Print

Mál nr. 129/2017

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
X (Haukur Örn Birgisson hrl., Ómar Örn Bjarnþórsson hdl. 2. prófmál)
, (Margrét Gunnlaugsdóttir réttargæslumaður )
Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur
Reifun

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa með ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við A er hún var 16 ára. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til aðdraganda brotsins og þess að X var tæplega 17 ára er hann framdi það, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 70. gr. og 2. tölulið 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing X ákveðin fangelsi í tvö ár auk þess sem honum var gert að greiða A 900.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.  

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu verði staðfest.

Krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er meðal annars á því reist að ekki hafi verið tekin skýrsla fyrir héraðsdómi af öllum þeim, sem umgengust ákærða og brotaþola að kvöldi 11. mars 2016, þegar atvikið sem vísað er til í ákæru átti sér stað. Af hálfu ákærða, sem naut aðstoðar verjanda við meðferð málsins, var ekki gerð krafa um að aðrir en þeir, sem komu fyrir dóm, gæfu þar vitnaskýrslu, svo sem hann átti rétt til samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og d. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Að þessu gættu hefur ákærði ekki fært fram haldbær rök fyrir ómerkingarkröfu sinni.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, heimfærslu brots hans til refsiákvæðis, einkaréttarkröfu og sakarkostnað.

Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Við ákvörðun refsingar fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber samkvæmt a. lið 195. gr. laganna að virða það til þyngingar ef þolandi er barn yngra en 18 ára, en brotaþoli var 16 ára þegar ákærði braut gegn henni. Á það er hins vegar að líta að ákærði var tæplega 17 ára er hann framdi brotið, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 70. gr. og 2. tölulið 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo að vitað sé. Eins og fram kemur í úrskurði kærunefndar útlendingamála [...] 2017, sem lagður hefur verið fyrir Hæstarétt, kom ákærði hingað til lands frá Albaníu í byrjun janúar 2016 án þess að vera í fylgd forráðamanns og stóð því höllum fæti félagslega. Þá bar brotaþoli fyrir dómi að hún og ákærði hafi tvívegis haft samfarir með samþykki hennar fyrr um kvöldið áður en hann braut gegn henni á þann hátt sem í ákæru greinir. Að virtum þessum aðdraganda brotsins og því, sem áður greinir, er refsing ákærða ákveðin tveggja ára fangelsi, en vegna þess hver refsing er lögð við brotinu eru ekki efni til að binda hana skilorði.

Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða helming af áfrýjunarkostnaði málsins, þar á meðal málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, en hinn helmingurinn felldur á ríkissjóð.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Helmingur af áfrýjunarkostnaði málsins, sem er samtals 994.318 krónur, þar á meðal málsvarnarlaunum verjanda ákærða, Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Ákærði greiði hinn helming áfrýjunarkostnaðarins, 497.159 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2017

Mál þetta, sem dómtekið var 10. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 2. desember sl. á hendur X, fæddum [...] 1999, albönskum ríkisborgara, til dvalar að [...], Reykjavík, fyrir nauðgun, með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 11. mars 2016, í herbergi á gistiheimili að [...] í Reykjavík, beitt A, fæddri [...], ólögmætri nauðung til þess að hafa við hana samræði og önnur kynferðismök en ákærði nuddaði kynfæri hennar og lagðist síðan ofan á hana og hafði við hana samræði, þrátt fyrir að hún hefði sagt honum að hún vildi það ekki og beðið hann um að hætta.

                Er þetta talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Af hálfu B, fyrir hönd ólögráða dóttur hennar, A, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta, skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 11. mars 2016 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfu en með dráttarvöxtum, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, ellegar að skaðabætur verði lækkaðar.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt sunnudagsins 13. mars 2016 fékk lögregla þá nótt kl. 05.20 tilkynningu um að ung stúlka, brotaþoli í máli þessu, væri í annarlegu ástandi fyrir utan veitingastaðinn [...] í Reykjavík. Er lögregla hafi mætt á vettvang hafi hún hitt fyrir brotaþola og unga konu sem setið hafi hjá henni. Fram hafi komið hjá konunni að brotaþoli hefði grátið mikið og verið með miklar áhyggjur af því að móðir hennar yrði henni reið. Hafi brotaþola verið tjáð að sökum aldurs yrði að fara með hana á lögreglustöð til viðræðna svo unnt yrði að koma henni til síns heima. Fram kemur í skýrslunni að brotaþoli hafi grátið mikið í lögreglubifreiðinni og henni greinilega liðið illa. Í fyrstu hafi hún sagt að henni liði illa út af strák sem hún hafi ætlað að hitta niðri í bæ en hann hafi ekki komið. Stuttu síðar hafi brotaþoli hins vegar tjáð lögreglu að henni hafi verið nauðgað deginum áður og það væri ástæða þess að hún gréti. Hafi hún sagt að hún þekkti gerandann. Hún hafi hitt hann í strætó og síðan rætt við hann á fésbókinni. Þau hafi í framhaldi ákveðið að hittast. Þau hafi farið saman að farfuglaheimili í [...]. Þar hafi þau haft samræði í tvígang um kvöldið. Brotaþola hafi liðið illa á eftir og farið á salernið í húsinu. Er hún hafi komið í herbergið aftur hafi hún ætlað að klæða sig en drengurinn viljað hafa við hana samræði aftur. Brotaþoli hafi sagt nei. Drengurinn hafi hins vegar ekki stoppað og klárað sig af. Vinur brotaþola hafi síðan skutlað þeim í [...] þar sem drengurinn hafi farið úr bifreiðinni. Er drengurinn hafi verið farinn úr bifreiðinni hafi brotaþoli brotnað saman og sagt vini sínum hvað hefði gerst. Í skýrslu lögreglu kemur fram að í kjölfar þessa hafi verið farið með brotaþola á Neyðarmóttökuna. 

Á meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola 13. mars 2016. Í skýrslunni kemur meðal annars fram lýsing brotaþola á atvikum umrætt sinn. Fram kemur að brotaþoli hafi í tvígang haft samræði við ungan dreng og hafi það verið með hennar samþykki. Hún hafi síðan hún farið á klósettið og í framhaldi viljað fara heim en drengurinn þá aftur viljað hafa við hana samræði. Brotaþoli hafi endurtekið sagt nei en drengurinn hafi þvingað hana til að hafa við sig samræði um leggöng. Hafi hann haldið henni niðri. Í skýrslunni kemur fram að brotaþoli hafi verið skýr í frásögn sinni.

Í skýrslu tæknideildar lögreglu, frá 22. apríl 2016, kemur fram að tekin hafi verið sýni úr nærbuxum er brotaþoli hafi afhent lögreglu, en þeim nærbuxum hafi brotaþoli klæðst að kvöldi föstudagsins 11. mars 2016. Samkvæmt skýrslunni reyndist sýni úr klofbót nærbuxna gefa jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófi sem sæði. Sýni var tekið úr brotaþola, 2. maí 2016, til DNA-rannsóknar og samanburðarsýni úr ákærða var sent sama dag. Sýnin voru send til Svíþjóðar í rannsókn. Niðurstaða úr DNA-rannsókninni barst 22. ágúst 2016 og sýndi að sáðfrumur í nærbuxum brotaþola væru úr ákærða.

Brotaþoli heimilaði lögreglu aðgang að fésbók sinni. Á meðal rannsóknargagna málsins eru samskipti á milli ákærða og brotaþola á tímabilinu 31. janúar 2016 til 13. mars 2016. Þá voru lögð fram, undir aðalmeðferð málsins, gögn um SMS-samskipti á milli ákærða og brotaþola á tímabilinu 3. febrúar 2016 til 22. mars 2016.

Fimmtudaginn 6. apríl 2016 mætti brotaþoli á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Lýsti brotaþoli því að hún hafi komist í kynni við ákærða er hann hafi snúið sér til hennar í strætisvagni til að spyrjast fyrir um leiðir. Þau hafi skipst á símanúmerum og í framhaldi farið að tala saman á fésbókinni. Þau hafi nokkru síðar mælt sér mót og farið saman á gistiheimili, nærri [...]. Undir rannsókn málsins kom síðar í ljós að um var að ræða gistiheimili að [...] í Reykjavík. Í herbergi á gistiheimilinu hafi brotaþoli og ákærði í tvígang haft samræði. Brotaþoli hafi farið á snyrtinguna og er hún hafi komið til baka hafi ákærði í þriðja sinn viljað hafa samræði við hana. Það hafi brotaþoli ekki viljað og gert ákærða grein fyrir því. Þrátt fyrir það hafi ákærði nuddað kynfæri hennar og þvingað hana til samræðis. Brotaþoli hafi í framhaldi haft samband við vin sinn sem hafi ekið henni og ákærða til [...], þar sem ákærði hafi yfirgefið bifreiðina. Um leið hafi brotaþoli brotnað saman og gert vini sínum og öðrum dreng, sem hafi verið honum samferða, grein fyrir því sem komið hefði fyrir.    

Við aðalmeðferðina gáfu ákærði og brotaþoli skýrslu fyrir dóminum. Þá komu fyrir dóminn vitni. Verður nú gerð grein fyrir framburðum fyrir dóminum. Að því er ákærða varðar verður einnig að hluta til gerð grein fyrir framburðum hans hjá lögreglu, þar sem misræmi er í framburðum hans undir rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi. 

                Ákærði gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu mánudaginn 4. apríl 2016. Við það tækifæri var ákærði spurður að því hvort hann þekkti brotaþola. Ákærði kvaðst ekki þekkja brotaþola eða vita hver hún væri. Kannaðist hann ekki við að hafa verið í samskiptum við hana á fésbókinni eða að hafa hitt hana í strætó, svo sem brotaþoli héldi fram. Þá kvaðst ákærði ekki eiga neina vini á farfuglaheimili í [...]. Hver sem væri hafi getað notað nafn og aðgang ákærða, meðal annars á fésbókinni. Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu miðvikudaginn 11. maí 2016, en þá hafði ákærði sjálfur óskað eftir því að gefa skýrslu. Ákærði kvaðst þá vilja breyta fyrri framburði sínum að því er varðaði það hvort hann þekkti brotaþola. Hann hafi í fyrri skýrslu verið hræddur og liðið eins og hann væri einn. Hann væri einn í nýju landi og þekkti ekki hvernig hlutirnir gengju fyrir sig. Hann hafi hitt brotaþola í strætó. Síðar hafi hann farið að ræða við hana á fésbókinni og þau hist í [...]. Þar hafi þau rætt saman um venjulega hluti en eftir það hafi hann ekkert hitt brotaþola. Hann hafi ekki farið með henni til Reykjavíkur, svo sem brotaþoli héldi fram. Er borin voru undir ákærða ýmis samskipti á fésbókarsíðu brotaþola hafi hann kannast við sum þeirra en önnur er virðist koma frá fésbókarsíðu ákærða hafi hann ekki skrifað sjálfur. Ákærði var næst yfirheyrður af lögreglu þriðjudaginn 20. september 2016. Við það tækifæri var ákærða gerð grein fyrir því að lífssýni úr honum hefðu fundist í nærbuxum brotaþola samkvæmt DNA-greiningu er fram hefði farið. Kvaðst ákærði þá kannast við að hafa farið með brotaþola í strætisvagni frá [...] að [...] í Reykjavík. Hafi ákærði keypt áfengi en brotaþoli marihuana sem þau hafi reykt. Hafi ekkert gerst á milli ákærða og brotaþola sem skýrt gæti niðurstöður úr DNA-rannsókninni.

                Fyrir dómi greindi ákærði frá því að hann hafi fyrst hitt brotaþola í strætisvagni. Í framhaldi af því hafi þau haft samskipti á fésbókarsíðum sínum. Þau hafi ákveðið að hittast og hafi það verið tveimur til þremur vikum síðar. Þau hafi tekið strætisvagn frá [...] að [...] í Reykjavík. Brotaþoli hafi keypt marihuana en ákærði áfengi. Þau hafi farið saman með strætisvagni að [...] í Reykjavík. Þau hafi reykt marihuana úti en drukkið bjórinn inni í húsi. Þau hafi haft samræði í herbergi í húsinu og hafi það verið með vilja þeirra beggja. Eftir það hafi brotaþoli klætt sig og farið niður stiga í húsinu en komið upp aftur. Þau hafi ætlað að hafa samræði aftur en ákærði hafi verið óvanur því að reykja marihuana og drekka áfengi á sama tíma og því átt erfitt með að fá getnaðarlim sinn til að vera stífan. Þetta hafi endað með því að brotaþoli hafi haft munnmök við ákærða og hann haft sáðlát. Í þessari atrennu hafi ákærði ekki þvingað brotaþola á neinn hátt. Hann hafi heldur ekki nuddað kynfæri hennar eða lagst ofan á hana svo sem honum væri gefið að sök. Þá hafi brotaþoli aldrei sagt honum að hætta. Ákærði hafi sagt að hann þyrfti að komast aftur til [...] og hafi brotaþoli sagt að hann skyldi ekki hafa áhyggjur því vinir hennar myndu aka þeim til [...]. Ákærði kvaðst ekki hafa hitt brotaþola eftir þetta fyrir utan það að næsta dag hafi hann séð til ferða hennar á veitingastaðnum [...] og sagt hæ. Brotaþoli hafi sent ákærða skilaboð um að tala ekki við sig og hann spurt um ástæðu þess en hún hafi ekki viljað ræða við ákærða. Um viku síðar hafi ákærði aftur rekist á brotaþola í matvöruverslun. Hafi brotaþoli verið með vinkonu sinni og verið grátandi.

                Ákærði var spurður um ástæðu þess að framburður hans tæki sífelldum breytingum og nú fyrst fyrir dómi viðurkenndi hann að hafa haft samræði við brotaþola. Ákærði kvaðst nýlega hafa verið fluttur til landsins og verið með hælisumsókn í gangi. Hann hafi engum treyst; ekki einu sinni lögreglu en af henni hafi hann haft slæma reynslu frá sínu heimalandi, Albaníu, þar sem mikil spilling hafi ríkt. Eins hafi ákærði óttast að honum yrði vísað úr landi, en ákærði hafi komið til landsins [...] janúar 2016, sem flóttamaður. Þá færi samneyti af þessum toga við stúlkur gegn trúarskoðunum ákærða, en hann væri kaþólskrar trúar. Það hafi einnig verið ástæða þess að hann hefði í upphafi synjað fyrir að hafa haft samræði við brotaþola. Ákærði kvaðst hafa átt öll þau samskipti á fésbókinni við brotaþola sem fram kæmu í rannsóknargögnum. Ákærði kvaðst ekki hafa verið góður í ensku við komu til landsins og hafi hann oft notað þýðingarforrit þegar hann hafi verið að senda brotaþola skilaboð á fésbókinni. Hann kvaðst til dæmis ekki hafa skilið þegar brotaþoli hefði sent honum þau skilaboð á ensku að hann hefði nauðgað henni. Enskukunnátta hans hafi verið það bágborin á þeim tíma og hann staðið í þeirri trú að brotaþoli væri að tala um að hún vildi ekki ræða við hann.   

                Brotaþoli hefur greint svo frá atvikum að hún hafi fyrst hitt ákærða í strætisvagni og hafi hann spurt hana um einhverja leið. Í framhaldi af þessum samskiptum hafi hún samþykkt ákærða inn á fésbókina sína. Einhverju síðar hafi þau ákveðið að hittast. Þau hafi mælt sér mót í [...] og tekið strætisvagn þaðan til Reykjavíkur. Ákærði hafi keypt fjóra bjóra og þau farið saman að gistiheimilinu í [...] í Reykjavík. Þau hefðu reykt marihuana, er ákærði hefði átt fyrir utan gististaðinn, og drukkið bjór. Brotaþoli kvaðst hafa notað fíkniefnið marihuana á þessum tíma. Þau hafi fengið lánað herbergi hjá vini ákærða og hefðu í tvígang, með vilja beggja, haft samræði í herberginu. Brotaþoli kvaðst hafa farið á salerni í húsinu eftir síðara skiptið. Hún hafi sveipað um sig sæng úr rúminu og með hana eina utan um sig farið út úr herberginu og á salernið sem hafi verið á sömu hæð. Er hún hafi komið til baka hafi hún ætlað að klæða sig. Ákærði hafi viljað meira og komið í veg fyrir það. Hafi hann meðal annars nuddað kynfæri hennar. Brotaþoli kvaðst hafa sagt ákærða að hún vildi ekki meira; bæði sagt ítrekað nei og stopp. Þrátt fyrir það hafi ákærði haft samfarir við hana um leggöng. Hún hafi aðeins ýtt við ákærða en hins vegar ekki vitað hvað hún ætti að gera. Ákærði hafi lokið sér af.

                Brotaþoli og ákærði hefðu ekki átt mikil samskipti eftir síðasta skiptið. Hún hafi reynt að láta eins og allt væri í lagi og þau bæði klætt sig. Brotaþoli hafi haft samband við vin sinn í gegnum fésbókina og beðið hann um að skutla sér og ákærða til [...]. Vinur brotaþola hafi verið með vin sinn með sér í bílnum. Á leiðinni hafi brotaþoli ekkert rætt við ákærða en lítillega við vin sinn og félaga hans. Í [...] hafi ákærði farið úr bifreiðinni og nánast í beinu framhaldi hafi brotaþoli brotnað saman og farið að gráta. Hún hafi sagt drengjunum hvernig ákærði hefði brotið gegn sér. Hún hafi grátið mikið og þau hafi ekki vitað hvað ætti að gera og verið í bifreiðinni í talsverðan tíma. Að endingu hafi drengirnir skutlað henni heim til vinar hennar sem búið hafi í [...]. Hún hafi einnig sagt þeim vini sínum hvernig ákærði hefði brotið gegn sér.

                Næsta dag hafi brotaþoli verið á veitingastaðnum [...] og séð ákærða og farið á salernið og grátið. Um kvöldið hafi brotaþoli farið í miðbæ Reykjavíkur. Um nóttina hafi hún átt erfitt með að komast úr miðbænum, en vinur hennar sem hún hafi ætlað að hitta hefði ekki komið. Hún hafi sest niður og farið að gráta vegna þess. Ung kona hafi komið til hennar og reynt að hugga hana. Konan hafi hringt á lögreglu, sem komið hafi stuttu síðar. Brotaþoli kvaðst hafa greint lögreglu frá því sem fyrir hefði komið, föstudagskvöldið 11. mars, og hvernig ákærði hefði brotið kynferðislega gegn henni. Lögregla hafi í framhaldi farið með brotaþola á Neyðarmóttökuna. Brotaþoli kvað sér hafa liðið illa eftir kynferðisbrotið og brotnað niður eftirá. Hún hafi á ákveðnum tímapunkti tekið ákvörðun um að hugsa ekki meira um þetta og hætta að láta það hafa áhrif á sig. Brotaþoli kvaðst ekki hafa verið mjög ölvuð föstudagskvöldið og myndi mjög vel eftir því er ákærði hefði brotið gegn sér. 

                Vinur brotaþola, sem sótti brotaþola að [...], kvaðst hafa fengið skilaboð frá brotaþola í gegnum fésbókina um að sækja hana að [...] að kvöldi föstudagsins 11. mars 2016. Hann hafi farið þangað og sótt hana og dreng sem hafi verið henni samferða. Þau hafi farið til [...]. Brotaþoli hafi verið óróleg á leiðinni. Þegar drengurinn hafi farið úr bifreiðinni hafi brotaþoli brostið í grát og sagt að drengurinn hefði nauðgað sér. Hún hafi sagt að hún hefði sagt nei við drenginn en þrátt fyrir það hefði hann haft við hana samræði. Hafi vinurinn og félagi hans, sem einnig hafi verið í bifreiðinni, reynt að hugga hana. Brotaþoli hafi verið óviss í fyrstu um hvað gera skyldi og þau því ekið aðeins um. Að endingu hafi hún viljað fara heim til vinar síns sem búið hafi í [...].   

                Fyrir dóminn kom vitni sem var samferða brotaþola í bifreiðinni frá [...] til [...] að kvöldi föstudagsins 11. mars 2016. Vitnið hafi ekki þekkt brotaþola og ekki hafi það tekið eftir neinu sérkennilegu í bílferðinni til [...]. Er þangað hafi verið komið og drengurinn sem verið hafi með brotaþola yfirgefið bifreiðina, hafi brotaþoli sagt að drengurinn hefði nauðgað sér. Hafi brotaþoli grátið í bifreiðinni er hún hafi sagt frá. Hún hafi sagt að þau hefðu sofið saman. Síðan hefði hún ekki viljað meir en drengurinn haldið áfram. Hún hefði þá frosið. Hún hafi virst vera í áfalli og þeir drengirnir ekki vitað hvert ætti að fara með hana. Að endingu hafi þeir ekið henni til vinar hennar í [...]. Þeir hafi rætt við drenginn er hafi verið brotaþola samferða í bifreiðinni. Hafi kunnátta drengsins í ensku verið fín og hann ekki átt erfitt með að skilja ensku.

                Fyrir dóminn kom vinur brotaþola, er brotaþoli leitaði til að kvöldi föstudagsins 11. mars 2016. Kvaðst vitnið hafa verið í sama skóla og brotaþoli og þau kynnst þannig. Brotaþoli hafi greint frá atvikinu og sagt að drengur hafi nauðgað sér. Hafi drengurinn verið vinur brotaþola en hún á einhverjum tíma sagt honum að hætta en hann ekki gert það. Brotaþoli hafi grátið í fyrstu en líðan hennar orðið skárri er frá leið. Kvaðst vitnið hafa tekið eftir því að málið allt hefði haft áhrif á brotaþola.

                Sálfræðingur, er brotaþoli leitaði til, kvaðst hafa verið með brotaþola í viðtölum á vegum barnaverndar áður en þetta mál hafi komið upp. Brotaþoli og sálfræðingurinn hafi rætt þetta tiltekna mál og hvernig það hafi komið til og hún lýst því að hún hefði frosið í aðstæðunum. Ákveðnir þættir í fari brotaþola hafi bent til áfallaeinkenna; hegðun brotaþola hafi breyst við þetta mál og áhættuhegðun gert vart við sig, hún hafi hætt að mæta í tíma í skólanum og verið meira útivið. Brotaþoli hafi ekki endilega viljað tengja breytta hegðun við þetta brot, en sálfræðingurinn eigi að síður haft áhyggjur af henni. Brotaþoli hafi viljað útiloka ákveðna hluti og fara þetta meira á hnefunum, eins og það væri orðað.

                Móðir brotaþola greindi frá því að hringt hefði verið í sig frá Neyðarmóttökunni þegar brotaþoli hefði farið þangað í skoðun. Hafi móðirin ekki fyrr en þá frétt af því að ákærði hefði brotið gegn dóttur hennar. Brotaþoli hafi lítið viljað ræða þetta mál við móður sína og tekið ákvörðun um að láta þetta atvik ekki skemma of mikið fyrir sér þar sem ekki væri unnt að breyta orðnum hlut.

                Fósturfaðir ákærða kvaðst hafa kynnst ákærða í janúar 2016 eftir komu ákærða til landsins. Hafi kunnátta ákærða í ensku þá verið lítil. Hún hafi hins vegar batnað eftir því sem á leið. Fósturfaðirinn kvaðst fyrst hafa frétt af þessu máli í nóvember 2016 er hann og kona hans hafi tekið ákærða inn á heimili sitt. Hafi þeim þá verið sagt frá málinu. Líf ákærða hafi einkennst af óvissu. Hann hafi sagt þeim hjónum frá uppvexti sínum í Albaníu og lýst miklu ofbeldi þar sem blóðhefnd hafi verið algeng. Ákærði hafi sýnt þeim bæði skot- og stungusár á líkama sínum. Fram hafi komið að ákærði treysti ekki yfirvöldum og málið allt hafi fengið mikið á hann.

                Ráðgjafi hjá Barnavernd kvaðst hafa orðið tilsjónarmaður með ákærða við komu hans til landsins í janúar 2016. Fram hafi komið í samtölum við ákærða að hann óttaðist um líf sitt í Albaníu. Hann hafi óttast lögregluna og spillingu innan kerfisins úti. Eftir fyrstu skýrslutöku í málinu hjá lögreglu hér hafi komið fram hjá honum að hann hefði ekki sagt lögreglu alla söguna. Hafi hann greint ráðgjafanum frá því.

                Læknir á Neyðarmóttöku staðfesti skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola. Kvað læknirinn brotaþola hafa verið skýra í frásögn sinni af atvikum. Tekið hafi á brotaþola að lýsa því sem gerst hafi.

                Lögreglumenn er unnu að rannsókn málsins staðfestu sinn þátt í rannsókninni. Fram kom í framburði lögreglumanns er afskipti hafði af brotaþola í miðbæ Reykjavíkur að brotaþoli hafi verið mjög skýr í frásögn sinni og vel getað sagt frá atvikum umrætt sinn. Þá lýsti sérfræðingur hjá lögreglu framvindu DNA-rannsóknar í málinu og niðurstöðum hennar sem hafi staðfest sýni úr ákærða í nærfatnaði brotaþola.

Niðurstaða:

Ákærða er gefin að sök nauðgun með því að hafa að kvöldi föstudagsins 11. mars 2016, í herbergi á gistiheimili að [...] í Reykjavík, beitt brotaþola ólögmætri nauðung til þess að hafa við hana samræði og önnur kynferðismök en í ákæru er miðað við að ákærði hafi nuddað kynfæri brotaþola og lagst ofan á hana og haft við hana samræði, þrátt fyrir að brotaþoli hefði sagt ákærða að hún vildi það ekki og beðið hann um að hætta. Er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði neitar sök. Við mat á sök er fyrst og fremst til trúverðugleika framburða ákærða og brotaþola að líta, auk þess sem framburðir vitna geta stutt framburði hvors fyrir sig. Að því er ákærða varðar hefur framburður hans verið mjög á reiki undir rannsókn og meðförum málsins. Við fyrstu yfirheyrslu lögreglu vildi ákærði á engan hátt kannast við að þekkja brotaþola eða að hafa hitt hana. Kvaðst hann ekki kannast við að hafa átt í samskiptum við hana á fésbókinni, þrátt fyrir að honum væri sýnd samskipti á milli brotaþola og ákærða. Við næstu yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærði kannast við brotaþola og að hafa hitt hana í [...]. Ekkert annað en það hefði gerst. Að þessu sinni kvaðst hann kannast við tiltekin samskipti við brotaþola á fésbókinni en önnur ekki. Við þriðju yfirheyrslu kvaðst ákærði kannast við að hafa hitt brotaþola í [...] og hafa verið henni samferða í strætisvagni til Reykjavíkur. Til frekari kynna hefði ekki komið og hélt ákærði við þann framburð sinn þrátt fyrir að honum hafi verið gerð grein fyrir því að DNA-snið úr honum hefði fundist í nærfatnaði brotaþola. Fyrir dómi breytti ákærði framburði sínum enn og kvaðst þá kannast við að hafa hitt brotaþola í [...], að hafa farið með henni að gistiheimilinu að [...]. Þar hafi hann í tvígang haft við hana samræði. Það hafi verið með vilja brotaþola. Ákærði hafi ekki getað haft samræði við brotaþola í þriðja sinnið þar sem honum hafi ekki risið hold. Hafi brotaþoli af þeirri ástæðu haft munnmök við ákærða. Fyrir dóminum kannaðist ákærði nú við öll fésbókarsamskiptin við brotaþola, auk þess að kannast við SMS-samskipti við brotaþola. Er borin voru undir ákærða skilaboð frá brotaþola til hans á fésbókarsíðunni þar sem brotaþoli bar á hann þær sakir á ensku að hann hefði nauðgað henni, kvaðst ákærði ekki hafa skilið hvað brotaþoli ætti við sökum lélegrar enskukunnáttu. Hann hafi talið að brotaþoli væri að segja að hún vildi ekki hafa samskipti við hann. Ákærði hefur skýrt breytta framburði  í málinu á þann hátt að hann hafi verið flóttamaður hér á landi og engum treyst. Honum hafi fundist hann ekki geta treyst lögreglunni og fundist hann einn. Mikil spilling væri í heimalandi hans og þar væri ekki hægt að treysta lögreglunni.

Að því er brotaþola varðar er til þess að líta að framburður hennar hefur verið stöðugur undir meðförum málsins. Þannig hefur hún ávallt borið á þann veg að hún hafi farið með ákærða að gistiheimilinu og í tvígang haft við hann samræði þar. Hafi hún farið fram á baðherbergi en er hún hafi komið til baka í herbergið aftur hafi ákærði viljað hafa við hana samræði í þriðja sinn. Hún hafi gert honum grein fyrir því að það vildi hún ekki og er ákærði hafi lagst ofan á hana hafi hún bæði sagt nei og stopp ítrekað. Hafi ákærði engu skeytt um það og haft við hana samræði um leggöng. Vitni sem brotaþoli hitti í kjölfar atburðarins hafa staðfest að þannig hafi frásögn hennar verið. Er þar um að ræða vin brotaþola er ók henni og ákærða frá gistiheimilinu og til [...]. Á sama veg hefur farþegi í þessari sömu bifreið borið. Annar vinur brotaþola, sem brotaþoli fór heim til þessa nótt, hefur borið á sama veg. Læknir á Neyðarmóttöku hefur skráð slíka frásögn brotaþola í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun. Þá var framburður brotaþola hjá lögreglu og fyrir dóminum á þennan veg. Að mati dómsins var brotaþoli einkar trúverðug í frásögn sinni.  

Að mati dómsins eru skýringar ákærða á breyttum framburði sínum ekki alls kostar trúverðugar. Þannig hefur hann breytt framburði sínum eftir því sem frekari sönnunargögn, sem tengt hafa hann við brotaþola, hafa komið til sögunnar. Getur slík breyting á framburði ekki skýrst af því að ákærði hafi ekki treyst lögreglu. Í fésbókarsamskiptum 13. mars 2016 spyr brotaþoli ákærða hvort hann viti ekki hvað hann hafi gert. Eftir nokkur tjáskipti segir brotaþoli við ákærða að hann hafi nauðgað henni. Þegar einstaklingur segi nei, ekki og stopp þýði það stopp. Í þessum samskiptum biðst ákærði fyrirgefningar. Ákærði hefur gefið þá skýringu á þessum samskiptum að hann hafi ekki skilið enska þýðingu á hugtakinu nauðgun. Það er ekki trúverðugt þar sem um líkt leyti sendi ákærði brotaþola SMS-skilaboð þar sem hann segir brotaþola hafa sagt lögreglu að hann hefði nauðgað sér.

Þegar framangreind atriði eru virt verður trúverðugur framburður brotaþola lagður til grundvallar niðurstöðu í málinu, andspænis ótrúverðugum framburði ákærða. Að auki styður framburður vitna það að ákærði hafi brotið gegn brotaþola. Hafa vitnin öll lýst því að brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi eftir samskiptin við ákærða og grátið mikið. Er að mati dómsins hafið yfir vafa að ákærði hafi nuddað kynfæri brotaþola og síðan lagst ofan á hana og haft við hana samræði, þrátt fyrir að brotaþoli hafi sagt að hún vildi þetta ekki og beðið hann um að hætta. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.    

                Ákærði er fæddur í [...] 1999. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Ákærði á sér engar málsbætur. Að virtri háttsemi ákærða, sbr. og 1., 7. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing hans ákveðin fangelsi í 3 ár.

                Fyrir hönd brotaþola er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta. Er vísað til þess að um alvarlegt brot hafi verið að ræða sem beinst hafi að 16 ára barni. Hafi brotið valdið brotaþola mikilli vanlíðan. Um lagarök er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993. Þrátt fyrir að ekki liggi sérfræðileg gögn frammi um miska brotaþola þykir dóminum þrátt fyrir það ljóst, og þá sérstaklega með hliðsjón af framburðum vitna og sálfræðings brotaþola, að brot ákærða hafi valdið brotaþola umtalsverðu miskatjóni. Verða skaðabætur ákveðnar að álitum og þykja þær hæfilega ákveðnar 900.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir. 

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem nánar greinir í dómsorði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari.

                                                                                  D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 ár.

                Ákærði greiði B, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar A, 900.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 11. mars 2016 til 1. júlí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði 2.378.732 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar héraðsdómslögmanns, 1.448.785 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillý Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 649.760 krónur.