Print

Mál nr. 246/2017

Landsnet hf. (Þórður Bogason hrl.)
gegn
Finni Sigfúsi Illugasyni og Kristínu Þ. Sverrisdóttur (Magnús Óskarsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Eignarnám
Reifun
L hf. gerði kröfu um að sér yrðu fengin með beinni aðfarargerð umráð nánar greindra landsréttinda á grundvelli 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms með skírskotun til ákvörðunar iðnaðar- og viðskiptaráðherra þar sem L hf. hafði verið heimilað með vísan til raforkulaga nr. 65/2003 að framkvæma eignarnám vegna lagningar háspennulínu. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför yrðu réttindi gerðarbeiðanda að vera svo ljós að sönnur yrðu færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað yrði eftir 83. gr. sömu laga. F og K hefðu fært fyrir því rök, sem ekki yrði augljóslega vísað á bug, að heimild L hf. til eignarnámsins fengi ekki staðist að lögum. Hefðu þau borið þann ágreining undir dómstóla en héraðsdómi í málinu hafði verið áfrýjað til Hæstaréttar. Þar sem heimild L hf. til eignarnámsins væri því ekki vafalaus var kröfu hans hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. apríl 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að land undir 10.100 metra langt og að jafnaði 47 metra breitt háspennubelti vegna framkvæmdarinnar Kröflulína 4, 220 kV háspennulína ásamt 35 möstrum, auk samtals 10.100 metra langra og 6 metra breiðra nýrra vegslóða, yrði tekið úr vörslum varnaraðila með beinni aðfarargerð og fengið sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Máli varnaraðila á hendur sóknaraðila, þar sem reynir á heimild sóknaraðila til eignarnáms þess, sem hér um ræðir, hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, þar sem fyrirhugað er að flytja það 8. júní 2017. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Landsnet hf., greiði varnaraðilum, Finni Sigfúsi Illugasyni og Kristínu Þ. Sverrisdóttur, hvoru um sig, 175.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. apríl 2017

Sóknaraðili, Landsnet hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík, krefst þess að land „undir 10.100 metra langt og að jafnaði 47 metra breitt háspennubelti vegna framkvæmdarinnar Kröflulína 4, 220 kV háspennulína, ásamt 35 möstrum (6 fastmöstrum og 29 burðarmöstrum), auk samtals 10.100 metra langra og 6 metra breiðra nýrra vegslóða, sem [sóknaraðila hafi verið] heimiluð umráðataka á með úrskurði matsefndar eignarnámsbóta, dags. 3. nóvember 2016“, verði með beinni aðfarargerð tekið úr vörzlum varnaraðila, Finns Sigfúsar Illugasonar, Bjargi, Skútustaðahreppi og Kristínar Þ. Sverrisdóttur, Víðihlíð, Skútustaðahreppi, og fengið sér. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að kröfunni verði hafnað. Til vara krefjast þeir þess að kveðið verði á um að málskot fresti framkvæmd aðfarar. Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar.

Í öndverðu beindi sóknaraðili kröfum sínum einnig að Sólveigu Illugadóttur og Héðni Sverrissyni, en féll frá kröfum á hendur þeim og bókaði jafnframt að gert hefði verið samkomulag við þau um greiðslur bóta.

Málið var þingfest 13. desember 2016 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 23. febrúar 2017.

Málavextir

Með bréfi til iðnaðar- og viðskiptaráðherra, dags. 21. september 2015, óskaði sóknaraðili eftir heimild ráðherrans til að framkvæma eignarnám tiltekinna landsréttinda í óskiptu landi Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, vegna Víðihlíðar, landnr. 153612, og Bjargs, landnr. 153542, í þágu Kröflulínu 4 og 5, 220 kV háspennulínu sem verða skyldi hluti almenns raforkuflutningskerfis sóknaraðila.

Sóknaraðili óskaði eftir heimild til að leggja 220 kV háspennulínu frá Kröflu að Þeistareykjum og þaðan áfram að iðnaðarsvæði Bakka við Húsavík. Einnig stæði til að reisa aðra háspennulínu, samsíða hinni fyrri, sem liggja myndi að fyrirhuguðu tengivirki á Hólasandi. Gert væri ráð fyrir að háspennulínurnar myndu liggja um óskipt land Reykjahlíðar. Samningar hefðu ekki tekizt við sjö nafngreinda landeigendur, þar á meðal varnaraðila.

Hinn 14. október 2016 féllst iðnaðar- og viðskiptaráðherra á beiðnina með vísan til 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Var eignarnám heimilað til ótímabundinna afnota fyrir sóknaraðila og í því skyni skyldi þinglýsa nánar greindum kvöðum á jarðirnar Bjarg og Víðihlíð, þar á meðal að sóknaraðila sé heimilt að leggja um óskipt land Reykjahlíðar tvær 220 kV háspennulínur, Kröflulínu 4 og 5, ásamt því að reisa í landinu 72 stauravirki til að bera línurnar uppi, nánar til tekið sextíu burðarmöstur og tólf hornmöstur. Skyldu mannvirkin mega standa ótímabundið, óátalið af eignendum og ábúendum.

Hinn 17. október 2016 fór sóknaraðili fram á að matsnefnd eignarnámsbóta mæti hæfilegar bætur til varnaraðila sem eignarnámsþola, en varnaraðilinn Finnur Sigfús er eigandi 75% hlutar í Bjargi og varnaraðilinn Kristín 25% hlutar í Víðihlíð.

Hinn 26. október 2016 óskaði sóknaraðili eftir því við matsnefnd eignarnámsbóta að verða heimilað að taka hið eignarnumda land í sína vörzlu þótt ekki væri lokið mati eignarnámsbóta. Hinn 3. nóvember 2016 varð matsnefndin við því með úrskurði.

Varnaraðilar tilkynntu sóknaraðila með bréfi 4. nóvember 2016 að þeir myndu ekki afhenda sóknaraðila umráð landsins án beinnar aðfarargerðar.

Hinn 4. janúar 2017 höfðuðu varnaraðilar mál á hendur sóknaraðila og íslenzka ríkinu og kröfðust þess að felld yrði úr gildi ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra um heimild sóknaraðila til að framkvæma eignarnám og um að þinglýstar yrðu nánar greindar kvaðir á jarðirnar Bjarg og Víðihlíð. Byggðu þeir mál sitt meðal annars á því að fyrirliggjandi ákvörðun um eignarnám væri haldin slíkum annmörkum, bæði hvað form- og efni áhrærði, að hún væri ógildanleg. Hver og einn þessara annmarka leiddi óhjákvæmilega til þess að fella beri ákvörðunina úr gildi. Væri ákvörðun ráðuneytisins í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Jafnframt hefði verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meðalhófsreglu 12. gr. laganna og andmælarétti, sbr. 13. gr. laganna.

Málið, sem sætti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur hinn 6. janúar 2017 en dómur í því gekk hinn 16. marz og voru stefndu í málinu sýknuð af kröfum stefnenda. Samkvæmt skráningu á heimasíðu Hæstaréttar Íslands hefur málinu verið áfrýjað og var áfrýjunarstefna gefin út 23. marz.

Með úrskurði 22. febrúar 2017 ákvað matsnefnd eignarnámsbóta að sóknaraðili skyldi greiða varnaraðilanum Finni Sigfúsi 2.016.188 krónur í eignarnámsbætur en varnaraðilanum Kristínu 726.000 krónur, auk málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili segir að með beiðni dagsettri 21. september 2015, hafi hann farið þess á leit við iðnaðar- og viðskiptaráðherra að sér yrði heimilað að taka eignarnámi tiltekin réttindi í óskiptu landi jarðarinnar Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, vegna jarðanna Bjargs, landnr. 153542, og Víðihlíðar, landnr. 153612. Sé eignarnámið í þágu hluta 220 kV háspennulína og annarra mannvirkja sem sóknaraðili áformi að reisa, svonefndra Kröflulínu 4 og 5, og sé eignarnámsheimild í 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Með ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, dags. 14. október 2016, hafi sóknaraðila verið heimilað að taka réttindin eignarnámi. Hafi sóknaraðili gert samninga við aðra eigendur hins óskipta lands um afnot af því undir mannvirkin.

Sóknaraðili segist hafa, í kjölfar ákvörðunar ráðherra, farið þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að metið yrði til fjár endurgjald það sem hann skyldi greiða varnaraðilum fyrir hin eignarnumdu landsréttindi, sbr. 4. gr. laga nr. 11/1973. Sökum brýnna hagsmuna sem hann hafi af því að geta þegar í stað hafið undirbúningsframkvæmdir við Kröflulínu 4 í óskiptu landi Reykjahlíðar hafi sóknaraðili farið þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að sér yrðu veitt umráð fyrir hinum eignarnumdu landsréttindum. Hafi heimild til umráðatöku verið veitt með úrskurði matsnefndarinnar hinn 3. nóvember 2016.  Hinn 26. október 2016 hafi Skútustaðahreppur veitt sóknaraðila framkvæmdaleyfi að nýju til framkvæmda við Kröflulínu 4. Sóknaraðili segir að sér sé nauðsyn að hefja framkvæmdir strax og að hann sé tilbúinn til þess. Sóknaraðila beri bæði lagalega og samningsbundin skylda til að reyna sitt ýtrasta til að ná þeim markmiðum að tengja megi Þeistareykjavirkjun við meginflutningskerfi raforku með Kröflulínu 4 sem fyrst eftir 1. júlí 2017 þannig að prófa megi virkjunina áður en orkuafhending eigi að hefjast til kísilvers PCC á Bakka við Húsavík hinn 1. nóvember 2017 en þá eigi sóknaraðili að hafa lokið byggingu Þeistareykjalínu 1.

Sóknaraðili segir að allar heimildir til framkvæmda við Kröflulínu 4 liggi fyrir. Sú afstaða gerðarþola að neita að veita gerðarbeiðanda umráð hinna eignarnumdu landsréttinda, þrátt fyrir heimild matsnefndar eignarnámsbóta, komi í veg fyrir að unnt sé að hefja framkvæmdir á um tíu kílómetra kafla í óskiptu landi Reykjahlíðar.

Sóknaraðili segir að réttindi sín séu ljós og sönnur séu færðar á þau með framlögðum gögnum. Framkvæmd sín, Kröflulína 4, 220 kV háspennulína, sé byggð á lögbundnum skyldum hans samkvæmt sérstaklega III. kafla raforkulaga nr. 65/2003 og hafi hún sætt áralöngum undirbúningi. Teljist framkvæmdin til einna mikilvægustu innviða samfélagsins, raforkuflutninga.  Sóknaraðili segir að á rúmlega sextíu kílómetra langri leið milli Kröflu og iðnaðarsvæðisins á Bakka við Húsavík fari háspennulínur, annarsvegar Kröflulína 4 og hinsvegar Þeistareykjalína 1, um fjölmörg lönd sem séu í einkaeigu. Kalli það á kvaðasetningu landsréttinda í þágu framkvæmdanna. Á grundvelli 21. gr. raforkulaga hafi tekizt samningar við 98% landeigenda á línuleiðinni um slíka kvöð og endurgjald fyrir hana. Samningar hafi hinsvegar ekki tekizt við varnaraðila og hafi því verið leitað eftir heimild til eignarnáms. Ákvörðun um eignarnám feli í sér kvöð um takmörkun landsréttinda í þágu framkvæmdarinnar Kröflulínu 4, og sé sú kvöð í öllu sambærileg við hina samningsbundnu kvöð. Sóknaraðili segir að eins og gerð sé grein fyrir meðal annars í athugasemdum frumvarps sem þáverandi ríkisstjórn hafi lagt fram á alþingi, 145. löggjafarþingi, sé mjög mikilvægt að framkvæmdir tengdar kísilveri á Bakka og Þeistareykjavirkjun haldi áfram samkvæmt áætlunum og tefjist ekki frekar en þegar sé orðið. Í 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga segi að sé manni með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem að hann tjái sig eiga og telji svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verði samkvæmt 83. gr. laganna, sé honum heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis, sem geti í 72. eða 73. gr. laganna, verði fullnægt með aðfarargerð, þótt aðfararheimild samkvæmt 1. gr. laganna liggi ekki fyrir. Í 72. gr. laganna sé mælt fyrir um að kveði aðfararheimild á um skyldu gerðarþola til að víkja af fasteign eða til að láta gerðarbeiðanda af hendi umráð hennar að einhverju leyti eða öllu, eða til að fjarlægja hluti af henni, skuli sýslumaður fullnægja rétti gerðarbeiðanda með útburði gerðarþola eða þeirra hluta sem fjarlægðir verði og eftir atvikum með innsetningu gerðarbeiðanda. Sóknaraðili segist telja þær heimildir sem hann byggi á í þessu máli fela í sér réttindi sem uppfylli það skilyrði 1. mgr. 78. gr. laganna eða aðfararlaga að vera svo ljós að sönnur séu færðar fyrir þeim með framlögðum gögnum, sbr. 83. gr. laganna, þannig að fallast beri á kröfu sína um að heimila aðför, sem sýslumaður muni síðan fullnægja á grundvelli 78. gr. laganna.

Sóknaraðili segir aðfararlög að meginstefnu byggð á því að gildar ákvarðanir stjórnvalda og dómstóla verði lagðar til grundvallar við úrlausn mála samkvæmt þeim. Þannig standi það ekki í vegi fyrir aðfarargerð skv. 78. gr. aðfararlaga þótt dómsmál sé jafnframt rekið milli sömu aðila um önnur atriði sem varði réttarsamband þeirra, sbr. 79. gr. laganna. Til hliðsjónar megi einnig benda á 2. mgr. 6. gr. laganna, en þar sé kveðið á um að það hindri ekki aðför samkvæmt sátt þótt gerð sé krafa um ógildingu hennar í dómsmáli. Þá sé ljóst að sóknaraðili, en ekki dómstóll eða stjórnvald, beri ábyrgð á aðfarargerð sbr. 96. gr. aðfararlaga. Þessi ákvæði aðfararlaga séu einnig byggð á þeirri reglu sem fram komi í 2. ml. 60. gr. stjórnarskrárinnar þess efnis að enginn geti komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms. Kveðst sóknaraðili byggja á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar.

Sóknaraðili segir að samkvæmt 13. gr. laga nr. 11/1973 geti eignarnemi, þegar ákvörðun um umráðatöku samkvæmt 14. gr. laganna hafi verið tekin og trygging hafi verið sett, tekið umráð eignarnumins verðmætis með því að leita aðfarargerðar án undangengis dóms eða sáttar. Hafi matsnefnd eignarnámsbóta verið tilkynnt að trygging hafi verið sett. Hafi varnaraðilar knúið sóknaraðila til að leita aðfarargerðar með bréfi 4. nóvember 2016. Sé sóknaraðila því nauðugur einn sá kostur að krefjast þess að úrskurðað verði um að réttindin verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörzlum gerðarþola og fengin sér. Fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun sem heimili sóknaraðila umráðatöku en varnaraðilar vilji koma sér hjá því að hlíta þeirri ákvörðun.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðilar segja að samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 verði krafa sóknaraðila að vera svo ljós að hægt sé að sanna réttindi hans með þeim gögnum sem aflað verði samkvæmt 83. gr. laganna, sýnilegum sönnunargögnum. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna skuli að jafnaði hafna aðfararbeiðni ef varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga. Þannig valdi vafi um réttmæti kröfu því að synja beri um aðför.

Varnaraðilar segjast telja ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 14. október 2016 vera í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 23. gr. raforkulaga. Jafnframt hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meðalhófsreglu sbr. 12. gr. sömu laga og andmælarétti sbr. 13. gr. sömu laga. Þar sem ákvörðun ráðuneytisins sé haldin verulegum form- og efnisannmörkum sé óhjákvæmilegt að fella hana úr gildi.

Varnaraðilar segjast hafa höfðað dómsmál þar sem gerð sé krafa um ógildingu ákvörðunarinnar. Sé málið rekið sem flýtimeðferðarmál skv. XIX. kafla laga nr. 91/1991 og verði úrslit málsins því ljós innan nokkurra mánaða. Sé afar mikilvægt að fá úrlausn dómstóla um það hvort umrædd ákvörðun, sem skerði eignarréttindi varnaraðila, hafi sætt lögmætu undirbúningsferli og hvíli á lögmætum grunni.

Varnaraðilar segjast vísa til dóma Hæstaréttar Íslands í málum vegna Suðurnesjalínu 2, sem hafi fordæmisgildi í þessu máli. Í þeim dómum hafi ekki verið fallizt á umráðasviptingu, þrátt fyrir að bætur hafi verið metnar og þrátt fyrir aðfararheimild 13. gr. laga nr. 11/1973, vegna þess að eignarnámsþolar höfðu borið ágreining um gildi eignarnámsheimilda fyrir dómstóla og því hafi ekki verið talið hægt að ganga út frá því sem gefnu að heimild til eignarnema til eignarnámsins væru vafalausar. Í dómum Hæstaréttar hafi einnig komið fram að þótt svo væri mælt í 60. gr. stjórnarskrárinnar að enginn gæti komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta máli sínu til dóms, hafi í málunum verið færð fyrir því rök sem ekki verði augljóslega vísað á bug að heimild til eignarnámsins stæðist ekki að lögum og borið þann ágreining undir dómstóla. Varnaraðilar segja sömu stöðu uppi í þessu máli og í umræddum dómum Hæstaréttar. Fyrir liggi að leyst verði úr ágreiningi aðila í því dómsmáli sem höfðað hafi verið og muni niðurstaða þess liggja fyrir innan nokkurra mánaða. Hljóti varnaraðilar eiga rétt á því fá niðurstöðu um lögmæti ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins áður en sóknaraðili fái umráð og hefjist handa við óafturkræfar framkvæmdir á landi þeirra.

Varnaraðilar segja að í nýlegum dómi Hæstaréttar vegna Suðurnesjalínu 2 hafi ákvörðun um eignarnám verið felld úr gildi og í máli númer 796/2015 hafi framkvæmdaleyfi verið fellt úr gildi. Sá möguleiki sé því fyrir hendi og líklegur í ljósi dóma Hæstaréttar um ógildingu eignarnáms vegna Suðurnesjalínu 2, að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að framangreind ákvörðun frá 14. október 2016 sé reist á ólögmætum grunni en að framkvæmdir og óafturkræft jarðrask væri þegar hafið eða yfirstaðið á eignarlandi varnaraðila.

Þá segjast varnaraðilar byggja á því að skilvirkur aðgangur að dómstólum og réttur til raunhæfrar endurskoðunar á úrslitum stjórnvalda njóti einnig stjórnarskrár­verndar og verndar mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmálans. Varnaraðilar eigi rétt á því að fá úrlausn dómstóla um lögmæti framangreindrar ákvörðunar en að öðrum kosti verði að engu gerð þau réttindi þeirra að geta leitað til dómstóla til þess að fá skorið úr um lögmæti íþyngjandi stjórnarvaldsákvarðana sem að þeim beinist. Þá sé ekki ólíklegt að í dómsmálinu sem hafi verið höfðað muni dómendur vilja ganga á vettvang til að skoða aðstæður. Mikilvægt sé að slíkt verði gert áður en óafturkræf spjöll verði unnin á landinu.

Varnaraðilar segjast mótmæla því sérstaklega að sóknaraðila sé nauðsynlegt að hefja framkvæmdir strax. Fyrir liggi að sóknaraðili gæti í fyrsta lagi hafið framkvæmdir af hinu umdeilda svæði þegar snjóa leysi í vor. Snjóað hafi töluvert á hinu umdeilda svæði og gera megi ráð fyrir frosthörkum en slíkt tíðarfar hamli framkvæmdum og geri þær ómögulegar eins og sóknaraðili hafi sjálfur haldið fram. Varnaraðilar fái því ekki séð að verulega sé íþyngjandi fyrir sóknaraðila að bíða niðurstöðu dómstóla sem skeri endanlega úr um eignarnámsheimild sóknaraðila. Þá sé ljóst að verði sóknaraðila heimiluð umráðatakan og hann hefji framkvæmdir geti ekki verið um annað að ræða en að jarðýta fari af stað inn á svæðið til málamynda og rífi þar upp viðkvæman gróður með mjög alvarlegri röskun og skaða fyrir lífríkið sem engin leið sé að endurheimta. Þannig yrði eignarréttarhagsmunum varnaraðila stórlega raskað ef krafa þeirra um ógildingu eignarnámsheimildarinnar yrði síðar tekin til greina.

Varnaraðilar segja að samkvæmt þessu sé augljóst að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms til að heimila umráðatöku án þess að mat hafi farið fram samkvæmt 13. gr. laganna. Af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum leiði að við það sé miðað að þessarar heimildar sé fyrst og fremst neytt þegar eignarnema sé tímans vegna af sérstökum ástæðum mikil nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis og honum yrði verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Sóknaraðili geti ekki hafið framkvæmdir á næstu mánuðum og séu því skilyrði fyrir beitingu lagagreinarinnar ekki uppfyllt. Beri því að mati varnaraðila að hafna aðfararbeiðni sóknaraðila að minnsta kosti að svo stöddu en slík bráðabirgðaniðurstaða myndi ekki endilega girða fyrir að sóknaraðili krefðist aðfarar að nýju þegar hann teldi skilyrði uppfyllt.

Varnaraðilar segja sóknaraðila vísa til þess í aðfararbeiðni að hann hafi skuldbundið sig til að tengja Þeistareykjavirkjun við flutningskerfi raforku á miðju ári 2017. Gera verði þær kröfur til sóknaraðila, að áður en hann gangi til samninga við þriðja mann og skuldbindi sig til að leggja raflínur um annarra manna lönd, undanskilji hann sig ábyrgð á því ef lagning raflína tefjist eitthvað umfram það sem að hann ráðgeri. Tafir sem orðið hafi á verkinu að mati sóknaraðila séu alfarið á ábyrgð hans sjálfs og geti þær ekki gengið fyrir eða komið niður á stjórnarskrárvörðum eignarrétti varnaraðila.

Varnaraðilar segja sóknaraðila taka fram að búið sé að semja við aðra landeigendur. Varnaraðilar segja að samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar sé eignarréttur friðhelgur og gildi þar einu hvort um eignarrétt til hluta sérstakrar sameignar sé að ræða eða eignar að öllu leyti.  Þá sé ljóst að hluti eiganda að sérstakri sameign geti ekki skuldbundið aðra eigendur án þeirra samþykkis svo gilt sé.

Varnaraðilar segja sóknaraðila vísa til málsástæðna og raka sem komi fram í frumvarpi til laga um heimildir til handa gerðarbeiðanda til þess að reisa og reka 220 kV raflínu frá Kröflustöð að Þeistareykjavirkjun og að iðnaðarsvæðinu að Bakka í Norðurþingi. Frumvarpið hafi hinsvegar ekki orðið að lögum frá alþingi. Löggjafinn hafi hafnað því að grípa inn í eðlilegan framgangsmáta málsins. Fráleitt sé að heimila sóknaraðila umráðatöku með vísan til þessa enda sé þvert á móti ljóst að löggjafinn hafi ekki talið rétt að veita eignarnema umráðaheimild með sérstökum lögum. Þar að auki sé nú fallin sú ríkisstjórn sem lagt hafi frumvarpið fram.

Varnaraðilar segja það vera í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglu stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar að veita sóknaraðila umráð landsins. Vafi sé á réttmæti kröfu sóknaraðila, í skilningi 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, og verði því að hafna aðfararbeiðni hans.

Varnaraðilar segjast vísa til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísist eftir því sem við eigi til ákvæða laga nr. 90/1989 og laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. síðastnefndra laga sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.

Niðurstaða

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að sér verði með beinni aðfarargerð fengin umráð nánar greindra landsréttinda, á grundvelli 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms með skírskotun til ákvörðunar iðnaðar- og viðskiptaráðherra 14. október 2016, þar sem sóknaraðila var heimilað, með vísan til raforkulaga nr. 65/2003, að framkvæma eignarnám vegna lagningar 220 kV háspennulínu, svonefndra Kröflulína 4 og 5, og heimildar matsnefndar eignarnámsbóta 3. nóvember 2016 til sóknaraðila til að taka umráðin í sínar vörzlur án þess að eignarnámsbætur hefðu verið ákveðnar.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 verða þau réttindi gerðarbeiðanda, sem hann tjáir sig eiga, að vera svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður eftir 83. gr. laganna. Þótt svo sé fyrir mælt í 60. gr. stjórnarskrárinnar, að enginn geti komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms, hafa varnaraðilar fært fyrir því rök, sem ekki verður hér augljóslega vísað á bug, að heimild sóknaraðila til eignarnáms þess, sem hér um ræðir, fái ekki staðizt að lögum og borið þann ágreining undir dómstóla, en héraðsdómi í máli aðila hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

Þegar á framanritað er horft og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 202-205/2016 þykir heimild sóknaraðila til eignarnáms ekki vafalaus. Vegna þess vafa sem samkvæmt framansögðu verður að teljast vera á þeim rétti, sem sóknaraðili tjáir sig eiga, verður honum ekki náð fram með beinni aðfarargerð. Kröfu sóknaraðila verður því hafnað og samkvæmt því verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum málskostnað svo sem í úrskurðarorði greinir en við ákvörðun hans var litið til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 91/1989.

Af hálfu sóknaraðila fór Þórður Bogason hrl. með málið en Magnús Óskarsson hrl. af hálfu varnaraðila.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu sóknaraðila, Landsnets hf., um að land undir 10.100 metra langt og að jafnaði 47 metra breitt háspennubelti vegna framkvæmdarinnar Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu, ásamt 35 möstrum auk samtals 10.100 metra langa og 6 metra breiða nýja vegslóða, verði með beinni aðfarargerð tekið úr vörzlum varnaraðila, Finns Sigfúsar Illugasonar og Kristínar Þ. Sverrisdóttur, og fengið sér, er hafnað.

Sóknaraðili greiði hvorum varnaraðila 372.000 krónur í málskostnað.