Stefnendur leggja til grundvallar að ekki sé ágrein­ingur með aðilum um vinnu­stundafjölda og röðun stefnenda í launa­flokka hverju sinni enda komi þetta fram á launa­seðlum sem stefndi gaf út. Vinnustundir, bæði þær sem voru unnar og eins þær sem féllu niður vegna verkfalls, ættu líka að vera óum­deildar enda byggja kröfur stefnenda á gögnum frá stefnda í þessum efnum.

                Kröfur allra stefnenda séu vegna vinnu sem þær inntu af hendi. Stefndi hafi neitað að greiða laun fyrir þessa vinnu og þar með tekið undir sig afrakstur af vinnu­fram­lagi stefnenda, andstætt lögum að þeirra mati. Stefnendur vísa til þess að dæmt hafi verið að aflahæfi fólks sé stjórnarskrárvarin eignarréttindi. Þar að auki sé réttur stefn­enda til launa, sem þær hafi þegar unnið fyrir, stjórnarskrárvarinn, sbr. 72. gr. stjórn­ar­skrárinnar, nr. 33/1944. Stefnendur byggja á því að með því að skerða laun þeirra í sam­ræmi við reiknireglu stefnda brjóti stefndi gegn þessu stjórnar­skrár­ákvæði. Stefndi haldi á lofti þeirri öfug­snúnu jafn­ræðis­reglu, að skerða eigi laun allra félags­manna á grund­velli reiknireglu greinar 1.1.2 í kjarasamningi. Þessi regla eigi ekki við rök að styðj­ast og ryðji ekki úr vegi einstaklingsbundnum eignarrétti hvers stefn­anda fyrir sig á afrakstri eigin verka sem þær hafi innt af hendi.

                Í ákvæðum kjarasamnings Ljósmæðrafélags Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkis­sjóðs og úrskurði gerðardóms, samkvæmt lögum nr. 31/2015, felist að launa­tíma­bil miðast við mánuð og mánaðarlaun skuli greidd þeim sem hafi innt af hendi vinnu í þeim mánuðum sem um ræðir. Stefndi hafi sjálfur byggt útreikn­ing sinn og afstöðu á því að vinnuskylda og laun miðist við mánuð. Fyrir liggi að hluta tíma­bils­ins frá 7. apríl til og með 12. júní 2015 hafi hrina verk­falls­aðgerða staðið, á þriðju­dögum, miðvikudögum og fimmtudögum, sem stefnendur tóku þátt í með því að leggja niður störf þessa daga að því marki sem þær áttu að standa vaktir þessa daga og voru ekki kallaðar til í krafti undanþága. Þetta hafi ekki verið samfellt ótíma­bundið verk­fall heldur tímabundnar verkfallslotur, slitruverkfall, hjá félags­mönnum stéttar­félags stefnenda, Ljósmæðrafélagi Íslands, sem stóð frá kl. 00.00 til 24.00 alla nefnda viku­daga á vinnustað stefnenda.

                Aðra daga vikunnar, föstu-, laugar-, sunnu- og mánudaga hafi stefn­endur sinnt venju­legum störfum sínum eftir því sem kveðið var á um í vakta­áætlun sem stefndi gefur út fyrir hvert vaktatímabil. Vinnutilhögun hverrar og einnar af stefnendum ráð­ist af einstaklingsbundnum ákvæðum ráðn­ingar­samn­ings. Í þeim efnum hafi einkum þrennt áhrif; 1) starfshlutfall, 2) þau verkefni sem hver og ein meðal stefn­enda leysti af hendi og 3) nánari tilhögun vakta.

                Í sumum til­vikum hafi vinna ein­ungis verið innt af hendi á dag­vinnu­tíma, eins og í tilviki Sigrúnar Ing­vars­dóttur, en í öðrum til­vikum hafi vinnan nánast alfarið verið innt af hendi um helgar, sem voru utan þess tíma sem verk­föll höfðu áhrif á, eins og til dæmis í tilviki Kristínar Svölu sem vann að jafnaði ein­vörð­ungu um helgar þótt henni hefði verið ætlað að taka eina auka­vakt í apríl, sem féll svo niður vegna verk­falls.

                Óháð vinnu­fyrir­komu­lagi blasi sú hlut­ræna stað­reynd við í tilviki allra stefn­enda að stefndi tók undir sig stærri hluta launa þeirra heldur en nam því vinnuframlagi sem féll niður vegna verk­falls. Þótt óum­deilt sé að stefn­endur hafi sinnt störfum með venju­legu sniði þessa fjóra daga vik­unnar hafi stefndi kosið að haga launagreiðslum eftir eigin aðferðum án tillits til vinnu­fram­lags stefn­enda. Slíkt sé brot á kjarasamningi og það að greiða ekki fyrir unnin störf sé brot á stjórn­ar­skrá.

                Í þessu sambandi verði líka að hafa í huga að í dreifibréfi nr. 6/2001 felist ekki gild stjórnvaldsfyrirmæli. Það sé gefið út án nokkurrar lagastoðar. Það eigi sér ekki heldur grund­völl í stjórnvaldsfyrirmælum. Skjalið skapi stefnda ekki sjálfstæðan rétt auk þess sem standist ekki, í þessum tilvikum, að beita reiknireglunni sem tilgreind er í skjal­inu.

                Stefnendur árétta að reikniregla greinar 1.1.2 í kjarasamningi, sé aðferð til að finna út hlutfall mán­að­ar­launa. Hún sé mjög víða í kjarasamningum enda hugsuð til þess að reikna út hvaða laun sá starfsmaður, sem vinni reglu­bundið átta stunda vinnu­dag, eigi að fá fyrir brot úr mánuði. Stefndi beiti henni hins vegar undir öfugum for­merkjum – til þess að draga frá launum, í stað þess að reikna út laun. Vinna stefn­enda hjá stefnda falli ekki að hugtaksskilyrðum þessa ákvæðis. Stefnendur vinni ekki reglu­bundna átta stunda dagvinnu án laugardaga og sunnudaga. Þær séu í óreglu­legri vakta­vinnu þar sem vaktir dreifist á alla sjö daga vikunnar. Til dæmis sé mjög algengt að starfs­menn sinni 12 klukkustunda löngum vöktum um helgar þannig að vinnu­fram­lag sé innt af hendi á mun færri dögum vikunnar en ella. Jafnframt sé vinnu­fyrir­komu­lag hvers og eins starfs­manns sniðið að nánara inntaki ráðningarsamnings hvers og eins. Það inntak sé mjög fjölbreytt. Einungis einn stefnenda vinni reglu­bundið átta klukku­stunda vaktir á dagvinnutíma, Sigrún Ingvarsdóttir, sem vinni á göngu­deild mæðra­verndar og fóst­ur­greininga. Þrátt fyrir það hafi reikniregla greinar 1.1.2 leitt til þess að stefndi hélt eftir sem nam 188.963 krónum af launum sem Sigrún vann fyrir með vinnu­fram­lagi sínu. Önd­vert við Sigrúnu vinni stefn­and­inn Krist­ín Svala nán­ast ein­vörð­ungu um helgar, leysi alla sína vinnu­skyldu almennt af hendi á þeim tíma. Ein auka­vakt, sem henni var ætlað að vinna í apríl, hafi fallið niður, önnur vinna ekki, hvorki á öðrum tíma í apríl né í maí eða júní. Engu að síður hafi stefndi tekið undir sig af launum þessa stefn­anda í maímán­uði þótt hún hafi sinnt vinnu­skyldu sinni í hví­vetna. Í til­vikum allra stefn­enda blasi við þegar dóm­kröfur þeirra eru gaum­gæfðar og hugað að vinnu­skyldu hverrar og einnar í hverjum mán­uði að stefndi taki undir sig eign hverrar þeirrar fyrir sig. Því fari þannig fjarri að unnt sé að leggja reikni­reglu greinar 1.1.2 til grundvallar í þessum tilvikum, sú regla miði að allt ann­arri aðstöðu.

                Meðaltalsútreikningsaðferð stefnda, sem miðist alfarið við fimm daga vinnu­viku í reglulegri átta klukkustunda vinnu, valdi skekkju í tilvikum stefnenda. Sam­kvæmt henni detti út tveir vinnudagar í viku hverri, þar sem vaktir eru staðnar rétt eins og alla hina daga vikunnar. Skekkjan verði þeim mun meiri fyrir þær sakir að mjög algengt sé að ljósmæður standi tvöfaldar vaktir um helgi, það er standi tvær tólf stunda langar vaktir, laugardag og sunnudag og hafi því innt af hendi drjúgan hluta vinnu­skyld­unnar utan þess tímabils sem grein 1.1.2 miðist við og að auki utan þess tímabils sem verk­falls­lotur Ljósmæðrafélagsins tóku til.

                Að mati stefnenda er kjarninn sá, þegar horft er til máls­atvika hvers stefnanda um sig, að sú reikniregla sem stefndi vill miða við grípi í engu tilviki rétt utan um rétt­ar­stöðu stefnenda, ekki einu sinni stefn­and­ans Sigrúnar sem þó leysti sínar vaktir af hendi á dagvinnutímabili á virkum dögum. Þessi rök mæli gegn því að nota marg­nefnda reiknireglu kjarasamnings undir öfugum for­merkjum. Enn fremur verði að halda því sér­stak­lega til haga að stéttarfélag stefn­enda hafi ekki efnt til verk­falls í ein­hverju tilteknu starfs­hlut­falli heldur tiltekna daga. Það sé einfaldlega röng nálgun að nota almennan hlut­falls­útreikn­ing til að draga af stefnendum og öðrum félags­mönnum stétt­ar­félagsins.

                Í þessu sambandi verði að árétta að vaktir stefnenda séu almennt gerðar upp ein­stakl­ings­bundið. Stefndi geri upp laun hverrar og einnar þeirra um hver mánaða­mót. Þá horfi hann til starfshlutfalls sem og hugsanlegra aukavakta sem og frátafa sem upp kunni að hafa komið. Stefnda sé því engin vorkunn að gera upp laun hverrar og einnar að teknu tilliti til þátttöku hverrar um sig í verk­falls­að­gerðum án þess að ganga á stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra. Engar tæknilegar hindr­anir hafi þar staðið í vegi.

                Stefnda beri að efna sinn hluta ráðningarsamnings á sama hátt og stefnendur hafi efnt sinn hluta samningsins með því að inna af hendi vinnuframlag sitt, enda hafi stefndi ekki orðið af vinnuframlagi stefnenda þá daga sem verkfall stóð ekki yfir, ein­ungis þá daga sem stefnendur lögðu niður störf. Samkvæmt meginreglu íslensks vinnu­réttar sé verkfall félagsleg aðgerð sem raski ekki ráðningarsambandi einstakra launa­manna og vinnuveitanda þeirra. Stefnda beri þar af leiðandi að greiða laun í sam­ræmi við unnin störf samkvæmt ráðningarsamningi sem verkfallið kom ekki í veg fyrir að væru unnin.

                Verkfall sé lögbundið úrræði stéttarfélags til að ná fram kjarasamningi við við­semj­anda sinn og sem slíkt sé það vissulega félagsleg aðgerð. Stefnendur hafi, sem félags­menn, tekið þátt í þeirri aðgerð. Það rýri ekki réttindi einstakra félagsmanna til launa og kjara samkvæmt gildandi kjarasamningi ef og þegar svo háttar til að verkfall annað hvort hafi ekki áhrif á störf viðkomandi félagsmanns eða honum beri að lögum að vinna störf sín í verkfalli.

                Stefnendur byggja á því að stefnda hafi einungis verið heimilt að fella niður laun þeirra vegna þeirra vakta sem óumdeilt er að féllu niður vegna verkfalls. Tak­mörkun greiðsluskyldu stefnda sem atvinnurekanda geti að mati stefnenda ekki verið rýmri en sem nemi því vinnuframlagi starfsmanns sem falli niður hverju sinni. Stefndi eigi enga heimtingu á því að stefnendur gangi til starfa án þess að fá greitt fyrir þau og eigi enga heimtingu á því að auðgast á kostnað starfsmanna sinna með því að þurfa ekki að greiða fyrir unnar vinnustundir, einungis vegna þess að aðrir starfs­menn lögðu niður störf hjá stefnda vegna verkfalls.

                Stefnda sé ekki unnt að tyfta stefnendur fyrir þátttöku þeirra í verkfalli með launa­frádrætti til þess að sporna gegn verkföllum. Réttur stefnenda, sem félagsmanna í stétt­ar­félagi sínu, til þess að fara í verkfall sé lögvarinn, sbr. 14. gr. laga nr. 94/1986, um kjara­samninga opinberra starfsmanna. Þar að auki sé rétturinn til að semja um kaup og kjör sérstaklega varinn af stjórnarskránni, sbr. 75. gr. hennar, sbr. einnig 5. og 7. gr. laga nr. 94/1986. Skilyrði þess hins vegar að þessi rétt­indi séu virk og raunhæf séu að félags­menn stéttarfélaga taki þátt í atkvæða­greiðslu um boðun verkfalls og sam­þykki að þessara réttinda sé neytt til að knýja á um nefnd stjórnarskrárvarin rétt­indi. Að mati stefn­enda er undir hælinn lagt að starfs­menn treysti sér til að ljá atbeina sinn og sam­þykki fyrir slíkum aðgerðum ef þeir mega vænta þess að vera sviptir þeim stjórn­ar­skrár­vörðu eignarréttindum, að njóta arðs af vinnu­fram­lagi sem þeir hafa þegar innt af hendi. Alltof langt sé gengið þegar dregið sé af launum stefnenda langt umfram þátt­töku í verkfallinu. Í launa­frá­drætt­inum felist óréttmæt auðgun stefnda, því stefn­endur hafi í raun verið í launa­lausri þegn­skyldu í þágu stefnda þegar þær gengu til starfa.

                Inntak hugtaksins verkfall sé lögbundið í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 84/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 67/2000. Til verkfalls í skilningi laganna teljist það þegar starfs­menn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná til­teknu sam­eigin­legu markmiði. Að mati stefnenda ætti að vera óumdeilt að gagn­kvæmni í skyldum aðila fylgist að í þessum efnum, þegar starfsmenn fari í verkfall falli greiðslu­skylda stefnda á launum niður. Hins vegar takmarkist það brottfall að mati stefn­enda á gagn­kvæman hátt. Hagur annars aðilans vænkist ekki á kostnað hins vegna félags­legra aðgerða þess síðarnefnda. Takmörkun greiðsluskyldu atvinnu­rek­anda geti þó að mati stefn­enda ekki verið rýmri en sem nemur því vinnuframlagi starfs­manns sem fellur niður hverju sinni. Stefndi eigi þannig að mati stefnenda enga heimt­ingu á því að þær gangi til starfa án þess að fá greitt fyrir það.

                Félagsdómur hafi komist að þeirri niðurstöðu í dómi í máli nr. 22/2015, Ljós­mæðra­félag Íslands gegn íslenska ríkinu, að frádráttaraðferð stefnda stæðist þar sem horfa ætti til þess að vinnuskylda og vinnulaun ætti að miða við mánuð án tillits til þess hvernig vinna félli til innan mánaðar. Félagsmenn væru í verkfalli tilgreinda verk­falls­daga án tillits til þess hvort þeirra væri að sinna vinnuskyldu á þeim dögum. Því væri rétt­mætt að beita títtnefndri reiknireglu. Þessi dómur byggist á sýn dóm­stóls­ins á rétt­ar­stöðu þeirra málsaðila sem þar deildu en tók lítt eða ekki á gagnkvæmni rétt­ar­sam­bands einstakra félagsmanna. Ekki sé vikið að þeirri aðstöðu þegar starfs­maður hafi innt sína skyldu af hendi í gagnkvæmu réttarsambandi. Starfs­mað­ur­inn hafi látið sín verðmæti af hendi, vinnuframlag sitt, en atvinnurekandinn láti undir höfuð leggjast að láta gagngjaldið, launin, af hendi. Dómur Félags­dóms hafi ekki bind­andi áhrif fyrir stefnendur þessa máls enda hafi þær ekki verið aðilar að því. Þótt þær séu félags­menn í Ljósmæðrafélagi Íslands hafi þær aldrei afsalað sér stjórn­ar­skrár­vörðum eignum sínum, launum sem þær hafi unnið fyrir með vinnu­fram­lagi sínu.

                Stefnendur byggja á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfs­manna, stjórnarskránni, sbr. lög nr. 33/1944, einkum 72. gr. og mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum 1. gr. Kröfur þeirra um vexti og dráttar­vexti styðj­ast við III. kafla laga um vexti og verðbætur, nr. 38/2001. Kröfur um máls­kostnað styðj­ast við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðis­auka­skatt á mál­flutn­ings­þóknun styðst við lög nr. 50/1988, en stefnendur eru ekki virðis­auka­skattsskyldar og því sé þeim nauðsynlegt að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi mótmælir öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefn­enda. Hann vísar fyrst til þess að í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opin­berra starfs­manna, segir að boðað verkfall taki til allra starfsmanna í viðkomandi stétt­ar­félagi hjá þeim vinnu­veitendum sem verkfall beinist gegn, annarra en þeirra sem óheim­ilt er að leggja niður störf samkvæmt þeim lögum. Það sé því meginreglan að verk­fall taki til allra starfs­manna, nema þeirra sem falli undir undanþáguákvæði 19. eða 20. gr. lag­anna.

                Eins og skýrt sé af verkfallsboðuninni hafi verkfallið náð til allra félagsmanna sem voru við störf hjá Landspítala frá og með 7. apríl 2015 en ekki einungis til þeirra félags­manna sem áttu vinnuskyldu umrædda verkfallsdaga eins og stefnendur halda fram. Hefði það verið vilji Ljósmæðrafélags Íslands að verk­falls­boð­unin tæki ekki til hluta félagsmanna, það er þeirra félagsmanna sem hefðu ekki átt vinnuskyldu umrædda daga, hefði verið eðlilegt að taka það skýrt fram. Verk­falls­boð­unin beri ekki með sér að vilji hafi staðið til að takmarka verkfallsþátttöku félags­manna með þeim hætti. Ljóst sé að verkfallið hafi tekið jafnt til allra félagsmanna Ljós­mæðra­félagsins, óháð því hvaða vikudaga þeir inntu sína mánaðarlegu vinnu­skyldu (21,67 daga) af hendi. Verk­fallið hafi því að fullu tekið til stefnenda og þær verið í verk­falli umrædda daga, að und­an­skildum þeim dögum sem þær unnu samkvæmt undan­þágu­ákvæðum 19. gr. eða 20. gr. lag­anna.

                Samkvæmt meginreglu vinnuréttar hafi stefnda því borið að haga launa­frá­drætti í sam­ræmi við það að verkfallið tæki til allra starfsmanna. Sú máls­ástæða stefn­enda að tíma­bundið verkfall taki einungis til vinnuskyldu þeirra sem hafi, sam­kvæmt fyrir­ fram ákveðnu vaktaskipulagi, átt að vera við störf þessa til­teknu viku­daga, þriðju­daga, mið­viku­daga og fimmtudaga, sé ekki í samræmi við til­gang verk­falls sem félags­legrar aðgerðar, sbr. III. kafla laga nr. 94/1986. Hafa verði hug­fast að verk­fall sé félags­leg (kollektív) aðgerð. Frá­dráttar­regla launa í kjara­samn­ingnum sé reist á grunni jafn­ræðis­reglunnar og taki jafnt til allra þeirra félags­manna sem eru bundnir af lög­legum verkfallsaðgerðum stéttarfélags síns og taki jafnt til tíma­bund­inna og ótíma­bund­inna verkfalla.

                Það sé meginregla í kjarasamningum starfsmanna ríkisins að launagreiðslur mið­ist við meðaltalsmánuð (21,67 daga) og vinnuskyldan þar með. Þrátt fyrir að á árum áður hafi ákveðnir hópar starfsmanna ríkisins fengið vikulaun í samræmi við þágild­andi ákvæði kjarasamninga, fái allir starfsmenn, sem nú séu ráðnir, settir eða skip­aðir í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, greidd mánaðarlaun.

                Í verk­föllum hafi það ávallt verið framkvæmd stefnda að dregið sé með sama hætti af mán­að­ar­launum allra félagsmanna hlutaðeigandi stéttarfélags óháð því hvort við­kom­andi félags­manni hafi borið að vinna á meðan á verkfalli stóð eða ekki. Óum­deilt sé að stefn­endur fái greidd mánaðarlaun í samræmi við framangreinda reglu, sem og starfs­hlut­fall og launaflokk. Það sé meginregla að í fullu starfi (fullum mánað­ar­launum) fel­ist 40 vinnuskyldustundir á viku. Sú regla sé fest í lög nr. 88/1971, um 40 stunda vinnu­viku, og sé nánar útfærð í kjarasamningum, sbr. grein 1.1.2, sem sé sam­hljóða í öllum kjarasamningum fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Í grein 1.1.2 í kjara­samningi fjármálaráðherra og Ljósmæðrafélags Íslands sé svohljóðandi ákvæði um útreikn­ing á broti úr mánaðarlaunum:

Þegar unninn er 8 stunda vinnu­dagur reglubundið, reiknast brot úr mánaðar­launum þannig að deilt er með 21,67 í mánaðarlaunin og margfaldað með fjölda alman­aks­daga annarra en laug­ar­daga og sunnudaga frá upphafi eða til loka starfs­tíma.

                Þetta ákvæði hafi verið lengi í kjarasamningi fjármálaráðherra og Ljós­mæðra­félags Íslands. Sambærileg ákvæði um útreikninga á broti úr mánaðarlaunum séu í öðrum kjarasamningum sem fjármálaráðherra hafi gert. Samn­ings­aðilar hafi talið nauð­syn­legt að hafa ákvæði sem þetta í kjarasamningi, þar eð vinnu­skylda í hverjum mán­uði sé mismikil þótt mánaðarlaunin séu þau sömu. Fjöldi vinnudaga í mánuði sé mis­jafn, en meðal­fjöldi vinnu­daga til grundvallar mánaðarlaunum sé 21,67 dagar. Af þess­ari reikni­reglu leiði að þótt starfsmenn fái sömu krónutölu í mánaðarlaun fyrir hvern mánuð liggi mismargir vinnu­dagar að baki laununum eftir mánuðum. Eðli máls­ins sam­kvæmt séu færri alm­an­aks­dagar í febrúar en í júlí. Starfs­maður sem vinni fulla vinnu, 21,67 daga, fái þó greidd sömu laun fyrir unnin störf í febrú­ar og júlí. Rétt­ur­inn til mán­að­ar­launa sé ekki háður því á hvaða viku­daga vinnu­skyldan dreif­ist og með mán­að­ar­launum í kjara­samn­ingi sé ekki átt við laun fyrir til­tekna viku­daga sam­kvæmt vakta­skipu­lagi, heldur fyrr­greint meðaltal vinnu­daga.

                Framkvæmd stefnda á launafrádrætti í verkföllum sé hlið­stæð því sem kveðið sé á um í umræddri frádráttarreglu kjarasamninga. Reikni­regla vegna frádráttar launa í verk­falli birtist því í grein 1.1.2 í kjarasamningi aðila. Áður hafi verið deilt um reikni­regl­una, meðal annars í fyrri verkföllum Ljós­mæðra­félags Íslands sem og öðrum verk­föllum stéttarfélaga gagnvart stefnda. Niður­staða dóms­mála, bæði fyrir Félags- og héraðs­dómi hafi einatt verið sú að reikni­reglan hafi verið talin rétt og ítrekað stað­fest að beita skuli henni við útreikning á broti úr mánaðarlaunum þegar frá­dráttur vegna launa í verkföllum sé reiknaður út. Sú stað­hæf­ing stefnenda að reikni­reglan mið­ist við dag­vinnumenn sem vinni fimm daga vik­unnar, en ekki vakta­vinnu­menn sem vinni sjö daga vikunnar, sé samkvæmt ofan­greindu röng. Til áréttingar telur stefndi rétt að nefna að vinnuvika starfsmanna í fullu starfi skuli vera 40 stundir á viku skv. grein 2.1.1 í kjarasamningnum, óháð því hvort starfs­menn sinni hefðbundinni dag­vinnu á virkum dögum eða vinni á reglu­bundnum vöktum. Í grein 2.6.1 í kjara­samn­ingi aðila komi fram að þeir sem vinni á reglu­bundnum vöktum, skuli fá vaktaálag fyrir unnin störf á þeim tíma sem falli utan venju­legs dagvinnutímabils, sbr. grein 1.6.1 í kjara­samn­ingi aðila. Að öðru leyti sé ekki gerður greinarmunur á þeim sem inna sína vinnu­skyldu af hendi á dagvinnutíma á virkum dögum og þeim sem sinni vinnuskyldu sinni á reglu­bundnum vöktum sem geti verið utan dagvinnutíma og á öllum viku­dögum. Þessu til stuðnings megi vísa til þess að í grein 2.6.7 í kjarasamningnum komi skýrt fram að ljósmóðir í fullu starfi sem vinnur á reglubundnum vöktum og vinnur til jafn­aðar 40 klst. á viku allt árið geti, í stað greiðslna skv. 2.3.2 (yfir­vinna), fengið frí á óskertum föstum launum í 88 vinnu­skyldu­stundir á ári miðað við heils árs starf. Þessi grein sýni glöggt að gert sé ráð fyrir því að vinnuskylda ljósmóður í fullu starfi á reglu­bundnum vöktum sé með sama hætti og þeirrar sem vinni dag­vinnu skv. 1.1.2, þ.e. þær vinni báðar að jafnaði 40 klst. á viku, allt árið. Eini mun­ur­inn á störfum ljós­móður sem vinnur dagvinnu og þeirrar sem vinnur vaktavinnu sé, að sú sem vinnur vakta­vinnu fær sérstakar álags­greiðslur fyrir unnin störf sem falla utan hefðbundins dag­vinnu­tíma, eins og hann er skil­greindur í kjarasamningi. Einnig fái starfs­menn í vakta­vinnu að jafnaði tvo samfellda frí­daga í viku eins og hefðbundnir dag­vinnu­menn og því eigi viðmiðið um 21,67 daga vegna vinnuskyldustunda í meðal­tals­mánuði jafnt við um báða hópa. Í ljósi dóm­krafna stefn­enda telur stefndi nauðsynlegt að árétta að reikni­reglan, sem frádrátturinn byggist á, miði við greiðslu mánaðarlauna en ekki viku­launa eins og stefn­endur vilja halda fram.

                Stefnendur haldi því fram að með því að draga hlutfallslega jafnt af öllum félags­mönnum Ljósmæðrafélags Íslands sem starfi hjá Landspítala vegna þátttöku þeirra í sam­eigin­legum verkfallsaðgerðum, hafi ekki verið tekið tillit til réttar hvers og eins starfs­manns eða raunverulegs vinnuframlags. Stefndi andmælir þessum full­yrð­ingum og vísar, ásamt ofangreindu, til þess að túlka verði frádráttarregluna með hlið­sjón af 18. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og tilgangi verk­falls­aðgerða sem sameiginlegrar félags­legrar aðgerðar sem allir félagsmenn Ljós­mæðra­félags Íslands, þar með talið stefn­endur, og stefndi sem samningsaðili, eru bundnir af.

                Ljóst sé að gagnkvæmar skyldur samkvæmt ráðn­ing­ar­samningi, svo sem vinnu­skylda starfsmanns og skylda vinnu­veitanda til greiðslu launa, falli niður í verk­falli, þótt einstökum ráðningar­samn­ingum sé ekki slitið með verkfallsaðgerðum. Starfs­manni sé því skylt að leggja niður störf í löglega boð­uðu verkfalli og vinnu­veit­anda sé óheimilt að taka við vinnu­fram­lagi hans á þeim tíma. Starfsmaður geti því ekki átt rétt til launa fyrir þá daga sem verk­fall standi, óháð vinnuskyldu hans á þeim dögum samkvæmt framansögðu og beri því að draga af honum hlutfallslega þau laun sem hann hefði annars fengið greidd með vísan til greinar 1.1.2 í kjarasamningi milli aðila. Vinnuveitanda sé beinlínis óheim­ilt að greiða honum laun í verkfalli án undan­þágu­heim­ildar. Framangreind túlkun hafi verið stað­fest í dómafordæmum, bæði í Félags­dómi, sem og héraðsdómi og Hæsta­rétti.

                Þessu til viðbótar bendir stefndi á, að árið 1994 var, að beiðni BSRB, skipuð sér­stök óháð nefnd lögfróðra manna sem var falið að kanna lögmæti þeirrar aðferðar sem starfs­manna­skrifstofa fjármálaráðuneytisins (fyrirrennara Kjara- og mann­auðs­sýslu ríkis­ins), beitti við frádrátt af launum sjúkraliða sem lagt höfðu niður vinnu í verk­falli dagana 1. til 3. desember árið 1992. Nefndin afhenti niðurstöðu sína 19. maí 1994. Í áliti nefndarinnar segir m.a.:

Myndast hefir regla um frádrátt launa vegna verk­falls ýmissa starfshópa opin­berra starfsmanna, mótuð af fjár­mála­ráðu­neyt­inu. Hefir þessari reglu verið beitt þrí­vegis áður. Launafrádrátturinn, sem sjúkra­lið­arnir urðu fyrir, var byggður á þess­ari reglu. Aðgerðin var félagsleg (kollektív) og því verða allir að sitja við sama borð um frádráttinn, einnig þeir sem hugs­an­lega áttu ekki að inna vinnuskyldu af hendi þessa tvo daga, sem vinnu­stöðv­unin stóð. Sam­kvæmt því sem nú hefir verið tekið fram lítur nefndin svo á, að frá­drætti á laun sjúkra­lið­anna hafi verið hagað í samræmi við það sem eðlilegt getur talist.

                Einn nefndarmanna var ósammála meirihluta nefnd­ar­innar og taldi að upp­gjör skyldi gert á grundvelli einstaklingsbundinna efnda við­komandi sjúkraliða á skuld­bind­ingum sam­kvæmt ráðningarsamningi.

                Stefndi hafnar þeirri fullyrðingu stefnenda að frádráttur launa í verkfalli grund­vall­ist á einhliða túlkun stefnda. Kjarasamningur sé tví­hliða samningur um kaup og kjör. Ljósmæðrafélag Íslands hafi ekki séð ástæðu til að fara fram á breytingar á þess­ari frádráttarreglu við kjarasamningsgerð, frá­dráttar­reglu sem hafi verið beitt í öllum verk­falls­aðgerðum félagsins gegn ríkinu.

                Stefndi mótmælir einnig þeirri fullyrðingu stefnenda að niðurstaða Félagsdóms í máli nr. 22/2015, sem Ljósmæðrafélag Íslands höfðaði fyrir hönd félags­manns síns, taki ekki til ágreiningsefnis stefnenda, sem rangri og telur niður­stöð­una bindandi fyrir stefn­endur sem félagsmenn Ljósmæðrafélags Íslands. Í fyrr­greindu Félags­dóms­máli hafi verið deilt um sömu ágreiningsatriði og liggi til grundvallar dóm­kröfum stefn­enda í þessu máli, það er um gildi og túlkun þeirrar frádráttarreglu sem stefndi beitir við frá­drátt á launum starfsmanna í verkfalli. Félagsdómur hafi sýknað íslenska ríkið af kröfum stefn­anda og talið túlkun frádráttarreglunnar hvorki fela í sér brot á almennum reglum vinnu­réttar, né brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar eða Mann­rétt­inda­sáttmála Evrópu. Í niður­stöðu Félagsdóms, sem sé fullnaðarniðurstaða, segi m.a.:

Samkvæmt ákvæði greinar 1.1.1 er mælt fyrir um að starfsmaður fái tilgreinda heild­ar­fjárhæð í mánað­ar­laun samkvæmt kjarasamningi ef hann gegnir fullu starfi. Miðast greiðsla launa því ekki við þá tilteknu daga, sem unnir hafa verið, heldur eru laun greidd fyrir mán­uð­inn í heild sinni, án tillits til þess hvernig vinnu innan hans er hagað. [….] Þar sem laun eru greidd fyrir hvern mánuð í heild en ekki fyrir unna daga verður að huga sér­stak­lega að því, hvernig reikna beri brot úr mán­að­arlaunum. Um það eru fyrirmæli í grein 1.1.2 og telur stefndi að í verkfalli skuli beita þessari reglu þannig að frá­dráttur af launum þeirra, sem eru í verkfalli skuli reikna samkvæmt henni.“ [….] „Í þessu ljósi og með vísan til þess sem áður er rakið um að samkvæmt ákvæðum kjara­samn­ings aðila eru bæði vinnuskylda og laun félagsmanna stefnanda miðuð við mánuð, án til­lits til þess hvernig vinnu hans er hagað, verður að líta svo á að félags­menn stefn­anda hafi verið í verkfalli, óháð því hvort þeir áttu vinnuskyldu umrædda daga eða ekki.

                Að mati stefnda er þessi dómur Félagsdóms bindandi fyrir stefn­endur sem félags­menn Ljósmæðrafélags Íslands. Dómar Félagsdóms séu endan­legir og verði ekki áfrýjað, sbr. 67. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Dóm­ur­inn sé því end­an­leg niðurstaða um það ágreiningsefni, sem sé einnig til umfjöll­unar í þessu máli, að stefnda hafi verið heimilt að beita þeirri reglu sem hann beitti við frá­drátt launa stefn­enda í verk­fallinu. Stefndi áréttar sérstaklega að dómur Félags­dóms taki fram að laun félags­manna séu miðuð við mánuð, án tillits til þess hvernig vinnu þeirra sé hagað og því verði að líta svo á að félagsmenn hafi verið í verk­falli, óháð því hvort þeir áttu vinnu­skyldu eða ekki þá daga sem verkfallið stóð. Að mati stefnda verði ekki annað séð en tekið sé á öllum þeim ágreinings­efnum sem til umfjöllunar eru í máls­sókn stefn­enda og séu þeir því bundnir af dóm­inum. Félagsdómur er sérdómstóll um túlkun kjara­samn­inga. Hann hafi slegið því föstu að túlkun stefnda á kjarasamningi aðila um frá­drátt launa í verk­falli sé rétt. Að mati stefnda sé því hæpið að almennir dóm­stólar endur­skoði dóm Félags­dóms um þetta efni.

                Stefndi mótmælir þeim fullyrðingum í stefnu að kröfum stefnenda verði fundin stoð í eignaréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi hafi hvorki brotið gegn kjara­samn­ingi né öðrum reglum vinnuréttar. Eignarréttarlegt tilkall til launa byggist á þeim kröfu­rétti sem ráðningar- og kjarasamningar mæla fyrir um í hverju til­viki og á megin­reglum vinnuréttar, meðal annars reglunni um að í verkfalli greiðist að megin­reglu ekki laun, þótt ráðningarsamningum sé ekki slitið. Þannig geti 72. gr. stjórn­ar­skrár­innar ekki helgað rétt sem sé ekki lögvarinn eða stofnað til að kröfurétti eða þegar megin­regla vinnuréttar stendur honum í vegi.

                Stefndi hafnar því jafnframt að í aðferð hans við að reikna út laun stefn­enda í verk­fallinu felist ólögmætt inngrip í rétt þeirra til þess að fara í verkfall. Launa­frá­drátt­ur­inn sé í fullu samræmi við meginreglur vinnuréttar um hvernig fari með gagn­kvæmar skyldur vinnusambands í verkfalli. Frádrátturinn sé í samræmi við langa og venju­helgaða framkvæmd sem hafi tíðkast í verkföllum ríkis­starfs­manna. Þessi sama reikni­regla hafi verið notuð í verkfalli Ljósmæðrafélags Íslands árið 2008. Þessi fram­kvæmd sé einnig í samræmi við jafnræðisreglu, en verk­fallið taki til allra félags­manna Ljós­mæðrafélags Íslands. Að mati stefnda er það and­stætt jafn­ræðis­reglu eigi frá­dráttur launa að miðast eingöngu við þá félagsmenn sem ættu vinnu­skyldu á verk­falls­dögum, enda ljóst að vaktir geti dreifst á mis­mun­andi hátt á félags­menn. Þannig gætu sumir þeirra lent í því að eiga vinnuskyldu á verk­falls­dögum mun oftar en aðrir og yrðu þannig fyrir mun meiri launafrádrætti en þeir sem ættu vinnu­skyldu á færri verk­falls­dögum, ef þeirri aðferð yrði beitt við launa­frá­drátt sem stefn­endur byggja á. Stefndi mót­mælir því að hann hafi með þessari framkvæmd gripið á ólög­mætan hátt inn í verk­falls­rétt stefnenda.

                Stefndi mótmælir því að sama skapi að með því að beita fyrrgreindri reikni­reglu auðgist stefndi á ólög­mætan hátt á kostnað stefnenda. Hann mótmælir því jafn­framt að stefnendur hafi verið í þegn­skyldu­vinnu, enda hafi þær fengið greitt fyrir vinnu þá daga sem þær unnu á grundvelli und­an­þágureglna 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986. Öll starf­semi Land­spítal­ans hafi raskast veru­lega meðan verkfallið stóð og langan tíma tekið að vinna úr þeirri röskun sem af hlaust. Stefndi telur því óraun­hæft með öllu að launa­frá­drátt­urinn hafi í heild falið í sér sparnað stefnda af verk­fall­inu, enda ekki hugs­aður til sparn­aðar. Það heyri hins vegar undir stefnda að gæta að megin­reglum um það hverjum sé heimilt að vinna í verkfalli og að reglum um laun í verk­falli sé fram­fylgt á réttan hátt, svo sem dómur Félags­dóms í máli nr. 22/2015 hefur staðfest. Fullt sam­ræmi hafi verið í fram­kvæmd stefnda og engum hafi verið mis­munað.

 

Dómkröfur stefnenda – nánar um útreikning frádráttar

                Stefndi vísar til þess að dómkröfur stefnenda byggist allar á því að endurgreiða skuli þeim frádrátt af launum sem sé kominn til vegna lögmætra verkfallsaðgerða stétt­ar­félags þeirra, Ljós­mæðra­félags Íslands. Stefndi tekur fram að Landspítali hafi reiknað frádrátt á launum vegna verkfallsaðgerða á annan hátt en almennt tíðkast hjá rík­inu og greitt stefnendum svokallaðar forstjórafærslur. Að sögn for­svars­manna Land­spítala hafi það verið gert til þess að koma til móts við starfsmenn spítalans, sem sættu launafrádrætti vegna verkfallsins.

 

Samanburður á útreikningi frádráttar stefnda annars vegar og stefnenda hins vegar

                Samkvæmt reiknireglu stefnda sé „verkfallsfrádráttur“, þ.e. frádráttur launa vegna verkfalls, reiknaður sem mismunur á fjölda annars vegar verkfallsdaga og hins vegar vinnudaga í meðaltalsmánuði, þ.e. 21,67 daga. Í verkfalli Ljós­mæðra­félags Íslands, sem var boðað frá 7. apríl 2015, séu verkfallsdagar 12 af 21,67 dögum í með­al­tals­mánuði. Þá verði verkfallsfrádráttur um 55,38% af mánaðarlaunum, bæði í apríl og maí. Í júní séu aftur á móti 6 verkfallsdagar af 21,67 sem leiði til 27,69% verk­falls­frá­dráttar. Á launaseðli séu mánaðarlaun og verkfallsfrádráttur talin í ein­ingum. Af því leiðir að mánaðarlaun í 100% starfshlutfalli séu 100 einingar, en í 80% starfs­hlut­falli séu það 80 einingar.

                Þessi tafla sýni verkfallsfrádrátt í einingum fyrir mismunandi starfshlutfall eins og stefndi hafi beitt honum.

 

 

100%

80%

70%

60%

50%

20%

apríl

55,38

44,30

38,76

33,23

27,69

11,08

maí

55,38

44,30

38,76

33,23

27,69

11,08

júní

27,69

22,15

19,38

16,61

13,84

5,54

 

                Stefndi mótmælir útreikningum hvers stefnenda um sig um frádrátt sem röngum. Til að sýna fram á það, setur stefndi fram tvær töflur fyrir hvern stefnenda. Í fyrri töflunni beiti hann sinni eigin reiknireglu og í þeirri seinni reikni­reglu stefn­enda. Miðað við aðferð stefnda, sé sami hundr­aðs­hlutinn (prósentu­hlut­fall) dregið af launum þeirra sem séu í verkfalli. Sé hins vegar miðað við reikni­reglu stefn­enda, væri föst krónu­tala dregin af launum við­kom­andi starfs­manna, óháð starfshlutfalli. Það þýddi að meira yrði dregið af þeim starfs­mönnum sem eru í minna starfshlutfalli, miðað við laun.

                Fyrri taflan í samanburðinum hér á eftir sýni niðurstöðu eftir reiknireglu stefnda. Frá­dráttur sé sama hlutfall af mánaðarlaunum hvers og eins, t.d. sé frádráttur 55,38% af mánaðar­launum í apríl, ef engin vakt er unnin á verkfallstíma, þ.e.a.s., þá er frá­dráttur 55,38 ein­ingar af 100% starfi, en 44,30 einingar af 80% starfi o.s.frv., miðað við fram­an­greinda töflu hér að ofan. Undir dálkinum Unnið sé bætt við, hafi starfs­mað­ur­inn unnið á verk­falls­tíma samkvæmt undanþáguákvæðum 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986 og er bætt við sama hlutfalli og dregið var frá. Í dálkinum Leiðrétt LSH séu leið­rétt­ing­ar­færslur, sem Landspítali gerði samkvæmt eigin reiknireglu og umfram skyldu, og hafi stefndi ekki staðfest þessa reiknireglu Landspítalans. Í dálkinum Samtals sé nið­ur­staða í sam­ræmi við reiknireglu stefnda, áður en kom að leið­rétt­ingu sem Land­spít­ali gerði. Dálkurinn Útkoma sýni þá fjárhæð sem stefndi dró af launum stefn­enda og sé sú fjár­hæð, sem stefn­endur miða við í dómkröfum.

                Seinni töflunni sé stillt upp samkvæmt reiknireglu stefnenda. Frádráttur vegna verk­fallstíma sé ákvarðaður út frá tímakaupstaxta í dagvinnu 0,615% af mánaðar­launum eða föst krónutala fyrir hvern launaflokk. Sama krónutala sé dregin frá óháð starfs­hlut­falli og verði sá sem er í lægra starfshlutfalli fyrir hlutfallslega hærri skerð­ingu. Það valdi því að starfsmaður í 50% starfshlutfalli fái frádrátt sem sé hlut­falls­lega tvisvar sinnum hærri en þess starfsmanns sem er í 100% starfi, þ.e.a.s. 1,23% væri dregið af 50% mánaðarlaunum, en ekki 0,615% eins og hjá 100% starfshlutfalli.

                Reikniregla stefnenda gangi því ekki upp að mati stefnda og mismuni starfs­mönnum verulega. Ef öll vinnuskylda starfsmanns féll til á verkfallstíma, gæti frá­dráttur orðið mun hærri en mánaðarlaun viðkomandi eins og sýnt sé í dæmum fyrir hvern og einn starfsmann.

                Reikniregla stefnda gætir að því að allir starfsmenn sem eru í verkfalli, verði fyrir sams konar launafrádrætti, það er sama hlutfall af launum er dregið frá öllum. Slíkt leiðir, að mati stefnda, til sanngjarnastrar niðurstöðu.

 

Dómkröfur Önnu Jónínu Eðvaldsdóttur, 70% starfshlutfall

                Mánaðarlaun samkvæmt launaflokki 9-7 séu 539.293 kr., í 70% starfi verði launin 377.505 kr. Yfir­litið sýni frádrátt í 70% starfshlutfalli og séu mánaðarlaun 70 ein­ingar, áður en komi að verkfallsfrádrætti. Hér sé frádráttur vegna verkfalls 38,76 ein­ingar áður en tekið er tillit til þess sem unnið er, en unnið er á verkfallstíma 4 daga í apríl, 3 í maí og 2 í júní og einingum vegna þessa bætt við. Frádráttur eigi að vera sam­tals 365.802 kr., en ekki 320.933 kr., sem er útkoman, séu leiðréttingarfærslur frá Land­spítala taldar með.

Einingar

Mánaðarlaun

Verkfallsfrádr.

Unnið

Samtals

Leiðrétt LSH

Útkoma

apríl

70,00

-38,76

12,92

-25,84

1,39

-24,45

maí

70,00

-38,76

9,69

-29,07

4,16

-24,91

júní

70,00

-19,38

6,46

-12,92

2,77

-10,15

-96,90

29,07

-67,83

8,32

-59,51

Krónur

apríl

377.505

-209.030

69.677

-139.353

7.496

-131.857

maí

377.505

-209.030

52.257

-156.772

22.435

-134.338

júní

377.505

-104.515

34.838

-69.677

14.938

-54.738

-522.575

156.772

-365.802

44.869

-320.933

 

krónur í % af mánaðarlaunum

 

apríl

100,0%

-55,4%

18,5%

-36,9%

2,0%

-34,9%

maí

100,0%

-55,4%

13,8%

-41,5%

5,9%

-35,6%

júní

100,0%

-27,7%

9,2%

-18,5%

4,0%

-14,5%

 

                Reikniregla stefnenda sé þannig að frádráttur miðist við vinnustundafjölda sam­kvæmt vaktaáætlunum viðkomandi starfsmanns og þeir tímar í vaktaplaninu taldir með, sem féllu niður vegna verkfalls. Að mati stefnanda Önnu Jónínu sé réttur frá­dráttur samkvæmt þeirri aðferð, 8 klst. í apríl, 24 klst. í maí og 16 klst. í júní og þess kraf­ist að dregið verði frá með tímakaupstaxta í dagvinnu 0,615% af mánaðarlaunum eða kr. 3.317 á klst.

                Töflum sem á eftir fari sé stillt upp samkvæmt reiknireglu stefnenda.

                Samkvæmt reikni­reglu stefnenda, ef ein klukkustund er frádregin:

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

Dæmi

1

3.317

-3.317

377.505

374.188

-0,88%

 

                Samkvæmt reiknireglu stefnenda, ef 8 tímar, 16 tímar og 24 tímar eru frá­dregnir:

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

apríl frádregið

8

3.317

-26.533

377.505

350.972

-7,03%

júní frádregið

16

3.317

-53.066

377.505

324.439

-14,06%

maí frádregið

24

3.317

-79.600

377.505

297.905

-21,09%

 

                Samkvæmt upplýsingum í stefnu sé vinnuskylda stefnanda Önnu Jónínu í apríl 112 klst., í maí 125 klst. og í júní 137 klst. Reiknireglu stefnanda sé beitt í dæminu hér fyrir neðan. Lendi öll vinnuskylda viðkomandi alltaf á verkfallsdögum væri dregið frá 98,4% af launum í apríl, 109,82% af launum í maí og 120,36% í júní. Niður­staðan yrði að frádráttur gæti verið hærri krónutala en mánaðarlaun viðkomandi starfs­manns.

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

vinnusk. apríl

112

3.317

-371.465

377.505

6.040

-98,40%

vinnusk. maí

125

3.317

-414.581

377.505

-37.076

-109,82%

vinnusk. júní

137

3.317

-454.381

377.505

-76.876

-120,36%

 

Dómkröfur Bjargar Pálsdóttur, 50% starfshlutfall

                Mánaðarlaun samkvæmt launaflokki 10-7 séu 566.257 kr. en verði í 50% starfi 283.129 kr. Yfirlitið sýni frádrátt samkvæmt reiknireglu stefnda í 50 % starfs­hlut­falli, en unnin var ein vakt í maí á verkfallstíma. Frádráttur eigi að vera samtals 378.770 kr. en ekki 362.404 kr., sem sé útkoman séu leiðréttingarfærslur frá Landspítala taldar með.

Einingar

Mánaðarlaun

Verkfallsfrádr.

Unnið

Samtals

Leiðrétt LSH

Útkoma

apríl

50,00

-27,68

-27,68

-27,68

maí

50,00

-27,68

2,31

-25,37

2,89

-22,48

júní

50,00

-13,84

-13,84

-13,84

-69,2

2,31

-66,89

2,89

-64

Krónur

apríl

283.129

-156.740

 -

-156.740

 -

-156.740

maí

283.129

-156.740

13.081

-143.660

16.365

-127.294

júní

283.129

-78.370

 -

-78.370

-

-78.370

-391.851

13.081

-378.770

16.365

-362.404

 

krónur í % af mánaðarlaunum

 

apríl

100,0%

-55,4%

-55,4%

-55,4%

maí

100,0%

-55,4%

4,6%

-50,7%

5,8%

-45,0%

júní

100,0%

-27,7%

-27,7%

-27,7%

 

                Reikniregla stefnanda sé þannig að frádráttur miðist við vinnustundafjölda sam­­kvæmt vaktaáætlunum viðkomandi starfsmanns og þeir tímar í vaktaplaninu taldir með, sem féllu niður vegna verkfalls.

                Að mati stefnanda Bjargar sé réttur frádráttur samkvæmt þeirri aðferð, 4 klst. í apríl, 8,27 klst. í maí og 0 klst. í júní og þess krafist að dregið verði frá með tíma­kaups­taxta í dag­vinnu 0,615% af mánaðarlaunum eða 3.482 kr. á klst. Í töflum fyrir neðan er stillt upp samkvæmt reiknireglu stefnanda.

                Samkvæmt reiknireglu stefnanda, ef ein klukkustund er frádregin:

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

Dæmi

1

3.482

-3.482

283.129

279.646

-1,23%

 

                Samkvæmt reiknireglu stefnanda, ef 4 tímar og 8,27 tímar eru frádregnir:

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

apríl frádr.

4

3.482

-13.930

283.129

269.199

-4,92%

maí frádr.

8,27

3.482

-28.800

283.129

254.328

-10,17%

 

                Samkvæmt upplýsingum í stefnu sé vinnuskylda stefnanda Bjargar í apríl 93 klst., í maí 126 klst. og í júní 80,33 klst. Reiknireglu stefnenda sé beitt í dæmi hér fyrir neðan. Lendi öll vinnuskylda stefnanda alltaf á verkfallsdögum, yrði dregið frá vegna 93 klst. eða 114,39% af launum í apríl og 154,98% af launum í maí. Í maí yrði í þessu dæmi dregið frá 438.793 kr. af 283.129 kr. eða 55% umfram launin.

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

vinnusk. júní

80,33

3.482

-279.748

283.129

3.381

-98,81%

vinnusk. apríl

93

3.482

-323.871

283.129

-40.742

-114,39%

vinnusk. maí

126

3.482

-438.793

283.129

-155.664

-154,98%

 

Dómkröfur Brynju Pálu Helgadóttur, 80% starfshlutfall

                Mánaðarlaun samkvæmt launaflokki 9-4 séu 504.870 kr., og í 80% starfs­hlut­falli 403.896 kr., í neðri töflu með reiknireglu stefnenda, er eins og í stefnu, miðað við 504.780 kr. en í 80% starfi verður það 403.824 kr.

                Yfirlit sýni frádrátt samkvæmt reiknireglu stefnda í 80 % starfshlutfalli, en unnar voru átta vaktir í apríl og tvær í maí á verkfallstíma. Frádráttur eigi að vera sam­tals 372.590 kr., en ekki 331.241 kr., eins og raunin varð vegna leiðréttingar LSH.

Einingar

Mánaðarlaun

Verkfallsfrádr.

Unnið

Samtals

Leiðrétt LSH

Útkoma

apríl

80,00

-44,28

29,52

-14,76

4,27

-10,49

maí

80,00

-44,28

7,38

-36,9

3,92

-32,98

júní

80,00

-22,14

0

-22,14

0

-22,14

-110,7

36,9

-73,8

8,19

-65,61

Krónur

apríl

403.896

-223.554

149.038

-74.517

21.558

-52.959

maí

403.896

-223.554

37.259

-186.295

19.791

-166.504

júní

403.896

-111.778

-

-111.778

-

-111.778

-558.887

186.297

-372.590

41.349

-331.241

 

krónur í % af mánaðarlaunum

 

apríl

100,0%

-55,3%

36,9%

-18,4%

5,3%

-13,1%

maí

100,0%

-55,3%

9,2%

-46,1%

4,9%

-41,2%

júní

100,0%

-27,7%

-27,7%

-27,7%

 

                Reikniregla stefnenda sé þannig að frádráttur miðist við vinnu­stundafjölda sam­kvæmt vaktaáætlunum viðkomandi starfsmanns og þeir tímar í vakta­planinu taldir með, sem féllu niður vegna verkfalls. Í töflum fyrir neðan er stillt upp samkvæmt reikni­reglu stefnenda.

                Samkvæmt reiknireglu stefnenda, ef ein klukkustund er frádregin:

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

Dæmi

1

3.104

-3.104

403.824

400.720

-0,77%

 

                Að mati stefnanda Brynju Pálu sé réttur frádráttur, 20 klukkustundir í apríl, 35,2 klst. í maí og 38,4 klst. í júní og óskað eftir því að dregin verði frá með tíma­kaups­taxta í dagvinnu 0,615% af mánaðarlaunum eða 3.104 kr. á klst.

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

apríl frádr.

20

3.104

-62.088

403.824

341.736

-15,38%

maí frádr.

35,2

3.104

-109.275

403.824

294.549

-27,06%

júní frádr.

38,4

3.104

-119.209

403.824

284.615

-29,52%

 

                Samkvæmt upplýsingum í stefnu hafi vinnuskylda stefnanda Brynju Pálu í apríl verið 143 klst., í maí 154 klst. og í júní 136 klst. Reiknireglu stefnenda sé beitt í dæmi hér fyrir neðan. Ef öll vinnuskylda lenti alltaf á verkfallsdögum, yrði dregið frá vegna 143 klst. eða 109,93% af launum í apríl, 118,39% af launum í maí og 104,55% í júní. Frá­dráttur samkvæmt þessari reiknireglu næmi hærri fjárhæð en mán­að­ar­launum.

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

vinnusk. júní

136

3.104

-422.198

403.824

-18.374

-104,55%

vinnusk. apríl

143

3.104

-443.929

403.824

-40.105

-109,93%

vinnusk. maí

154

3.104

-478.077

403.824

-74.253

-118,39%

 

Dómkröfur Kristínar Svölu Jónsdóttur, 20% starfshlutfall

                Mánaðarlaun samkvæmt launaflokki 8-6 séu 502.684 kr., sem verði í 20% 100.537 kr. Yfirlit hér að neðan sýni reiknireglu stefnda í 20% starfshlutfalli, en stefn­andi hafi ekki unnið neinar vaktir á verkfallstíma sem komi til leiðréttingar á verk­falls­frá­drætti. Frá­dráttur eigi að vera samtals 139.243 kr., en ekki 111.395 kr., sem sé frá­dráttur vegna apríl og maí, en láðst hafi að færa frádrátt vegna júní.

Einingar

Mánaðarlaun

Verkfallsfrádr.

Unnið

Samtals

Leiðrétt LSH

Útkoma

apríl

20,00

-11,08

-11,08

-11,08

maí

20,00

-11,08

-11,08

-11,08

júní

20,00

-5,54

-5,54

-5,54

-27,7

 

-27,7

 

-27,7

Krónur

apríl

100.537

-55.697

-55.697

-55.697

maí

100.537

-55.697

-55.697

-55.697

júní

100.537

-27.849

-27.849

-27.849

-139.243

 

-139.243

 

-139.243

 

krónur í % af mánaðarlaunum

 

apríl

100,0%

-55,4%

-55,4%

-55,4%

maí

100,0%

-55,4%

-55,4%

-55,4%

júní

100,0%

-27,7%

-27,7%

-27,7%

 

                Reikniregla stefnenda sé á þá leið að frádráttur miðist við vinnustundafjölda sam­kvæmt vaktaáætlunum viðkomandi starfsmanns og þeir tímar í vaktaplaninu taldir með, sem féllu niður vegna verkfalls. Töflum fyrir neðan sé stillt upp samkvæmt reikni­reglu stefnanda.

                Samkvæmt reiknireglu stefnanda, ef ein klukkustund er frádregin:

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

Dæmi

1

3.092

-3.092

100.537

97.445

-3,08%

 

                Að mati stefnanda Kristínar Svölu eigi frádráttur að vera 12,3 klst. í apríl, 0 klst. í maí og 0 klst. í júní og sé þess krafist að dregin verði frá með tímakaupstaxta í dag­vinnu 0,615% af mánaðarlaunum eða kr. 3.092 á klst.

 

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

apríl frádr.

12,3

3.092

-38.026

100.537

62.511

-37,82%

 

                Samkvæmt upplýsingum í stefnu sé vinnuskylda 33 klst. í apríl, 40 klst. í maí og 24 klst. í júní. Reiknireglu stefnanda er beitt í dæmi hér fyrir neðan og dæmið sýni, eins og fyrri dæmi, hvernig útkoman væri ef öll vinnuskylda lenti alltaf á verk­falls­dögum. Samkvæmt reiknireglu stefnanda næmi frádráttur 74.196 kr. í júní, ef vinnu­skylda og verkfallsdagar færu saman. Í apríl og maí væri frádráttur hærri en mán­að­ar­laun.

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

vinnusk. júní

24

3.092

-74.196

100.537

26.341

-73,80%

vinnusk. apríl

33

3.092

-102.020

100.537

-1.483

-101,48%

vinnusk. maí

40

3.092

-123.660

100.537

-23.123

-123,00%

 

Dómkröfur Sigrúnar Ingvarsdóttur, 60% starfshlutfall.

                Mánaðarlaun samkvæmt launaflokki 7-3 séu 447.524 kr., en verði í 60% starfi 268.514 kr. Yfir­lit sýnir frádrátt samkvæmt reiknireglu stefnda í 60% starfshlutfalli, en unnar voru 1,5 vaktir í apríl, 2 vaktir í maí og 1 í júní á verkfallstíma. Landspítali færi inn alls 13,87 ein­ingar samkvæmt launaseðlum (alls 5 vaktir) og stefndi geri ekki efnis­lega athuga­semd við það. Frá­dráttur eigi að vera samtals 309.460 kr.

Einingar

Mánaðarlaun

Verkfallsfrádr.

Unnið

Samtals

Leiðrétt LSH

Útkoma

apríl

60,00

-33,2

5,548

-27,652

-27,652

maí

60,00

-33,2

5,548

-27,652

-27,652

júní

60,00

-16,62

2,774

-13,846

-13,846

-83,02

13,87

-69,15

-69,15

Krónur

apríl

268.514

-148.577

24.829

-123.748

-123.748

maí

268.514

-148.577

24.829

-123.748

-123.748

júní

268.514

-74.378

12.414

-61.964

-61.964

-371.532

62.072

-309.460

-

-309.460

 

krónur í % af mánaðarlaunum

 

apríl

100,0%

-55,3%

9,2%

-46,1%

-46,1%

maí

100,0%

-55,3%

9,2%

-46,1%

-46,1%

júní

100,0%

-27,7%

4,6%

-23,1%

-23,1%

 

                Reikniregla stefnenda sé eins og áður á þá leið að frádráttur miðist við vinnu­stunda­fjölda samkvæmt vaktaáætlunum viðkomandi starfsmanns og þeir tímar í vakta­plan­inu taldir með, sem féllu niður vegna verkfalls. Í töflum fyrir neðan er stillt upp samkvæmt reiknireglu stefnenda.

                Samkvæmt reiknireglu stefnenda, ef ein klukkustund er frádregin:

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

Dæmi

1

2.752

-2.752

268.514

265.762

-1,03%

 

                Að mati stefnanda Sigrúnar sé réttur frádráttur, 20 klst. í apríl, 16 klst. í maí og 8 klst. í júní og þess krafist að dregin verði frá með tímakaupstaxta í dagvinnu 0,615% af mánaðarlaunum eða 2.752 kr. á klst.

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

apríl frádr.

20

2.752

-55.045

268.514

213.469

-20,50%

maí frádr.

16

2.752

-44.036

268.514

224.478

-16,40%

júní frádr.

8

2.752

-22.018

268.514

246.496

-8,20%

 

                Samkvæmt upplýsingum í stefnu sé vinnuskylda stefnanda Sigrúnar í apríl 96,36 klst., í maí 88 klst. og í júní 108 klst. Reiknireglu stefnenda sé beitt í dæmi hér fyrir neðan. Niðurstaða ef verkfallsdagar og vinnuskylda færu saman sé, að greiða ætti starfs­mann­inum 3.305 kr. í apríl og 26.314 kr. í maí, en í júní væri frádráttur hærri en mán­að­ar­laun.

Skýring

Tímar

Taxti

Frádr.

Mán.laun

Útborgað

Frádr. í %

vinnusk. apríl

96,36

2.752

-265.209

268.514

3.305

-98,77%

vinnusk. maí

88

2.752

-242.200

268.514

26.314

-90,20%

vinnusk. júní

108

2.752

-297.245

268.514

-28.731

-110,70%

 

                Stefn­andi Sigrún vinni í 60% starfshlutfalli og eins og sjá megi af vinnu­skýrslu, ein­göngu á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Sú aðferð að boða verk­fall á þriðju­degi, miðvikudegi og fimmtudegi valdi því að stefnandi skilar að öðru jöfnu 2 af 3 dögum eða 67%. Sú aðferð að boða ótímabundið verkfall, en festa við ákveðna daga (stundum kallað lotuverkfall) geti einmitt haft mikil áhrif á útkomu þeirra sem eru í skertu starfshlutfalli og hafi bundið sig við ákveðna daga. Stefndi bendir á að hefði stefn­andi Sigrún unnið þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga, hefði krafa hennar væntanlega verið sú að draga frá alla vinnuskyldu hennar vegna verk­falls, miðað við þær forsendur sem stefnandi leggi til grundvallar. Að mati stefnda er aug­ljóst að slík aðferð gangi ekki upp, þegar um er að ræða félags­lega aðgerð sem nái til allra félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands. Stefndi telur ljóst, að sú aðferð, sem hann hafi beitt um árabil til þess að reikna frádrátt af launum í verk­falli, sé mun sann­gjarnari og meira í samræmi við jafnræði, en sú aðferð sem stefn­endur vilja beita.

                Stefndi áréttar í lokin að stefnendur hafi allar tekið þátt í verk­falli sem stóð frá 7. apríl til 13. júní 2015, þegar sett voru lög nr. 31/2015 sem bönn­uðu verkfallið. Þær verði af þeim sökum að sæta því að dregið hafi verið af launum þeirra í samræmi við megin­regluna um að laun greiðist ekki fyrir þann tíma sem vinna fellur niður vegna verk­falls. Það sé óumdeilt að stefnendur hafi fengið greidd laun vegna vinnu sinnar sem var unnin á grundvelli undanþágureglna. Verkfallið hafi verið félags­leg (kollektív) aðgerð. Af því leiði að eðlilegt sé og í samræmi við jafn­ræð­is­reglu að allir starfs­menn, sem fá greidd mánaðarlaun, fái sama frádrátt. Þátttaka í verk­fall­inu sé þannig ekki bundin við tíma­vinnu eins og stefnendur virðast byggja á. Það sé mat stefnda að rétt hafi verið staðið að frádrætti launa hjá stefnendum vegna verk­falls­að­gerða Ljós­mæðra­félags Íslands á Landspítala frá 7. apríl 2015 til 13. júní 2015. Lög­var­inn réttur stefn­enda til fullra mánaðarlauna hafi ekki verið fyrir hendi vegna verk­falls enda hafi stefnda verið óheimilt að standa við ákvæði kjarasamnings um greiðslu óskertra mán­að­ar­launa vegna þeirra daga sem verkfallsaðgerðir félags­manna Ljós­mæðra­félags Íslands stóðu yfir, án sérstakrar undanþágu. Þetta mat sé í sam­ræmi við niður­stöðu Félags­dóms í máli nr. 22/2015, sem og önnur dóma­for­dæmi.

                Með vísan til alls framangreinds beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefn­enda og sé málatilbúnaði þeirra að öðru leyti mótmælt.

                Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

                Stefnendur krefja stefnda um greiðslu launa fyrir vinnu sem þær inntu af hendi í apríl, maí og júní 2015 en telja sig ekki hafa fengið laun fyrir. Á þeim tíma var stétt­ar­félag þeirra, Ljósmæðrafélag Íslands, í verkfalli sem stóð í þriggja sólarhringa lotum, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga.

 

Réttaráhrif dóms Félagsdóms

                Stefndi telur Félagsdóm þegar hafa dæmt um ágreiningsefni þessa máls. Því liggi fyrir bindandi niðurstaða um það. Hann krefst þess þó ekki að málinu verði vísað frá dómi af þessum sökum.

                Í 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem koma að lögum í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Stefnendur voru ekki aðilar að máli nr. 22/2015 fyrir Félags­dómi heldur stéttar­félagið Ljósmæðrafélag Íslands. Þar fyrir utan var þar ekki deilt um og ekki tekin afstaða til þeirra fjárkrafna sem þær gera í þessu máli. Að mati dómsins stendur ekkert því í vegi að þetta mál verði rekið fyrir héraðs­dómi.

 

Ágreiningsefnið

                Þetta mál snýst um það hvort reikna megi laun vaktavinnufólks, sem er hluta úr mánuði í verkfalli, með þeirri aðferð sem stefndi beitir.

                Stefnendur byggja á því að þegar dregið sé frá mán­aðar­launum þeirra vegna verk­falls­ins eigi að draga frá miðað við þá tíma sem þær felldu niður störf en greiða þeim laun fyrir vinnu sem þær sinntu á þeim dögum sem voru ekki boðaðir verk­falls­dagar, þ.e. hina fjóra viku­dag­ana.

                Stefndi byggir á því að draga eigi frá mánaðarlaunum þeirra þann hlutfallslega tíma sem verkfallið stóð, reiknað út frá 40 stunda, fimm daga vinnuviku í verk­falli í heild, óháð því hvenær hver leysti vinnu sína af hendi.

 

Frádráttaraðferð stefnda

                Þessi tafla sýnir hlutfall verkfallstímans og frádrátt frá launum eins og stefndi reiknar hann í einingum fyrir mis­munandi starfshlutfall, miðað við að fólk vinni 40 stundir, í fimm daga vinnu­viku.

 

100%

80%

70%

60%

50%

20%

apríl

55,38

44,30

38,76

33,23

27,69

11,08

maí

55,38

44,30

38,76

33,23

27,69

11,08

júní

27,69

22,15

19,38

16,61

13,84

5,54

                Stefndi segist byggja þennan frádrátt á grein 1.1.2 í kjarasamningi stéttarfélags stefn­enda og stefndu sem hljóðar svo:

Þegar unnin er 8 stunda vinnu­dagur reglu­bundið, reiknast brot úr mán­aðar­launum þannig að deilt er með 21,67 í mán­að­ar­launin og margfaldað með fjölda alman­aks­daga annarra en laugar­daga og sunnu­daga frá upphafi til loka starfs­tíma.

                Stefndi virðist ekki beita reglu 1.1.2 eftir orðanna hljóðan. Samkvæmt berum orðum reglunnar ætti hann að reikna fyrst þá fjárhæð sem starfsmaðurinn á að fá fyrir hvern virkan dag og margfalda þá fjárhæð með þeim dögum sem hann vann.

                Stefndi byrjar hins vegar á því að telja verkfallsdagana og reiknar þá út sem hlut­fall af meðaltalsmánuði. Í apríl var verk­fall í 12 daga, sem nemur 55,38% (55,376%) af 21,67 daga meðaltalsmánuði. Með sömu aðferð var einnig verkfall 55,38% af vinnutímanum í maí en 6 daga verk­fall í júní samsvarar 27,69% (27,688%) af meðaltalsmánuðinum.

                Þrír meðaltalsmánuðir eru (3 x 21,67) 65 vinnudagar. Þar af stóð verkfallið í 30 daga en vinnudagar voru 35. Með hlutfallsreikningi var verkfallið ((55,38 + 55,38 + 27,69) /3) eða (30/0,65) 46,15% af vinnutímanum þessa þrjá mánuði en vinnu­dag­arnir (35/0,65) 53,85%, ef viðkomandi vann fimm virka daga og átti frí um helgar.

                Launakerfi starfsmanna ríkisins byggist á jöfnum mán­að­ar­launum þrátt fyrir að vinnu­fram­lag hvers starfsmanns sé misjafnt eftir mánuðum þar eð þeir eru mis­langir. Af þessum sökum hefur verið búið til hug­takið meðaltalsmánuður. Í þessum meðal­tals­mán­uði er gert ráð fyrir að fólk sé í fríi á laugardögum og sunnudögum. Í verkfalli sem stendur í þrjár heilar vikur frá miðvikudegi til þriðjudags eru þrjár helgar, sex helgar­dagar. Þeir teljast ekki með verkfallsdögunum enda er ekki gert ráð fyrir vinnu­fram­lagi þá daga. Fyrir helgardagana eru ekki heldur greidd laun.

                Í meðaltalsmánuðinum eru hins vegar taldir með helgidagar og lögboðnir frí­dagar sem lenda á virkum dögum svo sem sumardagurinn fyrsti, 1. maí, upp­stign­ing­ar­dagur og annar í hvítasunnu, enda á að greiða starfsmönnum laun fyrir þá eins og væru þeir virkir dagar.

                Stefndi reiknar laun út frá einingum. Þegar starfsmaður vinnur 100% starf eru laun hans reiknuð út frá 100 einingum. Þegar starfsmaður vinnur 70% starf eru laun hans reiknuð út frá 70 einingum. Mikilvægt er að gera hér greinarmun á einingum og hundr­aðs­hlutum (prósentum) en slíkum reikningi beitir stefndi strangt tiltekið ekki við útreikning launanna. Tölurnar í töflunni fyrir frádrátt launa í verkfalli þeirra sem vinna fullt starf (100%) geta hvort heldur verið hundraðshluti eða einingar. Þegar fullu starfi sleppir eru tölurnar í töflu stefnda ekki prósentutölur heldur ein­ingar. Það þýðir að þegar 38,76 einingar eru dregnar frá launum þess sem vinnur 70% starf eru í raun dregin frá honum laun fyrir 55,38% vinnuskyldu hans miðað við þær forsendur að hann vinni daglega fimm tíma og 36 mínútur fimm daga í viku og eigi frí um helgar.

                Þessi nálgun kann að vera hagkvæm í einhverjum tilvikum og ganga upp þegar reiknuð eru laun í verk­falli þeirra sem vinna með því vinnufyrirkomulagi. Þegar reiknuð eru laun í verkfalli þeirra sem vinna samkvæmt öðru vinnu­fyrir­komu­lagi verður að beita öðrum útreikningsaðferðum.

                Eins og áður segir eru vinnudagar í meðaltalsmánuðinum sam­kvæmt grein 1.1.2 í kjara­samn­ingnum 21,67 og hver vinnu­dagur 8 stundir. Sam­kvæmt þessum forsendum er gert ráð fyrir að hver starfs­maður, sem vinnur 100% vinnu, vinni (12 x 21,67) 260,04 daga á ári ef hann vinnur átta tíma á dag og að mán­að­ar­leg vinnu­skylda hver starfs­manns nemi (8 x 21,67) 173,36 vinnu­stundum.

 

                Þegar unnið er út frá ein­ingum, verður hver dagur í þessum meðaltalsmánuði (100/21,67) 4,6147 einingar. Hver átta stunda vinnudagur ætti því að vera 4,6147% af vinnu­skyldunni og fyrir hann á að greiða 4,6147% af mánaðarlaununum.

                Út frá þessu viðmiði reiknar stefndi að dagur starfsmanns sem vinnur 70% starf sé (0,7 x 4,6%) 3,23 einingar. Þegar deilt er með 21,67 í 70 (70/21,67) fæst sama niður­staða.

                Séu greiddar 433.400 kr. í mánaðarlaun fyrir 100% starf fær starfsmaður í 70% starfi 303.380 kr. í mánaðarlaun. Laun hans eru reiknuð út frá 70 einingum. Hver ein­ing samsvarar því (303.380 kr./70) 4.334 kr. Sama fjárhæð fæst með því að deila 100 í 433.400 kr. sem eru, eins og áður segir, mánaðarlaunin fyrir 100% starf í dæminu.

                Hver eining samsvarar (8/4,6147) 1,7336 vinnustundum sem er 1/100 af vinnu­stunda­fjölda í meðaltalsmánuði sem er, eins og áður segir, 173,36 stundir.

                Hver eining í kerfi stefnda í þessu dæmi samsvarar því 4.334 krónum og 1,7336 vinnu­stundum. Endurgjaldið fyrir vinnustundina ætti því að vera (4.334 kr./1,7336) 2.500 kr. Sama tímagjald fæst þegar vinnustundafjölda í meðal­tals­mánuði er deilt í mánaðarlaun fyrir fulla vinnu (433.400 kr./173,36) 2.500 kr.

                Þegar unnar stundir og laun fyrir þær eru reiknuð í hundraðshlutum (prósentum) af vinnu­tíma eða af launum á ekki að skipta máli hvort hlutfall af 100 er reiknað út frá því hversu margar stundir starfsmaðurinn innti af hendi í þeim mánuði sem verkfallið stóð eða hvort hundraðs­hlutinn er reikn­aður út frá því hversu margar stundir hann felldi niður störf. Niður­staðan, hlutfallið, hundr­aðs­hlutinn, á í báðum til­vikum að vera sú sama, séu forsend­urnar fyrir útreikn­ing­num þær sömu.

                Sýni útreikningur að starfsmaðurinn hafi unnið 68% þeirra stunda sem hann átti að vinna þann mánuð á útreikningur með frádráttaraðferðinni að gefa þá niður­stöðu að hann hafi fellt niður störf 32% þess tíma sem hann átti samkvæmt ráðn­ingar­samn­ingi að inna af hendi fyrir vinnuveitandann.

                Ekkert er því til fyrirstöðu að reikna starfstíma og laun vaktavinnufólks út sem hlut­fall af 100 hvort sem það vinnur 100% starf eða lægra starfshlutfall.

 

Reglu greinar 1.1.2 beitt samkvæmt orðanna hljóðan við útreikning launa í verkfalli

                Dómurinn telur ekkert vafamál að samkvæmt grein 1.1.2 eigi að telja þá daga sem starfsmaðurinn, sem af einhverjum ástæðum vann ein­ungis hluta úr mán­uði, innti vinnu sína af hendi en ekki þá sem hann vann ekki. Séu allar forsendur eins ætti þó ekki að skipta máli hvort taldir eru fyrst þeir sem hann vann eða þeir sem hann vann ekki.

                Sá sem vann 8 stunda vinnudag hjá LSH í apríl 2015 og tók þátt í verk­fall­inu vann 1., 2., 3., 6., 10., 13., 17., 20., 24. og 27. apríl, 10 virka daga en var í verkfalli 12 daga.

                Séu mánaðarlaun hans 433.400 kr. og 21,67 deilt í þau samsvarar vinnu­dag­ur­inn 20.000 kr. Fyrir apríl fær hann því greiddar (10 d. x 20.000 kr.) 200.000 kr. en fer á mis við 233.400 af mán­að­ar­launum sínum.

                Sá sem vann 8 stunda vinnudag hjá LSH í maí 2015 og tók þátt í verk­fall­inu vann 1., 4., 8., 11., 15., 18., 22., 25., og 29. maí, alls 9 daga en var í verkfalli 12 daga. Hann fær því greiddar (9 d. x 20.000 kr.) 180.000 kr. en fer á mis við 253.400 kr. af mán­að­ar­launum sínum.

                Sá sem vann 8 stunda vinnudag hjá LSH í júní 2015 og tók þátt í verk­fall­inu vann 1., 5., 8., 12., 15.-19., 22.-26. og 29. og 30., alls 16 virka daga en var í verkfalli í 6 daga. Hann fær því greiddar (16 d. x 20.000 kr.) 320.000 kr. en fer á mis við 113.400 kr. af mánaðarlaunum sínum.

                Samandregið hefur því sá sem vann hjá LSH 8 stunda vinnudag í apríl, maí og júní 2015 átt að fá (3 x 433.400) 1.300.200 kr. samanlagt fyrir þá mánuði. Hann vann 35 virka daga en var í verkfalli 30 virka daga. Hann fékk því greiddar (35 x 20.000) 700.000 kr. en fór á mis við 600.200 sem þýðir að heildarlaun fyrir þá daga hefðu verið 20.007 kr. Þessar aukalegu 7 kr. á dag jafnast út í dagvinnulaun í öðrum mán­uðum ársins.

                Því verður ekki annað séð en að regla 1.1.2 í kjarasamningnum samrýmist vel þeirri meginreglu að sér­hver eigi að fá greitt fyrir allt vinnuframlag sitt.

                Dóminum sýnist reglan einnig gefa þá niðurstöðu að sérhver fái greitt fyrir allt vinnu­framlag sitt þótt fólk vinni í hlutastarfi, svo fram­ar­lega sem það hlutastarf er unnið frá mánudegi til föstudags, t.d. 50% vinna milli kl. 8.00 og 12.00 eða 75% vinna milli kl. 8.00 og 14.00. Vinnudagar þess fólks eru eftir sem áður 21,67 í meðal­tals­mán­uði.

                Sá sem vinnur í 75% starfshlutfalli, það er sex tíma, fimm daga vikunnar, fær þá (0,75 x 20.000 kr.) 15.000 kr. á dag en sá sem vinnur í 50% starfshlutfalli, það er fjóra tíma, fimm daga vikunnar fær 10.000 kr. á dag.

                Sem sagt: reglan í grein 1.1.2 í kjarasamningnum samrýmist þeirri meginreglu að sérhver fái greitt fyrir allt vinnu­fram­lag sitt, ef hann vinnur á virkum dögum og tekur frí um helgar, hvort sem hann vinnur allan daginn eða hluta úr degi.

                Ekki verður annað séð en taflan sem stefndi lagði til grundvallar frádrætti launa í þessu verkfalli samrýmist því að sá sem vann á virkum dögum og átti frí um helgar hafi fengið greidd laun fyrir allt vinnuframlag sitt hvort sem hann vann allan dag­inn eða hluta úr degi.

 

Meðaltalsmánuður þeirra sem vinna ekki alla virka daga

                Þegar vinna fólks fellur ekki inn í kerfið fimm dagar í vinnu, tveir dagar í frí verður reglunni í grein 1.1.2 ekki beitt samkvæmt orðanna hljóðan til þess að finna út hvað eigi að greiða fyrir hluta úr mánuði. Í það minnsta er ekki lengur hægt að miða við 21,67 daga í meðal­tals­mán­uðinum. Því efnislega inntaki hennar að greiða skuli fyrir allar unnar stundir þarf þó áfram að beita.

                Tökum dæmi af manni sem vinnur 80% starf, 32 klst. á viku, og fær að vinna það þannig að hann vinnur 8 tíma fjóra daga vikunnar, mánudaga, þriðjudaga, fimmtu­daga og föstu­daga en kemur ekki til vinnu á miðvikudögum.

                Miðvikudagurinn fellur þá í flokk með laugardögum og sunnudögum enda fær starfs­maðurinn ekki greitt fyrir þann dag. Því gengur ekki að deila meðaltals­mán­uði, 21,67, í launin hans því sá meðaltalsmánuður er miðaður við 260,04 virka daga sem gera rétt ríflega fimm (5,0008) virka daga í 52 vikur. Okkar maður vinnur 4 virka daga í 52 vikur og vinnur því aðeins 208 daga á ári. Í meðaltalsmánuðinum hans væru því (208/12) 17,33 vinnu­dagar sem eru 8 stunda langir.

                Mánaðarlaunin í starfi hans eru eins og áður 433.400 kr. Hann er í 80% vinnu og á því að fá greiddar (80% af 433.400) 346.720 kr. mánaðarlega. Meðaltalsmánuður hans er eins og áður segir 17,33 vinnudagar. Vinna hans í átta tíma á dag samsvarar því (346.720 kr. /17,33 d.) 20.003 kr. á dag. Ólíkt þeim sem vinnur 100% starf eru þrír launa­lausir dagar í vikunni hans, laugardagur, sunnudagur og miðvikudagur.

                Í apríl vann hann 2., 3., 6., 10., 13., 17., 20., 24. og 27., alls 9 daga. Hann var í verk­falli 7., 9., 14., 16., 21., 23., 28. og 30, alls 8 daga. Hann náði ekki að vinna fullan með­al­tals­mánuð vinnuskyldu sinnar enda er sá 17 dagar og einum þriðja betur (17,33). Miðað við vinnuskyldu hans í apríl, 17 daga, vann hann 52,94% vinnu­skyldu sinnar en felldi niður störf í 47,06% tímans. Miðað við þau fyrirmæli greinar 1.1.2 að telja eigi unna daga þegar reiknað er brot af mánaðarlaunum hefði hann átt að fá greiddar (9 x 20.000) 180.000 kr. en fer á mis við (346.720 – 180.000) 166.720 kr.

                Í maí vann hann 1., 4., 8., 11., 15., 18., 22., 25., og 29. maí, alls 9 daga. Hann var í verkfalli 5., 7., 12., 14., 19., 21., 26. og 28., alls 8 daga. Eins og í apríl náði hann ekki að vinna fullan meðaltalsmánuð vinnuskyldu sinnar. Hann vann 52,94% vinnu­skyldu en felldi niður störf í 47,06% tímans. Eins og í apríl hefði hann átt að fá greiddar 180.000 kr. en farið á mis við 166.720 kr.

                Í júní vann hann 1., 5., 8., 12., 15., 16., 18., 19., 22., 23., 25., 26. og 29. og 30., alls 14 virka daga. Hann var í verkfalli 2., 4., 9. og 11., alls 4 daga. Vinnuskylda hans í þeim mánuði var því 18 dagar. Hann vann því (14/0,18) 77,78% vinnuskyldunnar en felldi niður störf (4/0,18) 22,22%. Hann fær því greiddar (14 x 20.000) 280.000 kr. en fer á mis við (346.720-280.000) 66.720 kr.

                Samandregið hefur sá, sem vann 80% vinnu hjá LSH, í apríl, maí og júní og upp­fyllti vikulega vinnu­skyldu sína með fjórum 8 stunda vinnudögum, sem féllu á mánu­dag, þriðjudag, fimmtudag og föstudag, átt að inna af hendi (3 x 17,33) 52 vinnu­daga og fá greitt (3 x 346.720) 1.040.160 kr. samanlagt fyrir þá mánuði.

                Hann vann 32 daga (61,54%) en var í verkfalli í 20 daga (38,46%). Verk­falls­stund­irnar voru því alls (8 x 20) 160.

                Launin fyrir þessa þrjá mán­uði ættu því að vera (0,615% x 1.040.160 kr.) 639.698 kr. eigi hann að fá greitt fyrir hverja unna stund.

                Þessi hlutfallsaðferð við útreikning launa samræmist mjög því að nota aðferð greinar 1.1.2 aðlagaða að vinnufyrirkomulagi starfsmannsins þannig að meðal­tals­mán­uður í því vinnu­fyrirkomulagi er fundinn. Með þeirri aðferð hefði við­kom­andi átt að fá alls greiddar (180.000 + 180.000 + 280.000) 640.000 kr. fyrir mánuðina þrjá, sem gefur 300 kr. meira en hlut­falls­aðferðin.

                Samkvæmt aðferð stefnda við útreikning launa í verkfalli var það fólk, sem vann 80% vinnu, í verkfalli 44,30 ein­ingar af vinnutímanum í apríl og maí en 22,15 ein­ingar í júní, alls (44,30 + 44,30 + 22,15) 110,75 einingar. Hver eining samsvarar 1,7336 vinnustundum og því nemur frádrátturinn (110,75 x 1,7336) 192 vinnu­stundum, eða 32 stundum fleiri en reiknast til þegar lagður er til grundvallar meðal­tals­mán­uður starfs­manns­ins eða prósentu­reikn­ingur.

                Hver eining sam­svarar eins og áður 4.334 kr. og því nemur launa­frá­drátt­ur­inn alls (110,75 x 4.334 kr.) 479.990 kr. Mánaðarlaunin samtals fyrir mánuðina þrjá verða því samkvæmt eininga­aðferð stefnda (1.040.160 – 479.990) 560.170 kr. eða um 80.000 kr. lægri en sé dagatalning­ar­aðferð greinar 1.1.2 eða hlutfallsaðferð (prósenta) notuð.

                Við útreikning launa í verkfalli tekur stefndi ekki til­lit til þess hvort fólk sem vinnur 80% starf vinnur 6 tíma og 24 mínútur á dag í 5 daga og tekur frí um helgar eða vinnur 8 tíma í 4 daga og á 3 helgardaga. Hann notar aðferð sem er hugsuð fyrir þá sem vinna fimm virka daga en taka frí um helgar. Af þeim sökum fá þeir sem vinna 80% starf fimm daga vikunnar og taka frí um helgar greitt fyrir hverja unna stund sem þeir inna af hendi þá mánuði sem verkfall stendur. Hins vegar fá þeir sem vinna 80% starf með öðru fyrir­komu­lagi, t.d. með því að vinna 8 tíma 4 daga vik­unnar, ekki greitt fyrir allt vinnu­fram­lag sitt.

                Tökum enn dæmi af manni sem vinnur 40% starf, (0,4 x 40) 16 tíma á viku og fær að vinna það þannig að hann vinnur tvo daga vikunnar, mánudaga og föstudaga en kemur ekki til vinnu á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Þeir þrír dagar falla þá í flokk með laugardögum og sunnudögum því starfsmaðurinn fær ekki greitt fyrir þá. Frídagar hans eru því fimm. Miðað við að forsendan sé 260,04 virkir dagar á ári vinnur hann því (0,4 x 260,04 = 104,016) rétt rúm­lega 104 daga á ári sem samsvara 8,668 dögum á mánuði.

                Í apríl 2015 vann hann fjóra mánudaga og fjóra föstudaga, alls átta daga en felldi aldrei niður störf því hann átti ekki vinnuskyldu á boðuðum verkfallsdögum. Í maí vann hann fjóra mánudaga en fimm föstudaga, alls níu daga en felldi aldrei niður störf. Í júní vann hann fimm mánudaga og fjóra föstudaga, alls níu daga en felldi aldrei niður störf. Þessa þrjá mánuði vann hann því 26 daga sem er sú vinnuskylda sem á honum hvíldi (3 x 8,668 = 26,004) og átti því rétt á að fá greiddar (0,4 x 433.400 kr.) 173.360 kr. á mánuði eða (3 x 173.360 kr.) 520.080 kr. fyrir alla mánuð­ina þrjá.

                Samkvæmt aðferð stefnda var hann í verkfalli (0,4 x 55,38) 22,15 einingar af vinnu­tíma sínum í apríl og maí, en (0,4 x 27,69) 11,076 einingar í júní. Því dregur stefndi af launum hans (22,15 + 22,15 + 11,07) 55,37 einingar samtals þrátt fyrir að starfs­mann­inn hafi aldrei vantað í vinnu á þeim dögum sem hann var ráðinn til að inna sína vinnu af hendi. Þessar 55,37 einingar samsvara (55,37 x 4.334 kr.) 239.973 kr. Greidd laun samkvæmt aðferð stefnda fyrir alla mánuðina þrjá nema því (520.080 – 239.974) 280.106 kr.

                Samstarfsmaður þessa manns vinnur 40% starf, 16 tíma á viku og fær að vinna það þannig að hann vinnur á miðvikudögum og fimmtudögum. Eins og sam­starfs­maður hans, sem vinnur á mánudögum og föstudögum, er vinnuskylda hans á mánuði 8,668 dagar. Dagvinnulaun hans nema (173.36/8,668) 20.000 kr.

                Í apríl 2015 vann hann 1. og 2. apríl. Í maí vann hann ekkert en í júní vann hann 17. og 18. og 24. og 25. Þessa þrjá mánuði nam vinnuskylda hans fyrir vinnu­veit­and­ann 26 dögum. Þar af vann hann einungis sex en kom ekki til vinnu 20 daga vegna verkfalls. Hann vann því (6/0,26) 23,08% af vinnuskyldu sinni en felldi niður störf (20/0,26) 76,92% þess tíma sem vinnuveitandinn átti ella rétt til vinnu­fram­lags hans.

                Samkvæmt aðferð stefnda var hann í verkfalli 22,15 einingar af vinnu­tíma sínum í apríl og maí en 11,07 einingar í júní, alls 55,37 einingar. Því greiðir stefndi honum fyrir alla mánuðina þrjá 280.106 kr. þrátt fyrir að hann hafi í reynd einungis átt að fá (2 x 20.000 kr.) 40.000 kr. greiddar í apríl, ekkert í maí og (4 x 20.000 kr.) 80.000 kr. í júní, eða alls 120.000 kr. fyrir alla mánuðina þrjá.

                Í þessum tveimur síðastgreindu tilvikum leiðir aðferð stefnda til þess að annar fær ekki greitt fyrir vinnu sem hann innti af hendi í þágu vinnuveitanda síns en hinn fær laun þótt hann hafi ekki innt sína vinnuskyldu af hendi vegna verk­falls.

                Eins og áður segir stafar þessi niðurstaða stefnda af því að hann gengur í öllum til­vikum út frá með­al­tals­mánuði greinar 1.1.2, 21,67 dögum, þótt það sé ekki meðal­tals­mánuður þeirra sem vinna samkvæmt öðru vinnufyrirkomulagi, eins og t.d. því sem er lýst í dæm­unum. Þetta grundvallarviðmið stefnda veldur því einnig að meðal­dagur starfs­manns sem er í 40% starfi er ætíð (0,8 x 4,6147) 1,8459 einingar eða (1,8459 x 1,7336) 3,2 vinnu­stundir sem samsvara 3 tímum og 12 mínútum, þótt starfs­mað­ur­inn vinni í reynd 8 tíma á dag í 8,66 daga í meðaltalsmánuði.

                Árétta má að sá sem vinnur í þrjá tíma og 12 mínútur daglega, fimm daga vik­unnar og á frí um helgar, fær allt sitt vinnuframlag greitt ólíkt þeim sem vann alla mánu­daga og alla föstudaga en lagði aldrei niður störf. Sá sem vinnur 40% starf fimm daga í viku fær ekki heldur ofgreitt, ólíkt þeim sem vann einungis sex daga á þremur mán­uðum.

 

Störf stefnenda og útreikningur stefnda á launum þeirra í verkfalli

                Viðveruskýrslur stefnenda sýna að sumar þeirra vinna nánast ætíð 8 tíma vaktir en aðrar vinna mjög sveiflukennt, allt frá 4 tíma til ríflega 12 tíma langra vakta. Það auðveldar ekki heldur starf þess sem reiknar út laun stefnenda að sumar hafa unnið talsvert umfram vinnuskyldu sína á því tímabili sem er hér til skoðunar, svo sem Björg Pálsdóttir. Aðrar hafa unnið allnokkru minna en nemur vinnuskyldu þeirra. Hugs­an­lega unnu þær umfram vinnuskyldu í janúar, febrúar og mars. Í það minnsta verður að gera ráð fyrir að þessar sveiflur í vinnuframlagi jafnist út á lengra tímabili þannig að þegar árið er gert upp hafi allar innt alla vinnuskyldu sína af hendi.

                Vegna eðlis starfs stefnenda voru þær flestar kallaðar til, til að vinna nokkra af verk­falls­dögunum, í samræmi við heimild í 20. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opin­berra starfsmanna. Þar segir að þótt verkfall sé hafið sé heimilt að kalla starfs­menn, í verkfalli, tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðar­ást­andi.

                Þegar stefndi reiknaði laun stefnenda í verkfallinu dró hann fyrst af þeim laun í sam­ræmi við einingarnar í töflunni. Hann bætti síðan við einingum fyrir þá daga sem við­komandi starfsmaður vann í verkfallinu vegna undanþágu. Stefndi bætti einnig við greiðslum sem stefn­endur fengu frá vinnu­veit­anda sínum, Landspítala – Háskóla­sjúkra­húsi, og eru kallaðar forstjóra­færslur. Þær voru greiddar til þess að koma til móts við starfs­menn spítalans, sem sættu launa­frá­drætti vegna verkfallsins.

                Í þessu máli er tekist á um aðferð stefnda við að reikna út laun vakta­vinnu­manna í verkfalli. Að mati dómsins kemur því ekki til greina að taka með í þann reikn­ing þessar forstjórafærslur enda eru þær ekki hluti af því sem stefndi telur stefn­endur eiga að fá greitt á verkfallstíma. Stefndi áréttar í greinargerð sinni að frádráttur frá launum stefnenda eigi að vera sú fjárhæð sem hann reiknar út en ekki sú sem fæst þegar forstjóragreiðslunum er bætt við, en með þeim lækkar frádrátturinn.

                Framar er lýst því kerfi stefnda að reikna laun út frá einingum. Þegar starfs­maður vinnur 100% starf eru laun hans reiknuð út frá 100 einingum. Þegar starfs­maður vinnur 70% starf eru laun hans reiknuð út frá 70 einingum.

                Hver dagur í 21,67 daga meðaltalsmánuði verður (100/21,67) 4,6147 einingar. Út frá þessu viðmiði reiknar stefndi að dagur starfsmanns sem vinnur 70% starf sé (0,7 x 4,6) 3,23 einingar. Þegar deilt er með 21,67 í 70 fæst sama niðurstaða.

                Séu greiddar 539.293 kr. í mánaðarlaun fyrir 100% starf fær starfsmaður í 70% starfi 377.505 kr. í mánaðarlaun. Hver ein­ing samsvarar því (377.505 kr./70) 5.393 kr. Sama fjárhæð fæst með því að deila 100 í 539.293 kr. sem eru, eins og áður segir, mán­að­ar­launin fyrir 100% starf í dæminu.

                Hver eining samsvarar (8/4,6147) 1,7336 vinnustundum sem er 1/100 af vinnu­stunda­fjölda í meðaltalsmánuði sem er, eins og áður segir, 173,36 stundir.

 

Raunhæft dæmi af einum stefnanda

                Starfsmaður sem er í 70% starfi og vinnur alla daga vikunnar á, samkvæmt forsendum greinar 1.1.2, að vinna (0,7 x 8 tímar) 5,8 tíma á dag fimm daga vikunnar en vinnur ekki um helgar. Hann fær greitt fyrir vinnu sína fimm daga vikunnar en ekki fyrir helgar­fríið. Segja má að þá daga sé hann í „vaktafríi“.

                Starfsmaður sem er í 70% starfi í vaktavinnu en vinnur að jafnaði 8 tíma á dag á samkvæmt forsendum greinar 1.1.2 (0,7 x 21,67) að vinna 15,169 daga í meðaltals­mán­uði. Samkvæmt ráðn­ingar­samn­ingi um vaktavinnu á hann þó að vinna hvaða viku­dag sem vera kann, þar á meðal laugar- og sunnudaga. Hinir dag­ar mánaðarins eru allir helgardagar í vinnu­daga­tali hans hvaða vikudagar sem það kunna að vera því vinnu­veit­andinn gerir ekki ráð fyrir vinnu­fram­lagi starfs­manns­ins þá daga.

                Í ráðningarsamningi er starfshlutfallið ákveðið en í vaktaplani hvaða tíma sól­ar­hrings á hvaða vikudegi á að inna vinnuna af hendi. Það er vinnuveitandinn sem ræður vaktaplaninu, í sumum tilvikum, reyndar, að höfðu sam­ráði við starfsmanninn. Engu að síður ræður vinnuveitandinn því hvaða daga vik­unnar starfsmaðurinn innir vinnu­skyld­una af hendi og hvaða dagar vikunnar eru helgar­dagar hans. Þetta er skipu­lagt með allnokkrum fyrirvara.

                Þegar verkföllum er háttað eins og því sem er tilefni þessa máls ræðst það af þeim vöktum sem vinnuveitandinn hefur stillt upp hvort verkfallsdagarnir eru jafn­framt helgardagar, frídagar, hjá einhverjum starfsmönnum hans.

                Hann getur því ekki talið þá með verkfallsdögum, ekki frekar en hann gæti talið laugar- og sunnudaga með verkfallsdögum hjá starfsmanni sem innir sína skyldu af hendi frá mánudegi til föstudags.

                Stefnandi, Anna Jónína, vinnur í 70% starfshlutfalli. Séu vaktir hennar 8 tíma langar ber henni því að vinna af 260,04 virkum dögum á ári (0,7 x 260,04) 182,028 daga sem verða (182,028/12) 15,169 dagar í meðaltalsmánuði hennar. Það samsvarar 121,35 vinnu­stundum á mánuði.

                Á því tímabili sem er hér til skoðunar nam vinnuskylda hennar þó 112 stundum í apríl, 125 stundum í maí og 123 stundum í júní ((112 + 125 + 123)/3) eða 120 tímum að meðaltali á mánuði sem er einum tíma og 20 mínútum minna en í meðal­tals­mán­uði hennar. Þær vinnustundir sem vantaði upp á vinnustundafjölda meðal­tals­mán­aðar jafnast vænt­an­lega út í fleiri vinnustundum aðra mánuði árs­ins. Vinnu­stundirnar röð­uð­ust þannig á vikudagana að hún var eina vakt í verkfalli í apríl, þrjár í maí og tvær í júní, alls (8 + 24 + 16) 48 tíma.

                Þar eð mánaðarlaunin miðast við það vinnutímaframlag stefnanda sem vinnu­veit­andi hennar átti rétt til að meðaltali, og þar eð gera verður ráð fyrir að þeir tímar sem upp á vanti verði unnir í öðrum mánuðum ársins, telur dómurinn rétt að reikna verk­fall hennar út frá þeim vinnutíma, 121,35 tímum, en ekki þeim vinnutíma sem svo vildi til, vegna vakta­plans­ins, að hún innti af hendi á þessu tíma­bili. Þegar einungis fjöldi þeirra vinnutíma sem vinnuveitandinn á mánaðarlega tilkall til af hendi starfs­manns­ins er lagður til grundvallar útreikningi skiptir ekki máli hver var meðal­tals­mán­uður hvers og eins starfs­manns né heldur hversu langa vakt hann vann í hvert sinn.

                Með hlutfallsútreikningi námu verkfallsstundir stefnanda í apríl (8/1,2135) 6,59% af vinnu­skyldu hennar en vinnustundir 93,41%.

                Með aðferð stefnda var hún í verkfalli í 38,76 einingar af vinnutíma sínum. Þar eð stefn­andi vann fjóra verkfallsdaga vegna undanþágu lækkar stefndi verkfalls­frá­drátt­inn um 3,23 einingar fyrir hvern dag (4 x 3,23) 12,92 einingar og fær út að hún hafi verið í verkfalli 25,84 einingar af vinnu­tíma sínum. Það samsvarar (25,84 x 1,7336) 44,8 vinnustundum og (2584/70) 36,91% af launum stefn­anda.

                Með hlutfallsútreikningi lagði stefnandi niður störf (24/1,2135) 19,77% þess tíma í maí sem vinnuveitandinn átti rétt til vinnuframlags hennar og vinnu­stund­irnar námu því 80,23%.

                Með aðferð stefnda var hún í verkfalli 38,76 einingar af vinnutíma sínum. Þar eð hún vann þá í þrjá daga á undanþágu lækkar hann frádráttinn um (3 x 3,23) 9,69 ein­ingar og fær út að stefnandi hafi verið í verkfalli 29,07 einingar af vinnutíma sínum. Það samsvarar (29,07 x 1,7336) 50,4 vinnustundum og (2907/70) 41,53% af launum stefnanda.

                Með hlutfallsútreikningi nam verkfall stefnanda í júní (16/1,2135) 13,18% af vinnu­skyldu hennar en unnar stundir 86,82%.

                Með aðferð stefnda nam verkfall stefn­anda í júní 19,38 einingum af vinnutíma hennar. Í júní vann hún tvo daga á undanþágu og því lækkar hann frádráttinn um (2 x 3,23) 6,46 einingar og fær út að hún hafi verið 12,92 einingar í verkfalli. Það sam­svarar (12,92 x 1,7336) 22,4 vinnustundum og (1292/70) 18,46% af launum stefn­anda.

                Samkvæmt aðferð stefnda nam verkfall stefnanda (25,84 + 29,07 + 12,92) 67,83 ein­ingum. Það samsvarar (67,83 x 1,7336) 117,6 vinnustundum og (67,83 x 5.393 kr.) 365.807 kr.

                Hana vantaði til vinnu 48 stundir af þeim (3 x 121,35) 364,05 vinnustundum sem henni bar að vinna þessa þrjá mánuði samanlagt. Verkfall stefnanda nam því 13,81% af þeim tíma sem vinnuveitandi hennar átti tilkall til yfir allt tímabilið, en 48 stundir samsvara 27,68 einingum. Með aðferð stefnda á þó einungis að reikna henni laun eins og hún hefði verið í verkfalli í 117,6 vinnustundir og draga af launum hennar sam­tals 67,83 ein­ingar.

                Segja má að með þessari aðferð geri stefndi ráð fyrir því að umsam­inn vinnu­tími stefn­anda mánaðarlega sé (117,6-48) 69,6 tímum lengri en stefndi á í reynd tilkall til. Það samsvarar nánast 9 vinnudögum.

                Þetta er sambærilegt því að stefnandi teldi helgardagana með þegar hann reiknar frádrátt frá launum þeirra sem vinna virka daga og eiga frí um helgar. Það er hreint ekki samkvæmt fyrirmælum greinar 1.1.2. Samkvæmt fyrir­mælum hennar á að telja þá daga, þær stundir sem eru unnar en undanskilja helg­ar­dag­ana (launalausu dag­ana) og þá daga, þær stundir sem eru ekki unnar en eru hluti af vinnu­skyldunni.

                Reikna má laun stefnanda, Önnu Jónínu, út í anda greinar 1.1.2 í kjara­samn­ing­num þannig að verð­mæti vinnuframlags hennar sé fundið.

                Í apríl vann hún 93,41% af vinnuskyldunni fyrir þann mánuð. Hún var ráðin í 70% starf og því voru mánað­ar­laun hennar að jafnaði (0,7 x 539.293) 377.505 kr. Miðað við það hlutfall af vinnu­skyldunni sem hún innti af hendi í apríl hefði hún átt að fá greiddar (93,41 x 377.505 kr.) 352.627 kr.

                Í maí vann stefnandi 80,23% af vinnuskyldunni fyrir þann mánuð. Miðað við það hlutfall hefði hún átt að fá greiddar fyrir maí (0,8023 x 377.505 kr.) 302.872 kr.

                Í júní vann stefnandi 86,82% af vinnuskyldunni og hefði samkvæmt því átt að fá greiddar (0,8682 x 377.505) 327.750 kr.

 

Frádráttaraðferð stefnenda

                Málsaðilar beita báðir frádráttarnálgun þegar þeir reikna út hvaða laun eigi að greiða starfsmanni sem er í verkfalli hluta úr mánuði. Frádráttaraðferð stefnda sem byggir á einingum hefur verið lýst. Fram er komið að þegar starfs­maður innir vinnu­skyldu sína ekki af hendi fimm daga í viku og á frí um helgar leiðir aðferð stefnda til þess að starfsmaðurinn fær ekki greitt fyrir alla þá vinnu sem hann hefur innt af hendi því meira er dregið af launum hans en nemur þeim stundum sem hann vann ekki en vinnu­veitandi hans átti tilkall til, hefði stétt­ar­félag stefnenda ekki boðað verk­fall.

                Á sama hátt hefur stefndi bent á að þegar aðferð stefnenda er beitt og dregið frá launum þeirra með því að margfalda þá tíma sem þær felldu niður störf vegna verk­falls með tímakaupi geti frádrátturinn numið hærri fjár­hæð en mánaðarlaunin sé vakta­planið þannig að allar vaktir starfsmannsins raðist á verk­falls­daga.

                Samkvæmt grein 1.1.2 í kjarasamningnum er meðalmánuðurinn 21,67 dagar og hver vinnudagur 8 stundir. Sam­kvæmt þessum forsendum er gert ráð fyrir að hver starfs­maður sem vinnur 100% vinnu vinni 260,04 daga á ári og að mán­að­ar­leg vinnu­skylda hvers starfs­manns nemi 173,36 vinnustundum.

                Grein 1.4.1 í kjarasamningnum fjallar um útreikning tímakaups. Þar segir að tíma­vinnu­kaup í dagvinnu sé 0,615% af mánaðarlaunum starfsmanna skv. grein 1.2.1 og 1.2.2. Þegar reiknað er út tímakaup í grein 1.4.1 er gengið út frá 162,6016 vinnu­stundum í mánuði (0,615 x 162,6016 = 100). Grein 1.4.1 gefur því hærra tímakaup en sé það reiknað með forsendum greinar 1.1.2, þ.e. út frá 173,36 vinnustundum. Væru þær not­aðar ætti að annaðhvort margfalda mánaðarlaunin með (100 / 173,36) 0,5768 til þess að fá tíma­kaupið eða einfaldlega deila vinnustundum heils mánaðar í laun heils mán­aðar.

                Þar eð stefnendur draga frá launum sínum vegna verkfalls samkvæmt reikni­reglu í grein 1.4.1 draga þær hlutfallslega hærra tímakaup frá en samsvarar því tíma­kaupi sem þær fá greitt.

                Aftur má taka dæmi af stefnandanum Önnu Jónínu. Þegar hún reiknar dóm­kröfu sína styðst hún við grein 1.4.1 og fær út tímakaupið (0,615 x 539.293) 3.317 kr. Önnur aðferðin sem áður var nefnd (0,5768 x 539.293) gefur tímakaupið 3.110,6 kr. en hin (539.293/173,36) gefur tímakaupið 3.110,8. Hér verður því miðað við 3.110,7 kr.

                Samkvæmt aðferð stefnenda og réttu tímakaupi hefði átt að draga frá Önnu Jónínu (8 x 3.110,7) 24.885 í apríl, (24 x 3.110,7) 74.657 kr. í maí og (16 x 3.110,7) 49.771 kr. í júní, alls 149.313 kr. Hún telur hins vegar að frádrátturinn hefði átt að vera alls (48 x 3.317) 159.199 kr., nánast 10.000 kr. hærri en hann ætti með réttu að vera.

                Þar eð stefnendur leggja hærra endurgjald fyrir vinnustundina til grundvallar útreikningi frádráttarins samræmist hann því ekki heldur fyllilega þeirri megin­reglu að sér­hver eigi að fá greitt fyrir alla þá vinnu sem hann innir af hendi.

                Í gagnrýni sinni á útreikning stefnenda leggur stefndi til grundvallar allar stundir sem stefnendur unnu á því tímabili sem boðað verkfall stóð án þess að líta til þess að vinnuframlag þeirra er sveiflukennt frá mánuði til mánaðar og suma mánuðina unnu nokkrar þeirra langt umfram þann vinnustundafjölda sem þeim bar að inna af hendi að jafnaði. Af þeim sökum fær hann þá útkomu að væri frádráttaraðferð stefn­enda beitt yrði dregið meira af þeim en næmi mánaðarlaunum þeirra, ef svo vildi til að allar vaktir lentu á verkfallsdögum. Sú niðurstaða stefnda stenst þó ekki því ekki má við frádrátt frá launum leggja til grundvallar fleiri stundir en þær sem lagðar eru til grund­vallar mán­að­ar­launum, það er þann fjölda stunda sem vinnuveitandinn á rétt til að starfsmaðurinn inni af hendi að meðaltali.

 

Dreifibréf nr. 6/2001

                Stefndi mótmælir því ekki að stefnendur hafi innt af hendi vinnu í apríl, maí og júní 2015 sem þær hafi ekki fengið greitt fyrir. Rök hans verða þó ekki skilin á annan hátt en þann að það réttlætist af grein 1.1.2 í kjarasamningi stéttarfélags þeirra við stefnda því á þeirri grein byggist frá­drátt­ar­aðferð hans. Stefndi kallar grein 1.1.2 reyndar frádráttarreglu.

                Dómurinn getur ekki fallist á skilning stefnda á efni greinar 1.1.2. Reglan er ekki frádráttarregla. Hún fjallar ekki um það hvernig eigi að draga af launum starfs­manns sem vinnur brot úr mánuði. Þvert á móti segir hún að reikna eigi út hversu háa fjár­hæð beri að greiða starfs­mann­inum fyrir hvern dag, daglaun hans. Þá fjárhæð á að marg­falda með þeim dögum sem hann vann og greiða honum samkvæmt því.

                Allur launakafli kjarasamningsins snýst um það hvernig á að greiða fyrir unnar stundir en ekki um það hvernig á að draga frá fyrir þær sem ekki eru unnar, en vinnu­veit­and­inn á samkvæmt ráðningarsamningi tilkall til.

                Það er efnislegt inntak greinar 1.1.2 að útreikningur launa tryggi að sérhver starfs­maður fái greitt fyrir allt vinnuframlag sitt. Hefði stefndi beitt grein 1.1.2 sam­kvæmt efnis­legu inntaki hennar hefði útreikn­ingur hans ekki gefið honum þá útkomu að honum væri ekki skylt að greiða stefn­endum fyrir allt vinnu­fram­lag þeirra á því tíma­bili sem verkfallið stóð.

                Frádráttaraðferð stefnda við að reikna út laun í verkfalli virðist byggja á dreifi­bréfi starfs­mannaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins nr. 6/2001. Þar er stuðst við orðalag greinar 1.1.2 þó þannig að þar segir:

Meginreglan er sú að laun falla niður í verkfalli.

Í þeim mánuði sem verkfall hefst eða því lýkur, reiknast fastar launa- og kostnaðar­greiðslur fyrir þann tíma sem unninn er þannig, að deilt er með 21,67 í mánaðar­launin og margfaldað með fjölda almanaksdaga annarra en laugardaga og sunnu­daga frá upp­hafi eða til loka starfs­tíma, sbr. gr. 1.1.2 eða 1.1.3 í kjarasamningum ríkis­starfs­manna. Þessi regla er óháð því hvort viðkomandi starfsmaður eigi vinnu­skyldu eða ekki, það dregst jafnt af launum allra starfsmanna félagsins. ...

                Dómurinn fellst á það með stefnendum að þetta dreifibréf sé ekki réttar­heim­ild. Hins vegar er fylli­lega mögulegt að beita frádráttarnálgun við útreikning á launum vakta­vinnufólks í verk­falli sé það gert á réttum forsendum eins og áður segir.

 

Félagsleg (kollektív) aðgerð

                Helsta röksemd stefnda fyrir þeirri frádráttaraðferð sem hann beitir er að verk­fall sé félagsleg (kollektív) aðgerð stéttarfélagsins. Því verði að líta svo á að allir félags­menn hafi lagt niður vinnu hlutfallslega jafnlengi burtséð frá því hvort vinnu­skylda þeirra rað­að­ist á þá verkfallsdaga sem voru boðaðir eða ekki. Þetta hlutfall beri að draga frá mánaðarlaunum þeirra.

                Það er alveg rétt að aðgerðin er félagsleg því henni er ætlað að ná því félags­lega mark­miði að hækka laun félagsmanna. Hún er einnig félagsleg vegna þess að meiri­hluti félagsmanna getur þvingað þá, sem eru hugsanlega ekki hlynntir verk­falli, til að taka þátt í því.

                Verkfall raskar hins vegar ekki ráðningarsambandinu milli ein­stakra launa­manna og vinnuveitenda þeirra. Verkfall getur því ekki haft þau áhrif á réttarsamband launa­manns og vinnu­veit­anda að vinnuveitandinn þurfi ekki að greiða laun fyrir alla þá vinnu sem launa­mað­ur­inn innir af hendi á dögum sem eru ekki verkfallsdagar. Með því að koma til vinnu og sinna vinnu þá daga sem hefur ekki verið boðað verkfall hlýðir starfs­maðurinn lög­legum fyrir­mælum vinnuveitanda síns enda á starfs­mað­ur­inn hættu á að verða rekinn úr starfi sinni hann ekki þeirri vinnu sem hann er ráðinn til án lög­mætra forfalla.

 

Hvenær er maður í verkfalli og hvenær er maður ekki í verkfalli?

                Það er ekkert vafamál að verkfallið tók til allra félagsmanna Ljós­mæðra­félags­ins og tók til allra stefnenda.

                Það er hins vegar ekki verkfall ef starfsmaður kemur ekki til vinnu sinnar af þeirri ástæðu að hann átti yfir­höfuð ekki að vera í vinnu þann dag þótt sá dagur sé einn af þeim sem boðað var að verkfall yrði. Á vinnudagatali hans sam­svarar þessi dagur helg­ar­degi hjá þeim sem vinna á virkum dögum og eiga frí um helgar.

                Aðrir vakta­vinnu­menn kunna að hafa átt að vera í vinnu þennan dag og það er þá verk­fall hjá þeim ef þeir inna vinnu sína ekki af hendi þá.

                Vegna aðferðar sinnar telur stefndi hins vegar til verkfallsdaga stefnenda daga sem þeim bar yfir­höfuð ekki að inna neina vinnuskyldu af hendi fyrir hann.

                Að mati dómsins geta til verkfalls einvörðungu talist þær vinnustundir sem starfs­maðurinn vann ekki en launagreiðandinn átti ella tilkall til. Eins og sýnt hefur verið fram á er vitaskuld hægt að reikna þessar vinnu­stundir sem tiltekið hlutfall tíma­bils, svo sem meðaltals­mán­aðar eða sem hlutfall af mánaðarlegri vinnuskyldu. Hins vegar verður ekki reiknað út hvaða hlutfall það er í meðaltalsmánuði eins starfs­manns og það hlutfall síðan notað til frádráttar launum í meðaltalsmánuði ann­ars, séu þeir með­al­tals­mánuðir ekki jafnlangir eða lendi frí­dag­arnir (launalausu dagarnir) í sumum til­vikum á laugardegi og sunnudegi og í öðrum tilvikum á boðuðum verk­falls­dögum. Eigi eitt yfir alla að ganga verða forsend­urnar að vera þær sömu.

                Því gengur ekki heldur að stefndi telji unninn dag þess starfsmanns sem sinnir 70% starfi með því að vinna 8 tíma 15,169 daga í meðaltalsmánuði, jafngilda 3,23 ein­ingum eða (3,23 x 1,7336) 5,60 tímum, þ.e. 5 tímum og 36 mínútum. Þegar stefndi greiðir stefnanda, Önnu Jónínu, fyrir 8 tíma vaktir sem eru unnar á grundvelli undan­þágu 20. gr. laga nr. 94/1986 greiðir hann fjárhæð sem samsvarar launum fyrir 5 tíma og 36 mínútur en telur rétt að starfs­maður­inn vinni 2 tíma og 24 mínútur endur­gjalds­laust. Þessum launa­út­reikn­ingi er beitt þótt vinna starfs­manns­ins þessar 8 stundir grund­vall­ist á lög­boð­inni undanþágu frá verk­falli.

 

Jafn frádráttur óháður vinnuskyldu

                Eins og margoft er komið fram reiknar stefndi laun í verkfalli þannig að hann dregur frá öllum sama hlutfall vinnu­stunda burtséð frá vinnufyrirkomulagi starfs­manna, svo sem hvort þeir áttu að inna vinnu sína af hendi á verkfallsdegi eða ekki. Þetta getur valdið þeirri mismunun sem áður var rakin að sumir fá greitt fyrir stundir sem þeir unnu ekki en aðrir fá ekki að fullu greitt fyrir þá vinnu sem þeir inntu af hendi.

                Stefndi byggir á því að þessi aðferð við að draga frá launum vegna verk­falls grund­vall­ist á jafn­ræðis­reglunni. Í greinargerð sinni virðist hann fyrst og fremst vísa til þess að hann hann telji sann­gjarn­ast og réttlátast að jafna launa­greiðslur inn­byrðis milli vaktavinnufólks í verk­falli, vegna þess að lotuverkfall geti bitnað misjafnt á þeim.

                Hann virðist mestmegnis líta framhjá þeim ójöfnuði, sem reikniregla hans veldur og er grund­völlur þessa máls, að staða þeirra sem fá ekki greitt fyrir allt vinnu­fram­lag sitt í verk­falli, vakta­vinnu­fólks, er ekki jöfn stöðu þeirra sem fá greitt fyrir sér­hverja stund sem þeir vinna á verkfallstímabilinu, þ.e. þeirra sem vinna hefð­bundna vinnu­viku en eiga frí um helgar.

                Fyrir þessum ójöfnuði hefur hann strangt til tekið ekki fær önnur rök en þau að verk­fall sé félagsleg (kollektív) aðgerð og að dreifibréf nr. 6/2001 mæli fyrir um jafnan frádrátt af öllum.

                Fyrir vinnu sem hefur verið innt af hendi ber vinnuveitandanum að greiða starfs­mann­inum laun. Þetta er grundvallarregla vinnuréttar og helsta skylda vinnu­veit­and­ans í réttarsambandi hans og starfsmannsins, ráðningarsambandinu. Henni verður ekki haggað, jafnvel ekki með verkfalli. Með því að greiða ekki fyrir vinnu sem hefur verið innt af hendi brýtur vinnuveitandinn gegn þessari frumskyldu sinni gagnvart starfs­mann­inum.

                Eins og áður segir telur dómurinn dreifibréf nr. 6/2001 ekki réttarheimild. Setn­ingin í dreifibréfinu „þessi regla er óháð því hvort viðkomandi starfsmaður eigi vinnu­skyldu eða ekki, það dregst jafnt af launum allra starfsmanna félagsins“ kann að eiga sér stoð í réttarheimild þótt sú hafi ekki verið lögð fram. Engu að síður er það mat dóms­ins að þessi setning geti ekki átt við annað starfsfólk en það sem á rétt á laun­uðu veik­inda­leyfi eða launuðu orlofi á boð­uðum verkfallstíma. Vitaskuld verður jafn­framt að skilja hana þannig að það drag­ist hlutfallslega jafnt af öllum.

                Stefnandinn Brynja Pála, sem vinnur í 80% starfshlutfalli, var í orlofi frá 25. maí til 26. júní. Á þeim tíma gilti því ekkert vaktaplan fyrir vinnuframlag hennar. Þess í stað er vinnuskylda hennar skráð í við­veru­kerfinu 6 tímar og 24 mínútur sér­hvern virkan dag þessar fimm vikur. Það sam­svarar 80% af 8 tíma dag­vinnu, 6,40 vinnu­stundum.

                Hún er jafnframt skráð í verkfalli mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga síð­ustu viku í maí og fyrstu tvær vikur í júní, en þá lauk verkfallinu. Þannig voru dregin af henni laun í hlutfalli við verk­fallið þótt henni bæri ekki að inna neina vinnu af hendi.

                Þessi færsla í viðverukerfið sýnir hvenær og hvernig á að beita þeim fyrir­mælum að jafnt eigi að draga frá launum starfsmanna hvort sem þeir eiga vinnu­skyldu eða ekki, þ.e.a.s. á þeim tímabilum þegar þeir taka laun en eiga ekki að koma á vaktir.

                Að mati dómsins er ekki mögulegt að túlka tilvitnaða setningu í dreifibréfinu eins og stefndi gerir. Sú túlkun, að draga eigi af fólki laun fyrir vinnu sem það hefur innt af hendi, verður í það minnsta ekki dregin af grein 1.1.2 í kjarasamningnum en það er sú réttar­heim­ild sem stefndi segist byggja á. Efnislegt inntak hennar er ótvírætt það að sérhver fái allt vinnuframlag sitt að fullu greitt.

                Stefnendur fá vaktaskipulag sitt með fyrirvara og þær vissu, þegar þær kusu þessa útgáfu af lotuverkfalli, að vaktir sumra félagsmanna myndu lenda oftar á verk­falls­dögum en vaktir annarra. Í slíkum tilvikum er það ekki hlutverk vinnuveitandans að draga af launum þeirra sem áttu vaktir utan verkfallsdaganna til þess að laun þeirra verði jafnari launum hinna, sem áttu vaktir á verkfallsdögunum en gátu ekki unnið þær vegna verkfallsins. Vilji stéttarfélagið, Ljós­mæðra­félagið, bæta þeim félags­mönnum sínum sem áttu oftar vakt á verkfalls­dögum en aðrir, getur það bætt þeim það með greiðslum úr verkfallssjóði.

                Vinnuveitandi sem segist byggja útreikning launa á jafnræðisreglunni hlýtur jafn­framt að beita henni þannig að allir starfsmenn hans fái greitt fyrir allt vinnu­fram­lag sitt en ekki einvörðungu þeir sem vinna fimm daga vikunnar en eiga frí um helgar. Honum ber að rækja þá grundvallarskyldu sína, að greiða fyrir unnin störf, við alla starfs­menn sína jafnt. Sú skylda hvílir jafnt á honum í verkfalli sem á öðrum tímum.

                Stefndi getur því ekki vísað til jafnræðisreglu til stuðnings því að draga meira af launum sums vaktavinnufólks en samsvarar þeim stundum sem það felldi niður störf til þess að verkfallið bitni ekki ójafnt á vaktavinnufólki í verkfalli.

                Hann getur ekki heldur réttlætt með jafnræðisreglunni þá mismunun að það fólk sem vinnur fimm virka daga og á frí um helgar fái allt vinnuframlag sitt í verkfalli greitt en vakta­vinnu­fólk beri á sama tíma skarðan hlut frá borði.

 

Samandregið

                Það er því niðurstaða dómsins að regla 1.1.2 í kjarasamningi stéttarfélags stefn­enda og stefnda samræmist vel þeirri meginreglu vinnuréttar að sérhver starfs­maður eigi að fá greitt fyrir allt vinnu­fram­lag sitt sé berum orðum hennar fylgt og taldir þeir dagar sem starfsmaðurinn sem um ræðir vinnur 21,67 daga í meðaltals­mán­uði.

                Þegar fyrirkomulag vinnu starfsmannsins er annað en regla 1.1.2 gengur út frá er ekki hægt að beita henni samkvæmt berum orðum sínum. Hins vegar verður að beita þeirri efnisreglu sem í henni býr, að greiða skuli sérhverjum starfsmanni fyrir allar unnar stundir.

                Þótt starfsmaður vinni ýmist 12, 9, 8, 6, 5, 4 tíma vaktir á þó sérhver vakta­vinnu­maður, sem vinnur í tilteknu starfshlutfalli, að inna sama tímafjölda af hendi í hverjum meðaltals­mán­uði rétt eins og sá sem vinnur tiltekið hlutfall af virkum degi. Á þessari einföldu grundvallarforsendu má byggja útreikning á því hversu hátt hlutfall vinnu­skyldu sinnar starfsmaðurinn innti af hendi á verkfallstímanum og reikna honum laun í samræmi við það.

                Við útreikning launa í verkfalli tekur stefndi hins vegar forsendur sem eiga ein­vörðungu við um þá sem vinna á virkum dögum og beitir þeim einnig þegar hann dregur frá launum þeirra sem vinna vaktavinnu þótt þær forsendur eigi ekki endi­lega við um þá. Hann horfir t.d. fram hjá því hvort vinnu­skylda þeirra sé á verk­falls­degi eða ekki. Í hefðbundinni vinnuviku er vinnu­skyldan ætíð á verk­falls­degi. Vakta­vinnu­fólk getur hins vegar átt frí á boðuðum verk­falls­degi. Það fólk er þá ekki í verk­falli á þeim degi, ekki frekar en „vinnuvikufólk“ er í verkfalli um helgar.

                Stefnendur fengu ekki greitt fyrir alla þá vinnu sem þær inntu af hendi í apríl, maí og júní 2015. Engu að síður telur stefndi sig hafa beitt réttri aðferð við að reikna út laun þeirra og styður þá skoðun sína nokkrum réttarheimildum.

                Dómurinn telur honum þó ekkert hald í þeim. Í fyrsta lagi samrýmist það ekki efnis­legu inntaki greinar 1.1.2 að starfsmaður fái ekki greitt fyrir alla þá vinnu sem hann hefur innt af hendi.

                Dómurinn fellst einnig á að dreifibréf stefnda nr. 6/2001 sé ekki réttarheimild. Þótt þau fyrir­mæli að draga eigi af öllum jafnt, hvort sem þeir eiga vinnuskyldu eða ekki, ættu stoð í réttarheimild verða þau ekki skilin á annan hátt en þann að þau taki ein­vörðungu til þess starfsfólks sem á rétt á launum þótt það eigi ekki að koma á vaktir, svo sem fólks sem á rétt á laun­uðu veik­inda­leyfi eða launuðu orlofi á boð­uðum verk­falls­tíma.

                Í þriðja lagi fær það fólk, sem innir vinnu sína af hendi samkvæmt forsendum greinar 1.1.2, alla virka daga vikunnar og á frí um helgar, greidd laun fyrir alla þá vinnu sem það innir af hendi hvort sem það er í verkfalli eða ekki og burtséð frá því hvert starfs­hlut­fall þess er. Þó er verkfall þess fólks félagsleg (kollektív) aðgerð.

                Þegar vaktavinnufólk er í verkfalli verður því ekki vikið frá þeirri meginreglu vinnu­réttar að það fái greitt fyrir alla þá vinnu sem það hefur innt af hendi með þeim rökum að verkfallið sé félagsleg (kollektív) aðgerð.

                Fólk sem vinnur virka daga en á frí um helgar þarf ekki að sæta því að stefndi beiti, þegar hann reiknar út laun þeirra í verkfalli, jafnræðisreglu á þann hátt að sumir fái ekki greitt fyrir vinnu sem þeir inntu af hendi en hugsanlega fái aðrir greitt fyrir stundir sem þeir unnu ekki. Það fær laun fyrir unnar stundir, hvorki of né van.

                Frávik frá þeirri meginreglu að sérhver fái greitt fyrir allt vinnuframlag sitt verður því í tilviki vaktavinnufólks ekki heldur réttlætt með tilvísun til jafnræðisreglu.

                Eins og fyrir fólkið sem vinnur virka daga og á frí um helgar verður að reikna verk­fallið, þann tíma sem vaktavinnufólk leggur niður störf, og laun fyrir unna vinnu út þannig að tillit sé tekið til þess vinnufyrirkomulags sem það starfar eftir. Störfin hafa verið unninn, vinnu­tím­arnir inntir af hendi og fyrir það á að greiða laun.

                Það er óumdeilt að stefndi greiddi stefnendum ekki full laun fyrir vinnu þeirra í apríl, maí og júní 2015. Þegar þær reikna út þá fjárhæð, sem þær telja vangoldna, telja þær með forstjóragreiðslurnar, sem þeim voru greiddar án samþykkis stefnda. Vegna þess tímakaups, sem þær styðj­ast við þegar þær finna út fjárhæðina sem upp á vantar, verður launa­krafa þeirra heldur lægri en þær ættu rétt á ef þær reiknuðu tíma­gjald sitt út frá réttum forsendum.

                Þær fjárhæðir sem stefnendur krefjast eru lægri en þær eiga með réttu tilkall til. Því verður fallist á dómkröfur þeirra eins og þær eru settar fram.

                Þar eð fallist hefur verið á fjárkröfur stefnenda verður, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að dæma stefnda til þess að greiða þeim máls­kostnað. Sam­kvæmt 2. mgr. 132. gr. laganna ber að dæma hverri fyrir sig málskostnað úr hendi hans. Þegar litið er til umfangs málsins þykir málflutningsþóknun hvers stefnanda um sig, að teknu til­liti til virðis­auka­skatts, hæfilega ákveðin 250.000 krónur.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

                Stefndi, íslenska ríkið, greiði Önnu Jónínu Eðvaldsdóttur, 161.734 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 130.239 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 207.412 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og af 161.734 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndi greiði Björgu Pálsdóttur, 319.679 kr. ásamt dráttar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 142.810 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 270.754 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og af 319.679 kr. frá þeim degi til greiðslu­dags.

                Stefndi greiði Brynju Pálu Helgadóttur, 40.643 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 105.549 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 108.046 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og af 40.643 kr. frá þeim degi til greiðslu­dags.

                Stefndi greiði Kristínu Svölu Jónsdóttur 73.369 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 17.672 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015 og af 73.369 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndi greiði Sigrúnu Ingvarsdóttur 188.369 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 93.533 kr. frá 1. júní 2015 til 1. júlí 2015, af 160.890 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og af 188.369 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndi greiði hverjum stefnanda um sig 250.000 kr. í málskostnað.