Print

Mál nr. 470/2017

Haukur Bjarnason (Magnús Björn Brynjólfsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.), Íslandsbanka hf. (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.) og Arion banka hf. (Karl Óttar Pétursson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
Reifun
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H um ógildingu á úthlutun til L hf., Í hf. og A hf. af nauðungarsöluandvirði fasteignar H. Í dómi héraðsdóms var tekið fram að H hefði einn verið þinglýstur eigandi fasteignarinnar og að eiginkona hans hefði áritað veðskuldabréfin um samþykki sitt eins og áskilið væri í 1. mgr. 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þá hefðu kröfur L hf. og A hf. verið byggðar á lánum sem hefðu verið bundin gengi erlendra mynta með þeim hætti að það fór í bága við 14., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og hefðu allar kröfurnar verið endurreiknaðar samkvæmt fyrirmælum laga nr. 38/2001. Í dómi Hæstaréttar kom fram að lán L hf.,sem krafa bankans byggði á, hefði verið lán í erlendri mynt sem ekki fór gegn ákvæðum síðastefndu laga. Að því virtu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júlí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 2. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um ógildingu á úthlutun til varnaraðila af nauðungarsöluandvirði fasteignarinnar Kvistalands 9 í Reykjavík. Sóknaraðili krefst þess aðallega hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „kröfulýsingar og úthlutun skv. frumvarpi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til varnaraðila ... vegna nauðungarsölu, sem fram fór hinn 20. júní 2016 á Kvistalandi 9, Reykjavík, verði ógiltar og ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um úthlutun skv. frumvarpi dags. 11. nóv. 2016, verði ómerkt.“ Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa varnaraðila, Íslandsbanka hf., „kröfulýsingu og úthlutun til hans“ samkvæmt fyrrnefndri nauðungarsölu verði lækkuð úr 6.795.539 krónum í 3.815.257 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar en að auki krefst varnaraðilinn Arion banki hf. málskostnaðar í héraði. Sá varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og kemur síðastnefnd krafa því ekki til álita hér fyrir dómi.

Varakrafa sóknaraðila byggir á því að veðskuldabréf útgefið af varnaraðila Íslandsbanka hf. 30. ágúst 2004, sem krafa bankans byggir á, hafi verið í íslenskum krónum og bundið gengi erlendra mynta með þeim hætti að í bága færi við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og að haga bæri endurútreikningi höfuðstóls lánsins samkvæmt því. Eins og rakið er í héraðsdómi var um að ræða skuld reista á skuldabréfi, sem samkvæmt yfirskrift þess var í erlendum gjaldmiðlum og þar sem fjárhæð skuldarinnar var skýrlega tilgreind í fimm erlendum myntum, sem sagt var að væru jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Form og efni skuldaskjalsins bar því ótvírætt með sér að um væri að ræða lán í hinum tilgreindu erlendu myntum. Var því um lán að ræða í erlendri mynt sem ekki fór gegn ákvæðum laga nr. 38/2001.

Í niðurstöðu úrskurðarins er ranglega tilgreint inn á hvaða kröfur varnaraðilans Arion banka hf. var úthlutað af söluverði fasteignar sóknaraðila. Af gögnum málsins verður ráðið að krafa varnaraðilans vegna skuldabréfs útgefnu 16. júní 2005 sem hvíldi á 7. veðrétt eignarinnar hafi verið greidd að fullu og að greitt hafi verið 2.864.490 krónur upp í kröfu vegna skuldabréfs útgefnu 31. janúar 2007 sem hvíldi á 8. veðrétt eignarinnar.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Haukur Bjarnason, greiði varnaraðilum, Landsbankanum hf., Íslandsbanka hf. og Arion banka hf., hverjum um sig, 120.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2017

 

1             Máli þessu var skotið til héraðsdóms með yfirlýsingu við fyrirtöku hjá sýslu­manni 19. desember 2016 og bréfi sem barst dóminum 28. desember 2016.  Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 12. júní sl. 

2             Málið varðar úthlutun söluandvirðis fasteignarinnar Kvistalands 9, sem seld var nauðungarsölu 20. júní 2016.  Sóknaraðili er Haukur Bjarnason, til heimilis að Kvistalandi 9, en hann var þinglýstur eigandi og því gerðarþoli.  Varnaraðilar eru þrír af veðhöfum sem eiga að fá greiðslu samkvæmt frumvarpi sýslumanns að úthlutun nauðungarsöluandvirðis, þ.e. Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík, Íslands­banki hf., Suðurlandsbraut 14, Reykjavík, og Arion banki hf.. Borgartúni 19, Reykjavík. 

                Í áðurnefndu bréfi var málinu einnig skotið til dómsins í nafni eiginkonu sóknaraðila Hauks, Jóhönnu Borgþórsdóttur, til heimilis á sama stað, en fallið var frá aðild hennar að málinu við þingfestingu þess. 

3             Varnaraðili Arion banki krafðist nauðungarsölu fasteignarinnar með bréfi dags. 26. maí 2015.  Málið var tekið fyrir á skrifstofu sýslumanns 10. desember 2015.  Uppboðið byrjaði 30. maí 2016.  Höfðu þá bæst við kröfur um nauðungarsölu frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Reykjavíkurborg og Vátryggingafélagi Íslands hf.  Var ákveðið að uppboðinu yrði fram haldið á eigninni sjálfri 20. júní 2016. 

                Á uppboðinu kom fram eitt boð, frá varnaraðila Arion banka.  Var það að fjár­hæð 55.000.000 króna.  Boðið var síðar samþykkt.  Lagðar voru fram kröfulýsingar veðhafa, m.a. frá öllum varnaraðilum þessa máls.  Varnaraðilarnir Landsbankinn og Íslandsbanki gerðust hins vegar ekki gerðarbeiðendur. 

4             Frumvarp að úthlutunargerð var lagt fram 11. nóvember 2016.  Þeir liðir frum­varpsins sem deilt er um í þessu máli voru:

                8.  Landsbankinn, tryggingarbréf á 4. veðrétti                            kr.  8.953.766

                9.  Íslandsbanki, veðskuldabréf á 5. veðrétti                                              -     8.030.715

                10.  Landsbankinn, tryggingarbréf á 6. veðrétti                          -     3.874.432

                11.  Arion banki, skuldabréf á 7. veðrétti                                     -     8.519.495

                12.  Arion banki, upp í 8. veðrétt                                                   -     2.864.490

                Við fyrirtöku hjá sýslumanni þann 19. desember 2016 komu fram mótmæli frá Landsbankanum og krafa um að úthlutun til hans hækkaði um 1.892.000 krónur.  Gerðarþoli mótmælti þeirri kröfu.  Þá mótmælti gerðarþoli úthlutun til Landsbankans samkvæmt 8. lið og krafðist þess að hún yrði lækkuð.  Enn fremur mótmælti hann út­hlutun til Íslandsbanka og Arion banka að því er varðaði vexti og kostnað.  Sýslu­maður ákvað að frumvarpinu skyldi ekki breytt. 

5             Sóknaraðili gerir þessar kröfur í málinu:

                Aðallega að kröfur varnaraðila, Landsbankans hf., Íslandsbanka hf og Arion banka hf., verði ógiltar og að ákvörðun sýslumanns um úthlutun samkvæmt frumvarpi dags. 11. nóv. 2016, verði ómerkt. 

                Til vara krefst hann þess að úthlutun til varnaraðila, Landsbanka hf., Íslands­banka hf. og Arionbanka hf., samkvæmt frumvarpinu verði verulega lækkaðar. 

                Sóknaraðili krefst málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts. 

6             Varnaraðili Arion banki gerir þær kröfur að öllum kröfum sóknaraðila verði hrundið og að ákvörðun sýslumanns samkvæmt frumvarpinu verði staðfest og varnar­aðila verði úthlutað 11.383.985 krónum af söluandvirði eignarinnar. 

                Þá krefst hann málskostnaðar. 

7             Varnaraðili Landsbankinn gerir þær kröfur að öllum kröfum sóknaraðila verði hrundið og að ákvörðun sýslumanns samkvæmt frumvarpinu verði staðfest, þó þannig að honum verði úthlutað 14.237.385 krónum af söluandvirði eignarinnar. 

                Þá krefst hann málskostnaðar. 

8             Varnaraðili Íslandsbanki gerir þær kröfur að öllum kröfum sóknaraðila verði hrundið og að ákvörðun sýslumanns samkvæmt frumvarpinu verði staðfest. 

                Þá krefst hann málskostnaðar. 

9             Við lokasölu á eigninni þann 20. júní 2016, lýsti varnaraðili Arion banki þremur kröfum í söluandvirði eignarinnar. Nánar tiltekið; 

                a.  Krafa vegna veðskuldabréfs nr. 16939. Lýst krafa nam samtals 13.616.600 krónum, þar af eru eftirstæðir dráttarvextir 5.097.105 krónur.  Samkvæmt frumvarpi að úthlutun greiðast 8.519.495 krónur upp í kröfuna, en varnaraðili andmælir ekki lækkuninni. 

                b.  Krafa vegna veðskuldabréfs nr. 715525.  Lýst krafa nam samtals 18.173.710 krónum.  Eins og fram kemur í áðurgreindu frumvarpi greiðast 2.864.490 krónur upp í kröfuna. 

                c.  Krafa vegna skuldabréfs nr. 14264 tryggð skv. tryggingarbréfi nr. 0301-63-10553.  Hér lýsti varnaraðili kröfu að fjárhæð 1.557.429 krónur, en ekkert kemur upp í kröfuna samkvæmt frumvarpi sýslumanns. 

10           Varnaraðili Landsbankinn byggir á tveimur tryggingarbréfum sem tryggja hafi átt hvers konar skuldir við bankann.  Tryggingarbréf dags. 12. mars 2004, bundið vísi­tölu.  Varnaraðili segir að framreiknaður höfuðstóll bréfsins hafi á söludegi numið 7.562.336 krónum.  Við þá fjárhæð bætist vextir og málskostnaður.  Tryggingarbréf dags. 1. febrúar 2005 hafi einnig verið bundið vísitölu.  Framreiknaður höfuðstóll þess hafi á söludegi numið 8.703.010 krónum, að viðbættum vöxtum og kostnaði. 

                Skuldir sóknaraðila við Landsbankann eru tveir lánasamningar, nr. 1280 og 2612.  Fyrri samningurinn er dags. 19. apríl 2004.  Höfuðstóll var jafnvirði 3.400.000 króna, í erlendum myntum.  Varnaraðili kveðst hafa endurreiknað lánið í samræmi við lög nr. 151/2010 og dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012, miðað við 1. apríl 2014.  Hann hafi tilkynnt varnaraðila um endurútreikninginn.  Engar athuga­semdir hafi verið gerðar.  Á söludegi hafi skuldin numið 6.684.301 krónu.  Síðari lánasamningurinn er dags. 3. febrúar 2005.  Höfuðstóll var jafnvirði 4.000.000 króna, í erlendum myntum.  Varnaraðili kveðst hafa endurreiknað lánið eins og hið fyrra og sóknaraðili hafi ekki gert neina athugasemd.  Á söludegi hafi skuldin numið 5.643.491 krónu. 

                Í greinargerð sinni fjallaði varnaraðili jafnframt um bílasamning sem hann hefði gert við sóknaraðila.  Hann féll frá því að hafa uppi kröfur vegna hans í sölu­andvirðið. 

11           Krafa varnaraðila Íslandsbanka er byggð á veðskuldabréfi útg. 30. ágúst 2004.  Skuldabréfið var upphaflega að fjárhæð 16.575 USD, 3.086 GBP, 7.082 CHF, 608.735 JPY og 18.384 EUR, eða jafnvirði 4.000.000 íslenskra króna á útgáfudegi.  Skuldin hefur verið í vanskilum frá október 2009.  Skuldin var endurreiknuð í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010.  Eftir endurreikning þann 12. janúar 12012 voru eftirstöðvar lánsins 6.795.539 krónur.  Ekki var greitt af láninu eftir endur­útreikninginn. 

                Varnaraðili gerði kröfu um greiðslu á 10.234.512 krónum í söluandvirði eignarinnar.  Sýslumaður lækkaði úthlutun til varnaraðila um 2.203.797 krónur og sætti varnaraðili sig við þá lækkun. 

                Málsástæður og lagarök sóknaraðila

12           Sóknaraðili kveðst byggja málskot sitt á VIII. kafla sbr. XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. 

                Hann vísar til þess að eiginkona sín eigi ríkra hagsmuna að gæta, en nauðungarsalan beinist að búshluta hennar í sameiginlegu heimili og fasteign fjölskyldunnar, bústað fjölskyldunnar.  Hún hafi í nokkrum tilvikum heimilað veð­setningu án þess að hafa áður sætt greiðslumati samkvæmt Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001.  Landsbankinn hafi ekki framkvæmt greiðslumat í lánasamningum dags. 19. apríl 2004 og 3. febrúar 2005.  Sama gildi um lánasamning Dróma, dskj. nr. 72.  Jóhanna hafi einnig verið sniðgengin við undirritun lánasamninganna.  Hún eigi því ótvíræðra hagsmuna að gæta í málinu. 

 

                Um aðalkröfu

13           Sóknaraðili byggir á því að lánaskjöl varnaraðila séu ólögleg.  Þau gangi öll í berhögg við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Samkvæmt lögum nr. 38/2001 sé ekki heimilt að verðtryggja lán í íslenskum krónum með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þetta hafi varnaraðili Arion banki viður­kennt í nokkrum kröfulýsingum sínum. 

14           Með vísan til áðurnefnds Samkomulags telur sóknaraðili að varnaraðilar hafi allir brotið umrætt samkomulag með því að vinna ekki greiðslumat á sóknaraðila, Hauki Bjarnasyni, sem greiðanda, og Jóhönnu Borgþórsdóttur, eiginkonu hans.  Líta megi á hana sem ábyrgðarmann, en heimili þeirra hafi verið veðsett varnaraðilum í öllum tilvikum. 

                Aðalkrafa gagnvart Landsbankanum

15           Sóknaraðili segir að krafa bankans sé samkvæmt tveimur lánssamningum frá 2004 og 2005.  Báðir séu kallaðir fjölmyntalán.  Þeir hafi verið í íslenskum krónum, bundnir við gengi fjögurra mynta.  Innheimt hafi verið í íslenskum krónum.  Beri að líta til forms og meginefnis samninganna.  Lánin hafi verið í íslenskum krónum og því ólögmætt að gengistryggja þau.  Þetta valdi ógildi samninganna. 

17           Gagnvart Landsbankanum vísar sóknaraðili til 2. og 3. gr. Samkomulagsins, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.  Þá byggir sóknaraðili á 60 gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, en eiginkona hans hafi ekki ritað undir lánasamningana.  Um sé að ræða hjúskapareign þeirra hjóna og bústað fjölskyldunnar.  Því hafi sú skylda hvílt á bankanum að vinna greiðslumat á þeim báðum.  Vísar sóknaraðili hér til 60. og 69. gr. hjúskaparlaga og 36. gr. samningalaga.  Þrátt fyrir að Jóhanna Borgþórsdóttir hafi ritað undir tryggingarbréf, sem maki, felist ekki í því samþykki fyrir því að taka ábyrgð á um­ræddum lánasamningum, en hún hafi ekki veitt samþykki sem ábyrgðarmaður á lánasamningunum.  Beri því að hafna úthlutun til bankans. 

                Aðalkrafa gagnvart Íslandsbanka

18           Sóknaraðili byggir á því að veðskuldabréf varnaraðila Íslandsbanka sé ólög­mætt og því beri að ógilda og ómerkja úthlutun sýslumanns.  Fram komi í bréfinu að lánið sé í íslenskum krónum og tengt gengi fimm gjaldmiðla.  Það sé ólögmætt. 

                Þá segir sóknaraðili að bein tengsl séu á milli ákvæðis um gengistryggingu lánsins og fyrirmæla  um vexti.  Á millibankamarkaði í London eða í Brussel hefðu aldrei verið skráðir vextir af lánum í íslenskum krónum.  Sóknaraðili hafi ekki staðið við lokamálsgrein í tl. 3 í veðskuldabréfinu um að taka mið af millibankamarkaði eða gjaldmiðlaskiptamarkaði, sem bankanum hafi borið að tilgreina hverju sinni.  Vísar sóknaraðili hér til hæstaréttardóms í máli nr. 471/2010. 

                Sóknaraðili byggir á því að greiða hafi átt afborganir í íslenskum krónum.  Ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verð­tryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.  Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar og því beri að ómerkja úthlutunargerðina. 

19           Enn fremur vísar sóknaraðili til 2. og 3. gr. Samkomulagsins, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.  Þá byggir sóknaraðili á 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, en eiginkona hans hafi ekki ritað undir lánasamningana.  Um sé að ræða hjúskapareign þeirra hjóna og bústað fjölskyldunnar.  Því hafi sú skylda hvílt á bankanum að vinna greiðslumat á þeim báðum.  Vísar sóknaraðili hér til 60. og 69. gr. hjúskaparlaga og 36. gr. samningalaga.  Beri því að ómerkja úthlutun til bankans. 

                Aðalkrafa gagnvart Arion banka

                a  Skuldabréf gefið út til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis

20           Hér er um að ræða verðtryggt veðskuldabréf gefið út 16. júní 2005 til Spari­sjóðs Reykjavíkur og nágrennis.  Skilmálum þess var breytt tvisvar, þann 13. desember 2007 og 26. janúar 2009.  Með fyrri skilmálabreytingunni var skuldin skráð í erlendri mynt.  Byggir sóknaraðili á því að ómerkja beri úthlutun til þessa varnar­aðila.  

                Sóknaraðili telur þessa lánafyrirgreiðslu ólögmætt gengislán.  Varnaraðili hafi fallist á ólögmæti lánsins með lækkun skuldarinnar í kröfulýsingu.  Ekki verði séð að endurútreikningur hafi farið fram í samræmi við fordæmi í dómum Hæstaréttar. 

21           Þá byggir sóknaraðili hér á margnefndu Samkomulagi um notkun ábyrgða, sbr. og 36. gr. samningalaga og 60. gr. sbr. 69. gr. hjúskaparlaga.  Bankinn hafi ekki verið undanþeginn skyldu til að vinna greiðslumat. 

22           Loks andmælir sóknaraðili framsali skuldabréfsins, en það sé óundirritað. 

                b  Skuldabréf gefið út til Frjálsa fjárfestingarbankans I

23           Sóknaraðili byggir á því að sér hafi ekki verið kynntur endurútreikningur lánsins.  Varnaraðili hafi ákveðið reikningsskilmála einhliða.  Mótmælir sóknaraðili þeim.  Þá mótmælir hann kröfulýsingu að fjárhæð 18.173.710 krónur sem ólögmætri og óskuldbindandi fyrir sig.  Engir útreikningar liggi fyrir. 

24           Sóknaraðili byggir á því að ekkert greiðslumat hafi verði unnið.  Hann telur að skjöl sem varnaraðili lagði fram séu ógild.  Þau séu öll vanbúin, t.d. sé sóknaraðili til­greindur greiðandi en eiginkona hans kölluð meðskuldari.  Greiðslugeta hennar hafi þó ekki verið metin. 

25           Sóknaraðili vísar til þess að uppgjör hafi ekki farið fram innan 90 daga samkvæmt fyrirmælum í málslið X í lögum nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010. 

26           Loks mótmælir sóknaraðili framsali skuldabréfsins, sem sé óundirritað.  Endurútreikningur varnaraðila sé því markleysa og beri að ómerkja úthlutun sýslu­manns. 

                b  Skuldabréf gefið út til Frjálsa fjárfestingarbankans II

27           Hér er um að ræða skuldabréf að höfuðstól 5.000.000 króna, útgefið 31. janúar 2007.  Það var þá kallað fasteignalán í erlendri mynt.  Skuldinni hefur verið breytt þrisvar, fyrst 27. janúar 2009, aftur 9. desember 2009 og loks í þriðja sinn 5. febrúar 2010. 

                Fyrst var skuldin gengistryggð.  Bæði sóknaraðili og eiginkona hans rituðu undir bréfið.  Skuldin hækkaði stöðugt og í þriðju skilmálabreytingunni var hún sögð nema jafnvirði 11.681.494 íslenskra króna. 

28           Sóknaraðili byggir á því að þetta hafi verið ólögmætt gengislán, sbr. 13. og 14. gr. vaxtalaga.  Bankinn hafi sennilega viðurkennt þetta með kröfulýsingu sinni, þar sem skuldin hafði lækkað verulega, en útreikningar hafi ekki fylgt. 

29           Til stuðnings kröfu um ógildingu vísar sóknaraðili einnig til áðurnefnds Sam­komulags, sbr. 36. gr. samningalaga og 60. og 69. gr. hjúskaparlaga.  Þá hafi framsal veðskuldabréfsins verið óundirritað.

                c  Tryggingarbréf gefið út til Arion banka

30           Sóknaraðili byggir á því að enga lagatilvísun sé að finna í tryggingarbréfinu.  Kveðst hann því mótmæla gildi bréfsins gagnvart sér og eiginkonu sinni.  Þá sé kröfu­lýsing varnaraðila óskýr.  Ekki sé gerð næg grein fyrir tilurð kröfunnar.  Ef krafa sé að fjárhæð 1.557.429 krónur samkvæmt skuldabréfi verði ekki séð hvernig varnaraðili geti krafist 4.033.276 króna og sagt að tryggingarbréf sé upprunaskjal skuldarinnar.  Kveðst sóknaraðili mótmæla þessari kröfulýsingu sem marklausri. 

 

31           Sóknaraðili byggir á því að lánssamningur nr. 14624 sé ólögmætt skjal.  Kveðið hafi verið á um REIBOR-vexti, en eftir því hafi ekki verið farið og enginn möguleiki hafi verið fyrir sóknaraðila að fylgjast með og skilja.  Kveðst hann mót­mæla samningnum öllum sem ólögmætu plaggi sem sé að engu hafandi.  Þá mótmælir hann framsali samningsins, sem ekki hafi verið undirritað.  Líkur séu til þess að framsalsröð sé slitin.  Loks hafi ekkert greiðslumat verið unnið.  Allar þessar máls­ástæður leiði til ómerkingar úthlutunarinnar. 

                Varakrafa sóknaraðila

                a.  Gagnvart Landsbankanum

32           Sóknaraðili kveðst mótmæla kröfu Landsbankans í 8. tl. frumvarps sýslu­manns.  Ekki verði séð hvernig höfuðstóll tryggingarbréfs að fjárhæð 4.000.000 króna geti numið samtals 7.562.336 krónum.  Þá kveðst hann mótmæla öllum kostnaðar­liðum sem of háum, þ.e. innheimtuþóknun og útlögðum kostnaði, svo og dráttar­vöxtum.  Þessir liðir séu ekki rökstuddir í kröfulýsingu varnaraðila, sbr. 2. mgr. 49. gr. laga nr. 90/1991.  Verði að hafna kröfulýsingunni þar sem hún sé óskiljanleg. 

33           Sóknaraðili kveðst byggja á 5. gr. laga nr. 75/1997, sem heimili aðeins að skuld beri vexti í eitt ár fram að því að beiðni um nauðungarsölu er lögð fram.  Ekki verði séð að varnaraðili hafi krafist nauðungarsölu eða borið nokkurn kostnað af tryggingarbréfum eða lánasamningum.  Beri einvörðungu að reikna vexti eitt ár aftur í tímann frá 20.6.2016 (kröfulýsingardegi) fari svo að dómurinn meti tryggingarbréfin og lánasamningana gild. 

34           Sóknaraðili mótmælir því að varnaraðili geti byggt kröfulýsingu sína á tryggingarbréfunum.  Lánssamningarnir sem krafan sé byggð á hafi hins vegar ekkert gildi í málinu, þar sem eiginkona sóknaraðila hafi ekki skrifað undir þá.  Í þeim báðum sé vísað beint til tryggingarbréfanna um veðsetningu á húseigninni.  Varnar­aðili geti ekki haldið sig við og byggt bæði á tryggingarbréfum og lánasamningum í kröfulýsingu sinni og lagt þannig saman skuldirnar eins og tryggingarbréfin séu sjálfstæð viðskiptabréf.  Þau hafi eingöngu átt að tryggja þær skuldir sem kynnu að verða til samkvæmt víxlum, yfirdrætti og skuldabréfum hvers konar, þ.e. eftir útgáfu þeirra.  Í besta falli hafi mátt hækka þau með vísan til verðtryggingarákvæða í þeim, en þau beri ekki dráttarvexti eða annan kostnað.  Sá kostnaður sé eingöngu tengdur þeim skuldum, sem tryggingarbréfin hafi átt að tryggja.  Varnaraðili hafi brotið marg­nefnt Samkomulag um notkun ábyrgða og geti því ekki byggt á þessum lána­samningum við úthlutun, sbr. 36. gr. samningalaga.  Greiðslumat hafi ekki verið unnið.  Þá hafi 60. gr. sbr. 69. gr. hjúskaparlaga verið sniðgengin, en það valdi ógildi, til vara verulegri lækkun þessara lánasamninga. 

35           Sóknaraðili segir að varnaraðili margreikni dráttarvexti í sömu kröfu­lýsingunni.  Það sé gert á tryggingarbréfi nr. 0101-63-32820.  Í annan stað sé það gert á lánasamningi nr. 0101-36-1280.  Í þriðja lagi séu þeir reiknaðir í lánasamningi nr. 0101-36-2612.  Þá sé innheimtuþóknun reiknuð margsinnis og málskostnaður í tryggingarbréfi og lánasamningunum.  Kveðst sóknaraðili mótmæla þessum út­reikningum sem ólögmætum og beri að lækka kröfu bankans enn frekar. 

                b.  Gagnvart Íslandsbanka

36           Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili Íslandsbanki hafi í kröfulýsingu ekki reiknað eða sýnt fram á hvernig höfuðstóll sé fenginn.  Verði því að hafna kröfu­lýsingunni eða lækka verulega.  Þá sé upphafsdagur vaxta og dráttarvaxta ekki til­greindur.  Þá sé ekki gerð grein fyrir innheimtuþóknun, kostnaði vegna uppboðs og vöxtum af kostnaði.  Mótmælir sóknaraðili úthlutun samkvæmt þeim liðum í kröfu­lýsingu varnaraðila. 

37           Þá byggir sóknaraðili á því að kröfulýsingin sé haldin stórfelldum göllum, sem valdi því að henni beri að hafna eða lækka stórlega

                Loks vísar sóknaraðili hér til sömu málsástæðna og áður er getið varðandi kröfulýsingu og ógildi veðskuldabréfs varnaraðila. 

                c.  Gagnvart Arion banka

38           Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili Arion banki hafi ekki sýnt fram á hvernig höfuðstóll skuldarinnar sé reiknaður.  Þá mótmælir hann innheimtuþóknun, kostnaði vegna uppboðs og vöxtum af kostnaði, en þessir liðir séu ekki skýrðir í kröfulýsingu.  Beri að hafna þeim. 

                Varðandi skuldabréf samkvæmt 12. tl. frumvarps sýslumanns gildi það sama, útreikningur höfuðstóls sé ekki skýrður. 

                Þá ítrekar sóknaraðili málsástæður varðandi aðalkröfu. 

39           Sóknaraðili bendir á að skuldabréfið hafi samkvæmt áritun á það verið veðsett Arion banka samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21.3.2009, sbr. veðsamning dags. 22. júní 2009 milli Dróma og Arion banka og samning um endurgreiðslu skuldar milli sömu aðila. Öllum greiðslum vegna kröfunnar skyldi ráðstafað inn á reikninga veðsetta bankanum. Ofangreindur samningur milli Dróma og Arion banka hafi ekki verið lagður fram með kröfulýsingu bankans og engin skýring verið gefin á þessum óundirritaða gerningi. Kröfulýsingin sé því marklaus og ógild.  Ekki hefði átt að úthluta upp í kröfuna. 

                Þá bendir sóknaraðili á að áritun um að krafan sé afhent Dróma sé óundirrituð.  Þar með sé framsalsröðin slitin og veðskuldabréfið ógilt. 

                Sóknaraðili byggir á því að framsalsröð veðskuldabréfa varnaraðila, bréfs til SPRON, dags. 16. júní 2007, og bréfs til Frjálsa fjárfestingarbankans, dags. 31. janúar 2007, sé rofin.  Þau séu framseld af Dróma hf., en handhöfn hans hafi ekki verið lögleg. 

                Þá telur sóknaraðili að framsölin séu ekki undirrituð.  Tvö nöfn hafi verið stimpluð á framsölin og bætt við merkingarlausu kroti. Stimpill geti ekki komið í stað undirritunar, sbr. einnig 28. gr. laga nr. 42/1903.  Því sé varnaraðili Arion banki ekki löglegur handhafi og eigandi skuldabréfanna. 

                Vegna allra þessara ágalla telur sóknaraðili að hafna beri eða lækka stórlega úthlutun til varnaraðila Arion banka. 

                Málsástæður og lagarök varnaraðila Landsbankans

40           Varnaraðili Landsbankinn mótmælir því að lánaskjöl sín séu ólögleg.  Lána­samningarnir hafi tvívegis verið endurreiknaðir í samræmi við lög nr. 151/2010 og dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012. 

                Varnaraðili kveðst hafa höfðað mál til heimtu skuldar sóknaraðila með stefnu útgefinni 9. nóvember 2015.  Fallið hafi verið frá þingfestingu vegna samninga­viðræðna aðila. 

                Varnaraðili byggir á því að krafa hans rúmist innan fjárhæðar tryggingar­bréfanna og því ætti að taka hana til greina að fullu.  Hann mótmælir öllum máls­ástæðum sóknaraðila. 

41           Varnaraðili segir að enginn grundvöllur sé fyrir því að ógilda úthlutunar­gerðina.  Sóknaraðili hafi einn verið lántaki í báðum lánasamningunum og hann hafi veðsett fasteign sína með samþykki eiginkonu sinnar.  Varnaraðili mótmælir því að Samkomulag um notkun ábyrgða eigi hér við.  Hér hafi ekki verið gengist í ábyrgð eða veðsett til tryggingar skuld annars aðila.  Því verði 36. gr. samningalaganna eða ákvæðum hjúskaparlaga ekki beitt. 

42           Varnaraðili mótmælir lækkun til hans sem sýslumaður ákvað í frumvarpi að úthlutun. 

 

43           Varnaraðili mótmælir fullyrðingum um að vextir séu ofreiknaðir.  Hann reikni eðlilega enga vexti af tryggingarbréfunum, höfuðstóll þeirra dugi til lúkningar öllum skuldum sóknaraðila.  Þá séu dráttarvextir ekki margreiknaðir eins og sóknaraðili haldi fram. 

                Varnaraðili kveðst hafa reiknað innheimtukostnað samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008 og reglugerð nr. 37/2009 með síðari breytingum. 

                Málsástæður og lagarök varnaraðila Arion banka

44           Varnaraðili vísar til krafna sinna samkvæmt skuldabréfum tryggðum með veði í umræddri fasteign.  Hann skiptir umfjöllun í greinargerð sinni á milli hvers skulda­bréfs og verða málsástæður hans raktar með sama hætti. 

                Veðskuldabréf nr. 16939

45           Varnaraðili mótmælir því að veðskuldabréfið sé ólögmætt vegna ákvæða 13. og 14. gr. vaxtalaga.  Bréfið hafi upphaflega verið í íslenskum krónum, en því hafi verið breytt í erlenda mynt með skilmálabreytingu dags. 13. desember 2009.  Lánið hafi verið endurreiknað samkvæmt 18. gr. vaxtalaga og hafi sá útreikningur verið kynntur sóknaraðila.  Endurútreikningurinn hafi síðan verið endurskoðaður í ljósi dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012.  Kröfulýsing hafi miðað við þennan endurskoðaða endurútreikning. 

                Varnaraðili byggir á því að ekki sé skilyrði að skuldari undirriti breytingu á láni eftir endurútreikning.  Breytingarnar taki gildi hvort sem hann samþykki þær eða ekki. 

46           Varnaraðili mótmælir því að lánið hafi verið ólögmætt.  Þótt gengistrygging hafi reynst ólögmæt hafi skuldabréfið verið endurreiknað sem óverðtryggt lán í íslenskum krónum. 

47           Varnaraðili mótmælir tilvísun sóknaraðila til Samkomulags um notkun ábyrgða.  Sóknaraðili hafi ekki verið ábyrgðarmaður að skuldinni, hann hafi verið útgefandi skuldabréfsins.  Eiginkona hans sé ekki aðili málsins.  Þá verði skuldabréfið ekki ógilt samkvæmt 36. gr. samningalaga. 

48           Varnaraðili mótmælir því að 60., sbr. 69. gr. hjúskaparlaga verði beitt.  Eigin­kona sóknaraðila hafi undirritað skuldabréfið.  Þá sé frestur 2. mgr. 65. gr. laganna til að höfða mál til ógildingar á samningi runninn út.  Loks sé eiginkona sóknaraðila ekki aðili málsins.  Allar þessar ástæður leiði hver um sig til þess að hafna beri þessari málsástæðu sóknaraðila. 

49           Loks mótmælir varnaraðili staðhæfingum sóknaraðila um að framsal bréfsins sé ófullnægjandi.  Hann segir að samkvæmt heimild í lögum nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald stofnfjáreigendafundar SPRON, móðurfélags Frjálsa fjárfestingarbankans hf. og nb.is sparisjóðs hf. og skipað skilanefnd.  Með sömu ákvörðun hafi verið stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi, sem hafi tekið við eignum þessara aðila.  Varnaraðili kveðst hafa fengið þessa kröfu framselda frá Dróma þann 31. desember 2013.  Framsalið sé gallalaust, undirritað af tveimur aðilum sem hafi haft til þess sérstakt umboð. 

                Veðskuldabréf nr. 714696

50           Varnaraðili mótmælir því að veðskuldabréf þetta sé ólögmætt vegna ákvæða 13. og 14. gr. vaxtalaga.  Lánið hafi verið í erlendum myntum, svissneskum frönkum og japönsku jeni.  Lánið hafi verið endurreiknað samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.  Lánið hafi síðan sjálfkrafa breyst í óverðtryggt lán í íslenskum krónum.  Kröfulýsing vegna þessa skuldabréfs hafi tekið mið að endurskoðuðum útreikningi lánsins, eftir dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012. 

51           Varnaraðili byggir á því að ekki hafi verið skilyrði að nýtt skuldabréf væri útbúið eftir endurútreikning.  Þá hafi ekki verið nauðsynlegt að skuldari undirritaði breyttar forsendur. 

 

52           Varnaraðili ítrekar að lánið hafi verið lögmætt, hvað sem líði vöxtum og verð­tryggingu. 

53           Varnaraðili mótmælir tilvísun til Samkomulags um notkun ábyrgða og athugasemda um form á framsali skuldabréfsins á sama hátt og vegna bréfs nr. 16939. 

                Veðskuldabréf nr. 715525, skuldabréf nr. 14264 og tryggingarbréf 0301-63-10553

54           Ekki er úthlutað upp í kröfur samkvæmt þessum bréfum í frumvarpi að úthlutun.  Þeirri ákvörðun er ekki breytt í þessum úrskurði og þarf því ekki að rekja málsástæður varnaraðila um þessa kröfu.  Þær eru enda mjög á sama veg og máls­ástæður um veðskuldabréfin sem fjallað var um hér að framan. 

                Varakrafa sóknaraðila um lækkun úthlutunar

55           Varnaraðili mótmælir því að hann hafi ekki skýrt útreikning á kröfulýsingu vegna veðskuldabréfs nr. 16939.  Hann hafi lagt fram fullnægjandi kröfulýsinu í samræmi við 2.mgr. 49. gr. laga nr. 90/1991.  Þar sé gerð grein fyrir endurútreikningi lánsins og skilmálabreytingum.  Krafan sé gjaldfelld miðað við 20. júní 2015 og dráttarvaxta einungis krafist frá þeim degi.  Því reyni ekki á 5. gr. laga nr. 75/1997.  Gerð sé grein fyrir öllum kostnaðarliðum.  Þar sé annars vegar um að ræða gjöld í ríkissjóð og innheimtukostnað samkvæmt gjaldskrá sem byggi á innheimtulögum nr. 95/2008 og lögum um lögmenn nr. 95/2008. 

56           Varnaraðili mótmælir því að veðsamningur milli Dróma og Arion banka, dags. 22. júní 2009, skipti máli varðandi þessa kröfu. 

57           Varnaraðili mótmælir því sömuleiðis að hann hafi ekki skýrt útreikning á kröfulýsingu vegna veðskuldabréfs nr. 714696.  Vísar hann til sömu atriða og varðandi síðastgreint skuldabréf.  Sérstaklega mótmælir hann athugasemdum sóknar­aðila um framsal kröfunnar og framsalsröð.  Vísar hann til áðurgreindra athugasemda um aðkomu Dróma að kröfum SPRON og dótturfélaga hans.  Framsalsröð sé því óslitin. 

                Málsástæður og lagarök varnaraðila Íslandsbanka 

58           Varnaraðili mótmælir því að lánið sem hann veitti sóknaraðila sé ólögmætt.  Hann byggir á því að lánið sé í erlendum gjaldmiðlum. 

59           Varnaraðili mótmælir tilvísun sóknaraðila til Samkomulags um notkun ábyrgða.  Þá mótmælir hann því að skylt hafi verið að meta greiðslugetu sóknaraðila.  Hann byggir á því að eiginkona sóknaraðila sé ekki aðili að málinu.  Sóknaraðili hafi verið einn eigandi eignarinnar og hafi ekki verið ábyrgðarmaður í skilningi Samkomu­lagsins.  Hann hafi verið útgefandi skuldabréfsins og eiginkona hans hafi samþykkt veðsetninguna.  Því geti sóknaraðili ekki byggt neinn rétt á ákvæðum hjúskaparalaga.  Þau eigi ekki við og málshöfðunarfrestur 2. mgr. 65. gr. laganna sé útrunninn. 

60           Varnaraðili mótmælir varakröfu sóknaraðila um lækkun kröfunnar.  Hann vísar til kröfulýsingar sem hann hafi útbúið og lagt fram í samræmi við kröfur 49. gr. laga nr. 90/1991.  Nauðsynleg gögn hafi hann afhent með kröfulýsingunni.  Þá vísar varnaraðili til þess að kostnaður sem talinn sé hafi einkum komið til vegna greiðslna í ríkissjóð vegna tveggja nauðungarsölubeiðna sem hafi verið afturkallaðar vegna samningaumleitana aðila. 

                Niðurstaða

61           Við áðurnefnda fyrirtöku sýslumanns þann 19. desember 2016 var fjallað um frumvarp að úthlutun.  Sóknaraðili mótmælti þar kröfum varnaraðila Landsbankans og krafðist þess að kröfur hans yrðu lækkaðar.  Þá gerði hann fyrirvara um úthlutun til varnaraðila Arion banka og Íslandsbanka „varðandi vexti og kostnað“.  Eftir að sýslu­maður kynnti ávörðun sína um að frumvarpið skyldi standa óbreytt, lýsti sóknaraðili því yfir að hann leitaði úrlausnar héraðsdóms og að þess yrði krafist að úthlutun til Arion banka og Íslandsbanka yrði lækkuð.  Hvorki kemur fram krafa um að úthlutun verði hafnað alveg né krafa gagnvart Landsbankanum. 

 

62           Í þessu máli verður leyst úr mótmælum sóknaraðila við úthlutun til þriggja kröfuhafa af nauðungarsöluandvirði fasteignarinnar Kvistalands 9.  Af bókun sýslu­manns má sjá að ágreiningur stóð um úthlutun til Landsbankans og í bréfi sóknaraðila, dags. 27. desember 2016, er þess krafist að úthlutun til allra varnaraðilanna verði ógiltar, til vara að þær verði lækkaðar.  Þrátt fyrir ákvæði 73. gr. laga nr. 90/1991 mót­mælti varnaraðilinn Landsbankinn því ekki að fjallað yrði um kröfu sóknaraðila gagnvart honum.  Eru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi að þessu leyti og er rétt að fjallað verði um kröfugerð sóknaraðila í heild. 

                Ekki verður fjallað hér um mótmæli Landsbankans við lækkun krafna hans.  Um þau er fjallað í máli nr. Z-12/2016, en úrskurður í því máli var kveðinn upp fyrr í dag. 

63           Mótmæli við því að úthlutað verði upp í kröfur varnaraðila vegna þess að lánin séu ólögmæt gengislán eru haldlaus.  Það hefur margoft verið dæmt að ólögmæt gengistrygging láns leiðir eingöngu til þess að fjárhæð kröfunnar er reiknuð með öðrum hætti en skuldaskjalið mælir fyrir um.  Gildi kröfunnar er óhaggað. 

64           Sóknaraðili, Haukur Bjarnason, var einn þinglýstur eigandi fasteignarinnar.  Hann gaf út öll þau veðbréf sem reynir á í þessu máli og eiginkona hans áritaði þau um samþykki sitt, svo sem áskilið er í 1. mgr. 60. gr. laga nr. 31/1993.  Lögin áskilja að maki samþykki veðsetningu og því dugar að tryggingarbréf sé samþykkt, en sam­þykkis þarf ekki að afla vegna hverrar einstakrar skuldar sem stofnað er til. 

                Sóknaraðili var ekki ábyrgðarmaður í skilningi Samkomulags um notkun ábyrgða.  Eiginkona hans átti ekki slík réttindi yfir eigninni að telja megi að hún hafi veitt veðleyfi í eign sinni. 

                Verður hafnað þessum málsástæðum sóknaraðila sem hann hefur uppi gagn­vart öllum varnaraðilum. 

65           Allar kröfur varnaraðila málsins voru endurútreiknaðar samkvæmt fyrirmælum vaxtalaga.  Athugasemdir sóknaraðila um endurútreikning þennan eru ekki skýrðar nema með almennum orðum, en ekki studdar rökum eða endurútreikningi varnaraðila hnekkt með leiðréttum útreikningi.  Sóknaraðili hefur ekki lagt fram neinar efnislegar athugasemdir við endurútreikning krafnanna.  Verður mótmælum hans hafnað.  Varnaraðilar sendu sóknaraðila endurútreikninga sína í almennum pósti og hafa því strangt tekið ekki sannað að þeir hafi borist sóknaraðila.  Eftir að málið fór af stað komu samt ekki fram neinar haldbærar athugasemdir og verður því ekki byggt neitt á því að endurútreikningur hafi ekki verið kynntur sóknaraðila. 

66           Athugasemdir sóknaraðila gagnvart kröfu Íslandsbanka eru á sömu lund og gagnvart öðrum varnaraðilum.  Um kröfuna má segja að hún var endurreiknuð samkvæmt fyrirmælum laga.  Athugasemdir sóknaraðila um vexti eru ekki skýrar og geta ekki leitt til ógildis skuldarinnar.  Þá eru einstakir liðir kröfulýsingar þessa varnaraðila réttmætir. 

67           Um kröfu Landsbankans er fjallað í öðru ágreiningsmáli sem rekið er nú, en úrskurður var kveðinn upp í því fyrr í dag.  Var þar fallist á hækkun á kröfu Lands­bankans með því að ákvæði 5. gr. laga nr. 75/1997 leiddu ekki til þess að hafna yrði úthlutun upp í hluta af kröfu hans.  Þá var fallist á einstaka liði kröfunnar, utan einn, sem sætti nokkurri lækkun.  Í þessu máli er einungis til úrlausnar krafa sóknaraðila um lækkun eða niðurfellingu úthlutunar og er henni hafnað með vísan til þeirra röksemda sem að framan greinir.  Þá hefur Landsbankinn skýrt útreikning tryggingarbréfanna nægilega og dráttarvextir eru einungis reiknaðir einu sinni af þeirri fjárhæð sem kemur til úthlutunar. 

68           Um kröfu Arion banka.  Arion banki gerði þrjár kröfur í söluandvirði eignarinnar.  Fyrsta krafan, vegna skuldabréfs nr. 16939, greiðist að fullu samkvæmt frumvarpinu.  Önnur krafan, skuldabréf nr. 715525, greiðist ekki að fullu.  Upp í hana greiðast 2.864.490 krónur.  Ekkert fæst greitt upp í þriðju kröfuna, bréf nr. 14264. 

69           Krafa samkvæmt 11. lið frumvarps að úthlutun byggir á skuldabréfi nr. 16939, sem gefið var út til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.  Um það má endurtaka það sem áður segir um gengistryggð lán og ábyrgðir.  Krafan var endurútreiknuð og hefur sóknaraðili ekki hnekkt útreikningi varnaraðila Arion banka á skuldinni.  Verður and­mælum öllum við þessari kröfu hafnað. 

70           Sóknaraðili mótmælir fjárhæð kröfulýsingar að fjárhæð 18.173.710 krónur vegna skuldabréfs nr. 16939.  Upp í þessa kröfu greiðast eins og áður segir tæplega 3 milljónir króna.  Höfuðstóll skuldabréfsins nemur samkvæmt kröfulýsingu 13.980.383 krónum og þarf því ekki að leysa frekar úr ágreiningi um útreikning í kröfulýsingu varnaraðila.  Hefur sóknaraðili ekki hnekkt endurútreikningi varnaraðila á skuldinni. 

                Hafna verður mótmælum sóknaraðila við gildi framsals krafnanna, sem varnar­aðili hefur skýrt nægilega.  Er hefðbundið að gengið sé frá framsölum veð- og verð­bréfa með stimplum nafnritana, sem staðfestar eru með upphafsstöfum viðkomandi.  Þá verður að fallast á niðurstöðu sýslumanns um höfuðstól, vexti og útreikning einstakra kostnaðarliða í kröfu varnaraðila. 

                Sóknaraðili segir í greinargerð sinni að uppgjör samkvæmt málslið X í lögum nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001, hafi ekki farið fram innan 90 daga eins og áskilið sé.  Ekki er ljóst hvaða uppgjör sóknaraðili á hér við, en hann hefur ekki sýnt fram á að hann hafi átt kröfu á einhverri endurgreiðslu eftir endurútreikning eða hvaða afleiðingar meint vanræksla varnaraðila hefur hér haft. 

71           Ekki þarf að fjalla um andmæli sóknaraðila við þeirri kröfu varnaraðila Arion banka sem ekki fæst greidd að neinu leyti af söluandvirðinu.  

72           Um varakröfu sóknaraðila gagnvart öllum varnaraðilum verður sagt að hann hefur ekki hnekkt endurútreikningi krafna þeirra.  Þá er endurútreikningur þessi ekki gallaður.  Er fallist á útreikning krafnanna eins og að framan greinir, með einni undan­tekningu. 

73           Samkvæmt framansögðu er andmælum sóknaraðila hafnað um öll atriði nema eitt, sem leyst var úr í máli nr. Z-12/2016.  Ekki er nauðsynlegt að staðfesta ákvörðun sýslumanns sérstaklega, hún stendur sé henni ekki hnekkt.  Varnaraðilum verður ákveðinn málskostnaður úr hendi sóknaraðila.  Er hann hæfilega ákveðinn 450.000 krónur til hvers þeirra, en þá er tekið tillit til virðisaukaskatts. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Úrskurðarorð

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, Hauks Bjarnasonar, um ógildingu á úthlutun til varnaraðila, Landsbankans hf., Íslandsbanka hf. og Arion banka hf., af nauðungarsöluandvirði fasteignarinnar Kvistalands 9 í Reykjavík. 

                Sóknaraðili greiði hverjum varnaraðila 450.000 krónur í málskostnað.