Print

Mál nr. 345/2016

Guðmundur R. Guðlaugsson (Einar Gautur Steingrímsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.)
og gagnsök
Lykilorð
 • Skaðabætur
 • Miski
 • Gæsluvarðhald
 • Handtaka
 • Húsleit
 • Símahlerun
 • Meðalhóf
 • Vanvirðandi meðferð
 • Stjórnarskrá
 • Lögvarðir hagsmunir
 • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun
Í málinu krafðist G bóta úr hendi Í, annars vegar á grundvelli hinnar hlutlægu bótareglu 2. mgr., sbr. 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vegna rannsóknaraðgerða sem hann taldi sig hafa sætt að ósekju í tengslum við rannsókn lögreglu á stórfelldum fíkniefnaviðskiptum og hins vegar samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á grundvelli sakarreglunnar vegna háttsemi lögreglu við rannsókn á ætluðu broti hans. Þá krafðist G viðurkenningar á bótaskyldu Í vegna atvinnumissis sem hann taldi að leiða mætti af rannsókn lögreglu. Með hliðsjón af atvikum málsins var talið að G ætti rétt til miskabóta úr hendi Í vegna fjölda þvingunarráðstafana sem hefðu beinst að honum að ósekju við rannsókn málsins, þar á meðal að hlustað hefði verið á símtöl hans og þau tekin upp á nánar tilgreindu tímabili, að hann hefði sætt gæsluvarðhaldi og einangrun mun lengur en efni hefðu staðið til og að lögreglu hefði skort heimild að lögum til að leita í bankahólfi, stigagangi og geymslu hans. Þá var fallist á með G að hann ætti rétt til miskabóta vegna þess hvernig staðið hefði verið að handtöku hans og að hann hefði þurft að þola vanvirðandi meðferð í skilningi 68. gr. stjórnarskrárinnar með því að hafa verið vistaður og haldið einangruðum í fangaklefa á lögreglustöð meðan á 11 daga gæsluvarðhaldi stóð við alls ófullnægjandi aðstæður. Á hinn bóginn var kröfu G um bætur vegna atvinnumissis, eins og hún var úr garði gerð, vísað frá héraðsdómi á þeim grunni að hann hefði ekki leitt nægar líkur að því að hann hefði orðið fyrir tjóni vegna skerðingar á getu til að afla sér vinnutekna sem hlotist hefði af umræddum aðgerðum lögreglu. Voru miskabætur til G ákveðnar 2.000.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2016. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 4.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. apríl 2010 til 1. maí 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst aðaláfrýjandi viðurkenningar á því að gagnáfrýjandi „sé bótaskyldur vegna atvinnumissis sem leiddi af sakamálarannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu“ er beinst hafi að sér „frá 7. janúar til 6. júlí 2010.“ Þá krefst hann þess að gjafsóknarlaun í héraði verði hækkuð og gagnáfrýjanda gert að greiða hærri málskostnað en dæmdur var í héraði. Loks krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem sér hafi verið veitt. 

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 23. júní 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárkrafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

1

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi má rekja aðdraganda að máli þessu til rannsóknar lögreglu á fyrirhuguðum innflutningi á miklu magni af kókaíni frá Suður-Ameríku. Var sonur aðaláfrýjanda, A, grunaður um að að hafa með höndum skipulag og stjórn á dreifingu fíkniefnisins hér á landi í samstarfi við hóp manna. Í símtali, sem einn úr þeim hópi átti við aðaláfrýjanda 2. janúar 2010, ræddu þeir um A og að því búnu spurði aðaláfrýjandi viðmælanda sinn hvort hann vissi um „hressingu“ fyrir kvöldið. Sagðist viðmælandinn geta reddað því fyrir hann. Upplýst er að upptöku af símtalinu hefur löngu verið eytt í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í kjölfar áðurgreinds símtals krafðist lögregla 7. janúar 2010 úrskurðar héraðsdóms um að henni yrði veitt heimild til að hlusta og hljóðrita samtöl úr og í símanúmer og símtæki sem aðaláfrýjandi ætti eða hefði umráð yfir. Í kröfugerð lögreglunnar var vísað til ummælanna í símtalinu og dregin sú ályktun að með þeim hefði aðaláfrýjandi átt við kókaín. Ennfremur sagði að A hefði í október 2009 farið að heimili föður síns að [...] í Reykjavík og hegðun hans breyst mikið og orðið undarleg þegar þangað var komið. Virtist hann hafa orðið mjög var um sig er hann nálgaðist heimilið. Kvaðst lögreglan hafa rökstuddan grun um að aðaláfrýjandi hefði einhverja vitneskju um ætlaðan innflutning og ætti þátt í honum. Einnig teldi hún líkur á að hann væri að geyma fíkniefni á heimili sínu. Með úrskurði héraðsdóms 7. janúar 2010 var lögreglu veitt umbeðin heimild til símahlustunar frá þeim degi til 4. febrúar sama ár og með dómsúrskurði þann dag var heimildin framlengd til 4. mars það ár. Á grundvelli úrskurðanna hlustaði lögreglan og tók upp símtöl aðaláfrýjanda við aðra á tímabilinu frá 7. janúar til 4. mars 2010 án þess að séð verði af gögnum málsins að þar hafi komið nokkuð fram sem varðaði framangreinda rannsókn.

2

Í dómi Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 495/2010 er því lýst að 10. apríl sama ár hafi lögregla fundið í farangurgeymslu bifreiðar ferðatösku sem maður hafði haft meðferðis þegar hann kom frá útlöndum þann dag. Í töskunni voru tvær minni töskur og í þeim falið verulegt magn af kókaíni. Í beinu framhaldi af þessu hélt lögreglan að [...], sem er fjöleignarhús, þar sem hún framkvæmdi húsleit í íbúð aðaláfrýjanda með samþykki hans laust eftir miðnætti 11. apríl 2010. Við leitina var meðal annars lagt hald á lykil að bankahólfi og ferðatösku sem fannst í geymslu í kjallara hússins tilheyrandi íbúðinni. Mun taskan hafa verið sams konar og sú sem áður greinir. Höfðu innviðir hennar verið brotnir upp og voru þar leifar af hvítu efni sem reyndist við rannsókn 19. sama mánaðar vera kókaín.

Eins og lýst er í héraðsdómi kom fram í skýrslu lögreglu um húsleitina að aðaláfrýjanda hafi verið kynnt við það tækifæri „að hann væri handtekinn vegna gruns um fíkniefnamisferli“ en ekki var gerð sérstök handtökuskýrsla. Fyrir héraðsdómi staðfesti einn af lögreglumönnunum, sem voru á vettvangi umrætt sinn, að aðaláfrýjanda hafi verið tilkynnt að hann væri handtekinn. Aðspurður kvaðst lögreglumanninn ráma í að aðaláfrýjandi hafi kvartað undan verk í öxl, en mundi ekki hvort hann var settur í handjárn áður en hann var fluttur af heimili sínu í lögreglubifreið á lögreglustöðina við Hverfisgötu, svo sem hann hefur staðfastlega haldið fram. Einnig sagðist aðaláfrýjandi hafa verið leiddur í handjárnum inn í íbúð sína og síðan úr henni aftur að kvöldi sama dags þegar hann var færður þangað til að sækja sér föt til skiptanna og aðra persónulega muni eftir að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Í bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til ríkislögmanns 31. ágúst 2012 sagði að það væri eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun þegar handtekinn maður væri fluttur milli staða að hann væri færður í handjárn til að tryggja öryggi hans og annarra, svo og til að koma í veg fyrir að hann slyppi úr gæslu lögreglu.

Við komu á lögreglustöðina um klukkan 1.30 aðfaranótt 11. apríl 2010 var aðaláfrýjandi vistaður í fangaklefa og síðdegis sama dag tók lögregla af honum skýrslu að viðstöddum tilnefndum verjanda hans. Í upphafi skýrslutökunnar var aðaláfrýjanda skýrt frá því að hann væri grunaður um aðild að innflutningi á fíkniefnum og þau efni, sem um ræddi í þetta sinn, hafi komið til landsins í ferðatösku frá Spáni daginn áður. Aðspurður um ferðatöskuna, sem fannst í geymslunni við húsleitina, sagðist aðaláfrýjandi ekki kannast við neina slíka tösku, sem hafi verið brotin, en auk hans hafi þáverandi sambýliskona og börn sín aðgang að geymslunni. Spurður út í lykilinn að bankahólfinu kvaðst hann vera leigutaki að hólfinu og væru þar geymdir peningar og pappírar frá sér, en vildi ekki tjá sig um hvort allt sem þar væri tilheyrði honum. Síðar svaraði hann því aðspurður að sonur hans, A, ætti ekki neitt sem þar væri. Við þetta tækifæri kom fram hjá aðaláfrýjanda að hann væri ekki reiðubúinn til að veita lögreglunni heimild til að leita í bankahólfinu.

3

Að kröfu lögreglu var aðaláfrýjandi úrskurðaður í gæsluvarðhald að kvöldi 11. apríl 2010 allt til 16. sama mánaðar og til að sæta einangrun meðan á gæslunni stæði. Síðarnefndan dag var gæsluvarðhaldið framlengt með dómsúrskurði allt til 23. apríl 2010. Fyrir liggur að aðaláfrýjandi var látinn laus úr varðhaldinu 21. sama mánaðar, um klukkan 11.30, en allan þann tíma, sem það stóð, hafði honum verið haldið einangruðum í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Fyrir dómi lýsti aðaláfrýjandi klefanum á þann veg að hann hafi verið sex fermetrar að stærð, gluggalaus og þar hafi logað ljós allan sólarhringinn. Mikill hávaði hafi borist þangað vegna fólks, sem fært hafi verið á stöðina í misjöfnu ástandi, og hafi ónæðið verið mest að næturlagi, sérstaklega um helgar. Þótt gagnáfrýjandi mótmæli þessari lýsingu aðaláfrýjanda á aðstæðum í fangaklefanum hefur hann ekki fært fram nein sönnunargögn sem hnekkja henni. Auk þess fær hún stoð í vitnisburði forstjóra Fangelsismálastofnunar fyrir dómi þar sem hann lagði meðal annars áherslu á að tryggja yrði mannsæmandi aðbúnað gæsluvarðhaldsfanga og lágmarksútivist þeirra meðan á gæslu stæði. Samkvæmt gögnum málsins virðist aðaláfrýjandi ekki hafa notið neinnar útivistar meðan á varðhaldsvistinni stóð.

Lögregla tók skýrslu af aðaláfrýjanda 14. apríl 2010 að viðstöddum verjanda hans eftir að leitað hafði verið í áðurnefndu bankahólfi eins og síðar verður vikið að. Sagðist aðaláfrýjandi ekki vilja tjá sig um það, sem fannst í hólfinu, en lét þess þó getið að þar hefðu verið „örlitlir peningar“. Að öðru leyti kom ekkert fram hjá honum, sem hér skiptir máli, og heldur ekki við skýrslutöku hjá lögreglu 20. sama mánaðar eða 7. júní sama ár. Á hinn bóginn var aðaláfrýjandi ítrekað spurður um þátt sonar síns, A, í innflutningi fíkniefna, þar á meðal því broti sem hann sjálfur var sakaður um, svo sem gerð er grein fyrir í héraðsdómi. Síðdegis 15. apríl 2010 hafði A verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli þegar hann kom hingað til lands frá útlöndum vegna gruns um aðild að innflutningi fíkniefna. Í skýrslu, sem hann gaf hjá lögreglu 19. sama mánaðar, sagðist hann ekki kannast við ferðatöskuna, sem fannst við leitina í geymslunni átta dögum fyrr, auk þess sem faðir sinn væri ekki tengdur málinu. Því svaraði sá lögreglumaður sem skýrsluna tók: „Ef þú kannast ekki við þessa tösku verðum við að gera pabba þinn að aðalmanni í þessu máli. Það eru bara þrír sem hafa aðgang að þessari geymslu, þú ... bróðir þinn og pabbi þinn.“ Þá voru aðaláfrýjanda fyrst við skýrslutökuna 20. apríl sýndar ljósmyndir af töskunni og niðurstaða rannsóknar á efninu sem í henni var.

Skömmu áður en aðaláfrýjandi var látinn laus 21. apríl 2010 fóru tveir lögreglumenn að [...] með húslykla frá honum „til að kanna með læsingar á geymslum“ eins og komist var að orði í skýrslu lögreglu um þá rannsóknaraðgerð. Tilefnið var að nafngreindur maður, sem rannsókn lögreglunnar á innflutningi fíkniefna tók til, mun hafa greint frá því að sami lykill gengi að stigahúsi fjöleignarhússins og geymslum þess þannig að allir íbúar hússins væru með lykla að þeim öllum. Lögreglumennirnir opnuðu dyr að stigagangi hússins með lykli frá aðaláfrýjanda og reyndist sami lykill ganga að geymslu tilheyrandi íbúð hans. Hengilásar voru á öðrum geymsluhurðum, að einni undanskilinni, en lykill aðaláfrýjanda gekk ekki að þeirri geymslu. Niðurstaða lögreglu var sú að íbúar hússins væru með lykla að stigagangi þess og geymslum sínum, en ekki annarra.  

4

Að kröfu lögreglu kvað héraðsdómur upp úrskurð 11. apríl 2010 þess efnis að innlendum fjármálafyrirtækjum væri „skylt að láta lögreglu í té allar upplýsingar sem stofnanirnar kunna að hafa um bankareikninga kærða Guðmundar R. Guðlaugssonar ... bankahólf, banka- og fjármálaviðskipti, greiðslukortaupplýsingar, gjaldeyriskaup og peningasendingar frá honum á milli landa frá og með 1. janúar 2009“. Var aðaláfrýjandi ekki kvaddur fyrir dóminn áður en úrskurðurinn gekk.

Á grundvelli úrskurðarins fór 12. apríl 2010 fram leit í áðurnefndu bankahólfi sem aðaláfrýjandi var skráður umráðmaður fyrir án þess að hann væri viðstaddur hana. Við leitina fann lögregla meðal annars peninga að fjárhæð 3.550.000 krónur og skartgripi sem voru að verðmæti um 2.000.000 krónur. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 495/2010 var talið sannað að féð og skartgripirnir væru eign A og var hvort tveggja gert upptækt sem ávinningur af broti hans á 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

5

Svo sem rakið er í héraðsdómi hafði aðaláfrýjandi starfað sem framleiðslustjóri hjá B ehf. um tveggja ára skeið áður en þau atvik urðu sem að framan greinir. Hinn 26. apríl 2010 gerði aðaláfrýjandi samkomulag við fyrirtækið um að hann léti af störfum hjá því. Var svo um samið að honum yrðu greidd laun að fjárhæð 2.500.000 krónur 30. þess mánaðar og voru meðal annars innifalin í greiðslunni laun fyrir aprílmánuð. Fyrir dómi bar þáverandi fyrirsvarsmaður fyrirtækisins að ástæðan fyrir starfslokunum hafi verið sú að aðaláfrýjandi hafi verið handtekinn og sætt gæsluvarðhaldi vegna gruns um að vera viðriðinn fíkniefnamisferli. Í kjölfarið hefur aðaláfrýjandi verið frá vinnu og glímt við alvarlega andlega vanlíðan eins og vottorð sálfræðings og tveggja lækna, sem hann hefur lagt fram, bera ótvírætt með sér.

Með bréfi ríkissaksóknara 6. júlí 2010 var aðaláfrýjanda tilkynnt að það, sem fram hefði komið við rannsókn á ætluðu broti hans, þætti ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis. Væri því málið fellt niður að því er hann varðaði.

II

Krafa aðaláfrýjanda um miskabætur er annars vegar reist á aðgerðum, sem hafi beinst gegn honum samkvæmt IX. til XIV. kafla laga nr. 88/2008, og hins vegar á annarri háttsemi lögreglu við rannsókn á máli því sem að framan greinir.

Þær aðgerðir, sem aðaláfrýjandi krefst miskabóta fyrir á grundvelli hinnar hlutlægu bótareglu 2. mgr., sbr. 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, eru í fyrsta lagi hlustun á síma hans á tímabilinu frá 7. janúar til 4. mars 2010, í öðru lagi leit í íbúð hans og geymslu að [...] laust eftir miðnætti 11. apríl 2010, í þriðja lagi handtaka hans við sama tækifæri, í fjórða lagi gæsluvarðhald sem hann sætti frá síðastgreindum degi til 21. sama mánaðar, í fimmta lagi leit í bankahólfi hans 12. apríl 2010 og í sjötta lagi leit að [...] sem hann telur að hafi farið fram með rannsóknaraðgerð lögreglu 21. sama mánaðar og að framan er lýst. Heldur aðaláfrýjandi því fram að umræddar aðgerðir hafi verið með öllu tilefnislausar og hafi hann ekki á neinn hátt stuðlað að þeim, hvað þá valdið þeim, þannig að bætur megi fella niður eða lækka af þeim sökum, sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Þar að auki krefst aðaláfrýjandi miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á grundvelli sakarreglunnar vegna háttsemi lögreglu við rannsókn á ætluðu broti hans. Fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi mótmælt þessari málsástæðu sem of seint fram kominni. Þegar litið er til þess að í héraðsdómsstefnu reisti aðaláfrýjandi kröfu sína um miskabætur úr hendi gagnáfrýjanda á því að lögregla hefði við framkvæmd áðurnefndra aðgerða og með annarri háttsemi brotið á ólögmætan og saknæman hátt gegn rétti sínum verður fallist á með honum að af hans hálfu hafi í raun verið byggt á sakarreglunni í stefnunni þegar komið var út fyrir gildissvið hinnar hlutlægu bótareglu. Sökum þess verður litið til þessarar málsástæðu við úrlausn málsins hér fyrir dómi þótt málatilbúnaður aðaláfrýjanda hefði mátt vera gleggri að þessu leyti.

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir þeim atriðum sem aðaláfrýjandi vísar til í þessu sambandi. Þau helstu eru að lögregla hafi farið offari og brotið gegn meðalhófsreglu 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 við framkvæmd á handtöku aðaláfrýjanda 11. apríl 2010 og honum hafi verið haldið í gæslu og einangrun á lögreglustöðinni við Hverfisgötu við alls ófullnægjandi aðstæður og þvert gegn fyrirmælum 4. mgr. 3. gr. þágildandi laga um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, sem flokkist undir ómannúðlega meðferð. Ennfremur heldur aðaláfrýjandi því fram að lögreglan hafi ekki kynnt honum þær sakir, sem hann hafi verið borinn, á þann veg sem mælt sé fyrir um í lögum. Þá hafi hann andstætt lögum verið þráspurður um þá refsiverðu háttsemi, sem syni hans var gefin að sök, brotið hafi verið gegn rétti hans og verjanda hans við skýrslutöku hjá lögreglunni og hún beitt vísvitandi blekkingum og ýkjum þegar krafist var dómsúrskurða.

Í héraðsdómsstefnu sagði um viðurkenningarkröfu aðaláfrýjanda að hann teldi sig hafa orðið fyrir atvinnumissi, óháð örorku, vegna þess að rannsókn beindist að honum, hann var sviptur frelsi og gat ekki gegnt starfsskyldum sínum, einkum af því að málið komst í hámæli og honum var gert ómögulegt að rækja starf sitt og fá annað starf. Tekið var fram í stefnunni að ekki væri krafist bóta fyrir líkamstjón, en áskilinn réttur til að leita réttar vegna varanlegrar örorku. Hér fyrir dómi er viðurkenningarkrafan rökstudd með því að aðaláfrýjandi hafi misst allt aflahæfi sitt og þar með atvinnutekjur út starfsævina vegna afleiðinga áðurgreindrar handtöku og gæsluvarðhalds. Til stuðnings kröfunni aflaði aðaláfrýjandi matsgerðar og yfirmatsgerðar dómkvaddra manna undir rekstri málsins í héraði þar sem þeir voru beðnir um að meta hvert væri heildartjón hans, þar á meðal hvort hann hefði orðið fyrir tekjumissi, vegna frelsissviptingar og skýrslutöku lögreglu. Er gerð grein fyrir efni matsgerðanna í hinum áfrýjaða dómi.

III

Í 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 segir að maður, sem borinn hefur verið sökum í sakamáli, eigi rétt til bóta eftir 2. mgr. sömu lagagreinar, meðal annars ef mál hans hefur verið fellt niður. Eftir fyrri málslið 2. mgr. greinarinnar skal dæma bætur vegna aðgerða samkvæmt IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi, en eftir síðari málslið málsgreinarinnar má þó fella þær niður eða lækka ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Við mat á því hvort beita beri síðastgreindri heimild til niðurfellingar eða lækkunar bóta hefur meðal annars þýðingu hvort lögmæt skilyrði hefur brostið til aðgerðar, en ef svo er kæmi eftir atvikum til álita að dæma bætur á grundvelli hinnar hlutlægu bótareglu, sem mælt er fyrir um í 2. mgr., sbr. 1. mgr. 228. gr., án tillits til eigin sakar sakbornings. Þá er í 5. mgr. lagagreinarinnar kveðið á um að bæta skuli fjártjón og miska ef því er að skipta. Þar sem mál aðaláfrýjanda var fellt niður á hann samkvæmt framansögðu rétt til bóta á grundvelli umræddrar lagagreinar að uppfylltum framangreindum skilyrðum.

1

Krafa lögreglu 7. janúar 2010 um heimild til að hlusta og hljóðrita samtöl við símanúmer aðaláfrýjanda á grundvelli 81. gr. laga nr. 88/2008 var sem fyrr segir studd þeim rökum að hann hefði látið þau orð falla í símtali við annan mann hvort sá vissi um „hressingu“ fyrir kvöldið og með því átt við kókaín. Einnig var þess getið í beiðninni að sonur aðaláfrýjanda hefði farið að heimili hans í október 2009 og virtist sonurinn hafa orðið mjög var um sig er hann nálgaðist heimilið. Ekki verður dregin sú ályktun af hinum tilvitnuðu ummælum aðaláfrýjanda einum og sér að hann hafi tengst innflutningi á fíkniefnum, en upptöku af símtalinu hefur verið eytt svo að ómögulegt er að ganga úr skugga um í hvaða samhengi þau féllu. Af þeim sökum skortir á að sýnt hafi verið fram á að aðaláfrýjandi hafi með háttsemi sinni stuðlað að því að hlustað var á símtöl hans og þau tekin upp á tímabilinu frá 7. janúar til 4. mars 2010 og á hann því rétt á bótum vegna þeirrar þvingunarráðstöfunar.

Í framhaldi af því að verulegt magn af kókaíni hafði verið flutt hingað til lands 10. apríl 2010 hélt lögregla að heimili aðaláfrýjanda þar sem hann samþykkti að leitað yrði í íbúð sinni laust eftir miðnætti 11. sama mánaðar. Sökum þess að sonur aðaláfrýjanda, sem var grunaður um að hafa með höndum skipulag og stjórn á dreifingu kókaínsins hér á landi, hafði komið á heimilið haustið 2009 þegar hann var staddur hér á landi hafði lögreglan tilefni til að ætla að þar kynnu að finnast efni eða munir sem tengdust ætluðu broti hans. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður jafnframt að líta svo á að aðaláfrýjandi hafi fellt á sig grun um að vera viðriðinn brotið þegar í ljós kom við leitina í íbúðinni að þar var að finna lykil að bankahólfi og í geymslu tilheyrandi henni sams konar tösku og notuð hafði verið við innflutning á kókaíninu daginn áður. Vegna þessa var lögreglu sömuleiðis rétt að handtaka hann í kjölfar húsleitarinnar samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Með því að hafa með þessu móti stuðlað að umræddum aðgerðum hefur hann fyrirgert rétti til að krefjast bóta fyrir þær á grundvelli 2. mgr. 228. gr. sömu laga.

2

Við skýrslutöku síðdegis 11. apríl 2010 sagðist aðaláfrýjandi ekki kannast við ferðatöskuna sem fannst í geymslunni. Að auki kvaðst hann vera leigutaki að bankahólfinu þar sem geymdir væru peningar og pappírar frá sér, en sonur sinn ætti ekki neitt sem þar væri. Með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 495/2010 var talið sannað að sonur aðaláfrýjanda hafi verið eigandi peninganna og skartgripanna, sem fundust í hólfinu, og hefur dómurinn fullt sönnunargildi um það atriði þar til hið gagnstæða sannast, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 og 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem aðaláfrýjandi hefur ekki fært sönnur á að hann hafi átt þessi verðmæti verður samkvæmt því talið að hann hafi skýrt lögreglu rangt frá við skýrslutökuna þegar hann kvaðst vera eigandi þeirra. Af þeirri ástæðu og öðrum, sem raktar eru í forsendum héraðsdóms, var tilefni til að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum að kvöldi sama dags á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 uns tóm hefði gefist til að leita í bankahólfinu og rannsaka efnisleifarnar í töskunni.

 Leit í bankahólfinu fór fram 12. apríl 2010 og þann dag var taskan afhent tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar. Sá lögreglumaður, sem annaðist rannsóknina, bar vitni fyrir dómi og verður af vitnisburði hans dregin sú ályktun að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að greina efnið úr töskunni með svonefndu forprófi þegar í stað ef eftir því hefði verið óskað, svo sem skylt var við þessar aðstæður, sbr. 2. mgr. 53. gr. og 2. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins eins og þau horfðu við lögreglunni á þessu tímamarki verður að líta svo á að þáttur aðaláfrýjanda í málinu hafi að mestu leyti verið upplýstur daginn eftir, en þá hefði verið unnt að fá viðbrögð hans við því hvort tveggja sem fundist hafði í hólfinu og komið í ljós við rannsókn á töskunni. Eftir síðastnefndu lagaákvæði hefði þá þegar borið að láta hann lausan, en lög stóðu ekki til þess að halda honum lengur í gæslu af þeirri ástæðu einni að sonur hans væri enn frjáls ferða sinna. Með skírskotun til þessa var aðaláfrýjandi sviptur frelsi að ósekju og vistaður í einangrun mun lengur en efni stóðu til. Samkvæmt því á hann rétt til bóta vegna þeirrar gæsluvarðhaldsvistar sem hann sætti frá 13. til 21. apríl 2010.

3

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 er lögreglu heimilt að leita í húsum sakbornings, geymslustöðum hans og hirslum í því skyni að handtaka hann, rannsaka andlag brots og önnur ummerki eða hafa uppi á munum sem hald skal leggja á. Í 1. mgr. 75. gr. laganna er svo fyrir mælt að leit skuli ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki eiganda eða umráðamanns. Frá þessu eru gerðar undantekningar í 2. og 3. mgr. sömu lagagreinar, þar á meðal kemur fram í þeirri fyrri að leit sé heimil án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir honum valdi sakarspjöllum og í þeirri síðari að leit sé heimil án úrskurðar á víðavangi og í húsakynnum sem opin eru almenningi eða hver og einn getur átölulaust gengið um. Orðalagið „á víðavangi“ í 3. mgr. var skýrt á þann veg í athugasemdum með frumvarpi til laganna að með því væri fyrst og fremst átt við svæði í byggð og óbyggðum sem ekki væru sérstaklega afgirt. Hins vegar yrði leit ekki gerð í görðum umhverfis íbúðarhús án samþykkis eiganda eða umráðamanns þess nema samkvæmt dómsúrskurði.

Með úrskurði héraðsdóms 11. apríl 2010 var innlendum fjármálafyrirtækjum meðal annars gert skylt að láta lögreglu í té allar upplýsingar, sem þær kynnu að hafa um bankahólf aðaláfrýjanda, en samkvæmt úrskurðinum var henni ekki heimilað að leita í þeim hólfum. Eins og atvikum var háttað skorti lögregluna því heimild að lögum til að leita í bankahólfi aðaláfrýjanda daginn eftir, enda var það hvorki gert á grundvelli dómsúrskurðar né samþykkis aðaláfrýjanda sem leigutaka og umráðamanns hólfsins eins og áskilið er í 1. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008.

Með skírskotun til fyrirmæla 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem lagt er bann við leit í húsakynnum manns nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild, verða ákvæði 1. og 3. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008 ekki skýrð á annan veg en þann að lögreglu sé óheimilt að framkvæma leit í stigagangi fjöleignarhúss, sem er aflæstur, nema fyrir liggi úrskurður eða ótvírætt samþykki einhvers af íbúum hússins. Ef leitað er í geymslu, sem tilheyrir íbúð í húsinu, þarf að auki samþykki eiganda eða umráðamanns hennar. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. sömu laga telst það leit ef farið er inn í hús í því skyni að rannsaka andlag brots og önnur ummerki sem þar kunna að vera. Að því virtu verður að fella undir leit í merkingu laganna þá aðgerð lögreglu að fara 21. apríl 2010 að [...] og opna dyr að stigagangi hússins með lykli aðaláfrýjanda í þeim tilgangi að kanna hvort sami lykill gengi að stigaganginum og öllum geymslum þess. Þar sem hvorki lá fyrir dómsúrskurður né samþykki aðaláfrýjanda eða annars íbúa í húsinu til þessarar aðgerðar brast skilyrði að lögum til hennar, sbr. 1. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 228. gr. þeirra laga má sem fyrr greinir fella niður eða lækka bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að aðgerðum sem hann reisir bótakröfu sína á. Sem fyrr segir skorti lögmælt skilyrði fyrir þeim ráðstöfunum sem fólgnar voru í leit í bankahólfi aðaláfrýjanda 12. apríl 2010 og fjöleignarhúsinu að [...] níu dögum síðar. Af þeim sökum og í ljósi þess hvernig atvikum var háttað verður heimildinni til að skerða bætur honum til handa vegna þessara ólögmætu aðgerða lögreglu ekki beitt og þær því dæmdar án tillits til þess hvort hann átti einhverja sök á þeim sjálfur.

IV

Maður sem sakaður hefur verið um refsiverða háttsemi á ekki aðeins rétt á bótum úr hendi gagnáfrýjanda á grundvelli hinnar hlutlægu bótareglu 2. mgr., sbr. 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, heldur einnig samkvæmt sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Skilyrði þess er að lögreglumenn eða aðrir ríkisstarfsmenn hafi með ólögmætum og saknæmum hætti valdið honum tjóni sem ekki fellur undir gildissvið fyrstnefndu reglunnar. Þó verða sökuðum manni því aðeins dæmdar miskabætur á þessum grunni að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi þess, sem varð valdur að því, sbr. a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, ellegar ólögmætri meingerð, sem beinst hefur gegn frelsi, friði, æru eða persónu hans, sbr. b. lið sömu málsgreinar.

1

Þegar aðaláfrýjandi var handtekinn á heimili sínu skömmu eftir miðnætti 11. apríl 2010 liggur ekkert fyrir um að hann hafi sýnt lögreglu mótþróa eða verið líklegur til þess. Að því virtu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að lögregla hafi farið offari með því að setja hann í handjárn umrætt sinn og síðar að kvöldi sama dags. Með því brutu þeir lögreglumenn, sem í hlut áttu, gegn meðalhófsreglu 2. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008 þar sem segir að við handtöku skuli forðast að valda hinum handtekna tjóni eða baka honum meiri óþægindi en nauðsyn ber til.

 Samkvæmt 68. gr. stjórnarskrárinnar má engan beita ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá var í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 49/2005 kveðið á um að heimilt væri, ef aðstæður leyfðu, að vista gæsluvarðhaldsfanga í skamman tíma í fangageymslum lögreglu, þó ekki lengur en í fjóra sólarhringa nema sérstakar ástæður væru fyrir hendi, sbr. nú 4. mgr. 17. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Sé tekið mið af lýsingu aðaláfrýjanda, sem gerð hefur verið grein fyrir og ekki verið hnekkt af gagnáfrýjanda, á aðstæðum í fangaklefanum á lögreglustöðinni við Hverfisgötu þar sem honum var haldið einangruðum frá 11. til 21. apríl 2010 var með öllu óverjandi, að teknu tilliti til síðari hluta hins tilvitnaða lagaákvæðis, að vista hann þar lengur en fjóra sólarhringa. Með vísan til fyrri hluta ákvæðisins leikur auk þess vafi á hvort almennt hafi verið heimilt að vista gæsluvarðhaldsfanga við þvílíkar aðstæður sem fyrir hendi voru á lögreglustöðinni. Að þessu öllu virtu og vegna þeirra fyrirmæla 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, telst það jafnframt vanvirðandi meðferð í garð aðaláfrýjanda í skilningi 68. gr. hennar að hann hafi sætt slíkum aðbúnaði meðan hann sat í gæsluvarðhaldi.

Með skírskotun til þess, sem rakið hefur verið, á aðaláfrýjandi rétt til miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga úr hendi gagnáfrýjanda vegna þess hvernig staðið var að handtöku hans og vistun meðan á gæsluvarðhaldi hans stóð.

2

Aðaláfrýjandi krefst sem fyrr segir bóta þar sem lögregla hafi ekki kynnt honum þær sakir, sem hann var borinn, á þann veg sem mælt sé fyrir um í lögum, brotið gegn rétti hans og verjanda við skýrslutöku og beitt blekkingum og ýkjum þegar krafist var dómsúrskurða sem að honum beindust. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður bótakrafa aðaláfrýjanda, sem að þessu lýtur, ekki tekin til greina.

Þá hefur aðaláfrýjandi gert margvíslegar aðrar athugasemdir við það hvernig staðið var að skýrslutöku af honum hjá lögreglu, einkum að hann hafi andstætt lögum verið þráspurður um þá háttsemi sem syni hans var gefin að sök. Þegar aðaláfrýjandi gaf skýrslu hjá lögreglunni var hann sem áður greinir sakaður um refsiverða háttsemi og hafði því réttarstöðu sakbornings. Samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008 var honum því óskylt að svara spurningum varðandi þær sakargiftir og bar þeim, sem skýrslu tók, að benda honum ótvírætt á þennan rétt hans. Þegar af þessari ástæðu bar aðaláfrýjanda heldur ekki skylda til að svara spurningum, sem vörðuðu þátt sonar hans í sömu háttsemi og hann sjálfur var sakaður um, auk þess sem honum var eins og á stóð heimilt að neita að svara öðrum spurningum um hagi sonar síns á grundvelli meginreglunnar, sem býr að baki b. lið 1. mgr. 117. gr. laganna, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 65. gr. þeirra. Bar lögreglunni að virða þennan rétt aðaláfrýjanda og voru ítrekaðar spurningar hennar um háttsemi sonar hans því óheimilar. Á hinn bóginn verður ekki talið að aðaláfrýjandi hafi fært fullnægjandi sönnur á að með þessu hafi verið brotið gegn æru hans eða persónu á þann hátt sem áskilið er í b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Verður gagnáfrýjandi því ekki dæmdur til að greiða honum bætur af þessum sökum.

V

Eitt af skilyrðum þess að stefnandi einkamáls geti fengið efnislega úrlausn um kröfu sína er að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr henni, en ella ber að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Þegar krafist er með stoð í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 viðurkenningar á bótaskyldu hefur áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni í fjölda dóma Hæstaréttar, sbr. meðal annars dóm 9. febrúar 2016 í máli nr. 69/2016, verið skýrður svo að stefnandi verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir í hverju tjónið felst og hver tengsl þess séu við atvik máls.

Málatilbúnaður aðaláfrýjanda, sem lýtur að kröfu hans um viðurkenningu á bótaskyldu gagnáfrýjanda vegna atvinnumissis, er engan veginn svo skýr sem skyldi. Í dómi Hæstaréttar 19. september 2013 í máli nr. 494/2013, þar sem tekin var afstaða til beiðni aðaláfrýjanda um dómkvaðningu matsmanna, er á það bent að með matsgerð hyggist hann sanna að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna þeirra aðgerða lögreglu sem að honum beindust. Hins vegar hafi hann ekki uppi kröfur í málinu um bætur vegna þess líkamstjóns sem hann telji sig hafa orðið fyrir vegna aðgerðanna. Að teknu tilliti til þess hvernig kröfugerð aðaláfrýjanda er úr garði gerð verður ekki talið að hann hafi leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna skerðingar á getu til að afla sér vinnutekna sem hlotist hafi af umræddum aðgerðum lögreglu. Af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að vísa viðurkenningarkröfunni frá héraðsdómi. 

VI

Samkvæmt framansögðu er komist að þeirri niðurstöðu að aðaláfrýjandi eigi rétt til miskabóta úr hendi gagnáfrýjanda vegna fjölda þvingunarráðstafana sem beindust gegn honum að ósekju og gripið var til á fyrstu mánuðum ársins 2010. Að auki að dæma skuli gagnáfrýjanda til að greiða aðaláfrýjanda bætur fyrir miska vegna þess að brotið var gegn honum með ólögmætum og saknæmum hætti við handtöku hans og síðar í gæsluvarðhaldsvistinni sem hann sætti. Við mat á fjárhæð bóta ber fyrst og fremst að líta til þess hvers eðlis hinar bótaskyldu aðgerðir voru og hve lengi þær stóðu. Sérstaklega skiptir máli í því sambandi að aðaláfrýjanda var haldið í einangrun þann tíma, sem hann sat í gæsluvarðhaldi, við þær aðstæður að vistunin fól eins og áður segir í sér vanvirðandi meðferð í hans garð. Þá hafa aðgerðirnar ekki aðeins valdið honum andlegum þjáningum, svo sem rakið er í héraðsdómi, heldur hefur umfang þeirra, sem var langt úr hófi fram miðað við tilefnið, orðið honum til alvarlegs álitshnekkis, en hann gegndi á þeim tíma, sem um ræðir, stjórnunarstöðu hjá einkafyrirtæki. Þegar allt þetta er virt verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda miskabætur að fjárhæð 2.000.000 krónur með þeim vöxtum sem hann krefst.

Rétt er að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Í samræmi við 1. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008 naut aðaláfrýjandi gjafsóknar í héraði. Því átti að réttu lagi að ákveða honum gjafsóknarkostnað í hinum áfrýjaða dómi, þar með talda fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanna hans. Eins og á stendur verður það ákvæði héraðsdóms staðfest. Um gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkenningarkröfu aðaláfrýjanda, Guðmundar R. Guðlaugssonar, á hendur gagnáfrýjanda, íslenska ríkinu, er vísað frá héraðsdómi.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. apríl 2010 til 1. maí 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna hans eins og hún var ákveðin í héraðsdómi.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2016

                Mál þetta, sem var höfðað með birtingu stefnu 6. júní 2012, var dómtekið 1. febrúar sl. Stefnandi er Guðmundur R. Guðlaugsson, [...] í Reykjavík og stefndi er íslenska ríkið.

                Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 4.000.000 króna í miskabætur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. apríl 2010 til 1. maí 2011 en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi viðurkenningar á því að stefndi sé bótaskyldur vegna atvinnumissis sem leiddi af sakamálarannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem beindist að honum frá 7. janúar til 6. júlí 2010. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi hans. Til vara krefst stefndi sýknu af viðurkenningarkröfu stefnanda, að fjárkrafa hans verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

                Atvik máls

                Laust eftir miðnætti þann 11. apríl 2010 gerði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu húsleit á þáverandi heimili stefnanda að [...] Reykjavík. Við húsleitina lagði lögreglan m.a. hald á fartölvu stefnanda, lykil að bankahólfi hans, lítils háttar magn af efni sem talið var vera marijúana og tösku sem fannst í kjallarageymslu íbúðarinnar.

                Í skýrslu lögreglunnar dagsettri sama dag segir að Guðmundi hafi verið kynnt að hann væri handtekinn vegna gruns um fíkniefnamisferli og honum kynnt réttarstaða sín. Í málinu liggur ekki fyrir handtökuskýrsla. Stefnandi var að lokinni húsleit færður á lögreglustöðuna við Hverfisgötu og vistaður þar. Í viðbótarskýrslu lögreglunnar vegna húsleitarinnar kemur fram að við nánari skoðun á töskunni sem var haldlögð hafi komið í ljós hvítar efnisleifar sem lögreglan ætlar að séu fíkniefni. Sé grunur um að taskan hafi verið notuð til fíkniefnainnflutnings. Til stuðnings þeim grun liggi líka fyrir að fíkniefnahundur lögreglunnar hafi gefið merki um að fíkniefni væri að finna í geymslunni þar sem taskan fannst.

                Aðdragandi þessara aðgerða var rannsókn lögreglu á fíkniefnainnflutningi sem hafði staðið yfir í nokkurn tíma. Í skýrslu lögreglunnar, dagsettri 6. janúar 2010, kemur fram að hún hafi fengið upplýsingar, sem hún meti trúverðugar, um væntanlegan innflutning á miklu magni kókaíns til landsins sem koma eigi frá Suður-Ameríku. Í skýrslunni kemur fram að lögreglan gruni að sonur stefnanda, A, skipuleggi og stjórni smyglinu, en hann var á þessum tíma staddur erlendis, og jafnframt að B taki veigamikinn þátt í undirbúningi þess.

                Þann 7. janúar 2010 var lögreglunni með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness heimilað að hlera síma stefnanda frá 1. janúar til 4. febrúar s.á. í þágu rannsóknar málsins. Í kröfu lögreglunnar til héraðsdóms kemur fram að lögreglan hafi rökstuddan grun um að stefnandi hafi einhverja vitneskju um ætlaðan innflutning og taki þátt í undirbúningi hans. Er í kröfunni vísað til nýlegs símtals stefnanda við áðurnefndan B. Í skýrslu lögreglunnar, dagsettri 3. febrúar 2010, er samtalinu lýst á eftirfarandi hátt: „Í þessu samtali ræða þeir um að [B] þurfi að hafa samband við [A] erlendis og hefur Guðmundur áhyggjur af því að það sé ekki allt í lagi á milli [A] og [B], þá spyr [B] Guðmund hvort það sé ekki allt í „standi“ hjá [A] þarna úti, Guðmundur svarar því til að hann viti ekki betur en að allt sé í góðu og telur að það verði allt í lagi ef að þeir [B] og [A] haldi góðu sambandi. Guðmundur spyr [B] einnig hvort að [B] viti um „hressingu“ (þar telur lögreglan að átt sé við kókaín) fyrir kvöldið. [B] segist geta reddað því fyrir hann en Guðmundur segir að [B] eigi ekki að standa í svoleiðis tittlingaskít og hann eigi að láta einhvern annan redda því.“

                Lögreglan fékk áframhaldandi heimild til hlerunar á síma stefnanda til 4. mars, með dómsúrskurði þann 4. febrúar s.á. Segir í kröfu lögreglunnar fyrir dómi að lögreglan telji fullvíst að Guðmundur hafi vitneskju um væntanlegan innflutning, komi með einum eða öðrum hætti að innflutningnum og geymi mögulega fíkniefni á heimili sínu.

                Stefnandi var í haldi lögreglunnar frá því laust eftir miðnætti þann 11. apríl 2010. Hann var yfirheyrður í fyrsta skipti síðdegis þann 11. apríl. Í þeirri yfirheyrslu er honum kynnt að hann sé grunaður um aðild að og samvinnu við aðra um innflutning á fíkniefnum sem komið hafi til landsins frá Spáni degi fyrr, eða 10 apríl. Þá er stefnandi spurður út í töskuna sem fannst í kjallaranum og um bankahólfið sem lykillinn að fannst hjá honum. Hann neitar lögreglunni um heimild til að skoða innihald bankahólfsins en segir að þar séu peningar og skjöl í hans eigu. Stefnandi getur hins vegar ekki svarað spurningum varðandi töskuna og segist ekki vera viss um hvaða tösku sé átt við þar sem fleiri en ein taska hafi verið í geymslunni. Auk þess hafi synir hans og fleiri aðgang að geymslunni. Síðdegis sama dag er stefnandi úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna til 16. apríl s.á. og gert að sæta einangrun þann tíma. Í kröfu lögreglunnar til héraðsdóms kemur fram að lögreglan hafi lagt hald á tvær sendingar af fíkniefnum á næstliðnum sólarhring. Í báðum tilvikum hafi verið reynt að smygla efninu í ferðatöskum með farþegum sem komu með flugi frá Spáni. Í öðru tilvikinu hafi verið lagt hald á 1.600 grömm af kókaíni en ekki kemur fram magn og tegund í hinu tilvikinu. Sama dag, þ.e. þann 11. apríl, fær lögreglan með dómsúrskurði heimild til að skoða bankahólf stefnanda, kanna bankareikninga hans og fleiri gögn frá fjármálastofnunum. Bankahólfið er rannsakað 12. apríl. Í ljós kom að í því voru liðlega 3,5 milljónir í reiðufé auk skartgripaskríns með demantshring og ermahnöppum. Talið er að verðmæti þessara skartgripa sé yfir tvær milljónir króna.

                Stefnandi var yfirheyrður á ný þann 14. apríl og spurður nánar út í innihald bankahólfsins. Hann segir að þar hafi verið eitthvert smáræði af peningum en neitar að öðru leyti að tjá sig um það. Þá er honum sýnd mynd af tösku, sams konar og sú sem fannst í geymslunni hans, og kveðst hann ekki eiga slíka tösku. Gæsluvarðhald stefnanda var framlengt til 23. apríl 2010 með úrskurði héraðsdóms 16. apríl s.á. Áfram var sætti stefnandi einangrun.

                Stefnandi var yfirheyrður í þriðja sinn þann 20. apríl. Þá var honum kynnt að sonur hans hefði verið handtekinn og hefði gengist við því að eiga fé og muni sem fundust í bankahólfinu. Stefnandi neitaði að tjá sig frekar um það atriði og kvaðst ekki vilja tjá sig um mál þar sem grunur beindist að syni hans. Sömu svör gaf hann þegar honum var sýnd mynd af áðurnefndri tösku úr geymslunni hans og honum kynnt að rannsóknir bentu til þess að kókaín hefði verið flutt í henni, en sú rannsóknarniðurstaða lá fyrir 19. apríl.

                Þann 21. apríl 2010 fór lögreglan að heimili stefnanda, hafði tal af fólki sem býr í sama fjölbýlishúsi og kannaði læsingar á geymslum.

                Stefnandi var látinn laus um hádegisbil þann 21. apríl 2010 og hafði þá setið í gæsluvarðahaldi í tæplega 10 sólarhringa. Allan tímann var hann vistaður í fangageymslu lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu í Reykjavík og sætti einangrun.

                Síðasta skýrslan af stefnanda var tekin 7. júní. Þar er hann spurður út í peningana í bankahólfinu og kveðst hann eiga þá sjálfur og hafa átt þá um nokkurn tíma.

                Í bréfi til stefnanda þann 6. júlí 2010 tilkynnti ríkissaksóknari honum að rannsókn málsins væri lokið og málið fellt niður hvað hann varðar, þar sem það sem fram væri komið varðandi ætluð brot hans þætti hvorki nægilegt né líklegt til sakfellis.

                Frá 19. apríl til 23. júlí birtust í netmiðlum og blöðum sex sinnum fréttir af málinu og var stefnandi nafngreindur í einni fréttinni.

                Stefnandi, sem er kjötiðnaðarmaður og rekstrarfræðingur, starfaði sem framleiðslustjóri hjá B ehf. þegar hann var handtekinn og hafði gegnt því starfi í um það bil tvö ár. Þann 26. apríl 2010 var gerður við hann starfslokasamningur. Hefur hann verið frá vinnu upp frá því og glímt við alvarlega andlega vanlíðan. Í læknisvottorði C, læknis á heilsugæslunni [...], er sjúkrasaga stefnanda rakin svo sem hún er skráð í rafræna sjúkraskýrslu hans við heilsugæsluna. Í vottorðinu segir að ekki sé finna óvinnufærnivottorð frá fyrri tíma en eftir umdeildar þvingunaraðgerðir lögreglunnar en þó sé getið um vottorð frá D barna- og unglingageðlækni frá árinu 2005, þar sem fram komi að stefnandi sé á þeim tíma óvinnufær vegna kvíða og njóti endurhæfingarlífeyris. Í vottorði E sálfræðings frá 17. janúar 2012 (ranglega dagsett 2011) er því lýst að stefnandi glími við reiði, kvíða og svefntruflanir sem séu einkenni þunglyndis. Segir í vottorðinu að af einkennum að dæma þjáist stefnandi af aðlögunarröskun sem rekja megi til gæsluvarðhaldsins og atvinnumissis. Í vottorði F, sérfræðilæknis á geðdeild Landspítalans, frá 7. maí 2012 kemur fram að stefnanda hafi verið vísað á geðdeildina af heimilislækni í júní 2010 og hafi fengið meðferð á göngudeild síðan, alls 188 sinnum. Lýst er líkum einkennum og í vottorði E sem tengist áfallinu af gæsluvarðhaldinu, umfjöllun um málið í fjölmiðlum og atvinnumissi í kjölfarið. Segir að einkenni stefnanda geti samrýmst áfallastreituröskun. Lýst er meðferð sem stefnandi fékk og segir í lok vottorðs að bati hafi verið hægur og óljóst sé um batahorfur.

                Undir rekstri málsins var aflað matsgerða vegna ætlaðs tjóns stefnanda. Matsgerð undirmatsmanna var lögð fyrir dóminn 1. september 2014 og yfirmatsgerð þann 8. september 2015. G geðlæknir, annar matsmanna sem unnu undirmatsgerð, gaf skýrslu fyrir dómi sem og yfirmatsmennirnir H geðlæknir og I hæstaréttarlögmaður. Efni matsgerðanna er rakið í næsta kafla.

                Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 495/2012, kveðnum upp 2. desember 2010, ákæruvaldið gegn J, A og K, voru verðmæti þau sem fundust í bankahólfi stefnanda gerð upptæk á grundvelli 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Í málinu kemur fram að sannað sé að fjármunir þessir hafi verið ávinningur ólögmætra fíkniefnaviðskipta og þeir hafi verið í eigu A, sonar stefnanda.

                Stefnandi krafði stefnda um bætur vegna aðgerða lögreglu með bréfi lögmanns hans, dagsettu 28. mars 2011, en ríkislögmaður hafnaði kröfu hans bréflega þann 4. maí s.á. Í rökstuðningi ríkislögmanns kemur fram að stefndi telji stefnanda hafa fyrirgert bótarétti á grundvelli síðari málsliðar 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

                Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi auk þess sem skrifleg aðilaskýrsla hans liggur fyrir. Þá gáfu skýrslu lögreglumennirnir L, M, N, O, P, Q, R, S og T og U, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, V fangelsismálastjóri og AA, starfmaður fyrrum vinnuveitanda stefnanda.

                Matsgerðir dómkvaddra matsmanna

                Í málinu liggur fyrir matsgerð G læknis og BB tryggingastærðfræðings, dómkvaddra matsmanna, frá 26. júní 2014. Matsmönnum var samkvæmt matsbeiðni falið að svara því hvert væri heildarfjártjón stefnanda vegna aðgerða lögreglu með starfslokum í kjölfar þeirra. Nánar tiltekið var þeim falið að (1) svara því hvort stefnandi hafi orðið fyrir tekjumissi, (2) reikna út mismun áætlaðra ævitekna miðað við að atburðurinn hefði ekki orðið samanborið við áætlaðar ævitekjur nú og (3) reikna út fjárhæð félagslegra greiðslna (s.s. frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði) sem stefnandi hafi fengið og megi vænta í framtíðinni.

                Niðurstaða matsmanna er sú að stefnandi hafi orðið fyrir tekjutapi vegna aðgerða lögreglunnar fram til 30. júní 2014 sem nemi 25.813.872 kr. miðað við verðlagið á sama tíma. Er þetta svar við spurningu (1). Í niðurstöðu matsgerðar er gerð grein fyrir forsendum þessarar niðurstöðu. Þar kemur m.a. fram að þeir taka tillit til aldurs, menntunar og starfsreynslu stefnanda og telja að sem kjötiðnaðarmanni með mikla starfsreynslu hafi stefnandi möguleika á starfi við hæfi. Hins vegar leggja þeir til grundvallar að frá því stefnandi var hnepptur í gæsluvarðahald og þar til mál hans var fellt niður 6. júlí 2010 hafi hann ekki átt neina möguleika á að fá atvinnu og litla möguleika í eitt ár eftir það. Eftir 6. júlí 2011 telja matsmenn að stefnandi hefði átt að geta komist til almennra kjötiðnaðarstarfa eða almennra ófaglærðra starfa ef aðrar ástæður væru ekki fyrir skertri vinnugetu stefnanda en matsmenn telja að skert mannorð stefnanda vegna málsins leiði til þess að hann eigi ekki möguleika á stjórnunarstörfum í greininni.

                Þá reikna matsmenn út mismun ævitekna svo sem óskað er eftir í lið (2) í matsbeiðni og telja hann vera liðlega 89 milljónir króna að gefnum forsendum sem nánar er greint frá í niðurstöðukafla matsgerðarinnar og hefur þá verið tekið tillit til félagslegra greiðslna sem stefnandi hefur fengið og vænta má að hann muni njóta, samtals tæplega 66 milljóna króna, sem er svar við lið (3) í matsbeiðni.

                Einnig var aflað yfirmatsgerðar. Yfirmatsgerðin, sem dagsett er 29. október 2015, var unnin af H geðlækni, CC tryggingastærðfræðingi og I hrl.

                Yfirmatsmenn komast að þeirri niðurstöðu, svar við lið (1), að vegna aðgerða lögreglu hafi stefnandi orðið fyrir tekjutapi á árunum 2010-2014 sem þeir telja að nemi 25.538.180 krónum. Reiknað tekjutap svo sem um er beðið í lið (2) telja þeir að nemi 63.874.404 krónum og hefur þá verið tekið tillit til útreikninga á áætluðum félagslegum greiðslum skv. lið (3) í matsbeiðninni.

                Þá er heilsufari stefnanda lýst ítarlega í yfirmatsgerðinni. Segir þar að stefnandi hafi þróað með sér áfallastreituröskun í kjölfar aðgerða lögreglu sem hann glími enn við. Sjúkrasaga hans bendi til þess að hann hafi verið viðkvæmur fyrir þó svo að eðli áfallsins og afleiðingar hafi skipt máli fyrir þróun á langvinnri röskun. Stefnandi hafi verið í meðferð á Reykjalundi frá því í september 2015 sem hafi skilað nokkrum árangri. Að mati yfirmatsmanna, miðað við stöðuna þegar matsgerðin var unnin, séu þó ekki líkur til þess að stefnandi snúi aftur til starfa á almennum vinnumarkaði.

                Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að hann hafi að ósekju mátt þola þvingunarráðstafanir lögreglu í tengslum við rannsókn á sakamáli. Málið hafi verið fellt niður hvað hann varðar og því eigi hann rétt til fullra bóta samkvæmt bótareglu 1. mgr. 1. málsliðar 2. mgr. og 5. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi hafi hvorki valdið né stuðla að aðgerðum lögreglu og því eigi undantekningarákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 ekki við gagnvart honum. Stefnandi hafi verið hafður fyrir rangri sök, hann hafi ekki neitað að svara spurningum um aðild sína að því misferli sem rannsóknin beindist að að öðru leyti en því að neita að svara spurningum um ætluð brot sonar síns, svo sem honum var heimilt. Lögreglan hafi hins vegar reynt að koma sér úr jafnvægi í yfirheyrslunum og ekki spurt beinna og ótvíræðra spurninga, svo sem mælt er fyrir í 1. málsl. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 88/2008 og 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 651/2009. Því hafi hann einnig neytt réttar síns til að svara ekki spurningum nema fyrir dómi. Yfirheyrsluaðferðir lögreglunnar hafi gefið honum fullt tilefni til að neyta þess réttar síns.

                Stefnandi heldur því fram að hann hafi í rauninni aldrei verið grunaður um neinn þátt í því broti sem til rannsóknar var, allar aðgerðir gegn honum hafi verið ólögmætar og rétt hefði verið að yfirheyra hann sem vitni, sbr. einkum 1. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2008.

                Stefnandi telur að óréttmætt, ástæðulaust og óþarft hafi verið að setja sig í járn þann 11. apríl 2010, laust eftir miðnætti og síðar og leiða sig þannig milli heimilis og lögreglubíls í allra ásýnd. Það hafi brotið gegn meðalhófsreglu sem m. a. komi fram í 1. málsl. 3. mgr. 53 gr. laga nr. 88/2008. Ábendingu stefnanda um að hann væri veikur í öxl og þyldi ekki að vera handjárnaður með hendur fyrir aftan bak, hafi ekki verið sinnt. Þá hafi ekki verið gerð handtökuskýrsla svo sem skylt sé. Grannar stefnanda hafi orðið varir við rannsóknaraðgerðirnar og flutning stefnanda milli heimilis og lögreglubíls. Hafi hann fallið í áliti þeirra og framkoma þeirra gagnvart stefnanda hafi breyst til hins verra. Sömuleiðis hafi ítrekaðar frásagnir í fjölmiðlum grafið undan áliti hans til frambúðar auk þess sem þær hafi skert möguleika hans á að afla sér atvinnutekna. Margir sem heyrt hafi um málið hafi ekki frétt af því að það hafi verið fellt niður. Upplýsingar hafi ekki getað borist fjölmiðlum nema fyrir upplýsingaleka frá lögreglu.

                Þá hafi mjög skort á að stefnanda hafi verið gerð fullnægjandi grein fyrir því um hvað hann var sakaður. Hann hafi raunar aldrei fengið að vita hver þáttur sinn í brotunum átti að vera, aldrei verið spurður um meintan glæp sinn; hann hafi ekki fengið án tafar vitneskju í smáatriðum um eðli og orsök þeirra saka sem á hann voru bornar. Eina skýringin sem stefnanda var gefin var sú að hann væri grunaður um aðild að stórfelldu fíkniefnamisferli. Hann hafi engar skýringar fengið á því á hverju sá grunur væri byggður, né heldur í hverju aðild sín væri talin felast. Þar sem engin gögn styðji þá tilgátu sé rökréttasta skýringin á handtökunni sú að lögreglan hafi, með ólöglegum hætti, ætlað að þvinga hann til að vitna gegn syni sínum.

                Þá hafi ýmsar misfellur verið á aðgerðum lögreglu sem hafi aukið tjón hans. Í fyrsta lagi hafi lögreglan fengið dómsúrskurði um símahlerun, upplýsingaskyldu og gæsluvarðhald með því að gera meira úr grun sem beindist að stefnanda en efni hafi staðið til og legið á gögnum og upplýsingum sem drógu úr eða gerðu að engu grun á hendur honum. Óvíst sé hvort dómstólar hefðu fallist á kröfur lögreglustjóra hefðu þessi gögn og upplýsingar verið kynnt þeim. Gögn þessi skipti máli við mat á því hvort undantekningarákvæði 2. ml. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 eigi við. Verði stefndi ekki við áskorunum um að leggja fram skrá yfir gögn sem lögð hafi verið fram fyrir dómi, hljóðupptökur símtala og úrskurði héraðsdóms í heild (in extenso) verði að leggja staðhæfingar hans til grundvallar niðurstöðu málsins. Stefnandi hafi árangurslaust reynt að afla þessara gagna frá lögreglu og stefnda standi sú gagnaöflun nær en honum.

                Í öðru lagi byggir stefnandi á því að tilgangurinn með hlerun síma hans hafi verið að fylgjast með ferðum sonar hans A. Hann mótmælir því að símtal milli hans og vinar sonar hans, sem upphaflega var tilefni þess að sími hans var hleraður, hafi veitt neinar vísbendingar um tengsl sín við stórfelldan fíkniefnainnflutning. Þá mótmælir hann því að vísað sé til kókaíns í símtalinu þar sem hann biður viðmælanda sinn um „hressingu“. Jafnvel þótt sá skilningur verði lagður í samtalið hafi skilyrði símhlerunar, um að ætlað brot gæti varðað átta ára fangelsi, ekki verið fullnægt.

                Í þriðja lagi hafi skilyrði húsleitar skv. 3. mgr. 79. gr. sakamálalaga ekki verið fyrir hendi þar sem engir brýnir rannsóknarhagsmunir hafi verið í húfi. Það sem fundist hafi saknæmt við húsleitina hafi verið annarra eign og lögreglan meðhöndlað það þannig. Við húsleitina hafi ekki verið gætt ákvæða 3. mgr. 79. gr. laga nr. 88/2008 auk þess sem hún hafi ekkert leitt í ljós sem staðfesti grun gagnvart sér. Samt sem áður hafi lögreglan handtekið sig þrátt fyrir fyrirheit um annað ef hann samþykkti húsleit. Í þvingun til húsleitarheimildar hafi falist ólögmæt hótun, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 53. gr. sömu laga.

                Í fjórða lagi hafi lögreglan fengið kröfu um gæsluvarðhald staðfest í upphafi með villandi málflutningi. Hefði framangreind hljóðupptaka af símtali verið lögð fyrir dóminn, þegar krafa um gæsluvarðhald var lögð fram, hefði krafan ekki náð fram að ganga. Þá hafi því ranglega verið haldið fram á sama tíma að fundist hefðu fíkniefni heima hjá stefnanda. Þau efni sem fundust hafi ekki verið hörð efni og varsla þeirra er ekki brot sem fullnægir skilyrðum þess að hneppa stefnanda í gæsluvarðhald, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og 3. málsl. 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrár, auk þess sem legið hafi fyrir að stefnandi átti ekki efnin. Þá hafi, þegar úrskurðinn var kveðinn upp, ekki legið fyrir niðurstöður rannsókna tæknideildar lögreglunnar, á töskunni sem grunur var um að í væru leifar af kókaíni. Jafnvel að rannsókn lögreglunnar lokinni sé ósannað að um slíkt efni sé að ræða enda geti lyfið líkódín gefið jákvæða niðurstöðu á slíkum prófum. Ekki sé heldur getið um magn og styrkleika efnisins, ekki liggi fyrir hver eigi töskuna og stefnandi hafi ekkert vitað um hana.

                Í fimmta lagi hafi lögreglan farið offari í yfirheyrslum yfir stefnanda. Spurningarnar hafi verið leiðandi, meiðandi og villandi og réttur stefnanda til að svara ekki spurningum um ætluð brot sonar hans virtur að vettugi. Reynt hafi verið að hrella stefnanda, rugla hann í ríminu, vekja honum kvíða. Þá hafi verið veist að verjanda hans með dólgshætti í yfirheyrslu þann 14. apríl og vefengdur réttur stefnanda til að hafa verjanda. Að auki hafi stefnanda verið neitað um að ráðfæra sig við lögmann í yfirheyrslu þann 20. apríl. Þá hafi gögnum verið haldið frá verjanda og stefnanda ekki verið kynnt tafarlaust eftir að hann var sviptur frelsi hvort hann væri borinn sökum og hverjar þær sakir væru. Brotið hafi verið gegn ákvæðum sakamálalaga og mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð.

                Í sjötta lagi hafi honum verið haldið í gæsluvarðhaldi of lengi. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur, sbr. 2. mgr. 97. gr. sakamálalaga og 5. ml. 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrár. Þótt dómari hafi fallist á kröfu um gæsluvarðhald, skal þegar í stað láta mann lausan þegar ljóst er að skilyrði til gæsluvarðhalds skorti, þótt ekki sé komið að lokum þess tíma sem gæsluvarðhaldi er ætlaður í úrskurði.

                Í sjöunda lagi hafi freklega verið brotið á rétti hans með því að halda honum í einangrun að nauðsynjalausu við ófullnægjandi aðstæður. Hægt hefði verið að beita öðrum og vægari úrræðum en einangrun, aðbúnaður á lögreglustöðinni við Hverfisgötu hafi ekki fullnægt lágmarksskilyrðum laga og mannréttindasáttmála um aðbúnað gæsluvarðhaldsfanga og ekkert tillit verið tekið til veikinda hans í varðhaldsaðbúnaði.

                Í áttunda lagi hafi verið gerð tilefnislaus, ólögmæt og heimildarlaus húsleit þann 21. apríl. Leitin hafi verið gerð án dómsúrskurðar, án þess að stefnanda hafi verið gefinn kostur á að vera viðstaddur og framkvæmd hennar verið niðurlægjandi og tillitslaus í hans garð auk þess sem samræður lögreglu við nágranna hans hafi verið óþarfar og ærumeiðandi gagnvart honum.

                Í níunda lagi hafi hann ekki verið kvaddur fyrir dóm þegar stefndi krafist úrskurðar dóms um heimild til að afla upplýsinga um fjármál hans. Engir rannsóknarhagsmunir hafi réttlætt það að hann hafi ekki verið kvaddur á dómþing. Þá náði úrskurður dómsins ekki til þess að rannsaka bankahólf hans nema með atbeina hans sjálfs. Engir rannsóknarhagsmunir stóðu því í vegi að stefnanda væri gefinn kostur á að vera við opnun hólfsins og gæta hagsmuna sinna. Þá hafi fjármunir sem fundust í bankahólfinu verið haldlagðir og gerðir upptækir með ólögmætum hætti þar sem þessir fjármunir geti ekki hafa verið hagnaður af þeim fíkniefnaviðskiptum sem rannsókn málsins laut að. Gengið hafi verið á eignarrétt stefnanda með töku verðmætanna. Vegna þessa hyggst stefnandi leita réttar síns á öðrum vettvangi en hann er ekki bundinn af upptökuákvæði dóms í máli sem hann var ekki aðili að.

                Stefnandi byggir á því að framangreindar aðgerðir lögreglu hafi valdið honum fjártjóni og miska. Hann hafi hlotið töluvert heilsutjón af fangavistinni og rannsókninni, bæði á sál og líkama, misst trúverðugleika og fjölskyldan verið í sárum. Meðal afleiðinga sé skert sjálfstraust, skert traust til ástvina og annars fólks yfirhöfuð, tortryggni gagnvart stofnunum, kvíði og fleiri einkenni áfallastreituröskunar ásamt skertu mannorði, sem m. a. leiði til þess að hann geti ekki vænst þess að njóta nægrar virðingar undirmanna þótt honum tækist að fá stjórnunarstöðu sambærilega þeirri sem hann gegndi. Þá hafi friðhelgi einkalífs hans að ósekju verið skert með aðgerðum lögreglu. Bótakröfuna sundurliðar stefnanda með eftirfarandi hætti:

 

Frelsissvipting – handtaka, handjárnun, hald og einangrun

í óhæfri vist 11.–21. apríl 2010 (250 klst./10.000 kr.)                                                                   2.500.000

Yfirheyrslur 11., 14. og 20. apríl og 7. júní sl.                                                                                     400.000

Húsleit og haldlagning 11. og 21. apríl                                                                                                 300.000

Aðgangur lögreglu að upplýsingum um fjármál 1. jan.–12. apr.                                                    200.000

Rannsókn á bankahólfi og haldlagning 12. apríl                                                                              300.000

Símahlerun 7. janúar–4. mars                                                                                                               300.000

Samtals krónur:                                                                                                                                    4.000.000

 

                Auk framangreindrar fjárkröfu krefst stefnandi viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna atvinnumissis. Byggir hann á því að bein orsakatengsl séu á milli aðgerða lögreglu og starfsloka hans hjá B ehf. Vinnuveitandi hans hafi réttilega litið svo á að hann gæti ekki haft mannaforráð og haldið trausti undirmanna og yfirmanna þar sem hann lá undir grun um stórfellt fíkniefnamisferli. Hann hafi enga raunhæfa möguleika á að fá sambærilegt starf á ný. Auk þess sé hann enn óvinnufær eftir fangavistina og verði um óvissan tíma.

                Stefnandi byggir ekki kröfur á ákvæðum skaðabótalaga um bætur fyrir líkamstjón en áskilur sér að leita réttar síns vegna varanlegrar örorku. 

                Helstu málástæður stefnda

                Stefndi krefst sýknu og byggir á því að fullt tilefni hafi verið til allra aðgerða lögreglu, sem hafi verið lögmætar og ekki gengið lengra en þörf var á. Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi neitað að svara spurningum lögreglu og hafi af þeim sökum sjálfur stuðlað að aðgerðum sem beindust að honum og með því fyrirgert öllum bótarétti eða til vara að háttsemi hans leiði til lækkunar bóta sbr. síðari málslið 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

      Almennt mótmælir stefndi öllum málsástæðum stefnanda, öllum lýsingum hans á því að aðgerðir lögreglu hafi brotið í bága við lög eða að framkvæmd þeirra hafi ekki samræmst gildandi reglum. Stefndi mótmælir jafnframt þeim staðhæfingum stefnanda að það hafi borið að hafa annan hátt á rannsókn málsins, m.a. þeirri að borið hafi að yfirheyra hann sem vitni eða taka skýrslu af honum fyrir dómi. Þá mótmælir hann því að málflutningur lögreglu hafi verið villandi þegar kröfur um þvingunarúrræði hafi verið bornar undir dómstóla. Allt sem máli skipti hafi verið rakið í kröfugerðum sem lagðar voru fyrir dómara, ekkert dregið undan né sett fram á villandi hátt. Kröfugerðir og dómsúrskurðir, sem séu meðal gagna málsins, staðfesti þetta.

                Stefndi byggir á því að stefnandi hafi verið undir rökstuddum grun um aðild að broti gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í talsverðan tíma áður en til handtöku kom þann 11. apríl 2010. Til marks um það sé sú ráðstöfun lögreglu að fara fram á heimild til að fylgjast með símasamskiptum stefnanda 7. janúar 2010. Tilefni hennar hafi verið upplýsingar sem komu fram í símtali stefnanda við annan sakborning í málinu sem þóttu benda sterklega til aðildar hans að innflutningi fíkniefna. Við leit á heimili stefnanda þann 11. apríl hafi grunur lögreglu styrkst enn frekar þar sem í geymslu á heimili stefnanda hafi fundist hlutar af tösku með kókaínleifum. Hlutar þessir samsvöruðu frágangi á sérútbúnum töskum sem höfðu verið notaðar við innflutning fíkniefna og lagt hafi verið hald á áður. Fullt tilefni hafi því verið til handtöku stefnanda þar sem rökstuddur grunur hafi leikið á að hann hefði framið það brot sem til rannsóknar var. Skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 hafi verið uppfyllt. Brýna nauðsyn hafi borið til að taka frekari skýrslur af honum og koma í veg fyrir að hann gæti spillt fyrir frekari rannsókn málsins. Við handtökuna hafi margvísleg atriði í gögnum málsins bent til sektar stefnanda þótt málið hafi síðar verið fellt niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008. Stefndi mótmælir því að lögreglan hafi ekki gætt meðalhófs við handtökuna með því að færa hann í handjárnum á milli heimilis og lögreglustöðvar. Slík ráðstöfun sé að mati lögreglu eðlileg og sjálfsögð þegar handtekinn maður er fluttur á milli staða. Eftir handtöku beri lögreglu að tryggja öryggi hins handtekna og annarra sem og að tryggja að hinn handtekni sleppi ekki úr gæslu hennar. Hefðbundin vinnubrögð lögreglu hafi verið viðhöfð í þessu tilviki og ósannað sé að stefnandi hafi vakið athygli á því að hann væri veikur í öxl og þyldi ekki að vera handjárnaður með hendur fyrir aftan bak.

                Fram kemur í lögregluskýrslu, dags. 11. apríl 2010, að stefnanda hafi verið kynnt sakarefnið og réttarstaða sín þegar við handtöku og er staðhæfingum um annað mótmælt sem röngum. Eiginleg handtökuskýrsla hafi ekki verið gerð en skilmerkilega sé greint frá handtökunni í áðurnefndri lögregluskýrslu. Handtakan hafi því verið fyllilega réttlætanleg og lögmæt.

                Stefnandi hafi samþykkt skriflega húsleitina sem var gerð á heimili hans að [...] þann 11. apríl 2010. Því sé mótmælt að hann hafi sætt þvingunum í þessu efni þótt legið hafi fyrir og honum verið kynnt sú fyrirætlan lögreglu að óska úrskurðar dómstóls til húsleitar ef stefnandi heimilaði hana ekki sjálfur. Skilyrði 1. og 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 hafi verið uppfyllt þar sem rökstuddur grunur um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hafi verið fyrir hendi. Þá hafi m.a. fíkniefni og hlutar úr tösku með kókaínleifum fundist við leitina. Hvað tímasetninguna varðar þá bendir stefndi á að húsleit hafi farið fram kl. 00:19 þann 11. apríl í kjölfar handtöku stefnanda. Tímasetning handtöku og húsleitar hafi helgast af því að fyrr sama kvöld, eða kl. 22:59, hafi aðilar sem rannsóknin beindist að verið handteknir og hald lagt á umtalsvert magn ólöglegra fíkniefna sem þeir hafi haft í fórum sínum skömmu eftir að þau hafi komið til landsins. Því hafi verið óhjákvæmilegt með tilliti til rannsóknarhagsmuna að framkvæma handtöku og leit á heimili stefnanda á þessum tíma sólarhrings.

                Krafa um gæsluvarðhald stefnanda hafi verið byggð á a-lið 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Dómari hafi fallist á að stefnandi væri undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem gat varðað allt að 16 ára fangelsi og að hann hafi getað torveldað rannsókn málsins, sem hafi verið á frumstigi, eða haft áhrif á vitni eða samseka, gengi hann laus. Tveir úrskurðir héraðsdóms liggi fyrir þar sem fallist hafi verið á kröfu lögreglunnar um gæsluvarðahald. Báðir úrskurðirnir hafi verið kærðir til Hæstaréttar og Hæstiréttur hafi fallist á sjónarmið héraðsdóms um að rökstuddur grunur lægi fyrir um að stefnandi hefði framið þann verknað sem hann var sakaður um. Lengd gæsluvarðhaldsins hafi verið eðlileg, ekki síst í ljósi þess að stefnandi neitaði ítrekað að svara spurningum lögreglu. Því sé mótmælt að aðbúnaður stefnanda í gæsluvarðhaldi hafi verið ólögmætur eða að brotið hafi verið gegn 4. mgr. 3. gr. laga nr. 49/2005, sbr. 3. mgr. mannréttindasáttmála Evrópu og 7. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna. Einangrun hafi verið nauðsynleg eins og á hafi staðið og önnur og vægari úrræði hefðu verið ófullnægjandi. Gæsluvarðhaldið hafi því í alla staði verið réttlætanlegt og lögmætt.

                Stefnandi var yfirheyrðu þrisvar sinnum meðan á gæsluvarðhaldi hans stóð og tvisvar eftir að hann var laus úr haldi. Í öllum tilvikum hafi verjendur verið viðstaddir og engar athugasemdir gerðar af þeirra hálfu við framkvæmd yfirheyrslnanna. Stefnanda hafi verið kynnt sakarefnið með skilmerkilegum hætti í hvert sinn sem og réttarstaða hans. Stefndi mótmælir því að spurningar lögreglu og yfirheyrslur yfir honum hafi verið óskýrar eða tvíræðar. Allar yfirheyrslur hafi verið teknar upp, ýmist hljóð og mynd eða eingöngu hljóð, og endurrit þeirra séu meðal gagna málsins. Af þeim verði ekki annað séð en spurningar lögreglu séu skýrar og ótvíræðar og hvorki leiðandi, meiðandi né villandi. Stefndi hafi á hinn bóginn verið nokkuð ósamvinnuþýður, ítrekað neitað að upplýsa lögreglu um hvað væri í bankahólfi hans og þegar hann hafi svarað efnislega hafi hann sagt ósatt.

                Stefndi mótmælir því að leit lögreglu í bankahólfi hans hafi verið ólögmæt. Til grundvallar henni lá úrskurður Héraðsdóms Reykjaness nr. R-252/2010. Lagt hafi verið hald á fjármuni og skartgripi, sem fundust í hólfinu, og þeir hafi síðar verið gerðir upptækir með dómi Hæstaréttar nr. 495/2010.

                Þá mótmælir stefndi því að gerð hafi verið húsleit án heimildar hjá stefnda þann 21. apríl. Í umrætt sinn hafi lögregla farið að heimili hans í þeim eina tilgangi að kanna, vegna framburðar vitnis, hvort tilteknir lyklar gengju að læsingu á geymslu stefnanda til að athuga hvort fleiri en sakborningar málsins kynnu að hafa haft aðgang að henni. Í þessu hafi ekki falist húsleit að mati stefnda. Ef dómurinn telur á hinn bóginn að um húsleit hafi verið að ræða, byggir stefndi á því að húsleitarheimildin frá 11. apríl hafi veitt lögreglu heimild til þeirrar aðgerðar. Aðgerðin þjónaði lögmætum rannsóknarhagsmunum og hafi hvorki verið tilefnislaus, ólögmæt né heimildarlaus, hún hafi ekki skert friðhelgi stefnanda og ekki verið framkvæmd af tillitsleysi eða til þess að niðurlægja og skaða orðspor hans meðal nágranna.

                Ályktun stefnanda um að fjölmiðlar hafi fengið upplýsingar frá lögreglu um nöfn sakborninga í málinu er órökstudd og tilhæfulaus með öllu.

                Almannahagsmunir krefjist þess að brot séu rannsökuð og upplýst og hefur lögregla í því sambandi allvíðtækar heimildir sem geti, eins og í tilviki stefnanda, leitt til þess að menn sem ekki verða sakaðir eða sakfelldir fyrir brot, geti þurft að sæta skerðingu á réttindum sínum. Taka verði tillit til umfangs málsins og ætla lögreglu lágmarkssvigrúm til rannsóknar þess. Þá hafi stefnandi stuðlaði að aðgerðum lögreglu, þ.e. gæsluvarðhaldi, með aðgerðum sínum. Hann hafi neitað að skýra tilvist töskunnar sem fannst í geymslu hans og greint rangt frá eignarhaldi fjármuna og skartgripa sem voru í bankahólfi hans. Þá hafi hann við yfirheyrslur lögreglu oft neitað að tjá sig efnislega um atriði rannsóknarinnar. Öll lögmælt skilyrði til handtöku, leitar og gæsluvarðhalds hafi verið fyrir hendi. Beiting þessara þvingunarúrræða hafi verið fyllilega lögmæt og eðlileg með hliðsjón af málsatvikum á þeim tíma sem ákvarðanir voru teknar og í fullu samræmi við réttarframkvæmd. Úrskurðir í þessum efnum voru kveðnir upp af þar til bærum dómstól og eftir atvikum staðfestir af Hæstarétti.

                Þá byggir stefndi á því að allar staðhæfingar stefnanda um að hann hafi orðið fyrir tjóni séu ósannaðar en á honum hvílir sönnunarbyrðin í þessu efni. Ósannað sé að stefnandi hafi hlotið heilsutjón vegna aðgerða lögreglu, hvorki á sál né líkama. Sömuleiðis sé ósannað að hann hafi orðið fyrir mannorðshnekki eða misst trúverðugleika, nágrannar og vinir hafi tekið honum fálega eftir að hann var látinn laus og fjölskylda hans hafi verið í sárum. Enn fremur séu ósannaðar staðhæfingar um skert sjálfstraust, skert traust ástvina og annars fólks yfirhöfuð, tortryggni stefnanda gagnvart stofnunum, kvíða og að stefnandi hafi fengið áfallastreituröskun vegna aðgerða lögreglu. Orsakatengsl á milli aðgerða lögreglu og læknismeðferð stefnanda séu ósönnuð auk þess sem stefndi vísi á bug ábyrgð sinni á umfjöllun fjölmiða um málið. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegri örorku vegna aðgerða lögreglu.

                Loks telur stefndi ósannað að orsakasamband sé á milli aðgerða lögreglu og starfsloka stefnanda. Ósannað sé með öllu hversu lengi stefndi hefði haldið umræddu starfi og sé því sérstaklega mótmælt að stefnandi hafi glatað atvinnutekjum sem hann mátti vænta til loka starfsgetu. Fráleitt sé að stefnandi eigi ekki afturkvæmt á vinnumarkað af þeim ástæðum sem tilgreindar séu í stefnu.

                Varakröfu sína um lækkun kröfu stefnanda styður stefndi við þær málsástæður og sjónarmið sem fram koma að framan varðandi aðalkröfu og vísar auk þess til þess að hún sé ekki í neinu samræmi við dómvenju hvað varðar fjárhæð bóta. Í 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 er heimild til að lækka bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Stefndi byggir á því að lækka eigi bætur til hans vegna þessa með vísan til þeirra sjónarmiða sem stefndi færði fyrir þessari málsástæðu í umfjöllun um sýknukröfu hér að framan.

                Þá mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnanda og dráttarvaxtakröfu en ef vextir eða dráttarvextir verða dæmdir komi þeir fyrst til álita þegar mánuður er liðinn frá birtingu stefnu í málinu í samræmi við 9. gr. laga nr. 38/2001.

                Forsendur og niðurstaða

                Í máli þessu er deilt um bótaskyldu stefnda vegna þvingunarráðstafana sem lögreglan beitti við rannsókn á fíkniefnainnflutningi á tímabilinu janúar til apríl 2010. Stefnandi lá undir grun af hálfu lögreglunnar um aðild að undirbúningi þess innflutnings en málið var fellt niður gagnvart honum þann 7. júlí 2010 þar sem það sem fram var komið var hvorki talið líklegt né nægilegt til sakfellingar.

                Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, á maður sem borinn er sökum í sakamáli rétt til bóta ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna ósakhæfis hans. Í 2. mgr. sömu greinar er rakið hvaða þvingunaraðgerðir geti stofnað bótarétt samkvæmt 1. mgr. og jafnframt mælt fyrir um að fella megi niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á.

                Bótaregla 228. gr. felur í sér hlutlæga bótaábyrgð stefnanda og er óumdeilt að skilyrði 1. mgr. greinarinnar eru fyrir hendi í þessu máli, þ.e. að stefnandi sætti aðgerðum lögreglu, sem kveðið er á um í fyrri málslið 2. mgr. 228. gr. og mál hans var fellt niður svo sem kveðið er á um í 1. mgr. sömu greinar. Er bótaréttur hans samkvæmt greininni því ekki háður skilyrðum um að aðgerðir lögreglu hafi verið ólögmætar.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi sjálfur hafi stuðlað að eða valdið því að gripið hafi verið til aðgerða gegn honum og því beri að fella niður, eða a.m.k. lækka, bætur til hans af þeim sökum. Verður fyrst vikið að þessari málsástæðu.

                Atvik máls eru rakin í atvikalýsingu. Af henni má sjá að lögreglan hafði um nokkurt skeið rannsakað umfangsmikinn fíkniefnainnflutning sem henni höfðu borist upplýsingar um að væri í undirbúningi. Við hlerun síma manns, sem grunaður var um aðild að málinu, komu fram upplýsingar sem lögreglan taldi að bentu til þess að stefnandi væri viðriðinn málið eða byggi að minnsta kosti yfir vitneskju um það en lögreglan taldi son stefnanda vera einn af skipuleggjendum innflutningsins. Á þeim grunni fékk lögreglan heimild til að hlera síma stefnanda. Jafnvel þótt ekki liggi fyrir að lögreglan hafi orðið neins vísari við þær hleranir er ekki fallist á að þær hafi verið tilefnislausar. Vísast í því sambandi til þess sem rakið er í atvikalýsingu um samtalið milli stefnanda og þriðja manns, sem var tilefni þess að lögreglan óskaði úrskurðar um hlerun á síma hans. Í samtalinu vísar stefnandi til þess að hann vilji fá „hressingu“ og jafnframt að viðmælandi hans eigi ekki sjálfur að standa í að útvega það heldur fá aðra til þess. Þá ræddu þeir líka um samband viðmælanda við son stefnanda, sem grunaður var um skipulagningu innflutningsins. Verður með vísan til þessara gagna ekki önnur ályktun dregin en það hafi verið samtal stefnanda sjálfs sem varð þess valdandi að hann sætti þeirri skerðingu á friðhelgi einkalífs síns, sem símahlerunin felur í sér. Er það mat dómsins að skilyrði hlerunar á síma stefnanda hafi verið fyrir hendi sbr. 1. og 3. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 og það hafi verið samtal stefnanda sjálfs við þriðja aðila sem gaf lögreglu ástæðu til að ætla að upplýsingar sem máli skiptu varðandi fíkniefnainnflutninginn gætu fengist með þeim hætti. Á stefnandi því ekki rétt til bóta vegna þessara aðgerða.

                Lögreglan hafði stefnanda áfram undir grun um að búa yfir vitneskju um málið og á þeim grunni gerði hún húsleit á heimili stefnanda, handtók hann síðan og færði í fangageymslu lögreglunnar á Hverfisgötu. Við húsleitina fannst m.a. taska, sem grunur lék á að hefði verið notuð til innflutnings á fíkniefnum, og lykill að bankahólfi sem síðar kom í ljós að innihélt mikið reiðufé og dýra skartgripi. Að mati dómsins voru þessi munir til þess fallnir að fella grun á stefnanda, að minnsta kosti á þann veg að hann vissi eitthvað um ólöglegan innflutning fíkniefna. Dómurinn felst ekki á að lagaskilyrði hafi skort fyrir framangreindri húsleit. Verður í því sambandi að taka mið af því að rannsókn lögreglu beindist að stórfelldu broti sem margir menn voru viðriðnir, rannsóknin var á frumstigi og grunur hafði fallið á stefnanda vegna tengsla hans við sakborninga og símtals hans við einn þeirra. Að mati dómsins voru því fyrir hendi skilyrði til húsleitar hjá stefnanda skv. 1. og 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 og jafnframt til handtöku hans í kjölfar húsleitarinnar í ljósi þess að við húsleitina fundust munir sem lögreglan hafði með réttu rökstuddan grun um að tengdust fíkniefnainnflutningi. Er hér annars vegar vísað til töskunnar sem fannst í geymslu íbúðarinnar en rannsókn lögreglu á töskunni leiddi síðar í ljós að í henni voru leifar af kókaíni. Ekki er hald í þeirri málsástæðu stefnanda að efast megi um niðurstöðu þeirrar efnarannsóknar. Hins vegar fannst lykill að bankahólfi sem í voru fjármunir og skartgripir sem síðar voru gerðir upptækir í dómi þar sem sannað þótti að um afrakstur ólöglegra fíkniefnaviðskipta væri að ræða. Þá voru jafnframt fyrir hendi skilyrði til að gera húsleit á þeim tíma sólarhrings sem hún fór fram, þ.e. laust eftir miðnætti. Í því efni er þess að gæta að skömmu áður, eða síðdegis þann 10. apríl, hafði lögreglan lagt hald á mikið magn kókaíns sem reynt var að smygla til landsins. Réttlættu brýnir rannsóknarhagsmunir að ekki væri beðið með rannsókn málsins, þ.m.t. húsleit hjá stefnanda og voru skilyrði 3. mgr. 79. gr. því fyrir hendi þegar húsleitin fór fram.

                Ekki var gerð sérstök handtökuskýrsla þegar stefnandi var handtekinn og stefnandi heldur því fram að honum hafi ekki verið kynnt réttarstaða handtekinna manna. Í skýrslu lögreglunnar, sem gerð var þegar eftir að stefnandi var handtekinn, kemur fram að honum hafi verið kynnt að hann hafi verið handtekinn vegna gruns um fíkniefnamisferli og jafnframt að honum hafi verið gerð grein fyrir réttarstöðu sinni. O lögreglumaður, sem ritaði skýrsluna, kom fyrir dóm og staðfesti efni hennar. Þótt ekki liggi fyrir sérstök handtökuskýrsla svo sem ber að gera, sbr. 21. gr. reglugerðar nr. 651/2009 hefur stefnandi ekki leitt líkur að því eða fært sönnur á að efni lögregluskýrslu sé rangt hvað þetta atriði varðar og verður því við úrlausn málsins lagt til grundvallar að honum hafi verið kynnt sakarefnið með framangreindum hætti við handtökuna.

                Þá byggir stefnandi á því að framkvæmd handtökunnar hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Ekki hafi verið þörf á að færa hann í handjárnum út í lögreglubifreiðina, það hafi orðið honum til minnkunar í augum nágranna sinna auk þess sem hann hafi illa þolað þá meðferð vegna veikinda í öxl sem hann hafi greint lögreglunni frá á staðnum. Hann hafi einnig með ólögmætum hætti verið handjárnaður með þessum hætti þegar hann fékk að ná í muni heim til sín meðan á gæsluvarðahaldinu stóð. Fyrir dómi kannaðist vitnið O, sem var einn lögreglumannanna sem handtóku stefnanda, við að stefnandi hefði minnst á axlarmeiðsli síns við handtökuna og í gögnum málsins liggja fyrir læknisfræðileg gögn sem staðfesta að stefnandi hefur átt við þrálát axlarmeiðsli að stríða. Í 4. gr. reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna er fjallað um notkun handjárna við handtöku. Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að rétt sé að handjárna menn við handtöku enda sé ástæða til að ætla að maður muni reyna flótta, beita ofbeldi eða valda sjálfum sér eða öðrum tjóni og í 2. mgr. er notkun handjárna heimiluð af öryggisástæðum ef sá handtekni er æstur eða órólegur. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að framangreindar aðstæður hafi verið uppi við handtöku stefnanda og framburður þeirra lögreglumanna sem stóðu að handtökunni og gáfu skýrslu fyrir dómi veita ekki vísbendingu um að aðstæður hafi verið slíkar að handjárnun hafi verið nauðsynleg. Er því fallist á það með stefnanda að eins og atvikum var háttað, einkum með hliðsjón af veikindum hans, hafi það brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og verið í andstöðu við ákvæði framangreindra reglna að handjárna hann með hendur fyrir aftan bak við handtöku og síðar þegar farið var með hann heim til að ná í muni til að hafa með sér í gæsluvarðhaldsvistina en þeirri staðhæfingu stefnanda að það hafi verið gert, hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda.

                Stefnandi heldur því fram að honum hafi ekki verið kynnt sakarefnið sem til rannsóknar var með fullnægjandi hætti og með því hafi verið brotið á rétti hans samkvæmt 2. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð sakamála. Byggir hann málsástæðu þessa á því að við yfirheyrslur og endranær hafi lögreglan einvörðungu vísað til tilraunar til fíkniefnainnflutnings þann 10. apríl en ekki til annarra atvika. Við úrlausn þessa atriðis vísast til þess sem að framan er rakið um upplýsingar sem ætla verður að stefnandi hafi fengið þegar hann var handtekinn. Þá kemur fram í endurriti af fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu, þann 11. apríl 2010, að stefnanda er í upphafi skýrslutöku kynnt að hann sé grunaður um aðild og samvinnu við aðra um innflutning á fíkniefnum til Íslands og síðan segir í endurritinu „þessi umræddu fíkniefni sem við erum að tala um núna komu til landsins í ferðatösku frá Spáni í gær“. Í skýrslutökunni er stefnandi síðan fyrst og fremst spurður út í þá muni sem haldlagðir voru á heimili hans, einkum áðurnefnda tösku og innihald bankahólfsins, sem eðli máls samkvæmt gátu ekki tengst innflutningi frá deginum áður. Að mati dómsins getur það ekki hafa farið milli mála að rannsókn lögreglu einskoraðist ekki við innflutninginn sem stöðvaður var degi fyrr þótt lögreglan vísi til hans í upphafi skýrslutökunnar. Þá er ekki fallist það með stefnanda að honum hafi borið að fá án tafar vitneskju „í smáatriðum um eðli og orsök þeirra saka sem á hann voru bornar“ svo sem haldið er fram í stefnu, enda verður að ætla lögreglu eitthvert svigrúm til að yfirheyra grunaðan mann án þess að hann þekki í smáatriðum til þeirra atvika og upplýsinga sem lögregla hefur þegar undir höndum. Er það mat dómsins að stefnanda hafi með fullnægjandi hætti verið gerð grein fyrir sakarefni málsins og er ekki fallist á staðhæfingar stefnanda þess efnis að yfirheyrslur yfir honum hafi ekki að beinst að atriðum sem tengdust rannsókn málsins. Er því hafnað að brotið hafi verið á rétti stefnanda samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 88/2008 og 2. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar.

                Svo sem að framan greinir fannst taska með fíkniefnaleifum við húsleit á heimili stefnanda og í bankahólfi hans fundust mikil verðmæti í reiðufé og skartgripum. Mátti stefnanda vera ljóst að þessi fundur var til þess fallinn að styrkja grun lögreglu um aðild hans sjálfs að málinu eða að minnsta kosti grun um að hann byggi yfir einhverri vitneskju um það. Því var mikilvægt að stefnandi greindi undanbragðalaust rétt frá vitneskju sinni um þessa muni til að flýta fyrir rannsókn þess.

                Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 11. apríl kvaðst stefnandi sjálfur eiga verðmætin í bankahólfinu. Hann segir að í hólfinu séu einhverjir peningar og skjöl í sinni eigu en neitar að öðru leyti að tjá sig um það og neitar lögreglu einnig um heimild til að kanna bankahólfið. Í skýrslutöku þremur dögum síðar greinir hann aftur rangt frá um innihald bankahólfsins en neitar að öðru leyti að tjá sig um það atriði og vísar til þess að hann muni svara fyrir dómi. Í skýrslutöku þann 19. apríl, þegar honum hefur verið kynntur framburður sonar síns, sem kveðst eiga þessi verðmæti, neitar hann á ný að tjá sig um málið þar sem grunur beinist að syni hans. Við málflutning í máli ákæruvaldsins gegn syni hans, A, og fleirum kom stefnandi fyrir dóm. Hann kvaðst þá vera eigandi verðmætanna í bankahólfinu og sonur stefnanda neitaði því fyrir dómi að eiga verðmætin, öfugt við framburð hans hjá lögreglu sem fyrr er getið. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 495/2010, kveðnum upp 2. desember það ár, er talið sannað að A hafi verið eigandi umræddra verðmæta og jafnframt að þau væru ávinningur af sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna fram til 15. apríl 2010. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi með því að hafa í umráðum sínum ávinning af ólögmætri starfsemi og veita ófullnægjandi og röng svör um það atriði, bæði í skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi, með nokkrum hætti stuðlað sjálfur að aðgerðum lögreglu gegn sér. Hefur þetta óhjákvæmilega áhrif á bótarétt hans samkvæmt 1 mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 sbr. 2. mgr. sömu greinar. Jafnvel þótt stefnandi hafi haft ótvíræðan rétt til að skorast undan því að svara spurningum lögreglu varðandi ætlaða refsiverða hegðun hans sjálfs, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga um meðferð sakamála, verður hann að una því að nýti hann þann rétt kunni það að leiða til lækkunar eða brottfalls bótaréttar. Sama á við hafi hann greint rangt frá atvikum máls. Þá er ekki fallist á að stefnandi hafi haft sérstakan rétt til að neita að tjá sig nema fyrir dómi, svo sem hann heldur fram, enda er meginreglan sú að skýrslutökur á rannsóknarstigi fara fram hjá lögreglu og undantekningarnar sem kveðið er á um í 59. gr. laga nr. 88/2008, eiga ekki við í málinu.

                Á hinn bóginn er það sérstakt úrlausnarefni hér hvernig skýrslutökum var háttað að því er varðar spurningar lögreglunnar um ætlaðan þátt sonar stefnanda. Þótt stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings naut hann eftir sem áður réttar til að skorast undan því að svara spurningum ef svarið gat falið í sér bendingu um refsiverðan verknað sonar hans, sbr. síðari málslið 1. mgr. 118. gr. sbr. b-lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008. Af endurritum skýrslutaka yfir stefnanda má sjá að lögreglan vakti ekki athygli stefnanda á þessum rétti hans svo sem henni bar, sbr. 2. mgr. 65. gr. sömu laga. Afrit skýrslutöku sýna einnig að í framkvæmd var þessi réttur hans virtur að vettugi þar sem hann er ítrekað spurður út í þátt sonar síns, þrátt fyrir að stefnandi lýsi því margsinnis yfir að hann hyggist ekki vitna gegn honum. Á þetta við um skýrslutöku þann 11. apríl og þó einkum skýrslutökuna sem fór fram 20. apríl. Verður ekki annað séð en að rannsókn á aðild stefnanda að umræddum fíkniefnainnflutningi hafi fljótlega eftir að stefnandi var hnepptur í gæsluvarðhald að miklu leyti beinst að vitneskju hans um ferðir og athafnir sonar hans, sem á þeim tíma var grunaður um að vera aðalskipuleggjandi fíkniefnainnflutningsins sem til rannsóknar var. Að virtum rétti stefnanda til að skorast undan því að bera vitni gegn syni sínum er að mati dómsins ljóst að stefnandi sat í gæsluvarðhaldi lengur en tilefni var til. Þá var það enn til að draga gæsluvarðhald hans á langinn að rannsókn á töskunni, sem fannst í kjallarageymslu á heimili hans, fór ekki fram fyrr en níu dögum eftir að hún var haldlögð og það var fyrst í skýrslutöku þann 20. apríl sem stefnanda eru sýndar ljósmyndir af umræddri tösku og kynnt niðurstaða rannsóknar á efnisleifum sem fundust á henni. Engar skýringar liggja fyrir um ástæður þessara tafa. Á hinn bóginn er hafnað staðhæfingu stefnanda að öðru leyti um að staðið hafi verið að skýrslutökum með ólögmætum hætti, svo sem með því að reyna að rugla stefnanda í rýminu eða valda honum vanlíðan með öðrum hætti. Þá fá staðhæfingar stefnanda um að honum hafi verið neitað um að ráðfæra sig við lögmann, meðan á yfirheyrslum stóð, ekki stoð í gögnum málsins en verjandi stefnanda var viðstaddur allar yfirheyrslur yfir stefnanda. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt greina megi á afriti skýrslutaka að stefnandi og verjandi hans hafi ekki að öllu leyti verið sáttir við framferði og spurningar lögreglu og lögregla hafi kosið að spyrja stefnanda oft út í sömu atriðin.

                Þá er í málatilbúnaði stefnanda staðhæft að lögreglan hafi beitt vísvitandi blekkingum og ýkjum þegar krafist var dómsuppskurða fyrir þvingunaraðgerðum gegn honum en fyrir liggur að fimm úrskurðir voru kveðnir upp á tímabilinu 7. janúar. til 11. apríl 2010. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda. Varðandi blekkingarnar vísar stefnandi til þess að í skýrslu lögreglunnar þann 23. mars 2010 sé sonur stefnanda talinn höfuðpaur í skipulagningu fíkniefnainnflutnings en í skýrslu frá deginum áður hafi höfuðpaurinn verið talinn vera annar nafngreindur maður. Stefnandi hefur ekki fært fram frekari gögn til stuðning framangreindri staðhæfingu um blekkingar og teljast þær því ósannaðar. Þá er jafnframt hafnað staðhæfingum stefnanda um að hlutur hans hafi verið ýktur í kröfugerð lögreglunnar fyrir dómi en af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu verður ekki annað ráðið en að niðurstaða dóms hafi ráðist af þeim atriðum sem fyrir liggja og tekin hefur verið afstaða til hér að framan.

                Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að lögreglan hafi gert heimildarlausa húsleit á heimili hans 21. apríl 2010, en stefnandi bjó í fjölbýlishúsi. Segir í lögregluskýrslu dags. sama dag að tveir lögreglumenn hafi farið og kannað hvort lyklar stefnanda gengju að fleiri geymslum í húsinu en þeirri sem tilheyrði íbúð hans. Jafnframt fengu þeir lykil að láni hjá öðrum íbúa hússins og könnuðu hvort hann gengi að geymslu stefnanda. Tilefni þessarar rannsóknar lögreglu var framburður eins sakbornings í málinu um að geymslulyklar sérhvers íbúa hússins gengju að öllum geymslunum. Ekki er fallist á það með stefnanda að þessi rannsókn lögreglunnar feli í sér húsleit, né heldur að hún hafi verið óþörf eða ærumeiðandi. Þá er jafnframt hafnað staðhæfingum stefnanda um að staðið hafi verið með ólögmætum hætti að rannsókn á bankahólfi hans. Fyrir liggur að stefnandi veitti misvísandi og röng svör um það hvað væri í bankahólfinu og neitaði lögreglu um heimild til að kanna innihald þess. Í ljósi þessa lágu brýnir rannsóknarhagsmunir að baki kröfu lögreglunnar um að fá að rannsaka innihald bankahólfsins án þess að stefnandi væri viðstaddur þá skoðun. Fyrir liggur úrskurður Héraðsdóms Reykjaness frá 11. apríl 2010 þar sem lögreglu var veitt sú heimild. Dómurinn féllst á kröfu lögreglu um að krafan yrði tekin fyrir að stefnanda fjarstöddum og bar lögreglunni því ekki skylda til að upplýsa stefnanda um það fyrr en að lokinni þeirri rannsókn sem úrskurður dómsins heimilaði.

                Þótt stefnandi sjálfur hafi að nokkru leyti stuðlað að því að hann var hnepptur í gæsluvarðhald og hafi með röngum eða engum svörum við spurningum lögreglu við skýrslutöku, sem miklu skiptu við rannsókn málsins, eftir að gæsluvarðhaldið hófst átt þannig þátt í því að draga það á langinn er það engu að síður niðurstaða dómsins að gæsluvarðahaldið hafi staðið lengur en tilefni var til. Þegar öll gögn málsins eru virt, tillit tekið til óskýrra svara stefnanda hvað hann sjálfan varðar og til þess hvernig yfirheyrslum að því er varðar þátt sonar hans og hvernig honum var háttað, er það mat dómsins að gæsluvarðhald lengur en fjóra sólarhringa eða til 15. apríl hafi ekki verið réttlætanlegt. Á þeim tíma hafði lögreglan handtekið son stefnanda, rannsakað bankahólf stefnanda og haft næg tök á að ljúka rannsókn á töskunni sem fannst í geymslu stefnanda. Þá verður með hliðsjón af aðstæðum í fangageymslu lögreglu að telja óverjandi að halda stefnanda þar í einangrun lengur en þann tíma. Stefnandi hefur lýst aðbúnaði í aðilaskýrslu og fyrir dómi þannig að hann hafi hvorki haft fullnægjandi rúm til að sofa á, ljós hafi ekki verið slökkt á nóttunni, hann hafi hvorki haft tök á hreyfingu utandyra né aðgang að læknisþjónustu auk þess sem fangaklefinn hafi verið lítill og gluggalaus. Stefndi hefur ekki leitast við að sýna fram á að þessi lýsing sé röng og verður þó að telja að það standi honum nær að færa sönnur á það, enda er það á ábyrgð stefnda að tryggja viðunandi aðbúnað gæsluvarðhaldsfanga. Þá segir í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 49/2005 að ekki sé heimilt að vista gæsluvarðhaldsfanga lengur en í fjóra sólarhringa í fangageymslum lögreglu, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Gæsluvarðhald stefnanda umfram fjóra daga fór í bága við þetta ákvæði enda hefur stefndi ekki rökstutt að þær sérstöku ástæður hafi verið fyrir hendi sem réttlættu það. Samkvæmt framansögðu á stefnandi rétt til bóta vegna gæsluvarðahalds á tímabilinu 16.–21. apríl, að báðum dögum meðtöldum, eða þar til hann var látinn laus um miðjan dag þann 21. apríl.

                Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að brotið hafi verið á rétti stefnanda með því að hann sætti gæsluvarðhaldi lengur en tilefni var til. Lengd gæsluvarðhaldsins má m.a. rekja til þess að ekki var gætt að rétti hans til að skorast undan því að bera vitni gegn syni sínum. Þá var ekki gætt meðalhófs við framkvæmd handtöku hans. Á hann af þessum sökum rétt til bóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 en svo sem áður greinir verða bætur til hans skertar þar sem telja verður að hann hafi að nokkru leyti stuðlað að þeim aðgerðum sem hann var beittur. Við mat á fjárhæð bóta er hins vegar til þess að líta að stefnandi sætti einangrun allan gæsluvarðhaldstímann við óforsvaranlegar aðstæður og var þannig með alvarlegum hætti brotið gegn mannréttindum hans. Auk þess hefur stefndi, með framlagningu ítarlegra gagna, m.a. vottorðs sálfræðings, heimilislæknis og yfirmatsgerðar, sem m.a. var unnin af geðlækni, sýnt fram á að einangrunarvistin var honum afar þungbær og glímdi hann við andlegar þjáningar af þessum sökum bæði meðan á vistinni stóð og alla tíð síðan. Er það mat dómsins að lengd gæsluvarðhaldsins og aðbúnaður sem stefnandi sætti í einangrunarvistinni hafi átt þátt í þessu tjóni stefnanda og teljist til miska samkvæmt 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

                Víkur þá að kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna atvinnumissis hans. Svo sem rakið er í atvikalýsingu var stefnandi framleiðslustjóri hjá B ehf. þegar hann var handtekinn. Þann 26. apríl 2010 var gerður við hann starfslokasamningur og bar C, sem undirritaði samninginn fyrir hönd vinnuveitanda stefnanda, fyrir dómi að ástæður uppsagnarinnar væri að rekja til handtöku og gæsluvarðhalds stefnanda. Bar hann að stefnandi hefði við þessar aðstæður misst nauðsynlegt traust undirmanna sinna til að geta sinnt starfi sínu áfram. Stefnandi byggir á því, hvað sem líði heilsutjóni hans, að hann eigi ekki afturkvæmt á vinnumarkaðinn vegna þess álitshnekkis sem rannsóknin og fréttaflutningur af henni ollu.

                Að framan hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðir lögreglu hafi í upphafi verið á rökum reistar og því er hafnað bótakröfu stefnanda vegna aðgerða lögreglu fram til þess tíma er hann var settur í gæsluvarðhald. Þá er það einnig niðurstaða dómsins að stefnandi hafi að nokkru stuðlað að því að hann var hnepptur í gæsluvarðhald og eigi af þeim sökum ekki rétt til bóta vegna gæsluvarðhalds fram til 15. apríl, svo sem nánar hefur verið rökstutt, að öðru leyti en vegna aðbúnaðarins. Þá er því hafnað sem ósönnuðu að stefndi beri ábyrgð á fréttaflutningi af málinu þar sem stefnandi var nafngreindur. Í þessu ljósi verður að líta svo á að ekki séu orsakatengsl á milli þeirra aðgerða lögreglu sem eru grundvöllur miskabóta stefnanda og atvinnumissis hans. Með öðrum orðum verður ekki önnur ályktun dregin af fyrirliggjandi gögnum og framburði C en að það hafi verið handtaka stefnanda, gæsluvarðhaldið og fréttaumfjöllun af sakamálinu sem var til rannsóknar sem leiddi til þess að hann missti vinnuna, óháð lengd gæsluvarðhaldsins og annarra atriða sem bótaréttur hans byggist á. Þegar af þessari ástæðu er kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu vegna atvinnumissis hafnað.

                Með vísan til alls framangreinds þykja bætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 800.000 krónur með vöxtum frá 11. apríl 2010, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, þ.e. frá því að hið bótaskylda atvik átti sér stað, og dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 1. maí 2011 en þá var mánuður liðinn frá því að stefnandi gerði kröfu þar að lútandi, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga.

                Stefnandi nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi dagsettu 1. september 2011. Er því ekki tilefni til að dæma málskostnað milli aðila. Allur málskostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Steingríms Gauts Kristjánssonar hrl., 1.050.000 kr. og Einars Gauts Steingrímssonar hrl., sem tók við málinu 2. nóvember sl., 750.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

                Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Guðmundi R. Guðlaugssyni, 800.000 krónur með vöxtum frá 11. apríl 2010 skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 1. maí 2011 til greiðsludags. Öðrum kröfum stefnanda er hafnað.

                Allur málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hans, Steingríms Gauts Kristjánssonar hrl., 1.050.000 kr. og Einars Gauts Steingrímssonar hrl., 750.000 krónur.