Print

Mál nr. 13/2019

Íslenska ríkið (Soffía Jónsdóttir lögmaður)
gegn
Sjúkraliðafélagi Íslands (Einar Hugi Bjarnason lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Félagsdómur
  • Kjarasamningur
  • Frávísunarkröfu hafnað
Reifun

Staðfestur var úrskurður Félagsdóms þar sem hafnað var kröfu Í um að máli S á hendur honum yrði vísað frá dómi. Reisti Í kröfu sína á því að málið heyrði ekki undir Félagsdóm þar sem að rammasamkomulag, sem S byggði kröfur sínar á, væri ekki kjarasamningur milli samningsaðila í skilningi 3. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Talið var að með samkomulagi Í og S um breytingu og framlengingu á gildandi kjarasamningi milli þeirra hefðu nánar tilgreind ákvæði rammasamkomulagsins um svokallaða launaskriðstryggingu orðið hluti af gildandi kjarasamningi milli aðila og væri S því samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði heimilt að bera undir Félagsdóm ágreining um þau samningsákvæði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. febrúar 2019 en kærumálsgögn bárust réttinum 13. mars sama ár. Kærður er úrskurður Félagsdóms 21. febrúar 2019, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að máli varnaraðila á hendur honum yrði vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. tölulið 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Sóknaraðili krefst þess að málinu verði vísað frá Félagsdómi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, íslenska ríkið, greiði varnaraðila, Sjúkraliðafélagi Íslands, 500.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Félagsdóms 21. febrúar 2019.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 21. janúar sl.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Sonja María Hreiðarsdóttir og Sonja H. Berndsen.

Stefnandi er Sjúkraliðafélag Íslands, Grensásvegi 16 í Reykjavík.

          Stefndi er fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhvoli í Reykjavík.

          Dómkröfur stefnanda

          Þess er aðallega krafist að viðurkennt verði með dómi að félagsmenn stefnanda, sem störfuðu hjá íslenska ríkinu á tímabilinu nóvember 2013 til og með nóvember 2016, hafi átt rétt á 2,5% launahækkun í stað 1,3% launahækkunar á grundvelli c-liðar 2. gr. Rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðarins, dagsettu 27. október 2015.

          Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að félagsmenn stefnanda, sem störfuðu hjá íslenska ríkinu á tímabilinu nóvember 2016, hafi átt rétt á 2% launahækkun í stað 1,3% launahækkunar á grundvelli c-liðar 2. gr. Rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðarins, dagsettu 27. október 2015.

          Til þrautavara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að félagsmenn stefnanda, sem störfuðu hjá íslenska ríkinu á tímabilinu nóvember 2016, hafi átt rétt á frekari leiðréttingu launa sinna umfram þau 1,3% sem þegar hafi verið leiðrétt á grundvelli c-liðar 2. gr. Rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðarins, dagsettu 27. október 2015.

          Í öllum tilvikum krefst stefnandi að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.     

          Dómkröfur stefnda

          Stefndi krefst þessa aðallega að málinu verði vísað frá Félagsdómi. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda að mati dómsins.

          Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 21. janúar sl. og er sú krafa til úrlausnar í úrskurði þessum. Í þeim þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að stefnda verði gert að greiða sér málskostnað.

          Málavextir

          Hinn 27. október 2015 rituðu fulltrúar Alþýðusambands Íslands (ASÍ), Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Samtaka atvinnulífsins (SA), fjármálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga undir samkomulag sem ber yfirskriftina Rammasamkomulag milli aðila vinnumarkaðar. Í upphafsorðum samkomulagsins kemur fram að með því sé lagður grunnur að meiri sátt á vinnumarkaði með breyttum og bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. Markmiðið sé að auka kaupmátt við efnahagslegan og félagslegan stöðugleika á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis og lægra vaxtastigs. Í rammasamkomulaginu er fjallað um stofnun þjóðhagsráðs, mótun sameiginlegrar launastefnu til ársloka 2018, drög að útlínum nýs samningslíkans og samspil aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda.

          Annar töluliður rammasamkomulagsins fjallar um sameiginlega launastefnu til ársloka 2018. Stefnunni er lýst í sex stafliðum frá a til f. Í c-lið 2. greinar segir að opinberum starfsmönnum sem séu eða gerist aðilar að samkomulagi þessu verði „á næstu þremur árum tryggt það launaskrið sem verður á almennum vinnumarkaði umfram launaskrið á opinberum vinnumarkaði (launaskriðstrygging)“. Kemur þar fram að horft verði til „launaþróunar þeirra hópa á opinberum vinnumarkaði sem skilgreindir eru í skýrslunni „í aðdraganda kjarasamninga 2015“ (kafli 3.2) í þessu samhengi“. Þá segir í stafliðnum að launaskriðstrygging verði metin og framkvæmd miðað við árslok ár hvert og taki ekki gildi fyrr en þremur nánar tilgreindum skilyrðum, sem rakin eru í i- til iii-lið c-liðar, væri fullnægt. Í d-lið 2. greinar kemur síðan fram að þegar skilyrði c-liðar væru uppfyllt yrðu „öll forsenduákvæði er lúta að launastefnu, þ.m.t. tenging við launaþróun annarra hópa og kaupmáttarviðmiðun felld út“. Í niðurlagi stafliðarins segir að þeir aðilar sem eigi „ósamið á tímabilinu“ skuli setja inn „forsenduákvæði með vísan í lið 2. c.-iii“.

          Degi síðar, 28. október 2015, var undirritað samkomulag milli stefnanda og stefnda um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila til 31. mars 2019. Í 6. gr. samkomulagsins segir í 3. mgr.: „Ef ný forsenduákvæði verða tekin upp sbr. lið 2, c og d, í rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins þá munu þau forsenduákvæði koma í stað framangreindra ákvæða.“ Ágreiningslaust er að þetta samkomulag 28. október 2015 um framlengingu gildandi kjarasamnings aðila var samþykkt af beggja hálfu.

          Sömu aðilar og stóðu að rammasamkomulaginu undirrituðu skjal 21. desember 2017 sem ber yfirskriftina Útfærsla launaþróunartryggingar samkvæmt rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Þar er vísað til launaskriðstryggingar rammasamkomulagsins og ákvæðum þess er lutu að því lýst. Kemur þar fram að árlega skuli bera saman launaþróun fjögurra hópa opinberra starfsmanna, þ.e. félagsmanna ASÍ og BSRB hjá ríki og sveitarfélögum, við launaþróun félagsmanna ASÍ á almennum vinnumarkaði. Því næst er samanburðinum milli launaþróunar viðkomandi hópa lýst með eftirfarandi orðum:

Við samanburðinn er litið til breytinga á launakostnaði og tekið mið af launabreytingum og öðrum launakostnaðarbreytingum, þ.m.t. breytingum á lífeyrisréttindum. Viðfangsefnið snýst um að leggja mat á launaþróun félagsmanna aðildarfélaga ASÍ á almennum vinnumarkaði, samkvæmt mati Hagstofu Íslands, að viðbættri annarri umsaminni hækkun launakostnaðar, s.s. vegna iðgjalda í lífeyrissjóð eða annars starfsmannakostnaðar. Niðurstaðan fyrir almenna vinnumarkaðinn er síðan borin saman við sambærilega þróun framangreindra fjögurra hópa opinberra starfsmanna. Verði hún í óhag einhvers hinna fjögurra hópa sem um ræðir skulu starfsmenn í þeim hópi fá launahækkanir til að jafna muninn, en verði hún þeim í hag skal jafna það við næstu ákvarðanir.

         Í skjalinu er því næst gerð grein fyrir niðurstöðum samanburðar á launaþróun framangreindra fjögurra hópa starfsmanna hins opinbera við launaþróun félagsmanna aðildarfélaga ASÍ á árunum 2013 til 2016. Samkvæmt þessum samanburði var þróunin starfsmönnum aðildarfélaga BSRB í óhag sem nam 1,3%.

         Í öðrum tölulið í ofangreindu skjali er fjallað um áhrif launaskriðstryggingarinnar á „frekari hækkanir“. Í b-lið þessa liðar kemur fram að samningsaðilar skuli útfæra sín á milli hvernig launaauki sem kunni að koma til vegna launaskriðstryggingar verði ráðstafað.

         Meðal málsgagna er fundargerð stjórnar BSRB 2. febrúar 2018 þar sem útfærsla á 1,3% hækkun launa var rædd. Fram kom að launaþróun félaga innan BSRB hefði verið ólík á umræddu tímabili. Ekki hafi náðst samkomulag um útdeilingu launaskriðstryggingarinnar samkvæmt þeirri hugmynd að „1,3% færi jafnt á öll félögin“. Því var þeim aðildarfélögum BSRB sem semdu við ríkið falið að „ganga frá hækkunum við kjara- og mannauðssvið fjármálaráðuneytisins í samræmi við samkomulag sem aðilar að rammasamkomulaginu undirrituðu 21. desember 2017“. Samkvæmt því var hverju og einu aðildarfélagi BSRB, sem ætti „inni launaskrið fyrir tímabilið“, falið að ná samkomulagi um útfærslu á ráðstöfun launaskriðstryggingarinnar er tæki gildi frá og með 1. janúar 2017.

         Fulltrúar stefnanda, sem er eitt aðildarfélaga BSRB, áttu fund með fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins 6. febrúar 2018. Þar mun framangreind niðurstaða stjórnar BSRB hafa verið kynnt. Í greinargerð stefnda segir að á fundinum hafi stefnandi farið fram á að ráðuneytið samþykkti útfærslu launaskriðstryggingar með hliðsjón af launaþróun einstakra félaga innan BSRB. Hafi þar verið vísað til útreikninga Gunnars Gunnarssonar hagfræðings sem hafi metið launaskrið félagsmanna stefnanda minna en launaskrið félagsmanna BSRB í heild. Í stefnu er því haldið fram að fulltrúar ráðuneytisins hafi gert grein fyrir því að þeir teldu sig ekki hafa umboð til þess að semja við stefnanda á grundvelli kröfugerðar félagsins.

         Í málinu liggur fyrir bréf stefnanda til kjara- og mannauðsskrifstofu fjármálaráðuneytisins 27. febrúar 2018. Þar kemur fram sú afstaða stefnanda að meðaltalsgreiðsla sem nemi 1,3% hækkun launa til allra félaga í stéttarfélögum sem aðild eigi að BSRB væri ekki í samræmi við rammasamkomulag um launaskriðstrygginguna. Í svarbréfi ráðuneytisins 1. mars 2018 er því haldið fram að rammasamkomulagið byggi á því að allir í sama hópi eigi að fá sömu hækkun. Geti ráðuneytið ekki „ákveðið einhliða að útfæra niðurstöðuna á þann hátt að einstök stéttarfélög eigi að fá mismunandi hlutfall út frá mati hvers og eins félags á því hver launaþróun þess hafi verið út frá forsendum sem ekki hefur náðst samstaða um að beita.“ Væri slík útfærsla í ósamræmi við orðalag og tilgang rammasamkomulagsins.

         Ekki liggur annað fyrir en að launaskriðstrygging hafi verið greidd til starfsmanna stefnda sem eru félagsmenn í aðildarfélögum BSRB í samræmi við afstöðu ráðuneytisins.

          Málsástæður og lagarök stefnanda

          Stefnandi kveðst leggja málið fyrir Félagsdóm samkvæmt heimild í 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

          Stefnandi reisir kröfur sínar á því að greiðsla 1,3% meðaltals launaskriðstryggingar feli í sér mismunun og sé í ósamræmi við orðalag og tilgang rammasamkomulagsins sem og SALEK-samkomulagsins. Vísar hann til þess að óumdeilt sé að launaskriðstrygging hafi tekið gildi, enda hafi skilyrði liða i-iii í grein 2.c í rammasamkomulaginu verið fullnægt og launaskriðstryggingin verið innt af hendi.

          Þessu til stuðnings vísar stefnandi til þess að ekkert í grein 2.c eða í öðrum ákvæðum rammasamkomulagsins gefi til kynna að þrengja hafi átt að þeim réttindum opinberra starfsmanna sem kveðið sé á um í grein 2.c í samkomulaginu. Að mati stefnanda felist ekki í  „Útfærslu launaþróunartryggingar“, að félagsmenn stefnanda hafi eingöngu átt rétt til 1,3% launahækkunar, enda sé það í andstöðu við orðalag greinar 2.c í rammasamkomulaginu. Útreikningar þar séu meðaltalstölur sem settar séu til viðmiðunar, en samningsaðilar eigi að útfæra sín á milli hvernig launaauki, sem kunni að koma til vegna launaskriðstryggingar, verði ráðstafað, eins og sérstaklega sé tekið fram í grein 2.b í „Útfærslu launaþróunartryggingar“.

          Stefnandi kveður einu réttu aðferðina við útfærslu og ráðstöfun launaskriðstryggingarinnar sé að miða við raunverulega þróun aðildarfélaga BSRB á viðmiðunartímabilinu og bera hana saman við launaskrið á almennum vinnumarkaði á sama tíma. Miðar aðalkrafa stefnanda við þessa aðferð en hún styðjist við útreikning hagfræðingsins Gunnars Gunnarssonar er byggi á gögnum sem aflað hafi verið frá Hagstofu Íslands. Hann leiði í ljós að meðaltalshækkun launavísitölu félagsmanna ASÍ á almennum vinnumarkaði hafi verið 129,4 stig á nefndu tímabili en félagsmanna stefnanda 126,2 stig.

          Stefnandi telur aðra niðurstöðu fela í sér mismunun og vera í andstöðu við tilgang greinar 2.c í rammasamkomulaginu, sem hafi verið að koma í veg fyrir að opinberir starfsmenn sætu eftir í almennri launaþróun á samningstímanum og krefðust leiðréttinga við næstu samningsgerð. Þá sé sú aðferð sem aðalkrafan byggist á í samræmi við skýrt orðalag rammasamkomulagsins og leiði til þess að aðildarfélög BSRB sitji við sama borð. Þannig verði laun félagsmanna þeirra aðildarfélaga, sem séu undir meðaltalshækkun launavísitölu félagsmanna ASÍ á almennum vinnumarkaði á tímabilinu, leiðrétt til samræmis við þá hækkun meðan þau aðildarfélög BSRB, sem séu yfir meðaltalinu, fái eðli málsins samkvæmt enga leiðréttingu. Nánari rök eru færð fyrir þessu í stefnu.

          Varakrafa stefnanda sé reist á því að miða skuli við raunverulegt launaskrið aðildarfélaga BSRB á tímabilinu og leiðrétta laun þeirra félagsmanna innan BSRB sem hafi verið undir meðaltalshækkun launavísitölu félagsmanna ASÍ á almennum vinnumarkaði þannig að þau séu sem næst 129,4 stigum, þ.e. 128,7 stig. Telur stefnandi þessa aðferð leiða til þess að félagsmenn stefnanda fái 2% hækkun. Þessi aðferð sé á allan hátt sanngjarnari en sú meðaltalsleið sem farin hafi verið. Nánari rök eru færð fyrir varakröfunni í stefnu.

          Þrautavarakröfu sína kveður stefnandi vera setta fram sem öryggisventil ef svo fari að ekki verði fallist á útreikninga stefnanda fyrir aðal- eða varakröfu. Að baki henni búi sömu málsástæður og að baki þeim kröfum.

          Málsástæður og lagarök stefnda

          Stefndi reisir frávísunarkröfu sína á því að ágreiningur málsins heyri ekki undir Félagsdóm, hvorki á grundvelli 3. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 né annarra ákvæða sömu laga. Samkvæmt ákvæðinu dæmi Félagsdómur í málum sem rísi milli samningsaðila um ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Rammasamkomulagið og útfærsla þess, sem stefnandi reisi kröfur sínar á, sé ekki kjarasamningur milli samningsaðila í skilningi lagaákvæðisins, heldur samkomulag milli ASÍ, BSRB, SA, fjármála- og efnahagsráðherra, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um almenna stefnumótun og markmiðssetningu í kjaramálum. Þar sem samkomulagið falli ekki undir þau ágreiningsefni sem 3. töluliður 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 taki til beri að vísa málinu frá Félagsdómi.

          Að öðru leyti styður stefndi sýknukröfu sína þeim rökum að hvergi sé mælt fyrir um það í samkomulaginu eða útfærslu þess að bera skuli einstaka aðildarfélög innan hvers hóps saman við einn hóp félagsmanna ASÍ á almennum markaði. Nánari rök eru færð fyrir sýknukröfunni í greinargerð stefnda.

          Niðurstaða

          Í þessum þætti málsins greinir aðila á um hvort sakarefni málsins eigi undir Félagsdóm samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í ákvæðinu segir að Félagsdómur dæmi í málum sem rísa milli samningsaðila um ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans.

          Eins og rakið hefur verið stóð BSRB meðal annarra að rammasamkomulagi því sem dómkröfur stefnanda vísa til sem og að samkomulagi 21. desember 2017 er laut að útfærslu launaskriðstryggingar sem báðir aðilar vísa einnig til. Fyrir liggur að stefnandi er aðili að BSRB sem eru samtök stéttarfélaga. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 94/1986 geta samtök stéttarfélaga farið með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamnings samkvæmt lögunum og aðrar ákvarðanir í sambandi við þá.

          Um efni kjarasamninga og gildistíma þeirra er fjallað í II. kafla laganna. Fyrirmæli rammasamkomulagsins taka ekki mið af ákvæðum þess kafla og endurspegla fyrst og fremst stefnumið þeirra sem aðild eiga að samkomulaginu um almenna launaþróun til ársloka 2018. Hins vegar liggur fyrir að stefnandi og stefndi gerðu með sér samkomulag um breytingar og framlengingu á gildandi kjarasamningi milli aðila 28. október 2015 sem vísaði til rammasamkomulagsins. Samkvæmt 6. gr. þess samnings skyldu ný forsenduákvæði samkvæmt stafliðum c og d í 2. gr. rammasamkomulagsins koma í stað gildandi forsenduákvæða kjarasamningsins þegar ný forsenduákvæði yrðu tekin upp samkvæmt sömu ákvæðum rammasamkomulagsins. Enginn ágreiningur er um að skilyrðum rammasamkomulagsins fyrir nýjum forsenduákvæðum er fullnægt enda ber samkomulag um útfærslu launaskriðstryggingar og greiðsla hennar af hálfu stefnda ekki annað með sér. Verður því að leggja til grundvallar að téð ákvæði rammasamkomulagsins um launaskriðstryggingu hafi orðið hluti af gildandi kjarasamningi aðila máls þessa og er stefnanda heimilt samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 að bera undir Félagsdóm ágreining um hvaða skilning eigi að leggja í þau samningsákvæði. Samkvæmt þessu ber að hafna frávísunarkröfu stefnda.

          Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna anna dómsformanns. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

          Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

          Frávísunarkröfu stefnda, íslenska ríkisins, er hafnað.

          Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.