Print

Mál nr. 1/2021

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Haukur Gunnarsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Sigurður Jónsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísunarúrskurður Landsréttar staðfestur
  • Nálgunarbann
Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar um frávísun frá dómi þar sem kæran fullnægði ekki áskilnaði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að þar sem úrskurður um nálgunarbann á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili fæli í sér endanlega ákvörðun um íþyngjandi ráðstöfun gagnvart einstaklingi en væri ekki þáttur í rannsókn sakamáls væri hann kæranlegur til Hæstaréttar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2021, sem barst réttinum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 5. janúar 2021, þar sem kæru varnaraðila var vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr. 40. gr. laga nr. 76/2019 og 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þann veg að lagt verði fyrir Landsrétt að kveða upp efnislegan úrskurð í málinu. Þá krefst hann þóknunar til handa verjanda sínum.

          Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011, eins og henni var breytt með lögum nr. 76/2019, má kæra til Landsréttar úrskurð dómara um hvort lagt verði á nálgunarbann, svo og úrskurð sem gengur í máli um slíka kröfu, ef hann getur sætt kæru eftir almennum reglum 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 211. gr. laganna verða ekki kærðir til Hæstaréttar. Samkvæmt a-lið þeirrar málsgreinar er unnt að kæra frávísun máls frá Landsrétti til Hæstaréttar. Þessa kæruheimild verður að skýra með þeim hætti að hún taki almennt aðeins til endanlegra úrskurða um frávísun mála sem höfðuð hafa verið með ákæru en ekki til úrskurða Landsréttar um frávísun kæru vegna rannsóknarúrskurða eða úrskurða um réttarfarsatriði. Þar sem úrskurður um nálgunarbann á grundvelli laga nr. 85/2011 felur í sér endanlega ákvörðun um íþyngjandi ráðstöfun gagnvart einstaklingi en er ekki þáttur í rannsókn sakamáls er úrskurður Landsréttar um frávísun í slíku máli kæranlegur til Hæstaréttar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði lýsti verjandi varnaraðila því yfir í tölvupósti 31. desember 2020 til héraðsdómara, eftir að hann hafði móttekið úrskurð um nálgunarbann, að úrskurðurinn yrði kærður til Landsréttar.

Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um hvað greina skuli í skriflegri kæru til Landsréttar ef kæru á úrskurði er ekki lýst yfir í þinghaldi. Þar segir að greint skuli frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra sé reist á. Í umræddri yfirlýsingu verjandans er ekki með beinum hætti lýst yfir að úrskurðurinn sé kærður og í engu vikið að því hvaða kröfur séu gerðar um breytingu á honum eða ástæðum kæru. Umrædd yfirlýsing fullnægði þannig ekki þeim kröfum sem gerðar eru til kæru til Landsréttar þegar kæru á úrskurði er ekki lýst yfir í þinghaldi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.    

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Sigurðar Jónssonar lögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.