Print

Mál nr. 23/2018

Ólafur Ólafsson (Þórólfur Jónsson lögmaður)
gegn
ríkissaksóknara og íslenska ríkinu (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Hæfi dómara
Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu Ó um að landsréttardómari viki sæti í máli Ó á hendur R og Í.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. október 2018 en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 4. október 2018, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson landsréttardómari viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefnd krafa hans verði tekin til greina.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 veldur það eitt ekki vanhæfi dómara til meðferðar einkamáls þótt hann hafi áður dæmt um annað sakarefni í máli, sem aðili fyrrnefnda málsins hefur átt aðild að, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 30. ágúst 2000 í máli nr. 305/2000, sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 2619, 8. maí 2008 í máli nr. 445/2007 og 10. júní 2009 í máli nr. 263/2009. Því síður leiðir það eitt og sér til vanhæfis dómara til meðferðar máls þótt einhver honum nákominn hafi áður komið að rannsókn eða úrlausn annars sakarefnis sem tengst hefur aðila að málinu. Að þessu virtu verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að vinna Finns Vilhjálmssonar við rannsókn á vegum rannsóknarnefndar Alþingis, sem fjallaði um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf., og skýrslu nefndarinnar um rannsóknina leiði ekki til þess að Vilhjámi H. Vilhjálmssyni beri að víkja sæti sem dómari í máli því sem til úrlausnar er fyrir Landsrétti.

Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Landsréttar 4. október 2018.

Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Oddný Mjöll Arnardóttir og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 23. mars 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. desember 2017 í málinu nr. E-1952/2016. Á þessu stigi er aðeins til úrlausnar krafa áfrýjanda um að einn dómaranna, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verði úrskurðaður vanhæfur til að dæma í málinu og gert að víkja sæti í því.

2. Stefndu krefjast þess að kröfu áfrýjanda verði hafnað.

Málsatvik og sönnunarfærsla

3. Áfrýjandi höfðaði mál þetta til ógildingar á úrskurði endurupptökunefndar 26. janúar 2016 í máli nr. 8/2015 þar sem hafnað var beiðni áfrýjanda um endurupptöku máls nr. 145/2014 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 12. febrúar 2015. Byggir krafa áfrýjanda meðal annars á því að sönnunargögn sem færð hafi verið fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. þágildandi c-lið 1. mgr. 211. gr., sbr. 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en samsvarandi ákvæði er nú að finna í c-lið 1. mgr. 228. gr., sbr. 1. mgr. 232. gr. laganna.

4. Í bréfi lögmanns áfrýjanda dagsettu 24. september síðastliðinn, sem barst Landsrétti með tölvubréfi sama dag, gerði áfrýjandi þá kröfu sem hér er til úrlausnar og fór munnlegur málflutningur um hana fram í þinghaldi 1. október síðastliðinn. Kröfuna reisir áfrýjandi á g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er um vanhæfi Vilhjálms H. Vilhjálmssonar í fyrsta lagi vísað til vinskapar dómarans við Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómara, sem var einn dómenda í hæstaréttarmálinu nr. 145/2014. Í öðru lagi er krafan á því reist að dómarinn sé faðir Finns Þórs Vilhjálmssonar saksóknara sem hafi verið annar tveggja nefndarmanna í rannsóknarnefnd Alþingis sem fjallaði um þátttöku Hauck & Aufhäser Privatbankiers KGaA í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003, en áfrýjandi hafi verið „meðal helstu viðfangsefna skýrslunnar“. Í þriðja lagi er á því byggt að dómarinn sé faðir Inga Freys Vilhjálmssonar blaðamanns sem hafi skrifað „mikinn fjölda neikvæðra frétta um áfrýjanda og störf hans í íslensku viðskiptalífi, fyrir fjölmiðla sem hann hefur starfað á, um árabil“.

Niðurstaða

5. Samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en þau sem talin eru í a- til f-liðum sama ákvæðis, sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess. Jafnframt er tilgangurinn að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé með réttu vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli, sbr. dóm Hæstaréttar 22. apríl 2015 í máli nr. 511/2014.

6. Fyrir liggur að Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari var einn fimm dómara sem dæmdu hæstaréttarmálið nr. 145/2014. Markús og sá dómari sem krafist er að víki sæti í máli þessu hafa þekkst frá árinu 1977 og hafa átt samskipti síðan tengd störfum sínum. Samskipti þeirra eru óreglubundin og tengjast hvorki ákveðnum félagasamtökum né vinahópum. Verða kynni þeirra því talin hefðbundin fyrir kunningsskap samferðarmanna á sviði lögfræði og ekki þess eðlis að með réttu megi draga í efa hæfi dómarans til að fara með mál þetta.

7. Kemur þá til álita hvort störf Finns Þórs og Inga Freys Vilhjálmssona leiði til þess að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa.

8. Samkvæmt hinum hlutlægu reglum d- til f-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari ávallt vanhæfur ef einstaklingur honum nákominn er aðili máls, fyrirsvarmaður aðilans eða vitni í málinu. Þegar mat er lagt á hæfi dómara samkvæmt g-lið sama ákvæðis verður einnig að líta til þess hvort aðilar nákomnir honum tengist dómsmálinu á þann hátt að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa og verður í hverju tilviki að leggja heildstætt mat á þau atvik eða aðstæður sem uppi eru. Í því sambandi getur skipt miklu hvort talið verði að einstaklingar nákomnir dómaranum hafi á einhvern hátt hagsmuna að gæta í tengslum við sakarefnið, aðila máls, fyrirsvarsmann aðila eða vitni í málinu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. júní 2017 í máli nr. 90/2016 og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málunum Pétur Þór Sigurðsson gegn Íslandi frá 10. apríl 2003 og Ramljak gegn Króatíu frá 27. júní 2017. 

9. Á árinu 2016 var Finnur Þór ráðinn starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis sem fjallaði um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäser Privatbankiers KGaA í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003. Átti áfrýjandi aðkomu að þeim atvikum sem nefndin hafði til rannsóknar. Skýrsla nefndarinnar um rannsóknina lá fyrir á árinu 2017 og var Finnur Þór annar tveggja ritstjóra hennar. Framangreind skýrsla tengist ekki atvikum þessa máls og áfrýjandi hefur að öðru leyti ekki bent á nein þau atvik eða aðstæður sem leitt gætu til þess að störf Finns Þórs fyrir rannsóknarnefndina valdi vanhæfi dómarans.

10. Áfrýjandi byggir loks á því að dómarinn sé vanhæfur til meðferðar málsins vegna opinberra blaða- og vefskrifa Inga Freys um áfrýjanda og störf hans í íslensku viðskiptalífi, sem áfrýjandi telur hafa verið undir neikvæðum formerkjum. Að auki sé Ingi Freyr höfundur ritsins „Hamskiptin - Þegar allt varð falt á Íslandi“ þar sem hann þakki föður sínum í formála fyrir að hafa þrýst á hann síðustu ár að skrifa bók um hrunið.

11. Þau skrif Inga Freys sem áfrýjandi hefur lagt fram kröfu sinni til stuðnings varða meðal annars fyrrgreinda skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis varðandi einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf., skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008, skuldauppgjör og afskriftir félaga í eigu áfrýjanda, fjármagnsflutninga áfrýjanda í gegnum svokallaða fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, fimmtugsafmæli áfrýjanda og kaup áfrýjanda á ríkisskuldabréfum. Loks er um að ræða skrif um rannsókn sérstaks saksóknara á kaupum Mohamed Bin Khalifa Al-Thani á hlut í Kaupþingi banka hf., dóm héraðsdóms í því máli sem höfðað var á hendur áfrýjanda og fleiri einstaklingum vegna þeirra viðskipta og viðhorfspistil í janúar 2016 í kjölfar viðtals við áfrýjanda og aðra dómfellda í hæstaréttarmálinu nr. 145/2014.

12. Engin hinna framlögðu skrifa Inga Freys eru þess eðlis að hann hafi lýst eigin afstöðu til mats á þeim sönnunargögnum sem endurupptökubeiðni áfrýjanda varðar. Skrifin eru blanda af fréttaflutningi og tjáningu á gagnrýnum viðhorfum til löggerninga sem áfrýjandi hefur átt aðild að á löngum viðskiptaferli. Er þar einnig að finna ýmis gildishlaðin ummæli sem bera vitni um neikvæða afstöðu til áfrýjanda sjálfs. Ummæli þessi eru aftur á móti sett fram sem hluti af störfum Inga Freys sem blaðamanns og varða á engan hátt hans eigin hagsmuni. Verða skrif hans því ekki talin þess eðlis að þau hafi áhrif á hæfi föður hans til að dæma í máli þessu.

13. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki á það fallist að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem séu til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni Vilhjálms H. Vilhjálmssonar með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Er því hafnað kröfu áfrýjanda um að hann víki sæti í málinu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu áfrýjanda, Ólafs Ólafssonar, um að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson landsréttardómari víki sæti í málinu.